Borgarráð - Fundur nr. 5628

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 10. júní, var haldinn 5628. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar, auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Eyþór Laxdal Arnalds, Líf Magneudóttir og Hildur Björnsdóttir Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna endurskoðunar stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilega uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040, ásamt fylgiskjölum. R21060053

    -    Kl. 9:13 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 
    -    Kl. 9:14 tekur Ebba Schram sæti á fundinum. 

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Aðalskipulagið 2010-2030 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar. Horfið var frá bílmiðuðum hugmyndum seinustu aldar og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Markmiðið er ekki síst að bregðast við loftslagsvandanum, stærstu áskorun heimsbyggðarinnar í samtímanum. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir Borgarlínu og stokka. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um kröftugan vöxt rætist er árleg þörf talin 1.210 íbúðir ári til 2040, eða 24.200 íbúðir. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru, en í athugasemdum Skipulagsstofnunar er bent á ekki liggur fyrir ákvörðun af hálfu ríkisins að leggja af flugvöll í Vatnsmýri. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Þá er gengið á græn svæði og gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 á reit M2g. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessum viðauka.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynntar voru á fundinum breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040 og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðarbyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum og ekki verði gengið á opin svæði með hátt náttúrufars- og/eða útivistargildi. Yfir 90% starfa í Reykjavík verði innan vaxtarmarka árið 2040 og 80% nýrra starfa til ársins 2040 verði við borgarlínu. Hér er verið að boða massíva þrengingarstefnu sem flestir sjá að ekki gengur upp. Ljóst er að ef 80% nýrra íbúða verði á áhrifasvæði svokallaðrar borgarlínu þá þýðir það rosalega röskun í rótgrónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Mjög miklar líkur eru á að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé ekki á förum næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar í þessum áformum. Því má segja að þessar breytingar byggi á mjög veikum grunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Erfitt er að horfa upp á hvað gengið er á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. með landfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til þéttingar en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni. Hreinsistöð Veitna við Klettagarða krefst t.d. landfyllinga nú og meira í framtíðinni. Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmd sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. Bent hefur verið á að þétting byggðar leiði til dýrari íbúða en ella og samræmist það ekki stefnu um hagkvæmt húsnæði. Vakin er athygli á húsnæðisþörf fólks á aldri yfir 67 ára. Búa þarf til fleiri kjarna byggðar, sbr. Sléttuvegur, þar sem íbúðir njóta nálægðar við „þjónustusel“. Gengið er út frá því sem vísu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og yfir á Hólmsheiði. Er það ekki frekar bratt að ganga út frá því á þessum tímapunkti? Hér er ekki hægt að tala um nein tímamót enda rennt með margt blint í sjóinn og margt er mjög umdeilt.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ævar Harðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 9:45 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á tillögu að breytingum á leiðbeiningu hverfisskipulags um fjölgun íbúða, ásamt fylgiskjölum. R21060058
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur faglegrar vinnu og umfangsmikils samráðs við íbúa. Það er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum eða lóðum. Við fögnum hugmyndum um danshús og vetrargarð. Hugmyndir um borgargötur og hverfiskjarna eru trúverðugar og bæta hverfið. Við teljum að stórbílastæði eigi að vera víkjandi í skipulagi hverfis en jafnframt að eðlilegt sé að taka gjald fyrir þau meðan þau eru.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um leiðbeiningar fyrir hverfisskipulag. Um framfarir er að ræða þegar stuðlað er að því að búa til fleiri íbúðir í grónum íbúðarhverfum, þar sem ekki þarf að raska innviðum. Um margar aðrar breytingar er ekki það sama að segja. Iðnaðarhúsnæði á ekki að breyta í íbúðir, nema þegar það svæði eigi að verða að íbúðarsvæði. Kvaðir ættu að vera í verslunar- og iðnaðarhúsnæði um að ekki megi vera þar með aðra starfsemi en sú sem upprunaleg er nema í undantekningartilfellum. Það er jákvætt að brugðist hafi verið við ýmsum athugasemdum íbúa og að kynning sé ítarleg. Einnig er tekið undir að mikilvægt er að unnið verði heildarskipulag fyrir Mjódd sem lykilsvæði til framtíðar.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ævar Harðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.1 Neðra Breiðholt, ásamt fylgiskjölum. R21060059
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur faglegrar vinnu og umfangsmikils samráðs við íbúa. Það er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum eða lóðum. Við fögnum hugmyndum um danshús og vetrargarð. Hugmyndir um borgargötur og hverfiskjarna eru trúverðugar og bæta hverfið. Við teljum að stórbílastæði eigi að vera víkjandi í skipulagi hverfis en jafnframt að eðlilegt sé að taka gjald fyrir þau meðan þau eru.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um m.a. hverfiskjarnann í Arnarbakka. Til að styðja við hverfiskjarnann við Arnarbakka er mikilvægt að finna honum víðtækara hlutverk en honum er ætlað í dag. Þetta getur haft mikil áhrif á hvernig til tekst við endurlífgun hverfisins. Gatan á að verða borgargata en að gera Arnarbakkann að borgargötu fram hjá Breiðholtsskóla krefst mikilla breytinga á núverandi vegi. Það vantar í áætlunina. Samhliða hverfisskipulagi er unnið deiliskipulag fyrir verslunarlóðina í Arnarbakka 2-6 sem gerir ráð fyrir að núverandi hús séu fjarlægð og ný uppbygging heimiluð með verslunarrýmum á jarðhæðum að hluta og íbúðum á efri hæðum. Gert er ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða. Heilmikil gagnrýni hefur komið fram um mikið aukið byggingarmagn á kostnað rýmis og grænna svæða. Heimilt er að reisa allt að 3 íbúðahæðir ofan á húsin. Gert er sem sé ráð fyrir lágum byggingum, en er það rétt stefna? Einmitt þetta svæði getur kannski tekið við hárri byggingu, svo sem áberandi turnbyggingu sem setja myndi mark á hverfið. Svæði sunnan við Arnarbakka, þar sem nú er opið svæði til sérstakra nota mætti t.d. koma á mörgum ólíkum íbúðabyggingum til að tryggja betur að um blandaða byggð verði að ræða en ekki einsleita.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ævar Harðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, ásamt fylgiskjölum. R21060060
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur faglegrar vinnu og umfangsmikils samráðs við íbúa. Það er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum eða lóðum. Við fögnum hugmyndum um danshús og vetrargarð. Hugmyndir um borgargötur og hverfiskjarna eru trúverðugar og bæta hverfið. Við teljum að stórbílastæði eigi að vera víkjandi í skipulagi hverfis en jafnframt að eðlilegt sé að taka gjald fyrir þau meðan þau eru.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þegar horft er til Seljahverfisins er fókus Flokks fólksins á þeim skaða sem þar stendur fyrir dyrum að valda sem er að sprengja fyrir hraðbraut. Hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf mun íþyngja Reykvíkingum mjög vegna aukinnar umferða sem það skapar á Breiðholtsbraut. Umhverfismatið er fjörgamalt. Margt hefur breyst. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu en samt á að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Í gögnum er reynt að skreyta málið, sagt fullum fetum að þessi framkvæmd muni ekki hafa neikvæð áhrif. Um þetta er efast. Það er ekki hægt að segja að hraðbraut sem liggur við fyrirhugaðan Vetrargarð muni ekki hafa áhrif. Hvað með þróunarmöguleika svæðisins, mengun og umferðarhávaða? Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru ekki að gæta hagsmuna borgarbúa í þessu máli heldur þjóna hagsmunum Kópavogsbúa. Skipulagsyfirvöld hefðu átt að berjast fyrir borgarbúa í þessu máli og krefjast nýs umhverfismats. Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur brugðist í þessu máli að berjast ekki fyrir að fá nýtt umhverfismat og ætla að bjóða börnum upp á að leika sér í Vetrargarði og á skíðum í hraðbrautarmengunarmekki.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ævar Harðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní 2021 á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.3 Efra Breiðholt, ásamt fylgiskjölum. R21060061
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur faglegrar vinnu og umfangsmikils samráðs við íbúa. Það er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum eða lóðum. Við fögnum hugmyndum um danshús og vetrargarð. Hugmyndir um borgargötur og hverfiskjarna eru trúverðugar og bæta hverfið. Við teljum að stórbílastæði eigi að vera víkjandi í skipulagi hverfis en jafnframt að eðlilegt sé að taka gjald fyrir þau meðan þau eru.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst að víða megi gera breytingar og lagfæringar í Efra Breiðholti en hér er á að auka byggingarmagn gríðarlega og þá sem blokkir. Ekki verður mikið um blandaða byggð. Fækka á bílastæðum til muna í óþökk margra. Athugasemdir bárust um að torgið við Gerðuberg verði eflt. Gæta þarf að því að heimildir um aukið byggingarmagn valdi því ekki að afrennslisstuðull lóðar hækki heldur sé unnið á móti auknu byggingamagni með blágrænum ofanvatnslausnum innan lóðar sem því nemur. Víða í Breiðholti á að byggja hús með flötum þökum. Það á ekki að leyfa flöt þök þar sem ekki eru fyrir í skipulaginu. Með þessu er verið að ná einni viðbótarhæð, en nú einkennist byggðin af húsum með hallandi þaki. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar í Breiðholti að virka sem göngustígar en ekki sem hjólastígar og núverandi kerfi á ekki að festa í sessi. Markmiðið er að hjól og hlaupahjól verði kostur í samgöngum í Efra-Breiðholti. Þær fáu breytingar sem hafa verið gerðar á stígum eru ekki til bóta fyrir hjólreiðar. Kallað hefur eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og er það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki sem skráð var á íbúafundi í hverfinu.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ævar Harðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að dans- og fimleikahús með sölum fyrir dans, fimleika og aðra íþróttastarfsemi verði staðsett í hverfismiðjunni við Austurberg, samkvæmt tillögum að nýju hverfisskipulagi fyrir Efra-Breiðholt, sbr. meðfylgjandi minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs og tillögu að hverfaskipulagi Breiðholts. Umhverfis- og skipulagssviði og ÍTR verði falið að vinna að þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts. Þá taki skrifstofa borgarstjóra og borgarritara upp viðræður við Fjölbrautaskólann í Breiðholti varðandi möguleika á að skólinn verði með danstengt nám sem nýti sér dans- og fimleikahúsið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110242
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Dans- og fimleikahús í Breiðholti raðaðist ofarlega í forgangsröðun íþróttastefnu borgarinnar sem samþykkt var í borgarráði sl. haust. Borgarráð samþykkti 19. nóvember sl. að umhverfis- og skipulagssviði og ÍTR verði falið að vinna að þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst dans- og fimleikahús góð hugmynd enda þótt eigi eftir að útfæra hlutverk hússins. Það skýtur nokkuð skökku við að Leiknir skuli ekki koma þarna að en þeir hafa aðsetur í götunni sem húsið á að standa. Ef horft er til Leiknis þá hefur ekki komið nægjanlega vel fram við Leikni, félag sem berst í bökkum í hverfi sem er krefjandi vegna þess að þar er hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt. Illa hefur gengið að virkja börnin til þátttöku í íþróttir og tómstundir m.a. vegna tungumálaerfiðleika og kannski einnig vegna strangra skilyrða reglna frístundakortsins. Leiknir hefur lengi viljað víkka út starfsemi sína. Í raun lifir félagið vegna þrautseigju starfsmanna. Með því að hleypa ekki Leikni að þessu verkefni er verið að senda því köld skilaboð eftir allt það frábæra starf sem þar hefur verið frá 1973. Þarna er búið að byggja upp frábæra menningu og starf í þágu innflytjenda og nýbúa í hverfinu. Leiknir er sérlega vel metið í hverfinu og kallar það á að borgaryfirvöld sýni því viðhlítandi virðingu og stuðning. Félagið vantar aðstöðu til að geta boðið uppá fjölbreyttara íþróttastarf til að höfða til breiðari hóps barna í því blómstrandi fjölmenningarsamfélagi sem það starfar í.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að þróa Vetrargarð í Breiðholti, fjölskylduvænt svæði fyrir iðkun vetraríþrótta þar sem einkum er horft til byrjenda og barna. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að vinna nánari útfærslu að Vetrargarði í Breiðholti á grunni fyrirliggjandi frumathugunar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21060085
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í Vetrargarðinum verður áhersla lögð á fjölskylduvænt svæði fyrir iðkun vetraríþrótta og verður einkum horft til byrjenda og barna. Með tilkomu snjóframleiðslu á svæðinu og þurrskíðabraut má gera ráð fyrir því að hægt verði að taka á móti hópum allt árið um kring. Gert verði ráð fyrir því að svæðið verði mótað þannig að það henti sem best til skíðaiðkunar. Auk þess verði gert ráð fyrir þurrskíðabrekku og túbubraut nyrst á svæðinu sem nýtast allt árið um kring og gönguskíðaleið ofan Seljahverfis. Þjónustubygging verður staðsett efst á hæðinni en þar er víðsýnt yfir borgina. Samhliða uppbyggingu vetraríþrótta verður gert ráð fyrir leikaðstöðu inn á svæðinu auk þess sem fjallahjólabrautir verða lagðar um svæðið. Í jöðrum svæðisins og við skíðabrekkur verður lögð áhersla á trjárækt til skjólmyndunar og snjósöfnunar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna með fyrirvara um að lega Vetrargarðsins verði ekki ákveðin þannig að þrengt verði að nærliggjandi samgöngumannvirkjum eða betrumbótum á þeim.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta eru án efa athyglisverðar hugmyndir, gert er ráð fyrir þurrskíðabrekku og túbubraut nyrst á svæðinu sem nýtast allt árið og gönguskíðaleið ofan Seljahverfis. Fulltrúi Flokks fólksins hefur bent á að hraðbrautin frá Kópavogi og yfir í Breiðholtsbraut spillir þessum hugmyndum. Hvernig getur gönguskíðaleið legið ofan Seljahverfis? Vetrargarðurinn er skipulagður á horni gatnamóta tveggja stofnbrauta, sem verða með samtals 10 akreinar. Eins og 3. kafli Arnarnesvegar er skipulagður í dag verður hann 4 akreinar ásamt stóru hringtorgi og mun liggja alveg upp við topp Vetrargarðsins. Umhverfismatið sem vegaframkvæmdin er byggð á er frá 2003. Það verður að meta aftur hvaða áhrif þessi vegalagning mun hafa á Vetrargarðinn áður en farið er í frekari framkvæmdir. Það er ógn við lýðheilsu barna að þau séu að stunda áreynsluíþróttir við stórar stofnbrautir. Börnin verða að fá að njóta vafans. Þjónustubygging á að vera efst á hæðinni en þar er víðsýnt yfir borgina. Fulltrúi Flokks fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa talað um þennan stað sem einstakan útsýnisstað en hann er úr sögunni ef hraðbrautin verður lögð. Arnarnesvegur þrengir mjög að Vetrargarðinum og af honum mun hljótast hávaða-, sjón- og efnamengun sem fellur illa að stað þar sem margir koma saman, þar með fjölda barna.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði í samstarfi við Félagsbústaði og Arkitektafélag Íslands að undirbúa hugmyndasamkeppni um bætt aðgengi að fjölbýlishúsum án lyftu. Miðað er við að undirbúningur hefjist strax og að samkeppnin hefjist á haustmánuðum 2021. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21060082
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hugmyndasamkeppni um bætt aðgengi að fjölbýlishúsum er spennandi verkefni sem er unnið í samstarfi við Félagsbústaði og Arkitektafélag Íslands. Um er að ræða samþykkt á því að undirbúa hugmyndasamkeppni um bætt aðgengi að fjölbýlishúsum sem eru án lyftu. Gert er ráð fyrir að samkeppnin hefjist strax í haust.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði í samstarfi við Félagsbústaði, aðra lóðarhafa og Arkitektafélag Íslands að hefja undirbúning að hugmyndasamkeppni á nýjum þróunarreit í Efra-Breiðholti. Miðað er við að undirbúningur hefjist strax og að samkeppnin hefjist á haustmánuðum 2021. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21060083
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í ágúst 2020 þegar vinnutillögur að hverfisskipulagi í Breiðholti voru kynntar í Breiðholti komu fram sterkar ábendingar frá íbúum um að það vantaði stærri íbúðir fyrir fjölskyldufólk í Efra-Breiðholti. Íbúar bentu sérstaklega á svæði við Jórufell sem mögulegt uppbyggingarsvæði en þar er fjölbýlishús í eigu Félagsbústaða sem þarfnast úrbóta. Á svæðinu er einnig atvinnuhúsnæði í eigu Reita, sem er vannýtt og leikskólinn Ösp sem á að sameina nýjum leikskóla við Völvufell. Vel var tekið í hugmyndir að umbreytingu á svæðinu hjá öllum lóðarhöfum. Niðurstaðan er því að íbúðir í þessari stærð myndu henta vel á þessu svæði. Þess vegna er nú lagt til að hefja undirbúning að samkeppni um reitinn sem myndi eiga sér stað á haustmánuðum í ár.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Gott er að efna til samkeppni um slíka þróunarreiti, en óþarft er að taka fram að hús megi ekki vera hærri en 4-5 hæðir að hámarki. Þetta eru óþörf mörk og truflandi fyrir skapandi arkitekta og hönnuði. Meira máli skiptir hvernig húsin verða í laginu en hæðirnar sem slíkar. Það er stór munur t.d. á kassalaga húsum eða hvort efstu hæðirnar eru inndregnar. Aftur er bent á að áhrif húsa á vindstrengi er hægt að kanna í vindgöngum-líkantilraunum. Ef samkeppni er settar miklar skorður kemur það niður á hugmyndaauðgi hönnuða.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Steindórsreits vegna Hringbrautar 116/Sólvallagötu 77, ásamt fylgiskjölum. R21060057
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rétt er að ganga ekki lengra en þegar hefur verið samþykkt til að skapa sátt, en andstaða hefur verið að hálfu íbúasamtaka Vesturbæjar og Vesturbæjarskóla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Auka á byggingarmagn á efri hæðum sem hefur áhrif á skuggavarp. Með auknu byggingarmagni mun umferð aukast. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Hringbraut er og verður alltaf mikil umferðargata.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sundahafnar norðan Vatnagarða vegna lóðanna nr. 1 og 3 við Sægarða, ásamt fylgiskjölum. R21060062
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal. Kostnaðaráætlun 2 vegna 3. áfanga er 30 m.kr. R21060054
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurheimt votlendis er hluti af loftslagsáætlun borgarinnar. Miðað er við að endurheimt votlendis á um 3/4 hlutum svæðisins eða um 65 ha gæti gefið um 400 tonn af kolefni á ári í bindingu. Þá er þess vænst að með aðgerðunum aukist líffræðilegur fjölbreytileiki svæðisins bæði hvað varðar gróður og dýralíf.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Gröfum ofan í skurði í úthverfum og höldum áfram að grafa upp eina stærstu mýri landsins, Vatnsmýrina. Tvískinnungurinn er algjör hjá meirihlutanum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er meira en sjálfsagt að fjarlægja rusl og girðingar og fylla upp í gamla framræsluskurði. Að búa til tjarnir er annað mál og til að hámarka áhrif þeirra þurfa þær að vera það stórar að hægt sé að hafa í þeim hólma sem gæti verið griðastaður fyrir varpfugla og unga þeirra, en eins og vitað er ganga kettir lausir í borginni. Þá væri fyrst hægt að tala um að stuðlað væri að líffræðilegum fjölbreytileika. Það hugtak á ekki bara að vera frasi sem settur er fram í tíma og ótíma, án nokkurs innihalds. Í þessum tillögum er talað um að gera litlar tjarnir sem hjálpar fáum lífverum, alla vega ekki fuglum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta í Grasagarði Reykjavíkur árið 2021. Kostnaðaráætlun 2 vegna framkvæmda 2021 er 20 m.kr. R21060055
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við grenndarstöðvar á árinu 2021. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R21060056
    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við grenndarstöðvar á árinu 2021. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að mikilvægi grenndarstöðva vex og með meiri vitund um flokkun og endurvinnslu ætti að leggja áherslu á aðlaðandi grenndarstöðvar. Borgin ætti að stýra þessum ferlum að mestu en ekki láta SORPU b.s. hafa úrslitaáhrif.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. júní 2021, varðandi drög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar. Einnig lögð fram drög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2021. R20050004
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stýrihópur um almenna eigendastefnu Reykjavíkurborgar hefur fjallað um drög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar. Stefnan hefur tekið nokkrum breytingum og hefur framsetningin verið gerð markvissari, auk þess sem gerðar hafa verið nokkrar efnislegar breytingar sem stýrihópurinn telur til bóta. Sérstaklega hefur verið dregið skýrar fram að sviksemi sé ekki liðin í starfsemi Reykjavíkurborgar. Nú kemur fram að við endurskoðun eigendastefnu B-hluta félags verði sett inn frekari ákvæði um upplýsingagjöf til eigenda og aðkomu þeirra að áhættunefnd þess. Auk þess sem skerpt hefur verið á mikilvægi fjárhagslegrar sjálfbærni í samræmi við gildandi reglur. Stýrihópurinn lýsir yfir ánægju með áhættustefnu Reykjavíkurborgar og útfærslu hennar fyrir innleiðingu á heildstæðri áhættustjórnun og markmiðum hennar. Lagt er til að stefnunni verði vísað til borgarstjórnar til umfjöllunar og afgreiðslu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg sé með skýra áhættustefnu, bæði varðandi misferli og óhóflega skuldsetningu borgarinnar. Braggamálið var dæmi um stjórnsýslu þar sem allt fór úr böndunum. Hér er verið að sýna viðleitni til að slíkt endurtaki sig ekki. Stefna þessi er afgreidd út úr stýrihópi um m.a. áhættustefnu borgarinnar í þverpólitískri sátt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tekjur borgarinnar eru fleiri hundruð milljónum yfir áætlunum en samt tekst ekki að koma böndum á reksturinn. Ekki er vikið frá þeim ákvörðunum að draga úr lántökum á árinu 2021 og nema þær 34 milljörðum. Enn á ný kemur glöggt fram að sala byggingaréttar er alltaf ofáætlaður sem nemur hundruðum milljóna. Sá liður er notaður í fjárhagsáætlunum til að réttlæta aukin útgjöld borgarsjóðs og að hafa reksturinn réttu megin við núllið, svona svipað og froðan í uppgjörsaðferðum Félagsbústaða. Skuldir og skuldbindingar borgarsjóðs eru nú komnar yfir 130 milljarða. Lýst er yfir miklum áhyggjum af neikvæðu veltufé frá rekstri. Æskilegt hlutfall er 9% og er borgarsjóður langt, langt frá því markmiði. Borgarsjóður er lántöku- og skuldadrifinn og er löngu komin yfir þau mörk að vera sjálfbær.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þeim breytingum að framsetningin hefur verið gerð markvissari. Ekki á að líða sviksemi en hverjar eru afleiðingar ef einhver er uppvís um slíkt? Enda þótt sviksemi sé sviksemi þá er slíkt athæfi „mis“alvarlegt. Nú kemur fram að við endurskoðun eigendastefnu B-hluta félags verði sett inn frekari ákvæði um upplýsingagjöf til eigenda og aðkomu þeirra að áhættunefnd þess. Fyrir þessu hefur fulltrúi Flokks fólksins barist lengi og strax á fyrsta misseri þessa kjörtímabils lagði til að endurskoða bs-kerfi en það er ólýðræðislegt í þeirri mynd sem það er nú. Stefna af þessu tagi, sé hún gerð vel úr garði, er til að auka traust borgarbúa á kerfinu. Ekki dugar samt að hafa hana bara orð á blaði, ofan í skúffu. Ekki er ósennilegt að svona stefna/stjórnkerfi hefði nýst við fyrri ákvarðanir sem fóru úr böndunum, svo sem fjárhagslega – bragginn o.fl., en þá sofnuðu allir á verðinum og bruðl og óráðsía fékk að þrífast. Fulltrúi Flokks fólksins hefur vakið athygli á vísbendingum um að í ákveðnum verkefnum sé verið að sýsla með fjármagn með óábyrgum og léttúðugum hætti án þess að segja að grunur sé um nokkra sviksemi. Á þetta hefur ekki verið neitt hlustað.

    Halldóra Káradóttir og Stefanía Scheving Thorsteinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 11:07 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Valgerður Sigurðardóttir tekur sæti í fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-mars 2021, dags. 10. júní 2021, ásamt fylgiskjölum. R21010261

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verulegt tap er á rekstri borgarinnar fyrstu þrjá mánuði ársins þrátt fyrir mun hærri tekjur milli ára. Útsvarstekjur eru nærri 9% hærri en áætlað var en engu að síður er tapið ekki minna. Þá aukast skuldir borgarinnar um 6 milljarða þrátt fyrir miklar greiðslur úr Orkuveitu Reykjavíkur til borgarinnar. Það er því ljóst að reksturinn er ósjálfbær þrátt fyrir mettekjur sem eru að hækka um 4 milljarða milli ára sem þýðir tekjuaukningu upp á 13% þegar allt er talið. Þessi niðurstaða sýnir að ekkert hefur verið gert í að hagræða í rekstri.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  17. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 8. júní 2021 að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í 4. lið í viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021 er lagt til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsviðs hækki um tæpar 55 milljónir vegna fjarfundarkerfa í stjórnsýsluhúsum borgarinnar. Þessi tillaga er fáheyrð og sýnir valdaframsal borgarráðs og borgarstjórnar til hinnar svokölluðu neyðarstjórnar Reykjavíkur. Neyðarstjórn hefur ekki fjárútlátsheimildir eins og margoft hefur verið bent á. Hér er því verið að sækja fjárheimildir löngu eftir ákvörðunartöku af stjórn sem fer ekki með fjárveitingavald og er því ljóst að sveitarstjórnarlög hafa verið brotin. Hin svokallaða neyðarstjórn Reykjavíkur fól upplýsingatækniþjónustu borgarinnar í byrjun árs 2020 að fara í innkaupaferli á fjarfundarbúnaði Cisco webex. Ekki voru gerðar áætlanir um kostnað og fjárheimildir sóttar í viðauka 2020 sem er óskiljanlegt og eins og áður segir brot á lögum og ekki var sótt um að koma kostnaðinum inn í fjárhagsáætlun 2021. Hvernig er hægt að koma þessum kostnaði upp í tæpar 55 milljónir þegar fyrir liggur að borgin leigi allan tölvu- og skjábúnað? Þessi ráðstöfun er alveg í takti við óskiljanleg 10 milljarða fjárútlát í það sem er kallað stafræn umbreyting borgarinnar. Með öðrum orðum blind og ómarkviss fjárútlát án markmiða og lokatakmarks.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 8. júní 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að leigja út húsnæði að Víðinesvegi 30, ásamt fylgiskjölum. R20080173
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 4. júní 2021. þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að gera samning við Farfugla ses. um fyrirkomulag vegna langtímastæða í Laugardal frá 1. júní 2021-1. júní 2022. R21060048
    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um farsæla og ánægjulega niðurstöðu að ræða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til afgreiðslu er tillaga um að íþrótta- og tómstundasviði verði heimilað að gera samning við Farfugla vegna langtímastæða frá 1. júní 2021 til 1. júni 2022. Heyrst hefur að þetta hafi gengið vel síðasta ár. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu gefið að leigjendur séu sáttir við samkomulagið.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 11:45 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar á velferðarsviði, ásamt fylgiskjölum. R21060065
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þær stjórnkerfisbreytingar sem hér eru samþykktar snúa að innleiðingu á nýrri velferðarstefnu borgarinnar og innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðum þjónustukannana meðal notenda velferðarsviðs óska flestir eftir því að eiga í rafrænum samskiptum og er þeim óskum hér mætt með því að setja á laggirnar rafræna þjónustumiðstöð sem mun annast móttöku allra umsókna sviðsins, símaráðgjöf og leiðbeiningar. Áfram verður möguleiki að sækja þjónustu á þjónustumiðstöð fyrir þá sem það kjósa. Þjónustusvæði velferðarsviðs verða fjögur og samræmast þannig starfssvæðum verkefnisins Betri borg fyrir börn í samstarfi við skóla- og frístundasvið til að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur í borginni. Hlutverk fagskrifstofa og stoðþjónustu verður eflt á sviðinu, sérhæfð teymi verða stofnuð og skipurit þjónustumiðstöðva verða samræmd milli hverfa út frá áherslum velferðarstefnu. Nánari útfærslur á stjórnkerfisbreytingunum ásamt kostnaðarmati verði lagðar fyrir velferðarráð eigi síðar en 1. október nk.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint. Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. „Borgarbúinn“ hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn, samþættingu þjónustu, samhæfingu, samstarf við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.

    Regína Ásvaldsdóttir og Dís Sigurgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf velferðarsviðs. dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21040016
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarstefnan er afrakstur víðtæks samráðs stýrihóps, starfsfólks, notenda og þeirra fjölmörgu aðila sem hafa látið velferðarþjónustu borgarinnar sig varða. Á grunni ítarlegrar greiningarvinnu var mótuð ný framtíðarsýn til 10 ára auk þess sem hlutverk velferðarsviðs er skilgreint upp á nýtt. Grunnmarkmið stefnunnar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa. Meginþættir stefnunnar byggja á sjö stefnumarkandi áherslum en þær eru; engin tvö eru eins, nálægð og aðgengileiki, þjónustulipurð og skilvirkni, virðing og umhyggja, forvarnir og frumkvæði, samtal og samráð og fagmennska og framsýni. Í aðgerðaráætlun eru settar fram þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í til að markmið stefnunnar nái fram að ganga. Þar er m.a. lögð áhersla á notendasamráð, samráði við hagsmunaaðila og reglulegar mælingar á ánægju með þjónustu sviðsins. Aðgerðaáætlunin mun síðan verða endurskoðuð árlega m.t.t. kostnaðar og stöðu verkefna hverju sinni. Reykjavík hefur ekki áður sett sér heildstæða velferðarstefnu sem tekur utanum allar þær fjölmörgu stefnur sem við höfum markað og munum marka í framtíðinni. Velferðarþjónusta er gríðarlega mikilvæg mannréttindaþjónusta sem þarf að vera í stöðugri þróun, velferðarráð þakkar þeim þúsundum Reykvíkinga sem tóku þátt í mótun þessara stefnu, saman getum við tryggt að Reykjavík verði sannarlega fyrir okkur öll.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Markmið velferðarstefnunnar er að auka lífsgæði og stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn. Hún byggir á stefnumarkandi áherslum til að ná því fram. Stefnan er hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og um leið fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu. Áfram eru til stefnur í einstaka málaflokkum, svo sem í húsnæðismálum, málefnum aldraðra og málefnum fatlaðs fólks. Til þess að Reykjavík sé svo sannarlega fyrir okkur öll þá þurfa aðrar stefnur borgarinnar einnig að virka. Nú er staðan sú að í júní voru 479 á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt nýjustu tölum sem finna má á vef borgarinnar voru 134 á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 68 á bið eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 125 voru á bið eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða. Samtals gera þetta 806 umsóknir og á bak við þær umsóknir eru 806 manneskjur og fjölskyldur. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og til að auka lífsgæði, veður þessi grunnþáttur að vera í lagi. Hann er það svo sannarlega ekki nú.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð eru fram drög að tillögum stýrihóps um mótun velferðarstefnu. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna af þessu tagi komin í innleiðingu. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat er ekki tilbúið fyrr en í október. Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“. Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum annars mörgu ágætu tillögum verða komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Innleiðingar hafa ekki verið útfærðar. Meðal markmiða eru sjálfsagðir hlutir eins og að allir lifi með reisn. Stór hópur fólks er í aðstæðum þar sem erfitt er að lifa með nokkurri reisn. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Eftir stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra bíða 342 og 804 eftir húsnæði. Fólki og ekki síst börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi það býr. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Of mikil áhersla er á frumvarp, „farsældarfrumvarp“ sem ekki er orðið að veruleika.

    Regína Ásvaldsdóttir og Dís Sigurgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velfarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs hefur aldrei verið nánara en nú og sameiginleg framtíðarsýn sviðanna í málefnum barna er innsigluð með þeim tillögum sem sameiginlegur stýrihópur formanna og sviðsstjóra sviðanna skilar hér af sér. Tillögurnar marka tímamót þar sem vörðuð er leið inn í framtíð þar sem heildstæð þjónusta við börn er samþætt og efld í nærumhverfi barna ekki síst í verkefninu Betri borg fyrir börn sem nú verður innleitt í öllum borgarhlutum frá næstu áramótum eftir tilraunaverkefni í Breiðholti sem mælst hefur vel fyrir. Lagt er til að stórátak verði gert í að vinna á biðlistum eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga í skólaþjónustu með 140 m.kr. aukafjárveitingu sem myndi duga til að þjóna um 650 börnum. Fjárveitingar til grunnskóla munu í auknum mæli taka mið af lýðfræðilegum þáttum til að auka jöfnuð milli barna og borgarhluta. Tekið verður upp markvisst árangursmat í sérkennslu, sértækum stuðningi og skólaþjónustu til að stuðla að því að börn sem þess þurfa fái stuðning sem skilar þeim betri líðan, námsárangri og/eða félagsfærni. Átak verður gert í að rafvæða umsóknarferla í skólaþjónustu og sérstök verkefnastjórn mun sjá um að innleiðing tillagnanna verði hnitmiðuð og skýr.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ein af tillögum stýrihóps er að verkefnið Betri borg fyrir börn verði innleitt um alla Reykjavíkurborg. Óskað er eftir 140 milljóna króna fjárframlagi frá borgarráði til að taka á biðlistum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að mun meiri innspýtingu fjármagns þurfi en hér er lagt til ef takast á að sinna öllum þessum börnum svo vel sé. Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“. Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Fyrstu tillögur Flokks fólksins að taka á biðlistum komu strax á fyrsta misseri þessa kjörtímabils. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi þau búa. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Íslensk ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „börn“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um úthlutun fjármagns á grundvelli lýðfræði, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nota á ákveðinn stuðul (e. Learning opportunites index – LOI) til að sjá betur hverjir þurfa snemmtækan stuðning. Að veita snemmtæka íhlutun ef barn á í vanda eru mannréttindi að mati Flokks fólksins. Börn eiga ávallt að fá snemmtæka íhlutun en einnig að fá nauðsynlegar greiningar sem kennarar og foreldrar ásamt fagaðilum hafa sammælst um að barn þurfi. Vel kann að vera að þessi meirihluti telji að með því að draga úr greiningum sé verið að spara mikinn pening. Svo er ekki. Ef barn er að fá ranga meðhöndlun og meðferð við sínum vanda því ekki hefur verið skoðað með gagnreyndum aðferðum hver sé grunnvandinn er verið að taka áhættu með líðan barnsins og það á eftir að kosta. Með því að fá upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (4 ára skoðun barns) er hægt að sjá strax hvort barnið glími við vanda eða vísbendingar þar um. Því miður er ekki samræmd samvinna milli skóla og Heilsugæslu og hvergi er minnst á slíkt samráð í þeim tillögum sem hér eru lagðar á borð. Flótti frá greiningum þessa meirihluta til að spara fé vekur ugg og má telja víst að einhver hópur barna eiga eftir að líða fyrir að lokað er fyrir nauðsynlegan sveigjanleika í þessum efnum.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um rafvæðingu umsóknarferlis skólaþjónustu og endurskoðun verklags út frá notendamiðaðri hönnun, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður að farið sé í þessa vinnu, en að það verði gert með skynsömum hætti og af ábyrgu fólki. Sviðin sjálf vita best hvað þau þurfa og hlýtur vinnan að þurfa að fara fram innan þeirra. Víða er kominn grunnur að snjalllausnum sem sjá má í öðrum stofnunum. Gríðarmiklu fjármagni hefur nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og lítið ber á afrakstri eða afurðum. Fjármagni hefur verið eytt í tilraunir sem litlu hafa skilað enn sem komið er. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með marga milljarða af lausung. Eftir á að koma í ljós hvort og þá hvenær þær afurðir verða komnar í virkni sem væntingar standa til. Öll höfum við sameiginleg markmið sem er að auðvelda aðgengi skóla og foreldra að skólaþjónustu og að einfalda samskipti bæði skóla og foreldra barna við skólaþjónustu. Forgangurinn hlýtur þó ávallt að vera sá að byrja á því að sinna börnunum sem beðið hafa á biðlistum jafnvel mánuðum saman. Í það þarf að setja fjármagn fyrst og fremst.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um innleiðingu árangursmats á sértækum stuðningi við börn og fjölskyldur, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um að nauðsynlegt sé að gera árangursmælingar á sérkennslu. Í sérkennslu eru um 30% af grunnskólabörnum en ekki er vitað um árangur. Börn kunna einnig að vera að fá mismunandi þjónustu eftir því hvar þau búa. Alltof langur tími hefur farið hjá þessum meirihluta í að koma því á blað að mæla þarf árangur. Sérkennarar eru ofhlaðnir og undir miklu álagi. Í þeirra hópi eru börn ekki aðeins með námserfiðleika af ýmsu tagi og á ýmsum stigum heldur einnig með hegðunarvanda/raskanir. Þetta tvennt fer vissulega stundum saman en alls ekki alltaf. Barn sem ekki fær viðeigandi aðstoð við vanda sínum tapar fljótlega sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi og þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Annað áhyggjuefni er læsi barna og lesskilningur en eins og ítrekað kemur fram í könnunum er stór hópur barna sem útskrifast úr grunnskóla sem ekki lesa sér til gagn né gamans. Þessi hópur hefur farið stækkandi með hverju ári. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða helstu tækifæri til úrbóta.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um verkefnisstjórn undirbúnings aðgerða vegna nýrrar löggjafar um farsæld barna, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að þetta frumvarp er bara frumvarp sem ekkert er víst að verði að lögum. Finna þarf fjármagn í það sem ekki er enn séð hvar ríkisstjórnin ætlar að taka ef marka má umræður t.d. úr fréttum. Hafa skal í huga að ekki fannst nægt fjármagn hjá þessari ríkisstjórn til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu til framtíðar jafnvel þótt allir væru sammála um að gera það Reykjavíkurborg verður að taka ábyrgð á sínum börnum, grunnskólabörnum sem eru alfarið sveitarfélagsins að sinna. Ef engir biðlistar væru, þá myndi vandi barna ekki ná að vefja upp á sig. Það að bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð, með eða án greiningu gerir það að verkum að vandinn verður sífellt stærri. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja að leikslokum og sjá þetta farsældarfrumvarp verða fyrst að veruleika áður en hlaupið er upp til handa og fóta og halda að mikið sé að gerast ríkisins megin. Meira fjármagn þarf til málaflokksins, ráða fagaðila og bretta upp ermar. Best væri ef sá hluti sem snýr að velferð grunnskólabarna heyri undir skóla- og frístundaráð eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um viðmið um fjölda reykvískra barna sem greitt er fyrir í Arnarskóla, ásamt fylgiskjölum. R21060064
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sú breyting á sér stað í samstarfi við Arnarskóla að nú fjölgar reykvískum nemendum úr sjö í ellefu á komandi skólaári 2021-2022. Með þessari tillögu er einnig skerpt á verklagi sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði og borgarráði í janúar sl. um meðferð umsókna vegna reykvískra nemenda í Arnarskóla. Mikilvægt er að verklag sé til staðar til þess að nemendur og foreldrar hafi skýran farveg til að velja þá þjónustu sem hentar best miðað við aðstæður hjá hverju barni. Það er okkar skylda að tryggja það verklag og góða upplýsingagjöf sem þarf til að svo megi verða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú leggur skóla- og frístundasvið það til að borgarráð samþykki að hámarksfjöldi nemenda í Arnarskóla verði 11 árið 2021 til 2022 og er það fjölgun um 4. Lokað er á sama tíma fyrir að greitt verði framlag fyrir fleiri. Fulltrúa Flokks fólksins finnst kannski ekki alveg hægt að loka fyrir umsóknir með svo stífum hætti. Það gæti komið umsókn nemanda sem er afar brýnt að fá skoðun og samþykki í Arnarskóla. Þetta er vissulega dýrt úrræði fyrir borgina sem styður tillögu fulltrúa Flokks fólksins að Reykjavíkurborg þyrfti að eiga og reka sambærilegt úrræði. Þegar horft er til reglna skiptir mestu að þær séu sanngjarnar og sveigjanlegar. Hagsmuni barns skal ávallt hafa að leiðarljósi og að í reglunum ætti að felast ákveðinn sveigjanleiki og tillitssemi gagnvart foreldrunum.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  29. Fram fer kynning á trúnaðarmerktum niðurstöðum á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfsumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs. R21030046

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að tryggja starfsmönnum Reykjavíkurborgar og kjörnum fulltrúum gott og öruggt vinnuumhverfi. Taka þarf þeim ábendingum sem fram hafa komið alvarlega og vinna áfram með þær þrjár tillögur sem komið hafa fram. Í haust mun formaður borgarráðs boða til vinnufundar um starfsanda og fagleg samskipti ef um það næst samstaða, þar sem borgarráðsfulltrúar munu ræða saman um hvernig best sé sköpuð umgjörð um góðan starfsanda og fagleg samskipti. Leita þarf allra leiða til að stöðva neikvæða og niðurlægjandi framkomu a vettvangi borgarráðs. Komið hefur í ljós að þeir ferlar sem fyrir eru ná ekki með góðum hætti utan um samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna og úr því þarf að bæta.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Andrúmsloft og vinnubrögð í borgarstjórn og borgarráði þarf að bæta en mikið skortir á að meirihlutinn vinni með þeim sem eru í minnihluta líkt og tíðkast í langflestum sveitarfélögum landsins. Þetta fyrirkomulag dregur úr trausti og er ólýðræðislegt. Afleiðingarnar eru þær að traust almennings á borgarstjórn er í lágmarki og mikið hefur verið um veikindi borgarfulltrúa. Siðareglur sem samþykktar voru í upphafi kjörtímabilsins hafa ekki verið virtar. Allt ber þetta að sama brunni. Umræðumenningin smitar út frá sér og hefur leitt til þess að fæstir treysta Borgarstjórn Reykjavíkur af stofnunum á Íslandi samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Hér þarf algerlega að breyta um kúrs.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynnt var niðurstaða á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs. Í fundarboði sem barst borgarráðsmönnum í tölvupósti 8. júní sl. kl. 16:59 var kynningin merkt sem trúnaðarmál. Þegar til dagskrárliðarins kom á borgarráðsfundi var trúnaði aflétt en síðdegis daginn áður hafði embættismaður borgarinnar tjáð sig um könnunina og þar með rofið trúnað því fram kom í kynningunni að búið væri að ræða við þá sem komu fyrir Sálfræðiþjónustuna Líf og sál, þ.e.a.s. embættismenn. Þetta eru óboðleg vinnubrögð. Í borgarráði sitja 10 kjörnir fulltrúar og því er haldið fram að kynningin sé ópersónugreinanleg. Það varpar ljósi á þá alvarlegu stöðu að enn er óútkljáð kvörtunarmál vegna þessa máls hjá Persónuvernd og svo mikið lá á að koma þessu máli á framfæri að meirihlutinn gaf sér ekki tíma til að bíða eftir úrskurði stofnunarinnar eða eins og segir: „Ákveðið að kynna nú, þó að Persónuvernd hafi ekki úrskurðað vegna kvörtunar sem barst vegna athugunar.“ Með þessu hunsar Reykjavíkurborg enn á ný eftirlitsstofnanir ríkisins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er kolrangt að „embættismaður“ hafi rofið trúnað á niðurstöðum á sálfræðilegu mati á starfsumhverfi borgarráðs enda hefur umræddur starfsmaður ekki séð niðurstöðurnar. Á Facebook-síðu starfsmannsins stendur: „Í ágúst sl. var greint frá því að gera ætti úttekt á sálfélagslegum áhættuþáttum fyrir það starfsfólk sem situr eða þarf reglulega að taka sæti á fundum borgarráðs í kjölfar ábendinga um starfsumhverfi þess hóps. Ég vona svo sannarlega að kjörnir fulltrúar taki niðurstöður þeirrar úttektar alvarlega og ráðist í nauðsynlegar og löngu tímabærar úrbætur til að tryggja heilnæmt og öruggt starfsumhverfi fyrir okkur öll.“ Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins velur að snúa öllu á haus þrátt fyrir að vera leiðréttur um það sem er satt og rétt. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það kom fram í kynningu að embættismenn væru búnir að fá kynningu á niðurstöðum könnunar á sálfræðilegu mat á starfsumhverfi borgarráðs en ekki þeir borgarfulltrúar sem tóku þátt. Ekki er gætt að jafnræði í þeim efnum þar sem úttektin sneri að kjörnum fulltrúum. Í öllu þessu máli er leikurinn afar ójafn. Má segja að þeir 10 borgarfulltrúar sem sitja í borgarráði hafi ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi leikur er og verður alltaf ójafn og minnt er á að mikil eineltismenning hefur ríkt í Ráðhúsinu allt frá árinu 2010 og spannar því þrjú kjörtímabil. Sá slæmi andi sem einkennt hefur störf borgarráðs og borgarstjórnar kom ekki í Ráðhúsið með þeim aðilum sem sitja í minnihluta nú. Um það vitna m.a. upptökur frá fundi borgarstjórnar frá lokum síðasta kjörtímabils þegar einn fráfarandi borgarfulltrúi sá sig knúinn til að upplýsa um eineltismenningu meirihlutans. Einnig er minnt á ummæli annars kjörins fyrrverandi borgarfulltrúa frá kjörtímabilinu 2010-2014 þar sem hann kom fram og greindi frá sjálfsvígshugmyndum sínum vegna grófs eineltis frá meirihlutanum. Er ekki komið mál að linni fyrir borgarstjóra og meirihlutann. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Til kynningar er niðurstaða á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfsumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni að fá kynninguna með útsendum gögnum tókst ekki að verða við því. Það vakti hins vegar athygli að starfsmaður mannauðsskrifstofu vísaði í þessa könnun í fjölmiðlum í gær, í persónulegum tilgangi, áður en búið var að kynna hana fyrir borgarráðsfulltrúum. Fulltrúi Flokks fólksins trúir ekki að það sé samþykkjanlegt að nýta aðstöðu sína með þessum hætti og ræða niðurstöður á trúnaðarmerktu gagni með persónugreinanlegum hætti í fjölmiðlum áður en gagnið er kynnt borgarráði. Gilda kannski önnur lögmál um embættismenn?

    Lóa Birna Birgisdóttir og Elín Blöndal taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13:45 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum en áður hafði fulltrúinn lagt fram bókanir sínar undir liðum 30, 38, 43 og 45.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Þorteinn Gunnarsson borgarritari, Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Hrefna Þórsdóttir lögfræðingur á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði skipuð í viðræðuhóp við Hjallastefnuna. Haft verði samráð við Óla Jón Hertervig skrifstofustjóra eignaskrifstofu og Ebbu Schram borgarlögmann, eftir því sem tilefni er til. R21060063

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hjallastefnan óskar hér með eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíð Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Jafnframt er óskað viðræðna um staðsetningu og aðstöðu fyrir leikskólann Öskju. Báðir skólarnir eru starfræktir á Nauthólsvegi 87 og missa þá aðstöðu að næsta skólaári loknu. Forsvarsfólk Hjallastefnunnar óskar eftir að flytjast í húsnæði sem borgin áformar að rísi á lóðinni nr. 81 við Nauthólsveg og að grunn- og leikskóli Hjallastefnunnar verði þar. Hugsanlega væri hægt að nýta núverandi byggingar skólanna í Öskjuhlíðinni og flýta þannig fyrir opnun skóla sem mikil þörf er fyrir. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á mikilvægi þess að fulltrúar foreldra barna í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík/Öskju taki sæti í viðræðuhópinum. Hver verður kjarni umræðunnar í hópinum? Málefni skólans eru í óvissu og óvissa er aldrei góð. Húsnæðið er aðeins tryggt í eitt ár í viðbót. Fulltrúa Flokks fólksins finnst Hjallastefnuskólar og leikskólar mikilvægir og vonar að málin lendi á besta veg fyrir börnin sem þar stunda nám og hversu mikið hagsmunamál það er að framtíð þeirra verði tryggð.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. júní 2021:

    Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneytið hafa náð samkomulagi um að styðja við fjármögnun Reykjavíkurmaraþons með 5 milljóna króna framlagi hvor aðili, alls 10 milljónir króna. Þetta er gert vegna taps á hlaupinu í fyrra, enda þurfti að fella það niður vegna samkomutakmarkana. Lagt er til að borgarráð samþykki umboð til borgarstjóra um að skrifa undir samkomulag við ráðuneytið og Íþróttabandalag Reykjavíkur vegna þessa. Framlag borgarinnar komi af liðnum 09205, ófyrirséð. R21060081

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf borgarlögmanns og skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 8. júní 2021, varðandi trúnaðarmerkingar gagna á fundum borgarráðs, ásamt trúnaðarmerktu fylgiskjali. R21060074

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Embættismannakerfi Dags B. Eggertssonar slær skjaldborg um að reyna að þagga niður í kjörnum fulltrúum. Hér taka höndum saman sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs, borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjórnar og bera fram villandi og rangan málflutning. Málið snýr að 10 milljarða fjárhagslegu svartholi sem kallað er „stafræn umbreyting Reykjavíkur“. Búið er að kynna verkefni fyrir rúma 4 milljarða án þarfagreiningar eða lokamarkmiðs. Ég hef upplýst um í ræðu og riti hver verkefnin eru og upplýst um kostnaðaráætlanir við hvert og eitt. Reykvíkingar eiga rétt á því að vita hvernig útsvarinu er eytt. Greinargerðir og kostnaðaráætlanir voru lagðar fram í trúnaði. Það eitt og sér eru afleitir stjórnsýsluhættir og eiga sér hvergi lagastoð. Sem dæmi má nefna að fyrir fundi borgarráðs í dag eru a.m.k. til samþykktar þrjár útboðstillögur og fylgir kostnaðaráætlun þeim öllum. Það á ekki að skaða innkaupahagsmuni borgarinnar að upplýsa um kostnaðaráætlanirnar enda eru fordæmi fyrir því að það er gert eins og áður segir. Langt er seilst í leyndarhyggjunni. Hvað er verið að fela? Reynt er að bera því við að um vinnugögn hafi verið að ræða. Það lýsir mikilli vanþekkingu á lögum því gögnin voru í heild sinni send borgarráði til samþykktar og eiga ekkert skylt við vinnugögn.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Umræddar frumkostnaðaráætlanir hafa að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum Reykjavíkurborgar. Þar sem þessi gögn hafa að geyma mat á kostnaði vegna þeirra innkaupaferla voru þau lögð fram í trúnaði, enda er um að ræða vinnugögn í skilningi ákvæða upplýsingalaga. Því var bæði heimilt og skylt að lögum að leggja þessi gögn fram í trúnaði og bar borgarfulltrúum sem og öðrum að virða þann trúnað. Það er ámælisvert að ekki er hægt að treysta kjörnum fulltrúum fyrir trúnaðarupplýsingum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Tillögur og kostnaðaráætlanir eru ekki og geta aldrei verið vinnugögn sbr. upplýsingalög. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir um 8. gr. „Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins teljast vinnugögn þau gögn sem stjórnvald, eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr., hefur ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Ef gögn eru afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna.“ Málin voru send borgarráði til afgreiðslu með beiðni um fjárútlát. Þar með er ákvörðunin endanleg og því ekki hægt að leggja trúnað á kostnaðaráætlanir verkefna sem nema 4 milljörðum og að endingu 10 milljörðum.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2021, vegna Alþingiskosninga sem fara fram 25. september nk. með tillögu að kjörstöðum í Reykjavíkurkjördæmum. R20090044
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2021, vegna Alþingiskosninga sem fara fram 25. september nk. með tillögu að umboði til borgarráðs og fleira. R20090044
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2021, vegna Alþingiskosninga sem fara fram 25. september nk. með tillögu að þóknunum til kjörstjórna. R20090044
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2021 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010382

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurnin um deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti var lögð fram af fulltrúa Flokks fólksins fyrir meira en ári síðan. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og tekur afsökunarbeiðni vegna seins svars til greina. Það er rétt, grenndarstöðin var endurgerð og lítur mun betur út. Það þarf aftur á móti að sinna þessum gámum mun betur. Umgengni við gáma er slæm.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 8. júní 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um framtíðaruppbyggingu á umráðasvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020. R20030113

    Fylgigögn

  38. Lögð fram skýrsla stýrihóps um Elliðaárdal, dags. 7. júní 2021, ásamt fylgiskjölum. R20110182

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögurnar tíu sem stýrihópurinn leggur til endurspegla virðingu fyrir dalnum og lífríkinu sem þar er. Meðal tillagna er að borgin og OR geri samning um skil fyrirtækisins á dalnum, að haldin verði hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis, flýtingu á aðskilnaði göngu- og hjólastíga í dalnum. Þá leggur hópurinn til að stíflan standi áfram enda friðað mannvirki en hún verði gerð aðgengileg. Auk þess eru lagðar til skynsamlegar mótvægisaðgerðir, svo sem vöktun á lífríki, úrbætur til varnar mengun, góð vatnsgæði og æskilega vatnsstöðu. Hópnum er þakkað fyrir skynsamlegar niðurstöður og er borgarstjóra því falið að framfylgja tillögum stýrihópsins með forystu Orkuveitunnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa gert skýra kröfu um að lónið verði fyllt að nýja og það án frekari tafa. Borgin er eigandi Elliðaánna og fer með 93% eignarhlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Þess vegna er þessi niðurstaða meirihluta hópsins að fylla ekki lónið að nýju óskiljanleg, enda kemur hún hvorki til móts við íbúa né lífríkið á staðnum. Þess utan er alveg skýrt að ekki var farið að lögum þegar lónið var tæmt varanlega en lónið er hluti að gildandi deiliskipulagi og því óheimilt að tæma það varanlega. Það er mat skipulagsfulltrúa í Reykjavíkurborgar að lög hafi verið brotin. Á þetta er m.a. bent í séráliti Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa og fulltrúa í starfshópnum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er þyngra en tárum taki að Árbæjarlón hafi verið tæmt í skjóli nætur. Vönduð skýrsla starfshóps um Elliðaárdal var lögð fram á fundinum þar sem málin voru reifuð. Það er álit borgarfulltrúa Miðflokksins að án tafar verði farið í að leiðrétta þá ólögmætu framkvæmd að tæma Árbæjarlónið og að yfirborði lónsins verði aftur komið í það horf sem það á að vera samkvæmt deiliskipulagi og það hefur verið í meira en hundrað ár. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessari skýrslu er ekki tekin skýr afstaða til stíflunnar. Hún er friðuð, hún hefur verið varanlega tæmd og fyrir liggur að OR er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám. Hvort stíflan fari eða veri og veri hún, hvort þá verði gert eitthvað með hana er allt opið eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur að nauðsynlegt er að hafa enn viðameira samráð og við fleiri en áður til að komast hjá óþarfa árekstrum. Tryggja verður alvöru samtal, samráð og upplýsingaflæði á meðal lykilaðila, íbúa og áhugafólks um dalinn. Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar. Ef heldur sem horfir með þá stefnu sem meirihlutinn rekur þá mun að lokum hvergi finnast ósnortin náttúra lengur í borgarlandinu.

    Þorkell Heiðarsson og Þórólfur Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  39. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 3. júní 2021. R21010023

    Fylgigögn

  40. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 3. júní 2021. R21010004

    Fylgigögn

  41. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. júní 2021. R21010027

    Fylgigögn

  42. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 27. maí 2021. R21010028

    Fylgigögn

  43. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju einasta bílastæði sem samþykkt er fyrir hreyfihamlaða og vonar að ákvörðun um þessi stæði hafi verið tekin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðra. Þessi málaflokkur hefur orðið undir hjá meirihlutanum í borginni og við ákvörðun að loka fyrir umferð bíla og gera göngugötur þá má segja að fatlaðir og þeir sem eiga erfitt um gang hafa verið skildir eftir úti í kuldanum. Almennt er aðgengismál fatlaðra í miðbænum erfiðleikum háð og er í raun kapítuli út af fyrir sig. Því miður er það þannig að margir fatlaðir finna sig ekki lengur velkomin í bæinn og fara ekki þangað nema tilneyddir. Liður 15. Fulltrúi Flokks fólksins vill endilega fjarlægja járnslár á hjólreiðastígum. Ekki er liðinn nema einn fundur síðar Fulltrúi flokks fólksins nefndi í bókun að járnslár á göngu- og hjólastígum þurfi að fjarlægja enda skapa þær hættur fyrir hjólreiðamenn og einnig þá sem koma á öðrum farartækjum eða styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla. Það er því ánægjulegt að vel var tekið í að hafa þessa tillögu sem sameiginlega tillögu skipulags- og samgönguráðs alls.

    Fylgigögn

  44. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21. mars 2021. R21010017

    Fylgigögn

  45. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R21050254

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir efni bréfs Sambands íslenskra sveitarfélaga, varðandi forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Efni bréfsins tengist tillögu fulltrúa Flokks fólksins sem var nýlega vísað frá í borgarstjórn. Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að veita auknu fjármagni til skólanna, þ.e. kennara og starfsfólks frístundaheimila og Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Þetta var lagt til í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Styðja þarf jafnframt við bakið á samtökum s.s. Heimili og skóla (Landssamtök foreldra) sem reka einnig SAFT og Samfok. Markmiðið er að veita foreldrum fræðslu og stuðning. Allir þurfa að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast með net- og tölvunotkun barnanna.

    Fylgigögn

  46. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21050318

    Fylgigögn

  47. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að við undirbúning og þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti verði teknar upp viðræður við skóla- og frístundasvið um að leik- og grunnskólar í hverfinu bjóði upp á danstengt nám sem og valáfanga í dansi á unglingastig sem myndi auka fjölbreytni á grunnskólastiginu. Það myndi auk þess skapa samfellu í námi á þessu sviði þar sem fyrirhugað er að taka upp viðræður við Fjölbrautaskólann í Breiðholti um danstengt nám. R20110242

    Frestað.

  48. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 hjá Reykjavíkurborg og B-hluta félögum borgarinnar. 
    1.    Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar hafi mikinn útgjaldaauka í för með sér fyrir borgarsjóð?
    2.    Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar hafi mikinn útgjaldaauka í för með sér fyrir B-hluta fyrirtækin sundurliðað eftir félögum tæmandi talið? 
    3.    Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar hafi mikinn útgjaldaauka í för með sér fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur tæmandi talið? 
    4.    Hvað er gert ráð fyrir að ráða þurfi marga nýja starfsmenn vegna styttingar vinnuvikunnar hjá A-hluta Reykjavíkur?
    5.    Hvað er gert ráð fyrir að ráða þurfi marga nýja starfsmenn vegna styttingar vinnuvikunnar hjá B-hluta fyrirtækjum eftir félögum tæmandi talið?
    6.    Hvað er gert ráð fyrir að ráða þurfi marga nýja starfsmenn vegna styttingar vinnuvikunnar hjá dótturfélögum Orkuveitu Reykjavíkur tæmandi talið? R21010179

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  49. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Nýlega var kynnt kolsvört starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og einnig var rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem byggði á áliti umboðsmanns Alþingis, og endaði með sátt. Til upplýsingar þá sjá starfsmenn slökkviliðsins jafnframt um sjúkraflutninga.
    1.    Hvað eru mörg mál er snerta starfsmenn frá árinu 2010 sundurgreint eftir árum, sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið aðili að sem endað hefur með dómi eða sátt?
    2.    Hvað hefur lögfræðikostnaður Slökkviliðsins verið vegna þessara mála, sundurgreint eftir árum?
    3.    Hvað hefur Slökkviliðið greitt í starfslokasamninga, sáttagreiðslur, dómsáttir og lögfræðikostnað beggja aðila, sundurliðað eftir árum?
    4.    Hefur Slökkviliðið greitt framlínustyrki til starfsmanna sinna eins og heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínufólk hefur fengið greitt frá ríkinu?
    5.    Ef ekki, hvers vegna?
    6.    Hefur einhver tillaga þess efnis borist til stjórnar Slökkviliðsins?
    7.    Hvaða veikindarétt hafa starfsmenn slökkviliðsins komi upp COVID smit?
    8.    Skilgreinir stjórn slökkviliðsins COVID sem atvinnusjúkdóm? R21030227

    Vísað til umsagnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

  50. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Borgin rekur tvö hjúkrunarheimili. Nú er gríðarlegur skortur á plássi á hjúkrunarheimilum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju borgin komi ekki fleirum hjúkrunarheimilum á laggirnar fyrir þá borgarbúa sem geta ekki lengur búið heima. Alvarlegur skortur er á hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara. Reykjavíkurborg getur ekki skorast hér undan, þótt málið sé á vegum ríkisins. Nýja samninga má gera. Það er þyngra en tárum taki það aðstöðuleysi og skortur á hjúkrunarheimilum sem er núna. Rúmlega hundrað manns liggja á Landspítalanum af því að ekki er hægt að útskrifa þau. Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum. Ekkert er því til fyrirstöðu að bæta við fleiri hjúkrunarheimilum. R21060109

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

    -    Kl. 15:12 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.

Fundi slitið klukkan 15:17

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Skúli Helgason

Alexandra Briem Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1006.pdf