Borgarráð - Fundur nr. 5629

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 24. júní, var haldinn 5629. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar, auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. júní 2021, um kosningu sjö borgarráðsfulltrúa og sjö til vara á fundi borgarstjórnar þann 15. júní 2021. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir var kjörin formaður borgarráðs. R18060082

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. júní 2021, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 15. júní 2021 á tillögu um að fella niður reglulega fundi borgarstjórnar í júlí og ágúst nk. og að borgarráð fari með heimildir borgarstjórnar á þeim tíma. R21060117

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. júní 2021, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 15. júní 2021 á tillögu þar sem borgarráði er falið að afgreiða til fullnaðar verkefni vegna alþingiskosninga þann 25. september 2021 sem kunna að heyra undir verksvið borgarstjórnar. R20090044

    -    Kl. 9.09 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. júní 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 3.000 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,50%, í grænan óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKNG 40 1, sem eru 3.073 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 23. júní 2021.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn eru tekin lán. Nú upp á þrjú þúsund milljónir til viðbótar fyrri lánum. Skuldsetning borgarinnar eykst stórum þrátt fyrir mettekjur og hámarksútsvar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1, ásamt fylgiskjölum. R21060192
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að samþykkja í auglýsingu áfanga 1 og 2 af uppbyggingu við stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur, í kringum Elliðaárvog og Ártúnshöfða. Áætlað er að á svæði þessa borgarhluta rísi allt að 8.000 íbúðir sem munu hýsa álíka fjölda íbúa og Grafarvogur eða um 20.000 manns en á sjöfalt minna svæði. Um er að ræða fyrsta hverfi Reykjavíkur sem rís alfarið innan borgarmarkanna. Á svæðinu er gert ráð fyrir þéttri, blandaðri byggð sem gefur kost á búsetu, atvinnu og þjónustu innan hverfis. Jafnframt er gert ráð fyrir skilvirkum tengingum almenningssamgangna með kjöraðstæðum fyrir bíllausan lífsstíl. Við Krossamýratorg verður ein af meginstöðvum borgarlínu með lifandi borgarkjarna í nálægð við almenningsgarð á stærð við Austurvöll. Heildarfjöldi íbúða innan áfanga 1 og 2 er um 3500. Stefnt er að því að deiliskipulagsáætlanirnar fyrir Ártúnshöfða og Elliðavog fái BREEAM umhverfisvottun. Leiðarljós allrar skipulagsvinnu er að styðja við markmið borgarinnar í loftslagsmálum sem stuðla að sjálfbærri borgarþróun. Staðsetning svæðisins er einstök. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um stórt og fjölmennt hverfi að ræða. Mikilvægt er að huga að samgönguframkvæmdum svo sem Sundabraut til að létta á umferð sem mun létta verulega á aukinni umferð um Ártúnsbrekku. Þá þarf að huga að tímasetningu grunnskóla og leikskóla til að grunnþjónusta verði til staðar þegar hverfið fer að byggjast upp. Enn stendur malbikunarstöðin Höfði í vegi fyrir uppbyggingu á svæðinu og þá er óljóst hvort og hvenær áætlaðar landfyllingar verði heimilaðar. Huga þarf að framkvæmdaáætlun til að forðast misræmi í uppbyggginu hverfisins og þjónustu við íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austanmegin á ósasvæði Elliðaá og reisa þar íbúabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Lýst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikið og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inni í miðri höfuðborg landsins. Áætlað er að reisa 6.000 íbúða byggð í Elliðaárvogi og á Ártúnshöfða og er tæplega 100.000 fermetra atvinnuhúsnæði kynnt til sögunnar. Ekki er útfært hvaða rekstri er gert ráð fyrir á svæðinu með 1.000–1.500 störfum. Uppbygging atvinnurekstrar er sjálfsprottin og getur aldrei gerst með valdboði stjórnvalds. Á sama tíma er verið að ryðja atvinnurekstri í burtu með 150 störfum. Mikil mengun er í jarðvegi á þessu svæði – bæði olíumengun og mengun frá Malbikunarstöðinni Höfða. Engar lausnir eru í sjónmáli hvernig á að fjarlægja mengaðan jarðveg t.d. þar sem skólar eiga að koma. Öll þessi uppbygging byggir á sjálfhverfu sjónarmiði borgarstjóra og meirihlutans um borgarlínu. Komi hún ekki er uppbyggingin á svæðinu í uppnámi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Byggja á allt að 3.500 íbúðir í 1. og 2. áfanga og 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Sagt er að þörf sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin þörf á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga eins og fram hefur komið. Hætta ætti því við landfyllingar á svæði 1 og 2. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll á náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Hvað iðnaðarsvæðinu viðkemur þá felst breytingin í því að minnka skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Fækkun bílastæða á svæðinu er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp. Samráð þarf að vera við borgarbúa um það.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 2, ásamt fylgiskjölum. R21060193
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að samþykkja í auglýsingu áfanga 1 og 2 af uppbyggingu við stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur, í kringum Elliðavog og Ártúnshöfða. Áætlað er að á svæði þessa borgarhluta rísi allt að 8.000 íbúðir sem munu hýsa álíka fjölda íbúa og Grafarvogur eða um 20.000 manns en á sjöfalt minna svæði. Um er að ræða fyrsta hverfi Reykjavíkur sem rís alfarið innan borgarmarkanna. Á svæðinu er gert ráð fyrir þéttri, blandaðri byggð sem gefur kost á búsetu, atvinnu og þjónustu innan hverfis. Jafnframt er gert ráð fyrir skilvirkum tengingum almenningssamgangna með kjöraðstæðum fyrir bíllausan lífsstíl. Við Krossamýratorg verður ein af meginstöðvum borgarlínu með lifandi borgarkjarna í nálægð við almenningsgarð á stærð við Austurvöll. Heildarfjöldi íbúða innan áfanga 1 og 2 er um 3500. Stefnt er að því að deiliskipulagsáætlanirnar fyrir Ártúnshöfða og Elliðavog fái BREEAM umhverfisvottun. Leiðarljós allrar skipulagsvinnu er að styðja við markmið borgarinnar í loftslagsmálum sem stuðla að sjálfbærri borgarþróun. Staðsetning svæðisins er einstök. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um stórt og fjölmennt hverfi að ræða. Mikilvægt er að huga að samgönguframkvæmdum svo sem Sundabraut til að létta á umferð sem mun létta verulega á aukinni umferð um Ártúnsbrekku. Þá þarf að huga að tímasetningu grunnskóla og leikskóla til að grunnþjónusta verði til staðar þegar hverfið fer að byggjast upp. Enn stendur malbikunarstöðin Höfði í vegi fyrir uppbyggingu á svæðinu og þá er óljóst hvort og hvenær áætlaðar landfyllingar verði heimilaðar. Huga þarf að framkvæmdaáætlun til að forðast misræmi í uppbyggginu hverfisins og þjónustu við íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austanmegin á ósasvæði Elliðaá og reisa þar íbúabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Lýst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikið og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inni í miðri höfuðborg landsins. Áætlað er að reisa 6.000 íbúða byggð í Elliðaárvogi og á Ártúnshöfða og er tæplega 100.000 fermetra atvinnuhúsnæði kynnt til sögunnar. Ekki er útfært hvaða rekstri er gert ráð fyrir á svæðinu með 1.000–1.500 störfum. Uppbygging atvinnurekstrar er sjálfsprottin og getur aldrei gerst með valdboði stjórnvalds. Á sama tíma er verið að ryðja atvinnurekstri í burtu með 150 störfum. Mikil mengun er í jarðvegi á þessu svæði – bæði olíumengun og mengun frá Malbikunarstöðinni Höfða. Engar lausnir eru í sjónmáli hvernig á að fjarlægja mengaðan jarðveg t.d. þar sem skólar eiga að koma. Öll þessi uppbygging byggir á sjálfhverfu sjónarmiði borgarstjóra og meirihlutans um borgarlínu. Komi hún ekki er uppbyggingin á svæðinu í uppnámi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Allt undirlag er á landfyllingu. Byggja á allt að 3500 íbúðir í 1. og 2. áfanga og 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga eftir því sem fram hefur komið. Þétting byggðar tekur of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert. Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar með fram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Varðandi iðnaðarsvæðið þá felst breytingin í því að minnkar skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Fækka á bílastæðum um 70% samnýta bílastæða en það er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Miklubrautar, ásamt fylgiskjölum. R21060188
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að minnka Elliðaárdalinn eins og hann er skilgreindur í gildandi deiliskipulagi sem nemur 10 hekturum, eða 100.000m². Hér er gengið enn frekar á grænu svæðin í borginni.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – iðnaðarsvæði, ásamt fylgiskjölum. R21060190
    Samþykkt. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði I í Breiðholti vegna Arnarbakka, ásamt fylgiskjölum. R21060196
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í Arnarbakka er fyrirhugað að reisa um 90 íbúðir, jafnt námsmannaíbúðir sem almennar íbúðir í þremur fjölbýlishúsum. Áfram verður gert ráð fyrir þjónustu og verslun á jarðhæð sem mun eflast með fleiri íbúum í nágrenninu. Að auki er ráðgert að koma fyrir matjurtagarði í glerhúsum til almennra nota á svæðinu. Mikilvægt er að huga að því að hjólastæði séu staðsett sem mest á jarðhæðum og við innganga til að tryggja gott aðgengi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgin keypti gamlan verslunar- og þjónustukjarna við Arnarbakka fyrir þremur árum síðan fyrir hálfan milljarð króna og stóð þá til að „efla hverfiskjarnann við Arnarbakka, bæta þjónustu og standa að samfélagslegri uppbyggingu á reitnum.“ Stefnt var að því að „úrsérgengnir verslunarkjarnar yrðu endurlífgaðir“. Lítið hefur gerst á kjörtímabilinu í þessum efnum. Nú stendur til að rífa þjónustukjarnann sem keyptur var og byggja fjölbýlishús í staðinn. Þó mikil þörf sé fyrir íbúðir í borginni skýtur það skökku við að fallið sé frá upphaflegum áformum um að endurlífga verslunar- þjónustukjarnann og leggja þess í stað höfuðáherslu á íbúðablokkir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Taka má undir að Arnarbakki 2 og 4 hafi lítið varðveislugildi. Nýta má svæðið mun betur en nú er gert. Almenningssvæði á jarðhæðum og íbúðir á efri hæðum er ágæt stefna en framtíðarspár um umferð verða að vera raunhæfar. Sagt er að aðkoma að Arnarbakka 2 og 4 sé góð og áfram verði hægt að keyra snúningssvæðið við Breiðholtsskóla. Þetta er hæpin fullyrðing því að við uppbyggingu íbúða mun umferð vaxa, (65 stúdentaíbúðir, + 25 venjulegar íbúðir + athafnasvæði í neðstu hæðum) meðfram Breiðholtsskóla. Í gögnum er áætlað að bílferðum fækki um 15% sem er ekki raunhæft. Allsendis óvíst er hvort deilibílanotkun nái flugi hér eins og í erlendum borgum. Einnig er sagt að árið 2019 hafi hlutfall bílferða verið 74%, hjólreiða 5%, gangandi 14%, almenningssamgangna 5% og annars 2%. Með því að fækka bílferðum um 15% fyrir 2040 er áætlað að hlutfall gangandi og hjólandi verði 25%. Er ekki verið að ofáætla hér? Byrja þarf á réttum enda t.d. byrja á að gera göngu- og hjólastíga þannig að þeir beri umferð fleiri farartækja og sjá hvort það dragi úr bílanotkun. Ef það gengur vel er alltaf hægt að fækka bílastæðum eftir á.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði III, Fell, í Breiðholti vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells, ásamt fylgiskjölum. R21060202
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir allt að 175 íbúðum, þar með talið námsmannaíbúðum, nýjum raðhúsum næst Suðurfelli, auk þess sem gert er ráð leikskóla. Endurhönnun hverfishlutans gerir ráð fyrir góðum tengingum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á fyrirliggjandi stígakerfi ásamt því að gert er ráð fyrir fegrun götunnar Völvufells með gróðursetningu trjáa. Tillögurnar styrkja svæðið að okkar mati og styðja við þá verslun og þjónustu sem fyrir er í Drafnarfelli.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um að ræða að endurbæta hluta af Fellahverfinu, Völvufell. Byggingar hafa ekki mikið varðveislugildi og þess vegna er hægt að byggja allt upp að nýju. En hér er, sem og við Arnarbakka, gert ráð fyrir samgönguþróun sem ekki er víst að gangi eftir. Veruleg íbúafjölgun verður í Völvufelli ef áætlanir ganga eftir. Í gögnum segir: „Vinna skal samgöngumat ef tækifæri eru til að fækka bílastæðum, á stærri byggingarreitum eða hverfum, byggingarreitum með blandaðri landnotkun, á byggingarreitum í nágrenni við góðar almenningssamgöngur“ „Kortið sýnir einnig 20 mínútna svæði fyrir hjólandi en miðað er við 16,3 km/klst hjólahraða sem er meðalhraði í Kaupmannahöfn“. Hér er gert ráð fyrir að hröð umferð verði á göngustígunum, en það er óraunhæft nema stígar verði teknir algerlega í gegn. Rangt er að hjólastígar séu góðir og talsvert er í að þeir verði gerðir viðunandi. Samanburður við hjólastígakerfið í Kaupmannahöfn á ekki við hér enda það allt annað og betra. Kallað hefur verið eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og var það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki á íbúafundi. Varasamt er að fækka bílastæðum verulega áður en önnur góð samgöngutækifæri verða til að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Björn Axelsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2021 í samstarfi við Vegagerðina. Kostnaðaráætlun 2 er 45 m.kr. R21060194

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2021 í samstarfi við Vegagerðina. Lagt er til að gangbrautarljós sem boðin verða út verði snjallgangbrautir þannig að tæknin sé notuð til að auka öryggi, ekki síst í skammdeginu. Um er að ræða búnað á níu gangbrautarljósum. Þar af eru átta alfarið í eigu Reykjavíkurborgar en eitt alfarið í eigu Vegagerðarinnar. Áætlaður kostnaður vegna kaupa á búnaði er 50 m.kr. Þar af er hluti Reykjavíkurborgar um 45 m.kr. Útboðið taki mið af nýlegum úrskurðum um lögmæti útboða borgarinnar. 

    Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Erindi umhverfis- og skipulagssviðs er samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nútímaleg gangbrautarljós og góðar gönguþveranir er góð þjónusta við gangandi og hjólandi vegfarendur og skipta því miklu máli. Það er ofboðslega mikilvægt að huga vel að aðgengi og algildri hönnun alla leið. Hafa þarf skynjara eða tryggja að enginn kantur takmarki aðgengi að hnöppum. Huga þarf að hljóðmerkjum, nægilega löngum tæmingartíma fyrir þau sem eiga erfiðara með að komast hratt yfir og að skoðað sé hvernig hægt er að koma betur til skila þegar tæmingartíminn stendur fyrir, til dæmis með blikkandi grænum merkjum eða gulu ljósi. Endurnýjun gangbrautarljósa mun fara fram við Bústaðaveg við Grímsbæ, Álfheima við Sólheima, Hofsvallagötu við Túngötu, Lönguhlíð við Blönduhlíð, Hofsvallagötu við Neshaga, Réttarholtsveg við Langagerði, Skeiðarvog við Sólheima, Sóleyjargötu við Bragagötu og á Suðurströnd við Selbraut.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að endurnýja gagnbrautarljós, en það hefði verið skynsamlegra að fara alla leið og innleiða snjallgangbrautir.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á meðan Reykjavíkurborg unir ekki niðurstöðu kærunefndar úrskurðarmála þá er haldið áfram að kaupa inn búnað á ólöglegum forsendum fyrir tugi milljóna. Hér er enn eitt dæmið um það. Áfram er keyrt án tillits til samkeppnislaga. Hvað verður um þennan búnað ef borgin neyðist til að taka upp kerfi sem gefur raunverulegan möguleika á því að fleiri aðilar komast að borðinu? Þá er þessi búnaður ónothæfur og tugum milljóna kastað út um gluggann. Það er lágmarkskrafa að allur umferðarljósastýringarbúnaður sem keyptur er inn sé samhæfður núverandi- og framtíðar umferðarstýringum, til að koma í veg fyrir að borgin læsist inni með ónothæfan búnað. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn óskaði eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út í samstarfi við Vegagerðina kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2021. Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á og ítrekar að borgaryfirvöld fylgi lögum og reglum um útboð og vísar í því sambandi til nýlegs úrskurðar um lögmæti útboða borgarinnar.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna breytinga og endurbóta á Barónsstíg við Sundhöll Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr. R21060195
    Frestað.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gatnagerð og yfirborðsfrágang á Sjómannaskólareit, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 200 m.kr. R21060235
    Samþykkt. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 27. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja kaup á vinnu við viðhald og þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21050301
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ekki eru lagðar fram neinar upplýsingar um kostnað og því ómögulegt að samþykkja málið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki. Reykjavíkurborg er sveitarfélag sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að halda uppi lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Sú þjónusta er í molum. Áætlað er að 10 milljarðar fari á næstu þremur árum í „stafræna umbreytingu“. Hvað er eiginlega í gangi hjá þessum meirihluta? Samstæðan skuldar hátt í 400 milljarða og er rekin á lánum. Borgarsjóður er yfirskuldsettur og áætlað er að taka rúmlega 34 milljarða króna rekstrarlán á árinu. Reykjavíkurborg er eins og áður segir ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur sveitarfélag. Nú er lagt fyrir borgarráð að fara í kaup á hönnunarkerfi og aðgangsvef fyrir Reykjavíkurborg. Kostnaðaráætlanir fylgja ekki og er borgarráð því að samþykkja óútfylltan tékka alveg blint. Slíkt er alls ekki boðlegt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja kaup á vinnu við þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér í þessu sambandi hvort ekki er skynsamlegra að kanna hvort til sé hönnunarkerfi sem uppfyllir þær kröfur sem hér um ræðir. Þetta verður að skoða áður en farið er út í þróa eða smíða nýtt kerfi. Sambærileg kerfi eru í notkun víða. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þjónustu- og nýsköpunarsvið eigi að nýta sér það sem nú þegar er til í stafrænum lausnum.

    Óskar J. Sandholt, Þröstur Sigurðsson og Ólafur Sólimann Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja undirbúning og innkaup á nýjum innri innkaupa- og aðgangsvef fyrir borgina, ásamt fylgiskjölum. R21060047
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ekki eru lagðar fram neinar upplýsingar um kostnað og því ómögulegt að samþykkja málið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki. Reykjavíkurborg er sveitarfélag sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að halda uppi lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Sú þjónusta er í molum. Áætlað er að 10 milljarðar fari á næstu þremur árum í „stafræna umbreytingu“. Hvað er eiginlega í gangi hjá þessum meirihluta? Samstæðan skuldar hátt í 400 milljarða og er rekin á lánum. Borgarsjóður er yfirskuldsettur og áætlað er að taka rúmlega 34 milljarða króna rekstrarlán á árinu. Reykjavíkurborg er eins og áður segir ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur sveitarfélag. Nú er lagt fyrir borgarráð að fara í kaup á hönnunarkerfi og aðgangsvef fyrir Reykjavíkurborg. Kostnaðaráætlanir fylgja ekki og er borgarráð því að samþykkja óútfylltan tékka alveg blint. Slíkt er alls ekki boðlegt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því á framfæri vegna beiðni þjónustu- og nýsköpunarsviðs um heimild til kaupa á áframhaldandi þróun og vinnu við heimasmíðað hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar, að kannski hefði verið skynsamlegra og hentugra fyrir borgina að kaupa tilbúið hönnunarkerfi í stað þess að eyða miklum tíma og fjármagni í uppfinningu, þróun og vinnu við að smíða sitt eigið kerfi. Það hlýtur að vera til staðlað og samræmt hönnunarkerfi í notkun annars staðar hjá borgum eða jafnvel sveitarfélögum af svipaðri stærð og Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skoða hefði átt að fara í þá vinnu fyrst og bera svo saman kostnað við kaup á tilbúnu kerfi við þann kostnað sem áætla má að verði við þetta heimasmíðaða hönnunarkerfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs þegar það kerfi verður tilbúið.

    Óskar J. Sandholt, Þröstur Sigurðsson og Ólafur Sólimann Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. júní 2021 ásamt skýrslu stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu um stöðu barna með fjölþættan vanda. R21060132

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sveitarfélögin hafa allt frá árinu 2012 óskað eftir faglegri og fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu vegna málefna barna með fjölþættan vanda. Fjölmargar nefndir hafa starfað og ljóst er að til þess að lausn komist á málið þarf ríkið að koma til móts við sveitarfélögin. Nú árið 2021 liggur ennþá ekki ljóst fyrir hvar kostnaður vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda skuli liggja og ekki eru heldur fyrir hendi þau fjölbreyttu úrræði sem ljóst er að full þörf er á. Kostnaður sem áður lá hjá ríkinu hefur nú færst alfarið yfir á sveitarfélögin án þess að því hafi fylgt nokkuð fjármagn. Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgð á þjónustu við börn með fjölþættan vanda og ljóst er að hluti þjónustunnar er á ábyrgð ríkisins s.s geðheilbrigðisþjónusta. Borgarráð skorar á félags-og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að hlusta á ákall sveitarfélaganna og vinna að farsælli lausn málsins sem fyrst.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nauðsynlegt er að koma á fjölbreyttum úrræðum sem henta þeim börnum sem hér um ræðir. Það gengur ekki að ríkið skorist undan fjárhagslegri og félagslegri ábyrgð og að einkarekin úrræði fylli í eyðurnar sem hafa myndast. Mikilvægt er að sú þjónusta sem þörf er á, sé til staðar. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman að farsælli lausn og börn og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa að lenda á milli í kerfi sem þjónar ekki þörfum þeirra. Fulltrúi sósíalista vísar einnig til bókunar velferðarráðs frá 16. júní s.l. þar sem skorað er á félags- og barnamálaráðherra og félagsmálaráðuneytið að hlusta á ákall sveitarfélaganna og vinna að farsælli lausn málsins sem fyrst börnum til heilla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sameinast þarf um að sinna þessum stóra og mikilvæga málaflokki. Sveitarfélög standa ekki ein undir að sinna málefnum barna með fjölþættan vanda. Óvissa er mikil sem snýr að kostnaði vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda og reynist það börnum og foreldrum þeirra mikið áhyggjuefni.

    Regína Ásvaldsdóttir og Katrín Helga Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um breytingu á reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum. R21060134
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Einn stærsti vandi leikskólamála í Reykjavík er biðlisti. Ekki hefur tekist að finna lausn á honum. Það verður að fara að finna lausn enda ekki boðlegt foreldrum og börnum í Reykjavík ár eftir ár. Foreldrar þurfa einnig að geta treyst á að börn sín komist að þegar 18 mánaða aldri er náð. Fram kemur í gögnum að horft sé til þess að börn í ungbarnaleikskólum fari í leikskóla fyrir eldri börn á því ári sem þau verða þriggja ára. Spurning er hvort þetta gæti ekki verið sveigjanlegt. Sum börn eru kannski tilbúin fyrr og önnur síðar. Um þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins að foreldrar ættu að hafa ákvörðunarvald. Almennt um þessar breytingar finnst fulltrúa Flokks fólksins að auka mætti sveigjanleika og auka vægi foreldra við ákvarðanatöku eins og hægt er.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um breytingu á reglum um styrkveitingar í þróunar- og nýsköpunarsjóði, ásamt fylgiskjölum. R21060135
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn leggur til breytingar á reglum um styrkveitingar í þróunar- og nýsköpunarsjóði. Almennt er það mat fulltrúa Flokks fólksins að styrkur skuli ekki greiddur að fullu fyrr en lokaskýrsla liggur fyrir og verkefni er lokið að fullu. Það hefur færst í vöxt að veita styrki sem er vel. Það er mikilvægt að mati fulltrúa Flokks fólksins að reglur um styrkveitingar eigi að vera samræmdar milli sviða í stað þess að sviðin útfæri þær hver á sinn hátt, enda gæti útfærslan þá annars orðið afar mismunandi.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 21. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um tímabundna fjölgun sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Frestað.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð veiti umhverfis- og skipulagssviði heimild til að efna til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar í Skerjafirði, skv. meðfylgjandi drögum að forsögn. Samkeppnin yrði haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Skipuð verður dómnefnd sem semur samkeppnislýsingu, annast yfirferð tillagna og skilar niðurstöðum sínum til Reykjavíkurborgar. Áætlað er að niðurstaða samkeppninnar geti legið fyrir um mitt ár 2022.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21060197
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í Skerjafirði er nú að rísa íbúðabyggð fyrir allt að 1400 íbúðir. Bygging á nýjum samþættum leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar er hluti af uppbyggingu Skerjafjarðar. Gert er ráð fyrir áfangaskiptingu byggingarinnar eftir því sem að íbúum í Skerjafirði fjölgar. Hér er verið að samþykkja að hefja undirbúning að hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um mannvirkið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Engar upplýsingar eru um hver kostnaður er af þessari opnu hönnunar- og framkvæmdasamkeppni og því ekki hægt að samþykkja hana. Þó er ljóst að þetta mun kosta milljónir, ef ekki milljónatugi. Þessi vinnubrögð eru verulega ámælisverð, en því miður ekki einsdæmi. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samþykkt var að borgarráð veiti umhverfis- og skipulagssviði heimild til að efna til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar í Skerjafirði. Mjög margir óvissuþættir eru uppi um hið nýja hverfi s.s. lögmæti landfyllingar sem nú er í umhverfismati. Ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum. Umferðarmál eru óleyst. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga í för með sér sem hlýst af stórum vörubílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Minnt er á að olíumengun er í jörð á þessu svæði og þá fer borgarstjóri og meirihlutinn af stað með plön um uppbyggingu á leik- og grunnskóla auk frístundaheimils og félagsmiðstöðvar.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að hafin verði undirbúningur að nýjum leikskóla í Völvufell í samræmi við hugmyndir í drögum að deiliskipulagi Breiðholts III. Leikskólinn gæti verið allt að 10 deildir og útileiksvæðið verði jafnframt opið almenningi utan leikskólatíma. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að sjá um undirbúning í samráði við skóla- og frístundasvið og leikskólana í Efra Breiðholti. R21060090

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir borgarráð er tillaga meirihlutans að hafinn verði undirbúningur að nýjum leikskóla í Völvufell, í samræmi við hugmyndir í drögum að deiliskipulagi Breiðholts III. Sameina á, í hinum nýja skóla tvo skóla, Ösp og Holt. Leikskólinn gæti verið allt að 10 deildir og útileiksvæðið verði jafnframt opið almenningi utan leikskólatíma. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að sjá um undirbúning í samráði við skóla- og frístundasvið og leikskólana í Efra Breiðholti. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hugmyndin að tillögunni sé vel kynnt og að þeir, sem málið snertir, séu hafðir með frá byrjun. Nú reynir á vönduð og fagleg vinnubrögð meirihlutans og að haft verði samráð við alla þá sem málið snertir og að samráð verði ekki aðeins í formi tilkynninga um hvernig hlutirnir eigi að vera. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram leiðrétt skýrsla stýrihóps um Elliðaárdal, dags. 15. júní 2021, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2021 ásamt fylgiskjölum. R20110182

    Á fundi borgarráðs 10. júní 2021 voru eftirtaldar bókanir lagðar fram: 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögurnar tíu sem stýrihópurinn leggur til endurspegla virðingu fyrir dalnum og lífríkinu sem þar er. Meðal tillagna er að borgin og OR geri samning um skil fyrirtækisins á dalnum, að haldin verði hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis, flýtingu á aðskilnaði göngu- og hjólastíga í dalnum. Þá leggur hópurinn til að stíflan standi áfram enda friðað mannvirki en hún verði gerð aðgengileg. Auk þess eru lagðar til skynsamlegar mótvægisaðgerðir, svo sem vöktun á lífríki, úrbætur til varnar mengun, góð vatnsgæði og æskilega vatnsstöðu. Hópnum er þakkað fyrir skynsamlegar niðurstöður og er borgarstjóra því falið að framfylgja tillögum stýrihópsins með forystu Orkuveitunnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa gert skýra kröfu um að lónið verði fyllt að nýju og það án frekari tafa. Borgin er eigandi Elliðaánna og fer með 93% eignarhlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Þess vegna er þessi niðurstaða meirihluta hópsins að fylla ekki lónið að nýju óskiljanleg, enda kemur hún hvorki til móts við íbúa né lífríkið á staðnum. Þess utan er alveg skýrt að ekki var farið að lögum þegar lónið var tæmt varanlega en lónið er hluti að gildandi deiliskipulagi og því óheimilt að tæma það varanlega. Það er mat skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar að lög hafi verið brotin. Á þetta er m.a. bent í séráliti Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa og fulltrúa í starfshópnum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er þyngra en tárum taki að Árbæjarlón hafi verið tæmt í skjóli nætur. Vönduð skýrsla starfshóps um Elliðaárdal var lögð fram á fundinum þar sem málin voru reifuð. Það er álit borgarfulltrúa Miðflokksins að án tafar verði farið í að leiðrétta þá ólögmætu framkvæmd, að tæma Árbæjarlónið, og að yfirborði lónsins verði aftur komið í það horf sem það á að vera samkvæmt deiliskipulagi, og það hefur verið í meira en hundrað ár. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessari skýrslu er ekki tekin skýr afstaða til stíflunnar. Hún er friðuð, hún hefur verið varanlega tæmd og fyrir liggur að Orkuveita Reykjavíkur er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám. Hvort stíflan fari eða veri, og veri hún, hvort þá verði gert eitthvað með hana er allt opið eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur að nauðsynlegt er að hafa enn viðameira samráð og við fleiri en áður til að komast hjá óþarfa árekstrum. Tryggja verður alvöru samtal, samráð og upplýsingaflæði á meðal lykilaðila, íbúa og áhugafólks um dalinn. Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar. Ef heldur sem horfir með þá stefnu sem meirihlutinn rekur þá mun að lokum hvergi finnast ósnortin náttúra í borgarlandinu.

    -    Kl. 11.30 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur þar sæti. 

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita borgarstjóra heimild til að undirrita hjálagðan samning fyrir hönd Reykjavíkurborgar um gjöf til stofnunar Listasafns Nínu Tryggvadóttur. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að stofna Listasafn Nínu Tryggvadóttur sem stofnun Reykjavíkurborgar samkvæmt hjálagðri samþykkt. Samþykkt fyrir safnið verði send forsætisnefnd til umfjöllunar. R21060076

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nína Tryggvadóttir er einn af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar. Hér er verið að samþykkja stofnun safnsins ásamt samningi á um 1.500 verkum eftir listakonuna. Þá mun gefandi, Una Dóru Copley sem er dóttir Nínu, arfleiða safnið af öllum sínum eignum. Safnið verður staðsett í austurhluta Hafnarhússins.

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 18. júní 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. júní 2021 á samstarfssamningi við Samband íslenskra myndlistarmanna um fjárstuðning Reykjavíkurborgar við Mugg- tengslasjóð fyrir myndlistarmenn, ásamt fylgiskjölum. R21060077
    Samþykkt.

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 21. júní 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. júní 2021 á samstarfsamningi um rekstur Iðnó, ásamt fylgiskjölum. R21060187
    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júní 2021, þar sem óskað er eftir að leigusamningur vegna Vonarstrætis 3 verði samþykktur. R21050148
    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur starfshóps um rekstur mannvirkja í Úlfarsárdal sbr. hjálagða skýrslu dags. 21. júní 2021. Í tillögum starfshópsins felst að sameiginlegur rekstur mannvirkja sem hýsa þjónustu skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs verði hjá fjármála- og áhættustýringarsviði eða nánar tiltekið á eignaskrifstofu sviðsins. Eignaskrifstofu verði falið að útfæra tillögur starfshópsins með nánari hætti og hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til að þær nái fram að ganga, sbr. niðurstöður skýrslunnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20090163
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mannvirkið í Úlfarsárdal er metnaðarfullt og mun rúma margt og marga. Tryggja þarf strax, að hópur eins og eldri borgarar, hafi aðkomu að ákveðnu rými þar sem þeir geta komið saman til tómstunda, eða gera hvaðeina sem þeim langar að gera saman. Sé það ekki skilgreint strax er hætta á að þessi hópur gleymist og verði út undan. Húsið er fyrir alla í hverfinu og á starfsemi þess að taka mið af og mótast af þörfum, vonum og væntingum íbúanna á hverjum tíma.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Kópavogs um afnot af svæðum í Fossvogsdal undir íþróttastarfsemi, ásamt fylgiskjölum. R21060179
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 21. júní 2021, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta. Greinargerð fylgir tillögunni. R21030150
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig, Ámundi V. Brynjólfsson og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, þar sem minnisblað um áfangaskil samningaviðræðna við rekstaraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum er sent borgarráði til kynningar. R16080049

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða samninga um fækkun á jarðefnaeldsneytisdælum úr 109 í 73 eða um 33% ásamt fækkun bensínstöðva í Reykjavík. Samningarnir sem hér er verið að samþykkja fela í sér að um þriðjungi bensínstöðva í Reykjavík verði lokað og annars konar uppbygging eigi sér þar stað. Þetta er hluti af loftslagsáætlun borgarinnar og Græna planinu. Bensínstöðvarnar sem um ræðir eru Álfheimar 49, Álfabakki 7, Egilsgata 5, Ægissíða 102, Stóragerði 40, Skógarsel 10, Elliðabraut 2, Rofabær 30, Birkimelur 1, Skógarhlíð 16 og Suðurfell 4. Samtímis er gefið lóðarvilyrði fyrir fjölorkustöð á Esjumelum og uppbyggingu í Stekkjarbakka 4-6. Hér er stigið stórt skref í bættri og grænni landnýtingu í Reykjavík með verulegri fækkun bensínstöðva.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú hefur komið í ljós að fækkun bensínstöðva á höfuðborgarsvæðinu snerist ekki um umhverfismál og orkuskipti eins og sjá má hér þegar málið var tekið fyrir 9. maí 2019, Fækkunin snerist um að úthluta dýrmætum lóðum á besta stað í borginni til valdra aðila til að viðhalda þéttingar- og þrengingarstefnu borgarinnar, sem hefur fengið falleinkunn í skýrslum OECD, Sameinuðu þjóðanna og WHO. Það er ekki Reykjavíkurborgar að greiða upp tekjufall olíufélaganna af orkuskiptum með gjafagjörningum. 

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, varðandi rammasamkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Olíuverzlunar Íslands ehf. og Haga ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva Olís og ÓB, ásamt fylgiskjölum. R16080049
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Olíuverzlunar Íslands ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfheimar 49 í Reykjavík. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Olíuverzlunar Íslands ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfabakki 7 í Reykjavík, dags. 16. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Olíuverzlunar Íslands ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Egilsgata 5 í Reykjavík, dags. 15. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Dóra Björt Guðjónsdóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt lóðarvilyrði til Olíuverzlunar Íslands ehf. fyrir lóð á Esjumelum fyrir fjölorkustöð. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Haga hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Stekkjarbakki 4-6 í Reykjavík, dags. 15. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  37. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, varðandi rammasamkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. og Krónan ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva N1, ásamt fylgiskjölum. R16080049
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Ægisíða 102 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. hins vegar um Hringbraut 12 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  40. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Stóragerði 40 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  41. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Skógarsel 10 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  42. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Festi hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Elliðabraut 2 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  43. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Krónan ehf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Rofabæ 39 í Reykjavík, dags. 27. maí 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  44. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, varðandi rammasamkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Skeljungs hf. hins vegar vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva Skeljungs og Orkunnar, ásamt fylgiskjölum. R16080049
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  45. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Skeljungs hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Birkimelur 1 í Reykjavík, dags. 15. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  46. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Skeljungs hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Skógarhlíð 16 í Reykjavík, dags. 16. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  47. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og Skeljungs hf. hins vegar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Suðurfell 4 í Reykjavík, dags. 16. júní 2021. R16080049

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að unnt sé að fækka bensínstöðvum og nýta land undir frekari uppbyggingu. Um það er ekki deilt. Hér er hins vegar verið að semja við einkaaðila um uppbyggingu á mörgum reitum, án þess að farið hafið fram umræða um útfærsluna í skipulags- og samgönguráði. Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en að leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál.

    Óli Jón Hertervig og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  48. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 35/2020. R18060204

    Fylgigögn

  49. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 2712/2020. R20040154

    Fylgigögn

  50. Lagðir fram úrskurðir kærunefndar útboðsmála í málum nr. 1/2020, 17/2020 og 44/2020. R21010081

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Viðskipti borgarinnar við dótturfélög sín hafa ítrekað verið úrskurðuð ólögleg. Þrátt fyrir þessa úrskurði heldur borgin uppteknum hætti og hefur fellt tillögu Sjálfstæðismanna í borgarstjórn um að viðskiptin yrðu boðin út. Ekkert er gert til að bæta þetta ráðslag. Það er algerlega óboðlegt

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram kippa af úrskuðum kærunefndar útboðsmála í málum tengdum Orku náttúrunnar sem féllu Reykjavíkurborg í óhag. Eru þessir úrskurðir mikill áfellisdómur yfir innkaupamálum borgarinnar. Samanlagður kostnaður vegna stjórnvaldssekta og málskostnaðar kærenda var 18,5 milljón og að auki er kveðið á um skaðabótaskyldu Reykjavíkur í einu málanna. Á borgarráðsfundi var upplýst um, að í morgun hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur stefna á hendur fyrirtæki, sem hafði betur fyrir kærunefndinni í ólöglegu útboði á sviði ljósastýringarmála. Langt er seilst hjá borginni að stefna þeim sem hafa betur hjá kærunefndinni vegna ólöglegra útboða. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessir úrskurðir kosta stjórnvaldssekt til ríkisins, 8 milljónir og 1,5 milljón í málskostnað vegna orkukaupa, og hafa þau áhrif að taka þarf upp samninga í orkukaupum. Í LED málinu þarf borgin að greiða 3 milljónir í sekt og bætur og í samningum um hleðslustöðvar þarf að greiða 4 milljónir í stjórnvaldssekt og 2 milljónir í málskostnað. Samning um hleðslustöðvar þarf að taka upp að nýju. Samtals 18,5 milljónir eru farnar í súginn vegna lélegrar stjórnsýslu. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja aftur hvort þeir sem annast þessi mál hjá borginni kunni að þurfa endurmenntun eða frekari fræðslu? Vegna þessa er núna ekkert rukkað fyrir hleðslu á rafhleðslustöðvum.

    Eyþóra Kristín Geirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  51. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. júní 2021, varðandi yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur í borgarráði, ásamt fylgiskjölum. R21050170

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er áfellisdómur yfir borgarstjóra og meirihlutanum að sjá yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur frá borgarfulltrúum. Fimm fyrirspurnir frá 2019 liggja ósvaraðar frá borgarfulltrúa Miðflokksins og tólf frá 2020. Meginreglan er sú að svara beri fyrirspurnum innan mánaðar frá því þær eru lagðar fram. Þetta er algjörlega óásættanlegt fyrir kjörna fulltrúa sem hafa ríkt eftirlitshlutverk með störfum borgarstjóra og meirihlutans. Er því skorað á skrifstofustjóra borgarstjórnar að fá svör við útiliggjandi fyrirspurnum fyrir 1. ágúst nk.

    Fylgigögn

  52. Lögð fram á nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun á reglum og samþykktum vegna spilakassa, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2021. R21030282
    Samþykkt að vísa tillögunni frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að ekki sé tilefni til að taka tillöguna til frekari skoðunar m.a. vegna þess að Reykjavík hafi ekki sett sér reglur eða samþykktir um rekstur spilakassa sem unnt er að endurskoða í samræmi við markmið tillögunnar. Tillögunni er því vísað frá. Borgin hefur ýmsar heimildir til að setja reglur eða samþykktir sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni, eða a.m.k. dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sbr. 27. gr. lögreglusamþykktar. Þá fellur rekstur spilakassa undir slíka starfsemi, sbr. 2. gr. lögreglusamþykktar. Fram kemur í svari að Reykjavík getur ákveðið hvar heimilt er að reka slíka starfsemi. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa af hálfu borgarinnar þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera þar með ítarlegri kröfur til rekstraraðila hyggist þeir reka spilakassa. Hægt væri t.d. að gera kröfu um að ekki megi selja áfengi eða veitingar í spilasölum eða að ekki megi reka spilakassa í rými þar sem fari fram veitingasala eða áfengissala. Skoða má hvort slík reglusetning myndi rúmast innan heimilda borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista styður þessa tillögu heilshugar og mikilvægt er að beina því til Alþingis að breytingar verði gerðar varðandi rekstur spilakassa svo að koma megi í veg fyrir slíkan rekstur, enda mjög skaðsamur þeim með spilafíkn líkt og umræður síðustu missera hafa sýnt fram á.

    Fylgigögn

  53. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 14. júní 2021. R21010020

    Fylgigögn

  54. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 10. júní 2021. R21010004

    Fylgigögn

  55. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Breiðholts frá 7. og 16. júní 2021. R21010025

    Fylgigögn

  56. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 19. júní 2021. R21010029

    Fylgigögn

  57. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. júní 2021. R21010030

    Fylgigögn

  58. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 16. júní 2021. R21010032

    Fylgigögn

  59. Lögð fram fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. júní 2021. R21010005

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðarinnar: 

    Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að standa vörð um alla minnihlutahópa í borginni hefur verið vísað frá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Það er mjög sjaldan sem mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð hefur fjallað um málefni eldri borgara og vill fulltrúi Fokks fólksins beita sér fyrir að málefni þeirra fái þar meiri forgang. Eldri borgarar er hópur fólks sem langflestir eiga eftir að tilheyra, ef Guð lofar. Þetta er fólkið sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins allt sitt fullorðinslíf og langar til að fá að lifa ævikvöldið sitt áhyggjulaust og með þeim hætti sem það sjálft kýs. Hvetja þarf borgarstjórn til að taka málefni eldri borgara ofar á forgangslistann og samþykkja fleiri tillögur þeim til heilla. Það mætti sem dæmi færa rök fyrir því að, sé maður skikkaður til að hætta að vinna 70 ára þrátt fyrir fulla starfsgetu, þá sé það mannréttindabrot. Losa þarf um allar hindranir sem standa í vegi fyrir þeim sem vilja halda áfram að vinna eftir sjötugt. Huga þarf einnig að betri þjónustu til þeirra sem vilja búa heima. Þá er átt við sem dæmi að fjölga þyrfti þjónustuþáttum og dýpka þá sem fyrir eru.

    Fylgigögn

  60. Lögð fram fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. júní 2021. R21010006

    Fylgigögn

  61. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 23. júní 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fékk svör við nokkrum spurningum er varðar styrk vegna glerskipta við götur þar sem umferð veldur hávaða. Svörin benda til þess að úrræðið sé kannski ekki nógu vel kynnt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að styrkur sem þessi renni til margra en ekki fárra þótt um lægri upphæðir verði þá að ræða. Það er auk þess mat fulltrúa Flokks fólksins að svona styrki eigi að tekjutengja. Þeir sem hafa efni á glerskiptum eiga að fjármagna það sjálfir en hjálpa á frekar hinum efnaminni sem hafa engin önnur ráð en að leita eftir styrkjum með vandamál af þessu tagi. Miðað við 65 desibela jafngildishávaðastig yfir sólarhringinn má búast við að við fjölda húsa víðsvegar í borginni sé hávaði. Hitt er annað mál, að það að kaupa hús í gömlum grónum hverfum hefur bæði galla og kosti. Þeir sem kaupa gömul hús vita að þau eru ekki eins vel einangruð og ný hús. Augljóst er hvaða hús eru við umferðargötur. Ekkert á að koma á óvart. Í hverfum í uppbyggingu er hins vegar erfiðara að sjá allt fyrir.

    Fylgigögn

  62. Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021. R21010007

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um að nauðsynlegt sé að gera árangursmælingar á sérkennslu. Í sérkennslu eru um 30% af grunnskólabörnum án þess að árangur sé metinn. Börn kunna einnig að vera að fá mismunandi þjónustu eftir því hvar þau búa. Allt of langur tími hefur farið hjá þessum meirihluta í að koma því á blað að mæla þarf árangur og enn lengri tími líður áður en það kemst til framkvæmdar. Sérkennarar eru ofhlaðnir og undir miklu álagi. Í þeirra hópi eru börn ekki aðeins með námserfiðleika af ýmsu tagi og á ýmsum stigum heldur einnig með hegðunarvanda/raskanir. Þetta tvennt fer vissulega stundum saman en alls ekki alltaf. Barn sem ekki fær viðeigandi aðstoð við vanda sínum tapar fljótlega sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi og þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Hópur þeirra sem útskrifast án þess að geta lesið sér til gagns fer stækkandi. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða helstu tækifæri til úrbóta.

    Fylgigögn

  63. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. maí 2021. R21010015

    Fylgigögn

  64. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 15. apríl og 21. maí 2021. R21010013

    Fylgigögn

  65. Lagðar fram fundargerðir velferðarráðs frá 8. og 16. júní 2021. R21010009

    Fylgigögn

  66. Lagðar fram fundargerðir öldungaráðs frá 12. apríl, 3. maí og 7. júní 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Reykjavík er þátttakandi í samvinnu við alþjóða heilbrigðismálastofnunina um verkefnið Aldursvænar borgir. Meðal þess sem horft er til þegar talað er um aldursvænar borgir er húsnæðismál, samgöngur, aðgengi, heilsugæsla, félagsleg þátttaka, upplýsingaflæði, samfélagsleg þátttaka og atvinna fyrir eldri borgara. Hvar stendur Reykjavík með þessa þætti? Sennilega vel með margt, en ekki þegar kemur að samstarfi og þátttöku eldri borgara í samfélaginu. Reykjavíkurmeirihlutinn lofaði að horfa til sveigjanlegra vinnuloka þegar hann tók við en ekkert bólar á slíku nú þegar ár er til kosninga. Það er löngu tímabært að leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða þann sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Þetta er tyrfin leið.

    Fylgigögn

  67. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál. R21050254

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Undir embættisafgreiðslum skrifstofu borgarstjórnar er lögð fram fundargerð 31. eigendafundar Strætó bs. Þar er fjallað um útvistun á akstri þar sem samþykkt var sú tillaga að stofna verkefnahóp og kaup á verkefnastjórnun sem hefur þann tilgang að rýna þá möguleika sem fyrir eru í útboðsmálum, og koma með tillögur til stjórnar Strætó haustið 2021. Tillögurnar eigi að fjalla um stærð og tímasetningu útboða m.t.t. þess að útboðum sé skipt upp á mismunandi ár, ásamt áhættumati á verkefninu. Hópurinn verði skipaður fulltrúum með sérfræðiþekkingu á leiðakerfinu, innkaupamálum o.fl. Fulltrúi sósíalista leggst alfarið gegn útvistun á akstri hjá Strætó bs. Mikilvægt er að starfsfólk sem vinni fyrir fyrirtækið sé fastráðið hjá því en fái ekki lakari kjör hjá verktökum. Undir embættisafgreiðslum er einnig fjallað um drög að viðaukum við stofnsamninga SORPU bs. og Strætó bs. Þar er fjallað um þá tillögu að stefnuráði byggðasamlaganna verði komið á fót sem samanstandi af fulltrúum meiri- og minnihluta innan borgar- og bæjarstjórna. Gott er að auka aðkomu fulltrúa að byggðasamlögum en fulltrúi sósíalista ítrekar einnig mikilvægi þess að starfsfólk byggðasamlaganna, t.d. vagnstjórnar hjá Strætó bs. komi að ráðum sem taki ákvarðanir fyrir byggðasamlögin.

    Fylgigögn

  68. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21050318

    -    Kl. 14.25 víkja Heiða Björg Hilmisdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  69. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að hafist verði handa sem fyrst við varðveislu og endurgerð grásleppuskúranna við Ægisíðu sem eru í afar slæmu ásigkomulagi og ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var og lítið orðið eftir af þeim. Mikilvægt er að þessum merku menningarminjum verði bjargað en Grímsstaðavör er mikilvægur þáttur í atvinnusögu Reykjavíkur og þar eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um endurgerð grásleppuskúrana var samþykkt samhljóða í menningar- og ferðamálaráði árið 2014 en lítið hefur verið aðhafst frá þeim tíma og betur má ef duga skal. Nú verður að bregðast við áður en þessar menningarminjar drabbast enn meira niður og hverfa. R21060238

    Frestað.

  70. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í vinnustaðagreiningu Strætó bs. frá því 2021 er fjallað um starfsánægju og fleiri þætti í starfi. Nær vinnustaðagreiningin til alls starfsfólks Strætó bs. eða bara til þeirra sem eru fastráðnir til Strætó bs.? Um 55% af akstri Strætó bs. er á vegum verktaka; Kynnisferða og Hagvagna. Nær vinnustaðagreiningin líka til þeirra sem sinna akstri fyrir Strætó bs. en eru ráðnir inn í gegnum önnur fyrirtæki? Ef ekki er óskað eftir niðurstöðum úr vinnustaðagreiningu, ef þær eru til staðar, hjá vagnstjórum sem aka fyrir Strætó bs. en eru ráðnir inn í gegnum Kynnisferðir og Hagvagna. R21060247

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

  71. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Samkvæmt bréfi til borgarráðs, dags. 17. maí 2021, var óskað eftir að borgarráð heimilaði þjónustu og nýsköpunarsviði að fara í innkaup til að framhalda allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði fyrir 160 milljónir. Á fundi borgarráðs 10. júní var samþykkt að fjárheimildir sviðsins hækkuðu um 54.381.000 kr. vegna reksturs fjarfundarkerfa í stjórnsýsluhúsum borgarinnar og var kostnaðaraukinn fjármagnaður af kostnaðarlið 09205 ófyrirséð. Hin svokallaða neyðarstjórn Reykjavíkur tók ákvörðun um þau útgjöld og fór þar með fram hjá borgarráði og borgarstjórn og kostnaðurinn var ekki færður í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 þrátt fyrir að stofnað hafi verið til útgjaldanna í byrjun mars 2020. Farið var í að kaupa fjarfundarbúnaðinn Cisco Webex en allur tölvu- og skjábúnaður er leigður. Óskað er eftir sundurliðuðum kostnaði tæmandi talið hvernig þessar rúmu 214 milljónir skiptast. R21050181

  72. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúa Flokks fólksins barst það til eyrna nýlega að starf deildarstjóra sérkennslu í Melaskóla hefur verið lagt niður. Deildarstjórinn er talmeinafræðingur. Óskað er svara við: 1. Hvers vegna var staða deildarstjóra sérkennslu við Melaskóla lögð niður? 2. Var deildarstjóra sérkennslu Melaskóla, sem er talmeinafræðingur að mennt, boðin staða sem slíkur við skólann þegar staða hennar sem deildarstjóri var lögð niður? R21060239

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  73. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur óskað eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja kaup á vinnu við viðhald og þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki hefði verið skynsamlegra á sínum tíma, að í stað þess að þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi byrjað á því að hanna sitt eigið kerfi með öllum þeim áframhaldandi þróunar og sérsmíðiskostnaði, að kanna frekar til hlítar hvort tilbúið hönnunarkerfi hafi ekki verið til sem hægt hefði verið að kaupa fullbúið? Einnig langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að vita hvort til sé raunhæf kostnaðaráætlun fyrir þetta verkefni sem miðast við hugsanlegan heildarkostnað þegar og ef þetta heimasmíðað kerfi verði fullklárað. R21050301

    Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

  74. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðið þess áskynja að foreldrar barna sem eru að hefja leikskólagöngu í haust er haldið í óvissu með hvenær börn þeirra geta hafið aðlögun. Óvissa er ávallt slæm og hefur neikvæð áhrif á líðan auk þess sem það raskar því að hægt sé að skipuleggja vinnu, pössun og fleira í kringum barnið. Óskað er upplýsinga um af hverju ekki er hægt að upplýsa foreldra um þessa hluti og þeim sagt með nokkurri nákvæmni hvenær barn þeirra getur hafið aðlögun á komandi hausti. Enda þótt mönnun liggi ekki endanlega fyrir má það alls ekki bitna á þjónustuþegum. Þetta er eitt af þeim hlutum sem borgarmeirihlutinn og skóla- og frístundasvið verður að taka ábyrgð á og sjá til þess að fjölskyldur séu ekki settar í óþarfa óvissu og uppnám vegna vanda sem tengist rekstrinum. R21060245

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  75. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Á fundi borgarráðs 24. júní var lagt fram yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur flokkanna sem lögð hafa verið fram í borgarráði. Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka fyrir það á sama tíma og lagt er til að mál fulltrúa Flokks fólksins verði sett inn á heimasvæði hans á vef Reykjavíkurborgar. Um er að ræða öll mál, tillögur og fyrirspurnir Flokks fólksins sem birt eru í ofangreindu yfirliti. R21060246

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 14:33

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2406.pdf