Borgarráð - Fundur nr. 5649

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 9. desember, var haldinn 5649. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir og Alexandra Briem. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ívar Vincent Smárason og Hulda Hólmkelsdóttir ásamt Pétri Ólafssyni sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 8. desember 2021, á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.1 Neðra Breiðholt, ásamt fylgiskjölum. MSS21120067

    -    Kl. 9:13 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag er spennandi þróunarverkefni hjá borginni og gengur út á það að gera öll hverfin í borginni ennþá betri. Samráð er hryggjarstykkið við gerð hverfisskipulags sem er ætlað að einfalda ferla við breytingar á húsum í borgarhlutanum, draga fram framtíðarsýn íbúa hverfisins í tengslum við hverfakjarna og kortleggja lykilstyrkleika hverfisins með það að markmiði að styrkja hverfið. Breiðholtið er gríðarlega stór og fjölmennur borgarhluti sem er skilgreindur sem þrjú hverfi innan Reykjavíkur, Neðra Breiðholt, Seljahverfi og Efra Breiðholt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að rýmka almennar heimildir húseigenda í hverfinu og er margt af því til bóta. Athugasemdir vegna samgangna ber að virða og er mikilvægt að bætt verði úr þeim sem allra fyrst til að létta á umferð. Þá skortir á að Mjóddin sé skipulögð í heild eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til. Rétt er að benda á að Elliðaárdalurinn er ekki heldur hluti þessa hverfisskipulags.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða eru háðar leyfi frá Vegagerðinni. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta segir að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Og svo er athyglisvert að Kópavogur vill einnig hafa áhrif á skipulagið við Arnarnesveg og heimtar óbeint að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi meingölluðu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag sé að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag mun fara yfir mörkin í umferðarspá í umhverfismatinu frá 2003. Verður ekki að gera nýtt umhverfismat? Einnig má spyrja af hverju það hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. desember 2021 á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, ásamt fylgiskjölum. MSS21120058
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag er spennandi þróunarverkefni hjá borginni og gengur út á það að gera öll hverfin í borginni ennþá betri. Samráð er hryggjarstykkið við gerð hverfisskipulags sem er ætlað að einfalda ferla við breytingar á húsum í borgarhlutanum, draga fram framtíðarsýn íbúa hverfisins í tengslum við hverfakjarna og kortleggja lykilstyrkleika hverfisins með það að markmiði að styrkja hverfið. Breiðholtið er gríðarlega stór og fjölmennur borgarhluti sem er skilgreindur sem þrjú hverfi innan Reykjavíkur, Neðra Breiðholt, Seljahverfi og Efra Breiðholt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú blasir við að Arnarnesvegurinn verði umferðaræð með miklum umferðarþunga sem er líkleg til að hindra að nokkur útivist verði á svæðinu. Þessi framkvæmd eyðileggur náttúru í Vatnsendahvarfinu og efsta hluta Elliðaárdals. Fulltrúi Flokks fólksins er sleginn yfir að sjá bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ sem viðkemur Arnarnesveginum. Kópavogur vill stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Áhersla Vegagerðarinnar er að Arnarnesvegurinn geti stækkað og beri fleiri bíla í framtíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að ef veghelgunarsvæði verður stórt og það svæði verður að fullu nýtt, mun það hafa slæm áhrif á íbúa og hindra þróunarmöguleika Vetrargarðsins. Kópavogur vill hafa áhrif á skipulagið og virðist hugsa einungis um eigin hagsmuni. Reykjavík leyfir hagsmunum þeirra að vera í fyrirrúmi. Engin virðing er borin fyrir umhverfinu þarna í upphæðum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst slæmt að Reykjavíkurborg skuli ekki taka þetta fastari tökum, ekki síst vegna Vetrargarðsins sem Kópavogsbúar munu eflaust nota líka. Eru skipulagsyfirvöld virkilega sátt með það í allri sinni umræðu um grænar áherslur? Af hverju er ekki hægt að skoða að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. desember 2021 á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.3 Efra Breiðholt, ásamt fylgiskjölum. MSS21120063
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag er spennandi þróunarverkefni hjá borginni og gengur út á það að gera öll hverfin í borginni ennþá betri. Samráð er hryggjarstykkið við gerð hverfisskipulags sem er ætlað að einfalda ferla við breytingar á húsum í borgarhlutanum, draga fram framtíðarsýn íbúa hverfisins í tengslum við hverfakjarna og kortleggja lykilstyrkleika hverfisins með það að markmiði að styrkja hverfið. Breiðholtið er gríðarlega stór og fjölmennur borgarhluti sem er skilgreindur sem þrjú hverfi innan Reykjavíkur, Neðra Breiðholt, Seljahverfi og Efra Breiðholt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur hug á því að bjóða upp á nám í ræktun og sjálfbærni og segist vinna þannig að heimsmarkmiðum um loftslagsmál með beinum hætti. Til þess þarf skólinn landsvæði fyrir skógræktarkennslu og matvælarækt. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til að þetta verði kannað. Það virðist vera nauðsynlegt að slíkt svæði verði í nálægð við skólann. Hér er enn verið að fjalla um nágrenni Arnarnesvegarins sem er ekki góð framkvæmd fyrir Reykvíkinga. Hentar kannski hagsmunum og kosningaloforðum bæjarráðs Kópavogs, en framkvæmdin mun koma sér illa fyrir íbúa Breiðholts. Samkvæmt nýju hverfisskipulagi Breiðholts sést einnig vel að Arnarnesvegur mun liggja þétt upp við fyrirhugaðan Vetrargarð. Sleðabrautin, sem líklegt er að yngstu börnin muni nota mest, mun liggja næst fjögurra akreina stofnbrautinni og tvöföldu hringtorgi. Ekkert umhverfismat um það liggur fyrir, því ekki var gert ráð fyrir Vetrargarðinum í fyrra umhverfismati sem er nær tveggja áratuga gamalt. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag er ekkert annað en óafturkræf skipulagsmistök. Veglagningunni hefur verið mótmælt af íbúum á öllum skipulagsstigum undanfarin 40 ár. Íbúaráð Breiðholts og fjölmargir fleiri hafa kallað eftir að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þessa framkvæmd. Breiðholtsbrautin er þegar sprungin sem umferðaræð og Arnarnesvegur mun auka á vandann.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. desember 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir samgöngutengingar í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. MSS21120056
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Helsta markmið með deiliskipulaginu er að búa til betri samgöngutengingar frá nýskipulögðu svæði í Gufunesi upp á Strandveg. Lagðir verða stígar og innanhverfisvegur í þeim tilgangi. Jafnframt er Hallsteinsgarður festur í sessi sem borgargarður. Fyrirhuguð lega Sundabrautar verður höfð til hliðsjónar við breytingar á deiliskipulagi í framtíðinni og samráð haft við Vegagerðina varðandi þann þátt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að tillögur um bráðabirgðaveg í Gufunesi og göngutengingar á svæðinu yrðu bornar upp í tvennu lagi þar sem um tvö aðskilin mál er að ræða. Því var hafnað. Annars vegar er um að ræða bætt aðgengi til framtíðar fyrir gangandi og hjólandi sem búa í Gufunesi og þá sem vilja njóta útivistar á svæðinu og hins vegar bráðabirgðaveg sem er umdeildur þar sem hann mun liggja á veghelgunarsvæði Sundabrautar. Óljóst er með öllu hvort þessi bráðabirgðavegtenging kunni að vera varanleg.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. desember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 1 við Köllunarklettsveg, ásamt fylgiskjölum. MSS21120065
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9:30 tekur Ebba Schram sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hafna öllum tilboðum í lóðina Gufunesveg 36, ásamt fylgiskjölum. MSS21120045
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hafna öllum tilboðum í lóðina Þengilsbás 3, ásamt fylgiskjölum. MSS21120049
    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. desember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viljayfirlýsingu milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um ráðstöfun lóðarinnar Sturlugötu 9, 102 Reykjavík. MSS21110033

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða viljayfirlýsingu milli Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um Sturlugötu 9 þar sem fyrirhugað er að rísi Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar, framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle. Úthlutun lóðarinnar er í samræmi við niðurstöðu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra og í sátu fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Hringborði norðurslóða.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. desember 2021, varðandi ársfjórðungsskýrslu borgarvaktar í velferðar- og atvinnumálum fyrir júlí til september 2021, ásamt fylgiskjölum. MSS21120072

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum vaktar afleiðingar COVID-19 faraldursins á aðstæður borgarbúa og atvinnulíf. Lagðar eru fram skýrslur ársfjórðungslega sem gerir borgarstjórn kleift að bæði fylgjast með og bregðast við þegar þess þarf. Atvinnulausum Reykvíkingum hefur fækkað um tæplega helming frá upphafi árs sem er verulega jákvæð þróun og eins má sjá að fólk nýtir söfn borgarinnar meira, akstursþjónusta eldri borgara og félagsstarf er að taka við sér sem og félagsleg heimaþjónusta. Tilkynningar um heimilisofbeldi og til barnaverndar eru enn margar en virðist þó heldur fækka ef borið er saman við 2020 en þá var gríðarleg aukning. Hinsvegar heldur umsóknum um stuðning við börn í skóla áfram að fjölga og mun borgarráð vakta það sérstaklega. Í sumar var samþykkt 140 m.kr. aukafjárveiting til að mæta þeim biðlista sem verið hefur að byggjast upp.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér kemur fram að fólki á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði hefur fækkað jafnt og þétt frá apríl 2020 og að sú þróun hafi haldið áfram á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2021. Fulltrúi sósíalista minnir á að umsóknir eftir félagslegu leiguhúsnæði voru 500 í september. Á bak við þær umsóknirnar voru 75 einhleypar mæður, 3 einhleypir feður og hjón/sambýlisfólk með börn voru 22 sem biðu eftir því að komast í almennt félagslegt húsnæði. Nú í desember eru umsóknir eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði 524. Það er gríðarlegur fjöldi sem er að bíða eftir því að komast í öruggt húsaskjól. Í ársfjórðungsskýrslunni kemur einnig fram að nokkur stígandi hafi verið í innheimtukröfum vegna fasteignagjalda sérstaklega, sem og þjónustugjalda. Fulltrúi sósíalista er alfarið á móti því að harkalegar aðferðir innheimtufyrirtækja séu notaðar við að leitast við að fá borgarbúa til að greiða reikninga. Efnahagslegar afleiðingar kórónaveirunnar eru erfiðar og sérstaklega fyrir fólk sem bjó við fátækt fyrir það, milli- og löginnheimta eru ekki að fara að bæta stöðuna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og fram kemur í skýrslunni hefur orðið gríðarleg aukning umsókna um skólaþjónustu allt frá 2020. Langur biðlisti eftir fagþjónustu skólaþjónustunnar hefur reyndar verið árum saman en fyrir COVID stefndi í sögulegt hámark hans. Á þriðja ársfjórðungi fækkaði umsóknum eilítið í júlí borið saman við júlí 2020 en síðan varð aftur aukning í ágúst og september samanborið við sömu mánuði árið 2020 en nokkuð hefur dregið úr aukningunni borið saman við fyrra hluta ársins 2021. Um 1680 börn bíða aðstoðar. Ekki hefur verið brugðist við þessari fjölgun nema að litlu leyti. Sálfræðiþjónusta og þjónusta talmeinafræðinga er ekki í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu. Naumt er skammtað og eins mikið og meirihlutinn segir að þetta sé hið versta mál er ekki verið að gera mikið meira til að eyða biðlistum. Á meðan bíða börnin lon og don með ófyrirséðum afleiðingum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að ráðinn verði nægjanlegur fjöldi fagaðila til að eyða biðlistum og mun það kalla á hækkun fjárheimilda til velferðarsviðs um 200 milljónir.

    -    Kl. 9:46 tekur Vigdís Hauksdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. desember 2021, varðandi umbótaverkefni á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. MSS21120090

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Umbótaverkefni á Kjalarnesi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að gerð ofanflóðahættumats gagnvart mannvirkjagerð hljóti að vera afar brýnt og í framhaldi verði unnið að áhættumati útivistarsvæða á Kjalarnesi og vöktunaráætlun vegna snjóflóða- og skriðufallahættu. Einnig útfærsla Miðgarðs á félagsstarfi eldri borgara á Kjalarnesi, skipulagning námskeiða, sætaferðir fyrir eldri borgara á milli Fólkvangs á Kjalarnesi og Grafarvogs, kortlagningu stígakerfis og útfærslu og samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Kjalarness. Styrkir eru veittir í sum þessara verkefna eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. En hvar er samráðið? Það virðist ekki hafa verið haft neitt raunverulegt samráð við íbúana.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. desember 2021, varðandi lýðheilsumat á áhrifum COVID-19 faraldursins á heilsu og líðan í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. MSS21120051

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt af tilraunaverkefnum borgarinnar er að gera lýðheilsumat á áhrifum COVID-19 faraldursins á heilsu og líðan Reykvíkinga. Áhrifin voru sum jákvæð en önnur neikvæð. Þau neikvæðu voru misalvarleg, þótt flest áhrifin hafi verið væg er ástæða til að vakta þau áhrif sem voru skilgreind sem meiriháttar. Matinu er skipt upp eftir aldurshópum, frá grunnskólanemum upp í eldri borgara.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að gert sé lýðheilsumat á áhrifum COVID-19 faraldursins á heilsu og líðan í Reykjavík. Fulltrúarnir vilja þó minna á tillögu sem samþykkt var af öllum flokkum í borgarstjórn þann 3. nóvember 2020 um að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna kórónuveirunnar. Fulltrúarnir vænta þess að í þeirri vinnu sem framundan er muni sú tillaga er samþykkt var verða höfð að leiðarljósi og áhrif COVID-19 skoðuð sérstaklega með tilliti til geðheilbrigði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í kynningunni að skjátími barna í 5.-7. bekk jókst á tímum faraldursins, hækkun var á hlutfalli barna sem eyðir 3 tímum eða meira á dag á samfélagsmiðlum eða í tölvuleikjum. Óhófleg skjánotkun hefur neikvæð áhrif á margt, m.a. námsárangur og svefn. Velferðaryfirvöld geta beitt sér með ýmsum hætti til að hjálpa foreldrum að draga úr skjánotkun barna sinna. Gott fræðsluefni/námskeið og hvatning getur eflt foreldra í uppeldinu og styrkt þá í að setja mörk á skjánotkun barna sinna hvern dag. Með aukinni þekkingu eru foreldrar betur undirbúnir til að geta tekist á við skjáhegðun barna sinna. Annað sem veldur áhyggjum er að fram kom að börn hreyfðu sig minna og færri stunduðu íþróttastarfsemi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig velferðar- og skóla- og frístundasvið hyggjast bregðast við þessu. Nú er það svo að ekki allir foreldrar hafa efni á að greiða fyrir tómstundaiðkun barna sinna. Í nýlegri skýrslu Barnaheilla kemur fram að um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Við þessu þarf að bregðast.

    Hugrún Snorradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. desember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um hluta af húsnæðinu að Hagatorgi 3, ásamt fylgiskjölum. FAS21120019
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Húsaleiga á Háskólabíó og Hótel Sögu er til mjög skamms tíma, en ljóst er að húsnæði Hagaskóla verður ekki tilbúið um áramót. Það er með öllu óljóst hvernig húsnæðismálum verður háttað eftir 21. desember. Uppsöfnuð viðhaldsþörf á skólahúsnæði borgarinnar til margra ára er gríðarleg. Þessi vanræksla bitnar bæði á skólahaldi og fjárhag borgarinnar, enda ekki til dýrari lán en vanræksla á viðhaldi. Skuldir borgarinnar hafa vaxið gríðarlega á undanförnum mánuðum eins og 9 mánaða uppgjörið ber með sér og þeir fjármunir hafa ekki verið nýttir í viðhaldsmál sem skyldi. Mikilvægt er að borgaryfirvöld vinni með foreldrunum og skólasamfélaginu að lausn vandans. Fyrirséð er að þetta verkefni mun taka lengri tíma en áætlanir gera ráð fyrir enda umfang þess mikið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykvísk börn eiga betra skilið. Að vista börn í skyldunámi á Hótel Sögu og í Háskólabíó lýsir ástandi skólabygginga í borginni. Viðhaldi hefur í engu verið sinnt og eru byggingarnar að grotna niður um alla borg. Slíkt ástand er algjörlega óviðunandi fyrir börn, foreldra, kennara og starfsmenn skólanna. Skuldasöfnun liðinna ára hefur ekki skilað sér í fjárfestingar, viðhald og lögbundna eða grunnþjónustu. Fjármagnið hefur runnið í gæluverkefni eins og dæmin sanna. Þetta ástand er gjörsamlega óþolandi, ólíðandi og algjörlega til skammar fyrir borgarstjóra sem setið hefur í Ráðhúsinu í 20 ár.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  13. Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 602/2021. MSS21120087

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. desember 2021, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að samþykkt verði tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur eigna ohf. frá 27. september 2021 um að stofnað verði verkefnafélag um coda terminal verkefni CarbFix ohf. að því gefnu að fyrir liggi ótvíræð lagaheimild fyrir rekstri þess. Borgarstjóra, f.h. Reykjavíkurborgar, verði falið í samráði við aðra eigendur OR að leitast eftir því við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gerð verði breyting á lögum sem heimili Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum að þróa og reka í starfsemi sinni og taka þátt í verkefnum sem lúta að kolefnisförgun (carbfix-tækni) jafnvel þótt ekki sé um að ræða kjarnastarfsemi. Lagt er til að tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. júní 2021 um stofnun Carbfix hf. verði ekki samþykkt að sinni þar sem fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir, sjá nánari umfjöllun í umsögn. Áhersla verði lögð á hlutverk CarbFix ohf. sem leiðandi aðila við áframhaldandi þróun og rekstur carbfix-tækninnar og Orkuveitu Reykjavíkur gefin heimild til að fjármagna rekstur og fjárfestingar í samræmi við viðskiptaáætlanir. MSS21120086

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 11:00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum. 

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja tillögu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur eigna ohf. frá 27. september 2021 um að stofnað verði verkefnafélag um coda terminal verkefni CarbFix ohf. að því gefnu að fyrir liggi ótvíræð lagaheimild fyrir rekstri þess. Borgarstjóra, f.h. Reykjavíkurborgar, verði falið í samráði við aðra eigendur OR að leita eftir því við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gerð verði breyting á lögum sem heimili Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum að þróa og reka í starfsemi sinni og taka þátt í verkefnum sem lúta að kolefnisförgun (carbfix-tækni) jafnvel þótt ekki sé um að ræða kjarnastarfsemi. Lagt er til að tillögu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. júní 2021 um stofnun Carbfix hf. verði hafnað að sinni þar sem fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir, sjá nánari umfjöllun í umsögn. Áhersla verði lögð á hlutverk CarbFix ohf. sem leiðandi aðila við áframhaldandi þróun og rekstur carbfix-tækninnar og Orkuveitu Reykjavíkur gefin heimild til að fjármagna rekstur og fjárfestingar í samræmi við viðskiptaáætlanir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt var upp með að carbfix yrði sjálfstætt verkefni sem hefði sjálfstæða fjármögnun á markaði en nú er borgin í gegnum OR ítrekað að setja fjármagn í áhættuverkefni þvert á það sem lagt var upp með í upphafi þessa verkefnis. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka þá afstöðu sína að rétt væri að skipta OR upp. Í maí síðastliðinn var lagt upp með eftirfarandi: „Talið er ákjósanlegast að stofnað verði dótturfélag Carbfix ohf., Carbfix hf., rekstrarfélag fyrir frekari þróun tækninnar og fyrst og fremst fjármagnað af fjárfestum og sjóðum. Carbfix hf. mun ekki sjálft fjármagna stærri verkefni, eins og t.d. coda verkefnið í Straumsvík, heldur verði stofnuð sjálfstæð félög (SPV, Special Purpose Vehicle) sem verða í eigu samstarfsaðila Carbfix hf. Carbfix mun í einhverjum tilvikum eiga hlut í þessum sjálfstæðu félögum. Með þessu móti er tryggt að bein og óbein fjármögnun og/eða aðföng verkefna Carbfix verði ekki á vegum samstæðu OR eða Reykjavíkurborgar, það er ekki heimilt innan núverandi félagsforms sem er ohf. Þá liggur jafnframt fyrir að áhætta OR mun takmarkast við þau framlög sem þegar hafa verið samþykkt.“

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Orkuveita Reykjavíkur er skel utan um dótturfélög félagsins. Kjörnir fulltrúar hafa enga aðkomu að rekstrinum. Búið er að skapa armslengd frá rekstrinum. Nú á að lengja armslengdina enn frekar með því að búa til dótturfélag út úr dótturfélagi. Svona er keðjan: Orkuveita Reykjavíkur – CarbFix – Coda terminal ohf. Þetta viðskiptamódel á ekkert skylt við rekstur sveitarfélags. Enda kemur fram í fundargögnum að ekki sé til staðar lagaheimild fyrir slíkum gjörningi. Því boðar stjórn Orkuveitunnar að borgarstjóra verði falið að leita eftir því við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gerð verði breyting á lögum sem heimili Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum að þróa og reka í starfsemi sinni og taka þátt í verkefnum sem lúta að kolefnisförgun (carbfix-tækni) jafnvel þótt ekki sé um að ræða kjarnastarfsemi. Orkuveita Reykjavíkur er komin langt út fyrir sitt lögbundna hlutverk.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stofnun dótturfélaga Carbfix hf. Í þessu máli á að flýta sér hægt. Að binda kolefni með efnafræðilegum ferlum kostar sitt. Þetta gera allar ljóstillífandi plöntur og það kostar lítið. Kolefnisbindingu má því ná með skógrækt. Væri ekki gott til samanburðar að reikna út hvað það kostar að planta trjám allt frá Elliðavatni upp að Hengli og Bláfjöllum? Fulltrúi Flokks fólksins er þó ekki að setja sig gegn þessu heldur aðeins að benda á hina möguleikana. Í málum sem þessum þarf að hafa alla anga úti og leita allra leiða.

    Halldóra Káradóttir, Bjarni Bjarnason, Brynhildur Davíðsdóttir, Edda Sif Pind Aradóttir, Elín Smáradóttir, Guðmundur I. Sigurðsson og Haraldur Óskar Haraldsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. september 2021, sbr. vísun forsætisnefndar á tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætt loftgæði í Reykjavík, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 2. febrúar 2021. Einnig lagðar fram umsagnir borgarlögmanns, dags 1. júlí 2021 og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. desember 2021. MSS21120088
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að vísa frá tillögum um aðgerðir til að bæta loftgæði. Rökin eru engin. Borgarstjórn samþykkti 4. september 2018 tillögu Sjálfstæðisflokks um að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk með því að nýta tiltæk úrræði sem bæta loftgæði í borginni. Málið er brýnt enda áætlar Umhverfisstofnun Evrópu að 60 ótímabær dauðsföll á Íslandi megi rekja til svifryksmengunar árlega. Engu að síður hafa loftgæði í borginni farið ítrekað yfir heilsuverndarmörk. Stefnur eru einskis virði ef þeim fylgja ekki aðgerðir.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögunni er vísað frá í ljósi þess að nú þegar gera aðgerðir í lýðheilsustefnu ráð fyrir aðgerðum í tengslum við nagladekkjanotkun í Reykjavík. Nagladekk eru ógn við lýðheilsu íbúa borgarinnar en talið er að allt að 80 manns láti lífið á hverju einasta ári vegna svifryks sem að langmestu leyti er rakið beint til notkunar nagladekkja. Nagladekk eru óþörf í Reykjavík enda hefur vetrarþjónusta borgarinnar tekið gríðarlegum breytingum á undanförnum árum. Þá eru til ýmsar tegundir af dekkjum sem slíta götum mun minna en nagladekk og veita jafngóða eða betri vörn gegn hálku en nagladekk.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Er ekkert verið að grínast í okkur að það þurfi 4 blaðsíðna umsögn borgarlögmanns til að koma sér undan tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætt loftgæði í Reykjavíkurborg? Umhverfishjal meirihlutans eru staðlausir stafir.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. nóvember 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samþættingu kerfa og gögn Reykjavíkurborgar, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. október 2021. ÞON21110088

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að það fóru vel á annað hundrað milljónir af skattfé í að búa til eitt PDF-form sem er fráleit notkun á almannafé.  

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um samþættingu kerfa í tengslum við nýtt fjárhagsumsóknarkerfi. Það kerfi kostaði 100 m.kr. og var sett fólk í verkið í 6 mánuði til að vinna með hugbúnaðarfyrirtækinu. Þessa 6 starfsmenn þurfti að að taka úr öðrum verkefnum á meðan sem þýddi auðvitað aukið álag á annað starfsfólk. Hér er því velt upp enn og aftur hvort þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi farið hagkvæmustu leiðina? Fulltrúi Flokks fólksins hefur marggagnrýnt að þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi ekki farið fyrr í samstarf við þá aðila sem komnir eru með þær lausnir sem hér um ræðir og farnar eru að virka úti í samfélaginu.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 12. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. júní 2021. ÞON21080016

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er algjörlega óþörf peningaeyðsla. Þessum fjármunum var ráðstafað löngu eftir að fjarfundarbúnaður var tekinn í notkun. Allt gekk vel á fundum í COVID enda borgarfulltrúar og starfsmenn borgarinnar vel tæknibúnir. Hin svokallaða neyðarstjórn Reykjavíkur tók ákvörðun um þessi útgjöld og fór þar með framhjá borgarráði og borgarstjórn og kostnaðurinn var ekki færður í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 þrátt fyrir að stofnað hafi verið til útgjaldanna í byrjun mars 2020. Í svarinu kemur fram að fjármununum upp á rúma 31 milljón hafi verið ráðstafað í húsgjald Höfðatorgs. Það á ekkert skylt við innleiðingu á fjarfundarbúnaði. Hér birtist glöggt að þjónustu- og nýsköpunarsvið veit ekkert hvernig þeim 10 milljörðum sem búið er að demba inn á sviðið verður ráðstafað.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs 18. nóvember 2021, um að skrifað verði undir yfirlýsingu um orkuskipti í samgöngum. MSS21120089
    Tillagan er felld. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan hefur verið felld. Slíkt er að mati fulltrúa flokks fólksins ekki í anda þess sem meirihlutinn hefur boðað. Flestir flokkar í núverandi meirihluta stæra sig þannig af því fyrir kosningar að hafa skorað vel í sólarkvarða ungra umhverfissinna. Þar er lögð áhersla á að umhverfismál virði engin landamæri, samvinna sé nauðsynleg til að vinna á þessari ógn. Á tyllidögum er talað um að allir þurfi að leggja hönd á plóg og núverandi meirihluti notar óspart orðið grænar áherslur. Engu að síður vill meirihlutinn ekki tileinka sér svo sjálfsagðan hlut sem það er að skrifa undir Hreinn, 2 og 3. Tillögu sem tekur á einu stærsta framlagi okkar til kolefnisjöfnunar sem er orkuskipti í samgöngum. Tillögunni er einfaldlega vísað frá án umræðu eða skýringa. Er það græn áhersla að vísa þessu máli frá án umræðu? Eru einhver mál mikilvægari í dag en umhverfismál? Flokkur fólksins vill að allir taki þátt í umhverfismálum og að þau séu þvert á alla flokka, fólk og fyrirtæki. Dropinn holar steininn. 

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bið vegna innleiðingar rafrænna undirritana, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. ÞON21110087

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir svarið og fræðsluna um lagalega forsögu rafrænna undirskrifta á Íslandi. Það breytir því samt ekki að fulltrúa Flokks fólksins finnist eins og allar þessar lögfræðiskýringar hljómi eins og að verið sé að gefa í skyn að þær séu óbeint ástæða þess að Reykjavíkurborg skuli ekki enn hafa innleitt þessa lausn, lausn sem sparar bæði tíma og pappír. Rafrænar undirskriftir hafa verið í almennri notkun á Íslandi í mörg ár. Bankar, tryggingafélög, fyrirtæki og stofnanir hafa verið að notast við rafrænar undirskriftir lengi. Það vekur þess vegna undrun hversu langt á eftir Reykjavíkurborg virðist vera hvað þetta varðar. Við upphaf þessa kjörtímabils lá fyrir að staða upplýsingamála hjá borginni var slæm. Það var staðfest í skýrslu úttektar Capacent, skýrslu sem aldrei varð opinber. Engu að síður, nú rúmum þremur árum seinna, er staðan ekki mikið skárri þótt eitt og annað sé sagt vera í farvatninu. Úrvinnsluhraði verkefna er einfaldlega á hraða snigilsins, að atriði eins og rafræn undirskrift skuli ekki vera orðin algild venja í borgarkerfinu er með ólíkindum. Minnt er á að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur notast við rafrænar undirskriftir í bráðum 10 ár.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 2. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf við Ríkiskaup vegna kaupa á Microsoft hugbúnaðarleyfum og endurnýjun miðlægra innviða, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. nóvember 2021. ÞON21110086

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í svari að Reykjavíkurborg sé með nákvæmari skilgreiningar á hugbúnaðarleyfum sem eiga að gefa borginni hagstæðari innkaupasamninga við Microsoft heldur en við Ríkiskaup. Einnig er tekið fram í svari að Reykjavíkurborg sé á einhvern hátt öðruvísi en ríkið hvað varðar skólaleyfi og annað. Þetta þykir fulltrúa Flokks fólksins einkennileg alhæfing. Undir ríkinu og Ríkiskaupum er eflaust að finna mikið magn skólaleyfa hvað hugbúnað varðar, skyldi ætla. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að trúa þeim útskýringum sem settar eru fram í þessu svari þ.e. að Reykjavíkurborg sé að landa betri samningum en ríkið hvað þetta varðar. Ástæða er til að skoða þessi mál enn frekar með fyrirspurnum beint til Ríkiskaupa.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um erlenda ráðgjöf og fjölda sérfræðinga vegna hugmyndavinnu og hönnunar sl. 2 ár, sbr. 59. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. ÞON2110039

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé búið að eyða allt of miklum fjármunum í kaup og áskriftir á erlendri ráðgjöf. Kostnaður telur tugi milljóna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fullan skilning á því að það geti komið upp þörf á innlendum og erlendum ráðgjafarkaupum, en telur að slík ráðgjafarkaup eigi að tengjast ákveðnum verkefnum til styttri tíma en ekki til langframa eins og reyndin er með þjónustu- og nýsköpunarsvið. Það kemur fram í svari að sviðið (áður skrifstofa þjónustu og reksturs) hafi byrjað áskrift að ráðgjöf Gartner Group á Írlandi árið 2011 sem þýðir að í heilan áratug hefur Gartner Group á Írlandi haft töluverð afskipti af skipulagi og rekstri þessarar einingar Reykjavíkurborgar. Þjónustu- og nýsköpunarsvið fékk falleinkunn 2018 þegar svört skýrsla Capacent lá fyrir. Nú þegar 2022 er að ganga í garð er sérkennilegt að staða upplýsingamála í borginni sé ekki betri þrátt fyrir áralöng ráðgjafarkaup af Gartner Group á Írlandi. Flest er enn í farvatninu, í tilrauna- og þróunarfasa og aðeins sárafá verkefni í innleiðingu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr sig þess vegna þeirrar spurningar hvort öll þessi aðkeypta erlenda ráðgjöf sviðsins undanfarinn áratug, hafi hreinlega verið peninganna virði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um prófanir á nýju skjalavistunarkerfi og kostnað, sbr. 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. MSS21120052

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur ekki ólíklegt að það eigi eftir að koma í ljós seinna að um kostnaðarauka fremur en sparnað verði að ræða. Það eru margir þættir sem þarf að skoða varðandi þetta og skýringar sviðsstjórans einar og sér duga varla til þess að sjá heildarmyndina. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að innri endurskoðun eigi að fara gaumgæfilega ofan í saumana á þessu og reikna dæmið til enda að öllum forsendum gefnum. Við lestur svarsins kemur einnig upp sú spurning hvaðan sú ráðgjöf hafi komið að segja upp fjölda starfsmanna sviðsins á upplýsingatækniskrifstofunni og það í miðju COVID og þvert á allar yfirlýsingar meirihlutans um að vernda eigi störf innan borgarinnar. Það er síðan annar kapítuli að fá upplýsingar hjá mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar um meðferð mannauðsmála þessa sviðs undanfarin ár í samanburði við aðrar skrifstofur og svið borgarinnar.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 3. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við niðurstöðum starfsánægjukönnunar slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í nóvember 2021, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. MSS21120028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari er lýst ítarlegu ferli sem virkar við lestur býsna faglegt. Í sjálfu sér er ekkert hægt að segja um hvort það ferli sem fór af stað og keyrt var í gegn hafi verið gott og gagnlegt nema að fá það staðfest frá starfsmönnum. Gleymum því ekki að niðurstöður starfsánægjukönnunar komu sláandi illa út sem gefur til kynna að mörgum starfsmönnum hafi liðið illa lengi á þessum vinnustað. Umfram allt skiptir máli að slökkviliðsstjóri hafi hvergi komið nálægt þessu ferli, hvorki ákveðið það né haft um framgang þess að segja. Hann er með öllu vanhæfur til þess. Í raun má segja að það sé mjög sérkennilegt að slökkviliðsstjóri hafi ekki tekið ákvörðun um að stíga til hliðar eftir að Empower hafði kynnt niðurstöðurnar fyrir starfsfólkinu. Í svona málum óttast starfsfólk oft að engu verði breytt þrátt fyrir allt. Spurning er einnig, ekki hvað síst á vinnustað eins og þessum, hvernig konur eru að upplifa ástandið og viðbrögð við því og hvernig karlar eru að upplifa það.

    Fylgigögn

  24. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 18. október og 1. og 10. nóvember 2021. MSS21110121

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 2. desember 2021. MSS21120132

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 1. desember 2021. MSS21120116

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður við þessa bókun íbúaráðsins: Íbúaráð Grafarvogs leggur til að samgönguyfirvöld Reykjavíkur fari í átak nú þegar að lýsa upp og merkja gangbrautir (gönguþveranir) í hverfinu eins og lög og reglugerð gera ráð fyrir. Afar mikilvægt er að þessar gangbrautir séu vel upplýstar og greinilega merktar til að auka öryggi þeirra vegfarenda sem um þær fara en því miður vantar mikið upp á að þessi mál séu í góðu lagi. Útfærslur með hreyfiskynjarastýrðri lýsingu svipað og er á gangbraut við Foldaskóla eru vel heppnaðar og ráðið vill sjá sem flestar slíkar. Einnig er afar mikilvægt að gangbrautarmerki séu greinileg og upplýst svo akandi vegfarendur átti sig tímanlega á að gangbraut sé fram undan.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 8. desember 2021 MSS21120133

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag. Byggja á allt að 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Fram kemur að ,,markmið deiliskipulagsins er að sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins“ og: „Mikilvægt er að varðveita og vernda lífríki og lágmarka sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs.“ Hér er um öfugmæli að ræða. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun hafa mikil áhrif á lífríkið. Rústa á dýrmætasta svæðinu sem eru fjörurnar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Alltof mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. nóvember 2021. MSS21120118

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. MSS21120064

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill vekja athygli á þessu bréfi fyrrverandi leikskólastjóra varðandi beiðni um mat á framhaldsnámi til launa. Hér er um réttlætismál að ræða sem þarf að leiðrétta. Þessar stéttir eru með lág laun og skiptir hver króna máli. Þess vegna er mikilvægt að meta hvert einasta námskeið/áfanga til launa enda þótt það sé ekki hluti af stærri heild eða hafi leitt til útskriftar/gráðu.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS21120078

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Lagt er til að íbúar Langholtshverfis sem hafa áhuga á því að mála skipulagða götulist og/eða graffítí á hús Sunnutorgs, fái leyfi til þess þar til skipulag er komið um framtíð húsnæðisins. Húsnæðið sem um ræðir er ekki upp á sitt besta og lagt er til að íbúar hverfisins í Langholtshverfi fái leyfi til að vinna með húsið með þessum hætti. MSS21120122

    Frestað. 

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir að allar fundargerðir samninganefndar Reykjavíkur við olíufélögin vegna lóðaafhendingar borgarinnar til olíufélaganna verði lagðar fyrir næsta borgarráðsfund sem haldinn verður 16. desember. MSS21120126

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fengnir verði utanaðkomandi ráðgjafar til að fara yfir rekstur Reykjavíkurborgar. Áherslur Flokks fólksins liggja í því að hafa öfluga grunnþjónustu sem bætir stöðu borgarbúa, ekki síst efnaminna fólks, öryrkja, barna og eldra fólks. Fólkið fyrst. Eins og fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er í dag er hins vegar ljóst að æ erfiðara verður að finna peninga til að fjármagna mikilvæga grunnþjónustu. Ráðgjöfum verði uppálagt að skoða hvort vel sé farið með fjármagn Reykjavíkurborgar og hvort hagræða megi í einhverjum málaflokkum, sérstaklega þeim sem tengjast ekki grunnþjónustu Reykjavíkurborgar. Lagt er til að þjónustu- og nýsköpunarsvið verði skoðað sérstaklega en sterkar vísbendingar eru um að ekki hafi verið farið vel með fjármagn á því sviði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rakið fjölmörg rök sem renna stoðum undir þær vísbendingar. Fjármálastjórn innan Reykjavíkurborgar veldur áhyggjum í heild sinni. Veltufé frá rekstri í A-hluta er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1,9% af heildartekjum á árinu 2022. Ljóst er að ekki gengur að reka Reykjavíkurborg á yfirdrætti og því ætti að huga að því hvort að ekki þurfi yfirferð á rekstur Reykjavíkurborgar. Oft sjá betur utanaðkomandi augu. MSS21120127

Fundi slitið klukkan 11:45

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Dagur B. Eggertsson

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0912.pdf