Borgarráð - Fundur nr. 5641

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 14. október, var haldinn 5641. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir. Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Theodór Kjartansson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. október 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.360 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,50%, í óverðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKNG 40 1, sem eru 1.301 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.000 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,00%, í verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1, en það eru 1.246 m.kr. að markaðsvirði. 

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að taka lán upp á tvo og hálfan milljarð króna og hækka langtímaskuldir sem því nemur. Skuldsetning borgarinnar heldur áfram en hún hefur verið óslitið allt kjörtímabilið hvort sem er í góðæri eða kreppu.

    Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-ágúst 2021, dags. 12. október 2021. R21010261

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  3. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 11. október 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, ásamt fylgiskjölum. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í viðauka má loks finna að veita á meira fjármagni til velferðarsviðs til að ráða sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa en biðlisti telur um 1465 börn. Biðlistinn hefur þrefaldast og er það ekki COVID um að kenna sem þó vissulega bætti ekki stöðuna. Málaflokkurinn hefur verið sveltur í langan tíma. Biðlistatölur voru himinháar fyrir COVID og voru engin viðbrögð sýnd við vaxandi vanlíðan barna sem sýndi sig í fjölgun tilvísana til fagfólks löngu fyrir COVID. Ekki á þó að hækka fjárheimildir nema um 40.00 þ.kr. sem er ekki nærri nóg og mun sennilega aðeins duga til að halda biðlistanum í skefjum, í mesta lagi taka kúfinn af. Fulltrúi Flokks fólksins hefur talað um biðlistavandann frá upphafi kjörtímabilsins og að bregðast þurfi við honum af krafti og hefur nánast rætt þessi mál vikulega. Nú fáum mánuðum fyrir kosningar er sýndur smá litur. Á meðan á þessu stendur fljóta milljarðar úr borgarkerfinu í óskilgreind og óljós stafræn tilraunaverkefni, sum sem ættu löngu að vera komin í virkni en sem hvergi bólar á.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. október 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um hluta húsnæðis að Fylkisvegi 6, ásamt fylgiskjölum. R21100050
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 6. október 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti heimild til að ganga frá uppgjöri um eignina Starhaga 1, áður Laugavegur 36, ásamt fylgiskjölum. R21040179
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurgerð gamalla húsa felur í sér óvissu sem skýrir það hvers vegna samið var um að deila hagnaði eða tapi eftir því hver yrði niðurstaðan. Um er að ræða hús sem þurfti að víkja vegna framkvæmda á upprunalegum stað. Víðtæk samstaða var um að endurgera það. Verkefnið var unnið af Minjavernd, sameiginlegu félagi ríkis, borgar og Torfusamtakanna. Hlutur borgarinnar er 27 milljónir króna. Niðurstaðan er jafnframt endurgerð á eldra húsi í staðinn fyrir niðurrif og falleg götumynd í borginni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að ekki var gert ráð fyrir að tap yrði á þessari framkvæmd og því ekki til fjárheimild til að standa straum af þessum umframkostnaði. Enn á ný er viðgerðarkostnaður borgarinnar gríðarlega hár. Í þessu tilfelli um milljón á m2 sem er mun hærra en kostnaður við nýbyggingu. Rétt er að benda á að allur lóðarkostnaður er til viðbótar þessari tölu og er því heildarkostnaður vel á aðra milljón á m2.

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. október 2021 á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna endurskoðunar stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilega uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040, ásamt fylgiskjölum. R21060053
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með tillögunum nú er lagt til að hið sögulega aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 verði framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir borgarlínu og stokka. Frá auglýsingatíma hafa verið gerðar þær breytingar að hæð bygginga í Mjódd er nú miðuð við 4-7 hæðir. Rétt er að árétta að í breyttum ákvæðum hæðastefnunnar er nú undirstrikað að aðeins stakar byggingar geti notið hámarksheimilda og settar eru ákveðnari kröfur um gæði við hönnun, m.t.t. sólríkra dvalarsvæða og almenningsrýma. Eðlilegt er að við mótun byggðar verði leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðarbyggð og lágmarka þannig skuggavarp. Hnykkt er á ákvæðum sem heimila endurnýjun starfsleyfis þegar gildistími starfsleyfis er innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging samkvæmt framtíðar landnotkun ekki hafin. Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um vöxt rætist er árleg þörf 1.210 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðabyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum. Með öðrum orðum – boðuð er róttæk óumhverfisvæn þrengingarstefna. Flugvöllurinn er ekki á leiðinni úr Vatnsmýrinni næstu áratugina en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar frá Vegagerðinni, s.s. að ekki sé nægilega gerð grein fyrir öllum nauðsynlegum breytingum á samgöngumannvirkjum sem tengjast samgöngusáttmálanum, s.s. gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg svo og útfærslur gatnamóta í tengslum við stokka sem merktir eru sem jarðgöng á aðalskipulagsuppdrætti við Sæbraut og Miklubraut. Vegagerðin bendir jafnframt á að í samgöngusáttmálanum komi jafnframt fram að sveitarfélögin skuli huga að greiðri tengingu Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðsins og að skipulag aðliggjandi svæða taki mið af legu Sundabrautar á skipulagstímabilinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er lóðaskortur. Ekki hafa verið færri íbúðir í Reykjavík frá 2017. Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hafa mistekist. Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt. Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ef vel ætti að vera þyrftu milli 3 og 4000 íbúðir að koma á markað árlega. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti. Byggja þarf víða, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa. Vont er að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin. Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Í Laugarnesi liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum, sbr. í Úlfarsárdal.

    Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. október 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti á lóðunum Stefnisvogur 12, 24 og 36, ásamt fylgiskjölum. R21090033
    Samþykkt. 

    Erla Arnardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. október 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samstarfssamningi við ReykjavíkurAkademíuna fyrir árin 2020-2022. Fjárskuldbinding Reykjavíkurborgar vegna samningsins verði 3 m.kr. sem greiðast af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21100191
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. október 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að leggja Svanna, lánatryggingasjóði kvenna, til 6.500.000 kr. einskiptis viðbótarframlag á árinu 2021, með fyrirvara um að ríkið, forsætisráðuneyti og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti leggi til sambærilegt framlag í hlutfalli við aðild sína að sjóðnum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20050055
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Svanni – lánatryggingasjóður kvenna snýst um að brúa bil í fjármögnun til nýsköpunar- og atvinnuskapandi starfsemi í eigu kvenna. Góðum verkefnum sem komast í gegnum umfangsmikið matsferli eru veitt lán í samstarfi við Landsbankann sem sjóðurinn stendur straum af að standa sem lánatrygging fyrir. Vel hefur tekist að innheimta lánin, svo sjaldnast kemur til notkunar sjóðspeninganna, en til þess að geta veitt góðum fyrirtækjum og verkefnum í eigu kvenna þessi tækifæri til stækkunar og eflingar þarf að vera nóg fé í sjóðnum. Þessi fjármagnsaukning ríkis og borgarinnar gengur því út á að ekki þurfi að neita verkefnum um lánsstuðning sem eru öflug og vænleg til árangurs.

    Dóra Björt Guðjónsdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins. 

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 12. október 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð taki jákvætt í hjálagt erindi Listasafns Íslands, dags. 7. október 2021 og samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að eiga samstarf við Listasafn Íslands, Vegagerðina og Betri samgöngur ohf. varðandi nýtt útilistaverk Listasafns Íslands í tengslum við stoppistöð borgarlínu á Fríkirkjuvegi. Samráð verði haft við menningar- og ferðamálasvið í samræmi við samþykktir um staðsetningu listar í almenningsrými. R21100280

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að fá nýtt útilistaverk í borgarlandið í nágrenni við stoppistöð almenningssamgangna.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 11. október 2021, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. október 2021 á lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, ásamt fylgiskjölum. R18010207
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkur til 2030 með aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum hefur verið unnin í þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði frá hausti 2019. Þannig skipa sex fulltrúar stýrihópinn, jafn margir frá meirihluta og minnihluta í stað oddatölu sem venjan er enda hefur verið lögð mikil áhersla á gott samstarf og sátt milli flokka. Byggir stefnan á niðurstöðum umfangsmikils og metnaðarfulls samráðsferlis sem lögð var áhersla á að væri aðgengilegt öllum óháð fötlun, stöðu og tungumálakunnáttu þar sem boðið var upp á víðtækt samtal um lýðræði og þátttöku í Reykjavík. Opið samráðsferli stóð yfir bæði við upphaf og lok vinnunnar, skipulagðir voru rýnihópar með slembivöldum íbúum borgarinnar, haldnir voru margir vinnufundir með starfsfólki í stjórnsýslunni sem og opinn fundur fyrir íbúa. Drög að lýðræðisstefnu sem lágu fyrir við lok síðasta kjörtímabils hafa nýst sem mikilvægt gagn við vinnuna. Markmið stefnunnar eru fjögur og endurspegla hringrás lýðræðislegra vinnubragða sem eru að hlusta, rýna, breyta og miðla. Undir þau heyra svo áherslur og verður þessu fylgt eftir með aðgerðaáætlun til þriggja ára og mælanlegum markmiðum. Sérstakt áhersluatriði meðal margra áhugaverðra aðgerða er að efla gagnsæi, upplýsingamiðlun og lýðræðislega þátttöku ungmenna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er margt gott í stefnunni, t.d. aukin upplýsingagjöf sem vonandi verður að veruleika, en sumar úrbætur í lýðræðisátt hafa orkað tvímælis í framkvæmd. Verulegur lýðræðishalli er enn á ýmsum sviðum. Þá eru tillögurnar ekki kostnaðarmetnar og um er ræða tugi milljóna á ári.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem segir að tekið hafi verið mark á fjölmörgum ábendingum og umsögnum sem og athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu. Ekki var þó að sjá að önnur ráð borgarinnar hafi verið með neinar athugasemdir að heitið geti heldur gáfu strax grænt ljós á drögin. Mikilvægt er að horfa gagnrýnum augum á stefnu sem þessa. Í henni er lögð rík áhersla á samráð en helst hefur þó verið kvartað yfir samráðsleysi á þessu kjörtímabili og borgarbúum finnst að ekki hafi verið hlustað á mótmæli þeirra um ýmis stór skipulagsmál. Fulltrúi Flokks fólksins sér þó ekki ástæðu til að styðja ekki þessa stefnu í þeirri von að henni verði fylgt. Auk samráðs þarf meira gegnsæi og almennt lýðræði þannig að látið sé t.d. af forræðishyggju gagnvart fullorðnu fólki og ákvörðunum þess um hvernig það hagar lífi sínu og lífsstíl. Hér er átt við málefni eins og hvernig samgöngumáta fólk velur sér og hvenær það ákveður að yfirgefa vinnumarkaðinn. Traust á stjórnsýslu er lítið en eins og staðan er núna nýtur meirihlutinn í borgarstjórn minnsts trausts samkvæmt könnunum sem kanna traust fólks á stjórnsýslu.

    Daníel Örn Arnarsson, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir og Anna Kristinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundaráðs, dags. 29. september 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. september 2021 á tillögu að breytingum á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R21090270
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjöldi grunnskóla er meiri og skólahverfi verða 36 í stað 37. Hvað varðar fjarlægðarmörk eru engar breytingar. Nokkur orð um strætókort. Reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar kveða á um að miða skuli við lögheimili barns og fjarlægð þess frá skóla þegar ákveðið er hvort barn eigi rétt á strætókorti eða skólaakstri. Nú er það svo að sum börn eiga tvö heimili þótt einungis annað þeirra sé lögheimili barnsins. Það verður sífellt algengara að barn dvelji viku og viku hjá sitthvoru foreldri og ekki búa allir foreldrar í sama hverfi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að reglum sé breytt þannig að tekið sé tillit til fjarlægðar skóla frá báðum heimilum barns til að auðvelda foreldrum að ala upp börn sín í sameiningu. Það er í samræmi við nýsamþykktar breytingar á barnalögum sem taka gildi næstu áramót og opna á það að foreldrar skrái bæði lögheimili og búsetuheimili barns, og taki sameiginlegar ákvarðanir um hagsmuni barns í slíkum tilvikum. Þetta ætti ekki að auka kostnað borgarinnar mikið enda um fá tilvik að ræða. Annað þessu tengt. Það stóð í meirihlutasáttmálanum að börn ættu að fá frítt í strætó 12 ára og yngri en ekki 11 ára og yngri. Þetta er eitt af vanefndum meirihlutans.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. september 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. september 2021 á tillögu um reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R21090274
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur þá var gerð sú breyting á Alþingi að börn gætu haft fasta búsetu hjá báðum foreldrum. Barnið hefði þá lögheimili hjá öðru foreldri en búsetuheimili hjá hinu. Ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að barnið skuli endilega sækja skóla hjá því foreldri sem barnið deilir lögheimili með. Það er ekkert sem bannar að barnið sé í skóla í því hverfi sem búsetuheimilið er. Það er því ekki svo að foreldrið sem barn á lögheimili hjá geti einhliða ráðið því hvar barnið er í skóla. Umfjöllunin í minnisblaðinu tekur ekki tillit til fyrirhugaðra breytinga sem opna á sameiginlega búsetu og sameiginlega ákvarðanatöku. Barn á að eiga greiðan aðgang að tómstundum og frístundum frá báðum heimilum. Reglur þurfa að taka tillit til þessara breytinga ef sameiginleg búseta á að virka vel. Það er mikilvægt að tekið sé tillit til búsetuheimilis og lögheimilis þegar ákveðið er hvort barn eigi rétt á strætókorti. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það yrði bót á regluverki borgarinnar og til þess fallið að auðvelda foreldrum að skipta milli sín búsetu barns ef réttur barnsins til strætókorts tekur mið af fjarlægð skóla frá bæði lögheimili og búsetuheimili.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. október 2021 á tillögu um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, ásamt fylgiskjölum. R21100289
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þessar nýju reglur eru í takt við nýja velferðarstefnu Reykjavíkurborgar og miðar að því að þjónusta skuli vera eins einstaklingsmiðuð, heildstæð og sveigjanleg og kostur er. Lögð er áhersla á virðingu fyrir ólíkum einstaklingum og þörfum, sjálfræði og valdeflingu allra til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Nýjar reglur auðvelda okkur að geta frekar mætt stuðningsþörfum umsækjenda og veita meiri sveigjanleika en nú er gert, áhersla er lögð á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og veitingu þjónustu. Þá er einnig lögð rík áhersla á stafrænar lausnir í þjónustunni. Samhliða samþykkt á reglum þessum er lagt til að fjárheimild velferðarsviðs verði aukin um 100 milljónir á árinu 2022. Annars vegar 51 milljón vegna næturþjónustu og 49 milljónir til að vinna á biðlistum eftir stuðningsþjónustu. Ljóst er að meta þarf framtíðarfjárþörf vegna stuðningsþjónustu þegar reynsla er komin á framkvæmd reglnanna. Þessar nýju heildarreglur byggja á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 vegna stoðþjónustu og lögum um félagsþjónustu nr. 40/1991 vegna stuðningsþjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða það sem áður kallaðist heimaþjónusta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að eigi að taka inn það sem Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp leggja til, ekki síst það sem kostar borgina ekki krónu eins og tillögur um orðalagsbreytingar. Bent er á að það skorti betri tengingu við samning Sameinuðu þjóðanna en reglurnar eru byggðar á lögum sem byggja á þeim samningi. Minnt er á 5. gr. SRFF í þessu samhengi sem kveður á um bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar. Mikilvægast er þó að Reykjavík útrými biðlistum og forgangsröðun vegna forgangsbiðlista, frekar en að skrifa það inn í regluverkið. Eins og sjá má í úttekt Ríkisendurskoðunar þá eru álitaefni sem lúta að innleiðingu og framkvæmd Reykjavíkur á þessum lögum. Til dæmis að of mikið flækjustig sé í upplýsingagjöf. Samráði sé ábótavant. Notandi eigi að hafa um það að segja hver þjónustar hann/hana. Mikið er komið inn á tæknilegar lausnir. Það er ekki allir með tölvur eða net. Ný lög um stafrænt pósthólf bjóða upp á þá hættu að kastað verði fyrir borð meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því það er undir hælinn lagt hvort þessi tækni henti öllum. Þeir sem geta ekki nýtt hana gætu týnst í kerfinu.

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. október 2021 á tillögu um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu, ásamt fylgiskjölum. R21100290
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í drögum að reglum þessum endurspeglast sú sýn Reykjavíkurborgar sem kemur fram í stefnu um málefni eldri borgara 2018-2022 að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og að öll aðstoð skuli taka mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og lifa því lífi sem það kýs. Mat á stuðningsþörf fer ætíð fram í samvinnu við umsækjanda. Í nýjum reglum er fjallað um mikilvægi velferðartækni og þjálfun endurhæfingarteymis í heimahúsum ásamt aðstoð viðbragðsteymis. Þjónustan á að felast í því að virkja og styrkja notendur til að vera virkir við stjórnvölinn í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Lögð er áhersla á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og þjónustuveitingu. Samhliða reglum um stuðningsþjónustu er lögð fram tillaga að sérstöku þróunarverkefni þar sem félagslegur stuðningur er veittur einstaklingum með heilabilun þar sem aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi getur búið heima og er það einnig í samræmi við gildandi stefnu um málefni eldri borgara.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þjónusta við eldra fólk er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur eins og fulltrúi Flokks fólksins sér að það verði að vera. Fulltrúi Flokks fólksins vill að allt sé gert til að hjálpa fólki að vera heima eins lengi og hægt er. Fjölga þarf þjónustuþáttum og dýpka aðra til að auka líkur á heimaveru sem lengst. Einnig að bjóða upp á sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika. Tillögu um þetta frá Flokki fólksins hefur verið hafnað. Í 3. mgr. 10 gr. segir „almennt er stuðningur samkvæmt reglum veittur í formi stuttrar viðveru.“ Meta þarf félagsskap meira. Sumt fólk upplifir sig niðurlægt að þurfa að biðja um meiri félagsskap. Minnt er á að ekki allir eiga ættingja. Eins á notandi að hafa mikið um það að segja hver þjónustar hann/hana. Komið er inn á tæknilegar lausnir. En ekki allir eru með tölvur eða net. Ný lög um stafrænt pósthólf bjóða upp á þá hættu að kastað verði fyrir borð meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því að undir hælinn er lagt hvort þessi tækni henti öllu eldra fólki. Þeir sem geta ekki nýtt hana verða mögulega útundan og fá jafnvel ekki notið réttinda sinna.

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2021, þar sem tillaga um þróunarverkefni um félagslegan stuðning fyrir einstaklinga með heilabilun er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R21100292

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúarnir fagna nýju þróunarverkefni um félagslegan stuðning við fólk með heilabilun. Tillagan er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022. Í aðgerðaáætlun með stefnunni er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar tilraunaverkefni þar sem einstaklingar með heilabilun fá sérhæfðan félagslegan stuðning á heimili sínu. Í verkefninu er einstaklingum með heilabilun veittur félagslegur stuðningur í heimahúsi þar sem aðstæður eru þannig að viðkomandi getur búið áfram heima. Samþykkt hefur verið að veita velferðarsviði aukna fjárheimild sem nemur alls 36 milljónum króna á árinu 2022. Samhliða þessu stendur nú yfir vinna með heilbrigðisráðuneytinu um að koma á laggirnar sérstöku heilabilunarteymi á grundvelli samnings um heimahjúkrun. Mikilvægt er að fylgja stofnun þess teymis eftir þar sem slíkt teymi myndi styðja enn frekar við ofangreint þróunarverkefni.

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. október 2021 á tillögu um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, ásamt fylgiskjölum. R21100291
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga voru gerðar víðtækar breytingar á hugtökum og því er nauðsynlegt að setja nýjar reglur um beingreiðslusamninga til samræmis við þær breytingar. Þá eru gerðar breytingar á mati á stuðningsþörf samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu og reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Horfið verður frá því að stuðningsþörf sé metin á grundvelli stiga sem ákvarða ákveðinn fjölda klukkustunda sem umsækjandi á rétt á að fá. Ný nálgun, sem snýst um hvað einstaklingurinn telur sig þurfa, er talin geta mætt stuðningsþörfum umsækjenda betur og veitt meiri sveigjanleika.

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. október 2021 á tillögu um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum. R21100293
    Samþykkt. 

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Fram fer umræða um stöðu mála vegna framkvæmda við Fossvogsskóla. R19020180

  20. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 30. september 2021, varðandi fjármögnun markaðs- og áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins, ásamt fylgiskjölum. R21100281

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil vinna og samtal hefur farið fram undanfarin misseri um skipulag ferðaþjónustu innan borgarinnar. Í ferðaþjónustustefnu borgarinnar, sem samþykkt var árið 2020, var opnað á breytingar á skipulagi Höfuðborgarstofu. Eftir stöðumat, sem kynnt var í borgarráði 15. febrúar sl., var samþykkt að kanna grundvöll markaðs- og áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins með öflugum stuðningi atvinnulífs og ríkis, ásamt framlagi frá borginni. Einnig að leitast yrði eftir þátttöku annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hér í dag kynna SSH framvinndu þessa verkefnis. Við lýsum ánægju okkar með þessa góðu vinnu sem fram hefur farið með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt aðilum frá SAF og SVÞ. Við teljum afar mikilvægt að unnið verði í samvinnu að innviðauppbyggingu og sókn ferðaþjónustunnar á svæðinu, þar sem möguleikarnir eru fjölmargir. Við lýsum yfir áhuga með að halda verkefninu áfram.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn bólgnar kerfið út. Áfangastaðastofa! Í gögnum málsins er svohljóðandi spurning: „Af hverju sameiginleg áfangastaða- og markaðsstofa fyrir höfuðborgarsvæðið?“ Svörin eru þau að fimm sinnum er orðið „getur“ notað. Þessi stofnun er 250 milljóna ferð án fyrirheits á ársgrundvelli. Það þarf hvorki meira né minna en 7 verkefnastjóra, 1 framkvæmdastjóra og 1 fjármálastjóra til að koma þessum 250 milljónum út. Hér er verið að stofna enn eitt opinbera millistykkið með tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur í yfirskuldsettri borg.

    Inga Hlín Pálsdóttir, Jón Kjartan Ágústsson og Gíslína Petra Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. Einnig taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Janus Arn Guðmundsson og Svanborg Sigmarsdóttir.

    -    Kl. 12:50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 
    -    Kl. 12:59 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Fram fer kynning á rekstri og starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. R21010191

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Loksins komu forsvarsmenn Hörpu á fund borgarráðs að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins. Sú beiðni er búin að liggja inn í kerfinu mjög lengi. Halli er á rekstri Hörpu upp á 350 milljónir. Rekstrarframlag og viðbótarrekstrarframlag ríkis og borgar er 744 milljónir. Launakostnaður er 440 milljónir og fasteignagjöld eru 310 milljónir. Minnt er á að meirihlutinn felldi tillögu mína um að fella niður fasteignagjöld á þremur stærstu listahúsum borgarinnar, Hörpu, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Það myndi bjarga miklu í rekstrinum að Reykjavíkurborg myndi falla frá fasteignagjöldunum. Það væri beinn menningarstyrkur. Að þessu sögðu tel ég að í fyrsta sinn í 10 ár sé bjart yfir rekstrinum og framtíð hússins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er skiljanlegt að mikið tap varð á síðasta ári, enda ekki við öðru að búast. Stjórnun Hörpu er góð en það er miður að nágrannasveitarfélögin taki ekki þátt í kostnaðinum. Þau njóta bara. Þegar Harpa tónlistarhús varð 10 ára gáfu eigendur hennar ríki og borg veglega gjöf. Ekki er vitað til þess að nágrannasveitarfélög hafi gefið gjöf svona fyrir að fá að njóta Hörpu án endurgjalds. Hefur slíkri hugmynd verið skotið að þeim? Harpa þarf að vera hús allra, án tillits til aldurs og efnahags. Enda þótt umhverfi hennar sé greinilega ætlað meira þeim efnuðu og jafnvel þeim ríku eins og sjá má á því hóteli sem þarna er að rísa og merkjaverslunum allt um kring myndi fulltrúa Flokks fólksins þykja miður ef Harpan yrði þekkt fyrir að vera „hús“ fyrir þá ríku.

    Svanhildur Konráðsdóttir og Berglind Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. María Rut Reynisdóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Janus Arn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað og notkun leigubíla, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020. R20030117

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrst af öllu vill fulltrúi Flokks fólksins minnast á að sú fyrirspurn sem hér um ræðir er frá því í mars 2020. Um er að ræða fyrirspurn vegna notkunar bifreiða í eigu borgarinnar og um notkun leigubíla á velferðarsviði. Áður hafði komið fram að borgin eigi alls 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000. Þess utan eru leigubílar notaðir mikið og hefur fulltrúi Flokks fólksins séð starfsmenn koma á viðburð í leigubíl, í eitt skipti einn starfsmaður í bíl. Það er ábyrgð kjörinna fulltrúa minnihlutans að veita aðhald og benda á vísbendingar um sóun og bruðl. Sá meirihluti sem nú ríkir hefur viljað sjá sem flesta borgarbúa nota hjól og skyldi ætla að sama gilti um starfsmenn sem gætu farið á milli staða á t.d. rafhlaupahjólum. Þessi hái ferðakostnaður er ekki alveg í takt við boðorð meirihlutans. Hægt er að halda áfram með fyrirspurnir en þar sem svars er sennilega ekki að vænta fyrr en kannski á nýju kjörtímabili þá er það kannski ekki til neins. Fulltrúa Flokks fólksins er það ljóst að vel má skoða þennan útgjaldalið og kanna hvort ekki er hægt að nota rafhlaupahjól í meiri mæli til að komast milli staða.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður borgarinnar vegna leigubíla nam 431 milljón króna á síðustu 8 árum. Kostnaðurinn hefur aukist á hverju einasta ári frá árinu 2011 og var 69 milljónir á árinu 2018. Þá vekur athygli að Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum tvo milljarða í akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. Samtals um milljón á dag. Loks hefur borgin keypt flugmiða fyrir tæpar þrjú hundruð milljónir á síðustu átta árum. Ekki hefur verið farið í útboð í þessum málum þó fjárhæðirnar séu langt yfir viðmiðunarfjárhæðum.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi breytingu á gjaldskrá akstursþjónustu fatlaðra, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021. R21050227

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í svarinu að það er vegna kostnaðar sem árskort eru ekki í boði. Það er pólitísk ákvörðun og sýnir þar með hvernig forgangsraðað er. Vilji menn að fatlað fólk hafi það betra en það hefur það núna þá er hægt að gera það með þessari aðgerð sem hér er nefnd. Þegar á allt er litið og horft til þessara mála þykir fulltrúa Flokks fólksins það ósanngjarnt að fólki sé nánast refsað fyrir að vera fatlað. Fötlun er ekki á óskalista neins. Að verða að biðja um sérhæfða þjónustu vegna fötlunar er eitthvað sem fatlað fólk gerir í neyð. Reykjavíkurborg, meirihlutinn sem nú ríkir, þarf að skoða menningu og viðhorf sitt til þessara mála og gæta þess í hvívetna að fatlað fólk gæti jafnræðis, réttlætis þannig að það hvorki eigi né þurfi að líða fyrir fötlun sína þegar kemur að grunnþjónustu. Aðgengi er hluti af grunnþjónustu, þ.m.t. að geta komist ferða sinna og sinnt erindum sínum til að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er án tillits til fötlunar af hvers lags tagi.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista telur nauðsynlegt að breyta gjaldskránni þannig að notendum akstursþjónustu fatlaðs fólks standi til boða að kaupa tímabilskort sem veita afslátt, líkt og á við um notendur Strætó bs. Dæmi eru um notendur sem þurfa að greiða meira en 100 þúsund krónur á ári í samgöngukostnað en eins og staðan er núna eru nemar í framhalds- og háskólum sem nota akstursþjónustu fatlaðs fólks þeir einu sem mega kaupa árskort. Árskort í Strætó bs. kostar 80.000 krónur og hálfsárskort kostar 50.100. Fólk með fötlun ætti ekki að að þurfa að greiða hærra í samgöngur og afsláttarkort á að standa öllum til boða.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 30. september 2021, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfsánægjukönnun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september 2021. R21030227

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða fyrirspurna er sú að fulltrúi Flokks fólksins hefur haft spurnir af mikilli vanlíðan sumra starfsmanna hjá slökkviliðinu og óánægju sem nú hefur verið staðfest með „starfsánægjukönnun“ þar sem niðurstöður komu út rauðglóandi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvernig eigi að taka á þessu og bent á að þegar svona illa er komið og illa hefur tekist til að halda góðum starfsanda er stundum eina leiðin að þeir sem setið hafi í brúnni víki. Borgarstjóri er æðstur en ekki er séð að hann sé að beita sér nema að hann sé að því bak við tjöldin. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í starfi sínu sem sálfræðingur séð meðvirkni í sinni verstu mynd og óttast að þarna sé um slík tilfelli að ræða. Spurt var um hversu mörgum hefur verið sagt upp síðustu ár og eru þeir fimm. Rakið er ferli þeirra mála í örstuttu máli. Í sumum tilfellum hefur komið til kasta dómstóla. Velta má fyrir sér málskostnaði og er næsta skref að spyrja um hann. Almennt er upplifun fulltrúa Flokks fólksins við lestur svarsins að sá sem það samdi sé „háll sem áll“ og að reynt sé að gera eins lítið úr þessum málum og hægt er.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fjárútlát og heimildir neyðarstjórnar, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020. R20020015

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er rangt. Hin svokallaða neyðarstjórn var bæði að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda þegar fundir hennar voru hvað tíðastir framhjá kjörnum fulltrúum. Kjörnir fulltrúar sátu uppi með ákvarðanir hennar og stóðu frammi fyrir orðnum hlut.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ljósleiðaratengingu í Esjuskála á Kjalarnesi, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. september 2021. R21090140

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. október 2021, við framhaldsfyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við stefnumótun stýrihópa, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. september 2021. R21080061

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Furðu sætir að ekki sé unnt að svara þessari fyrirspurn því tillögu sjálfstæðismanna um að haldið væri verkbókhald var vísað frá árið 2018 á þeim forsendum að „verkbókhald sé þegar í notkun á ýmsum stöðum og það sé til skoðunar að taka það upp á fleiri stöðum“. Ekki er vanþörf á að halda utan um kostnaðarliði borgarinnar sem sífellt vaxa. Þá er nauðsynlegt að halda verkbókhald í opinberri stjórnsýslu enda um skattfé að ræða.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 7. október 2021. R21010004

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. október 2021. R21010025

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. október 2021. R21010027

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. október 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 30. lið fundargerðarinnar:

    Undir þessum lið nr. 30 í fundargerð skipulags- og samgönguráðs vill fulltrúi Flokks fólksins birta efni tillögu Flokks fólksins um að haft verði sérstakt samráð við börn og unglinga í samráðsferli hverfisskipulags. Börn fara um hverfið sitt, þekkja það og stunda ýmsa afþreyingu þar utan skóla. Umhverfið og skipulag hverfis skiptir börn miklu máli og á því skilyrðislaust að hafa sérstakt samráð við þau eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og gefur tilefni til. Hvað þau hafa að segja um samgöngur, græn svæði, umferðina og göngu- og hjólastíga er dæmi um samráð sem hafa skal við börn og unglinga. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skipta miklu máli. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 4. október 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Hér er lögð fram tillaga Sjálfstæðismanna sem fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 2019 um sveigjanleg starfslok. Öldungaráð vísaði tillögunni frá. Eitt aðalmál Flokks fólksins er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það án skerðinga. Það er með ólíkindum í ljósi þess sem haft er eftir borgarstjóra um þessi mál og það sem stendur í meirihlutasáttmálanum að samþykkt hafi verið af sjálfu öldungaráði að vísa tillögunni frá. Hér er skýrt dæmi þess að öldungaráð er undir borgarstjórn þar sem fulltrúar meirihlutans stýra og pólitík meirihlutans ríkir þrátt fyrir hagsmuni eldra fólks í þessu tilfelli. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Kjarasamningar gefa heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu með sérstöku leyfi borgarstjóra. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar birtingarmyndir um sveigjanleg starfslok. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R21100071

    Áheyrnarfulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið yfirlitsins:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir umsögn Reykjavíkurborgar um drög að myndlistarstefnu. Sérstaklega er tekið undir að þjálfun í skapandi hugsun verði efld ásamt listkennslu og myndlæsi innan skólakerfisins. Afar brýnt er að námsefni í myndlist verði endurskoðað. Allir þeir sem vinna með börnum og unglingum í skóla- og frístundastarfi verða að hafa gott aðgengi að góðu fræðsluefni um aðferðafræði hönnunarhugsunar, skapandi hugsunar, myndlæsis, túlkunar, litablöndunar og fleira. Myndlist er vaxandi atvinnugrein. Börn og unglingar eiga að fá val þegar kemur að því að velja nám og námsbrautir til að geta sem best nýtt greind sína og getu. Því meira og tryggara val sem um er að ræða því meiri líkur eru á að hver og einn finni sína hillu í lífinu.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21100095

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Mikilvægt er að fatlaðir einstaklingar sem sækja um húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar geti haft yfirsýn yfir það hvar umsóknir þeirra um húsnæði séu í kerfinu. Því miður er það ekki þannig núna og hvorki sá sem sækir um né starfsmenn þjónustumiðstöðva geta séð hvar í röðinni viðkomandi umsókn er. Dæmi um gott fyrirkomulag á umsóknum eftir húsnæði er leigufélagið Bjarg þar sem þú sérð á mínum síðum hvar umsókn þín er, hversu margar íbúðir eru í byggingu og umsókn þín er „lifandi“ þannig að hún uppfærist við hverja nýja úthlutun hjá félaginu. Þetta mætti Reykjavíkurborg taka sér til fyrirmyndar enda mjög hjálplegt bæði fyrir þá sem sækja um húsnæði og ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Því er lagt til að Reykjavíkurborg bæti sýnileika þeirra sem sækja um húsnæði á vegum borgarinnar. R21100337

    Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. 

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar taki mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn sem sæki skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra eigi einnig rétt á strætókorti. Eins er lagt til að þau börn sem sækja skóla í öðru hverfi en lögheimili þeirra fái einnig strætókort. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að börn skipta um skóla og í lang flestum tilvikum eru foreldrar að taka ákvörðun sem þau telja barni sínu fyrir bestu. Börn hafa kannski þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla fjarri heimili sínu af þeim sökum. Einnig er hér um að ræða börn sem hafa flutt í nýtt hverfi en vilja halda tengslum við vini í gamla skólanum þar til haldið er í menntaskóla. Fráleitt er að neita þeim um strætókort.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21090274
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:47

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1410.pdf