Borgarráð - Fundur nr. 5597

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 3. september, var haldinn 5597. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason. Pétur Ólafsson tók jafnframt sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. september 2020, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 1. september 2020 á tillögu um framlengingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, ásamt fylgiskjölum. R18060129

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 24. ágúst 2020. R20010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Afkoma hefur versnað vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Tekjur hafa dregist saman og útgjöld aukist. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.111 m.kr. aðallega vegna lægri skatttekna af sölu byggingarréttar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel, m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin er illa undirbúin til að mæta áfalli sem þessu, alla vega þegar horft er til skuldastöðunnar. Velferðarsviði er ætlað að skera niður, hagræða, sem er í mótsögn við bréf borgarstjóra þar sem hann segir að varhugavert sé við þessar aðstæður að fara í niðurskurð. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á loforðin í meirihlutasáttmálanum og það lögbundna hlutverk að gæta að velferð borgarbúa ávallt og ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru. Hlutverk borgarinnar er að þjónusta alla þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Einnig á að hækka gjaldskrár þrátt fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga mælist til að haldið sé aftur að gjaldskrárhækkunum. Afkoma dótturfyrirtækja hefur þess utan versnað til muna. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. sex mánuðum. Í stað þess að greiða niður skuldir í góðæri hefur borgin aukið skuldir.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 27. ágúst 2020. R20060037

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Yfirstjórn Reykjavíkurborgar starfar í umboði borgarstjórnar. Aðeins einn kjörinn fulltrúi á sæti í stjórninni, það er borgarstjóri, sem er jafnframt ábyrgðarmaður hennar. Yfirstjórnin tók ákvörðun um kaup á ellefu aðgangskortum en alls eiga sæti í henni fjórtán embættismenn. Var því um að ræða ákvörðun um kort fyrir meirihluta fulltrúa. Sökum þess að kostnaður við hvert kort var skráður á svið þess stjórnanda sem skyldi hafa umráð þess, og hann því ekki birtur á yfirlitum sem komu fyrir innkauparáð Reykjavíkurborgar, voru möguleikar minnihlutans til aðkomu að ákvörðunartökunni eða eftirlits með innkaupunum engir. Fá ef einhver fordæmi eru fyrir innkaupum eins og þessum og því hefði verið æskilegt að tryggja slíka aðkomu. Eðlilegt hefði verið að borgarstjóri hefði borið þessa ákvörðun undir borgarráð eða borgarstjórn, samanber hlutverk yfirstjórnar. Fulltrúarnir árétta að það er fagnaðarefni ef hægt er að nýta þjónustu einkaframtaks. Aftur á móti er nóg af fundarstöðum víða um borgina. Velta má fyrir sér hvers vegna það sé ekki nýtt og hvort hugsanlega séu þá tilefni til þess að endurskoða eignarhald á því húsnæði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 2. september 2020. R20010008

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:

    Í annað sinn eru áætlanir Reykjavíkurborgar við byggingu risahúss á útivistarsvæði nágranna Hagasels 23 dæmdar ólöglegar af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og jafnframt er þetta í annað sinn sem almennir borgarar hafa sigur gagnvart stjórnvaldinu Reykjavíkurborg. Það er mikið fagnaðarefni. Félagsbústaðir eiga það inni hjá Reykjavíkurborg að fundin verði önnur lóð undir starfsemina sem vera á í húsinu. Íbúar hafa marglýst því yfir að þessi lóð er mikið notuð af íbúum jafnt að sumri sem vetri. Það er með öllu óskiljanlegt að borgin leggi slíka áherslu á að útrýma þessu græna svæði sem er hjartað í hverfinu með rúmlega 600 fermetra byggingu. Ég hvet borgaryfirvöld að falla frá þessum uppbyggingaráformum á þessum stað í stað þess að minnka bygginguna svo hún falli að skipulaginu. Það er borginni ekki sæmandi að vera í stríði við íbúa og þrengingarstefna meirihlutans á ekkert erindi inn í þetta rótgróna hverfi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga borgarlínu, Ártúnsholt–Hamraborg var lögð fyrir skipulagsfund 2. september sl. Fulltrúi Flokks fólksins finnst vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu. Hér er átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn. Koma þarf sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Eftir því sem næst er komist liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi enda væri ekki annað boðlegt nú þegar krafa er um orkuskipti hið fyrsta. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn ætti að vera metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta metan, þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta, framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R20080176

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins:

    Athygli er vakin á því að Minjastofnun hefur veitt Reykjavíkurborg umbeðinn frest til 11. september nk. til að gera formlegar og efnislegar athugasemdir við tillögu stofnunarinnar að friðlýsa menningar- og búsetulandslag við Þerneyjarsund í Þerney og Álfsnesi. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið yfirlitsins:

    Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. ágúst 2020, um að gjald fyrir skólamáltíðir verði lækkað hafi verið vísað til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2021. Það er afar mikilvægt að þessi tillaga verði skoðuð með opnum huga. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og ætti að vera leiðandi í ákvörðunum sem lúta að bættum hag barna. Tryggasta leiðin til að fullvissa liggi fyrir að ekkert barn sé svangt í skólanum er auðvitað að matur í skóla sé gjaldfrjáls. Flokkur fólksins hefur tvisvar lagt fram þá tillögu en hafði ekki erindi sem erfiði. En nú liggur fyrir tillaga um lækkun gjaldsins og vonast fulltrúi Flokks fólksins að hún komist inn fyrir dyragætt fjárhagsáætlunar og leiði til þess að skólamáltíðir verði lækkaðar. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Skólamáltíðir eru umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20080177

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna kaupa Reykjavíkurborgar á Varmadal, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. R20070147

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er ekki fullnægjandi svar. Óskað var eftir „öllum skriflegum gögnum þegar Reykjavíkurborg keypti jörðina Varmadal, hvort sem um er að ræða glærusýningar sem notaðar voru í grenndarkynningu, fundargerðir og önnur skrifleg gögn sem til eru í málinu.“ Óskað er eftir að þessari fyrirspurn sé beint til umhverfis- og skipulagssviðs til svars. Hér er átt við allar glærur og kynningarefni sem notað var af hálfu borgarinnar og sviðsins ásamt fundargerð á grenndarkynningar- og íbúafundum eftir kaupin á Varmadal vegna deiliskipulags í sambandi við uppbyggingu á Esjumelum og fyrirhugaðar notkunar á landssvæðinu fyrir léttan iðnað.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um leigutekjur, leigutaka og leiguverð árið 2019, sbr. 65. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 2020. R20050320

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Svarið um leiguupphæðir og leigutaka borgarinnar eru athyglisverðar í ljósi fyrra svars um leigukostnað leigutaka sem lagt var fram 25. júní 2020 og finna má á þessari slóð. Til að gera samanburðinn marktækan þá er lögð fram á þessum fundi ný fyrirspurn og óskað eftir leigugreiðslum pr. fermeter. Leigutekjur borgarinnar af húsnæði í eigu borgarinnar eru um hálfur milljarður. Athygli vekur hvað fermetraverð er lágt. Það færir heim sönnur á fjölmargar ábendingar sem mér hafa borist um að borgin leigi húsnæði sitt mjög ódýrt. Ekki eru gerðar athugasemdir við lága leigu til líknarfélaga og þeirra sem starfa í þriðja geiranum. Leigutekjur fara allt niður fyrir 100 kr. pr. fermeter og hæst í 8.435 kr. Einungis 16 leigutakar greiða hærri leigu en 2.000 kr. af 74 leigusamningum. Íslenska gámafélagið leigir t.d. fjórar fasteignir í Gufunesi á 350 kr. pr. fermeter að meðaltali. Mathöll á Hlemmi sem er í samkeppni í veitingarekstri leigir að meðaltali á 1.830 fermetrann. Eigum við eitthvað að ræða forskotið sem borgin er að gefa rekstraraðilum á Hlemmi samanborið við leiguverð í miðbænum sem veitingamenn eiga að inna af hendi til einkaaðila. Hæglega má segja að um opinbera aðstoð sé að ræða sem er ólögleg samkvæmt EES-samningnum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er engan veginn hægt að taka meðaltal af leiguverði Mathallar á Hlemmi, annars vegar frá Mathöllinni sjálfri og síðan geymsluhúsnæði í kjallara svokallaðrar. Gasstöðvar líkt og gert er í bókun fulltrúa Miðflokksins. Það er mjög villandi. Meginatriðið er það að við ákvörðun á leiguverði Mathallarinnar var tekið mið af mati fleiri en eins fasteignasala á markaðsverði þess tíma þegar samningar voru gerðir, líkt og oft hefur komið fram og er til fyrirmyndar. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í fyrri bókun var tekið meðaltal leiguverðs sem merkt er „Hlemmur mathöll ehf“. En úr því verið er að hártoga málið þá er leiguverð upp á 2.341 kr. pr. fermeter á Hlemmi fyrir veitingarekstur í samkeppni við einkaðila í miðbænum fáheyrð lág upphæð og stenst tæpast styrkjareglur EES um opinberan stuðning við fyrirtæki á samkeppnismarkaði.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 31. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð staðfesti drög að bráðabirgða samstarfssamningi við Listahátíð í Reykjavík um umsjón Iðnó, ásamt fylgiskjölum. R20050266

    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. ágúst 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vestur, svæði 4, vegna lóðar G, ásamt fylgiskjölum. R17120148

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. ágúst 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar 2 vegna lóðarinnar nr. 9-11 við Súðarvog, ásamt fylgiskjölum. R20060099

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. ágúst 2020 á breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu, ásamt fylgiskjölum. R20040124

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út 1. áfanga framkvæmda vegna breytinga á Snorrabraut við Borgartún. Kostnaðaráætlun 2 er 40 m.kr. R20080183

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verkefnið er í samræmi við deiliskipulag fyrir Hlemm og nágrenni sem borgarráð samþykkti í mars á þessu ári. Um er að ræða fyrsta áfanga framkvæmda við gerð nýrra gatnamóta og lagfæringa á göngustígum og hjólastígum við Snorrabraut og Borgartún.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að vinna í góðu samráði við lögregluna varðandi aðgengi og aksturleiðir við Hlemm. Hugmyndir um að finna annan stað fyrir starfssemi hennar er í gangi og er mikilvægt að sú vinna gangi hratt og örugglega fyrir sig. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er hreint með ólíkindum að borgarstjóri og meirihlutinn ætli að fara í þessar gerræðislegu framkvæmdir þvert á vilja lögreglunnar. Í upphafi þessa máls lagði lögreglan inn ítarlega umsögn í þá veru að viðbragðsflýti frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu yrði stefnt í hættu þegar framkvæmdirnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Öryggissjónarmið sem snúa að viðbragðsflýti lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs sem snúa að vernd borgaranna hafa aldrei truflað meirihlutann. Minnt er á að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er formaður stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og ber því ábyrð á almannavörnum á höfuðborgarsvæðinu. Almannavarnir eru samnefnari viðbragða og úrræða þegar hættu- og neyðarástand skapast á höfuðborgarsvæðinu. Þrengingarstefna meirihlutans trompar almannavarnir í borginni. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir raðhús að Rökkvatjörn 5-11. R20080062

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 21. R20080172

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að Leigufélag aldraðra hses. verði nýr lóðarhafi og eigandi byggingarréttar að lóðinni Vatnsholt 1. R20080074

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. ágúst 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Nýsköpunarvikuna árið 2020 um 1 m.kr. Nýsköpunarvikan er ný hátíð í Reykjavík sem verður haldin dagana 30. september-7. október 2020. Markmiðið er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar á Íslandi, gefa fyrirtækum og sprotum tækifæri á að kynna eigin nýsköpun og deila þekkingu úr nýsköpunarsamfélaginu með almenningi. Kostnaðurinn verður færður af kostnaðarstað 09207. R20030145

     

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýsköpunarvikan er ný hátíð í Reykjavík sem verður haldin í lok september og byrjun október. Markmiðið er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar á Íslandi, gefa fyrirtækjum og sprotum tækifæri á að kynna eigin nýsköpun og deila þekkingu úr nýsköpunarsamfélaginu með almenningi. Gildi nýsköpunar eru ótvíræð og vettvangur sem þessi mikilvægur - einkum nú á tímum heimsfaraldurs.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. ágúst 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundasviðs á tillögu um afturköllun á ákvörðun um stækkun Vinagarðs, ásamt fylgiskjölum. R20060133

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundasviðs á tillögu um reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19070010

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða breytingu á áður samþykktri tillögu varðandi skólaakstur og afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum. Breytingin felur í sér að fallið er frá áformum um að leggja af skólaakstur í þremur hverfum borgarinnar, Staðahverfi, Skerjafirði og Suðurhlíðum m.a. vegna sjónarmiða sem komu fram í umsögnum foreldra en hins vegar er samþykkt að taka upp strætókort í stað farmiða sem mun hafa í för með sér verulegan ábata fyrir umrædda nemendur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að nú skuli loks vera fallið frá þeirri hugmynd meirihlutans að afleggja skólaakstur í Skerjafirði, Staðahverfi og Suðurhlíðum. Með því er tekið undir áralanga baráttu íbúa þar sem skólabörn þurfa að reiða sig á þjónustu skólaaksturs, að forgangsraðað sé í þágu öryggis skólabarnanna. Það vekur athygli að verð á einstökum farmiðum Strætó séu það há að mun ódýrara sé að kaupa heilsárskort. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið fagnaðarefni að fallið hefur verið frá þeirri ákvörðun um að afleggja skólaakstur í Suðurhlíðum, Skerjafirði og Staðahverfi. Skólaakstur er mikið öryggisatriði fyrir foreldra og börn sem nota þjónustuna. Einnig er það mjög umhverfisvænt og mikið öryggisatriði að hafa einn „skólabíl“ fyrir börnin í stað þess að hvert og eitt foreldri keyri sitt barn/börn í skólann. Oft hefur skapast mikil ringulreið og umferðarteppur við skólana í upphafi skóladags. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fyrir borgarráð tillaga skóla- og frístundasviðs um að afhenda börnum í grunnskólum borgarinnar kort frekar en strætómiða. Staðfest er að ekki verði gerðar neinar frekari breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Áfram verður því skólaakstur aðeins frá skráðu lögheimili. Hvað með börnin sem búa á tveimur heimilum en geta aðeins átt eitt lögheimili þar sem löggjafanum hefur ekki borið gæfa til að gera breytingar í samræmi við þann veruleika sem margir búa við núna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað. Með þennan hóp hefði þurft að gera undantekningu ef vegalengd frá heimili/lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km til að gæta að jafnræði.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytta verklagsreglu um kaup og sölu fasteigna hjá Reykjavíkurborg. R20080174

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa til leigu Víðinesveg 30, ásamt fylgiskjölum. R20080173

    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. ágúst 2020, til eftirlitsnefndar sveitarfélaga varðandi fjárfestingarverkefni Reykjavíkurborgar á árinu 2019, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R19030133

    Fylgigögn

  23. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. ágúst 2020, varðandi áhrif veðhæfni skuldabréfa Reykjavíkurborgar hjá Seðlabanka Íslands, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir, Helga Benediktsdóttir Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R20040131

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. ágúst 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að sú forgangsröðun varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem fram kemur í hjálögðu skilabréfi stýrihóps um stefnu í íþróttamálum, verði höfð til hliðsjónar við undirbúning 10 ára fjárfestingaráætlunar Reykjavíkurborgar. Eftir atvikum verði tillögur að frekari útfærslu, samninga eða málsmeðferð varðandi einstök verkefni lögð fyrir borgarráð.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20040163

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík verði höfð til hliðsjónar við undirbúning 10 ára fjárfestingaráætlunar borgarinnar. Verkefnin voru metin út frá fjárhagslegum og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður hópsins þá þörf sem til staðar er í borginni. Uppbyggingin sem mun taka tíma nær frá Vesturbæ og upp í Breiðholt. Um tímamótaáætlun er að ræða þar sem horft er til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík og þeim forgangsraðað.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagðar eru fram í borgarráði niðurstöður stýrihóps um forgangsröðun mannvirkja vegna stefnu í íþróttamálum til 2030. Á listanum eru framtíðarmannvirki röðuð eftir félags- og fjármálaskorum. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar nú ekkert að fjölyrða um áreiðanleika þessarar aðferðarfræði sem hér er notuð. En ef reisa á fimleikahús á hiklaust að reisa það í hverfi 111 í Breiðholti, hús sem rúmar flestar íþróttagreinar og mikilvægt er að það verði í nafni Leiknis. Þar með er Leiknir orðið hverfisfélag fyrir hverfi 111 og sannarlega kominn tími til að svo verði. Yfirvöld í borginni verða að styðja betur við Leikni og það frábæra starf sem unnið er í hverfinu. Í þessu hverfi býr hæsta hlutfall fátæks fólks og hæsta hlutfall erlendra borgara. Nú er verið að ljúka við knatthús í Suður-Mjódd sem nýtist hverfi 111 lítið sem ekkert. Spurning er einnig með að ljúka tengibyggingu fyrir keiludeild ÍR sem er öflug deild. Borgin greiðir 32 milljónir á ári í brautarleigu í Egilshöll í staðinn fyrir að klára bygginguna með salnum fyrir rúmar 100 milljónir (held að það séu 120), sem mun borga sig upp á nokkrum árum. Þá er einnig möguleiki á að styrkja starfið og auglýsa það betur innan hverfis (Breiðholtið).

    Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Ingvar Sverrisson, Frímann A. Ferdínandsson, Steinþór Einarsson og Ómar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 31. ágúst 2020, við tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, 968. mál. R18010355

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og fram kemur í umsögn borgarinnar er varað við of bjartsýnni spá fjármálaráðuneytis á útsvarstekjum sveitarfélaga sem tekur ekki mið af spám sjálfra sveitarfélaganna, heldur líkani ráðuneytisins. Þá virðast framlög ríkis til sveitarfélaga ofmetinn í áætluninni. Um leið er varað við því í umsögn að með lækkandi skatttekjum ríkisins fari framlög til jöfnunarsjóðs lækkandi samfara því. Minni sveitarfélög landsins reiða sig að miklu leyti á tekjur jöfnunarsjóðs til að sinna grunnþjónustu og því þarf að tryggja fjármögnun hans. Auk þess er launakostnaður sveitarfélaga vanmetinn í áætluninni og útgjöld sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar sömuleiðis. Í heimsfaraldri eins og við glímum við núna er óvissan stærsta breytan. Það er því mikilvægt að ríkið standi á bakvið sveitarfélög líkt og ríkisstjórnir víða um heim hafa gert. Ríkið þarf að tryggja stöðugleika, tryggja hátt fjárfestingarstig opinberra aðila, en um leið að koma veg fyrir að grunnþjónusta sveitarfélaga verði skorin niður í kjölfar mikils tekjufalls þeirra.

    Fylgigögn

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Með ferðakostnaði er átt við ferðalög, hótelkostnað, uppihald og dagpeninga á Íslandi og erlendis. Hvað hefur ferðakostnaður Reykjavíkur lækkað mikið á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við árið 2019? Óskað er eftir sundurliðun fyrir A-hluta, með öllum undirstofnunum, sundurliðun fyrir yfirstjórn án undistofnana og samstæðunnar í heild. R20090031

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  27. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Þann 25. júní sl. var lagt fram svar við fyrirspurn minni um leigukostnað Reykjavíkur á árinu 2019. Svarið má finna á þessari slóð. Nú hefur borist svar um leigutekjur leigutaka borgarinnar sjá hér. Til að fá sem gleggsta mynd af leigutekjum og leigugjöldum borgarinnar er nauðsynlegt að greina kostnað og tekjur niður á fermetra. Því er óskað er eftir að fá leiguverð pr. fermetra sem Reykjavíkurborg leigir eftir eignum að undanskildu íbúðarhúsnæði. R20050320

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  28. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Vísað er til svars fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna kaupa Reykjavíkurborgar á Varmadal, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. Þetta er ekki fullnægjandi svar. Óskað var eftir „öllum skriflegum gögnum þegar Reykjavíkurborg keypti jörðina Varmadal, hvort sem um er að ræða glærusýningar sem notaðar voru í grenndarkynningu, fundargerðir og önnur skrifleg gögn sem til eru í málinu.“ Óskað er eftir að þessari fyrirspurn sé beint til umhverfis- og skipulagssviðs til svars. Hér er átt við allar glærur og kynningarefni sem notað var af hálfu borgarinnar og sviðsins ásamt fundargerð á grenndarkynningar- og íbúafundum eftir kaupin á Varmadal vegna deiliskipulags í sambandi við uppbyggingu á Esjumelum og fyrirhugaðar notkunar á landssvæðinu fyrir léttan iðnað. R20070147

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Huga þarf að þessum hópi út frá stöðu þeirra í skóla- og frístundakerfinu, félagslega og ekki síst námslega s.s. námsgreinar sem snúa að lestrar- og íslenskukennslu. Skortur er á almennum úrræðum og fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum. Staða margra þessara barna er slæm og hætta er á að þau einangrist. Árið 2014 var settur af stað hópur af skóla- og frístundaráði sem hafði það hlutverk að móta stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf. Í stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf eru ýmsar tillögur og ábendingar en óljóst er hvað af þessum tillögum/ábendingum hafa komist í framkvæmd. Lagt er því til að fagráð borgarinnar sameinist um að beita sér í málaflokknum til að bæta líðan, aðstöðu og utanumhald erlendra barna í leik- og grunnskólum borgarinnar. R20090033

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fundi slitið klukkan 11:41

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0309.pdf