Borgarráð - Fundur nr. 5614

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 21. janúar, var haldinn 5614. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Pétur Kr. Ólafsson. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. janúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 13. janúar 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði, ásamt fylgiskjölum. R20080076

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér stendur til að byggja upp 30 íbúðir á lóð sem liggur að Bústaðarvegi og lengi hefur staðið til að byggja upp. Við styðjum uppbyggingu á reitnum sem er í anda stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar. Svæðið liggur vel við hjóla- og almenningssamgöngum. Hægt er að uppfylla viðmiðunargildi fyrir hljóðstig með mótvægisaðgerðum. Vegna bílastæðaábendinga er rétt að taka fram að nú er gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir allar íbúðir í kjallara en búið er gera uppdrátt bílastæða og djúpgáma leiðbeinandi til að gera uppbyggingaraðila kleift að koma gestastæðum fyrir á lóð. Tekið er undir og þakkað fyrir ábendingar íbúa um nauðsyn þess að bæta aðgengi hjólandi og gangandi að götunni sem um ræðir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fram kom mikil andstaða frá íbúum eftir auglýsingu skipulags við Furugerði. Uppbyggingin mun auka umferð og hraðakstur í hverfinu og því getur Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn ekki stutt málið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Íbúar í Furugerði og íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis hafa miklar áhyggjur af framvindu uppbyggingaráforma við Furugerði. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti, s.s. að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og að þröngt verði um bíla. Aðaláhyggjurnar eru þó þær að byggingamagnið á reitnum verði alltof mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað.“ Gangi þessi uppbyggingaráform eftir þrengir þetta enn frekar að umferð um Bústaðaveg og engin áform eru um þverun hans með undirgöngum eða göngubrúm.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mat fulltrúa Flokks fólksins er að kvartanir sem hér eru birtar eigi rétt á sér. Þétting

    byggðar hefur leitt til mikilla þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn talsvert. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Málið er ekki nýtt og hefur áður komið fyrir skipulagsráð. Nú þegar er skortur á bílastæðum. Reynt hefur verið að ná eyrum skipulagsyfirvalda og snúast áhyggjur fólks einnig um að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Almennt er þröngt um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Ekki allir geta nýtt sér bíllausan lífstíl og verða skipulagsyfirvöld að fara að sætta sig við það. Gengið er of langt í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda að vilja stýra með hvaða hætti fólk fer milli staða í borginni.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. janúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. október 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sundahafnar norðan Vatnagarða vegna lóðarinnar nr. 1 og 3 við Sægarða, ásamt fylgiskjölum. R18110152

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á lýsingu og gólfefni í sal Laugardalshallar. Kostnaðaráætlun 2 vegna endurnýjunar á lýsingu er 90 m.kr. Frumáætlun vegna endurnýjunar á gólfi er 140 m.kr. R21010142

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki yfirlýsingu varðandi sumarhúsið Hellu í landi Hólms. R21010140

    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 36 íbúðir við Skyggnisbraut 21-23, Silfratjörn 1-3 og Gæfutjörn 18. R18110012

    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg samþykki boð Eurocities um stuðning við yfirlýsingu um loftslagsmál sem kennd er við París og birt var 11. desember 2020 á 5 ára afmæli Parísarsamkomulagsins. Borgarstjóri Parísar og borgarstjóri Los Angeles skrifuðu undir yfirlýsinguna og hefur borgum um allan heim verið boðið að styðja yfirlýsinguna með undirritun. Tímafrestur þess er til loka janúarmánaðar. Í yfirlýsingunni kemur fram að núverandi heimsfaraldur COVID-19 sé áminning um áhrif mannsins á umhverfið og mikilvægi þess að endurreisn eigi sér stað með sjálfbærum hætti. Þær borgir sem skrifa undir skuldbinda sig meðal annars til að setja aðgerðir í loftslagsmálum í forgang við alla ákvarðanatöku í borginni til að ná kolefnishlutleysi og skapa samfélag sem dafnar með jafnrétti að leiðarljósi. Jafnframt felst í undirritun að stutt verði við verkefnið „Race to Zero“ sem byggir á svipaðri hugmyndafræði, sem viðurkennir að hnattrænt neyðarástand sé í loftslagsmálum, og að unnið verði að því að halda hnattrænni hlýnun undir 1,5°C sem er yfirlýst markmið Parísarsamkomulagsins. Líkt og fram kemur í meðfylgjandi umsögn umhverfis- og skipulagssviðs er Parísar-yfirlýsingin í góðu samræmi við græna planið og fyrirliggjandi drög að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hjálagt er boðsbréf Louise Coffineau hjá Eurocities um undirritun, greinargerð Hrannar Hrafnsdóttur sérfræðings á umhverfis- og skipulagssviði, og yfirlýsingin, Déclaration de Paris, undirrituð af Anne Hidalgo borgarstjóra Parísarborgar og Eric Garcetti borgarstjóra Los Angeles og formanns C40 borga. R21010181

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að samþykkja boð Eurocities um stuðning við yfirlýsingu um loftslagsmál sem kennd er við París og birt var 11. desember 2020 á 5 ára afmæli Parísarsamkomulagsins. Borgarstjóri Parísar og borgarstjóri Los Angeles skrifuðu undir yfirlýsinguna og hefur borgum um allan heim verið boðið að styðja hana. Í yfirlýsingunni kemur fram að núverandi heimsfaraldur sé áminning um áhrif mannsins á umhverfið og mikilvægi þess að endurreisn eigi sér stað með sjálfbærum hætti. Þær borgir sem skrifa undir skuldbinda sig meðal annars til að setja aðgerðir í loftslagsmálum í forgang við alla ákvarðanatöku í borginni til að ná kolefnishlutleysi og skapa samfélag sem dafnar með jafnrétti að leiðarljósi. Jafnframt felst í undirritun að stutt verði við verkefnið „Race to Zero“ sem byggir á svipaðri hugmyndafræði, sem viðurkennir að hnattrænt neyðarástand sé í loftslagsmálum, og að unnið verði að því að halda hnattrænni hlýnun undir 1,5°C sem er yfirlýst markmið Parísarsamkomulagsins. Líkt og fram kemur í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs er Parísaryfirlýsingin í góðu samræmi við græna planið og fyrirliggjandi drög að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Forsaga yfirlýsingarinnar er sú að 4. desember 2015 hittust borgarstjórar hvaðanæva úr heiminum í París með ákall um aðgerðir í loftslagsmálum og hvöttu ríki heims til að ná metnaðarfullu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfismál hverfast um hugtakið „við og þið“. Elítan flýgur um heiminn á fyrsta klassa og í einkaþotum og setur almenningi skorður í öllu daglegu lífi og kemur inn umhverfis- og flugviskubiti. COVID-19 hefur verið happafengur að einu leyti varðandi loftslagsmálin því flug er mjög takmarkað og fundir hafa færst yfir á internetið án nokkurra vandræða. Heimurinn hélt áfram að snúast þó elítan hætti að fljúgast á – á kjaftfundum. Lítið er talað um þetta. Skorað er á borgarstjórann í Reykjavík að skrifa undir stuðning Reykjavíkurborgar við Parísaryfirlýsinguna með fyrirvara – þar sem skorað er á alla borgarstjóra sem skrifa undir að héðan í frá sýni borgarstjórarnir ábyrgð og gott fordæmi og hittist héðan í frá á fjarfundum. Þannig leggja borgarstjórar hvaðanæva að í heiminum sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvandann sem þeir hafa svo miklar áhyggjur af – eða eins og segir í yfirlýsingunni: „að hnattrænt neyðarástand sé í loftslagsmálum.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður og fagnar öllum samskiptum Reykjavíkur í tengslum við Parísarsamkomulagið en vill hnykkja á mikilvægi þess að samskipti fari fam í gegnum fjarfundarbúnað. Árum saman hefur ríkt ákveðið bruðl og hefur almannafé verið sóað m.a. í ferðir erlendis. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að borgarstjóri og borgarmeirihlutinn fari ekki aftur á þann stað sem var fyrir COVID í þeim efnum. Nú má vænta þess að með reynslu af fjarfundatækni þá sé ekki lengur nauðsynlegt fyrir borgarstjóra, borgarafulltrúa eða embættismenn að ferðast erlendis. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning enda hægt að eiga öll samskipti í gegnum fjarfundarbúnað.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2021:

    Lagt er til að Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. verði veitt sérstakt aukaframlag til rekstrar að fjárhæð 128 m.kr. vegna ársins 2020 og 135 m.kr. vegna ársins 2021. Aukaframlag vegna ársins 2020 verði greitt af handbæru fé fyrir 1. febrúar nk. og gjaldfært á árinu 2020. Aukaframlagi vegna ársins 2021 verði ráðstafað af liðnum ófyrirséð kostn.st. 09205 sem greitt verði 20. september 2021. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að undirbúa viðauka vegna ársins 2021.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21010191

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg á 46% í Hörpu ohf. sem er mikill fjárhagslegur baggi á bæði ríki og borg. Heildarframlög Reykjavíkur til Hörpu ohf. á 2020 og 2021 er 1.530 milljónir. Verið er að óska eftir auka fjárframlögum frá Reykjavíkurborg upp á 263 milljónir á árunum 2020 og 2021. Samtals er Reykjavíkurborg því að leggja inn í félagið tæpan 1,8 milljarð á tveimur árum. Hlutur ríkisins í viðbótarframlaginu eru 309 milljónir. Samtals eru þetta því aukafjárframlög upp á 572 milljónir. Ríkið leggur á þessu tveggja ára tímabili tæpa 2 milljarða inn í félagið með aukafjárframlögunum. Reksturinn er því óarðbær sem nemur 3,8 milljörðum á þessum tveimur árum. Fasteignagjöld sem Reykjavíkurborg leggur á Hörpu hafa löngum verið íþyngjandi og tillaga sem ég flutti í fjárhagsáætlun fyrir 2021 að borgin félli frá fasteignagjöldum á árunum 2020 og 2021 vegna tekjufalls út af COVID-19 var felld. Innheimt fasteignagjöld á árinu 2020 námu 321 milljónum og á þessu tveggja ára tímabili er Reykjavíkurborg að fá 650 milljóna tekjur af húsinu. Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri er að gera. Öllum má vera ljóst að Harpa ohf. er ógjaldfær. Óskað er eftir að framkvæmdastjóri Hörpu komi á fund borgarráðs sem og geri grein fyrir rekstri félagsins. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að sjá um og framkvæma endurgreiðslu vegna oftekinna dráttarvaxta í greiðsluskjóli. R18030137

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að endurgreiða vexti í samræmi við dóm Hæstaréttar, þótt málið hafi ekki fallið gegn Reykjavíkurborg heldur í sambærilegu máli. Rétt er einnig að halda til haga að fyrri framkvæmd fjármálaskrifstofu var í góðri trú og byggði á áliti borgarlögmanns. Það álit breyttist eftir dóm Hæstaréttar. Meðalupphæð í þeim málum sem þetta varðar var 27 þúsund krónur og eru 26 mál þar sem endurgreiðslan er yfir 100.000 kr. Verða allar greiðslur nú endurgreiddar með réttum vöxtum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það vekur furðu að hátt í þúsund einstaklingar í greiðsluskjóli hafi verið rukkaðir um dráttarvexti af Reykjavíkurborg, þeim aðila sem einna helst ætti að veita einstaklingunum skjól.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 22. desember 2020, sbr. samþykkt stjórnar lífeyrissjóðsins frá 22. desember 2020 á tillögu að breytingu á endurgreiðsluhlutfalli launagreiðenda á greiddum lífeyri í Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. janúar 2021. R20010166

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 10:02 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2021, þar sem drög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar eru send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R20050004

    Samþykkt að vísa áframhaldandi vinnu við áhættustefnu til stýrihóps um mótun almennrar eigendastefnu Reykjavíkurborgar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Góð áhættustýring er mikilvæg hjá stóru fyrirtæki eins og Reykjavíkurborg. Skipulagsbreytingar undanfarinna ára endurspegla þennan metnað enda var lagst í uppfærslu á öllu eftirlitsumhverfi borgarinnar. Stofnað var sérstakt svið innan borgarinnar sem heitir fjármála- og áhættustýringarsvið sem lyftir áhættustýringu upp sem sérstöku áhersluverkefni borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð eru fram drög að áhættustefnu. Í gögnin vantar nánari skilgreiningu og framsetning þarf að vera á mannamáli. Taka ætti skýrara dæmi um út á hvað þetta gengur og hvernig þetta er frábrugðið hlutverki eftirlitsaðila eins og innri endurskoðunar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að borgarbúar skilji út á hvað þetta gengur þegar lesið er um málið í fundargerð. Hugmyndin er góð. Allt sem lýtur að fyrirhyggju þegar kemur að „áhættu“ hlýtur að gagnast. Ekki er ósennilegt að svona stefna/stjórnkerfi hefði nýst við fyrri ákvarðanir sem fóru úr böndunum, svo sem fjárhagslega – bragginn o.fl., en þá sofnuðu allir á verðinum og bruðl og óráðsía fékk að þrífast. Aukin áhættuvitund er því aldeilis vel þegin í borginni. Í gögnum má lesa að í kringum „áhættustefnuna“ verður „kerfi“. Setja á nefnd á laggirnar og setja upp sérstaka skrifstofu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér kostnaði. Borgarstjórn á að koma að áhættuákvörðunum samkvæmt því sem kemur fram í gögnum. Spurningar vakna um gagnsæi og hvort ferlið verði opið – gagnsætt. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram formlegar spurningar til að fá formleg svör til að skerpa á hugmyndinni og upplýsa borgarbúa um hvort og þá hvað mikið af útsvarsfé þeirra fari í þetta verkefni.

    Halldóra Káradóttir, Stefanía Scheving Thorsteinsson og Ingunn Þórðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. janúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði að hefja formlegan undirbúning að stofnun leikskóla í Safamýri 5, ásamt fylgiskjölum. R20110325

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölgun plássa í leikskólum borgarinnar er mikilvægt hagsmunamál barna, foreldra, og íbúa almennt. Í stað þess að byggja húsnæði frá grunni í hvert skipti hefur einnig verið leitast við að finna hús sem hægt er að breyta þannig að þar sé hægt að hefja skólastarf. Sú leið er umhverfisvæn, en jákvætt er að nýta það sem fyrir er, þar sem það er heilt og nothæft, frekar en rífa og byggja nýtt. Þar að auki er það ódýrara og fljótlegra, en hér er um að ræða leikskóla sem rúmar 85-90 börn, sem munar um. Safamýrarskóli er bæði heppilega staðsettur og bæði húsnæðið og lóð henta vel fyrir rekstur leikskóla. Þá þarf að halda því til haga að til þess að þessar áætlanir gangi eftir þarf að vera tryggt að ástand húsnæðisins sé fullnægjandi og gera fulltrúar meirihlutans ráð fyrir því að í skoðun og undirbúningi hússins verði farið í allar nauðsynlegar kannanir á ástandi og ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Frumkostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 420 m.kr. sem er 631 þúsund á fermetra. Það er svipuð fjárhæð og vönduð nýbygging myndi kosta. Þá er bæði fjárhagsleg og heilsufarsleg áhætta fólgin í svona viðgerðarverkefni og því rétt að skoða aðra valkosti. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. janúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2021 á tillögu um Arnarskóla, ásamt fylgiskjölum. R21010176

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem undanþegin eru verkfallsheimild, dags. 21. janúar 2021, og auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem heimild til verkfalls nær ekki til, dags. 21. janúar 2021. R21010200

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. janúar 2021, um stöðu styttingar vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg. R14050127

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hóf tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar árið 2015 eftir samþykkt í borgarstjórn árið 2014. Sífellt fleiri starfsstaðir borgarinnar tóku þátt í verkefninu með miklum árangri og í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Í aðdraganda lífskjarasamningana var stytting vinnuvikunnar eitt af áhersluatriðum og rataði hún inn í alla kjarasamninga í þeirri lotu og varð þannig að veruleika. Stytting vinnuvikunnar er samfélagsverkefni sem hefur gengið afar vel og var að frumkvæði borgarinnar og verkalýðshreyfingar. Sjálfsagt þarf að slípa til útfærslur á ólíkum starfstöðum og sníða vankanta þar sem þeir eru. Grundvöllurinn að því er áframhaldandi samráð við verkalýðshreyfingu, stjórnendur og starfsfólk undir forystu mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja að stytting vinnuviku leiði ekki til þjónustuskerðingar á leikskólum Reykjavíkurborgar. Tryggja þarf leikskólunum nauðsynlegan stuðning svo útfæra megi styttri vinnuviku með farsælum hætti fyrir starfsmenn leikskóla og fjölskyldur. Fjölskyldufólk hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðið ár. Verkföll á leikskólum, skertur opnunartími vegna COVID-19 og biðlistavandar í tilteknum borgarhverfum hafa valdið miklu álagi. Jafnframt rann samþykkt um þjónustuskerðingar vegna COVID-19 út þann 31. desember 2020. Nú eru þrjár vikur liðnar af nýju ári og meirihlutinn hefur ekkert aðhafst til að færa þjónustu leikskólanna aftur í fyrra horf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á óskerta leikskólaþjónustu í Reykjavík enda koma skerðingar verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki með lítinn sveigjanleika í starfi og fólki af erlendum uppruna.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista fagnar styttingu vinnuvikunnar sem hefur verið krafa hjá samtökum launafólks. Mikilvægt er að innleiðingin verði farsæl og tekið vel á þeim áskorunum sem kunna að geta komið fram. Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi ber þar mikla ábyrgð. Í minnisblaði um styttingu vinnuvikunnar kemur fram að svið borgarinnar munu fylgjast með framgangi verkefnisins og gera ýmsar mælingar meðal starfsfólks og notenda þjónustunnar. Það sem verður m.a. mælt og fylgst með er starfsánægja, starfsandi, upplifað álag, yfirvinna og veikindafjarvistir meðal starfsfólks. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir kynningu á verkefninu er augljóst að verkalýðshreyfingin er að setja fram kröfur sem jafnvel starfsmenn kæra sig ekki um. Að vísu er val hjá starfsmönnum hvort þeir taki þátt í styttingu vinnuvikunnar eða ekki en borgin leggur þunga áherslu á að sömu starfsstöðvar fylgi sömu styttingarreglum. Þeir starfsmenn sem taka á sig fulla styttingu taka á sig skerðingar sem sama verkalýðshreyfing hefur barist fyrir áratugum saman eins og t.d. matar- og kaffitímum – sem nú er kallað „neysluhlé“. Starfsmaður má ekki yfirgefa starfsstöð nema að stimpla sig út og afsalar sér neysluhléum til að styttingin nái fram að ganga – mætti jafnvel kalla það vinnustaðarfangelsi. Allt þetta skapar neikvæðan móral og togstreitu milli starfsmanna og þá er stutt í eftirlitslögguna. Hvað með félagslega þáttinn í þessu verkefni? Er ekki verið að skerða lífsgæði starfsmanna borgarinnar með þessum aðgerðum? Andleg næring fæst með samneyti við vinnufélaga í matar- og kaffitímum. Því er spurt – eru þetta umbætur eða afturför?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs er lagt fram. Tillaga að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu. Flestir starfsstaðir fara í 36 stunda vinnuviku og fara á í að gera umbætur á starfsemi til að ná fram betri nýtingu á vinnutímanum. Starfsfólk afsalar sér jafnframt forræði á hléum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ámælisvert að ekki hafi fylgt fjármagn í verkefnið þannig að hægt sé að tryggja starfsfólki hvíld í vinnunni og að það fái hlé.Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að áhrifin verði ekki neikvæð. Hlúa þarf að starfsfólkinu. Allt byggist á vellíðan þeirra í starfi. Svo virðist sem kreista eigi hverja mínútu og talað er eins og nýting tímans hafi ekki verið nógu góð áður. Eðlilega er mikil ánægja með að stytta vinnuvikuna sem gefur starfsmönnum færi á að vera meira með fjölskyldum sínum. Vel kann að vera að einhverjir þori ekki að kvarta eða andmæla neinu af ótta við að þessi kjarabót verði tekin af. Sú ógn er því miður yfirvofandi ef sýnt þykir að styttingin komi niður á þjónustu. Það er óaðlaðandi að hugsa til þess að einhverjir starfsmenn hafi mögulega áhyggjur af þessu.

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2021, til sveitarfélagsins Dalabyggðar, Vestmannaeyjabæjar, Stykkishólmsbæjar, Hrunamannahrepps, Mýrdalshrepps, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Snæfellsbæjar vegna kröfu Reykjavíkurborgar á hendur íslenska ríkinu um greiðslu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, ásamt fylgiskjölum. R19050155

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mál Reykjavíkurborgar gegn ríkinu byggist á því að öll sveitarfélög fá sérstakar greiðslur úr Jöfnunarsjóði vegna skólastarfs og kennslu barna af erlendum uppruna – nema Reykjavík. Meðal þeirra sveitarfélaga sem fá slíkar greiðslur eru stór og stöndug sveitarfélög sem sum hver fullnýta ekki sína tekjustofna. Á sama tíma leggur Reykjavík til 11 milljarða á ári inn í Jöfnunarsjóð. Það fjármagn er meðal annars nýtt til að niðurgreiða skólastarf og skatta í sveitarfélögum sem hafa lægri velferðarútgjöld og hærri tekjur en borgin. Um leið og borgin gerir ekki athugasemdir við greiðslur í Jöfnunarsjóð, snýst þetta mál um ómálefnalegar reglur, án lagastoðar, sem útiloka að borgin sé metin eftir sömu úthlutunarreglum og önnur sveitarfélög. Í áskorunarbréfunum kemur fram að ef dómur fellur borginni í hag, muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Jöfnunarsjóð og þar af leiðandi minni sveitarfélög. Það er af og frá. Krafa borgarinnar beinist gegn ríkinu og hefur engin áhrif á Jöfnunarsjóð sem slíkan. Borgin hefur ítrekað nálgast ríkið með viðræður en þeim beiðnum hefur alltaf verið hafnað. Þó er vonast til þess að samningar náist um málið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Auðvitað mátti búast við andstöðu af hálfu einhverra annarra sveitarfélaga við málarekstur Reykjavíkur gagnvart Jöfnunarsjóði að sjóðurinn veiti eðlilegum upphæðum til Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn veltir fyrir sér hver upphaflegur tilgangur Jöfnunarsjóðs hafi verið þegar á allt er litið og hvort undir hafi kannski legið frá upphafi að flytja átti fé frá Reykjavík til annarra sveitarfélaga, þar á meðal til vel stæðra sveitarfélaga. Í svona máli vakna einfaldlega alls konar spurningar og vangaveltur. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að málið fái þann endi sem flestir geta verið sáttir við.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2021, til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna bókunar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um kröfu Reykjavíkurborgar um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá 11. desember 2020, ásamt fylgiskjölum. R19050155

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mál Reykjavíkurborgar gegn ríkinu byggist á því að öll sveitarfélög fá sérstakar greiðslur úr Jöfnunarsjóði vegna skólastarfs og kennslu barna af erlendum uppruna – nema Reykjavík. Meðal þeirra sveitarfélaga sem fá slíkar greiðslur eru stór og stöndug sveitarfélög sem sum hver fullnýta ekki sína tekjustofna. Á sama tíma leggur Reykjavík til 11 milljarða á ári inn í Jöfnunarsjóð. Það fjármagn er meðal annars nýtt til að niðurgreiða skólastarf og skatta í sveitarfélögum sem hafa lægri velferðarútgjöld og hærri tekjur en borgin. Um leið og borgin gerir ekki athugasemdir við greiðslur í Jöfnunarsjóð, snýst þetta mál um ómálefnalegar reglur, án lagastoðar, sem útiloka að borgin sé metin eftir sömu úthlutunarreglum og önnur sveitarfélög. Í áskorunarbréfunum kemur fram að ef dómur fellur borginni í hag, muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Jöfnunarsjóð og þar af leiðandi minni sveitarfélög. Það er af og frá. Krafa borgarinnar beinist gegn ríkinu og hefur engin áhrif á Jöfnunarsjóð sem slíkan. Borgin hefur ítrekað nálgast ríkið með viðræður en þeim beiðnum hefur alltaf verið hafnað. Þó er vonast til þess að samningar náist um málið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Auðvitað mátti búast við andstöðu af hálfu einhverra annarra sveitarfélaga við málarekstur Reykjavíkur gagnvart Jöfnunarsjóði að sjóðurinn veiti eðlilegum upphæðum til Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn veltir fyrir sér hver upphaflegur tilgangur Jöfnunarsjóðs hafi verið þegar á allt er litið og hvort undir hafi kannski legið frá upphafi að flytja átti fé frá Reykjavík til annarra sveitarfélaga, þar á meðal til vel stæðra sveitarfélaga. Í svona máli vakna einfaldlega alls konar spurningar og vangaveltur. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að málið fái þann endi sem flestir geta verið sáttir við.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu ráðningarmála í leik- og grunnskólum í september 2020, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. september 2020. R20090143

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi fyrirspurn var lögð fram í september 2020 og nú er loks að berast svar við henni. Í svari eru upplýsingar um stöðu mála frá í október og einnig nú í janúar 2021. Eftir því er tekið hvað mörg stöðugildi eru enn ómönnuð nú í janúar eða 17,2% í leikskólum, 11,9% í grunnskólum og 20,9% í frístundinni. Ef tekið er dæmi um leikskólann, þá var í október 2020 búið að ráða í 98,4% í leikskóla en nú í janúar 98,8%. Ekki er nú munurinn mikill. Af þessu má draga þá ályktun að jafnvel þótt atvinnuleysi sé mikið og vaxandi tekst samt ekki að manna allar stöður. Ef horft er til stöðu mála á frístundaheimilum nú í janúar á eftir að ráða í 20,9 stöðugildi eða um 46 starfsmenn samanborið við 5,9 stöðugildi og 10 starfsmenn þann 8. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins spyr yfirvöld hvernig á þessu standi. Hvaða skýringar liggja þarna að baki? 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í stuttu máli var búið í lok september á síðasta áriað ráða í 98,4% stöðugilda í leikskólum og 99,5% stöðugilda í grunnskólum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú eru 510 börn á biðlista eftir leikskólaplássi 12 mánaða og eldri, auk þess er fjöldi barna sem bíður eftir plássi í leikskóla í sínu hverfi, ekki í öðrum hverfum borgarinnar. Nú liggur fyrir að mönnunin er nálægt 100% en þrátt fyrir það er þessi mikli fjöldi barna á biðlista – hvernig getur það staðist? Skýringuna er að finna í röngum forsendum: Þegar talað er um að leikskólar séu svo til fullmannaðir eru engu að síður langir biðlistar. Þessu þarf að breyta enda var því lofað að öll börn 12 mánaða og eldri fengju leikskólapláss.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um birtingu fjárhagsáætlunar í Kauphöll, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. desember 2020. R20120012

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun um áhrif styttingar vinnuvikunnar á leikskóla, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021. R21010171

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun um áhrif styttingar vinnuvikunnar á leikskóla hefur verið vísað frá. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót sem beðið hefur verið eftir og því mikilvægt að fylgjast með áhrifunum á börnin, starfsemi og starfsfólkið nú þegar þetta er orðið að veruleika og í ljósi þess að þetta má ekki kosta krónu. Með þessu verkefni átti auðvitað að fylgja fullnægjandi fjármagn þar sem líklegt er að álag verði eitthvað meira á starfsfólk jafnvel þótt reyna eigi að kreista meira úr hverri mínútu. Nú er talað eins og nýting vinnutímans hafi ekki áður verið góð. Mikið álag hefur ávallt verið á starfsfólkinu. Þessi meirihluti hefur oft talað um að vilja ekki ofgera starfsfólki en með því að setja ekki fjármagn í verkefnið þá er verið að leggja meira á starfsfólkið. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Það er ekki hægt að stóla á og vonast til að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana. Yfir hvílir nú sú ógn að ef þetta gengur ekki verður þetta bara tekið af.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á gildistíma kjarasamnings skal innleiðingarhópurinn framkvæma reglulegar mælingar á áhrifum vinnutímabreytinga á starfsfólk og starfsemi starfsstaða. Fyrir lok samningstímans skulu aðilar leggja sameiginlegt mat á áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning á ákvæðum vinnutíma í kjarasamningi falli best að framtíðarskipulagi og starfsumhverfi starfsstaða Reykjavíkurborgar. Tillögu áheyrnarfulltrúans er því vísað frá.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun byggðasamlags, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021. R21010172

    Tillögunni er vísað frá.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bókun fulltrúa Flokks fólksins við frávísunartillögu meirihlutans á tillögu Flokks fólksins um að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum í kringum menningarstarfsemi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum í kringum menningarstarfsemi. Þetta er lagt til í ljósi þess m.a. hversu meirihlutinn í borgarstjórn er hrifinn af bs.-stjórnkerfi, þ.e. byggðasamlögum. Þar sem þau eru hins vegar við lýði eins og við sorpúrvinnslu og almenningssamgöngur hafa þau virkað illa sem stjórnkerfi. Ástæðan er sú að hlutur Reykjavíkur er rýr í stjórnun en ríkur í fjárhagslegri ábyrgð. Reykjavík gæti hins vegar hagnast á slíku kerfi í kringum menningarstofnanir sem borgin er rík af. Ekki er þor og kjarkur þessa meirihluta að hugsa út fyrir boxið í þessu sambandi. Þarna væri færi á að semja við nágrannasveitarfélög um þátttöku í verkefnum sem Reykjavík rekur að flestu eða öllu leyti. Íbúar í næstu sveitarfélögum njóta þess að sækja menningarviðburði til Reykjavíkur enda eru þeir fyrir alla, en af hverju má ekki deila kostnaði við slíka viðburði?

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að opinberri birtingu fjárhagsáætlana verði flýtt, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. janúar 2021. R20110274

    Tillagan er felld.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér var lagt til að opinberri birtingu fjárhagsáætlana yrði flýtt svo að fleiri gætu kynnt sér gögnin og komið fyrr að því að koma sinni rödd að. Með því að birta gögnin fyrr geta fyrstu varaborgarfulltrúar einnig komið fyrr að undirbúningi í þeim stjórnmálaflokkum þar sem flokkar eiga bara einn fulltrúa í borgarráði þar sem gögn fjárhagsáætlana eru lögð fram til kynningar. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hefð hefur verið fyrir því um árabil að leggja fram frumvarp Reykjavíkurborgar að fjárhagsáætlun í borgarráði sem trúnaðarmál og birta það síðan í Kauphöll sama dag og fyrri umræðu í borgarstjórn á sér stað. Frumvarpið er með þeim hætti lagt fram á fimmtudegi og fimm dögum síðar fer fram fyrri umræða í borgarstjórn. Borgarfulltrúar geta lagt fram breytingatillögur um forsendur frumvarpsins sem til samþykktar eru við fyrri umræðu allt þar til fundur borgarstjórnar hefst. Við gerð síðasta frumvarps voru gögn þess og allar tillögur gerðar aðgengilegar fulltrúum og áheyrnarfulltrúum borgarráðs á miðvikudegi eða daginn fyrir framlagningu í borgarráði til þess að bæta upplýsingagjöf. Þegar fundur borgarstjórnar er boðaður á föstudegi er frumvarpið gert aðgengilegt öðrum borgarfulltrúum. Um leið og frumvarp Reykjavíkurborgar að fjárhagsáætlun er birt skapast um það fjölmiðlaumræða. Frumvarp borgarinnar er umfangsmikið, gögn þeirra ítarleg og kynningar lagðar fram á löngum fundum nokkrum dögum fyrir framlagningu í borgarstjórn. Það er mikilvægt að borgarfulltrúar fái ráðrúm til þess að kynna sér efni frumvarpsins í nokkra daga áður en það er gert opinbert. Borgarfulltrúar sem fara með stjórn borgarinnar og fyrstu varaborgarfulltrúar í hverjum stjórnmálaflokki geta með þeim hætti undirbúið sig vel við tillögugerð fyrir fyrri umræðu um frumvarpið í borgarstjórn.

    Fylgigögn

  22. Lagðar fram fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. og 11. janúar 2021. R21010023

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 11. janúar 2021. R21010020

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 12. janúar 2021. R21010024

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. janúar 2021. R21010029

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. janúar 2021. R21010030

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 11. janúar 2021. R21010069

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er dæmalaust og algjörlega órökstutt að neyðarstjórn Reykjavíkur skuli enn vera að funda vegna COVID-19. Hver er neyðin? Neyðarstjórnin hefði hinsvegar átt að koma saman samdægurs og vitneskja barst um að leiðsla sprakk við Háskóla Íslands í nótt. Háskólinn er á floti og borgarstjóri sem er formaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og þar með formaður almannavarna er hinn rólegasti á fundi borgarráðs. Nú er neyð og neyðarstjórn er ekki á neyðarfundi. Ég næ þessu ekki.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. janúar 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirspurn Viðars Eggertssonar, fulltrúa félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er svarað af öldungaráðinu. Hann spyr hvenær umsögn öldungaráðs við tillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðra dags. 31. maí 2019 var samþykkt af öldungaráði. Í svari kemur fram að 17. desember 2018 barst öldungaráði beiðni velferðarráðs um að veita tillögunni um skipan hagsmunafulltrúa aldraðra umsögn sína. Fulltrúi Flokks fólksins vill nota þetta tækifæri til að minna á þessa góðu tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í júní 2018. Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun og dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt. Meirihlutanum hugnaðist ekki þessi tillaga með þeim rökum að þeim störfum, sem hagsmunafulltrúa skal fengið skv. ofangreindri tillögu, sé nú þegar sinnt af starfsmönnum velferðarsviðs og að eftirfylgni og samráð fari nú þegar fram af hálfu þeirra hagsmunafélaga og ráða sem hafa verið sett á laggirnar.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R20120102

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21010071

    Fylgigögn

  31. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir: 

    Á fundi borgarstjórnar boðaði ég að ég myndi leggja fram ítarlegan spurningalista vegna umferðarljósastýringarmála í Reykjavík. Þær eru hér fram lagðar og óskað er eftir að þeim verði svarað innan þess frests sem samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar leyfa. 

    1.    Hvers vegna fór Reykjavíkurborg í innkaup á MSU – miðlægri stýritölvu umferðar – svo stuttu fyrir undirritun samgöngusáttmálans og í að auglýsa rammasamning 14356 degi fyrir staðfestingu borgarinnar á sáttmálanum? a. Er það eðlilegt að strax í kjölfarið að fara í útboð á rammasamning upp á fleiri hundruð milljóna sem skilyrt voru þessari sömu stjórntölvu? b. Stendur borgarstjóri við þessa ákvörðun og telur hann að hún hafi verið rétt og réttmæt?

    2.    Í ljósi úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 32/2019 er þá Reykjavíkurborg stætt á að skilyrða frekari innkaup á umferðarstýringum þegar MSU stjórntölvan var keypt með ólöglegum hætti?

    3.    Liggur fyrir samningur milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar í ljósastýringarmálum þar sem framkvæmdir, kostnaður og ábyrgð er sundurliðuð? a. Ef ekki – hvers vegna? b. Hvernig hefur þessu verið háttað og hver ákveður hver hlutur Reykjavíkur, Vegagerðar og annarra sveitarfélaga er? c. Ef upp kemur ágreiningur, hvernig er hann leystur?

    4.    Hver er heildarkostnaður á búnaði, forritun á forgangskerfi Strætó og öryggisaðila? Þar með talið búnaður sem staðsettur er í forgangsbifreiðar. a. Var farið í útboð á því á einhverjum tímapunkti? b. Ef ekki – hvers vegna? c. Hvað eru mörg gatnamót með forgangsstýringu og hver er áætlaður kostnaður á hver gatnamót?

    5.    Hvað hefur Reykjavíkurborg notað mikla fjármuni til umferðarstýringa frá árinu 2000 sundurgreint eftir árum? a. Umferðarstýringar b. Forgangskerfi c. Annar umferðarbúnaður d. Kaup á þjónustu og annar kostnaður vegna viðhalds og starfrækslu búnaðarins í liðum a-d. e. Hvaða fyrirtæki hafa fengið þessi viðskipti?

    6.    Er það rétt að útboðið árið 2019 var fyrsta útboðið á vörum og þjónustu vegna umferðarstýringar frá árinu 2005? a. Er það rétt að samningar sem gerðir voru í kjölfar útboðsins 2005 hafi runnið út 2010? b. Hver er skýringin á því að kaup voru gerð án útboðs eftir 2010?

    7.    Hverjar verða ráðstafanir meirihlutans til að koma í veg fyrir að borgin fái á sig fleiri stjórnvaldssektir sambærilegar og í úrskurði 32/2019?

    8.    Hvar liggur ábyrgðin í þessu tilfelli?

    9.    Hvernig sér meirihluti borgarstjórnar fyrir sér að skipulagi og framkvæmd í umferðarstýringum verði háttað í framtíðinni og hvernig ætlar borgin að sjá til að þess að samkeppnislögum verði framfylgt í þessum málaflokki? R19100308

  32. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í upphafi kjörtímabilsins voru fögur fyrirheit um að stofna ungbarnaleikskóla. 1. Hvað eru ný ungbarnapláss mörg það sem af er kjörtímabilinu til 1. janúar 2021?2. Hvað er áætlað að þau verði mörg í lok kjörtímabilsins?3. Hvernig er fjöldaskiptingin milli ungbarnaleikskóla borgarinnar og einkarekinna ungbarnaleikskóla?4. Hvað eru mörg börn á biðlista inn í ungbarnaleikskóla miðað við 1. janúar 2021? R21010232

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  33. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar kosti á árinu 2021 í B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkur tæmandi talið sundurliðað eftir fyrirtækjum? R14050127

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Ekki hefur ekki tekist að manna fjölda stöðugilda á sviði skóla þrátt fyrir mikið og vaxandi atvinnuleysi. Sem dæmi á eftir að ráða í 20,9 stöðugildi eða um 46 starfsmenn samanborið við 5,9 stöðugildi og 10 starfsmenn þann 8. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvaða skýringar eru fyrir því að ekki tekst að manna allar stöður í því atvinnuleysi sem nú ríkir? R21010227

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fyrir liggja drög að áhættustefnu, setja á saman „allar áhættur“ svo hægt sé að skoða þær. Margar spurningar vakna og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að setja fram nokkrar með formlegum hætti: Um er að ræða stjórnkerfi í kringum áhættustefnuna sem kallar á skrifstofu, nefnd og aðra yfirbyggingu. Eitthvað hlýtur það að kosta og ef svo er þá óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá framlagða áætlun um kostnað. Ef um sparnað verður að ræða, hver verður sparnaðurinn? Borgarstjórn á að koma að áhættuákvörðunum samkvæmt því sem kemur fram í gögnum. Spurningar vakna um gagnsæi og hvort ferlið verði að fullu opið – gagnsætt. Óskað er eftir að fá framlagðan gagnsæisferil þessara fyrirhuguðu áhættustefnu. R20050004

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Lögð er fram í borgarráði tillaga meirihluta skóla- og frístundasviðs um að samþykkt verði verklag og ákvörðun um greiðslu framlags til sjálfstætt rekna sérskólans Arnarskóla. Fyrir voru til eldri reglur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá þær reglur og að dregið sé fram hverju nákvæmlega er verið að breyta. Á hverju er verið að skerpa? R21010176

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fundi slitið klukkan 13:01

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2101.pdf