Borgarráð - Fundur nr. 5664

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 5. maí, var haldinn 5664. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:12. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Jórunn Pála Jónasdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. maí 2022:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.910 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 0,95%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.821 m.kr. að markaðsvirði en hafna öllum tilboðum í grænan verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 4. maí 2022

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010057

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er rosalegt að borgin skuli vera rekin á lánum þegar ytri aðstæður eru að versna hratt vegna heimsástandsins. Á árabilinu 2022-2026 er áætlað að taka 92 milljarða að láni. Verðbólga vex hratt og hefur það gríðarleg áhrif á vaxtagreiðslur af verðtryggðum lánum Reykjavíkur til framtíðar. Nú stefnir í enn frekara óefni í rekstri borgarinnar og ljóst að áætlanir um að skuldir borgarsjóðs verði 240 milljarðar í árslok 2026 eru brostnar. Þær verða langtum, langtum hærri. Enda er nú boðað að fara eigi í endurskoðun á fjárfestingaáætlun Reykjavíkur. Ekki var hægt að svara á fundinum hvað skuldir borgarinnar hefðu hækkað mikið frá því fjárfestingaráætlun 2022-2026 var samþykkt vegna hækkunar vaxta undanfarna mánuði en það boðað að væri verið að tína til upplýsingar um það.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Enn aukast skuldir borgarinnar, en með þessu skuldabréfaútboði hækka langtímaskuldir borgarsjóðs um tvo milljarða, en á síðasta ári hækkuðu skuldir borgarinnar um tvo milljarða á mánuði. Aukin verðbólga kallar á að borgin endurskoði áætlanir sínar enda er fyrirséð að fjárfestingaráætlun borgarinnar er í uppnámi vegna hærra aðfangaverðs. „Græna planið“ gerir ráð fyrir tugmilljarða fjárfestingum en ætla má að forsendur plansins séu nú í uppnámi vegna aukinnar verðbólgu.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags um samning um stofnframlög til þriggja ára.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er Bjarg að skila stofnframlagi í Skerjafirði vegna tafa, enda hefur verkefnið steiytt á mörgum skerjum. Rétt er að benda á að uppbygging í „Nýja Skerjafirði“ er í algeru uppnámi. Isavia og innviðaráðherra telja að nýtt íbúðahverfi í Skerjafirði skerði rekstraröryggi flugvallarins eins og það er skipulagt. Hér er því um stórt mál að ræða bæði hvað varðar rekstur flugvallarins og íbúðauppbyggingu sem þarfnast viðbragða af hálfu Reykjavíkurborgar. Það þarf því að gera fyrirvara um öll frekari vilyrði og endanlegar úthlutanir í „Nýja Skerjafirði“ á meðan þessi skipulagsmál eru í óvissu og uppnámi.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags hses. um stofnframlag vegna nýbyggingaverkefni við Brekknaáss.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags hses. um stofnframlag vegna nýbyggingaverkefnis við Haukahlíð.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  8. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingu stofnframlaga, dags. 27. apríl 2022, vegna umsóknar Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, um stofnframlag.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020002

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 5. apríl 2022, sbr. samþykkt stjórnar lífeyrissjóðsins frá 4. apríl 2022 á tillögu að breytingu á endurgreiðsluhlutfalli laungreiðenda á greiddum lífeyri í Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. apríl 2022.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22040049

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á auglýsingu á tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir stúdentagarða að Eggertsgötu, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050015

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Bent er á að hlutfall bílastæða er 0,7 á hverja íbúð sem er í lægri kantinum þegar horft er til þess að borgin stefnir að því að fækka bílastæðum um 600 á ári í borgarlandinu.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á trúnaðarmerktri tillögu að úthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði árið 2022, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Trúnaður er um efni tillögunnar þar til afhending styrkjanna fer fram.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22010064

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Prestshús að Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050016

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Grafarlæk-Stekkjarmóa - Djúpadal, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS21120015

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Búið er að skemma flesta Rauðhóla. Heilu hólunum var mokað í burtu á sínum tíma, grafið í aðra og þeir skemmdir og nú stendur eftir alls konar form af „hólum“, allir skemmdir af mannanna völdum. Skemmdir vegna efnistöku eru skerandi og ættu að minna alla á að ganga vel um náttúruna. Helsta markmiðið ætti að vera núna að þeim hólum sem ekki hefur þegar verið spillt verði algjörlega látnir óáreittir. Þess vegna er gott að beina fólki ekki akkúrat að þeim hólum.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 2 við Starmýri, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22010061

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokks að gæta verði hófs í þéttingu í grónum hverfum og hafa gott samráð við íbúa. Hér er lagt til að gera breytingu á deiliskipulagi sem myndi veita heimild til þess að bæta við fjórðu hæð ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Í fylgiskjölum með tillögunni kemur fram að byggingu hússins sjálfs eftir upphaflegum teikningum hafi verið mótmælt af flestum íbúum í götunni fyrir tveimur árum. Nú er enn bætt við byggingamagni. Athugasemdirnar sýna jafnframt að það er upplifun einhverra íbúa í nærliggjandi íbúðum að standa hefði mátt betur að samráði vegna breytingatillögunnar sem er hér afgreidd og að þau hafi áhyggjur af atriðum eins og skuggavarpi og bílastæðamálum. Íbúar fengu ekki send bréf um tillöguna að deiliskipulagsbreytingunni heldur húsfélög.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt til að gera breytingu á deiliskipulagi sem myndi veita heimild til þess að bæta við fjórðu hæð ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Upphaflegum teikningum var mótmælt og nú á enn að bæta við byggingarmagni. Þessu hefur verið harðlega mótmælt og vill fulltrúi Flokks fólksins að hlustað sé á íbúa. Athugasemdir lúta m.a. að skorti á samráði. Áhyggjur eru af skuggavarpi og bílastæðamálum.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. maí, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna stígagerðar og gerð útsýnisstaðar við Eiðisgranda og Ánanaust, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 150 m.kr.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ólafur Ólafsson og Ósk Soffía Valtýsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22040038

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér eru stigin jákvæð skref í að bæta aðgengi að vesturströndinni í Reykjavík sem hefur verið mjög torfærin og lokuð. Rétt væri að skoða næstu skref þannig að hægt verði að njóta sjávarins, útsýnisins og skjóls með því að fara niður fyrir sjóvarnargarðinn með skipulegum og öruggari hætti en nú er hægt.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna nýrrar selalaugar og þjónustuhúss ásamt lóðarfrágangi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 125 m.kr.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ólafur Ólafsson og Ósk Soffía Valtýsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22010077

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða mjög mikilvægar breytingar á aðstöðu fyrir seli, en einnig fyrir slösuð dýr, en með þessum breytingum verður Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn að athvarfi til skemmri tíma fyrir dýr sem eru meidd eða illa haldin. Það er tímaskekkja í dag að halda villt dýr til sýningar, en þegar aðstæður eru þannig að ekki er hægt að sleppa dýrunum, þá er mikilvægt að búa þeim lífvænlegt umhverfi og stækkun og dýpkun laugarinnar er mjög mikilvægur þáttur í því.

    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að tryggja góðan aðbúnað dýra í Húsdýragarðinum. Betur færi þó á því að garðurinn héldi eingöngu húsdýr sem unnt er að bjóða lífvænleg skilyrði. Villt dýr þrífast best í villtri náttúru. Áfram mætti þó vinna að verkefninu „Villt dýr í hremmingum“ sem unnið er í samstarfi við Náttúrufræðistofnun og miðar að því að koma villtum dýrum sem lent hafa í hremmingum til heilsu á ný, að því gefnu að þeim sé í kjölfarið sleppt aftur til sinna heimkynna. Það er svo umhugsunarvert hvort sveitarfélag eigi að standa að rekstri fjölskyldu- og húsdýragarðs og eðlilegt að skoða hvort réttast væri að bjóða reksturinn út.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði vegna uppbyggingar á umhverfisvænu húsnæði á lóð að Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040238

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna lóðarinnar Eirhöfða 11, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030127

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Suðurlandsbraut/Ármúla 31, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040243

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að gerður verði makaskiptasamningur við SORPU bs. þar sem Reykjavíkurborg framselur lóðarleiguréttindi að lóðinni Lambhagavegi 13 en fær í staðinn lóðina Sævarhöfða 21, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040115

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Suðurfell 4 í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050031

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér ganga bensínstöðvar kaupum og sölum enda felast mikil verðmæti í þeim ef þeim er breytt í íbúðareiti. Fram hefur komið í fréttum að huga þarf að vernd sumra bensínstöðvanna. Mikilvægt er að gæta þess að þessi viðskipti séu gagnsæ og hafin yfir allan vafa.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Berjaya Land Berhad um gerð skipulags fyrir Kýrhólaflóa þar sem félagið hyggst reisa fimm stjörnu hótel með heilsulind, baðlóni og tengdri starfsemi.

    Greinargerð fylgir tillögunni

    Samþykkt. MSS22050019

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, þar sem lögð er fram til kynningar ársfjórðungsskýrsla græna plansins fyrir október til desember 2021, ásamt ársskýrslu fyrir árið 2021, ásamt fylgiskjölum. MSS22030045

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Forsenda þess sem er kallað „græna planið“ er brostin. Það var sett á fót til að búa til nýjar leiðir til skuldsetningar Reykjavíkur. Það er rosalegt að borgin skuli vera rekin á lánum þegar ytri aðstæður eru að versna hratt vegna heimsástandsins. Á árabilinu 2022-2026 er áætlað að taka 92 milljarða að láni. Verðbólga vex hratt og hefur það gríðarleg áhrif á vaxtagreiðslur af verðtryggðum lánum Reykjavíkur til framtíðar. Nú stefnir í enn frekara óefni í rekstri borgarinnar og ljóst að áætlanir um að skuldir borgarssjóðs verði 240 milljarðar í árslok 2026 eru brostnar. Þær verða langtum, langtum hærri. Enda er nú boðað að fara eigi í endurskoðun á fjárfestingaráætlun Reykjavíkur. Ekki var hægt að svara á fundinum hvað skuldir borgarinnar hefðu hækkað mikið frá því fjárfestingaráætlun 2022-2026 var samþykkt vegna hækkunar vaxta undanfarna mánuði en það boðað að væri verið að tína til upplýsingar um það.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í grænu skýrslunni að farið var í fjárfestingaátak í stafrænni umbreytingu. Því miður er ekki hægt að segja að unnið hafi verið að stafrænni umbreytingu með skýrum markmiðum og með hagkvæmni að leiðarljósi. Segja má að þessi vegferð hafi einkennst af göslaragangi og lausung. Það er sárt að horfa upp á vinnubrögð af þessu tagi fyrir flokk eins og Flokk fólksins sem hefur barist fyrir bættri þjónustu við fólk í borginni. Flokkur fólksins er ekki einn um þá gagnrýni á hvernig farið hefur verið með þessa 13 milljarða króna sem eiga eftir að verða mun fleiri þegar fram líða stundir. Samtök iðnaðarins hafa einnig gagnrýnt þetta opinberlega ásamt fleirum sem þekkingu hafa á þessum málum. Stafræn þróun hjá Reykjavíkurborg snerist nefnilega upp í stafræna sóun. Mun hagkvæmara hefði verið að fara að dæmi annarra sveitarfélaga og ganga strax til liðs við Stafrænt Ísland í stað þess að eyða ómældu fjármagni í að finna upp hjólið. Ábyrgðin er að öllu leyti borgarstjóra sem er framkvæmdastjórinn en einnig samstarfsflokka hans. Flokkur fólksins hefur vakið athygli innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á þessu alvarlega máli og hefur hún í framhaldi ákveðið að gera úttekt á starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs á næsta ári.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi við Almannaheill um Fund fólksins sem haldinn verður í Reykjavík árlega næstu þrjú árin, næst 2023. Kostnaður vegna þátttöku í verkefninu eru 4,5 m.kr. fyrir árið 2023 og síðan 6 m.kr. hvert ár árin 2024 og 2025. Kostnaðurinn greiðist árið 2023 af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur, en kostnaði vegna áranna 2024 og 2025 er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22020108

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg haldi sumarhátíð fyrir allt starfsfólk og fjölskyldur þeirra 11. júní nk. Áætlaður heildarkostnaður við hátíðina er 40.000.000 kr. Útgjöldin verði fjármögnuð af liðnum 09205 Ófyrirséð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. MSS22050036

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir að úthluta um 4.965 fm lóð og byggingarrétti fyrir allt að 140 íbúðir við Einarsnes 130.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050005

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að benda á að uppbygging í „Nýja Skerjafirði“ er í algeru uppnámi. Isavia og innviðaráðherra telja að nýtt íbúðahverfi í Skerjafirði skerði rekstraröryggi flugvallarins. Það er því fráleitt að hægt sé að úthluta byggingarlóðum einmitt á því svæði sem deilt er um. Hér er um stórt mál að ræða bæði hvað varðar rekstur flugvallarins og fyrirhugaða íbúðabyggð. Það er með öllu ótækt að úthluta þessu svæði á síðasta fundi borgarráðs fyrir borgarstjórnarkosningar.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands telur ekki tímabært að selja byggingarrétt á landi sem liggur að Reykjavíkurflugvelli eða undir Reykjavíkurflugvelli á meðan hann er í fullri notkun og jafn stór hluti af neyðarúrræði landsbyggðarinnar og nú er. Þegar um alvarleg slys er að ræða skipta mínútur sköpum. Ennfremur teljum við mikilvægt að styðja við landsbyggðina og standa undir nafni sem höfuðborg landsins og grafa ekki undan flugvellinum og núverandi notkun hans á meðan aðrar lausnir eru ekki í augsýn.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Isavia og innviðaráðherra hafa verið afgerandi í skoðunum sínum undanfarna daga um að að Reykjavíkurborg fái ekki flugvallarland í Skerjafirði til íbúðabygginga meðan annar jafngóður eða betri kostur undir flugvöll er ekki uppbyggður. Borgarstjóri berst á móti ríkisstjórninni og Isavia af fullum krafti. Uppi er mikil deila. Borgarstjóri er læknir og virðist ekki skilja að um Reykjavíkurflugvöll fara líffæraþegar og -gjafar sem eru alltaf akút flutningar. Hér er verið að samþykkja uppbyggingu á tæplega 5.000 fermetra lóð innan flugvallargirðingar. Það er ljóst að Isavia og ríkið þurfi að þvæla málið t.d. með dómsmáli - því í samningnum um lóðina er ákvæði: „Hefji lóðarhafi ekki framkvæmdir innan tveggja ára frá því að aðila er tilkynnt um að lóðin sé byggingarhæf fellur lóðarúthlutun þessi niður án sérstakrar tilkynningar borgarráðs um afturköllun lóðarúthlutunarinnar.“ Ég hvet ríkið að beita sér af öllu afli á móti Reykjavíkurborg til að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Það er líf og öryggi í húfi fyrir alla landsmenn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða svæði fyrir innan flugvallargirðinguna. Vitnað er í orð ráðherra samgöngumála sem segir að ekkert sé verið að fara að byggja í Skerjafirði þar sem flugvöllurinn er ekki á leiðinni þaðan. Enginn annar sambærilegur eða betri staður hefur fundist fyrir flugvöllinn. Er hér einhver misskilningur í gangi? Orð ráðherra og orð borgarstjóra fara ekki saman. Er verið að fara að byggja í Skerjafirði eða ekki?

    Fylgigögn

  28. Fram fer umræða um samstarf Reykjavíkurborgar við Lvív. MSS22040212

  29. Afgreiðsla varðandi Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal er færð í trúnaðarbók borgarráðs.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050013

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í að fjármagna hönnun á þjóðarleikvangi í frjálsum íþróttum í samræmi við meðfylgjandi skýrslu starfshóps um þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Gert er ráð fyrir að kostnaðarskipting skiptist til helminga milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Viðauki við fjárfestingaáætlun verður unninn og lagður fyrir borgarráð til samþykktar þegar kostnaðaráætlun fyrir hönnunina liggur fyrir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS21120151

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2022:

    Lagt er til að 11,5 m.kr. verði lagðar til Þjóðarleikvangs ehf. annars vegar 6 m.kr. til þess að ráðast í markaðskönnun skv. tillögu stjórnar og hins vegar 5,5 m.kr. til þess að tryggja rekstur félagsins tímabilið 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Áætlað er að kostnaður sem falli til árið 2022 verði 8,75 m.kr. en árið 2023 verði fjárhæðin 2,75 m.kr. Framlagið verði samþykkt með fyrirvara um að ríkið og KSÍ leggi til sambærilegt framlag í hlutfalli við eignaraðild sína. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að gera viðauka við fjárhagsáætlun í samræmi við tillöguna.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS21120165

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf formanns borgarráðs, dags. 3. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Skáksambandi Íslands 7 m.kr. styrk vegna afmælishátíðar einvígis aldarinnar. Einnig lögð fram umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 26. apríl 2022.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22030073

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Afmælishátíð einvígis aldarinnar sem fram fór í Laugardagshöllinni árið 1972 er minnst nú á þessu ári. Skákíþróttinn er þjóðaríþrótt Íslendinga og hana verður að styrkja með ráðum og dáð. Það er ánægjulegt að borgarráð samþykkti styrk til afmælishátíðarinnar og leggi þar með sitt lóð á vogarskálarnar til að efla skák á Íslandi.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að taka þátt í tímabundinni lækkun leigugreiðslna Hjallastefnunnar vegna flutnings úr núverandi húsnæði í nýtt húsnæði með vísun í samþykkt borgarráðs frá 27. janúar sl. Framlag Reykjavíkurborgar vegna grunnleigugjalds mun nema 1.650 kr. á fermetra á mánuði og er fjárhæðin bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar m.v. þann mánuð sem aðilar undirrita endanlegan leigusamning. Óskað er eftir því að heimildin gildi á meðan þjónustusamningur er við Hjallastefnuna um rekstur skólastarfs í húsnæðinu eða í allt að 10 ár og mun heildarframlag Reykjavíkurborgar yfir samningstímann nema þá að hámarki 594 m.kr. auk verðbóta (59,4 m.kr. á ári auk verðbóta). Þá er lagt til að borgarráð heimili þátttöku í viðbótarleigugjaldi sem bætist við grunnleigugjaldið. Viðbótarleigugjaldið endurspeglar framkvæmdakostnað leigusala við að laga húsnæðið að starfsemi Hjallastefnunnar og óskum Reykjavíkurborgar um fjölgun ungbarnadeilda. Framkvæmdarkostnaðurinn er áætlaður allt að 300 m.kr. og skal liggja fyrir við undirritun endanlegs leigusamnings og samþykktur með aðkomu Reykjavíkurborgar. Viðbótarleigugjaldið er bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar á sama hátt og grunnleigugjaldið Miðað er við að upphaf leigutíma sé eigi síðar en á tímabilinu 1. ágúst 2022 til 1. janúar 2023. Greiðsla leigugjalds skal hefjast frá afhendingardegi, hlutfallslega miðað við afhentan hluta hins leigða. Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2022 verði endurskoðaðar þegar afhendingaráætlun og greiðslufyrirkomulag framlaga liggur fyrir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og VInstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagður fram tímabundinn samningur til að styðja við húsnæðiskostnað Hjallastefnunnar í Reykjavík til að koma í veg fyrir að rof verði á starfsemi skólasamfélagsins í Öskjuhlíð. Þarna er um 100 leikskólabörn og 200 nemendur Hjallaskólans að ræða. Á sama tíma er lagður grunnur að framtíðarlausn um húsnæðismál skólans, þar sem bætast mun við 60 barna ungbarnaleikskóli sem yrði hluti að aðgerðaráætlun Reykjavíkur um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er mikilvægt að reykvískum börnum bjóðist áfram sá valkostur sem Hjallastefnan er.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfsyfirlýsingu við Hjallastefnuna sem felur í sér að Hjallastefnan skuldbindi sig til að gera tímabundinn leigusamning um húsnæði og flytja skólastarf sitt úr núverandi húsnæði við Nauthólsveg.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040015

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og VInstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagður fram tímabundin samningur til að styðja við húsnæðiskostnað Hjallastefnunnar í Reykjavík til að koma í veg fyrir að rof verði á starfsemi skólasamfélagsins í Öskjuhlíð. Þarna eru um 100 leikskólabörn og um 200 nemendur Hjallaskólans að ræða. Á sama tíma er lagður grunnur að framtíðarlausn um húsnæðismál skólans, þar sem bætast mun við 60 barna ungbarnaleikskóli sem yrði hluti að aðgerðaráætlun Reykjavíkur um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er mikilvægt að reykvískum börnum bjóðist áfram sá valkostur sem Hjallastefnan er.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lögð er fram niðurstaða hugarflugs og samráðs um útfærslu á Hafnarhúsi, húsi myndlistar. Til verkefnisins var efnt til að draga fram hugmyndir og sjónarmið í aðdraganda hönnunarsamkeppni um Hafnarhús í kjölfar kaupa borgarinnar á þeim hluta þess sem var í eigu Faxaflóahafna. Lagt er til að borgarráð samþykki að fela eignaskrifstofu að gera heildarúttekt á húsnæði Hafnarhúss. Slík úttekt er nauðsynleg vegna ástands hússins en einnig ábendinga og hugmynda um að skynsamlegt gæti verið að endurhanna og endurbyggja efstu hæð hússins og bæta jafnvel viðbótarhæð við, sbr. umfjöllun í skýrslunni og fyrri ástandsskýrslum. Jafnframt er lagt til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leiða undirbúning að hönnunarsamkeppni um Hafnarhúsið meðal annars með hliðsjón af meðfylgjandi skýrslu, frekari þarfagreiningu og ástandsmati hússins. Byggt verði á því samráði sem haft hefur verið en þess gætt að áframhaldandi samráð við þróun keppnisforsendna verði haft við menningar- og ferðamálasviðs, eignaskrifstofu og aðra eins og tilefni er til.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040197

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru gleðitíðindi fyrir listunnendur að Hafnarhús verði hjarta myndlistar í þéttu samstarfi og nálægð við m.a. Listasafn Reykjavíkur, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafnið og fjölbreytta flóru listafólks og Listaháskóla Íslands sem senn flytur í Tollhúsið. Einnig er hafinn undirbúningur á að koma listasafni Nínu Tryggvadóttur fyrir í Hafnarhúsinu. Reykjavíkurborg hefur hafið undirbúning að samkeppni um endurgerð og endurnýjun Grófarhúss og það eru gríðarleg tækifæri til að nýta samspil allra þessara menningarhúsa og huga að heildarsamhengi svæðisins að meðtöldu svæði tónlistarhússins Hörpu og hafnarsvæðisins, Hafnartorgs og Kvosarinnar. Að þeirri umræðu er mikilvægt að kalla alls konar fólk og hagaðila, auk opins samráðs og samtals.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs fyrir því að semja um rekstur í Tryggvagötu 17, Hafnarhúsinu, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22050002

    Fylgigögn

  37. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki drög að húsaleigusamningi um hluta af 1. hæð í Kringlunni 1, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli jón Hertervig og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22040069

    Fylgigögn

  38. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að rými á 1. hæð á Rafstöðvarvegi 4 verði nýtt fyrir tímabundið verkefni á vegum Dýraþjónustu Reykjavíkur í samvinnu við félagasamtök, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22040072

    Fylgigögn

  39. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að leigusamningi um hluta af vörugeymslu í Súðarvogi 1, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22050003

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæði leikskóla borgarinnar hefur verið óviðunandi og hefur verið brugðist alltof seint við þörfum barnafólks.

    Fylgigögn

  40. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, þar sem borgarráði er tilkynnt að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu sem ein af 100 borgum sem fallnar eru til að vera í forystu í loftslagsmálum, ásamt fylgiskjölum.

    Hrönn Hrafnsdóttir, Karen Björk Eyþórsdóttir, Eiríkur Hjálmarsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Guðmundur B. Friðriksson, Hulda Hallgrímsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundium undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050001

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það að Reykjavík hafi verið valin ein af hundrað loftslagsborgum úr 400 umsóknum er mikil viðurkenning á því að við höfum alla burði til að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að við höfum öll tækifæri til að vera öflug í baráttunni við loftslagsvána. Þau fjölmörgu verkefni sem Reykjavík hefur lagt áherslu á; allt frá hjólastígagerð, örflæðislausnum, þéttingu byggðar, meðhöndlun úrgangs og til kolefnisföngunarverkefna eins og Carbfix hafa sýnt sig að beri árangur og að við þurfum að halda áfram á þeirri braut. Þessi útnefning hvetur okkur til frekari dáða og er því fjölbreytta starfsfólki sem vann umsóknina sérstaklega þakkað fyrir eljuna og vel unnin störf sem færðu okkur þessa viðurkenningu.

    Fylgigögn

  41. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 2. maí 2022, þar sem lögð er fram skýrsla með niðurstöðum launagreiningar 2021, ásamt fylgiskjölum.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS22020006

    Fylgigögn

  42. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 29. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögur stýrihóps um endurskoðun jafnlaunastefnu, ásamt fylgiskjölum. Lagt er til að stefnan verði samþykkt með fyrirvara um kostnaðarmat á aðgerð 2. Ef kostnaðarauki er af tillögunni yrði henni vísað til gerð fjárhagsáætlunar 2023.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Diljá Ámundadóttir Zoëga, Ellen J. Calmon, Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir og Elín Blöndal taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040241

    Fylgigögn

  43. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 2. maí 2022, um niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar 2022, ásamt fylgiskjölum.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir því er tekið að svarhlutfall er lágt á skóla og frístundasviði, umhverfis og skipulagssviði og velferðarsviði. Hverju skyldi það sæta? Fræðsla, þjálfun og upplýsingaflæði koma verst út. 4.9% er áreitni hjá samstarfsfólki og tæplega 4% er einelti hjá samstarfsfólki. Hvað þýða þessar tölur og hvernig á að bregðast við?

    Fylgigögn

  44. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda þeirra sem búa við þjónustuskerðingu vegna vanskila, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. FAS22040071

    Fylgigögn

  45. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um þrískipta vísitölu leiguverðs í Reykjavík, sbr. 81. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. apríl 2021. FAS22040067

    Fylgigögn

  46. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 28. apríl 2022. MSS22010030

    Fylgigögn

  47. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 25. apríl 2022. MSS22010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Kynning á uppbyggingu verslunar, þjónustu og íbúðahúsnæðis við Jarpstjörn, Skyggnisbraut og Rökkvatjörn. Eftir 15 ár er loksins verið að leggja drög að verslun í hverfinu sem átti að verða sjálfbært en nú fimmtán árum seinna er engin matvöruverslun hvað þá bakarí. Hér er ekki annað hægt en að fagna mjög. Tekið er einnig undir bókun sem birt er undir 4. lið sem er um breytingu á deiliskipulagi fyrir Reynisvatnsás: Íbúasamtökin í Úlfarsárdal hafna tillögu á breytingu á skilmálum deiliskipulagsins „Reynisvatnsás, íbúðarhverfi, deiliskipulag“. Þessi breytingalýsing að leyfa skorsteina og loftnet upp fyrir tilgreinda hámarkshæð er of opin. Þarna er verið að opna fyrir að stórir steyptir skorsteinar og gervihnattadiskar geti skyggt á útsýni á flottum útsýnislóðum. Hefðbundið loftnet og 30-40 cm þykkt reykrör myndi teljast innan marka. Eitthvað stærra en það þyrfti að fara í grenndarkynningu.

    Fylgigögn

  48. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. apríl 2022. MSS22010033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður bókun íbúaráðs Miðborgar Hlíða að fulltrúi íbúaráðsins og fulltrúi íbúasamtaka verði hluti af samráðshópi um umferð stærri ökutækja í miðborginni. Mál af þessu tagi er best unnið i góðu samráði við íbúana og hagaðila á svæðinu.

    Fylgigögn

  49. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 27. apríl 2022. MSS22010018

    Fylgigögn

  50. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 8. og 28. mars 2022. MSS22010017

    Fylgigögn

  51. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí 2022.

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22010010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðarinnar:

    Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu, er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp Klapp-appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „mínar síður“ og endurnýjað inneignina. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki, t.d. vegna fötlunar sinnar, notað rafræn skilríki og geta þ.a.l. ekki notað „mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp. Fólk hefur kvartað sáran yfir þessu kerfi og að ekki sé boðið upp á fleiri greiðslumöguleika en tíu miða kort. Stjórnendur Strætó verða að setja sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins áður en ákveðið er að kaupa „kerfi“ sem þetta. Sníða þarf þjónustuna að veruleika þjónustuþega og skilja engan út undan.

    Fylgigögn

  52. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 25. apríl 2022. MSS22010024

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd t.d. hjá öðrum sveitarfélögum og þarf því ekki að finna upp hjólið að nýju. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni á að sameinast rafrænni þjónustumiðstöð en eftir því sem heyrist þá er nú hægt að sækja um fjárhagsaðstoð þar og áfrýja málum og panta tíma hjá ráðgjafa. Velferðartækni mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

    Fylgigögn

  53. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS22050010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins:

    Svarbréf Reykjavíkurborgar, dags. 7. apríl 2022, og svarbréf innviðaráðuneytisins, dags. 29. apríl 2022, við upplýsingabeiðni ESA vegna reikningsskila Félagsbústaða hf. og Reykjavíkurborgar. Það eru margir sem bíða eftir að sjá hvað kemur endanlega út úr bréfaskriftum ESA við ráðuneytið. Það að það skuli vera bréfaskriftir yfir höfuð um þetta mál finnst fulltrúa Flokks fólksins vera eitt og sér athyglisvert. Það að ESA sé með þetta til skoðunar er merki þess að alla vega var talið að eitthvað væri skoðunarvert. Endurmeta ætti reikningsskilaaðferðir. Rekstur borgarinnar breytist ekki, þetta er talnaleikfimi. Búinn er til leikur til að reyna að láta þetta líta betur út.

    Fylgigögn

  54. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22050003

    Fylgigögn

  55. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs utan umsóknartíma. MSS22010042

    Samþykkt að veita RVK Feminist Film Festival styrk að fjárhæð kr. 1.500.000 vegna RVK Feminist Film Festival 2022.

    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

    Fylgigögn

  56. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Verðbólga hefur hækkað verulega að undanförnu og hefur Seðlabankinn brugðist við með hækkun stýrivaxta. Þetta leggst þyngst á foreldra með börn á framfæri. Verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar hafa kallað eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Reykjavíkurborg er höfuðborg og fjölmennasta sveitarfélag landsins og hefur því skyldu til þess að bregðast við þessu ákalli. Leikskólagjöld eru stór útgjaldaliður hjá foreldrum með börn á framfæri. Það liggur því beinast við að Reykjavíkurborg leggi sitt af mörkum við að vinna gegn verðbólgu og verja foreldra barna fyrir neikvæðum áhrifum hennar og vaxtahækkunum með því að hætta innheimtu leikskólagjalda. Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði leggur til að borgarstjóra verði falið að undirbúa að Reykjavíkurborg hætti að innheimta leikskólagjöld. Öll börn eiga rétt á menntun óháð efnahag foreldra og mun þessi aðgerð færa Reykjavíkurborg nær því að tryggja það og verja börn í borginni fyrir neikvæðum áhrifum verðbólgu og vaxtalækkana.

    Frestað.

    -    Kl. 13:08 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.

Fundi slitið klukkan 13:11

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0505.pdf