Borgarráð - Fundur nr. 5640

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 7. október, var haldinn 5640. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og hófst kl. 08:40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Áheyrnarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. september 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi, ásamt fylgiskjölum. R20020112
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Umrædd smáhýsi eru hluti af hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ á vegum velferðarsviðs og hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið í heimilisleysi og hefur miklar þjónustuþarfir. Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tímabundin í staðsetningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalarheimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera nálægt þeirri þjónustu og samfélagsinnviðum sem borgarbúar þurfa að nýta. Ekki er auðvelt ná sátt um staðsetningu þeirra í íbúðabyggð eða blandaðri byggð og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu innviði á öðrum skipulagssvæðum. Hér er um að ræða opið svæði en samkvæmt gildandi aðalskipulagi er heimild til að koma fyrir slíkum búsetuúrræðum á slíku svæði. Þó ber að hafa í huga að þau eru víkjandi og hafa ekki áhrif á langtímanotkunarmöguleika svæðisins. Fulltrúar meirihlutans telja að nálægð við útivistarsvæði, almenningssamgöngur og samfélagsinnviði muni hafa jákvæð áhrif á þau sem þar munu koma til með að búa og vona að hverfið taki vel á móti þeim.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að taka á vanda húsnæðislauss fólks með raunhæfum og góðum lausnum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Laugardalurinn fái að vera í friði fyrir íbúðaáformum, hvort sem um er að ræða smáhýsi eða stórhýsi. Áform um smáhýsi í Laugardal stangast á við þau sjónarmið sem hafa ríkt um að Laugardalurinn verði griðastaður útivistar og íþrótta. Ekki á að heimila íbúðabyggð með neinum hætti í Laugardalnum enda verður enn meiri þörf fyrir dalinn sem útivistar- og íþróttasvæði í framtíðinni en nú er.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði alltaf á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Því miður hefur gengið á ýmsu hjá meirihlutanum með þessari framkvæmd sem rýrt hefur traust á þetta úrræði og sem þarf ekki að lýsa frekar hér. Það er miður því um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda, sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Þessum viðkvæma hópi er ekki bara hægt að fleygja út í borgina og þeim sagt að bjarga sér að mestu sjálfir. Á staðnum verður að vera umsjón og eftirlit 24 tíma á sólarhring, einstaklingur og fagteymi sem er tilbúið að stíga inn og aðstoða eftir þörfum og án biðar. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum, ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. september 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5 vegna lóðanna nr. 42, 44 og 46 við Lindargötu og lóðir nr. 10 og 12 við Vatnsstíg, ásamt fylgiskjölum. R21100076
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagið er unnið í samráði við Minjastofnun. Húsið við Vatnsstíg 12 verður flutt á nýjan grunn við Vatnsstíginn. Hús númer 10 er talið ónýtt. Með skipulaginu er heimilað að að byggja stúdentaíbúðir fyrir 122 námsmenn. Uppbyggingin verður hjá lykilás borgarlínu og býður upp á grænar tengingar við háskólasvæðið í Vatnsmýri. Mikilvægt er að huga að áferð og yfirbragði svæðisins í vinnunni framundan.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að tala um nýjar stúdentaíbúðir, án bílastæða. Fækka á bílastæðum úr 37 í 23 eða um 14 stæði. Bílum fer fjölgandi í borginni þrátt fyrir öfluga viðspyrnu og nánast „þvingunaraðgerðir“ meirihlutans að koma fólki á hjólin hvort sem þeir vilja eða geta. Eða þannig lítur þetta út í augum margra. Með skipulaginu á að byggja íbúðir fyrir 122 námsmenn sem ekki geta búið þarna nema þeir gangist undir ferðamáta með hjóli eða strætó. Nemendur hafa orðið lítið val um hvernig þeir vilja haga sínum ferðalífsmáta ætli þeir að búa miðsvæðis eða á þéttingarreitum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. október 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að auglýsa stofnframlög vegna almennra íbúða til samræmis við auglýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlög. Lagt er til að umsóknarfrestur verði til og með 24. október nk. Gert er ráð fyrir að matsnefnd um veitingu stofnframlaga rýni umsóknir og leggi fram tillögu borgarstjóra um veitingu stofnframlaga með sama hætti og verið hefur. R21020011

    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. október 2021, þar sem erindisbréf matsnefndar vegna veitingu stofnframlaga er lagt fram til kynningar. R21100066

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. september, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. september 2021 á tillögu um nýjan samning vegna sjálfstætt rekna leikskólans Regnbogans, ásamt fylgiskjölum. R21090264
    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. september 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. september 2021 á rekstrarleyfi fyrir leikskólann Regnbogann, ásamt fylgiskjölum. R21090265
    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. september 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. september 2021, á tillögu um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum. R21090277
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru gerðar breytingar á reglum á leikskólaþjónustu til samræmis við nýsamþykktar tillögur stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs, þar með talið um opnunartíma leikskóla. Breytingarnar eru liður í því að bæta starfsumhverfi barna og starfsfólks í leikskólunum og standa vörð um gæði leikskólastarfsins. Lögð er áhersla á að bregðast við niðurstöðum jafnréttismats með því að bjóða þeim foreldrum sem þurfa lengri opnunartíma að nýta sér lengri opnun í 1-2 leikskólum í hverju hverfi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkur leggst eftir sem áður alfarið gegn fyrirhugaðri skerðingu á opnunartíma leikskólanna og leggur áherslu á óskerta þjónustu við fjölskyldur í Reykjavík. Jafnréttismat sýnir glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Útlit er fyrir að skerðingin verði mikil afturför í jafnréttisbaráttunni. Hvað vakir fyrir jafnaðarmönnum í Reykjavík?

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að breyta opnunartíma leikskólanna frá klukkan 17:00 til 16:30. Einn til tveir leikskóli í hverju hverfi verður með opnunartíma til 17:00. Í breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um leikskólaþjónustu kemur fram að foreldrar sem telja að þeir falli í skilgreindan hóp foreldra sem talið er að erfiðast eigi með að bregðast við lokun leikskóla kl. 16:30 geta sótt um að tekið verið tillit til aðstæðna þeirra vegna umsóknar í leikskóla með opnunartíma til kl. 17:00. Þessi skilgreindi hópur er sá hópur foreldrar sem hefur minnstan sveigjanleika í vinnu, sá hópur þar sem eru miklar fjarlægðir milli leikskóla og vinnustaðar auk þeirra sem hafa tekjur undir meðaltekjum samkvæmt útreikningum Hagstofu. Ef umsókn er samþykkt er heimilt að taka tillit til aðstæðna að því gefnu að þeim börnum sem framar eru á biðlista bjóðist rými í öðrum þeim leikskóla sem foreldrar setja til vara. Fulltrúi sósíalista telur að leikskólasamfélagið í heild þurfi að ná utan um þarfir barna í stað þess að bjóða upp á 1-2 leikskóla í hverfi sem nái til barna þeirra foreldra sem hér um ræðir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og tekur þar með undir með foreldrum og foreldrafélaginu. Einnig er mótmælt takmörkun á leyfilegum heildarvistunartíma í 42,5 klst. Sumar fjölskyldur þurfa meiri vistunartíma en þetta. Breytingarnar munu auka álag á fjölskyldur í borginni. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur sem getur allt eins leitt til neikvæðra áhrifa á einmitt gæðastundirnar í fjölskyldunni. Þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    R21090277

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í matsmáli nr. M-85/2018. R18110122

  9. Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í máli nr. SRN19100099. R19060150

    -    Kl. 9:27 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.

  10. Lagt fram að nýju bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 24. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningum í skólanefnd Borgarholtsskóla 2021-2025, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september 2021. R21080196

    Með vísan til ábendinga mennta- og menningarmálaráðuneytisins er afgreiðsla borgarráðs í 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september sl. leiðrétt. 
    Samþykkt að tilnefna Grétar Halldór Gunnarsson í skólanefnd Borgarholtsskóla og Elísabetu Gísladóttur til vara.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 28. september 2021. R21010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið: 

    Kynning á aðgengismálum á opnum leiksvæðum í borgarlandi í miðborg og Hlíðum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessar hugmyndir sem þarna eru birtar afar góðar og vill nefna nokkur dæmi úr kynningunni í þessari bókun, s.s. að hafa leiktæki fyrir smærri börn; að aðgengi sé gott og skýrt merkt, að foreldrar bundnir í hjólastól geti fylgst með börnunum sínum á leikvellinum, að niðurtektir, breidd stétta og halli uppfylli lágmarkskröfur, að það sé pláss fyrir hjólastóla og göngugrind eða barnavagna við hlið bekkja. Fleiri ámóta góðar hugmyndir eru nefndar í kynningunni.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 6. október 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram aðalskipulag Reykjavíkur. Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er að lóðir vantar. Ekki hafa verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir Seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hafa mistekist. Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt. Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti. Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa. Það er miður að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin. Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Fyllt verður í flestar fjörur. Gleymt er að gera ráð fyrir innviðum, lóðum fyrir skóla. í Laugarnesi liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum sbr. í Úlfarsárdal.

    Fylgigögn

  13. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 6., 10. og 17. september 2021. R21010013

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerðinni frá 6. september:

    Fundargerð Sorpu frá 6. september sl. er hræðileg út frá umhverfissjónarmiðum. Í fyrsta lagi var starfsemi GAJU stöðvuð og samkvæmt fréttum er stöðvunin út árið þó það sé ekki tiltekið í fundargerðinni. Þó er tekið fram: „Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.“ Hvernig getur verksmiðja sem er lokað dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda? Í öðru lagi staðfesti stjórnin heimild framkvæmdastjóra til að hefja undirbúning tímabundins útflutnings á brennanlegu sorpi, þ.m.t. að hefja útboð vegna þess verks. Síðan áréttar stjórnin að sú mikilsverða áherslubreyting í rekstri SORPU að hætta urðun brennanlegs úrgangs og hefja í þess stað útflutning á slíkum úrgangi til brennslustöðva erlendis. Þetta er forkastanleg umhverfisstefna. Umhverfis- og sorphirðumál í Reykjavík verða ekki leyst með útflutningi vandans. Því krefst ég svara strax við fyrirspurn minni sem ég hef þegar lagt fram: Hvað hefur Sorpa bs. flutt mörg tonn af sorpi/úrgangi úr landi undanfarin 5 ár? Hvert er það sent og hver er lokaáfangastaður á leiðarenda? Hvað hefur þessi útflutningur kostað undanfarin 5 ár? Hefur Sorpa bs. haft tekjur af útflutningi á sorpi/úrgangi?  Hver eru áætluð kolefnisfótspor við þennan útflutning undanfarin 5 ár?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 6. september:

    Í fundargerð þann 6. september, 1. lið, er lítillega fjallað um mygluna í GAJU. Ekki er að sjá að málið sé talið alvarlegt en sagt er: ,,Helstu áhrif þessa eru að fullvinnsla moltu verður tímabundið stöðvuð í þroskunarkróm GAJU til að draga úr rakamyndun og tryggja vinnuumhverfi starfsfólks. Myndun myglugróa er hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.“ Er nokkuð að marka þessa fundargerð? Auðvitað hefur það áhrif á metansöfnun þegar moltugerðin stöðvast. En svo fer burðaviðurinn að mygla sem virtist koma á óvart. Veit enginn innan byggðasamlagsins að viður fer að fúna ef raki í honum fer yfir 20%? Hver er faglega þekkingin hjá stjórnarmönnum?

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 24. september 2021. R21010017

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Undir liðnum innra eftirlit er fjallað um áhættu tengda peningabaukum í vögnum. Þar kemur fram að greiðslur með peningum hafi farið minnkandi og í ljósi þess sé það vilji stjórnar að hætta að taka á móti peningum sem greiðslumáta í strætisvögnum fljótlega á árinu 2022 eða þegar næsti fasi greiðslukerfisins verður tekinn í notkun. Í fundargerð kemur fram að almennt hafi verið farið yfir hvernig eftirlitsaðgerðir eru framkvæmdar, svo sem stjórnendaeftirlit. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að hafa þann möguleika að hægt sé að greiða með pening því það eru ekki allir með snjallsíma, afsláttarkort eða strætómiða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

    Í fundargerð Strætó er rætt um útistandandi starfsmál í tengslum við starfslok starfsmanns. Hér er væntanlega verið að vísa í það sem rætt var í fréttum að kærunefnd jafnréttismála telji að Strætó hafi brotið jafnréttislög þegar fyrirtækið gerði starfslokasamning við konu vegna skilaboða sem hún sendi á Teams til samstarfsmanns síns. Vegna þessa og einnig vegna meints eineltismála sem hafa ratað í fréttir hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er fjöldi eineltistilkynninga hjá Strætó bs. sl. 4 ár. Hvernig hefur tekist að vinna úr tilkynningum. Nóg er að upplýsa fulltrúa Flokks fólksins hvort þolandi telji að málið hafi fullunnist. Hversu margir hafa verið látnir fara með starfslokasamningi seinustu 4 ár? Ef einhverjir, hverjar eru helstu ástæður? Fylgir Strætó bs. reglugerðum velferðarráðuneytis 1009/2015 um einelti og áreitni á vinnustöðum? Einnig í ljósi fréttar um meint einelti hjá Strætó bs. leggur fulltrúi Flokks fólksins til að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum. Taka þarf púlsinn á starfsandanum og hvernig samskipti ganga við yfirmenn. Mannlíf birti í vikunni frétt um vinnustaðagreiningu sem gerð var innan Strætó og í ljós kom mikil óánægja starfsmanna og sögðust 22 af 162 hafa orðið fyrir einelti innan vinnustaðar síðustu 12 mánuði.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 28. september 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á opnum fundi borgarstjórnar og öldungaráðs var rauði þráðurinn í umræðunni hversu gott er að halda gæludýr. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds. Félagsskapurinn er ávinningur sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk, jafnvel jafnsterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk sem er að hreyfa þá, fara út að ganga með þá. Dýr uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust án skilyrða. Hlýja, traust og umhyggja fullnægir iðulega þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R21100071

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið í fundargerð Faxaflóahafna:

    Liður 1 í fundargerð Faxaflóahafna. Rætt var um sveigjanleg starfslok. Þetta þykir fulltrúa Flokks fólksins tíðindi að höfð sé umræða í bs-fyrirtæki um sveigjanleg starfslok. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margrætt þessi mál í ráðum sem hann á sæti í og lagt fram tillögu um að borgin taki skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum. Ekkert er að vanbúnaði, heimild er til í kjarasamningi og borgin er ekki bundin af sköttum og skerðingum almannatrygginga. Á fundi 11. apríl 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegum hætti en takmarkist ekki við sjötugsaldur. Tillögunni var vísað frá. Eitt aðalmál Flokks fólksins í borg og á þingi er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það án skerðinga. Sveigjanleikinn er allra hagur og fjárhagslegur ávinningur skilar sér til allra og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar birtingarmyndir um sveigjanleg starfslok. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21100095

    Fylgigögn

  18. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir upplýsingum um samþættingu kerfa. Eru þau kerfi sem Reykjavíkurborg nýtir í sinni þjónustu samþætt þannig að bakendi þeirra er sami gagnagrunnur? Ef samþætting er á milli kerfa flæða þá gögn á milli þeirra, í hvaða kerfum á það við? Hversu auðvelt er að kalla eftir gögnum upp úr kerfum sem Reykjavíkurborg nýtir? Nýtt fjárhagsumsóknarkerfi, hver er virkni kerfisins, býr kerfið til PDF-skjal sem fer á netfang og þar tekur starfsmaður við og slær inn upplýsingar inn í annað kerfi? R21100223

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  19. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Pálmatré, tillaga þýska listamannsins Karin Sander, bar sigur úr býtum í samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum 29. janúar 2019. Verkið gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja.
    1.    Hvenær er áætlað að verkið rísi?
    2.    Hvað hefur Reykjavíkurborg lagt til mikið fjármagn til undirbúnings og vinnu við verkið? R19010428

    Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. 

  20. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hver er áætlaður kostnaður við auglýsingar vegna átaksins „Hverfið mitt“ 2021 tæmandi talið? R20050238

    Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

  21. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum í ljósi upplýsinga um meint einelti. R21100256

    Tillögunni er vísað frá.

  22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Mannlíf birti í vikunni frétt um vinnustaðagreiningu sem gerð var innan Strætó bs. Þar kom í ljós mikil óánægja meðal starfsmanna en sögðust 22 af 162 hafa orðið fyrir einelti innan vinnustaðar síðustu 12 mánuði. Svona hefst síðan önnur frétt sem birtist nýlega í fjölmiðlum: Kærunefnd jafnréttismála telur að Strætó hafi brotið jafnréttislög þegar fyrirtækið gerði starfslokasamning við konu vegna skilaboða sem hún sendi á Teams til samstarfsmanns síns. Fulltrúa Flokks fólksins finnst stefna og verklagsreglur um ofbeldis- og eineltismál á vef Strætó bs. ekki nógu áberandi og virðist sem fólk eigi erfitt með að finna þau gögn. Óskað er svara við eftirfarandi spurningum: Hver er fjöldi eineltistilkynninga hjá Strætó bs sl. 4 ár? Hvernig hefur tekist að vinna úr tilkynningum? Nóg er að upplýsa hvort þolandi telur að málið hafi fullunnist. Hvað margir hafa verið látnir fara með starfslokasamningi seinustu 4 ár? Ef einhverjir hafa verið látnir fara, hverjar eru helstu ástæður? Fylgir Strætó bs. reglugerð velferðarráðuneytis nr. 1009/2015 um einelti og áreitni á vinnustöðum í hvívetna? Fjöldi starfsmanna hjá Strætó bs. sem er af erlendum uppruna eru 150 manns. Hversu margir af þeim eru í einhvers konar í stjórnunarstöðum og þá hverjum? Hefur í einhverjum tilfellum verið ráðið í störf án auglýsingar sl. 4 ár? Ef fólk hefur verið ráðið án auglýsingar hvernig hafa verðleikar þeirra og hæfni til starfsins verið mældir? Óskað er eftir að fá upplýsingar um hvort ekki hafi verið gerðar starfsánægjukannanir hjá Strætó bs. í ljósi meints eineltis sem fréttir hafa borist um. R21100257

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

Fundi slitið klukkan 09:47

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0710.pdf