Borgarráð - Fundur nr. 5645

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 11. nóvember, var haldinn 5645. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Skúli Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir.
Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Theodór Kjartansson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um stöðu COVID-smita í Reykjavík. R20030002

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands fyrir árið 2022. Samningurinn er til eins árs. Kostnaður samkvæmt samningnum er 2.750.000 kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21100414
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2021, þar sem drög að erindisbréfi stýrihóps um lýðheilsu og heilsuborgina Reykjavík eru send borgarráði til kynningar. R19110027

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um lýðheilsu og heilsuborgina Reykjavík eru send borgarráði til kynningar. R19110027

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 11. nóvember 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 950 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,70%, í óverðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKNG 40 1, sem eru 938 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.240 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,65%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, en það eru 945 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 10. nóvember 2021.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessari lántöku hækka skuldir borgarinnar um 2 milljarða króna. Ávöxtunarkrafa fer hækkandi samhliða aukinni verðbólgu og mun vaxtakostnaður borgarinnar fara vaxandi. Þetta er tíunda skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar á árinu og fara skuldir vaxandi jafnt og þétt.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2021, varðandi gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2022, ásamt fylgiskjölum. R21100377
    Vísað til borgarstjórnar.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 22. október 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja útboðsferli á fyrsta fasa átaks í teikningaskönnun, ásamt fylgiskjölum. R21050004
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Útboð á verkefninu átak í teikningaskönnun er hluti af stafrænu umbreytingarátaki Reykjavíkurborgar. Með því munu sparast um 4000 heimsóknir árlega í þjónustuver til að sækja eða skoða teikningar. Mikil eftirspurn er eftir teikningum á rafrænu formi. Fyrir nokkrum árum var farið í að skanna aðaluppdrætti og gera aðgengilega á netinu, sem nú er gert jafnóðum. Yfir milljón teikninga eru einungis aðgengilegar á pappírsformi og mikilvægt að koma á stafrænt form. Ávinningurinn af þessu átaksverkefni er ótvíræður fyrir alla notendur; íbúa, fagaðila, borgarstarfsmenn og aðra hagaðila. Mikill tími, kostnaður og mengun munu sparast með auknu aðgengi að þessum teikningum, auk þess sem tryggð er langtímavarðveisla teikninganna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er löngu tímabært að skanna teikningar eins og nú stendur til að bjóða hér út. Verkið er nokkuð umfangsmikið en ætti að spara vinnustundir fyrir borgarstarfsmenn og íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert við þetta útboð að athuga nema að það er í raun furðulegt að skrifstofa þjónustu og reksturs/þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafi ekki gert þetta fyrir löngu síðan. Það er afar sérstakt að Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélag landsins, sé núna fyrst að ganga í málið. Búið er að vesenast lengi með þetta og starfsfólk og þjónustuþegar kvartað yfir handavinnunni sem hverri umsókn fylgir og seinagangi Í afgreiðslu umsóknar. Yfir milljón teikninga, t.d. verkfræðiteikningar og uppdrættir, hafa ekki verið færðar á stafrænt form og eru því aðeins aðgengilegar á pappírsformi. Það líður varla sú vika að þjónustuþegar og notendur kvarti ekki yfir seinagangi í afgreiðslu umsókna hjá borginni. Svona er staðan þrátt fyrir að að minnsta kosti þrjú ár séu síðan ferlið hófst til að bæta aðgengi að þjónustunni og einfalda ferla.

    Óskar J. Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir, Þröstur Sigurðsson og Óskar Þór Þráinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. október 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja vinnu við að þróa fyrstu útgáfu af verkefninu gagnsjá, ásamt fylgiskjölum. R20100055
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gagnsjá Reykjavíkur er hluti af stafrænni umbreytingu borgarinnar og aðgerðaáætlun lýðræðisstefnu Reykjavíkur og hefur verið í undirbúningi hjá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði og þjónustu- og nýsköpunarsviði síðan 2019. Verkefnið snýr að því að miðla betur upplýsingum og auka gagnsæi. Það stuðlar að því að borgarbúar hafi greiðari aðgang að upplýsingum frá stjórnsýslunni en með því móti geta þeir betur tekið þátt í upplýstri lýðræðisumræðu. Það getur einnig stuðlað að vandaðri ákvarðanatöku og þar með auknu trausti til stjórnsýslunnar. Markmiðið er betri yfirsýn yfir framvindu mála og forsendur ákvarðana. Skýr ávinningur fyrir notendur er að mun einfaldara og þægilegra verður að finna upplýsingar, yfirsýn eykst og tímasparnaður vegna handavinnu við upplýsingaöflun verður umtalsverður.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að bæta rekjanleika mála hjá Reykjavíkurborg enda skortir yfirsýn og er þessu verkefni ætlað að bæta úr því sem er vel. Hér er engu að síður um háa fjárhæð að ræða í þetta tiltekna verkefni, þ.e. 56 m.kr. Ráðgert er að verkið taki tvö ár og verði þ.a.l. ekki lokið fyrr en langt er liðið á næsta kjörtímabil.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá á þetta verkefni að snúast um miðlun á efni frá stjórnsýslu borgarinnar. Gríðarlegur kostnaður og tími hefur farið í 1. áfanga og skrifstofur settar á laggirnar til að halda utan um einstök verkefni. Gróðurhúsið með öllu því sem því fylgdi og tugir af viðtölum við hina og þessa var ekki ódýrt. Verkefnið virðist hafa þanist út með hverjum degi, eignast sitt eigið líf. Hafa skal í huga að miklu efni frá stjórnsýslunni er miðlað á vef Reykjavíkurborgar, s.s. fundargerðir ráða og nefnda ásamt fylgigögnum, efni um starfsemi starfseininga, reglur, stefnur o.s.frv. Hinsvegar skortir á einfalda yfirsýn og samræmi í miðlunina sem gerir það að verkum að erfitt getur verið að finna efni, rekja feril mála og finna forsendur fyrir ákvarðanatöku. Hvergi er að finna mál sem borgarfulltrúar leggja fram sambærilegt því sem finna má á vef Alþingis. Greiningarvinna hefur staðið frá 2019. Telja má víst að ríkið væri fyrir löngu búið að kaupa svona kerfi tilbúið enda afar líklegt að til sé hugbúnaður sem nái utan um þessi verkefni. Ekki er minnst á gagnsjánna í verkefnalista yfir lausnir sem tilbúnar verða í árslok.

    Óskar J. Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir, Þröstur Sigurðsson og Óskar Þór Þráinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu, fyrir hönd innri endurskoðunar, að hefja verkefnið vinnsluskrá persónuupplýsinga, ásamt fylgiskjölum. R21110073
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að bæta skjalastjórnun hjá borginni. Hér er engu að síður um háa fjárhæð að ræða. Þá vekur verkefnið spurningar um hvort ekki hafi verið rétt að leita lausna á almennum markaði. Eins er gert ráð fyrir að verkið taki tvö ár og verði þ.a.l. ekki lokið fyrr en langt er liðið á næsta kjörtímabil.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vinnsluskrá er enn eitt dæmið um verkefni sem hefur verið í óskilgreindri þróunarvinnu. Verkefnið á að halda áfram að þróa og ekki er séð að það sé neitt nálægt því að verða tilbúið. Áfram verða pælingar og rannsóknir. Hefði ekki verið lag að bjóða þetta út strax í stað þess að fara í tilraunastarfsemi? Það er vissulega löngu tímabært að hafa eitthvert kerfi sem heldur utan um slíkar skráningar, það er ekki umdeilt. En það sem kemur á óvart í þessu er að plaggið sem sent er með þessari umsókn er frá árinu 2017 eða 2018 þegar upplýsingatækniskrifstofa þjónustu- og nýsköpunarsviðs (UTR), hét upplýsingatæknideild (UTD). En kannski kemur það ekki svo mjög á óvart þegar horft er á málið í heild sinni. Í þessu skjali koma fram gamlar áætlanir sem enginn veit hvar standa. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja spyrja um markvissa framkvæmdaáætlun varðandi þetta verkefni.

    Óskar J. Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir, Þröstur Sigurðsson og Óskar Þór Þráinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 8. nóvember 2021, varðandi leiðréttingu á upplýsingum er varða kauprétt Félagsbústaða og skilafrest tillagna vegna tillögu borgarstjóra um grænt húsnæði framtíðarinnar, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021, ásamt fylgiskjölum. R20100296

    Fylgigögn

  11. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 2. nóvember 2021, varðandi greiningu á úrskurðum kærunefndar útboðsmála í málum nr. 1 og 7/2020. Einnig lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað innkaupastjóra, dags. 1. nóvember 2021, um sama mál. R21110029

    Aksel Jansen tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  12. Lögð fram starfsskýrsla endurskoðunarnefndar 2020-2021, dags. september 2021. R21090232

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn er innbyrðis ósamræmi í lögum og reglum um framsetningu ársreikninga, en Reykjavíkurborg hefur bókað gríðarlegan hagnað af félagslegu húsnæði með samanteknum reikningsskilum þar sem félagslegt húsnæði er bókað sem fjárfestingareignir, en ekki félagslegt húsnæði. Ljóst er að ekki verður unað við þetta ósamræmi um langa hríð, en í lögum er talað um samstæðureikning.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða eru vel reifaðar í ársskýrslunni. Félagsbústaðir eru til fyrir þá sem þurfa aðstoð við húsnæði. Borgin er ekki fasteignafélag, en seld er ein og ein íbúð og aðrar keyptar. Félagsbústaðir eiga yfir 2000 íbúðir, markmiðið er ekki að græða, en matsbreyting sem þarna er, þar sem verið er að tekjufæra endurmat á verðmæti íbúða, sem þýðir hærra fasteignamat, er fært sem tekjur. Ef þetta væri ekki gert væri hallarekstur 300 milljónir. Hvað ef fasteignamat lækkaði? Yrðu þá Félagsbústaðir reknir með halla þótt ekkert breytist í rekstrinum (sjá rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu ársins 2020)? Endurskoðunarnefnd Reykjavíkur hefur fjallað um margar ábendingar og athugasemdir eins og fram kemur í skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með eina ábendingu/athugasemd sem reyndar er nýtilkomin en hann myndi vilja fá endurskoðunarnefnd til að svara. Hún er af hverju kostnaður við verkefni sem tengjast stafrænni umbreytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er færður í eignasjóð (ES). Afskriftir eru síðan færðar sem kostnaður á rekstrarreikningi. 10 milljarða kostnaður við breytingar á stjórnsýslu er eignfærður en ekki beint á rekstrarreikning. Margt af stafrænu umbreytingunni snýst einfaldlega um að það er verið að innleiða ný vinnubrögð og leggja af eldra vinnulag.

    Lárus Finnbogason tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. nóvember 2021 á almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkurborgar 2022-2024, ásamt fylgiskjölum. R21110080
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er lögð fram tillaga að almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkur fyrir tímabilið 2022-2024 en framtíðarhópur helstu haghafa í menntamálum borgarinnar hefur unnið að þeim allt árið. Aðgerðirnar skiptast í tíu liði sem saman mynda ákveðna forgangsröðun varðandi innleiðingu menntastefnunnar á komandi árum. Þar er að finna ný tíu áhersluatriði, til dæmis loftslagsmál, sem er stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir, en líka er vert að vekja sérstaka athygli á þeirri áherslu sem lögð er á heilbrigði og vellíðan með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál sem verða enn veigameiri þáttur í kjölfar heimsfaraldursins sem hefur að vonum aukið andlegt og líkamlegt álag á bæði börn og starfsfólk. Tillagan um almennu aðgerðirnar var send til umsagnar í öll foreldra- og skólaráð borgarinnar sem og til helstu haghafa um formlega og óformlega menntun í Reykjavíkurborg. Á grunni þessara aðgerða verður lögð fram útfærð aðgerðaáætlun með skilgreindum verkþáttum sem verður um leið kjarninn í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2022-2024. Aðgerðirnar eru tengdar beint við áherslur stefnunnar og eru liður í innleiðingu menntastefnunnar sem gildir til 2030.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að skólinn sé gjaldfrjáls með öllu og að gjaldtaka fari ekki fram í skólakerfinu, þar þarf að afnema gjald fyrir máltíðir þannig að öll börn sitji við sama borð. Eitt markmið í aðgerðaáætluninni fjallar um að stuðlað verði að félagslegu réttlæti og jafnræði barna til náms og virkrar þátttöku. Til þess þarf að hafa skólana gjaldfrjálsa. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefnan er góð enda ekki flókið að stefna rétt. Stefna ein og sér skiptir engu sé henni ekki fylgt. Margt kemur upp í hugann þegar menntun ber á góma. Fyrst skal nefna læsi. Nú styttist í næstu PISA-könnun, en þær hafa ekki komið nógu vel út hjá íslenskum börnum. Allt of mörg börn lesa sér hvorki til gagns né gamans. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að vekja athygli á nokkrum atriðum í þessu sambandi og má þar fyrst nefna sérkennslumál borgarinnar. Enginn veit um árangur, enginn samanburður er milli skóla. Eina sem vitað er er að sérkennslukennarar eru að kikna undan álagi. Þeir sinna börnum með lestrar- og námsvanda en einnig börnum með hegðunarvanda sem hindrar þau í að nýta getu sína í almennum bekk. Þetta er hinn vanbúni „skóli án aðgreiningar“ sem ætlað er að mæta þörfum allra barna en hefur enga burði til þess því það skortir ýmsar fagstéttir inn í skólanna. Sálfræðingar eru of fáir og með starfsstöð utan skóla. Á biðlista eru tæp 1500 börn eftir m.a. læsisfræðingum, sálfræðingum og talmeinafræðingum. Staðan er alvarleg, bæði drengjum og stúlkum hefur farið aftur í lestri og stærðfræði frá árinu 2003. Kvíði vex og lyfjanotkun hefur aukist.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. ágúst 2020, varðandi tillögur fyrir fegrunarviðurkenningar fyrir árið 2020, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020, sem fært var í trúnaðarbók fram yfir afhendingu þeirra þann 4. nóvember sl. R20080136

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2021, varðandi tillögur fyrir fegrunarviðurkenningar fyrir árið 2021, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september 2021, sem fært var í trúnaðarbók fram yfir afhendingu þeirra þann 4. nóvember sl. R20080136

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um „fegrunarviðurkenningar“ og fyrirkomulag í því sambandi. Fulltrú Flokks fólksins telur að leggja eigi áherslu á að dreifa vali á viðurkenningarhöfum þannig að viðurkenningar fari í fleiri hverfi. Það hefur verið lenska meirihlutans að einblína á ákveðinn miðsvæðishring. Þær viðurkenningar sem veittar eru nú eru enn og aftur allar á sama blettinum. Reykjavík er stærri en bara miðbærinn og næsta nágrenni. Aftur er spurt af hverju ekki megi horfa til annarra hverfa, t.d. Breiðholts, Árbæjar og Grafarvogs, ekki síst þegar kemur að vali fyrir falleg hús og lóðir. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til og gerir hér aftur að fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því, nema kannski að kaupa blómvönd. Að fá viðurkenningu af þessu tagi er hvatning fyrir fólk til að fegra umhverfi sitt. Hugmynd Flokks fólksins um að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu hefur í tvígang verið lögð fram en hefur ekki náð eyrum skipulagsyfirvalda. Virkja mætti íbúðaráðin í þessu sambandi eða kalla eftir með skýrari hætti tilnefningum úr öllum hverfum.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. nóvember 2021. R21010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fram fer kynning á uppbyggingu íþróttamannvirkja á félagssvæði ÍR. Hér finnst fulltrúa Flokks fólksins að það hefði verið lag að ræða möguleika á að byggja aðra sundlaug í Breiðholti einmitt á þessu svæði. Tillaga Flokks fólksins um aðra sundlaug í Breiðholti verður aftur lögð fram 6. desember í borgarstjórn. Enda þótt nóg sé af sundlaugum í Reykjavík þá er aðeins ein í Breiðholti. Í hverfinu öllu búa 22-24.000 manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að anna þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin, sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2.000 íbúðir þegar allt er tiltekið, þar af nýjar íbúðir í Mjódd sem gætu orðið u.þ.b. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega u.þ.b. 500-700. Nýtingartölur í sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð þar 2017. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru þrjár sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa um 28.000 manns. Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Það er því brýnt að skoða að byggja aðra sundlaug og ætti Suður-Mjódd að koma sterklega til greina.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 3. nóvember 2021. R21010027

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. október 2021. R21010031

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24., 27. og 28. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur látið sig málefni Úlfarsárdals varða og lagt fram í skipulags- og samgönguráði fjölmargar tillögur og fyrirspurnir í því sambandi. Á fundi skipulags- og samgönguráðs lagði fulltrúi Flokks fólksins fram spurningar um hvernig bregðast ætti við þeirri stöðu að í hverfinu eru 40 óbyggðar lóðir. Einnig má sjá rusl og drasl á víðavangi og órækt í hverfinu. Einnig hefur verið spurt um hvað skipulagsyfirvöld séu að gera til að vinna að sjálfbærni þessa hverfis. Á sama tíma og fólk er hvatt til að leggja bílnum er staðan þannig í Úlfarsárdal að aka verður í næsta hverfi til að kaupa matvöru. Það er vissulega ekki langt í næsta hverfi og þar eru myndarlegar verslanir. Í Úlfarsárdal þarf fólk að eiga bíl bæði til að sækja vistir og til að komast í vinnu því engin atvinnutækifæri eru í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/verslanir komi í Úlfarsárdal og séu helst staðsettar þannig að þær séu í göngu- eða hjólafæri fyrir sem flesta. Einnig eru borgaryfirvöld hvött til að beita sér fyrir því að matvöruverslun komi nálægt Bauhaus en þar eru næg bílastæði fyrir hendi.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 15. október 2021. R21010013

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 8. október 2021. R21010017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Miklar áhyggjur eru af samskiptamálum, einelti og fleiru hjá Strætó bs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur tvisvar lagt til að fundin verði leið til að laga hluti, í fyrra skipti að gerð verði starfsánægjukönnun hjá fyrirtækinu og í síðara skipti að gerð verði stjórnsýsluúttekt en hvoru tveggja var hafnað. Lagðar hafa verið fram fyrirspurnir um þessi mál en ekki hafa svör borist. Nú hefur fallið úrskurður hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti um ólögmæt starfslok. Málið er alvarlegt og er hér aðeins um að ræða eitt mál af mörgum sem kvartað hefur verið yfir. Fulltrúi Flokks fólksins er orðinn með öllu ráðalaus um hvernig hjálpa eigi þessu fólki því útilokað virðist vera að fá áheyrn borgarinnar, stjórnar Strætó eða forstjórans. Hvernig stendur á því að stjórnendur hjá Strætó komast upp með að brjóta stjórnsýslulög? Nú hafa þrír aðilar úrskurðað um stjórnsýslubrot, Jafnréttisstofa, sveitarstjórnarráðuneytið og umboðsmaður Alþingis. Í þessi mál hefur farið mikið fjármagn. Minnt er á að þetta er allt almannafé.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R21110002

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins: 

    Hér er verið að bjóða Reykjavíkurborg að taka þátt í rammasamningi um Microsoft hugbúnaðarleyfi. Þátttaka í þessum rammasamningi er ekki háð þátttöku í öðrum rammasamningum Ríkiskaupa. Samband íslensksra sveitarfélaga og Ríkiskaup hyggjast fara í sameiginlegt örútboð og samningaviðræður við Microsoft og þá spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort hér sé ekki kjörið tækifæri fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið að ganga inn í þetta samstarf. Þetta er hluti af sameiginlegum verkefnum sveitarfélaganna í samstarfi um stafræna umbreytingu. Þetta sýnir líka gott samstarf ríkis og annarra sveitarfélaga á meðan Reykjavíkurborg hefur viljað dansa sóló eins og margsinnis hefur verið í reifað, a.m.k í bókunum fulltrúa Flokks fólksins. Áhyggjur eru af þessu sviði og aðferðum þess, sbr. að sífellt er verið að gera tilraunir, þróa eða kaupa einhver innkaupakerfi í stað þess að athuga samstarf við Stafrænt Ísland og island.is Þetta þýðir endalaus útgjöld og spreð á almannafé. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að innri endurskoðun hefji sem fyrst athugun á þessum málum. Kannski mun innri endurskoðun ekki átta sig á stöðunni fyrr en farið er að skoða alla möguleika á samstarfi sem standa borginni til boða.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21110001

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 11. nóvember 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. nóvember 2021 á menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, ásamt fylgiskjölum. R21080014
    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 11:00 víkur Skúli Helgason af fundinum. 

    Fylgigögn

  25. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Borgarráð samþykkir að farið verði í útboð vegna raforkukaupa og LED ljósavæðingar borgarinnar. Um er að ræða innkaup sem nema hundruðum milljóna á ári, en nýlega hafa gengið úrskurðir um ólögmæti núverandi fyrirkomulags þar sem ljóst er að bjóða þarf út kaup á öllum þessum þáttum án tafar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21110097
    Frestað.

    Fylgigögn

  26. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir yfirliti um fjárframlag til grunnskóla Reykjavíkurborgar síðustu 3 ár skipt eftir grunnskólum borgarinnar. Óskað er eftir því að fjöldi nemenda í hverjum skóla fylgi með. Þá er einnig óskað eftir því að tekið verði fram þegar um er að ræða sértækan stuðning við börn t.d. vegna sérkennslu eða þegar um er að ræða fjárstuðning vegna íslenskukennslu sem annars máls og hversu víðtækur sá stuðningur er. Hér er óskað eftir því að fá yfirlit um fjárframlag til allra grunnskólanna, t.d. hversu mikið fjármagn Árbæjarskóli fékk árið 2018, 2019 og 2020, hversu mikið fjármagn Hólabrekkuskóli fékk þau ár o.s.frv. Þá er einnig óskað eftir sama yfirliti fyrir leikskóla borgarinnar. R21110102

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  27. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Mikið hefur verið fjallað um þjónustu við börn í skólum borgarinnar og í gegnum tíðina hafa ráðgjafar ýmist verið ráðnir beint inn til skólanna og hafa þá verið með sína starfsaðstöðu þar eða hafa verið með starfsaðstöðu í þjónustumiðstöðvum og eru þá ekki með fasta viðveru inni í skólunum. Eru talmeinafræðingar fastráðnir í einhverjum leik- og grunnskólum borgarinnar? Í hvaða leik- og grunnskólum borgarinnar eru talmeinafræðingar fastráðnir ef svo er? Hversu hátt er þá starfshlutfallið? Hvernig er málum háttað með aðra ráðgjafa sem sinna þjónustu við börn, líkt og hegðunarráðgjafa og fasta viðveru þeirra inni í skólum? R21110105

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  28. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hvernig er matarþjónustu háttað í grunnskólum borgarinnar? Í hvaða grunnskólum eru matráðar fastráðnir? Hversu hátt er starfshlutfallið skipt eftir skólum? Í hvaða skólum hefur eldhúsrekstri verið útvistað og hvar er hádegismatur aðkeyptur? Hvað felst í þeirri þjónustu? Og við hvaða fyrirtæki er borgin í viðskiptum varðandi skólamatinn? R21110106

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig svið Reykjavíkurborgar hyggjast mæta þeim sem ekki geta vegna fötlunar eða skerðingar nýtt sér rafrænar lausnir. Dæmi eru um að fólk með þroskahömlun hafi engan aðgang að upplýsingum eða öðrum þjónustuleiðum sem kalla á auðkenningu vegna þess að það hefur ekki getað sótt um rafræn skilríki. Samtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á að finna þurfi aðra auðkennisleið fyrir þennan hóp og að verið sé að brjóta mannréttindi á þeim. Hvað hefur Reykjavíkurborg gert í þessum efnum og hvernig er það tryggt að þessi hópur hafi aðgang að upplýsingum og öðrum þjónustuleiðum þegar það getur ekki notað rafræn skilríki? Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að þessi hópur sem hér um ræðir hafi lent á skjön í borgarkerfinu vegna þess að þau geta ekki tileinkað sér þá færni sem þarf til að nota rafræn skilríki. Foreldrum þessara einstaklinga er einnig meinaður aðgangur að upplýsingunum þar sem viðkomandi er yfir 18 ára. R21110095

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í kjölfarið af niðurstöðum starfsánægjukannanna sem komu afar illa út fékk fulltrúi Flokks fólksins fréttir af því að Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi farið í samstarf við Empower. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig hefur verið brugðist við þessum niðurstöðum núna þegar nóvember er að verða hálfnaður. Í ljósi þess að niðurstöður sýndu alvarlega stöðu hjá fyrirtækinu er varðar líðan starfsfólks er spurt hvort ekki sé rétt að gerð verði heildarúttekt á trausti starfsfólks til stjórnenda Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. R21030227

    Vísað til umsagnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju einföld lausn til þess að starfsfólk borgarinnar geti sent rafræn skjöl til undirritunar sé ekki fyrir löngu komin í allar deildir/svið borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins veit að Barnavernd Reykjavíkur hefur notað rafrænar undirskriftir á mjög viðkvæmum skjölum í næstum átta ár. Segir í nýju verkefnayfirliti frá þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) að „stöðluð bréf til rafrænna sendinga hafi ekki verið til hjá borginni, heldur einungis verið til bréfsefni til útprentunar og póstsendinga en nú sé búið að þróa miðlæga lausn til að útbúa rafræn bréf á PDF-sniðmáti og að uppgötvunarfasa verkefnisins hafi verið að ljúka og þróunarfasi að hefjast“. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: er þjónustu- og nýsköpunarsviði ekki kunnugt um að Barnavernd Reykjavíkur, sem tilheyrir velferðarsviði, hafi viðhaft rafrænar undirskriftir skjala um átta ára skeið? Hvað veldur þessum mismun milli sviða/nefnda hjá borginni? En ÞON er enn í uppgötvunarfasanum eftir því sem fram kemur í verkefnayfirliti þeirra. Hér er aftur spurt: hefði ekki verið hægt að fara þá leið sem barnaverndarnefndin fór, að kaupa tilbúna lausn? R21110096

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram þá tillögu að frá og með árinu 2023 hætti Reykjavíkurborg og stofnanir þess að kaupa dagblöð í blaðaformi fyrir aðra en þá sem eru ófærir um að nýta rafrænar áskriftir svo sem vegna fötlunar eða öldrunar en kaupi að öðru leyti eingöngu rafrænar blaðaáskriftir. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi í umhverfismálum og sýni þar frumkvæði og framsýni. Þörfin fyrir prentað mál minnkar stöðugt. Þar á Reykjavíkurborg að vera árvökul og í fararbroddi, nýta rafrænar áskriftir og færa útgáfu sína í sömu átt þar sem þess er kostur. Geta má þess að núverandi meirihluti hefur mikið rætt um og mært rafræna ferla. Nýverið gaf borgin út 64 bls. bækling: „Uppbygging íbúða í borginni,“ sem hægt hefði verið að koma til borgarbúa með einum smelli í stað þess að prenta og dreifa á öll heimili. Það er ekki gott fordæmi og illa farið með skattfé almennings. Kolefnisfótspor þess eitt og sér að prenta eitt blað jafngildir akstri meðalbíls um 1 km fyrir utan það að koma dagblöðum frá prentsmiðju í hverfin til viðtakenda. Árleg áskrift getur þannig numið kolefnisspori af akstri samsvarandi um 250 km á bifreið. Umhverfislegur ávinningur er því augljós. Með þessu umhverfisskrefi er borgin alls ekki að minnka stuðning við útgáfustarfsemi. Slíkt er alls ekki tilgangur þessarar tillögu. Stuðningur í formi kaupa á fjölmiðlum á að halda áfram. Þetta er eingöngu hugsað sem góð viðleitni og fordæmi í baráttunni við umhverfismengun og sóun. R21110107

    Frestað.

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga Flokks fólksins um að borgarráð beiti sér fyrir að 18 ára aldurstakmark sé sett til að aka um á rafmagnshlaupahjóli sem náð getur meira en 25 km hraða. Samkvæmt skilmálum rafhlaupahjólaleiga þarf notandi að vera orðinn 18 ára til að leigja og samkvæmt Samgöngustofu mega börn aka um á rafhlaupahjólum með leyfi foreldra. Einnig er lagt til að borgaryfirvöld hvetji löggjafann til að breyta lögum þannig að rafhlaupahjól sem aka á og yfir 25 km/klst. megi aka á götum eftir atvikum en samkvæmt lögum mega þau einungis aka á gang- og hjólastígum. Komin eru á markað rafhlaupahjól sem komast enn hraðar, allt að 45 km/klst. Löggjafinn hefur ekki enn ákveðið hvort setja eigi aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt eða hvar þau eigi að aka. Reykjavíkurborg getur sett sínar eigin reglur, t.d. um hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á götum, hjólastígum eða gangstéttum. Banaslys hefur orðið þar sem rafmagnshlaupahjól kemur við sögu og óttast fulltrúi Flokks fólksins um börnin bæði sem notendur hjólanna og einnig að þau gætu orðið fyrir þeim. Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgarstjórn ræði um rafhlaupahjól og öryggi notenda á þeim og þá ekki síst börnin í þessu sambandi. Ýmsar tegundir af hjólum eru í notkun. Ekki er öllum ljóst hvaða hjól eiga heima á gangstéttum eða göngustígum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur komið með tillögu um að fræðsla verði um öryggismál rafhlaupahjóla innan skólakerfisins. R21110108

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:06

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1111.pdf