Borgarráð - Fundur nr. 5644

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 4. nóvember, var haldinn 5644. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. október 2021 á tillögu um skipulag og kostnað vegna rafrænnar þjónustumiðstöðvar, ásamt fylgiskjölum. R21110011
    Samþykkt með fyrirvara um endanlega útfærslu á flutningi fjárheimilda til verkefnisins.

    -    Kl. 9.08 taka borgarstjóri og Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögurnar sem hér eru lagðar fram eru liður í stjórnkerfisbreytingum sem tengjast innleiðingu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn þann 15. júní sl. Á grunni ítarlegrar greiningarvinnu var mótuð ný framtíðarsýn til 10 ára auk þess sem hlutverk velferðarsviðs er skilgreint upp á nýtt. Grunnmarkmið nýrrar velferðarstefnu er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa og eru breytingarnar til þess fallnar að svo megi verða. Velferðarsvið er komið langt með sína stafrænu umbreytingu og verða allar umsóknir velferðarsviðs innan skamms orðnar stafrænar, hér er verið að bregðast við þeim grundvallarbreytingum. Verið er að setja á fót rafræna þjónustumiðstöð og sameina tvær þjónustumiðstöðvar um leið og verið er að samræma skipulag þjónustumiðstöðva til að tryggja jafnræði í þjónustu borgarhluta á milli. Á sama tíma eru tekin skref að fullri innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn sem snýr að auknu samstarfi sviða á milli um heildstæða nálgun að þjónustu við börn. Um er að ræða breytingar sem stuðla að aukinni skilvirkni, betra utanumhaldi og straumlínulagaðri velferðarþjónustu sem setur notendur þjónustunnar í fyrsta sæti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er algjörlega fylgjandi aukinni rafrænni þjónustu en hefur ekki verið sammála aðferðafræði og nálgun Reykjavíkurborgar undir forystu þjónustu- og nýsköpunarsviðs að því markmiði. Í stað þess að hafa frá upphafi farið vel með fjármagnið með því t.d. að leita eftir samvinnu og samstarfi við þá sem lengra eru komnir í rafrænum lausnum hefur verið veitt ómældum fjármunum í tilraunastarfsemi. Fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir umgjörð, uppsetningu og kostnaði við verkefnið í heild sinni. Fyrir þjónustuþegann væri best að hafa þetta allt á miðlægum stað sem þjónustar allar rafrænar umsóknir sem berast til Reykjavíkurborgar hvort sem um er að ræða umsóknir um leikskólapláss eða fjárhagsaðstoð svo eitthvað sé nefnt. Það virðist skorta hér ákveðna yfirsýn á „rafræna heildarmynd“ allrar þeirrar þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir borgarbúum. Með því að stofna sérstaka rafræna þjónustumiðstöð inni á velferðarsviði, er hætta á að flækjustig aukist. Nú þarf notandinn væntanlega að sækja um mismunandi þjónustu á mismunandi stöðum í stað þess að geta sótt um alla sína þjónustu á einum stað. Það er vert að benda á að ríkið í gegnum island.is er komið með símaapp þar sem fólk getur sótt sér alls kyns þjónustu á einum stað.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. október 2021 á tillögu um skipulag og starfsemi á nýrri þjónustumiðstöð í austurhluta borgarinnar, ásamt fylgiskjölum. R21060065
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista hefur áhyggjur af því að fjarlægðir aukist að þjónustumiðstöð fyrir þau sem búa í hverfum þar sem ný sameinuð þjónustumiðstöð verður fyrir Árbæ, Grafarvog, Grafarholt og Kjalarnes og fulltrúi sósíalista tók ekki undir sameininguna þegar hún var lögð fyrir á sínum tíma. Í tillögunni er fjallað um að miðstöðin verði staðsett þannig að auðvelt verði fyrir íbúa að nálgast miðstöðina með tilliti til almenningssamgangna. Samt sem áður munu vegalengdir að öllum líkindum koma til með að verða lengri fyrir tiltekinn hóp íbúa sem vilja mæta á þjónustumiðstöð í sínu nærumhverfi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagðar eru fram fjölmargar stórar skipulagstillögur. Ein af tillögunum sem lögð er fram er að sameina á þjónustumiðstöðvar og er það af hinu góða svo fremi sem það komi ekki niður á þjónustuþegum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um að sálfræðingar skólaþjónustu sem hafa aðstöðu í þjónustumiðstöðvum ættu að hafa starfsaðstöðu að fullu í þeim skólum sem þeir sinna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður nefnt að þjónustumiðstöðvar séu óþarfur liður milli sálfræðinga og barnanna sem þeir eiga að veita þjónustu. Tíma tekur að fara á milli staða þjónustumiðstöðvanna og skólanna sem betur væri varið í vinnu með börnunum. Ef þessi tillaga verður til að skila hagræðingu án þess að bitna á þjónustunni er því fagnað. Markmiðið hlýtur ávallt að vera það að gera þjónustuna enn betri og skilvirkari en hún er. Hvað sem þessu líður er velferðarsviði óskað alls hins besta með framgang þessara mála og vonandi verða breytingarnar til farsældar. Breytingar eru alltaf erfiðar og koma misvel/illa niður á starfsfólki eins og gengur.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. október 2021 á tillögu um skipulag á skrifstofum stoðþjónustu, ásamt fylgiskjölum. R21060065
    Samþykkt. 

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. október 2021 á tillögu um skipulag á sérhæfðum teymum, ásamt fylgiskjölum. R21060065
    Samþykkt. 

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. október 2021 á tillögu um nýtt skipurit þjónustumiðstöðva, ásamt fylgiskjölum. R21060065
    Samþykkt. 

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að selja byggingarrétt á fimm lóðum á Esjumelum með útboðsfyrirkomulagi. R21110012
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Járnsléttu 4. R21100347
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Járnsléttu 6, ásamt fylgiskjölum. R21100348
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag við lóðarhafa að lóðinni Skipholt 1, ásamt fylgiskjölum. R21020154
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða enn eitt uppbyggingarverkefnið sem byggir á húsnæðisáætlun og samningsmarkmiðum borgarinnar um fjölbreytta uppbyggingu. Skipholt 1 er glæsilegt hornhús í Reykjavík þar sem allt að 34 íbúðir rísa.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks líst vel á uppbyggingarverkefnið að Skipholti 1, en sitja hjá vegna samningsmarkmiða Reykjavíkurborgar sem fela í sér innviðagjöld og aðrar íþyngjandi kvaðir. Hér er um viðbótargjöld að ræða sem lögð eru á húsbyggjendur og hækka þ.a.l. húsnæðisverð. Þá er enn réttaróvissa um lögmæti innviðagjalda og jafnræði aðila, enda er samningsstaða húsbyggjenda lítil sem engin.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð veiti borgarstjóra umboð til að undirrita samning um Jafnlaunastofu sf.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21110008
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka um Hólmaslóð 2, ásamt fylgiskjölum. R18020211
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamninga um Hverfisgötu 115, ásamt fylgiskjölum. R21110005
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að leigusamningum vegna leigu á aðstöðu fyrir farsímasenda í húsnæði Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21110010
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil gerjun er á fjarskiptamarkaði um þessar mundir. Mikilvægt er að borgin gæti jafnræðis við samningagerð og í annarri aðkomu sinni að fjarskiptamarkaði.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  14. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5418/2020. R20090059

  15. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 417/2020. R19090045

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. nóvember 2021, varðandi skýrslur vegna ástandsúttekta á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar, ásamt fylgiskjölum. R21110003

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða ástandsúttektir í öllum byggingum í eigu Reykjavíkur sem hýsa skólastarf og eru þær grunnurinn að fordæmalausu viðhaldsátaki í skólahúsnæði borgarinnar. Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu Reykjavíkurborgar telur 136 eignir á alls rúmlega 265 þúsund fermetrum og er veginn meðalaldur eignanna 45 ár. Á grundvelli þessarar úttektar verður hægt að setja mikinn kraft á næstu árum í viðhald og viðgerðir á húsnæði fyrir skóla og frístundastarf í borginni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að loks sé meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að horfast í augu við vandann. Viðhaldsleysi skólahúsnæðis hefur verið viðvarandi og haft alvarlegar afleiðingar á skólastarf í borginni. Sjálfstæðisflokkur hefur margsinnis kallað eftir allsherjar úttekt og lagfæringum á skólahúsnæði á yfirstandandi kjörtímabili. Má sem dæmi nefna Fossvogsskóla, Kvistaborg, Korpuskóla og fleiri byggingar. Þykir fulltrúunum tímasetning þessara áforma sæta nokkurri furðu enda þola mál sem þessi enga bið, betur hefði farið á því að hefja vinnuna í upphafi kjörtímabils en ekki stuttu fyrir kosningar, ekki síst vegna þess að börn og starfsfólk dvelja í skólahúsnæði löngum stundum og þeirra velferð skal alltaf njóta vafans.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Úttekt sem þessi er nauðsynleg en ekki er endilega víst að úttektir af þessu tagi sýni fram á raunverulegt ástand með tilliti til viðarskemmda og myglu. Ávallt er í forgangi að skoða öryggis- og aðgengismál. Einnig rakamál, ytra byrði, klæðningu, þök og glugga, uppfærslu/endurbætur á loftræstingu, innivist, hljóðvist, ljósvist ofl. Athygli vekur að mælingar á raka í viði eru ekki forgangsatriði. Slík mæling gefur góðar upplýsingar um hvort hætta sé á myglu í viðnum, en sveppir fara að vaxa í viði þegar raki í viðnum fer yfir 20%. Sé minna um vatn vaxa sveppir ekki eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst í upplýsingaöflun. Svona mælingu ætti að gera þegar hús eru metin og að þekkja slík hættumerki mundi forða mörgum myglumálum. Rakamælingar og mat á loftræstingu segja þó ekki alla söguna. Það höfum við oft séð í þeim málum sem hafa verið á borði okkar borgarfulltrúa.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, varðandi viðhaldsátak á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar. Greinargerð fylgir tillögunni. R21100299
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt til að ráðist verði í myndarlegt átak til að hraða og auka viðhaldsframkvæmdir á skólahúsnæði í borginni. Á árunum eftir hrun var ákveðið að spara í viðhaldi og leggja frekar áherslu á að verja störf og standa gegn fjöldauppsögnum og atvinnuleysi. Síðar var áherslan lögð á að hækka laun starfsfólks í skólastarfi. Undanfarin 4-5 ár hefur fjármagn til viðhalds markvisst verið aukið, nánar tiltekið þrefaldað frá árinu 2017. Nú liggur fyrir heildarúttekt á ástandi skólamannvirkja og á grundvelli hennar er lagt til að ráðast í viðamikið viðhaldsátak í skólabyggingum sem alls eru 136 talsins til að hraða framkvæmdum og vinna upp og gott betur þau ár strax eftir hrun þar sem ekki var fjárhagslegt svigrúm til að mæta viðhaldsþörf að fullu. Áætlað er að verja til þessa átaks 25-30 milljörðum á næstu 5-7 árum eða 4-5 milljörðum króna á hverju ári. Þessar upphæðir ná aðeins til viðhalds, ekki til nýrra viðbygginga eða nýrra skólabygginga, sem einnig verður ráðist í.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að loks sé meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að horfast í augu við vandann. Viðhaldsleysi skólahúsnæðis hefur verið viðvarandi og haft alvarlegar afleiðingar á skólastarf í borginni. Sjálfstæðisflokkur hefur margsinnis kallað eftir allsherjar úttekt og lagfæringum á skólahúsnæði á yfirstandandi kjörtímabili. Má sem dæmi nefna Fossvogsskóla, Kvistaborg, Korpuskóla og fleiri byggingar. Þykir fulltrúunum tímasetning þessara áforma sæta nokkurri furðu enda þola mál sem þessi enga bið, betur hefði farið á því að hefja vinnuna í upphafi kjörtímabils en ekki stuttu fyrir kosningar, ekki síst vegna þess að börn og starfsfólk dvelja í skólahúsnæði löngum stundum og þeirra velferð skal alltaf njóta vafans.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í skýrslu um viðhaldsátak á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar að þrátt fyrir að viðhaldsfé til fasteigna leikskóla, grunnskóla og frístundar hafi verið aukið undanfarið ár þá er til staðar uppsöfnuð viðhaldsþörf fasteigna frá fyrri árum. Þetta kemur fulltrúa Flokks fólksins ekki á óvart þar sem þessi málaflokkur hefur verið vanræktur árum saman. Eftir hrun var skorið niður fé víða og þar með í viðhaldsmálin. Niðurskurðurinn varði allt of lengi og er nú verið að súpa seyðið af því. Það segir sig sjálft að ef viðhaldi er ekki sinnt kemur að skuldadögum og nú er svo komið að vel kann að vera að sumar leik- og grunnskólabyggingar séu jafnvel bara varanlega skemmdar. Kostnaður mun því verða margfalt meiri en hefði viðhaldi verið sinnt sem skyldi. Vanræksla kostar og tekur sinn toll. Málefni t.d. Fossvogsskóla hafa verið hrein martröð og það er ekki eini skólinn þar sem mygla hefur grasserað. Börn hafa verið fárveik og lengi var ekki hlustað, alla vega ekki þannig að brugðist væri við með fullnægjandi hætti. Lengi leit þannig út að reyna ætti að þagga þessi mál, og sópa þeim undir teppi.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, þar sem drög að stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf eru send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R21100283

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stefna Reykjavíkur um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf er í anda menntastefnu borgarinnar. Þá tekur stefnan mið af græna planinu sem er framtíðarsýn um borgarsamfélag sem einkennist af heilnæmu umhverfi, jöfnum tækifærum og öflugu atvinnulífi sem gengur ekki á náttúruauðlindir. Í stefnunni eru sett fram viðmið fyrir nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á húsnæði fyrir leikskóla, frístundaheimili, grunnskóla, skólahljómsveitir og félagsmiðstöðvar og lögð áhersla á breiða þátttöku hagsmunaaðila í undirbúningi slíkrar vinnu.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við lagfæringar og endurbætur á húsnæði Fossvogsskóla, ásamt fylgiskjölum. R21100438
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að bjóða út framkvæmdir í Fossvogsskóla upp á 1,6 milljarða króna. Framkvæmdirnar eru byggðar á úttektarskýrslum EFLU en framkvæmdin er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða aðgerðir til að bæta innivist m.a. bætt raka- og loftgæði þar sem fyrri lagfæringar hafa ekki skilað fullnægjandi árangri. Byggingarefni þar sem greinst hefur mygla verða fjarlægð. Hins vegar er um að ræða aðgerðir til að færa skólahúsnæðið í nútímalegt horf hvað varðar byggingatækni, kennsluhætti og innra skipulag húsnæðisins. Einangrun innan á útveggjum allra bygginga verður fjarlægð. Þá verða útveggir einangraðir að utan og klæddir með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni. Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá verða skriðkjallarar undir byggingunum lagfærðir og þéttir, jafnframt verða brunnar sem nú eru inni í byggingunum færðir út úr húsum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú eru átta mánuðir frá því að skólastarf var flutt úr Fossvogsskóla eftir að mygla greindist þar aftur. Það er ótrúlegt að það hafi tekið átta mánuði að komast á þann stað að hægt sé að fara í útboð vegna þessa máls. Lítið annað hefur verið gert allt kjörtímabilið en að fara yfir húsnæði Fossvogsskóla og endurbæta það fyrir hundruð milljóna. Fyrri viðgerðir tókust þó ekki betur en svo að nú er áætlað að viðgerðir kosti 1.641 m.kr. Það er því ljóst að fyrri viðgerðir hafa misheppnast og orðið til þess að húsnæði Fossvogsskóla verður ekki tilbúið til kennslu fyrr en langt er liðið á næsta kjörtímabil eða í ágúst 2023. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa frá upphafi þessa máls staðið með skólasamfélaginu í Fossvogi og það hefur verið sárt að sjá hvernig tekið hefur verið á málinu innan borgarkerfisins. Ef málið hefði verið tekið alvarlega í upphafi og hlustað hefði verið á foreldra veikra barna og veikt starfsfólk þá værum við ekki á þessum stað í dag.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fossvogsskóli - heimild til að bjóða út framkvæmdir við lagfæringar og endurbætur. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að borgaryfirvöld hafi lært af fyrri mistökum sínum þegar kemur að útboðsmálum. Nokkur útboð hafa klúðrast vegna galla ýmist í útboðsferli eða útboðsgögnum og hefur það kostað borgina milljónir. Skemmst er að minnast hleðslustöðvamálsins (Orka náttúrunnar) þar sem kærunefnd útboðsmála lagði fjögurra milljóna króna stjórnvaldssekt á Reykjavíkurborg og gerði henni að bjóða uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla út á ný. Nú skiptir máli að allt sé gert rétt því ef ekki þá bitnar það á börnunum sem stunda nám í Fossvogsskóla.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, þar sem skýrsla starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R21100286

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða sviðsmyndagreiningu um framtíðarskipan skólastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi. Um skeið hefur legið fyrir að vegna viðvarandi fjölgunar nemenda er farið að þrengja að í skóla- og frístundahúsnæði Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Starfshópur hafði það hlutverk að rýna stöðuna í hverfinu með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum skóla- og frístundastarfs. Þrjár sviðsmyndir liggja nú fyrir en tillögur starfshópsins verða áfram til vinnslu innan hópsins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóri lét hafa eftir sér m.a. í viðtali við Bítið á Bylgjunni í lok síðasta mánaðar að fyrst kæmu innviðirnir, svo uppbyggingin. Í skólanum sem hér um ræðir er pláss fyrir 1314 börn en engu að síður eru 1648 börn í skólanum. Þá er fyrirséð áframhaldandi fjölgun barna í hverfinu. Hér fara auðvitað ekki saman hljóð og mynd hjá borgarstjóra enda hefur ekki verið staðið við þá forgangsröðun sem hann boðar sjálfur; innviðir fyrst, svo uppbygging.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjallað er um framtíðarskipan skólamála í Laugarnes- og Langholtshverfi og settar fram þrjár sviðsmyndir sem eru: I. Skólarnir þrír í hverfinu haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda. II. Færa tvo elstu árganga Laugarnesskóla yfir í Laugalækjarskóla og byggt við hann. Byggt verði við Langholtsskóla. III. Opnaður verði nýr unglingaskóli í Laugardal fyrir alla unglinga úr skólunum þremur. Skólarnir þrír yrðu þá allir yngri barna skólar fyrir nemendur í 1.-7. bekk. Álit fulltrúa Flokks fólksins er að leið I sé vænlegust enda varðveitir hún skólagerðir hverfisins og viðheldur hverfamenningu og aðstöðu barnanna. Leið II felur í sér að í Laugalækjarskóli, sem byggður er sem unglingaskóli, verði fyrir 5-10.bekk. Laugalækjarskóli er eini skóli bæjarins með 7. bekk með unglingadeildum en við Laugalækjarskóla er ekkert íþróttahús. Sérstaða skólans meðal skóla í borginni yrði enn skrítnari en hún er í dag ef þessi leið yrði farin. Leið III: Bygging unglingaskóla fylgja áskoranir og breyttri skólagerð þriggja skóla. Með þessu myndi skólahverfi Laugarnesskóla vera skipt upp fyrir 1-7. bekk sem færu í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Þýðir það að skipta eigi hverfinu upp miðað við Sundlaugaveg? Ef svo er þá hefur það slæm áhrif á hverfamenningu og samfélag barnanna.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, þar sem skýrsla starfshóps um framtíðarskipan grunnskóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R21100288

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skýrsla starfshóps um Vörðuskóla og nærliggjandi skólahverfi er lögð fram í borgarráði. Kynntar eru fimm sviðsmyndir um framtíðarskipan grunnskóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla. Framkvæmd var SVÓT greining á alls fimm sviðsmyndum. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna nokkur atriði sem hlýtur að vera mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að vinna sviðsmyndir. Hafa þarf þarfir barnanna í huga á öllum stigum. Ávallt skal hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi þegar verið er að taka ákvarðanir um þau, aðstæður þeirra og umhverfi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að varðveita skólagerðir hverfisins og gæta þess að viðhalda hverfismenningu og aðstöðu barnanna. Horfa þarf á íþróttamálin og íþróttaaðstöðu samhliða öllum þessum hugmyndum. Bygging unglingaskóla/safnskóla fylgja áskoranir. Kostir og gallar eru við safnskóla. Með safnskólum breytast skólahverfin oft með tilliti til umferðar nemenda til og frá skóla. Slíkar breytingar þarf að leggja undir umferðarstofu Reykjavíkurborgar til að fá álit þeirra. Skoða þarf einnig hvað sparast með breytingum? Fara þarf yfir starfsmannamál. Hafa þarf þétt samstarf við foreldra, hverfaráð og aðra sem málið varðar.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð heimili að haldin verði hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um viðbyggingu við Melaskóla á grunni fyrirliggjandi forsagnar frá júní 2021 og einnig um útfærslu Hagatorgs sem almenningsrýmis og aukins svæðis fyrir almenning, hreyfingu og skóla- og frístundastarf. Umhverfis- og skipulagssvið hafi forystu um skilgreiningu á keppnislýsingu og forsendum í samráði við skóla- og frístundasvið. Að lokum velur dómnefnd tillögu til áframhaldandi hönnunar og framkvæmda.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21100285
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er löngu tímabært að bæta húsnæði Melaskóla með fjölda nemenda og aðgengi í huga og hefur sú staða legið fyrir í áratug. Þessi hönnunarsamkeppni hefði átt að vinnast í upphafi kjörtímabils en ekki lok þess enda er skólinn löngu sprunginn og hefur meirihlutinn haft fjölda ára til að bæta úr þessari stöðu.

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Drög að erindisbréfi stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf eru lögð fram til samþykktar. Lagt er til að borgarráð skipi Pawel Bartoszek, sem verði formaður hópsins og Skúla Helgason borgarfulltrúa, ásamt fulltrúa minnihluta í borgarráði í hópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að veita umsögn um forgangsröðun um fyrirliggjandi verkefni og óskir um viðbyggingar og meiriháttar endurbætur á sviði skóla- og frístundamannvirkja, sbr. meðfylgjandi erindisbréf.  R21110024

    Samþykkt. 
    Jafnframt er samþykkt að skipa Örn Þórðarson í hópinn. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Skúli Þór Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir og Örn Þórðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnaðargreiningu framtíðarskipulags skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. R21090284

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svar við fyrirspurn um greiningu framtíðarskipulags skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Birtar eru sviðsmyndir um framtíðarskólamál í hverfinu á fundi borgarráðs í dag, 4. nóvember. Sviðsmynd nr. 1 virðist vænlegust sem er að skólarnir þrír í hverfinu haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda. En í þessari bókun við svari fyrirspurnar fulltrúa Flokks fólksins eru leikskólamálin í hverfinu ávörpuð sértaklega. Í tillögum meirihlutans er verið að skoða að byggja við leikskólainnviði í hverfinu til að fjölga leikskólaplássum. Ef horft er til Laugarnesskóla og svæðisins þar í kring er spurning hversu mikið er t.d. hægt að stækka leikskólann Hof að grunnfleti án þess að ganga of nærri möguleikum til að stækka Laugarnesskóla. Mestu skiptir að börnin geti sótt leikskóla í sínu hverfi en sé ekki dreift í næstu hverfi. Tækifæri er til að láta nýja leikskóla verða hluta af vaxandi samfélagi á þéttingarreitum í hverfinu. Mikilvægt er að skoða hagsmuni skólasamfélagsins í hverfinu heildrænt og gæta að því að fjölga leikskólaplássum um leið og hlúð er að hverfamenningunni sem er í hröðum vexti með þéttingu byggðar.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólamál í Laugardal og Laugarneshverfi, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021. R21100437

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og fagnar því að sjá mögulegar sviðsmyndir af framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi. Sviðsmynd 1 er klárlega vænlegust sem er að skólarnir þrír í hverfinu haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda. Huga þarf samhliða að stækkun íþróttaaðstöðu á sama tíma. Íþróttaaðstaða fyrir börnin í hverfinu er þegar sprungin og líður íþróttakennsla og starf félaga í hverfinu fyrir húsnæðisskortinn. Íþróttahúsið í Laugarnesskóla er alltof lítið og þurfa börn úr skólanum að ferðast í íþróttakennslu í íþróttahúsi fatlaðra í Hátúni. Fyrir hverja kennslustund í íþróttum fjarri skóla tapa nemendur einni kennslustund vegna ferðatíma. Aðgangur að íþróttahúsi Íþróttafélags fatlaðra er á tímabundnum samningi og óvíst hversu lengi skólinn hefur aðgang að því húsi. Við Laugalækjarskóla vantar íþróttahús. Íþróttafélögin Ármann og Þróttur hafa takmarkaða aðstöðu og starfsemi þeirra títt trufluð af viðburðum sem hafa forgang. Af hverju nýtur íþróttastarf ekki forgangs í þessu húsnæði? Allri þessari umræðu má alls ekki drekkja í umræðu um þjóðarleikvang - það er aðskilið mál. Byggja þarf nýtt íþróttahús í Laugardal sem nýtist skólum og íþróttastarfi án hindrana þar sem börnin og íþróttafélögin hafa forgang, alltaf.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stjórnsýsluúttekt á Strætó bs., sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021. R21100436
    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Pírata sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga um að fenginn verði óháður aðili, sem ekki hefur áður komið að fyrirtækinu Strætó bs. til að vinna stjórnsýsluúttekt hefur verið vísað frá. Áður var búið að vísa frá tillögu um að gerð verði starfsánægjukönnun. Tillagan er lögð fram vegna þess að undanfarið hafa komið kvartanir á hendur stjórnenda Strætó bs. Það eru aðallega einelti, mismunun og starfslokasamningar sem hafa verið dæmdir ólöglegir samkvæmt Jafnréttisstofu. Traust verður að ríkja hjá stjórnendum og lykilstarfsmönnum og því er nauðsynlegt að skoða og ígrunda alla þætti vinnubragða og ákvarðana. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að reyna að benda á að skoða þurfi þessi mál af alvöru og af óháðum athugendum þar sem þeir fyrri sem fengnir voru höfðu ekki erindi sem erfiði. Óánægja og sárindi eru innan fyrirtækisins og hefur fulltrúi Flokks fólksins fengið marga pósta um það. Tilfinning fulltrúa Flokks fólksins er að forstjórinn viti jafnvel ekki alveg hvernig ástandið er í fyrirtækinu. Eða kannski sé hann ekki í nógu góðum tengslum við fólkið „á gólfinu“ eins og sagt er stundum. Það er erfitt fyrir borgarfulltrúa að hunsa upplýsingar sem honum berast um vanlíðan frá starfsfólki fyrirtækis sem er að mestu í eigu borgarinnar.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar þátttöku borgarstjóra í COP26, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow og tengdum viðburðum dagana 8. til 12. nóvember 2021. R21110006

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins gerir kannski ekki beinar athugasemdir við að borgarstjóri fari þessa ferð en bendir á að núna er hægt að taka þátt í ráðstefnunni að fullu í gegnum fjarfundakerfi sem myndi spara mikinn pening.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar þátttöku forseta borgarstjórnar í aðalráðstefnu og á aðalfundi Eurocities í Leipzig, Þýskalandi, dagana 1. til 5. nóvember 2021. R21110030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins þykir sjálfsagt að Reykjavíkurborg sé aðili að Eurocities sem er tengslanet um 200 borga í 39 löndum, til að læra sem mest og miðla því sem Reykjavík hefur að miðla. Þeim tilgangi er hægt að mæta með fjarfundum nú þegar aðgangur að slíkri tækni hefur aukist svo um munar. COVID-19 hjálpaði til. Ferðir sem þessar kosta borgarsjóð mjög mikið.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 21. október 2021. R21010023

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Kynning á breytingum á akstursþjónustu fatlaðs fólks. Búið er að hafa mikið fyrir að þrýsta á ákveðnar breytingar á reglum og þjónustu akstursþjónustunnar sem voru mikið til innleiddar og það hefur skilað sér inn í þjónustuna með jákvæðum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem hann heyrir að fólk virðist almennt ánægt með þjónustuna núna. Setja má engu að síður spurningarmerki við það að fækkað hafi verið um 2,5 stöðugildi í þjónustuveri og stytta eigi opnunartímann. Ekki ætti að fækka stöðugildum því fólk kvartar yfir því að það sé erfitt að komast að í síma og sérstaklega á ákveðnum tímum. Margir þekkja einfaldlega ekki réttindi sín og þjónusta sem veitt er rafrænt gefur ekki færi á útskýringum sem veittar er rafrænt nema með stuðningi. Skerðing á þjónustu er aldrei ásættanleg.

    Fylgigögn

  30. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 21. og 28. október 2021. R21010004

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. október 2021. R21010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Fyrirspurn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um óbyggðar en úthlutaðar lóðir. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 3. nóvember 2021 eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að veiti skipulagsyfirvöld byggingarleyfi fylgi því leyfi tímamörk sem umsækjandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma. Um tímann má semja enda ýmislegt sem kemur til. Fram til þessa eru sum útgefin leyfi aðeins pappír um eitthvað sem kannski verður gert. Í einhverjum tilfellum eru engar sérstakar ástæður fyrir töfum nema kannski að það standi illa á hjá lóðarhafa, hann vilji jafnvel bíða og sjá hvert íbúðaverð sé að þróast. Það sárvantar húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi. Skortur á lóðaframboði kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og hagkvæmt húsnæði verður ekki byggt á þéttingarreitum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um byggingarferli og tillögur um að einfalda ferlið en kvartað er yfir töfum og að flækjustig séu óþarflega mörg. Byggingarferli á nýjum íbúðum er tímafrekt við bestu aðstæður og enn tímafrekara þegar byggt er á þéttingarreitum.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 20. október 2021. R21010032

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Vesturbæjar að gætt verði að því við hönnun battavallar á Landakotstúni að völlurinn verði fjölnota, fyrir ýmsar boltaíþróttir, höfði til beggja kynja og gætt verði sérstaklega að öryggi barna. Skoða ber hljóðvist sérstaklega, svo að þegar bolti lendi í girðingu um völlinn þá verði hljóðmengun í lágmarki.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 18. október 2021. R21010021

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 3. nóvember 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar: 

    Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti sem staðsett yrði t.d. í Suður Mjódd hefur verið felld með þeim rökum „að nóg sé af góðum sundlaugum í borginni og að verið sé að byggja nýja sundlaug í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Ártúnshöfða“. Breiðholtið er risastórt hverfi og í því er aðeins ein sundlaug. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að annast þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2.000 íbúðir þegar allt er tiltekið þar af nýjar íbúðir í Mjódd sem gætu orðið ca. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega ca. 500-700. Nýtingartölur í Sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar 2017 og fjölgaði gestum laugarinnar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru þrjár sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa um 28 þúsund manns. Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Það er því brýnt að skoða að byggja aðra sundlaug í hverfinu.

    Fylgigögn

  35. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 8. og 13. október 2021. R21010013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 13. október: 

    Kynning á mögulegri sátt í máli sem Björn Halldórsson hefur höfðað á hendur SORPU. Fram hefur komið að Birni H. Halldórssyni, brottreknum framkvæmdastjóra Sorpu, hafi verið boðin sátt rétt fyrir aðalmeðferð. Sjálfur hafi hann rétt fram sáttarhönd strax eftir brottreksturinn. Stjórn SORPU lagði fram beiðni um sátt skömmu fyrir aðalmeðferð. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju stjórn SORPU ákvað að leggja fram sátt á þessum tímapunkti en ekki fyrr?

    Fylgigögn

  36. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R21110002

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið yfirlitsins: 

    Bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 29. október 2021, um svar íþrótta- og tómstundasviðs við bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins á fundi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða 30. september 2021. Bókun Flokks fólksins var á þá leið að eins og fram kemur í fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða þá er í yfirlitinu ósvarað þeirri ítrekuðu beiðni að keyptur verði sérstakur hjólastóll sem kæmist um svæðið og væri hægt að fara í úr klefum og alla leið að/ofan í sjó. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að sjá í gögnum að keyptir hafa verið sturtustólar og pantaðir níu hjólastólar til að nota utandyra. Eftir er að afgreiða þá pöntun og vonandi verður það gert sem fyrst.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21110001

    Fylgigögn

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Nú hafa verið kynntar þrjár sviðsmyndir framtíðarskipanar skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi, hvert verður framhald málsins og hver er tímalínan fyrir raunverulegar lausnir? Hvaða ferli tekur nú við sem leiða mun að ákvörðun á hvaða sviðsmynd verður fyrir valinu? Verður sett á laggirnar nefnd eða stýrihópur? Á að skilgreina tímasetta heildarstefnu um skólamál í hverfinu? Verður unnið með yfirstjórn skólanna og foreldrum sem nú þegar hafa lagt mikla vinnu í hugmynda- og skipulagsvinnu? Ef íþróttahús Laugarnesskóla er friðað og má ekki breyta, hvernig verður íþróttaaðstaða nemenda Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla bætt? Hvers vegna er aðstöðunni í Laugardalshöll ekki komið í lag fyrr til að bregðast við bráðavanda vegna skorts á íþróttaaðstöðu Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og íþróttafélaganna? Hver er staða tillögu um stækkun leikskólans Hofs? Áður ríkti sátt um að stækka leikskólann með hækkun húsa og sameiginlegri nýtingu útisvæðis að hluta. Í sumar var tillögunni breytt og nú stefnt að stækkun að grunnfleti. Þetta takmarkar verulega möguleika til að bæta aðkallandi vanda við Laugarnesskóla. Hvers vegna var tillögunni breytt og er ekki vanhugsað að fara þessa leið meðan heildarmynd um þróun grunnskólanna í hverfinu liggur ekki fyrir? Eiga börn áfram að ferðast í íþróttakennslu í íþróttahús fatlaðra í Hátúni? Frístund Laugarnesskóla er fjarri skólanum í Dalheimum og þangað liggur fáfarinn og illa lýstur stígur fyrir litla fætur að ganga. Þátttökuhlutfall nemenda Laugarnesskóla er lægra en meðal nemenda Langholtsskóla sem deila með þeim frístundinni. Brýnt er að bæta þann aðstöðumun sem nemendur skólans búa við. Hvernig og hvenær verður það gert? Eiga börn í 3.-4. bekk Laugarnesskóla áfram að ferðast 1,5 km inn dimma stíga í Dalheima? R21110053

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft spurnir um óánægju með ráðningarmál og fleira því tengdu hjá Strætó bs. og vill spyrja eftirfarandi: Hefur fólki verið sagt upp síðastliðin tvö ár og ef svo er þá hvað mörgum og af hvaða ástæðu? Voru gerðir starfslokasamningar og ef svo hvað margir og hvernig hljóðuðu þeir samningar? Hefur lögbundu ráðningarferli ávallt verið fylgt þegar ráðið er í ný störf? Hve margir hafa verið fluttir til í starfi innan fyrirtækisins? Ef einhverjir, hefur flutningurinn verið í sátt og samlyndi við viðkomandi starfsmann? Er það skoðað þegar ráða á í ný störf hvort einhver starfsmaður innan fyrirtækisins hafi áhuga á starfinu, gefið að hann uppfyllir kröfur sem starfið krefst? Hafa síðastliðin tvö ár verið gerðar breytingar á starfsheitum? R21110060

    Vísað til umsagnar Strætó bs. 

Fundi slitið klukkan 12:20

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0411.pdf