Borgarráð - Fundur nr. 5615

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 28. janúar, var haldinn 5615. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek og Dóra Björt Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Pétur Kr. Ólafsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um banaslys í Sundhöll Reykjavíkur.

    Ómar Einarsson og Steinþór Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R21010081

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2021:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 690 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,11%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, en það eru 590 m.kr. að markaðsvirði, og tilboð að nafnvirði 1.630 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,31%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.598 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 27. janúar 2021. 

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg er að fá milljarða króna í greiðslur frá dótturfyrirtæki sínu en þarf engu að síður að taka lán fyrir rekstri sínum. Á mánudaginn var samþykkti Orkuveita Reykjavíkur að auka lántökuheimildir um tvo milljarða umfram það sem áætlað var í desembermánuði. Orkuveita Reykjavíkur greiðir eigendalán upp á 3,6 milljarða og arðgreiðslur upp á 2 milljarða og tekur lán fyrir því. Í gær tók Reykjavíkurborg sjálf tvo milljarða króna að láni. Þannig má segja að bæði dótturfélag og móðurskip séu samstíga í skuldsetningunni sem er orðin ískyggileg, enda er græna planið ekkert annað en áætlun um mestu skuldsetningu í sögu borgarinnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-nóvember 2020, dags. 28. janúar 2021.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R20010095

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. janúar 2021, með áætluðum tímasetningum vegna mánaðar- og árshlutauppgjöra á árinu 2021.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R21010261

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. janúar 2021, með tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2022-2026.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R21010179

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 22. janúar 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2021 vegna COVID-19. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg á 46% í Hörpu ohf. og er mikill fjárhagslegur baggi á bæði ríki og borg. Heildarframlög Reykjavíkur til Hörpu ohf. 2020 og 2021 er 1.530 milljónir. Verið er að óska eftir auka fjárframlögum frá Reykjavíkurborg upp á 263 milljónir á árunum 2020 og 2021. Samtals er Reykjavíkurborg því að leggja inn í félagið tæpan 1,8 milljarð á tveimur árum. Hlutur ríkisins í viðbótarframlaginu er 309 milljónir. Samtals eru þetta því aukafjárframlög upp á 572 milljónir. Ríkið leggur á þessu tveggja ára tímabili tæpa 2 milljarða inn í félagið með aukafjárframlögum. Reksturinn er því óarðbær sem nemur 3,8 milljörðum á þessum tveimur árum. Fasteignagjöld sem Reykjavíkurborg leggur á Hörpu hafa löngum verið íþyngjandi og tillaga sem ég flutti í fjárhagsáætlun fyrir 2021 um að borgin félli frá fasteignagjöldum á árunum 2020 og 2021 vegna tekjufalls út af COVID-19 var felld. Innheimt fasteignagjöld á árinu 2020 námu 321 milljón og á þessu tveggja ára tímabili er Reykjavíkurborg að fá 650 milljóna tekjur af húsinu. Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri er að gera. Öllum má vera ljóst að Harpa ohf. er ógjaldfær. Óskað er eftir að forstjóri Hörpu komi á fund borgarráðs sem fyrst og geri grein fyrir rekstri félagsins.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. janúar 2021, varðandi álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2021. R21010225

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér kemur fram að sorphirðugjöld eru áætluð 2,1 milljarður en voru rúmlega 1,7 milljarðar í fyrra. Hér er um hækkun upp á 22,2% að ræða. Í lífskjarasamningnum var gert ráð fyrir að opinberar gjaldskrár mættu ekki hækka umfram 2,5%. Þá hvatti Samband íslenskra sveitarfélaga sveitarfélög til að lækka gjaldskrár og þeim yrði haldið niðri eins og kostur er. Hér farið gegn bæði lífskjarasamningi og nýlegri hvatningu Sambandsins um gjaldskrár.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Borgarráðfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er fullkunnugt um það að samkvæmt lögum verða sorphirðugjöld að endurspegla kostnað við sorphirðu.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. janúar 2021, þar sem viðauki II við húsaleigusamning vegna Skipholts 27 er sendur borgarráði til kynningar. R20040120

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Loksins, loksins var hlustað á sjónarmið borgarfulltrúa Miðflokksins um að leigja aðstöðu fyrir heimilislausa. Borgarfulltrúinn hefur margsinnis talað fyrir því að Reykjavíkurborg myndi taka á leigu eða kaupa hótel eða gistiheimili fyrir þennan hóp sem á svo mjög um sárt að binda í borginni. Nú hefur verið orðið við því. Smáhýsin sem ætluð voru undir starfsemina eru flopp og einungis hefur 5 af 20 húsum verið komið í útleigu – hin standa ónotuð á athafnasvæði borgarinnar í Skerjafirði. Kostnaður við húsin hleypur á hundruðum milljóna og var óskiljanleg ráðstöfun á sínum tíma. Margt þarf að skoða í sambandi við ákvörðun, útboð sem ekki var tekið, komu húsanna til landsins og frágangi þeirra á lóðir. Þessu skrefi sem nú er tekið er fagnað mjög enda hávetur og margir heimilislausir eiga um sárt að binda.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins hefur ekkert uppbyggilegt lagt til málanna á kjörtímabilinu. Málefni heimilislausra sem er nær eingöngu verkefni Reykjavíkurborgar, eru í góðum farvegi. Reynt er að sinna þessum jaðarhópi af metnaði. Vönduð smáhýsi hafa verið reist og er flutt inn í sum þeirra, gistiskýli eru fyrir hendi og er umrædd aðstaða sem hér er verið að samþykkja einnig hluti af þjónustu við heimilislausa í heimsfaraldri, m.a. til að tryggja fjarlægðarmörk.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þetta er rangt hjá meirihlutanum. Margoft hefur komið fram að borgarfulltrúi Miðflokksins hefur lagt þunga áherslu á skjóta úrlausn í málefnum heimilislausra með því að kaupa/leigja hótel eða gistiheimili fyrir heimilislausa. Það veit meirihlutinn mætavel en neitar að viðurkenna þær staðreyndir.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tvo leigusamninga vegna verkefnisins skapandi húsnæði í Bryggjuhverfi. R20050002
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús á lóðinni Háteigsvegur 59. R21010249
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir um 62 íbúðir við Jöfursbás 9 í Gufunesi. R21010258
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi úthlutun er hluti af verkefninu hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur. Auglýst var eftir góðum hugmyndum og er ein þeirra nú að raungerast. Nýsköpun í húsnæðismálum hefur verið gríðarleg á undanförnum árum í Reykjavík, bæði með þessu verkefni og með uppbyggingarverkefnum án hagnaðarsjónarmiða. Þá var árið 2020 næstmesta uppbyggingarár í sögu borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að úthluta byggingarrétti á lægra verði en markaðsvirði til einkahlutafélags. Aðilinn var valinn árið 2018 en úthlutunarmagn lá þó ekki fyrir fyrr en nú; tæpum þremur árum síðar. Í vilyrði frá 16. maí 2019 var ekki heldur kveðið á um umfang byggingaréttar, en í vilyrðinu er kveðið á um að lokagreiðsla ætti að eiga sér stað „eigi síðar síðar en ári eftir úthlutun lóðarinnar“. Í úthlutun í dag er samþykkt að kaupverðið sé óbreytt og óverðbætt, 45.000 kr. á m2. Þá er veitt heimild til að ljúka greiðslum árið 2023 sem er í raun lán án vaxta á tímabili þar sem húsnæðisverð hækkar ört. Þetta er ekki gagnsætt ferli.

    Áheyrnarfulltrúa Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að úthluta lóð undir hagkvæmt húsnæði samkvæmt nýrri leið ríkisins. Uppbyggingaraðili mun byggja á lóðinni hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Söluverð íbúðanna mun verða eftirfarandi: Stúdíóíbúð 32 m.kr., tveggja herbergja íbúð 36,5-41 m.kr., þriggja herbergja íbúð 46 m.kr., fjögurra herbergja íbúð 49,5 m.kr. og fimm herbergja íbúð 54 m.kr. Hvað er hagkvæmt við verðið á þessum íbúðum? Þessar íbúðir eru ekki fyrir fyrstu kaupendur á íbúðarhúsnæði þó svo að ríkið komi inn með 20% eignarhlut í hverri íbúð. Merkilegast er þó að seljist íbúðirnar ekki innan 12 vikna þá má selja þær á almennum markaði. Það er því enginn hvati fyrir byggingaraðilann að selja fyrstu kaupendum íbúðirnar – heldur þvert á móti er hvatinn að selja þær á almennum markaði. Hér er því verið að fara bakdyramegin inn í leið ríkisins um hlutdeildarlán.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. janúar 2021, varðandi úthlutun úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen sem fór fram 30. desember 2020. R16020043

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svarbréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 22. janúar 2021, um kröfu Reykjavíkurborgar varðandi greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. R19050155

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samstarfssamninga um þróun á Vísindaþorpi í Vatnsmýri og skipi fulltrúa borgarinnar í verkefnahópa þeim tengdum. Samningarnir eru tveir. Fyrri samningurinn fjallar um að efla samstarf, skipulag og innviði innan Vísindaþorpsins en aðilar Vísindaþorpsins eru auk Reykjavíkurborgar Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn. Seinni samningurinn er um sameiginlega kynningu framangreindra aðila á svæðinu á alþjóðavísu í samstarfi við Íslandsstofu. Lagt er til að Þorsteinn Gunnarsson borgarritari verði fulltrúi borgarinnar í samstarfinu og Óli Örn Eiríksson teymisstjóri atvinnuteymis verði fulltrúi borgarinnar í vinnuhópi vegna markaðssamstarfsins. Kostnaður verður 10 m.kr. og greiðist af ófyrirséðu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21010252
    Samþykkt.

  15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. janúar 2021, þar sem erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2021, um tilnefningu tveggja kjörinna fulltrúa frá Reykjavíkurborg í starfshóp stjórnar samtakanna vegna verkefnis um stjórnsýslu byggðasamlaga er sent borgarráði til kynningar. R21010240
    Samþykkt að Dóra Björt Guðjónsdóttir og Egill Þór Jónsson taki sæti í starfshópnum fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að tilnefna í starfshóp um stjórnsýslu byggðasamlaga. Verkefnið framundan snýr m.a. að því að fara yfir skilgreiningu á verkefnum byggðasamlaganna og skoða hvaða verkefnum sé rétt að útvista og hvaða verkefni eigi best heima innan byggðasamlaga. Fulltrúi sósíalista ítrekar þá skoðun að vinda þurfi ofan af útvistunarstefnu byggðasamlaganna og leggst gegn útvistun í starfsemi sveitarfélaganna. Sé t.a.m. litið til Strætó bs. hefur um helmingi af akstri Strætó bs. verið boðinn út og verktakar sjá því um stóran hluta af grunnþjónustunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að skipa í starfshóp í byggðasamlagskerfi. Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Dóru Björt Guðjónsdóttur í starfshópinn fyrir hönd meirihluta og tilnefni jafnframt einn fulltrúa úr minnihluta í starfshópinn. Er það í fyrsta sinn sem boðið er upp á að fulltrúi minnihlutans taki þátt í starfi sem þessu? Eitt af hlutverkum hópsins er að fara yfir helstu niðurstöður skýrslu Strategíu frá því í júní 2020 og þeirrar vinnu sem hefur farið fram. Það er gott. Fyrirtækið reyndi að draga fram sviðsmyndir m.a. sem gæti gert bs.-kerfið lýðræðislegra. Ekki hefur verið ákveðið hvaða sviðsmynd, ef einhverja, á að skoða. Hvað sem öllum sviðsmyndum líður er staðreyndin sú að byggðasamlagskerfið sjálft er ekki nógu lýðræðislegt. Niðurstaðan er skýr, bs.-stjórnkerfið virkar illa, eigendur eru langt frá ákvörðunum og virkni eigenda lítil. Vald kjörinna fulltrúa er framselt til bs. Reynsla Reykjavíkur af byggðasamlögum er ekki góð, rýr hlutur í stjórnun en rík fjárhagsleg ábyrgð. SORPA er skýrasta nýlega dæmið. Bs.-hugmyndin sem slík er ólýðræðisleg. Betra væri að sameina sveitarfélög og kominn er tími til að pólitíkin fari að taka þá umræðu fyrir alvöru.

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. janúar 2021, þar sem minnisblöð um stöðu velferðar- og atvinnumála í Reykjavík í lok árs 2020 eru send borgarráði til kynningar. R20060197

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lögð fram fyrsta samantekt borgarvaktarinnar sem borgarráð samþykkti að setja á fót til að vakta afleiðingar faraldursins á aðstæður borgarbúa í velferðar- og atvinnumálum. Atvinnuleysi í borginni ríflega tvöfaldaðist í upphafi árs samanborið við síðasta ár, notendum fjárhagsaðstoðar hefur fjölgað sem og tilvísunum til skólaþjónustu, útköllum vegna heimilisofbeldis og tilkynningum til barnaverndar. Það er því ljóst að afleiðingar COVID eru margvíslegar og mikilvægt að Reykjavíkurborg vinni að því að styrkja alla verndandi þætti og tækifæri til heilsueflandi lífs fyrir borgarbúa alla og sú vinna er í forgangi. Á þessum fundi erum við að leggja fram tillögur um vinnumarkaðs- og virkniaðgerðir, við sjáum að biðlistar eftir félagslegum íbúðum hafa styst og fólk gengur meira um borgina svo sumir vísar þróast í rétta átt. Verkefnið framundan er að rýna hvaða aðgerðir borgin getur farið í til að standa með borgarbúum öllum í gegnum þessa erfiðu tíma.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að ofbeldismálum og barnaverndarmálum fjölgar mjög á milli ára. Enn fremur hefur vímuefnanotkun aukist meðal ungmenna á skólaaldri. Athygli vekur að ekki eru til tölur um fjölda heimilislausra. Auk þess býr fjöldi fólks í ósamþykktu og óviðunandi húsnæði. Þá vantar ennfremur tölur um þá sem forðast að mæta í skólann (skólaforðun) og mikilvægt er að fylgjast með þátttöku í íþróttastarfi. Sumir félagsvísar eru kyngreindir, svo sem andleg líðan, en það kann að vera gagnlegt að fá frekari greiningu á þáttum eins og vímuefnanotkun. Mikilvægt er að fylgjast nánar með andlegri líðan barna í Reykjavík og nýta þau úrræði sem tæk eru til að bæta hana.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á krepputímum er nauðsynlegt að bregðast við og tryggja grunnstoðirnar. Fjárhagsaðstoð sem er lág upphæð, þarf að hækka, tryggja þarf að skólarnir séu skjól sem öll börn geti mætt í og gengið að því vísu að þar fái þau næringarríkan mat sem þjóni þörfum þeirra. Tryggja þarf húsnæðisöryggi borgarbúa með því að eyða biðlistum eftir húsnæði og ganga úr skugga um að enginn búi í óheilnæmu rými. Standa þarf vörð um andlega heilsu og tryggja að fólk geti fengið þá aðstoð sem það þarf á að halda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í gögnum að mikil breyting hefur orðið á þjónustu við fólk í heimahúsum frá því faraldurinn hófst, þó misjafnt eftir þjónustuþáttum. Eðlilega fækkaði ferðum og aukning varð á heimsendum mat. Í félagslegri heimaþjónustu hefur notendum fækkað enda eldri borgarar hræddir við að fá ókunnugt fólk inn á heimilin vegna hættu á smiti. Í heimahjúkrun er fjölgun enda hér um að ræða fólk sem verður að fá hjúkrun. Ekkert er minnst á andlega líðan þessa hóps og hvernig hefur tekist að veita þeim sálfélagslega þjónustu. Eins og vitað er hefur neysla geðlyfja aukist til muna hjá þessum aldurshópi. Ekki kemur á óvart að kvíði, þunglyndi og önnur vanlíðunareinkenni geri vart við sig á þessu æviskeiði og í COVID hefur líðan margra versnað m.a. vegna einangrunar og ótta við faraldurinn. Í COVID-faraldrinum síðustu mánuði hafa þróast tæknilausnir eins og samskipti með viðræðum gegnum tölvuskjái. Slíkar „skjáheimsóknir“ geta þó aldrei komið í staðinn fyrir persónuleg tengsl og spjall þar sem fólk talar saman maður við mann, og geta varla flokkast sem sálfélagslegt meðferðarúrræði. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst og er það með öllu óásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð vísi eftirfarandi tillögum starfshóps um mótun nýs fyrirkomulags á markvissum vinnu- og virkniaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna stöðu á vinnumarkaði vegna COVID-19, fyrir árin 2021 og 2022, til samþykktar borgarstjórnar: 1. Að komið verði á fót atvinnu- og virknimiðlun sem komi virkni og vinnuaðgerðum í framkvæmd í áföngum eftir því hvernig staða á vinnumarkaði þróast á tímabilinu 2021-2022. Annars vegar er um að ræða vinnumiðlun á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs og hins vegar stuðnings- og virkniúrræði á vegum velferðarsviðs. 2. Ráðið verði í 9 stöðugildi sérfræðinga sem starfa við vinnumiðlun og við stuðningsaðgerðir. 3. Áætlað er að fyrsti áfangi hefjist í febrúar 2021 þar sem verða sköpuð störf og stuðningsúrræði fyrir eftirfarandi hópa: a. Atvinnulausir einstaklingar með bótarétt, 150 störf. b. Vinnufærir einstaklingar sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu, 50 störf. Áætlað er að atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar muni í fyrsta áfanga skapa um 200 störf, meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun, og heildarkostnaður verði um 460 m.kr. sem greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Útgjöldin skiptast þannig: 255,5 m.kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða fyrir vinnufæra einstaklinga með bótarétt úr atvinnuleysistryggingasjóði (mótframlag Reykjavíkurborgar vegna launa). 101 m.kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða fyrir vinnufæra einstaklinga án bótaréttar úr atvinnuleysistryggingasjóði (greiðsla launa að frádreginni fjárhagsaðstoð). 103,5 m.kr. vegna reksturs atvinnu- og virkniráðgjafar (launakostnaður, námskeið o.fl.). Í meðfylgjandi áætlun er gert ráð fyrir fullri starfsemi frá byrjun marsmánaðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20060016
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið tillagnanna er að halda utan um virkniúrræði á vegum sviðsins og stytta boðleiðir milli virkniúrræða. Það að veita einstaklingum á fjárhagsaðstoð kost á vinnu og virkni er gríðarlega mikilvægt skref í að hjálpa fólki aftur út í lífið. Hægt er að spara miklar fjárhæðir og auka lífsgæði einstaklinga með því að vinna markvissa vinnu í þessum efnum. Mikilvægt er að marka stefnu í því að hjálpa einstaklingum út úr félagslega kerfinu á kerfisbundinn hátt, með það að leiðarljósi að einstaklingar standi á eigin fótum og séu ekki háðir kerfinu til frambúðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að koma á fót nokkuð stórri vinnumiðlun og tilbúnum störfum, enn eitt kerfið með yfirbyggingu. Ráðið verður í 9 stöðugildi sérfræðinga. Auk kostnaðar við laun og launatengd gjöld þá er alls konar annað sem kostar, s.s. námskeið, samfélagsfræðsla, vakta þarf þróun á vinnumarkaði, meta gagnsemi aðgerða og gera tillögur að næstu áföngum o.s.frv. Þessi eining kostar borgina nettó 460.000. Þetta eru mikilvæg og nauðsynleg verkefni, ekki er dregið úr því. En fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé hægt að fela starfsmönnum sem fyrir eru að sinna þessum verkefnum eða vera í samstarfi við þá sem nú þegar sinna þessu. Borgarkerfið er að verða eins og völundarhús og fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort borgarbúar þekki innviðina. Nú er einnig verið að leggja til stofnun Virknihúss, annað kerfi, önnur yfirbygging. Ekki hefur verið vilji til að gefa út upplýsingabækling um þjónustu borgarinnar. Borist hafa ábendingar um að upplýsingaflæði til fólksins sé ábótavant, að fólk viti ekki hvert það eigi að snúa sér eftir upplýsingum eða hver réttindi þeirra séu. Með fjölgun deilda/skrifstofa/kerfa innan borgarinnar verður þetta ekki einfaldara.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 18. janúar 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 16. desember 2020 á tillögu um þróun virkniúrræða velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum. R21010201
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með sameiginlegri verkefnastjórn fyrir átaksverkefni er hægt að auka yfirsýn, samræma inntökuferli og þróa úrræðin áfram notendum til hagsbóta. Með virknihúsi má auka samstarf milli þeirra sem sinna endurhæfingu fyrir þennan hóp og auka yfirsýn yfir endurhæfingarúrræði sviðsins. Með því að koma á fót úrræðabanka má minnka flækjustig, einfalda utanumhald og gefa notendum tækifæri á meiri sveigjanleika í vali á úrræðum og bæta eftirfylgd.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmiðið tillagnanna er að halda utan um virkniúrræði á vegum sviðsins og stytta boðleiðir milli virkniúrræða. Það að veita einstaklingum á fjárhagsaðstoð kost á vinnu og virkni er gríðarlega mikilvægt skref í að hjálpa fólki aftur út í lífið. Hægt er að spara miklar fjárhæðir og auka lífsgæði einstaklinga með því að vinna markvissa vinnu í þessum efnum. Mikilvægt er að marka stefnu í því að hjálpa einstaklingum út úr félagslega kerfinu á kerfisbundinn hátt, með það að leiðarljósi að einstaklingar standi á eigin fótum og séu ekki háðir kerfinu til frambúðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Varðandi Virknihús sem er eitt af átaksverkefnum sem kynnt eru. Ef þessum tillögum um Virknihús er ætlað draga úr flækjustigi kerfisins, hagræða, einfalda og flýta fyrir afgreiðslu, þá er það gott. Eins og þetta er kynnt virkar þetta ekki mjög skýrt. Gott væri að með fylgdi dæmi um t.d. hvernig þessi útfærsla snýr að einstaklingnum. Ráða á teymisstjóra og fleiri í kjölfarið. Fulltrúi Flokks fólksins óttast kostnað vegna yfirbyggingar sem oft á það til að ofvaxa. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort komið sé enn eitt kerfið, ein yfirbygging í viðbót. Hefði ekki verið einfaldara að fela einhverjum tveimur starfsmönnum velferðarsviðs að sinna þessari samþættingu frekar en að setja á laggirnar enn eina nýja yfirbyggingu? En það er fulltrúa Flokks fólksins að meinalausu að styðja þessa tillögu í þeirri von að hún leiði til gagns og einföldunar fyrir notendur.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 25. janúar 2021, um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, mál nr. 354. R20120137
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt hvað borgin vill treysta á ríkið með margt t.d. í sambandi við tæplega 900 barna biðlista í skólaþjónustuna. Velferðaryfirvöld voru uppveðruð þegar félagsmálaráðherra kynnti farsældarfrumvarpið og töldu að komin væri lausn á stóra biðlistavanda borgarinnar. En nú kveður á við annan tón sem sjá má í drögum að umsögn. Í ljós hefur komið að það hlutverk sem sveitarfélög eiga að taka á sig eins og því er lýst í frumvarpinu mun kosta mikla fjármuni og ótti er um að þeir fylgi ekki með. Tengiliður, málastjóri og fleira sem sveitarfélög eiga að halda utan um er bæði illa skilgreint hjá félagsmálaráðherra og erfitt að átta sig á hvað kostar. Það er skynsamlegt að hafa varann á þegar Alþingi segir að það ætli að flytja verkefni yfir ríki til borgarinnar og að fjármagn skuli fylgja í gegnum Jöfnunarsjóð. Ríkið stóð ekki við eldri fyrirheit í tengslum við t.d. þjónustu við fatlað fólk og NPA samninga. Verkefnið sjálft er metnaðarfullt og í rauninni mun tíminn leiða það í ljós hvort verið sé að gera of mikið í einu. Þar mun skipta mestu áhugi næstu ríkisstjórnar á verkefninu.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2021, um frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu, 355. mál. R20120138
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir margt sem fram kemur í umsögninni. Ekki orði er þó minnst á rúmlega 800 barna biðlista eftir sálfélagslegri þjónustu hjá borginni og annar eins ef ekki lengri biðlisti er hjá stofnunum ríkisins. Lögð er áhersla í umsögninni á uppbyggingu úrræða fyrir börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Nauðsynlegt er að hafa úrræði fyrir þessi börn en þetta er þó ekki stærsti hópurinn (21 í árslok 2020). Stærsti hópurinn eru börn sem eru ekki með alvarlegar þroskaraskanir en glíma engu að síður við mikla andlega vanlíðan af ýmsum orsökum. Vegna þess hve lengi þarf að bíða eftir þjónustu þá versnar líðan barna og endar jafnvel í bráðamáli. Ríki og borg hafa ekki tryggt nægt fagfólk til að sinna þessum börnum og fjölskyldum þeirra. Í umsögninni er vísað í sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur. Þau rúmlega 800 börn sem bíða eftir sálfræðiþjónustu hjá skólum eru þó sennilega fæst barnaverndarmál. Bæði ríki og borg þrýsta foreldrum æ meira til að fara með börnin í einkageirann. Þjónusta einkageirans er dýr. Í frumvarpinu kemur fram að Barna- og fjölskyldustofu verði heimilt að taka gjald fyrir sérstök verkefni. Þessu er mótmælt af hálfu Flokks fólksins. Ljóst er að þeir sem ekki hafa góð fjárráð munu þ.a.l. ekki fá fullnægjandi þjónustu fyrir börn sín.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. janúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. janúar 2021 á leyfi fyrir skólastarfi á miðstigi, 6. og 7. bekk, í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík út skólaárið 2020-2021, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R21010173
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. janúar 2021, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við endurbætur og uppbyggingu vegna Aðalstrætis 10, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. R20030241

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 15. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um útvistun á þjónustu- og nýsköpunarsviði, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020. R20110346

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari er ítarleg lýsing á tækniframförum samtímans og nánustu framtíðar sem kallaðar hafa verið fjórða iðnbyltingin, vísað er til „sjálfvirknivæðingar, þróunar gervigreindar, róbótatækni“ og hvað eina, en fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað þetta kemur uppsögnum á reynslumiklum tölvuþjónustumönnum borgarinnar við. Í svari er rætt um greiningarvinnu „Capacent“ og „Gartner Group“. Hafa þessir aðilar ráðlagt að opinber rekstur skuli leggja niður innri tölvuþjónustu sem búið er að þróa árum saman og er með skýra verkferla? Varla. En ef svo væri það alvarlegt mál. Fulltrúa Flokks fólksins óar við þessum ráðgjafarkaupum svo ekki sé minnst á ferðalög ef litið er til undanfarinna ára en ferðalög tilheyra nú vonandi liðinni tíð þegar fjarfundareynslan er komin. Eru aðrar skrifstofur og svið Reykjavíkurborgar að kaupa annað eins af erlendum ráðgjafafyrirtækjum og þetta svið? Hvar er svo öll hagræðingin og sparnaður á útsvarspeningum borgarbúa? Útboðsgerð vegna úthýsingar á síma- og vettvangsþjónustu stendur yfir eins og segir í svari og leggja á áherslu á sérfræðiþekkingu. Er verið að segja með því að sérfræðiþjónusta hafi ekki verið fyrir? Var ekki einmitt boðið upp á ISO-vottaða gæðaþjónustu áður?

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ýmislegt mun sennilega koma til með að breytast í stafrænni vegferð borgarinnar þar sem tæknin getur leyst af hendi það sem fólk gerði áður fyrr. Í þeirri vegferð er mikilvægt að borgin leggi samt sem áður áherslu á að tryggja starfsöryggi. Þar þarf að fara fram umræða og stefnumótun vegna tækniframfara og áhrifa þeirra á vinnumarkaðinn.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar borgarritara, dags. 25. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur Reykjavíkurborgar til RÚV vegna auglýsingakaupa, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R21010119

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tæpar 37 milljónir runnu frá Reykjavíkurborg til RÚV á fimm árum í auglýsingar, þ.e. árabilið 2016-2020 að báðum árum meðtöldum. Það er vel í lagt svo ekki sé meira sagt. Reykjavíkurborg greiðir RÚV auk þess tæpar 6 milljónir í leigu á ári vegna þjónustumiðstöðvar sem er í húsinu. Ekki má gleyma 14 milljóna styrk sem Reykjavíkurborg ákvað að veita í krakkaefni sem á að framleiða á RÚV. Hér erum við að tala um sannkallaða mjólkurkú inn í rekstur RÚV sem nýtur margra milljarða framlaga ríkisins auk auglýsingatekna í samkeppni við einkarekna fjölmiðla.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Bókanir áheyrnarfulltrúa Miðflokksins eru átakanlegar. Auglýsingakostnaður borgarinnar er hár en eðlilegur enda starfsemin gríðarlega umfangsmikil. Eina framlag flokksins á þessu kjörtímabili eru samsæriskenningar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eru allar þessar milljónir samsæri – já einmitt. Tölurnar tala sínu máli.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um gjaldfrjáls frístundaheimili, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. R20110275

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef frístundaheimilin yrðu gerð gjaldfrjáls, væri lágmarkskostnaður borgarinnar 420 m.kr. á ári. Í svari er tekið fram að ef frístund yrði gjaldfrjáls mætti reikna með fjölgun barna og þar með auknum kostnaði. Fulltrúi sósíalista ítrekar þá skoðun að skólar og frístund eigi að vera gjaldfrjáls.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir að frístundaheimili skuli gjaldfrjáls og einnig að skólamáltíðir verði fríar. Hér er fulltrúinn að hugsa um fátæka foreldra þar sem fátækt þeirra hefur áhrif á grunnþarfir barnanna. Á haustönn 2020 voru sendar út 39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun. Foreldrar 10 barna athuguðu ekki með frekari aðstoð og hefur börnum þeirra verið vísað úr frístundaheimilisdvölinni. Ekki er vitað hvar þessi börn dvelja nú eftir skóla. Reykjavíkurborg er rík borg. Byrja þarf á að huga að fólkinu og tryggja að sem allra flestum líði vel og fái þá þjónustu, lögbundna sem aðra, sem þau þarfnast. Fram kemur í svari fjármálastjóra að lágmarkskostnaður borgarinnar vegna gjaldfrjálsra frístundaheimila væri rúmlega 420 m.kr. að teknu tilliti til tekna og systkinaafsláttar. Þetta telst ekki há summa í sjálfu sér t.d. ef borið er saman við allar þær milljónir og milljarða sem hafa farið í einskisverða hluti eins og endurgerð braggans og fjölmargt fleira. Frístundin er frábært úrræði og hefur gefið foreldrum tækifæri til að sinna vinnu sinni áhyggjulaus. Sömuleiðis má búast við aukinni aðsókn að sumarfrístund verði hún gerð gjaldfrjáls sem yrði einnig afar gleðilegt. Því fleiri hamingjusöm og áhyggjulaus börn í borginni því ánægjulegra.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar borgarritara, dags. 25. janúar 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fundargerðir neyðarstjórnar, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20100395

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að svara þriggja mánaða gamalli fyrirspurn þar sem við vöktum athygli á því að borgarráð hefði ekki aðgang að fundargerðum neyðarstjórnar. Úr því hefur nú verið bætt.

    Fylgigögn

  27. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 14. og 18. janúar 2021. R21010018

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg ber að gera samstæðuuppgjör samkvæmt sveitastjórnarlögum. Það er hins vegar ekki gert. Í stað þess eru gerð „samantekin reikningsskil“ þannig að eigið fé er stórlega ofmetið en einmitt þess vegna gefur ársreikningur borgarinnar ekki glögga mynd af rekstri hennar.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. janúar 2021. R21010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fundargerð kemur fram að íbúaráðið fagnar yfirlýsingu varaformanns skipulags- og samgönguráðs þess efnis að fallið verði frá tillögum að breytingum á aðalskipulagi vegna reits M22 í Úlfarsárdal. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að ekki verði endilega fallið frá þessu heldur sé þetta aðeins sett á ís. Málinu er frestað en ekki hefur verið staðfest að fallið hafi verið frá þessu og er það miður. Aðalskipulag á að gilda og vill fulltrúi Flokks fólksins ítreka í bókun að skipulagsyfirvöld staðfesti að fallið verði alfarið frá hugmyndum um að hafa einungis verkstæðisstarfsemi á umræddum reit. Almennt séð á að reyna að blanda saman atvinnu- og íbúðasvæði ásamt samgöngumiðstöðvum í hverfum borgarinnar að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 20. janúar 2021. R21010032

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 21. janúar 2021. R21010004

    Fylgigögn

  31. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar frá 18. og 25. janúar 2021. R21010069

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 19. janúar 2021. R21010021

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. desember 2020. R20010017

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýsamþykkt fjárhagsætlun 2021 er þegar fallin um sjálfa sig en tveimur vikum eftir að hún tekur gildi er verið að taka 300 milljóna króna yfirdrátt. Það er því ljóst að fjárhagsáætlun Strætó bs. er byggð á sandi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miklum áhyggjum er lýst yfir með rekstur Strætó bs. Betlistafur til ríkisins fyrir áramót upp á tæpan milljarð bar engan árangur. Nú hefur félaginu verið veitt heimild til 300 milljóna yfirdráttarláns. Öllum má vera ljóst að Strætó bs. er að komast í þrot í rekstri sínum. Vagnarnir flengjast um götunar galtómir og þar af leiðandi án tekna með tilheyrandi svifryksmengun.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 8. janúar 2021. R21010017

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fundargerð Strætó bs. frá 8. janúar 2021 kemur fram að stjórn samþykkti að stytta þjónustutíma Strætó á kvöldin tímabundið þar til fyrir liggur hverjar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings almenningssamgöngum verða á árinu. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að almenningsþjónusta skerðist ekki á þeim tímum sem við búum nú við.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar 2021. R21010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðarinnar:

    Hér er verið að tala um heilsu fólks. Svifryk er sannarlega vandamál í borginni og vinna þarf markvisst að því minnka það. Bæta má ástandið með ýmsum aðgerðum. Einfalt atriði er að hafa frítt í Strætó þegar svifryksdögum – gráum dögum – er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur minnkar. Götuþvottur á afmörkuðu svæði hlýtur að vera til bóta svo og þvottur vörubíla sem eru að aka upp úr byggingarstað. Margar aðrar aðferðir eru mun dýrari svo sem að nota harðara steinefni í malbik en nú er gert en einnig þarf að gera það að einhverju marki. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og ferðir út á land þar sem veður eru iðulega válynd um vetrartímann, aðstæður sem krefjast þess nauðsynlega að búa bíla nagladekkjum enda þótt oft dugi góð vetrardekk. Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð þegar kemur að þessum þætti og hvatt, sem dæmi, borgarana til að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að skjóta upp skoteldum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það að takmarka eða banna notkun nagladekkja innan borgarinnar er langáhrifaríkasta aðgerðin gegn svifryki. Það hefur ítrekað verið sýnt fram á að nagladekk eru helsti valdur svifryks, nú síðast í skýrslu sem Vegagerðin lét gera.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R20120102

    Fylgigögn

  37. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21010071

    Fylgigögn

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að borgarráð skoði starfstímabil vinnuskóla Reykjavíkur með það í huga að lengja það tímabil sem umsækjendur geta unnið. Lagt er til að fjármálasviði verði falið að kostnaðarmeta kostnaðinn við að lengja tímabilin í t.d. fjögur. Eins verði það kostnaðarmetið að umsækjendur fái úthlutað vinnu á tveimur tímabilum í stað eins sé eftir því óskað. Hvert tímabil er 15 dagar og nemendur úr 8. bekk munu vinna í 3,5 tíma á dag en nemendur úr 9. og 10. bekk í 7 tíma. Skráningartími getur haft áhrif á niðurröðun á starfstímabil þannig að þeir sem eru fyrr skráðir verða í forgangi um val á tímabilum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21010289
    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að íbúaráðum í samráði við menningar-, íþrótta- og tómstundaráð verði falið að útfæra 17. júní hátíðarhöld í öllum hverfum borgarinnar. R21010290

    Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvað hefur Reykjavíkurborg fengið greitt vegna útleigu á Toppstöðinni í Elliðaárdal síðustu 4 ár? R21010291

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Er asbest og myglu að finna í því húsnæði sem Reykjavíkurborg hefur verið að bjóða listamönnum til leigu og enduruppbyggingar í Gufunesi? Stenst húsnæðið í Gufunesi kröfur Heilbrigðiseftirlits? R20050002

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fram hefur komið í svari vegna áður framlagðra fyrirspurna Flokks fólksins að í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðsstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Spurning fulltrúa Flokks fólksins: Hvernig er hægt að bæta þjónustu með því að leggja niður gæðavottað þjónustuteymi og fá í staðinn fólk frá verktökum sem hefur kannski minni reynslu af því að þjónusta borgarstarfsmenn? Einnig: Hvernig gengur það upp að lækka kostnað með því að ráða inn verktaka sem kosta mun meira en fastir starfsmenn? R20110346

  43. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í svari við áður framlögðum fyrirspurnum hefur komið fram að uppsafnaðar, óleystar þjónustubeiðnir voru nokkur þúsund á tímabili en slíkur bunki óleystra verkbeiðna skapar mikinn kostnað í borgarkerfinu sem nauðsynlegt er að taka með í reikninginn til að meta hagræðið að fullu. Spurning fulltrúa Flokks fólksins: Af hverju var þessum reynslumiklu þjónustumönnum ekki haldið áfram í störfum fyrst þjónustubeiðnum hefur fjölgað svona mikið? Hver er staðan á þjónustubeiðnum núna eftir að þeir, með alla sína þekkingu, voru látnir fara. R20110346

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fram hefur komið í svari við áður framlögðum fyrirspurnum Flokks fólksins að eftirspurn eftir hæfu starfsfólki í upplýsingatækni er á hverjum tíma mikil og því yfirleitt vandalítið fyrir aðila að fá starf við sitt hæfi utan borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig stenst sú fullyrðing, að ekkert mál sé fyrir fólk í upplýsingatæknigeiranum að fá aðra vinnu núna – á mestu atvinnuleysistímum í nútímasögunni? Hvernig er hægt að réttlæta þá aðgerð að segja upp reynslumiklu starfsfólki á þessum tímum – á sama tíma og meirihlutinn er að tala opinberlega um að „vernda þurfi störf borgarstarfsmanna“? R20110346

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

    -    Kl. 12:30 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.
    -    Kl. 12:45 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 12:55

Líf Magneudóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Pawel Bartoszek Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2801.pdf