Borgarráð - Fundur nr. 5633

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 26. ágúst, var haldinn 5633. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 31. maí og 18. ágúst 2021. R21010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 6 í fundargerð 18. ágúst. Lögð er fram beiðni skrifstofu borgarstjórnar um umsögn endurskoðunarnefndar um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. Þessi fyrirspurn Flokks fólksins er eldgömul, var lögð fram 16. apríl 2020 og varðar ummæli Einars S. Hálfdánarsonar í Fréttablaðinu 14. apríl sama ár að „braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að það hafi ekki verið nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“. Það er athyglisvert að rifja upp þetta mál nú tveimur árum síðar og er fulltrúi Flokks fólksins enn á því að meðvirkni hafi ríkt innan kerfisins með braggamálið. Umsögn endurskoðunarnefndar liggur loks fyrir nú í ágúst 2021 þar sem fram kemur að „nefndinni var ekki kunnugt um fyrirspurn Flokks fólksins frá 16. apríl 2020 fyrr en nú nýlega og er beðist velvirðingar á því að hún hafi ekki verið afgreidd fyrr.“ Fulltrúi Flokks fólksins sér að hér hefur eitthvað misfarist og er ekki meira við því að segja.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 12. og 19. ágúst 2021. R21010004

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 19. ágúst 2021. R21010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 9 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts, málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hyggst óska eftir að íbúaráð Breiðholts fjalli um það öngþveiti sem myndast á Breiðholtsbraut á annatímum og sérstaklega ræða mikilvægi þess að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni. Það er alveg ljóst að fyrirhuguð ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg munu ekki bæta ástandið á þessum kafla heldur auka það. Ekki er séð að skipulagsyfirvöld ætli að taka á þessu máli. Nú þegar eru þrengsli og tafir þarna með öllu óþolandi fyrir fólk sem fer þarna um, ekki síst í aðdraganda helgar þegar borgarbúar fara úr borginni. Þá er Breiðholtsbrautin stappfull lengst niður eftir Breiðholtsbrautinni.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 16. ágúst 2021. R21010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 6, umræða um málefni hverfisins. Borgarfulltrúum berast með reglulegum hætti upplýsingar frá íbúum í Úlfarsárdal um að víða má sjá ófremdarástand í umhverfinu. Vel kann að vera að þessi mál séu rædd í þaula á fundum íbúaráðsins án þess að sérstaklega sé verið að bóka um þau. Lýst er slæmu ástandi vegna seinkunar á byggingarframkvæmdum og kvartanir vegna verkstýringar. Sem dæmi átti að ljúka við verk í kringum Dalskóla fyrir mörgum árum. Enn átti að reyna í vor að ljúka verkum í kringum skólann sem nú fyrst er verið að byrja á þegar skólinn er byrjaður. Þeir sem hafa fengið lóðir draga að byggja á þeim eftir því sem næst er komið. Þetta er látið óáreitt af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Hvenær á að ljúka við þau verk sem hér eru nefnd? Af myndum sem okkur hafa verið sendar er ástandið í Úlfarsárdal víða slæmt. Um 15 ár eru síðan skipulagið var kynnt og átti hverfið að vera sjálfbært. Margt er þarna óklárað. Engin þjónusta hefur orðið til í hverfinu þaðan af síður sjálfbærni, engin atvinnustarfsemi. Finna má tunnur, staura, vírnet við Úlfarsbraut ofan við kennslustofur í kjallara Dalskóla. Þarna má einnig sjá óbyggðar lóðir, ókláraða gangstíga, moldarhauga og drasl á götum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 17. ágúst 2021. R21010027

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. ágúst 2021. R21010029

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 12. ágúst 2021. R21010005

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 10 í fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs: Fulltrúi Flokks fólksins lagði til á fundinum að málefni barna, eldra fólks og öryrkja verði markvisst og oftar á dagskrá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur átt fulltrúa í ráðinu frá áramótum og þykir þau mál sem þar hafa verið til umræðu oft ansi einsleit. Huga má meira að fátæku fólki í tengslum við mannréttindi en fátækir er stækkandi hópur. Nefna má öryrkja sem þola mega skerðingar þannig að margir þeirra ná ekki endum saman. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því afnumið þær með einu pennastriki. Skoða þarf einnig mannréttindaþáttinn hjá börnum sem glíma við röskun eða fötlun af einhverju tagi og dæmi eru um að börn stundi nám í grunnskóla borgarinnar þar sem þau eru ekki meðal jafningja vegna þess að skóli án aðgreiningar er vanbúinn og skortur er á sérskólaúrræðum. Ræða þarf mannréttindi í tengslum við þá sem eru fastir á sjúkrahúsi vegna þess að þeir eiga ekki heimili eða mannekla er í heimaþjónustu. Huga þarf einnig að betri þjónustu fyrir eldra fólk sem vill búa sem lengst heima. Síðast en ekki síst þarf að skoða mannréttindaþáttinn þegar kemur að sveigjanlegum vinnulokum.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 13. og 16. ágúst 2021. R21010069

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 3 í fundargerð neyðarstjórnar 16. ágúst: Fram fór umræða um fundi og verkefni neyðarstjórnar Reykjavíkur bæði til næstu vikna og til lengri tíma á þessum fundi 16. ágúst. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað kom fram í þeirri umræðu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að minnihlutafulltrúum er haldið utan við málefni sem neyðarstjórn borgarinnar fjallar um á fundum sínum og engin minnihlutafulltrúi situr í neyðarstjórninni. Þetta þarf að laga. Í það minnsta má „snarbæta“ upplýsingaflæði frá neyðarstjórn til borgarfulltrúa til að halda þeim upplýstum. Minnihlutinn er kjörinn til ábyrgðar og eðlilegt væri að minnihlutinn ætti fulltrúa í svo mikilvægri stjórn.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 25. ágúst 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 40 í fundargerð skipulags- og samgönguráðs: Svar/umsögn hefur borist við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Breiðholtsbraut en spurt var hvað skipulagsyfirvöld hyggjast gera vegna þróunar umferðarmála á Breiðholtsbraut. Þar er umferð mikil á annatímum og er orðið afar brýnt að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni. Fram kemur í svari „að samkvæmt núgildandi fjögurra ára samgönguáætlun 2020-2024, eru fyrirhuguð ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg en framkvæmdin er hluti af samgöngusáttmálanum. Aðrar framkvæmdir á Breiðholtsbraut eru ekki fyrirhugaðar á gildistíma áætlunarinnar.“ Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta er einfaldlega vondur hluti af sáttmálanum. Vandinn sem spurt var um er að leggurinn frá Jafnaseli að Rauðavatni ber ekki nægilega vel þá umferð sem þegar fer þar um. Ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg mun ekki bæta stöðuna heldur auka vandann. Hvað ætla skipulagsyfirvöld að gera í þessu? Nú þegar eru þrengsli og tafir þarna með öllu óþolandi fyrir fólk sem fer þarna um ekki síst í aðdraganda helgar þegar borgarbúar fara úr borginni. Þá er umferðin stappfull lengst niður eftir Breiðholtsbrautinni.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 17. ágúst 2021. R21010007

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 14 í fundargerð skóla- og frístundaráðs: Fram kemur í svari að upp á síðkastið hefur afgreiðsla mála þeirra sem sækja um hæli orðið hraðari sem er af hinu góða. Dvöl barna í stoðdeildinni hefur samhliða styst því þegar foreldrar þeirra fá hæli þá flytjast þau út í almennan hverfisskóla án tillits til hvort þau eru tilbúin til þess eða ekki. Dæmi eru um að barn sem er ekki tilbúið er flutt út í almennan bekk þar sem einstaklingsþjónusta er minni en veitt er í stoðdeildinni. Fulltrúi Flokks fólksins studdi tilkomu stoðdeildarinnar og hefur reynt að fylgjast með hvernig gengur s.s. í samskiptum barnanna sem eru af ólíkum menningarheimum. Stoðdeildin er skammtímaúrræði og eiga börnin ekki að fara út í almennan bekk fyrr en þau eru búin að aðlagast og eru farin að geta skilið/bjargað sér á íslensku. Flutningur út í hverfisskólann á að vera á þeirra forsendum en ekki kerfisins. Ef aðkoma ráðuneytis getur liðkað til í þessum málum, s.s. með aðstoð frá íslenskuverum, þarf það að ræðast strax svo hægt sé að koma til móts við þarfir allra barna með fullnægjandi hætti.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 16. ágúst 2021. R21010013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 3 og 4: Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þeirri umræðu sem á sér stað á stjórnarfundi SORPU. Lyfta þarf grettistaki í upplýsingagjöf til almennings og einfaldlega að koma hreint fram við fólk. Því miður er sumt óafturkræft í málefnum SORPU. Mikið fjármagn hefur verið sett í verkefni sem ekki reyndust skila tilætluðum árangri, s.s. GAJA, og munu borgarbúar og eigendur SORPU þurfa súpa seiðið af því í komandi framtíð. Vonandi hefur SORPA lært einhverja lexíu og gætir sín betur í framtíðinni. Klúður SORPU á þessu kjörtímabili mun án efa vera lengi í minnum haft.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 18. ágúst 2021. R21010009

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 10 um stjórnkerfisbreytingar: Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint. Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun, t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þess utan stendur nú til að stytta opnunartíma þeirra. Ekki orði er minnst á biðlistavandann sem eru í sögulegu hámarki. Á biðlista eftir nauðsynlegri aðstoð eru börn með sérþarfir og ólík vandamál sem bíða lausnar. Með reglulegu millibili berast niðurstöður úr könnunum um aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður, því ástandið hefur varað alltof lengi. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs og þarfnast sviðið umtalsvert meira fjármagns. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir meiri samhæfingu og samstarfi við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýrari markmiðum og árangursmælingum.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 16. ágúst 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 4. Kynning á skýrslu heilbrigðisráðuneytis um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi nefna svör við fyrirspurn Flokks fólksins um áætlanir um byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík. Í svari kemur fram að byggja á í Grafarvogi 144 íbúðir og fyrir liggur viljayfirlýsing um 200 í viðbót á svæði við Ártúnshöfða en það er aðeins viljayfirlýsing. Þetta er ekki nærri nóg því nú þegar eru 250 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Ef fram heldur sem horfir verður biðlistinn sá sami ef ekki lengri eftir örfá ár. Uppfærð húsnæðisáætlun var síðast lögð fram 2020. Sú áætlun sem nú liggur fyrir til ársins 2025 er ekki í samræmi við þörfina. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil í þessum efnum. Lóðaúthlutun er á forræði Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg rekur núna tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Lífslíkur fara stöðugt hækkandi og hefur því verið spáð sem dæmi að árið 2040 muni hlutfall fólks eldra en 67 ára hafa hækkað úr 12% í 19%. Reykjavíkurborg getur átt frumkvæði að hvatningu og meira samstarfi við ríkið í þessum viðkvæma málaflokki.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R21080034

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 1 í embættisafgreiðslum: Það sætir furðu hversu illa gengur að fá viðbrögð frá slökkviliðsstjóra um starfsmannamál Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins og fjölmiðlar hafa reynt að fá viðbrögð en er mætt með þögninni einni. Niðurstöður starfsánægjukönnunar sýndu að hjá Slökkviliðinu er allt logandi og er þá vægt til orða tekið. Svo lítur út sem eigi að þagga málið niður eða kæla nema hvort tveggja sér. Lengi hefur gengið sá orðrómur að illa sé farið með starfsfólk af æðstu stjórnendum hjá Slökkviliðinu og hefur hugtakið „ógnarstjórn“ verið nefnt í því sambandi. Tortryggni vex þar sem engin svör eða viðbrögð koma. Það er illt að vita til þess að slökkviliðsmönnum sem leggja líf sitt í hættu í starfi sínu líði mögulega hundilla vegna samskiptavandamála eða annarra vandamála sem tengjast vinnustaðnum. En það er það sem könnunin sýnir svo ekki er um villst. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Staðreyndin er sú að stjórnandi/yfirmaður hefur það hvað mest á hendi sér hvort einelti fær þrifist á vinnustað.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21080036

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar götutrjáa árið 2021, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 vegna framkvæmda 2021 er 20 m.kr. R21080131
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar götutrjáa 2021. Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda ársins er 20 m.kr. Það sem fram kemur að eigi að gera er að setja niður ný tré og gróðurbeð endurnýjuð. Varðandi endurnýjun vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að tré eru fjölærar plöntur. Flest lifa þau í áratugi og almennt þarf ekki að endurnýja þau. Er það kannski regla hjá borginni að endurnýja götutré reglulega? Eða gengur ræktun þeirra ekki sem vonast var til? Tuttugu milljónir er mikið fé til að endurplanta, jafnvel þótt nokkrar lagfæringar á hellulögn fylgi með.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hafna tilboðum í lóðirnar Gufunesvegur 36 og Þengilsbás 3 og að byggingarréttur á lóðunum að Gufunesvegi 36 og Þengilsbási 3 verði boðinn út aftur, ásamt fylgiskjölum. R21050265
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. ágúst 2021, varðandi ársfjórðungsskýrslu græna plansins fyrir apríl til júní 2021, ásamt fylgiskjölum. R20060016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Græna planið er sóknaráætlun borgarinnar til framtíðar. Hér er verið að leggja fram ársfjórðungsskýrslu til upplýsingar fyrir fulltrúa í borgarráði svo þeir hafi nauðsynlega yfirsýn í þessu mikilvæga verkefni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur losun hjá Reykjavíkurborg á gróðurhúsalofttegundum vaxið talsvert á þessu kjörtímabili. Stefnt var að því að engin losun CO2 ígilda væri árið 2025 vegna eldsneytis, en staðreyndin er sú að losun jókst á milli ára eins og sjá má í „grænu bókhaldi“ borgarinnar. Hefur borginni þar með mistekist að minnka losun á sama tíma og almenningur, iðnaðurinn og útgerð hefur dregið úr losun. Markmið um minni losun hafa ekki náðst þrátt fyrir plön um græna vegferð.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ársfjórðungsskýrsla græna plansins er lögð fram af meirihlutanum. Skýrslan ber það með sér að flest það sem er í græna planinu eru verk sem sífellt þarf að vinna. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki að eitthvað sérstakt plan þurfi til þess. Það telst þó til tíðinda að stafrænir leiðtogar eru komnir til starfa eins og sagt er í lokaglærunni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnst mörgum mannlegum leiðtogum, sem hafa verið misjafnir, en stafrænir leiðtogar eru henni nýjung. Fulltrúi Flokks fólksins hefur, eins og mörgum er orðið ljóst, haft miklar áhyggjur af þessu fjárfestingaátaki stafrænnar umbreytingar vegna þess að glöggt má sjá að ekki er verið að fara vel með fé borgarbúa. Nú hefur sviðið verið með dýran áskriftarsamning við Gartner Group á Írlandi í næstum áratug og þegið þar einhverskonar ráðgjöf sem oft er erfitt að sjá hvað kemur út úr annað en aukin tilraunastarfsemi sem oft virðist skilja lítið eftir sig.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. ágúst 2021, varðandi yfirlit yfir innleiðingu húsnæðisáætlunar græna plansins á öðrum ársfjórðungi ársins 2021. R21080129

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt húsnæðisáætlun græna plansins var kraftmikil uppbygging íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á öðrum ársfjórðungi ársins 2021. Mikill fjöldi verkefna hefur klárast og hafa á fyrri helmingi ársins komið 1.422 nýjar íbúðir inn á húsnæðismarkaðinn í Reykjavík. Á öðrum ársfjórðungi samþykkti byggingarfulltrúi áform um uppbyggingu á 485 íbúðum og hófust framkvæmdir við byggingu á 276 íbúðum. Þá var skipulag auglýst til kynningar á reitum þar sem byggja má 5.175 íbúðir og skipulag var samþykkt á reitum þar sem byggja má 1.108 íbúðir. Þá hafa á árinu verið gerðir samningar á fjölda reita þar sem byggja má hátt í tvö þúsund íbúðir. Það sem einkennir húsnæðisáætlun borgarinnar öðru fremur er að uppbyggingin er nær öll á þéttingarreitum og íbúðir eru byggðar í öllum stærðum og gerðum, fyrir alla tekjuhópa.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á vakt núverandi meirihluta og sífellt fleiri kjósa að búa á Reykjanesi og í Árborg. Húsnæðisverð hefur hækkað einna mest í sérbýli á síðustu misserum, enda er alger skortur á lóðum fyrir sérbýli í Reykjavík, þrátt fyrir þá staðreynd að margir kjósi sér slíkt húsnæði. Árleg fjölgun íbúa í Reykjavík hefur minnkað öll árin á kjörtímabilinu og er hún nú aðeins helmingur af árlegri fjölgun árið 2018. Það er áhyggjuefni þar sem útgjöld hafa vaxið gríðarlega og tekjustofninn virðist leita annað.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Bókun Sjálfstæðisflokksins þarfnast leiðréttingar. Á undanförnum fjórum árum hefur íbúum borgarinnar fjölgað á bilinu 2100-2800. Það eru því langflestir á hverjum tíma sem kjósa búsetu í Reykjavík. Gríðarleg eftirspurn eftir húsnæði endurspeglar þessa fjölgun vel og gengur vel að mæta þeirri eftirspurn. Varðandi sérbýli, þá hefur verið afar lítil eftirspurn eftir þeim á undanförnum árum og til marks um það var fjöldi sérbýlishúsalóða til sölu á föstu verði um langt skeið á vef borgarinnar 2019-2020 án þess að þær seldust.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram til kynningar yfirlit yfir innleiðingu húsnæðisáætlunar græna plansins á öðrum ársfjórðungi ársins 2021. Segir að markmið græna plansins er að árlega verði byggðar 1.000 íbúðir og þar af verði 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga. Það er vel að byggt sé af krafti í Reykjavík. Loksins. En betur má ef duga skal. Skortur er á hagkvæmu húsnæði og skortur er einnig á sérbýlum sem veldur því að fasteignamarkaður er óeðlilegur. Kostnaður við nýbyggingar og breytingar á húsnæði eru taldar vera óþarflega kostnaðarsamar vegna of flókinna samskipta við skipulagsyfirvöld, byggingarreglugerðir eru of stífar og hindri byggingu einfaldra og þar með ódýrra bygginga. Í þessum málaflokki þarf að taka til.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. ágúst 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaði við kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður Reykjavíkurborgar mun vera á bilinu 5,7-7,4 m.kr. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að gera viðauka með tillögunni.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21080078
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um afar mikilvæga kortlagningu að ræða til að tryggja brunavarnir og veita nauðsynlega yfirsýn yfir búsetu fólks í atvinnuhúsnæði. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú loks í lok kjörtímabilsins tekur meirihlutinn við sér og ætlar að hefja kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði, en þessi úttekt er löngu tímabær, enda hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins margoft kallað eftir nýrri úttekt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þessi kortlagning hefði mátt vera gerð fyrir löngu. En stundum er það þannig að hlutirnir gerast ekki nema í kjölfar hörmunga. Það væri náttúrulega frábært ef hægt væri „að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann“. Með vaxandi fátækt í borginni er líklegt að æ fleiri neyðist til að leita sér skjóls í atvinnuhúsnæði sem ekki er hannað að neinu leyti til að búa í.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til ráðgjafar- og verkfræðifyrirtækisins VSÓ, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020. R20110104
    Frestað.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til verkfræðistofa frá 2008-2019, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. R19110212
    Frestað.

    Fylgigögn

  23. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2020 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. ágúst 2021, umsögn innri endurskoðunar, dags. 23. ágúst 2021, og trúnaðarmerkt drög að reglum skóla- og frístundasviðs, dags. 23. ágúst 2021, varðandi framkvæmd fjárhagsáætlunar skóla- og frístundasviðs, rekstraruppgjör, eftirlit og ferla. R21080081
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    COVID-faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á fjármál borgarinnar. Við því var að búast og afkoma borgarinnar er heldur betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, sem ber sterkri stjórnun í rekstri borgarinnar glöggt vitni. Borgin leggur höfuðáherslu á að verja starfsemi, velferð og skólastarf við þessar aðstæður og sóknaráætlun borgarinnar, græna planið er í forgrunni fjármála hjá borginni til framtíðar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þrátt fyrir mettekjur af sköttum og gjöldum heldur borgin áfram að auka við sig skuldir. Hefur skuldsetningin verið óslitið allt kjörtímabilið, bæði í góðæri og í harðæri. Nú er svo komið að skuldir samstæðu borgarinnar eru að fara í 400 milljarða og stóðu í lok júní í 397 milljörðum króna. Vaxa um 14 milljarða á sex mánuðum. A-hluti hefur stóraukið skuldir sínar og stóðu þær í 138 milljörðum um mitt árið og höfðu þá einnig hækkað um 14 milljarða króna. Þessi rekstur borgarinnar er því ósjálfbær.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ljóst að staða velferðarsviðs er alvarleg og skal ekki undra. Á sviðinu hefur mætt mikið og sama má segja um skóla- og frístundasvið. Á báðum sviðum stefnir í gríðarlega yfirkeyrslu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það hljóti að vera skynsamlegt við gerð næstu fjárhagsáætlunar að ákveða að hækka framlög til þessara sviða umtalsvert. Það er aldrei gott, hvorki fyrir ímynd né líðan starfsmanna að vera yfir langan tíma langt yfir áætlun. Ekki hefur fengist það fé frá ríkinu sem sveitarfélagið Reykjavík á þar inni ef svo má að orði komast og verði sama ríkisstjórn við lýði eftir kosningar er ekki von á að breyting verði þar á. Reykjavíkurborg á því ekki annan kost en að vinna úr þeirri stöðu sem hér er uppi. Sækja má fé til annarra sviða sem ekki hafa fæði, klæði og húsnæði borgarbúa á sínum herðum en hafa engu að síður fengið umtalsvert fjármagn í önnur verkefni. Þau verkefni, sum hver mættu bíða, fresta eða dreifa með einhverjum hætti og nota þannig hluta af því fjármagni til að laga stöðu velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs. Talsverð fjölgun hefur verið á barnaverndarmálum og kannanir sýna vaxandi vanlíðan barna í grunnskólum borgarinnar. 1.484 börn hafa ekki fengið nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu.

    Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Lárus Finnbogason og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 10:40 víkur Skúli Helgason af fundinum og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna Ármúla 4, ásamt fylgiskjölum. R21080029
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um hluta af húsnæði að Suðurlandsbraut 72, ásamt fylgiskjölum. R21080127
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðisvanda Fossvogsskóla ætlar seint að linna. Borginni tókst ekki að útvega nothæft húsnæði fyrir kennslu í upphafi skólaárs þrátt fyrir að hafa haft langan tíma til undirbúnings og eytt yfir 500 milljónum í viðgerðir sem dugðu ekki til. Um lengri tíma hefur skólastarf verið í uppnámi. Borgin þarf nú að leita á náðir Hjálpræðishersins sem skýtur skjólshúsi yfir skólastarfið. Enn er óljóst hvenær skólastarf verður með eðlilegum hætti og áframhaldandi óvissa.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 11:00 víkur Þorsteinn Gunnarsson af fundinum.

    Fylgigögn

  26. Lagt til að Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir taki sæti sem varamaður í fulltrúaráði Hjúkrunarheimilisins Eirar. R21040205
    Samþykkt.

  27. Fram fer umræða um stöðu mála vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í málum tengdum hleðslustöðvum fyrir rafbíla. R21050157

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Slæmt er að hleðslustöðvum Orku náttúrunnar hefur verið lokað. Meginskýringin virðist vera að útboðsmál borgarinnar hafi klúðrast enn á ný. Kærunefnd útboðsmála lagði fjögurra milljóna króna stjórnvaldssekt á Reykjavíkurborg og gerði henni að bjóða uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla út á ný. Kærunefndin taldi Reykjavíkurborg skaðabótaskylda gagnvart Ísorku og er borginni auk þess gert að greiða fyrirtækinu allan málskostnað, tvær milljónir króna. Þetta bitnar á þeim sem hafa treyst á að innviðauppbygging í hleðslustöðvum sé í viðunandi horfi og hafa reiknað með því að uppbygging haldi áfram. Borgaryfirvöld verða að reyna að koma þessum málum í viðunandi form. Annars er hætta á að orkuskipti tefjist og með því myndu allir tapa.

    Eyþóra Kristín Geirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  28. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 21. júní 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framleiðslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á hugbúnaði, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní 2021. R21060026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort þjónusta og starfsemi Reykjavíkurborgar sé það frábrugðin flestum öðrum borgum eða sveitarfélögum af svipaðri stærð að koma þurfi á fót „opinberu hugbúnaðarfyrirtæki“ innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) til að framleiða þann hugbúnað og lausnir sem þörf er á. Í svarinu felst að í raun hefur það verið gert enda þótt því sé neitað. ,,ÞON vill reka sitt eigið þróunarumhverfi og hafa stjórn á aðferðafræði þróunar“. Einnig er talað um í svari hugtak eins fyrirmyndarþjónustu og „að vera í fararbroddi“. Stefnt skal að því að vera í fararbroddi án tillits til kostnaðar. En borgin á fyrst og fremst að þjóna borgarbúum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að 10 milljarða innspýting frá sveitarfélagi í stafræna umbreytingu nánast á einu bretti eigi sér varla hvergi hliðstæðu í opinberri stjórnsýslu. Svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs endurspeglar að sviðið veður í peningum og virðist spreða því í allt sem hugurinn girnist. Hópur af nýju fólki á að byrja að framleiða hugbúnað sem einkaaðilar hafa þróað og framleitt. Hvernig ætlar ÞON að framleiða hugbúnað sem á að verða betri en hjá þeim fyrirtækjum sem nú þegar eru komin langt á undan á þessu sviði?

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um notkun viðbótarleigurýmis fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið að Borgartúni 8-16, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. maí 2021. R21050001

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er á leigu viðbótarleigurými fyrir nýtt viðbótar hugbúnaðarfyrirtæki borgarinnar með ærnum kostnaði. Gert er ráð fyrir fjörutíu og tveimur starfsstöðvum í rýminu að jafnaði auk samvinnurýmis fyrir teymisvinnu. Heildarkostnaður er 2,394 milljónir frá 2021-2023. Stafræn þróunarteymi eiga að hafa aðsetur í rýminu. Er ekki þjónustu- nýsköpunarsvið þarna eitthvað búið að missa sig? Er þörf á glænýju viðbótar hugbúnaðarfyrirtæki í borginni? Er sú mikla þensla og útvíkkun sem þarna er lýst eðlileg fyrir sveitarfélag? Talað er um teymi, stafræn leiðtogateymi, stafræn umbreytingarteymi og stafræn stoðteymi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sé af alvöru hvort þessi útvíkkaða umgjörð sem hér er lýst fyrir sveitarfélag sem ekki hefur almennilega burði til að sinna börnum, öryrkjum og eldri borgurum er ekki komin út fyrir öll eðlileg mörk. Hefði hér ekki mátt stilla upp lágstemmdara plani þar sem fjármagn er nýtt af meiri skynsemi? Óvíst er hvert þetta leiðir og það mun koma sá dagur þegar 10 milljarðar eru búnir. Ekki er séð hvað lá svona mikið á, 10 milljarðar á þremur árum, hver er neyðin? Er ekki hér á ferð einhver útbólginn metnaður fárra sem jaðrar við að teljast til monts og oflætis? Það eru borgarbúar sem eiga að fjármagna þessa vegferð.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við því að meirihluti fólks ferðist með einkabíl, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. R21070171

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt nýlegum þjóðarpúlsi Gallup sem og mörgum öðrum könnunum ferðast stærsti hluti Íslendinga til vinnu eða skóla á einkabíl og virðist ekki vera mikil breyting á því þótt reynt sé kerfisbundið að koma hlutdeild einkabílsins niður undir 50%. Æ fleiri grípa nú til hjólsins sem er mjög svo af hinu góða en engu að síður fjölgar bílum eða í það minnsta er þeim ekki að fækka. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki séð að borgarmeirihlutinn sé að gera mikið til að liðka fyrir umferð. Í svari segir að það „hafi verið meginverkefni meirihlutans og borgarkerfisins um árabil að snúa við þróun Reykjavíkur frá því að vera dreifð bílaborg yfir í að vera þétt göngu- og hjólaborg með öflugum almenningssamgöngum“. Vandinn er að það eru engar öflugar almenningssamgöngur enn sem komið er, sem val fyrir þá sem aka bíl. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að allir komist ferða sinna tafalaust. Það getur ekki verið markmið að gera þeim hópi sem kýs eða þarf að nota bíl sérstaklega erfitt fyrir að komast ferða sinna. Og með því reyna að þvinga fólk til að breyta um lífsstíl. Fulltrúa Flokks fólksins finnst forræðishyggja sem þessi óaðlaðandi.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 18. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi innleiðingu fjarfundarbúnaðar, sbr. 73. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021. R21050181

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 20. maí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi kostnað við innleiðingu Microsoft Office 365 í skólaumhverfi Reykjavíkurborgar, sbr. 74. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021.  R21050179

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunar, dags. 18. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi vélarsali til að hýsa gögn Reykjavíkurborgar, sbr. 75. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021. R21050180

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins setur spurningarmerki við sumt í svarinu. Þarna er komið inn á hugtök eins og „auðlindir“ og „þekkingu“ og í raun gefið í skyn að ein ástæða þess að úthýsa vélasölum borgarinnar sé sú að í upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar (UTR) sé nánast enga þekkingu að finna varðandi rekstur eða umsýslu þessara vélasala. Það getur varla komið á óvart að litla þekkingu á rekstri vélasala sé að finna hjá UTR þegar sviðið er búið er að segja upp kerfisfræðingum. Þegar spurt var um mögulega hagræðingu útvistunar kemur fram í svari að ekki sé um eiginlega hagræðingu að ræða í rekstri og talað um sparnað langt inn í framtíðinni. En er það líklegt þar sem verð á þjónustu almennt hefur tilhneigingu til þess að hækka með tímanum? Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þess vegna taka það fram að minni vélasalur ásamt innvistun öryggisafritunar hljóti að hafa getað hentað borginni betur – sérstaklega með tilliti til þess að borgarfulltrúinn hefur heyrt að skýjalausnir sé hvort sem er það sem koma skal í framtíðinni og muni minnka þörf bæði stofnanna og fyrirtækja á dýrri hýsingu gagna.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um aðkeypta þjónustu af verktökum á skóla- og frístundasviði, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl 2021. R21020055

    Fylgigögn

  35. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. ágúst 2021, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda leigjenda og hlutfall ráðstöfunartekna, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. R20100012

    Fylgigögn

  36. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. ágúst 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda lóðaúthlutana undir einbýli, raðhús og parhús síðastliðin 3 ár, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní 2021. R21060022

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skortur á lóðum í Reykjavík hefur valdið gríðarlegum hækkunum á húsnæði, en bent hefur verið á af hálfu Seðlabankans að nýtt land hafi ekki verið brotið undir byggð í langan tíma í Reykjavík. Skortur á sérbýlum er tilfinnanlegur og hafa margir flust í Garðabæ, Mosfellsbæ, á Suðurnes og í Árborg. Þessi þróun hefur dreift byggð meira en dæmi eru um frá því lýðveldið var stofnað. Þessi staða hefur leitt til aukins álags á umferð og lengt vinnuvikuna auk þess sem stærstur hluti kaupmáttaraukningar fer í húsnæðishækkanir.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eins og fram kemur í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins hefur eftirspurn eftir sérbýlishúsalóðum ekki verið mikil. Tölur og staðreyndir sýna fram á að flestir íbúar kjósa að búa í Reykjavík umfram önnur sveitarfélög.

    Fylgigögn

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    1. Hvar hefur Malbikunarstöðinni Höfða verið fundin ný lóð? 2. Hver er stærð lóðarinnar í samanburði við stærð núverandi lóðar? 3. Hvenær er áætlað að flytja Malbikunarstöðina Höfða á nýja lóð? 4. Er flutningurinn hugsaður sem langtíma ráðstöfun eða tímabundin ráðstöfun? 5. Hver er ástæða flutninganna? 6. Hver er áætlaður kostnaður vegna flutninganna, að meðtöldum kostnaði vegna flutnings fastafjármuna, frágangs á núverandi lóð, uppsetningar á nýrri lóð og annars tilfallandi kostnaðar? R21080160

    Vísað til umsagnar Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hversu mörg útköll viðgerðaraðila hafa verið í Gufunessmáhýsin frá opnun þeirra sl. vetur? Hver er viðhalds- og tjónakostnaðurinn við þau? Hversu margir hafa fengið smáhýsi úthlutað og búið í þeim? Er fylgst með að þeir sem fá smáhýsi úthlutað búi í þeim? R21080174

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins um að ráða eldra fólk, fólk um og yfir sjötugt sem hefur áhuga á að starfa á leikskólum til að draga úr mönnunarvanda leikskólanna. Enn og aftur er ekki hægt að taka börn inn í leikskóla vegna manneklu sem veldur foreldrum ómældu álagi. Svör eru óljós og loðin. Börn sem byrja áttu í september geta kannski byrjað í október. Hér er um að ræða yngstu börnin og þau langyngstu, sem fædd eru síðast á árinu, mæta algerum afgangi. Foreldrar eru í örvæntingu sinni að leita annarra leiða, reyna að koma börnum sínum að, jafnvel í öðrum hverfum. Í þessum tilfellum er búið að kveðja dagmæðurnar, sumarfríi er lokið og foreldrar byrjaðir að vinna. Ekki allir foreldrar eiga þess kost að vinna heima auk þess sem lítið verður úr vinnu heima þegar verið er að annast tæplega tveggja ára barn á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega og verið spurður af skóla- og frístundasviði hvaða lausnir hann telji vera í boði. Fulltrúi Flokks fólksins leggur hér til lausn sem er að bjóða fólki sem hefur áhuga á að vera lengur á vinnumarkaði, t.d. starfa í leikskólum en sem hefur verið skikkað af borgarkerfinu til að setjast í helgan stein.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21080159
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Enn berast tíðindi af ófullnægjandi útboðsgögnum síðast á uppfestibúnaði fyrir lýsingu og viðburðabúnaði í Laugardalshöll. Útboðið hefur verið kært þrisvar og nú á að fara í nýtt útboð. Þetta er að verða sagan endalausa og allt vegna þess að útboðsgögn eru ekki nógu góð. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá nánari skýringar á þessu og hvað veldur því að Reykjavíkurborg geti ekki lært af mistökum sínum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður spurt hvort þjálfa þurfi embættismenn betur og frekar í útboðsfræðum. Því var svarað á þann hátt að „slík endurmenntun sé í gangi og að nýgengnir úrskurðir kærunefndar útboðsmála gæfu ekki tilefni til viðbragða vegna núverandi stjórnenda.“ Engu að síður berast enn fregnir af mislukkuðum útboðum sem rekja má til mistaka borgarinnar við að gera útboðsgögnin rétt úr garði. Vel kann að vera að einhverjar kærur eigi ekki rétt á sér en varla er það þannig í meirihluta mála. Sektir í þessum málum vegna gallaðra útboða koma illa við borgarsjóð. Hversu flókið er það lögfræðilega að gera útboð rétt úr garði? R21080161

    Vísað til umsagnar innkaupaskrifstofu.

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Þrátt fyrir gríðarleg ráðgjafarkaup sviðsins er alltaf verið að auka í hugmyndavinnuna sem ætlar greinilega engan endi að taka. Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að óstjórn á hinu stafræna sviði þjónustu- og nýsköpunarsviðs auki enn á útgjöldin enda heilar tíu þúsund milljónir, þetta og næsta ár, sem sviðið vill klárlega ná að eyða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna: hversu mörgum stafrænum leiðtogum þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið á að halda ofan á allt annað sem búið er að eyða í allskyns hugmyndavinnu og tilraunastarfsemi og hvað munu borgarbúar fá í hendurnar fyrir þann pening sem þessar ráðningar stafrænna leiðtoga munu kosta? R21080162

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Sú hugsun og fyrirtækjamenning sem hefur orðið til hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði minnir einna helst á hugarfar lottóvinningshafa sem allt í einu veit varla aura sinna tal og byrjar að eyða eins og enginn sé morgundagurinn án þess að hafa í huga að það kemur að þeim degi að allir peningarnir verða uppurnir. Fjöldi manns hefur verið ráðinn, tekið á leigu viðbótarhúsnæði svo fátt eitt sé nefnt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna, hvað ætlar þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar eiginlega að gera þegar það verður búið að eyða tíu þúsund milljónum af útsvarspeningum borgarbúa að 2 árum liðnum? Hvað verður um allt þetta starfsfólk sem búið er að ráða? Hvað verður um alla gulu miðana úr hugmyndasmiðjunum þegar engir peningar verða eftir til þess að halda áfram að líma þá upp um alla veggi sviðsins? Fulltrúi Flokks fólksins óskar einnig eftir að spyrja af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið lærir ekki af þeim færustu og bestu og sem nú þegar eru farnir að nýta stafrænar afurðir. Í dag er sem dæmi ráðstefnan Tengjum ríkið 2021 sem þjónustu- og nýsköpunarsvið gæti lært mikið af í stað þess að vera „ein út í horni“ að eyða 10 milljörðum á 3 árum í að finna upp hjól sem hefur verið fundið upp. R21080163

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Fundi slitið klukkan 11:27

Líf Magneudóttir Hjálmar Sveinsson

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2608.pdf