Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 12. nóvember, var haldinn 5606. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 09:00. Eftirtaldir borgarfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason, Valgarður Davíðsson og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. nóvember 2020, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 3. nóvember 2020 á tillögu um framlengingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, ásamt fylgiskjölum. R18060129
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni vistheimilisins Arnarholts. R20110211
-
Fram fer kynning á græna plani Reykjavíkurborgar. R20060016
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Græna planið er sóknaráætlun borgarinnar eftir heimsfaraldur. Það byggir á þremur víddum sjálfbærni: Umhverfislegri sjálfbærni, félagslegri sjálfbærni og efnahagslegri sjálfbærni. Meðal markmiða græna plansins er að kolefnishlutleysi Reykjavíkur verði náð, að grænn vöxtur stuðli að samkeppnishæfri borg sem laðar til sín fólk alls staðar að og græna umbreytingin sem framundan er verði byggð á réttlæti, sanngirni og þátttöku þar sem engin er skilin eftir. Meðal verkefna í græna planinu eru 1.000 íbúðir á ári, þar af 80% meðfram borgarlínu, grænir samgönguinnviðir, alþjóðlega vottuð græn hverfi, ný samgöngumiðstöð, vísindagarðar, skapandi greinar í Gufunesi, blómstrandi miðborg og grænn nýsköpunariðnaður á Grundartanga, orkuskipti, stafræn umbreyting borgarinnar, skógrækt, verkefni í þágu lífbreytileika og grænna ofanvatnslausna. Í græna planinu verður einnig unnið gegn fátækt, bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla brúað, stutt við börn í viðkvæmri stöðu strax og byggt fyrir hópa sem á þurfa að halda – en umfram allt: skapað samfélag þar sem allir einstaklingar geta vaxið og dafnað.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn ein glærusýningin um ekki neitt. Tíma borgarráðs og fjölmargra embættismanna borgarinnar er mjög illa varið með því að sitja undir skýjaborgum borgarstjóra og meirihlutans. Verið er að beina sjónum frá raunverulegri stöðu Reykjavíkurborgar. Meirihlutinn er á flótta frá raunveruleikanum og getur ekki horfst í augu við ástandið. Það er þeim um megn. Þá er slegið í glærusýningu um bækling sem búið er að senda í hvert einasta hús í borginni og nágrannasveitarfélögum og þar að auki að kynna og setja á langar ræður um sama efni í borgarstjórn. Þetta fólk verður að koma sér inn í raunveruleikann eins og hann er í dag. Staðan er svona: Reykjavíkurborg rambar á barmi gjaldþrots, atvinnuleysi eykst dag frá degi, sárafátækt þeirra sem verst standa er staðreynd, hjúkrunarheimili vantar, fyrirtæki eru flæmd í burtu úr borginni, listinn er ótæmandi. Í stað þess að horfast í augu við vandann er búin til smjörklípa sem kölluð er „græna planið“ til að forðast það að takast á við aðsteðjandi vandamál og rætt aftur og aftur og aftur. Reykvíkingar eiga betra skilið en þessi ósköp.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Græna planið lítur vel út á blaði. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og fleirum varðandi þetta græna plan er skortur á samkvæmni. Að byggja hraðbraut við væntanlegan Vetrargarð, skipulagning vegar sem er stórfelld landníðsla, óafturkræf getur varla flokkast undir grænt plan. Borgaryfiryfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi þegar við blasir önnur betri leið, að láta veginn liggja um Tónahvarf í Kópavogi. Þessi framkvæmd mun skerða framtíðarmöguleika þessa svæðis sem er einn besti útsýnisstaður í borginni enda einn sá hæsti. Ekkert hefur verið fjallað um þá þætti, hvorki í matsskýrslu né í umræðu. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins. Allt tal um grænt hljómar afar sérkennilega þegar horft er til þessa máls. Hvað varðar grænan viðskiptahraðal vita fáir hvað það er. Það væri kannski lag að útskýra og kynna það nánar áður en farið er í að semja hástemmdar bókanir.
Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Björn Gíslason, Ragna Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Jórunn Pála Jónasdóttir, Diljá Ámundadóttir og Alexandra Briem. Einnig tóku sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Regína Ásvaldsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Helgi Grímsson, Halldóra Káradóttir, Ebba Schram, Lóa Birna Birgisdóttir, Óskar J. Sandholt, Birgir Björn Sigurjónsson, Jón Halldór Jónasson, Hrönn Hrafnsdóttir, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Erlingur Fannar Jónsson, Ólafur Sólimann, Helgason, Svavar Jósefsson, Óli Örn Eiríksson, Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, Svanborg Sigmarsdóttir og Janus Arn Guðmundsson.
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. nóvember 2020, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október 2020 á tillögu borgarstjóra um grænan viðskiptahraðal. R20100230
Samþykkt.
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum þessu athyglisverða verkefni sem grænn hraðall er og teljum það geta orðið tímamótaverkefni í að koma nýsköpunargeiranum á Íslandi á fulla ferð í baráttunni við loftslagsvandann hérlendis og erlendis. Hér er verið að samþykkja að Reykjavíkurborg gerist aðili að grænum hraðli sem einn af bakhjörlum verkefnisins og er það í takt við áherslur græna plansins um efnahagslega endurreisn sem samþykkt var í vor. Einnig er þetta mikilvægt atriði þegar kemur að því að uppfylla Parísarsáttmálann með því að skapa samhent átak og öflugan samstarfsvettvang milli nýsköpunarsamfélagsins, ríkis og borgar um úrlausnir í loftslagsmálum sem mun efla græna nýsköpun í landinu. Viðspyrnan vegna COVID þarf að vera græn. Grænn hraðall er viðskiptahraðall sem er ætlað að draga fram, efla og þróa tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í loftslagsmálum með það fyrir sjónum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búnir til að sækja styrki í nýsköpunarsjóð Evrópusambandsins.
Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Björn Gíslason, Ragna Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Jórunn Pála Jónasdóttir, Diljá Ámundadóttir og Alexandra Briem. Einnig tóku sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Regína Ásvaldsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Helgi Grímsson, Halldóra Káradóttir, Ebba Schram, Lóa Birna Birgisdóttir, Óskar J. Sandholt, Birgir Björn Sigurjónsson, Jón Halldór Jónasson, Hrönn Hrafnsdóttir, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Erlingur Fannar Jónsson, Ólafur Sólimann, Helgason, Svavar Jósefsson, Óli Örn Eiríksson, Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, Svanborg Sigmarsdóttir og Janus Arn Guðmundsson.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum:
Hjálagt erindi samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, dags. 26. október 2020, þar sem óskað er eftir tilnefningu tveggja fulltrúa frá Reykjavíkurborg í starfshóp um höfuðborgarstefnu, er lagt fram til kynningar. Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, í starfshópinn fyrir hönd meirihluta og tilnefni jafnframt einn fulltrúa úr minnihluta í starfshópinn. R20100203
Samþykkt að tilnefna Dag B. Eggertsson og Valgerði Sigurðardóttur.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Elliðaárdal og framtíð mannvirkja Elliðaárstöðvar og Árbæjarlóns. R20110182
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins furða sig á vinnubrögðum í tengslum við tæmingu lónsins en hún var ekki lögð fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til samþykktar áður en Árbæjarlónið var tæmt. Nauðsynlegt er að kanna til hlítar hvernig best er að skila Elliðaárdalnum áður en farið er í að breyta Árbæjarlóni til frambúðar. Ekki hefur borist álit Náttúrufræðistofnunar eins og stefnt var að. Þá hefur ekki verið leitað álits umhverfis- og heilbrigðisráðs, íbúaráða, íbúasamtaka eða Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins sem rétt er að gera þegar svona ákvörðun liggur til ákvörðunar. Rétt er að rifja upp að Orka Náttúrunnar braut lög þegar lón Andakílsárvirkjunar var tæmt. Því er mikilvægt að fara varlega. Mannvirki á svæðinu eru friðuð. Því vaknar spurning um hvort lónið njóti ekki jafnframt friðunar að lögum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Elliðarárvirkjun er 2,8 MW og er innan borgarmarkanna. Það eitt og sér er stórmerkilegt og sýnir mikla framsýni og eldmóð fyrir einni öld síðan. Brjótist út meiriháttar náttúruhamfarir þá á Reykjavík þessa vararafstöð sem gæti m.a. skaffað Landsspítalanum rafmagn. Nú er líka verið að tala um það að fjarlægja mannvirkið sjálft. Er fólki ekki sjálfrátt og ekkert heilagt? Allt í sambandi við þessa ákvörðunartöku er ámælisvert. Kjörnir fulltrúar fréttu af þessari ákvörðun í gegnum fjölmiðla. Því hef ég óskað eftir að borgarráð fái allar upplýsingar frá Orkuveitu Reykjavíkur með nákvæmri tímalínu um þá ákvörðun að tæma Árbæjarlón endanlega, tæmandi talið. Allt er á sömu bókina lært. Nú er boðað eftir á samráð við íbúa svæðisins og hagsmunaðila með fundarherferð. Það eitt og sér er hneyksli.
Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði: Sabine Leskopf, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir, og eftirtaldir fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur; Bjarni Bjarnason, Brynhildur Davíðsdóttir og Hólmfríður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn undir þessum lið með fjarfundarbúnaði; Ólöf Örvarsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Þorkell Heiðarsson, Svanborg Sigmarsdóttir og Janus Arn Guðmundsson.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2020, ásamt drögum að erindisbréfi:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að erindisbréfi stýrihóps um Elliðaárdal. Óskað er eftir því að borgarráð staðfesti skipun þeirra einstaklinga í hópinn sem fram koma í bréfinu. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að vinna að tillögu í samráði við helstu hagsmunaaðila, um mótvægisaðgerðir í kjölfar tæmingar lóns Árbæjarstíflu sem horfi m.a. til fuglalífs, annarrar náttúru og mannlífsins í dalnum. Einnig verði gerðar tillögur um framtíðarumhverfi svæðisins kringum Árbæjarstíflu og framtíð hennar nú þegar raforkuframleiðslu hefur verið hætt. Þá er hópnum ætlað að gera tillögur að forgangsröðun innviða til útivistar sem og framkvæmda tengdum bættu aðgengi á grundvelli nýs deiliskipulags og stöðu Elliðaárdals sem verndaðs svæðis, borgargarðs. Leiðarljós hópsins er að hafa hagsmuni lífríkisins og útivistar að leiðarljósi enda Elliðaár og dalurinn allur einstök náttúru- og útivistarperla. R20110182
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stýrihópurinn mun vinna tillögur um mótvægisaðgerðir í kjölfar tæmingar lóns Árbæjarstíflu sem horfi m.a. til fuglalífs, annarrar náttúru og mannlífsins í dalnum. Einnig verði litið til framtíðarumhverfis svæðisins kringum Árbæjarstíflu og framtíðar hennar nú þegar raforkuframleiðslu hefur verið hætt. Þá mun hópurinn koma með tillögur að framkvæmdum tengdum bættu aðgengi á grundvelli stöðu Elliðaárdals sem verndaðs svæðis og borgargarðs. Mikilvægt er að hópurinn hafi að leiðarljósi hagsmuni lífríkisins og útivistar enda er Elliðaár og dalurinn allur einstök náttúru- og útivistarperla.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. nóvember 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðanna nr. 30 og 32 við Blesugróf, ásamt fylgiskjölum. R20110181
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. nóvember 2020 á breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits, reitur 1.131, vegna lóðarinnar nr. 21-23 við Mýrargötu ásamt fylgiskjölum. R20060258
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða Mýrargötu 21 og 23, breytingu á deiliskipulagi sem m.a. felst í því að minnka umfang og hæð kirkjunnar ásamt því að kirkjuturnar eru lækkaðir. Fulltrúa Flokks fólksins þykir kannski sem málið sé ekki fullunnið. Turnum kirkjunnar fækkar úr 5 í 2, hámarkshæð hærri turns minnkar úr 22 í 18 metra. Kirkjan sjálf er ekki sátt við skipulagið eftir að lagt er til að kirkjan verði minnkuð verulega og margir aðrir eru einnig ósáttir, sbr. innsendar athugasemdir. Málið hefur verið í vinnslu frá 2008 og ennþá eru áhöld um hvernig kirkjan á að vera og bílastæðin sem eru aðeins þrjú.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir raðhús við Silfratjörn 14-18. R20110164
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup á fasteign við Kleppsveg 150-152, ásamt fylgiskjölum. R20110116
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:Mikilvægt er að tryggja leikskólarými en jafnframt að gæta þess að húsnæði sé í lagi. Miðað við ástandslýsingu er húsnæðið í slæmu ástandi og er áætlaður frumkostnaður við standsetningu heilar 600 milljónir til viðbótar við kaupverðið. Heildarstærð áformaðs leikskóla eftir breytingar verður 1.064 m2 og áætlaður kostnaður 1.242.300.000 kr. Það eru um 1200 þúsund krónur á m2. Ekki liggur fyrir hver möguleg not á kjallara eru og er þetta því mjög hátt verð.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins vonar að tryggt verði að þetta húsnæði sem nota á fyrir nýjan leikskóla að Kleppsvegi 150-152 sé laust við myglu og raka. Umhverfis- og skipulagsvið hefur unnið greiningu og frumathuganir varðandi breytingar og er gert ráð fyrir að kostnaður við breytingar verði um 600 m.kr. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nýr leikskóli skuli koma í Laugardal og Vogum enda mikil þörf á. Vanda þarf til verka og vissa þarf að ríkja um að þetta húsnæði sé gott og heilt, laust við myglu og raka.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. nóvember 2020, þar sem leigusamningur fyrir Logafold 106 er sendur borgarráði til kynningar. R20110163
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning fyrir Norðurgrund 3, ásamt fylgiskjölum. R20100177
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að meðfylgjandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 9. nóvember 2020, um reglur velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum, verði samþykkt. Markmið reglnanna er að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir, sbr. lög nr. 26/2020, og nr. 36/2020, um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Áætlaður kostnaður nemur 214.838.000 kr. á árinu 2020-2021 og er að fullu fjármagnaður með framlagi ríkisins. R20020077
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þessar reglur gera ReykjavÍkurborg kleift að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið taki höndum saman og verji börn fyrir áhrifum faraldursins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Miðflokkurinn í Reykjavík hefur barist fyrir hækkun frístundakortsins frá stofnun flokksins. Borgarfulltrúi flokksins hefur flutt margar tillögur um slíkt í borgarstjórn og borgarráði og hafa þær allar verið felldar. Nú er að koma framlag frá ríkinu til að leggja inn í frístundakortsútfærsluna og er það mikið fagnaðarefni fyrir efnaminni fjölskyldur í Reykjavík. En að ríkið skuli hafa þurft að koma með fjármagn inn í þetta frábæra úrræði segir sitt um rekstur Reykjavíkurborgar. Þetta átak ríkissins er eins skiptis aðgerð. Lýst er yfir áhyggjum hvað tekur við þegar átaksverkefni ríkisins lýkur. Hvað tekur við hjá þeim börnum sem fá þennan styrk nú? Þá ber Reykjavíkurborg skylda til að taka við til að tryggja þessa þjónustu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga er lögð fram í borgarráði að regluverki velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, sbr. tilmæli félagsmálaráðuneytisins. Áætlaður kostnaður nemur 214.838.000 kr. á árinu 2020-2021 og er að fullu fjármagnaður með framlagi ríkisins. Eftir því er tekið í reglunum að styrkurinn er ekki ætlaður til greiðslu frístundaheimila. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér af hverju frístundaheimilin eru ekki undanskilin í regluverki um frístundakort. Erfitt er að skilja þetta en þegar ríkið stendur straum af kostnaði er ekki heimilt að nota styrk barna í frístundaheimili en þegar borgin stendur straum af kostnaði þá er klipið af styrknum í alls kyns aðra hluti svo sem greiðslur fyrir frístundaheimili og móðurmálskennslu og fleira. Talandi um „tilmæli“ þá eru það skýr tilmæli frá fulltrúa Flokks fólksins að frístundakortið sé ekki notað til að greiða með frístundaheimili heldur fái foreldrar sem þess þurfa sérstakan stuðning fyrir það. Frístundakortið er réttur barnsins og borgaryfirvöld eiga ekkert með að hrifsa þann rétt frá þeim.
Regína Ásvaldsdóttir og Dís Sigurgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 9. nóvember 2020, sbr. samþykkt stýrihóps um innleiðingu íbúaráða á tillögu um framlengingu á tilraunaverkefni um ný íbúaráð til 1. júlí 2021, ásamt fylgiskjölum. R19100342
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tilraunaverkefni með níu íbúaráð hófst haustið 2019 og átti að standa til ársloka 2020. Meginhluta starfstíma þeirra hefur starfsemi íbúaráða raskast vegna COVID-19 og neyðarstigs almannavarna. Fundum hefur fækkað og þeir haldnir með fjarfundi. Mikilvægt er talið að verkefnið fái lengri tíma til innleiðingar, svo að stýrihópurinn geti lagt heildstætt mat á tilraunaverkefnið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð er lögð fram í borgarráði. Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúaráðin hljóti að vera komin til að vera. Þau hafa mikilvægu hlutverki að gegna og ekki síst að vera tengiliður borgarbúa og stjórnkerfis. Kynna þarf rækilega að fundir íbúaráða eiga að vera opnir borgarbúum, um leið og COVID ástandinu lýkur. Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn borgarlögmanns um frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100, ásamt fylgiskjölum. R20010220
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Umsögn borgarlögmanns um frumkvæðisathugun Borgarskjalasafns um skjalavistun vegna Nauthólsvegar 100 er ítarleg og skýr. Í umsögninni gerir borgarlögmaður fjölmargar athugasemdir við lagatúlkun Borgarskjalasafns vegna skjalavistunar. Þó tekur borgarlögmaður undir úrbótatillögur safnsins, þá einkum að skoða þurfi nánar endurskoðun á skjalavistunaráætlun fyrir miðlæga stjórnsýslu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Burtséð frá refsiábyrgð er ljóst að skjalavarsla á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) var í molum. Í nýjustu úttekt Borgarskjalasafns kemur fram að skjalavarsla hjá Reykjavíkurborg er enn víða ábótavant.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sök bítur sekan. Borgarstjóra og meirihlutanum er þakkað fyrir að rifja upp braggaskandalinn og koma honum á dagskrá á ný. Hér er á ferðinni enn einn hvítþvotturinn í því máli. Borgarlögmaður gerði sig vanhæfan í upphafi málsins árið 2018 er hún sendi álit til innkauparáðs Reykjavíkur um að ekkert væri athugunarvert í braggamálinu og dregur nú upp úr hatti sínum enn eitt álitið í þá veru að 450 milljónir í endurbætur á hernámsbragga væru eðlilegir fjármálagjörningar af hálfu Reykjavíkurborgar. Hvernig er hægt að vera bæði gerandi, ákæruvald og dómari í eigin sök? Það er alveg sama hvað embættismenn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra skrifa mörg álit og greinargerðir til að fría hann ábyrgð – lögbrot voru framin og upp komst um mikið fjármálasukk. Minnt er á að borgarstjóri rannsakaði sitt eigið pósthólf og „fann ekkert óeðlilegt“. Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins vísuðu braggamálinu til héraðssaksóknara og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þegar engin önnur leið var fær og málið er statt í þeirra höndum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Umsögn um frumkvæðisathugun Borgarskjalasafns Reykjavíkur á skjalavörslu skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í tengslum við braggann, Nauthólsvegi 100 er lögð fram. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem þessi umsögn snúist frekar um það að draga niður frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar sem komist hefur að þeirri niðurstöðu að lög voru brotin í endurgerðarferlinu. Borgarskjalavörður fékk bágt fyrir að vera fagaðili, nákvæmur og athugull og tók ákvörðun um að gera frumkvæðisathugun í óþökk meirihlutans. Borgarlögmaður getur ekki komist að sömu niðurstöðu og borgarskjalavörður sem er sérkennilegt, túlkar bara lögin með allt öðrum hætti, sér bara allt aðra hluti en borgarskjalavörður? Í raun lyktar málið allt af meðvirkni. Heilbrigt hefði verið að láta þar til bær yfirvöld kanna málið strax til hlítar og það hefði átt að vera gert að frumkvæði borgarmeirihlutans ef allt væri eðlilegt. Þeir sem tóku að sér að vísa málinu til þar til bærra yfirvalda að lokum voru oddvitar Miðflokks og Flokks fólksins. Enn er beðið eftir viðbrögðum þaðan.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. nóvember 2020, með tillögu að afstöðu Reykjavíkurborgar til efnis skýrslu AFL arkitekta, dags. 11. september 2020 um endurnýjun þjóðarleikvangs í knattspyrnu í Laugardal sem er send borgarráði til kynningar. R18040233
Samþykkt.Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð samþykkir þá afstöðu sem fram kemur í bréfi borgarstjóra og áréttar að sameiginleg forgangsröðun íþrótta- og tómstundaráðs og Íþróttabandalags Reykjavíkur sem staðfest var af borgarráði setur uppbyggingu í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í forgang. Þá er við hæfi undir þessum lið að óska íslenska landsliðinu í fótbolta góðs gengis í kvöld gegn Ungverjum í Búdapest – áfram Ísland!
Ómar Einarsson, Árni Geir Pálsson og Guðni Bergsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar endurskoðunarnefndar, dags. 3. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020. R20010018
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá að sjá reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur en rætt var um þessa reikninga á fundi endurskoðunarnefndar. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að reikningum sem þessum á ekki að þurfa að kalla eftir heldur eigi þeir að vera með sem fylgiskjöl fundargerða og birtir jafnhraðan og þeir eru gefnir út á vef borgarinnar. Hér er verið að kaupa vinnu frá óháðum aðilum sem buðu lægst í verkið. En hver hefur eftirlit með eftirlitinu? Fulltrúi Flokks fólksins er með fyrirspurn sinni um reikninga að leggja áherslu á gegnsæi en hefur engar forsendur til að véfengja þessa reikninga sem slíka. Sennilega er aðalatriðið, að heildarupphæðin sé í samræmi við samningana, sem vitnað er í á bls. 2 um þóknun ytri endurskoðenda. Ef frávik eru þar frá, „skulu aðilar semja sérstaklega...“ o.s.frv. eins og þar segir. Í bréfinu kemur fram að gengið hafi verið til samninga við Grant Thornton og aðalatriðið er að þeir samningar séu virtir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna funda nr. 14 og 15 hjá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20010005
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Er þetta allt gegnsæið sem Píratar lofsama – en bara stundum? Kolsvörtum skýrslum sem ekki þola dagsljósið er stungið undir stól. Formaður ráðsins er oddviti Pírata í borgarstjórn og er þetta alger áfellisdómur yfir störfum hennar. Þarna er verið að hylma yfir mikilvægum upplýsingum sem eru á stærðargráðu braggans – ef ekki stærri.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Reykjavíkurborg er á ákveðinni vegferð þegar kemur að því að stórbæta upplýsingatækniumhverfi borgarinnar. Í því samhengi hefur röð kynninga ratað á borð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs sem þjónustu- og nýsköpunarsvið heyrir undir. Um er að ræða rekstrargreiningu sem á engan hátt er óþægileg fyrir stjórnendur, þvert á móti. Greiningin var framkvæmd af frumkvæði stjórnenda með það fyrir augum að ná djúpum skilningi á þeim þáttum í rekstrinum sem unnt væri breyta með það fyrir augum að nýta fjármagn það sem notað er til reksturs upplýsingatækni á hagkvæmari hátt. Hér er því dæmi um aðgerð sem miðar að því að fara betur með fjármagn borgarinnar og draga úr sóun. Hér er á engan hátt verið að fela slæmt ástand heldur draga upp nauðsynlega heildarmynd af upplýsingatæknirekstri borgarinnar en Reykjavíkurborg rekur sem kunnugt er eitt stærsta, ef ekki stærsta, upplýsingatækniumhverfi landsins. Það er nákvæmlega ekkert athugavert eða tortryggilegt við að rekstur og fyrirkomulag við utanumhald þessara kerfa, verkaskiptingu og fleira sé stöðugt rýnt til gagns eins og hér er gert. Viðkomandi gögn eru trúnaðarmerkt þar sem þau innihalda viðkvæmar upplýsingar um upplýsingatækniinnviði Reykjavíkur sem varða öryggismál en eru einnig viðskiptalegs eðlis og geta haft áhrif á niðurstöður útboða vegna upplýsingatæknireksturs.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Oddviti Pírata í borgarstjórn segir ekki nema hálfan sannleika í þessu máli. Hvers vegna þessi leynd?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarráðsfulltrúar hafa aðgang að þessum gögnum sem þeir hafa beðið um í sérstöku gagnaherbergi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 13. febrúar fór fram trúnaðarmerkt kynning á niðurstöðum greiningar Capacent á rekstri upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar. Bókanir undir liðnum voru færðar í trúnaðarbók. Gögnin sem hér um ræðir eiga að sjálfsögðu ekki að vera trúnaðarmerkt. Hér er verið að fela slæmt ástand á sviði upplýsingatækniþjónustu, gögn sem eru óþægileg fyrir stjórnendur. Fulltrúi Flokks fólksins hlustaði á þessa kynningu og eru hvorki í þeim persónugreinanlegar upplýsingar eða annað viðkvæmt. Um er að ræða lýsingu á slæmu ástandi á upplýsingasviði borgarinnar.
Að leyna þessari greiningu Capacent vekur upp enn meiri tortryggni nú þegar búið er að reka nokkra tölvunarfræðinga og útvista verkefnum s.s. aðstoð við tölvuvinnu og viðhald tölvumála í borginni sem engin ástæða er að útvista. Þess er óskað að umrædd greining Capacent komi upp á borð.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Reykjavíkurborg er á ákveðinni vegferð þegar kemur að því að stórbæta upplýsingatækniumhverfi borgarinnar. Í því samhengi hefur röð kynninga ratað á borð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs sem þjónustu- og nýsköpunarsvið heyrir undir. Um er að ræða rekstrargreiningu sem á engan hátt er óþægileg fyrir stjórnendur, þvert á móti. Greiningin var framkvæmd af frumkvæði stjórnenda með það fyrir augum að ná djúpum skilningi á þeim þáttum í rekstrinum sem unnt væri breyta með það fyrir augum að nýta fjármagn það sem notað er til reksturs upplýsingatækni á hagkvæmari hátt. Hér er því dæmi um aðgerð sem miðar að því að fara betur með fjármagn borgarinnar og draga úr sóun. Hér er á engan hátt verið að fela slæmt ástand heldur draga upp nauðsynlega heildarmynd af upplýsingatæknirekstri borgarinnar en Reykjavíkurborg rekur sem kunnugt er eitt stærsta, ef ekki stærsta, upplýsingatækniumhverfi landsins. Það er nákvæmlega ekkert athugavert eða tortryggilegt við að rekstur og fyrirkomulag við utanumhald þessara kerfa, verkaskiptingu og fleira sé stöðugt rýnt til gagns eins og hér er gert. Viðkomandi gögn eru trúnaðarmerkt þar sem þau innihalda viðkvæmar upplýsingar um upplýsingatækniinnviði Reykjavíkur sem varða öryggismál en eru einnig viðskiptalegs eðlis og geta haft áhrif á niðurstöður útboða vegna upplýsingatæknireksturs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að fá öll gögn upp á borð. Allur feluleikur vekur tortryggni. Nú er verið að reka fólk af þjónustu- og nýsköpunarsviði og útvista verkefnum. Engar skýringar eru á þessu. Það er mikilvægt að fá greiningu Capacent fram í dagsljósið og þar með bókun Flokks fólksins sem verið hefur mánuðum saman í trúnaðarbók. Eiga þessi gögn aldrei að líta dagsins ljós?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarráðsfulltrúar hafa aðgang að þessum gögnum sem þeir hafa beðið um í sérstöku gagnaherbergi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Óskað er eftir að þau gögn sem hér um ræðir séu lögð fram fyrir augu almennings enda á almenningur rétt á því. Minnt er á gegnsæi sem meirihlutinn lofaði við upphaf kjörtímabils.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 2. nóvember 2020. R20010018
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. nóvember 2020. R20060037
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkur frá 6. og 9. nóvember 2020 ásamt trúnaðarmerktum fundarpunktum neyðarstjórnar frá 31. október og 2. og 4. nóvember. R20110027
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekki er svo sem mikið sem fram kemur í þessum fundargerðum. Best væri ef kjörnir fulltrúar sætu í neyðarstjórn, sætu fundina og fengu aðgang að upplýsingum og gögnum sem neyðarstjórn hefur og grundvallar ákvarðanir sínar á.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 11. nóvember 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 11. nóvember sl. var lagt fram til lokaafgreiðslu deiliskipulag Laugavegar og nærliggjandi gatna sem var samþykkt af meirihlutanum í borgarstjórn 20. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að bóka við málin í skipulags- og samgönguráði en var neitað um það með þeim rökum að ekki væri hefð að bóka við lokaafgreiðslu. Fyrir því eru mýmörg fordæmi. Vegna þess að mér var meinað að bóka við þessa liði í skipulags- og samgönguráði er það gert hér við framlagningu fundargerðarinnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins greiddi atkvæði gegn þessu deiliskipulagi í borgarstjórn. Ástæðan var hin neikvæða aðferðafræði skipulagsyfirvalda sem notuð var til að keyra áfram máli þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf með hagaðilum um hugmyndir um göngugötur og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Svikið var loforð um að opna aftur fyrir umferð eftir sumarlokun. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R20110031
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20110035
- Kl. 13:59 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum.
- Kl. 14:00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.
- Kl. 14:09 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.
- Kl. 14:16 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum.Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að fá kynningu á niðurstöðum allsherjarúttektar er samþykkt var þann 14. maí árið 2019 í skóla- og frístundaráði á næsta fundi borgarráðs (sjá slóð). Þar sem fulltrúar meirihlutans samþykktu breytingartillögu við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði um að ráðist verði í allsherjarúttekt á ástandi húsnæðis í öllum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar m.a. með tilliti til loftgæða, öryggis og almenns ástands viðkomandi fasteigna. R20110204
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar og fólk sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi býr í og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Miðað við myndir fjölmiðla þá er húsnæðið í mikilli niðurníðslu og víða má sjá myglu og rakaskemmdir. Í þessum fréttum er tekið fram að Reykjavíkurborg hafi ráðist í endurbætur á húsnæðinu sem lauk árið 2018. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir gögnum um ástand hússins eftir þær endurbætur sem farið var í 2018, hvort það var þá komið í veg fyrir rakaskemmdir og hvort loftgæðamælingar sýndu að loftgæði í húsnæðinu væru það góð að það hentaði til búsetu. Hefur ástand húsnæðisins verið skoðað eftir að ráðist var í endurbætur árið 2018? R20110205
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að farið verði í úttekt m.a. með tilliti til loftgæða, öryggis og almenns ástands viðkomandi fasteigna í eigu Reykjavíkurborgar og fólk sem sækir um alþjóðlega vernd býr í. R20110207
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir minnisblaði frá Orkuveitu Reykjavíkur með nákvæmri tímalínu um þá ákvörðun að tæma Árbæjarlón endanlega, tæmandi talið. R20110208
Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir að borgarráð fái öll gögn sem eru fyrirliggjandi hjá Reykjavíkurborg um rekstur Vistheimilisins í Arnarholti, hvort sem það eru fundargerðir, skýrslur, minnisblöð, vitnaleiðslur eða úttektir tæmandi talið. Óskað er eftir öllum gögnum frá opnun heimilsins 1945 þar til því var lokað og starfsemin flutt á Borgarspítalann. R20110211Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða. Tillaga um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð er lögð fram í borgarráði, Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúaráðin hljóti að vera komin til að vera. Þau hafa mikilvægu hlutverki að gegna og ekki síst að vera tengiliður borgarbúa og stjórnkerfis. Kynna þarf rækilega að fundir íbúaráða eiga að vera opnir borgarbúum, um leið og COVID ástandinu lýkur. Óskað er eftir upplýsingum um hversu mikinn áhuga borgarbúar hafa á fundum íbúaráðanna. R19100342
Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Síðasti bærinn í dalnum er fyrsta leikna kvikmynd Óskars Gíslasonar. Hún var tekin upp á Tannastöðum í Ölfusi, í Kershelli og í Kjósinni og var frumsýnd árið 1950. Jórunn Viðar samdi tónlistina við myndina og var það fyrsta kvikmyndatónlist sem samin var á Íslandi við mynd í fullri lengd. Fyrir fáum árum var myndin endurgerð með stafrænum hætti svo nú er hún til þannig. Fulltrúi Flokks fólksins leggur það til að myndin verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg. Útfærslan og framkvæmd leggur fulltrúi Flokks fólksins til að sé í höndum menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur og Kvikmyndasafnsins. Gera þarf samkomulag við Kvikmyndasafnið sem á sýningaréttinn. Þetta er merkileg mynd fyrir margar sakir og söguleg og ástæða er að kynna leikstjórann og höfund myndarinnar um leið og sýning myndarinnar yrði. R20110198
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur frétt að búið sé að segja upp nokkrum tölvunarfræðingum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Frést hefur að útvista eigi verkefnum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað er meint með því að útvista þessum verkefnum. Áhyggjur eru af þessu sviði og hvernig farið er með starfsmenn þess. Á velferðarráðsfundi frá því í sumar voru birtar niðurstöður könnunar um einelti. Samkvæmt henni hefur vanlíðan í starfi farið vaxandi. Lagðar voru fram niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna á fundi velferðarráðs 25. maí 2020. Spurt var um hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutala þess þáttar hafði hækkað og verst komu niðurstöður út hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður. Kominn er e.t.v. tími til að innri endurskoðun taki út sviðið. Uppsagnir og útvistun verkefna er merki þess að ekki er allt með felldu. Með hverri útvistun tapast sérþekking hjá borginni. Með útvistun missir borgin bæði yfirsýn og stjórnkerfið missir mátt. Í borginni voru starfandi sérfræðingar á sviðinu sem hægt var að leita til, en nú hefur mörgum verið sagt upp og verkum útvistað. R20110200
Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýlega kom út skýrsla stýrihóps um þjónustu við gæludýraeigendur. Í skýrslunni kemur fram að samþykkt er að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur, DÝR, og skila nákvæmum tillögum að verkaskiptingu ásamt innleiðingaráætlun, sem byggir á skýrslu stýrihóps um þjónustu borgarinnar við gæludýr og þeim tillögum sem þar er að finna. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvort aðilum frá hagsmunasamtökum, t.d. Félagi ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands, verði boðið sæti í hópnum. Í sameiginlegri umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um skýrslu stýrihópsins er ítarlega farið yfir hvaða þættir eru jákvæðir í tillögunum og hvaða tillögur eru gagnrýnisverðar, óréttmætar og jafnvel ólöglegar. Í ljósi þess að ábendingar Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um hvað betur megi fara er afar mikilvægt að aðili frá samtökunum sitji í starfshópnum. Í gegnum tíðina hafa Félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands haldið uppi gagnrýni á núverandi fyrirkomulag hundamálefna hjá Reykjavíkurborg. Gagnrýnin hefur beinst ekki síst að innheimtu árlegra eftirlitsgjalda, án þess að slíkt eftirlit væri virkt. Dregið er í efa að innheimta gjaldsins sé lögmæt. Skoða þarf vandlega þessa hluti og einnig hvort teljist réttlætanlegt að innheimta skráningargjald aðeins af hundaeigendum þannig að hundaeigendur einir haldi uppi öllum kostnaði við DÝR (gæludýraeftirlit). R20110201
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í átak að hvetja til þess að hvert einasta barn sem á rétt á frístundakorti finni sér íþrótt/tómstund til að nýta kortið. Notuð verði aðferðin „maður á mann samtal“ og ekki hætt fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum. Aðlaga þarf reglur um nýtingu samhliða þannig að losað verði um þær hindranir sem leitt hafa til slakrar nýtingar. Slök nýting frístundakortsins er á ábyrgð borgaryfirvalda og því er þeirra að sjá til þess að hún verði aukin svo fullnægjandi sé. Starfshópur hefur nýlega skilað af sér tillögum sem því miður ganga allt of skammt. Enn á að heimila að frístundakortið sé tekið upp í gjald frístundaheimilis sem efnaminni foreldrar eru oft tilneyddir til að gera í stað þess að fá sérstakan hjálparstyrk til að greiða frístundaheimili. Flest öll börn eru í frístundadvöl af nauðsyn. Markmið með frístundakorti ætti að vera að öll börn finni eitthvað við hæfi til að nýta þennan styrk. Áhyggjuefni er að þátttakan er minnst í 16-18 ára aldurshópnum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20110202
Frestað.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í svari frá stjórn Strætó við fyrirspurn Flokks fólksins um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma kom fram að þeir sjá sjálfir um lögboðin námskeið atvinnubílstjóra fyrir sína starfsmenn. Hver hefur eftirlit með því að kennslan sé samkvæmt námsskrá? Er námsskrá þessara endurmenntunarnámskeiða yfirfarin af löggildum aðilum? Eru þessi námskeið í samræmi við það hvernig námsskrá og kröfur Evrópusambandsins eru um námskeið fyrir atvinnubílstjóra? R20110203
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.
Fundi slitið klukkan 14:17
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1211.pdf