Borgarráð - Fundur nr. 5599

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 17. september, var haldinn 5599. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir.
Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á stöðu mála vegna COVID-19. R20030002

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. september 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að fresta fyrsta gjalddaga veðskuldabréfs vegna lóðarinnar Bjargargötu 1, frá 6. september 2020 til 6. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum. R20080178
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að framlengja seljendaláni á gatnagerðagjöldum upp á hundruði milljóna króna. Hér hefur því verið lánaður skattur. Ekki kemur fram hver eigandi félagsins er sem nýtur fyrirgreiðslunnar. Lánið verður eftir þessa breytingu 5 ára lán. Ekkert hefur verið greitt af láninu. Óskað er eftir minnisblaði frá borgarlögmanni um þær reglur sem gilda um seljendalán hjá borginni. Annars vegar lán vegna byggingarréttar og hins vegar lán á gatnagerðagjöldum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ríki og sveitarfélög hafa frá því í vor leyft fresti og breytta gjalddaga af ýmsu tagi vegna áhrifa COVID. Þær aðgerðir þurfa að vera eftir almennum línum og ná til allra sem eru í sambærilegri stöðu. Hér er verið að samþykkja stuttan greiðslufrest á fyrsta gjalddaga, þ.e. tveir mánuðir, í samræmi við beiðni lóðarhafa. Ástæða beiðni um stuttan greiðslufrest er endurfjármögnun lóðarhafa sem er langt komin samkvæmt gögnum og upplýsingum frá lóðarhafa. Heimild borgarráðs til að ganga frá skuldabréfi vegna greiðslu gatnagerðargjaldanna var samþykkt af öllum fulltrúum í borgarráði þann 2. febrúar 2017. Hver er handhafi lóðaréttinda skiptir ekki máli við ákvörðun um einfalda skilmálabreytingu, enda hefur viðkomandi þegar undirgengist mat á greiðsluhæfi. Það mat fer fram við sölu byggingarréttar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um lánveitingar borgarinnar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa að gefnu tilefni óskað eftir minnisblaði borgarlögmanns vegna þessara mála.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstararuppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-júlí 2020, dags. 17. september 2020.

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R20010095

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hefja söluferli á húsinu Bergvík 2 á Kjalarnesi og að kvöð verði sett á húsið, ásamt fylgiskjölum. R20080175
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. september, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning við Íslandsstofu um framkvæmd markaðsverkefnisins Meet in Reykjavík. Borgarráð hafði áður veitt heimild fyrir því að gengið yrði frá slíkum samningi á fundi 5592 2. júlí sl. Samningurinn er í samræmi við þær áherslur sem komu fram í minnisblaði sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs sem lagt var fram á ofangreindum fundi. R20050265
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hlutverk Meet in Reykjavík er að styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði og auka hlutfall þeirra ferðamanna sem koma í þeim tilgangi allan ársins hring. Markmiðið með samningnum er að styrkja Meet in Reykjavík til að fjölga ráðstefnugestum sem koma til borgarinnar enda segir í drögum að ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar að stefnt skuli að því að 15% ferðamanna séu ráðstefnugestir. Með samstarfi við Íslandsstofu er stefnt að hagræðingu í rekstri og styrkingu og eflingu verkefnisins sjálfs.

    Sif Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 15. september 2020, þar sem tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um breytingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar vegna COVID-19 er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R20090101

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur því hlutverki að gegna að samhæfa aðgerðir og grípa til ráðstafana þegar almannavarnaástand skapast til að endurskipuleggja og forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða. Viðbragðsáætlun neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar gerir ekki ráð fyrir því að einstakar breytingar á þjónustu leiði til breytinga á reglum um þjónustuveitingu borgarinnar. Þær eru tímabundnar í eðli sínu og geta þurft að taka breytingum með skömmum fyrirvara. Því er ekki lagt til að þær breytingar sem ákveðnar hafa verið á opnuNartímum leikskóla séu staðfestar í borgarráði heldur verði áfram um þær fjallað á vettvangi neyðarstjórnar og staðan endurmetin þar reglulega í samræmi við viðbragðsáætlanir almannavarna líkt og gert er varðandi aðra þjónustu borgarinnar og breytingar á henni vegna sóttvarna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vegna aðstæðna er varða COVID-19 ætti neyðarstjórnin að taka til skoðunar tillögu okkar sjálfstæðismanna í skóla- og frístundaráði frá 8. september sl. um að sóttvörnum á leikskólum borgarinnar verði sinnt eftir kl. 17:00 til að komist verði hjá tímabundinni skerðingu á leikskólaþjónustu. Starfsmönnum leikskólanna gefst þá kostur á að bæta við sig yfirvinnu til að sinna þessum störfum. Um er að ræða tímabundið ástand eða til 31. október nk. og því ekki um umtalsverðan kostnað að ræða. Hér er um lausnarmiðaða tillögu að ræða sem kemur í veg fyrir þjónustuskerðingu. Samkvæmt kostnaðarmati fjármála- og áhættustýringarsviðs er um að ræða upphæð sem nemur um 8.000 kr. á barn fyrir þann tíma sem um ræðir. Öllum er ljóst að auknum sóttvörnum fylgir ákveðinn kostnaðarauki. Heildarkostnaður við þá lausn sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði  til er innan við 18 milljónir króna, sem ekki getur talist hár ef borinn er saman við endurgerð Tryggvatorgs svo dæmi sé tekið. Lausn Sjálfstæðisflokks felur sömuleiðis í sér aukna tekjumöguleika fyrir starfsfólk leikskólanna sem yrði  vel tekið á þeim erfiðu tímum sem nú eru uppi. Þjónustuskerðingin kemur illa niður á fjölmörgum fjölskyldum í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er skiljanlegt að grípa þurfi til ráðstafana vegna COVID-19 en það er mikilvægt að ráðstafa málunum þannig að það bitni ekki illa á þeim sem eru í viðkvæmri stöðu. Í jafnréttismati sem tengist annarri en þó keimlíkri tillögu, þ.e.a.s. tillögu um að stytta almennan opnunartíma leikskóla borgarinnar um hálfa klukkustund til lengdar, kemur fram að „Af þeim foreldrum sem eru að kaupa dvalartíma eftir 16:30 telja 62% að það verði erfitt eða mjög erfitt að bregðast við styttum opnunartíma og 59% foreldra eru frekar eða mjög mótfallnir fyrirhugaðri breytingu.“ Hér er í raun um sambærilegar tillögur að ræða þó að tímalengd þeirra sé ekki sú sama. Staða foreldra breytist varla til hins betra þegar að erfið staða er komin upp í samfélaginu og mikilvægt er að mæta þeim sem sjá sér ekki fært að geta sótt börn sín úr leikskóla klukkan 16:30. Í staðinn fyrir að stytta opnunartíma leikskólanna telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að aðrir þættir séu skoðaðir til þess að bjóða upp á órofna þjónustu á tímum heimsfaraldurs. Þar væri t.a.m. hægt að skoða hvort að starfsfólk borgarinnar hefði áhuga á auknum starfstíma við að sinna þrifum og skipulagningu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Búið er að taka ákvörðun um að skerða þjónustu leikskóla með því að stytta opnunartíma. Ástæðan er sögð vera vegna sóttvarnaráðstafana. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að engin ástæða sé til að stytta opnunartíma vegna þessa. Vel er hægt að finna aðrar leiðir, sem ekki koma niður á þjónustunni. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Ekki er hjá því komist í þessu sambandi að minnast á nýlegt jafnréttismat sem sýnir neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna.  Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. september á tillögu um breytingu á reglum um þjónustusamninga við tónlistarskóla, ásamt fylgiskjölum. R20090115
    Samþykkt. 

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2020 á tillögu um endurbótum á gjaldskrár- og greiðslukerfum skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R20090099

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun um umfang kostnaðar við skemmtanir og fleira á vegum grunnskóla borgarinnar, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. R20080153

    Fylgigögn

  10. Lagður fram kjarasamningur Reykjavíkurborgar við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 2019-2023, ódags. Einnig lagt fram minnisblað samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 7. september 2020. R19010197
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lögð er fram skýrsla starfshóps sem skipaður var af menntamálaráðherra, með aðkomu borgarinnar og ætlað var að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Skýrslan var einnig lögð fyrir á ríkistjórnarfundi þann 11. september sl. Í starfshópnum sátu Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, formaður, Óskar Þór Ármannsson og Marta Skúladóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ómar Einarsson og Sif Gunnarsdóttir tilnefnd af Reykjavíkurborg, Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Hannes Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ). Niðurstaða starfshópsins er afgerandi í þá veru að þjóðarhöllin skuli rísa í Laugardal. Þrjár mögulegar staðsetningar í Laugardalnum eru nefndar og er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið veiti umsögn um bestu staðsetningu. Jafnframt er lagt til að skýrslunni sé vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til umfjöllunar og umsagnar. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að byggja hús með 5.000 sætum eða 8.000 sætum. Menntamálaráðherra og borgarstjóri hafa óskað eftir því að hópurinn starfi áfram og vinni ítarlega rekstar- og tekjuáætlun fyrir verkefnið. Sérstaklega þarf að huga að mögulegri samnýtingu, æfingum barna og unglinga í hverfinu og notkun skóla, sbr. forgangsröðun á grundvelli íþróttastefnu borgarinnar. R17110135

    Samþykkt. 
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs og óskað er eftir að veitt verði umsögn um bestu staðsetningu. Jafnframt er samþykkt að vísa skýrslunni til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til umfjöllunar og umsagnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram skýrsla starfshóps sem skipaður var af menntamálaráðherra, með aðkomu borgarinnar og ætlað var að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Niðurstaða starfshópsins er afgerandi í þá veru að þjóðarhöllin skuli rísa í Laugardal. Þrjár mögulegar staðsetningar í Laugardalnum eru nefndar og er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið veiti umsögn um bestu staðsetningu. Jafnframt er lagt til að skýrslunni sé vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til umfjöllunar og umsagnar. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að byggja hús með 5.000 sætum eða 8.000 sætum. Menntamálaráðherra og borgarstjóri hafa óskað eftir því að hópurinn starfi áfram og vinni ítarlega rekstar- og tekjuáætlun fyrir verkefnið. Sérstaklega þarf að huga að mögulegri samnýtingu, æfingum barna og unglinga í hverfinu og notkun skóla, sbr. forgangsröðun á grundvelli íþróttastefnu borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að óvissu um uppbyggingu þjóðarleikvangs verði eytt sem fyrst. Mikilvægt er að óvissa í þessum málum komi ekki  niður á íþróttastarfi barna og unglinga í hverfum borgarinnar. Sem dæmi má nefna að málefni Þróttar í Laugardalnum hafa lengi setið á hakanum vegna  óvissu í þessum málum. 

    Ómar Einarsson og Guðmundur B. Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg styrki fyrirhugaða heimssamkomu samtaka sem berjast gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi, um 10 m.kr. en fyrirhugað er að halda heimssamkomu í Hörpu dagana 6.-8. maí 2021. Óskað var eftir fjárframlagi og samstarfi við Reykjavíkurborg með erindi sem barst frá forsætisráðuneytinu þann 10. ágúst sl. Gert er ráð fyrir að 1000-1500 fulltrúar taki þátt í fundinum alls staðar að úr heiminum og er kostnaður við ráðstefnuna áætlaður á bilinu 30-60 m.kr. Fyrirhugaður styrkur er veittur að því gefnu að af heimssamkomu verði. Kostnaði vegna fjárframlags Reykjavíkurborgar er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. R20090055

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Forsætisráðuneytið óskaði eftir samstarfi við borgina um þetta spennandi verkefni sem gengur út á það að halda fjölmenna ráðstefnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Gert er ráð fyrir að 1000-1500 þátttakendur verði á ráðstefnunni, þar á meðal helsta fræðafólk veraldar á þessu sviði. Samstarfið við ríkið um þessa ráðstefnu er á breiðum grunni en styrkur borgarinnar nemur 10 m.kr. af áætluðum 30-60 m.kr. heildarkostnaði.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að nýjum samningi milli Reykjavíkurborgar og Hestamannafélagsins Fáks um rekstur Reiðhallarinnar í Víðidal. Lagt er til að samningurinn verði til þriggja ára með möguleika á framlengingu til eins árs í senn, en þó ekki lengur en til 2026. Þá er gert ráð fyrir í samningnum að ráðstafað verði 22 m.kr. í fjárfestingaáætlun 2020 og 2021 vegna framkvæmda á svæði félagsins og Reykjavíkurborgar í Víðidal. Fjárveiting vegna reksturs Reiðhallarinnar er í fjárhagsramma íþrótta- og tómstundasviðs og er samningurinn gerður með fyrirvara um samþykkt fjárhagsáætlunar borgarsjóðs ár hvert. R19120009

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja nýjan samning milli Reykjavíkurborgar og Hestamannafélagsins Fáks um rekstur Reiðhallarinnar í Víðidal. Samningurinn er til þriggja ára og gerir ráð fyrir að ráðstafað verði 22 m.kr. í fjárfestingaáætlun 2020 og 2021 vegna framkvæmda á svæði félagsins og Reykjavíkurborgar í Víðidal.

  14. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 14. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað vegna frestunar innleiðingar Hlöðunnar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. R20080079

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 7. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um mat á starfsumhverfi starfsfólks sem kemur fyrir borgarráð, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. R20080111

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Líf og sál ehf. fær tæpar tvær milljónir fyrir að leggja mat á starfsumhverfi starfsfólks sem kemur fyrir borgarráð en ekki var samið um greiðslur fyrir aukaverk og því auðvelt að belgja reikninginn út eftir þörfum. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur mótmælt þessu ferli frá upphafi enda um óskiljanlegar aðgerðir að ræða. Ég hef nú þegar lagt fram kvörtun til Persónuverndar og hefur stofnunin tekið kvörtun mína til greina og sent Reykjavíkurborg ítarlegar spurningar um framkvæmdina til að hægt sé að rannsaka hvort rannsóknin standist yfir höfuð lög. Í erindinu er m.a. óskað eftir upplýsingum um hver ákvað tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga sem felast í úttektinni. Það skal jafnframt upplýst að ég hef sent inn stjórnsýslukæru til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Í kærunni lagði ég fram kröfu um að ráðuneytið úrskurði tafarlaust til bráðabirgða um stöðvun úttektarvinnu sem hafin er á grundvelli þeirrar ákvörðunar sem er kærð, sú ákvörðun yfirstjórnar Reykjavíkur, að gera mat á starfsumhverfi og úttekt á sálfélagslegum þáttum í starfsumhverfi starfsfólks sem kemur reglulega fyrir borgarráð. Krafðist ég þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Svör mannauðs- og starfsumhverfissviðs eru afar ítarleg en fyrirtækið fær eingöngu greitt skv. því tilboði sem fyrir liggur. Reykjavíkurborg sækir heimildir sínar til 3. tl. 9. gr. persónuverndarlaga með vísan til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. ákvæði XI. kafla þeirra laga, einkum 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 65. gr. a, sbr. einnig reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Þó er þátttaka valfrjáls með öllu og er starfsmanni og hlutaðeigandi borgarfulltrúum frjálst að draga samþykki sitt um þátttöku til baka. Byggist vinnslan því einnig á 1. tl. 9. gr. persónuverndarlaga. Um er að ræða sálfélagslegt áhættumat á grundvelli laga nr. 46/1980. Ekki er um að ræða mat á tilteknum einstaklingum heldur á tilteknum áhættuþáttum í vinnuumhverfinu hjá þeim hópi sem tekur þátt í úttektinni. Niðurstöðum úttektar er samkvæmt þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við Líf og sál ekki ætlað að geyma persónugreinanlegar upplýsingar eða upplýsingar sem rekja má til einstakra viðmælenda. Þá er úttektin gerð í samráði við persónuverndarfulltrúa borgarinnar og tryggt að vinnsla persónuupplýsinga samræmist lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sú aðferðafræði sem Líf og sál notar til að framkvæma mat á starfsumhverfi sé á gráu svæði. Reynt er að gera ýmiskonar ráðstafanir til að halda aðferðafræðinni og ferlinu innan ramma persónuverndarlöggjafarinnar. Álitaefni má strax sjá í skilyrðunum sem þátttakendum könnunarinnar er gert að skrifa undir.  Einnig liggur ekki fyrir hvort  fullnægjandi fræðsla sé veitt til þeirra sem veita persónuupplýsingar og til þeirra sem upplýsingarnar varðar. Vandi er einnig með áreiðanleika persónuupplýsinga sem eru veittar við aðstæður sem þessar og hvort  rétt sé að heita þeim sem veita upplýsingar trúnaði. Við þessar aðstæður er hægt að ausa úr sér hatri og óhróðri um manneskju og allt í trúnaði en á umælunum á síðan að byggja niðurstöður. Hvað er mannauðsdeildin og borgarmeirihlutinn að fá fyrir þessar tvær milljónir sem þetta kostar? Mat fulltrúa Flokks fólksins er að hér sé verið að henda fé í tóma vitleysu. Í ljósi uppákomu á fundi borgarstjórnar 15. september þar sem fulltrúi Pírata fór langt yfir velsæmismörk í samskiptum við annan fulltrúa um efni sem á ekki heima í sal borgarstjórnar þarf fyrst og fremst að siða fólk til, láta það t.d. fylgja sínum eigin siðareglum. Það kostar engar 2 milljónir.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna miða til að afþakka fjölpóst, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. R20080109

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það vekur furðu að Reykjavíkurborg sé að eyða um 4 milljónum króna í fjöldapóst þar sem fólki er gefinn kostur á því að afþakka fjöldapóst. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja benda á að með einföldum hætti er hægt að afþakka fjöldapóst með rafrænum hætti hjá dreifingaraðilum fjöldapósts.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um eignir Reykjavíkurborgar í Gufunesi, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. R20050317

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að hér eru seljendalán upp á milljarða. Í sumum tilfellum eru greiðslur litlar sem engar árum saman og gjalddögum frestað ítrekað. Mikilvægt er í opinberri stjórnsýslu að allir sitji við sama borð. Jafnræði þarf að vera tryggt með útboðum, auglýsingum og skýrum leikreglum sem ekki er breytt eftir á. Sem dæmi má nefna að GN studios – Gufunes fasteignaþróun ehf. hafa eingöngu greitt um 5,9% kaupverðs þótt kaupsamningurinn sé frá 2017. Þetta þýðir með öðrum orðum að nánast engar greiðslur hafa átt sér stað til borgarinnar fyrir lóðirnar. Þá vekur athygli að gjalddagar hafa breyst og ekki er gefið upp í svarinu hvenær þeir eru hvað varðar 94% af fjárhæðinni sem gera 1.579 milljónir kr. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er mikilvægt að borgin geti sýnt sveigjanleika gagnvart atvinnulífinu, sérstaklega á tímum sem þessum. Kvikmyndaþorpið í Gufunesi er eitt af lykilverkefnum í hinum skapandi greinum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um lánveitingar borgarinnar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa að gefnu tilefni óskað eftir minnisblaði borgarlögmanns vegna þessara mála.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 14. september 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um öryggisveikleika í nýju upplýsingastjórnunarkerfi, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. R20080151

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. september 2020. R20080155
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál hefur verið vísað frá . Flokkur fólksins lagði til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Engin regla virðist vera um þessi mál eftir því sem fram kemur í svari. Í svari eru reifuð hin ýmsu lög sem hægt er að túlka eftir behag. Sem dæmi, ef ég væri borgarfulltrúi í meirihluta að leggja fram mál sem myndi varpa ljósi á neikvæða hluti í borginni þá óska ég bara eftir trúnaði. Í svari segir að ábyrgðin um hvort sé trúnaður eður ei liggi hjá þeim aðila sem leggur málið fram og gerir grein fyrir hvort erindið eða gögn sé trúnaður. Hann ákveður það sem sagt sjálfur. Þetta hefur ítrekað komið í ljós, kynningar sem koma illa út fyrir borgina eru stimplaðar trúnaður og sumar koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Trúnaður er settur á jafnvel þótt í gögnum séu hvergi neinar persónugreinanlegar upplýsingar s.s. sem varðar skulda, lána eða viðskiptamál einstaklings eða önnur persónugreinanleg gögn. Þetta er geðþóttákvörðun sem alltaf virðist vera hægt að finna stað í lögunum eftir því hvernig Reykjavíkurborg kýs að túlka þau. Svo mikið fyrir gegnsæi!

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í umsögn skrifstofu borgarstjórnar kemur m.a. fram að ákvæði upplýsingalaga ráða því hvaða gögn eru háð trúnaði og er því ekki þörf á neinum greiningum á því. Þá styðst borgin bæði við verklagsreglur og upplýsingastefnu borgarinnar. Rétt er að halda því til haga að Reykjavíkurborg er í fararbroddi varðandi bæði birtingu fundargagna nefnda og ráða sem fara á vef Reykjavíkurborgar um leið og fundargerðir eru birtar. Í ljósi þess var tillögunni vísað frá.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 8. september 2020. R20010023

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 8. september 2020. R20010024

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. september 2020. R20010025

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 7. september 2020. R20010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu öldungaráðs, að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar. Loksins er eitthvað að hreyfast í þessum málum en mikið hefur þurft til. Það er alveg ljóst að sá matur sem eldri borgurum hefur oft verið boðið upp á er ekki boðlegur. Annars hefðu allar þessar  gagnrýnisraddir ekki heyrst. Á gagnrýnisraddir hefur ekki verið nægjanlega hlustað. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einhverjir hafi viljað berja niður umræðuna. Það sýnir sig best í því að tillögum Flokks fólksins sem unnar voru með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var hafnað. Skoða þarf bæði samsetningu matarins og framleiðslu hans sem og hvenær hann er sendur út. Fram kemur að maturinn er oft afhentur til neyslu tveimum dögum eftir framleiðslu. Það er ekki viðunandi. Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val, t.d. á fólk að hafa val um hvort það vill meira eða minna grænmeti.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál R20080176

    Fylgigögn

  25. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20080177

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grafarlæks, Stekkjamóa og Djúpadal, ásamt fylgiskjölum. R20090112
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð fram umsókn T.ark Arkitekta ehf., dags. 15. júní 2020, varðandi breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar - Stekkjarmóa - Djúpadals. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit e3 í suðurátt til að rúma verkstæði og vélageymslu ásamt aukningu á byggingarmagni. Umsóknin er um mjög aukið byggingamagn. Áhrif á umhverfi verða talsverð. Tyrfa skal jaðra verkstæðis og vélageymslu með lyngþökum eða sambærilegum  þökum í samræmi við núverandi gróður í næsta nágrenni til að hús falli betur inn í landslagið og sé minna sýnilegt frá golfvelli. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að talsvert mikil bjartsýni er að halda því fram að lyngþökur séu lausn á útlitsumhverfisvandamáli. Slíkur gróður þarf mikla umönnun ef hann á að haldast. Varla er hægt að réttlæta mikið byggingarmagn með þessum rökum einum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á tillögu um að framlengja tímabundnar göngugötur í miðborginni, ásamt fylgiskjölum. R19040106
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í meirihlutasáttmála flokkanna sem mynda meirihlutann í borgarstjórn: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“ Það á því ekki að koma á óvart að verið sé að hrinda því í framkvæmd. Kannanir sýna að meirihluti íbúa er jákvæður gagnvart göngugötum og að jákvæðust séu þau sem heimsækja svæði göngugatna að minnsta kosti vikulega. Fulltrúar meirihlutans í borgarráði samþykkja því tillöguna um framlengingu tímabundinna göngugatna þar til 1. maí 2021 eða þegar nýtt deiliskipulag fyrir varanlegar göngugötur tekur gildi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í Morgunblaðinu í dag birtist auglýsing þar sem er farið hörðum orðum um Dag B. Eggertsson borgarstjóra og verk hans. Þar segir m.a. „Staðan í miðbæ Reykjavíkur er ískyggileg. Laugavegurinn, sem áður var aðalverslunargata bæjarins, hefur á örskömmum tíma orðið að draugagötu fyrir tilverknað borgaryfivalda.“ Félagsfundur Miðbæjarfélagsins í Reykjavík sem haldinn var í gær, 16. september, mótmælti harðlega árásum í formi götulokana á rekstraraðila. Fundurinn ályktaði m.a. eftirfarandi: „Lokanirnar hafa grafið undan atvinnustarfsemi við göturnar og fela í reynd í sér eignaupptöku þar sem verslunarhúsnæði verður illseljanlegt og hríðfellur í verði. Nú eru sem dæmi 34 rými tóm við Laugaveg, frá Snorrabraut að Bankastræti. Undanfarin tvö ár hafa á fimmta tug verslana horfið úr umræddum götum, þar af margar sem eiga sér áratuga langa sögu.“ Síðan segir: „Afgerandi meirihluti rekstraraðila er alfarið á móti götulokunum og borgarfulltrúum er það fullkunnugt. Í stað þess að hlusta á rök og staðreyndir eru sjónarmið kaupmanna og veitingamanna virt að vettugi og lífsviðurværi þeirra, starfsmanna þeirra og fjölskyldna sett í uppnám. Að ætla sér að bíta höfuðið af skömminni með vetrarlokun ofan á mislukkaða lokun í sumar er ekkert annað en meðvituð skemmdarstarfsemi borgaryfirvalda.“ Ekki er neinu við að bæta í þessu hryllilega máli.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Afleiðingar aðgerða meirihlutans blasa nú við og áfram skal haldið gegn straumnum. Hópurinn sem mótmælir fer stækkandi. Samþykkja á nú 2. áfanga Laugavegarins til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins finnur sárt til með þeim verslunum sem þarna eru og róa nú lífróður. Engum rann í grun að ástandið yrði svona slæmt enda átti enginn von á COVID sem gerði vissulega útslagið. Ef vel hefði verið haldið á spilunum væru Íslendingar í bænum mun meira en raun ber vitni. En með lokun fyrir umferð og með því að framlengja tímabundnar göngugötur er fátt um þá þarna. Þeir sem búa á svæðinu og í nágrenni þess eru vissulega í bænum en er þá upptalið utan þá sem sækja skemmtanalíf. Engir ferðamenn eru og verða ekki um ókominn tíma. Að framlengja tímabundnar göngugötur eru mistök og gerir bara illt verra. Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með líflausum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð? Þetta mun fara endanlega með suma rekstraraðila,  þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnist í haust og að landinn myndi heimsækja bæinn meira. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á nýrri gjaldskrá byggingarfulltrúa. R19010204
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. september 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr. R20090114
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að halda áfram verkefni sem hófst á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að verkefnið í heild bindi um 400 tonn af kolefni í jörðu sem nemur meðalakstri um 150 bíla á ári. Verkefnið er hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur, stefnu um endurheimt votlendis og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Svæðið sem um ræðir er á norðurbakka Úlfarsár frá sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ í austri að vegi niður að Víðimýri í vestri.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stefna meirihlutans er að viðhalda og hreyfa ekki við mýrum og öðru votlendi. Það er jákvætt skref að endurheimta eigi votlendi í Úlfarsárdal en það verður að teljast mikill tvískinnungur hjá meirihlutanum að verið sé að verja miklum fjármunum í endurheimtingu votlendis á sama tíma og Reykjavíkurborg stendur fyrir mikilli röskun í Vatnsmýrinni með verulegum áhrifum á lífríki og verndun votlendissvæða þar. Nú þegar hafa komið fram neikvæð staðbundin áhrif á vatnsbúskapinn í Vatnsmýrinni sem eiga eftir að að verða enn meiri með því mikla byggingarmagni sem fyrirhugað er á flugvallarsvæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn er verið að henda peningum út um gluggann í tilgangslaus gæluverkefni. Áfram er haldið að „moka ofan í skurði“ í Úlfarsárdalnum á meðan verið er að moka upp stærstu mýri í Reykjavík, Vatnsmýrina, sem skapar mjög mikla losun. Fyrri áfangi í Úlfarársdal kostaði 30 milljónir og nú þessi annar áfangi 30 milljónir eða samtals 60 milljónir. Þegar upp verður staðið er gert ráð fyrir að 100 milljónir verði settar í endurheimt votlendis í Reykjavík á næstu 5 árum. Það eru gríðarlegar upphæðir í gæluverkefni meirihlutans sem kennir sig við grænar áherslur á hátíðarstundum. Hvergi hefur verið sannað að endurheimt votlendis stöðvi útblástur gróðurhúsaloftstegunda. Ekki hefur tekist að sýna fram á rýnda rannsókn í þessa veru. Þess heldur hafa þessar aðgerðir mikið jarðrask í för með sér á uppgrónu landi og raskar fuglalífi á svæðinu. Eru þessar aðgerðir á pari við að ekki hefur tekist að sýna rýnda rannsókn um að laufskógar á norðurslóð dragi úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda – heldur þvert á móti því laufskógar á norðurslóð þéttir raka andrúmsloftsins sem leiðir til hækkunar hitastigs jarðar. En svona er forgangsröðun borgarstjóra og meirihlutans. Fyrst eru það gæluverkefnin og lögbundin verkefni og grunnþjónusta mæta afgangi. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð vill heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal. Um er að ræða 2. áfanga verkefnisins. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ekki sé  tímabært að bjóða verkið út. Undirbúningsvinnu er áfátt. Verktaki sem fær verkið hefur ólíklega sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður seint að hausti eða um hávetur. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaka er ætlað að loka skurðum og búa til einhverjar tjarnir á víð og dreif. Þetta þarf að forvinna miklu betur. Andfuglar sem nýta tjarnir þurfa að hafa tjarnir með skjóli, t.d. hólma. Að öðrum kosti fá fuglarnir ekki frið til að verpa og koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna og m.a. gera ráð fyrir tjörnum með hólmum. Skoða þarf gróðurfar og kanna sérstaklega hvort hlúa þurfi að einstökum plöntutegundum (dæmi gulstör, síkjamari, lófótur). Eftir slíka vinnu er fyrst tímabært að bjóða verkið út.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gangast fyrir hönnunarsamkeppni um endurgerð og stækkun Grófarhúss. Að loknu opnu forvali og samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands verði valin tillaga til áframhaldandi hönnunar og framkvæmda. Með framkvæmdinni sem felur í sér endurgerð Grófarhúss og tengingu við nýja viðbyggingu verði Grófarhúsið lifandi menningar- og samfélagshús í miðborg Reykjavíkur, fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur fyrir börn og fjölskyldur, og fólk á öllum aldri. Líkt og segir í formála að forsögninni þá á Grófarhús að vera pláss fyrir fólk þar sem allir eru velkomnir og upplifa að þeir séu það, fólk á að geta komið saman, verið eitt, leitað upplýsinga eða bara dvalið í fjölbreyttum herbergjum og vistarverum á sínum forsendum og notið jafns aðgengis að fjölbreyttu rými, upplifun og upplýsingum, óháð samfélagsstöðu, efnahag, kyni, heilsu eða þjóðerni. Gert er ráð fyrir að endurheimta upprunalegt útlit hússins og að áhersla verði lögð á endurnýtingu og sjálfbærni í samræmi við hugmyndafræði Græna plansins. Hugmyndir eru einnig um þakgarð þar sem borgarbúar geta notið samveru og útsýnis yfir höfnina og Grjótaþorpið. Stefnt verði að því að endurgerðin verði umhverfisvottuð og standist kröfur um græna fjármögnun. Til grundvallar endanlegri keppnislýsingu liggi meðfylgjandi gögn, drög að forsögn og vönduð stefnumótun Borgarbókasafns og svokallaðs flugráðs sem kallað var til til að fá fram áhugaverðar hugmyndir um útfærslu hússins. Gert verði ráð fyrir útfærslu á borgaraþjónustu á jarðhæð og sérstaklega hugað að þjónustuhönnun. Einnig hefur verið horft til framsækinna fyrirmynda erlendis og felur tillagan í sér feril með aðkomu alþjóðlegs sérfræðings, Aat Vos, með mikla reynslu af sambærilegum verkefnum, líkt og gögn bera með sér. Þetta á að tryggja vandaðan undirbúning og að verkefnið nái markmiðum sínum til fulls. Vakin er athygli á að gert er ráð fyrir að Borgarskjalasafn flytjist á nýjan stað. Könnunarviðræður standa yfir við Framkvæmdasýslu ríkisins um hugsanlega sameiginlega byggingu fyrir Þjóðskjalasafn og Borgarskjalasafn. Niðurstaða þeirra er ekki fengin. Fyrst um sinn verði Borgarskjalasafni því fundið viðeigandi húsnæði, t.d. í tengslum við núverandi leiguhúsnæðis safnsins í Vatnagörðum. Könnun á húsnæðiskostum stendur yfir og verður niðurstaða viðræðna, leigusamningur og áætlun um flutninga Borgarskjalasafns lögð fyrir borgarráð. R20060280

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja að blása til hönnunarsamkeppni um endurgerð og stækkun Grófarhúss. Að loknu opnu forvali og samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands verði valin tillaga til áframhaldandi hönnunar og framkvæmda. Með framkvæmdinni sem felur í sér endurgerð Grófarhúss og tengingu við nýja viðbyggingu verði Grófarhúsið lifandi menningar- og samfélagshús í miðborg Reykjavíkur, fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur fyrir börn og fjölskyldur, og fólk á öllum aldri. Líkt og segir í formála að forsögninni þá á Grófarhús að vera pláss fyrir fólk þar sem allir eru velkomnir og upplifa að þeir séu það, fólk á að geta komið saman, verið eitt, leitað upplýsinga eða bara dvalið í fjölbreyttum herbergjum og vistarverum á sínum forsendum og notið jafns aðgengis að fjölbreyttu rými, upplifun og upplýsingum, óháð samfélagsstöðu, efnahag, kyni, heilsu eða þjóðerni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Svo virðist sem margir lausir endar séu á tillögunni. Lykilforsendur vantar, m.a. liggur ekki fyrir hvert Borgarskjalasafn fer. Nauðsynlegt er að grunnforsendur liggi fyrir í þessu stóra verkefni, en endurbæturnar eiga að kosta 4,4 milljarða skv. frumkostnaðarætlun eða 590 þúsund krónur á m2 vegna endurbóta. Ljóst er að kostnaður við flutning Borgarskjalasafns er ekki inni í þessum tölum. Rétt væri að ljúka þarfagreiningunni áður en farið er af stað með hönnunarsamkeppni um verkefnið. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Guðrún Lilja Gunnarsdóttir, Pálína Magnúsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    -    Kl. 12.30 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum. 

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Minningarsjóður Þorbjarnar Hauks Liljarssonar – Öruggt skjól, greindi frá því að hafa sótt um húsnæði fyrir meira en einu og hálfu ári síðan fyrir fólk sem kemur úr fangelsum og meðferðum. Hver er staðan með húsnæðið og hvar stendur málið núna? R20090145

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Almennt er talið eðlilegt að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Hvað er Reykjavíkurborg að gera til að halda húsnæðisverði innan þeirra marka sem þarf fyrir láglaunafólk og/eða fyrstu kaupendur? R20090146

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvað hefur Yrki arkitektar ehf. fengið greitt tæmandi talið frá Reykjavíkurborg á árunum 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019 og það sem af er ári 2020? 2. Óskað er eftir að fá skilgreind þau verk sem Yrki arkitektar ehf. fengu með útboði tæmandi talið og fjárhæð að baki hverju verkefni. 3. Óskað er eftir að fá skilgreind þau verk sem Yrki arkitektar ehf. fengu með verðfyrirspurn tæmandi talið og fjárhæð að baki hverju verkefni. 4. Óskað er eftir að fá skilgreind þau verk þar sem Yrki arkitektar ehf. voru handvaldir tæmandi talið og fjárhæð að baki hverju verkefni sbr. t.d. uppbyggingaverkefni í Gufunesi. R20090147

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Áætlað er að auka votlendi í Úlfarsárdal. Það er vel, en þar vantar mikið upp á undirbúningsvinnu. Samkvæmt verkefninu „endurheimt votlendis – Úlfarsárdalur“ á að bjóða verkefnið út núna en það er  að hirða rusl o.fl. og fylla upp í þverskurði.  Reiknað er með að varðveita votlendisgróður. Verkið á að hefjast í september og ljúki áður en varp fugla hefjist á næsta ári. Flokkur fólksins leggur til að þessu útboði verði frestað því að svona vinnubrögð ganga ekki. Verktaki sem fær verkið hefur líklega ekki sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður  seint að hausti eða um hávetur og allra síst votlendisplöntur sem eru komnar í vetrarham. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja um hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaki á að loka skurðum en búa til einhverjar tjarnir. Andfuglar nýta tjarnir og í stórum tjörnum er hægt að gera hólma. Þá fá andfuglar frið frá t.d. heimilisköttum til koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna. Eftir slíka vinnu er tímabært að bjóða verkið út. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20090114
    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er staða ráðningarmála í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar? Á hverju hausti hefur verið vandi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður í leik- og grunnskólum sem og frístundaheimilum. Á þessu hausti var óráðið í all margar stöður. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver staðan sé nú þegar september er rúmlega hálfnaður. R20090143

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:09

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir