Borgarráð - Fundur nr. 5598

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 10. september, var haldinn 5598. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. september 2020, þar sem óskað er eftir borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Gerðarbrunni 52. R20080084
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. september 2020, varðandi niðurstöður úr fyrsta fasa í alþjóðlegu samkeppninni Reinventing Cities 2019.

    Óli Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði R19110011

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. september 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2020 á tillögu að þjónustusamningi við Tónlistarskóla Árbæjar vegna neðri stiga tónlistarnáms, ásamt fylgiskjölum. R20060276
    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu velferðarráðs, dags. 7. september 2020, um að fela velferðarsviði að óska eftir viðræðum við félagsmálaráðuneytið um þátttöku í reynsluverkefni til 12 mánaða um móttöku, aðstoð og þjónustu við hóp flóttafólks. R20090056

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg vill gera vel í þjónustu sinni við fólk sem fær alþjóðlega vernd eftir umsóknarferli á Íslandi og setur því kraft í ráðgjöf og aðstoð við þennan hóp. Ríkið hefur ekki fjármagnað þá fjölþættu þjónustu sem þessi hópur þarf og kvótaflóttafólk fá. Drög að nýju samkomulagi um móttöku flóttafólks sem var unnið á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins gerir ekki ráð fyrir þessum kostnaði. Því er vilji til að taka upp samtal um þennan þátt áður en tekin er afstaða til þess hvort Reykjavík vill taka þátt í þessu samstarfsverkefni. Metnaður okkar stendur til að geta áfram tryggt góða og metnaðarfulla umgjörð um móttöku fólks sem fær alþjóðlega vernd.

    Regína Ásvaldsdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 7. september 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2020. 
    Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnað.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 8. september 2020, um stuðning við íþrótta- og æskulýðsfélög vegna COVID-19. R20090071
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð samþykkti á fundi sínum 26. mars 2020 fyrstu aðgerðir Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna COVID - 19 sem fólu m.a. í sér að unnar yrðu tillögur um viðspyrnu í íþróttalífi Reykjavíkurborgar og hafa ÍTR og ÍBR verið sameiginlega í samskiptum við íþrótta- og æskulýðsfélög í borginni. Sendur var spurningarlisti til allra íþróttafélaga til að meta hugsanleg áhrif COVID - 19 faraldursins á starfsemi þessara aðila. Þau atriði sem horft var sérstaklega til var tekjutap félaga vegna útleigu eigin mannvirkja, aukinn kostnaður vegna reksturs barna- og unglingastarfs og viðhaldsóskir vegna eigin mannvirkja. Niðurstaðan var sú að samkomubannið hefur haft, og mun hafa, fjölþætt og neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga í borginni. Í samræmi við sameiginlegar tillögur ÍTR og ÍBR eru hér veittar 80 m.kr. til að styrkja íþrótta- og æskulýðsfélög vegna viðspyrnu og 55 m.kr. til að mæta viðhaldsóskum íþrótta- og æskulýðsfélaga. Samtals nemur kostnaður við tillöguna 135 m.kr.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. september 2020, ásamt fylgiskjölum.

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi milli Reykjavíkurborgar, Höfða friðarseturs og Háskóla Íslands um viðbótarframlag vegna Snjallræðis fyrir árið 2020. Reykjavíkurborg greiðir Höfða friðarsetri kr. 5.276.000 í styrk á árinu til þess að standa straum af kostnaði vegna viðburðarins Snjallræði. Kostnaðurinn rúmast innan fjárheimilda skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. R20090051

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Snjallræði er hraðall fyrir samfélagslega nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á vegum Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands en að hraðlinum kemur einnig öflugt net annarra samstarfsaðila. Markmiðið með hraðlinum er að veita þeim einstaklingum sem brenna fyrir bættu samfélagi vettvang til að þróa hugmyndir sínar áfram og finna þeim sjálfbæran farveg.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. september 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Drög að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum eru lögð fram til samþykktar. Óskað er eftir því að borgarráð skipi þrjá fulltrúa í stýrihópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi, bæði hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum og hvað varðar aðgengi að upplýsingum og þjónustu. R19120168

    Samþykkt.
    Jafnframt er samþykkt að Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Þorkell Heiðarsson taki sæti í stýrihópnum

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að leggja fram erindisbréf varðandi stýrihóp um heildstæða stefnu í aðgengismálum þar sem þrír fulltrúar eru skipaðir af borgarráði. Eitt af helstu verkefnum stýrihópsins er að gera tillögu um heildstæða stefnu Reykjavíkurborgar í aðgengismálum með algilda hönnun að leiðarljósi sem m.a. taki til hönnunar bygginga og borgarrýma, þjónustu og upplýsingaveitingar. Í stefnunni skal haft að leiðarljósi að koma til móts við ólíkar þarfir mismunandi hópa. Við gerð stefnunnar skal haft samráð við notendur þjónustunnar og aðra hagsmunaaðila. Að auki leiti stýrihópurinn ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu. Reglur Reykjavíkurborgar um starfs- og stýrihópa gera ráð fyrir því að stýrihópar sem sinni stefnumótun séu eingöngu skipaðir kjörnum fulltrúum en fulltrúi sósíalista undirstrikar mikilvægi þess að fólk með beina reynslu af þeim málefnum sem eru hér til umræðu komi að mótun stefnunnar. Mikilvægt er að ekki sé gert ráð fyrir því að vinna þeirra sé sjálfboðavinna þar sem það getur verið fullt starf að vinna í því að benda á hvað þarf að laga í samfélaginu, svo að það sé sannarlega fyrir okkur öll. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Drög að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum eru lögð fram til samþykktar af meirihlutanum. Óskað er eftir því að borgarráð skipi þrjá fulltrúa í stýrihópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi m.a. hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum. Flokkur fólksins vill að tryggt sé að fulltrúi frá hagsmunafélagi fatlaðra sitji í hópnum þar sem marka á heildstæða stefnu um aðgengismál. Mikilvægt er að þessi hópur hafi ekki loðinn tilgang sem oft vill verða þegar sagt er að gera eigi eitthvað „almennt“.  Aðgengismál eru hagsmunamál margra og sérstaklega þeirra sem glíma við líkamlega fötlun af einhverju tagi. Ekki á að móta stefnu um hagsmunahópa nema hafa fulltrúa þeirra með frá upphafi vinnunnar. Minnt er á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Reglur Reykjavíkurborgar um stýrihópa kveða á um að stýrihópar sem sinna stefnumótun séu eingöngu skipaðir kjörnum fulltrúum og hér er verið að skipa þá fulltrúa sem sitja fyrir borgarstjórn í aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks samhliða sex fulltrúum hagsmunasamtaka um málefni fatlaðs fólks. Verður að sjálfsögðu haft mikið og gott samráð við aðgengis- og samráðsnefndina og hagsmunasamtök fatlaðs fólks á öllum stigum máls í takt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

    -    Kl. 10:20 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2020, sbr. afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna nýja Skerjafjarðar, dags. 31. ágúst sl. Einnig er lagður fram uppfærður aðalskipulagsuppdráttur, dags. 1. september 2020. R20060271

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að verulegir annmarkar eru á aðalskipulagstillögunni að mati þeirra opinberru stofnanna sem fjalla um málið eins og sést í fylgiskjölum. Mikilvægt er að fjölga íbúðakostum í borginni en gæta verður að vandaðri stjórnsýslu þegar svo stór mál eru undir eins og raun ber vitni. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í samkomulagi milli ríkis og borgar frá 29. nóvember 2019 lýsti borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til að tryggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því hér kemur fram í tillögu að gerð nýs aðalskipulags fyrir Skerjafjörðinn að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur af hálfu borgarinnar. Skipulagsstofnun setur sig ekki á móti auglýsingu á breyttu aðalskipulagi en hefur fjölmargar athugasemdir við það og þá sérstaklega á sviði umhverfismála hvað varðar fyrirhugaða landfyllingu í Skerjafirði. Einnig er bent á að samkvæmt tillögunni er flugskýli Flugfélagsins Ernis inni á skipulagssvæðinu – ekki bara á einni mynd heldur mörgum. Þessi drög að breytingu á aðalskipulagi eru dagsett 1. september 2020. Er búið að falla frá þeirri ákvörðun að ganga ekki frekar á athafnasvæði flugvallarins á þessu svæði og hlífa flugrekstrinum fyrir ofríki meirihlutans?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafa verið lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að hlustað verði á athugasemdirnar, ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík.  Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu. Skipulagsyfirvöld eru hvött til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Þetta er ekki siðferðislega verjandi fyrir borg sem setur vernd náttúrulegra svæða í forgang og segist vilja standa vörð um náttúru í borgarlandinu. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 9. september 2020 varðandi tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund. Einnig lagt fram bréf Minjastofnunar Íslands, dags. 8. júlí 2020, um undirbúning friðlýsingar við Þerneyjarsund. R20080085

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 1. september sl. sendi Minjastofnun borgarstjóra bréf þess efnis að framkvæmdaleyfi til Björgunar yrði afturkallað vegna ólögmætrar málsmeðferðar með vísan í erindi frá stofnuninni til Reykjavíkur dags. 26. ágúst 2020. Í svari umhverfis- og skipulagssviðs til Minjastofnunar, dags. 28. ágúst sl., er fullyrt að málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við málsmeðferðarreglur. Minjastofnun bendir á að í 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga komi fram að áður en sveitastjórn gefi út framkvæmdaleyfi skulu gæta ákvæða IV. og VI. kafla um menningarminjar sem kveða á um að Minjastofnun ákveði að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Jafnframt segir að óheimilt sé að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar liggi fyrir. Reykjavíkurborg leitaði ekki umsagnar Minjastofnunar né gerði kröfu um að framkvæmdaraðilir legði fram slíka umsögn áður en framkvæmdaleyfi var veitt. Er það sérlega ámælisvert því í umhverfismatinu og áliti Skipulagsstofnunar kom fram að sækja þyrfti um leyfi Minjastofnunar vegna framkvæmdanna. Að auki hófust framkvæmdi án afmörkunar fornleifa og undrast Minjastofnun þá afstöðu Reykjavíkurborgar að málsmeðferðin hafi verið lögmæt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta mál er afar viðkvæmt. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögunni er að „verkstæði Sundabrautar sé undir“, hvað er átt við með því? Sundabraut er tenging yfir sundið og lega hennar hefur ekki verið ákveðin. Ekki er séð beint að þessi rök eigi hér við. Sérhagsmunir eiga aldrei að ganga framar almannahagsmunum. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað. Stjórnvöld eiga að vera þakklát nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á tillögum að útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. R20090057

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kynntar eru 3 lausnir en fulltrúar hafa ekki séð kynninguna og fá ekki að sjá. Lausnirnar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem er á samgönguáætlun fyrir 2021 er óafturkræft skipulags- og umhverfisslys, verði lending í málinu með þeim hætti. Hvergi er minnst á veginn í nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt, en hann mun kom til með að þrengja verulega að fyrirhuguðum Vetrargarði og eyðileggja eitt dýrmætasta græna útivistar- og útsýnissvæði borgarinnar. Arnarnesvegur er úrelt kosningaloforð Sjálfstæðismanna í Kópavogi. 
    Það er auðveldlega hægt að finna betri lausnir fyrir umferð inn í Kópavog sem kosta ekki svona gríðarlegar fjárhæðir og valda ekki svona miklu umhverfislegu tjóni. Hvað varð um áherslurnar á að vernda grænu svæðin og minnka losun gróðurhúsalofttegunda? Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður árið 2021 mun skera þessa gróðumiklu hæð í tvennt. Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati sem fjölmargir, þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs, telja alvarleg skipulagsmistök. Á þessu svæði er eitt fallegasta útsýni yfir Reykjavík. Þarna ætti að vera útsýnispallur til að allir getið notið yfirsýnar yfir Reykjavík. 

    Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Bryndís Friðriksdóttir, Erna Bára Hreinsdóttir og Berglind Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  12. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Græna planið, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 2020. R20060016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóri og meirihlutanum hefur verið tíðrætt um Græna planið og margt í því hefur ekki verið útskýrt  nægjanlega s.s. jarðhitagarður og hvað sé átt við með aukið aðgengi að mat og hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Reynt er að svara þessum spurningum af starfshópi  um undirbúning Græna plansins. Enn er þessi jarðhitagarður þó ráðgáta.  Fjallað er um aðgengi að hollum mat í matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2022. En er fjallað um aðgengi að hollum mat í Græna planinu? Sjálfsagt er að vinna að því að auka aðgengi að hollum mat en ekki síður þarf átak til að spyrna fótum  við matarsóun sem víða er á  stofnunum borgarinnar. Borgarmeirihlutinn er ekki beint að beita sér fyrir stórtækum aðgerðum þar. Einnig ber lítið á átaki  í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Ekki er nóg að setja á laggirnar stýrihópa. Hver mánuður skiptir máli þegar kemur t.d. að flokkunarmálum. Sorpið kemur mest frá fyrirtækjum. Hvað sem þessu líður sýnir svarið að spurningar Flokks fólksins áttu rétt á sér. Flækjustig virðist vera nokkuð og margt aðeins á umræðustigi.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi fullyrðinga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í fyrirspurn sinni til borgarráðs um að talsmenn SORPU hafi sagt að hreinsun gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað hefur borist athugasemd frá SORPU þess efnis að slíkar fullyrðingar hafi aldrei verið viðhafðar af talsmönnum fyrirtækisins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fór í heimsókn til GAJU og tók niður punkta. Þar kom fram að hreinsun í GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað. Enn er spurt hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat vegna útilistaverks í Vogabyggð, sbr. 68. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 2020. R19010428

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins spurði hvað væri að frétta af raunhæfismati á útilistaverki í Vogabyggð. Fram kemur að raunhæfismatið er ekki hafið en er á dagskrá. Matið verður unnið af óháðum ráðgjöfum ásamt sérfræðingum umhverfis- og skipulagssviðs. Áætlaður kostnaður við raunhæfismatið liggur ekki fyrir.  Í raunhæfismatsferlinu á að planta trjám á opnum svæðum og athuga hvort þau lifi. Þetta getur tekið mörg ár og orðið ansi fjárfrekt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að nú þegar hafa sterkar vísbendingar komið fram um að þetta gangi ekki, sé ekki aðeins óraunhæft heldur hrein og klár vitleysa. Mörgum finnst það stórt álitamál og jafnvel ábyrgðarhluti að borgarmeirihlutinn ætli að verja bæði tíma og  fjármagni í eitthvað sem er ljóst  að muni ekki ganga. Hér er gott dæmi þess hvernig fé og tíma er eytt í gæluverkefni í stað þess að huga að þarfari hlutum eins og að styrkja grunnþjónustu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að verið sé að teygja málið því meirihlutinn á erfitt með að viðurkenna mistök. En gerði hann það, væri hann maður að meiri!

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ekki er verið að „teygja“ málið líkt og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins heldur fram heldur kemur beinlínis fram í svarinu eftirfarandi: „Ekki eru tafir á undirbúningsvinnu eða framkvæmdum í Vogabyggð vegna raunhæfismatsins“.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það geta öllum orðið á mistök og er tímabært að skipulagsyfirvöld viðurkenni klúður sitt varðandi þetta pálmadæmi í Vogahverfi og spari þar með  borgarbúum óþarfa útgjöld.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til styrkþega vegna aflýsingar Menningarnætur 2020, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. ágúst 2020. R20080056

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mikil viðurkenning og heiður að vera valinn úr 177 umsóknum til að flytja listviðburð á Menningarnótt sem kostaður átti að vera úr Menningarnæturpotti Landsbankans. Verkefnastjórn fór yfir umsóknir, valdi 36 verkefni og bindandi samningur var gerður. Í 1. gr. samningsins segir: „Styrkþegi skuldbindur sig til að framkvæma hið styrkveitta verkefni á Menningarnótt 2020, þ.e.a.s. á tímabilinu 13.-23. ágúst 2020“. Þetta ákvæði er afar afgerandi og meginreglur samningaréttar eru að samningar skulu standa. Reykjavíkurborg getur ekki borið fyrir sig forsendubresti því borgin hætti við Menningarnótt með þriggja daga fyrirvara. Á þessum tíma voru styrkþegar búnir að æfa stíft fyrir hátíðina og sumir búnir að leggja út í kostnað. Ljóst er á svarinu að Landsbankinn ætlar að standa við sínar greiðslur til Reykjavíkurborgar upp á 8 milljónir. Því er það óskiljanleg ráðstöfun að ákveðið hefur verið að greiða styrkþegum einungis 25% af áætluðum styrk. Þau 75% sem eftir standa eiga að fara til menningar- og listaverkefna í Reykjavík í haust og vetur. Það er afgerandi brot á samningnum við styrkþega og algjör álitshnekkur fyrir Reykjavík. Því er mælst til að borgin endurskoði afstöðu sína gagnvart styrkþegum nú þegar, standi við menningarnætursamningana og greiði þeim umsamdar fjárhæðir.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 3. september 2020. R20060037

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. september 2020. R20010027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að mörgum spurningum er ósvarað sem lúta að samgöngubótum í norðanverðum Grafarvogi, t.d. gönguleiðir milli Korpusvæðisins og Hamrasvæðisins. Það er byrjað á framkvæmdunum en það er hvergi nærri gengið eins langt og var nefnt í sameiningarferlinu eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Þá var talað um undirgöng og umferðaljós, hafa þau loforð verið efnd? Staðsetning biðskýlis við Korpúlfsstaðaveg, Brúnastaði  er  alltof nálægt götunni. Börnin standa nánast út á götu þegar beðið er eftir skólarútunni. Hraðinn þarna er oft á tíðum mikill og því veruleg slysahætta á þessu svæði. Þar fyrir utan er það lýsing á göngustíg frá horni Garðsstaða og að einum undirgöngunum á svæðinu sem er ábótavant. Þetta eru atriði sem virðast hafa fallið utan þess sem er verið að gera og ljóst að þetta með staðsetningu skýlisins og hættunnar þar er gríðarlega mikið öryggismál og með því stærsta á svæðinu öllu. Auðvitað vonar fulltrúi Flokks fólksins að það sem verið er að gera leiði til breytinga og hjálpi til við að auka öryggi barnanna.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020.
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. R20010008

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar: 

    Hér er lýst yfir algjörum forsendubresti. Borgarstjóri og meirihlutinn taka einhliða ákvörðun um lokun Laugavegarins allt árið um kring einungis 21 degi fyrir fyrirhugaða opnun fyrir bílaumferð. Fyrirvarinn er enginn. 30 milljónum var eytt í sérstakt kynningarátak á þessu svæði í sumar og tilgangurinn var að „glæða miðbæinn lífi“. Nú er ljóst að þeim peningum var fleygt þráðbeint út um gluggann en gæluverkefnin þurfa sitt. Nú er verið að samþykkja bráðabirgðaverkferil um að hafa Laugaveginn og þær götur í nágrenni hans sem skilgreindar hafa verið göngugötur lokaðar fyrir bílaumferð til 1. maí 2021 eða þar til nýtt deiliskipulag tekur gildi um varanlega lokun. Þessi ákvörðun kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Með öðrum orðum – það er búið að skella Laugaveginum í lás til framtíðar án nokkurs samráðs við rekstraraðila sem þó eru að berjast í bökkum að halda uppi þjónustu svo að miðbærinn sé ekki steindauður. Þetta eru ískaldar kveðjur frá meirihlutanum í upphafi hausts, ekki bara til rekstraraðila heldur líka landsmanna allra. Borgarstjóri og meirihlutinn eiga ekki Laugaveginn og nágrenni hans.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Það verður að fara fram endurskoðun á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi sem er 1,3 km langur þjóðvegur í þéttbýli á milli Rjúpnavegar í Kópavogi og Breiðholtsbrautar í Reykjavík. Hann er á samgönguáætlun 2021 í samræmi við eldgamalt og úrelt umhverfismat frá 2003 og eru mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut á meðal forsendna. Síðan þá hafa flestar forsendur breyst mikið. Vegurinn kæmi til með að valda gríðarlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði og þrengja mjög að væntanlegum vetrargarði skv. nýju hverfisskipulagi Breiðholts. Þá liggur fyrirhugað vegarstæði hærra en aðrir þjóðvegir í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og þar er mjög snjóþungt. Flestar forsendur vegalagningarinnar  hafa breyst.  Íbúar í ofanverðu  Breiðholti hafa gert alvarlegar athugasemdir við lagningu Arnarnesvegar í gegnum Vatnsendahvarf allt frá 1983, og svo við umhverfismatið frá 2003. Það verður að gera nýtt umhverfismat  fyrir vestanvert Vatnsendahvarf vegna breyttra forsendna, með hliðsjón af uppbyggingu Vetrargarðs, og þar með eflingu á grænu útivistarsvæði í Vatnsendahvarfi sem bæði gagnast Reykvíkingum og Kópavogsbúum. Kanna á aðra og  mun ódýrari kosti til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar.

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram fundargerðir verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 24. mars og 26. maí 2020. R20030025

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fróðlegt væri að vita hver helstu verkefni fulltrúa og áheyrnarfulltrúa eru í verkefnastjórn miðborgarmála.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R20080176

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið yfirlitsins: 

    Um miðjan ágúst 2020 þurftu foreldrar/forráðamenn átta barna að ganga frá vanskilum leikskólagjalda eða semja um þau svo að barnið fengi notið þjónustunnar í haust. Einnig fengu foreldrar sjö barna ítrekun á uppsögn og höfðu frest til næstu mánaðamóta til að ganga frá vanskilum. Í lok ágúst sendi Reykjavíkurborg frá sér fréttatilkynningu um að engum börnum hafi verið sagt upp leikskólaþjónustu vegna fjárhagsvanda foreldra. Þó að það hafi ekki komið til þess, þá veldur það gríðarlegu álagi fyrir foreldra að hafa það hangandi yfir sér að barni geti verið neitað um pláss vegna fjárhagserfiðleika. Umboðsmaður barna fjallar um málið í erindi til skrifstofu borgarstjóra og skorar á Reykjavíkurborg að taka verklag borgarinnar til endurskoðunar þannig að tryggt sé að börn fái í öllum tilvikum, óháð aðstæðum foreldra þeirra, notið réttar síns til framfærslu, menntunar og þroska. Fulltrúi sósíalista tekur undir efni bréfsins og sérstaklega eftirfarandi orð: „Hlúa þarf sérstaklega að börnum sem búa við fátækt á heimili sínu því það felur ekki eingöngu í sér skort á veraldlegum gæðum heldur sömuleiðis að búa við skert tækifæri, mikið óöryggi og streitu. Börn í þeirri stöðu þurfa því sérstaklega á þeim stuðningi að halda sem leikskólar geta veitt og eiga að veita“.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir orð umboðsmanns barna þar sem hún segir að ákvörðun sveitarfélags um að synja foreldrum í erfiðri stöðu um vistun fyrir barn í leikskóla sé eingöngu til þess fallin að auka á erfiðleika viðkomandi heimilis með því að gera foreldrum síður kleift að stunda vinnu utan heimilis og framfæra börn sín. Þannig minnka sömuleiðis líkurnar á því að skuldir foreldra við sveitarfélagið verði greiddar. Tilefni bréfsins er að fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Dæmi eru um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum. Í mannréttindastefnu og Barnasáttmálanum segir að börn skuli hafa jafnan rétt án tillits til m.a. efnahagsástands foreldra. Börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir fátækt. Huga þarf einmitt sérstaklega að börnum í aðstæðum þar sem fátækt ríkir en ekki útiloka þau með því að meina þeim vist í leikskóla af því að foreldrar þeira geti ekki borgað. Nú er aðstæður vegna COVID að koma skýrar í ljós. Róður er þungur hjá mörgum foreldrum og á eftir að þyngjast enn.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20080177

    Fylgigögn

  21. Lagt fram erindi Hjólafærni á Íslandi, dags. 8. september 2020, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki breytingar á ráðstöfun styrks til félagsins, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar 2020. R20010036
    Samþykkt.

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Borgarráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að ráðast í greiningarvinnu á fyrirsjáanlega auknu magni skrifstofuhúsnæðis í miðborginni næstu árin. Hér mætti nefna þær þúsundir skrifstofufermetra sem standa munu auðar þegar Landsbankinn flytur starfsemi sína í nýjar höfuðstöðvar að Austurbakka. Í kjölfar greiningarvinnu verði sviðinu falið að útfæra tillögur að sveigjanlegum lausnum er varða nýtingarmöguleika þeirra eigna sem um ræðir. Þannig verði kannaðir möguleikar á breyttri notkun mannvirkjanna, t.d. hvernig þeim megi breyta í íbúðarhúsnæði, gististaði, veitingahús eða skólabyggingar, svo eitthvað sé nefnt. Tillögurnar verði unnar í samstarfi við hlutaðeigandi fasteignaeigendur með fulla nýtingu að markmiði og verði að endingu bornar undir borgarráð til samþykkis. R20090083

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:06

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1009.pdf