No translated content text
Borgarráð
Ár 2021, fimmtudaginn 4. febrúar, var haldinn 5616. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstaddar voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Marta Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: borgarstjóri, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir ásamt áheyrnarfulltrúunum Daníel Erni Arnarssyni og Vigdísi Hauksdóttur. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Pétur Kr. Ólafsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðanna nr. 30 og 32 við Blesugróf, ásamt fylgiskjölum. R20110181
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt. R20040025Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2021, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hampiðjureits vegna lóðanna nr. 6 og 8 við Mjölnisholt, ásamt fylgiskjölum. R19060022
Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Líf Magneudóttir víkur af fundinum undir þessum lið.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar 2021 á drögum að yfirliti yfir verkefni og hlutverk vinnuhóps um yfirferð umsókna til Húsverndarsjóðs Reykjavíkur 2021, ásamt fylgiskjölum. R21010076
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 28. janúar 2021, um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál. R20120098
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í umsögn borgarinnar þá er stutt við meginmarkmið frumvarpsins um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Hins vegar má benda á það að langflest ferðaþjónustufyrirtæki eru staðsett í Reykjavík rétt eins og útivistar- og náttúruverndarsamtök og önnur mikilvæg samtök sem nota hálendið og væri það mikill fengur að fá fulltrúa Reykjavíkurborgar um borð við stjórnun þjóðgarðsins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun.
Þetta er nú aldeilis merkileg bókun. Allir flokkarnir í meirihlutanum leggja hana fram. Mjög mikil andstaða er við málið í samfélaginu. Að stofna til Hálendisþjóðgarðs á öllu hálendinu er eignaupptaka og útópía sem aldrei verður að veruleika. Já borgarfulltrúi Miðflokksins tilheyrir litlum grenjandi minnihluta landsmanna.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
- Kl. 9.25 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR). Jafnframt að samþykktar verði tillögur 1-5 og 7-8 í hjálagðri skýrslu stýrihóps um þjónustu borgarinnar við gæludýr frá október 2020. Kostnaður er 3 m.kr. fyrir fræðslu- og kynningarstarf, sbr. tillögu nr. 7, sem greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Aðrar tillögur þarfnast ekki viðbótarfjármagns en gert er ráð fyrir tilflutningi fjármagns á milli verkefna og sviða.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20110224
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð samþykkir að sameina þjónustu við dýr á einum stað með stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) með starfsstöð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Með þessu erum við að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur. Málefni katta verða með þessu flutt frá Meindýraeftirlitinu og Hundaeftirlitið lagt niður. Samhliða því verður hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík, hundagjöld lækkuð um allt að helming þannig að þau verði nú lægst á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem fjárfest verður í betri og fleiri hundagerðum. Von okkar er að hundaskráningum fjölgi svo unnt verði að kortleggja betur hvar flesta hunda er að finna í borginni svo hægt sé að einblína sérstaklega á betri hundagerði og bætta þjónustu á þeim svæðum. Ef skráningar aukast verulega er stefnt að frekari lækkun gjalda. Talið er að á um 40% heimila í Reykjavík búi gæludýr og því er það gleðiefni að við stígum hér skref til að bæta umhverfi og þjónustu við dýr og dýraeigendur. Með þessu viljum við gera dýrum og gæludýraeigendum hærra undir höfði enda dýr mikilvægur hluti af borgarsamfélagi auk þess sem gæludýr geta haft ýmisleg jákvæð áhrif á umhverfi sitt og þannig full ástæða til að hvetja til dýraeignar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að reglugerð um hundahald í Reykjavík verði breytt með þeim hætti að hundahald verði formlega leyft í Reykjavík. Hundahald er eðlilegur þáttur í samfélagi manna og sérstakar skilyrtar leyfisveitingar eru tímaskekkja. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna lækkun hundaeftirlitsgjalds en myndu heldur vilja að gjaldið yrði að fullu fellt niður og hundaeftirlit Reykjavíkur lagt niður. Hundaeigendur hafa ekki notið þjónustu í skiptum fyrir hundaeftirlitsgjald borgarinnar og telja innheimtuna því óréttmæta gjaldtöku. Síðustu ár hefur hundaeftirlit farið að mestu fram á samfélagsmiðlum með góðu samstarfi hundaeigenda í Reykjavík. Jafnframt þykir skráning hunda innan borgarmarkanna vera tímaskekkja, enda önnur dýr ekki sérstaklega skrásett. Örmerkjaskráningar hundaeigenda ættu að fela í sér nægjanlega skráningu, en í Bretlandi og á öðrum norðurlöndum hafa sveitarfélög lagt niður skráningarskyldu eftir að landlægir örmerkjagagnagrunnar komu til sögunnar. Ekki þótti svara kostnaði að ganga eftir skráningum í sveitarfélagi, auk þess sem tvískráning þótti óþörf. Hið opinbera þarf ekki að sinna sérstöku eftirliti eða skrásetningum hunda enda hafa borgarbúar og einkaframtak tekið sér þessi verkefni í hendur með farsælum hætti hérlendis.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um Dýraþjónustu Reykjavíkur endurspeglar þá tímaskekkju að eftirlit með hundahaldi sé nauðsynlegt í Reykjavík. Slíkt fyrirkomulag telst úrelt í nágrannalöndunum og þróun verkefna Hundaeftirlits Reykjavíkur síðastliðin 20 ár er að verkefnum fækkar verulega, 159 hundar vistaðir í geymslu árið 2000, en aðeins 8 hundar allt árið 2018, og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í nokkra tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum ekki fækkað sem er léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Að hundaleyfisgjöldin standi ekki undir kostnaði stenst ekki skoðun því ástæðan er launakostnaður starfsmanna sem hafa lítið sem ekkert að gera og sinna tilgangslausum verkefnum. Lausnin blasir við: leggja ætti niður Hundaeftirlitið. Skráning hunda hjá sveitarfélagi þjónar engum tilgangi enda eru allir hundar skráðir í landlægan gagnagrunn. Rök borgarinnar fyrir því að hafa fullan aðgang að þeim gagnagrunni til að vita hvar hver einasti hundur eigi heima, endurspeglar fordómafullt viðhorf gagnvart hundaeigendum. Nýja fyrirkomulagið hljómar eins og ekkert eigi að spara. Ekki á að leggja niður Hundaeftirlitið heldur er það fært til í þeirri von að skráningum fjölgi en þeim þarf að fjölga um 80% á þessum þremur „tilraunaárum“ ef dæmið á að ganga upp. Samráð við hagsmunaaðila er ekkert.
Ómar Einarsson, Sabine Leskopf, Þorkell Heiðarsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og María Níelsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 1. febrúar 2021, um breytingu á gjaldskrá Hundaeftirlitsins, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R20110224
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að lækka gjaldskrár Hundaeftirlitsins, bæði skráningu hunda um 40% og árlegt þjónustu- og eftirlitsgjald um 50%.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins harmar þá niðurstöðu að halda eigi áfram að innheimta hundaeftirlitsgjald. Þótt um sé að ræða lækkun þá er þetta gjald óréttmætt, úrelt og lýsir fordómafullu viðhorfi í garð hunda og hundaeigenda. Spyrja má hvort lögfræðingur borgarinnar sé búinn að gera úttekt á því hvort þessar tillögur samræmist þeim lögum sem eru í gildi, þ.e. 7/1998 lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og 55/2013 lög um velferð dýra. Það er ekki verið að spara í rekstri hundaeftirlitsins. Það er ekki verið að breyta hundaeftirlitinu eða leggja það niður, það er bara verið að færa það til og gefa því nýtt nafn til að fá fleiri skráningar inn. Skráningum þarf að fjölga um 80% á þessum þremur "tilraunarárum" til þess að útreikningar gangi upp. Hér ber fjármálastjóra að leiðbeina og þess utan hafa hagsmunaaðilar ekki fengið aðkomu að málinu annað en 20 mínútur í svo kallað „samráðið“ sem var í raun bara „spaug“ sennilega til að segja að þetta hafi verið soðið saman í samráði við hagsmunaaðila. Hér virðist ekkert hafa verið gert til að ná neinni sátt eða sameiginlegri niðurstöðu.
Ómar Einarsson, Sabine Leskopf, Þorkell Heiðarsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og María Níelsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa stofnframlög vegna almennra íbúða til umsóknar til samræmis við auglýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlög. R21020011
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 17. nóvember 2020, varðandi fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. janúar 2021. R20110304
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn stækkar báknið og er það óásættanlegt. Hækkunin nemur 10% sem er langt umfram þá 2,4% hækkun sem Reykjavíkurborg reiknaði með vegna verðtrygginga samninga til svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðissins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt öðrum landshlutasamtökum eru algjörlega óþarft og tilgangslaust millistykki á sveitarstjórnarstiginu. Kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu að um eftirá reikning er að ræða og er það algjörlega óásættanlegt. Hlutur Reykjavíkurborgar til nefndarinnar eru rúmar 16 milljónir.
Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning um lóðina Kleppsmýrarvegur 11, ásamt fylgiskjölum. R21010279
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. janúar 2021 á samstarfssamningi sviðsins og Samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R21010105
Samþykkt.Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Gerðarbrunni 48. R20100452
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 19. R21010264
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 60 íbúðir við Háteigsveg 35. R21020002
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að úthluta lóð á Háteigsvegi 35 undir hagkvæmt húsnæði samkvæmt nýrri leið ríkisins. Uppbyggingaraðili mun byggja á lóðinni hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Söluverð íbúðanna mun verða eftirfarandi: Tveggja herbergja íbúðir 32-41 m.kr., þriggja herbergja íbúðir 41-49,5 m.kr., fjögurra herberja íbúðir 49,5-54 m.kr. Hvað er hagkvæmt við verðið á þessum íbúðum? Þær eru í raun rándýrar. Verðið á þessum íbúðum eru ekki fyrir fyrstu kaupendur á íbúðarhúsnæði þó svo að ríkið komi inn með 20% eignarhlut í hverri íbúð. Merkilegast er þó að seljist íbúðirnar ekki innan 12 vikna þá má selja þær á almennum markaði. Það er því enginn hvati fyrir byggingaraðilann að selja fyrstu kaupendum íbúðirnar – heldur þvert á móti er hvatinn að selja þær á almennum markaði til að hámarka hagnað sinn. Hér er því verið að fara bakdyramegin inn í leið ríkisins um hlutdeildarlán og ekki síður að fá úthlutaða lóð á góðum stað í Reykjavík.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi viljayfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjóra um samstarf ríkisins og Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík. Í henni felst m.a. að aðilar eru sammála um að hafin verði vinna við næsta skref opinberrar framkvæmdar sem er áætlunargerð, ríkissjóður mun leggja út fyrir kostnaði vegna þeirrar vinnu en um hlutdeild Reykjavíkurborgar vegna kostnaðar við áætlunargerðina verður fjallað í samningi um heildarframkvæmdina. Þetta fyrirkomulag er til þess að tefja ekki framkvæmdina enda ekki búið að greina á milli hvaða þættir framkvæmdarinnar teljast til stofnkostnaðar, sbr. 47. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, og hvaða þættir teljist til viðhaldskostnaðar, sbr. 48. gr. sömu laga, og því óvissa hvað varðar greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar. Aðilar eru sammála um að hefja gerð formlegs samnings vegna heildarframkvæmdarinnar í kjölfar undirritunar yfirlýsingar þessarar. Aðilar munu óska eftir að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi umsjón með verkinu. R20090193
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla félagsvísindastofnunar, dags. janúar 2021, um greiningu á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg í október 2020. Einnig lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 2. febrúar 2021. R21010306
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikið hefur áunnist á undanförnum árum í að útrýma kynbundnum launamun. Til merkis um það var hann rúm 20% árið 1995 en er nú aðeins 0,9% og því vart mælanlegur. Ýmsir þættir hafa skipt máli í verkefninu en helst ber að nefna starfsmatsverkefni borgarinnar í samstarfi við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og BSRB. Öllum aðilum sem komið hafa að þessu verkefni er þakkað fyrir sinn þátt en um leið minnt á að til þess að viðhalda þessum góða árangri þarf stöðugt að vera að vinna að því að útrýma því óréttlæti sem felst í launamuni kynjanna. Launamuni á grundvelli ríkisfangs þarf að sama skapi að útrýma og unnið verður að því samtímis sem er mikilvægt.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista fagnar góðum árangri borgarinnar í því að minnka kynbundinn launamun og veltir fyrir sér hvort nú sé ekki kominn tími til að skoða af meiri þunga launamun og jafnrétti í víðara samhengi.
Lóa Birna Birgisdóttir, Elín Blöndal, Guðný Bergþóra Tryggvadóttir og Sindri Baldur Sævarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Dýraþjónustu Reykjavíkur, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. R20110201
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort fulltrúi frá hagsmunasamtökum t.d. félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands yrði boðið sæti í stýrihópnum sem verið er að samþykkja af meirihlutanum á fundi borgarráðs 4. febrúar 2021. Nú liggur fyrir að engum fulltrúa frá hagsmunahópum/samtökum er boðið í stýrihópinn. Hagsmunasamtök hundaeigenda hafa markvisst og kerfisbundið verið skilin út undan í allri vinnu við endurskipulagningu á dýraþjónustu í borginni fyrir utan einhvern 20 mínútna fund sem var ekkert annað en málamyndasamráð. Ekkert af því sem hagsmunafélögin lögðu á borðið var hlustað á hvað þá tekið til greina. Hið svokallað samráð sem meirihlutinn í borginni státar sig af að hafa við borgarbúa og hagsmunasamtök er eins og hvert annað grín.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 26. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verklag um meðferð umsókna í Arnarskóla, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021. R21010176
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um breytt verklag vegna þess að ekki lá skýrt fyrir í hverju breytingin á verklagi og ákvörðun um greiðslu framlags til sjálfstætt rekna sérskólans Arnarskóla fólst. Upp vaknaði sú hugsun hvort verið væri að gera foreldrum erfiðara fyrir með einhverjum hætti að sækja um fyrir barn sitt í þessum skóla en eins og vitað er hefur verið tekist á um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða fyrir vegna náms í Arnarskóla. Viðmið er nú 6 börn en var áður 4 börn og var barni hafnað eitt sinn á þeirri forsendu að það vantaði hið svokallaða ytra mat sem fulltrúa Flokks fólksins fannst nú bara vera fyrirsláttur. Aðalmálið er auðvitað að reglurnar séu sanngjarnar og heiðarlegar ef svo má að orði komast. Hagsmuni barns skal ávallt hafa að leiðarljósi og að í reglunum ætti að felast ákveðinn sveigjanleiki og tillitssemi gagnvart foreldrunum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um verkefnið Sumarborgin okkar 2020, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R20040179
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Loksins fékkst botn í hverjir fengu styrki frá Reykjavíkurborg í þessi verkefni. Það hefur þurft nokkrar fyrirspurnir og nokkra útúrsnúninga til að fá þessar upplýsingar upp á borðið.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sumarborgarverkefnið heppnaðist gríðarlega vel eins og listinn af styrkþegum og viðburðum er til merkis um. Rekstraraðilar, einyrkjar, sjálfstætt starfandi listamenn og fleiri eru á þessum lista en sum þessara verkefna vöktu mikla og jákvæða athygli á miðborginni í sumar. Þá er öllum þessum aðilum þakkað samstarfið og er tilhlökkun gagnvart sumrinu 2021 þegar orðin mikil.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um markaðsátak borgarinnar vegna COVID-19, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R20030221
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Loksins fékkst botn í hverjir fengu styrki frá Reykjavíkurborg í þessi verkefni. Það hefur þurft nokkrar fyrirspurnir og nokkra útúrsnúninga til að fá þessar upplýsingar upp á borðið.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sumarborgarverkefnið heppnaðist gríðarlega vel eins og listinn af styrkþegum og viðburðum er til merkis um. Rekstraraðilar, einyrkjar, sjálfstætt starfandi listamenn og fleiri eru á þessum lista en sum þessara verkefna vöktu mikla og jákvæða athygli á miðborginni í sumar. Þá er öllum þessum aðilum þakkað samstarfið og er tilhlökkun gagnvart sumrinu 2021 þegar orðin mikil.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Betri samgangna ohf., dags. 26. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um umsækjendur vegna starfs framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf., sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R20080082
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta svar er fordæmisgefandi fyrir framhaldið á starfi Betri samgangna ohf. Átta borgarfulltrúar og almenningur sig á því hvað þetta þýðir? Frá og með stofnun félagsins hafa kjörnir fulltrúar engan aðgang að upplýsingum úr Betri samgöngum ohf. á grunni þess að félagið er lögaðili á grunni ohf-félags sem þó fellur undir upplýsingalög nr. 140/2012. Hér er því um að ræða enn eitt opinbera ohf. svartholið þar sem kjörnir fulltrúar geta ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni hvað t.d. fjármál varðar. Önnur ohf. svarthol hins opinbera eru t.d. RÚV ohf., Nýji Landsspítalinn ohf., Isavia ohf., Íslandspóstur ohf., Harpa tónlistarhús ohf. og fleiri ohf. ríkisins. Það sem er nýtt í þessu ohf. félagi Betri samgöngum er, að búið er að blanda saman tveimur stjórnsýslustigum í eitt ohf. félag, þ.e. ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Ohf.-væðingin hjá hinu opinbera er afleit þróun í íslensku samfélagi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringar, dags. 1. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tímabundna breytingu á innheimtureglum, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2020. R20030221
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsnæði fyrir fólk sem sækir um alþjóðlega vernd, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. R20110205
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á ástandi húsnæðis fyrir fólk sem sækir um alþjóðlega vernd, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2021. R20110207
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Líkt og fram kemur í framlagðri umsögn sér starfsfólk skrifstofu framkvæmda og viðhalds á hverfastöðvum og verkbækistöðvum um að fylgjast með og viðhalda fasteignum Reykjavíkurborgar. Algengt er að farið sé í sérstakar ástandsúttektir og er tekið jákvætt í að fara í sérstaka úttekt á þessum tveimur fasteignum í eigu Reykjavíkurborgar sem fólk sem sækir um alþjóðlega vernd býr í. Láta mæla loftgæði og skoða öryggi og ástand.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 28. janúar 2021. R21010028
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 26. janúar 2021. R21010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 1. febrúar 2021. R21010069
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Neyðarstjórn Reykjavíkur virðist enn vera að funda. Hver er neyðin og hvaða botnlausa vitleysa er í gangi í stjórnun Reykjavíkur? Hver er neyðin? Kjörnir fulltrúar í borgarstjórn, borgarráði og fagráðum eru kosnir til að fara með stjórn borgarinnar. Ef borgarstjóri og meirihlutinn treysta sér ekki til að stjórna Reykjavík og framselja vald sitt til neyðarstjórnar sem enginn hefur kosið eiga þau að láta af völdum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021. R21010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið:
Fram kemur í gögnum að reynt verði að setja „fyrstu kaupendur“ (ungt fólk) í forgang að húsnæði við borgarlínuna. En þeir geta auðvitað selt eign sína. Ætlar borgin að skipta sér af því? Eru ekki allar íbúðir á opnum markaði? Hjólastígar: Lítið þýðir að tala um hjólastíga sem samgönguæðar ef þeim er ekki haldið við og vetrarþjónustu sinnt. Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða „grænum trefli“ hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna. Kolefnisspor: Í umhverfisskýrslunni segir: „Vistferilsgreiningar unnar hjá VSÓ Ráðgjöf sýna að kolefnisspor bygginga lækkar um 40% með því að velja timbur í stað steinsteypu“ Er þetta ekki einföldun? Steinsteypa endist í áraraðir, en timburbyggingar endast ekki lengi í röku loftslagi nema að þær verði fúavarðar. Til þess þarf eiturefni og þau þarf að taka með í reikninginn. Ef á að kolefnisjafna er hægt að rækta skóg á óbyggðum austursvæðum. Planta mætti langleiðina upp í Bláfjöll og Hengil.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 14. desember 2020. R20010015
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 1. febrúar 2021. R21010022
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 7. lið:
Heilsueflingu aldraðra hjá Reykjavíkurborg. Það er við hæfi að bóka undir liðum um heilsueflingu að tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Sátt er um það í borgarstjórn. Staðan í dag er sú að ekkert sálfélagslegt úrræði er fyrir íbúana á reykvískum hjúkrunarheimilum og þeim sem búa heima stendur ekki slíkt til boða heldur. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst oft án þess að greining liggi fyrir. Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur þess utan bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. R21020013
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21020012
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkir að ráðast tafarlaust í skipulag óskerts opnunartíma leikskóla Reykjavíkur, enda rann samþykkt skóla- og frístundaráðs um skertan opnunartíma af sóttvarnarástæðum út þann 31. desember 2020, eða fyrir liðlega fimm vikum. Ekki verður séð að þær aðstæður séu uppi í íslensku samfélagi sem kalli á skerta leikskólaþjónustu vegna COVID-19. Jafnréttismat hefur staðfest að skerðingar koma verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Tryggja þarf óskerta þjónustu tafarlaust svo fjölskyldur í Reykjavík fái nauðsynlegan sveigjanleika. R21020054
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Ástæða afsagnar þáverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða, haustið 2018 var 330 milljón króna framúrkeyrsla við framkvæmdir á íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík. Framkvæmdirnar fóru 83 prósent fram úr kostnaðaráætlun, sem var upp á 398 milljónir, og var heildarkostnaðar Félagsbústaða 728 milljónir. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur fengið ábendingar um að enn standi framkvæmdir/lagfæringar yfir við þetta húsnæði og á þeim grunni eru lagðar fram eftirfarandi fyrirspurnir: 1. Hver er heildarkostnaður Félagsbústaða við lagfæringar íbúða Félagsbústaða við Írabakka tæmandi talið miðað við 1. janúar 2021? 2. Var verkið boðið út eða er/var verkið unnið á grunni verktöku? 3. Ef verkið er/var unnið í verktöku – hvernig voru verktakar valdir? 4. Hvenær er áætlað að verklok verði og hvað er áætlað að endalegur kostnaður verið á framkvæmdunum? R18110009
Vísað til umsagnar stjórnar Félagsbústaða.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Reykjavíkurborg hefur farið leið ríkisins að segja upp starfsfólki og ráða í stað verktaka. Um er að ræða nokkurn blekkingarleik því launakostnaðurinn virðist lækka eða standa í stað á meðan verktakagreiðslur eru færðar á rekstur. Þessi aðferð er sérstaklega áberandi á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Á þessum grunni eru þessar fyrirspurnir lagðar fram: 1. Hvað eru margir verktakar á fjármála- og áhættustýringarsviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 2. Hvað eru margir verktakar á íþrótta- og tómstundasviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 3. Hvað eru margir verktakar á menningar- og ferðamálasviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? Hvað eru margir verktakar á skóla- og frístundarsviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 4. Hvað eru margir verktakar á umhverfis- og skipulagssviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 5. Hvað eru margir verktakar á velferðarsviði og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 6. Hvað eru margir verktakar á þjónustu- og nýsköpunarsviði og hvað voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? 7. Hvað eru margir verktakar á skrifstofum Ráðhússins og hverjar voru greiðslurnar til þeirra tæmandi talið árið 2020? R21020055
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi nýútkominnar skýrslu um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík vill fulltrúi Flokks fólksins leggja aftur fyrir tillögu um að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar en borgarhverfin eru 10. Ástæða fyrir framlagningu tillögunnar nú er að í vinnu stýrihópsins var ekki uppbygging tónlistarkennslu í grunnskólum skoðuð samhliða en það hefði verið nauðsynlegt til að leita leiða til að draga úr ójöfnuði. Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sína að rekja til bágs efnahags foreldra en einnig skorts á eftirspurn. Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær mikilvæg mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistanáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á t.d. píanókennslu sem ekki er á allra færi að stunda vegna mikils kostnaðar, gæti þátttaka í skólahljómsveit verið valmöguleiki. Þá er dregið úr ójöfnuði og mismunun á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 19. september 2019 þá tillögu að skólahljómsveitir verði í öllum 10 hverfum borgarinnar en hún var felld. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt. Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi, er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090203
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samhljóða tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er nú þegar til meðferðar á vettvangi skóla- og frístundaráðs sem hefur vísað henni til skoðunar hjá stýrihópi um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík. Stýrihópurinn hefur nýlega skilað af sér skýrslu sem er enn í umsagnarferli. Tillagan er ekki tæk á vettvangi borgarráðs á meðan hún er enn til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fyrirspurn Flokks fólksins í framhaldi af framlagningu borgarstjóra um ósk um samþykki borgarráðs að stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur DÝR: Hvernig má það vera að Hundaeftirlitið kostar það sama árum saman þrátt fyrir að mál þess dragist mikið saman? Ef litið er á þróun verkefna Hundaeftirlits Reykjavíkur síðastliðin 20 ár, er auðséð að verkefnum hefur fækkað gríðarlega. Sem dæmi voru 159 hundar vistaðir í geymslu árið 2000, en aðeins 8 hundar allt árið 2018, og kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í nokkra tugi. Samt sem áður hefur starfsgildum ekkert fækkað og kostnaðurinn stendur því í stað sem hlýtur að teljast léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Óskað er eftir rökstuðning um hvernig hundaeftirlitsgjöldum er ráðstafað. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvor lögfræðingur borgarinnar sé búinn að gera úttekt á því hvort þessar tillögur samræmist þeim lögum sem eru í gildi, þ.e. 7/1998 lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og 55/2013 lög um velferð dýra. R20110224
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
- Kl. 11.50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 11:55
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0402.pdf