Borgarráð - Fundur nr. 5668

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 30. júní, var haldinn 5668. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek, Skúli Þór Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Theodór Kjartansson, Þorsteinn Gunnarsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 27. júní 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs frá 27. júní 2022 á hækkun á frístundastyrk, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. júní 2022.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22060009

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastyrkurinn hefur það mikilvæga markmið að stuðla að virkri þátttöku allra barna í formlegu frístundastarfi. Tillagan felur í sér að frístundastyrkurinn hækkar um 50% fyrir hvert barn og verður 75 þúsund krónur á ári. Samhliða hækkuninni verður Íþróttabandalagi Reykjavíkur falið að gæta þess að hækkunin renni fyrst og fremst til foreldra og forráðamanna viðkomandi barna til að auka þátttökuna í frístundum og létta heimilum róðurinn á tímum vaxandi verðbólgu. Þess verði gætt að hækkunin leiði ekki sjálfkrafa til samsvarandi hækkunar á iðkendagjöldum íþróttafélaganna.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista óttast að þessi hækkun á frístundastyrk verði á endanum étin upp með hækkun gjaldskráa hjá félögum sem bjóða upp á frístundastarf. Með því er einfaldlega verið að hækka styrkinn til félaganna sjálfra en ekki barnanna. Best færi á því að borgin sjálf semdi beint við félögin og tryggði í slíkum samningum að ekkert barn þyrfti að borga fyrir sína frístund.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessari hækkun en nefnir enn og aftur að breyta þarf reglunum sem eru alltof stífar og ósveigjanlegar. Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt alltof stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera átta vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þó hækka eigi nú styrkinn um 25 þúsund þá er hann enn of lágur til að dekka dýrari námskeið og geta efnaminni foreldrar ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkur á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 27. júní 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs frá 27. júní 2022 á tillögu um tilraunaverkefni um miðnæturopnun í Laugardalslaug, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. júní 2022.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22060011

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt eins og tillagan um hækkun frístundastyrks og frítt í sund fyrir börn er tillagan um miðnæturopnun í sund í einni sundlaug hluti af fyrstu aðgerðum meirihlutans skv. meirihlutasáttmálanum. Þetta er skemmtileg hugmynd sem mun gera góða sundlaugamenningu borgarinnar enn litskrúðugri. Ákveðið hefur verið að miðnæturopnun verði í Laugardalslaug á fimmtudagskvöldum fram til áramóta til að byrja með og reynslan síðan metin. Fyrsta miðnæturopnunin verður 4. ágúst næstkomandi og nýtist því sundlaugargestum strax í sumar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 27. júní 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um að frítt verði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri frá og með 1. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. júní 2022.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22060010

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almenn þátttaka fjölskyldna í sundi er brýnt lýðheilsumál og það er stefna meirihlutans að stuðla að því að sem flestir nýti sér hinar frábæru sundlaugar í borginni. Með þessari tillögu tryggjum við að frítt verður í sund fyrir börn á grunnskólaaldri. Sömuleiðis verður boðið upp á endurgreiðslu á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt, jafnt 10 miða kortum og 6 eða 12 mánaða kortum fyrir börn. Breytingin tekur gildi 1. ágúst og kemur því fjölskyldum til góða í sumar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    16-18 ára börn eru hér skilin eftir og flokkuð frá öðrum börnum. Öll börn eiga að fá frítt í sund, og það myndi ekki kosta mikið aukafjármagn að kippa því í liðinn.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. júní 2022 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060209

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að unnið sé áfram í góðri sátt við nærumhverfi og hagaðila, þar með talið íbúaráð Vesturbæjar, en einnig Miðborgar og Hlíða. Ekki síst með tilliti til þess harmleiks sem átti sér stað á þessum stað. Það er gott að opnað sé á ferlið og boðið upp á að senda inn hugmyndir og athugasemdir á þessu frumstigi. Uppbygging á þessum lóðum ætti að samræmast götumynd, byggingahæð ætti að miðast við nærliggjandi hús og tryggja þarf að umhverfið sé manneskjuvænt, þar sé gaman að ferðast fótgangandi og græn svæði séu fyrir hendi til útivistar og hreyfingar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er gríðarlega mikilvægt að farið verði eftir því að allir félagshópar hafi tækifæri til búsetu á reitnum, eins og kveðið er á um í aðalskipulaginu. Þeir hópar sem standa verr efnahagslega eru að þjást að óþörfu á núverandi húsnæðismarkaði. Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikilvægt að passa upp á að þessir hópar fái húsnæði. Þetta verður að passa upp á í deiliskipulaginu. Margar leiðir hafa verið farnar í borgum í kringum okkur sem sjá til þess að svo sé. Miðað við gefna reynslu óttumst við að byggt verði að mestu fyrir þá tekjuhærri eða þá sem eru að safna íbúðum til þess að leigja út. Við ítrekum mikilvægi þess að passað verði upp á að einsleitnin á þessum reit verði ekki í þá áttina að einungis efnameira fólk geti búið á svæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vonar að uppbygging Bræðraborgarstígs 1, 3 og 5 gangi vel og verði unnin í góðu samráði við eigendur og umhverfi.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. júní 2022 á breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 1 við Fálkabakka, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060210

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. júní 2022 á nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22020101

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögurnar gera ráð fyrir stórbættri íþróttaaðstöðu fyrir KR og íbúana í hverfinu, þar með talið fyrir börn og ungmenni. Þær fela m.a. í sér að byggður verður nýr íþróttasalur, nýtt fjölnota íþróttahús auk stórbættrar áhorfendaaðstöðu. Þá er gert ráð fyrir 100 nýjum íbúðum auk atvinnuhúsnæðis á jarðhæð. Bílastæði eru í samræmi við bílastæðastefnu borgarinnar. Íbúðum fjölgar til muna í eftirsóttu og grónu hverfi og sömuleiðis opna áformin á eflingu á verslun og þjónustu á svæðinu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna löngu tímabærri uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir KR við Frostaskjól, en félagið hefur búið við einhverja verstu aðstöðu allra hverfisfélaga í Reykjavík. Fulltrúarnir harma þó að félagið þurfi að láta af hendi mögulegt framtíðarsvæði til íþróttauppbyggingar svo fjármagna megi fyrirhuguð mannvirki. Betur færi á því að félagið fengi samskonar stuðning til uppbyggingar aðstöðu og önnur hverfisfélög innan borgarinnar. Þá undirstrika fulltrúarnir mikilvægi þess að sjónarmiðum íbúa verði mætt, og að innviðir hverfisins verði efldir svo vel megi taka á móti nýjum íbúum sem óhjákvæmilega munu fylgja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flestir eru sammála um að þörf sé á uppbyggingu á svæðinu en áhyggjum hefur verið lýst af byggingarmagni sem er fyrirhugað, umferðarmálum, bílastæðamálum og hvernig svæðið er lokað af með byggingum. Einnig hæð húsa, sbr. íbúðarhúsið sem auglýst er við Kaplaskjólsveg/Flyðrugranda sem er sagt verða 3ja-4ra hæða en miðað við teikningar mætti skilja það svo að það verði á hæð við fjölbýlishúsin sem þegar standa við Kaplaskjólsveg og eru það fimm hæða hús. Áhyggjur eru af skuggavarpi á einstaka byggingar. Það verður í það minnsta að vinna þetta í sátt við umhverfið að mati Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfabakki 7, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060196

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfheimar 49, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060197

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Egilsgata 5, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060198

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Stekkjarbakki 4-6, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060200

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf formanns borgarráðs, dags. 24. júní 2022, þar sem lagt er fram til kynningar yfirlit innleiðingar húsnæðisáætlunar Reykjavíkur á fyrsta ársfjórðungi 2022, ásamt fylgiskjölum.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22020087

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ljóst að Reykjavík stendur illa miðað við margar aðrar borgir í Evrópu þegar kemur að húsnæðismálum. 32% af öllum lóðum í borginni er í eigu Reykjavíkur. Samt er það stefna borgarstjóra og þeirra sem stýra borginni að langstærstur hluti þeirra verði færður í hendur milliliða til uppbyggingar á húsnæði. Með því fylgir gríðarlegur aukakostnaður vegna þess álags sem byggingaraðilar leggja á hvern seldan fermetra. Hagkvæmast væri fyrir borgarbúa að fá húsnæði þar sem að keypt eða leigt væri á kostnaðarverði. Það væri tryggt með því að borgin sjálf byggði á eigin lóðum. Margar aðrar borgir í Evrópu hafa farið þessa leið. Í Helsinki rekur borgin sitt eigið byggingarfélag og á um 50.000 íbúðir til útleigu. Það jafngildir því að Reykjavík ætti um 9.700 íbúðir. Það er því sérstakt að borgaryfirvöld fagni sérstaklega yfir sínum „árangri“ þegar hann er enginn og bliknar í samanburði við þær borgir sem við viljum bera okkur saman við. Skýtur skökku við að það sé líka minnst á mikla uppbyggingu „húsnæðis án hagnaðar“ þegar þeir sem reka þessi úrræði taka sér út hagnað á leigu til þess að byggja meira. Þarna er vitlaust farið með hugtak og borgarbúar afvegaleiddir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Staðan í húsnæðismálum í Reykjavík er grafalvarleg. Verið er að byggja sannarlega en ekki nándar nærri nóg. Markmið hafa ekki náðst nema að hluta til. Einnig mætti skoða í ljósi aðstæðna að breyta samningsmarkmiðum borgarinnar þannig að uppbygging óhagnaðardrifins húsnæðis gangi hraðar. Biðlistar eru enn of langir þótt fækkað hafi eitthvað á þeim. Fólk sem vill fá lóðir og byggja sér hús fá það ekki. Ekki vantar rými. Þéttingarstefnan hefur virkað eins og tappi á heilbrigða húsnæðisuppbyggingarþróun í borginni. Þeir sem vilja byggja þótt innviðir séu ekki til taks eiga að fá að gera það. Það vantar almennt meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Í fjölmörgum skýrslum hefur verið staðfest að mikill húsnæðisskortur er í borginni, á hagkvæmu húsnæði sem og dýrari fasteignum. Vöntun er á alls konar húsnæði.

    Fylgigögn

  12. Lagður fram dómur Landsréttar nr. 745/2021. MSS22060202

  13. Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti varamanns í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Einnig er lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir verði formaður stjórnar sjóðsins.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060152

  14. Lagt er til að Magnea Gná Jóhannsdóttir taki sæti varamanns í stjórn SORPU bs.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060154

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að Reykjavíkurborg eigi hið minnsta tvo fulltrúa í stjórninni, enda sveitarfélagið það stærsta á höfuðborgarsvæðinu og ber sem slíkt mesta ábyrgð. Leggja fulltrúarnir áherslu á að stjórnarmönnum verði fjölgað að þessu leyti hið fyrsta.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins undirstrikar mikilvægi þess að sá sem kosinn er í stjórn SORPU og í aðrar stjórnir fyrirtækja sem tengjast borginni og byggðasamlög sem borgin á meirihluta í hafi eitthvað vit á málefnum og starfseminni sem fram fer í viðkomandi fyrirtæki/byggðasamlagi. Best væri og farsælast ef viðkomandi væri með menntun á sviðinu eða langvarandi reynslu. Síðustu ár hjá SORPU hafa verið erfið. Gerð voru röð mistaka bæði framkvæmda- og einnig rekstrarleg mistök sem kostað hafa borgarbúa tugi milljóna. Allt þarf að gera til að slíkt endurtaki sig ekki.

  15. Lagt er til að Hjálmar Sveinsson taki sæti varamanns í stjórn Strætó bs.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060153

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að Reykjavíkurborg eigi hið minnsta tvo fulltrúa í stjórninni, enda sveitarfélagið það stærsta á höfuðborgarsvæðinu og ber sem slíkt mesta ábyrgð. Leggja fulltrúarnir áherslu á að stjórnarmönnum verði fjölgað að þessu leyti hið fyrsta.

  16. Lagt er til að Unnur Þöll Benediktsdóttir taki sæti varamanns í samstarfsnefnd skíðasvæðanna.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060151

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að Reykjavíkurborg eigi hið minnsta tvo fulltrúa í stjórninni, enda sveitarfélagið það stærsta á höfuðborgarsvæðinu og ber sem slíkt mesta ábyrgð. Leggja fulltrúarnir áherslu á að stjórnarmönnum verði fjölgað að þessu leyti hið fyrsta.

  17. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. júní 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrræði fyrir fólk í ósamþykktu húsnæði, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022. MSS22030101

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram koma áhugaverðar upplýsingar í svari sem er að í skýrslu starfshóps á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ASÍ og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem vann að kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir formerkjum átaksins „Örugg búseta fyrir alla“ og var kynnt í apríl síðastliðnum. Þar kemur fram að 1.868 einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði og þar af eru nítján börn. Eins kemur fram og það sem áhyggjur eru af er að aðeins helmingur hópsins býr í húsnæði með ásættanlegum brunavörnum en þörf er á að skoða betur um fjórðung húsnæðisins til að yfirfara brunavarnir betur. Um 46% íbúanna búa í Reykjavík. Segir að Barnavernd Reykjavíkur hefur verið tilkynnt um þau mál þar sem börn búa og hefur fulltrúi barnaverndar verið í samskiptum við Slökkviliðið á höfuðborgarsæðinu. Fylgjast á með þróun þessara mála en er það ásættanlegt að aðeins verði fylgst með og jafnvel látið þar við sitja? Slys gera ekki boð á undan sér.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 28. júní 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ungbarnapláss og ungbarnaleikskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021. SFS22020076

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt skriflegu svari frá skóla- og frístundasviði sem barst á vordögum voru aðeins 9% þeirra barna sem fengið höfðu pláss á hinum nýju ungbarnadeildum borgarinnar, börn sem talist geta ungbörn. Helmingur barnanna var á þriðja aldursári. Voru hinar nýju ungbarnadeildir því augljóslega notaðar til að bregðast við biðlistavanda leikskólanna, enda börn að meðaltali ríflega tveggja ára við inngöngu á leikskóla, en ekki til að tryggja leikskólapláss í kjölfar fæðingarorlofs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins tók eftir því að aðeins um 9% þeirra barna sem fengið höfðu pláss á hinum nýju ungbarnadeildum borgarinnar teljast í raun „ung börn“ en um helmingur var mun eldri. Eru ungbarnadeildir ekki ungbarnadeildir heldur bara notaðar eftir hentugleika þ.m.t fyrir mun eldri börn?

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 23. júní 2022. MSS22010006

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 20. júní 2022. MSS22010008

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022.

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram málsmeðferðartillögu um að fresta tillögu verkfræðistofunnar EFLU f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga. Tillagan um frestun var felld af meirihlutanum. Náttúruvinir Reykjavíkur og Vinir Vatnsendahvarfs hafa ítrekað reynt að ná í oddvita Framsóknarflokksins, en án árangurs, til að ræða við hann um kosningaloforð flokksins að fengið verði nýtt umhverfismat. Mikilvægt er að oddvitinn og verðandi borgarstjóri kynni sér þetta mál í þaula, enda hér um framkvæmd að ræða sem mun umbylta dýrmætu landi og hafa áhrif á ekki aðeins nærliggjandi íbúa, heldur einnig gróður og dýraríki. Engin svör hafa fengist við ítrekuðum póstum. Nú kemur fram í nýjum samstarfssáttmála að til standi að „klára skipulag fyrir Arnarnesveg“ og vilja Náttúruvinir Reykjavíkur og Vinir Vatnsendahvarfs fá að vita hvað það felur í sér. Umhverfismat fyrir þessa framkvæmd er frá 2003, en vegna glufu í lögum um umhverfismat hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að ekki þurfi að gera nýtt umhverfismat því „byrjað hafi verið á veginum“ árið 2004.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 22. júní 2022. MSS22010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd, t.d. hjá öðrum sveitarfélögum, ríki og erlendis og þarf því varla að eyða miklum tíma í uppgötvunarfasa og prófanir, umfram það sem þarf til aðlögunartæknilausna og annarra nýjunga í lagaumhverfi á Íslandi. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull og mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. MSS22060027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilli vinnu og fjármagni hefur verið veitt í skipulagningu á uppbyggingu í Skerjafirði sl. ár. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að þetta er ótímabær vinna vegna óvissu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nú eru ekki aðeins komin skil í málið heldur afgerandi niðurstaða því innviðaráðuneytið telur með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir í Skerjafirði án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti sé búið að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta á áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og ekki hefja framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní. Ljóst er að síðasti meirihluti fór á undan sér í þessu máli þrátt fyrir ítrekuð varnarorð og tillögu um að fresta verkefninu.  Flokkur fólksins óttast að ef miklar tafir verða á framkvæmdum muni sú vinna sem lögð hefur verið í hönnun og skipulag hins nýja Skerjafjarðar ekki verða nothæf þegar grænt ljós kemur á framkvæmdir sem óvíst er hvenær verður. Því er velt upp hvað öll undirbúningsvinna við uppbyggingu nýrrar byggðar í Skerjafirði og innviða hefur kostað til þessa.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.

    MSS22060033

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að 13 af 16 umsóknum um rekstrarleyfi eða tækifærisleyfi fá neikvæða umsögn. Mikilvægt er að stofnanir á vegum borgarinnar sinni leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart atvinnurekendum í borginni og að hindrunum sé rutt úr vegi þeirra sem vilja sækja fram í Reykjavík.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga til samninga við heilbrigðisráðuneytið og Reiti um leigu á húsnæði fyrir almenna dagdvöl að Höfðabakka 9, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22060049

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista telur að hagstæðara væri fyrir borgina að festa kaup á húsnæði fyrir almenna dagdvöl í stað þess að leigja það af öðrum. Til skamms tíma kann að vera betra að leigja, en þegar kemur að hjúkrunarrýmum er ekki neitt sem bendir til þess að slíkt sé bara til skemmri tíma. Til lengri tíma mun kostnaðurinn við að leigja svona rými vera mun hærri heldur en að borgin festi kaup á húsnæði sem myndi nýtast fyrir hjúkrunarrými.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að fjármagn sem kveðið er á um í reglugerð nr. 1455/2021 og kemur í hlut Reykjavíkurborgar vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 verði skipt á milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22060083

    Fylgigögn

  27. Borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur starfar í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar og sér um að framfylgja lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lögum um matvæli nr. 93/1995 og öðrum þeim lögum og reglugerðum er um starfsemina gilda. Öllum sveitarfélögum í landinu er skylt að starfrækja sérstakt heilbrigðiseftirlit. Lagt er til að borgarlögmaður veiti álit á því hvort heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur beri leiðbeiningarskyldu sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gagnvart þeirri starfsemi og þeim aðilum sem það hefur eftirlit með, eða sem snerta starfssvið þess. MSS22060244

  28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir greinargerð um Klapp, rafrænt greiðslukerfi Strætó bs. þar sem eftirfarandi spurningum verði m.a. svarað: 1. Hvenær var Klapp-greiðslukerfið tekið í notkun? 2. Hafa byrjunarörðugleikar vegna greiðslukerfisins verið leystir? Ef ekki, hvenær er áætlað að þeir verði að baki? 3. Hefur tekist að innleiða þá upplýsingaþjónustu, sem farþegum stóð til boða í Strætó-appinu, með farsælum og fullnægjandi hætti í Klapp-kerfið? Til dæmis upplýsingar um strætisvagna á ferð og tilkynningar til farþega? 4. Af hverju var sú leið farin að fella eldri strætómiða úr gildi skömmu eftir að nýtt greiðslukerfi var tekið upp og jafnvel áður en byrjunarörðugleikar vegna þess voru að baki? Hvað mælir gegn því að gömlu strætómiðarnir, sem keyptir voru í góðri trú, gildi mun lengur til að lágmarka óþægindi farþega vegna breytinganna? Af hverju er t.d. ekki miðað við fjögur ár, sem er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda skv. lögum? 5. Ábendingar hafa borist um að þeir skannar, sem keyptir voru og settir í alla vagna vegna Klapp-greiðslukerfisins, séu hægvirkir. Stendur yfir vinna við endurbætur (uppfærslu) á þessum skönnum, er slík vinna fyrirhuguð eða verða keyptir nýir? Hefur kostnaður hlotist af endurbótum (uppfærslu) á umræddum skönnum og ef svo er, hver ber þann kostnað? 6. Eru áform uppi um að veita almennum greiðslukortum (debet- og kreditkortum) viðtöku í strætisvögnum í tengslum við umræddar breytingar? 7. Hversu margar athugasemdir frá farþegum hafa verið skráðar hjá Strætó bs. vegna innleiðingar Klapp-kerfisins og hver eru helstu umkvörtunarefni þeirra vegna breytinganna? 8. Byggist Klapp á viðurkenndum staðli/stöðlum í greiðslumiðlun og þá hverjum? 9. Á hvaða hugbúnaði byggist Klapp? Hvaða leið var farin við val og kaup á hugbúnaði? Er um að ræða hugbúnað, sem hefur að baki áralanga og farsæla reynslu í erlendum strætisvagnakerfum eða er um nýjan hugbúnað að ræða? 10. Af hvaða tegund eru skannar og annar tækjabúnaður Klappkerfisins? Hvaða leið var farin við val og kaup á tækjum? Er um að ræða tækjabúnað, sem hefur að baki áralanga og farsæla reynslu í erlendum strætisvagnakerfum eða er um nýja vöru að ræða? 11. Í júlí 2021 upplýsti framkvæmdastjóri Strætó að heildarfjárfesting vegna fyrsta áfanga rafræna greiðslukerfisins væri um 320 milljónir króna. Hver er áfallinn kostnaður nú vegna þessa fyrsta áfanga og hver verður endanlegur kostnaður við hann samkvæmt áætlunum? 12. Hver er áætlaður heildarkostnaður við rafræna greiðslukerfið? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um einstaka áfanga, fjárfestingar- og rekstrarkostnað. Jafnframt er óskað eftir afriti af kostnaðaráætlunum verkefnisins frá upphafi þess. MSS22060232

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela velferðarráði að endurskoða reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, í því skyni að hækka tekju- og eignamörk vegna húsnæðisstuðnings um að minnsta kosti 3% í samræmi við nýuppfærðar leiðbeiningar félags og vinnumarkaðsráðuneytisins. Jafnframt verði velferðarráði falið að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, með það að markmiði að hækka fjárhæðir samkvæmt þeim reglum um að minnsta kosti 3% til samræmis við nýlegar breytingar á lögum um almannatryggingar. Enn fremur verði velferðarráði falið að meta með hliðsjón af nýjustu upplýsingum og fylgjast áfram með því hvort hækka þurfi umræddar fjárhæðir enn meira. MSS22060233

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. 

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skilyrði fyrir veitingu styrks frístundakortsins til styrkþega verði breytt þannig að: 1. Í stað þess að hið skipulega starf verði að nái yfir átta vikur sé viðmiðið tvær vikur og getur styrkur þá einnig nýst fyrir sumarnámskeiðin. 2. Fjölga þarf möguleikum til að nýta styrkinn. Útvíkka mætti starfsemi sem telst styrkhæf og bæta við ýmsum námskeiðum s.s. teikninámskeiðum eða námskeiðum í sköpun og list. Slík námskeið þótt stutt séu ættu hiklaust að vera í hópi þeirra sem teljast styrkhæf starfsemi. MSS22060234

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að farið verði í sérstakt átak, maður á mann átak, til að bæta nýtingu frístundastyrksins í hverfi 111 og einnig í hverfi 116 en þar er nýting einnig lág eða 50% hjá strákum. Nýting styrksins í hverfi 111 er 59% en 97% í hverfi 103 samkvæmt síðustu tölum. Í hverfi 111 býr fátækasta fólkið í borginni og þar búa flestir innflytjendur. Bæði hverfi eru gömul og gróin hverfi. Flokkur fólksins leggur til að skólasamfélagið komi hér inn í samvinnu við skóla- og frístundasvið, ÍTR og foreldra. Misgóð nýting frístundastyrks eftir hverfum er gamalt vandamál sem ekki hefur verið tekið á. Einhverjar ástæður liggja hér að baki sem þarf að rannsaka, finna þarf rótina og leysa vandann en umfram allt setjast niður með hverju og einu barni og hvetja það til að finna tómstund við hæfi eða íþrótt til að stunda. Því fleiri möguleikar á vali og sveigjanleiki í tímalengd námskeiða því meiri líkur á að krakkar finni notagildi í styrknum. Eins og reglur eru núna eru krafan um átta vikna námskeið til að nota styrkinn íþyngjandi. Færa þarf viðmiðið niður í tvær vikur til að hægt sé að nota styrkinn á sumarnámskeið. Það eru ekki öll börn sem vilja eða geta bundið sig í átta vikna námskeið sem eru auk þess dýrari en styttri námskeið. Efnaminni foreldrar hafa ekki alltaf ráð á að greiða mismuninn. MSS22060235

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. 

Fundi slitið klukkan 10:50

Einar Þorsteinsson Skúli Helgason

Alexandra Briem Pawel Bartoszek

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_3006.pdf