Borgarráð - Fundur nr. 5607

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 19. nóvember, var haldinn 5607. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 9:03. Eftirtaldir borgarfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason, Valgarður Davíðsson og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða undir yfirskriftinni; Göngum í takt – samtal við atvinnulífið.  R20030218

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að borgarráð og aðilar vinnumarkaðarins eigi virkt samtal vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónaveirunnar og vaxandi atvinnuleysis. Á þessum fundi borgarráðs var rætt við fulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins og Félags atvinnurekenda. Ýmislegt kom fram í máli þeirra samtaka sem vert er að taka til greina og nánari skoðunar. Á fundi borgarráðs í desember heldur samtalið áfram með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mjög mikilvægt að hlustað sé á atvinnulífið hvað varðar einfaldara regluverk og álögur. Það er jákvætt að fulltrúar úr atvinnulífinu komi inn á fund borgarráðs. Nú sér fyrir endann á faraldrinum og því enn mikilvægara að verja útsvarsstofn borgarinnar með því að styðja atvinnulífið í gegnum þennan erfiða vetur. Ríkið hefur komið með aðgerðir til viðspyrnu í atvinnulífi og Reykjavíkurborg þarf að gera slíkt hið sama. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fimm tillögur til viðspyrnu vegna COVID-19 á síðasta fundi borgarstjórnar. Þær tillögur voru felldar. Það var köld kveðja til þessara aðila sem send var úr Ráðhúsinu með því. Þannig hafnaði meirihluti borgarstjórnar að taka jákvætt í erindi Samtaka ferðaþjónustunnar sem liggur fyrir þessum fundi borgarráðs, um að lengja í greiðslum vegna fasteignagjalda. Þá er því hafnað að taka þátt í ferðagjöfinni með borgargjöf sem myndi styrkja rekstraraðila í borginni um meira en 300 milljónir í gegnum erfiðan vetur. Tekið skal fram að samstaða var um ferðagjöfina á Alþingi og enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti þeirri samþykkt. Hér er brugðist öðru vísi við. Þessi meirihluti hafnar því einnig að lækka álögur á húsnæði eins og mælt er með í samkeppnismati OECD. Þá samþykkir hann ekki ráðgjafatorg fyrir fólk í vanda sem þó er ljóst að þörf er fyrir. Og meirihlutinn telur óþarft að tryggja skólabörnum mat eins og lagt er til í tillögunni.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Líkt og fram kemur í bókun meirihlutans undir tillögum Sjálfstæðisflokksins af síðasta borgarstjórnarfundi var sumt af því sem þar mátti finna var óraunhæft, annað var ómarkvisst eða féll ekki undir hlutverk borgarinnar og enn annað of kostnaðarsamt miðað við ávinning. Atriði sem lúta að velferðarsviði og þjónustu í skólum eru í fullri vinnslu og ekki verður séð að samþykkt tillagnanna bæti þar við með markverðum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir tafarlausum aðgerðum frá Reykjavíkurborg til stuðnings fólki og fyrirtækjum vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19. Nýlegum tillögum Sjálfstæðisflokks til varnar störfum og afkomu heimilanna hefur verið hafnað, án þess að meirihlutinn legði til aðrar lausnir. Aðgerðarleysið síðustu mánuði er bagalegt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gestum er þakkað fyrir komuna. Það slær fulltrúa Flokks fólksins að eitt af því sem bent er á í samtölum við forsvarsfólk atvinnulífsins er hversu flókið og óþjált ferli borgarkerfisins er þegar kemur að leyfisveitingum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í tvígang lagt fram tillögu um að farið verði með markvissum hætti í að einfalda umsóknir um leyfisveitingar og allt regluverk í sambandi við það hvort sem það er byggingaregluverk eða annað til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik. Þetta ætti ekki að flækjast mikið fyrir borgarmeirihlutanum, hvað þá taka tíma. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins rifja upp aðgerðir í efnahagsmálum sem allir borgarfulltrúar samþykktu á fundi 26. mars. Þar á meðal var frestun gjalda og niðurfelling gjalda og að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að fresta gjalddögum. Þessar aðgerðir mætti útvíkka enn meira þannig að fleiri geti notið þeirra. Vinna þarf hraðar nú og framkvæma strax það sem hægt er að framkvæma, t.d. það sem krefst ekki mikils tilkostnaðar. Borgarmeirihlutinn þarf spark. Orð eru til alls fyrst en ekki dugir að eiga aðeins samtöl ef engar eða litlar eru framkvæmdirnar.

    Andrés Magnússon og Jón Ólafur Halldórsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Jóhannes Þór Skúlason og Bjarnheiður Hallsdóttir frá Samtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu, Sigurður Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Árni Sigurjónsson frá Samtökum iðnaðarins og Ólafur Stephensen frá Félagi atvinnurekenda taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Alexandra Briem, Baldur Borgþórsson, Björn Gíslason, Egill Þór Jónsson, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen J Calmon, Jórunn Pála Jónasdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Þór Elís Pálsson og Örn Þórðarson.

    Eftirtaldir embættismenn og starfsmenn taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Anna Kristinsdóttir, Arna Schram, Halldóra Káradóttir, Lóa Birna Birgisdóttir, Ólöf Örvarsdóttir og Óskar J. Sandholt ásamt Janusi Arn Guðmundssyni og Svanborgu Sigmarsdóttur.

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 11. nóvember 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Gufuness vegna lóðanna nr. 5 og 7 við Jöfursbás, ásamt fylgiskjölum. R20110230

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að gætt sé jafnræðis þegar verið er að gera breytingar á skilmálum uppbyggingaraðila. Þetta á ekki síst við þá aðila sem hafa verið valdir að undangengnu vali eða fegurðarsamkeppni eins og dæmi eru um. Ekki eru í gildi ákveðnar reglur um breytingar á skilmálum eftir á, en dæmi eru um aukið byggingarmagn, stækkun lóða og ívilnanir varðandi kröfur og skilmála gagnvart einstökum aðilum. Réttara er að rýmka almennar reglur frekar en að koma með ívilnanir til einstakra aðila eftir á.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 11. nóvember 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnarvegna Landsímareits, ásamt fylgiskjölum. R17070048

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 11. nóvember 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður-Mjóddar, ásamt fylgiskjölum. R20110231

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðismenn telja að löngu sé tímabært að skipuleggja Mjóddina í heild enda hefur svæðið gríðarleg tækifæri fyrir Reykjavík, ekki síst vegna góðra samgöngutenginga. Vakin er athygli á því að borgin keypti Völvufell annars vegar og Arnarbakka hins vegar í byrjun kjörtímabils fyrir tæpan einn milljarð króna og hafði uppi stór áform, en lítið hefur bólað á þeirri endurnýjun sem áformuð var. Líklega má telja að skilvirkari leið hefði verið að rýmka skipulagsskilmála í stað þess að festa opinbert fé í langan tíma. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr. R20100189

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að gera úrbætur í aðgengismálum strætóstoppistöðva í borginni, enda eru þau víða óviðunandi. Rétt er að vinna endanlega tímasetta úrbótaáætlun í nánu samráði við Strætó, ekki síst vegna boðaðra breytinga á leiðakerfinu á næstu misserum. Þá ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks tillögu sína um upphitaða stíga, en heitir snjóbræðslustígar myndu stórbæta aðgengi að gangstígum í hálku og vetrarverði, og þar með stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum borgarinnar. Er þess óskað að tillagan verði skoðuð við úrbótavinnu í aðgengismálum. Einnig skal hafa í huga að koma fyrir hjólabogum þar sem hægt er.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bjóða á út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála. Það er löngu tímabært. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum bæði hvað varðar aðgengi og yfirborð. Eiginlega er, samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, aðgengi hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað. Aðgengi og yfirborðsvandi stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki, sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma sem það tekur að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 16. nóvember 2020, um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39. mál, ásamt fylgiskjölum. R20110124

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Umrædd tillaga til þingsályktunar er í andstöðu við stjórnarskrárvarinn sjálfsstjórnarrétt og skipulagsvald sveitarfélaga. Þá er bent á í umsögn borgarlögmanns og borgarstjóra að niðurstaða slíkrar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu getur hvorki bundið Reykjavíkurborg né haggað gildi lögmætra skipulagsáætlana sem gilda um Reykjavíkurflugvöll. Þá er bent á að nú þegar er að störfum hópur sem kannar Hvassahraun til hlítar sem nýtt flugvallarstæði. Sá hópur á að skila niðurstöðu fyrir lok árs 2022.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þann 28. nóvember 2019 undirrituðu borgarstjóri og samgönguráðherra samkomulag um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvöllar yrði tryggt áfram í óskertri mynd þar til annar jafngóður eða betri kostur hafi fundist. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði orðrétt við þetta tilefni: „Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við borgina um að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri þar til annar jafngóður eða betri kostur verður tilbúinn. Það skapar öryggi fyrir innanlands¬flugið og heldur þeirri góðu tengingu sem verður að vera milli landsbyggðar og höfuðborgar.“

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg krefst þess að vera sjálfstæð og þá sérstaklega í skipulagsmálum. En þegar kemur að bágum fjármálum borgarinnar á ríkið að koma með gríðarlegt fjármagn inn í reksturinn. Umsögn borgarlögmanns er sláandi þegar litið er til samnings ríkisins við Reykjavíkurborg um framtíð Reykjavíkurflugvallar frá 29. nóvember 2019. Ég hef nú þegar skrifað stjórn umhverfis- og samgöngunefndar bréf þar sem ég lýsti yfir forsendubresti Reykjavíkurborgar við samninginn. Búið er að tryggja 200 milljónir til „rannsókna“ í Hvassahrauni og skiptu ríki og borg kostnaðinum til helminga. Þau rök borgarinnar að vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar eru fáránleg þegar litið er til þess að í umsögninni er sífellt klifað á íbúakosningu sem haldin var í Reykjavík árið 2001. Báðar kosningarnar eru ráðgefandi. Því er spurt: Hvers vegna er Reykjavíkurborg á móti því að kanna þjóðarvilja um staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýri? Fagfólk í fluggeiranum hefur marg ítrekað að Hvassahraun er vonlaus staður fyrir flugvöll og nú bætast við miklar jarðhræringar á þessu svæði. Skorað er á samgöngumálaráðherra að leysa upp Hvassahraunsnefndina og gefa það út að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki á förum um ókomna tíð. Fjármagn ríkisins og borgarinnar er betur varið í önnur verkefni.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2020 á tillögu um aukið framlag til leikskólans Krílasels, ásamt fylgiskjölum. R20110209

    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2020 á drögum að nýju rekstrarleyfi fyrir leikskólann Krílasel, ásamt fylgiskjölum. R20110209

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2020 á samstarfs- og styrktarsamningi sviðsins við Ríkisútvarpið, ásamt fylgiskjölum. R20110210

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sífellt meiri áhersla er nú lögð á að láta raddir barna og ungmenna heyrast og taka mark á því sem þau hafa fram að færa í skólasamfélaginu. Áhersla nýrrar menntastefnu á sjálfseflingu og sköpun er liður í þessari þróun. Samstarfssamningur við Ríkisútvarpið um UngRÚV er skemmtilegt og þarft verkefni í þessum anda sem nú er endurnýjaður og tryggir ungmennum í Reykjavík m.a. tækifæri til að sækja sér fræðslu og starfsreynslu við fjölmiðlun og dagskrárgerð auk þess sem samningurinn stuðlar að auknum sýnileika reykvískra ungmenna í dagskrá RÚV. Markmið samstarfs RÚV og Reykjavíkurborgar er að unglingar í 8., 9. og 10. bekk í Reykjavík fái tækifæri til að þróa og taka þátt í verkefnum UngRÚV þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika og mismunandi hæfileika ungmenna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins samanber greinar 1.2. og 2.1.3. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér. Hægt væri að vinna með Sýn, Hringbraut eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er afar ánægður með að raddir barna og ungmenna heyrast sem víðast enda hafa börn mikið að segja og mörgu af því getum við fullorðna fólkið lært af. En hvað með aðrar stöðvar? Hefði ekki verið eðlilegt að tala við þær líka, t.d. Sýn, Hringbraut eða aðra fjölmiðla? Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. RÚV ber að gera ákveðna hluti samkvæmt þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins, þ.m.t. að sinna fræðsluhlutverki og auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn. Hér hefði verið eðlilegt að fara í útboð eða gera verðfyrirspurn til að kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva á verkefni sem þessu. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 10:50 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi. 

    -    Kl. 11:05 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum að nýju. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um mótun á nýju fyrirkomulagi á markvissum vinnu- og virkniaðgerðum í samræmi við græna planið vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 eru send borgarráði til kynningar. R20060016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í græna planinu er gert ráð fyrir markvissum vinnu- og virkniaðgerðum vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Í því skyni er stofnaður starfshópur sem á að skila útfærðum tillögum á vinnumarkaði á vegum borgarinnar fyrir 10. desember nk. Markmiðið er að skapa fjölda starfa fljótt, áherslan verði á fjölbreytt störf og þannig fækka á atvinnuleysisskrá og þeim sem fá fjárhagsaðstoð. Horft er til einstaklinga á atvinnuleysisskrá, á fjárhagsaðstoð og sumarstarfa fyrir námsmenn 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjóri fjallar almennt um ástandið á vinnumarkaði og að borgin flýti nokkrum verkefnum til að minnka atvinnuleysi. Lagt er fram erindisbréf, að starfshópur um mótun á vinnu- og virkniaðgerðum verði settur á laggirnar. Hópurinn er skipaður embættismönnum einungis. Er það rétt stefna? Eftir því er tekið í bréfi borgarstjóra að hann segir að „ein helsta áhersla græna plans Reykjavíkurborgar í samfélagslegu víddinni er að enginn verði skilinn eftir“. Hvað er átt við? Að enginn verði skilinn eftir vinnulega séð? Fjölmargir hafa verið skildir eftir árum saman í samfélagslegri vídd. Það þarf ekki að horfa lengra en til allra þeirra sem treysta á hjálparsamtök til að fá að borða, er það ekki samfélagleg vídd?. Má ekki segja að það fólk hafi verið skilið eftir? Reykjavíkurborg sjálf hefur verið að segja upp fólki. Fjórum tæknimönnum var sagt upp störfum fyrir fáeinum dögum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði og verkefnum þeirra útvistað. Er þetta í anda græna plansins?

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús að Súðarvogi 11, ásamt fylgiskjölum. R20110140

    Samþykkt. 

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 11:05 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssviði og íþrótta- og tómstundasviði verði falið að vinna að þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110242

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Dans- og fimleikahús er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Næsta skref er þarfagreining í samráði við fimleikadeild ÍR, dansskóla með starfsemi í hverfinu, félög dansara og íbúaráð Breiðholts.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að umsögn Íþróttabandalags Reykjavíkur um aðkomu Leiknis að rekstri fimleikahúss í Breiðholti verði höfð til hliðsjónar áður en farið er í þarfagreiningu vegna fimleikahúss á svæðinu.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að teknar verði upp viðræður við eigendur húsnæðis fimleikaaðstöðu Fylkis um hugsanlega stækkun hennar í Norðlingaholti sem yrði viðauki og framlenging á gildandi leigusamningi sem er til 2025. Gert verði ráð fyrir að borgin eignist húsið við lok leigutíma. Til samanburðar verði greindur kostnaður og ábati af því að reisa nýtt fimleikahús fyrir Fylki á starfssvæði félagsins í Lautinni, í samræmi við framtíðarsýn félagsins þar um. Viðræður og verkefnið verði undirbúið af íþrótta- og tómstundasviði í samráði við félagið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110236

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fimleikahús Fylkis er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Næsta skref er að taka upp viðræður við eigendur húsnæðis fimleikaaðstöðu Fylkis um hugsanlega stækkun hennar í Norðlingaholti sem yrði viðauki og framlenging á gildandi leigusamningi sem er til 2025. Gert verði ráð fyrir að borgin eignist húsið við lok leigutíma. Til samanburðar verði greindur kostnaður og ábati af því að reisa nýtt fimleikahús fyrir Fylki á starfssvæði félagsins í Lautinni, í samræmi við framtíðarsýn félagsins þar um. Viðræður og verkefnið verði undirbúið af íþrótta- og tómstundasviðs í samráði við félagið.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020: 

    Lagt er til að gengið verði til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knatthúss, sbr. nýtt hús ÍR í Mjódd, á grundvelli fyrri viljayfirlýsingar KR og borgarinnar. Kannaður verði vilji Seltjarnarness til samstarfs um verkefnið, sbr. samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um fimleikahús á Seltjarnarnesi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110244

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölnota knatthús í Vesturbænum er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Lagt er til að gengið verði til viðræðna við KR um byggingu þess á grundvelli fyrri viljayfirlýsingar KR og borgarinnar. Kannaður verði vilji Seltjarnarness til samstarfs um verkefnið, sbr. samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um fimleikahús á Seltjarnarnesi.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að skipaður verði starfshópur til að fara yfir skipulags- og mannvirkjamál í Laugardalnum, endurbyggingar og hugsanlegar nýframkvæmdir og skoða vinnu vegna deiliskipulags Laugardalsins og heildarskipulag hans. Í hópnum verði sviðsstjórar umhverfis- og skipulagssviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs ásamt skrifstofustjóra eignaskrifstofu og fulltrúa Íþróttabandalags Reykjavíkur. Samráð verði haft við viðkomandi félög, sérsambönd og samtök við skipulagsvinnuna ásamt íbúðaráði Laugardals þar sem fulltrúar íbúasamtaka eiga einnig sæti.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110239

    Samþykkt. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að íþrótta- og tómstundasviði, Íþróttabandalagi Reykjavíkur, skóla- og frístundasviði, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Glímufélaginu Ármanni verði falið að fara yfir fyrirliggjandi þarfagreiningu og hugmyndir um íþróttahús í Laugardal.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110234

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Íþróttahús í Laugardal er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í þessari tillögu er lagt til að íþrótta- og tómstundasviði, Íþróttabandalagi Reykjavíkur, skóla- og frístundasviði, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Glímufélaginu Ármanni verði falið að fara yfir fyrirliggjandi þarfagreiningu og hugmyndir um íþróttahús í Laugardal.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að skoðaðir verði, með Fjölni o.fl., valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110243

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Knattspyrnuaðstaða í Grafarvogi er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í þessari tillögu er samþykkt að skoðaðir verði, með Fjölni og fleiri aðilum valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Fyrir liggja hugmyndir félagsins um bætta aðstöðu við Dalhús eða Egilshöll sem nauðsynlegt er að rýna áður en ákvörðun um framhald verður tekin.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að gengið verði til viðræða við Knattspyrnufélagið Val varðandi hugmyndir félagsins um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins á Hlíðarenda. Gerð verði ítarleg þarfagreining, kostnaðar og rekstraráætlun vegna hugmynda um ný mannvirki.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110245

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Frekari uppbygging íþróttamannvirkja er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Lagt er til að gengið verði til viðræða við Knattspyrnufélagið Val varðandi hugmyndir félagsins um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins á Hlíðarenda. Gerð verði ítarleg þarfagreining, kostnaðar- og rekstraráætlun vegna hugmynda um ný mannvirki.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Ákveðið hefur verið að Knattspyrnufélagið Víkingur muni þjóna Safamýrarhverfinu með íþróttastarf þegar Knattspyrnufélagið Fram hefur flutt starfsemi sína í Úlfarsárdal. Borgarráð hefur áður samþykkt að gerður verði samningur um atriði því tengt. Lagt er til að samhliða gerð þjónustusamnings við Víking vegna Safamýrar-svæðisins verði skoðaðar hugmyndir um endurnýjun og þróun íþróttamannvirkja í Víkinni, sem og eignarhald og rekstur þeirra mannvirkja.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110240

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákveðið hefur verið að Knattspyrnufélagið Víkingur muni þjóna Safamýrarhverfinu með íþróttastarf þegar Knattspyrnufélagið Fram hefur flutt starfsemi sína í Úlfarsárdal. Borgarráð hefur áður samþykkt að gerður verði samningur um atriði því tengt. Lagt er til að samhliða gerð þjónustusamnings við Víking vegna Safamýrar-svæðisins verði skoðaðar hugmyndir um endurnýjun og þróun íþróttamannvirkja í Víkinni, sem og eignarhald og rekstur þeirra mannvirkja.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaaðstöðu í Fossvogi og nýrri byggð í Skerjafirði.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110237

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Siglingaaðstaða í Fossvogi er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Lagt er til að teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaraðstöðu í Fossvogi ognýrri byggð í Skerjafirði.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að gerð verði ábatagreining á valkostum varðandi áframhaldandi samstarf við Íþróttabandalag Reykjavíkur um rekstur Skautahallarinnar og stækkun hennar. Í kjölfarið verði tekin afstaða til mismunandi leiða og frekar samninga við Íþróttabandalag Reykjavíkur varðandi áframhaldandi rekstur og stækkun Skautahallarinnar í Laugardal.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110241

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stækkun skautahallar í Laugardal er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í þessari tillögu er lagt til að gera ábatagreiningu á valkostum um rekstur Skautahallarinnar og stækkun hennar. Í kjölfarið verði tekin afstaða til mismunandi leiða og frekar samninga við Íþróttabandalag Reykjavíkur varðandi áframhaldandi rekstur og stækkun Skautahallarinnar í Laugardal.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að skipaður verði starfshópur um yfirferð á fyrirliggjandi þarfagreiningu vegna tennishúss í Laugardal með fulltrúum Íþróttabandalags Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur og tennisfélögum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110238

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tennishús í Laugardal er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í tillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur um yfirferð á fyrirliggjandi þarfagreiningu vegna tennishúss í Laugardal með fulltrúum Íþróttabandalags Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur og tennisfélögum.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2020:

    Lagt er til að íþrótta- og tómstundasviði og Íþróttabandalag Reykjavíkur verði falið að gera þarfagreiningu og setja fram framtíðarsýn um byggingu knatthúsa.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110235

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í tillögunni er lagt til að íþrótta- og tómstundasviði og Íþróttabandalag Reykjavíkur verði falið að gera þarfagreiningu og setja fram framtíðarsýn um byggingu knatthúsa í Reykjavík. Knattspyrnuhús á svæðum félaga var eitt þeirra verkefna sem raðaðist ofarlega á ákveðnum svæðum í forgangsröðuninni, önnur röðuðust neðar. Nauðsynlegt er að rýna þörf fyrir slík mannvirki, nýtingu þeirra og rekstrarkostnað til framtíðar í borginni, m.a. með hliðsjón af forgangsröðununni og stefnumótunar Íþróttabandalags Reykjavíkur og íþrótta- og tómstundasviði á þessu sviði.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 6. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir tilnefningum í starfshóp um þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir. R15020197

    Samþykkt að tilnefna Ómar Einarsson og Kristjönu Ósk Birgisdóttur.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. nóvember 2020, varðandi málefni skíðasvæðanna, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R20010147

  26. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2020, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta ásamt greinargerð. R20010161

    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er svakaleg staðreynd að smáhýsin séu komin 50 milljónir framúr áætlunum. Áætlað var í upphafi að heildarkostnaður yrði 450 milljónir og er fullyrt á þessum fundi að þessi kostnaður rúmist innan þess ramma. Einungis hafa verið reist 5 hús af 25 og eru þau í Gufunesi og því er hvert hús komið 10 milljónir fram úr áætlunum. Hvað eiginlega gerðist? Jú það sem gerðist var að þau voru sett utan skipulags og fór fram gríðarleg vinna í sumar við það að sprengja klappir langt, langt inn í vegastæði Sundarbrautar. Enn á eftir að koma fyrir 20 smáhýsum þannig að hverjum má vera ljóst hvað smáhýsin fara fram úr áætlunum. Minnt er á að verkið var boðið út og ekki var gengið að neinu þeirra tilboða, en samið var um einn aðila og voru þau smíðuð erlendis. Það hefði verið hægt að leysa þann bráðavanda sem blasti við eftir síðustu borgarstjórnarkosningar í málefnum heimilslausra með því að kaupa gistiheimili eða hótel og hafa þar sólarhringsvakt á kostnað borgarinnar með mun minni tilkostnaði. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Hér er um að ræða tilfærslu fjármagns milli ára en ekki viðbótarfjármagn. Það eru komin 20 hús til Reykjavíkur og unnið er að því að finna þeim stað í borgarlandinu.

    Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 12. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu, fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs, að hefja útboðsferli sem er á áætlun nýrra upplýsingakerfa um kaup á nýju eignaumsjónarkerfi fyrir Reykjavíkurborg, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R20060052

    Samþykkt. 

    Óskar J. Sandholt og Hugrún Ösp Reynisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 3. nóvember 2020, sbr. samþykkt endurskoðunarnefndar frá 2. nóvember 2020 á drögum að skýrslu endurskoðunarnefndar til borgarstjórnar um starfsárið 2019-2020, ásamt starfsskýrslu endurskoðunarnefndar 2019-2020, dags. 2. nóvember 2020. R19070126

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt mikilvægasta verkefni endurskoðunarnefndar snýr að eftirlitshlutverkinu að mati fulltrúa Flokks fólksins, fylgjast með vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar og afla sér upplýsinga um mikilvægar forsendur til grundvallar áætluninni. Stundum er eins og endurskoðunarnefndin horfi að mestu til hvort rétt sé lagt saman eða dregið frá en minni áhersla sé á hvað liggi að baki, þ.e. eftirlitshlutann. Endurskoðendur árita jú alltaf reikninga með ákveðnum fyrirvara. Þeir afla nægjanlegrar vissu um að reikningursé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka. Ekki er um neina fullvissu. Það er því ekki tryggt að endurskoðun sem framkvæmd er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla hafi uppgötvað allar verulegar skekkjur séu þær til staðar, hvort sem þær eru vegna mistaka eða sviksemi eins og segir í stöðluðum texta með áritun endurskoðenda. Hvað með áhættumat Reykjavíkurborgar? Hvað með þegar hugsanlega eitthvað ólögmætt er í gangi sem eftirlitsaðilar segjast ekki sjá ástæðu að skoða þrátt fyrir háværar raddir borgarbúa? Svo er það spurning um að vera nægjanlega óháður og óvilhallur svo hægt sé að sporna við meðvirkni. Um leið og auka á samskipti við stjórnendur t.d. með fjölda funda getur það haft áhrif á hversu vel eða illa tekst að halda nauðsynlegri persónulegri fjarlægð.

    Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

     

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 10. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg samþykki tillögu varðandi uppgjör lífeyrisskuldbindinga, ásamt fylgiskjölum. R20110228

    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson og Gerður Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, dags. 7. október 2020, varðandi beiðni um niðurfellingu á fasteignagjöldum. Einnig lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. nóvember 2020. R20030191

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa orðið fyrir miklu tekjufalli á þessu ári. Eins og önnur fyrirtæki hafa þau fengið að fresta ákveðnum gjalddögum fasteignagjalda fram á næsta ár. Einnig hefur verið ákveðið að flýta lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði frá og með næstu áramótum. Lög heimila ekki að fasteignagjöld, sem er annar stærsti tekjuliður sveitarfélaga, verði felld niður á einstök fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þær frestanir á greiðslu fasteignagjalda sem SAF leggur til krefjast einnig breytinga á lögum. Samtal við löggjafann um breytingu á þessum lögum þyrfti að taka tillit til þeirrar verulegu tekjuskerðingar sem af hlýst hjá sveitarfélögum á sama tíma og útgjöld þeirra aukast umtalsvert vegna þeirra aðstæðna sem ríkja af völdum COVID-19.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tekjufall rekstraraðila í ferðaþjónustu er gríðarlegt. Borgin samþykkti að fresta gjalddögum í byrjun faraldursins en nú er ljóst að meira þarf til eigi fyrirtækin að lifa af veturinn. Mikilvægt er að borgin sýni lit gagnvart ferðaþjónustunni og vinni að lausn þeirra fyrirtækja sem erindi SAF fjallar um. Tillaga SAF miðar að því að verja störf og útsvarsstofn borgarinnar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Erindi Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu um niðurfellingu á fasteignagjöldum er lagt fram í borgarráði. Óskað er niðurfellingar fasteignagjalda. Fulltrúi Flokks fólksins telur að niðurfelling sé of kostnaðarsöm enda ekki hægt samkvæmt núgildandi lögum. Sanngjarnt og eðlilegt er hins vegar að fresta greiðslu fasteignagjalda í ljósi þess ástands sem ríkt hefur og mun ríkja um nokkurn tíma enn. Vonandi sér fyrir endann á COVID nú þegar glittir í bóluefni og samfélagið kemst í sitt eðlilega horf.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. 18. nóvember 2020, varðandi lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts. R20110226

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýverið birtist umfjöllun í fjölmiðlum um starfsemi vistheimilisins Arnarholts, Kjalarnesi, sem var rekið sem vistheimili frá árinu 1945 af hálfu Reykjavíkurborgar en árið 1971 var starfsemi Arnarholts sameinuð geðdeild Borgarspítalans og eftir það rekið sem hluti hennar í kjölfar rökstudds gruns um illa meðferð á heimilisfólki. Minnisblað borgarlögmanns fer yfir þau álitaefni sem liggja fyrir um næstu skref og nauðsyn þess að setja lagaákvæði sem veitir nefnd um Arnarholt eða starfsemi annarra vistheimila óheftan aðgang að öllum gögnum sem sem varða vistheimilið. Þá kemur fram nauðsyn þess að skýr lagaákvæði liggi til grundvallar skipan, valdheimildum og verkefnum nefndar um Arnarholt eða starfsemi annarra vistheimila sem rekin voru af Reykjavíkurborg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Minnisblað um lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts er lagt fyrir borgarráð. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að í ljósi frétta af illri meðferð á fólki á Arnarholti sé nauðsynlegt að koma á laggirnar nefnd til að gera úttekt á starfsemi vistheimilisins Arnarholts. Úttektin ætti fyrst og fremst að beinast að því hvernig meðferð einstaklingar fengu, hvernig henni var háttað, hvernig starfsemin var og hvert hið opinbera eftirlit með henni var. Mikilvægt er að skoða hvort ekki sé ástæða til að skoða aðbúnað á fleiri vistheimilum sem rekin voru á sama tíma.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram erindi Berjaya Corporation Group of Companies, dags. 21. október 2020, varðandi fyrirhugaðar fjárfestingar fyrirtækisins. Einnig lagt fram svar borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2020. R20010045

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að stór alþjóðlegur fjárfestir lýsi Reykjavík sem spennandi fjárfestingarkosti. Það sýnir öðru fremur styrk borgarinnar í alþjóðlegu samhengi sem vettvangi fyrir kröftuga ferðaþjónustu þegar heimsfaraldri sleppir. Í svarbréfi borgarstjóra til forstjóra Berjaya Corp. er alveg skýrt að Miðbakkinn sé ekki til uppbyggingar. Um leið er áfram boðið upp á samtal um aðrar staðsetningar til uppbyggingar og fjárfestingar í Reykjavík.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 16. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kynningarherferð á Laugaveginum sumarið 2020, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20040179

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú nú - ekkert af þessu fjármagni fór til aðila til að lífga miðbæinn við eins og t.d. tónleikahalds eða annarra viðburða. Rúmlega helmingur upphæðarinnar fór í „ýmsa hönnun, sérfræðivinnu og auglýsingagerð“ og einungis 11 milljónir í auglýsingar. Mikið óskaplega var þessu fjármagni illa varið. Eitt fyrirtæki fær yfir 87% af fjármagninu öllu eða 22,5 milljónir. Var farið í verðfyrirspurn eða verðtilboð? Það er ljóst að enginn situr við sama borð og ENNEMM.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. nóvember 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bækling um græna planið, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20100404

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður við gerð bæklingsins var 10.240.777 kr. fyrir utan virðisaukaskatt. Þessum fjármunum hefði mátt verja til mikilvægari verkefna, nú þegar kreppir að.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírat og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur um árabil leitast við að greina stöðuna á húsnæðismarkaðnum og hverjar búsetuóskir íbúa borgarinnar, höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar eru enda ríkir samkeppni á milli sveitarfélaga landsins um íbúa. Það er eðlilegt að einhver kostnaður hljótist af því að auglýsa borgina sem spennandi búsetukost. Það skilar sér margfalt tilbaka. Þá voru borgin og önnur sveitarfélög gagnrýnd fyrir að sýna ekki nægilega vel á spilin með sín uppbyggingaráform í aðdraganda efnahagshrunsins og er bæklingurinn hluti af bættri upplýsingagjöf.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um átak til að hvetja öll börn til að nýta frístundakortið, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. Greinargerð fylgir tillögunni. R20110202

    Tillagan er felld.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gert yrði átak til að hvetja öll börn til að nota rétt sinn til frístundakorts. Áhrifaríkast yrði að nota aðferðina „maður á mann samtal“ og ekki hætta fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum. Slök nýting frístundakortsins í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Það er borgaryfirvalda að gera eitthvað til að auka nýtingu. Það er ekki gert með því að nota frístundakortið sem gjaldmiðil í nauðsynjar. Það er beinlínis staðfest í skýrslu stýrihóps sem endurskoðaði reglur kortsins að ástæðan fyrir að borgarmeirihlutinn vill að foreldrar geti nýtt kortið í frístundaheimili er að þá þurfa ekki að koma til aðrir sérstakir styrkir. Í það minnsta verða aðrir styrkir lægri þegar rétturinn til nýtingar kortsins er tekinn upp í. En þar með er barnið ekki að nota frístundakortið til að stunda tómstund að eigin vali. Eins og segir í skýrslu stýrihópsins: “kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og því ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.” Það er rangt að skerða möguleika barns að nota kortið með þessum hætti að mati Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur frá 6. nóvember 2020. R20110227

    Fylgigögn

  37. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 12. nóvember 2020. R20060037

    Fylgigögn

  38. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkur frá 13. og 16. nóvember 2020. R20110027

  39. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 18. nóvember 2020. R20010008

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Það er kaldhæðislegt að ræða ekki nýlega tæmingu Árbæjarlóns í umræðu um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals, en stíflan eru friðuð og þar með lónið. Það er mjög sláandi að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rýsa. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðaárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Elliðaárdalurinn býr yfir afar fjölbreyttu lífríki. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Ríkið verður að grípa inn í þessa atburðarás og friðlýsa svæðið strax eins og gert var með Akurey í Kollafirði 2019. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta náttúrugæðanna sem dalurinn býður uppá. Náttúra innan borgarmarka er takmörkuð auðlind. Elliðaárdalurinn er ein af stærstu auðlindum Reykvíkinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerðri náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar. Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, hann er frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En þar voru líf-fæðuauðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir. Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.

    Fylgigögn

  40. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 6., 13., 20., 22. og 27. mars, 3., 17. og 29. apríl, 15. maí, 29. júní, 31. júlí, 7., 14. og 28. ágúst, 4., 11., 18. og 25. september og 2., 4., 6., 9., 16., 19., 23., 30. og 31. október 2020. R20010012

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hvað er í gangi í rekstri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins? Engar fundargerðir hafa verið lagðar fyrir borgarráð síðan í mars og er það á pari við fundargerðir neyðarstjórnar. Minnt er á að borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins og neyðarstjórnarinnar. Þetta er gjörsamlega galin stjórnsýsla og myndi aldrei líðast í öðrum sveitarfélögum og hvað þá ríkinu. Hvað er verið að fela?

    Fylgigögn

  41. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 20 mál. R20110031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið yfirlitins:

    Það kemur fulltrúa Flokks fólksins nokkuð á óvart að senda á tillögu Flokks fólksins um að kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd í grunnskólum til skóla- og frístundasviðs til meðferðar. Talið hefði verið eðlilegra að hún yrði send til menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur. Hugsunin er að myndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg. Útfærslan og framkvæmd hlýtur því að vera í höndum menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur og Kvikmyndasafnsins. Gera þarf samkomulag við Kvikmyndasafnið sem á sýningarréttinn.

    Fylgigögn

  42. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20110035

    -    Kl. 14:00 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Líf Magneudóttir af fundi.

    Fylgigögn

  43. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Lagt er til að efni fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025 verði sent Kauphöll Íslands um leið og borgarráð hefur ákveðið að vísa efni áætlananna formlega til borgarstjórnar. Fyrirhugað er að gera slíkt 27. nóvember n.k. Hingað til hafa borgarráðsfulltrúar og áheyrnafulltrúar í borgarráði fengið kynningu á drögum fjárhagsáætlana áður en þau fara til opinberrar birtingar. Ekki allir borgarfulltrúar sitja í borgarráði og þurfa þeir fulltrúar að halda trúnaði þangað til trúnaður afléttist af gögnunum. Ferlið hefur verið þannig að fjármála- og áhættustýringarsvið sendir Kauphöll Íslands upplýsingar fjárhagsáætlananna sem birtar eru á upplýsingavef Kauphallarinnar samtímis kynningu borgarstjóra á fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun í borgarstjórn. Á borgarstjórnarfundinum afléttist trúnaður af gögnunum. Miðað við núverandi skipulag á sá borgarstjórnarfundur sér stað fjórum dögum eftir framlagningu fjárhagsáætlunarinnar í borgarráði. Erfitt er fyrir þá sem eiga einn fulltrúa úr sínum flokki í borgarráði og borgarstjórn að setja sig að fullu inn í efni fjárhagsáætlananna á þeim stutta tíma sem um ræðir. Fyrirhugað er að kynningar á efni fjárhagsáætlananna fari fram í borgarráði 26.-27. nóvember og verði síðan ræddar í fyrri umræðu og gerðar opinberar á fundi borgarstjórnar þann 1. desember. Því er lagt til að efni fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025, þar með talið tillögur um tekjur og mögulegar lántökur ásamt greinargerðum sem þeim fylgja, verði sendar Kauphöll Íslands á sama tíma og þær hafa verið afgreiddar úr borgarráði. Þetta er lagt til svo að Reykvíkingar allir geti með virkari og gegnsærri hætti komið að vinnslu áætlunarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20110274

    Frestað.

    Fylgigögn

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Hvað myndi það kosta að hafa frístundaheimili Reykjavíkurborgar gjaldfrjáls?  R20110275

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Hefur einhverju barni verið neitað um skólamáltíðir á síðustu mánuðum vegna vanskila? Er aðgengi einhverra barna sem eru skráð í mataráskrift í uppnámi vegna skulda sem á eftir að semja um eða greiða? Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að um níu af hverjum tíu börnum séu í mataráskrift. Hversu mörg börn eru skráð í mataráskrift? Er hlutfallið ólíkt eftir hverfum? R20110276

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  46. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Miklar framkvæmdir standa nú yfir í náðhúsinu í Nauthólsvík/Bragganum og þegar Braggaskandallinn kom upp var sagt að framkvæmdum væri lokið og ekki yrði varið meira fjármagni í verkefnið. 1. Hverjir eru að vinna við Náðhúsið og hvað er áætlað að endurbæturnar kosti? 2. Fóru framkvæmdirnar í útboð eða verðsfyrirspurn? 3. Hvaða starfsemi er áætluð í Náðhúsinu? R17080091

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður spurt um málefni dagmæðra m.a. í gegnum COVID. Hjá þeim hefur ekki orðið breyting. Eitthvað hefur verið um brottfall úr stéttinni. Einhverjir náðu að fylla pláss sín í haust en aðrir hafa átt erfitt með það og það vegna þess að leikskólar eru að taka inn á öllum tímum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort einhver hækkun verði á niðurgreiðslu til „foreldra“ vegna barna hjá dagforeldrum. R20110273

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  48. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Lögð er fram í borgarráði tillaga meirihlutans um tilnefning í starfshóp vegna Þjóðarleikvangs fyrir frjálsar íþróttir. Hér er um að ræða ósk frá menntamálaráðuneyti um að borgin tilnefni í nefnd sem á að fjalla um fyrirhugaðan Þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að spyrja hvort þetta verður ekki samtvinnað knattspyrnuvelli sem einnig á að byggja. R15020197

    Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

  49. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi borgarráðs 19. nóvember er lagt til að teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaraðstöðu í Fossvogi ognýrri byggð í Skerjafirði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér og spyr hvort það þýði landfyllingar og þá hversu mikið. Á enn að ganga á náttúrulegar fjörur? R20110237

    Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

  50. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita um hver sé biðlisti nú í sérskólaúrræði á vegum borgarinnar. R20110279

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fundi slitið klukkan 14:24

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Marta Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1911.pdf