Borgarráð - Fundur nr. 5620

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 11. mars, var haldinn 5620. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Eyþór Laxdal Arnalds. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Líf Magneudóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ívar Vincent Smárason og Marta Mirjam Kristinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. mars 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki niðurstöðu skuldabréfaútboðs Félagsbústaða, miðvikudaginn 10. mars 2021, í samræmi við samþykkt í borgarstjórn þann 16. febrúar sl. varðandi einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum Félagsbústaða í samræmi við lánsfjáráætlun félagsins. Upphæð samþykktra tilboða og ávöxtunarkrafa kemur fram í greinargerð.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R21010307

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skuldsetning Félagsbústaða er komin í 49 milljarða króna og er stór hluti þeirra með ábyrgð Reykjavíkurborgar sjálfrar með veði í skatttekjum framtíðarinnar. Hér á þessum fundi er borgin að samþykkja ábyrgð á 2.041 milljónum króna á nýjum lánum Félagsbústaða og auka þannig skuldsetningu og áhættu borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn er verið að taka veð í framtíðarútsvarstekjum Reykvíkinga á grunni einfaldrar ábyrgðar Reykjavíkur á Félagsbústöðum. Enn er verið að skuldsetja framtíðarkynslóðir Reykjavíkur. Enn er verið að leggja börnin okkar og barnabörnin í pant til að fjármálasukkið í Reykjavík geti haldið áfram óáreitt. Lýst er yfir algjörri falleinkunn á borgarstjóra og meirihlutann í Reykjavík þegar kemur að fjármálastjórn borgarinnar. Skuldir Félagsbústaða losa nú 50 milljarða og það tal um að eignir séu á móti skuldunum er marklaust því ekki stendur til að selja eignasafn Félagsbústaða.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Samhengi þess að Félagsbústaðir taki lán er að Félagsbústaðir kaupa og reka félagslegar íbúðir fyrir fólk sem er undir ákveðnum tekjuviðmiðum. Þá eru kaup Félagsbústaða á íbúðum samkvæmt samþykktri húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. mars 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bykoreits/Steindórsreits vegna Hringbrautar 116 – Sólvallagötu 77, ásamt fylgiskjölum. R19080112

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 9.23 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. mars 2021, varðandi umsögn sviðsins, dags. 10. febrúar 2021, um bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2021, vegna fýsileikakönnunar um samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum. R21010241

    Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs er samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Afar mikilvægt er að hugsa í lausnum þegar kemur að samræmdri flokkun á öllum úrgangi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Það eykur virði þeirra strauma sem fara til meðhöndlunar SORPU og gæti hæglega dregið úr útgjöldum sveitarfélaganna í heild sinni og þar með lækkað kostnað íbúa við meðhöndlun úrgangs. Við teljum þó ekki ástæðu til að ganga lengra en Evróputilskipunin kveður á um og skylda sérsöfnun innan lóðar. Slíkar ákvarðanir ættu að vera áfram í höndum sveitarfélaganna og byggja á árangri í söfnun hverju sinni. Lögð hefur verið áhersla á valfrelsi í úrgangsmálum í Reykjavík og er mikilvægt að halda því áfram. Sérsöfnun frá heimilum er kostnaðarsöm og leggst sá kostnaður á heimilin. Grenndarstöðvakerfi Reykjavíkur er vel nýtt og hefur sannað sig sem alvöru valkostur þegar kemur að móttöku á endurvinnsluefnum. Það þarf hinsvegar að leggja ríkari áherslu á að samræma sorpsamþykktir á höfuðborgarsvæðinu og er hægt að auka árangur með því að takmarka enn frekar þá úrgangsflokka sem lenda í gráu tunnunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga er frá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samræmingu úrgangsflokkunnar. Reykjavík er að verða eftirbátur í sorpmálum ef tekið er mið af öðrum sveitarfélögum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði það til í upphafi kjörtímabilsins að komið yrði upp þriggja tunnu flokkunarkerfi en tillagan var felld með þeim rökum að hún væri kostnaðarsöm. Í tillögu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felst að hvert heimili hafi fjóra úrgangsflokka; pappír, plast, blandað sorp og lífrænt efni. Spurning er hvort þetta eigi að vera valkvætt eða skylda. Það vekur upp margar spurningar um útfærslu. Sérsöfnun frá heimilum er auðvitað lang áhrifaríkasta leiðin. Ef nýta á úrgang sem hráefni í aðra vinnslu þarf að flokka sem mest þar sem úrgangurinn verður til, á heimilum og í fyrirtækjum. Þeir sem búa til úrganginn ættu einnig að hafa mikið um flokkunina að segja. Kalla ætti eftir hugmyndum frá heimilum og fyrirtækjum hvernig talið er að gera mætti betur í flokkun sorps á þeim.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar, dags. 3. mars 2021, um Fossvogslaug, ásamt fylgiskjölum. R21010282

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er fagnaðarefni að Fossvogslaug verði að veruleika. Laugin bætist í flóru þeirra almenningssundlauga sem starfræktar eru í Reykjavík og Kópavogi. Samstarfið hefur gengið afar vel og er það rammað inn af þessari viljayfirlýsingu. Stefnt er að því að sundlagin verði byggð samkvæmt grænum stöðlum og að bílastæði verði eingöngu fyrir fatlað fólk og aðföng. Að öðru leyti mun laugin þjóna hverfinu og gangandi og hjólandi gestum. Næstu skref í málinu er breyting á aðalskipulagi og hönnunarsamkeppni ásamt miklu og góðu samráði við hverfin í Fossvogsdal, skólasamfélag og íþróttafélögin.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 8. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að bjóða út byggingarrétt lóðanna Þengilsbáss 3, Gufunesvegar 32 og Gufunesvegar 36 til sölu með hefðbundnum úthlutunar- og útboðsskilmálaum, ásamt fylgiskjölum. R21030071

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samstarfsyfirlýsingu og nýjan samstarfssamning um Fab Lab í Breiðholti. Kostnaður greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Framlög Reykjavíkurborgar vegna áranna 2022 og 2023 eru með fyrirvara um samþykkt fjárhagsáætlana.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21020121

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fab Lab starfsemi sem hefur þjónað íbúum, grunnskólanemendum, kennurum og framhalds- og háskólum sem vettvangur nýsköpunar og tækifæra til lærdóms og þróunar. Aðsókn hefur vaxið umtalsvert á þeim árum sem Fab Lab hefur verið starfrækt, en sem dæmi hefur aðsóknin tvöfaldast frá undirritun síðasta samnings frá árinu 2018. Þá hefur Fab Lab verið verkefni sem hefur stutt við jákvæða samfélagsþróun í Breiðholti og tengt saman fjölda hugmynda við drífandi fólk úr hverfinu og borginni. Með nýjum samningi sammælast samningsaðilar um að halda áfram því kraftmikla starfi sem hér hefur verið byggt upp og efla það til framtíðar.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 8. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð feli umhverfis- og skipulagssviði að skipa matsnefnd vegna verkefnisins Re-Inventing Cities II, ásamt fylgiskjölum. R19110011

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 7. janúar 2021, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði. Vísað er til umsagna borgarlögmanns varðandi rökstuðning í því efni. Um er að ræða dótturfélögin Orku náttúrunnar ohf., ON power ohf., Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Carbfix ohf. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg fari þess á leit við forsætisráðherra að félögin fái undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012, með vísan í hjálagðar umsagnar borgarlögmanns, dags. 25. febrúar 2021. Þrátt fyrir ofangreint beinir borgarráð þeim tilmælum til Orkuveitunnar í Reykjavík að huga að gagnsæi í framsetningu á fjárhagsupplýsingum og bókhaldi eftir því sem kostur er. Í meirihlutasáttmála Reykjavíkurborgar fyrir kjörtímabilið 2018-2022 segir að ljúka þurfi opnun bókhalds á kjörtímabilinu og stuðla að því að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar og byggðasamlaga séu eins gagnsæ og opin og kostur er. R21010132

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð samþykkir erindi Orkuveitu Reykjavíkur með vísan í umsögn borgarlögmanns en leggur áherslu á að fyrirtækið muni hér eftir sem hingað til hafa gagnsæi og opna upplýsingagjöf til almennings og viðskiptavina að leiðarljósi, að teknu tilliti til samkeppnisjónarmiða. Í því samhengi beinir borgarráð því til Orkuveitunnar að huga að gagnsæi í framsetningu á fjárhagsupplýsingum og bókhaldi eftir því sem kostur er. Í meirihlutasáttmála Reykjavíkurborgar fyrir kjörtímabilið 2018-2022 segir að ljúka þurfi opnun bókhalds á kjörtímabilinu og stuðla að því að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar og byggðasamlaga séu eins gagnsæ og opin og kostur er.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Upplýsingalög ná til fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera, líkt og félög í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sem sum fyrirtæki í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru í samkeppnisrekstri en önnur í sérleyfis- og einokunarrekstri gilda ólíkar reglur um einstakar einingar. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að ráðist verði í að ljúka uppskiptingu Orkuveitunnar eins og lagt hefur verið til. Þá verður minni hætta á hagsmunaárekstrum og óþarfi að sækja sérstaka undanþágu frá upplýsingalögum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóri sækir sér nú forsætisráðherravald og ætlar að óska eftir breytingum á upplýsingalögum nr. 140/2012 í þá veru að dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur fái undanþágu frá lögunum um upplýsingaskyldu á grunni samkeppnissjónarmiða opinbers aðila. Verið er að loka og læsa á að kjörnir fulltrúar og fjölmiðlar geti í krafti stöðu sinnar sótt upplýsingar inn í rekstur dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur sem eru; Orka náttúrunnar ohf., ON power ohf., Gagnaveita Reykjavíkur ehf. og Carbfix ohf. Í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að öll starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera falli undir lögin og eru því upplýsingaskyld. Hvað er verið að fela og ef dótturfélögin eru á samkeppnismarkaði hvers vegna eru þau þá ekki sett í söluferli í stað þess að krefjast lagabreytingar?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóri leggur til að borgarráð samþykki að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 7. janúar 2021, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort þetta sé alveg nauðsynlegt? Hver á að gæta varðanna? Hverjir munu fá að sjá upplýsingar um rekstur þessara félaga sem eru í eigu borgarbúa? Kannski einhverjir handvaldir? Rökin eru að öll þessi fyrirtæki séu í samkeppnisrekstri og ef þau undirgangist upplýsingalög myndi það veikja stöðu þeirra. Þetta kann að vera rétt en getur engu að síður virkað illa á hinn almenna borgara.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf stýrihóps um endurskoðun stefnu Reykjavíkurborgar í erlendum samskiptum, dags. 8. mars 2021, um alþjóðastefnu Reykjavíkur til 2030, ásamt fylgiskjölum. R18090019

    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ný alþjóðastefna Reykjavíkur til 2030 tekur við af stefnu borgarinnar í erlendum samskiptum. Viðfangsefni stýrihópsins var alþjóðasamstarf borgarinnar og stefnan því afmörkuð við það frekar en að teygja sig inn á allt sem tengist alþjóðavinklinum. Vilji stýrihópsins stóð til þess að skapa skýrari ramma í kringum alþjóðasamstarf og utanumhald um ferðir og ferðalög starfsfólks og kjörinna fulltrúa. Markmið með alþjóðasamstarfi eru samkvæmt stefnunni að Reykjavíkurborg vinni að áhrifum og hagsmunum sínum á alþjóðavettvangi, að alþjóðlegt samstarf Reykjavíkurborgar verði til að styðja við mörkun borgarinnar með því að styrkja ímynd hennar og markaðsstarf. Að alþjóðlegt samstarf verði til að auka samkeppnishæfni Reykjavíkur með því að nýta og styðja við styrkleika borgarinnar og að Reykjavíkurborg eigi í alþjóðlegu samstarfi sem nýtist til þekkingarmiðlunar til að auka gæði og hagkvæmni stjórnsýslu og þjónustu á báða bóga. Vinna stýrihópsins byggist á umfangsmiklu samráði.

    -    Kl. 10:29 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur sæti með fjarfundarbúnaði.



    Hilmar Hildarson Magnúsarson og Svavar Jósefsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Fram fer kynning á framkvæmdum og úrbótum á húsnæði Fossvogsskóla. R19020180

    -    Kl. 11:30 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum að nýju.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Viðbrögð borgarinnar vegna Fossvogsskóla hafa einkennst af faglegum vinnubrögðum og metnaði fyrir því að finna raka í skólanum og uppræta hann. Farið hefur verið í umfangsmiklar framkvæmdir á undanförnum árum með það að markmiði að koma í veg fyrir rakaskemmdir og mygluvöxt. Nú mælist ekki mygla í Fossvogsskóla, heldur gró á yfirborði innan skólans. Á sama tíma hafa öll kjarnasýni sem hafa verið tekin úr byggingunni komið út hrein. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur bent á að gró finnast alls staðar, bæði innandyra og utandyra. Þá er virkt samtal í gangi við foreldrasamfélagið í skólanum og unnið að því að skapa sátt og traust. Nú þegar hefur starfshópi með sérfræðingum Verkís, fulltrúum borgarinnar og foreldra við skólann verið komið á laggirnar og á þessum fundi borgarráðs verður vinna sett af stað við að gera verkferil ef upp kemur grunur um léleg loftgæði eða raka í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar. Þá skal það tekið fram að borgin hefur verið útbær á allar upplýsingar í málinu og hafa allar skýrslur verið birtar þegar þær eru tilbúnar. Vinna við Fossvogsskóla er ennþá í gangi og verður brugðist við öllum ábendingum hér eftir sem hingað til. Þá er fyrirhugaður upplýsingafundur með foreldrum í Fossvogsskóla í næstu viku.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja það ámælisvert að ekki hafi verið haldin kynning fyrir foreldra allra barna í Fossvogsskóla vegna niðurstaðna Náttúrufræðistofnunar Íslands og minnisblaða frá Verkís sem sýna að enn finnast hættulegar tegundir myglu og varasamar sveppategundir í skólahúsnæði Fossvogsskóla. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar kemur fram að í húsnæðinu finnist verulega eitruð efni sem jafnvel geti reynst krabbameinsvaldandi. Niðurstöður þessar lágu fyrir í desember 2020 en voru ekki birtar á vef Reykjavíkurborgar fyrr en í lok febrúar 2021. Á borgarstjórnarfundi 2. mars var lofað úrbótum á upplýsingum til foreldra, það að niðurstöðurnar hafi ekki verið kynntar á fundi fyrir öllum foreldrum um miðjan mars og börn og starfsfólk séu í skólanum án þess að búið sé að tryggja það að skólahúsnæðið sé heilnæmt er mjög alvarlegt. Það er frumskylda borgarinnar að tryggja sérhverju grunnskólabarni heilnæmt skólahúsnæði og upplýsa um ástand skólans strax.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ástandið í Fossvogsskóla er Reykjavíkurborg til skammar. Útsvarsgreiðslum Reykvíkinga er forgangsraðað í gæluverkefni en ekki lögbundna grunnþjónustu. Viðhaldi á fasteignum borgarinnar, þ.m.t. skólahúsnæði, hefur ekki verið sinnt í fjölda fjölda ára þrátt fyrir gríðarlega skuldasöfnun sem hófst árið 2013. Hver er samviska þess fólks sem heldur um stjórnartaumana í Reykjavík að stjórna borginni með þeim hætti að hafa ekki börnin okkar í forgangi. Það væri óskandi að þessi dapra reynsla barna og foreldra sem nota þjónustu Fossvogsskóla leiði til átaks og úttektar á öllu skólahúsnæði í Reykjavík. Svona lagað má ekki endurtaka sig. Athygli vekur fjarvera borgarstjóra í umræðunni um Fossvogsskóla og hlífir hann sér enn og aftur á bak við embættismenn borgarinnar þrátt fyrir að vita það fullvel að hann ber ábyrgð á málinu sem framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar. Fjölmiðlar hlífa honum enn einu sinni frá skandalmálum á hans vakt og slíkt er rannsóknarefni. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessu máli er heilsa barna í húfi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta og önnur sambærileg mál ekki hafa verið tekin nógu alvarlega. Foreldrar hafa ítrekað fullyrt að lengi, í yfir 2 ár hafi litlu eða engu verið svarað. Bæði fulltrúi Flokks fólksins og foreldrar kvarta yfir dónaskap og hroka frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í tengslum við þetta mál. Þessu til staðfestingar hefur fulltrúi Flokks fólksins skrifleg gögn. Svona framkoma er ekki líðandi. Hvort sem þetta er gró, mygla eða sambland, og hvort sem ástæðan sé galli eða ónógrar loftunnar, þá liggur það fyrir að húsnæðið er mengað og hefur skaðað heilsu barna. Allt of mikið er karpað um skýringar og hafa valdhafar misst sjónar af aðalatriðinu; heilsu barnanna. Óvíst er hvort allir nái sér til fulls. Það fyrirtæki sem ráðið var til að leysa vandann leysti hann ekki til fulls. Þessu fyrirtæki á áfram að treysta og er ekki kallað til ábyrgðar. Hverjir áttu að hafa eftirlit með viðgerðum og hvar liggur ábyrgðin? Þess utan voru það stórmistök að ætla að bregðast ekki strax við þegar kvartanir um veikindi fóru að berast aftur.

    Helgi Grímsson, Ámundi V. Brynjólfsson, Agnar Guðlaugsson, Kristján Sigurgeirsson og Rósa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Ásgerður Jóna Flosadóttir, Baldur Borgþórsson, Ellen Jacqueline Calmon, Elín Oddný Sigurðardóttir. Eftirtaldir stafsmenn taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Janus Arn Guðmundsson og Svanborg Sigmarsdóttir.

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara hafi forystu um það í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið, eignaskrifstofu, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, skrifstofu fjármála- og áhættustýringarsviðs og fagsvið borgarinnar að koma upp og skilgreina sérstakan meginverkferil innan borgarinnar þegar grunur vaknar um hugsanlegar rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar. Skilgreina þarf meginferilinn og áhættumeta þar sem leiðarljósið verður að skilgreina skýran farveg fyrir ábendingar um grun um rakaskemmdir, hvaða greining þurfi að eiga sér stað og hvernig staðið skuli að viðbrögðum og úrbótum í tímaröð. Sérstaklega verði hugað að hlutverki, ábyrgð og verkaskiptingu, m.a. aðkoma og hlutverk framkvæmdadeildar umhverfis- og skipulagssviðs, mannauðs- og starfsumhverfissviðs, eignaskrifstofu, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, viðkomandi forstöðumönnum stofnana og fagsviðs, auk samskiptateymis sem koma þarf að máli hverju sinni, eftir eðli og umfangi máls. Nú þegar er í smíðum á mannauðs- og starfsumhverfissviði verkferill er varðar viðbrögð starfsfólks vegna gruns um raka eða rakaskemmdir í húsnæði á vegum borgarinnar og verður skoðað í vinnunni hvaða samlegðaráhrif eru í því tilliti. Tilgangur þessa meginverkferils er að tryggja markviss viðbrögð, gott samráð við helstu hagsmunaaðila og nauðsynlegt greiningarferli og upplýsingamiðlun til allra sem hlut eiga að máli á öllum stigum þar sem gripið verður til viðeigandi úrræða eftir því sem við á. Gagnsær og skýr meginverkferill er til þess fallinn að auka traust og fyrirsjáanleika í viðbrögðum borgarinnar við áhyggjum af slæmum loftgæðum og hugsanlegum rakaskemmdum í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar og er mikilvægur liður í innleiðingu á heildstæðri áhættustjórnun hjá borginni. R21030117

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi tillaga góð en getur ekki tekið undir hana vegna neikvæðrar framkomu Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gagnvart foreldrum og kjörnum fulltrúum í tengslum við þetta mál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skriflegar staðfestingar sem lýsa dónaskap og hroka sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sýnt í tengslum við málið. Á meðan vænta smá slíks viðmóts frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur treystir fulltrúi Flokks fólksins sér ekki til að kvitta upp á þessa annars ágætu tillögu sem ekki er annað hægt en að vera í grundvallaratriðum sammála um.

    -    Kl. 12:25 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti í gegnum fjarfundarbúnað.

  12. Fram fer kynning á aðgerðum íþrótta- og tómstundasviðs vegna æfingaaðstöðu frjálsíþróttafólks vorið og sumarið 2021. R21030124

    Ómar Einarsson tekur á sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  13. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 5. mars 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningu eins fulltrúa frá Reykjavíkurborg í ráðgjafahóp um áfangastaða- og markaðsstofu fyrir höfuðborgarsvæðið. R21030073

    Samþykkt að tilnefna Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur í ráðgjafahópinn. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. mars 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningu tveggja kjörinna fulltrúa frá Reykjavíkurborg í stafrænan samráðshóp. R20120090

    Frestað.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9,. mars 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skýrslu Verkís varðandi Fossvogsskóla, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021. R19020180

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessu máli er heilsa barna í húfi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta og önnur sambærileg mál ekki hafa verið tekin nógu alvarlega. Foreldrar hafa ítrekað fullyrt að lengi, í yfir 2 ár, hafi litlu eða engu verið svarað. Bæði fulltrúi Flokks fólksins og foreldrar kvarta yfir dónaskap og hroka frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í tengslum við þetta mál. Þessu til staðfestingar hefur fulltrúi Flokks fólksins skrifleg gögn. Svona framkoma er ekki líðandi. Hvort sem þetta er gró, mygla eða sambland, og hvort sem ástæðan sé vegna galla eða ónógrar loftunnar, þá liggur það fyrir að húsnæðið er mengað og hefur skaðað heilsu barna. Allt of mikið er karpað um skýringar og hafa valdhafar misst sjónar af aðalatriðinu; heilsu barnanna. Óvíst er hvort allir nái sér til fulls. Það fyrirtæki sem ráðið var til að leysa vandann leysti hann ekki til fulls. Þessu fyrirtæki á áfram að treysta og er ekki kallað til ábyrgðar. Hverjir áttu að hafa eftirlit með viðgerðum og hvar liggur ábyrgðin? Þess utan voru það stórmistök að ætla að bregðast ekki strax við þegar kvartanir um veikindi fóru að berast aftur.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 16. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um framkvæmdir og lagfæringar við Írabakka, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2020. R18110009

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í kolsvartri skýrslu innri endurskoðanda sem gefin var út 15. október 2018 um viðhaldsframkvæmdir Félagsbústaða við Írabakka 2-16 á árunum 2012-2016 kom fram að verkið hafði fari 330 milljónum fram úr kostnaðaráætlun eða 86%. Þar með virðist viðhaldinu ekki hafa lokið þar með, því síðan frá árinu 2017 til dagsins í dag hefur verið bætt við 110 milljónum og er því komið langt yfir 100% samkvæmt upphaflegri kostnaðaráætlun. Á þessum tímapunkti er því ljóst að viðhaldið á þeim 53 íbúðum sem í fjölbýlishúsinu eru hafa kostað 837 milljónir – eða sem nemur 16 milljónir á íbúð. Er nema von að spurt sé hvað sé eiginlega í gangi þarna? Rekstur Félagsbústaða, sem er á ábyrgð Reykjavíkurborgar, þarf að taka til heildstæðrar skoðunar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn og aftur kemur fram að verktakar skila ekki fullnægjandi verki. Eitthvað er að verkstjórn af hálfu borgarinnar. Í skýrslunni segir “Frágangur klæðningar, þéttingar á gluggum og múrhúð reyndust ekki fullnægjandi. Kostnaður vegna úttektar nam um 1,7 m.kr. Þegar hafa verið gerðar lagfæringar fyrir 11 m.kr. og áætlað er að ljúka viðgerðum vegna þessa í sumar. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði um 33 m.kr„ Hér er ekki betur séð en að eftirliti sé alvarlega ábótavant. Hvar voru eftirlitsmennirnir? Hver ber ábyrgð á því þegar verktakar skila ekki góðu verki?

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aukið fjármagn vegna styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021. R14050127

    Samþykkt að vísa tillögunni frá.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um að sett verði nauðsynlegt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki er vísað frá enda ljóst að stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki er fjármögnuð á fjárhagsáætlun 2021 og ekki þörf á meira fjármagni en áætlað var. Það er aukinn kostnaður við styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, það hefur verið ljóst um nokkra hríð og fjármagn því verið aukið inni í ramma viðkomandi stofnanna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um að sett verði nægt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki er vísað frá á fundi borgarráðs. Tillagan snýr að vaktavinnufólki en borðliggjandi er að gera þarf miklar breytingar á vaktakerfi, vaktaplönum og launaforritum. Þessu þarf að fylgja fullnægjandi fjármagn. Upphaflega var það dómgreindarleysi að setja sem grunnforsendu fyrir styttingu vinnuviku dagvinnufólks að ekki mætti fylgja breytingunni kostnaðaraukning. Heyrst hefur að starfsfólk leikskóla sé nú þegar að sligast undan álagi. Eins mikið og það mun fagna styttingu vinnuviku eru ómældar kröfur til þeirra um að hlaupa hraðar og bætast þær nú ofan á stöðuna sem er víða slæm. Ekki bætir úr skák að mannekla faglærðra er mikil. Fólk með 5 ára háskólamenntun sættir sig ekki við þessi laun. 

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tekjutengingu gjalda vegna frístundaheimila, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021. R21030042

    Tillagan er felld. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til að tillögu Flokks fólksins um að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili verði felld. Borgarstjórn er nýbúin að samþykkja fjárhagsáætlun 2021 og fimm ára áætlun. Ekki er gert ráð fyrir tekjutengingum á frístundaheimilum inní þeirri áætlun.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um tekjutengingu gjalda vegna frístundaheimilis hefur verið felld með þeim rökum að ekki sé hægt að breyta fjárhagsáætlun. Það verður að nefnast hér að sérstakt er að hlusta á málflutning frambjóðenda Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningar nú í haust og bera hann saman við stefnu sama flokks í Reykjavík. Þeir fyrrnefndu hvetja til sértækra aðgerða til að draga úr ójöfnuði en Samfylkingin í Reykjavík hefur aldrei ljáð máls á því heldur hafnað hverri tillögunni á fætur annarri um að hlúa sérstaklega að þeim sem minnst mega sín. Sú tillaga sem hér var lögð fram hefur tímarammann 2022 og þegar er vitað hver kostnaðurinn er. Niðurgreiðsla vegna gjalda á frístundaheimilum yrði um 13 .000.000 kr. á ári. Það ætti að vera Samfylkingunni ljúft að taka undir tillögu sem þessa, þ.e.a.s. vilji þau reyna að vera samkvæm sjálfri sér eða í einhverjum takti við Samfylkinguna á Alþingi nema að flokkurinn hafi klofnað? Reyndar er orðið fátt sem minnir á upphaflegu stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna í borginni. Báðir flokkar hafa vikið verulega frá því að geta kallast jafnaðarflokkar. Alla vega ekki þegar litið er til rúmlega 900 barna á biðlista eftir fagþjónustu skóla. Aðeins þeir efnameiri geta sótt slíka þjónustu hjá sjálfstætt starfandi fagaðilum.

    Fylgigögn

  19. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 1. og 3. mars 2021. R21010018

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. mars 2021. R21010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki umræðu um fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegar undir liðnum “Málefni hverfisins„, ekki síst þegar fyrir liggur að Skipulagsstofnun telur ekki þörf á nýju umhverfismati. Umhverfismatið sem á að byggja á er frá 2003. Það er sorglegra en tárum taki að skipulagsyfirvöld í Reykjavík skyldu ekki beita sér af krafti fyrir því að fengið yrði nýtt umhverfismat. Þetta er miður í ljósi grænna áherslna meirihlutans. Viðreisn, einn flokka í meirihluta, var ekki með í bókun hinna meirihlutaflokkanna þar sem tekið er undir umsögn heilbrigðiseftirlitsins um að fengið verði nýtt umhverfismat. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því væri ekki þörf á nýju umhverfismati. Segir í rökum að áformin séu umfangsminni en áætlað var. Ekki verði því aukið ónæði í Fellahverfi og ekki hafi þau heldur áhrif á hljóðvist í Seljahverfi og Kórahverfi. En um þetta er ekkert hægt að fullyrða. Það faglega í stöðunni er að fá nýtt mat á hvaða áhrif þessi vegur mun hafa á náttúru, umhverfi og nærliggjandi byggð enda hefur margt breyst frá árinu 2003 á þessu svæði. Hér er málefni sem ræða ætti á fundi íbúaráðs Breiðholts.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 3 mars 2021. R21010027

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2021. R21010069

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021. R21010008

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar: 

    Af svari að dæma mætti lesa það út að sérfræðingar sem eru ráðnir hjá borginni séu helst að sinna verkefnastjórastarfi. Þeir leita að öðrum góðum sérfræðingum og ráða þá í verktakavinnu. Með þessu er verið að vanmeta og vannýta færni og þekkingu fastráðinna sérfræðinga borgarinnar. Þess utan er þetta óhemju dýrt. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það þarf að sýna aðhald í fjármálum. Öll þessi verk þarf að vinna, svo mikið er víst, en í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðsstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Sú leið er farin að ráða hámenntaða sérfræðinga sem síðan eru látnir vera umsjónarmenn yfir aðkeyptri vinnu, verkefnum sem hefur verið útvistað til einkafyrirtækja. Útvistun er dýrasta leiðin sem hægt er að fara. Er það í alvörunni skoðun ráðamanna að það borgi sig að kaupa vinnu af verkfræðistofum frekar en að byggja upp þekkingu hjá borginni? Er ekki hægt að hagræða og byggja upp færni, jafnvel þótt það kosti mannaráðningar?

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. febrúar 2021. R21010015

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í fundargerðinni, undir liðnum önnur mál stendur: „Lögð fram drög að minnisblaði starfskjaranefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 21. febrúar 2021 um ákvörðun launa forstjóra og innri endurskoðanda. Einnig lögð fram starfslýsing forstjóra frá 2016 og greiningar PWC og Intellecta á samanburðarfyrirtækjum. Umræður um starfskjör forstjóra. Starfskjaranefnd mun leggja tillögu fyrir aukafund stjórnar, sem haldinn verður 25. febrúar nk.“ Fundargerð frá því 25. febrúar er ekki lögð fram á fundi borgarráðs og hefur ekki verið lögð fram á vefsíðu Orkuveitu Reykjavíkur en fregnir hafa borist af því í fjölmiðlum að ákveðið hafi verið að hækka laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur um 370 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt því eru launin þá tæplega 2,9 milljónir krónur á mánuði. Það eru kaldar kveðjur til þeirra sem ná ekki að láta enda ná saman, í því stéttskipta samfélagi sem við búum í, að laun forstjóra hækki upp úr öllu valdi þegar þau eru svo há til þess að byrja með. Almennt telur fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands að á meðal þeirra sem sinna störfum fyrir sveitarfélög og samfélagið eigi ekki að vera svo mikill munur á milli hæstu og lægstu launa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þriggja manna starfskjaranefnd starfar innan Orkuveitu Reykjavíkur og fær hver nefndarmaður miðað við upplýsingar frá janúar 2019, 25.000 kr. á tímann. Að auki fær formaður nefndarinnar sömu þóknun auk 50% álags, eða 37.500 krónur á tímann. Það er starfskjaranefnd sjálf sem leggur til hver laun nefndarmanna skulu vera. Starfskjaranefndin hefur nú gert tillögu með samþykki stjórnarinnar að hækka laun forstjóra Orkuveitunnar um 370.000 kr. á mánuði eða úr 2,5 milljón á mánuði í tæpar 2,9 milljónir. Launin hækkuðu því um tæp 15%, en það segir ekki alla söguna því að auki fékk forstjórinn tæpar 3 milljónir í eingreiðslu. Þessar hækkanir eru út úr öllu korti við raunveruleikann í dag og ekki í neinu samræmi við stöðugleikasáttmála ríkis og borgar. Þessi launahækkun er blaut tuska í andlit Reykvíkinga og allra þeirra sem eru án vinnu vegna ástandsins í samfélaginu í dag.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð öldungaráðs. frá 1. mars 2021. R21010022

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. mars 2021, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R21020188

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á borgarráðsfundi þann 16. maí 2019 bókaði borgarfulltrúi Miðflokksins við kynningu á rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið: „Loksins, loksins er komin rýmingaráætlun. Þann 22. maí 2012 lagði ég fram á Alþingi fyrirspurn um rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið kæmi upp vá eins og t.d. eldgos. Svar innanríkisráðherra var birt þann 10. september 2012 og er að finna á þessari slóð https://www.althingi.is/altext/140/s/1712.html. Í stuttu máli má segja að engin rýmingaráætlun var til. Gleðilegt er að sjá að ýmislegt í þessari fyrirspurn er að skila sér í rýmingaráætlun Reykjavíkur. Margt vantar í rýmingaráætlunina ef stórtækir atburðir gerast á höfuðborgarsvæðinu sem kallar á víðtæka rýmingu. Ekki eru til sviðsmyndir af verstu hugsanlegu atburðum. Aðferðin til að koma upplýsingum áleiðis til fólks eins og að senda SMS, senda upplýsingar á fjölmiðla og samfélagsmiðla eru á veikum grunni reistar því í hamförum fer rafmagnið oft fyrst. Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í stórkostlegt kynningarátak og sendi vandaðan upplýsingabækling á hvert einasta lögheimili í Reykjavík til að upplýsa um hvernig fyrstu viðbrögð eigi að vera þegar alvarleg vá steðjar að.“ 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir áhyggjur sem lýst er í ályktun Félags grunnskólakennara um stöðu drengja í íslensku menntakerfi. Í Reykjavík er vandamálið komið úr böndum. 957 börn bíða eftir fagþjónustu; 360 stúlkur og 597 drengir. Drengir eru í meirihluta í öllum flokkum. Eins og sjá má í niðurstöðum PISA eru drengir að koma verr út en stúlkur í lestri og lesskilningi. Þessi mál þarf að rýna og rannsaka. Skýringar geta verið af ýmsum toga en ekki hefur skort á leiðbeiningar sérfræðinga um hvað gera þarf í lestrarmálum til að barn útskrifist ekki illa læst úr grunnskóla. Leiðbeiningum hefur hins vegar ekki verið fylgt. Um 30% barna er í sérkennslu, meirihlutinn drengir. Niðurstöður sem m.a. hafa verið birtar í skýrslum Landlæknisembættisins hafa sýnt að fleiri stúlkur en drengir hafa hugleitt sjálfsvíg en fleiri drengir en stúlkur eru á skrá yfir dauðsföll vegna sjálfsvíga á aldrinum 16-20 ár. Þessi mál eru háalvarleg og því afar brýnt að gripið verði til aðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við. Liður í því er að sérfræðingar tengdir viðfangsefninu vinni saman þvert á stofnanir og svið.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. mars 2021, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21030007

    -    Kl. 12:45 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 12:55 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði leggja til að skóla- og frístundasvið kortleggi ástand og loftgæði alls skólahúsnæðis í Reykjavík. Sendir verði spurningalistar á foreldra og starfsfólk allra grunn- og leikskólabarna í Reykjavík í þeim tilgangi að meta loftgæði og hugsanleg áhrif á heilsufar. Notast verði við samskonar spurningalista og lagðir eru fram við mat á loftgæðum á vinnustöðum. Þegar niðurstöður slíkra spurningakannana gefi tilefni til verði þeir meginverkferlar borgarinnar virkjaðir, sem nú stendur til að þróa fyrir tilfelli þar sem grunur er um rakaskemmdir eða léleg loftgæði í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar. R21030119

    Vísað til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við vinnslu á tillögu um sérstakan meginverkferil þegar grunur um rakaskemmdir og léleg loftgæði koma upp í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar, sbr. 11. lið fundargerðarinnar.

  29. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Mikil umræða hefur átt sér stað upp á síðkastið um áhrif spilafíknar í tengslum við spilakassa þar sem það hefur komið í ljós að lítill hópur landsmanna spilar í spilakössum að staðaldri. Í aðalskipulagi er fjallað um rekstur spilasala og spilakassa og því er spurt hvaða áhrif Reykjavíkurborg getur haft á starfsemi og leyfisveitingu spilakassa? Gæti borgin orðið spilakassalaus?  R21030123

  30. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Þriggja manna starfskjaranefnd starfar innan Orkuveitu Reykjavíkur og fær hver nefndarmaður miðað við upplýsingar frá janúar 2019, 25.000 kr. á tímann. Að auki fær formaður nefndarinnar sömu þóknun auk 50% álags, eða 37.500 krónur á tímann. Það er starfskjaranefnd sjálf sem leggur til hver laun nefndarmanna skulu vera. 1. Hvað hefur Orkuveita Reykjavíkur greitt til starfskjaranefndar félagsins síðan hún var sett á laggirnar sundurliðað eftir árum? 2. Hvað hefur formaður starfskjaranefndarinnar fengið greitt sundurliðað eftir árum? R21030120

    Vísað til umsagnar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 13:05

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir
Valgerður Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráð 11.3.2021 - Prentvæn útgáfa