Borgarráð - Fundur nr. 5600

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 24. september, var haldinn 5600. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Skúli Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Kr. Ólafsson og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 21. september 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 16. september á tillögu um gerð samnings við Rótina og beiðni um fjárheimild, ásamt fylgiskjölum R20090171

    Borgarráð staðfestir samþykkt velferðarráðs um að Rótinni verði falið að reka neyðarskýli fyrir konur en vísar beiðni um fjárheimild sem nemur 21,3 m.kr. á ársgrundvelli til frekari vinnslu á vettvangi fjárhagsáætlunargerðar.

    Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. september 2020, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna annars ársfjórðungs ársins 2020, ásamt fylgiskjölum. R20090142

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er komin í afleita stöðu fjárhagslega séð eins og borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ítrekað bent á. Í raun er borgin ógjaldfær/gjaldþrota. Borgarstjóri ber alla ábyrgð á því. Skuldir á hvern íbúa er nú tæp ein milljón sé litið til A-hluta borgarinnar. Þegar litið er til samstæðunnar allrar eru skuldir á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík rúmar 10 milljónir eða 2,5 milljón á hvern íbúa. Engin teikn eru á lofti að borgarstjóri og meirihlutinn séu á sparnaðarbuxunum og sem dæmi þá hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 9% á milli áranna 2019–2020 og ólögbundnu gæluverkefnin eru keyrð áfram af fullum þunga. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur lagt fram tillögu um að borgarráð samþykki að skipaður verði stýrihópur um niðurskurðaraðgerðir vegna fjármálastöðu Reykjavíkurborgar. Stýrihópurinn skal vera skipaður átta kjörnum fulltrúum, einum frá hverjum flokki sem fulltrúa á í borgarstjórn. Verkefni stýrihópsins er að rýna fjárhagsáætlanir borgarinnar og skila tillögum að 15 milljarða niðurskurði árlega næstu þrjú árin eða samtals 45 milljarða, án þess að til skerðinga komi á lögbundinni þjónustu eða grunnþjónustu. Skulu verklok stýrihópsins vera 15. nóvember 2020. Það er ískyggilegt að borgarstjóri hafi keyrt borgina fram af brúninni vitandi það að ríkið er ábyrgðaraðili rekstrarins að lokum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi áheyrnarborgarfulltrúa Miðflokksins. Borgin er hvorki gjaldþrota né ógjaldfær og það getur sérhvert talnaglöggt mannsbarn séð.

    Halldóra Káradóttir og tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  3. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 21. september 2020, um stofnun starfshóps og uppfærslu á stefnu um málefni miðborgar, ásamt fylgiskjölum. R20090035

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja nýjan samráðsvettvang um miðborgina næstu tólf mánuði undir forystu borgarritara. Markmiðið með þessum breytingum er að einfalda fyrirkomulag, skerpa yfirsýn og bæta upplýsingamiðlun milli hagaðila og fulltrúa borgarinnar. Sumarborgin 2020 heppnaðist afar vel og hefur mannlífið í miðborginni sjaldan verið eins mikið og skemmtilegt og í sumar. Þá er stefna um málefni miðborgar uppfærð með tilliti til þessa þar sem meginmarkmiðin þrjú eru miðborg allra, vistvæn og aðlaðandi miðborg og fjölbreytt miðborg.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn einn samstarfsvettvangur um miðborgarmál er nú settur á fót. Rétt er að rifja upp að formleg miðborgarstjórn var starfandi frá árinu 1999 og framkvæmdastjóri miðborgar með hléum. Þá var miðborgarstjóri starfandi frá 2008. Árið 2017 tók „verkefnisstjórn miðborgarmála“ til starfa en starfsemi hennar hefur verið óljós. 

    Nú tekur „samstarfshópur um málefni miðborgar“ til starfa og er honum óskað velfarnaðar. Mikilvægt er að borgin standi með atvinnustarfsemi með þeim úrræðum sem hún hefur. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er sérstakt að lesa það sem fram kemur í gögnum þegar rætt er um framtíðarsýn borgarinnar í ljósi alls þess sem gengið hefur á þar s.l. 2 ár. Talað er um að miðborgin sé allra og þar eigi að ríkja jafnræði og að heyrast eigi rödd allra. Eiginlega kaldhæðnislegt er að lesa að hagaðilar eigi að hafa áhrif  á mótun miðborgarinnar, taka virkan þátt og bera ábyrgð á að rækta og móta miðborgina. 

    Samskipti skipulagsyfirvalda við hagaðila í miðborginni hafa verið til skammar. Fullyrt hefur verið að gott samráð og samtal hafi t.d. átt sér stað við aðila sem ekkert kannast við að við þá hafi verið rætt.  Þetta er hörmungarsaga og mestur ágreiningurinn hefur snúið að götulokunum. Það hefði mátt forðast öll þessi leiðindi ef skipulagsyfirvöld hefðu látið af yfirgangi eins og skipulagsyfirvöld ætti Reykjavík ein. Tillaga Flokks fólks um „Akureyraleiðina“ sem lögð var fram í maí hefði átt að samþykkja enda hefur sú leið gengið vel. Hún hljóðaði þannig að gera ætti tilraun um að rekstraraðilar stýri sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eður ei. Þá myndu þeir ráða sjálfir, koma sér saman um hvort götu sé lokað fyrir umferð þennan daginn eða hinn. Þetta hefði getað orðið farsæl lausn.

    Helga Björg Ragnarsdóttir og Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. september 2020:

    Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði í samráði við skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar á umhverfis- og skipulagssviði, falið að útfæra áframhald á deilibílaverkefni sem stofnað var til árið 2017. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í samráði við skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar verði falið að leita tilboða í verkefnið með verðfyrirspurn og útbúa, í kjölfar samningaviðræðna, þjónustusamning um rekstur deilibílaleigu (e. Car Sharing System) í Reykjavík til næstu tveggja ára. Gert er ráð fyrir því að framlag borgarinnar til verkefnisins, í þeim tilgangi að tryggja umhverfisvænar bifreiðar, gæði þjónustu, fjölda bíla og dreifingu þeirra í borginni, verði að hámarki fimm milljónir á ári. Á meðan á þessu tveggja ára tímabili stendur er umhverfis- og skipulagssviði falið að vinna að frekari greiningum, stefnumörkun og undirbúningi ákvarðana um rekstur deilibíla og annarra sambærilegra samgangna í Reykjavík til lengri framtíðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20090167

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að auglýsa eftir samstarfsaðilum um rekstur deilibílaleigu í Reykjavík. Aðferðin er sú sama og var notuð þegar auglýst var eftir samstarfsaðilum um rekstur deilihjólaleigu á síðasta ári. Þó nú þegar sé rekin deilibílaþjónusta innan borgarmarkanna, þá er mikilvægt að markmið borgarinnar í fjölbreyttum ferðavenjum nái fram að ganga. Ef verkefnið nær flugi, getur það minnkað bílaeign, dregið þar með úr umferð bíla og borgarbúar noti deilibílaþjónustu meðfram annars konar samgöngumátum á borð við reiðhjól, rafskútur, strætó eða gangi.

    Þorsteinn Rúnar Hermansson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar Strætó bs., ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um strætisvagna sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. R20030240

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mjög ámælisvert hvað Strætó bs. er lengi að svara fyrirspurnum borgarfulltrúa til skriflega. Þessi fyrirspurn var lögð fram í borgarráði þann 26. mars sl. eða fyrir hálfu ári. Samkvæmt starfsreglum borgarráðs á að svara fyrirspurnum kjörinna fulltrúa innan þriggja vikna. Áberandi hefur verið í svörum frá Strætó bs. hvað þau eru innihaldslaus og rýr og eins og áður segir lengi að berast. Strætó hefur keypt 59 vagna frá ársbyrjun 2010. Þar af eru einungis tveir metan vagnar. Það eitt og sér er stórfurðulegt því á svipuðum tíma var lagður grunnur hjá öðru bs. félagi borgarinnar, SORPU bs um stórkostlega framleiðslu metans til sölu m.a. á strætisvagna. Hins vegar hafa verið keyptir 14 rafvagnar og 43 díselvagnar. Athyglisvert er að bera saman verð á strætisvögnum. Rafvagn kostaði þá 60 milljónir, díselvagn 35 milljónir og metanvagn 41,5 milljónir. Enn er keyrð sú stefna að festa kaup á díselvögnum sem menga mest. Bingóið í gegnum útboð á rafmagnsvögnum þekkja allir og hverjir eru eigendur Yutong Eurobus ehf. þ.m.t. fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra. Hagsmunirnir eru það miklir fyrir umboðsaðilann að Strætó bs. er tilraunadýr fyrir markaðssetningu vagnanna á Norðurlöndunum og Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar tekur þátt í því.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Bókun áheyrnarfulltrúans er undarleg. Strætó kaupir inn hagstæðustu, og á undanförnum árum umhverfisvænustu vagnana hverju sinni. Umhverfisstefna Strætó gerir ráð fyrir kolefnishlutleysi árið 2030 og þess vegna hafa nær eingöngu verið keyptir inn rafmagnsvagnar og metanvagnar frá árinu 2016, ef undanskilin er einn díselvagn. Það er því ekki rétt að mengandi stefna um díselvagnakaup sé keyrð innan strætó og vekja þau ummæli furðu. Í sömu andrá er gagnrýnt að keyptir séu inn rafmagnsvagnar og dylgjað um að um stórt samsæri Samfylkingarinnar með Kínverjum sé að ræða. Hvað varðar metan, þá mun SORPA finna kaupendur á þeirri vöru.Gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, sparar 90.000 tonn af CO2-ígildi ef metanið er brennt á staðnum en sparar 100.000 tonn af CO2 ígildum ef metaninu er komið í vinnu. Ávinningurinn af sölu metansins er því 10.000 CO2 tonn. Minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 90.000 tonna af co2 er ígildi þess að taka 30.000 til 45.000 bíla úr umferð á ári, GAJA er því gríðarlega stórt skref í minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Staðreyndir eru ekki samsæri. Viðskipti Strætó voru gerð í gegnum Yutong Eurobus Scandinavia AS, sem er norskt dótturfélag hins íslenska fyrirtækis GTGroup ehf., sem einnig er aðaleigandi umboðs Yutong ehf. á Íslandi. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður og utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, er stjórnarformaður Yutong Eurobus Scandinavia AB, umboðsaðila vagnanna, síðan 2018. Á heimasíðu félagsins er/var kynningarefni sem snýr að því að Strætó bs. er tilraunaverkefni fyrir félagið á Norðurlöndunum og eru stiklur sýndar af rafmagnsvögnunum í virkni í Reykjavík. Sjón er sögu ríkari. SORPU bs. snúningurinn í gagnbókun meirihlutans er mikil vörn fyrir metanframleiðslu GAJA sem brennd er út í loftið því engir kaupendur eru að metaninu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svarinu frá Strætó kemur fram að aðeins eru tveir metanvagnar hjá Strætó. Þetta lýsir vel algjöru áhugaleysi á að nýta metan, sem eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft vakið athygli á í borgarstjórn, er alveg verðlaust á söfnunarstað þar sem því er brennt á báli. Og reyndar í stórum stíl. Eins og líka hefur komið fram þá mun SORPA stórauka söfnun á metani á næstunni. Reykjavík á meirihluta bæði SORPU og Strætó eins og allir vita. Er í rauninni enginn möguleiki á að þessi tvö byggðasamlög geti unnið saman að því að nýta það metan sem er safnað til að minnka sóun á orku, bæta kolefnisfótspor og neikvæð umhverfisáhrif? Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað nefnt að þetta má gera m.a. með því að nýta metan á strætisvagna. Það þýðir ekki endalaust að koma með einhverjar vangaveltur um einhverja ókosti við að nýta metan, útreiknaða eða huglæga. Við eigum að huga að umhverfismálum. Er það ekki svo?

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 4. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda verktaka hjá Strætó bs., sbr. 69. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020. R20010114

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Árið 2019 var 47% af akstri Strætó bs. í höndum þeirra en 53% í höndum verktaka. Í svarbréfinu kemur fram að í framhaldi af útboði 2014 var samið við tvo verktaka Kynnisferðir og Hagvagna. Ákveðnir verkhlutar sem innihéldu ákveðnar leiðir voru boðnir út. Samningurinn er sveigjanlegur og getur Strætó falið verktökum meiri akstur á sömu verðum og boðin voru í útboði 2014 skv. skilmálum útboðsins. Í svarbréfinu stendur einnig að það er í sjálfu sér ekkert þak á því, heimilt er að auka eða minnka akstur verktaka. Ákvarðanir eru teknar í ljósi þess hversu mikinn akstur vagnafloti Strætó getur ráðið við. Í svarbréfi kemur fram að færsla leiða hafi ekki leitt til uppsagna á starfsmönnum Strætó. Í undirbúningi hvers útboðs er það stjórn Strætó sem tekur ákvörðun um viðmiðunarhlutfall sem er í verktöku og hvað Strætó sinnir miklum akstri. Fulltrúi sósíalista telur sláandi að engin viðmið séu til staðar hjá opinberu fyrirtæki um hversu mikið einkaaðilar megi sjá um varðandi grunnþjónustu sveitarfélaganna. Einkaaðilar sjá nú um meira af grunnþjónustunni en áður og ljóst er að ekkert þak er á því, sveitarfélögin verða að bregðast við svo að opinbert fyrirtæki sem sinnir grunnþjónustu verði ekki hægt og rólega einkavætt að innan. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Líkt og fram kemur í svari Strætó er hlutfallið milli aksturs verktaka og aksturs starfsfólks Strætó nokkuð jafnt. Þá hefur verktaka aukist lítið eitt en það hefur ekki leitt til uppsagna hjá starfsfólki Strætó enda hefur þjónustumagn þeirra leiða sem Strætó sér um akstur á verið aukið á móti auk þess sem ekki hefur verið ráðið í störf starfsfólks sem er að hætta.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. september 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Facebook-síður Reykjavíkurborgar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. R20080110

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 17. september 2020. R20060037

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 10. september 2020. R20010029

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. september 2020. R20010030

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 23. september 2020.

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. R20010008

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar: 

    Nýtt Laugavegsstríð er í uppsiglingu og enn á að þrengja að verslun og öðrum viðskiptum á svæðinu. Nú á að stækka göngugötur allt árið yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs og er þetta hluti þeirra gatna sem flokkaðar voru sem annar áfangi í deiliskipulagslýsingunni. Fyrir skömmu birtust auglýsingar þar sem sagði: „Staðan í miðbæ Reykjavíkur er ískyggileg. Laugavegurinn, sem áður var aðalverslunargata bæjarins, hefur á örskömmum tíma orðið að draugagötu fyrir tilverknað borgaryfivalda.“ Félagsfundur Miðbæjarfélagsins í Reykjavík  mótmælti einnig harðlega árásum í formi götulokana á rekstraraðila og að þær hafi grafið undan atvinnustarfsemi við göturnar og þær feli í reynd í sér eignaupptöku þar sem verslunarhúsnæði verður illseljanlegt og hríðfellur í verði. Hátt í 40 rými eru nú tóm við Laugaveg, frá Snorrabraut að Bankastræti. Það er því einstaklega ósvífið að halda því fram nú að mikið líf hafi skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði. Einnig er því hafnað að víðtækt samráðsferli hafi þegar átt sér stað við hagsmunaaðila. Samráð er ekki samráð þegar skoðun eins aðila ræður för og valtað er yfir aðra. Það heitir einráð og er þar að auki frá stjórnvaldi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 26. lið fundargerðarinnar: 

    Formaður skipulags- og samgönguráðs hefur tvívegis neitað að taka inn á fund skipulagsráðs eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er pólitísk afstaða skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði? Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi? Rökin eru að kjörnir fulltrúar geti ekki krafið aðra kjörna fulltrúa um þeirra afstöðu í formlegum fyrirspurnum fagráða. Í öðru svari kemur fram að „ekki sé hægt að beina fyrirspurnum til fagráða.“ En hér er verið að spyrja skipulagsyfirvöld pólitískra spurninga en ekki persónur. Það er skylda stjórnvalds að svara fyrirspurnum sem kjörinn fulltrúi sendir inn með formlegum hætti. Fyrirspurnin kemur frá breiðum hópi sem óttast mjög að hinn græni meirihluti skipulags- og samgöngusviðs ætli að láta nágrannasveitarfélagið Kópavog þrýsta sér út í að gera stórmistök, valda skipulagsslysi sem eyðilegging Vatnsendahvarfs er með því að setja hraðbraut þvert yfir hæðina.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R20080176

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir þau góðu rök sem Karlakórinn Fóstbræður halda á lofti í erindi sínu til borgarráðs um að færa húseign kórsins úr C flokki í A flokk til lækkunar fasteignagjalda eins og gert var fyrir hestamenn. Skorað er á borgarstjóra og meirihlutann að verða við þessari sjálfsögðu kröfu.

    -    Kl. 10:20 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir tekur sæti. 

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Hefur Reykjavíkurborg markað sér stefnu varðandi það hversu mikið af grunnþjónustu megi bjóða út hjá borginni sjálfri og fyrirtækjum í eigu hennar? Sé t.a.m. litið til þjónustu Strætó bs. má sjá að meirihluti akstursins er á höndum verktaka og að ekkert þak er á því hversu mikið verktakar mega sjá um. R20090198

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Borgarráð samþykkir að skipaður verði stýrihópur um niðurskurðaraðgerðir vegna fjármálastöðu Reykjavíkurborgar. Stýrihópurinn skal vera skipaður átta kjörnum fulltrúum, einum frá hverjum flokki sem fulltrúa á í borgarstjórn. Verkefni stýrihópsins er að rýna fjárhagsáætlanir borgarinnar og skila tillögum að 15 milljarða niðurskurði árlega næstu þrjú árin eða samtals 45 milljarðar, án þess að til skerðinga komi á lögbundinni þjónustu eða grunnþjónustu. Skulu verklok stýrihópsins vera 15. nóvember 2020. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20090195

    Frestað.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir að á næsta fundi borgarráðs sem haldinn verður 1. október nk. verði lagt fram yfirlit yfir fyrirspurnir sem borgarfulltrúi Miðflokksins hefur lagt fram og ekki hefur verið svarað. Jafnframt er óskað eftir að upplýsingar komi fram um dagsetningar á fyrirspurnunum og efni þeirra. R20090200

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  16. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Þann 11. júní sl. lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurnir. Hvers vegna er ekki búið að skila borgarráði skriflegu svari þar sem meginreglan er að svara innan þriggja vikna? Óskað er eftir að svarið byggist á upplýsingum um kortin þann dag sem fyrirspurnin var lögð fram. „Um síðustu mánaðamót birtist dæmalaus frétt í Fréttablaðinu þar sem fram kom að embættismenn/starfsmenn á skrifstofu Reykjavíkurborgar hafi ellefu aðgangskort að Vinnustofu Kjarvals, sem er vinnu- og samkomurými við Austurvöll og er kostnaður við kortin um 1,6 milljón króna. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg er stór leigutaki á markaði og á þar að auki mikið húsnæði þá kem ég til með að leggja þessar fyrirspurnir fram í borgarráði til skriflegs svars. 1. Er virkilega ekkert húsnæði sem borgin ræður yfir sem getur sinnt þessum þörfum? 2. Er það virkilega svo að vinnuaðstaða starfsfólks í „efsta lagi“ stjórnsýslunnar sé svo slæm að grípa þurfti í þetta úrræði? 3. Hvers vegna þarf „efsta lag“ stjórnsýslunnar fundaraðstöðu utan stjórnsýslubygginga borgarinnar? 4. Hvaða embættismenn hafa yfirráð yfir þessum kortum tæmandi talið? 5. Hefur borgarstjóri kort að vinnustofunni? 6. Handhafi korts virðist hafa aðgang að vinnustofunni og veitingaaðstöðu alla daga – er áfengi þar með talið? 7. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að vinnustofan er sérstaklega vel til þess fallin að taka á móti erlendum og innlendum viðskiptamönnum, hitta samstarfsfólk vegna vinnu eða utan hennar, rækta tengsl við aðra og sinna störfum sínum í næði frá dagsins önn. Er það hlutverk útsvarsgreiðenda í Reykjavík að standa undir þessum sérþörfum sem eiga heima á almenna markaðnum en ekki hjá sveitarfélagi? 8. Hvaða erlendu og innlendu viðskiptamenn hafa notið veitinga á kostnað Reykjavíkurborgar og með hvaða embættismönnum/starfsmönnum borgarinnar fengu þeir aðgang, tæmandi talið? 9. Handhafar kortanna eru í forgangi á viðburði í vinnustofunni, hafa handhafar kortanna notfært sér þann forgang, ef svo er hverjir sóttu hvaða viðburð tæmandi talið? R20060111

  17. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Starfræktar eru 17 félagsmiðstöðvar víðsvegar um borgina sem eru opnar Reykvíkingum á öllum aldri. Markmið  félagsstarfsins er að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun með því að bjóða upp á opið félags- og tómstundastarf auk fjölda námskeiða. Félagsstarfið er vettvangur samfunda, mannlegra samskipta og skapandi athafna. Leitast er við að virkja frumkvæði og hæfileika hvers og eins. 1. Hvað kostar að reka starfsemi sem Reykjavíkurborg stendur fyrir í sal á Sléttuvegi 11-13? 2. Hefur verið tekin ákvörðun um að hætta allri starfsemi í salnum og loka honum fyrir skjólstæðingum sem þarna búa? 3. Ef það er staðreynd – hvers vegna var sú ákvörðun tekin? 4. Hefur meirihlutinn ekki áhyggjur af því að ef þessi starfsemi leggst af að íbúar hússins einangrist inni á sínum íbúðum sem veldur heilsutjóni? R20090197

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  18. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í apríl 2018 kom út skýrsla með niðurstöðum starfshóps sem bar heitið aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ári síðar kom út önnur skýrsla: Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Báðar fela í sér metnaðarfullar aðgerðir sem ýmist eru á ábyrgð ríkis, sveitarfélags eða samstarf beggja en sveitarfélögin fara m.a. með stjórnun leik- og grunnskóla, félagsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver staða aðgerðanna er, þeirra sem snúa að grunnskólum í Reykjavík. Spurt er: Hver er almennt staðan á innleiðingu tillagna sem settar eru fram í skýrslunum? 1. Hver er staðan á innleiðingu þrepaskipts stuðnings í skólastarfi (e. multi-tiered systems of support) sem hluta af menntastefnu um skóla án aðgreiningar? 2. Hver er staða nýrrar Þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna? 3. Hver er staðan á tillögunni um að gera úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar? Hver er staða á tillögunni um að þróa og innleiða markvissar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr námi í ljósi þess að brýnt er að skólakerfið sé byggt upp með þeim hætti að markvisst sé unnið frá upphafi skólagöngu að því að hindra brotthvarf úr námi? R20090196

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  19. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt fram mál í borgarstjórn þar sem hvatt er til að nota ávallt gagnreynda lestraraðferð, að lögð sé áhersla á að lesskilningur sé þjálfaður frá byrjun og mikilvægi eftirfylgni enda er lestur og lesskilningur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun. Spurt er: Í hversu miklum mæli eru skólar að nota gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri s.s. bókstafa-hljóða-aðferðina sem sérfræðingar eru sammála um að sé sú leið sem hafi gefið bestan árangur? Eru skólar að huga sérstaklega að þeim börnum þar sem hefðbundnar aðferðir henta ekki, heldur t.d. frekar sjónrænar kennsluaðferðir? Eru gerðar einstaklingsmiðaðar námsáætlanir um leið og kemur í ljós að barn hefur sérþarfir af einhverjum toga? Eru fyrir hendi samræmd árangursmarkmið í skólunum um að börn séu orðin læs eftir 2. bekk og að áherslan sé  á þjálfun lesskilnings? Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla sem snúa að þjálfun sem eykur lesskilning, viðeigandi áskorunum og eftirfylgni? Rannsóknir hafa sýnt að börn innflytjenda eru að koma verr út en í nágrannalöndum. Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla í Reykjavík til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi? R20090199

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fundi slitið klukkan 10:57

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Skúli Helgason

Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2409.pdf