Borgarráð - Fundur nr. 5657

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 3. mars, var haldinn 5657. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Hulda Hólmkelsdóttir auk Þorsteins Gunnarssonar sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. ögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu starfshóps um samhæfingu og samþættingu á mörkun Reykjavíkurborgar um gerð samræmdra leiðbeininga og reglna sem miða að því að kjarni birtingarmyndar ytra og innra kynningarefnis sameinist undir heitinu Reykjavík og þeirri útgáfu merkis borgarinnar sem hannað var fyrir stafrænt efni. Þessi tillaga gerir ráð fyrir að formlegt merki Reykjavíkurborgar og heiti verði áfram notuð í gögnum stjórnsýslu borgarinnar og einingum tengdum henni. Nýr vörumerkjavísir myndi skilgreina hvenær notast væri við Reykjavík og hvenær Reykjavíkurborg. MSS22010188

    Greinargerð fylgir tillögunni

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er löngu tímabært að samhæfa grafíska hluti eins og hér er lagt til og sætir eiginlega furðu af hverju það hafi ekki verið fyrir löngu gert. Eins sætir það furðu að ekki skuli enn vera komnar samhæfðar undirskriftir í pósthólf starfsmanna borgarinnar. Það er fyrir löngu komið sem dæmi í ráðuneytunum.

    Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, Karen María Jónsdóttir, Gíslína Petra Þórarinsdóttir, Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, Ómar Einarsson, Auður Björgvinsdóttir, Ólöf Marín Úlfarsdóttir, Íris Elfa Þorkelsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags 22. febrúar 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að stýrihópur sem greindi stöðuna á stjórnkerfisbreytingum Reykjavíkurborgar sem tóku gildi 1. júní 2019 fylgi eftir tillögum í minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Strategíu frá 31. janúar 2022 sem hafa að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti Reykjavíkurborgar enn frekar. MSS22010047

    Greinargerð fylgir tillögunni

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í upphafi kjörtímabilsins var ákveðið að hefja vinnu við nýtt skipulag stjórnsýslu Reykjavíkur með það að markmiði að skerpa á vinnulagi, stjórnarháttum og ábyrgð kjarnasviða og afmarka betur verkefni. Breytingin, sem skilaði sér í einfaldara skipulagi, hefur gefið góða raun. Þegar tvö ár voru liðin frá breytingunni var lagt mat á reynsluna og í framhaldi er hér lagt til að fylgja skipulagsbreytingunni enn frekar eftir með tillögum sem eiga að einfalda, skýra og og skerpa stjórnarhætti Reykjavíkurborgar enn frekar. Þær tillögur snúa m.a. að endurskoðun á fasteignamálum Reykjavíkurborgar, innkaupamálum og stjórnarháttum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stjórnkerfi Reykjavíkurborgar er alltof stórt og óskilvirkt. Þetta mál er í raun skólabókardæmi um það en stjórnkerfisbreytingarnar voru samþykktar í upphafi árs 2019 í kjölfar m.a. braggamálsins, en hafa enn ekki verið endanlega innleiddar þremur árum síðar. Engar tímasetningar fylgja tillögunni um hvenær þessari vinnu á að ljúka.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að fasteignamál eru í ólestri og bæta þarf úr því, sem er til bóta. Og svo kemur fram að skoða þarf framlínuþjónustu borgarinnar í heild sinni og hlutverk og ábyrgð þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) og annarra sviða í því samhengi. Tíu milljarðar til ÞON hafa sem sé litlu skilað i framlínu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt það skipulagsleysi og skort á eftirfylgni sem ríkt hefur hjá ÞON um stafræna umbreytingu borgarinnar. Þetta svið er eitt af þeim kjarnasviðum sem skilgreind voru í stjórnkerfisbreytingum þessa meirihluta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að markmið stjórnkerfisbreytinga hljóti að vera það að einfalda og skýra verkefni og stjórnsýslueiningar. Það er ekki raunin hjá ÞON. Í kjölfar þessara skipulagsbreytinga hefur hver skrifstofan ofan á aðra orðið til innan sviðsins ásamt fjölda innri deilda og millistjórnenda. Þessi flókna og ómarkvissa umgjörð sviðsins endurspeglast síðan í því að verkefni daga uppi í uppgötvunar- og þróunarfösum í tilraunasmiðjum sviðsins. Lítið samhengi er á milli þeirra fjármuna sem búið er að ausa í sviðið og þeirra lausna sem komnar eru í notkun. Það er alveg ljóst að þessar skipulagsbreytingar sem varða þjónustu- og nýsköpunarsvið hafa misheppnast.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 24. janúar 2022, er varðar beiðni Borgarbyggðar um gögn er liggja að baki minnisblaðs rýnihóps, dags. 9 desember 2020. MSS22030048

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins vildi sannreyna ábendingu frá utanaðkomandi sérfræðingum um að mismunandi uppgjörsaðferðir Orkuveitu Reykjavíkur myndu nema hátt í 100 milljörðum. Hér er átt við hvort gert er upp samkvæmt kostnaðarverðsreglu eða gangvirðisreglu. Deloitte vann minnisblað dags. 9. desember 2020 fyrir Orkuveituna og var óskað eftir að minnisblaðið yrði sent borgarráðsfulltrúa. Því var hafnað á þeim grunni að um „vinnugögn“ væri að ræða í skilningi upplýsingalaga. Það stenst enga skoðun. Upplýsingum má ekki halda frá kjörnum fulltrúum samkvæmt sveitastjórnarlögum. Nú hefur byggðarráð Borgarbyggðar lagt fram sömu beiðni. Í raun eru það stórmerkilegar fréttir að slík beiðni skuli hafa borist frá eiganda, en varpar ljósi á leyndarhyggjuna sem er um uppgjörsreglur félagsins. Byggðarráð Borgarbyggðar telur að niðurstöður rýnihópsins feli í sér verulegar fjárhæðir og hagsmuni fyrir Borgarbyggð og íbúa þess. KPMG hefur verið ráðið af sveitarfélaginu að yfirfara og leggja mat á þær forsendur sem liggja að baki minnisblaðinu.

    -    Kl. 9:45 tekur borgarstjóri sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. mars 2022, um fyrirhugaða ferð borgarráðs til Helsinki 22.-25. mars 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS21120173

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. mars 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fór 25. febrúar sl. samþykkti stjórnin svohljóðandi bókun: Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir einróma að taka undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra. Sveitarfélagasambandið í Úkraínu er meðlimur í CEMR og undanfarin ár hefur átt sér mikil uppbygging í úkraínskum sveitarfélögum, með stuðningi evrópskra sveitarfélaga, til að efla sjálfsforræði þeirra og bæta þjónustu. Stjórnin hvatti kjörna fulltrúa í íslenskum sveitarfélögum til að undirrita yfirlýsinguna. Lagt er til að borgarráð samþykki að taka undir ofangreinda bókun stjórnarinnar. MSS22030004

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista tekur undir ofangreinda bókun stjórnarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Engan hefði órað fyrir því að stríð myndi brjótast út í vestrænum heimi árið 2022. Lýst er yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Úkraínu. Skorað er á ríkisstjórn Íslands að koma því áleiðis við alþjóðasamfélagið að leiða fram vopnahlé þegar í stað og semja í framhaldinu um frið á átakasvæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun Evrópusamtaka sveitarfélaga og vill bæta því við að ömurlegt er til þess að hugsa að stríð sé hafið í Evrópu. Innrás Rússa í Úkraínu er brot á alþjóðalögum. Öryggi fólks verður að tryggja eins og nokkur kostur er. Vesturlönd eru sem betur fer að beita refsiaðgerðum og sýna Úkraínu stuðning. Þar hefur Ísland ekki verið eftirbátur annarra. Stjórnvöld á Íslandi ætla að standa sína plikt og taka á móti fólki frá Úkraínu. Þeir sem líða og fara verst út úr þessu er fólkið – eldra fólk, minnihlutahópar og börnin sem mörg hver bíða þess aldrei bætur að hafa upplifað reynslu af þessu tagi og munu ekki öll lifa þessar hörmungar af. Samúð borgarfulltrúa Flokks fólksins og Flokks fólksins alls er hjá fólkinu sem einn morguninn vaknaði upp við að ráðist hafði verið inn í land þeirra. Flokkur fólksins fordæmir þessa innrás með afdráttarlausum hætti og vonar að refsiaðgerðir bíti. Við eigum að taka þátt í aðgerðum með Evrópusambandinu með vestrænum lýðræðisríkjum af fullum þunga. Það verður að vera hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti en stríðsrekstri, annað er óhugsandi.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til erlendra vefmiðla og veitna, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022. MSS22010238

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur eytt rúmum 15 milljónum á sl. þremur árum í auglýsingar til erlendra vefmiðla og veitna s.s. Facebook og Google. Það er nokkuð vel í lagt og þær greiðslur eru því ekki að fara til innlendra aðila. Á þessum grunni hef ég lagt fram svohljóðandi fyrirspurn til skriflegs svars: „Óskað er eftir að borgarráð fái upplýsingar um hvað Reykjavíkurborg hefur greitt í auglýsingar tæmandi talið árin 2016, 2017, 2018, 2019, 2020, 2021 og til 1. mars 2022.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til erlendra vefmiðla á borð við Facebook, Google og annarra veitna fyrir auglýsingar á árunum 2019, 2020 og 2021. Umhugsunarvert er hversu miklu er eytt í auglýsingarnar, um 5 milljónir á ári. Nokkur atriði vekja athygli sérstaklega og það er upphæðin sem menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur (MOF) eyðir í auglýsingar bæði hjá Facebook og Google. Eins er eftir því tekið hvað Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hefur eytt í Facebook-auglýsingar eða 335.944 á árinu 2021. Þetta er þriðja hæsta upphæðin, hæst er menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur og Ráðhúsið. Er ekki hægt að auglýsa í innlendum miðlum?

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um afrit af fyrirspurnarbréfi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020258

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að hafa tungur tvær og fjármálaskrifstofan er föst í ruglinu. Borgarlögmaður lagði fram 2. mars 2021 álit um hæfilegt ábyrgðargjald Félagsbústaða hf. vegna eigandaábyrgðar Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að Félagsbústöðum hf. væri markaður skýr tilgangur og markmið og í samþykktum vísað til þess að félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni heldur til að sinna félagslegri, lögbundinni þjónustu og því ekki nauðsynlegt að leggja á ábyrgðargjald. Einnig segir í samþykktum að tilgangi félagsins um að starfa í þágu almannaheilla megi ekki breyta, í 5. gr. samþykktanna er kveðið á um að félagið skuli ekki rekið í hagnaðarskyni og í 7. gr. að arður er ekki greiddur út til eiganda. Hér kemur það skýrt fram að Félagsbústaðir eru ekki fjárfestingafélag og á ekki fjárfestingaeignir. Á þessum grunni endurtek ég bókun mína við undirritun ársreikninga sl. ára. „Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Ofmatið er vegna eigna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á niðurstöðu samstæðureiknings borgarinnar og gefur hann því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hlutfall eigna og skulda er þannig verulega skekkt. Á óvissutímum er nauðsynlegt að ársreikningurinn gefi lánardrottnum ekki ranga mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara.“

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um bréfasamskipti innviðaráðuneytisins við ESA, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020260

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er stórundarlegt að borgarráð hafi ekki sjálfkrafa fengið afrit af öllum bréfum sem hafa gengið á milli ESA og nú innviðaráðuneytisins þar sem hagsmunirnir snerta 70 milljarða bókhaldsvillu Reykjavíkur. Nú hafa þau gögn borist og eru þau trúnaðarmerkt sem er einnig með ólíkindum þar sem um opinber gögn er að ræða. Nú hefur ESA óskað eftir frekari upplýsingum og hefur ráðuneytið frest til 4. mars til að svara eftirlitsstofnuninni. Svarbréf ESA er mjög harðort í garð Reykjavíkur og í raun fær Reykjavíkurborg algjöra falleinkunn. Því er rétt að rifja upp bókun mína við ársreikninga síðastliðin ár: „Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Ofmatið er vegna eigna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á niðurstöðu samstæðureiknings borgarinnar og gefur hann því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hlutfall eigna og skulda er þannig verulega skekkt. Á óvissutímum er nauðsynlegt að ársreikningurinn gefi lánardrottnum ekki ranga mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað var eftir að borgarráð fái öll bréfasamskipti innviðaráðuneytisins (áður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) til ESA og frá ESA vegna uppgjörsreglna Félagsbústaða. Gögnin bárust í beinu framhaldi og fylgja með svari þessu til borgarráðsmanna. Ítarlegar kröfur ESA sem fram koma í bréfum stofnunarinnar til ráðuneytisins um upplýsingar sýna best alvarleika málsins. Afar mikilvægt er að þarna verði allar upplýsingar og skýringar lagðar fram. Ekki er ólíklegt að einhverjir eigi eftir að svitna við að svara þeim ítarlegu kröfum ESA um skýringar sem fram koma í bréfi stofnunarinnar.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. mars  við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ósvaraðar fyrirspurnir borgarfulltrúa Miðflokksins sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020261

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er forkastanlegt að kerfið sinni ekki óskum kjörinna fulltrúa um upplýsingar innan úr rekstrinum. Á þessu svari sést að elstu ósvöruðu fyrirspurnirnar eru rúmlega tveggja ára gamlar. Skorað er á þá aðila sem eiga eftir að svara að gera það í síðasta lagi 1. apríl. Það er algjörlega óásættanlegt ef ekki verður orðið við þeim óskum því borgarstjórnarkosningar eru á næsta leyti og því þarf að gera kjörtímabilið upp.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. febrúar 2022, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað yfirstjórnar, sbr 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. MSS22010238

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um ferðakostnað yfirstjórnar. Birtar eru tölur á árunum 2017 til 2021. Borgarstjóri hefur verið langmest á faraldsfæti og munar miklu í næsta „mann“. Kostnaður hríðféll þegar COVID skall á eðli málsins samkvæmt. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að horft verði með öðrum augum á ferðalög erlendis í framtíðinni og að úr slíkum ferðum verði dregið verulega. Fjármagn sem farið hefur í ferðir af ýmsu tagi er vel þegið í að grynnka á biðlistum barna til skólasálfræðinga. Nú er fólk orðið vel fært í fjarfundatækni og horfa þarf einnig á kolefnissporin. Heimurinn er ekki samur og að því þurfa allir að aðlaga sig, líka borgarstjóri.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólaforðun, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020237

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari kemur fram að ekki sé hægt að svara þessari fyrirspurn af hálfu borgarráðs með tilvísun í 2. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir að „sveitarstjórn og fastanefnd er eingöngu heimilt að afla upplýsinga frá barnaverndarþjónustu sem eru nauðsynlegar fyrir yfirstjórn hennar. Með vísan til ofangreinds verður fyrirspurninni ekki svarað á vettvangi borgarráðs.“ Fulltrúi Flokks fólksins hefur þar af leiðandi lagt fyrirspurnina fram í velferðarráði 2. mars. Hún er eftirfarandi: Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá velferðarsviði um hve mörg tilfelli hafa verið tilkynnt til Barnaverndar sem tengjast skólasókn nemenda (skólaforðunarmál), þ.m.t. leyfin.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram skýrsla regluvarðar Reykjavíkurborgar, ódags., fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 1. febrúar 2022. FAS22020050

    Halldóra Káradóttir og Ólöf Marín Úlfarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 10:15 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. mars 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. febrúar 2022, við fyrir fyrirspurn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 3. desember 2021, ásamt fylgiskjölum. MSS21120038

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hin venjubundna framkvæmd hefur verið óátalin af eftirlitsaðilum í áratugi og ársreikningar Reykjavíkurborgar hafa verið áritaðir án athugasemda hvað umrætt atriði varðar af löggiltum endurskoðendum. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að sveitarfélög hafi haft réttmætar væntingar til þess að hin venjubundna framkvæmd væri í samræmi við lög. Ef stjórnvöld teldu tilefni til að breyta hinni venjubundnu framkvæmd eða koma á framfæri nýrri afstöðu til túlkunar þá þyrfti að gera slíkt með skýrum hætti og ákveðnum fyrirvara svo sveitarfélög gætu brugðist við.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er óboðlegt að borgarfulltrúar fái ekki til afgreiðslubréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fyrr en þremur mánuðum eftir að það er sent og stílað á borgarstjórn. Bréf sem bar að svara í desember 2021 innan 15 daga. Í millitíðinni hefur málið verið rætt í borgarstjórn og fjárhagsætlun til fimm ára afgreidd. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við þetta verklag. EFS tekur undir þau sjónarmið borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að efnahagsreikningur borgarinnar sé byggður á reikningsskilaaðferðum sem gefa ekki glögga mynd og þar af leiðandi kann reikningurinn að gefa ranga mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Íbúðir Félagsbústaða eru „til eigin nota“ velferðasviðs borgarinnar eins og segir í bréfi EFS og því ekki rétt að beita matsvirðisaðferðum. Þá eru vísbendingar um að viðhaldi Félagsbústaða sé ábótavant og vanmat sé í áætlunum félagsins. Þá er rétt að minna á að eftirlitsstofnun ESA er enn að knýja á um skýringar um reikningsskil borgarinnar en það mál er enn í vinnslu.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Gott er að hafa tungur tvær og fjármálaskrifstofan er föst í ruglinu. Borgarlögmaður lagði fram 2. mars 2021 álit um hæfilegt ábyrgðargjald Félagsbústaða hf. vegna eigandaábyrgðar Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að Félagsbústöðum hf. væri markaður skýr tilgangur og markmið og í samþykktum vísað til þess að félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni heldur til að sinna félagslegri, lögbundinni þjónustu og því ekki nauðsynlegt að leggja á ábyrgðargjald. Einnig segir í samþykktum að tilgangi félagsins um að starfa í þágu almannaheilla megi ekki breyta, í 5. gr. samþykktanna er kveðið á um að félagið skuli ekki rekið í hagnaðarskyni og í 7. gr. að arður er ekki greiddur út til eiganda. Hér kemur það skýrt fram að Félagsbústaðir eru ekki fjárfestingafélag og á ekki fjárfestingaeignir. Á þessum grunni endurtek ég bókun mína við undirritun ársreikninga sl. ára: „Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Ofmatið er vegna eigna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á niðurstöðu samstæðureiknings borgarinnar og gefur hann því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hlutfall eigna og skulda er þannig verulega skekkt. Á óvissutímum er nauðsynlegt að ársreikningurinn gefi lánardrottnum ekki ranga mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins lýsir sérstökum áhyggjum yfir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telji ástæðu til þess að óska sérstaklega eftir upplýsingum um reikningsskilaaðferð á fasteignum Félagsbústaða hf. í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og að hafa eftirlit með því að fjármálastjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags sé ekki í samræmi við ákvæði laganna eða að fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Þær ábendingar sem koma fram í bréfi nefndarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2021, eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá skorið úr öllum álitamálum í þessu efni. Jafnframt skal bent sérstaklega á að í bréfi nefndarinnar kemur skýrt fram hve mikilvægt eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa er með fjármálum borgarinnar og hve þýðingarmikið það er að því sé komið á framfæri í sambandi við undirritun ársreiknings ef vafi leikur á um einstök atriði við uppsetningu eða útfærslu ársreiknings. Það hvetur fulltrúa minnihlutans til dáða við að vera óhrædda við að gera það sem fært er til að fá skorið úr álitamálum er varða reikningsskil Reykjavíkurborgar og frágang ársreiknings hennar.

    Halldóra Káradóttir og Ólöf Marín Úlfarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. febrúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. febrúar 2022 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. MSS22020277

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. febrúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. febrúar 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.174.0 vegna lóðanna nr. 9 og 9A við Vitastíg, ásamt fylgiskjölum. MSS22020279

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. mars 2022, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, sem skipaður var af borgarstjóra með erindisbréfi dags. 2. janúar 2019. Um er að ræða áfangaskil stýrihópsins með endurskoðaðri heildaráætlun um fjölgun leikskólarýma til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Farið var í endurskoðun áætlunar í ljósi sérstaklega fjölmenns fæðingarárgangs árið 2021. Endurskoðuð heildaráætlun gerir ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgi um allt að 1680 á árunum 2022-2025. Þar af verði allt að 850 ný leikskólarými tekin í notkun á árinu 2022 og til viðbótar opni um 830 rými á árunum 2023 til 2025. Spá hópsins gerir ráð fyrir að hægt verði að bjóða öllum 12 mánaða börnum vistun þann 1. september nk. (2022) og eftir verða um 260 laus rými sem hægt er að bjóða börnum sem verða 12 mánaða í mánuðunum eftir það. Frekari fjölgun rýma sem áætlunin gerir ráð fyrir þýðir að enn betri staða verður haustið 2023. Ofangreindar spár byggja á fjölda lausra rýma, nýjum rýmum sem opna við uppbyggingu og fjölda barna bæði í sjálfstætt starfandi skólum og borgarreknum sem fara í skóla að hausti. MSS22010084

    Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða hraðari fjölgun leikskólaplássa í Reykjavík með það að markmiði að bjóða 12 mánaða börnum í leikskóla í haust. Planið var að það myndi ekki gerast fyrr en 2023 en mun gerast 2022. Reykjavíkurborg vinnur því að verulegri fjölgun leikskólarýma á næstu mánuðum og misserum og stefnir að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými í ár, en alls opna sjö nýir leikskólar í borginni á þessu ári. Endurskoðuð heildaráætlun sem stýrihópur um brúum bilið verkefnið um uppbyggingu leiksskóla lagði fyrir borgarráð í dag gerir ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgi um allt að 1680 á næstu þremur árum. Gert er ráð fyrir að um helmingur þeirra verði tekinn í notkun á þessu ári. Byrjað verður að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar í haust og hefst innritun í þau pláss síðar í marsmánuði. Alls munu sjö nýir leikskólar opna í borginni á þessu ári, þar af fjórir leikskólar í ævintýraborgum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt af helstu kosningaloforðum Samfylkingarinnar var að taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri á leikskóla borgarinnar. Furðu vekur að nú undir lok kjörtímabils skuli ástandið vera jafn slæmt og raun ber vitni. Þetta bitnar á foreldrum og bönunum þeirra sem hafa beðið í góðri trú eftir að staðið yrði við þau fyrirheit sem gefin voru. Í ljósi þess að meirihlutanum er um megn að standa við gefin loforð hlýtur að vera komin tími á að gefa Sjálfstæðisflokknum tækifæri til að leysa úr þessum brýna vanda, enda hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt fram tillögur til úrbóta í þessum málaflokki.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Því var lofað fyrir síðustu kosningar að brúa bilið á næstu 4-6 árum. Borgarstjórn samþykkti að gera það fyrir lok árs 2023 – núna erum við að byrja að taka inn 12 mánaða börn einu ári á undan áætlun – næsta haust.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skortur á leikskólaplássum er búinn að vera meinsemd á kjörtímabilinu. Nú líður að kosningum og hefur verið hrist rykið af eldri tillögum og öðrum bætt við. Vöntun er á fjölmörgum plássum og enn er langt í land með að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér er ekki um neinn hugmyndafræðilegan ágreining að ræða. Fulltrúa Flokks fólksins finnst leikskólar, starfsemi þeirra, viðmót og öll umgjörð til fyrirmyndar og börnum líður almennt vel í leikskóla sínum. Vandinn liggur í að skortur hefur verið á plássum, seinkun á inntöku barna og mannekluvandi hefur verið viðloðandi. Þetta hefur valdið fjölda foreldra miklu óöryggi og jafnvel angist. Börnum hefur fjölgað sem hefði mátt sjá fyrir enda þótt nokkur óvissa ríki um barnafjöldaspá næstu ára. Mikilvægt er að endurskoða uppbyggingaráætlunina reglulega með hliðsjón af raunfjöldaþróun og uppfærðum mannfjöldaspám. Framsýni og fyrirhyggju vantar hjá þeim sem stýra þessari skútu. Þegar upp er staðið hefur einfaldlega ekki verið sett nægjanlegt fjármagn í málaflokkinn þótt vissulega hafi verið bætt í. Bara ekki nóg. Forgangsraða þarf fjármagni borgarsjóðs með þarfir og þjónustu barna og foreldra þeirra að leiðarljósi sem og borgarbúa allra.

    Ólöf Örvarsdóttir, Helgi Grímsson, Skúli Þór Helgason, Alexandra Briem, Örn Þórðarson, Hrönn Pétursdóttir, Kristjana Ósk Birgisdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skóla- og frístundaráðs, dags. 24. febrúar 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 22. febrúar 2022 á breytingum á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. SFS22020200

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi reglubreyting er hluti af stafrænni vegferð Reykjavíkur, stafrænni umbreytingu og þjónustuúrbótum á innritunarferli í grunnskóla þar sem verið er að straumlínulaga og einfalda innritun til hagsbóta og þægindaauka fyrir nemendur, foreldra og skólakerfið. Innritun verður hér eftir sjálfvirk með fyrirvara um staðfestingu. Samhliða er verið að huga að bættri móttöku barnanna með skýrum og góðum upplýsingum.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 21. febrúar 2022 MSS22010022

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 23. febrúar 2022. MSS22010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 4. lið fundargerðarinnar: 

    Verslunarhúsnæði við Bauhaus og málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvort ekki eigi nú að fara að koma á fót verslunum í hverfinu sem er orðið 15 ára. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 2. mars kom fram að allt væri í fullum gangi og lagði fulltrúi Flokks fólksins fram eftirfarandi bókun í því sambandi: Tillögu Flokks fólksins um að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/-verslanir komi í Úlfarsárdal hefur verið vísað frá. Úlfarsárdalur, hverfið er 15 ára og enn bólar ekki á matvöruverslun né kaffihúsum og skyndibitastöðum. En í svari segir að margar lóðir séu skipulagðar til að sinna þessu og „öll húsin á lóðinni eru í uppbyggingu núna“. Eru 15 ár ekki nægjanlega langur tími til að taka ákvörðum um matvöruverslun og getur verið að eitthvað annað hamli uppbyggingu, svo sem að langur tími fer í ganga frá göngustígum? Hverjar svo sem ástæður eru fyrir að hverfið er ekki orðið sjálfbært er kominn tími til að spýta í lófana þarna. Tillögu þessari er vísað frá í skipulags- og samgönguráði.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 24. febrúar 2022. MSS22010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar: 

    Málefni þessa hverfis, Háaleitis- og Bústaðahverfis, hafa verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og ekki síst fyrir það að borgaryfirvöld hafa tilkynnt opinberlega að fallið sé frá hugmyndum um þéttingu byggðar við Bústaðaveg enda kom í ljós að samkvæmt skoðanakönnun mátti ætla að ⅔ hlutar íbúa í nærliggjandi hverfi væru andvígir áformum um þéttingu byggðar við Háaleitisbraut og Miklubraut. Aðeins færri voru andvígir skv. könnuninni að Miklubraut væri lögð í stokk. Í nóvember sendu íbúar við Heiðargerði norðanvert undirskriftalista til hverfisskipulags þar sem 97% eigenda húsa á svæðinu mótmæltu fyrirhuguðum áætlunum um byggingu blokka milli Heiðargerðis og Miklubrautar. Færð eru ítarleg rök fyrir andstöðunni. Í lok bréfs skora undirritaðir íbúar á borgarstjóra að falla frá öllum áætlunum um uppbyggingu á fjölbýlishúsum við Heiðargerði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort íbúaráðið hafi fjallað um þetta bréf/mál.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 22. febrúar 2022. MSS22010033

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 2. mars 2022. MSS22010010

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. MSS220100324

    Fylgigögn

  24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22010336

    Fylgigögn

  25. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir að borgarráð fái upplýsingar um hvað Reykjavíkurborg hefur greitt í auglýsingar tæmandi talið árin 2016, 2017, 2018, 2019, 2020, 2021 og til 1. mars 2022. MSS22030035

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    1. Hvert er áætlað að Nýja Sendibílastöðin flytji starfsemi sína? 

    2. Var samið um ókeypis lóð fyrir stöðina? Ef svo var ekki, hvert var gjaldið fyrir byggingarréttinn?

    3. Hvernig á að leysa aðkomu að Endurvinnslunni þegar hin svokallaða borgarlína verður komin?

    4. Áætlar borgin að kaupa upp Knarrarvog 4 með sama hætti? MSS22030036

  27. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Eurovisionkeppnin fer nú fram í kvikmyndaveri RVK Studios í Gufunesi og hefur allt verið lagt undir. 

    1. Tók Reykjavíkurborg þátt í kostnaði við að standsetja húsnæðið svo keppnin gæti farið fram?

    2. Ef svo er – hver er kostnaður Reykjavíkur tæmandi talið? MSS22030037

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til borgarráð samþykki að beina því til stjórnar Strætó að samþykkja að hægt verði að nota eldri greiðsluaðferðirnar áfram þar til reynsla er komin á nýtt greiðslukerfi Strætó; Klapp, en 1. mars sl. hætti Strætó bs. að taka við pappírsfarmiðum í Strætó og veitti frest til 16. mars til að ganga að fullu inn í Klapp greiðslukerfið. Óskað er eftir að stjórnin skoði jafnframt að setja upp sölu á strætómiðum t.d. í Mjódd og á Hlemmi. MSS22030041

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Frestað.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Á biðlista eftir fagþjónustu hjá Skólaþjónustunni eru 1804 börn og yfir 1000 börn þar af bíða eftir sálfræðiaðstoð. Sum börn hafa beðið mánuðum saman og jafnvel lengur. Rannsóknir og skýrslur sýna að vanlíðan barna fer vaxandi. Það er mikið áhyggjuefni. Rannsóknir hafa einnig ítrekað sýnt að vandi barna, sem fá ekki viðhlítandi sálfræði- og geðlæknaþjónustu, er líklegur til að vaxa. Barn, sem þarf að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu vegna andlegrar vanlíðunar er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana. Á meðan á langri bið stendur getur mál sem flokkað er að „þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli hefur vandinn átt sér aðdraganda og fengið að krauma á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Bið getur kostað líf og því miður hefur það jafnvel raungerst. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir upplýsingum um það hvort rætt hafi verið við þau börn og foreldra þeirra sem bíða eftir fagþjónustu Skólaþjónustu og kannað hvernig þau eru að höndla biðina? Ef svo er ekki, hyggst Reykjavíkurborg ráðast í slíka könnun? MSS22030042

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

Fundi slitið klukkan 11:29

Líf Magneudóttir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0303.pdf