Borgarráð - Fundur nr. 5647

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 25. nóvember, var haldinn 5647. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir og Eyþór Laxdal Arnalds. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og áheyrnarfulltrúinn Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2021 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. nóvember 2021, greinargerð um þróun rekstrar skóla- og frístundasviðs frá janúar til september 2021, dags. 23. nóvember 2021, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 23. nóvember 2021. R21110094
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Útbreiðsla COVID-19 faraldursins og áhrif á heimsvísu eru fordæmalaus og hafa haft mikil fjárhagsleg áhrif á Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg hefur sett fram og endurskoðað með reglubundnum hætti sviðsmyndagreiningar um þróun efnahagsmála sem er liður í virkri áhættustýringu borgarinnar. Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er sterk og borgin hefur fjárhagslegan styrk til þess að taka á sig veruleg áföll vegna afleiðinga faraldursins. Um leið og útgjöld hafa aukist verulega vegna faraldursins líkt og hjá öllum opinberum aðilum þá er sóknaráætlunin græna planið hryggjarstykkið í því að vaxa út úr vandanum frekar en að draga saman seglin.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skuldir borgarinnar hafa aukist um 19 milljarða frá áramótum sem er meira en 2 milljarðar á mánuði. Skuldir A-hluta borgarsjóðs hækka um 15% á níu mánuðum. Voru þó ærnar fyrir. Athygli vekur að matsbreytingar á félagslegu húsnæði Félagsbústaða skila 14 milljörðum í bókfærðan hagnað þrátt fyrir að félagið sé ekki sjálfbært án stuðnings borgarinnar. Í skýrslu fjármála- og áhættustýringasviðs segir réttilega: „Hækkun fasteignaverðs hefur jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu Félagsbústaða vegna matsbreytinga en segir lítið um grunnrekstur félagsins nema að ábati af hækkun fasteignaverðs verði innleystur með sölu eigna.“ Stefna borgarinnar er að minnka ekki eignasafn Félagsbústaða, þvert á móti er gert ráð fyrir að kaupa 156 íbúðir til loka næsta árs sem mun auka skuldsetningu félagsins verulega. Þá er áhyggjuefni hvað farþegum í Strætó heldur áfram að fækka með tilheyrandi lækkun tekna.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samstæða Reykjavíkurborgar skuldar 402 milljarða króna og er hlutur A-hlutans 143 milljarðar. Lántaka, ný stofnframlög og leiguskuldir eru 31,5 milljarðar. Veltufé frá rekstri er 1,6% en æskilegt hlutfall er 9%. A-hlutinn er neikvæður um rúma 5 milljarða. Laun og launatengd gjöld jukust um 8 milljarða milli ára. Liðurinn hækkaði A-hlutamegin um 7,7 milljarða og nemur hækkunin 3,7 milljörðum yfir áætlunum. Staðan er afleit og er stutt frá þroti. Einungis ytri aðstæður skapa þá stöðu að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 15,5 milljarða sem var 16,9 milljörðum betri niðurstaða en áætlað var. Skýrist það svo að útsvar var 4,8 milljörðum yfir áætlun á meðan aðrar tekjur voru 1,2 milljörðum undir áætlun sem rekja má til ofmats á sölu byggingarréttar upp á tæpan milljarð. Matsbreyting eigna Félagsbústaða var 14,1 milljarður og er 13,2 milljörðum yfir áætlun sem skýrist af stórhækkuðu fasteignamati á almenna markaðnum og skortstöðu á lóðum í borginni. Hér birtist froðuuppgjörið glöggt. Á fyrstu níu mánuðum ársins hækkaði álverð um 40% samanborið við 2,5% lækkun álverðs á sama tímabili 2020 og er sveiflan á þessum lið milli tímabila 10,6 milljarðar sem skilaði auknum tekjuskatti um 2,4 milljarða. Þetta er 9 mánaða uppgjör en það gefur vísbendingar um hvernig árið 2021 endar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er óviðunandi. Gert er ráð fyrir 7 milljörðum í halla hjá A-hlutanum. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans. Málaflokkur fatlaðra er ekki fullfjármagnaður og ekki séð að það breytist. Reykjavíkurborg þarf að finna leið til að vinna í kringum það. Mikilvægt er að sinna grunnþjónustu borgarinnar vel og frekar bæta þar í til að bæta og auka þjónustu. Vísbendingar eru um að skerða eigi þjónustu. Fjármagn er til, því þarf bara að deila út með öðrum hætti. Alltof mikið fjármagn fer í óþarfa hluti sem hvorki eru nauðsynlegir né kallað er eftir. Skóla- og frístundasvið rær lífróður og sama gildir um velferðarsvið. Frávik eru m.a. vegna COVID-19 en ekki einungis. Þörfin fyrir meiri þjónustu var tilkomin fyrir COVID-19. Þetta eru þau svið borgarinnar sem eru mikilvægust þegar kemur að grunnþjónustu við fólkið. Staða Strætó er alvarleg og framundan eru lántökur upp á 700 m.kr. Það er áhyggjuefni hvað afkoma Strætó er slæm. A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð m.a. fyrir Strætó.

    Halldóra Káradóttir, Gísli H. Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Helgi Grímsson og Kristján Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 18. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna endurnýjunar á miðlægum netinnviðum á starfsstöðum borgarinnar, ásamt fylgiskjölum.  R21110233
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Jahá – nú er allt í einu gefið upp áætlað verð í útboði þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur setið undir ámælum frá sviðsstjóra sviðsins og borgarstjóra fyrir að hafa upplýst almenning um áætlaðan kostnað við einstaka verk áður. Í opinberum rekstri er æskilegt að frumkostnaðaráætlun fylgi útboðum. Er það fagnaðarefni að vikið hefur verið frá leyndarhyggju sviðsins. Reykvíkingar verða að vita hvert þessir 10 milljarðar fara sem veita á í það sem er kallað „stafræn umbreyting“ sem er ferð án fyrirheits og lokatakmarks.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Verið að óska eftir heimild til uppfærslu á tækjabúnaði sem þarf að gera fyrr eða síðar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt meðhöndlun fjármagns og eyðslu í tilraunastarf á stafrænum lausnum í stað þess að leita til þeirra sem komnir eru lengra. Verkefnum var í upphafi ekki forgangsraðað eftir mikilvægi heldur ráðist í ótal verkefni, mörg sem ekki lá á og enginn beið eftir. Fyrir stuttu lá fyrir boð Ríkiskaupa um að Reykjavíkurborg myndi fara með ríkinu í tilboðsleit vegna hugbúnaðarleyfa Microsoft. Því var hafnað. Ríkiskaup hafa áratuga reynslu af innkaupum fyrir ríkið og allar undirstofnanir og búa án efa þarna yfir meiri þekkingu en Reykjavíkurborg. Sagt er nú að samstarf sé í gangi en það fór af stað of seint, milljarðar eru flognir út um gluggann. Þjónustu- og nýsköpunarvið vildi geta státað sig af því að vera „fremst og leiðandi“ sem hefur ekki skilað miklu enn í formi stafrænna lausna. Ríkiskaup hafa einnig verið að kaupa inn tölvubúnað í stórum stíl og þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins að leita hefði átt til þeirra vegna endurnýjunar miðlægra innviða Reykjavíkurborgar. Um almannafé er hér að ræða sem sviðið sýslar með og þess vegna ætti alltaf að leita bestu leiða. Það hefur ekki verið gert.

    Óskar Jörgen Sandholt og Kjartan Kjartansson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki leigusamning um hluta af húsnæði að Hagatorgi 1, ásamt fylgiskjölum. R21110206
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Uppsöfnuð viðhaldsþörf á skólahúsnæði borgarinnar til margra ára er gríðarleg. Þessi vanræksla bitnar bæði á skólahaldi og fjárhag borgarinnar, enda ekki til dýrari lán en vanræksla á viðhaldi. Skuldir borgarinnar hafa vaxið gríðarlega á undanförnum mánuðum eins og 9 mánaða uppgjörið ber með sér og þeir fjármunir hafa ekki verið nýttir í viðhaldsmál sem skyldi. Mikilvægt er að borgaryfirvöld vinni með foreldrunum og skólasamfélaginu að lausn vandans. Fyrirséð er að þetta verkefni mun taka lengri tíma en áætlanir gera ráð fyrir enda umfang þess mikið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Að vista börn í skyldunámi á hóteli lýsir ástandi skólabygginga í borginni. Viðhaldi hefur í engu verið sinnt og eru byggingarnar að grotna niður um alla borg. Slíkt ástand er algjörlega óviðunandi fyrir börn, foreldra, kennara og starfsmenn skólanna. Skuldasöfnun liðinna ára hefur ekki skilað sér í fjárfestingar, viðhald og lögbundna eða grunnþjónustu. Fjármagnið hefur runnið í gæluverkefni eins og dæmin sanna. Þetta ástand er gjörsamlega óþolandi, ólíðandi og algjörlega til skammar fyrir borgarstjóra sem setið hefur í Ráðhúsinu í 20 ár.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er vont til þess að vita hvernig komið er fyrir Hagaskóla en kemur ekki á óvart. Málið er ekki nýtt. Viðhald skólabygginga hefur ekki verið nægjanlega gott á undanförnum árum og mygla í húsnæði hrekur starfsemina úr skólahúsnæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi málefni Hagaskóla ítarlega frá júní til september 2019 og bókaði þá um skýrslu innri endurskoðanda þar sem fram kom að viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Fjárveitingavald borgarinnar virðist ekki hafa skilið að sinna þarf húsum ef þau eiga ekki að grotna niður. Á þessum tíma var ákveðið að setja 300 milljónir í viðhald sem var eins og dropi í hafið ef tekið er mið af ástandi skólabygginga. Þetta sýnir að yfirvöld tóku þessi mál ekki mjög alvarlega 2019. Fulltrúi Flokks fólksins var með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn á þessum tíma. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Minnt var á hina svokölluð fimm skóla skýrslu sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Reynt var ítrekað að fá þessa skýrslu upp á borð. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði að gera þurfti stórátak í þessum málum og verja í málaflokkinn 1-2 milljörðum. Þetta var 2019!

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2021, varðandi ársfjórðungsskýrslu græna plansins fyrir júlí til september 2021, ásamt fylgiskjölum. R20060016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Græna planið er sóknaráætlun borgarinnar út úr COVID-kreppu. Ársfjórðungsskýrslur hafa verið lagðar fyrir borgarráð síðan planið var samþykkt en með því er ætlunin að gefa fulltrúum borgarráðs yfirsýn yfir stöðuna á fjölmörgum verkefnum plansins. Ársfjórðungsskýrslan gefur yfirsýn yfir stöðuna í fjármálum, vinnumarkaðsaðgerðum, grænni íbúðauppbyggingu, grænum þekkingarkjörnum, markaðsátaki í ferðaþjónustu, framtíðarsýn um græna borg, losun gróðurhúsalofttegunda, blómlega borg, samtal og þátttöku íbúa og bætta lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Því miður er ljóst að græna planið er ekki sjálfbært eins og lagt er upp með. Þvert á móti vaxa skuldir borgarinnar með ósjálfbærum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er dálítið mikið bara „allt“ sett undir græna planið, sem gerir kannski þetta hugtak „grænt“ svolítið ruglingslegt. Þetta er mikið tískuhugtak og orðið ofnotað orð. Það er tímabært að kjarna hvað átt er við með grænu og um hvað það hverfist helst. Eiginlega eru lítil takmörk á því hvað sett hefur verið undir græna planið hjá meirihlutanum. Því er slegið fram í tíma og ótíma og þá eiga allir að hugsa að á ferðinni sé „eitthvað gott“. Ef litið er á aðgerðaáætlun í ársfjórðungsskýrslunni má sjá t.d. virkniúrræði. Lýsing: Er í endurskoðun með áherslu á virkni. Staða verkefnis: Í vinnslu. Stöðulýsing: Verið er að leita að húsnæði. Þá spyr fulltrúi Flokks fólksins, hvar er þetta „græna“ í þessu? Þessi skýrsla er því ekkert frekar ársfjórðungsskýrsla „græna plansins“ heldur er hún stöðuskýrsla fjölda verkefna sem eru flest enn í vinnslu. Þetta eru tæplega 40 verkefni sem þarna eru nefnd og 9 af þeim eru merkt sem lokið.

    Svavar Jósefsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. nóvember 2021, um starfshóp um græna plan Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum R20120040

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Starfshópi um græna planið er ætlað að innleiða og framkvæma græna planið með markvissum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ágætt að skipa starfshóp um framgang grænna mála. Til skamms tíma hefur ekki verið vel skilgreint hvað átt er við með grænum verkefnum, sjálfbærri þróun og líffræðilegum fjölbreytileika. Vonandi verður bætt úr því. Best væri ef hópurinn myndi reyna að flokka verkefni, draga þau fram sem ættu raunverulega heima undir grænum hatti.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. nóvember 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að velferðarsvið og umhverfis- og skipulagssvið hefji endurskoðun á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðisúrræðis fyrir fatlað fólk til 2030 með það að markmiði að fjölga sértækum húsnæðisúrræðum til að mæta auknum fjölda einstaklinga á biðlista, að höfðu samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og Félagsbústaði. Einstaklingum sem hafa þörf fyrir úrræðið skv. umsóknum hefur fjölgað meira á undanförnum árum en áætlað var við gerð uppbyggingaráætlunar árið 2017. Á það sér í lagi við um einstaklinga sem samþykktir hafa verið á biðlista eftir sértækum húsnæðisúrræðum í þjónustuflokkum III og IV. Er ljóst að í einhverjum mæli er þar um að ræða fólk sem flytur til borgarinnar þar sem helst er von um sérhæfð húsnæðisúrræði sem mæta þörfum viðkomandi. Frá árinu 2014 hafa 224 einstaklingar fengið úthlutað húsnæði fyrir fatlað fólk. Eftir að uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk var samþykkt árið 2017 hafa 135 einstaklingar fengið úthlutun. Um er að ræða stærsta uppbyggingarátak í málaflokknum frá upphafi. Árið 2020 var 47 einstaklingum úthlutað húsnæði fyrir fatlað fólk og er það mesti fjöldi úthlutana á einu ári frá yfirfærslu málaflokksins árið 2011. Ljóst er að framlög ríkisins vegna málaflokks fatlaðs fólks eru ekki að mæta þeim fjármunum sem Reykjavíkurborg er að setja til hans á grundvelli laga. Þrátt fyrir öfluga uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk á umliðnum árum eru enn 135 einstaklingar sem bíða eftir húsnæði við hæfi. Af þessum einstaklingum eiga 25 manns lögheimili annarsstaðar en í Reykjavík. Aðstæður þessara einstaklinga eru mismunandi en allir eru þeir í þörf fyrir húsnæði og stuðning. Í vinnu við endurskoðaða uppbyggingaráætlun fyrir sértæk húsnæðisúrræði er gert ráð fyrir að velferðarsvið leggi mat á þörf fyrir mismunandi úrræði og leggi til forgangsröðun þeirra. Eðlilegt er að miða við að einstaklingar sem þurfa aðra og meiri þjónustu en unnt er að veita utan sérhæfðra búsetuúrræða verði í forgangi. Gert er að ráð fyrir að umhverfis- og skipulagssvið geri tillögur að staðsetningu húsnæðisins og eftir atvikum lóða fyrir það á grundvelli dreifingar núverandi og framtíðarbúsetuúrræða með það að markmiði að stuðla að félagslegri blöndun um alla borg. Stefnt verði að því að endurskoðuð áætlun liggi fyrir 1. apríl 2022 og liggi til grundvallar við endurskoðun á gildandi húsnæðisáætlun, ásamt fjárhags- og fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar. R21110125

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á kjörtímabilinu hefur samtals 120 fötluðum einstaklingum verið úthlutað sértækum íbúðum með einstaklingsmiðaðri þjónustu. Það er mikilvægt að uppbyggingaráætlun taki mið af þörfum fatlaðs fólks í Reykjavík fyrir sértækt húsnæði og að við höfum áætlun um hvernig við munum mæta núverandi þörf og þeim sem við áætlum að muni bætast í hópinn á næstu 10 árum. Það er forgangsmál að halda áfram öflugri uppbyggingu í þágu fatlaðs fólks í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki að velferðarsvið og umhverfis- og skipulagssvið hefji endurskoðun á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðisúrræðis fyrir fatlað fólk til 2030 með það að markmiði að fjölga sértækum húsnæðisúrræðum. Loksins! Hér hefur dropinn holað steininn en fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils ávarpað skort á sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Í áætlun til 2030 var naumt skammtað. Þannig hefur það alltaf verið. Þessi hópur og aðrir viðkvæmir hópar mæta afgangi, eru aldrei í forgangi. Staðan þann 1. september sl. var að fjöldi umsækjenda sem bíður eftir fyrsta húsnæði er 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Það gerir samtals 168 einstaklinga og hafa 40 einstaklingar beðið lengur en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst síðustu ár. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölurnar þær sömu. Sumir hafa beðið í fjöldamörg ár, fatlað fólk sem er orðið rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar ferðar staðgengils borgarstjóra, Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, til Þórshafnar í Færeyjum, dagana 26. nóvember til 29. nóvember n.k. þar sem hún mun færa Þórshafnarbúum jólatré frá Reykjavíkurborg og taka þátt í hátíðardagskrá við tendrun þess.  R21110201

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þriggja daga ferð, en er ekki möguleiki á að nota fjarfundabúnað?

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar þátttöku borgarstjóra í ráðstefnunni International Congress for the Prevention of Addiction í Mexíkó, dagana 30. nóvember til 3. desember, ásamt fylgiskjölum. R21110204

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Er ekki alveg rakið að notast hérna við fjarfundarbúnað? Eru ekki bæði Reykjavík og Mexíkó borgir með þróaðan fjarfundabúnað? Fundir í gegnum netið kosta minna en að fara á staðinn svona langan veg.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 22. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. nóvember 2021 á tillögu um samþykki samnings um neyslurými, ásamt fylgiskjölum. R21030243
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjórn samþykkti þann 20. október 2020 að óska eftir viðræðum við ríkið um rekstur neyslurýmis. Markmið Reykjavíkurborgar er að halda áfram innleiðingu skaðaminnkandi hugmyndafræði í þjónustu við fólk sem notar vímuefni, sem er mannréttindamiðuð nálgun sem byggist á því að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Með samningnum við Sjúkratryggingar fæst nauðsynlegt fjármagn til að hægt sé að veita jaðarsettasta hópi samfélagsins lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Neyslurými draga úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan, aðstandendur og nærsamfélagið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessu er fagnað. Fulltrúi Flokks fólksins lagði þann 20. nóvember 2018 fram tillögu um að borgarstjórn samþykkti að setja á laggirnar rými fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík í samvinnu við verkefnið Frú Ragnheiði hjá Rauða krossinum. Þá hafði heilbrigðisráðuneytið eyrnamerkt 50-60 milljónir í uppsetningu á rými af þessu tagi fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík og er hlutverk Reykjavíkurborgar að finna húsnæði. Nú er þetta loksins að verða að veruleika. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú skaðaminnkandi hugmyndafræði sem neyslurými er byggt á sé eina nálgunin sem er mannréttindamiðuð og sem bæði byggist á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til og eru vel nýtt hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað. Í framtíðinni er mikilvægt að úrræði sem þetta verði staðsett á nokkrum stöðum og opið allan sólarhringinn.

    Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 22. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. nóvember 2021 á samkomulagi milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar, um breytingu á samningi um heimahjúkrun, dags 21. september 2020, ásamt fylgiskjölum R21010100

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með þessum breytingum á samkomulagi við Sjúkratryggingar Íslands getum við aukið þjónustu SELMU sem er færanlegt öldrunarteymi í heimahjúkrun. Þjónustan verður nú í boði alla daga vikunnar, frá kl. 9-20 virka daga og kl. 10-16 um helgar. Árangurinn er ótvíræður og árangursmælingar sýna fram á mikilvægi þjónustu SELMU sem hluta af samþættri heimaþjónustu.

    Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3872/2021.  R21080172

  12. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. nóvember 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tímarit varðandi húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021.  R21100432

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ástæða er til að innkauparáð kanni hvort þetta verkefni sem er rétt undir viðmiðunarmörkum (14,5 m.kr. með vsk.) ásamt öðrum verkum, verði boðið út í heild.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kemur skýrt fram að fólk vill búa í Reykjavík. Að mati Flokks fólksins er fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar óviðunandi og ekki farið nægjanlega vel með fé skattgreiðenda. Mikilvægt er að sinna grunnþjónustu borgarinnar vel og frekar bæta þar í þjónustu til að minnka biðlista. 11 milljón króna lóðabæklingur sem líklegt má telja að fari beint í ruslið hjá mjög mörgum borgarbúum er að mati Flokks fólksins dæmi um illa meðferð fjár og óumhverfisvænt verkefni sem rímar ekki við grænar áherslur og grænt plan. Flokkur fólksins vill húsnæðisúrræði fyrir alla og þá sérstaklega ódýrt húsnæði og ekki síst fyrir þá sem minna mega sín. Samkvæmt fréttum er ungt fólk að snúa aftur í foreldrahús þar sem það ræður ekki við það dýra húsnæði sem nú er í boði. Flokkur fólksins vill breyta þessu. Ekki er hægt að lækka íbúðaverð með því að bjóða eingöngu íbúðir á þéttingarsvæðum. Bæta þarf við nýjum hagkvæmum byggingarsvæðum þar sem ekki þarf að kaupa upp lóðir og rífa eldra húsnæði. Meirihlutinn talar um græn svæði og grænt samfélag. Spyrja má hvort sú mikla þétting sem nú á sér stað sé græn og veiti íbúum aðgang að útivistarsvæðum, birtu og fuglasöng.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um tímarit varðandi húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021.  R21100435

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kemur skýrt fram að fólk vill búa í Reykjavík. Að mati Flokks fólksins er fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar óviðunandi og ekki farið nægjanlega vel með fé skattgreiðenda. Mikilvægt er að sinna grunnþjónustu borgarinnar vel og frekar bæta þar í þjónustu til að minnka biðlista. 11 milljón króna lóðabæklingur sem líklegt má telja að fari beint í ruslið hjá mjög mörgum borgarbúum er að mati Flokks fólksins dæmi um illa meðferð fjár og óumhverfisvænt verkefni sem rímar ekki við grænar áherslur og grænt plan. Flokkur fólksins vill húsnæðisúrræði fyrir alla og þá sérstaklega ódýrt húsnæði og ekki síst fyrir þá sem minna mega sín. Samkvæmt fréttum er ungt fólk að snúa aftur í foreldrahús þar sem það ræður ekki við það dýra húsnæði sem nú er í boði. Flokkur fólksins vill breyta þessu. Ekki er hægt að lækka íbúðaverð með því að bjóða eingöngu íbúðir á þéttingarsvæðum. Bæta þarf við nýjum hagkvæmum byggingarsvæðum þar sem ekki þarf að kaupa upp lóðir og rífa eldra húsnæði. Meirihlutinn talar um græn svæði og grænt samfélag. Spyrja má hvort sú mikla þétting sem nú á sér stað sé græn og veiti íbúum aðgang að útivistarsvæðum, birtu og fuglasöng.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 16. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fjölbýlishús á vegum Félagsbústaða að Hjallaseli 55, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021.  R21100446

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 15. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um íbúðakjarna Félagsbústaða við Árland, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021.  R21090282

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019. R19110090

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Við lestur þess fæst sú upplifun að allir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag og breytingar hafi heppnast vel. Stærsti kostnaðurinn eru laun verkefnastjóra en annan kostnað er ekki svo gott að reikna út svo sem tíma og laun við að bregðast við kvörtunum, svara skeytum og síma og sitja fundi. Reyndar kemur hvergi fram og hvergi hefur það sést með skýrum hætti hvað breytingar á mannvirkjum og umferðarmannvirkjum kostuðu vegna sameiningarinnar. Ástæða spurningarinnar var m.a. að talað var um að hafa þetta fyrirkomulag til 10 ára og að hagræðing með því yrði um 2 milljarðar. Starfshópurinn taldi mikið tækifæri í þessu t.d. að venja börnin á að taka strætó en ekki láta skutla sér. Það er ljóst að starfshópurinn var einhuga um að breytingarnar yrðu farsælar. Þetta birtist eins og allt sé í blússandi blóma. Ef rétt er munað gekk alltof hægt að fá samgöngurnar í lag. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir foreldrana að horfa upp á börn þeirra keyrð úr hverfinu og börn úr 108 keyrð í hverfið. Borgin þykist vera að draga úr umferð og mengun, svo þetta er mjög mikil þversögn.

    Fylgigögn

  17. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 27. september og 12. október 2021. R21010018

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 18. nóvember 2021. R21010004

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. nóvember 2021. R21010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld beittu sér með ákveðnari hætti í að gera Úlfarsárdal sjálfbært hverfi eins og til stóð að það yrði og lofað var. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að verslun komi í Rökkvatjörn 1 og að tillagan geymi ekki raunhæfar lausnir. Í umsögn er viðurkennt að eitthvað hefur farið úrskeiðis við uppbyggingu þessa hverfis sem „af mörgum ástæðum“ eins og það er orðað, hefur tekið langan tíma. Á öllum þessum tíma hefur ekki tekist að byggja upp nauðsynlega innviði til að hægt sé að mæta daglegum þörfum íbúanna innan hverfisins. Verið er að byggja glæsilegt mannvirki í Dalnum, skóla, íþróttaaðstöðu og sundlaug. Það eru aðrir hluti sem vantar, s.s. almennar þjónustuverslanir. Ekki er hægt að kaupa neinar vistir í sjálfu hverfinu enn sem komið er. Sé farið í næsta hverfi eftir föngum þarf bíl, og það er ekki í samræmi eða í takt við hugmyndafræði skipulagsyfirvalda. Hér eru því heilmiklar mótsagnir.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 17. nóvember 2021. R21010031

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 17. nóvember 2021. R21010032

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð eru fram 5 mál sem snúa að athugasemdum vegna hverfisskipulags Breiðholts. Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15m frá miðlínu annarra þjóðvega. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta gefur þá vísbendingu að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Kópavogur heimtar óbeint í bréfi að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi slæmu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag reyni að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra því hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Þegar á allt þetta er litið má spyrja af hverju hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins.

    Fylgigögn

  23. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. og 30. september og 25. október 2021. R21010015

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. október 2021.  R21010017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst rosalegt að sjá hvað Strætó þarf að taka mikið af lánum. Fá á lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 400 m.kr. Lánið er til 8 ára, vextir eru fastir 4,5%. Einnig er búið að samþykkja lánasamning við Arion banka þar sem Strætó tekur rekstrarlán upp á 300 m.kr. Lánið er til 5 ára, vextir eru 2,5% álag á REIBOR vexti. Það er áhyggjuefni hvað afkoma Strætó er slæm. A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Um þetta liggja fyrir mörg dæmi. Ítrekað hefur komið inn á borð borgarráðs ósk um að borgarstjórn veiti veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar í Lánasjóði sveitarfélaga til tryggingar á ábyrgð á lántöku Félagsbústaða. Sama hefur gerst með Strætó og SORPU.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R21110002

    Fylgigögn

  26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21110001

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. nóvember 2021, varðandi fundadagatal borgarráðs fyrir fyrri hluta árs 2022, ásamt fylgiskjölum. R18080150

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. nóvember 2021, varðandi skipun í vinnuhóp borgarráðs vegna styrkúthlutunar borgarráðs árið 2022 þar sem lagt er til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Eyþór Laxdal Arnalds borgarráðsfulltrúi skipi hópinn. R21110231
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Óskað er eftir upplýsingum um þá óformlegu og formlegu fundi sem borgarstjóri hefur átt með formanni stjórnar, stjórnarmönnum og forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur á kjörtímabilinu.  R21110271

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Þegar nýja greiðslukerfi Strætó bs., Klappið, er skoðað þá er enginn valmöguleiki fyrir öryrkja. Það er bara hægt að kaupa farmiða eða árskort fyrir fullorðna, ungmenni eða aldraða. Hver er útskýringin á því? Er búið að fella niður afsláttarkerfi til öryrkja? Áður fyrr var hægt að kaupa 20 miða kort sem var á lægra verði en almennt verð í strætó en það er nú ekki í boði. Á vefsvæði kemur fram að öryrkjar eigi að geta keypt miða í Klappinu en það er ekki sýnilegt þar. R21110276

    Vísað til umsagnar Strætó.

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri. Einnig er lagt til að skoðað verði með hvaða hætti væri hægt að breyta eldri leikskólum með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli. Leikskólar eru mismunandi í þessu tilliti. Algild hönnun og hönnun leikskóla almennt séð getur skipt máli fyrir ótal margt í starfi leikskólanna t.d. hvernig starfsfólk nýtir krafta sína í umsjón, eftirliti og leik með börnunum. Í leikskóla þar sem hönnun hefur tekist vel segir starfsfólk að áhrif undirmönnunar séu minni vegna þess hvernig rýmin eru uppbyggð og hægt er að hafa góða yfirsýn. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21110270
    Frestað.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bjóða skuli út úrgangsþjónustu Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins vekur athygli á því að Samkeppnisstofnun gaf út skýrslu þar sem bent er á að með vel skilgreindum útboðum á úrgangsþjónustu hafi sveitarfélög sparað 10-47% í kostnaði. Það ætti að vera hlutverk borgarfulltrúa að sjá til þess að úrgangsþjónusta sé sem hagkvæmust fyrir íbúa og fyrirtæki. Varla er rekstur SORPU undantekning frá þeirri reglu að sparnaður náist – eða hvað? Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna dæmi um árangur í útboði frá Osló enda skipulagsyfirvöld hrifin af mörgu því sem þar á sér stað: Eftir umfangsmikla undirbúningsvinnu, m.a. fundi með hagsmunaaðilum, var ákveðið að skipta útboðinu upp í nokkra þætti. Tilboðin sem bárust voru um 30-40% lægri en kostnaður í eldra kerfi (http://www.kretslopet.no/nyheter/497-kraftig-prisreduksjon-pa-innsamling-i-oslo). Fulltrúi Flokks fólksins vill að úrgangsþjónusta verði eins hagkvæm fyrir íbúa og fyrirtæki og kostur er. Í sveitarfélögum þar sem horft er til árangurs í úrgangsmálum eru oft nefnd Akureyri og Stykkishólmur en þar er úrgangsþjónusta boðin út. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R21110272
    Frestað.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir skýringum á hvernig standi á því að ekki hafi verið tekið tilboði Ríkiskaupa um þátttöku í innkaupum á hugbúnaðarleyfum frá Microsoft. Einnig spyr borgarfulltrúinn af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi ekki leitað til Ríkiskaupa vegna útboða um endurnýjun miðlægra innviða Reykjavíkurborgar. R21110273

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

Fundi slitið klukkan 11:15

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2511.pdf