No translated content text
Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 15. október, var haldinn 5603. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 09:05. Eftirtaldir borgarfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Skúli Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á stöðu mála vegna COVID-19. R20030002
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarráðs vill nota tækifærið og þakka embættum sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra og landlæknis fyrir yfirgripsmikla umfjöllun um COVID-19 faraldurinn. Góð upplýsingagjöf hefur skipt sköpun þegar kemur að trausti almennings á viðbrögðum stjórnvalda. Embættin hafa öll staðið í ströngu á árinu og útlit fyrir að svo verði áfram. Þá hefur samstarf borgarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við almannavarnayfirvöld verið afar gott. Sjálfstraust og æðruleysi á tímum sem þessum skiptir miklu máli og við höfum engu að kvíða ef okkur lánast að standa saman áfram um sóttvarnaaðgerðir yfirvalda. Um leið er mikilvægt að ríkisvaldið gefi rekstraraðilum sem kvíða vetrinum skýr skilaboð um að staðið sé með þeim.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka embættum sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra og landlæknis, þríeykinu, fyrir yfirgripsmikla umfjöllun um COVID-19 faraldurinn. Góð upplýsingagjöf skiptir sköpum þegar kemur að trausti almennings á viðbrögðum stjórnvalda. Embættin hafa öll staðið í ströngu á árinu og útlit er fyrir að svo verði áfram.
Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Þór Elís Pálsson og Örn Þórðarson ásamt fulltrúum í neyðarstjórn Reykjavíkurborgar; Árnýju Sigurðardóttur, Bjarna Brynjólfssyni, Dagnýju Ingadóttur, Halldóru Káradóttur, Helga Grímssyni, Jóni Viðari Matthíassyni, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, Lóu Birnu Birgisdóttur, Óskari Sandholt, Ómari Einarssyni og Regínu Ásvaldsdóttur.
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. október 2020, sbr. framlagningu á fundi skipulags- og samgönguráðs 7. október 2020 á drögum að tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með uppfærðu skipulagi er verið að skerpa á sýn borgarinnar til ársins 2040. Borgarlína er fest í sessi ásamt lykilstöðvum hennar. Ábyrgðarhlutverk borgarinnar í loftslagsmálum er mikið og með breytingu á aðalskipulagi eru stór skref stigin í átt að sjálfbærni, kolefnishlutleysi og bættum lífsgæðum fyrir borgarbúa. Stutt er við markmið Parísarsáttmálans. Reykjavík verður áfram í forystu þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu og stefnt er að uppbyggingu um 1000 íbúða á ári. Nýir og spennandi uppbyggingarreitir eru settir fram sem mikilvægt er að fylgt verði eftir. Sett eru viðmið um gæði íbúðabyggðar og almenningsrýma en jafnframt stigin skref í átt til einföldunar ferla og meiri sveigjanleika. Þá er stefna um íbúðabyggð samtvinnuð húsnæðisstefnu sem hefur það að markmiði að tryggja fjölbreytta byggð fyrir alla.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í drögum að tillögu um breytingar á aðalskipulagi, „Nýr viðauki“, skortir á að nægt framboð af hagstæðu byggingarlandi sé tryggt. Uppsafnaður skortur á íbúðum fer vaxandi miðað við nýjustu upplýsingar Samtaka iðnaðarins og er nauðsynlegt að borgin bjóði upp á fjölbreytta og hagkvæma valkosti. Í því sambandi væri nærtækt að heimila uppbyggingu á Keldum innan fimm ára, eða frá 2025. Þá er jafnframt mikið tækifæri í að heimila íbúðir í Örfirisey þar sem þjónusta og verslun er þegar til staðar. Ekki er vikið að því að starfsemi olíubirgðastöðvar á að minnka um helming fyrir 2025. Þá er ekki mælt fyrir íbúðum við BSÍ-reit sem þó er í hugmyndasamkeppni. Skortur á hagstæðu byggingarlandi mun áfram leiða til verðhækkana á húsnæði í Reykjavík og gera ungu fólki og fyrstu kaupendum erfitt fyrir að velja borgina sem búsetukost. Í tillögunni er gert ráð fyrir yfir 4.000 íbúðum á flugvallarsvæðinu, en óraunhæft er að gera ráð fyrir þeim á skipulagstímabilinu. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Sú leið að hafa starfsemiskvóta án heimilda til sveigjanleika takmarkar notkunarmöguleika atvinnuhúsnæðis, ekki síst á jarðhæðum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verið er að framlengja skipulagstímabilið til 2040. Er það gert með viðauka við gildandi skipulag. Margt er jákvætt í þessum tillögum en annað ekki. Ekki er minnst á Sundabraut í tillögunum. Eins virðist það afdráttarlaus stefna að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni þrátt fyrir að ekki er komin niðurstaða starfshóps um könnun á flugvallarkosti í Hvassahrauni. Gengið er mjög á græn svæði. Athyglisvert verður að sjá viðbrögð almennings og hagsmunaaðila við þessum tillögum að kynningu lokinni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eitt stærsta málið er að leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“. Búið er að kynna fyrir skipulagsyfirvöldum að önnur leið er mun betri og það er sú leið að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/ Vatnsendahvarf-götuna. Þar með yrði Vatnsendahvarfinu og hæðinni þyrmt. Í þessa útfærslu treysta skipulagsyfirvöld sér ekki því Vegagerðin og bæjarstjórn Kópavogs segja „nei“. Að öðru, áhyggjur eru af fækkun bílastæða í miðborginni. Borgarlína er enn talsvert inni í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt verði þétt í kringum hana. Með því að fækka bílastæðum svo mikið er sýnilega verið að þrýsta fólki í borgarlínu. Bílastæðin verða farin löngu áður en borgarlína kemur og ekki er séð annað en það muni valda vandræðum. Skipulagsyfirvöld virðast ekki hafa mikinn áhuga á að flýta orkuskiptum. Ekki er minnst á vistvænan, innlendan orkugjafa, metan, sem gnótt er af, svo mikið að honum þarf að brenna. Síðast en ekki síst þarf að fjölga atvinnutækifærum til muna í öllum hverfum.
Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. október 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 7. október 2020 á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46, ásamt fylgiskjölum. R20060270
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Auka þarf á sveigjanleika í notkunarheimildum húsnæðis. Hætta er á ef ekki er sveigjanleiki í kerfinu að húsnæði nýtist illa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Málefni Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hafa verið til umræðu lengi ekki síst vegna athugasemda og gagnrýni íbúa svæðisins. Kvartað hefur verið undan málsmeðferð en skipulagsyfirvöld taka ekki undir það. Andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigendur fengu aukafrest til að skila athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld telji að vel hafi verið tekið í ábendingar og athugasemdir íbúa hverfisins og hvort þeim hafi verið mætt eins og framast er unnt. En vonandi hefur náðst aðeins meiri sátt í málinu með þeim breytingum sem gerðar verða frá upphaflegu skipulagi/tillögum.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurbætur á Ásmundarsafni. R20100112
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við stígagerð við Rauðavatn, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 140 m.kr. R20100117
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Verkið felst í því að gera nýja göngu- og hjólastíga sunnan og austan við Rauðavatn. Stígarnir verða upplýstir með snjalllýsingarbúnaði m.t.t. orkusparnaðar og öryggis. Stígagerðin er í samræmi við samþykkt deiliskipulag af svæðinu. Verkið er hluti af áætlun um að flýta fjárfestingarverkefnum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að veita viðspyrnu við atvinnuleysi af völdum COVID-19.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. október 2020, þar sem ný gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík er send borgarráði til staðfestingar, ásamt fylgiskjölum. R19010204
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögð er fram tillaga meirihlutans að nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. Sumt í henni er nokkuð undarlegt. Sem dæmi, hvaða máli skiptir hvernig bíll snýr þegar honum hefur verið lagt og er því kyrrstæður? Og einnig, af hverju að sekta fyrir að leggja eigin bíl fyrir framan eigin innkeyrslu? Ekki ætti að sekta fyrir slíkt enda hvorki um óhagræði eða tjón að ræða. Ef þetta er bannað verður bíleigandinn að leggja í almennt götustæði (á lóð borgarinnar). Skiljanlegt er að tryggja aðkeyrslu að sérafnotastæðum. En það er samt sem engin ástæða til að vera með of stífar reglur í svona málum, heilbrigð skynsemi dugar. Fulltrúi Flokks fólksins telur jafnframt að vel mætti skoða að gefa ríflegri afslætti ef sektin er greidd t.d. innan sólarhrings. Með því er verið að hvetja þá sem fá sekt til að ganga strax í málið og greiða hana. Sjálfsagt er að gefa þeim sem brjóta umferðarlög kost á að lækka upphæð sektarinnar með þessum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Hér er aðeins verið að formgera heimildir sem voru færðar yfir til bílastæðasjóðs í nýsamþykktum umferðarlögum.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á gjalddögum eftirstöðva byggingarréttar vegna lóðarinnar Jöfursbás 11 í Gufunesi. R19050044
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkur ítrekar mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt milli aðila á byggingamarkaði. Áfangaskiptar greiðslur fyrir byggingarrétt eru jákvæðar, en byggingaraðilar verða að eiga jafnan aðgang að slíkum úrræðum. Auka þarf sveigjanleika og einfalda ferla innan borgarkerfisins svo tryggja megi vænlegri skilyrði til uppbyggingar og verðmætasköpunar í borginni. Hins vegar er umdeilanlegt að borginni sé heimilt að veita vaxtalaus lán til ákveðinna aðila. Enn er beðið eftir minnisblaði borgarlögmanns um reglur borgarinnar vegna seljendalána sem óskað var eftir í borgarráði.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Rökkvatjarnar 10-16. R20090050
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Silfratjarnar 5-9. R20080087
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Silfratjarnar 11-15. R20080064
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. október 2020, ásamt fylgiskjölum:
Vísað er til erindis mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags 7. júlí 2020, varðandi þátttöku Reykjavíkurborgar varðandi kostnað við framkvæmdir í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík. Lagt er til að borgarráð taki jákvætt í erindið með vísan til eldri viljayfirlýsinga og samþykki að ganga til viðræðna við ráðuneytið um þátttöku í verkefninu á grundvelli minnisblaðs borgarlögmanns dags. 23. september 2020. Ljóst er að greina þarf á milli nýframkvæmda og eiginlegs stofnkostnaðar annars vegar og endurgerðar eldra húsnæðis sem fellur undir viðhald hins vegar. Sömu sjónarmið eiga við varðandi endurnýjun á búnaði. Semja þarf um hver greiðsluþátttaka er, hvernig greiðslur dreifist miðað við framvindu og hvernig haldið skuli á kostnaðarfrávikum og framkvæmdaáhættu. R18080093
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að ganga til viðræðna við ráðuneytið um þátttöku í verkefninu á grundvelli minnisblaðs borgarlögmanns. Ljóst er að greina þarf á milli nýframkvæmda og eiginlegs stofnkostnaðar annars vegar og endurgerðar eldra húsnæðis sem fellur undir viðhald hins vegar.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um breytingar á fundadagatali borgarráðs vegna meðferðar fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar Reykjavíkur. Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu á dagskrá:
Lagt er til að gerðar verði breytingar á fundadagatali borgarráðs þannig að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 og fimm ára áætlun verði lagðar fram í borgarráði 19. og 20. nóvember, vísað til aukafundar borgarstjórnar 24. nóvember og að síðari umræða fari fram á fundi borgarstjórnar 15. desember nk. með fyrirvara um samþykki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. R18080150
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. október 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna október, nóvember og desember 2020 vegna COVID-19. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestað verður að uppfylltum skilyrðum 15. janúar 2022 enda sýni leigutakar fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20030260
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að samþykkja framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna október, nóvember og desember 2020 í ljósi tekjufalls vegna COVID-19. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestað verður að uppfylltum skilyrðum 15. janúar 2022 enda sýni leigutakar fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum út árið, vegna COVID-19, að uppfylltum skilyrðum ef leigutakar sýni fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ef horft er til þess fjölda sem nýtti sér sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní“. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma til móts við fleiri. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekkert. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Þetta eru of harðar kröfur.
Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. október 2020, varðandi leigu á húsnæði að Grandagarði 1b, ásamt fylgiskjölum. R20100105
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. september 2020, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning vegna Hraunbæjar 115, ásamt fylgiskjölum. R20090260
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. október 2020, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki leigusamning vegna Hólmgarðs 34, ásamt fylgiskjölum. R20100104
Samþykkt.Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 12. október 2020, þar sem tillögur að styrkjum til íþróttafélaga vegna COVID-19 eru sendar borgarráði til staðfestingar. R20090071
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að styrkja íþrótta- og æskulýðsfélög um 80 m.kr. í viðspyrnu vegna COVID-19. Jafnframt renna 55 m.kr. til íþróttahreyfingarinnar vegna viðhaldskostnaðar íþrótta- og æskulýðsfélaga af sömu ástæðum.
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 13/2020. R17120019
-
Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 10. október 2020, um málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. R20070121
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12. október 2020, um erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug, ásamt fylgiskjölum. R12100372
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur svarað bréfi Reykjavíkurborgar, dags 8. júlí sl., varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug. Þar vísar ráðuneytið til yfirstandandi rannsóknar á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Minnir ráðuneytið á að það sé skýr sameiginlegur vilji aðila að stefna að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan völl í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur, þ.m.t. það æfinga-, kennslu- og einkaflug sem þar fer fram í dag. Því er ljóst að ráðuneytið stefnir að flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs af Reykjavíkurflugvelli í Hvassahraun. Reynist Hvassahraun ekki vænlegur kostur segist ráðuneytið munu kanna aðra möguleika og standa þannig við samningsskuldbindingar ríkisins frá 25. október 2013.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Kjarni málsins er skýr. Í bréfi samgönguráðherra segir orðrétt að það sé „augljóslega ótímabært og andstætt markmiðum samkomulagsins að fjárfesta í flutningi kennslu- og einkaflugs frá Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á meðan rannsóknir standa yfir.“
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Kjarni málsins er frekar sá að samgönguráðuneytið svarar spurningu um hvert eigi að flytja æfinga-, kennslu- og einkaflug með því að vísa til Hvassahrauns og vill að niðurstöður veðurathugana sem standa yfir í vetur liggi fyrir, áður en formlegar ákvarðanir eru teknar. Það er eðlilegt og mikilvægt að nú liggi skýr stefna í málinu fyrir.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjóri leggur hér fram matreitt minnisblað til að túlka svarbréf samgönguráðherra til borgarinnar varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug. Tilvist þessa bréfs sprettur af magalendingu borgarstjóra frá því fyrr í sumar þar sem hann rauk í það að senda ráðherra bréf og krafðist þess að án tafar yrði fundinn nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug í stað Reykjavíkurflugvallar. Borgarstjóri taldi að framkvæmdirnar kæmu sér vel vegna erfiðleika í efnahagslífinu. Þarna endalega sannaðist að borgarstjóri er ekki á sömu blaðsíðu og meginþorri landsmanna. Samgönguráðherra henti grín að borgarstjóra og sagði í fjölmiðlum að þetta verkefni væri nú ekki í forgangi í erfiðu árferði ríkisins. Í bréfi ráðherra til borgarinnar er áréttað að samkvæmt samkomulagi hafi Reykjavíkurborg skuldbundið sig að tryggja undir öllum kringumstæðum nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og að ekki yrði farið í frekari styttingar eða lokanir á brautum. Nokkurn pirring má lesa úr bréfinu og endar svona: „Er þess óskað að Reykjavíkurborg upplýsi um efni og stöðu þeirra skipulagsbreytinga.“ Borgarstjóri virðist hafa sent bréf/gögn til ráðherra og er hér formlega óskað eftir að borgarráð fá send þau gögn sem borgarstjóri hefur sent samgönguráðherra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Erindi borgarstjóra til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug hefur verið svarað af ráðuneytinu. Ekkert er nýtt. Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að það sé skýr sameiginlegur vilji aðila að stefna að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan völl í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur, þ.m.t. það æfinga-, kennslu- og einkaflug sem þar fer fram í dag. Því er ljóst að ráðuneytið stefnir að flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs af Reykjavíkurflugvelli í Hvassahraun, sbr. framan skráð. Þetta er alltaf sama spurningin, reynist Hvassahraun vænlegur kostur? Eða ekki? Ef Hvassahraun reynist ekki vænlegur kostur segist ráðuneytið munu kanna aðra möguleika. Þurfti einhver bréfaskipti til að fá þessa niðurstöðu? Málið er að það er ekki vitað hvort Hvassahraun reynist vænlegur kostur og það verður ekki vitað í bráð. Komi til að það verði að leita að öðrum stað bætast við önnur 20 ár sem flugvöllurinn verður í Vatnsmýrinni. Margir munu fagna því en aðrir ekki. Þetta er staðan og hún verður svona um langan tíma.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tímabundin stuðning félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl 2020. R20040072
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Fyrirspurnin laut að heimilislausu fólki almennt séð, barnafjölskyldum, öryrkjum og eldri borgurum sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Lengi vel var þessu fólki ekki vel sinnt og öll þekkjum við dæmi þess að fólk var nánast á götunni og sérstaklega þeir sem glíma við veikindi af ýmsum toga, karlar jafnt sem konur. Það sem er leitt í öllu þessu er hvað margir hafa þurft að búa við óvissu um eina af helstu grunnþörfum sínum, það að eiga heimili, og allt er þetta á vakt þessa meirihluta sem nú ríkir. Margt stendur vissulega til bóta og það ekki síst vegna aukinnar aðkomu ríkisins að þessum málum. Það sem er kannski mest sláandi er að ef kórónuveiran hafi ekki bankað upp á þá væru þessi mál sennilega enn í miklum ólestri hjá þessum meirihluta. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi málaflokkur og fólk yfir höfuð ekki hafa verið í miklum forgangi hjá Samfylkingu og VG í borgarstjórn sem þó gefa sig út fyrir að vera flokkar sem leggja áherslu á jöfnuð. En fortíðinni verður ekki breytt, en vonandi bætir meirihlutinn sig í þjónustu við fólkið það sem af er þessu kjörtímabili.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fjölda korthafa vegna aðgangs að Vinnustofu Kjarvals, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020. R20060111
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ráðgjafafyrirtækið Strategíu, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. apríl 2020. R20040011
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Athyglisvert. Allt í einu poppar upp fyrirtæki eftir kosningar sem ekki hafði komið að neinum verkefnum fyrir Reykjavíkurborg áður og fær rífleg verkefni og þau mörg. Hvað breyttist eftir kosningar? Jú, nýjum flokki var bætt inn í viðreistan meirihluta. Fyrirtækið hefur hvorki meira né minna en fengið 9 verkefni hjá Reykjavíkurborg og B-hluta fyrirtækjum hennar og fengið greitt fyrir tæpar 20 milljónir. Auk þess er fyrirtækið búið að „landa“ einu verkefni hjá Samtökum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sem ekki enn sér fyrir endann á og hefur fengið greitt fyrir tæpar 8 milljónir. Hvernig er sífellt hægt að bæta stólum og sérfræðingum við skrifborð í stjórnsýslunni með tilheyrandi kostnaði án þess að gera í leiðinni kröfu um aukin afköst? Það er orðið rannsóknarefni hvað keypt er af sérfræðiþjónustu út í bæ – bæði hjá borginni, B-hluta fyrirtækjum og SSH. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til þessara verka en ekki ráðgjafafyrirtæki.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ráðgjafafyrirtækið Strategía hefur fengið rúmar 28 milljónir fyrir vinnu við endurskoðun og innleiðingu á skipuriti Reykjavíkurborgar og til að skoða mögulegar breytingar á almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar m.a. í ljósi þess að eigendur hafa litla sem enga aðkomu að ákvörðunum og virkni eigenda því engin. Byggðasamlög eru ólýðræðisleg. Haldnir voru þrír fundir og tók fulltrúi Flokks fólksins þátt í þeim öllum. Meðal hugmynda sem fulltrúi Flokks fólksins lagði til var að fjölga fulltrúum í stjórn í hlutfalli við kjósendur og veita fulltrúa frá minnihlutum í sveitarstjórnum aðkomu að stjórn sem hefðu atkvæðarétt. Í lok ferilsins voru lagðar á borðið sviðsmyndir sem Reykjavíkurborg hefur ekki tekið afstöðu til. Sameining sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins virðist ekki á döfinni í náinni framtíð og því er brýnt að skoða aðrar leiðir til að draga úr lýðræðishalla byggðasamlaga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig Reykjavíkurborg gagnaðist því þessi vinna. Hún er alla vega ekki að skila sér í neinar alvöru breytingar. Til hvers að kaupa dýra sérfræðivinnu ef ekki á síðan að nýta hana til alvöru breytinga?
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um þá ákvörðun að minnka götulýsingu, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019. R19110388
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Auðvitað er verið að draga úr götulýsingu um 30 LUX þegar ákveðið er að kveikja og slökkva við 20 LUX í stað þess að hafa lýsinguna 50 LUX. Hvaða orðhengilsháttur er þetta? Þessi fyrirspurn er tæplega árs gömul og er það gagnrýnt. Reykjavíkurborg er dimm og ekki nógu vel lýst. Það er stórfurðulegt þegar borgin á heilt orkufyrirtæki. Í lélegri götulýsingu verða frekar slys og eru þar gangandi og hjólandi í mun meiri hættu en þegar allt er vel upplýst. Það er vitað að glæpir þrífast í skjóli nætur og myrkurs. Að tala um „náttúrulega birtu“ á Íslandi yfir vetrartímann og að götulýsing við 50 LUX bæti ekki birtuskilyrði er fáránleg fullyrðing og sýnir algjört skilningsleysi á öryggi borgaranna. Vísað er til borga á Norðurlöndunum og í Evrópu til rökstuðnings þess að lýsing var minnkuð í borginni. Okkur kemur ekki við hvað aðrar borgir gera. Okkar hlutverk er að tryggja öryggi, fækka slysum og ofbeldisverkum með góðri lýsingu.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stefnu Reykjavíkurborgar um útboð á grunnþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. september 2020. R20090198
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér kemur fram að Reykjavíkurborg hefur ekki markað sér stefnu varðandi hversu mikið magn grunnþjónustu megi bjóða út, hvorki hjá Reykjavíkurborg sjálfri né fyrirtækjum í hennar eigu. Stefna Sósíalistaflokks Íslands varðandi þessi mál er að útvistun starfa á vegum hins opinbera verði hætt. Koma þarf í veg fyrir að sveitarfélög útvisti tilteknum starfssviðum (t.d. þrifum og mötuneyti) innan vinnustaða sinna og ráði þess í stað starfsfólk til langtíma, sem sinni þessum störfum á sömu kjörum og með sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn. Fulltrúi sósíalista bendir á í þessu samhengi að það er vitað mál að útvistun getur leitt til þess að starfsfólk sem vinni fyrir eitt fyrirtæki, komi frá ólíkum fyrirtækjum og séu því með mismunandi kjör. Slíkt er ekki líklegt til þess að skapa góða starfsheild þar sem allt starfsfólk sem vinnur að sömu markmiðum ætti að vera með sömu réttindi og kjör. Reykjavíkurborg verður að vinna að því og marka sér stefnu um þessi mál. Þá eru ýmsar aðrar flækjur sem geta komið fram varðandi útboð sem verður að ávarpa og þess vegna er mikilvægt að borgin marki sér stefnu um þessi mál. Fulltrúi sósíalista ítrekar afstöðu sína gegn útvistun á grunnþjónustu sveitarfélaganna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar velferðarsviðs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklagsreglur vegna vanskila foreldra eða forsjáraðila, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. R20080154
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Verklagsreglur borgarinnar vegna vanskila foreldra/forsjármanna varðandi þjónustu við börn miða að því að tryggja að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra. Í verklagsreglum kemur fram að forsenda þess að uppsögn sé frestað er að skuldari panti viðtal hjá félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð. Skuldari fær staðfestingu um viðtalsbókun hjá þjónustumiðstöð til þess að virkja frest á uppsögn hjá innheimtustjóra. Á viðtalsdegi lætur félagsráðgjafi innheimtustjóra vita ef skuldari hefur mætt í bókað viðtal og undirritað upplýst samþykki fyrir samstarfi velferðarsviðs og skóla- og frístundsviðs um aðstoð honum til handa. Mæti skuldari ekki í viðtalið virkjast uppsögnin aftur. Fyrirspurnin snéri að því hvort foreldri/forsjármaður gæti óskað eftir viðtali utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Svo er og það er gott en mætti væri sýnilegt í verklagsreglum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úthlutun lóða við Stekkjarbakka Þ73, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020. R19010136
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að ekki var farið eftir þeirri meginreglu borgarinnar að auglýsa allar eignir. Athygli vekur að í svarinu er stuðst við verklagsreglur skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) sem hætti starfsemi fyrir meira en ári síðan. Óljósar reglur valda tortryggni og hamla samkeppni.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ráðstöfun endurgreiðslu oftekins vatnsgjalds í viðhald skólabygginga, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. október 2020. R19070054
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á árinu 2019 var 1.208.699.616 kr. varið í viðhald grunnskóla í Reykjavík en áætluð framlög vegna viðhalds grunnskóla á árinu 2020 nema 1.384.149.527 kr. Endurgreiðsla oftekins vatnsgjalds nemur 33 milljónum króna og myndi því skipta talsverðu máli í viðhaldi á grunnskólum borgarinnar. Þá er ofteknu vatnsgjaldi ekki markaður tekjustofn í bókhaldi sveitarfélaga og ekki sjálfbært að eyrnamerkja það til einstakra verkefna innan borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 28. september 2020. R20010020
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Tillaga Flokks fólksins um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni er lögð fram í fjölmenningarráði. Það sem snýr ekki síst að borginni er sá veruleiki, vitneskja og meðvitund að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er í Reykjavík og illa aðgengilegur þeim sem eru fátækir því frekar aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu og þá oft hættulegu húsnæði. Fram kemur í fundargerð fjölmenningarráðs að umsögn hafi verið lögð fram en hún fylgir ekki með og hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki getað fundið hana. Ætla má að um sé að ræða svipaða umsögn og lögð var fram í mannréttindaráði. Í niðurlagi þeirrar umsagnar segir: „Í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi er lagt til að komið verði á skráningarskyldu um leigusamninga og leiguverð til að hafa eftirlit með markaðinum og í ljósi þess er ekki fyrirséð að átak á vettvangi Reykjavíkurborgar myndi duga til að bæta aðstæður þar sem vandinn er að miklu leyti vöntun á lagalegum heimildum.“ Fulltrúa Flokks fólksins finnst leitt að sjá að eftirlitsheimildir eru ekki nægar, en jákvætt að sjá að vinna er í gangi sem m.a. felur í sér endurskoðun á núverandi verkferlum og regluverki.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 1. október 2020. R20060037
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 5. október 2020. R20010025
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Undir lið 6 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts fer fram umræða um málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á mál Arnarnesvegar. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli á því í íbúaráði Breiðholts en ekki tekist. Fulltrúi Flokks fólksins vill gera alvarlega athugasemd við ummæli formanns íbúaráðs Breiðholts á samfélagsmiðlum þar sem hún tjáir sig, sem formaður ráðsins, og segir að komin sé „lending í Arnarnesveginn“. Það er miður að formaður álykti með þessum hætti um háalvarlegt og viðkvæmt mál án þess að það hafi verið rætt í íbúaráðinu. Sú leið sem skipulagsyfirvöld kynntu á fundi 14. október er fyrir fjölda manns með öllu óásættanlegt, enda framkvæmd sem mun skemma afar dýrmætt grænt svæði. Hraðbraut sem koma skal verður þétt við fyrirhugaðan Vetrargarð og mun gjörbreyta umhverfinu. Umferð 15.000-20.000 bifreiða, sem að mestu verða frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Það er miður ef íbúaráð undir forystu formannsins sem er kosinn af meirihlutanum sé fátt annað en framlenging yfirvalda og álykti án umræðu og samtals við aðra í ráðinu. Óskað hefur verið eftir að ráðið ræði þetta mál, alla fleti þess, af fagmennsku enda hér um að ræða ásýnd og notagildi eins besta útsýnisstaðar borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 7. og 14. október 2020. R20010008
B-hlutar fundargerðanna eru samþykktir.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 14. október.
Nokkrar útfærslur hafa verið gerðar af þessum gatnamótum en úrbætur á þeim eru hluti af samgöngusáttmálanum. Eingöngu ein útfærsla er kynnt og einhverra hluta vegna er trúnaður yfir öðrum útfærslum þessara gatnamóta án þess að fyrir því séu nokkur rök.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 14. október:
Þeirri uppbyggingu sem hér er kynnt er fagnað en borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir miklum áhyggjum af því andvaraleysi sem virðist ríkja gagnvart olíutönkunum í Örfirisey. Þeir eru tifandi tímasprengja. Sífellt er verið að færa byggðina nær tönkunum/hættusvæðinu og öllum má vera ljóst hvað gerist ef eldur verður laus og/eða eitthvert óhapp verður sem leiðir til þess að tankarnir springa í loft upp. Í leiðinni er rétt að geta þess að sömu áhyggjum er lýst yfir vegna gríðarlegra olíuflutninga frá svæðinu á þröngum götum Reykjavíkur og þá sérstaklega í gegnum þrönga Geirsgötu og sífellt er verið að þrengja götur og aðgengi bíla í gegnum miðbæinn. Það er látið eins og þessi hætta sé ekki til staðar og hún er aldrei rædd. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi en varpar ljósi á að rýmingaráætlun fyrir Reykjavík vestan Elliðaáa er í algjöru skötulíki.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 7. október og 1. lið fundargerðarinnar frá 14. október:
7. okt. Viðhorfið sem birtist í könnun Maskínu endurspeglar greinilega ekki viðhorf fólks sem er miður. Kynningin gefur þá mynd að allir séu í raun glaðir yfir ástandinu í bænum. Það vita það allir sem vilja hvernig komið er fyrir Laugavegi. Nú nýlega steig rekstraraðili Máls og menningar fram og sagði reksturinn erfiðan áður en COVID skall á. Sölutölurnar fylgdu lokunum gatna. Fulltrúi Flokks fólksins verður að vera hreinskilin í þessu sambandi og segja að í ljósi alls þessa eru niðurstöður ekki trúverðugar eða í það minnsta gefur kynningin ranga mynd.
14. okt. Skipulagsyfirvöld hafa setið á kynningarglærum um lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið eins og ormur á gulli. Teikningar sýna takmarkað hvernig þetta mun líta út. Ljóst er samt að vegurinn mun gjörbreyta umhverfinu og verða ofan í skíðabrekkunni. Umferð 15.000 - 20.000 bifreiða, að mestu frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Ekki eru upplýsingar um hinar tvær leiðirnar sem kynntar voru í fyrstu. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli íbúaráðs Breiðholts á málinu en ekki tekist. Engu að síður hefur formaður íbúaráðsins fullyrt á samfélagsmiðlum að komin sé „lending í Arnarnesveginn“. Það er bagalegt þegar ráðið hefur ekki enn rætt málið.Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 25. september 2020. R20010013
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið:
Fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar SORPU hafa ekki verið kynntar fyrir borgarráði. Mikilvægt er að gæta hófs í gjaldtöku á erfiðum tímum og er mikilvægt að borgarráð fái upplýsingar um hvaða gjaldskrárbreytingar eru í farvatninu hjá SORPU.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 25. september 2020. R20010017
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í 5. lið fundargerðar Strætó bs. frá 25. september er fjallað um dómssátt. Ekki kemur fram hvort Strætó bs. þurfi að greiða vegna dómsátta í tveimur dómsmálum. Rétt er að borgarráð fái þessar upplýsingar án tafar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn á ný er Strætó bs. kominn í fjárhagsvandræði þrátt fyrir ríflegan heimanmund frá ríkinu upp á milljarð á ári. Talið er að inn í reksturinn á þessu ári vanti tæpan milljarð. COVID-19 er kennt um en staðreyndin er sú að vagnarnir hafa flengst um borgarlandið galtómir löngu fyrir faraldurinn. Þann 27. ágúst sl. lagði ég fram fyrirspurn um farþegatalningar Strætó en svar hefur ekki borist enda málið viðkvæmt. Sú tilraun sem vinstri ríkisstjórnin gerði við vinstri meirihlutann í Reykjavík um milljarð á ári frá ríkinu til að fjölga farþegum í Strætó hefur gjörsamlega misheppnast. Nú er tímabært að setjast niður og endurskoða bæði Strætó bs. og áform um borgarlínu. Hinn venjulegi borgari notar fjölskyldubílinn, hjólar eða gengur í stað þess að nota almenningssamgöngur. Farþegafjöldi Strætó sýnir það.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í fundargerð að málum Flokks fólksins sem vísað hefur verið til stjórnar Strætó bs voru sett undir önnur mál. Um er að ræða fyrirspurn varðandi gæðaeftirlit. Segir í fundargerð að stjórn hafi falið framkvæmdastjóra að svara fyrirspurninni. Nokkrum málum Flokks fólksins hefur verið vísað til stjórnar Strætó bs. í gegnum tíðina og sum hafa hreinlega dagað þar uppi. Þetta er afar hvimleitt, ekki síst þegar ekki hefur frést af málinu t.d. í meira en ár. Einnig er þetta slæmt því það er fólk sem bíður eftir viðbrögðum og auðvitað afgreiðslu þessara mála. Sem dæmi, árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að biðsalur Strætó bs. í Mjódd verði opinn eins lengi og vagnar ganga og að betur verði búið að biðsalnum þar sem margir nota hann daglega. Hvað varðar tillöguna um biðsalinn hafa allmargir haft samband og beðið um að reynt verði að ná þessum breytingum fram og hefur þetta fólk nú beðið eftir svörum í eitt ár því ekkert heyrist frá stjórn Strætó bs. Fulltrúi Flokks fólksins kallar hér með eftir hraðari vinnslu. Að leyfa málum að stranda á borði stjórnar mánuðum saman er ákveðin vanvirðing við þjónustuþega Strætó bs.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 5. október 2020. R20010022
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hin ágætasta tillaga var lögð fram í öldungaráði fyrir skemmstu af eldri borgara um að „öldungaráð Reykjavíkurborgar feli velferðarsviði að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar“. Sjá má nú í fundargerð öldungaráðsins að ráðið hefur gert á þessari tillögu breytingu og felst breytingin í því að búið er að taka út úr tillögunni „láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila“. Þetta vekur athygli enda fylgja þessu engar skýringar. Fulltrúi Flokks fólksins telur það mjög mikilvægt að þegar meirihlutinn í ráði eða nefnd samþykkir breytingartillögu þarf að fylgja með hver séu rökin fyrir breytingunni.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 28 mál. R20090219
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið:
Tekjufall rekstraraðila í ferðaþjónustu er gríðarlegt. Borgin samþykkti að fresta gjalddögum í byrjun faraldursins en nú er ljóst að meira þarf til. Í dag samþykkti borgin gjaldfrestun leigutaka hjá borginni, sem hafa orðið fyrir tekjufalli, til 2022. Mikilvægt er að borgin sýni lit gagnvart ferðaþjónustunni og vinni að lausn þessara fyrirtækja sem erindi SAF fjallar um.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20090220
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að borgin sýni sveigjanleika gagnvart rekstraraðilum sem berjast nú í bökkum og reyna að verja störf í borginni.
- Kl. 13:05 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum.
- Kl. 13:10 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Hvað hefur borgin úthlutað mörgum lóðum frá 1. júní 2018 til dagsins í dag fyrir fjöleignarhús með fleiri en 5 íbúðir, hvaða lóðir eru það, hverjir fengu lóðunum úthlutað og á hvaða byggingarstigi eru húsin? R20100131
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan. Einnig hvernig mál eru afgreidd í nefndinni, hvert og hvaða áhrif þau hafi á áætlanir í borgarkerfinu. R20100130
Vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks.
Fundi slitið klukkan 13:15
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Skúli Helgason
Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1510.pdf