Borgarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 24. febrúar, var haldinn 5656. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:50. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir og Örn Þórðarson. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Hulda Hólmkelsdóttir og Pétur Ólafsson tekur sæti með rafrænum hætti.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. febrúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. febrúar 2022 á breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I, ásamt fylgiskjölum. MSS22020203
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:Mikilvægt er að tryggja skóla- og leikskólarými fyrir hverfið samhliða uppbyggingu. Rýning á framtíðarnýtingu Vörðuskóla er nú yfirstandandi, en jafnframt eru mikil tækifæri fólgin í húsnæði Tækniskólans sem mun losna á næstu árum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er með ólíkindum að hægt sé með einu pennastriki að umbreyta heilu svæðunum frá upphaflegu skipulagi. Hér er verið að umbreyta þremur lóðum og í umsögnum hagsmunaaðila eru réttmæt rök fyrir því að um fullkominn forsendubrest að ræða. Hugmyndirnar um þjónustu á fyrstu hæðum í nýbyggingum hafa brostið og nú þegar er farið að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir á nokkrum reitum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Málið er um að breyta deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Í breytingunni felst að breyta lóðum G og H úr atvinnulóðum í íbúðalóðir, breyta opnu svæði til bráðabirgða í íbúðarlóð, I, fjölga íbúðum og breyta bílastæðakröfu til samræmis við bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar. Við þetta er sýnt að mati fulltrúa Flokks fólksins að umferð um Nauthólsveg mun aukast og einnig vegna uppbyggingar námsmannaíbúða við Nauthólsveg og uppbyggingar í Skerjafirði og brúar yfir Fossvog. Núverandi íbúar kvarta einkum yfir því að skerða eigi grænt svæði sem þó er sagt vera framtíðarbyggingarreitur og gert er ráð fyrir 460 íbúðum. Græna svæðið er mikið notað á hverjum degi af íbúum hverfisins hvort sem það eru börn með fullorðnum eða hundaeigendur. Fulltrúi Flokks fólksins sér að þarna er gott færi á að koma til móts við íbúa og íbúaráð vill að það verði athugað með formlegum hætti, umfram það sem gert hefur verið til þessa, álit íbúa á Hlíðarenda á að byggt verði á reit I. Þetta er sameiginlegt grænt svæði og líkur á að íbúar vilji halda í það til sameiginlegra afnota. Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að þetta verði gert.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir á gatnamótum Sægarða og Vatnagarða, ásamt fylgiskjölum. USK22020078
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2022, þar sem óskað er eftir staðfestingu á yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaganna vegna samræmingar úrgangsflokkunar, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og heilbrigðisráðs. USK22010136
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við sjáum fram á gjörbreytta úrgangsstjórnun á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að vel takist til þar sem betri flokkun og hreinni straumar draga svo um munar úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Bráðum verður því hægt að flokka lífræn efni, pappír, pappa, plastumbúðir og blandaðan úrgang við heimili. Þá verður grenndarstöðvakerfið styrkt, þétt og samræmt þar sem gleri verður safnað ásamt málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum. Með samræmingunni er stigið afar stórt skref í úrgangsstjórnun á höfuðborgarsvæðinu.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Byggja á eina sorpbrennslustöð fyrir landið allt og málið dautt. Það verkefni á fyrst og fremst að vera á vegum ríkisins í samvinnu við öll sveitarfélögin í landinu. Það er ófært að hvert sveitarfélag fyrir sig sé að búa til heimatilbúnar lausnir við förgun brennanlegs úrgangs. Þingmenn Miðflokksins hafa ítrekað lagt fram þessar hugmyndir í formi þingsályktunartillögu – sjá hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0086.html. Það er mikil þröngsýni að hún hafi ekki löngu verið samþykkt. Að auki þarf staðarval að vera vel ígrundað því við brennslu verður til orka sem nota má til húshitunar. Það er því einboðið að koma upp hátæknibrennslustöð sem þjónar öllu landinu á köldu svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að breyta úrgangssöfnun á höfuðborgarsvæðinu, en langan tíma hefur það tekið þennan meirihluta að kveikja á perunni. Að safna lífrænum úrgangi á myndunarstað er gömul saga hjá bæði sumum öðrum sveitarfélögum og nefna má ungmennaráð Kjalarness sem lagði fram tillögu um söfnun lífræns sorp sem hófst síðan sem tilraunaverkefni á Kjalarnesi. Svo fulltrúi Flokks fólksins segir bara loksins eins og fleiri sögðu á fundi samtaka sveitarfélaga í vikunni sem leið. Innleiðing mun örugglega ganga vel. Mörgum spurningum er þó ósvarað sem dæmi hvenær nothæf molta fæst úr GAJU. Reyndar hefur því verið svarað af starfsmanni SORPU á fundi sambandsins og svarið var „ég veit ekki“. Ekki hafa heldur fengist svör við hvort SORPA hafi kannað hvort ávinningur sé af því að bjóða út sorphirðu í þriggja tunnu kerfi. Benda má á að aðrir aðilar í sorphirðu hafa boðið það að plast og pappír geti verið í sömu tunnunni og þar með fækkað tunnum við heimili sem er sparnaður. Fjölgun íláta kostar sitt og fjöldi þeirra helst í hendur við hirðutíðni. Fleira er enn óljóst eins og t.d. að gert er ráð fyrir að sveitarfélögin skaffi pappírspoka undir lífúrgang en fyrirkomulag þess liggur ekki fyrir.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 10:05 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Þór Elís Pálsson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og byggingarréttar fyrir verslunar- og þjónustubyggingu við Álfabakka 6 í Reykjavík. MSS22020178
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar til Garðheima. Fyrir liggja áform um uppbyggingu íbúða lóðarhafa á reitnum þar sem Garðheimar eru nú og er það fagnaðarefni að þessi rótgróna verslun verði áfram í Breiðholtinu.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag við lóðarhafa vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á lóðunum Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3 á Ártúnshöfða og jafnframt lóðarvilyrði fyrir um 70.000 fermetra lóð innan skilgreinds athafnasvæðis við Esjumela, ásamt fylgiskjölum. MSS22020152
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða samkomulag við BM Vallá sem felur í sér annarsvegar lóðarvilyrði upp á 70.000 m2 á Esjumelum, hinsvegar er um að ræða samning um uppbyggingu á núverandi lóð fyrirtækisins, alls um 55.000 m2. Þetta er gríðarlega stórt skref sem tryggir áform borgarinnar um mikla uppbyggingu íbúða í Höfðunum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða athafnasvæði BM Vallár, hellusteypa o.fl. Þeir fara upp á Esjumela en fá að byggja hús á núverandi stað. Samningsdrögin minna á samningana við olíufélögin. Í drögunum er m.a. þetta: Fyrir byggingarrétt lóðarinnar greiðist markaðsvirði að mati tveggja óvilhallra löggiltra fasteignasala auk gatnagerðargjalda samkvæmt gjaldskrá við úthlutun. Lóðarvilyrði þetta er veitt án auglýsingar á lóðinni á grundvelli þess að verið er að liðka fyrir uppbyggingu á Ártúnshöfða. Vel má vera að BM Vallá hagnist á þessu og vanda þarf samninginn til að tryggja að borgin sé ekki að gefa frá sér mikil verðmæti.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 22. febrúar 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að stýrihópur sem greindi stöðuna á stjórnkerfisbreytingum Reykjavíkurborgar sem tóku gildi 1. júní 2019, fylgi eftir tillögum í minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Strategíu frá 31. janúar 2022 sem hafa að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti Reykjavíkurborgar enn frekar. MSS22010047
Greinargerð fylgir tillögunni
Frestað. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. febrúar 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi við Höfða Friðarsetur til tveggja ára um árlegt fjárframlag að upphæð 10 m.kr. og samþykki þar með áframhaldandi samstarf við Höfða Friðarsetur um þróun og rekstur samfélagshraðalsins Snjallræðis þar sem sjálfbærar lausnir fyrir umhverfi og samfélag eru í forgrunni. Kostnaðurinn verði færður af kostnaðarstað 09510. MSS22010171
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins telur að frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi sé einmitt best borgið í þeirri umgjörð sem lýst er í tillögu borgarstjóra um þátttöku í framkvæmd samfélagshraðalsins Snjallræðis. Það er nefnilega eðlilegt að hugmyndasmiðjum og tilraunastofum sé haldið á þeim forsendum sem tillagan lýsir. Eins og ljóst er hefur fulltrúi Flokks fólksins verið í rúmt ár að gagnrýna þær hugmynda- og tilraunavinnustofur sem starfræktar hafa verið í langan tíma á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Það er ekkert eðlilegt við það að almannafé hafi verið notað í endalausar tilraunir og hugmyndasmiðjur undir merkjum Gróðurhússins og annarra þróunarteyma sviðsins undanfarin ár án þess að sú vinna hafi skilað raunverulegum lausnum eða afurðum sem komnar væru í notkun. Hugmyndasmiðjur og tilraunastofur þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðast hafa haft þveröfug áhrif við það sem þeim hlýtur að hafa verið ætlað. Í stað þess að flýta innleiðingu lausna sem margar hverjar eru fyrir löngu tilbúnar, hafa mál verið að daga þar uppi. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að meirihlutinn í Reykjavík fari nú að opna augun smám saman og átta sig á því hvað eigi heima hvar varðandi þá stafrænu umbreytingu borgarinnar sem að öllu leyti er fjármögnuð beint úr vösum borgarbúa.
Fylgigögn
-
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 21. febrúar 2022, að viðaukum fyrir fjárhagsáætlun 2022. Greinargerðir fylgja tillögunum. Einnig lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs um jafnréttisskimun vegna viðaukanna. FAS22010035
Vísað til borgarstjórnar.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er ekki gott mál að mati fulltrúa Flokks fólksins. Aðalfundur SSH var haldinn 12. nóvember 2021. Þar var samþykkt að árgjaldið yrði hækkað í 139 kr. á hvern íbúa úr 116 kr. Þetta er nærri 20% hækkun, langt umfram verðbólgu. Hvaða hag hefur borgin af þessu? Hún er einn aðili af sex en borgar langmest. Eiga hin sveitarfélögin að ákveða að borgarbúar greiði háar fjárhæðir í enn eitt byggðasamlagið?
Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa stofnframlög vegna almennra íbúða til umsóknar til samræmis við auglýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlög. FAS22020002
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekkert hægt að sjá í þessu bréfi um hvaða upphæðir er að ræða. Stofnframlög eru t.d. til að setja af stað byggingar fyrir afmarkaða hópa, svo sem námsmenn, fyrstu kaupendur og aldraða.
Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tvo húsaleigusamninga um leigu á leikskólahúsnæði að Nauthólsvegi 81 og Eggertsgötu 35, ásamt fylgiskjölum. FAS22020042
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ævintýraborgir eru leikskólar í færanlegum einingum sem munu einkennast af skapandi og skemmtilegu leikskólastarfi. Ævintýraborgir eru hluti af verkefninu að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Plássum fjölgar og sífellt er borgin að bjóða yngri og yngri krökkum pláss í sínum hverfum. Ævintýraborgum, auk viðbygginga við leikskóla og nýrra leikskóla, er ætlað að mæta þeim fjölda barna sem munu ganga í leikskóla borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það vekur furðu hversu seint þessi úrræði sem eiga að hjálpa til við að leysa leikskólavandann koma fram. Fyrir hefur legið að fjölga þarf leikskólaplássum allt kjörtímabilið en lítið hefur áunnist í þeim efnum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sárlega vantar leikskólapláss. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar skemmtilegum og fjölbreyttum hugmyndum í leikskólaútfærslum. Leiga á húsnæði frá þriðja aðila fyrir leikskóla sem fengið hefur vinnuheitið Ævintýraborgir. Setja á saman hús, færanlegar einingar og leikskólarúta kemur við sögu. Mikil áhersla er á að þetta verði hin fínustu hús þótt fljótlegt sé að setja þau saman og taka niður ef því er að skipta. Vissulega er gott að hafa hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi í þessu sem öðru en hér er engu að síður verið að tala um vistarverur fyrir lítil börn. Ekki er meira sagt um leikskólarútur í þetta skipti. Slíkt fyrirkomulag finnst vissulega erlendis. Að aka með börn út í náttúruna þar sem þau dvelja yfir daginn í eins konar útileikskóla. Veðurfar hér á landi er eins og allir vita válynt svo kannski getur Reykjavíkurborg ekki borið sig beint saman við þau lönd sem skarta mildara veðurfari. Leigugjaldið er 3.602.126 kr. á mánuði sem er ærið. Er þetta í alvöru hagkvæmara en að hafa fyrirkomulagið upp á gamla mátann, þ.e. byggja gott húsnæði undir leikskóla? Við kostnað bætist gerð leikskólalóðar og lauss búnaðar sem samkvæmt frumkostnaðaráætlun er 65 m.kr. fyrir Eggertsgötu og 80 m.kr. fyrir Nauthólsveg.
Óli Jón Hertervig, Ólafur Brynjar Bjarkason og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 17. febrúar 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. janúar 2022 og 14. febrúar 2022 um íþróttastarf í Vogabyggð og Ártúnshöfða. MSS22020215
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan gengur út á að Þróttur og Ármann muni þjóna Vogabyggð og Ártúnshöfða og að félögin þjóni jafnframt Bryggjuhverfinu þegar skóli verður kominn í hverfið. Þá er lagt til að Ármann og Þróttur þjóni Laugardalshverfi sameiginlega hér eftir sem hingað til.
Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundinum undir þessum lið.
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 16. febrúar 2022, um kjarasamninga við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Félag íslenskra hljómlistarmanna, ásamt fylgiskjölum. MOS22020003
Fylgigögn
-
Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 6/2022. MSS22010040
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. febrúar 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lóðarleigusamninga Reykjavíkurborgar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. febrúar 2022. MSS22020058
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það sætir furðu að ekki sé hægt að taka til tölfræði yfir fjölda lóðarleigusamninga sem gerðir hafa verið um fasteignir í Reykjavíkurborg. Þessar tölur ættu að liggja fyrir. Þá eins og segir í svarinu er ekki vitað hversu margir af þeim samningum eru útrunnir. Nauðsynlegt er að fá að vitneskju um hvernig almennt er haldið utan um þessi mál stjórnsýslulega. Í svarinu segir að langflestar lóðir í Reykjavíkurborg séu í eigu „borgarinnar en einhverjar lóðir í elsta hluta borgarinnar, líkt og miðbæ, gamla vesturbæ eru í einkaeigu, en ekki er til tölfræði um skiptingu lóða.“ Svarið kemur til vegna þess að nýlegar voru gerðir samningar við olíufélögin þrjú um byggingarrétt á bensínstöðvum fyrir milljarð króna. Var það gert óháð því hvort viðkomandi bensínstöð væri með útrunninn lóðarleigusamning eða hvort langur leigutími væri eftir. Á sama tíma hefur Malbikunarstöðinni Höfða verið gert að skila atvinnulóð sinni í Reykjavík án endurgjalds og þurft auk þess að skila fasteignum sínum til borgarinnar án endurgjalds.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er rýrt svar að mati fulltrúa Flokks fólksins. Í raun er spurt um af hverju ekki var hægt að taka við lóðum bensínstöðvanna eins og gert var þegar Malbikunarstöðin Höfði skilaði lóð sinni. Borgarritari svarar aðeins framhaldsspurningum um fjölda samninga sem eru ekki aðalatriði. Stefnan skiptir meira máli en einstakir samningar. Samningar við olíufélögin voru afleikur.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistafokks Íslands um skattleysismörk fasteignagjalda, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. febrúar 2022. MSS22020060
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Málið er athyglisvert. Í fyrirspurn er þessi texti: „Fasteignagjöld eru 0,18% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Gjöldin leggjast á verðmæti eigna án tillits til skuldastöðu eigenda. Fólk sem á 20% í íbúðinni sinni greiðir t.a.m. það sama og þau sem eiga sína íbúð skuldlaust“. Þetta snýst því að hluta um hvort ekki megi skilgreina að nýju hver á hvað. Hver á eignina ef bankinn á 80% sem skuld en skráður eigandi 20%? Ætti skráður eigandi ekki bara að greiða fasteignagjöld af raunverulegri eign? En í svarinu kemur fram að þetta er mál löggjafans sem er rétt.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matarþjónustu í grunnskólum, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. MSS22020172
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hæfniskröfur til stjórnarsetu í fyrirtækjum Reykjavíkurborgar, sbr. 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021. MSS21120225
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Segir í svari að hvorki í sameignarsamningi Orkuveitur Reykjavíkur né öðrum samþykktum, sameignarfélagssamningi eða stofnsamningi sé gerð krafa um að einstaklingur leggi fram ferilskrá eða prófskírteini til þess að hann megi hljóta tilnefningu sem stjórnarmaður. Og einnig kemur fram að hafa skal að leiðarljósi að stjórnarmenn sem tilnefndir eru í stjórnir B-hluta fyrirtækja hafi til að bera reynslu og þekkingu í viðkomandi málaflokki. Hér er um tvöföld skilaboð að ræða. Eiga stjórnarmenn að hafa þekkingu eða ekki? En raunin er að hæfni er ekki krafist. Í engum tilfellum hafa stjórnarmenn, hinir pólitísku sem tilnefndir eru af meirihlutanum, þekkingu, sérstaka eða sértæka, sem styður við betri stjórnarhætti í þeim stjórnum sem þeir sitja. Engin nöfn skulu nefnd hér. Flokkur fólksins leggur til að hæfniskröfur þær sem OR gerir til sinna stjórnarmanna verði settar til grundvallar í öllum bs.-fyrirtækjum borgarinnar. Þær kröfur sem að OR gerir til sinna stjórnarmanna eru til eftirbreytni og borgarfulltrúar ættu að taka slíkt upp sem fyrirmynd í öllum fyrirtækjum og stjórnum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar SORPU bs., dags. 21. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðhaldskröfu á stjórnendur SORPU bs., sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022. MSS22010224
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Stjórnendur telja að þeir standi sig vel. Sömuleiðis að ráðningar sérfræðinga spari útgjöld. En af hverju þarf þá að hækka gjöldin verulega? Fullyrt er að hagræðing sé af byggðasamlögum, en þau eru ríki í ríkinu og hafa ekkert aðhald frá þeim sem eru í minnihluta sveitarfélaganna. Fullyrt er að ef ekki væri fyrir SORPU þá myndi hvert sveitarfélag þurfa að ráða til sín sérfræðinga og byggja upp innviði. Hefur ekki SORPA kallað á sérfræðinga? Voru það ekki sérfræðingar sem hönnuðu GAJU og hvar er hún stödd núna? Í svari er komið inn á hringrásarhagkerfi, sjálfbærni, úrgangsforvarnir o.fl. Engin raunveruleg dæmi eru tekin um bætta meðhöndlun og umfang þeirra verkefna né tekin dæmi um aðhaldsaðgerðir. Í hverju felst þá aðhaldið? Af hverju var ekki listað upp í svari hvaða störf og verkefni nýir starfsmenn voru ráðnir í? Einnig að fá útlistað hvaða umfangsmiklu breytingarverkefni þetta eru, a.m.k. þau allra stærstu. Þá er ljóst að SORPA hefur lagt í mislukkaðar fjárfestingar eins og GAJA stöð og keypt mikið af flokkunarvélum sem gjörbreytast við nýja flokkun úrgangs. Öll sú fjárfesting hlýtur því að hafa haft áhrif á rekstur SORPU og leitt til hækkana á gjaldskrá. Fortíðin er því ekki glæsileg.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 10. febrúar 2022. MSS22010006
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekki er verið að taka lægsta tilboð í ljósastýringarmálum í Reykjavík frekar en fyrri daginn. Verið er að hengja sig á óraunhæfar kröfur í útboðinu sem eiga ekkert erindi inn í slík útboð hér á landi. Gerð er krafa um stoppbúnað sem notaður er í kjarnorkuverum. Allt þetta snýr að því að Smith og Norland hf. haldi sinni stöðu á þeim einokunarmarkaði sem Reykjavíkurborg er búin að koma upp í ljósastýringarmálum. Hér er ekki verið að gæta að fjárhagshlið útboðsins því ekki var gengið að lægra tilboðinu sem var 56,75% undir kostnaðaráætlun. Á tilboðunum munar tæpum 8 milljónum sem er há upphæð af 30 milljóna innkaupum. Þetta útboð hefur nú verið kært til kærunefndar útboðsmála eins og önnur undanfarin útboð í ljósastýringum í Reykjavík. Hér er eitthvað mikið að.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 8. febrúar 2022. MSS22010026
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins vill hrósa starfsmönnum vetrarþjónustunnar sem sinna snjóhreinsuninni og færir þeim sínar bestu þakkir fyrir störf sín. Þessi vinna hlýtur að vera sérlega erfið. Það snjóar, rignir, frýs, snjóar meira, hlánar, frýs o.s.frv. Þetta hefur og er oft engin venjuleg tíð. Klakinn hleðst upp og má sjá fyrir sér að vélarnar ráði ekki við þetta. Þegar verst lætur hlýtur þetta að vera mikið álag á þessa starfsmenn og fjölskyldur þeirra enda hvorki spurt um hvort sé dagur eða nótt, virkur dagur eða rauður dagur. Ofan á þetta bætist eins og fram hefur komið í bréfi frá starfsmönnum sem sent var til allra borgarfulltrúa og í fréttum að eitthvað mikið er að í baklandinu á þessum vinnustað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um það mál, hverjir séu ábyrgir fyrir alvarlegu ástandi sem þarna ríkir. Einnig er því velt upp hvar mannauðsdeild borgarinnar er í öllu því máli. Minnt er á hlutverk mannauðsdeildar í málum sem þessum. Mannauðsdeild á að koma inn sem lausnarúrræði, stuðningsúrræði og taka utan um starfsfólkið, hlúa að því og hvetja. Hefur mannauðsdeildin gert það í þessu máli? Það er ótækt að starfsmenn búi við svo neikvæðar vinnuaðstæður í svo miklu álagsstarfi sem þessu.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. febrúar 2022. MSS22010027
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 10. febrúar 2022. MSS22010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. febrúar 2022. MSS22010032
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 23. febrúar 2022. MSS22010010
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar:
Tillögu Flokks fólksins um að sá sem sækir um leyfi til rekstrar af hvers lags tagi þurfi aðeins að hafa samband við einn aðila í borgarkerfinu, í stað margra, hefur verið vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. Rökin fyrir frávísun eru að heildstæð vinna standi þegar yfir við að einfalda ferla. Þetta hefur að mati Flokks fólksins gengið of hægt. Umsækjendur bera sig illa, segja að afgreiðsla gangi hægt og er flækjustig ferla mikið. Setja átti stafræna ferla fyrir þetta svið, sem og velferðarsvið og skóla- og frístundasvið, í forgang sem ekki var gert. Nú er þriðja árið runnið upp og þjónustu- og nýsköpunarsvið fær restina af 10 milljörðunum og enn vantar sárlega margar stafrænar lausnir á þessi svið. Sú umsögn sem hér er birt er gömul tugga. Tillagan stendur sterkt og getur lifað áfram enda um einfaldan og eðlilegan hlut að ræða, þ.e. að sá sem sækir um leyfi til rekstrar af hvers lags tagi þurfi aðeins að hafa samband við einn aðila í borgarkerfinu, í stað margra. Nýjustu tíðindi af vettvangi er að umsagnarferli taki langan tíma, mun meira en 45 daga eins og fram kemur á heimasíðunni.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 24. janúar 2022. MSS22010017
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 28. janúar 2022. MSS22010019
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Undir liðnum fjárhagsáætlun Strætó 2022, endurskoðuð áætlun, kemur fram að framkvæmdastjóri hafi farið yfir drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun í ljósi þjóðhagsspár sem gefin var út í nóvember 2021, eftir samþykkt fjárhagsáætlunar Strætó 2022-2025. Í ljósi breyttra forsenda frá gildandi þjóðhagsspá við gerð fjárhagsáætlunar áætla stjórnendur að rekstrargjöld Strætó muni aukast um 120 m.kr. á árinu 2022 frá samþykktri fjárhagsáætlun. Stjórn felur stjórnendum félagsins að útfæra mótvægisaðgerðir í rekstri, þ. á m. verði skoðaðar leiðir til að fella niður/breyta síðustu ferðum innan dagsins, þannig að ekki þurfi að koma til hækkunar fjárframlaga vegna breyttrar þjóðhagsspár umfram það sem gert er ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun Strætó. Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á mikilvægi þess að Strætó verði tryggð nægilegt fjárframlag þannig að ekki komi til skerðingar á þjónustu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Kynntar eru niðurstöður farþegatalninga fyrir árið 2021. Heildarfjöldi innstiga árið 2021 var tæp 9,5 milljón innstig og hafði fjölgað um tæp 8% frá árinu 2020. Fjöldi innstiga 2021 var um 80% af fjölda innstiga 2019 sem var síðasta heila árið fyrir COVID. Þegar talað er um innstig er þá verið að tala um hversu oft er stigið upp í vagninn. Þetta hefur verið margsinnis rætt og spurt um fjölda farþega en ekki innstiga en svör Strætó bs. fela ávallt í sér upplýsingar um fjölda innstiga í Strætó en ekki fjölda farþega.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 7. febrúar 2022. MSS22010024
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 29. desember 2021. MSS21120160
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 4. janúar, 17. janúar og 28. janúar 2022. MSS22010014
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:
Liður 7 í fundargerð Slökkviliðsins 28. janúar. Samningaviðræður um sjúkraflutninga. Undir þessum lið er gerð grein fyrir stöðu mála í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þessi mál í sambandi við það hvernig eigi að tryggja að starfsmenn slökkviliðs séu ekki meira og minna uppteknir við verktöku og hvort ekki væri tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Reynt hefur veri að rökstyðja þetta fyrirkomulag með því að hægt sé að kalla út marga slökkviliðsmenn. Er það ekki rétt að sumir starfsmenn eru sérhæfðir sjúkraflutningamenn? Sérhæfing þarf að vera og taka þarf mið af því. Viðbragð í slökkviþættinum getur verið takmarkað á sama tíma og álag er á sjúkraflutningum, sem getur kostað mannslíf. Þetta eru tvö aðskilin mikilvæg störf og sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn sem þurfa að getað viðhaldið þekkingu sinni.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. MSS220100324
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22010336
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Hefur verið skoðað að greiða álagsgreiðslur til starfsfólks hjá SHS (Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu) á tímum COVID vegna álags sem hefur verið á starfsfólki að undanförnu? Ef það stendur ekki til að gera slíkt, hver eru rökin fyrir því? MSS22020234
Vísað til umsagnar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Stendur til að greiða framlínustarfsfólki sem starfar í leik- og grunnskólum álagsgreiðslur vegna COVID? Ef það stendur ekki til að gera slíkt, hver eru rökin fyrir því? MSS22020235
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
1. Hvað hefur Reykjavíkurborg/borgarsjóður greitt í vexti af skuldum og skuldbindingum sínum á árunum 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021 tæmandi talið?
2. Hverjar eru áætlaðar vaxtagreiðslur á árunum 2022, 2023, 2024, 2025 og 2026 standist lántökuáætlun upp á 92 milljarða?
3. Hvað hefur samstæða Reykjavíkurborgar greitt í vexti af skuldum og skuldbindingum sínum á árunum 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021 tæmandi talið? MSS22020256Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir að borgarráð fái afrit af fyrirspurnarbréfi frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (tilvísun: SRN21010025/4.11.3) til fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar vegna uppgjörsreglna Félagsbústaða. MSS22020258
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir að borgarráð fái öll bréfasamskipti innviðaráðuneytisins (áður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) til ESA og frá ESA vegna uppgjörsreglna Félagsbústaða. Verið er að vísa í þessa umfjöllun: https://www.vb.is/frettir/70-milljarda-bokhaldsvilla/173072/. Nú þegar liggur inni ósk um að fá svar ráðuneytisins að fá afrit að svarbréfinu til ESA en það hefur ekki borist. MSS22020260
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir yfirliti yfir ósvaraðar fyrirspurnir frá borgarfulltrúa Miðflokksins sem lagðar hafa verið fyrir á borgarráðsfundum. MSS22020261
Vísað til meðferðar skrifstofu borgarstjórnar.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Á fundi innkauparáðs 10. febrúar sl. var samþykkt að kaupa hugbúnaðarlausn fyrir mannauðs- og starfsumverfissvið sem nefnist „starfsumsóknarkerfi fyrir Reykjavíkurborg“ að upphæð tæpar 450 milljónir. 1. Eru þessi kaup fjármögnuð af liðnum ófyrirséð, 10 milljarða verkefninu um stafræna Reykjavík eða á einhvern annan hátt? 2. Hvernig er starfsumsóknarkerfi mannauðs- og starfsumhverfiskerfi sviðsins í dag? 3. Nú voru ráðnir rúmlega 60 starfsmenn á þjónustu- og nýsköpunarsvið til að sinna tæknilausnum vegna 10 milljarða verkefnisins, gátu þessir starfsmenn ekki sinnt þessu? MSS22020262
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um nýjustu tölur um sérkennslu. Hvað eru mörg börn í sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur? Hvað eru mörg börn á biðlista eftir að komast í sérkennslu og hvernig dreifast umsóknir eftir hverfum? MSS22020236
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hve mörg tilfelli hafa verið tilkynnt til Barnaverndar sem tengjast skólasókn nemenda (skólaforðunarmál), þ.m.t. leyfin. MSS22020237
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Á fundi skóla- og frístundaráðs með foreldrafélögum Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Hlíðaskóla sem haldinn var 10. febrúar 2022 kom fram í máli sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ekki sé enn búið að gera sementsrannsóknir á Vörðuskóla til að fullvissa sig um að hægt sé að bjarga húsnæðinu. Í máli hans kom fram að slíkar rannsóknir hefðu verið gerðar bæði á Kársnesskóla og Fossvogsskóla. Sýnin úr Kársnesskóla sýndu að mygla var komin í sementið og þess vegna var ákveðið að rífa skólann, en mygla var ekki komin í sementið í Fossvogsskóla og þess vegna talið að bjarga eigi húsnæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um rannsóknir sem sýna að mygla sé komin í sementið. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé góð ráðstöfun á almannafé að fara í viðgerðir á Vörðuskóla þegar ekki liggur fyrir hvort yfir höfuð sé hægt að uppræta myglu og bjarga húsnæðinu. MSS22020238
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í Vestmannaeyjum er verkefni í gangi sem heitir Kveikjum neistann! Verkefninu er ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skóla- og frístundasvið hafi skoðað þetta verkefni með tilliti til mögulegrar innleiðingar á því í grunnskólum Reykjavíkur. Markmið verkefnisins er sannarlega metnaðarfullt. MSS22020239
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar að beita sér fyrir því að konur fái aftur gamla búningsklefann sinn og aðstöðu nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið. Eftir endurgerð Sundhallarinnar hafa konur ekki fengið aftur gamla búningsklefann óski þær þess nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið. Vegna rysjótts veðurfars undanfarnar vikur keyrir nú um þverbak og þarf mikið þrek og harðfylgi fyrir eldri konur og skólastúlkur að stunda sund og sundleikfimi í Sundhöll Reykjavíkur í slíku veðurfari. Þetta er lýðheilsumál sem lýtur að einhverju leyti að jafnrétti, þar sem karlar þurfa ekki að þola þetta harðræði. Það er ekki hægt að horfa upp á að konum og stúlkum sé ætlað að ganga langa leið frá klefa út í laug í blautum sundfötum í slæmum veðrum. MSS22020255
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.
Fundi slitið klukkan 11:34
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2402.pdf