Borgarráð - Fundur nr. 5635

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 9. september, var haldinn 5635. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar, auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.980 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,16%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 1.629 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.420 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 0,90%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, en það eru 1.410 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 8. september 2021. 

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178

    -    Kl. 9:14 taka Dóra Björt Guðjónsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og aftengjast fjarfundarbúnaði. 

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að taka tveggja milljarða lán og bætist enn í skuldsetningu borgarinnar, en skuldir samstæðu borgarinnar stefna í 400 milljarða, en þær voru komnar í 397 milljarða í júní síðastliðnum. Vextir fara hækkandi og mun það hafa áhrif á greiðslubyrði borgarinnar á næstu árum.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir, Helgi Grímsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um atvinnuhúsnæði á 1. hæð að Borgartúni 8-16, ásamt fylgiskjölum. R21080188

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Enn blæs báknið út og er verið enn á ný að leigja út húsnæði vegna þess að skrifstofuaðstaðan er sprungin. Rekstrarkostnaður borgarinnar er um 20% hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum ef miðað er við höfðatölu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað er eftir samþykki fyrir viðbótarrými fyrir umhverfis- og skipulagssvið. Ekki kemur fram í gögnum hver þörfin sé en nú hefur sviðið yfir að ráða einni og hálfri hæð í Borgartúni. Sviðið hefur þanist mikið út á þessu kjörtímabili, ráðningum á fólki fjölgað án þess að útskýra hvað orsakar þensluna. Hér er um ótímabundinn samning að ræða sem gefur vísbendingar um að umsvifin eru komin til framtíðar. Þörfin á viðbótarrými er einnig sérkennileg í ljósi þess að sviðið kaupir óhemju mikla og dýra ráðgjöf og vinnu frá utanaðkomandi aðilum, verkfræðistofum og arkitektastofum.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir, Helgi Grímsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. september 2021, varðandi líkan til úthlutunar á fjárheimildum grunnskóla, grunnskólalíkanið Edda, ásamt fylgiskjölum. R21090038

    Vísað til kynningar í skóla- og frístundaráði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýja úthlutunarlíkan fjárheimilda fyrir grunnskóla snýst um að auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og jafnræði milli skóla og hverfa. Líkanið mun draga betur fram lýðfræðilegar breytur og mismunandi þarfir skóla byggt á LOI-aðferðafræðinni (Learning Opportunity Index). Í kjölfar samþykktar menntastefnu borgarinnar þar sem áherslan er „að tryggja jöfn tækifæri og aðgang barna að fjölbreyttu námi og starfi sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika“ hófst undirbúningur nýs úthlutunarlíkans á fjárheimildum fyrir grunnskóla með skilgreindum og skýrum forsendum sem eru rekjanlegar og gagnsæjar. Einnig að ná fram líkani sem auðvelt væri að nýta til stýringar á fjármagni í gegnum fjárhagsáætlunar- og uppgjörsferli. Við útfærslu yrði lögð áhersla á árangursstjórnun og skipulegar mælingar. Verkefnið var unnið í náinni samvinnu skóla og fjármálasérfræðinga, nú fer líkanið til kynningar og samráðs. Í framhaldi af því verði líkanið lagt fram að nýju í borgarráði, ásamt tillögum að fjármögnun og forsendum hennar og reglum um umsjón og stjórn líkansins. Jafnframt verði lagðar fram til samþykktar reglur skóla- og frístundasviðs um undirbúning og framkvæmd fjárhagsáætlunar, rekstraruppgjör og eftirlit með rekstri, ásamt skilgreiningum á ábyrgð hlutaðeigandi aðila á rekstri, stuðningi og eftirliti. Hér er því um að ræða mikilvæg tímamót í allri fjármálalegri umgjörð grunnskóla Reykjavíkurborgar. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður við rekstur grunnskóla hefur ítrekað farið fram úr fjárheimildum. Það er því ljóst að breyta þarf áætlanagerð og valdefla skólastjórnendur. Það er því jákvætt að nú hafi verið farið í ítarlega vinnu við að stokka upp núverandi kerfi. Gæta þarf að því að skólahúsnæði sé heilsusamlegt og viðhaldi sé sinnt. Þá er mikilvægt að grípa snemma inn og reglulega svo sem vegna ÍSAT nemenda. Ef rétt er á innleiðingu haldið á áætlanagerð að vera áreiðanlegri og því ætti að vera hægt að vinna að raunverulegri hagræðingu í rekstri og bættri meðferð fjármuna sem nýtast þá betur í þjónustu við nemendur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hið plástraða reiknilíkan til að reikna út fjárframlag til skóla fer nú loks, vonandi, að heyra fortíðinni til og nýtt að líta dagsins ljós. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nú sé að koma nýtt og betrumbætt reiknilíkan skólanna. Ef það gengur eftir mun ávinningurinn vera sá að forsendur fyrir fjárhagsáætlun verða gegnsærri og skýrari og að áætlanir samræmdari milli skóla. Þetta allt hlýtur að leiða til jákvæðra hluta. Í fjölda ára hefur úrelt reiknilíkan sem lifað hefur sjálfstæðu lífi stýrt fjármagni til skólanna. Lýsing á hinu plástraða reiknilíkani eins og hún birtist í skýrslu innri endurskoðunar fyrir tveimur árum var hreint ótrúleg og sætti það furðu að ekki hafi verið gengið í að uppfæra svo mikilvægt líkan fyrir lifandis löngu, reiknilíkan sem hreinlega leiddi til þess að skólar, sumir hverjir allavega, liðu svelti.

    Halldóra Káradóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði ásamt borgarfulltrúunum Ellen Jacqueline Calmon, Erni Þórðarsyni, Rannveigu Ernudóttur, Sabine Leskopf og Skúla Helgasyni. Einnig tekur Svanborg Sigmarsdóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. september 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykkjandi meðfylgjandi tillögur starfshóps um verkferil vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21030117

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi borgarráðs 11. mars var samþykkt að frumkvæði meirihlutans að ráðast í undirbúning nýs verkferils um hvernig beri að bregðast við þegar koma upp raka- og myglumál í húsnæði borgarinnar. Þessi ítarlegi verkferill hefur verið unninn með sérfræðingum í málaflokknum. Með þessu er verið að skerpa á því sem betur má fara varðandi skipulag, verkstjórn, undirbúning og upplýsingagjöf um framkvæmdir sem tengjast myglu og rakaskemmdu húsnæði í eigu borgarinnar. Við höfum séð þörfina á betra utanumhaldi um það þegar slík mál koma upp og hér er brugðist við því til að gera betur í framtíðinni. Um er að ræða greiningar á helstu orsökum lélegra loftgæða og rakaskemmda, að draga fram þær áhættur sem vakna eftir að léleg loftgæði og rakaskemmdir hafa raungerst, viðbragðsáætlun og virkt eftirlit. Einnig er um að ræða greiningu á veikum hlekkjum og flöskuhálsum í verkferli og viðbragðsáætlun. Með fylgir svo úrbótaáætlun vegna verkferils og viðbragðsáætlunar með tilgreindum eigendum og tímamörkum eftir mikilvægi. Við viljum að húsnæði borgarinnar sé heilnæmt og tökum myglu- og rakavandamál mjög alvarlega. Þess vegna lítur þessi mikilvægi verkferill nú dagsins ljós.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Staðfest er að ferlar borgarinnar voru í molum hvað varðar viðhald, úttektir, verklegar framkvæmdir og samskipti. Öllu máli skiptir að farið sé eftir góðu verklagi en það er ekki nóg að samþykkja ferla og stefnur heldur þarf að fylgja þeim eftir. Verkferlar eru ekki nauðsynlegir til þess að nota almenna skynsemi og sinna viðhaldi og upplýsingagjöf með réttum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mygla hefur verið alltof algeng í húsnæði borgarinnar. Orsakir eru án efa ekki einsleitar en sú stærsta er viðhaldsleysi til margra ára og er það viðurkennt. Þekking um að raki í timbri megi ekki fara yfir 20%, sem er ávísun á rakaskemmdir, virðist hafa minnkað. Til að draga úr þessum vanda þarf að huga að mörgu, ekki síst hönnun bygginga. Þessar tillögur um upplýsinga- og samskiptaferli eru til bóta, en ekki má gleyma rótinni, sem er hvernig byggingar eru gerðar og þeirri staðreynd að halda þarf við húsum. Myglumál Fossvogsskóla sem olli alvarlegum veikindum barna þurfti til að meirihlutinn ákvað að fjárfesta í nýjum verkferli. Í þennan brunn þurfti barnið að detta áður en hann var byrgður. Nú á að taka þetta alla leið og búa til ferli innan borgarinnar þegar grunur vaknar um grunsamlegar rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar. Búið er að stofna starfshóp til að skilgreina verkferla um rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði borgarinnar. Vonandi verður þetta til þess að aldrei aftur verði börn skikkuð til að stunda nám í heilsuspillandi húsnæði né nokkur annar sem starfar hjá Reykjavíkurborg.

    Stefanía Scheving Thorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 11:10 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum og tekur sæti með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hafna tilboði í lóðina Gufunesvegur 32 og að byggingarréttur á lóðinni að Gufunesvegi 32 verði boðinn út aftur, ásamt fylgiskjölum. R21050264

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. september 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að setja upp húsnæði fyrir ungbarnaleikskóla í færanlegum einingum á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg. Gert verði ráð fyrir 600 fermetra leikskóla sem geti rúmað um 60 börn. Húsnæðið verði tekið í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2022.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21040271

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verkefnið er hluti af Brúum bilið átakinu sem gengur út á að fjölga leikskólaplássum til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er gríðarlega brýnt lífsgæðamál fyrir foreldra ungra barna sem og jafnréttismál um leið og það snýst um velferð og góða menntun barnanna sjálfra. Verkefnið gengur út á að fjölga leikskólaplássum í borginni um 1000 talsins á nokkrum árum. Hér er verið að fjölga leikskólaplássum í borginni um 60 með sérstökum ungbarnaleikskóla í Vörðuskóla.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um mjög dýrt tímabundið úrræði að ræða þar sem stofnkostnaðurinn er 95 milljónir og árleg leiga 32,4 milljónir. Gert er ráð fyrir því að þetta verði í tvö til þrjú ár. Þriggja ára kostnaður er því um 200 milljónir eða 65 milljónir á ári fyrir 60 börn. Því miður hefur borgin trassað uppbyggingu á leikskólarýmum og því þarf að grípa til mjög dýrra bráðabirgðaúrræða á kosningavetri til að „brúa bilið“ milli kosningaloforða og raunveruleikans. Samkvæmt síðustu tölum voru 740 börn á biðlista en þess utan er fjöldi barna sem sækja leikskóla í öðru hverfi en sínu eigin. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn leggur til að setja upp húsnæði fyrir ungbarnaleikskóla í færanlegum einingum á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg. Þessu ber að fagna. Verkefnið Brúum bilið er langt á eftir áætlun og hafa fjölmargir foreldrar lent í vandræðum vegna brostinna loforða þessa meirihluta. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í þetta metnaðarfulla verkefni var ekki sett nægt fé til að það gangi upp eins og lagt var upp með. Gert var ráð fyrir 700-750 nýjum leikskólaplássum fram til 2023 en nú kemur í ljós að 400 ný pláss vantar til viðbótar. Spá um fjölgun var ekki nákvæmari en það. Í þeim ungbarnaleikskóla sem hér um ræðir er gert ráð fyrir 600 fermetra leikskóla sem geti rúmað um 60 börn. Stofnkostnaður er 95 milljónir og leigukostnaður 32,4 milljónir á ársgrundvelli.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 24. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningum í skólanefnd Borgarholtsskóla 2021-2025. R21080196

    Samþykkt að tilnefna Grétar Halldór Gunnarsson og Elísabetu Gísladóttur í skólanefnd Borgarholtsskóla og Guðbrand Guðmundsson og Sævar Reykjalín til vara.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 24. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningum í skólanefndir framhaldsskóla í Reykjavík. R21070129

    Samþykkt að tilnefna Ingvar Sverrisson og Elínu Jónsdóttur í skólanefnd Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og Elísabetu Ólöfu Helgadóttur til vara.

    Samþykkt að tilnefna Elínu Oddný Sigurðardóttur og Sigríði Rögnu Sigurðardóttur í skólanefnd Fjölbrautaskólans við Ármúla og Eddu Björnsdóttur og Ragnhildi Pálu Ófeigsdóttur til vara.

    Samþykkt að tilnefna Diljá Ámundardóttur Zoëga og Örn Þórðarson í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson og Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur til vara.

    Samþykkt að tilnefna Alexöndru Briem og Þengil Björnsson í skólanefnd Menntaskólans í Reykjavík og Halldór Auðar Svansson og Helgu Láru Haarde til vara.

    Samþykkt að tilnefna Margréti Norðdahl og Eyþór Laxdal Arnalds í skólanefnd Menntaskólans við Hamrahlíð og Dóru Björt Guðjónsdóttur og Sigurð Helga Birgisson til vara.

    Samþykkt að tilnefna Geir Finnsson og Jórunni Pálu Jónasdóttur í skólanefnd Menntaskólans við Sund og Vilborgu Guðrúnu Sigurðardóttur og Steinar Inga Kolbeinsson til vara.

    -    Kl. 11:28 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. september 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lögð eru fram til kynningar drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030: Heilsuborgin Reykjavík: „Borgin sem ég vil búa í“ ásamt aðgerðaáætlun 2021-2023 og viðaukum. Lagt er til að drögunum verði vísað til afgreiðslu borgarstjórnar. Ófjármagnaður kostnaður við aðgerðaáætlun stefnunnar er 2.850 þ.kr. árið 2021 sem greiðist af kostnaðarstað 09204, sérstakar athuganir og úttektir, og 30.000 þ.kr. á ári árin 2022-2023 sem vísað er til fjárhagsáætlunargerðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110027

    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að vísa lýðheilsustefnu til borgarstjórnar. Megininntak stefnunnar má kjarna með upphafsorðum hennar: „Lýðheilsa og lífsgæði eru lykiláherslur í framtíðarsýn og áherslum borgarinnar á öllum sviðum. Það þýðir að Reykjavik á að vera sannkölluð heilsuborg, hvort sem litið er til hins andlega, líkamlega eða félagslega.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þau drög sem hér eru lögð fram, Heilsuborgin, Lýðheilsustefna, eru full af fögrum fyrirheitum. Fulltrúi Flokks fólksins vill draga úr draumsýn og sjá frekar skýrar línur um hvenær og hvernig á að framkvæma hlutina. Það er verk að vinna enda hefur margt sem snýr að lýðræði og heilsu setið á hakanum hjá þessum og síðasta meirihluta í borgarstjórn, hlutir sem hefði átt að vera fyrir löngu búið að koma í fullnægjandi horf. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu, t.d. að eiga fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú fer fátækt vaxandi, biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki og samkvæmt nýjum könnunum hefur andleg heilsa barna versnað. Viðvörunarljós loga á rauðu en engin viðbrögð eru af hálfu borgarmeirihlutans. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Ekkert af þessu tengist góðri heilsu og hamingju. Þetta hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá nefnt í stefnunni og hvenær ætti að bæta þessa hluti. Hver er tímalínan og hvaðan kemur fjármagnið? Víða þarf að taka til hendinni og er það alfarið á valdi meirihlutans í borgarstjórn. Góð stefna er fín byrjun en það gengur ekki að láta síðan þar við sitja.

    Svavar Jósefsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við frágang Hallgerðargötu á Kirkjusandi auk framkvæmda við ný gatnamót Hallgerðargötu við Borgartún, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 vegna hluta Reykjavíkur er 100 m.kr. R21090042

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við breytingar, endurbætur og lagfæringar á gatnamótum í Reykjavík. Kostnaðaráætlun 2 er 100 m.kr. R21090044

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 3. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er áhersla á að tækifærið sé notað til að skoða gönguþveranirnar með tilliti til algildrar hönnunar og aðgengis og meta gönguþveranirnar út frá því hve vel þær henti öllum vegfarendum, t.d. hvort kantar hindri för, hvort hnappar á ljósastýrðum gangbrautum séu aðgengilegir öllum, hvort merkingar og ljós séu sýnileg og hvernig gönguþveranirnar henti jafnt blindum sem heyrnarskertum notendum. Að auki er mælst til þess að breytingarnar verði kynntar fyrir viðeigandi íbúaráðum. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Víða er verið að þrengja að umferð í borginni, það er m.a. gert með því að afnema svokallaða hægrivasa eða beygjur og þyngja þannig umferð. Nauðsynlegt er að skoða allar slíkar aðgerðir heildstætt áður en ákvarðanir um svona þrengingar eru teknar. Þá vekur sérstaka athygli að málið hefur hvorki verið borið undir né kynnt íbúaráðum né íbúasamtökum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. september 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. september 2021 á tillögu um þjónustusamning við Ás styrktarfélag til 2025, ásamt fylgiskjölum. R21080187

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þjónustusamningi við Ás styrktarfélag. Ás styrktarfélag er sjálfseignarstofnun sem sinnir margvíslegri þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík. Í dag veitir Ás styrktarfélag um 240 Reykvíkingum þjónustu í formi búsetu, sérhæfðrar þjónustu við börn og vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu. Starf styrktarfélagsins er ómetanlegt.

    Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kjörskrá vegna alþingiskosninga þann 25. september nk. R20090044

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Athygli vekur að það fækkar á kjörskrá í Reykjavík, en í þingkosningunum 2017 voru 91.716 á kjörskrá en nú eru 91.094 manns á kjörskrá. Það er fækkun um 662. Sjá hér og hér.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögu um skipan 23 hverfiskjörstjórna vegna alþingiskosninga þann 25. september nk. R20090044

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögu um skipan undirkjörstjórna vegna alþingiskosninga þann 25. september nk. R20090044

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgerðir til að fækka nemendum í grunnskólabekkjum, kennslu í heimahúsum og vægi tækni- og listaverkefna í grunnskólum, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020. R20020057

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um hvað verið sé að gera til að fækka nemendum í bekkjum og um fjölda barna sem fá kennslu í heimahúsi. Einnig var spurt um vægi tækni- og listverkefna í grunnskólum borgarinnar. Í svörum kemur fram að meðalfjöldi nemenda á hvern umsjónarkennara í grunnskólum borgarinnar fjölgaði úr 22,1 nemanda í 22,7 síðustu 5 ár. Sambærileg fjölgun er á aðra kennara. Aðeins einn nemandi stundar heimanám. Hlutfall list- og verkgreina á að vera 15,48% af kennslutíma og hlutfall upplýsinga- og tæknimenntar 2,68%. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort farið sé eftir þessu viðmiði í öllum skólum borgarinnar. Nýlega birtist í fréttum að ekki er vitað hvort eða hvar að minnsta kosti 279 börn á skólaskyldualdri stunda nám. Flest þeirra eru af erlendum uppruna og sveitarfélögin telja líklegt að flest þeirra séu búsett erlendis jafnvel þótt þau séu skráð til heimilis á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá. Vitað er að umrædd börn voru flest í fjölmennustu sveitarfélögunum. Í Reykjavík reyndust þau 80. Ekki er vitað hvort skóla- og frístundasvið er að leita að þessum börnum til að kanna stöðu þeirra og líðan.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gagnsæja ruslapoka, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. R21070173

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort gjald yrði líka lagt á þá sem koma með sorp í pappírspokum eða taupokum. Vissulega eru þeir ekki gegnsæir. Í svari kemur fram að mikilvægt sé að sjá í gegn, sjá hvað er í pokanum (því að þannig er hægt er að ná betri skilum á endurvinnsluefnum í rétta gáma eins og segir í svari). En hafa skal í huga að eitt af markmiðum okkar sem viljum bæta umhverfið er að hætta notkun plasts og plastpoka og þess vegna skýtur það skökku við að aðeins megi koma með sorp í plastpokum, glærum plastpokum nánar tiltekið. Hér er kannski spurning um meiri hagsmuni fyrir minni, með því að draga úr plasti á kostnað þess að sjá ekki alltaf sorpið í pokanum. Strigapokar eru t.d. ekki úr plasti. Ættu þeir ekki að vera „gjaldgengir“? Með því að skilyrða fólk að koma með sorp í „glærum“ plastpokum er verið að ýta undir notkun plasts sem gengur þvert gegn umhverfissjónarmiðum. Vissulega er gegn- og gagnsæi ávallt af hinu góða í sinni víðustu merkingu. Víða má finna stóra pappírspoka og ef þörf er á fleiri og stærri slíkum pokum má framleiða meira af þeim.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leiðrétt gjöld vegna þjónustuskerðingar vegna COVID-19, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. maí 2020. R20050149

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort Reykjavík hafi nú þegar leiðrétt gjöld vegna niðurfellingar eða skerðingar þjónustu leik- og grunnskóla og frístundaheimila í COVID-19 aðstæðunum. Fyrirspurnin var lögð fram fyrir meira en ári og loks berst svar. Viðauki hefur verið samþykktur um að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um sem nemur 14.100 þ.kr. vegna viðbótarframlagsins til samræmis við aðgerðir vegna borgarrekinna leikskóla. Ekki kemur fram hvernig þessar upphæðir eru fengnar eða útreiknaðar, s.s. fjöldi þeirra sem fengu leiðréttingu o.s.frv. Hins vegar er vitað að Reykjavík var ansi sein að taka við sér með þessar greiðslur og eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst mun seinni en önnur sveitarfélög sem gerðu leiðréttingarnar fljótt og vel. Minnst er á að þessi fyrirspurn var lögð fram af ástæðu, þ.e. foreldrar í Reykjavík voru orðnir langeygir eftir leiðréttingunni. Má sem sagt ganga út frá því sem vísu að allir hafi fengið leiðréttingu?

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfsánægjukönnun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. maí 2021. Einnig lögð fram ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. R21030227

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið lengi eftir svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins sem lúta að niðurstöðum könnunar um líðan starfsfólks í slökkviliðinu. Spurt var m.a. um samskipti við yfirmenn, tilfelli um einelti, áreitni, hvernig hefur verið unnið með slík mál. Ástæða fyrir því að starfsfólk vildi fá utanaðkomandi aðila til að greina vandann er að ekki var trú á að stjórnendur myndu gera það eða geta. Í tilfellum sem stjórnendur eru hluti og e.t.v. orsök vandans segir það sig sjálft að þeir geti ekki verið hæfir til að meta sjálfa sig. Niðurstöður könnunarinnar voru rauðglóandi. Hvort næst að vinna einhverja úrbótavinnu er spurning. Stundum dugar ekki annað en að skipta um menn í brúnni. Í svörum er áberandi að reynt er að gera lítið úr vanlíðan fólks og skýla sér bak við „COVID“. Talað er um vísbendingar um vanlíðan en ekki raunverulega vanlíðan. COVID skall á fyrir einu og hálfu ári en eitrað andrúmsloft verður ekki til á einu ári heldur mörgum. Að öðru leyti eru þessi svör útúrsnúningar. Látið eins og þeir sem gerðu könnunina væru ekki meðvitaðir um hvernig starfsemi þetta væri. Fulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi: Hefur mönnum verið sagt upp störfum og hafa málaferli orðið vegna starfsloka hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins?

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verktöku í sjúkraflutningum, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. R21070161

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort ekki væri tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Fram kemur í svari að þetta hafi verið svona lengi. Þótt þetta sé búið að vera lengi er þetta barns síns tíma. Nefna má að fyrir 30 árum voru sjúkraflutningar ekki svona stór þáttur í rekstri Slökkviliðs Reykjavíkur. Mjög litlar líkur voru þá á að einn maður kæmi á vettvang á slökkvibíl sem getur gerst í dag. Allt er stærra í dag en var, meiri menntun á báðum sviðum, menn sérhæfðari og krafist er viðamikillar þekkingar. Segir í svari að í dag sé hægt að boða um 200 manns í stórútköll. Það segir ekki allt. Eins og kemur fram í svari er varðlið um 160 manns. Þrátt fyrir allt þetta hefur þessi fjöldi ekki dugað sem segir að eitthvað er ekki að ganga upp í skipulaginu. Afleiðingar eru að viðbragð í slökkviþættinum getur verið takmarkað á sama tíma og álag er á sjúkraflutningum sem getur kostað mannslíf. Þetta eru tvö aðskilin störf og sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn og þurfa mikla sí- og endurmenntun reglulega til að getað viðhaldið þekkingu sinni.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fjölda kaupsamninga vegna hlutdeildarlánaleiðar ríkisins, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021. R21050220

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það lýsir ástandinu í lóðamálum í Reykjavík að ekki sé búið að úthluta fleiri hlutdeildarlánum. Hér er gott yfirlit yfir skiptingu hlutdeildarlána á landsvísu.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 6. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands varðandi viðveru sálfræðinga í skólum borgarinnar, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. júní 2021. R21060212

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari við fyrirspurn kemur fram að stöðugildi skólasálfræðinga er á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Þá kemur einnig fram að sálfræðingar þjónustumiðstöðva eru ekki með fasta viðveru eftir ákveðnum dögum í grunnskólum, fyrir utan sálfræðinga í Þjónustumiðstöð Breiðholts. Í Breiðholtsskóla, Fellaskóla og Hólabrekkuskóla er föst viðvera einn dag í viku frá kl. 8-16. Í Seljaskóla er viðvera fyrir hádegi einn dag í viku en aðstöðuleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að hafa viðveru allan daginn og í Ölduselsskóla er viðvera á milli kl. 9 og 15 einn dag í viku. Í svari kemur fram að samkvæmt upplýsingum deildarstjóra skóla- og barnaþjónustu í Breiðholti sé löng hefð fyrir fastri viðveru sálfræðinga, félagsráðgjafa og kennsluráðgjafa í skólunum. Það sem hafi gert þetta mögulegt er að skólarnir í Breiðholti hafi skapað starfsmönnum þjónustumiðstöðvarinnar góða aðstöðu innan skólanna sem er grundvallarforsenda fyrir fastri viðveru. Þá kemur einnig fram að unnið sé að því að endurskoða fjölda stöðugilda fyrir borgina í heild og unnið að því að skapa sálfræðingum betri aðstöðu í skólunum. Fulltrúi sósíalista telur nauðsynlegt að sálfræðingar séu með fasta viðveru í öllum skólum grunnskólabarna og að aðgengi sé gott.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að sálfræðingar hafi starfsstöð sína í skólunum sjálfum. Það útilokar ekki að þeir geti haft samráð og samstarf við þverfagleg teymi á þjónustumiðstöðum. Hér er verið að svara spurningum um í hvaða grunnskólum Reykjavíkurborgar sálfræðingar eru með fasta viðveru. Stöðugildi skólasálfræðinga á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar sem þjónusta 80 leikskóla og 44 grunnskóla eru 25,8. Meðtaldir eru einkareknir leik- og grunnskólar. Fæstir sálfræðingar eru með fasta viðveru. Við lestur svars virðist þetta tætingslegt. Fram kemur að aðstöðuleysi sé oft orsök þess að sálfræðingur geti ekki haft fasta viðveru. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þau mál sé hægt að leysa. Dæmi eru um að sálfræðingur noti herbergi hjúkrunarfræðings þegar hann er ekki í skólanum. Sálfræðingar eru vanir að vinna við alls konar aðstæður. Umfram allt þurfa þeir að vera nálægt börnunum og menningu skólans og vera til taks til að veita ráðgjöf og styðja við kennara og starfsfólk. Hluti þess að taka á hinum langa biðlista, 1474 börn, er að gera störf sálfræðinganna skilvirkari og að ekki fari tími í að ferðast milli skóla og þjónustumiðstöðvar.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 22. júlí 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hvaða leiðir í leiðakerfi Strætó bs. hafi verið lagðar niður vegna COVID-19, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020. R20050062

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 2. september 2021. R21010004

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 1. september 2021. R21010027

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 8. september 2021. R21010008

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar: 

    Tillaga meirihlutans snýr að því að hefja undirbúning tilraunaverkefnis vegna leigu á rafskutlum sem sérstaklega verði ætlað að þjóna fólki sem á erfitt með að ganga lengri vegalengdir í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaða hóps meirihlutinn er að vísa hér til. Fatlaðs fólks, fólks með skerta hreyfigetu eða þeirra sem eru með léttvægari fótameiðsl? Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til aðra lausn sem mætti skoða samhliða rafskutluleigu þess vegna og hún er sú að skutluvagn æki um göngugötur. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar. Víða erlendis, á sólarströndum sem dæmi, má sjá fólk sem á erfitt um gang aka um á litlum rafskutlum, sennilega svipað því og meirihlutinn hefur í huga. Það fólk býr á hótelum á staðnum og rafskutlurnar eru til taks fyrir utan hótelin. Þegar reynt er að yfirfæra þetta yfir á miðbæ Reykjavíkur er fyrsta hugsunin að fólk sem ekki býr þar þarf að komast þangað sem rafskutlan er.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 13. ágúst 2021. R21010017

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R21080190

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hvetur sveitarfélög til þess að hefja undirbúning innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Sérstaklega er tekið undir mikilvægi samhæfingar verklags þvert á svið og stjórnvalds, ríkis og sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög hafa engan veginn unnið nægjanlega vel saman í gegnum tíðina. Sem dæmi hefur skort á að skólar og heilsugæsla vinni saman og má nefna í þeim tilfellum þegar í ljós kemur í skoðun á heilsugæslu að barn þarf snemmtæka íhlutun þegar það hefur skólagöngu. Einnig skortir á samvinnu skólaþjónustu og stofnana ríkisins eins og BUGL og Þroska- og hegðunarstöð. Nánara samstarf myndi leiða til þess að hægt væri að draga úr biðlistum barna sem stundum bíða á tvöföldum og jafnvel þreföldum biðlistum eftir greiningu og meðferð. Barn bíður e.t.v. mánuðum saman á biðlista eftir sálfræðiþjónustu skóla, fer svo aftur á biðlista eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð og þurfi það frekari aðstoð fer það á biðlista eftir þjónustu hjá barna- og unglingadeild.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. R21080191

    -    Kl. 12:05 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Var starfsmannafjöldi borgarinnar kominn í 14.218 í júlí síðastliðnum? Samkvæmt mælaborði borgarinnar er þetta talan og hefur hækkað um 13% milli ára.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hversu margir verkefnisstjórar hafa verið ráðnir á þessu ári inn á umhverfis- og skipulagssvið vegna fyrirhugaðra hugmynda um ný skipulagssvæði s.s. á Ártúnshöfða og í Skerjafirði. Er um fullt starf að ræða eða hlutastarf? R21090074

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  32. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hver er tilgangur Reykjavíkurborgar að óska eftir aðgangi að Facebook-síðum íbúasamtaka hverfanna, sem eru frjáls félagasamtök og vettvangur íbúa til að ræða málefni hverfanna, án aðkomu og áhrifa borgarinnar? R21090075

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  33. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í svari við fyrirspurn sósíalista varðandi viðveru sálfræðinga í skólum borgarinnar kemur fram að sálfræðingar þjónustumiðstöðva, fyrir utan sálfræðinga í Þjónustumiðstöð Breiðholts, séu ekki með fasta viðveru eftir ákveðnum dögum í grunnskólum. Fulltrúi sósíalista spyr hvað myndi kosta að hafa fasta viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum einn dag í viku frá kl. 8-16 og hvað myndi kosta að hafa fasta viðveru alla virka daga, í öllum skólum frá 8-16. Hvað myndi þurfa að eiga sér stað til að tryggja þá aðstöðu sem þarf svo að sálfræðingar hafi góða aðstöðu innan skólanna? Þarf t.d. meira rými eða aðstöðu og/eða fjármagn? R21060212

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að framkvæma úttekt á fátækt í Reykjavík í samvinnu við mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráð. Vegna efnahagslegra áhrifa COVID má leiða líkur að því að fátækt hafi aukist meðal borgarbúa. Í ljósi þess þarf að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvort sú þjónusta sem borgin veitir sé að mæta þörfum þessa hóps og hvort þörf er á úrbótum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21090069

    Frestað.

    Fylgigögn

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Margir deila þeim áhyggjum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða við íbúa og starfsmenn skólanna í hverfinu vegna framtíðar skólamála í ljósi þess að næstu ár verður byggt mikið á svæðinu. Skólarnir eru hins vegar sprungnir og það þarf að gera eitthvað. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort verið sé að ræða þessi mál hjá borgaryfirvöldum og finna lausnir til framtíðar.  R21090084

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvað gengur á hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöður könnunarinnar um starfsánægju komu út rauðglóandi. Hvort næst að vinna einhverja úrbótavinnu er spurning. Stundum dugar ekki annað en að skipta um menn í brúnni. Í svörum er áberandi að reynt er að gera lítið úr vanlíðan fólks og skýla sér bak við „COVID“. Talað er um vísbendingar um vanlíðan en ekki raunverulega vanlíðan. COVID skall á fyrir einu og hálfu ári en eitrað andrúmsloft verður ekki til á einu ári heldur mörgum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi: Hefur mönnum verið sagt upp störfum og hafa málaferli orðið vegna starfsloka hjá SHS? R21030227

    Vísað til umsagnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu bs.

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvort skóla- og frístundaráð er að kanna með virkum hætti stöðu og líðan um 80 barna á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili í Reykjavík en sem eru ekki að stunda nám. Nýlega birtist í fréttum að ekki er vitað hvort eða hvar að minnsta kosti 279 börn á skólaskyldualdri stunda nám sem eru skráð til heimilis á Íslandi samkvæmt þjóðskrá. Í Reykjavík voru þau við fyrstu athugun 179 en eftir nánari eftirgrennslan reyndust þau 80. Minnt er á að það er m.a. á ábyrgð sveitarfélaga að tryggja að öll börn á skólaskyldualdri sæki grunnskóla og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef í ljós kemur að svo er ekki. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um eftirfarandi: Er skóla- og frístundasvið að gera eitthvað til að finna þessi 80 börn sem eiga lögheimili í Reykjavík og kanna með líðan þeirra og af hverju þau eru ekki að stunda nám þótt þau séu á skólaskyldualdri og skráð í Reykjavík samkvæmt þjóðskrá? Ef svo er, hvað hefur verið gert? Hefur Reykjavíkurborg/skóla- og frístundasvið ráðlagt að koma á miðlægu skráningarkerfi svo að unnt sé að fylgjast með því hvort og hvar börn á skólaskyldualdri eru skráð í grunnskóla? R21090086

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fundi slitið klukkan 12:28

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0909.pdf