Borgarráð
Ár 2021, fimmtudaginn 2. desember, var haldinn 5648. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Katrín Atladóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 2. desember 2021:
Lagt er til að borgarráð samþykki niðurstöðu skuldabréfaútboðs Félagsbústaða, miðvikudaginn 1. desember 2021, í samræmi við samþykkt í borgarstjórn þann 16. febrúar sl. varðandi einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum Félagsbústaða í samræmi við lánsfjáráætlun félagsins. Upphæð samþykktra tilboða og ávöxtunarkrafa kemur fram í greinargerð.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R21010307
- Kl. 9.10 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að taka lán upp á 5.900 milljónir að markaðsvirði með ábyrgð borgarsjóðs. Rekstur Reykjavíkurborgar líkist í vaxandi mæli skuldsettum vogunarsjóði.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn versna lánakjör borgarinnar en samt er haldið áfram að skuldbinda/skuldsetja komandi kynslóðir með lánsheimildum til Félagsbústaða með einfaldri ábyrgð borgarinnar. Eftir skuldabréfaútboð Félagsbústaða nema skuldir félagsins 52 milljörðum.
Halldóra Káradóttir, og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. nóvember 2021, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna þriðja ársfjórðungs ársins 2021. R21080189
Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags, 29. nóvember 2021, um forsendur fjárhagsáætlunar 2022-2026. R21010179
Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagðar fram breytingartillögur Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna vegna fjárhagsáætlunar 2022. R21010179
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Karl Einarsson taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagðar fram breytingartillögur Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna við frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2022-2026. R21010179
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Karl Einarsson taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagðar fram tillögur staðgengils borgarstjóra, dags. 30. nóvember 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2021. Greinargerðir fylgja tillögunum R21010107
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Karl Einarsson taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga matsnefndar, dags. 22. nóvember 2021, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag frá Reykjavíkurborg, kaupáætlun 2021 seinni úthlutun, 28 íbúðir. R21020011
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga matsnefndar, dags. 22. nóvember 2021, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag frá Reykjavíkurborg vegna Njálsgötu 65. R21020011
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 10.00 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti og Katrín Atladóttir víkur.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 1, vegna Arnarbakka, ásamt fylgiskjölum. R21060196
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í Arnarbakka er fyrirhuguð uppbygging 90 íbúða, námsmannaíbúða sem og almennra íbúða sem og þjónusturýmis á jarðhæð. Að auki er gert ráð fyrir gróðurhúsum og matjurtagörðum. Hér er um að ræða jákvæða uppbyggingu sem mun lífga upp á þennan gamla hverfiskjarna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Líða fer að lokum kjörtímabilsins og ekkert hefur gerst í málefnum Arnarbakka og Völvufellsins, en í upphafi kjörtímabils voru fasteignir í þessum þjónustukjörnum keyptir, fyrir u.þ.b. einn milljarð króna, til að hleypa í þá lífi. Nú er komið að lokum kjörtímabilsins og ekkert hefur verið gert. Þannig er útséð með að íbúar Breiðholts geti notið þessara þjónustukjarna eins og til stóð á þessu kjörtímabili. Það eina sem mun skila sér á þessu kjörtímabili eru teikningar og undirskriftir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svæðið við Arnarbakka 2 er svæði sem hægt er að gera að góðri íbúðabyggð. Núverandi byggingar eru ekki varðveisluverðar. Hér er því hægt og mikilvægt að vanda til verka og reisa byggingar sem eru fallegar, áhugaverðar og á góðum stað. Hönnun þessa svæðis ætti að setja í samkeppni. Skýra þarf hvernig umferðarmálin munu verða. Eins og er, er ljóst að Arnarbakkinn, framhjá Breiðholtsskóla, ber ekki mikla umferð. Þarna getur stefnt í þrengsli ef ekki er að gætt.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 3, vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells, ásamt fylgiskjölum. R21060202
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um að ræða deiliskipulag á þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir nýjum sameinuðum leikskóla, stórbættum útivistarsvæðum, nýjum námsmannaíbúðum og sérbýlishúsum. Við fögnum þessari þéttingu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Líða fer að lokum kjörtímabilsins og ekkert hefur gerst í málefnum Arnarbakka og Völvufellsins, en í upphafi kjörtímabils voru fasteignir í þessum þjónustukjörnum keyptir, fyrir u.þ.b. einn milljarð króna, til að hleypa í þá lífi. Nú er komið að lokum kjörtímabilsins og ekkert hefur verið gert. Þannig er útséð með að íbúar Breiðholts geti notið þessara þjónustukjarna eins og til stóð á þessu kjörtímabili. Það eina sem mun skila sér á þessu kjörtímabili eru teikningar og undirskriftir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða, hverfið þarf að bæta. Margar litlar aðgerðir mynda að lokum stóra breytingu. Þarna ætti að fara sér hægt en stefna einbeitt að því að bæta hverfið með mörgum þáttum og fjölga íbúum. Í hverfinu eru ekki friðaðar byggingar og því ekki nauðsynlegt að nýta þær áfram. Breyting felst m.a. í heimild til niðurrifs á leikskólunum Litla Holti og Stóra Holti auk uppbyggingar nýs leikskóla. Fulltrúi Flokks fólksins vill hvetja skipulagsyfirvöld til að hafa gott samráð við alla þá sem tengjast þessari breytingu.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Eiðsgranda - Ánanausts, ásamt fylgiskjölum. R21110297
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er jákvætt skref í átt að nýjum áningarstað og bættu aðgengi fólks að vesturströndinni, en tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þess efnis var lögð fram 12. maí 2021 í skipulags- og samgönguráði. Umsögn skipulagsfulltrúa frá 21. maí 2021 var jákvæð og segir þar að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðgengi verði bætt og þessi nýi áningarstaður gerður betri. Mikilvægt er að halda áfram með þessa vinnu og bæta aðgengi niður fyrir varnargarðinn, en þar er hægt að njóta útsýnis og sólseturs í Vesturbænum með góðri hljóðvist í skjóli fyrir umferð.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar vegna lóðanna nr. 2D, 4 og 6 við Álfabakka, ásamt fylgiskjölum. R21110296
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að skipuleggja Mjóddina í heild, enda eitt mikilvægasta þróunarsvæði í Reykjavík. Tillaga Sjálfstæðisflokks í skipulags- og samgönguráði þar að lútandi var samþykkt samhljóða 27. janúar síðastliðinn.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki reglur um bílastæði fyrir visthæfar bifreiðar í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R19110017
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt tillögu meirihlutans eiga reglur að vera óbreyttar. Þar sem við erum öll sammála um að vilja flýta orkuskiptum má spyrja hvort ekki ætti að útvíkka ívilnanir sem þessar. Því fyrr sem fólki gefst kostur á að eiga vistvænt farartæki því betra. Rafbílar eru enn dýrari en bensínbílar og hafa ekki allir efni á að eignast slíka bíla. Hvetja þarf þá sem eru efnameiri og sem enn aka um á bensínbílum að skipta yfir í vistvænna ökutæki. Endurmeta þarf hvað eru visthæfar bifreiðar. Eins og er, eru bílar sem ganga fyrir metani visthæfustu bifreiðarnar. Tímabært er því að hvetja til notkunar metans. SORPA ræður ekki við það verkefni þannig að borgarstjórn verður að taka málið að sér. Svo er gjaldlausi tíminn fullstuttur. Eðlilegra væri að hafa hann í tvo tíma. Að sinna erindum í miðbænum tekur oft meira en hálfan annan tíma. Þetta er eitt af því fjölmörgu sem Reykjavíkurborg getur gert í orkuskiptum?
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. nóvember 2021 á tillögu nafnanefndar að nöfnum gatna í Skerjafirði, Ártúnshöfða, Orkureit og annað, samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. maí 2020 á tillögu nafnanefndar að nöfnum gatna á svæði 2 í Elliðaárvogi og samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á tillögu nafnanefndar að nöfnum á lykilstígum og að nafni á hólma við Grænlandsleið, ásamt fylgiskjölum. R21110295
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 468/2020. R19100306
-
Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1047/2021. R21060144
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslu Reykjavíkurborgar, þ.e. minnisblöðum og skyldum gögnum sem lögð voru í trúnaði fyrir fundi borgarráðs. Á fundi borgarráðs þann 20. maí 2021 hafi verið lögð fram slík trúnaðarmerkt fylgiskjöl undir dagskrárliðum 13-22 þar sem fjallað hafi verið um forsendur milljarða útgjalda Reykjavíkurborgar til svokallaðrar „stafrænnar umbreytingar“. Kærandi hafi því óskað með tölvupósti þann 25. maí 2021 eftir upplýsingum um þessi fylgiskjöl sem og afritum af þeim. 9. júní 2021 afgreiddi Reykjavíkurborg beiðnir kæranda. Borgin veitti kæranda aðgang að nokkrum skjölum að hluta en synjaði beiðni um aðgang að því sem eftir stóð á þeim grunni að um vinnugögn væri að ræða. Það er alveg ljóst að Reykjavíkurborg kemur sér undan því að stunda gagnsæ og upplýst vinnubrögð með því að trúnaðarsveipa fleiri og fleiri mál sem skipta almenning miklu máli og snúa að fjármálaóreiðu borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur sett sér upplýsingastefnu og ber að fara eftir henni en gagnsæi hefur vikið fyrir leyndarhyggju. Þessi þróun er hættuleg lýðræðinu og til þess fallin að skapa vantraust á stjórnsýslunni.
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. nóvember 2021 um leikskóla með sumaropnun, ásamt fylgiskjölum. R21110266
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sumaropnun hefur nú verið við lýði síðastliðin þrjú sumur. Þó svo viss hópur sækist eftir þessari þjónustu þá er ljóst að aðlaga þarf þetta fyrirkomulag að þörfum og fjölda þeirra sem það nýta. Hér er lagt til að 3 leikskólar í borginni fái það hlutverk að hafa opið á sumrin varanlega, í stað þess að verkefnið flakki á milli. Þannig myndast fyrirsjáanleiki og stöðugleiki, en þá er hægt að ráða starfsfólk með tilliti til þeirra væntinga, og foreldrar geta við upphaf leikskólagöngu gert ráð fyrir því við val á leikskóla hvar þessi þjónusta sé veitt. En þó það sé til skemmri tíma óheppilegt gagnvart þeim fjölskyldum sem þurfa að nýta sumaropnun en eru ekki með pláss á þeim leikskólum að annar verði fyrir valinu, þá mun það til lengri tíma búa til meira jafnræði og meiri fyrirsjáanleika.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúum Sjálfstæðisflokks þótti frá upphafi framfaraskref að bjóða sumaropnun leikskóla. Fyrirkomulagið ætti sér fyrirmynd í Garðabæ, það gæti tryggt fjölskyldum aukinn sveigjanleika og reynst atvinnulífi hagkvæmt. Nú er hins vegar svo komið að aðeins mun bjóðast sumaropnun á þremur leikskólum af 63 á vegum borgarinnar. Reynslan hefur sýnt að foreldrar eru ólíklegir til að skrá barn í sumardvöl á öðrum leikskóla en þeim sem barnið sækir að staðaldri, enda verulegt rót fyrir ung börn að skipta um umhverfi með þessum hætti. Hér er jafnræðis ekki gætt milli fjölskyldufólks eftir hverfum og borgarhlutum. Fyrirkomulagið leiðir af sér sumaropnun fyrir suma og þyrfti að endurskoða.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðeins þrír leikskólar munu hafa það hlutverk að vera opnir í sumar. Þetta er engan veginn fullnægjandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að skóla- og frístundasvið taki fyrirkomulagið sem viðhaft er í Hafnarfirði sér til fyrirmyndar en þeir eru opnir allt árið um kring til að koma til móts við óskir foreldra og auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarleyfi á sama tíma og börn þeirra. Í Reykjavík hins vegar er leikskólum öllum lokað á sama tíma. Foreldrar hafa ekkert um það að segja hvenær barnið fer í frí. Í Hafnarfirði og í fleirum sveitarfélögum eru þessi mál til fyrirmyndar. Starfsemi leikskóla tekur mið af fjölda barna hverju sinni og getur því vissulega verið með breyttu sniði yfir sumartímann þegar flest börn eru í leyfi. Sumarstarfsfólk úr Vinnuskóla bætist við hóp starfsfólks leikskólanna yfir sumartímann. Þarna er tækifæri til að minnka manneklu og einnig hjálpa skólafólki að fá vinnu. Vel mætti skoða að fá fleiri unglinga til starfa úr vinnuskólanum og einnig þá sem eru 18 ára og eldri. Gert yrði að sjálfsögðu ráð fyrir að ungmennin undirgengjust námskeið og störfuðu undir handleiðslu.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. nóvember 2021 um leikskóla sem eru opnir til kl. 17, ásamt fylgiskjölum. R21110264
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Breyttur opnunartími leikskóla er mikilvægur liður í því að bæta starfsskilyrði og nýta betur tíma starfsfólks á leikskólum. Tillagan kom fyrst fram í skýrslu um bætt starfsumhverfi á leikskólum. Í jafnréttismati kom fram að ákveðnir hópar eiga erfiðara en aðrir með skerta þjónustu og ljóst er að vissir hópar treysta á að geta haft dvöl til klukkan 17. Talið var mikilvægt að koma til móts við þá þörf. Farið var í það að tala við þá foreldra sem eru með samning lengur en til 16:30 og kanna hug þeirra til áframhaldandi dvalartíma til 17.00. Í kjölfar greiningar voru valdir sex leikskólar, einn í hverju hverfi, sem munu vera opnir til kl. 17.00 frá 1. janúar 2022. Um tilraunaverkefni til tveggja ára er að ræða, þar sem þörfin og fyrirkomulagið verður síðan metið. Er það gert til að koma til móts við þarfir fjölskyldna í samræmi við niðurstöður jafnréttismats.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samhliða skertum opnunartíma á leikskólum borgarinnar var fyrirhugað að tryggja einn til tvo leikskóla innan hvers hverfis með óskerta opnun til kl. 17. Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðeins verða 5-6 leikskólar af 63 leikskólum á vegum borgarinnar með fullan opnunartíma til kl. 17. Því er ljóst að horft verður framhjá langflestum hverfum borgarinnar hvað varðar óskerta leikskólaþjónustu. Sjálfstæðisflokkur hefur frá upphafi lagst alfarið gegn skerðingu á opnunartíma leikskólanna og leggur áherslu á framúrskarandi þjónustu við fjölskyldur í Reykjavík. Jafnréttismat sýnir glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Útlit er fyrir að skerðingin verði mikil afturför í jafnréttisbaráttunni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðeins þrír leikskólar munu hafa það hlutverk að vera opnir í sumar. Þetta er engan veginn fullnægjandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að skóla- og frístundasvið taki fyrirkomulagið sem viðhaft er í Hafnarfirði sér til fyrirmyndar en þeir eru opnir allt árið um kring til að koma til móts við óskir foreldra og auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarleyfi á sama tíma og börn þeirra. Í Reykjavík hins vegar er leikskólum öllum lokað á sama tíma. Foreldrar hafa ekkert um það að segja hvenær barnið fer í frí. Í Hafnarfirði og í fleiri sveitarfélögum eru þessi mál til fyrirmyndar. Starfsemi leikskóla tekur mið af fjölda barna hverju sinni og getur því vissulega verið með breyttu sniði yfir sumartímann þegar flest börn eru í leyfi. Sumarstarfsfólk úr Vinnuskóla bætist við hóp starfsfólks leikskólanna yfir sumartímann. Þarna er tækifæri til að minnka manneklu og einnig hjálpa skólafólki að fá vinnu. Vel mætti skoða að fá fleiri unglinga til starfa úr vinnuskólanum og einnig þá sem eru 18 ára og eldri. Gert yrði að sjálfsögðu ráð fyrir að ungmennin undirgengjust námskeið og störfuðu undir handleiðslu.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 29. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu við fatlað fólk sem ekki getur nýtt rafrænar lausnir, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. R21110095
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjölmargir hafa varað við einhliða upptöku rafrænna lausna, til dæmis þeir sem koma að málefnum fatlaðra einstaklinga. Fatlaðir einstaklingar eru ólíkur hópur með ólíkar þarfir. Brotin eru mannréttindi á þeim með því að krefjast rafrænna hlekkja án þess að hlusta á þau varnaðarorð sem fram hafa komið frá Þroskahjálp og fleirum. Fyrir þennan hóp verður að finna aðrar leiðir fremur en að reyna að ná fram skammtíma „hagræðingu“ fyrir þjónustuveitendur. Hinn rafræni faðmur hins opinbera er ekki eins tryggur og ætla mætti og býður upp á margskonar mistök. Nauðsynlegt er að mæta þörfum fatlaðra á mennskan máta og hlusta á raddir þeirra. Nauðsynlegt er að bjóða aðrar auðkennisleiðir og útbúa auðlesið upplýsingaefni á pappírsformi. Það er ekki heillavænlegt að fara aðeins einstefnu stafræna leið! Það verða alltaf fatlaðir einstaklingar í þjóðfélaginu!
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um læknisheimsóknir á vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. nóvember 2021. R21110245
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. nóvember 2021, um hugmyndafræði við hönnun leikskóla. R21110270
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri. Tillögunni er vísað frá. Einnig var lagt til að skoðað yrði með hvaða hætti væri hægt að breyta eldri leikskólum með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli. Með frávísun má draga þá ályktun að ekki sé áhugi á að horfa sérstaklega til leikskóla í þessum efnum. Til eru leikskólar sem hafa verið hannaðir með þessa þætti í huga og má nefna Múlaborg. Fleiri leikskólar þyrftu að vera eins og hann. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda. Ástandið er sérlega slæmt þar sem er mikil mannekla. Þar sem vel hefur tekist til eru öll starfsmannaklósett inni í kennslustofum nemenda, fatahengi barna eru inni í kennslustofu barna, hver kennslustofa hefur sér útihurð til að komast að leikvellinum og sameign er hönnuð þannig að starfsmenn hafi ávallt yfirsýn yfir börnin.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vinna við stefnu mannvirkja á vegum skóla- og frístundasviðs er á lokametrunum og í umsagnarferli. Algild hönnun er óaðskiljanlegur partur af þeirri stefnu. Tillagan bætir litlu við þá vinnu sem þar hefur farið fram og er henni vísað frá.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. nóvember 2021. R21010004
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis frá 25. nóvember 2021. R21010028
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að íbúaráðin séu framhandleggur íbúa hverfisins inn í „kerfið“ og borgarstjórn og gæti þess ávallt að rödd fólksins heyrist. Þetta hefur reyndar ekki verið upplifun af íbúaráðum sem eru afar misjöfn. Stundum hefur þurft að berjast fyrir að koma máli sem brennur á íbúum á dagskrá íbúaráðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur stundum lýst íbúaráðum eins og minni útgáfu af borgarstjórn þar sem meirihlutinn ræður umræðunni og afgreiðslu mála. Á þessum vettvangi verður að vera hægt að skiptast á skoðunum, takast á um málefni ef því er að skipta og forðast umfram allt hóplyndi. Íbúðaráðin eru ekki eins og einhver saumaklúbbur. Í þeirri fundargerð sem hér um ræðir mætti koma skýrar fram hvað er til umræðu. Sem dæmi eru liðir 3 og 4 ansi snautlegir í fundargerðinni. Hér mætti vera nánari útlistun t.d. á hvaða nótum þessar umræður voru.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. nóvember 2021. R21010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 22. nóvember 2021. R21010021
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Kynning á rannsóknum á körlum sem beita konur ofbeldi, skýringar og reynsla af meðferð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að ræða og fræða um þessi mál og skal fræðsla ávallt verið byggð á nýjum, ritrýndum rannsóknum. Fræðimenn eru sammála um margt en enn er margt sem eftir er að rannsaka. Of fá úrræði hafa verið fyrir þá sem beita ofbeldi og kannski hafa þau úrræði sem staðið hafa til boða verið of einsleit. Ein tegund úrræða hentar ekki öllum. Þeir sem beita ofbeldi vilja upp til hópa fá aðstoð og hana þurfa þeir að fá. Að horfast í augu við eigin ofbeldishegðun er fyrsta skrefið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að þessi kynning sem ber heitið Samræða um ofbeldi hafi átt sér stað í ofbeldisvarnarnefnd.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 10. nóvember 2021. R21010016
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 1. desember 2021. R21010008
8. liður fundargerðarinnar, fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, nr. 1141 frá 23. nóvember 2021 er staðfest.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 ha landfyllingu í Skerjafirði og er áætluð efnisþörf um 245.000 m3, sem nemur rúmlega 14.400 trailerum/12 metra löngum vörubílum. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 0,5 hektara landfyllingu og í seinni áfanga 3,8 hektara. Mikið umhverfisslys er í uppsiglingu og mikið inngrip í náttúruna. Shellvík er með síðustu náttúrulegu og óröskuðu fjörunum í Reykjavík fyrir utan Kjalarnes. Áætlað er að fullbyggður nýi Skerjafjörður hýsi 2.300–2.500 íbúa í 1.400 íbúðum og þar af eiga 300 íbúðir að vera á fullbyggðri landfyllingu. Áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki, fuglalíf og verndarsvæði samkvæmt skýrslunni eru metin í hæsta neikvæða flokki. Á svæðinu eru minjar um fyrstu sjóflugvélasögu Reykjavíkur sem var upphafið að flugi í Vatnsmýrinni og þessari sögu á að fórna. Innviðir Skerjafjarðar þola ekki það álag sem af þessari uppbyggingu hlýst. Umferðarálagið er nægt fyrir og nýlega var boðað að þrengja að Suðurgötu og breyta henni í borgargötu. Efnisflutningar verða gríðarlegir í gegnum Skerjafjörð og á Menntavegi framhjá HR og á ólögðum vegi við enda flugbrautarinnar í Vatnsmýrinni. Þá eru ótalin áhrifin af eknum kílómetrum, slit gatna og losun koltvísýrings af verkinu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgaryfirvöld beittu sér fyrir að 18 ára aldurstakmark yrði sett til að aka um á rafmagnshlaupahjólum sem náð geta meira en 25 km hraða. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þurfi að skoða í samhengi við aldursmörk bílprófs. Það er ábyrgðarhluti að hunsa þessa tillögu nú þegar sprenging hefur orðið í tíðni alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum. Reykjavíkurborg getur sent erindi til ríkisins og óskað eftir samvinnu um þessi mál hið snarasta. Reykjavíkurborg verður að gera allt sitt til að draga úr slysum og beita sér fyrir að hjólin séu notuð með ábyrgum og öruggum hætti. Fram undan er hálkutíð og í hálku eru rafhlaupahjólin hættuleg. Það er ekki bara nóg að fagna þessum skemmtilega samgöngumáta heldur þarf að fræða um hvernig nota á þessi hjól rétt svo enginn hljóti skaða af. Reykjavíkurborg getur beitt sér fyrir því að efla vakningu meðal foreldra og fræðslu til barna um notkun hjólanna og um hætturnar í umferðinni. Annað vandamál er að dæmi eru um að hlaupahjól fari hraðar en leyfilegt sé, það er á 25 km hraða og eru þar með ólögleg.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 19. nóvember 2021. R21010017
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins bendir á athugasemdir fatlaðs fólk um Klapp, nýtt greiðslukerfi Strætó bs. Einungis er hægt að skrá sig með rafrænum skilríkjum sem veldur því að sökum fötlunar getur fatlað fólk ekki valið lykilorð og má ekki fá aðstoð við það. Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki á hvernig hægt var að hanna og þróa kerfi sem útilokar einn samfélagshóp með svo tillitslausum hætti. Fjölmargir hafa varað við einhliða upptöku rafrænna lausna þegar kemur að fólki með fötlun. Fatlaðir eru mismunandi með mismunandi þarfir. Það verður að finna leið þar sem fatlaðir geta auðkennt sig á annan hátt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R21110291
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21110299
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýlega var tekið í notkun nýtt greiðslukerfi hjá Strætó bs. sem kallast Klapp. Kerfið er hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Greiðslukerfið er rafrænt og virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldinu en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Vandinn er sá að stór hópur fólks með þroskahömlun er ekki með rafræn skilríki. Sökum fötlunar geta þau ekki valið lykilorð og mega þau ekki fá aðstoð við það. Fulltrúi Flokks fólksins vekur athygli á athugasemdum fatlaðs fólk og leggur hér fram fyrirspurnir um það hvað Strætó hyggist gera til að bæta úr þessum vanköntum. Af hverju var ekki hugsað út í þarfir þessa hóps þegar verið var að hanna og þróa nýtt greiðslukerfi? Hvernig á að hafa fyrirkomulagið á meðan verið er að leita lausna? R21120003
Vísað til umsagnar Strætó bs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú er komið rétt um ár síðan embætti umboðsmanns borgarbúa var lagt niður í þeirri mynd sem það var og sameinað innri endurskoðun. Hlutverkinu er lýst innan innri endurskoðunar þannig að borgarbúum sé veitt ráðgjöf og þeim leiðbeint í þeim samskiptum sínum við borgina og fræðir jafnframt starfsmenn borgarinnar um framkvæmd innra eftirlits, persónuvernd og meginreglur stjórnsýsluréttar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda kvartana, erinda og fyrirspurna frá því sameiningin átti sér stað, skiptingu mála eftir tegundum, skipting mála eftir sviðum og skrifstofum, skiptingu mála eftir kynjum og aldursgreiningu, skiptingu mála eftir afgreiðslu þeirra og stöð í málaskrá. Óskað er samanburðar milli ára. Hver var sami fjöldi 2018, 2019 og 2020? Fulltrúi Flokks fólksins er með þessum fyrirspurnum að kanna hvort málum hafi farið fækkandi eftir flutninginn, fjölgandi eða staðið í stað. R21120004
Vísað til umsagnar innri endurskoðanda og ráðgjafar.
Fundi slitið klukkan 11:12
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Hjálmar Sveinsson
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0212.pdf