Borgarráð - Fundur nr. 5596

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 27. ágúst, var haldinn 5596. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:02. Viðstödd voru; Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Skúli Helgason, Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 1. áfanga endurgerðar á sjóvarnargarði við Eiðsgranda, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 250 m.kr.

    Samþykkt. 

    -    Kl. 9.04 taka borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. ágúst 2020 á trúnaðarmerktum tillögum að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2020. R20080136

    Samþykkt.

    Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 46.

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. ágúst 2020, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. ágúst 2020 á samstarfssamningi vegna rekstrar Bíó Paradísar og fræðslu í kvikmyndalæsi fyrir grunnskólabörn í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Bíó Paradís hefur öðlast sess sem mikilvæg menningarstofnun í Reykjavík og því er ástæða til að fagna því að Bíó Paradís muni starfa áfram í borginni. Þessi samstarfssamningur er liður í að tryggja það auk þess sem viðbótarstuðningur borgarinnar við Bíó Paradís var samþykktur í borgarráði 2. júlí sl.

    Sif Gunnarsdóttir og Huld Ingimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 19. ágúst 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 18. ágúst 2020 á samstarfssamningi við samtökin Móðurmál, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samtökin Móðurmál halda uppi afar mikilvægu starfi við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Samtökin hafa um árabil boðið upp á kennslu um helgar í sjálfboðastarfi og hefur Reykjavíkurborg útvegað húsnæði til kennslunnar og styrkt uppbyggingu bókasafns samtakanna samkvæmt samningi þar um. Slíkur samningur er nú endurnýjaður og er vilji til þess að styrkja enn frekar samstarfið á komandi misserum í samhengi við stefnu borgarinnar um virkt tvítyngi, þ.e. mikilvægi þess að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku samhliða því að tryggja eftir föngum aðgengi þeirra barna að móðurmálskennslu.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 17. ágúst 2020.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 20. ágúst 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samkeppnisaðilar Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. kvarta mjög yfir að Reykjavíkurborg í gegnum Malbikunarstöðina Höfða stundi undirboð og hirði bestu verkin í útboðum. Malbikunarstöðin Höfði er í raun bæði heildsali og smásali. Heildsali þegar kemur að útboðum sem malbikunarstöðin sjálf fær í útboðum og smásali til aðila sem eru í samkeppni við borgarfyrirtækið. Þetta er vonlaus staða og á ekkert skylt við samkeppni. Það er galið að Reykjavíkurborg skuli reka malbikunarstöð og á að leggja hana tafarlaust niður enda orðin úrelt og er rekin á undanþágu. Þar að auki framleiðir stöðin gallað og hættulegt malbik/efni eins og dæmin sanna. Hvers vegna er Reykjavíkurborg að byggja upp nýja stöð á Esjumelum fyrir milljarða? Kosningaloforð Viðreisnar var að selja malbikunarstöðina. Er verið að nota útsvar Reykvíkinga til uppbyggingar nýrrar stöðvar og selja síðan til vildarvina? Er verið að nota Reykjavíkurborg sem millistykki í viðskiptum þar sem áhættan er Reykjavíkur og ágóðinn kaupandans? Ekki einasta að Malbikunarstöðin Höfði sé í samkeppni með malbik, þá er stöðin líka að sinna vetrarþjónustu (snjómokstur og söltun) í samkeppni við einkaaðila. Á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs 20. ágúst var ákveðið að taka tilboði „lægstbjóðenda, Malbikunarstöðvarinnar Höfða“ í vetrarþjónustu gatna í Reykjavík 2020-2021. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Malbikunarstöðin Höfði hf. starfar á samkeppnismarkaði og af og frá að það stundi undirboð. Fyrirtækið rekur jafnt framleiðsludeild og útlangningardeild rétt eins og margir samkeppnisaðilar þess á sama markaði. Þá hefur fyrirtækið tekið að sér vetrarþjónustu í gegnum útboð sem leið til að afla tekna yfir vetrartíma og nýta um leið þann mannauð sem býr í félaginu. Það hefur verið gert svo áratugum skipti og eru engin nýmæli í því fólgin.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. ágúst 2020.

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ekki nóg með það að borgarstjóri og meirihlutinn er að flæma burt fyrirtæki úr borginni og verslunar og veitingamenn úr 101, þá á að flæma einyrkja og atvinnubílstjóra úr landmiklum hverfum borgarinnar. Stórbílastæðum skal nú úthýst í iðnarðarhverfi. Hvað gengur meirihlutanum til? Hverjum er til ama að atvinnubílstjórar leggi bílum sínum á bílastæðum í útjaðri hverfanna? Megnið af atvinnubílstjórum eru einyrkjar sem stunda sína vinnu frá heimilum sínum. Nú skulu boð og bönn ríkja og atvinnubílstjórar skulu hraktir inn í iðnaðarhverfin. Hvað er átt við með þessu – á að fylla Höfðann með ökutækjum og vinnuvélum. Nei það er ekki hægt því hann er fullsetinn. Þá hlýtur sjónum að veriða beint til Esjumela sem ekki eru enn fullsetnir. Til þess að komast þangað þarf að keyra í gegnum heilt sveitarfélag og keyra fleiri, fleiri kílómetra. Seint verður slíkur óþarfa akstur talinn umhverfisvænn í stefnu meirihlutans. En það skiptir ekki máli – bara ef það hentar þeim. Þeim stórbílastæðum sem borgin hefur lokað með hindrunum er enn haldið lokuðum og eru engum til gagns. Nú stendur til að loka átta stórbílastæðum í Breiðholti samkvæm nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt og Seljahverfi. Sú ákvörðun er hrein aðför að einyrkjum og öðrum þeim sem hafa hindrunar- og andmælalaust notað stæðin í gegnum árin. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 50. og 53. liðum fundargerðarinnar:

    Tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði strax þær ábendingar sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um m.a. á samfélagsmiðlum hefur verið felld. Flestir virðast hafa áhyggjur af hvert stefnir í bílastæðismálum en víða er nú þegar skortur á þeim. Opnað er fyrir möguleika á að byggja 3000 íbúðir án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Íbúaeign án bílastæðis er ekki eins söluvæn og fylgdi henni bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að með því að fella þessa tillögu séu það merki um að skipulagsyfirvöld ætli ekki að taka þessum ábendingum alvarlega. Jafnvel þótt heilu fjölskyldurnar muni fara um á hjólum þá fá flestir stundum til sín gesti. Í stað þess að sýna slíka stífni þegar kemur að einkabílnum væri nær að skipulagsyfirvöld styddu fólk með ýmsum hætti til að skipta yfir í raf- eða metanbíl. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun fólk nota bíl áfram. Koma þarf börnum í leik- og grunnskóla ásamt að sinna öðrum erindum. Sumir verða að fara á bíl í vinnu og til að komast á borgarlínustöð. Tillaga Flokks fólksins um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti var einnig felld. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs, dags. 18. ágúst 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á fundi skóla- og frístundaráðs var gerð breytingartillaga við tillögu Flokks fólksins um að skóla og frístundaráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Segir í bókun meirihlutans að ekki hafi verið hægt að samþykkja tillöguna þar sem í upprunalega tillögutextanum eru athugasemdir um núverandi stöðu á fræðslu sem ekki er hægt að taka undir. Ekki er hægt að skilja af hverju skólayfirvöld setja það fyrir sig að í tillögu Flokks fólksins sé hvatt til að auka fræðslu til að tryggja umferðaröryggi telji sig þess vegna ekki geta samþykkt tillöguna. Að öðru leyti er tillagan samþykkt, þ.e. lögð fram sem breytingartillaga og er því nú í nafni meirihlutans en ekki lengur Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margtjáð sig um hvað þessi vinnubrögð eru hvimleið og hvati til sundrungar frekar en samvinnu. Til að loka fyrir samvinnu er ýmist brugðið á það ráð að finna að orðalagi tillagna eða vísað til reglna í stjórnkerfi borgarinnar. Skilaboðin hljóta einfaldlega að vera þau að meirihlutanum finnst erfitt að góðar tillögur frá Flokki fólksins séu ekki í nafni hans sjálfs. Þessu er vel hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 14. ágúst 2020.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Borist hefur svar frá framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits borgarinnar við tillögu Flokks fólksins að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Margsinnis hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um hvernig þessum gjöldum er varið í ljósi fækkun verkefna. Fram kemur hjá framkvæmdarstjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að búið er að senda út innheimtuseðla fyrir hundaeftirlitsgjaldi 2020. Í svari er vísað í tölur heilbrigðiðseftirlits Reykjavíkur sem sýnir glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Ekki er því skilið hvernig það má vera að þörf sé á að innheimta sama gjald og þegar verkefnin voru fleiri. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að hann er að vinna fyrir stóran hóp dýraeigenda sem kallar eftir skýringum þar sem útilokað er að sjá hvernig hundaeftirlitsgjaldið er nýtt í þágu dýraeigendanna og hunda þeirra. Sífellt er einnig ýjað að því að einhverjar órökstuddar staðhæfingar séu í fyrirspurnum og tillögum fulltrúa Flokks fólksins. Vísað er í heimasíðu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sagt að allar upplýsingar séu þar. En það er sama hvaða reikningskúnstir eru notaða þá skýrir það ekki af hverju gjaldið hafi ekki verið lækkað umtalsvert eða lagt af.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 19. ágúst 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25. – 28. liðum fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði. 

    Hvatinn að gerð tillagnanna voru fréttir um að matarsending til eldri borgara hefði verið skilin eftir á hurðarhúni. Ljóst er að breyta verður verkferlum við matarsendingar og hlutverki sendils til draga úr hættu á misskilningi milli þjónustuveitanda og þjónustuþega. Útvíkka þarf einnig ákveðna þjónustuþætti og bæta fleirum við þann þjónustupakka sem nú býðst þessum hópi til að auka möguleikana á að geta búið lengur heima. Létta þarf fjárhagslega undir með mörgum eldri borgurum. Lagt var til að þeir sem búa í öðru húsnæði en þjónustuíbúð ættu að fá niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð s.s. rafmagn, húsgjald og þrif í görðum. Einnig var lagt til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnað við öryggishnapp. Rök fyrir að fella þá tillögu var að „að það sé varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytis sé óþörf“.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 25. ágúst 2020, varðandi þriggja ára tilraunaverkefni um frístundir í Breiðholti, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R20050097

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tilgangur þessa tilraunaverkefnis sem er til næstu þriggja ára gengur út á að auka notkun frístundakortsins í Breiðholti þar sem hún er minni en í öðrum hverfum borgarinnar. Markmið verkefnisins er að auka nýtingu frístundakortsins og þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti til jafns við meðaltal í Reykjavík. Að auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunám og félagslega aðlögun barna með mismunandi bakgrunn að íslensku samfélagi. Þetta verði gert með því að hækka hvert kort í Breiðholti úr 50.000 í 80.000. Hægt verði að prófa margar mismunandi íþróttagreinar, ókeypis verði í frístundarútuna, að öflug kynning verði á valmöguleikum frístunda ásamt fjölda annarra aðgerða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist lengi fyrir að frístundakortið verði notað samkvæmt sínu upphaflega tilgangi en ekki til að greiða með frístundaheimili eða setja upp í skuld foreldra sem þarfnast fjárhagsaðstoðar fyrir börn sín. Þessi og síðasti meirihluti hafa gengisfellt frístundakortið og höfðu þar með af fátækum börnum tækifæri til að velja sér tómstund og námskeið. Þess utan voru skilyrði fyrir að nota kortið óraunhæf fyrir mörg börn og foreldra. Námskeið þurfti að vera heilar 10 vikur til að hægt væri að nota kortið. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að greiða mismuninn. Nánast öllum tillögum Flokks fólksins um lagfæringar var hafnað. Settur var á laggirnar stýrihópur til að endurskoða reglur um frístundakortið en sá hópur hefur enn ekki skilað niðurstöðum. Nú fyrst á að gera bragarbót og er lagt til að sett verði á laggirnar verkefnið „Frístundir í Breiðholti“ sem þriggja ára tilraunaverkefna. Eins og marg sinnis kom fram í tillögum Flokks fólksins er þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi og nýting frístundakorts í hverfi 111 í Breiðholti lægri en í öðrum hverfum. Flokkur fólksins barðist í á annað ár fyrir jafna þennan mun því að í þessu hverfi búa flest börn af erlendum uppruna og börn sem búa við fátækt.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. ágúst 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar eru send borgarráði til kynningar. R14050127

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2020 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. ágúst 2020, og umsögn innri endurskoðunar, dags. 25. ágúst 2020. R20080091

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Efnahagsáfallið sem gengur yfir heimsbyggðina sökum heimsfaraldurs kórónuveiru er farið að birtast í rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar. Þannig hefur veiking krónunnar umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu og álverð hefur lækkað með neikvæðum áhrifum á álafleiðu Orkuveitu. Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Gera má ráð fyrir áframhaldandi samdrætti næstu misseri. Ljóst er að rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar verður mun lakari en fjárhagsáætlun 2020 gerði ráð fyrir. Tekjur eru að dragast saman en útgjöld eru að aukast vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Er sex mánaða uppgjörið í ágætu samræmi við spár fjármálasviðs borgarinnar um afleiðingar heimsfaraldursins frá því í vor. Unnið er að uppfærslu sviðsmynda til að gefa borgarráði og borgarstjórn eins traustan grunn og hægt er til frekari ákvarðana og viðbragða.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Útgjöld borgarinnar halda áfram að vaxa og skuldasöfnun eykst um 33 milljarða á aðeins sex mánuðum og eru heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar komnar í 378 milljarða í júnílok. Launakostnaður hækkar um 9% milli ára. Ríkið nýtti uppsveiflu síðustu ára til að greiða skuldir verulega niður, en á sama tíma hefur borgin aukið skuldir sínar um meira en milljarð á mánuð þrátt fyrir einstakt góðæri. Enginn viðleitni hefur verið til að hagræða og kostnaður vex þrátt fyrir að við blasi mikill samdráttur í tekjum borgarinnar. Nauðsynlegt er að endurskoða fjárhagsáætlun borgarinnar miðað við þessa stöðu. Þá vekur athygli hvernig staða dótturfyrirtækjanna hefur versnað. Afkoma OR versnar um -127% milli ára og fer úr hagnaði í tap. Afkoma SORPU versnar um -90% frá áætlun og rekstrarniðurstaða Félagsbústaða hf. versnar um -98% frá áætlun. Endurmat fasteigna Félagsbústaða hf. mun duga skammt til að bæta stöðuna. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miklum áhyggjum er lýst yfir með fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Skuldir samstæðunnar aukast um rúma 33 milljarða á sl. 6 mánuðum og tekjur hafa dregist gríðarlega saman. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var neikvæð um 4,5 ma.kr. sem var 10,4 m.kr. verri niðurstaða en áætlað var og 8 milljarða tekjuauki sem reiknað var með er ekki að skila sér. Veikleiki í uppgjörsaðferðum Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústöðum (forðubókhald) birtist nú glöggt þegar þrengir að í samfélaginu og skilar sér með neikvæðum hætti í uppgjöri samstæðunnar. Froðuuppgjörsaðferð Félagsbústaða skilar nú einungis 79 milljónum vegna þess að fasteignamat hefur lítið hækkað. Álafleiðusamningar Orkuveitu Reykjavíkur leiða af sér 5,7 milljarða tekjutap. Auknar lántökur upp á 11 milljarða umfram afborganir lána eru sláandi og ljóst að mikil þörf er á enn frekari lántökum. Sú staðreynd að veltufé frá rekstri er einungis 3,1% þegar æskilegt hlutfall er 9% eru hrikalegar fréttir. Þegar allar skuldbindingar Reykjavíkurborgar eru teknar saman þ.e. skuldbindingar vegna lífeyrisskuldbindinga og tekjuskattsskuldbindinga, langtímaskuldir og skammtímaskuldir, skuldar borgin 378 milljarða. Þessi skuldastaða er óbærileg og auðvelt að álykta að borgin sé ógjaldfær. 

    Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg, Guðlaug S. Sigurðardóttir og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 24. ágúst 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020, ásamt fylgiskjölum. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 24. ágúst 2020, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna aðgerða vegna COVID-19, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R20010161

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 24. ágúst 2020, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta vegna COVID-19. Greinargerð fylgir tillögu R20010161

    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að fjárfestingarheimild vegna framkvæmda við „Þingholt torg“ er hækkuð um 20 milljónir og verði 70 milljónir í stað 50 milljóna og er röksemdin að um er að ræða eftirstöðvar frá fyrra ári. Enn á ný er sótt fjármagn til útsvarsgreiðenda til að fegra fyrir framan hús borgarstjórans í Reykjavík. Ítarleg fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Miðflokksins liggur inn í kerfinu um heildarkostnað við framkvæmdir við Óðinstorg, snjóbræðslu, upptöku aðliggjandi gatna, hlutdeild Veitna í verkinu og fl.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ekki er verið að sækja nýtt fjármagn heldur er eingöngu um þegar samþykktar heimildir frá árinu 2019 að ræða. Um er að ræða fjármagn til Óðinstorgs og Freyjutorgs. Það var meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem samþykkti að fara í endurbætur á því sem kallað hefur verið Torgin þrjú sem voru hugmyndir sem komu frá íbúum. Torgin þrjú eru Óðinstorg, Freyjutorg og Baldurstorg. Velgengni Óðinstorgs síðan það opnaði í sumar er ótvíræð. Mannlífið þar hefur blómstrað, fólk sækir torgið í stórum stíl og er hönnun þess dæmi um vel hannað borgarrými.

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. ágúst 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf., um uppbyggingu samgönguinnviða með aðild ríkissjóðs, Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, og Seltjarnarnesbæjar, sbr. heimild í 1. gr. laga nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, og leggi félaginu til hlutafé við stofnun þess með áskrift hluta að nafnvirði kr. 563.390,- í samræmi við fyrirhugaðan eignarhlut Reykjavíkurborgar í félaginu eða 14,085%. Greiðsla hlutafjár verður með þeim hætti að Reykjavíkurborg innir af hendi kr. 563.390,- með eingreiðslu í reiðufé til félagsins samhliða stofnun þess. Þá er til samræmis við framangreint lagt til að borgarráð samþykki stofnsamning og hluthafasamkomulag fyrir Betri samgöngur ohf., sbr. hjálögð skjöl, og feli borgarstjóra að undirrita þessi skjöl fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Lagt er til að borgarráð samþykki tillöguna og vísi til staðfestingar borgarstjórnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20080082

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Vísað til borgarstjórnar. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stofnun félagsins er lykilaðgerð í framgangi samgöngusáttmála. Eins og fram hefur komið þá er samgöngusáttmáli samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu er 120 milljarðar. Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Samgöngusáttmálinn á að ná sátt um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar en stofnun félags um samgöngusáttmála verður hryggjarstykkið í framgangi verkefnanna.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista fagnar uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamöngum. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þeirra þátta sem lagðir voru fram sem fyrirvarar við samgöngusáttmálann á sínum tíma og eru þríþættir: Í fyrsta lagi getur fulltrúi sósíalista ekki sammælst hugmyndum um flýti- og umferðargjöld eða svokölluðum veggjöldum. Í öðru lagi að Keldnaland þjóni þörfum þeirra í þörf fyrir húsnæði. Slíkt má t.a.m. gera með því að úthluta landi til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingasamvinnufélaga, þar með talið byggingarsamvinnufélaga leigjenda og annarra sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði þar, í stað þess að selja til hæstbjóðenda. Fulltrúi sósíalista vill ganga lengra en núverandi húsnæðisstefna borgarinnar fer, varðandi það að 20- 25% íbúða í hverfum verði leiguíbúðir, námsmannaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar leiguíbúðir, íbúðir fyrir eldri borgara og húsnæði fyrir fatlað fólk. Þriðji fyrirvarinn við samninginn snéri að því að meira yrði lagt í Borgarlínu og strætó og að tryggt yrði að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær. Þessa þætti telur fulltrúi sósíalista nauðsynlegt að miða út frá við framtíðarútfærslu samgöngusáttmálans. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er á ferðinni nýtt félagaform sem ekki hefur verið reynt áður, þ.e. ohf í eigu ríkis og sveitarfélaga. Segja má að verið sé að búa til þriðja stjórnsýslustigið með því að formgera félagið með þessum hætti. Ohf félög ríkissins hafa mörg hver verið algjör martröð fyrir skattgreiðendur eins og t.d. Íslandspóstur, RÚV, Isavia og Nýr Landsspítali. Þessi félög eru svarthol sem þingmenn/fjárveitingavaldið hafa engan aðgang að þó sífellt krefjist félögin meiri og meiri fjármuna frá ríkinu án þess að sýna fram á sæmilegan rekstur. Þessi félög eru nokkurskonar ríki í ríkinu og eru sjálfala á ríkisjötunni. Það er óskiljanleg ráðstöfun að fjármálaráðherra ætli að setja Keldnalandið inn í félagið en líklega er það lausnargjaldið sem inna þurfti af hendi af hálfu ríkissins til að borgarstjóri myndi samþykkja að skipuleggja landið. Land í þéttbýli er verðlaust land ef það er ekki skipulagt til uppbyggingar. Það er þó huggun harmi gegn að þingmönnum Miðflokksins tókst að koma því í gegnum Alþingi á lokametrum samþykktar málsins að allar fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs vegna félagsins þurfi að hljóta staðfestingu í samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs. Ohf-un ríkisins hræðir svo ekki sé fastar að orði kveðið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Dæmi eru um Ohf á vegum ríkis og sveitarfélags sem er Harpa. Þá segir í stofngögnum félagsins að aðalfundur skuli vera opinn öllum kjörnum fulltrúum eigenda félagsins, þ.e. bæði þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum viðkomandi sveitarfélaga og skulu þessir aðilar hafa rétt til að taka til máls á fundinum og bera upp fyrirspurnir. Þá skal fulltrúum fjölmiðla heimilt að sækja aðalfundi félagsins. Það er því af og frá að aðgengi kjörinna fulltrúa sé minna að opinberum hlutafélögum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Stórkoslegt er að Harpa skuli vera dregin inn í umræðuna um ohf-félög. Sér í lagi þegar í fyrri bókun minni var lýst hvurslags svarthol ohf félögin eru fyrir skattgreiðendur. Eru allir búnir að gleyma rekstrarvanda Hörpu frá upphafi og fjölda dótturfélaga í kringum húsið og miklum fjárútlátum frá ríki og borg til þess. Það var neyðarúrræði þegar ríki og borg tóku húsið yfir. Til að útskýra fyrir meirihlutanum hvað ég átti við að ekki hafi reynt á þetta félagaform áður og að verið sé í raun að búa til þriðja stjórnsýslustigið er þetta: Ríkið á í félaginu, sveitarfélögin eiga í félaginu og síðan eiga Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) aðild að félaginu með þrjá stjórnarmenn. Stjórn ber ábyrgð á framkvæmd framkvæmdaáætlunar Samgöngusáttmálans og því að stefnu félagsins sé framfylgt. Engin lagasetning er til um samtök sveitarfélaga eftir landshlutum og er þau því millistykki milli kjörinna fulltrúa og stjórnsýslunnar. Þó að kjörnir fulltrúar sitji í stjórn félagsins þá eru þeir allir úr meirihlutum sveitarfélaganna sem samtökin skipa. Kjörnir fulltrúar sem skipa minnihluta í sveitarfélögunum hafa því enga aðkomu að félaginu og geta því ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Ekkert af þessu er sambærilegt við Hörpu og það ætti meirihlutinn að vita. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga liggur fyrir um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu Betri samgöngur ohf. Tilgangur félagsins er sagður vera að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. fjármögnun á borgarlínu. Ekki er betur séð en að þetta félag verði sömu annmörkum háð og byggðasamlög. Reynslan hefur sýnt að þetta form er ekki heppilegt form. En auðvitað getur þetta gengið vel, en í kerfi sem þessu er auðvelt að fela mistök og stjórnendur eru ekki fulltrúar kjósenda. Er þetta ekki frekar tilefni fyrir sveitarfélögin að sameinast? Öll vitum við að aðkoma eigenda er ekki nógu góð að svona kerfi og minnihlutafulltrúar eru með öllu áhrifalausir. Þetta hefur verið margrætt og Flokkur fólksins hefur verið með tillögur til úrbóta en engum úrbótum hefur verið hrint í framkvæmd. Reykjavík sem stærsti hluthafinn mun alltaf koma illa út úr þessu sér í lagi ef mistök verða eða eitthvað klúður sbr. sjá mátti hjá SORPU bs. Ókostir samkrulls eins og þessa komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mestu.

    Páll Björgvin Guðmundsson og Hildigunnur Hafsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar samgöngustjóra, dags. 20. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um biðskýli Strætó bs., sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2020. R19110061

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar menningar- og ferðamálsviðs, dags. 21. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við endurbætur og uppbyggingu vegna Aðalstrætis 10, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. R20030241

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg eignaðist Aðalstræti 10 árið 2001. Nokkru seinna var farið að ræða hvernig standa mætti að endurbyggingu hússins og var samningur um samstarf Reykjavíkurborgar og Minjaverndar um það verk undirritaður í byrjun árs 2005. Fyrirspurnin hljóðar svo: „Hvað hefur kostnaður við endurbætur og uppbyggingu húss og sýningar við Aðalstræti 10 kostað borgina frá upphafi til dagsins í dag kostað tæmandi talið, núvirt?“ Svarið nær eingöngu frá janúar 2018 til júní 2020. Því er skautað létt frá svarinu og réttum upplýsingum. Kostnaðurinn á því árabili sem svarið snýr að er tæpar 160 milljónir núvirtar. Athyglisvert er að í viðauka við fjárhagsáætlun 2020 sem afgreidd var í dag var lagt til og samþykkt að ráðstafa 35 milljónum til viðbótar vegna fjárfestingar í Aðalstræti 10 til viðbótar við þær 145 milljónir sem þegar eru á fjárfestingaráætlun ársins og verði þá í heild 180 milljónir. Það segir okkur aðeins eitt – verkið er farið langt fram úr áætlunum. Mikið misræmi er í svarinu og staðreyndum sem fyrir liggja. Því er fyrirspurnin lögð fram á nýjan leik og þess freistað að Reykjavíkurborg gefi kjörnum fulltrúum réttar upplýsingar og svari því tímabili sem um er spurt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Reykjavíkurborg keypti Aðalstræti 10 árið 2017. Framkvæmdir við þetta elsta hús borgarinnar hófust árið 2018 líkt og fram kemur í svarinu en markmiðið með þeim var að tryggja aðgengi að húsinu og innan hússins auk þess að setja upp sýningu um upphaf byggðar í Reykjavík. Í viðauka við fjárfestingaráætlun sem áheyrnarfulltrúinn nefnir, kemur einnig fram að um sé að ræða tilfærslu milli ára.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 24. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um mengunarmælingar á skotsvæðinu í Álfsnesi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. R20070146

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mjög sorglegt hvað þessar mælingar hafa dregist – en fara átti í þær snemmsumars. Umkvartanir íbúa eru ekki nýjar af nálinni og ekkert átti að koma á óvart í þessu máli. Nú er boðað að hljóðmælingar og rannsókn á blýmengun fari fram í lok ágúst og byrjun september. Sá tími er nú upprunninn. Athyglisvert er að hljóðmælingarnar fari fram á þeim tíma þegar skotveiðimenn sem æfa sig á þessu svæði eru farnir á gæsaveiðar og notkunin því lítil. Hvergi í svarinu er minnst á mælingar á mengun í jarðvegi á landi, einungis á að mæla/rannsaka fjöruna. Það er gagnrýnt því staðreyndin er sú að þegar skotsvæðinu í Leirdal var lokað þurfti að fara í kostnaðarsamar aðgerðir við að hreinsa og flytja burt mengaðan jarðveg. Minnt er á að íbúar Kjalarness lögðu fram mótmælaskjal/bænaskjal í desember 2019 með ákalli um að finna skotsvæðinu annan stað sem væri fjarri byggð. Ítrekað er að samtal og samráð milli borgarinnar, íbúa og félaga í skotveriðiklúbbum eigi sér stað svo hægt sé að leysa málið í sátt allra.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Eins og fram kemur í svari Heilbrigðiseftirlitsins þá eru mælingar að fara af stað. Bæði varðandi hugsanlega blýmengun og hávaða.

    -    Kl. 11.50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar samgöngustjóra, dags. 20. ágúst 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um veginn inn á Heiðmerkursvæðið, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. mars 2020. R20030183

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mótun fjölskyldustefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. ágúst 2020.  R20010219

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið með mótun fjölskyldustefnu er að tryggja að við alla stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð á vettvangi Reykjavíkurborgar sé sérstaklega gætt að hagsmunum barna, unglinga og fjölskyldna. En líkt og segir í umsögn um tillöguna „Ljóst má vera af yfirliti að flestar stefnurnar varða málefni fjölskyldna“. Það er undarlegt að stærsta sveitarfélag landsins vilji ekki verða leiðandi og huga alltaf að hagsmunum barna, unglinga og fjölskyldna við alla stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð á vettvangi Reykjavíkurborgar. Það er til fyrirmyndar að fjöldi sveitarfélaga hefur mótað og vinna eftir fjölskyldustefnu og eflir þannig fjölskyldur og fjölskyldumeðlimi ásamt því að hvetja til áframhaldandi búsetu í sveitarfélaginu. Því töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægt að Reykjavíkurborg mótaði sér fjölskyldustefnu. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og fram kemur í umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara ávarpa helstu lykilstefnur borgarinnar hagi fjölskyldunnar. Til að mynda er fjallað um það í sáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. Í húsnæðisstefnu borgarinnar, mannréttindastefnu, stefna borgarinnar í málefnum innflytjenda, í matarstefnu og þjónustustefnu. Þá er fjölskyldan lykilatriði í nýrri menntastefnu borgarinnar, velferðarmálum, íþrótta og tómstundamálum, menningarmálum og umhverfis- og skipulagsmálum. Þá er þjónusta við fjölskyldur eitt stærsta verkefni borgarinnar á degi hverjum. Nýjar reglur um þjónustu við börn og barnafjölskyldur voru til að mynda samþykktar á árinu og mun fjölskyldan vera hluti af nýrri velferðarstefnu borgarinnar sem nú er í smíðum. Aðalskipulag 2010-2030 gengur beinlínis út á að skipuleggja borgina með þeim hætti að hægt sé að sækja helstu þjónustu innan hverfis, fjölga leiksvæðum í borginni og almennt fjölga tækifærum til gæðastunda með fjölskyldunni.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um eftirlitsmyndavélar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019: Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. ágúst 2020. R19080139

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að vísa tillögunni til vinnu borgarinnar við endurnýjun samnings borgarinnar við lögreglu og Neyðarlínuna.

    Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillagan er felld með með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg, dags, 20. ágúst sl. var greint frá öryggisveikleika í nýju upplýsingastjórnunarkerfi Reykjavíkurborgar. Í tilkynningunni segir: “Við prófanir þann 31. júlí sl. uppgötvuðu sérfræðingar Syndis öryggisveikleika í Hlöðunni sem gerði þeim kleift að komast í gögn og persónuupplýsingar Reykjavíkurborgar og annarra viðskiptavina Hugvits án þess að vera auðkenndur notandi í kerfum Hugvits.” Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um öryggisveikleikann og umfang þeirra gagna og persónuupplýsinga sem urðu aðgengilegar án auðkenningar. R20080151

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  29. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn vegna fjölda þeirra sem ekki njóta þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í eigu hennar vegna vanskila kemur fram að lokað hafi verið fyrir rafmagn hjá 8 einstaklingum, miðað við stöðuna þann 22. júní sl. Rafmagnsleysi á heimili veldur miklum óþægindum og erfiðleikum sama hver á í hlut. Er vitað hvort hér hafi verið um barnafjölskyldur að ræða sem voru án rafmagns? Er um fjölgun á milli ára að ræða eða er þetta svipuð staða miðað við síðustu 3 ár t.d.? Í svarbréfi kemur einnig fram að þann 22. júní sl. voru 39 í uppsagnarferli, samkvæmt skóla- og frístundasviði er þetta fjölgun á milli ára eða er um svipaða stöðu að ræða, sé litið til síðustu þriggja ára? Samkvæmt svarbréfi kom fram að núverandi staða væri sú að foreldrar/forráðamenn átta barna sem hafi fengið boð um leikskólavistun í haust þurfa að ganga frá vanskilum leikskólagjalda eða semja um þau svo að barnið fái notið þjónustunnar. Einnig fengu foreldrar sjö barna ítrekun á uppsögn og höfðu frest til næstu mánaðamóta til að ganga frá vanskilum. Í þeim tilfellum höfðu foreldrar áður fengið uppsögn, gert samning og ekki staðið við þann samning. Er það breyting á milli ára (sé litið til síðustu þriggja ára, eða er um svipaða stöðu að ræða?).  R20080152

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  30. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á borgarstjórnarfundi í lok árs 2018 var samþykkt að kanna umfang þess kostnaðar sem börn og forráðamenn þeirrra þurfa að greiða vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar. Tillagan fól í sér að óskað yrði eftir upplýsingum um þátttöku barna og kostnað þeirra af slíkum viðburðum, sundurliðað eftir skólum og hverfum borgarinnar. Liggja þær upplýsingar fyrir? Ef svo er, þá er óskað eftir því að sjá þær.  R20080153

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  31. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Verklagsreglur borgarinnar vegna vanskila foreldra/forsjármanna varðandi þjónustu við börn miða að því að tryggja að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra. Í verklagsreglum kemur fram að forsenda þess að uppsögn sé frestað er að skuldari panti viðtal hjá félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð. Skuldari fær staðfestingu um viðtalsbókun hjá þjónustumiðstöð til þess að virkja frest á uppsögn hjá innheimtustjóra. Á viðtalsdegi lætur félagsráðgjafi innheimtustjóra vita ef skuldari hefur mætt í bókað viðtal og undirritað upplýst samþykki fyrir samstarfi velferðarsviðs og skóla- og frístundsviðs um aðstoð honum til handa. Mæti skuldari ekki í viðtalið virkjast uppsögnin aftur. Fyrirspurn mín er sú: Getur foreldri/forsjármaður óskað eftir viðtali utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva? Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að þær séu opnar frá 08:30- 15:00 en þá eru margir foreldrar/forsjármenn vinnandi.  R20080154

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

  32. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Framhaldsfyrirspurn: 1. Hvað hefur kostnaður við endurbætur og uppbyggingu húss við Aðalstræti 10 kostað borgina frá 2001 til dagsins í dag kostað tæmandi talið, núvirt? 2. Hefur komið fjármagn frá ríkinu í gegnum Minjavernd í verkefnið – ef svo er hversu mikið fjármagn frá 2001, núvirt? R20030241

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  33. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi borgarráðs 27. ágúst 2020 var ákveðið að veita 6 milljónum til fjárfestingar vegna Grandagarðs 1a vegna uppgjörs. 1. Hvað hefur kostnaður við verkefnið kostað tæmandi talið frá upphafi, þar með talið flutningur á húsum? 2. Hver var kostnaður Veitna í verkefninu? 3. Var verkið boðið út eða var farið í verðfyrirspurn? R20010161

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  34. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í árshlutauppgjöri Reykjavíkur sem kynnt var 27. ágúst 2020 var kynnt að langtímaskuldir hafi hækkað um 1 milljarð vegna leiguskulda við Hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi. Þann 28. febrúar 2020 var 99 rýma hjúkrunarheimili vígt. 1. Hvernig stendur á því að þessar leiguskuldir Reykjavíkurborgar við hjúkrunarheimilið standi í 1 milljarði? 2. Óskað er eftir að fá skuldirnar sundurliðaðar eftir mánuðum um skuldaþróunina. 3. Er verið að færa í bókhaldinu „leiguskuld“ í stað fjárfestingaskuldar við hjúkrunarheimilið? 4. Óskað er eftir öllum upplýsingum sem fyrir liggja sem varpa ljósi á þessa gríðarlegu leiguskuld. R20080091

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað. Nú eiga margir foreldrar um sárt að binda vegna COVID, margir hafa misst vinnuna. Ljóst er að skóla- og frístundayfirvöld ætla ekki að bjóða börnum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir á þessu kjörtímabili. Tillaga þess efnis hefur verið lögð a.m.k. tvisvar fram og hefur henni verið hafnað jafn oft. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Eins og fram kom í Fréttablaðinu 26.ágúst sl. þá eru skólamáltíðir umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra. Reykjavík sem stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins getur ekki verið þekkt fyrir að gera ekki betur en önnur smærri sveitarfélög fyrir foreldra skólabarna og hvetur fulltrúi Flokks fólksins skóla- og frístundayfirvöld að skoða lækkun skólamáltíða af alvöru. R20080159

    Frestað.

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga Flokks fólksins að fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem annast viðhald fasteigna kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun, til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R20080158

    Tillögunni er vísað frá. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði hefur verið vísað frá á fundi borgarráðs án nokkurra raka. Staðgengill formanns borgarráðs segir við frávísun tillögunnar að henni beri ekki skylda til að rökstyðja eitt eða neitt. Af einhverjum ástæðum virðist málið ofurviðkvæmt og eldfimt, svo eldfimt að ekki er einu sinni hægt að senda tillöguna til frekari skoðunar eða umsagnar hjá umhverfissviði? 

    Fulltrúi Flokks fólksins á því ekki annara kosta völ en að leggja tillöguna fyrir borgarstjórn. Tillagan var um að bæta loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna í skólum en það er stórt vandamál víða. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð. Þessi tækni hefur ekki verið mikið notuð hér nema í kannski einum skóla og gafst það vel. Flokkur fólksins lagði til að umhverfisyfirvöld kynntu sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum í stað þess að trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi.

    Fylgigögn

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Á hverju hausti er sami vandinn uppi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður. Enn er óráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum borgarinnar og um fjörutíu stöðugildi í 36 grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara. Byrja á mikið fyrr að auglýsa og kynna laus stöðugildi. Sú vinna á að fara fram að vori. Reynslan hefur sýnt að breyta þarf um taktík þar sem sami vandinn er á hverju ári. Hér er spurning um að læra af reynslu. Ef eitthvað virkar ekki þá þarf að endurskoða aðferðarfræðina og gera á henni breytingar. Það er ekki nóg að vona og vona. Nú blasir við sú staða að ekki er hægt að ráða inn í tiltekna leikskóla getur það hægt á innritun í þá skóla. Erfiðleikar við að fá fólk í þessi störf eru ákveðnar upplýsingar um störfin og líðan fólks í þeim. Meira að segja nú þegar atvinnuástandið er slæmt er erfitt að fá fólk til starfa í skólanna. Skoða þyrfti hvað það er við þessu störf annað en álag og lág laun sem hefur svo mikinn fælingarmátt. Ekki er ósennilegt að mygluvandi í skólum sé hluti af vandamálinu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20080157

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við spurningum er viðkemur loftgæðavandamálum. Hversu mikið hefur kostnaður vegna rakaskemmda í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar aukist síðustu 20 ár? Til hvaða aðgerða er gripið þegar upp kemur grunur um rakaskemmdir og börn og fullorðnir finna fyrir veikindaeinkennum sem líklega má rekja til rakaskemmda. Hversu stór er vandinn í dag? Hversu margir nemendur hafa veikst? Hver er aukningin á milli ára eða áratuga? Hvernig er brugðist við þegar vísbendingar eru um vanda? Er vandinn greindur strax og í framhaldi af greiningu farið í rýmingar á ákveðnum hluta húsnæðis eða er hreinlega allt húsnæði rýmt og hafist handa við viðgerðir? Í þeim tilfellum sem vandi sem þessi hefur komið upp í skólum hafa nemendur og starfsfólk unnið áfram í rakaskemmdu húsnæði meðan að leitað hefur verið leiða til úrbóta? Eða hefur húsnæðið, sá hluti sem talinn er vera sýktur verið rýmdur strax? Hafa fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs kynnt sér hvernig starfsháttum sérfræðinga í rakaskemmdum er háttað í öðrum löndum í Evrópu, eins og t.d. í Þýskalandi?

    Greinargerð er lögð fram með fyrirspurnunum R20080156

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

    Fylgigögn

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í ljósi þess hversu erfitt það er að fá skýr svör frá Heilbrigðiseftirliti borgarinnar er varðar hundaeftirlitsgjaldið sem hvorki hefur lækkað né verið afnumið þrátt fyrir umtalsverða fækkun á verkefnum hundaeftirlitsmanna vill fulltrúi Flokks fólksins freista þess að spyrja eftirfarandi spurninga: Er hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum nýtt beint í þágu eigenda og hundanna og ef svo er þá hvernig? R20010132

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Svo virðist sem ákvarðanir um hvaða mál séu trúnaðarmál og hvaða gögn séu trúnaðargögn séu oft hipsum haps. Ef í gögnum mála birtast viðkvæmar persónulegar upplýsingar þá er engin vafi að um þau mál skuli ríkja trúnaður. Eins gildir um tölulegar upplýsingar sem eru á leið í Kauphöll. Flest önnur mál eiga að vera opinber og gagnsæ nema í algerum undantekningartilfellum. Þannig hefur það ekki verið. Alls kyns mál eru stimpluð trúnaðarmál án þess að nokkur skýr ástæða liggi að baki um nauðsyn þess. Sem dæmi hafa kynningar og skýrslur verið faldar fyrir almenning og jafnvel aldrei litið dagsins ljós. Einnig hugmyndir að deiliskipulagi sem ættu einmitt að koma sem fyrst fyrir augu sem flestra. Í þessum málum hafa ekki verið neinar persónulegar upplýsingar eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar. Það hefur stundum verið tilfinning fulltrúa Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Almenningur á rétt á því að hafa aðgang að upplýsingum um verkefni Reykjavíkurborgar og trúnaður á að vera undantekningin en ekki meginreglan. R20080155

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar. 

    -    Kl. 12.30 víkja Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir af fundi. 

    -    Kl. 12.40 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundi. 

Fundi slitið klukkan 12:43

Líf Magneudóttir Skúli Helgason

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2708.pdf