Borgarráð - Fundur nr. 5610

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 3. desember, var haldinn 5610. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 09:02. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn með fjarfundarbúnaði áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason, Valgarður Davíðsson og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal, ásamt fylgiskjölum. R20020144

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan myndar ramma utan um heildarskipulag dalsins. Stígakerfi er bætt og gert er ráð fyrir nýjum brúartengingum fyrir gangandi og hjólandi, hverfisvernd er aukin og rammi settur utan um starfsemi í dalnum. Eftir umsagnarferli eru gerðar ýmsar minniháttar breytingar til að koma til móts við athugasemdir og endurspegla í skipulagi þá starfsemi sem þegar er í dalnum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að Elliðaárdalurinn njóti verndar í heild, en lengi hefur staðið til að auka hana. Sú deiliskipulagstillaga sem hér er til samþykktar er útvötnuð útgáfa af því svæði sem sátt hefur verið um. Best væri að Elliðaárdalurinn nyti friðlýsingar að lögum, en verndarsvæðið þarf að vera mun stærra eins og sátt var um í starfshópi um „sjálfbæran Elliðaárdal“. Með þessu deiliskipulagi er verið að ganga gegn þeirri sátt sem náðist í starfshópnum sem skilaði ítarlegri skýrslu í ágúst 2016. Ljóst er að íbúar vilja að Elliðaárdalurinn njóti aukinnar verndar og svæðið sé stærra, en nýlega skrifuðu meira en níu þúsund undir áskorun um íbúakosningu vegna áforma um atvinnusvæði í jaðri dalsins, en það svæði er undanskilið vernd í þessu plaggi.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi sósíalista fagnar aukinni vernd Elliðaárdalsins og bættum tengingum fyrir hjólandi og gangandi en hefði viljað sjá þróunarsvæðin við Stekkjabakka og Suðurfell inni í skipulaginu. Einnig hefði fulltrúinn viljað sjá allan dalinn friðaðan en ekki bara svæðin á milli stíganna.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er kaldhæðnislegt að ræða ekki nýlega tæmingu Árbæjarlóns í umræðu um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals, en stíflan eru friðuð og þar með lónið. Það er mjög sláandi að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rísa. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðaárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Elliðaárdalurinn býr yfir afar fjölbreyttu lífríki. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Ríkið verður að grípa inn í þessa atburðarás og friðlýsa svæðið strax eins og gert var með Akurey í Kollafirði 2019. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta náttúrugæðanna sem dalurinn býður uppá. Náttúra innan borgarmarka er takmörkuð auðlind. Elliðaárdalurinn er ein af stærstu auðlindum Reykvíkinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekkert verður að gert. Útsýni niðri í dalnum verður þá takmarkað við næstu metra. Mikil umræða hefur verið um lónið. Um það vilja margir standa vörð. Stíflan er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rýfur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn – farveginn – í tvennt sjónrænt séð. Tilgangi þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Björn Ingi Edvardsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 9:30 taka borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. nóvember 2020, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 25. nóvember 2020 á endurskoðuðum reglum um styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús, ásamt fylgiskjölum. R20110359

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stíga þarf stærri skref í að auðvelda borgarbúum tengingar við fjölbýlishús svo unnt sé að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum. Skortur á tengingum veldur því að íbúar í fjölbýli í Reykjavík hafa átt erfiðara með að taka skrefið í að skipta bensín- og díselbílum út fyrir rafmagnsbíl. Almenningur velur í vaxandi mæli rafmagnsbíla og rafmagnshjól, en aðgangur að rafhleðslu við fjölbýlishús er alltof takmarkaður. Segja má að uppsetning hleðslustöðva í fjölbýlum sé flöskuháls í orkuskiptum í borgarlandinu. Þessu þarf að breyta. Orkuskipti í samgöngum eru mjög jákvæð fyrir hagkerfið, loftgæði og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þá er um að gera að nýta nú þegar virkjaða auðlind sem og umframorku sem er í raforkukerfinu. „Græna planið“, sem á að vera víðtæk áætlun um sjálfbærar fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík gengur því miður ekki nægilega langt í þessum efnum. Við viljum ganga lengra í orkuskiptum og nýta rafmagn og hreina orkugjafa í meira mæli en nú er gert og „græna planið“ gerir ráð fyrir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagðar eru fram til afgreiðslu endurskoðaðar úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla, dags. 20. nóvember 2020. Það er sumt sem kemur á óvart í þessum reglum, t.d. hvers vegna er styrkurinn bundinn við að alla vega séu fimm íbúðir í fjölbýlishúsi? Þá er styrkurinn allt að 67% af kostnaði að hámarki 1,5 milljónir. Ekkert fæst ef bara fjórar íbúðir eru í fjölbýlishúsinu. Hér er um mismunun að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 30. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á Brautarholti 18-20, ásamt fylgiskjölum. R19100210

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. nóvember 2020, varðandi innborgun á eigendalán frá Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R20060267

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða innborgun á lán sem eigendur Orkuveitu Reykjavíkur veittu henni í kjölfar hrunsins og sem hluti af planinu. Orkuveita Reykjavíkur er hér að greiða upp restina af eigendaláninu með innborgunum næstu þrjá mánuði.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 23. nóvember 2020, þar sem drög að endurnýjuðum samningi Reykjavíkurborgar við Samtökin ´78 er sendur borgarráði til samþykktar, ásamt fylgiskjölum. R20110303

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja samning við Samtökin ´78 til þriggja ára vegna þjónustu og fræðslu, tveir samningar eru hér sameinaðir í einn samning. Nýlunda er að kveðið sé á um fræðslu við íþróttafélögin. Niðurstöður könnunar um hinsegin fólk og þátttöku þeirra í íþróttum sýna skýrt fram á mikilvægi upplýstrar umræðu og fræðslu. Samningsupphæð á hverju ári er kr. 8.700.000.

    Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. desember 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að meðfylgjandi tillaga sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, dags. 30. nóvember 2020, um áframhaldandi samstarf vegna markaðsverkefnisins Iceland Naturally, verði samþykkt. R20110360

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka áhuga á Íslandi og Reykjavík sem áfangastað. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár tekið þátt í markaðsverkefninu Iceland Naturally en með því hefur borgin haft aðgang að skipulagðri markaðssetningu íslenskra stjórnvalda og fleiri aðila í Norður-Ameríku. Aðkoma Reykjavíkurborgar hefur til að mynda verið nýtt til að kynna Reykjavík sem menningarborg og meðal annars birst í stuðningi við kynningu á reykvískum hljómsveitum undir heitinu: Reykjavík calling.

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember 2020 á tillögu um inntöku ungbarna í leikskóla frá 12 mánaða aldri, ásamt fylgiskjölum. R20110326

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt stærsta hagsmunamál foreldra með ung börn er að koma þeim að í þeim frábæru leikskólum sem starfa innan borgarinnar. Um það snýst brúum bilið aðgerðaáætlunin sem felur í sér að opna 700-750 ný leikskólarými á komandi árum. Þau opna jafnt og þétt eftir því sem nýir leikskólar opna og viðbyggingar rísa en með þróunarverkefni um inntöku yngstu barna er stigið stærsta skrefið til þessa í að opna fyrir inntöku barna allt niður í 12 mánaða aldur í þeim leikskólum sem hafa klárað sína biðlista og eiga enn laus rými. Byrjað verður á Dalskóla, Nes/Bakka í Staðahverfi og Blásölum í Seláshverfi en fleiri leikskólar munu svo fylgja í kjölfarið á allra næstu mánuðum. Markmið verkefnisins verður að fjölga börnum frá 12 mánaða aldri í leikskólum borgarinnar og mæta þörfum þeirra með námi sem tekur mið af þroska þeirra og aldri auk aðstöðu sem hæfir þessum aldri. Áfram mun aldursröð ráða við inntöku barna á hverjum stað en foreldrar fá nú tækifæri til að sækja um leikskóla á fleiri stöðum en verið hefur. Meirihlutinn leggur áherslu á að einfalda innritunarferlið í leikskóla, gera það gagnsærra og bæta þannig þjónustu við foreldra.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það vekur sérstaka athygli að hér sé um „þróunarverkefni“ að ræða til þess að leysa úr vanefndum kosningaloforðs sem var gefið vorið 2018. Mikilvægt er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Farið er að síga vel á seinnihluta kjörtímabilsins og ljóst að áætlanir um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hafa ekki gengið eftir þrátt fyrir loforð flokkanna fyrir kosningar og ákvæði þar um í meirihlutasáttmálanum. Enn er langt í land að hægt verði að efna loforð í þeim efnum. Það skref sem tekið er í dag hefði þurft að taka miklu fyrr og vera miklu stærra til að geta lækkað inntökualdurinn þannig að öllum börnum í Reykjavík bjóðist leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Þá hefði átt að veita leikskólunum heimild miklu fyrr til að nýta laus pláss til að taka inn yngri börn. Vandinn vex með hverjum mánuði eins og staða biðlista gefur til kynna og nauðsynlegt að farið verði í stærra átak í að stytta biðlista eftir leikskóladvöl en til þess að ná því markmiði að öllum börnum 12 mánaða og eldri bjóðist leikskóladvöl þarf að fara í víðtækari aðgerðir en lagðar eru til hér í dag. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að sett verði á fót þróunarverkefni um inntöku ungbarna í leikskóla borgarinnar. Þróunarverkefni? Er ekki verið að flækja málið óþarflega hér og tefja að hægt sé að fara að taka 12 mánaða börn inn í leikskóla? Það hefur orðið alveg nógu mikil töf á brúum bilið verkefninu. Þetta hefur dregist von úr viti. Athuga skal að sigið er á seinni hluta kjörtímabilsins og þetta loforð var sett fram í meirihlutasáttmálanum. Ekki kom fram að það ætti að líta dagsins ljós á lokametrum kjörtímabilsins. Þetta á „komandi árum“ sem segir í greinargerð með tillögunni „að Brúum bilið feli í sér að opna 700 leikskólarými á komandi árum“ er ekki mjög uppbyggjandi. Er verið að tala um 10 ár eða 20 ár? Staðan er slæm nú. Alls voru 73 börn, 18 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í byrjun mánaðar. Alls eru 510 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Loforð hafa verið svikin. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs á tillögu um undirbúning að leikskóla í Safamýri, ásamt fylgiskjölum. R20110325

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölgun plássa í leikskólum borgarinnar er mikilvægt hagsmunamál barna, foreldra og íbúa almennt. Í stað þess að byggja húsnæði frá grunni í hvert skipti hefur einnig verið leitast við að finna hús sem hægt er að breyta þannig að þar sé hægt að hefja skólastarf. Sú leið er umhverfisvæn, en jákvætt er að nýta það sem fyrir er, þar sem það er heilt og nothæft, frekar en rífa og byggja nýtt, og þar að auki ódýrara og fljótlegra, en hér er um að ræða leikskóla sem rúmar 85-90 börn, sem munar um. Safamýrarskóli er bæði heppilega staðsettur og bæði húsnæði og lóð henta vel fyrir rekstur leikskóla. Þá þarf að halda því til haga að til þess að þessar áætlanir gangi eftir þarf að vera tryggt að ástand húsnæðisins sé fullnægjandi og gera fulltrúar meirihlutans ráð fyrir því að í skoðun og undirbúningi hússins verði farið í allar nauðsynlegar kannanir á ástandi og ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 23. nóvember 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 18. nóvember 2020 á tillögu um húsnæði með þjónustu fyrir heimilislausar konur, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. nóvember 2020. R20100297

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi tillaga er liður í þeirri vegferð borgarstjórnar að fjölga „húsnæði fyrst“ íbúðum byggt á skaðaminnkandi hugmyndafræði. Mikilvægt er að fullnægjandi þjónusta sé til staðar fyrir íbúa í slíkum íbúðum. Hér er horft til þess að úthluta þessum íbúðum til heimilislausra kvenna sem nú búa í tímabundnum úrræðum. Mikilvægt er að vinna áfram að því að finna fjölbreyttar lausnir og fjölga húsnæði fyrir fólk sem er að koma úr heimilisleysi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ánægjulegt er að sjá að verið sé að bæta í þjónustu við konur með flóknar þjónustuþarfir. Það hallar mikið á konur þegar kemur að þjónustu við heimilislausa. Sóknarfæri hafa verið lengi fyrir Reykjavíkurborg í bættri þjónustu við þennan hóp. Það vekur hins vegar upp spurningar hvort tímasetningar um aukna þjónustu til 1. febrúar 2021 geti valdið þjónustuþegum óöryggi á komandi vikum. Æskilegt er að einstaklingar í vanda búi við öryggi. Fyrr á kjörtímabilinu lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um samstarf við SÁÁ um rekstur á búsetuúrræði fyrir konur með langvarandi fíknivanda en Reykjavíkurborg hefur lengi rekið sambærilegt úrræði fyrir karlmenn í þessari stöðu. Þeirri tillögu var vísað frá.

    Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Vísað er til erindis mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags 16. nóvember 2020, varðandi þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði við framkvæmdir í húsnæðismálum Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Lagt er til að borgarráð taki jákvætt í erindið og samþykki að ganga til viðræðna við ráðuneytið um þátttöku í verkefninu, m.a. á grundvelli minnisblaðs borgarlögmanns, dags. 23. september 2020. Semja þarf um hver greiðsluþátttaka er, hvernig greiðslur dreifist miðað við framvindu og hvernig haldið skuli á kostnaðarfrávikum og framkvæmdaáhættu. R20110131

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 30. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna reksturs vistheimilisins Arnarholts, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. R20110211

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir samantekt á gögnum sem til eru í málefnum Arnarholts sem hýst er á mörgum stöðum í borgarkerfinu. Borgarfulltrúi Miðflokksins ætlar ekki, vill ekki og getur ekki nýtt sér þá heimild sem kjörnum fulltrúum er veitt gagnvart skoðun gagna í málinu.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 23. nóvember 2020. R20010020

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Nýlega var samþykktur viðauki um að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Aðgerðirnar felast í því að hækka frístundakortið úr 50.000 í 80.000 kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér ætti ekki að vera um neitt tilraunaverkefni að ræða heldur ætti þetta verkefni að vera varanlegt og ná til allra hverfa. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum. Enda þótt mesta fátæktin sé vissulega í hverfi 111 eru líka fátæk börn í öðrum hverfum og það eru líka börn af erlendum uppruna í öðrum hverfum. Þess utan þarf enn að liðka um reglur frístundakortsins. Því miður gengu tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts of skammt. Skilyrðin fyrir lengd námskeiðs fór úr 10 vikum í 8 vikur. Þarna hefði átt að ganga lengra. T.d. hefði mátt miða við 4 vikur og opna síðan fyrir notkun frístundakortsins fyrir sumarnámskeið. Það eru ekki öll börn sem komast á sumarnámskeið vegna þess að foreldrar hafa einfaldlega ekki efni á að greiða gjaldið sérstaklega ef um er að ræða systkini. Vikan á sumarnámskeið á vegum Reykjavíkurborgar kostar um 20.000 kr.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 26. nóvember 2020. R20010028

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 24. nóvember 2020. R20010031

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2020. R20110027

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 19. nóvember 2020. R20010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi Íþróttabandalags Reykjavíkur sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins mun leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara á hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir til að stunda sjálfskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 2. desember 2020. R20010008

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Hér er komin skýrsla um ekki neitt annað en að fjölga opinberum starfsmönnum, skipa upplýsingafulltrúa um umferðarlýsingarmál og sækja peninga í sjóði Evrópusambandsins. Fulltrúar SWECO komu ekki til landsins til að kynna sér málin áður en skýrslan var gerð. Á þeim grunni er ljóst að skýrslan er gagnslaus. Nú hefur komið í ljós að skýrslu með niðurstöðum úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu var skilað 7. júní 2020. Það sætir mikilli furðu að kjörnir fulltrúar fái að bera skýrsluna augum fyrst nú því búið er að bíða eftir þessari skýrslu lengi. Ekki nóg með það – heldur er búið að skipa starfshóp sem þegar hefur hafið störf við úrvinnslu skýrslunnar og í honum sitja eingöngu embættismenn. Minnt er á að í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru umferðarljósastýringarmál sett í forgang og gera átti þarfagreiningu á hvernig hægt væri að auka umferðarflæði með réttri ljósastýringu. Þessi skýrsla fjallar ekki um það verkefni. Einn túrinn enn sitja kjörnir fulltrúar minnihlutans uppi með orðinn hlut og hafa ekkert til málanna að leggja.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna Íbúasamtök Miðborgar sem standa gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt rissteikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn Íbúasamtaka Miðborgar leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og „hugsanlegri dagvistun“. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar „öndunaropi“ en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar.

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 9. október og 6. nóvember 2020. R20010017

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í fjárhagsáætlun Strætó bs. fyrir 2021 er gert ráð fyrir að 900 milljóna króna gat sé í áætluninni sem ráðgert er að fjármagna með greiðslu frá ríkinu – sem ekki verður séð að hafi verið lofað. Fjárhagsáætlun Strætó er því ófjármögnuð hvað þetta varðar og þess vegna mjög óábyrgt að samþykkja hana áður en fjármögnun hefur fengist staðfest. Reykjavíkurborg er langstærsti eigandinn í Strætó og mun því fá bakreikninginn að mestu leyti gangi viðbótarfjármögnunin ekki eftir.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál. R20110350

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það vekur athygli að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er að hækka gjaldskrá sína um 10,5% sem er fjórfalt á við það sem lífskjarasamningurinn kveður á um. Gjaldskrárhækkun þessi lendir á endanum á útsvarsgreiðendum.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20110351

    Fylgigögn

  21. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hingað til hefur efni fjárhagsáætlunar ekki verið gert opinbert fyrr en við kynningu borgarstjóra á borgarstjórnarfundi klukkan 14:00 þegar fjárhagsáætlun og efni hennar eru kynnt. Borgarfulltrúar sem hafa fengið gögnin afhent fyrir þann tíma hafa fengið fyrirmæli um að samkvæmt reglum Kauphallar Íslands sé nauðsynlegt að fulls trúnaðar sé gætt um efni fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025 og tillögum um tekjur og lántökur ásamt greinargerðum sem fylgja. Helst þessi trúnaður þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlanir og fylgigögn opinber. Nú voru breytingar gerðar á birtingu gagna í Kauphöll og var það birt einni klukkustund áður en fundur borgarstjórnar hófst. Þá var trúnaði aflétt. Á sama tíma hafði meirihlutinn boðað til fréttamannafundar um efni fjárhagsáætlunar. Fulltrúi sósíalista lagði til þann 19. nóvember að efni fjárhagsáætlana yrði birti í Kauphöll fyrr en það svo að þeir fulltrúar sem eru einungis með einn fulltrúa í borgarstjórn gætu deilt efninu með varaborgarfulltrúum og svo að Reykvíkingar allir geti með virkari og gegnsærri hætti komið að vinnslu áætlunarinnar. Sú tillaga hefur ekki hlotið afgreiðslu. Voru gögnin send Kauphöll fyrr þetta árið en venja er svo að meirihlutinn gæti haldið fréttamannafund um efni fjárhagsáætlana? Eða lá önnur ástæða að baki þess? R20120012

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  22. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Þann 16. apríl sl. lagði fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands til að grunnlaun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa tækju ekki hækkunum í takt við þróun launavísitölu líkt og þau hafa gert. Grunnlaunin miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir og samfélagið tekst á við efnahagslegar afleiðingar þess er mikilvægt að hinir betur launuðu í ráðandi stéttum sýni ábyrgð í verki. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja að laun borgarfulltrúa taki ekki hækkunum á komandi mánuðum. Þá er mikilvægt ef þessi ákvörðun verður endurskoðuð síðar, að hún leiði ekki til afturvirkra launahækkana. Sú tillaga hefur ekki fengið afgreiðslu. Laun tóku hækkunum frá og með 1. júlí 2020, þar sem grunnlaun fóru úr 773.467 krónum og eru nú 813.094. Hver hefur heildarkostnaðurinn verið vegna þessara launahækkana? R20120013

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að íþrótta- og tómstundasvið standi fyrir námskeiði fyrir íþróttaþjálfara í kjölfar útgáfu bæklings Íþróttabandalags Reykjavíkur um kynferðisofbeldi í íþróttum. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli og þjálfun í samskiptum. Fræðsla er besta forvörnin. Það er mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Ekki dugar að hafa góðar leiðbeiningar aðeins á blaði heldur er mikilvægt að þjálfarar fái tækifæri til að ræða og fræðast um þessi mál með leiðbeinanda. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar liggja mörkin þegar kemur að íþróttum sem kalla á nálægð og snertingu? Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. R20120011

    Visað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Fundi slitið klukkan 11:32

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0312.pdf