Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 1. október, var haldinn 5602. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir. Hildur Björnsdóttir tók sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn, gestir og starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Pétur Ólafsson, Kristrún Frostadóttir og Ólöf Magnúsdóttir.
Jafnframt sátu fundinn með fjarfundarbúnaði borgarfulltrúarnir Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Ragna Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Ellen Jacqueline Calmon, Jórunn Pála Jónasdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir og starfsmennirnir Svanborg Sigmarsdóttir, Janus Arn Guðmundsson, Guðlaug Sigurðardóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Eyjólfur Ingi Eyjólfsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2020 og fimm ára áætlunar ásamt fjárhagslegri greiningu á áhrifum COVID-19. Einnig fer fram kynning á greiningu Kviku á viðbrögðum sveitarfélaga vegna COVID-19. R20010203
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn hefur verið samstíga í að bregðast við áfallinu sem COVID-faraldurinn hefur í för með sér með áherslu á velferð borgarbúa, afkomu þeirra og þeirra grunnstoða samfélagsins sem þurfa styrk til að standa af sér víðtækar og neikvæðar afleiðingar heimsfaraldursins. Það er frumskylda Reykjavíkurborgar að veita og tryggja órofna grunnþjónustu. Um leið þarf að borgin að leggja fram stóra fjárfestingaáætlun til að verja og tryggja störf. Endurreisn hagkerfisins þarf um leið að vera græn en Græna planið sem kynnt var í vor gerir ráð fyrir því. Fjárhagsáætlun og fjárfestingaáætlun borgarinnar þarf því að taka mið af hóflegri hagræðingu án niðurskurðar og mikilli grænni fjárfestingu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrt er kveðið á um niðurgreiðslur skulda borgarinnar í „meirihlutasáttmálanum“. Eftir að hann var samþykktur hafa skuldir ekki lækkað. Þvert á móti hækkuðu skuldir um 78 milljarða. Rekstrarkostnaður borgarinnar er mun hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum og engin viðleitni hefur verið til hagræðingar hvorki til skammtíma né lengri tíma. Þessi staða og afstaða meirihlutans í borgarstjórn veit ekki á gott. Skuldir Reykjavíkurborgar hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum í góðærinu. Skuldahlutfall samstæðu borgarinnar hefur vaxið mjög hratt og er í árslok 2019 186% þegar allt er talið. Það eru heildarskuldir á móti heildartekjum. Heimilt er að draga ýmsar eignir frá á móti skuldum til að reikna svonefnt skuldaviðmið. En rétt er að benda á að skuldaviðmið samstæðu að Orkuveitu Reykjavíkur meðtalinni er komið í 143% í árslok 2019. Standa skuldir og skuldbindingar samstæðu í 378 milljörðum í síðasta birta uppgjöri. Þetta eru gríðarháar skuldir í lok góðæris.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi borgarráðsfundur verður ekki notaður sem fyrirsláttur í að hamra á ríkinu að koma með meira fjármagn inn í botnlausa skuldastöðu Reykjavíkur. Hér er engin samstaða um slíkt. Sú kynning sem lögð var fram á fundinum í trúnaði gefur á engan hátt rétta mynd af viðbrögðum við COVID-19. Mjög margt var beinlínis ósatt hvað snýr að ríkinu en líklega til þess fallið að villa um fyrir kjörnum fulltrúum. Samstæða Reykjavíkurborgar skuldar tæpa 400 milljarða. Þeir duttu ekki af himnum ofan í byrjun árs þegar COVID-19 kom til sögunnar. Minnt er á að tugir þúsunda fjölskyldna misstu heimili sín í bankakreppunni og fjöldi fólks missti atvinnu sína eins og nú er. Ríkið féll í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skilaði litlu fjármagni inn á sveitastjórnarstigið. Nú er öldin önnur eins og nýkynnt fjárlagafrumvarp ber með sér. Ríkissjóður hóf að greiða niður himinháar skuldir ríkisins 2013 en þá hóf Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar að safna gríðarlegum skuldum til að fjármagna eitthvað allt annað en lögbundin verkefni og grunnþjónustu. Nú þegar hann er búinn að keyra borgina í þrot á ríkið að koma og bjarga málunum. Ég vona að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin sjái í gegnum þennan blekkingarleik og ósannindi borgarstjóra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú er hart í ári vegna COVID. Mörg þúsund manns þarfnast aðstoðar og eykst þörfin með hverri viku. Staðan var slæm áður og má því segja að borgin var illa undirbúin fyrir COVID. Sumarið 2019 voru mörg þúsund manns matarlausir því hjálparsamtök þurftu að loka. Á góðæristíma voru um 500 börn sem bjuggu við sárafátækt. Staðan mun versna um ókominn tíma eða þar til bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru of ströng. Öll viðmið verður að endurskoða í ljósi nýs veruleika. Velferðaryfirvöld treysta of mikið á hjálparsamtök. Um fátækt fólk hefur lengi ríkt þögn og þöggun. Nú hefur hópurinn breyst, hann er breiðari en áður sem sækir aðstoð. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna og útlendingar sem hafa verið búsettir hér og eru nú atvinnulausir. Margir eru að ljúka uppsagnarfresti og mun því atvinnuleysi aukast enn frekar. Í raun má segja að hjálparsamtök séu að bjarga lífi fólks en ekki velferðaryfirvöld borgarinnar nema að hluta til. Síðasta ár fengu 1700 umsækjendur efnislega aðstoð frá einum af hjálparsamtökunum í Reykjavík. Ætla borgarstjóri og velferðaryfirvöld að halda áfram að treysta á hjálparsamtök með að aðstoða fólk í neyð? Er ekki kominn tími til að setja fátækt fólk í forgang?
Fundi slitið klukkan 14:22
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0110_5602.pdf