Borgarráð - Fundur nr. 5658

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 10. mars, var haldinn 5658. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttur og Eyþór Laxdal Arnalds. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2022:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.460 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 0,30%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.479 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.640 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,08%, í grænan verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1, en það eru 2.039 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 9. mars 2022. FAS22010057

    -     Kl. 9:10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum. 

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Enn hækka skuldir borgarinnar. Hér er verið að samþykkja auknar skuldir upp á 3,5 milljarða. Skuldaaukningin er stöðug og ósjálfbær.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 er áformað að taka lán fyrir allt að 25 milljarða. Í dag er 10. mars og búið er að taka að láni 4,6 milljarða – því saxast hratt á lántökuheimildina. Þetta segir allt um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar – hún er rekin eins og óseðjandi spilavíti. Sífellt er talað um að um fjárfestingalán sé að ræða en það er alveg ljóst að megnið af fjármagninu fer í beinan rekstur eins og launagreiðslur og fleira.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa eftir samstarfsaðila til að reka miðstöð fyrir skapandi greinar í Tryggvagötu 17, Hafnarhúsinu, ásamt fylgiskjölum. FAS22030010
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. mars 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá  2. mars 2022 á auglýsingu á breytingu á almennum skilmálum deiliskipulags fyrir Reynisvatnsás, ásamt fylgiskjölum. MSS22030077
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. mars 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. mars 2022 varðandi auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún, ásamt fylgiskjölum. MSS22030079
    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Deiliskipulagsbreytingin er vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á 79 íbúðum í stað hjúkrunarrýma. Væri ekki rétt að áætla með einhverjum hætti hvar á að byggja þau hjúkrunarrými sem ekki fá lengur þennan stað? Svo er hæpið að fullyrða að það henti vel að bjóða upp á deilibílaþjónustu á reitnum en fullyrt er að fólk ferðist almennt með vistvænum ferðamátum dagsdaglega en hafi aðgang að bíl ef þörf er á. Þarna er of mikið sagt. Því er jafnframt haldið fram að rannsóknir hafi sýnt fram á að einn deilibíll geti komið í staðinn fyrir 5-20 einkabíla. Kannski sýna sumar rannsóknir að þetta geti gengið eftir en margar kannanir sýna allt annað og engin reynsla er komin á þetta kerfi. Óskhyggja á ekki að stýra deiliskipulagi.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni að þessu sinni að nýta forkaupsrétt sinn í Fiskiskipið Höllu Daníelsdóttur RE770, ásamt fylgiskjölum. MSS22020079
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti að lóðinni Hallgerðargötu 20, ásamt fylgiskjölum. MSS22030066
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðilaskipti á lóðum og byggingarrétti eru áberandi um þessar mundir. Þau bæta engu við framboð enda er verið að velta sömu byggingarheimildunum á milli aðila. Afar lítið er um nýjar lóðir til úthlutunar af hálfu Reykjavíkurborgar. Framboð á húsnæði er í sögulegu lágmarki í Reykjavík og íbúðaverð hefur rokið upp vegna skorts. Borgin vanmat algerlega eftirspurn eftir húsnæði og er ljóst að núverandi áætlanir eru byggðar á miklu vanmati á eftirspurn eftir húsnæði.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    -    Kl. 9:40 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 7. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki uppfærðar reglur um borgarhátíðir 2023-2025, ásamt fylgiskjölum. MOF22030002
    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 7. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki skipun stjórnar Kjarvalsstofu 2022-2024, ásamt fylgiskjölum. MOF22010001
    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 7. mars 2022, með yfirlýsingu dómnefndar barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur þar sem fram kemur að ekki er æskilegt að veita verðlaunin í ár, ásamt fylgiskjölum. MOF22020005

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. mars 2022, þar sem ársfjórðungsskýrsla, október til desember 2021, borgarvaktar í velferðar- og atvinnumálum er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS22030068

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Síðasta ársfjórðungsskýrsla borgarvaktar fyrir árið 2021 sýnir að flestir þættir eru að þróast til betri vegar sé miðað við misserin þar á undan. Ljóst er að COVID-19 faraldurinn og aðgerðir vegna hans höfðu áhrif á heilsu og líðan í Reykjavík og mikilvægt er að vakta áfram og bregðast við þar sem þarf. Í desember voru helmingi færri atvinnulausir Reykvíkingar en í desember árið áður, eða 4.280 samanborið við 8.606. Á sama tíma fækkaði heildarfjölda notenda fjárhagsaðstoðar til framfærslu um tæp 16%. Mikil fækkun er á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði sem er gleðilegt. Neikvæð merki eru að áfram er metfjöldi útkalla vegna heimilisofbeldis, þörf fyrir skólaþjónustu helst líka mikil sem og tilkynningar til barnaverndar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Húsnæðisverð hefur hækkað um 26% á aðeins tveimur árum. Ljóst er að framboð á húsnæði í Reykjavík er allt of lítið. Hagvöxtur og endurreisn ferðaþjónustunnar kalla á þúsundir starfa auk þess sem von er á fjölda flóttafólks vegna innrásarinnar í Úkraínu. Búast má við að húsnæði muni skorta vegna alls þessa, enda eru Ísland og Reykjavík öruggir dvalarstaðir í vexti. Hér er kaupmáttur mikill og atvinnuleysi lítið. Allt þetta kallar á fleiri byggingarleyfi en eitt þúsund á ári.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Augljóst er að COVID hefur haft gríðarmikil áhrif á líf, heilsu og almennt á tilveru fólks í full tvö ár. Aðgerðir vegna faraldursins höfðu áhrif á fjölmörg svið og þá mest á líðan fólks. Áhrifin eru misalvarleg vissulega, sennilega flest neikvæð en þó sum jákvæð. Fróðlegt verður að sjá hvernig mál eiga eftir að þróast, hvort flest allt muni falla í sitt gamla far eða hvort einhverjar breytingar eru komnar til að vera. Ef horft er til biðlista þá hafa sumir lengst en einhverjir hafa einnig styst. Biðlistar í heimaþjónustu hafa styst sem er jákvætt en biðlistar barna eftir fjölmargri þjónustu sem er á forræði Reykjavíkurborgar hafa lengst. Tilkynningum um ofbeldi og tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað. Segja má að allt sem lýtur að líðan fólks hafi tekið á sig alvarlegri myndir. Mikilvægt er að greina þetta en þó enn mikilvægara að vita hvernig Reykjavíkurborg hyggst bregðast við þeim þáttum sem hún ber ábyrgð á. Ef aftur er talað um biðlista þá hlýtur að vera ljóst að veita þarf meira en 140 milljónum til að taka á þeim. Það er bara dropið í hafið í verkefni sem hefur verið vanrækt árum saman. Hvað þarf til, til að borgaryfirvöld vakni?

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að kosin verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að gera heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld. Tillaga að skipan nefndarinnar skal lögð fyrir borgarráð til staðfestingar. Nefndin getur ráðið starfsmann í samstarfi við innri endurskoðun og ráðgjöf. MSS22030011

    Greinargerð fylgir tillögunni
    Samþykkt. 

    Borgarráð og áheyrnarfulltrúar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fullt tilefni er til að taka út starfsemi vöggustofanna eftir að fram hafa komið upplýsingar um slæma meðferð á börnum sem vistuð voru á fyrrgreindum stofnunum fyrr á árum. Þrátt fyrir að helstu lagaheimildir vanti enn er hér samþykkt að skipa nefnd til að hefja vinnu við heildstæða úttekt á Vöggustofunni á Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins svo þetta mikilvæga verkefni geti hafist.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Starfsemi vöggustofanna hafði miklar og slæmar afleiðingar. Mikilvægt er að nefnd hefji störf nú þegar til að rannsaka það sem hægt er þó að nauðsynlegar lagaheimildir liggi ekki fyrir sem þarf til að kafa dýpra í málið. Hægt er að byrja á því að tala við fólkið sem var á vöggustöfunum og vinna úr aðgengilegum heimildum. Rannsaka þarf hvernig það mátti vera að þessir starfshættir voru við lýði svona lengi og löngu eftir að búið var að sýna fram á skaðsemina. Skoða þarf hvað leiddi til þess að börn fóru inn á vöggustofurnar, hvernig aðstæðum foreldrarnir voru í og hvaða ráðleggingar foreldrar fengusem leiddu til þess að börn þeirra fóru inn á vöggustofur. Hvers vegna voru reglurnar eins og þær voru á vöggustofunum? Einnig þarf að skoða dauðsföll barna á vöggustofum og tíðni þeirra. Þá þarf einnig að skoða hvernig var staðið að ættleiðingum. Mikilvægt er að skoða hvernig börnum sem voru á vöggustofunum hafi reitt af í gegnum tíðina, hvernig félagslegar og andlegar aðstæður fólks hafi verið eftir meðferðina sem þarna fór fram. Tölfræðigreining þarf að fara fram á því hversu mörg börn voru vistuð á starfstíma vöggustofa. Mikilvægt er að rannsókninni verði gerð góð skil.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Því miður skortir Reykjavíkurborg lagaheimildir til þessa mikilvæga verkefnis, en þeirra virðist ekki hafa tekist að afla þrátt fyrir orð borgarstjóra þess efnis. Ekki er hægt að taka til umfjöllunar svo viðkvæm persónuleg málefni í nefnd sem sett er á laggirnar hjá sveitarfélagi vegna ákvæða í persónuverndarlögum. Hér er því á ferðinni enn einn biðleikurinn hjá borgarstjóra í málinu. Það er ekki bara ljótt heldur líka skammarlegt því slíkt hefur í för með sér frekari þjáningar málsaðila. Skorað er á borgarstjóra að eiga samtal við forsætisráðherra með þeirri ósk að sérlög verði sett sem heimili rannsókn á Vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins, til að afla rannsóknarheimilda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillöguna um að gerð verði heildstæð athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og að kosin verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að annast verkið. Málið er hið hörmulegasta og afar sorglegt í alla staði.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að komið verði á laggirnar fastanefnd til að fara með launaákvarðanir æðstu embættismanna hjá Reykjavíkurborg, sbr. 1. mgr. 37. og 42. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 49. gr. samþykkta nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að fela forsætisnefnd að gera nauðsynlegar breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þannig að borgarstjórn kjósi framvegis í nefndina, sem beri heitið kjaranefnd Reykjavíkurborgar. MSS22020212

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga er lögð fram af meirihlutanum um breytingu á fyrirkomulagi kjaranefndar. Í skjalinu kemur m.a. fram: „Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að frá upphafi hefur ekki verið staðið réttilega að framsali valds til kjaranefndar Reykjavíkurborgar til að ákveða launakjör embættismanna og forstöðumanna stofnana hjá Reykjavíkurborg. Þetta er alvarlegt mál að mati fulltrúa Flokks fólksins, næstum hneyksli. Að því sögðu styður fulltrúi Flokks fólksins tillöguna svo hægt verði að koma þessum launaákvörðunum í lögmætt horf.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur, samhliða því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur verður lögð niður þann 28. maí 2022. Einnig er lögð fram umsögn Barnaverndar Reykjavíkur dags. 28. febrúar og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 8. mars. MSS22010335

    Greinargerð fylgir tillögunni
    Samþykkt. 

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram uppfært fundadagatal borgarráðs frá janúar til júní 2022. MSS22030082

  15. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 7. mars 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kortlagningu á fjölda og högum heimilislausra árið 2021, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. september 2021. MSS22030072

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Helstu niðurstöður úttektar á stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir eru að frá 2017 hefur fækkað um 14% í hópnum. Heildarfjöldi heimilislausra í október 2021 er 301 einstaklingur. Þar af eru 54% í húsnæði, 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessar upplýsingar eru þyngri en tárum taki. 300 einstaklingar eru heimilislausir í borginni miðað við upplýsingar frá í október 2021. Af þeim hópi er 71% karlar og 29% konur. Það sem er mest sláandi er aldur hópsins. 71% er á aldrinum 21-49 ára. Haldinn var neyðarfundur í borgarráði sumarið 2018 að beiðni minnihlutaflokkana í borgarstjórn um stöðu heimilislausra og var krafist úrræða strax. Því var lofað fullum fetum en efndirnar eru litlar sem engar. Reykjavíkurborg er ekki að standa undir nafni sem höfuðborg í þessum málaflokki.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um tillögu sem lögð var fram í borgarráði 2021 um að kortleggja fjölda og hagi heimilislausra ári 2021. Í svari er farið yfir það sem var kannað og hverjir stóðu að því. Heildarfjöldi heimilislausra í október 2021 er 301 einstaklingur. Þar af eru 54% í húsnæði (getur verið sjúkrahús, fangelsi, áfangaheimili), 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu. Skipting milli kynja er 214 karlar (71%) og 87 konur (29%), 89% hópsins er með íslenskt ríkisfang og 11% með erlent ríkisfang. Það er ánægjulegt að frá 2017 hefur fækkað um 14% í hópnum. Flestir heimilislausir eru á aldrinum 21-49 ára öll úttektarárin. Mesta fjölgunin milli áranna 2017-2021 er í hópnum 31-40 ára og mesta fækkunin í hópnum 21-30 ára. Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni. Það er fjölgun í hópnum 31-40 en fækkun í hópnum 21-30 ára. Hverjar eru skýringar á því? Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig bregðast á við þessum upplýsingum? Það er sláandi að það skuli vera meira en 300 manns heimilislausir. Ekki er heldur vitað hvernig COVID hefur haft áhrif á þennan þátt, hafa fleiri bæst í hóp heimilislausra vegna COVID?

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 8. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um aðkomu Reykjavíkur að standsetningu myndvers RVK Studios í Gufunesi, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. mars 2022. MSS22030037

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 28. febrúar 2022. MSS22010025

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 25. og 28. febrúar 2022. MSS22010020

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. mars 2022. MSS22010029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Tekið er undir margt í bókun undir þessum lið um vetrarþjónustuna og mikilvægi þess að rýnt sé í málið og þá helst í yfirstjórnina en það telur fulltrúi Flokks fólksins að verði að gera. Borgarfulltrúar fengu sent skeyti frá starfsmönnum ekki alls fyrir löngu sem sögðu farir sínar ekki sléttar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um það mál, hverjir séu ábyrgir fyrir alvarlegu ástandi sem þarna ríkir. Vonir standa til að málið rati inn á borð mannauðsdeildar. Ef stjórnun er í ólestri og starfsfólki sem sinnir svo krefjandi verkefnum líður illa í vinnunni vegna einhvers „í vinnunni“ hefur það víðtæk áhrif. Hér er um tarnavinnu að ræða sem er óútreiknanleg enda getur enginn vitað hvernig veðrið verður þann og þann veturinn. Þetta og margt annað tekur á og þá ekki síst vegna fjölda kvartana sem berast.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 23. febrúar 2022. MSS22010018

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. MSS22020282

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar erindi Dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur, dags. 15. febrúar 2022, um búningsklefa í Sundhöll Reykjavíkur. Málið með búningsklefa kvenna í Sundhöll Reykjavíkur er dapurlegt svo vægt sé til orða tekið. Í febrúar lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að fela Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar að beita sér fyrir því að konur fái aftur gamla búningsklefann sinn og aðstöðu nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið. Eftir endurgerð Sundhallarinnar hafa konur ekki fengið aftur gamla búningsklefann óski þær þess nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið. Vegna rysjótts veðurfars undanfarnar vikur keyrir nú um þverbak og þarf mikið þrek og harðfylgi fyrir eldri konur og skólastúlkur að stunda sund og sundleikfimi í Sundhöll Reykjavíkur í slíku veðurfari. Þetta er lýðheilsumál sem lýtur að einhverju leyti að jafnrétti, þar sem karlar þurfa ekki að þola þetta harðræði. Það er ekki hægt að horfa upp á að konum og stúlkum sé ætlað að ganga langa leið frá klefa út í laug í blautum sundfötum í slæmu veðri. Borgin státar sig af jafnréttisstefnu en fer ekki eftir henni, alla vega ekki í þessu máli. Endurgerð Sundhallarinnar hvað þennan þátt varðar samræmist ekki stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22020275

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 8. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um samstarf menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs um starfsþróun, rannsóknir og nýsköpun í menntun og samning sömu aðila um stofnun og rekstur nýsköpunarstofu, ásamt fylgiskjölum. SFS22030087

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Almennt er það mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að styrkja rannsóknir Háskóla Íslands. Ef sveitarfélögin eiga að koma að slíku væri eðlilegt að styrkur kæmi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Heildarkostnaður samninganna er 11 m.kr. á ársgrundvelli. Hluta þess fjármagns, eða 3 m.kr., verður varið til stofnunar og rekstrar Nýsköpunarstofu menntunar. Samstarf HÍ og Reykjavíkurborgar er mikilvægt að mati fulltrúa Flokks fólksins og rannsóknir eru mikilvægar. En þetta er spurning um hver borgar brúsann.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg styrki verkefnið Römpum upp Ísland um 10 m.kr. á ári í þrjú ár. Markmið verkefnisins er að byggja eitt þúsund rampa um allt Ísland á næstu fjórum árum og auka þannig aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum. Verkefnið er framhald af verkefninu Römpum upp Reykjavík þar sem 100 rampar voru byggðir í Reykjavík árið 2021. Fjöldi rampa verður miðaður við höfðatölu í hverju sveitarfélagi sem tekur þátt. Kostnaður greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Framlög Reykjavíkurborgar vegna áranna 2023 og 2024 eru með fyrirvara um samþykkt fjárhagsáætlunar hverju sinni. MSS22020088

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta framtak Römpum upp Reykjavík frábært og þakkar frumkvöðlum kærlega fyrir það. Fulltrúi Flokks fólksins styður að færa átakið út um allt land og finnst fjármagni í verkefnið vel varið.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 9. mars 2022. 
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22010010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar: 

    Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvert meirihlutinn stefnir í orkumálum og orkukostum í samgöngum er vísað frá án umsagnar. Í loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar eru meðal annars nefndir orkukostir í samgöngum þar sem ekki er annað að sjá að notkun rafmagns, vetnis, metans og rafeldsneytis séu lagðir að jöfnu. Þekkt er að metan er verðlaust á söfnunarstað og rafmagn er góður kostur. Rafmagni er hægt að hlaða á rafgeyma og það má einnig nota á farartæki sem eru sítengd við rafmagn. Bæði lestir og strætisvagnar eru knúin með þessum hætti víða um lönd. En notkun vetnis og rafeldsneytis er ekki eins útbreitt. Fulltrúi Flokks fólksins vildi spyrja um samanburð á orkugjöfunum metani, rafmagni, vetni og rafeldsneyti en hafði ekki erindi sem erfiði. Þess var freistað að fá svör við hver væri orkunýting við framleiðslu vetnis og rafeldsneytis. Þessari fyrirspurn átti alls ekki að vísa frá. Hér er verið að biðja um mikilvægar upplýsingar.

    Fylgigögn

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    1.    Hefur þurft að færa skolpdælustöðvar í uppbyggingu Vogahverfis?
    2. Ef svo er var vitað að skolpdælustöð/stöðvar væru á þessu svæði þegar lóðunum var úthlutað?
    3. Ef svo er hver ber kostnaðinn af færslu hennar/þeirra?
    4. Ef svo er hver er kostnaðurinn tæmandi talinn?
    5. Hver er hlutur Reykjavíkurborgar í kostnaði við uppbyggingu hverfisins?
    6. Hver er kostnaður Veitna ohf.?
    7. Hvað er búið að greiða í innviðagjöld af svæðinu og hverjar eru eftirstöðvarnar? MSS22030094

  27. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    1. Hverjar eru lífeyrisskuldbindingar Reykjavíkurborgar tæmandi talið miðað við 1. mars 2022? 
    2. Hvað hafa lífeyrisskuldbindingar borgarinnar hækkað miðað við áætlanir vegna hækkunar launa ásamt breyttum forsendum varðandi væntan lífaldur þeirra sem fá greiddan lífeyri úr B-deild Lífeyrissjóðs ríkisins? MSS22030096

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. 

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að allar framkvæmdir með Lækjartorg verði látnar bíða og ráðist verði þess í stað að eyða biðlistum sem eru nánast í hverja einustu þjónustu í borginni sem og eftir húsnæði, félagslegu og sértæku húsnæði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst vinningstillagan um Lækjartorg sannarlega glæsileg og engum blöðum er um það að fletta að Lækjartorg tæki stakkaskiptum. Lækjartorg hefur verið eins og það er í mörg ár og þolir alveg að vera áfram óbreytt á meðan fókusinn er settur á þjónustu við fólkið i borginni. MSS22030097

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Frestað. 

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna Stjórnsýsluendurskoðun Reykjavíkur en hlutverk hennar yrði að gera stjórnsýsluúttektir á starfsemi stofnana Reykjavíkurborgar með tilliti til nýtingar fjármuna borgarinnar, hagkvæmni og skilvirkni og hvort að framlög skili tilætluðum árangri. Þessi Stjórnsýsluendurskoðun hefði svipað hlutverk og Ríkisendurskoðandi. Eitt af markmiðum slíkra úttekta væri að setja fram tillögur til úrbóta. Slík stofnun ætti að geta gert úttekt á öllum fyrirtækjum sem tengjast Reykjavíkurborg, stórum fjárfrekum verkefnum sem borgin er að hrinda í framkvæmd og fyrirtækjum sem fá fjármagn frá Reykjavíkurborg til sinnar starfsemi. MSS22030098

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Frestað. 

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Verðbólga mælist nú 6,2% og hefur ekki verið hærri í áratug. Þetta má að mestu rekja  til skorts og vöntunar á húsnæði, hagkvæmu húsnæði í Reykjavík. Þetta hefur leitt til þess að nýlega hækkuðu stýrivextir  úr 2 í 2,75%. Allt þetta mun hafa áhrif á kaupmátt fólks og mun harðna í dalnum hjá fjölmörgum. Nú er Samfylkingin stærsti flokkurinn í meirihluta. Flokkurinn hefur lengi gefið sig út fyrir að standa fyrir jöfnuð. Allavega talar þingflokksformaður Samfylkingarinnar iðulega um að það sé óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra. Í Reykjavík ríkir víða mikill ójöfnuður sem m.a. má rekja til efnahags foreldra. Vísað er hér til barnasáttmálans en í honum er tíunduð réttindi barna. Skýrasta dæmið um mismunun er að þeir efnameiri og efnamiklu geta farið með börn sín á t.d. sálfræðistofur út í bæ á meðan börn hinna fátæku og efnaminni þurfa að dúsa á biðlistum eftir fagþjónustu sálfræðinga, talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir lista yfir hvaða sértæku aðgerðir eru í gangi til að létta undir með fátæku fólki og efnalitlu. Spurt er einnig hvort greiða á fyrir sálfræðiþjónustu barna efnaminnstu foreldranna á einkareknum stofum þar sem biðlisti barna eftir þjónustu skólanna er yfir 1.800. MSS22030099

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. 

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr um fjölda heimilislausra nú í kjölfar þess að COVID er á undanhaldi. Fyrir liggja upplýsingar um að árið 2021 voru 301 heimilislaus í Reykjavík, þar af 54% % í húsnæði (getur verið sjúkrahús, fangelsi, áfangaheimili), 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðuna nú í lok tveggja ára heimsfaraldurs. Óskað er eftir upplýsingum um skiptingu kynja og hvað stór hluti er með erlent ríkisfang. Einnig í hvaða aldurshópi eru flestir heimilislausir. Loks er spurt um hvernig brugðist var við niðurstöðum könnunar um heimilisleysi árið 2021 en þá voru rúmlega 300 manns heimilislausir. MSS22030100

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nú er verið að vísa fólki út af áfangaheimilinu Betra Líf þar sem húsnæðið uppfyllir ekki skilyrði eldvarnareglugerðar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort búið sé að gera ráðstafanir hvar þetta fólk eigi að búa. Spurt er einnig hvort búið sé að finna húsnæði eða úrræði fyrir aðra sem kunna að vera bornir út af heimilum sínum vegna ófullnægjandi brunavarna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður rætt þessi mál einna helst í kjölfar mannskæðs bruna á Bræðraborgarstíg fyrir tveimur árum. Vitað er að ákveðinn hópur býr í ótryggu húsnæði þegar kemur að brunavörnum, ósamþykktu húsnæði í sumum tilfellum. Í þeirri erfiðu tíð sem ríkir á húsnæðismarkaði eru fátækir og efnaminna fólk nauðbeygð til að leita sér skjóls í húsnæði sem jafnvel telst ekki vera mannabústaðir. Vegna fátæktar verður fólk að leigja sér húsnæði sem jafnvel er skipulagt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki, aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant. Þetta er mikið áhyggjuefni. MSS22030101

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað vantar í mörg stöðugildi leikskólakennara í dag og hvað eru margir í stöðum leikskólakennara sem ekki eru menntaðir leikskólakennarar? Í apríl 2021 voru starfandi í borgarreknum leikskólum Reykjavíkurborgar 432 leikskólakennarar með leyfisbréf í 379,6 stöðugildum. Leikskóladeildir í október 2021 voru 291. Þar af voru 193 deildir með starfandi leikskólakennara eða 66,3% en 98 leikskóladeildir voru ekki með starfandi leikskólakennara, hvorki í starfi deildarstjóra eða leikskólakennara í almennu starfi. Þetta eru gamlar tölur og er því spurt um nýjar. MSS22030102

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. 

Fundi slitið klukkan 11:32

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1003.pdf