Borgarráð - Fundur nr. 5625

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 6. maí, var haldinn 5625. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir og Eyþór Laxdal Arnalds. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason auk Péturs Ólafssonar sem sat fundinn með fjarfundarbúnaði. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. maí 2021, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 4. maí 2021 á tillögu um framlengingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, ásamt fylgiskjölum. R18060129

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna lóðarinnar nr. 4 við Gjúkabryggju, reitur D, ásamt fylgiskjölum. R21050022
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir Prestshús á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R21050024
    Frestað. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir austurhluta Laugardals, ásamt fylgiskjölum. R20020112
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að fylgja eftir samþykkt borgarráðs frá 2018 sem samþykkt var einróma í borgarráði að fela umhverfis- og skipulagssviði að finna lóðir fyrir smáhýsi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að taka á vanda húsnæðislausra með raunhæfum og góðum lausnum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Laugardalurinn fái að vera í friði fyrir íbúðaáformum, hvort sem um er að ræða smáhýsi eða stórhýsi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsstofnun hefur gert alvarlegar formgalla athugasemdir um að smáhýsi í Laugardal samrýmast ekki aðalskipulagi. Í bréfi stofnunarinnar til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur kemur fram að deiliskipulagsbreytingin er í ósamræmi við gildandi aðalskipulag varðandi heimild fyrir íbúðir á opnum svæðum og í borgargörðum. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur frá upphafi ítrekað að þessi smáhýsauppbygging utan skipulags gangi ekki upp samkvæmt lögum. Nú er komin staðfesting á þeim skoðunum. Smáhýsin í Gufunesi voru utan deiliskipulags um langa hríð allt þar til ákveðið var að leggja göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu. Þá var þeim laumað inn á skipulag bakdyramegin. Sama á við nú varðandi smáhýsin í Laugardalnum eftir ábendingar Skipulagsstofnunar. Borgarstjóri og meirihlutinn rökstyðja ákvarðanir um smáhýsin svo að um tímabundna lausn sé að ræða. Það er rangt því steypa þurfti sökkla undir húsin í Gufunesi og skeyta þau við landið. Skilgreining á fasteign er eftirfarandi: „Fasteign merkir afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt.“ Hér er því ekki verið að tjalda til einnar nætur. Þetta úrræði er vont fyrir fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Ítrekuð er sú skoðun að borgin kaupi gistiheimili eða hótel og haldi þar úti sólarhringsþjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vísað er til borgarráðs tillögu „Laugardalur – austurhluti“ vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi. Samþykkt hefur verið að auglýsa framlagða tillögu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði alltaf á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda, sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi götureits Lágmúla, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, staðgreinireitur 1.260, ásamt fylgiskjölum. R21050031
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru um að ræða svæði sem boðið var fram fram í Reinventing Cities samkeppni á vegum C40 sem eru stærstu borgarsamtök veraldar. Framhaldið af þeirri þróunarvinnu er gerð þessarar skipulagslýsingar fyrir svæðið. Mikil tækifæri eru fólgin í þessari uppbyggingu sem fellur vel að markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu og blöndun byggðar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2021, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 7. apríl 2021 á breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar, svæði 2, ásamt fylgiskjölum. R21040100
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessu máli takast á tvö sjónarmið. Annars vegar þau sjónarmið að íbúar eigi að ráðstafa sínum sérafnotareitum með þeim hætti sem þeir kjósa og hins vegar sjónarmiðin um gróðurþekju og líffræðilega fjölbreytni á svæðinu. Umsóknin gengur út á að breyta skipulagi þannig að krafan um gróðurþekju á sérafnotareitum víki, án þess að bætt sé fyrir það með gróðurþekju annarsstaðar til að koma til móts við heildarhugsunina, með þeim afleiðingum að heildagróðurþekja á svæðinu öllu lækkar. Það er ábyrgð verktaka að gróðurskilmálar séu virtir og að hönnun styðji við þá skilmála, einnig að kaupendur séu upplýstir um skilmála samkvæmt deiliskipulagi. Á þeim forsendum er ekki unnt að verða við beiðni um deiliskipulagsbreytingu. Komi fram aðrar hugmyndir að hönnun sem hvort tveggja koma til móts við óskir væntanlegra íbúa og fellur að kröfum um heildargróðurþekju er mögulegt að senda inn fyrirspurn á skipulagsfulltrúa til að fá viðbrögð við því hvernig þær nýju hugmyndir kunni að samrýmast skipulagsáætlunum fyrir svæðið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Forræðishyggjan birtist víða. Hér er hafnað þeirri ósk íbúa og verktaka að íbúar fái að ráða þeim litlu svæðum sem þeir hafa í görðum sínum. Því erum við ósammála og teljum að fólk eigi að hafa athafnafrelsi á heimilum sínum og í görðum. Þá vekur athygli að þótt ekki eigi að tryggja íbúum frelsi um ráðstöfun eigin garða, er ekki fyrirhugað að framkvæma lokaúttekt á sérafnotareitunum. Á sama tíma og íbúar eru skikkaðir til að rækta pínulitla berjarunna er verulega vegið að grænum svæðum borgarinnar sem henni hefur verið treyst fyrir.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stóra berjarunnamálið í nýju Vogabyggðinni er á pari við pálmatrén í sama hverfi og dönsku stráin við braggann. Óskað var eftir að krafa um „gróðurþekju og berjarunna“ innan sérafnotareita íbúða í hverfinu verði felld niður. Meirihlutinn hafnaði þeirri beiðni. Samkvæmt skilmálunum þarf að vera gras yfir helmingi séreignarflatarins og í það minnsta einn berjarunni í hverjum reit. Hvort á maður að hlæja eða gráta yfir svona stjórnsýslu. Hér er um að ræða minnstu garða í heimi. Hver „garður“ samkvæmt skilgreiningu borgarstjóra og meirihlutans verður 2,5-5,0 fermetrar og í „garðinum“ skuli vera berjarunni. Allt er þetta gert til að gróðurþekjan og líffræðileg fjölbreytni á svæðinu haldi sér. Þetta eru afleiðingar þrengingarstefnu meirihlutans. Það er ekki hægt að skálda svona vitleysu upp – en allt er greinilega hægt í Reykjavík. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. maí 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. maí 2021 á breytingu á deiliskipulagi Hraunbæjar-Bæjarháls vegna lóðarinnar nr. 133 við Hraunbæ, ásamt fylgiskjölum. R21020130
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja átaksverkefni í teikningaskönnun, ásamt fylgiskjölum. R21050004
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil eftirspurn er eftir teikningum á rafrænu formi af notendum, bæði almenningi og fagaðilum eins og iðnaðarmönnum, borgarstofnunum og öðrum hagsmunaaðilum. Hér er verið að samþykkja að setja allar verkfræðiteikningar á stafrænt form sem og allar raflagnateikningar frá 2007. Stafrænt aðgengi tryggir jafnt aðgengi fyrir alla og felur í sér umtalsverða hagræðingu í formi tímasparnaðar og útblæstri fyrir notendur og borgina til framtíðar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynnt eru tvö verkefni á fundi borgarráðs sem snúa að þjónustu- og nýsköpunarsviði. Heildarupphæð þessara tveggja verkefna eru 2.235.000.000 kr. Þetta er algjört brjálæði miðað við fjárhagsstöðu borgarinnar. Það er ekki það einasta heldur var samþykkt að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir aukna starfsemi hjá sviðinu. Um er að ræða um 314 fermetra húsnæði og er leigusamningur tímabundinn og lýkur leigutíma 31. október 2023. Leiga er krónur 942.000 á mánuði sem gerir tæpar 30 milljónir yfir tímabilið. Sviðið er því að fá tæpa 2,4 milljarða. Þetta er eins og í lygasögu. Hvers vegna þarf sviðið að leigja nýja 314 fermetra? Flest öll verkefni sem sviðið fer í er útvistað til fyrirtækja út í bæ og því hafa þessir aðilar starfsstöð á sínum vinnustað. Inni liggur ítarleg fyrirspurn um verktaka hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði því áður hafði borist svar að fáir verktakar væru á sviðinu. Þetta verklag gengur ekki upp og fer gegn lögum. Munurinn á verktaka og launamanni eru skýr og hafa fallið margir úrskurðir hjá yfirskattanefnd því tengdu. Er það virkilega svo að Reykjavíkurborg er að útvega húsnæði fyrir fyrirtæki út í bæ? 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Óskað er eftir að fá heimild til að hefja átaksverkefni í teikningaskönnun. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nauðsynlegt er að skanna inn gögn til að gera aðgengileg á rafrænu formi – sem hefði átt að vera byrjað á fyrir nokkrum árum síðan. Enn og aftur er borgin á eftir með tæknina. En auðvitað þarf að skanna allar gamlar teikningar inn í tölvu. Flestar stofnanir og fyrirtæki sem vilja vera í framlínu eru án efa löngu búin að skanna inn gögn. Að skanna inn er minnst 20 ára gömul tækni.

    Óskar J. Sandholt, Friðþjófur Bergmann og Arna Ýr Sævarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 27. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja útboðsferli á tölvubúnaði fyrir endanotendur í tölvuumhverfi Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21050003
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynnt eru tvö verkefni á fundi borgarráðs sem snúa að þjónustu- og nýsköpunarsviði. Heildarupphæð þessara tveggja verkefna eru 2.235.000.000 kr. Þetta er algjört brjálæði miðað við fjárhagsstöðu borgarinnar. Það er ekki það einasta heldur var samþykkt að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir aukna starfsemi hjá sviðinu. Um er að ræða um 314 fermetra húsnæði og er leigusamningur tímabundinn og lýkur leigutíma 31. október 2023. Leiga er krónur 942.000 á mánuði sem gerir tæpar 30 milljónir yfir tímabilið. Sviðið er því að fá tæpa 2,4 milljarða. Þetta er eins og í lygasögu. Hvers vegna þarf sviðið að leigja nýja 314 fermetra? Flest öll verkefni sem sviðið fer í er útvistað til fyrirtækja út í bæ og því hafa þessir aðilar starfsstöð á sínum vinnustað. Inni liggur ítarleg fyrirspurn um verktaka hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði því áður hafði borist svar að fáir verktakar væru á sviðinu. Þetta verklag gengur ekki upp og fer gegn lögum. Munurinn á verktaka og launamanni eru skýr og hafa fallið margir úrskurðir hjá yfirskattanefnd því tengdu. Er það virkilega svo að Reykjavíkurborg er að útvega húsnæði fyrir fyrirtæki út í bæ? 

    Óskar J. Sandholt, Friðþjófur Bergmann og Arna Ýr Sævarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. maí 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.530 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,35%, í nýjan stuttan óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 24 1, en það eru um 1.516 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 5. maí 2021.  

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er þriðja skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar frá áramótum. Samtals hefur borgin sótt sér um sjö milljarða í ný lán, en auk þess hafa dótturfélög borgarinnar tekið mikil lán. Skuldasöfnun samstæðu borgarinnar var 41 milljarður á síðasta ári og er ljóst að áfram mun borgin auka skuldir sínar á næstu misserum.

    Halldóra Káradóttir, Ólöf Marín Úlfarsdóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. maí 2021, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna fjórða ársfjórðungs ársins 2020. R20090142

    Halldóra Káradóttir, Ólöf Marín Úlfarsdóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að ganga til uppgjörs við Brú lífeyrissjóð um greiðslur í jafnvægis- og varúðarsjóð vegna sjálfstætt starfandi skóla Hjallastefnunnar sem starfa innan Reykjavíkur og að sömu gjöld verði greidd fyrir sjálfstætt starfandi tónlistarskóla í Reykjavík, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R19050203
    Samþykkt. 

    Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að gefa eftir heiti Fæðingarheimilis Reykjavíkur og að það verði afskráð úr fyrirtækjaskrá, ásamt fylgiskjölum. R21020205
    Samþykkt. 

    Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021. Greinargerð fylgir tillögunni. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 3. maí 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19. Greinargerð fylgir tillögunni. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar. 

    Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna atvinnuhúsnæðis að Borgartúni 8-16, ásamt fylgiskjölum. R21050001
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynnt eru tvö verkefni á fundi borgarráðs sem snúa að þjónustu og nýsköpunarsviði. Heildarupphæð þessara tveggja verkefna eru 2.235.000.000 kr. Þetta er algjört brjálæði miðað við fjárhagsstöðu borgarinnar. Það er ekki það einasta heldur var samþykkt að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir aukna starfsemi hjá sviðinu. Um er að ræða um 314 fermetra húsnæði og er leigusamningur tímabundinn og lýkur leigutíma 31. október 2023. Leiga er krónur 942.000 á mánuði sem gerir tæpar 30 milljónir yfir tímabilið. Sviðið er því að fá tæpa 2,4 milljarða. Þetta er eins og í lygasögu. Hvers vegna þarf sviðið að leigja nýja 314 fermetra? Flest öll verkefni sem sviðið fer í er útvistað til fyrirtækja út í bæ og því hafa þessir aðilar starfsstöð á sínum vinnustað. Inni liggur ítarleg fyrirspurn um verktaka hjá þjónustu og nýsköpunarsviði því áður hafði borist svar að fáir verktakar væru á sviðinu. Þetta verklag gengur ekki upp og fer gegn lögum. Munurinn á verktaka og launamanni eru skýr og hafa fallið margir úrskurðir hjá yfirskattanefnd því tengdu. Er það virkilega svo að Reykjavíkurborg er að útvega húsnæði fyrir fyrirtæki út í bæ? 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið að leigja meira húsnæði fyrir „starfsemina“ eða til að mæta þenslu sviðsins. Leiga verður hátt í milljón á mánuði. Hvers konar starfsemi á að vera í þessu nýja húsnæði? Svo virðist að enginn hemill sé á útþenslu þessa sviðs og þar er farið með mikið fé. Það er vel líklegt að þegar verðskynjun og fjárútlát eru af þessari stærðargráðu að milljarður er orðinn eins og þúsundkall og því þykir ekkert tilkomumál að greiða milljarð í leigu fyrir viðbótarhúsnæði. Er þetta viðbótarhúsnæði bráðnauðsynlegt?

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning vegna leigu á húsnæði fyrir þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness að Gylfaflöt 5, ásamt fylgiskjölum. R21050015
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasaming um lóðina Héðinsgata 8, ásamt fylgiskjölum. R21050002
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram borgarstjóra, dags. 4. maí 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um sveigjanleg starfslok eru send borgarráð til kynningar. R21040086

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bent á að losa þarf um hindranir sem standa í vegi fyrir þá sem vilja halda áfram að vinna eftir sjötugt. Lagðar hafa verið fram tillögur um sveigjanleg starfslok en hefur meirihlutinn ekki sýnt umræðunni áhuga. Á fundi borgarstjórnar þegar tillagan var lögð fram setti aðeins einn fulltrúi meirihlutans í fjarfundi sig á mælendaskrá að öðru leyti var aðeins skerandi þögnin. Það er löngu tímabært að borgin hætti að nota aldursviðmið og leyfi þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Þetta er tyrfin leið. Nú stendur til að setja saman hóp til að skoða þessi mál. Óttast er að þetta eigi eftir að taka óratíma og verði gert flóknara en það þarf að vera. 

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Fram fer kynning á starfsemi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins árið 2020 og nýlegri könnun á starfsánægju starfsmanna. R21030227

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikið álag hefur verið á Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins líkt og öðrum viðbragðsaðilum vegna heimsfaraldursins. Við þetta bætast gróðureldar, eldsvoðar, óveður, jarðhræringar og eldgos sem hefur aukið álagið enn frekar. Þá hefur slökkvilið verið lykilaðili í almannavarnarkerfinu sem hefur ýmist verið á óvissustigi, hættustigi eða neyðarstigi undanfarið eitt og hálft ár. Meirihluti borgarráðs vill þakka Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fyrir ósérhlífni og fórnfýsi í störfum sínum á afar krefjandi og víðsjárverðum tímum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt nýlegri starfsánægjukönnun slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er ástandið mjög slæmt og eru allir mælikvarðar á rauðu. Ljóst er að taka þarf á þessum málum af mikilli festu.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kolsvört – eða réttara sagt eldrauð starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kynnt. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur kallað eftir henni í marga mánuði. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020. Á henni er augljóst að ekki er hægt að kenna COVID-19 um lélegan vinnuanda innan slökkviliðsins. Stofnaðir voru úrbótahópar í maí 2019 sem komu með tillögur að úrbótum sem greinilega hafa misst marks því í nóvember 2020 eru allir þættir sem spurt var um komnir á rautt sem flokkast meðalgóður árangur og undir. Mikil óánægja er með starfshætti innan slökkviliðsins. Borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreint með ólíkindum að hann hafi ekki tekið á málinu með festu til að laga ástandið. Í staðinn eru undirmenn látnir fara. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita meira um starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og þurfa birtingarmyndir um niðurstöður hennar að vera birtar með skýrari hætti en í einhverjum pýramídamyndum með litum, flestir á logandi rauðu sem sýnir að ástandið er svakalegt. Taka þarf fram í samfelldum texta helstu atriði könnunarinnar, t.d. hvernig starfsfólki líður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hvernig er starfsandinn, hvernig ganga samskipti við yfirmenn, hvernig koma yfirmenn fram við undirmenn, hvernig upplifa starfsmenn virðingu, umhyggju og skilning af hálfu yfirmanna og eru tilfelli um einelti, áreitni, ef svo er hvað eru þau tilfelli mörg og hefur verið unnið með fullnægjandi hætti í þeim málum? Það skiptir sennilega hvergi eins miklu máli að starfsmenn upplifi yfirmenn sína umvefjandi, hlýja og sanngjarna eins og á vinnustaðnum sem þessum þar sem starfsmenn eru í mörgum útköllum í beinni lífshættu.

    Jón Viðar Matthíasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. maí 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um undirbúning hönnunarsamkeppni um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja eru send borgarráði til kynningar. R21040323

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurgera á Laugardalslaugina og viðhalda í meginatriðum útliti eldri mannvirkja. Þó verði einnig kallað eftir þróun og aukinni notkun stúkumannvirkis og annarra vannýttra hluta bygginganna svo sem eldri afgreiðslu og búningaaðstöðu. Stefnt verði að því að endurgerðin verði umhverfisvottuð út frá „BREEAM Refurbishment“ og standist kröfur um græna fjármögnun í takt við Græna planið. Þá verði lögð sérstök áhersla á aðgengi fyrir alla og algilda hönnun, bæði hvað allt húsnæði varðar og þau tæki til afþreyingar sem í boði verða, m.a. með rennibraut fyrir alla.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. maí 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Nýsköpunarvikuna árið 2021 um 1 m.kr. og geri samning um að vera einn af burðarstólpum hátíðarinnar árin 2021-2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21020157
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk hins opinbera að vera að eyða háum fjárhæðum af almannafé í þá tilraunastarfssemi sem „nýsköpunarvinna“ í rauninni er. Það eru fyrst og fremst einkafyrirtæki sem eiga að leiða þennan „nýsköpunarvagn“; það eru einkaaðilar sem eiga að taka þá fjárhagslegu áhættu sem fólgin er í kostnaðarsamri nýsköpun af hvers lags tagi. Það er ekki hægt að réttlæta það lengur að meirihlutinn í Reykjavík skuli vera að auka fjármagn enn frekar undir merkjum nýsköpunar á kostnað þjónustu við fólkið bæði grunnþjónustu að aðra sem borgarbúa þurfa. Nýsköpun er litla barn þessa meirihluta og er greinilega í forgangi. Orðið nýsköpun er farið hljóma eins einhverskonar mantra sem meirihlutinn fer með aftur og aftur til þess að réttlæta það mikla fjármagn sem búið er að setja í þessa hluti margsinnis án skilgreininga, skýrra markmiða og oft án sýnilegs árangurs eða afurða. Reykjavíkurborg á að fylgjast með því sem einkaaðilar hérlendis sem erlendis, eru að gera í þessum málum og nýta sér svo þær lausnir sem það nýsköpunarferli skilar af sér og sýnt hefur verið fram á að beri árángur. Þannig er best farið með fjármuni Reykjavíkinga.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. maí 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að hönnunarforsendur nýs Náttúru- og fræðsluhúss í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum gangi út frá samnýtingu fermetra fyrir safnfrístund að verulegu leyti og verði hámarksstærð Náttúru- og fræðsluhússins því 1.450 m2 . Æskilegt væri að hægt yrði að stækka bygginguna og bæta við aukasal (um 200 m2 ) í síðari áfanga ef aftur vaknar áhugi á veglegri vísinda- og upplifunarsýningu í samvinnu við ríkið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21040310
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að kanna samstarf við tæknifyrirtæki varðandi útfærslu sýningarinnar og gera hana sem áhugaverðasta.

    -    Kl. 12.30 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. maí 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík sem reist verður á svæði við Mosaveg, 112 Reykjavík. R21050038

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja samning milli borgarinnar og heilbrigðisráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi. Alls verða rýmin 132-144 og er hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar um fjölgun hjúkrunarrýma. Samkvæmt samningnum hefst undirbúnings- og framkvæmdartími á öðrum ársfjórðungi 2021 og stefnt að því að taka heimilið í notkun á öðrum ársfjórðungi 2026.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ekkert hefur gerst í þessum málum í 3 ár eða frá því fyrir kosningar en þá var lofað 300 rýmum. Það er gott að nú sé komin hreyfing á hlutina, það verður þó að passa að þetta sé gert í fullu samráði við Borgarholtsskóla sem hefur verið að falast eftir þessari sömu lóð til þess að stækka skólann. Mikilvægt er að fundin verði lausn með skólanum og honum úthlutað lóð til þess að stækka líkt og óskað hefur verið eftir. 
     
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja eigi hjúkrunarheimili við Mosaveg og að lögð sé fram viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis á Ártúnshöfða. Nú þegar eitt ár er eftir af kjörtímabilinu glittir í aðgerðir. Mikill skortur er á hjúkrunarheimilum í Reykjavík og hefur fólk þurft að vera á sjúkrahúsum án þess að þurfa þess vegna þess að ekki er til hjúkrunarheimilispláss. Dæmi hafa verið um að eldri borgari er neyddur á hjúkrunarheimili út á land því ekki er til pláss í Reykjavík. Árið 2019 biðu 273 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu eftir varanlegri vistun, af þeim eru 158 með lögheimili í Reykjavík. Ekki var þá yfirsýn yfir hvar þeir voru sem biðu eftir innlögn á hjúkrunarheimili, þ.e. hversu margir voru á Landspítala og hversu margir heima. Landspítalinn er orðinn stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni. Staðan er ekki betri í dag.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags 4. maí 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík sem reist verður á svæði við Ártúnshöfðann, 110 Reykjavík.  R21050038

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja viljayfirlýsingu um uppbyggingu hjúkrunarheimilis við Ártúnshöfða. Stefnt er að því að rýmin verði alls 200 talsins en verkefnið er hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar um fjölgun hjúkrunarrýma. Miðað er við að verklegar framkvæmdir hefjist árið 2023 og heimilið verði tekið í notkun árið 2026.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Allri uppbyggingu hjúkrunarheimila í Reykjavík er fagnað. Mikill skortur er á hjúkrunarrýmum í borginni. Að vísu er hér bara um að ræða viljayfirlýsingu en líklega bætist þar með við glærusýningarnar sem borgarstjóri skreytir sig með og að öllum líkindum verða þær settar inn í talningar um íbúðir/búsetuúrræði í borginni. Látum ekki slá ryki í augu okkar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja eigi hjúkrunarheimili við Mosaveg og að lögð sé fram viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis á Ártúnshöfða. Nú þegar eitt ár er eftir af kjörtímabilinu glittir í aðgerðir. Mikill skortur er á hjúkrunarheimilum í Reykjavík og hefur fólk þurft að vera á sjúkrahúsum án þess að þurfa þess vegna þess að ekki er til hjúkrunarheimilispláss. Dæmi hafa verið um að eldri borgari er neyddur á hjúkrunarheimili út á land því ekki er til pláss í Reykjavík. Árið 2019 biðu 273 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu eftir varanlegri vistun, af þeim eru 158 með lögheimili í Reykjavík. Ekki var þá yfirsýn yfir hvar þeir voru sem biðu eftir innlögn á hjúkrunarheimili, þ.e. hversu margir voru á Landspítala og hversu margir heima. Landspítalinn er orðinn stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni. Staðan er ekki betri í dag.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. maí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um starfsánægjukönnun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021. R21010166

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kolsvört – eða réttara sagt eldrauð starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kynnt. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur kallað eftir henni í marga mánuði. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020. Á henni er augljóst að ekki er hægt að kenna COVID-19 um lélegan vinnuanda innan slökkviliðsins. Stofnaðir voru úrbótahópar í maí 2019 sem komu með tillögur að úrbótum sem greinilega hafa misst marks því í nóvember 2020 eru allir þættir sem spurt var um komnir á rautt sem flokkast meðal góður árangur og undir. Mikil óánægja er með starfshætti innan slökkviliðsins. Borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreint með ólíkindum að hann hafi ekki tekið á málinu með festu til að laga ástandið. Í staðinn eru undirmenn látnir fara.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 23. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðbrögð Reykjavíkurborgar við athugun á upplýsingum fyrir fatlað fólk á vefsíðum, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021. R21030283

    Fylgigögn

  28. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 29. mars, 12., 26. og 27 apríl 2021. R21010018

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 29. apríl 2021. R21010004

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið:

    Nú liggur fyrir skýrsla frá rannsóknarnefnd samgönguslysa þar sem fram kemur að malbik frá Malbikunarstöðinni Höfða hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur um gæði. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sem eigandi annars vegar og verkkaupi hins vegar gæti að gæðamálum og að stöðlum sé fylgt. Vakin er athygli á svari í fundargerð innkauparáðs þar sem fram kemur að Höfði er nánast í öllum tilfellum lægst bjóðandi í þeim útboðum á vegum Reykjavíkurborgar þar sem verslað er með malbik.

    Fylgigögn

  30. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Laugardals frá 12. og 26. apríl 2021. R21010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið: 

    Í fundargerð íbúaráðs Laugardals er birt bókun ráðsins þess efnis að íbúaráð Laugardals beinir því til skipulags- og samgönguráðs að loka bílastæðum austan göngustígs við World Class Laugar. Þetta er hið besta mál að mati fulltrúa Flokks fólksins og mikið öryggisatriði. Þarna er alls konar óþarfa umferð eftir því sem íbúar segja. Fólk er að koma í ræktina, sumir aka upp að dyrum, á mismiklum hraða. Fulltrúi Flokks fólksins styður þetta heilshugar og vonar að afgreiðslan verði jákvæð.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. apríl 2021. R21010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari afgreiðslu íbúaráðsins sem hefur ákveðið að óska eftir fundi með skrifstofu samgöngustjóra til að koma viðhorfum íbúa á framfæri um ljósastýrðar gönguþveranir yfir Lönguhlíð við Blönduhlíð. Þetta er einmitt hlutverk íbúaráða, að hlusta á fólkið í hverfinu og vera framhandleggur þess inn í valdakerfi borgarinnar þegar borgarbúum líst ekki á fyriráætlanir yfirvalda.

    Fylgigögn

  32. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 13. og 28. apríl 2021. R21010024

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 29. apríl 2021. R21010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að íbúaráðið hefur fjallað um þetta mál. Hlusta þarf á íbúa áíBrekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til og hvatt skipulagsyfirvöld til að að hlusta á íbúa enda hér um samstíga ákall íbúa sem benda á atriði er varðar öryggi barna þeirra. Skipulagsyfirvöld eiga að hlusta á sjónarmið fólksins og breyta samkvæmt þeim eins og mögulegt er. Enginn veit betur um hættur í hverfum en íbúarnir sjálfir. Í þessu tilfelli er mikil samstaða meðal íbúa í málinu og hafa fulltrúar þinglýstra eigenda allra íbúðarhúsa við Brekkugerði sett nafn sitt við bréf til skipulagsyfirvalda þar sem sem að sú fyrirætlan sem er á borðinu er ekki talin leysa málið.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 21. apríl 2021. R21010016

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 5. maí 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur með fyrirvara um endanlega undirritun fundargerðar skipulags- og samgönguráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld hugi sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð. Tillögunni hefur verið vísað frá með þeim rökum að hér sé um að ræða skoðun kjörins fulltrúa. Það er sérkennileg að mati fulltrúa Flokks fólksins að þegar lagt er til að leiksvæðum barna sé hlíft sé sagt að það sé skoðun kjörins fulltrúa. Öllu má nú nafn gefa. Það er miður að þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn gangi svo langt að skorið sé af leiksvæðum barna. Þetta á einnig við um græn svæði sem ýmist er byggt á eða þau manngerð. Slíkur er ákafi þessa meirihluta að byggja á hverjum bletti. Það mætti vel fara einhvern milliveg, nóg er af landi og með tíð og tíma mun borgin verða að dreifast meira. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borg barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef fram heldur sem horfir.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 16. apríl 2021. R21010012

    Fylgigögn

  37. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. apríl 2021. R21010013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið: 

    Fundargerðin er rýr. Fram kemur að áætlað er að fara út í umfangsmikla skógrækt á Álfsnesi. Er það hlutverk SORPU? Ekki er séð hvernig SORPA á að nýta þessa skógrækt. SORPA fær nú þegar mikið af trjáafgöngum frá borgarbúum sem ekki er að sjá að eru nýttar, nema í moltu. Er þessi skógrækt annars ætluð til moltugerðar?

    Fylgigögn

  38. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál. R21050018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir umsögn samráðshóps Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðingu neysluskammta) í henni segir „að með afglæpavæðingu neysluskammta má gera ráð fyrir að aðgengi að vímuefnum verði meira. Það er þekkt staðreynd að aukið aðgengi að vímuefnum eykur neyslu. Þessi breyting, verði hún að lögum, getur auðveldað unglingum að verða sér út um vímuefni og því aukið neyslu þeirra. Það er vissulega jákvætt að draga úr neikvæðu viðhorfi til hópa sem neyta vímuefna en það er áhyggjuefni að það hafi einnig jákvæð áhrif til vímuefnanna sjálfra í samfélaginu og þá sérstaklega meðal unglinga. Áhyggjur eru einnig af því að miðað er við 20 ára aldurstakmark í 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, því skýtur skökku við að í frumvarpinu sé miðað við 18 ára aldur en ekki 20 ára eins og í áfengislögunum.” Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að löggjöfin þarf ávallt að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni barna og í öllum lagasetningu sem snerta mögulega börn og ungt fólk þarf að gera áhættumat með tilliti til barna og unglinga, sbr. 3. gr. barnasáttmálans.

    Fylgigögn

  39. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21050019

    Fylgigögn

  40. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R21010036
    Samþykkt að veita Neytendasamtökunum styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna aðstoðar við neytendur.
    Samþykkt að veita Borgarblöðum ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna útgáfu Breiðholtsblaðsins og Vesturbæjarblaðsins.
    Samþykkt að veita Götubita ehf. styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna viðburða Götubitans - Reykjavík Street Food árið 2021.

    -    Kl. 12.50 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  41. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Nú eru yfirstandandi tvö útboð tengd umferðarljósum, annað á Seltjarnarnesi, vegna ljósa á gatnamótum Suðurstrandar og Nesvegs, og hins vegar á gatnamótum Snorrabrautar og Borgartúns. Reykjavíkurborg hefur séð um að þjónusta umferðarljós í nágrannasveitarfélögum. Kostnaði er síðan skipt á milli borgarinnar og Vegagerðarinnar í tilteknum hlutföllum án þess að Vegagerðin skoði hvað liggur að baki. Líkt og vant er koma þar fram upplýsingar um kröfur sem búnaður þarf að uppfylla. Meðal annars þurfa stýrikassar ljósanna að geta tengst miðlægri stýritölvu umferðarljósa en hana keypti borgin af Smith & Norland á tæplega 63 milljónir króna án útboðs.
    1.    Hvers vegna halda Reykjavíkurborg og Vegagerðin áfram uppteknum hætti hvað varðar útboð á ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu?
    2.    Hvers vegna eru skilmálar yfirstandandi útboða með þeim hætti að örðugt er fyrir alla nema einn að taka þátt í útboðinu þrátt fyrir að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði fyrir áramót að borgin og Vegagerðin skyldu greiða sekt vegna þess hvernig staðið var að kaupum á miðlægu stjórntölvunni? R21050087

  42. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    1.    Hvað kostaði hver söluskáli við Slippinn/Ægisgarð sem Faxaflóahafnir byggðu og leigja nú út? 
    2.    Hvað eru söluskálarnir margir? 
    3.    Hver er heildarupphæð við verkið í heild sinni tæmandi talið? R21050094

    Vísað til umsagnar Faxaflóahafna.

  43. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    1.    Hvað hafa framkvæmdir vegna gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJA, stöð SORPU kostað frá upphafi til 1 maí 2021 tæmandi talið?
    2.    Hver var rekstrarkostnaður frá því að GAJA hóf starfsemi til dagsins í dag tæmandi talið?
    3.    Hvað hefur SORPA borgað í auglýsingar hjá miðlum og samfélagsmiðlum frá 1. janúar 2020 til 1 maí 2021 tæmandi talið?
    4.    Hversu mikið hefur SORPA borgað fyrir utankomandi ráðgjöf vegna markaðs og kynningarmála á árabilinu 2015- 2021 sundurliðað eftir árum?
    5.    Hversu mikið metangas hefur SORPA selt frá 1 janúar 2020 til 1 maí 2021 og til hverra tæmandi talið?
    6.    Hversu mikið metangas hefur SORPA brennt frá 1 janúar 2020 til 1 maí 2021?
    7.    Hvað kostaði nýr brennari sem SORPA keypti til að brenna umfram metangasframleiðslu?
    8.    Hvað eru fjárkröfur vegna málssókna á hendur SORPA bs. háar tæmandi taldar sundurliðað eftir málum? R21050086

    Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga hvernig á að nota 314 fermetra húsnæði sem þjónustu- og nýsköpunarsvið tekur á leigu í 2 og hálft ár, leiga per mánuð er tæp milljón og mun verða 30 milljónir á tímabilinu. Hverjir verða í þessu húsnæði og hvaða hlutverkum munu þeir gegna? Í hvaða starfsemi á að nota þetta húsnæði? R21050001

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  45. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá nánari útfærslu á eftirfarandi kostnaði: Hver er kostnaður sviðstjóra og æðstu stjórnenda þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna ferða erlendis, námskeiða og ráðstefna og einnig risnu síðastliðin 4 ár. Óskað er sundurliðunar eftir starfsheitum. Einnig hver var kostnaður skrifstofustjóra og æðstu stjórnenda forvera þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem var skrifstofa þjónustu og reksturs á því tímabili sem nefnt er? R21050088

  46. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. í nóvember 2020, eru niðurstöður birtar í pýramídamyndum með litum og eru illa aðgengilegar. Rautt þykir slæmt og er mikið rautt í pýramídunum. Hafa niðurstöður starfsánægjukönnunarinnar verið ræddar meðal starfsmanna og liggja fyrir viðbrögð við henni. Hverjar eru niðurstöður þeirrar vinnu í stuttu máli? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá samantekt úr þessari könnun um hvernig starfsfólki hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins líður, hvernig er starfsandinn? Hvernig ganga samskipti við yfirmenn? Upplifa starfsmenn virðingu, umhyggju og skilning af hálfu yfirmanna? Spurt er um hvort það séu tilfelli um einelti, áreitni, ef svo er hvað eru þau tilfelli mörg? Hvernig hefur verið unnið með þessi tilfelli? Finnst starfsmönnum (þolendum) það hafa verið gert með fullnægjandi hætti? Óskað er eftir upplýsingum um það hvort niðurstöður hafi komið á óvart og ef svo er, hvað kom á óvart og hverjum finnst þær koma á óvart? Eru það yfirmenn? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá niðurstöður þessarar könnunar birtar í samfelldum texta. R21030227

Fundi slitið klukkan 13:05

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0605.pdf