Borgarráð - Fundur nr. 5624

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 29. apríl, var haldinn 5624. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru auk borgarstjóra Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Kr. Ólafsson, og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram að nýju samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 (A- og B-hluti), ódags., ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, ódags., og minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna álits reikningsskila- og upplýsinganefndar nr. 1/2020, dags. 13. apríl 2021, sbr. 79. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. apríl sl. Einnig er lögð fram yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2020, dags. 29. apríl 2021 og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2020, dags. 27. apríl 2021. R20110101

    -    Kl. 9:38 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 hefur verið undirbúinn af fjármála- og áhættustýringarsviði í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 
    Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkur 2020 til fyrri umræðu í borgarstjórn.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru birtast í rekstri borgarsjóðs og A- og B-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2020. Hröð kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins og lokanir vegna faraldursins hafa leitt til þess að sá vöxtur tekna sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2020 hefur ekki skilað sér, hvort sem litið er til útsvarstekna eða annarra tekna. Stóraukið atvinnuleysi hefur því haft í för með sér lægri tekjur borgarinnar og aukin útgjöld. Veiking krónunnar hafði umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu Reykjavíkur ásamt því að mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Ennþá er óvissa um hversu lengi ástandið varir og hvenær megi ætla að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur af fullum krafti og af þeim sökum erfitt að meta áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar með áreiðanlegum hætti til framtíðar. Græna planið er viðspyrnuáætlun Reykjavíkur og gerir ráð fyrir umfangsmiklum grænum fjárfestingum og stafrænni umbreytingu sem hluta af leið borgarinnar út úr efnahagskreppunni. Áætlanir um bólusetningar gefa tilefni til bjartsýni á að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á þessu ári.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjárhagsstaða Reykjavíkur er verulega slæm. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um tæpa 10 milljarða en rekstrarniðurstaða Eignarsjóðs var jákvæð um 4 milljarða og er útkoman því halli upp á 5,8 milljarða þrátt fyrir að tekjupóstar hafa aukist á árinu 2020. Fasteignaskattar hafa aukist um 4% og útsvar um 3% frá árinu 2019. Báknið þenst út og stöðugildi jukust um 5% og laun- og launatengd gjöld hækkuðu um 12% á milli ára. Það er með ólíkindum að ráða svo margt nýtt fólk í COVID ástandi. Skuldir og skuldbindingar ársins hækkuðu um 11,5 milljarð. Samstæðan: Tekjur samstæðunnar jukust um 3% en rekstrarniðurstaða var neikvæð um 2,8 milljarða. Hagnaður ársins 2019 var hinsvegar 11,2 milljarðar. Það er viðsnúningur upp á 14 milljarða á einu ári sem ekki verður í heild sinni skrifaður á COVID. Skuldaviðmið samstæðu sveitarfélaganna skal ekki fara yfir 150% samkvæmt lögum. Sérstakt Reykjavíkur-undanþáguákvæði um að veitu- og orkufyrirtæki skulu ekki vera tekin með í samstæðureikningsskilum hefur nú verið framlengt til 2025. Ákvæðið átti að renna út 2022. Sé Orkuveita Reykjavíkur tekin inn í samstæðuna er skuldahlutfall samstæðunnar 168% sem er langt yfir lögbundnu skuldahlutfalli. Það er því ekki bara froðubókhald í kringum Félagsbústaði sem fegrar ársreikninginn sem þó er ekki fagur. 

    Halldóra Káradóttir, Sturla Jónsson, Theodór S. Sigurbergsson, Lárus Finnbogason, Hallur Símonarson, Gísli H. Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þ. Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. apríl 2021, um grænt bókhald Reykjavíkurborgar. R21040246

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru talsverð vonbrigði að Reykjavíkurborg sé að auka notkun sína á eldsneyti milli ára. Notkun jarðefnaeldsneytis hefur vaxið verulega frá árinu 2018, en þar af hefur bensínnotkun aukist um 40% frá að þessi meirihluti tók við. Þá er aukning á dísil um 5% og losun á CO2 ígildum hefur aukist um 9% á kjörtímabilinu. Þetta er þvert á yfirlýst markmið borgarinnar en árið 2020 átti losun vegna eldsneytisnotkunar Reykjavíkurborgar að vera 425 tonn en var 827 tonn! Það skýtur skökku við að á sama tíma og iðnaðurinn, útgerðin og heimilin hafa minnkað losun og fært sig yfir í rafmagn að þá sé Reykjavíkurborg að stórauka notkun á jarðefnaeldsneyti. Ljóst er að það plan sem unnið hefur verið eftir á þessu kjörtímabili er nærri því að vera grátt en grænt.

    Halldóra Káradóttir og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram ársskýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. apríl 2021, varðandi framkvæmd styrkjareglna 2020. R21040113

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram skýrsla um framkvæmd styrkjareglna 2020. Við skoðun á útdeilingu fyrra árs sjást nokkur mál sem við fyrstu sýn vekja spurningar. Til dæmis fá sambærilegar stofnanir ólíkar upphæðir og munar jafnvel um eina milljón. Hvergi er Barnaheill að sjá og þykir ólíklegt að Barnaheill á Íslandi hafi ekki sótt um. Almennt eru fáir styrkir sem fara í að sinna börnum beint. Eftir því er tekið að Hannes Hólmsteinn Gissurarson fær styrk á 2,585 milljónir og sker sig úr meðal einstaklinga. Ljóst er að eitthvað þarf að skoða þessi mál, hverjir eru að fá styrki, út á hvað og upphæðirnar.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. apríl 2021, um samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2020. R20010161

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram ársskýrsla Reykjavíkurborgar, dags. 15. apríl 2020, vegna útgáfu grænna skuldabréfa, ásamt fylgiskjölum. R21040253

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 26. apríl 2021, varðandi beiðni Félagsbústaða um heimild til sölu íbúðar og endurgreiðslu stofnframlags. R19050037
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  7. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna hluta Hólmgarðs 34, ásamt fylgiskjölum. R21040194
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um viðbyggingu fyrir verknámsaðstöðu við Fjölbrautaskólann í Reykjavík, í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 3. desember 2020 um að Reykjavíkurborg skyldi ganga til viðræðna við ráðuneytið um þátttöku í verkefninu. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er 1.058,3 milljónir skv. frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins. Reykjavíkurborg greiðir 40% stofnkostnaðar vegna nýbygginga skv. samningi. Áður en til framkvæmda kemur skal gera samning milli ráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Framkvæmdasýslu ríkisins um fjármögnun verksins, greiðsluflæði, boðleiðir, samskipti, upplýsingagjöf og aðrar skyldur samningsaðila. Gerður er fyrirvari um fjárveitingar í fjárhagsáætlun hvers árs.  R20110131

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands fyrir árið 2021. Samningurinn er til eins árs. Kostnaður samkvæmt samningnum er 2.750.000 kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20100231
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, þar sem drög að erindisbréfi samstarfshóps um Loftslagsskóga Reykjavíkur eru send borgarráði til kynningar. R21040182

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á trúnaðarmerktri tillögu að úthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði árið 2021, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R21040244
    Samþykkt. 
    Trúnaður er um efni tillögunnar þar til afhending styrkjanna fer fram.

    Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 7. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Gufuness, 1. áfanga, vegna lóðarinnar nr. 9 við Jöfursbás, ásamt fylgiskjölum. R21010258
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, vegna lóðarinnar nr. 20B við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum. R21040247
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 1 við Lækjargötu, lóð forsætisráðuneytisins og stjórnarráðshússins, vegna áforma um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið, ásamt fylgiskjölum. R21040248
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits. 1.131, Nýlendureits vegna lóðarinnar nr. 14 við Nýlendugötu, ásamt fylgiskjölum. R21040250
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um hækkun launa nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2021 sem samþykkt var á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar þann 21. apríl sl. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka vegna þessa. R21040245

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 2. áfanga endurgerðar á sjóvarnargarði við Eiðsgranda og Ánanaust, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 250 m.kr. R21040242
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt væri að huga að bættu aðgengi að vesturströndinni við Ánanaust og vinna að útfærslu að því samhliða þessum framkvæmdum. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingahverfum 2021. Kostnaðaráætlun 2 er 560 m.kr. R21040249
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um löngu tímabærar framkvæmdir enda hefur uppbygging hverfisins dregist árum saman. Enn bólar ekkert á útsýnispalli sem setja átti á toppi Úlfarsfells samhliða umdeildu mastri. Þá eru gönguleiðir að Úlfarsfelli torveldar yfirferðar. Þessu þarf að ráða bót á sem allra fyrst svo þessi útvistarperla sé vel aðgengileg.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á tillögu um að framlengja tímabundnar göngugötur þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi. R21040317
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Hildur Björnsdóttir borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn eitt klúðrið í stjórnsýslu Reykjavíkur. Lokun Laugavegarins er mjög ljótur blettur á störfum meirihlutans. Lokunina skortir lagaheimildir – þessi tillaga staðfestir það. Enn er verið að leggja til að framlengja lokun á undanþáguákvæði sem er framlenging á tímabundinni ákvörðun „þar til deiliskipulag taki gildi“ og varanleg lokun Laugavegarins verði að veruleika. Tillagan sem lá fyrir fundinum var svo illa unnin að skrifa þurfti nýja tillögu og leggja fyrir fundinn. Enn einu sinni er verið að ögra rekstraraðilum á svæðinu en þeim, Reykvíkingum og landsmönnum öllum má vera ljóst að lokunin er eitt stórt fíaskó sem byggir á veikum lagagrunni. Laugavegurinn er rústir einar og líkist yfirgefnum draugabæ í eyði svo ekki sé talað um þær hörmungar sem rekstraraðilar hafa mátt þola frá borgarstjóra og meirihlutanum. Skömmin og ábyrgðin er þeirra. Munið það, Reykvíkingar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsráð vill framlengja göngugötur þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi og þá eiga þessar götur að vera varanlegar göngugötur og er málið lagt fram í borgarráði. Eins og fram kom á fundi skipulags- og samgönguráðs 28. apríl þá er tillagan ótímabundin í reynd. Tillagan reyndist síðan ekki tæk hjá meirihlutanum og semja þurfti nýja í hasti. Málið er því allt frekar klúðurslegt. Enn hefur ekkert samráð verið haft við hagaðila um ákvörðunina. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikil óánægja er með framkomu borgarinnar í þessu máli sem hefur verið í algleymingi undanfarin tvö ár. Í ljósi samráðsleysis við hagaðila og aðra óttast fulltrúi Flokks fólksins að hér sé verið að hella olíu á eld. Taktískara hefði verið að hreinlega opna nú fyrir umferð og sjá áhrifin af því, þótt ekki væri nema tímabundið. Vel kann að vera að viðskipti myndu þá glæðast í miðbænum.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl 2021 á tillögu að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21040243
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Hildur Björnsdóttir borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi. Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar, sem áréttað er í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur, að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Til að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni, þar sem ólíkir ferðamátar mætast, er nauðsynlegt að taka mið af gangandi og hjólandi vegfarendum. Stórt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða. Samfélagslegur ávinningur þess að bæta umferðaröryggi með því að draga úr hraða ökutækja á götum borgarinnar er ótvíræður. Borgir víða um heim hafa farið þessa leið enda sýna allar rannsóknir að slysum fækkar með lækkandi hraða.

    Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að miðstýrð aðferðarfræði henti ekki til að tryggja umferðaröryggi og umferðarflæði. Tafatími í umferð er mjög mikill í borginni og mun aukast við þessa framkvæmd. Hætta er á að auknar umferðartafir verði til þess að umferðarflæði fari inn í íbúðagötur og skapi þannig óþarfa hættu. Hættulegustu gatnamót borgarinnar eru ljósastýrð og þeim þarf að breyta. Í þessari áætlun borgarinnar er gert ráð fyrir að fjárfesta fyrir milljarða í auknum þrengingum á götum borgarinnar. Dæmi um áhrif inngripa er frá árinu 2014 þegar þrengt var að Hofsvallagötunni. Samkvæmt umferðartalningu borgarinnar jókst umferð í nærliggjandi götum um 1.000 bíla á sólarhring. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að lækka hámarkshraða vegna öryggissjónarmiða en það á ekki við alls staðar. Árangursríkara er að hvetja fólk til að nota nagladekk minna og að borgin gæti að þrifum gatna sinna, fremur en að beita yfirgripsmiklum hraðatakmörkunum til að stemma stigu við svifryksmengun. Þá er rétt að benda á að umsögn Strætó bs. er neikvæð enda muni breytingin lengja ferðatíma Strætó. Gert er ráð fyrir að Suðurlandsbraut fari úr 60 km hraða í 40 km og Bústaðavegur og Grensásvegur fari í 40 km hraða. Auk þess er stefnt að hraðalækkun mikilvægra umferðargatna í Breiðholti og í Grafarvogi.

    Hildur Björnsdóttir borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar felur í sér margvíslegar jákvæðar breytingar sem stuðla munu að auknu öryggi innan hverfa borgarinnar. Róleg umferð innan borgarhverfa stuðlar ekki síst að auknu öryggi barna sem ferðast daglega um hverfin til að sækja skóla, íþróttir og aðrar tómstundir. Það vakti athygli hve mörg íbúaráð greindu frá skýrum vilja í umsögnum sínum til enn frekari hraðalækkana og hraðaeftirlits innan hverfa. Hraðalækkanir á stofngötum og borgargötum voru hins vegar umdeildari. Þeim hefðu mátt fylgja betri gögn um þjóðhagslega hagkvæmni, áhrif á umferð í nærliggjandi íbúðagötum og ítarlegar tímaáætlanir. Á þessu stigi er því erfitt að taka afstöðu til áætlunarinnar í heild. Þá má gagnrýna hvernig staðið hefur verið að kynningu á áætluninni, en illa hefur tekist að upplýsa borgarbúa um að hraðalækkanir eigi ekki að taka til stofnbrauta í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Aðgerðir vegna lækkunar hámarkshraða í 30 km á borgargötum eru áætlaður 1,5 milljarður. Er borgarstjóri og meirihlutinn ekki með öllum mjalla? Finnst fólki í lagi að þessir aðilar sem stjórna Reykjavíkurborg á minnihluta atkvæða geti tekið svona einhliða ákvörðun að lækka umferðarhraða í 30 km sisvona. Ekki stóð á áróðursdeild Ráðhússins í gær þegar þjófstartað var í fréttum RÚV bæði kl. 19:00 og 22:00 þar sem delerað var um þessar hugmyndir og borgarstjóri var tekinn í viðtal áður en málið er kynnt í skipulags- og samgönguráði. Öll áhersla var lögð á að þessi tillaga myndi minnka svifryk, á fundinum er hins vegar öll áhersla lögð á slysahættu. Einmitt – hvers vegna er þá ekki farið í samgöngubætur á slysamestu gatnamótum Reykjavíkur? Uppreiknuð arðsemi er talin vera 70% og er þá átt við samfélagslegan sparnað. Einungis ein breyta er tekin inn en ekki tekinn inn í myndina tafakostnaður fjölskyldnanna, fyrirtækjanna og Strætó. Ekki er búið að keyra þessa breytingu í gegnum nýtt umferðarmódel og er skýrt brot á samgöngusáttmálanum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og mengun eins og sjá má víða í borginni. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir að framlagðar hafi verið margar nothæfar tillögur. Þessi mál eru ekki einföld. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði alltaf til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni.

    Ólöf Örvarsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um skipulagningu Keldnalands eru send borgarráði til kynningar. R21040162

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Árið 2019 skrifaði Reykjavíkurborg undir samgöngusáttmála þar sem sérstaklega var kveðið á um að flýta skipulagningu Keldnalandsins. Nú er árið 2021 og nú fyrst er skipaður starfshópur um málið. Þetta lýsir ekki miklum framkvæmdavilja. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er lagt fram erindisbréf starfshóps um skipulagningu Keldnalands. Starfshópurinn getur leitað til sérfræðinga innan og utan borgarkerfisins. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem það sé orðið eitt af meginatriðum erindisbréfa starfshópa að hvetja þá til að leita utanaðkomandi ráðgjafar. Væri ekki hægt að segja að fyrst ætti að leita ráðgjafa innan borgarkerfis? Sé nauðsynlegt að leita ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga er eðlilegt að sett sé þak þar á ,enda aðkeypt þjónusta dýr og mörg dæmi eru um að hún hafi farið úr böndum, sbr. dönsku stráin frægu. Það var keypt ráðgjöf.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gera tillögu að forgangsröðun framkvæmda og endurgerð gatna sem teljast skulu borgargötur til næstu fimm og tíu ára.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21040208
    Samþykkt. 
    Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um óljósa áætlun að ræða sem varðar gríðarmikla fjármuni. Reynslan hefur sýnt að framkvæmdir af svipuðum toga hafa tafist og farið langt fram úr áætlunum. 

    Hildur Björnsdóttir borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er umhverfis- og skipulagssviði falið að gera tillögu að forgangsröðun framkvæmda við gerð borgargatna. Þegar hafa verið skilgreindar borgargötur í hverfisskipulagi Árbæjar og Breiðholts. Borgargötum er ætlað að efla hverfi borgarinnar, stuðla að iðandi mannlífi, aukinni nærþjónustu og aðlaðandi borgarumhverfi. Þeim er ekki síst ætlað að mynda eins konar miðstöð verslunar og þjónustu og stuðla að aukinni sjálfbærni hverfa – þar sem íbúar geta sótt daglegar nauðsynjar í þægilegu göngufæri. Við borgargötur verði skynsamlegt samspil gangandi, hjólandi, almenningsvagna og bifreiða. Hönnun borgargatna er jákvætt skref í átt að öflugum, lifandi og sjálfbærum hverfum. Við forgangsröðun borgargatna er þó mikilvægt að tekið verði tillit til hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjallað er um borgargötur í skýrslu sem lögð er fram með málinu. Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 eru notuð hugtökin aðalgata og borgargata um þær götur sem taldar eru lykilgötur í hverju hverfi. Á þessum hugtökum er þó skilgreindur munur; aðalgata tekur til starfsemi við götuna á meðan borgargata tekur til hönnunar og útlits götunnar. Í skýrslunni segir að útlit skipti miklu máli fyrir borgargötu, fallegt umhverfi, (hlýleiki og skreytingar) til að þeim sem ekki eru á bíl líði vel að ferðast um götuna. Birtar eru fallegar myndir af mannvænum götum. Í myndskreytingar vantar hins vegar rokið, snjóinn og regnið, en til þeirra þátta þarf einnig að taka tillit. Fram kemur að Reykjavíkurborg hafi stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Um hvað snýst sú stefna? Er þetta ekki bara eitthvað sem er sagt en ekkert er á bak við? Fjölbreytt ræktun í einstökum beðum er ekki líffræðileg fjölbreytni.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021:

    Lagt er til að borgarráð heimili leigu 100-110 eininga af færanlegu húsnæði til að geta boðið ný leikskólapláss á næsta skólaári. Miðað er við að leigusamningar verði a.m.k. til þriggja ára. Jafnframt er óskað eftir heimild borgarráðs til að hefja útboðsferli við tvær fullbúnar leikskólarútur. Frumkostnaðarmat á færanlegu húsnæði með grundun, gerð leikskólalóðar og búnaði er um 250 m.kr. Gert er ráð fyrir að ársleiga á færanlegu húsnæði verði á bilinu 180-240 m.kr. Áætlaður kostnaður vegna tveggja fullbúinna leikskólarúta verði um 120 m.kr.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21040271
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt síðustu birtu tölum voru 737 börn, 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Til viðbótar er fjöldi barna á biðlista eftir plássi í sínu hverfi. Þetta ástand er óviðunandi og hefur því miður verið viðvarandi um árabil. Það er mikilvægt að þær lausnir sem hér eru kynntar mæti þessari miklu þörf, verði útfærðar með hraði og tryggi bætta þjónustu við fjölskyldur í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins skilur að finna þarf lausnir á vandamálum sem blasa við, alvarlegum skorti á leikskólaplássum. Það vantar 555 pláss fyrir 12 mánaða börn og fjölmörg pláss fyrir 18 mánaða börn. Ljóst er að áætlanir hafa engan veginn staðist. Nú þarf að finna lausnir með hraði. Kannski er kominn tími til að horfast í augu við að verkefnið Brúum bilið gekk ekki upp og er ástæðan fyrst og fremst sú að í þetta metnaðarfulla verkefni var ekki sett nægt fjármagn til að það gengi upp eins og lagt var upp með. Gert var ráð fyrir 700-750 nýjum leikskólaplássum fram til 2023 en nú kemur í ljós að 400 ný pláss vantar til viðbótar. Ekki gekk að spá nákvæmar en það um fjölgun barna. Lagt er til að fundin verði tímabundin lausn með því að notast annars vegar við færanlegt húsnæði og hins vegar við rútur. Færa þarf elstu börnin utandyra til að rýma fyrir yngstu börnunum. Í tilfellum „yfirflots“ eins og þetta er orðað þá á að taka kúfinn og fara með börnin í rútu á útisvæði þar sem þau dvelja yfir daginn. Að leika utandyra, úti í náttúrunni er vissulega heillandi hugmynd og mun mörgum börnum líka það vel. Hins vegar er gripið til þessara lausna vegna þess að leikskólakerfið er sprungið.

    Skúli Helgason, Gréta Þórsdóttir Björnsson, Halldóra Guðmundsdóttir og Edda Lydía Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 13:25 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

    Fylgigögn

  24. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 26. apríl 2021, varðandi viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2021. R18030153

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þrátt fyrir heimsfaraldur með tilheyrandi álagi, heimavinnu, fjarfundum og hörðum sóttvarnarreglum á vinnustöðum borgarinnar virðist það ekki hafa haft teljandi neikvæð áhrif á starfsandann samkvæmt þessari viðhorfskönnun. Einstaka svið koma þvert á móti marktækt betur út en í síðustu könnun. Næstu skref eru að stjórnendur borgarinnar vinni úr niðurstöðum könnunarinnar og bregðist við með viðeigandi hætti en að sama skapi ber að þakka stjórnendum fyrir vel unnin störf síðastliðið ár sem endurspeglast í því hve vel við höldum sjó í þessum efnum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ekki er mikið að marka þessa könnun að því leyti að niðurstöður hennar eru í engu tilliti samanburðarhæfar við fyrri ár vegna þess að margir hafa verið að vinna heima vegna COVID. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að fjölmargir sem ekki starfa í beinni þjónustu við fólk hafa ekki mætt á vinnustaðinn mánuðum saman síðasta ár. Hvernig á að bera þessar niðurstöður saman við niðurstöður sömu könnunar frá í fyrra og árin þar áður? Ef tekið er dæmi af manneskju sem líður illa á vinnustaðnum þá hefur hún starfað heima í öruggu umhverfi án þess að mæta því áreiti sem skapar henni vanlíðunina. Þessari könnun hefði átt að sleppa í ár. Annað sem vekur athygli er hvað svarhlutfall velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs er lágt, eða innan við 60%, á meðan svarhlutfall mannauðssvið er 95%. Hvernig er þetta túlkað? Fyrir umhverfis- og skipulagssvið og fjármálasvið vekur athygli hvað sviðin koma illa út þegar horft er t.d. til árangursríkra stjórnunarhátta. Ef horft er til þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafa tölur lagast. Það kemur kannski ekki á óvart því á síðasta ári var hópur starfsmanna rekinn og verkum útvistað til verktaka/einkafyrirtækja. Eru breytingar sem þessar teknar með þegar tölur eru túlkaðar?

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    COVID hefur aukið álag á starfsfólk Reykjavíkur og því hefði ekki komið á óvart ef tölur hefðu dalað í ár, en þær stóðu að mesta í stað sem er ánægjulegt. Það að niðurstöður viðhorfskönnunar henti ekki málflutningi einstaka fulltrúa eru ekki rök fyrir því að sleppa könnuninni, hundsa eða véfengja hana.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins gleðst ávallt þegar vel gengur hjá fólki í vinnu og því líður vel í vinnunni. Hins vegar þegar búið er að reka marga úr starfi og útvista verkefnum þeirra er það ávísun á að eitthvað sé að stjórnunarlega séð ekki síst. Eins og gefur að skilja svara verktakar og ráðgjafafyrirtæki ekki könnun af þessu tagi þannig að skiljanlega hafa tölur þjónustu- og nýsköpunarsviðs lagast. Almennt er það síðan mat fulltrúa Flokks fólksins að könnun þessari átti að sleppa fyrst og fremst vegna þess að hún er engan vegin samanburðarhæf við sambærilegar kannanir síðustu ár, enda árið 2020 fordæmalaust.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags 26. apríl 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. apríl á tillögu um breytingar á reglum um forvarnasjóð, ásamt fylgiskjölum. R21040259
    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 26. apríl 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. apríl 2021 á tillögu um breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum. R21040260
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Að þurfa að leggja út fyrir kostnaði til að fá styrkinn, getur verið stór hindrun fyrir margt tekjulágt fólk. Það eru ekki allir sem geta útvegað 45.000 krónur með auðveldum hætti og nauðsynlegt er fyrir ríkisstjórnina að taka það með í reikninginn. Þessi upphæð dugar skammt og þó það sé gaman að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi í einhvern tíma, þá geta það verið mikil vonbrigði að þurfa að hætta því vegna skorts á fjármagni og væntingastjórnun er eitthvað sem fátæk börn þekkja vel og forðast því stundum þátttöku í slíku starfi og foreldrar vilja ef til vill ekki valda börnum vonbrigðum með því að skrá barn í íþróttir eða tómstundir sem þau geta síðan ekki greitt fyrir næstu mánuðina. Við þurfum að tryggja samfélag þar sem ekkert barn er í slíkri stöðu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram í borgarráði tillaga að breytingu á reglum um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, fjármagn sem kemur frá ríkinu. Styrkþegi þarf að leggja út fyrir styrknum sem gæti verið hindrun þar sem fátækt fólk á einfaldlega stundum ekki krónu. Um er að ræða 45.000 sem er há upphæð fyrir þann sem ekki á kannski fyrir mat. Að öðru leyti eru reglurnar sveigjanlegar. Hægt er að nota styrkinn frá ríkinu á leikjanámskeið, sumarnámskeið og sumarbúðir. Öðru máli gegnir um sambærilegan styrk, frístundastyrkinn/kort íþrótta- og tómstundasviðs. Reglur um notkun frístundastyrksins eru það stífar að mörg börn geta ekki notið góðs af honum. Þetta er dapurt þar sem frístundakortið átti einmitt að hafa þann tilgang að auka jöfnuð og styðja sérstaklega við börn á tekjulágum heimilum til að stunda íþróttir sem liður í forvörnum. Nýting á frístundakortinu mætti vera betri og ætti að vera nærri 100% ef allt væri eðlilegt en er aðeins tæplega 80% í þeim hverfum þar sem nýting er mest.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 23. apríl 2021, um þau málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. R19100258

  28. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. T-93/2021. R21010186

  29. Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 157/2021. R20060156

  30. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 26. apríl 2021, um frumvarp til laga um loftferðir, 586. mál. R21030224
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  31. Lagt til að Einar Jón Ólafsson, Berglind Magnúsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Halldór Vignir Frímannsson, Helga Jóna Benediktsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Óli Jón Hertervig taki sæti í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Eirar. Jafnframt er lagt til að Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, Guðbrandur Guðmundsson og Ingibjörg Bjarnadóttir taki sæti sem varamenn. R21040205
    Samþykkt.

  32. Lagt til að Regína Ásvaldsdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Skjóls. Jafnframt er lagt til að Alexandra Briem og Berglind Eyjólfsdóttir taki sæti sem varamenn. R21040221
    Samþykkt.

  33. Lagt fram svar borgarlögmanns, dags. 26. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um yfirlit yfir dómsmál borgarinnar frá 2018, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R21010120

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Almennt á litið má ætla að málarekstur og varnir borgarinnar kunni að vera innan þeirra marka sem við má búast í sveitarfélagi af þessari stærð. Reykjavíkurborg á eða hefur átt aðild að 43 dómsmálum (hefðbundin einkamál) og 6 matsmálum á þessum tímabili sem spurt var um eða frá 2018. Af þeim 24 dómsmálum sem er lokið voru tíu mál felld niður að undangengnu samkomulagi. Þá má spyrja hefði ekki verið hægt að gera samkomulag fyrr þannig að ekki hefði þurft að koma til dómsmáls? Skiljanlega vill borgin ekki tapa máli.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til verktaka og fjölda þeirra hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2021. R21020055

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Starfsfólk Reykjavíkur er langt yfir 10.000 manns. Ætla mætti að slíkur fjöldi myndi ná að vinna þau verk sem meirihlutinn felur þeim, en svo er ekki. Útvistun verkefna til verktaka er ein leið til að „fela“ starfsmannafjölda. Samkvæmt svarinu voru greiddar rúmar 120 milljónir í verktakagreiðslur en einungis bárust fullnægjandi svör frá þremur skrifstofum af átta. Skrýtnast er svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs þar sem upplýst er um að „eingöngu eru gerðir samningar við fyrirtæki og einungis eru gerðar kröfur um að þeir vinni á starfsstað Reykjavíkurborgar ef upplýsingaöryggi krefst þess.“ Hér má áætla að um lögbrot sé að ræða því ef að verktakar eða starfsmenn fyrirtækja nota starfsstöð og tæki í þessu tilfelli Reykjavíkur þá eiga þeir að vera launþegar. Má alveg reikna með að verktakagreiðslur séu meira en helmingi hærri en upp er gefið. Því eru fyrirspurnirnar lagðar fram á ný til þeirra sviða sem ekki svöruðu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari við fyrirspurn frá Miðflokknum um fjölda verktaka hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi og greiðslur til þeirra kemur fram að verktakar eru víða ráðnir. Eitt svið sker sig úr og ræður ekki verktaka. Fram kemur að „Á þjónustu- og nýsköpunarsviði eru engir starfandi verktakar. Eingöngu eru gerðir samningar við fyrirtæki“. Sú spurning vaknar hjá fulltrúa Flokks fólksins hver sé munurinn á að semja við fyrirtæki eða verktaka? Geta fyrirtæki ekki verið verktakar og geta verktakar ekki verið fyrirtæki? Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að hér sé um orðaleiki að ræða eða hreinlega útúrsnúninga. Hér er verið að „fegra“ og láta hluti líta út einhvern veginn öðruvísi en þeir í rauninni eru. Ekki er séð að munur sé á að semja um aðkeypta þjónustu frá verktaka eða frá fyrirtæki. Greiðsla fyrir reikninga frá verktaka eða fyrirtæki kemur frá sama stað, úr vasa borgarbúa.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skipulagssvæði C í Gufunesi, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021. R21030280

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er hreint með ólíkindum að einkaaðila eru afhent gæði borgarinnar/lóðir á spottprís eins og þetta stóra landflæmi í Gufunesi sem nú gengur kaupum og sölum til annarra einkaaðila til uppbyggingar. Borgarsjóður hefur orðið af hundruðum milljóna en nú rennur það í vasa einkaaðila. Þetta mál allt lyktar af spillingu og þarfnast rannsóknar. Það er óskiljanlegt að borgarstjóri gefi eigur Reykjavíkurborgar þegar borgarsjóður er tómur og borgin er rekin á lánum. Sá aðili sem fékk lóðina upphaflega stendur nú í málaferlum við borgina vegna stærðarmarka lóðarinnar. Þetta er nú allt þakklætið fyrir dílinn.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. apríl 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fasteignaskatt á opinberar stofnanir á vegum ríkisins, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021. R21020166

    Fylgigögn

  37. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. og 15. apríl 2021. R21010004

    Fylgigögn

  38. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 15. apríl 2021. R21010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki umræðu um stóru mál Breiðholts í íbúaráði Breiðholts, t.d. nýja hverfisskipulagið, Mjóddina og fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegar. Þetta eru umdeild og viðkvæm mál sem munu hafa áhrif til langrar framtíðar. Það er hlutverk ráðsins að rýna þessi mál, hlusta á raddir og sjónarmið Breiðhyltinga og koma þeim áleiðis til valdhafa.

    Fylgigögn

  39. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 6. og 19. apríl 2021. R21010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur bæði bókað um umferðaröryggi í Grafarholti og verið með fjölda fyrirspurna um merkingar gangbrauta og lýsingu sem og umhirðu á byggingarlóðum. Borist hafa margar góðar ábendingar frá hverfisbúum en lengi vel gerðist lítið hjá yfirvöldum. Nú á að gera umbætur enda öryggi gangandi vegfarenda ábótavant. Samkvæmt umferðarlögum eiga allar gangbrautir að vera merktar og upplýstar, æskilegast væri að um málaðar sebrabrautir væri að ræða, sér í lagi þar sem umferð er mikil og umferðarhraði töluverður. Enn er mörgum spurningum ósvarað, s.s. hvenær verður lokið við að lýsa upp alla gangstíga við gangbrautir að Dalskóla? Hvenær verður lokið við að gera gangstíga að leikskóla og Dalskóla manngenga? Hvenær verða ruslagámar fjarlægðir af göngustígum? Alltof margar kærur hafa borist frá þessu hverfi m.a. vegna þess að uppbygging sumra lóða hefur tafist og eru þær lóðir jafnvel notaðar fyrir byggingarúrgang.

    Fylgigögn

  40. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 7. apríl 2021. R21010027

    Fylgigögn

  41. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. apríl 2021. R21010029

    Fylgigögn

  42. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Vesturbæjar frá 30. mars og 21. apríl 2021. R21010032

    Fylgigögn

  43. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 24. mars og 14. og 19. apríl 2021. R21010069

    Fylgigögn

  44. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsstofnun hefur gert alvarlegar formgalla athugasemdir um að smáhýsi í Laugardal samrýmast ekki aðalskipulagi. Í bréfi stofnunarinnar til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segir orðrétt: „Deiliskipulagsbreytingin er í ósamræmi við gildandi aðalskipulag varðandi heimild fyrir íbúðir á opnum svæðum og í borgargörðum. Aðalskipulagsbreyting um sérstakt búsetuúrræði (sbr. svar skipulagsfulltrúa við athugasemdum varðandi samræmi við aðalskipulag) var ekki auglýst áður en samhliða deiliskipulagsbreytingunni sbr. 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“ Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur frá upphafi ítrekað að þessi smáhýsa uppbygging utan skipulags gangi ekki upp samkvæmt lögum. Nú er komin staðfesting á þeim skoðunum. Smáhýsin í Gufunesi voru utan deiliskipulags um langa hríð allt þar til ákveðið var að leggja göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu. Þá var þeim laumað inn á skipulag bakdyramegin. Sama á við nú varðandi smáhýsin í Laugardalnum eftir ábendingar Skipulagsstofnunar. Borgarstjóri og meirihlutinn rökstyðja ákvarðanir um smáhýsin svo að um tímabundna lausn sé að ræða. Það er rangt því steypa þurfti sökkla undir húsin í Gufunesi og skeyta þau við landið. Skilgreining á fasteign er eftirfarandi: „Fasteign merkir afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt.“ Hér er því ekki verið að tjalda til einnar nætur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar:

    Þétting byggðar er að ganga of langt og farin að taka of mikinn toll af náttúru. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þetta er allt spurning um hugmyndafræði, stefnu og hvort virða eigi grænar áherslur. Sífellt er verið að fikta í einstakri náttúrunni, pota í hana og mikil tilhneiging er að móta og manngera og þar með búa til gerviveröld. Ekkert fær að vera ósnortið, ekki einu sinni fáir fjörubútar, en ósnortnar fjörur eru fáar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir og varað við að sækja lengra í þá átt. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Hætta ætti við áfanga 2-3 í landfyllingu. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Eins og með Vatnsendahvarfið sem kljúfa á með hraðbraut á borgarlína að skera Geirsnefið. Skipulagsyfirvöld láta aðeins of mikið glepjast af rómantískum tölvumyndum arkitekta að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  45. Lagðar fram fundargerði stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. febrúar og 9., 12. og 22. mars 2021. R21010015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 9. mars:

    Undir þessum lið kemur fram að gengið hefur verið frá launahækkun forstjórans og er þar með ákveðið að laun hans hækki um 370 þúsund krónur á mánuði og eru þau nú orðin nærri 2,9 milljónir króna. Rök stjórnar eru m.a. að aðrir forstjórar orkufyrirtækja séu með há laun og þessi forstjóri hafi staðið sig svo vel, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri geri. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum. Bókun liður 3, 22. mars: Starfskjaranefnd leggur til að stjórnarlaun hækki þannig að launin verði kr. 182.319- á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 51.047- á fund. Jafnframt verði heimilt að greiða upp í laun ársins 2021 kr. 182.319- á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 51.047- á fund. Þetta eru miklir peningar fyrir að sitja fund. Um þetta hefur borgarstjórn ekkert að segja jafnvel þótt Orkuveita Reykjavíkur sé að stærstum hluta í eigu borgarinnar. Svona vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni og stuðla að óeiningu og enn eitt dæmið um að bs.-kerfið er ekki lýðræðislegt.

    Fylgigögn

  46. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 24. og 26. mars 2021. R21010012

    Fylgigögn

  47. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 12. mars 2021. R21010013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Undir þessum lið í fundargerð SORPU um auknar gjaldtökuheimildir endurvinnslustöðva er lagt fram minnisblað um aukna flokkun og gjaldtökuheimildir. Ekki er meira sagt um það. Sennilega var of fljótt farið að hrósa stjórn SORPU fyrir ögn skárri fundargerðir en áður. Þær eru komnar aftur í stikkorðastíl. En talandi um aukna flokkun vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að ef nýta á úrgang sem hráefni í aðra vinnslu þarf að flokka sem mest þar sem úrgangurinn verður til, á heimilum og í fyrirtækjum. Þeir sem búa til úrganginn ættu að hafa mikið um flokkunina að segja. Kalla ætti eftir hugmyndum frá heimilum og fyrirtækjum.

    Fylgigögn

  48. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 26 mál. R21040058

    Fylgigögn

  49. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21040102

    Fylgigögn

  50. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2021, ásamt fylgigögnum. R20120049
    Samþykkt að veita Snorrasjóði, sjálfseignarstofnun, styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna Snorraverkefnisins.
    Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins. 
    Samþykkt að veita Guðfinnu Kristinsdóttur styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins Dýrfinna.
    Samþykkt að veita Hjólafærni á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna reksturs félagsins.
    Samþykkt að veita Ingibjörgu Þ. Sigurþórsdóttur styrk að fjárhæð 500.000 vegna verkefnisins heilsuefling borgarstarfsmanna með golfiðkun 2021.
    Samþykkt að veita Veraldarvinum, áhugamannafélagi, styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins Strandverðir Íslands.
    Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna útgáfu hverfisblaða Laugardals og Háaleitis og Bústaða.
    Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna útgáfu hverfisblaða Miðborgar og Hlíða.
    Samþykkt að veita Mervi Orvokki Luoma styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins Raising awereness of invasive and alien plants.
    Samþykkt að veita Borgarkórnum styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna starfsemi kórsins.
    Samþykkt að veita Skrautás ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.500.000 vegna útgáfu hverfisblaða Árbæjar, Grafarholts og Grafarvogs.
    Samþykkt að veita Norræna félaginu í Reykjavík styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna starfsemi félagsins.
    Samþykkt að veita Elsu Jónsdóttur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna verkefnisins Gufubað í Gufunesi.
    Samþykkt að veita Reykjavík Tool Library ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna verkefnisins Hringrásarsafn – Connecting our Library Loops.
    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

    -    Kl. 14:22 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.

    Fylgigögn

  51. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Nýverið fannst asbest í húsnæði er Reykjavíkurborg á í Gufunesi. Það er ótækt að ekki hafi verið kortlagt hvar asbest er að finna í húsnæði sem er í eigu borgarinnar líkt og Sjálfstæðismenn lögðu til. Í Gufunesi er verið að leigja rými til fólks í skapandi greinum, rými sem þarfnast endurnýjunar. Það getur haft alvarlegar afleiðingar ef fólk andar að sér asbestryki og því óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að kortlagt verði hvar asbest er að finna í því húsnæði sem Reykjavíkurborg er að leigja út í Gufunesi. Mikilvægt er að leigjendur verði upplýstir um það hvort að asbest sé í þeim rýmum sem þeir leigja til þess að geta kallað til aðila með fagþekkingu þegar farið er í endurnýjun á rýmum þar sem asbest er að finna. Þannig að hvorki leigjendur né verktakar sem koma að breytingum verði fyrir alvarlegri asbestmengun líkt og gerðist þegar byrjað var í framkvæmdum á leigurými þar sem ekki var vitað að asbest væri að finna. R21040321

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. 

  52. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Tvær breytingar hafa verið gerða á Jöfursbás 11, ein breyting á Gufunesvegi 34 og Þengilsbás 1 og ein breyting á Jöfursbás 5 og 7. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær var óskað eftir breytingunum. Þá er óskað að upplýst verði um tafir og hvers vegna þær tafir hafa orðið. R21040331

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  53. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hversu marga vagna hefur Strætó bs. keypt á árunum 2019, 2020 og 2021?  R21040332

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

  54. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í svari við fyrirspurn Miðflokksins um greiðslur til verktaka og fjölda þeirra hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi kemur fram að á „Á skóla- og frístundasviði var keypt ýmis þjónusta af verktökum, stórum sem smáum á árinu 2020, hvort tveggja frá einstaklingum og fyrirtækjum. Enginn þeirra er þó í 100% verktakavinnu fyrir skóla- og frístundasviðs né með starfsaðstöðu á starfsstöðvum sviðsins eða notar tól og tæki í eigu Reykjavíkurborgar.“ Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands óskar eftir því að fá nánari upplýsingar um þá aðkeyptu þjónustu. Hvaða verkefni er verið að tala um? Fellur hluti af rekstri skólamötuneyta undir þetta, líkt og aðkeyptur matur í mötuneytin? R21020055

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  55. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    1. Hvað eru margir verktakar á fjármála- og áhættustýringarsviði og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 2. Hvað eru margir verktakar á íþrótta- og tómstundasviði og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 3. Hvað eru margir verktakar á skóla- og frístundarsviði og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 4. Hvað eru margir verktakar á þjónustu- og nýsköpunarsviði og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 5. Hvað eru margir verktakar á skrifstofum Ráðhússins og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? R21020055

  56. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Reykjavíkurborg leigir heila byggingu í Borgartúni 12-14 þar sem flest svið og skrifstofur borgarinnar eru til húsa. Þarna er því um að ræða annað stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar fyrir utan Ráðhúsið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi af því, hversu miklum fjármunum hefur hvert svið og skrifstofur sem staðsettar eru í þessu leiguhúsnæði, eytt í uppfærslur á húsgögnum og öðrum aðbúnaði undanfarin 4 ár. Inn í þennan kostnað á að telja allan annan kostnað af t.d. hljóðeinangruðum fundar- og símaklefum sem og allan kostnað við aðkeypta verktakavinnu í uppsetningum á því sem spurt er um, ásamt afleiddum kostnaði eins og við rafmagns- og netlagnir og annað sem þurft hefur að leggja vegna þessa. R21040322

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  57. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í svari við fyrirspurn Miðflokksins um fjölda verktaka hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi og greiðslur til þeirra kemur fram að verktakar eru víða ráðnir. Eitt svið sker sig úr og ræður ekki verktaka: „Á þjónustu- og nýsköpunarsviði eru engir starfandi verktakar. Eingöngu eru gerðir samningar við fyrirtæki.“ Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi spurningar: Hver er munurinn á að semja við fyrirtæki eða verktaka um þjónustu (aðkeypta þjónustu)? Geta fyrirtæki ekki verið verktakar og geta verktakar ekki verið fyrirtæki? Í huga borgarinnar og þjónustu- og nýsköpunarsviðs, hver er munurinn á, þegar horft er á með „viðskiptafræðigleraugum“ að ráða verktaka sem er einstaklingur eða ráða fyrirtæki? Er ekki þarna um að ræða viðskipti á hvorn veginn sem litið er sem borgin greiðir fyrir? R21020055

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    -    Kl. 14:45 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 14:52

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2904.pdf