Borgarráð - Fundur nr. 5617

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 11. febrúar, var haldinn 5617. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir og Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi stefnu um íbúðabyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar borgarlínu, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    -    Kl. 9:10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum. 
    -    Kl. 9:15 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 
    -    Kl. 9:22 tekur Ebba Schram sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hið framsækna aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 sem var samþykkt árið 2014 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar og í raun landsins. Horfið var frá bílamiðuðum hugmyndum seinustu aldar um mislæg gatnamót á hverju götuhorni og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð fyrir fólk þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir borgarlínu og stokka við Miklubraut og Sæbraut auk umfangsmikils nets göngu- og hjólastíga. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýr viðauki við aðalskipulag Reykjavíkur gildir til 2040, eða tíu árum lengur en núgildandi aðalskipulag. Aðalskipulagið er samtvinnað húsnæðisstefnu og því nauðsynlegt að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá varðandi kröftugan vöxt rætist er þörf borgarinnar metin 1.210 íbúðir ári til 2040, eða 24.200 íbúðir. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug, hvorki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit sem þó er í hugmyndasamkeppni. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til húsnæðisuppbyggingar. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru nú. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar, bæði hvað varðar fjölda íbúða, en þó sérstaklega hvað varðar byggingu á hagkvæmum byggingarreitum. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Sú leið að hafa starfsemiskvóta takmarkar notkunarmöguleika atvinnuhúsnæðis, ekki síst á jarðhæðum. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessum viðauka.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands Reykjavíkurborgar. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Undir liðnum húsnæði fyrir alla kemur fram að: „Stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Leitast verði eftir því á hverjum tíma að koma til móts við þarfir þeirra sem ekki vilja leggja eða ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.“ Slík formúla hefur ekki verið að virka og hefur ekki mætt þörfum hinna verst settu í borginni. Ljóst er að markið þarf að vera hærra. Öruggt húsnæði og heimili á ekki að vera markaðsvara og markmið um að 25% nýrra íbúða eigi að vera á vegum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga er ekki nóg. Slík stefna mun halda áfram að skilja fólk í mestu þörfinni eftir og slíkt er óboðlegt. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú er verið að samþykkja breytingar á aðalskipulag Reykjavíkur og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðabyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum og ekki verði gengið á opin svæði með hátt náttúrufars- og/eða útivistargildi. Þetta er beinlínis rangt miðað við þrengingarstefnuna sem er í gildi. Áætlað er að 23.000 íbúðir rísi vestan Elliðaáa og 14.000-15.000 íbúðir rísi austan Elliðaáa. Öllum má vera ljóst að uppbyggingin vestan megin gengur mjög á græn svæði í grónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Hér er verið að boða massífa þrengingarstefnu til að réttlæta hina svokölluðu borgarlínu. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og tekjulága. Mjög miklar líkur eru á að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fari ekki næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar. Stefnan er „síld í tunnu“ stefna þar sem hrúga á íbúðum og fólki meðfram borgarlínunni. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Af mörgu er að taka í þessum gögnum enda málið viðamikið. Fulltrúi Flokks fólksins vill fókusera á fyrirhugaðan 3. áfanga Arnarnesvegar. Erindi Vegagerðarinnar um að fá framkvæmdaleyfi strax var ákveðið áfall því þegar framkvæmdir eru hafnar er ekki aftur snúið. Fara á í verkútboð áður en heildarmyndin er skoðuð og áhrifin sem framkvæmdin veldur ekki fullljós. Margsinnis hefur verið beðið um nýtt umhverfismat á Vatnsendahvarfinu. Greinilega er mikill þrýstingur frá Kópavogi að fá þennan veg. Ef úrskurður skipulagsnefndar er sá að ekki sé þörf á nýju umhverfismati bíða kærur, enda 18 ár liðin frá síðasta mati. Í aðalskipulagi er stefna um einstök ný gatnamót oft sett fram með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats. Það gæti átt við um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Ef niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fara þurfi fram nýtt umhverfismat, þýðir það að setja þarf fram skýran fyrirvara við umrædda hönnun. Ef hins vegar niðurstaðan verður að ekki þurfi nýtt umhverfismat er hægt að setja umrædda tillögu um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar fram án fyrirvara (samkvæmt upplýsingum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað). Í bréfi Vegagerðarinnar er ekki minnst á neina fyrirvara, greinilega í trausti þess að eldra umhverfismatið gildi. Greinilega er ekki reiknað með nýju umhverfismati.

    Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi sértæk búsetuúrræði og landnotkun, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að skapa aukinn sveigjanleika svo mögulegt verði að staðsetja nýjar húsnæðislausnir fyrir fólk í neyð með eins skjótum hætti og kostur er. Hér er verið að fylgja eftir stefnumörkun húsnæðisáætlunar og stefnu í málefnum heimilislausra.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ein af aðaláherslum Flokks fólksins er að berjast fyrir því að allir hafi öruggt húsaskjól. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. Heimili er ekki einungis skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið eru líka háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn í hverfið. Reynslan sýnir að oft getur reynst erfitt að skapa sátt um staðsetningu mismunandi búsetuúrræða innan gróinna hverfa, einkum vegna andmæla íbúasamfélagsins en einnig vegna þess að land eða hentugt húsnæði liggur ekki á lausu. Þörf er á að skilgreina svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæði og skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna (sértæk búsetuúrræði) innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Sveigjanleiki þarf að vera til að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur. Við staðarval húsnæðis af þessu tagi þarf að hafa í huga sérþarfir þeirra sem þar eiga að búa en markmiðið er þeir geti notið sömu umhverfisgæða og nærþjónustu og þeir sem búa í hefðbundnu íbúðarhúsnæði innan hefðbundinnar íbúðarbyggðar. Fyrsti kostur í staðsetningu þessara úrræða hlýtur að verða að vera innan íbúðarhverfa eða blandaðrar byggðar til að geta verið nálægt þjónustu og almenningssamgöngum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021, á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vestur sem afmarkast af Borgartúni, Snorrabraut, Sæbraut og Katrínartúni, ásamt fylgiskjölum. R19110083
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hlemm og nágrenni, reit 1.240.0, ásamt fylgiskjölum. R19120017
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, ásamt fylgiskjölum. R21020084
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hvassaleitisskóla, Stóragerði 11A, ásamt fylgiskjölum. R21020080
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að bæta öryggi barna og breyta bílastæðum í leiksvæði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að tillaga þessi sé kynnt íbúum nærliggjandi húsa. Jákvætt er að núverandi bílastæði verði gerð að leiksvæði barnanna. Tillögunni er ætlað að bæta öryggi barna í umferð til og frá skóla. Þá fögnum við að tryggja eigi aðgengi hreyfihamlaðra við skólann.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurhafnar, Klettasvæðis, vegna smáhýsa, ásamt fylgiskjölum. R20060265
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sundaborgar 1-15 og 8, ásamt fylgiskjölum. R21020082
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á Brautarholti 4a. R20110199
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4 febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framlengingu lóðarvilyrðis vegna lóðar D í Bryggjuhverfi. R19120008
    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framlengingu lóðarvilyrðis vegna Veðurstofuhæðar. R19050042
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er ávallt skeptískur þegar meirihlutinn ræðir um „hagkvæmt húsnæði“. Sennilega hefur aldrei verið eins mikið til af litlum íbúðum á óhagkvæmu verði en á góðum og eftirsóttum stöðum í borginni. Þessar litlu íbúðir eru á uppsprengdu verði, sennilega aðeins vegna staðsetningu þeirra. Vissulega er markaður fyrir litlar íbúðir og hefur hann farið vaxandi sem er vel. Vandinn er að þær eru hlutfallslega dýrar eignir og því ekki á færi efnalítils fólks að kaupa. Mörgum fylgir auk þess ekki bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins styður fjölbreytni m.a. í hverfum og vill að þörfum allra verði mætt sem best. Ef allt er eðlilegt eru smærri íbúðir ódýrari en stærri íbúðir. Hér er verið að tala um að minnstu íbúðirnar eru ekki mikið stærri en 35 fermetrar sem geta kostað allt að 30 milljónir á dýrustu stöðunum. Hér er því varla verið að höfða til fólks sem hefur lítið fé milli handanna. Nú eru um 900 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að hefja samstarf við Betri samgöngur ohf. um þróun skipulags á Keldnalandi, sbr. hjálagt erindi frá Betri samgöngum ohf., dags. 29. janúar 2021, ásamt svarbréfi borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20080082
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og komið hefur fram verður uppbygging Keldnalands að fara í gang samhliða uppbyggingu og rekstri borgarlínu. Án borgarlínu myndi byggð í Keldnalandi auka tafir í umferð. Uppbygging á Keldnalandi mun taka tíma í undirbúningi og loks framkvæmdum. Fram að þeim tíma hefur átt sér stað og mun eiga sér stað mesta uppbygging á íbúðum í borginni frá upphafi. Keldnalandið er hluti af uppbyggingaráformum borgarinnar en framkvæmdir þar munu ekki hefjast strax.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til fyrir og eftir síðustu kosningar að Keldur yrðu skipulagðar. Ári síðar var gerður lífskjarasamningur með áherslu á húsnæðismál þar sem átakshópur lagði til að Keldnalandið yrði skipulagt fyrir íbúabyggð á árinu 2019. Það var ekki gert. Þá var gengið frá samgöngusáttmála síðar sama ár þar sem talað var um að hámarka virði Keldnalandsins. Núna fyrst, þremur árum eftir kosningar, er loksins farið að ræða þessi mál af alvöru. Betra er seint en aldrei. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að leggja fram bréf og svarbréf sem snýr að því að byrja að taka fyrstu skrefin varðandi þróun á skipulagningu Keldnalandsins. Í því samhengi eru hönnunarhópar nefndir og að halda jafnvel alþjóðlega skipulagssamkeppni. Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á að leita líka til þeirra sem eru líklegir til að koma til með að búa á svæðinu eða hafa reynslu af því sem þau myndu vilja sjá á framtíðaruppbyggingarsvæðum og hvað þau myndu síst vilja sjá. Hér er verið að tala um leigjendur, fólk á bið eftir viðeigandi húsnæði o.s.frv. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur sett fram svokölluð samningsmarkmið þegar kemur að samstarfi við Betri samgöngur ohf. Eru þau sett fram til að „tryggja gagnsæi og gæta samræmis milli svæða.“ Þegar markmiðin eru skoðuð þá sést að þau eru ekki í neinu samræmi við framkvæmdir og gjörðir borgarinnar. Dæmi: „Áhersla lögð á fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða.“ Rangt, aðaláherslan er bygging lítilla íbúða á þrengingarreitum. „Áhersla lögð á gæði og gott umhverfi.“ Rangt, hvorki gæði né gott umhverfi fylgir uppbyggingu á þrengingarreitum þar sem öllum grænum svæðum er útrýmt og skuggvarp er gríðarlega mikið. „Áhersla lögð á að varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar.“ Rangt, ruðst er inn í gróin hverfi og þeim kollvarpað eins og t.d. fyrirhugaðar áætlanir um uppbyggingu í Skerjafirði, Saltfiskmóum, Bústaðavegi og Veðurstofuhæð svo eitthvað sé nefnt. „Að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingasvæði verði greiddur með fjármunum sem fást af uppbyggingunni með innviðagjöldum.“ Ósvífið, enn eru uppi deilur um lögmæti innviðagjalda. Öllum má vera ljóst að borgarstjóri kemur ekki heill að efndum á samgöngusáttmálanum og hefur sína túlkun á honum þvert á skilning ríkisins. Öll áhersla er lögð á borgarlínu og steinn er lagður í götu hagkvæmrar ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu. Sætta ríkið og Betri samgöngur ohf. sig við það?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Keldnalandið er sennilega það óbyggða svæði í borginni þar sem mestir möguleikar eru á að búa til gott hverfi. Samningur við ríkið um að öll sala byggingarreita renni í samgöngur er gott veganesti. Flokkur fólksins telur að svæðið eigi að mestu að vera íbúðarsvæði og að atvinnuhúsnæði verði ætlað litlum fyrirtækjum sem þó geta verið mannmörg. Það er tímabært, þótt fyrr hefði verið, að huga nú þegar að uppbyggingunni, með tilliti til samgangna og hvernig íbúasamsetning á að vera. Flokkur fólksins mælir með því að sérstaklega verið reynt að skipuleggja svæðið þannig að aldurshópar blandist saman, stærð íbúða verði mismunandi, allt frá litlum íbúðum til einbýlishúsa, að uppbygging stuðli að félagslegri blöndun og að góður hluti af húsnæði sem þarna verði byggt verði hagkvæmt.

    -    Kl. 10:14 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, um framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. R20030260
    Frestað.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  14. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 8. febrúar 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessum viðauka er m.a. verið að leggja til kjarabætur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla vegna áhrifa kjarasamningshækkana á greiðslur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla. Fulltrúi Flokks fólksins styður það vissulega en vill að sama skapi koma því að að tónlistarskólar eru aðeins fyrir börn efnameiri foreldra vegna þess að tónlistarnám í einkareknum tónlistarskólum er dýrt. Börnin eiga að hafa sömu tækifæri til að stunda tónlistarnám og á borgin að reyna að gera allt til að svo megi verða. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram. Ef horft er til skólahljómsveita þá gætu þær, væru þær í öllum hverfum, verið mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Í skólahljómsveit fengju börnin tækifæri til að læra á hin ýmsu hljóðfæri. Með því er dregið úr mismunun á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifærum til að velja sér hljóðfæri til að læra á. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram slíka tillögu um skólahljómsveitir í öll hverfi fyrir einu og hálfu ári en hefur ekki fengið nein viðbrögð.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 8. febrúar 2021, að viðauka við fjárhagsáætlun 2021 vegna COVID-19. Greinargerð fylgir tillögunni. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga til samninga við eiganda að ræktunarspildu og sumarhúsi við Rauðavatn 29B, ásamt fylgiskjölum. R21020064
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða beiðni Félagsbústaða um einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021, dags. 29. janúar 2021. R21010307

    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða endurfjármögnun upp á 4,1 ma.kr. og lántöku vegna fjárfestinga fyrir 3,9 ma.kr. Hlutverk Félagsbústaða er að kaupa og reka íbúðir fyrir tekjulágt fólk í Reykjavík. Uppbygging íbúða og kaup Félagsbústaða á félagslegum íbúðum hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og kallað á auknar lántökur líkt og venja er við fasteignakaup. Á árunum 2014-2020 fjölgaði íbúðum í eignasafni Félagsbústaða um 637. Athygli vekur að fulltrúar minnihlutans virðast bæði gagnrýna lántökur til kaupa á félagslegum íbúðum en á sama tíma vilja lækka leigu á íbúðunum, stórauka viðhald á þeim, útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði og hækka húsnæðisbætur til muna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ef Félagsbústaðir ætla að leiga íbúðir til fólks hljóta þær að þurfa að vera í lagi. Það er ekkert vit í að kaupa og kaupa íbúðir, rukka háa leigu en bjóða síðan fólki upp á íbúðir sem leka, eru myglaðar eða næst ekki að kynda á vetrardögum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Félagsbústaðir eiga að vera með sjálfbæran rekstur en ítrekað hefur félagið þurft að leita á náðir borgarinnar til að fá veð í skatttekjum hennar. Ekki er gert ráð fyrir því að hlutafélagið greiði borginni ábyrgðargjald vegna þessarar áhættu og ábyrgðar. Búið er að veðsetja yfir eitt hundrað milljarða af framtíðar skatttekjum borgarinnar í tengslum við lántökur dótturfélaga hennar. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn eru Félagsbústaðir að fá ábyrgð í tekjum komandi kynslóða – nú upp á 8 milljarða. Ábyrgð Reykjavíkur á skuldum Félagsbústaða er löngu hætt að vera ásættanleg fyrir útsvarsgreiðendur í Reykjavík. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn á ný biður stjórn Félagsbústaða um einfalda ábyrgð borgarinnar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021. Þetta er endurtekið efni hvert ár og stundum tvisvar á ári. Endurfjármögnun félagsins er frekar ruglingsleg. Skuldir eru komnar yfir 50 ma.kr. Félagsbústaðir og rekstrarform þeirra er vissulega ekki hafið yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand sumra íbúða sem fólki er boðið að leigja er slæmt og enn berast þær fréttir að erfitt sé að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandanum frá yfirstjórn Félagsbústaða. Spurning er hvort hægt er að setja meira fé í viðhald þar sem verið er að taka stór lán til að tryggja að öllum líði vel í leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum. Í kuldatímanum sem nú hefur staðið yfir hefur ekki verið nægjanlegur hiti hjá öllum leigjendum og skortur hefur verið á heitu vatni. Víða eru ofnar allt of litlir.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 3. febrúar 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. janúar á samstarfssamningi á milli Reykjavíkurborgar, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Listahátíðar í Reykjavík 2021-2023, ásamt fylgiskjölum. R21020077
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. febrúar á samstarfssamningum til tveggja ára, ásamt fylgiskjölum. R21020078
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. febrúar 2021 á samstarfssamningum til þriggja ára, ásamt fylgiskjölum. R21020079
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti samþykkt velferðarráðs frá 20. janúar um hækkun tekju- og eignaviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningum félags- og barnamálaráðherra til sveitarfélaga 21. desember 2020 en í tillögunni felst að tekjumörk hækka um 3,6% og eignamörk um 7,23%. Jafnframt er lagt til að borgarráð hækki fyrrgreind tekjumörk um 8% umfram tekjumörk í leiðbeiningum til sveitarfélaga vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til jafns við hækkun ríkisins á frítekjumarki vegna almennra húsnæðisbóta til að ekki komi til skerðinga hjá þeim sem jafnframt eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Heildarhækkun tekjumarka verður 11,9% eftir breytingu eða frá og með 1. janúar 2021. Kostnaður vegna umframhækkunar tekju- og eignaviðmiða er áætlaður um 50 m.kr. og er fjármála- og áhættustýringarsviði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2021 vegna þessa. R20060079

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sérstakar húsnæðisbætur skipta sköpum fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna og búa í leiguhúsnæði. Reglur Reykjavíkurborgar um viðmið fjárhæða fyrir sérstakan húsnæðisstuðning hafa almennt tekið mið af leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög. Í ljósi aðstæðna er hér tekin ákvörðun um að rýmka þau viðmið sem stuðst er við þannig að fleiri tekjulágir Reykvíkingar fái sérstakan húsnæðisstuðning á þessu ári. Þær 50 milljónir sem ráðstafað er hér eru því að fara beint til þess hóps sem minnst hefur á milli handanna og því mikilvæg jöfnunaraðgerð.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Að hækka sérstakan húsnæðisstuðning upp að því marki að grunnlífeyrir öryrkja hjá TR verði ekki skertur myndi kosta aðeins um 40-50 m.kr. á ári. Það var gerður samanburður á því að hækka samkvæmt tillögu velferðasviðs og svo að hækka enn frekar. Á árinu 2021 var framfærsluviðmið lífeyrisþega almannatrygginga hjá einstaklingi sem býr einn og er með fullar bætur hækkað úr 345.732 kr. á mánuði í 366.178 kr. Hækkunin felur í sér að tekjur af útsvari hækka um 2.850 kr. á mánuði. Til að koma í veg fyrir skerðingu sérstaks húsnæðisstuðnings hjá þessum hópi þarf að hækka tekjuviðmið sérstaks húsnæðisstuðnings um 9,3% að lágmarki eða 5,5% umfram leiðbeiningar félagsmálaráðuneytis. Niðurstaðan var: Kostnaðarmat vegna hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings um 3,6% og eignamarka um 7,23% (hópur A) er áætlaður 49,6 m.kr. og rúmast innan fjárhagsáætlunar. En samkvæmt fjárhagsmati myndi viðbótarkostnaður vegna hækkunar tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings í hópi B verða 45-50 m.kr. á ári umfram hóp A en hærri tekjuviðmið húsnæðisbóta hafa lítil sem engin áhrif á kostnað Reykjavíkurborgar en öryrkjar og tekjulægri hópar njóta góðs af. Miðað við niðurstöðu greiningarinnar þá eru allir kostir fyrir því að auka frekar tekjumörkin til að draga úr skerðingum gagnvart öryrkjum.

    Regína Ásvaldsdóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. febrúar 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. febrúar 2021 á tillögu starfshóps velferðarráðs um styrkveitingar úr borgarsjóði, ásamt fylgiskjölum. R21020083
    Samþykkt. 

    Regína Ásvaldsdóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram greinargerð starfshóps um Sundabraut, dags. í janúar 2021, ásamt fylgiskjölum. R21020085

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna legga fram svohljóðandi bókun:

    Hér liggur fyrir vönduð skýrsla um Sundabraut þar sem niðurstaða starfshóps er að ódýrara sé að fara í Sundabrú en Sundagöng ef horft er á framkvæmdakostnað við samgöngumannvirkin. Samstaða er um að næsta skref felist m.a. í því að kanna kostina til hlítar með félagshagfræðilegri greiningu þar sem afleiddur kostnaður fyrir höfnina og nærlæg íbúahverfi komi einnig til skoðunar, eins og eðlilegt er þegar svo stór framkvæmd er annars vegar. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir samráði við íbúasamtök sem hafa sett eðlilega fyrirvara á brúarlausn og svara þeim spurningum sem upp koma í frekara ferli. Ýmislegt á eftir að útfæra og taka afstöðu til ýmissa valkost sem velt er upp í skýrslunni varðandi úrfærslu tenginga og gatnamóta sem geta haft mikil áhrif á nærliggjandi byggð.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Niðurstaðan er ljós: að brú sé hagkvæmasta útfærslan og göng séu því mun lakari kostur. Rekstrarkostnaður jarðgangna er dýrari en brúar. Þá eru hjólreiðar óheimilar í jarðgöngum. Mikilvægt er að útfærsla að vegtengingu við Hallsveg og Holtaveg verði best m.t.t. aðstæðna. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Loksins, loksins er Sundabraut/Sundabrú komin á dagskrá. Þessi vegtenging var eitt af stóru kosningamálum Miðflokksins í Reykjavík í liðnum borgarstjórnarkosningum. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil í málinu og óskiljanlegt að borgarstjóri finni Sundabrú allt til foráttu. Minnt er á að á hans vakt var nú síðast farið í uppbyggingu í Gufunesi í veghelgunarsvæði Sundabrautar og smáhýsin voru reist í vegstæði hennar. Allt hefur verið gert til að hindra rúmlega 20 ára loforð Samfylkingarinnar um Sundabraut sem var forsenda sameiningar Reykjavíkur og Kjalarness að sögn þáverandi borgarstjóra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ljóst er að ef reynir á ákvæði 3. mgr. 28 gr. vegalaga nr. 80/2007 sem hljóðar svo: „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn“ að Reykjavíkurborg þarf að greiða fleiri fleiri milljarða vegna hindrunar komu Sundabrautar. Fyrst var lokað fyrir hagkvæmustu leiðina þegar leyfi var veitt fyrir uppbyggingu á Kirkjusandi, síðar í Vogabyggð og nú síðast í Gufunesi. Öryggismálum í Reykjavík er illa sinnt og lítið gert með rýmingaráætlun borgarinnar. Sundabraut er öryggisventill Reykvíkinga og mikil samgöngubót fyrir landsmenn alla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynnt hefur verið skýrsla starfshóps Vegagerðarinnar um kosti Sundabrautar. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að Sundabraut þarf að vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar og að gangandi og hjólandi geti notað hana. Ef vel tekst til með hönnun brúa sem byggja þarf getur Sundabraut með glæsilegum brúarmannvirkjum orðið prýði í borginni.

    Guðmundur Valur Guðmundsson, Bryndís Friðriksdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Baldur Borgþórsson, Björn Gíslason, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Hjálmar Sveinsson, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf og Örn Þórðarson. Eftirtaldir starfsmenn taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Janus Arn Guðmundsson og Svanborg Sigmarsdóttir.

    -    Kl. 12:09 víkur Líf Magneudóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. febrúar 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leigutekjur vegna útleigu á Toppstöðinni síðustu 4 ár, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar 2021. R21010291

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áætlaðan kostnað við torg á Tryggvagötu og verktíma, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember 2020. R20120087

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Búið er að finna upp nýjar reiknikúnstir hjá Reykjavíkurborg þegar um framkvæmdir er að ræða. Reikningskúnstin er fáránleg og stenst enga skoðun. Hún er útskýrð hér. Stutta útskýringin er að kostnaðurinn er fenginn með því að deila heildarfjárhæð verksins alls með fermetrafjölda og fá út verð pr. fermetra. Fermetraverðið er síðan margfaldað með fjölda fermetra framkvæmdasvæðisins. Tryggvatorg kostar 91 milljón í heild. Óðinstorg er sagt hafa kostað 60 milljónir. Svarið varðandi Tryggvatorg byggist á því að ekki liggja fyrir nákvæmari greiningar á kostnaði einvörðungu við torgið þar sem það er hannað og boðið út að mestu í heild með nálægum götum. Allt annað er uppi á teningnum með Óðinstorg því hönnunarsamkeppni var um það og fjármagni veitt inn á verkið í samræmi við hana. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þegar lagt fram tillögu í borgarráði um að innri endurskoðanda Reykjavíkur verði falið að skoða öll ítargögn sem finnast hjá Reykjavíkurborg, s.s. fjárheimildir frá árinu 2017 til og með 2020, hönnunarsamkeppnir, útboð, skoðun á reikningum o.fl. til að upplýsa hvað endurbætur á Óðinstorgi raunverulega kostuðu útsvarsgreiðendur í Reykjavík. Það verður að kæfa þessar reikningskúnstir eignaskrifstofu Reykjavíkur í fæðingu. Reykjavíkurborg verður að fara að lögum en ekki stunda lagasniðgöngu.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. febrúar 2021. R21010023

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar: 

    Í lið 6 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Öryrkjabandalags Íslands um merkingar við göngugötur. Málinu er frestað á fundinum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað kallað eftir að gengið verði í að merkja göngugötur þannig að skýrt sé öllum að heimilt er í lögum að fatlaður einstaklingur hefur rétt til að aka á göngugötu og leggja í sérmerkt stæði. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur hefur orðið fyrir aðkasti þegar hann ekur þessar götur sem hann hefur fulla heimild til þar sem fólk hefur ekki verið upplýst um lagaheimildina og merkingar skortir. Í þeim svörum sem hafa borist við fyrirspurnum Flokks fólksins um þessi mál má finna ýmsar afsakanir. Skipulagsyfirvöld hafa jafnvel borið fyrir sig að svona umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins, aðeins fyrirsláttur. Ekki liggur fyrir hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta. Ef eitthvað er að í skipulagi sem skapar hættur eða óþægindi fyrir vegfarendur þarf að laga það.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 4. febrúar 2021. R21010004

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. febrúar 2021. R21010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Bókun við 2. lið í fundargerð íbúaráðs Breiðholts, kynning á tómstundastarfi í Breiðholti og samtal forsvarsmanna tómstundastarfs við íbúaráð Breiðholts. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessari bókun nefna að ekki stendur öllum börnum í Breiðholti til boða að læra á það hljóðfæri sem þau óska. Tónlistarnám barna í tónlistarskólum er háð efnahag foreldra þeirra því námið er dýrt. Fulltrúa Flokks fólksins er annt um að börn hafi jöfn tækifæri til tónlistarnáms. Í tvígang hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar sem eru 10, en hljómsveitir eru aðeins í 4 hverfum, til að geta boðið börnum að læra að spila á þau hljóðfæri sem þau óska. Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær að einhverju leyti mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á kennslu nema á einstaka hljóðfæri þá mun áfram ríkja ójöfnuður á þessu sviði nema eitthvað annað og meira komi til. Tónlistarnám í einkareknum skólum er aðeins fyrir börn efnameiri foreldra. Finna þarf leiðir til að auka jöfnuð og er það á ábyrgð borgarinnar að gera allt sem hægt er til að börn geta setið við sama borð í þessu sem öðru.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 3. febrúar 2021. R21010027

    Fylgigögn

  30. Lagðar fram fundargerðir samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 6. nóvember og 2. desember 2020. R20010016

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 20. janúar 2021. R21010016

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. febrúar 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins leggur til að hætt verði alfarið við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli: „Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi.“ „Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík. Ef markmið um þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður.“ „Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.“ Umhverfisskýrslan: Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða „grænum trefli“ hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. janúar 2021. R21010015

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Tekið er undir sjónarmið þau sem koma fram í bókun sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R21020013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið yfirlitsins: 

    Varðandi tillögu fulltrúa Félags eldri borgara um heilsueflingu aldraðra. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og tengist tillaga Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja þessari umræðu beint. Tillögunni var vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Staðan í dag er sú að ekkert sálfélagslegt úrræði er fyrir íbúa á reykvískum hjúkrunarheimilum og þeim sem búa heima stendur ekki slíkt til boða heldur. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst, oft án þess að greining liggi fyrir. Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur þess utan bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21020012

    -    Kl. 12:15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  36. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hefur Isavia sent borginni skýrslu hollensku loft- og geimferðarstofnunarinnar vegna áhrifa fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi? Ef svo er, hvenær var það gert og hvers vegna hefur hún ekki verið kynnt kjörnum fulltrúum? R21010035

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  37. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að fela innri endurskoðanda að skoða öll ítargögn sem finnast hjá Reykjavíkurborg, s.s. fjárheimildir frá árinu 2017 til og með 2020, hönnunarsamkeppnir, útboð, skoðun á reikningum o.fl. til að upplýsa hvað endurbætur á Óðinstorgi raunverulega kostuðu útsvarsgreiðendur í Reykjavík. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19030190
    Frestað.

    -    Kl. 12:40 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kanni hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Það skiptir miklu máli að tryggja gæði jafnréttisfræðslu og að börn sitji við sama borð þegar kemur að jafnréttisfræðslu, þ.e. að það sé ekki mikið misræmi á slíkri fræðslu milli skóla/hverfa. Undanfarið hefur komið fram sú skoðun hjá börnum og ungmennum að þau vilja meiri jafnréttisfræðslu. Þess vegna er brýnt að kortleggja fræðsluna og hvernig hún er lögð upp í skólunum. Einnig er þörf á að athuga stöðu jafnréttisfræðslu með tilliti til óska nemenda um frekari jafnréttisfræðslu og hvort tilefni sé til að gera breytingar til úrbóta almennt eða í einstökum skólum. R21010298

    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni um að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kannað hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd hefur verið vísað frá og sagt að sambærileg tillaga Flokks fólksins liggi fyrir í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði. Það sem þessi tillaga hefur umfram þá tillögu er að lagt er til að kannað verði hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Fulltrúi Flokks fólksins mun því leggja fram aftur þessa tillögu enda mikilvægt að skoða samræmingu á jafnréttisfræðslu í skólum.

Fundi slitið klukkan 12:43

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Dagur B. Eggertsson

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1102.pdf