Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 20. ágúst, var haldinn 5595. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmarsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason, og Sindri Freyr Ásgeirsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði, ásamt fylgiskjölum. R20080076
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú á að fara aftur í auglýsingu á þessari lóð vegna mistaka hjá Reykjavíkurborg sem er frábært fyrir þá aðila sem eru mótfallnir skipulaginu og þarf að byrja allt ferlið upp á nýtt. Þessi mistök færa íbúum svæðisins nýjan andmælarétt. Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa máls. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti, s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðaláhyggjur íbúaráðsins eru þó þær að byggingarmagnið á reitnum er allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögun er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“ Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru forkastanleg.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir lá einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Brátt mun Reykvíkingum ekki standa til boða að geta lagt í námunda við heimili sín sem hyggjast kaupa nýbyggingar. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir slíkt skipulag? Húsin standa mjög nærri Bústaðavegi og vert er að athuga mengunarmál á þessu svæði, þá sérstaklega með tilliti til barna sem sannanlega kom til með að búa þarna.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. ágúst 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar að Laugavegi 168 og 170-174, Heklureitur, ásamt fylgiskjölum. R20080077
Synjun skipulags- og samgönguráðs staðfest.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sveitarfélög fara með ábyrgð á skipulagi alls lands innan sinna marka. Umrædd lóð er á lykilsvæði á nýjum þróunarás og fyrsta áfanga borgarlínu og því mikilvægt að vel til takist. Uppbyggingin þarf að taka mið af aðalskipulagi og framtíðaruppbyggingu innan borgarinnar. Það er ekki valdníðsla að samþykkja ekki allar hugmyndir sem koma frá lóðarhöfum heldur ábyrgð yfirvalda að skipuleggja byggt umhverfi á sjálfbæran hátt með þarfir núverandi og komandi kynslóða í huga.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skipulag Heklureits er í uppnámi en meira en þrjú ár eru síðan borgin gerði umdeilda viljayfirlýsingu um uppbyggingu á reitnum, sem borgarstjóri flaggaði sérstaklega í kosningunum 2018.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Að hafna þessari umsókn á breytingu á deiliskipulagi á Heklureit er valdníðsla stjórnvaldsins Reykjavíkurborgar á hendur einkaaðila og gæti hugsanlega verið brot á eignarétti og yfirráðum eigna í þessu tilfelli lóðar. Í borgarráði þann 25. júní sl. var afturkölluð viljayfirlýsing frá 3. maí 2017 um samstarf milli borgarinnar og Heklu hf. vegna fyrirhugaðs flutnings fyrirtækisins í Suður Mjódd og þróun lóða félagsins við Laugaveg, samhliða flutningi á starfsemi þess. Afturköllunin var ákveðin í ljósi þess að samþykktar voru breyttar skipulagsáætlanir fyrir lóðir Heklu hf. að Laugavegi og af því að ekki voru skilgreind ákvæði um uppbyggingarhraða í Suður Mjódd innan 2 ára frá undirritun viljayfirlýsingarinnar. Engin niðurstaða er því í málinu, nema sú að málið er á byrjunarreit og er til þess fallið að hrekja fyrirtækið úr borginni. Þetta mál er dæmalaust klúður af hálfu borgarinnar.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta lóð og byggingarrétti fyrir 51 íbúð við Vatnsholt 1. R20080074
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Rétt er að fagna áformum Félags eldri borgara um uppbyggingu á 51 íbúð fyrir félagsfólk þeirra, en úthlutun á lóð til þeirra og sala á byggingarrétti sem borgarráð samþykkir hér í dag tryggir þau áform.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lýst er yfir mikilli ánægju að Félag eldri borgara sé að byggja fleiri íbúðir, en áheyrnarfulltrúi Miðflokksins mótmælir uppbyggingu á þessum stað. Fjölmargar athugasemdir bárust þegar þessi reitur, Sjómannaskólareitur – Veðurstofuhæð, var til umræðu í ráðum borgarinnar og mikillar óánægju gætti hjá umsagnaraðilum. Voru flest allar umsagnirnar á einn veg að skorað var á borgaryfirvöld að falla frá fyrirhuguðum byggingaráformum á Sjómannaskólareit. Talið er að fyrirliggjandi skipulagstillögur veiti Sjómannaskólanum ekki það umhverfislega andrými sem skólanum ber sem friðlýstri byggingu. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Samkvæmt úttekt Reykjavíkur er gróðurþekja Háteigshverfis of lítil og með þessum framkvæmdum, ef af verða, er gengið enn frekar á hana. Fórna á mikilvægu grænu útivistarsvæði, byggja fyrir sjónlínur friðlýstrar byggingar og tefla einstökum menningarminjum í hættu. Umferðarmál eru einnig óleyst og ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af þeim. Ekki hafa komið fram tillögur hvernig bregðast eigi við fjölgun barna í hverfinu hvað varðar leikskóla og grunnskóla því þeir sinna ekki þörfum hverfisins með góðu móti í dag. Innviðirnir eru ekki tilbúnir til að taka á móti þessum áformum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 29. maí 2020, þar sem óskað er eftir fjárheimild til reksturs áfangaheimilis fyrir konur í miðborginni, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 6. júlí 2020. R20050261
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Heimilisleysi kvenna er samfélagslegt vandamál sem erfitt getur verið að leysa, sérstaklega í ljósi þess að vandinn er oft dulinn og erfitt að meta umfang hans. Liður í stefnu Reykjavíkurborgar um þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir er að mæta betur þörfum kvenna í þeim hóp en hingað til hefur stuðningur að mestu leyti miðast við þarfir stærsta sýnilega notendahópsins, sem eru karlmenn. Sérstakt áfangaheimili fyrir konur er mikilvægt skref til að takast á við þann samfélagslega vanda sem heimisleysi kvenna er á forsendum notenda.
Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 17. ágúst 2020, varðandi frestun á innleiðingu Hlöðunnar, ásamt fylgiskjölum R20080079
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjöldi viðskiptavina fyrirtækisins sem á og rekur Hlöðuna, þ.m.t. stórar ríkisstofnanir sem sýsla með afar viðkvæmar persónuuplýsingar létu ekki gera svo umfangsmikla öryggiskönnun og borgin lét gera. Fyrirtækið sem framkvæmdi öryggiskönnunina gat því nálgast viðkvæmar persónupplýsingar á vegum þessara ríkisstofnana. Það er því vegna vinnulags og árvekni starfsfólks þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar sem upp komst um gallann í forritinu. Sjálfsagt mál er að leggja fram uppfærða tíma- og kostnaðaráætlun vegna þessa.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Verkefnið Hlaðan tefst vegna þessarar uppákomu, en svo virðist sem borgin hafi ekki verið með öryggisúttekt á þeim hugbúnaði sem keyptur var og reynist nú vera með öryggisgalla. Nauðsynlegt er að fá uppfærða tíma- og kostnaðaráætlun vegna þessa verkefnis inn á fund borgarráðs hið fyrsta.
Karen María Jónsdóttir og Óli Páll Geirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. ágúst 2020, varðandi úttekt á þjónustu á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R20080078
Vísað til meðferðar íbúaráðs Kjalarness.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í úttekt á þjónustu við Kjalnesinga að íbúum finnst gott að búa á Kjalarnesi og það hefur marga kosti að búa í sveit í borg. Hópurinn sér mikið af tækifærum til að gera betur fyrir íbúa en ekki síður til að efla svæðið sem áfangastað fyrir aðra íbúa borgarinnar og ferðamenn. Í skýrslu starfshópsins eru kynntar 33 umbótatillögur sem gefa heildstæða mynd af þjónustu og þróun mála á Kjalarnesi, hvort heldur það er þjónusta á vegum Reykjavíkurborgar eða annarra aðila s.s. vegagerðar. Meirihluti borgarráðs fagnar þessari vinnu og þakkar öllum sem þátt tóku fyrir vel unnið starf af heilindum og metnaði.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir umbótatillögur starfshóps um úttekt á þjónustu á Kjalarnesi. Þær sýna að þörf er á verulegum umbótum á Kjalarnesi. Tuttugu og þrjú ár eru liðin frá sameiningu Kjalarness og Reykjavíkur en við sameininguna voru sett fram markmið um þróun og eflingu byggðar á Kjalarnesinu. Allar götur síðan hefur Kjalarnesið ekki setið við sama borð og önnur hverfi borgarinnar hvað varðar uppbyggingu og almenna þjónustu. Fram kemur í skýrslunni að ekki hefur orðið af þeirri uppbyggingu sem lofað var við sameininguna þrátt fyrir að ýmsir aðilar hafi sýnt áhuga á að þróa byggð á sínum löndum á svæðinu og þeim hafnað að skipuleggja þar byggð. Þá hefur borgin heldur ekki úthlutað lóðum í sinni eigu. Þessi neikvæða þróun og íbúðaskortur á Kjalarnesi hefur leitt til þess að ungt fólk sækist eftir búsetukostum í öðrum sveitarfélögum, s.s. á Akranesi. Áhugaleysi borgaryfirvalda og lóðarskortsstefna hefur leitt til þess að börnum í Klébergsskóla hefur fækkað og ekki stefnir í aukningu barna í skólanum á næstu árum. Upplifun íbúa á svæðinu er að stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum hafi heft framþróun svæðisins og að það stefni í óefni ef svo heldur áfram. Afleiðing þess að lóðum hefur ekki verið fjölgað í Grundahverfi er að þjónusta hefur orðið verulega minni en vænta mátti. Þessari þróun þarf að snúa við svo staðið verði við þau loforð sem gefin voru við sameininguna og til að Kjalarnesið njóti sömu þjónustu og önnur hverfi borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir úttektina um þjónustu á Kjalarnesi. Í skýrslunni eru frábærar tillögur og framtíðarsýn fyrir borgarhlutann. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins hefur enga trú á því að meirihlutinn efni nokkra tillögu sem í skýrslunni er. Í um 20 ár hefur Kjalarnesið eitt hverfa í Reykjavík verið skilið eftir í framförum, uppbyggingu og skipulagi. Meira að segja býr hluti íbúa ekki við þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa ljósleiðaratengingu sem eru nauðsynleg í nútíma samfélagi upp á nám og vinnu þó það standi nú til bóta. Kjalnesingum er óskað velfarnaðar í þeirri baráttu við meirihlutann sem nú er fyrirsjáanleg - að ná fram einhverjum af þeim umbótatillögum sem lagðar eru til í skýrslunni.
Elísabet Ingadóttir, Arna Ýr Sævarsdóttir, Einar Guðmannsson, Guðni Ársæll Indriðason, Reynir Kristinsson og Sunna Þrastardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt til að Ragna Sigurðardóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. R18060086
Samþykkt. -
Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Hjálmars Sveinssonar. R18060088
Samþykkt. -
Lagt til að Ragna Sigurðardóttir taki sæti í velferðarráði í stað Arons Levís Becks. Jafnframt er lagt til að Aron taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Dóru Magnúsdóttur. R18060089
Samþykkt. -
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skilagreinar vegna styrkumsókna til borgarráðs, sbr. 36. lið borgarráðs frá 13. febrúar 2020. R19110012
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk frá Reykjavíkurborg síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum um hvernig styrkurinn var nýttur eins og reglur gera ráð fyrir. Spurt var einnig hvernig brugðist sé við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein. Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn? Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar við fyrirspurnunum er ekkert sem svarar þessum spurningum. Styrkjareglur Reykjavíkurborgar eru reifaðar en fyrirspurnunum ekki svarað. Enn er því óskað svara við fyrirspurnunum. Fulltrúi Flokks fólksins er ágætlega læs og getur lesið sér til um regluverkið á bak við styrkveitingar en fyrirspurnum er ekki svarað beint. Það er erfitt að skilja að þegar settar eru fram einfaldar fyrirspurnir að í svari sé ekki annað reifað en regluverk borgarinnar. Í svarinu kemur fram að farið sé að öllu leyti eftir reglum um styrki. Er með því verið að staðfesta að hver einasti styrkþegi undanfarin 5 ár hafi skilað inn skilagrein um verkefnið sem viðkomandi fékk styrk til að framkvæma?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um styrkveitingar borgarráðs. Í framlögðu svari kemur m.a. fram að fjármála- og áhættustýringarsvið vinnur árlega greinargerð um framkvæmd styrkjareglna sem lögð er fram í borgarráði, er aðgengileg fulltrúum í borgarráði og er opinbert gagn. Í þeirri greinargerð kemur fram að á vettvangi borgarráðs er farið eftir öllum reglum þ.m.t. þeim ákvæðum sem fjalla um skil greinargerða um ráðstöfun styrkfjár fyrir lok ráðstöfunarárs.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda þeirra sem njóta ekki þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í eigu hennar vegna vanskila, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. apríl 2020. R20040015
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Lokað var fyrir rafmagn hjá 8 einstaklingum, þegar gagna var aflað hjá OR, þann 22. júní sl. Samkvæmt reglum frístundaheimila og leikskóla er þjónustu sagt upp vegna vanskila en einnig geta ný börn ekki fengið þjónustu ef umsækjandi og skráður greiðandi hefur ekki greitt eða samið um vanskilin. Ekki eru til tölur um sumarfrístund þ.e. hversu mörg börn hafi ekki fengið þjónustu það sem af er sumarstarfi vegna vanskila. Nokkrir greiðendur hafi greitt vanskil eða gert samninga um vanskil svo að börn þeirra kæmist inn á sumarnámskeið. Að gefnu tilefni er tekið fram að ekki voru sendar út uppsagnir í mars, apríl og maí sl. frá skóla- og frístundasviði og að hægt sé að sækja um allt að þriggja mánaða gjaldfrest á þjónustugjöldum samkvæmt tímabundnum innheimtureglum. Verklagsreglur borgarinnar eiga að tryggja að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu foreldra eða skuldavanda. Samt sem áður er núverandi staða samkvæmt svarbréfi sú að foreldrar/forráðamenn átta barna sem hafa fengið boð um leikskólavistun í haust þurfa að ganga frá vanskilum leikskólagjalda eða semja um þau svo að barnið fái notið þjónustunnar. Einnig fengu foreldrar sjö barna ítrekun á uppsögn og höfðu frest til næstu mánaðamóta til að ganga frá vanskilum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgin reynir alltaf að semja og leysa mál þeirra sem hafa ekki staðið í skilum. Um leið verða að vera innheimtuferlar til staðar í þeim tilgangi að innheimta gjöld fyrir þjónustu. Á sama tíma, eins og svarið ber með sér, er alltaf reynt að leysa þau mál sem upp koma svo vanskil bitni alls ekki á börnum og þjónustu við þau.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. ágúst 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sölu eigna sem tilheyra ekki kjarnastarfsemi Reykjavíkurborgar, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. R20030243
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er ekki trúverðugt að fjármála- og áhættustýringarsvið geti ekki lagt mat á mögulegt virði eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi og hafa kostað tugi milljarða króna. Sérstaklega var óskað eftir verðmati á þremur eignum sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi borgarinnar. Í fyrsta lagi, verðmat á hlut Reykjavíkurborgar í Landsneti, sem er bókfærður í ársreikningi borgarinnar sem eign upp á 5.160.587.000 kr. Í annan stað var það Gagnaveitan en eigið fé hennar stóð í 7,6 milljörðum í árslok 2018 skv. ársreikningi hennar og eignir voru yfir 20 milljarðar. Í þriðja lagi vekur það furðu að ekki séu til verðhugmyndir vegna Malbikunarstöðvarinnar Höfða þar sem segir í meirihlutasáttmála frá 2018 að kanna eigi kosti þess og galla að selja fyrirtækið. Um þessar mundir er verið að skoða flutning á Höfðu sem mun kosta a.m.k. milljarð króna. Það er því ljóst að hér fara ekki saman hljóð, mynd og stefna meirihlutans. Þá er ótrúverðugt að fjármálasvið borgarinnar geti ekki svarað þessum grundvallarspurningum en hér opinberar borgin að hún hefur ekki áætlað verðmat þessara eigna á sama tíma og hún er að sýsla með sumar þeirra.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Verðmat svo stórra eigna tekur mið af efnahagsumhverfi hverju sinni. Það er því einmitt trúverðugt að raunhæft verðmat liggi ekki fyrir á mörgum eignum borgarinnar. Verðmat er framkvæmt til að gera sér grein fyrir virði eigna. Í meirihlutasáttmála fyrir þetta kjörtímabil kemur fram að kanna kosti þess og galla að selja fyrirtækið. Í aðdraganda þess verður því gert verðmat. Það verður svo lagt á vogarskálar við ákvörðun líkt og venja er.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmeti tillögur minnihlutafulltrúa, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. maí 2020. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. ágúst 2020. R20050311
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmetur nú þegar tillögur frá kjörnum fulltrúum hvort sem þær eru formlegar eða óformlegar, þ.e.a.s. áður en tillagan er lögð fram. Fjármála- og áhættustýringarsvið veitir mikla þjónustu til kjörinna fulltrúa og er það sviðsstjóra að skipuleggja starfsemina og ráðstafa tíma starfsfólks. Á sviðinu starfa margir sérfræðingar með ólíkan grunn sem endurspeglar umfang borgarinnar, því er það ekki talið heppilegt að vera með einn sérfræðing sem myndi svara öllum fyrirspurnum kjörinna fulltrúa enda eru fyrirspurnirnar jafn ólíkar og þær eru margar og oft þarf að leita fanga víða, bæði innan og utan sviðsins og borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að minnihlutafulltrúar fengju aðstoð fjármálaskrifstofu við að kostnaðarmeta tillögur eftir því sem þeir telja nauðsynlegt áður en tillaga er lögð fram. Rökstuðningur fylgdi tillögunni og segir í honum að stundum nægi gróft kostnaðarmat. Að hafa hugmynd um kostnað getur stutt mál minnihlutans og hreinlega skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld. Í umsögn fjármálastjóra við tillögunni er hins vegar ekkert sem hægt er að tengja við efni tillögunnar heldur einungis um hvernig fjármálaskrifstofan þarf að haga málum við svörun á fyrirspurnum frá borgarfulltrúum. Hvergi í tillögu Flokks fólksins er minnst á fyrirspurnir eða svörun þeirra. Engin tenging er milli svars fjármálastjóra og tillögunnar sem hér er lögð fram af Flokki fólksins. Halda mætti að tillagan hafi ekki einu sinni verið lesin. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að tillagan er um að kostnaðarmeta tillögur en fjallar ekkert um hvernig fjármálaskrifstofan hagar málum þegar hún er beðin að svara fyrirspurnum. Tillagan verður þar af leiðandi lögð fram aftur.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð rekstrarleyfisumsókna sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020. R20050005
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að setja sig inn í þessi leyfisveitingamál enda talið að honum beri skylda til þess þar sem þau eru lögð vikulega fyrir borgarráð. Fulltrúi Flokks fólksins skilur svarið við fyrirspurnunum um meðferð rekstrarleyfisumsókna en veltir fyrir sér af hverju þessi mál eru yfir höfuð að koma fyrir borgarráð. Er hér einungis verið að upplýsa borgarfulltrúa og ef svo er þá til hvers? Eða eiga borgarfulltrúar að setja sig inn í þessi mál, sem eftirlitsaðilar? Komi mál fyrir borgarráð með öllum fylgigögnum eins og þessi mál, álítur fulltrúi Flokks fólksins að þau séu á dagskrá þar sem ætlast er til að þau séu skoðuð af borgarfulltrúum. Í þessum leyfismálum er alveg ljóst að borgarfulltrúar hafa engar forsendur til að setja sig inn í þessi mál og hvað þá hafa á þeim skoðun. Hver er mögulega tilgangurinn með því að leggja þau fyrir borgarráð? Er kannski aðeins verið að uppfylla einhverjar gamlar samþykktir?
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 13. ágúst 2020. R20060037
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R20080026
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Minjastofnun hefur óskað eftir að friðlýsing menningarlandslags á Álfsnesi og við Þerneyjarsund taki strax gildi. Þetta er tilkynnt í erindi til Reykjavíkurborgar og er veittur andmælafrestur til 27. ágúst. Upplýst hefur verið að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir fresti frá þeirri dagsetningu. Þerneyjarsund inniheldur einstakt menningarlandslag því þar var ein af fimmtán kauphöfnum á Íslandi sem siglt var til á síðöldum og búseta fram á 20. öld. Við Þerneyarsund var hafskipahöfn á 14. og 15. öld og á þeim tíma var þar ein aðalhöfn landsins. Í heimildum frá 1429 kemur fram að Skálholtsstóll hafði aðstöðu við sundið vegna utanlandsverslunar og að auki kemur fram að ummerki eru um búskap á fyrri hluta 20. aldar fyrir tíma vélaaldar. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands og þjóðminjavörður, hvatti til þess á sínum tíma að staðurinn yrði varðveittur fyrir raski. Meirihlutinn ætlar að fórna þessum miklu menningarverðmætum því búið er að úthluta lóð á þessu svæði til einkaaðila. Skorað er á menntamálaráðherra að taka tillit til raka og staðreynda sem Minjastofnun setur fram í erindi sínu og friðlýsi tafarlaust þetta svæði.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20080027
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarráð samþykki að leitað verði umsagnar íbúaráðs Grafarvogs og foreldrafélags Hamraskóla um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í skipulags- og samgönguráði 23. janúar 2019 um umferðaröryggi gangandi vegfarenda og skólabarna í Hamrahverfi í Grafarvogi. Jafnframt er ítrekuð ósk um að umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra verði lögð fram. R20080113
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
28. maí síðastliðinn lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tíu spurningar varðandi eignarhald, sölu, leigu og úthlutunum eigna Reykjavíkurborgar í Gufunesi frá þeim tíma að borgin keypti svæðið af Faxaflóahöfnum 17. júlí 2015. Þessum spurningum var svarað í borgarráði 23. júlí 2020, sem hér með er þakkað fyrir. Svörin vöktu nokkrar nýjar spurningar sem hér með eru lagðar fram: 1. Reykjavíkurborg er eigandi töluvert margra eigna á svæðinu. Hvert er fasteignamat, brunabótamat og væntanlegt markaðsvirði þessara eigna og hvað marga fermetra er um að ræða. 2. Óskað er eftir sundurliðun vegna þeirra viðskipta sem þegar hafa farið fram skv. fyrra svari. Um er að ræða bæði fasteignakaup og byggingarland. Upphaflegt kaupverð og þá dagsetningu sem um ræðir. Voru þessir samningar vísitölutryggðir. Hvaða greiðslur hafa borist vegna hvers samnings og dagsetningar greiðslna. Uppfærðar eftirstöðvar hvers samnings framreiknað til dagsins í dag. Þeir aðilar sem um ræðir eru: RVK Studios ehf., GN Studios ehf., Gufunes Fasteignafélag ehf., Kuklarinn ehf., Loftkastalinn ehf., A 1-5 ehf. og Þorpið vistfélag ehf. R20050317
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í sumar var borið inn á heimili í Reykjavík póstur frá Reykjavíkurborg þar sem íbúum var gefin kostur á því að afþakka fjöldapóst. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði vilja vita hver kostnaður var við hönnun, prentun og dreifingu á þessum pósti. Hvar var þessi ákvörðun tekin að senda þennan póst? R20080109
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hefur Reykjavíkurborg sett einhverjar reglur vegna fésbókarsíðna sem eru í eigu borgarinnar? Fjöldi skóla- og leikskóla er með slíkar síður, fara fram einhver samskipti á milli foreldra og stjórnenda innan þessa síðna? Hver ber ábyrgð á síðunum? Vekja má athygli á síðu Kelduskóla þar sem óprúttnir aðilar hafa komist yfir aðgangsupplýsingar síðunnar og tekið hana yfir, hvað gerir Reykjavíkurborg í þeim tilfellum? R20080110Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Vegna mistaka þarf að malbika nýtt undirlag fyrir hlaupabraut við nýjan frjálsíþróttavöll ÍR í Mjódd þar sem rangt efni var notað við malbikun. Hver verður aukinn kostnaður borgarinnar við framkvæmdina vegna þessara mistaka og hversu lengi tefst að ljúka framkvæmdum þeirra vegna. R20080112
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í svarbréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna fjöldi þeirra sem ekki njóta þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í eigu hennar vegna vanskila kemur fram að þann 22. júní sl. voru 39 í uppsagnarferli, samkvæmt skóla- og frístundasviði, og höfðu frest til 1. ágúst sl. til að ganga frá greiðslu eða semja um vanskil. Í svarbréfinu er einnig tekið fram að samkvæmt hinum nýju tímabundnu innheimtureglum Reykjavíkurborgar er hægt að sækja um allt að þriggja mánaða gjaldfrest á hvaða þjónustugjöldum sem er hjá Reykjavíkurborg. Hefði verið hægt að setja þann gjaldfrest á skuldir aðila hjá skóla- og frístundasviði? Var það gert, eða hefði það þurft að eiga sér stað áður en skuldin var komin í innheimtuferli? Hefði ekki verið hægt að bæta þessum gjaldfresti aftan við skuldina svo að hún færi ekki í vanskil eða var slíkt kannski gert í einhverjum tilfellum? R20040015
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Yfirstjórn Reykjavíkur, en hana skipa borgarstjóri og sviðstjórar Reykjavíkurborgar, ákvað einhliða á fundi í júlí að athuga starfsumhverfi starfsfólks Reykjavíkurborgar sem kemur fyrir borgarráð. Athugunin lýtur að sálfélagslegum áhættuþáttum í umhverfi starfsfólks sem situr fundi eða kemur reglulega fyrir borgarráð. Eftir verðfyrirspurn til aðila var gengið frá samning við Líf og sál sálfræðistofu um þetta verkefni. 1. Hvaða fyrirtækjum var boðið að sinna verkefninu með verðfyrirspurn? 2. Hvaða verð gáfu þessi fyrirtæki í verkefnið tæmandi talið? 3. Hvað kemur Líf og sál ehf. til með að fá greitt fyrir að taka verkefnið að sér? 4. Var samið um eina greiðslu eða fær Líf og sál ehf. einnig greitt fyrir aukaverk sem kannski falla til? 5. Af hverju munu starfsmenn Lífs og sálar ehf ekki ræða skýrsluna eða einstaka þætti athugunarinnar við aðra en verkbeiðanda? 6. Á ekki að kynna skýrsluna fyrir borgarráði? 7. Á hvaða lagagrunni fer þessi vinna fram? 8. Kynnt er að endanleg útgáfa af frásögn viðmælanda verði í vörslu Líf og sálar ehf. sem gagn í málinu og ekki afhent öðrum nema að undangengnum dómsúrskurði. Er verið að trimma upp dómsmál milli embættismanna og kjörinna fulltrúa? 9. Ef já – hvernig eiga kjörnir fulltrúar að verja sig fyrir dómi í þeim ásökunum sem kunna að koma fram í skýrslunni ef þeir hafa aldrei séð hana? 10. Er búið að kalla eftir áliti Persónuverndar hvort þessi „athugun“ standist ný persónuverndarlög? R20080111
Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Kynnt var á fundi borgarráðs frestun innleiðingar upplýsingastjórnunarkerfi Reykjavíkur sem ber heitið Hlaðan. Fullyrt var á fundinum að Reykjavíkurborg bæri engan kostnað af frestuninni. 1. Hver var upphafleg kostnaðaráætlun vegna kerfisins og uppsetningu þess? 2. Hefur verkið farið fram úr kostnaðaráætlun? 3. Ef svo er, hver er ástæða þess? 4. Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt fyrir upplýsingastjórnunarkerfið allt til dagsins í dag tæmandi talið? 5. Er fyrirsjáanlegur aukakostnaður vegna innleiðingarinnar sem er ekki kominn á gjaldaga? 6. Ef svo er hvað er sá kostnaður? 7. Hvað er áætlað að endanlegur kostnaður verði þegar innleiðingu er að fullu lokið? R20080079
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Fundi slitið klukkan 11:30
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2008.pdf