Borgarráð - Fundur nr. 5665

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 25. maí, var haldinn 5665 fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir ásamt áheyrnarfulltrúanum Vigdísi Hauksdóttur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir og Líf Magneudóttir ásamt áheyrnarfulltrúunum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Kolbrúnu Baldursdóttur. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Þorsteinn Gunnarsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar, ásamt fylgiskjölum, sbr. 3. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 25. maí 2022.
  Frestað.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22010056

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. maí 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. maí 2022 á breytingu á deiliskipulagi fyrir Heklureit, lóðanna við Laugaveg 168-174a, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  - Kl. 10:15 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. MSS22050190

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er verið að samþykkja uppbyggingu á afar mikilvægum stað í borginni. Bílaumboðið Hekla mun flytja starfsemi sína af Laugavegi og víkja fyrir uppbyggingu íbúða og þjónustu. Í skipulaginu er hugað vel að göngu- og hjólatengingum en einnig almenningssamgöngum með sérstöku borgarlínutorgi.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Áhyggjur eru af skuggavarpi í inngörðum á Heklureit. Því er velt upp hvort birtan muni ekki uppfylla skilyrði nýsamþykkts aðalskipulags Reykjavíkurborgar. Gerðar hafa verið athugasemdir í auglýsingaferlinu um þetta vandamál. Þessu máli hefði átt að fresta þar sem meirihlutinn hefur takmörkuð völd nú á lokametrunum. Málið er stórt og því skynsamlegt að láta nýja borgarstjórn um framhaldið.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. maí 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí 2022 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis á Esjumelum á Kjalarnesi vegna Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050188

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. maí 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22020277

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. maí 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí 2022 á tillögu um að þrjár götur í 2. og 3. áfanga Ártúnshöfða fái heitin Eistlandsbryggja, Lettlandsbryggja og Litháenbryggja, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt með þeim breytingum að göturnar fái heitin Eistlandsbryggja, Lettlandsbryggja og Litháenbryggja í röð frá norðri til suðurs.
  Samþykkt. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050189

  Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í öllum höfuðborgum Eystrasaltsríkja eru torg eða götur kenndar við Ísland. Þann vináttuvott er nú rétt að endurgjalda. Það fer vel á því að Eistland, Lettland og Litháen fái götur á þessum mikilvæga stað í nýja Ártúnshöfðahverfinu.

  - Kl. 10:30 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Sóltún 2-4 , ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22020026

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. maí 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki samkomulagsdrög við lóðarhafa að lóðinni Borgartún 41, reit F á Kirkjusandi, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050173

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 23. maí 2022, þar sem erindisbréf starfshóps um alþjóðamál Reykjavíkurborgar er lagt fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS22040246

  Fylgigögn

 9. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 20. maí 2022, varðandi nýjan kjarasamning Sambands íslenskra sveitarfélaga við Félag leikskólakennara, ásamt fylgiskjölum. MOS22040007

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 23. maí 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. maí 2022 á þjónustusamningi við Knattspyrnufélagið Fram vegna reksturs mannvirkja borgarinnar, íþróttahúsa og valla í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22030007

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Nú liggur fyrir að flutningar Fram fari fram í ár og komi sér fyrir í einni glæsilegustu íþróttaaðstöðu á landinu í Úlfarsárdal. Samningurinn sem hér er verið að samþykkja fjallar m.a. um þá þjónustu sem Fram mun veita börnunum í hverfinu og með hvaða hætti mannvirkin þjónusti hverfið.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 23. maí 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. maí 2022 á viðhaldsstyrkjum til íþróttafélaga árið 2022 og næstu ár, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22030005

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 23. maí 2022, þar sem tillaga um borgarhátíðir Reykjavíkur 2023-2025 er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

  Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOF22030002

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um deilu Loftkastalans við Reykjavíkurborg, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl 2022. MSS22040101

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Gerð hafa verið mistök sem snerta einn aðila. Ljóst er að þessi mistök þarf að leiðrétta og ljúka málinu með sátt allra. Aðilar hafa kvartað sárlega yfir að gögnum hafi verið haldið frá þeim og reynt hafi verið að þagga málið í þrjú ár. Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi ekki útfært í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa miðað við hæð landslags á lóðum. Þetta er ákveðið og gert án vitundar og athugasemda- og ábendingarmöguleika almennings eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst. Búið er að framkvæma alla gatnagerð þarna á rangan hátt og með því mögulega brjóta á aðstandendum Loftkastalans með ýmsum hætti. Tilboð sem aðstandendur fengu á fundi 25. apríl þar sem boðið var lækkun á götu og seinkun á gjalddögum var slakt í ljósi þess sem á undan er gengið. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir og átti fund með innri endurskoðun og aðstandendum Loftkastalans 9. mai sl. og var því komið á framfæri að Reykjavíkurborg eigi að stíga næsta skref til sátta. Innri endurskoðandi lofaði að beita sér í málinu með það að markmiði að það verði leyst.

  Fylgigögn

 14. Lagðar fram fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 28. apríl og 5. maí 2022. MSS22010025

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Fram fer umræða um gjaldskyldu í bílastæðahúsum fyrir handhafa P-merktra bíla. Ekki segir neitt frekar um hvernig sú umræða var eða hvort einhverjar niðurstöður, mat eða álit liggi fyrir. Það er mat Flokks fólksins að gera þurfi breytingar á mörgu er snýr að bílastæðahúsum. Gera þarf þau bæði aðgengilegri og meira aðlaðandi. Sum bílastæðahús eru flókin, ruglingsleg og valda ákveðnum hópi kvíða sem leiðir til þess að hann forðast að nota þau. Þrengsl eru einnig mikil t.d. að aka upp á efri hæð þá er beygjan sjálf oft þröng og hefur fólk lent í að reka bílinn í. Til að laða að væri ráð að lækka gjaldskyldu, jafnvel fella hana niður á ákveðnum tímum og hafa tiltæka þjónustu til að leiðbeina og aðstoða.

  Fylgigögn

 15. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 17. maí 2022.
  Samþykkt. MSS22010010

  Fylgigögn

 16. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 28. apríl og 5. maí 2022. MSS22010006

  Fylgigögn

 17. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 2. maí 2022. MSS22010027

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Undir liðnum Umræða hverfisins vill fulltrúi Flokks fólksins að það komi fram að, að tillögu Eflu f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga var frestað að beiðni fulltrúa Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði 25. maí þar til ný borgarstjórn hefur tekið við störfum. Tengdu máli, breyting á deiliskipulagi í Elliðaárdal, var einnig frestað enda hefur sú tillaga ekkert vægi fyrr en lega Arnarnesvegar hefur verið ákveðin eða að fallið verði frá þeirri framkvæmd. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að nýr meirihluti taki vel í tillögu Flokks fólksins og Vina Vatnsendahvarfs sem lögð verður fram þegar ný borgarstjórn hefur tekið við. Lagt verður til að gert verði nýtt umhverfismat áður en hafist er handa við þessa miklu framkvæmd. Ekkert getur réttlætt að byggja lagningu fjárfrekrar vegagerðar á 20 ára gömlu umhverfismati. Einnig þarf að skoða af hverju ekki var athugað með að leggja veginn í stokk eða í göng þar sem hann liggur um dýrmætt grænt náttúru- og útivistarsvæði. Tillagan sem liggur fyrir, með ljósastýrðum gatnamótum við Breiðholtsbraut, mun þess utan valda verulegum töfum á umferð og skapa fleiri vandamál en vegurinn á að leysa. Endurskoða þarf þessa vegalagningu með umhverfið, heildarmyndina og komandi kynslóðir í huga. 

  Fylgigögn

 18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 16. maí 2022. MSS22010028

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

  Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils. Flokkur fólksins vonar að nýrri borgarstjórn beri gæfa til að byggja með hraði í Úlfarsárdal þar sem nægt er landrými. Þetta hverfi var kynnt upphaflega sem 14.000 manna hverfi en þar eru nú um 5000. Í Úlfarsárdal má byggja mun meira, þar eru líka lóðir sem búið er að deila út en ekki verið byggt á. Óbyggðar sérbýlislóðir eru sagðar vera um 30, lóðir sem boðnar voru út um árið 2006. Engir skilmálar virtust fylgja um hvenær skyldi lokið við að byggja. Úlfarsárdalurinn er enn ekki sjálfbær en það stendur vonandi til bóta.

  Fylgigögn

 19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 11. maí 2022. MSS22010029

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils. Allir þekkja hinn stóra vanda sem húsnæðismarkaðurinn glímir við. Alvarlegur skortur eru á húsnæði af öllum stærðum og gerðum. Spýta þarf verulega í lófana í þeim efnum á komandi misserum. Flokkur fólksins vonar að nýr meirihluti einhendi sér í það verk og byggi sem aldrei fyrr í hverfum þar sem innviðir eru til staðar og þola fjölgun íbúa. Í Grafarvogi eru einmitt innviðir sem geta tekið við fjölgun t.d. barna. Það eru all nokkrir skólar í Grafarvogi sem geta bætt við sig nemendum. Í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um skóla í hverfinu sem gætu bætt við nemendum er t.d. Foldaskóli sem gæti tekið við allt að 100-150 nemendum til viðbótar. Skóli sem gæti tekið við 50 nemendum til viðbótar er Rimaskóli og þeir sem gætu tekið við allt að 100 nemendum til viðbótar eru Húsaskóli, Hamraskóli, Engjaskóli og Víkurskóli.

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. maí 2022. MSS22010031

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 7. lið fundargerðarinnar:

  Liður 7: Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils. Flokkur fólksins vonar að nýrri sveitarstjórn beri gæfa til að hlusta á Kjalnesinga hvað varðar framtíðarskipulag frekari uppbyggingu hverfisins. Þar er hægt að byggja 700 til 800 hundruð íbúðir og við Grundarhverfi og á nærliggjandi jörð þ.e. Hofi á Kjalarnesi. Þarna eru skólamannvirki sem má nýta betur. Þarna er fullkomin fráveitustöð Veitna við Hofsvík. Bæta mætti verulega í þarna svo hægt sé að setja verslanir, gera hverfið sjálfbært. Liður 4: Fulltrúi Flokks fólksins vill einnig ýta við svörum úr mælingum þungmálma á skotsvæðum á Álfsnesi sem fara áttu fram á síðasta ári en hafa ekki verið birtar. Íbúasamtökin kalla eftir niðurstöðum mælinga og það gerir Flokkur fólksins líka.

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 9. maí 2022. MSS22010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðarinnar:

  Framtíðarskipulag skólamála í Laugarnesi er í mikilli óvissu bæði vegna endurbóta og hraðrar fjölgunar nemenda. Þegar litið er til Laugarnesskóla er áætluð framtíðarþörf Laugarnesskóla að sinna aðeins 593 nemendum. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi (sviðsmyndagreiningin) er gert ráð fyrir að í óbreyttri skólagerð verði nemendafjöldi Laugarnesskóla 683 nemendur árið 2030 og 686 nemendur árið 2040. Líklegt má telja að framtíðarþörf kunni að vera vanmetin. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 166 frá árinu 2008 og það stefnir að óbreyttu í að þeir verði 250 umfram þolmörk árið 2030. Flokkur fólksins telur að upplýsingagjöf til foreldra hefði mátt vera mun meiri. Lítið er að frétta af kostnaðargreiningu vegna hugmynda sem kynntar voru í skýrslu starfshópsins um skóla- og frístundastarf í Laugarnes- og Langholtshverfi. Tímalína fyrir lausnir liggur ekki fyrir. Ekki er heldur séð að búið sé að skilgreina heildarstefnu um skólamál í hverfinu. Bregðast þarf við bráðavanda vegna skorts á íþróttaaðstöðu Laugarnes- og Laugalækjarskóla og íþróttafélaganna í hverfinu.

  Fylgigögn

 22. Fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. apríl 2022 - framlagning MSS22010017

  Fylgigögn

 23. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 11. mars og 1. apríl 2022. MSS22010015

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fundargerðir Sorpu eru með þeim hætti að erfitt er að sjá hvernig stjórnun er háttað. Ekki er gerður greinarmunur á mikilvægi einstakra verkefna og ekki er að sjá að stóru málin svo sem metan- eða moltusala séu rædd. Fram hefur komið hjá stjórnarformanni að allt metan sé selt. Er það rétt?

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. apríl 2022. MSS22010019

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna fyrirhuguðu kynningarátaki um frítt í strætó fyrir börn til 17 ára aldurs. Æskilegt væri að tillagan yrði samþykkt til frambúðar.

  Fylgigögn

 25. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 5. maí 2022. MSS22010024

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

  Nú er þessu kjörtímabili lokið og telur fulltrúi Flokks fólksins að endurskoða þurfi á næsta kjörtímabili hlutverk og skipulag öldungaráðs. Komið hafa ábendingar um breytingar og er mikilvægt að hlusta á þær raddir. Til að fá fram sterkari tengingu við borgarstjórn er sú hugmynd uppi að formaður öldungaráðs sé sitjandi borgarfulltrúi. Þetta þyrfti að skoða með hagaðilum t.d. Félagi eldri borgara. Félag eldri borgara er langstærsta félagið innan Landssambands eldri borgara með um 14.000 félagsmenn og sinnir félagið umfangsmiklu starfi. Félag eldri borgara er eitt fárra félaga ef ekki eina félagið innan Landssambands eldri borgara sem nýtur ekki stuðnings frá sínu bæjarfélagi/Reykjavíkurborg. Í umræðu innan stjórnar Félags eldri borgara hefur verið rætt að það væri eðlilegt að Félag eldri borgara yrði sem ígildi átjándu félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar. Hugsunin er sú að Reykjavíkurborg myndi þá greiða Félagi eldri borgara álíka upphæð til reksturs eins og hún greiðir til hinna félagsmiðstöðvanna. Flokkur fólksins myndi styðja þetta heilshugar en þarna er unnið afar gott og mikilvægt starf.

  - Kl. 10:56 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum að nýju.

  Fylgigögn

 26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. MSS22050010

  Fylgigögn

 27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22050003

  Fylgigögn

 28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Borgarráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að fyrirhugað kynningarátak Strætó bs. sem tryggir endurgjaldslausar strætóferðir fyrir börn og ungmenni til 17 ára aldurs, í einn mánuð í kynningarskyni í sumar, verði samþykkt sem framtíðarfyrirkomulag.

  Frestað. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2505.pdf