Borgarráð - Fundur nr. 5653

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 27. janúar, var haldinn 5653. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og hófst kl. 09:04. Eftirtaldir borgarráðsfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn tóku sæti á fundinum: Þorsteinn Gunnarsson, Theodór Kjartansson, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2022:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 400 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,88%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 304 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 860 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,00%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, en það eru 831 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 26. janúar 2022. FAS22010057

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áætlað er að taka 25 milljarða lán á árinu 2022 og er það er afleit staðreynd þar sem ytri aðstæður til lántöku eru afar óhagstæðar og Reykjavíkurborg nýtur alltaf verri og verri kjara í útboðum sem þýðir að borgin er sífellt verri og verri skuldari. Áætlað er að skuldir borgarsjóðs í árslok 2022 verði 173 milljarðar og að samstæðan skuldi 423 milljarða.

    Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 24. janúar 2022, um leiðréttingu á sjóðstreymi í fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. FAS21120064
    Vísað til borgarstjórnar. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. janúar 2022, um tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2023-2027, ásamt fylgiskjölum. FAS22010020

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2022, ásamt fylgiskjölum. Greinargerðir fylgja tillögunum. FAS22010035
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í dag er 27. janúar. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var samþykkt í borgarstjórn 7. desember 2021. Árið er tæpast byrjað og þá er farið að ganga á liðinn „ófyrirséð“ með viðaukum við fjárhagsáætlun upp á tæpar 600 milljónir. Liðurinn ófyrirséð í fjárhagsáætlun 2022 er 3,8 milljarðar. Hann lækkar því sem því nemur niður í 3,2 milljarða. Ef fram heldur sem horfir hefur borgin lítið borð fyrir báru í rekstri borgarinnar. Að auki á lántaka ársins að vera 25 milljarðar og áætlað er að í árslok skuldi borgin 173 milljarða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður það og fagnar því að auka eigi fjárheimildir til velferðarsviðs. Hækka á fjárheimildir velferðarsviðs um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga. Áður var búið að hækka þær um 40 milljónir. Að mati fulltrúa Flokks fólksins er þetta ekki há upphæð og mun ekki einu sinni duga til að taka obbann af biðlistakúfnum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svo sérkennilegt að horfa upp á hversu grannt er horft í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna á meðan milljarðar streyma á svið sem dundar sér við tilraunir á stafrænum lausnum, sumum hverjum sem engin nauðsyn er á einmitt nú. Staðan er þannig núna að það bíða 1680 börn eftir aðstoð fagfólks skóla og hefur sú tala ekki hreyfst í marga mánuði. Ekki sér högg á vatni.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2022, um tillögur starfshóps um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal, ásamt fylgiskjölum. MSS22010250
    Samþykkt að vísa tillögum starfshópsins til umsagnar skipulags- og samgönguráðs, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og íbúaráðs Laugardals, auk þess sem þær verða kynntar á opnum íbúafundi borgarstjóra.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á umliðnum árum hafa komið fram fjölmargar hugmyndir um uppbyggingu í Laugardal, einkum í þágu íþrótta. Einnig hefur verið kallað eftir heildarsýn og heildarskipulagi fyrir dalinn. Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu núverandi skipulags, fyrirkomulagi umferðar og áformum um að þjóna svæðinu vel með hágæða almenningssamgöngum, borgarlínu. Það sem ávarpað var í vinnunni voru umferðarmál, aukin græn svæði og almenningsrými, heildstætt göngustígakerfi, nýir gervigrasvellir og íþróttahús fyrir Þrótt og Ármann. Þá er umhverfi Laugardalslaugar á leið í hugmyndasamkeppni, uppbygging fræðsluhúss í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, viðbyggingarmöguleikar við Skautahöllina og gert ráð fyrir nýju tennishúsi við hús TBR. Næstu skref er að senda þessar hugmyndir til umfjöllunar skipulags- og samgönguráðs, menningar- íþrótta,- og tómstundaráðs, íbúaráðs Laugardals og verði þær jafnframt kynntar á íbúafundi borgarstjóra í Laugardalnum.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru reifaðar hugmyndir um íþróttauppbyggingu í Laugardal sem full þörf er á að séu til lykta leidd. Í skjalinu er jafnframt farið inn á skipulags- og samgöngumál. Ekki er um fullmótaðar tillögur að ræða og því ekki hægt að samþykkja þær eins og málið er reifað. Mikilvægt er að fallið verði alfarið frá áformum um íbúðablokkir í Laugardal og dalurinn fái að vera griðarstaður íþrótta og útivistar um ókomna tíð. Laugardalurinn á að fá að vera í friði og njóta verndar fyrir þá starfsemi sem honum er ætlað. Ekki má með neinum hætti þrengja að Laugardalnum með blokkarbyggð eða óskyldri atvinnustarfsemi. Þá er brýnt að tryggja gott aðgengi að dalnum með góðum samgöngum fyrir alla fararmáta og forðast að þrengja þannig að umferð að hún fari í auknum mæli inn í íbúðahverfi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ég styð alla íþróttauppbyggingu í Reykjavík. Laugardalurinn er eitt af flaggskipum borgarinnar hvað varðar græn svæði. Það er afleitt að blanda saman íþróttauppbyggingu, umræðu um græn svæði og samgöngumál. Hér er verið að kynna stórfellda uppbyggingu við Suðurlandsbraut vegna borgarlínu á kostnað Laugardalsins. Orðrétt segir í tillögunni: „Í tillögunum er mælt með því að endurskoða áform um uppbyggingu samfelldrar byggðar meðfram Suðurlandsbraut og bent á að hún geti farið vel á völdum afmörkuðum stöðum, s.s. við stöðvar borgarlínu.“ Hér er verið að stilla öllum upp við vegg. Loka á Engjavegi fyrir umferð sem þýðir það eitt að umferðin fer út í hverfin sem liggja að vellinum. Boðað er að taka eigi akreinar af Suðurlandsbrautinni vegna borgarlínu. Svæðið verður ein umferðarstappa. Ég mótmæli því harðlega að þessi mál séu sett fram sem sama tillagan sem hælkrókur á alla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Starfshópur hefur skilað af sér skýrslu um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardalnum. Eftir því er tekið að íbúar hafa ekki átt fulltrúa í þessum hópi sem ætti að vera aðalatriðið. Hér er verið að díla og víla um hvernig umhverfi á að vera þar sem margt fólk býr og hefðu fulltrúar íbúa átt að vera með frá byrjun. Öll vitum við hvernig samráðsmálin hafa gengið í borginni á kjörtímabilinu og hvernig meirihlutinn virðist leggja allt annan skilning í það hugtak en borgarbúinn. Ef horft er á hugmyndir hópsins er sýnt að ganga á nokkuð á græn svæði í dalnum og bílastæðum er fækkað verulega. Það mun útiloka stóran hóp fólks frá því að heimsækja dalinn. Fólk mun einnig leggja meira bílum sínum í nærliggjandi götur. Aðgengismálin eru almennt erfið, t.d. þrengsl í aðkomu að Grasagarðinum. Ýmist er talað um að taka reiti undir græn svæði að setja græn svæði undir byggingar. Það er ekki bæði haldið og sleppt, auka græn rými og byggja plássfrekar byggingar. Komið er inn á endurbætur stúkunnar en hún er mjög lítið notuð.

    Björn Axelsson og Ómar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir allt að 115 íbúðir við Gjúkabryggju 6. MSS21120306
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað viðræðunefndar Reykjavíkurborgar og Hjallastefnunnar, dags. 25. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS22010273

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er fram minnisblað viðræðunefndar Reykjavíkur og Hjallastefnunnar. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki af hverju málið er trúnaðarmerkt. Í svona máli, þar sem verið er að leita lausna sem allir þurfa að geta sæst á, skiptir máli að vinnsla sé gegnsæ og ferlið opið. Ekki kann góðri lukku að stýra að hafa mikla leynd yfir samningum við sjálfstætt starfandi skóla. Það skapar aðeins tortryggni. Hjallastefnan er frábær stefna og hefur komið með afar jákvætt innlegg inn í hugmyndafræði og stefnur menntamála. Engum blöðum er um það að fletta að langflestir vilja hlúa að Hjallastefnunni og tryggja öryggi og tilvist hennar sem best til framtíðar. Óvissa er aldrei góð og mjög óþægileg tilhugsun fyrir börn og foreldra þeirra ef málið fær ekki farsæla lausn til lengri tíma.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. janúar 2022: 

    Lagt er til við borgarráð að skipaður verði starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar sem fái það verkefni að móta drög að stefnu og tillögum um aðkomu Reykjavíkurborgar þegar kemur að sjálfstætt starfandi leikskólum og grunnskólum þar sem horft verði til þjónustusamninga, framlaga, húsnæðismála, stofnstyrkja, leigusamninga sem og annarra þátta sem máli kunna að skipta í þessu samhengi. MSS22010269

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir liggur að sjálfstætt starfandi leikskólar og grunnskólar hafa leitað til Reykjavíkurborgar með formleg erindi um aukna kostnaðarþátttöku borgarinnar í byggingu skólahúsnæðis, um aukið fjárframlag miðað við gildandi þjónustusamninga og um framtíð einstakra grunn- og leikskóla. Þess vegna er mikilvægt að Reykjavíkurborg móti sér stefnu um heildstæða nálgun um starfsemi sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Hér er því lagt til að skipaður verði starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar sem fái það verkefni að móta drög að stefnu og tillögum um aðkomu Reykjavíkurborgar þegar kemur að sjálfstætt starfandi leikskólum og grunnskólum þar sem horft verði til þjónustusamninga, framlaga, húsnæðismála, stofnstyrkja, leigusamninga sem og annarra þátta sem máli kunna að skipta í þessu samhengi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka þá afstöðu Sjálfstæðisflokks að styðja eigi betur við sjálfstætt starfandi skóla í borginni, þannig að jöfn opinber framlög fylgi öllum börnum í skólakerfinu, óháð rekstrarformi skólanna sem þau sækja. Þannig gætu sjálfstætt starfandi skólar látið hjá líða að innheimta skólagjöld svo öll börn ættu jöfn tækifæri á að sækja skólana, óháð efnahag foreldra.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022:

    Lagt er til að borgarráð heimili viðræðunefnd Reykjavíkurborgar að gera drög að samningi við Hjallastefnuna, með fyrirvara um samþykkt borgaráðs, sem felur í sér tímabundna lækkun leigugreiðslna til að koma í veg fyrir að rof verði á starfsemi skólasamfélagsins í Öskjuhlíð. Heimildin gildi að hámarki til þriggja ára. Jafnframt er lagt til að borgarráð heimili viðræðunefnd Reykjavíkurborgar og Hjallastefnunnar að vinna tillögu að framtíðarlausn um húsnæðismál Hjallastefnunnar sem tekur m.a. mið af minnisblaði viðræðunefndar um uppbyggingu skólastarfs í Öskjuhlíðinni og vinnu starfshóps um sjálfstætt starfandi leikskóla og grunnskóla í Reykjavíkurborg. MSS22010272

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna tillögunni enda hefur Barnaskóli Hjallastefnunnar gefið góða raun fyrir nemendur sína og fjölskyldur þeirra í borginni. Ítreka fulltrúarnir þá afstöðu Sjálfstæðisflokks að styðja eigi betur við sjálfstætt starfandi skóla í borginni, þannig að jöfn opinber framlög fylgi öllum börnum í skólakerfinu, óháð rekstrarformi skólanna sem þau sækja. Þannig gætu sjálfstætt starfandi skólar látið hjá líða að innheimta skólagjöld svo öll börn ættu jöfn tækifæri á að sækja skólana, óháð efnahag foreldra. Jafnframt skora fulltrúar Sjálfstæðisflokks á meirihlutaflokkana að klára lóðamál með Hjallastefnunni, ásamt tilheyrandi stuðningi við flutning skólahúsnæðis, án tafar svo skólahald geti haldið áfram óraskað næstu ár.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins er kunnugt um að viðræður hafa verið í gangi og tekur undir ákall foreldra um að nú verði tryggð langtímalausn um skólasamfélag í Öskjuhlíðinni með Sólborg, Brúarskóla og Klettaskóla. Fyrir liggur hagkvæm lausn fyrir borgina samhliða þéttingu byggðar eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Vandinn er sá að tíminn líður og eftir margra mánaða viðræður þarf að fara að sjást til sólar. Bráðabirgðalausn tekur mikið á skólasamfélagið. Tryggja þarf lausn til framtíðar. Við blasir óvissa fyrir börnin og foreldra um hvort náist að tryggja skólavist. Þetta er óviðunandi staða.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram erindi Landakotsskóla, dags. 6. janúar 2022, varðandi stuðning Reykjavíkurborgar við alþjóðlegt nám. MSS22010271
    Vísað til meðferðar starfshóps um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leikskólum og grunnskólum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Landakotsskóli er í brýnni húsnæðisþörf þar sem nemendafjöldi hefur vaxið umfram húsnæðiskost með tilkomu alþjóðlegrar deildar. Mikil eftirspurn er eftir að stunda nám við skólann bæði í almennri grunnskóladeild og alþjóðadeild skólans. Búast má við að með aukinni þéttingu og íbúafjölgun vestast í Vesturbænum muni ásóknin verða enn meiri. Ekki er ráðgert að byggja nýjan skóla á þessu svæði þrátt fyrir mikla uppbyggingu og íbúafjölgun  á svæðinu og þá mun Landakotsskóli vera mikilvægur kostur til að taka á móti nýjum nemendum. Brýnt er að brugðist verði hratt við fyrirspurn skólans um viðbyggingu við skólann svo hann geti mætt þörf fyrir fjölgun nemenda.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022, þar sem félagshagfræðileg greining á Sundabraut er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. USK22010109

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og samgönguráðherra sl. sumar komst Sundabrautarmálið í traustan og góðan farveg. Félagshagfræðilega greiningin sem nú liggur fyrir er mikilvægur áfangi en segja má að samkvæmt henni sé minni munur á þeim kostum sem hafa verið til skoðunar, Sundabraut á brú og Sundabraut í göngum, en áður. Í samræmi við samkomulagið eru næstu skref þau að vinna ítarlegt umhverfismat þar sem báðir þessir kostir verða bornir saman við núll-kost. Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði við endanlegt leiðarval. Við útfærslu beggja leiða verða allir umhverfisþættir og mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi sérstaklega skoðuð. Þá liggur einnig fyrir að hagsmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina ásamt hafnarstarfsemi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þjóðhagslegur ábati Sundabrautar er metinn allt að 236 milljarðar og því vandfundinn betri kostur í samgöngum. Til samanburðar er þetta tífaldur ábati á við borgarlínu eins og hann var metinn í félagshagfræðilegri greiningu COWI og Mannvits sem byggðist líka á Teresa greiningu. Lagning Sundabrautar hefur tafist allt of lengi vegna ákvarðana Reykjavíkurborgar. Þessi úttekt sýnir glöggt að ekki er eftir neinu að bíða nema ákvörðun um að flýta hönnun, samráði, umhverfismati og framkvæmdum svo fljótt sem verða má.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er afar ánægjulegt að eitt af aðalkosningamálum Miðflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum sé nú að komast til framkvæmda. Úttektin er frábær og sýnir allt að 200 milljarða þjóðhagslegan ábata. Sundabraut var lítið rædd í kosningabaráttunni enda hefur borgarstjóri unnið á móti henni síðan hann komst til valda. Fyrir rúmum 20 árum lofaði þáverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, því að Sundabraut myndi koma innan tveggja ára því brautin væri forsenda sameiningar Reykjavíkur og Kjalarness. Við þurfum enn að bíða í 11 ár samkvæmt skýrslunni. Þetta er lengsta loforð sem gefið hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu og spannar rúma þrjá áratugi og lýsir fullkomnum svikum. Það sem óttast þarf nú er að samgönguráðherra (Framsóknarflokkur) og borgarstjóri (Samfylking) séu að slá pólitísk loforð því borgarstjórnarkosningar eru í vor. Sérstaklega er varað við loforðum borgarstjóra í málinu því hann hefur alla tíð unnið á móti Sundabraut. Enda hefur það komið í ljós að hann er strax farinn að þvæla málið á alla kanta eftir að skýrslan kom út. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sundabraut skoðast sem þjóðhagslega mjög hagkvæmt verkefni. Það er því ekki seinna vænna að ráðast í framkvæmdina. Borgin þarf að ákvarða legu hennar sem fyrst því að án slíkrar ákvörðunar verða önnur skipulagsmál erfiðari. Gjaldtakan er svo annað mál. Fulltrúi Flokks fólksins mælir með að horft verði til þess sem FÍB leggur til sem er að þeir sem noti allt vegakerfi landsins mest greiði fyrir það en ekki sé greitt fyrir einstaka leggi. Að rukka fyrir einstakan bút á stað eins og þessum er ekki sanngjarnt. Fólk, sama í hvernig efnahagsástandi það er, þarf líka að geta komist leiðar sinnar. Það eru engin veggjöld úti á landi nema í Vaðlaheiðargöng. Allt annað er frítt eins og staðan er nú. Það er ekki hægt að taka einn bút og rukka fyrir hann og aðrir vegir eru fríir. Sundabrautin er bara brot af vegakerfinu.

    Guðmundur Valur Guðmundsson og Guðbjörg Lilja Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að leigusamningi um leigu á þjónusturými við Sléttuveg 11-13, ásamt fylgiskjölum. FAS22010072
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga frá sölu á Gufunesvegi 19, ásamt fylgiskjölum. FAS22010073
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga frá sölu á Gufunesvegi 21, ásamt fylgiskjölum. FAS22010074
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga frá samkomulagi um aðkomu að borgarlandi að Jöfursbás 5 og 7 til að nýta sem björgunarsvæði og aðkomu að djúpgámum, ásamt fylgiskjölum. FAS22010075
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 24. janúar 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs þann 19. janúar 2022 á tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS22010262

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn leggur til að velferðarráð samþykki að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu og aðstoð vegna barna hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta afar nánasarlegar hækkanir, nokkrir þúsundkallar. Þegar verðbólga mælist í kringum 5% er þetta í raun skerðing milli ára. Hægt er að gera mun betur hér. Ljóst er að endurskoða þarf fjárhagsrammann til að hægt sé að breyta forsendum og hækka aðstoðina þannig að hægt sé að lifa af henni. Öll vitum við að fæstir í þessum hópi ná endum saman. Framundan eru miklar verðhækkanir á mat og verðbólga hefur aukist. Það þarf að taka með í reikninginn.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 24. janúar 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs þann 19. janúar 2022 á tillögu að breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. MSS22010265
    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er enn talsverður galli á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem lýtur að réttlæti og sanngirni og ekki síst jafnræði. Réttur til félagslegrar þjónustu myndast um leið og íbúi er með lögheimili í sveitarfélaginu. Það er ekki krafa að hafa dvalið í a.m.k. 12 mánuði í Reykjavík til að eiga rétt á því að sækja um félagslegt húsnæði og til að komast á biðlista. Breyta þarf matsviðmiðinu. Fólk sem hér um ræðir er oft í miklum vandræðum með húsnæði og hefur orðið að flytja eða búa utan borgar kannski vegna þess að þar fékk það skjól um tíma. Þeir sem hafa verið svo heppnir að hafa búið í Reykjavík fá aukastig. Fólk sækir ekki um nema það sé í mikilli neyð. Auka þarf sárlega framboð af félagslegu húsnæði enn meira en gert hefur verið til að leysa þennan vanda.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samstarfssamning sveitarfélaga um rekstur Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins með vísan til hjálagðs bréfs Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2022. MSS22010259

    Samþykkt. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 22. janúar 2022, um málaferli Reykjavíkur. MSS22010246

  20. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 20. janúar 2022, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. desember 2021 um styrkveitingar ráðsins árið 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS22010232

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun á málefnum SORPU bs., sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022. MSS22010235
    Tillagan er felld.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að málefni SORPU verði endurskoðuð þannig að valinn sé aðili í stjórn sem hefur til þess bæra sérmenntun, þekkingu og skilning á verkefnum fyrirtækisins. Tillagan er felld. Í SORPU hefur verið gerð röð mistaka sem mögulega er hægt að setja á reikning meints þekkingarleysis stjórnarmanna. Miklum fjármunum hefur verið sóað. Nýlega var SORPA dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 m.kr. vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi, GAJU. GAJA er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána fram úr hófi til að mæta dýrkeyptum mistökum. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu, þekkingu eða skilning á þessum málum. Hægt er að reka borgina og byggðasamlög sem hún er stærsti eigandinn að betur. Það er eins og það gleymist að verið er að sýsla með skattfé borgarbúa. Flokkur fólksins lagði til að leitað yrði ráðgjafar vegna reksturs borgarinnar og SORPU núverandi meirihluti hefur hafnað því. Sú tillaga var felld. Meirihlutinn hefur einfaldlega stungið hausnum í sandinn eins og strúturinn og neitar að horfast í augu við staðreyndir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mörg afdrifarík mistök hafa verið gerð í rekstri og í fjárfestingum SORPU sem er í meirihluta eigu Reykjavíkurborgar. Margir hafa komið að þessum málum og bera ábyrgð á þeim. Það væri ósanngjarnt að draga einn fulltrúa borgarinnar til ábyrgðar og gera afturvirkar hæfniskröfur sem ekki er að finna í reglum borgarinnar. Af þessum sökum er ekki rétt að samþykkja þessa tillögu.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að draga úr kostnaði við veitingar á fundum, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2022. MSS22010236
    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skoðaðar yrðu leiðir til að draga úr kostnaði við veitingar á fundum borgarráðs og borgarstjórnar með því t.d. að láta morgunmat í borgarráði duga þótt fundir fari fram yfir hádegi og að gera nákvæmri talningu á hverjir borða í borgarráði og borgarstjórn til að minnka afganga og þar með draga úr matarsóun. Gróflega má sjá í opnu bókhaldi að greiðslur til Múlakaffis sem annaðist þjónustuna 2021 að kostnaður er u.þ.b. 10 til 15 milljónir á mánuði sem deilast niður á ólíkar starfseiningar. Tillögunni er vísað frá og í umsögn um hana segir að ákvarðanir um veitingar séu í höndum formanns borgarráðs ásamt starfsmönnum ráðsins. Ennfremur segir að sá hluti tillögunnar sem á við um borgarstjórn eigi ekki heima í borgarráði heldur í forsætisnefnd. Fulltrúi Flokks fólksins mun því leggja sambærilega tillögu fram um veitingar í borgarstjórn á næsta fundi forsætisnefndar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákvarðanir varðandi veitingar á fundum ráða og nefnda teljast hluti af hefðbundnum undirbúningi funda og eru að jafnaði í höndum formanna ásamt starfsmönnum ráðanna. Á vettvangi borgarráðs hefur verið miðað við áætlaða lengd funda og eru mörg atriði í tillögunni sem eru nú þegar hafðar til viðmiðunar þegar magn veitinga er ákveðið. Það hefur einnig jafnt og þétt dregið úr kostnaði við veitingar á fundum borgarráðs allt kjörtímabilið, bæði vegna fjarfundaheimilda en einnig vegna þess að fundir hafa styst að meðaltali og er oft lokið fyrir hádegi. Einnig má benda á að það er nú þegar vel haldið utan um talningu á því hversu margir mæta á staðfundi borgarráðs og mikið hefur dregið úr matarsóun. Í ljósi þess er ekki talin þörf á formlegri aðkomu borgarráðs við að ákveða magn veitinga á hverjum fundi fyrir sig.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 10. janúar 2022. MSS22010022

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 13. janúar 2022. MSS22010006

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 17. janúar 2022. MSS22010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst það hljóta að vera góð hugmynd að setja verslun upp á svæði Bauhaus og er hvatt til þess að fá álit íbúanna í hverfinu. Sé vilji til þess hvetur fulltrúi Flokks fólksins borgina til að beita sér í málinu. Fleiri verslanir þurfa að koma í Úlfarsárdal, einhverjar sem eru staðsettar þannig að þær séu í göngu- eða hjólafæri fyrir sem flesta. Nú er þetta hverfi um 15 ára og var lofað að það yrði fljótt sjálfbært. Það loforð hefur ekki verið efnt. Í hverfinu er ekki ein einasta matvöruverslun, hvað þá veitingastaður.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 13. janúar 2022. MSS22010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillöguna um að setja upp öryggismyndavélar á Kjalarnesi og að þær verði settar upp í samráði við íbúa og lögreglu sem bæri ábyrgð á framkvæmdinni og upptökunum. Þær hafa óumdeilanlega skapað fælingarmátt gegn afbrotum og skipta oft sköpum við að upplýsa afbrot og auka öryggi borgaranna á margvíslegan annan hátt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig verið talsmaður þess að settar verði myndavélar upp á leiksvæðum barna og lagt fram tillögur þess efnis í borgarstjórn sem var hafnað. Börn verða að geta verið örugg á svæðum sem þeim er ætlað að leika sér á.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 17. janúar 2022. MSS22010023

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Á fundi mannréttindaráðs 11. nóvember sl. gerði fulltrúi Flokks fólksins athugasemd við umsögn um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi vegna þess að ekki var minnst einu orði á einelti í aðgerðaáætluninni en einelti er ein birtingarmynd af ofbeldis. Í kjölfarið var ákveðið að bæta við eftirfarandi: „Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis og mikilvægt er að ávarpa það í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar og leggja til að eineltisáætlanir séu uppfærðar og aðgengilegar og með þeim sé virkt eftirlit.“ Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum breytingum og að vel hafi verið tekið í þessa ábendingu fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  28. Lagðar fram fundargerðir samstarfshóps um málefni miðborgar frá 27. apríl, 6. október og 30. nóvember 2021. MSS21120163

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 30. nóvember: 

    Meirihlutinn leggur fram niðurstöður árlegrar skoðunarkönnunar um viðhorf til göngugatna. Þótt almennur stuðningur sé við göngugötur kemur fram að andstaðan er mest í úthverfum. Gera má því skóna að það tengist m.a. slökum almenningssamgöngum, að ekki sé auðvelt að komast á þessar göngugötur nema á bíl og erfitt sé að finna honum stæði. Meirihluti telur að áhrif á verslun séu neikvæð, en jákvæð á veitingarekstur. Margar kannanir hafa verið gerðar í þessu máli og er ákveðinn rauður þráður í þeim að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þeir sem búa á miðbæjarsvæðinu eru ánægðir, vilja ekki sjá bílana. Þeir sem stunda skemmtanalífið og ferðamenn eru líka ánægðir. Aðrir eru neikvæðir og leita eftir þjónustu annars staðar en í miðborginni. Þeir sem eru ósáttir segja aðgengi vera slæmt að svæðinu. Sumir nefna veður; göngugötur fyrir fáa sólardaga; að sjarmi miðbæjarins sé horfinn, o.s.frv. Meirihlutinn leggur á sama tíma fram tillögu um að bjóða þeim sem glíma við hreyfiskerðingu að leigja af borginni rafskutlur og telja að með því sé verið að koma á móts við þá sem finnst aðgengi slæmt og eiga erfitt um gang.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 12. janúar 2022. MSS22010018

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. janúar 2022. MSS22010010
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Tillögur um breytingar á Hlemmi voru kynntar og eru margar álitlegar. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það er fólk sem býr við Hlemm. Stundum er eins og það gleymist því svo mikil áhersla er lögð á að byggja upp „stemninguna“. Það eru t.d. engir djúpgámar fyrir íbúa til að koma frá sér rusli. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og fyrirferðarmiklar vörur/vistir upp að dyrum sínum. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að afferma vörur en hvar er leyfið fyrir íbúana? Útlitslega séð þykir sitt hverjum þegar horft er á Hlemm út frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Götur umhverfis mætti endurbæta með t.d hellulögn. Svæðin mætti gera mun grænni, t.d. með trjágróðri í kerjum, og afmarka svæði fyrir útiveitingar og leiksvæði. Talað er um blágrænar ofanvatnslausnir. Ofanvatnslausnir er orðið tískuhugtak í borginni. Ofanvatnslausnir eru mikilvægar víða um heim, en að þær séu gerðar að einhverju aðalatriðið á svæði eins og við Hlemm er hjákátlegt. Hér er næg úrkoma til að vökva plöntur í beðum og á torgum.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 10. janúar 2022. MSS22010024

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðarinnar:

    Áhugi á heilsueflingu aldraðra hefur aukist mjög og því ber að fagna. Nú er komin út skýrsla starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um heilsueflingu aldraðra, ásamt aðgerðaáætlun. Tekið er undir með öldungaráði að mikilvægt er að fjármagn sé tryggt til að aðgerðaáætlun um heilsueflingu aldraðra verði að veruleika. Í nýrri lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er einnig komið inn á heilsueflingu. Heilsuefling virkar best ef hún er skipulögð og heildstæð. Fulltrúi Flokks fólksins elur enn þá von í brjósti að Reykjavík eigi eftir að eignast hagsmunafulltrúa aldraðra sem gæti einmitt komið sterkt inn í heilsueflingu aldraðra. Hann getur sem dæmi hvatt til og haldið utan um aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við heildstæða heilsueflingu fyrir eldri borgara.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. MSS22010041

    Fylgigögn

  33. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22010057

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands: 

    Hver hafa áfengiskaup Reykjavíkurborgar verið vegna viðburða borgarfulltrúa frá upphafi kjörtímabils til dagsins í dag? Hvert er áætlað magn áfengis? Þ.e.a.s hvað af þessu hefur ekki verið greitt fyrir af borgarfulltrúum? Hér er verið að leitast við að kanna hvað Reykjavíkurborg hefur greitt fyrir vegna áfengis sem hefur farið í viðburði borgarfulltrúa. Í opnum fjármálum Reykjavíkurborgar er hægt að sjá heildarmagn viðskipta við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en ekki er hægt að greina það niður á viðburði borgarfulltrúa. MSS22010304

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir að lagðir verði fyrir næsta fund borgarráðs sem haldinn verður 3. febrúar nk. allir upphaflegir lóðasamningar sem liggja til grundvallar þeim lóðum sem nú hafa verið afhentar olíufélögunum. Þessar lóðir eru: 1. Álfheimar 49, 2. Álfabakki 7, 3. Egilsgata 5, 4. Ægisíða 102, 5. Hringbraut 12, 6. Stóragerði 40, 7. Skógarsel 10, 8. Elliðabraut 2, 9. Rofabær 39, 10. Birkimelur 1, 11. Skógarhlíð 16 og 12. Suðurfell 4. MSS22010308

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs, eignaskrifstofu. 

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Enn á ný er ítrekuð beiðni frá borgarráðsfundi 9. desember sl. um að allar fundargerðir samninganefndar Reykjavíkur við olíufélögin vegna lóðaafhendingar borgarinnar til olíufélaganna verði lagðar fyrir borgarráð. Í beiðninni frá 9. desember var óskað eftir að þær yrðu lagðar fyrir borgarráðsfund sem haldinn var 16. desember en þær hafa ekki enn borist. Þessi beiðni var ítrekuð á fundi borgarráðs 20. janúar sl. og er ítrekuð aftur nú. Kjörnir fulltrúar eiga skilyrðislaust að hafa aðgang að öllum gögnum sem varða ákvarðanatöku sem snýr að rekstri borgarinnar.  MSS21120126

    Vísað til umsagnar samninganefndar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Nú er búið að ráðstafa N1 bensínstöðvarreitnum á Ægissíðu til Festis. Samkvæmt fréttum þá er áætlað verðmæti þessarar 6.000 m2 lóðar tveir milljarðar króna. Reykjavíkurborg á lóðina og gat leyst þessa eign til sín eftir 5 ár. Lóðin er í flokki sem getur heimilað allt að fimm hæða hús. Íbúar hafa sagt að betra sé að nýta þessa lóð til að bæta innviði á svæðinu. Borgarstjóri hefur verið að svara fyrir málið en ennþá er margt óljóst í huga fulltrúa Flokks fólksins. Í ljósi þess að um er að ræða mikla fjármuni þarf að vinna málið vel. Spurt er: Getur verið að verðmæti lóðarinnar sé tveir milljarðar og ef svo er af hverju er ekki beðið með lóðaúthlutun eftir að borgin hefur leyst lóðina til sín sem getur gerst eftir fimm ár? MSS22010309

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs, eignaskrifstofu. 

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í ljósi umræðu um Malbikunarstöðina Höfða spyr fulltrúi Flokks fólksins hvaða ávinning Reykjavíkurborg hefur af þessum rekstri. Hefur t.d. verið tekið saman hversu mikið hefur sparast í kaupum á malbiki eða annarri þjónustu Höfða síðustu fjögur ár sem meirihlutinn hefur verið við völd og hvort taprekstur stöðvarinnar hafi minnkað kostnað við malbikskaup borgarinnar, þ.e. hvort tekin tilboð stöðvarinnar hafi verið of lág, borginni í hag? Ef ekki er hægt að fá fram slíkar upplýsingar og reikna út ávinning af þessu fyrir borgina, hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna borgin hefur yfirhöfuð verið í þessum rekstri. MSS22010310

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. 

Fundi slitið klukkan 12:53

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2701.pdf