Borgarráð - Fundur nr. 5594

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 13. ágúst, var haldinn 5594. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Sindri Freyr Ásgeirsson, Ólöf Magnúsdóttir og Pétur Ólafsson með fjarfundarbúnaði. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. ágúst 2020, ásamt svohljóðandi tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Til og með 1. september 2020 verður heimilt að nota fjarfundabúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundabúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 og verklagsreglum Reykjavíkurborgar um fjarfundi, þó þannig að meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað eins og fram kemur í 5. gr. leiðbeininganna. Einnig verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum, sbr. ákvæði 8. gr. leiðbeininganna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18060129
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundasviðs á tillögu um framlengingu samninga við tónlistarskóla í Reykjavík vegna neðri stiga tónlistarnáms og endurnýjun samninga vegna eftir stiga tónlistarnáms, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R20060276
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að standa vörð um tónlistarskólana og þann góða árangur í tónlist sem hefur náðst. Í menntastefnu Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á sköpun og skapandi listir. Það er skoðun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þetta eigi að endurspeglast í forgangsröðun fjármuna. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. ágúst 2020, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki niðurstöðu skuldabréfaútboðs Félagsbústaða, miðvikudaginn 12. ágúst 2020, í samræmi við samþykkt í borgarstjórn þann 17. mars sl. varðandi einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum Félagsbústaða í samræmi við lánsfjáráætlun félagsins. Upphæð samþykktra tilboða og ávöxtunarkrafa kemur fram í greinargerð. R19100128

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Bókun er færð í trúnaðarbók borgarráðs.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. ágúst, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020, ásamt fylgiskjölum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010161
    Samþykkt 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. ágúst 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að laun verði greidd 1. september nk. til félagsmanna eftirfarandi stéttarfélaga samkvæmt kjarasamningum sem samþykktir voru í borgarráði þann 23. júlí sl. Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag Íslands, Félag stjórnenda í leikskólum og Félagsráðgjafafélag Íslands. Gert er ráð fyrir að viðauki verði tilbúinn til framlagningar í borgarráði í september. R18120011

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að benda á að launakostnaður Reykjavíkurborgar er allt að 20% hærri per íbúa en hjá helstu nágrannasveitarfélögunum en sá kostnaður er allt að því 80.000 kr. hærri á hvern íbúa Reykjavíkurborgar. Stærðarhægkvæmni Reykjavíkurborgar er ekki nýtast til þess að ná hagræðingu í rekstri. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. júlí 2020, til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug, ásamt fylgiskjölum. R12100372

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samkomulagi milli borgarinnar og ríkisins frá 2013 er kveðið á um að ríkið finni æfinga-, kennslu- og einkaflugi í nágrenni Reykjavíkur nýjan stað. Þá hefur ríkið frá aldamótum gefið fyrirheit um að finna nýjan stað fyrir æfinga,- kennslu- og einkaflug. Á þessu er hnykkt í nýlegu samkomulagi borgarinnar og ríkisins frá október sl. Í bréfi borgarstjóra er þess krafist að ríkið efni samkomulagið án tafar. Þá er afar mikilvægt að æfinga- og kennsluflug fái nýja staðsetningu einkum í ljósi þess hve mikilvæg atvinnugrein flugið er þrátt fyrir tímabundið bakslag vegna heimsfaraldurs.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Yfirgangur borgarstjóra er hér mikill í þessu máli. Á tímum COVID-19 hefur Reykjavíkurborg ítrekað óskað eftir skattfé úr ríkissjóði. Ekki er langt síðan sú ósk kom frá Reykjavíkurborg að ríkið myndi láta borgina hafa tugi milljarða í neyðaraðstoð þar sem borgin væri ógjaldfær og geti átt erfitt með að halda uppi lögbundinni grunnþjónustu. Forgangsröðun fjármuna er hér undarleg. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Borgarstjóri hefur ritað bréf til samgönguráðherra þar sem þess er krafist að fundinn verði nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug og það „án tafar“ og vísar máli sínu til stuðnings í samkomulag frá árinu 2013 sem innanríkisráðherra og borgarstjóri rituðu undir. Þessi krafa borgarstjóra undirstrikar andúð á menntastofnuninni Reykjavíkurflugvöllur og þjónkun við þá örfáu borgarbúa sem amast við kennslu og einkaflugi. Enginn flugvöllur getur tekið við kennslufluginu því Reykjavíkurflugvöllur er eini flugvöllurinn á SV-horninu með þjónustaðar flugbrautir og með flugumferðarstjórn í loftrými utan Keflavíkurflugvallar. Ómögulegt er að útskrifa flugnema með réttindi án þess að þeir fái ítarlega þjálfun í flugi um stjórnað loftrými og umferð á stjórnuðum flugvelli. Þá er nauðsynlegt fyrir nám til atvinnuflugs að þjálfa flugmenn í aðflugi að stjórnuðum flugvöllum og með blindflugsbúnað. Öllum má vera ljóst að flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og kennslu- og einkaflug fer á engan hátt saman. Bygging og rekstur nýs flugvallar með þeim búnaði og þjónustu sem alþjóðlegar reglugerðir krefjast til flugnáms yrði gríðarlega kostnaðarsöm aðgerð, sem eingöngu virðist vera til að bola Fluggörðum á brott. Að lokum stríðir þessi krafa borgarstjóra gegn því meginsamkomulagi að Reykjavíkurflugvöllur skuli starfræktur án skerðingar þar til annar jafn góður eða betri kostur liggur fyrir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kallað er eftir nýjum stað fyrir kennslu- og einkaflug. Segir í gögnum að aðilar séu sammála um að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vera góður kostur. Þótt staður kennslu og einkaflugs sé beinlínis ekki tengdur því hvort flugvöllurinn fari þaðan í framtíðinni þá liggur nú fyrir að næsta áratuginn eða svo mun flugvöllurinn vera áfram í Vatnsmýrinni. Hvort Hvassahraun sé vænlegur kostur er allsendis óvíst. Rannsóknir hafa tafist von úr viti. Af hverju liggur því núna svona mikið á að finna nýjan stað fyrir kennslu og einkaflug? Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir flugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Farið var að mæla veðurskilyrði þar fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi, s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Óvissan um staðsetningu fyrir nýjan flugvöll er alger, gildir þá einu hvaða skoðanir fólk hefur á hvort völlurinn eigi að vera eða fara. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir. Að færa kennslu og einkaflug annað er ekkert akút mál og mun einungis kalla á útlát fjármuna sem ekki eru tímabær.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað slökkviliðsstjóra og framkvæmdastjóra almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. ágúst 2020, varðandi COVID-19 og aðgerðir sveitarfélaga. R20030002

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort meirihluti borgarráðs hafi farið of geyst með ákvörðunum sem leiða til mannmargra viðburða og samkoma. Borgarráð, þeir sem þar ráða hefðu mátt vita eins og aðrir að það gæti komið bakslag vegna COVID sem síðan varð raunin. Borgar- og skipulagsyfirvöld verða að haga ákvörðunum sínum í samræmi við það. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi þetta í einni af bókunum sínum á borgarráðsfundi 2. júlí og segir í þeirri bókun ennfremur að þegar líða tekur á árið liggi betur fyrir hvernig mál munu þróast. COVID er ekki búið og borgaryfirvöld verða að horfast í augu við það þegar sem dæmi boða á til umræðufunda vegna skipulagsmála. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri á að mæta til slíkra funda til að geta látið skoðanir sínar í ljós um mál sem snúa beint að þeim sjálfum.

    Jón Viðar Matthíasson, Arna Schram, Árný Sigurðardóttir, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Helgi Grímsson, Ómar Einarsson og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við samning Vesturbugtar ehf. og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Vesturbugt, ásamt fylgiskjölum. R17040005
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 18. apríl 2017 var skrifað undir samning um uppbyggingu á íbúðum auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis á gamla Slippsvæðinu, nú Vesturbugt. Reyndar er þetta verkefni orðið 18 ára gamalt. Nú er verið að samþykkja framlengingu á upphafi framkvæmda í annað sinn. Sem greiðslu fyrir byggingarréttinn skal félagið með skuldajöfnun afhenda Reykjavíkurborg íbúðir, samtals um 4.010 fermetrar að stærð og 170 bílastæði í bílageymslum húsanna. Þetta mál er allt hið undarlegasta og borgarfulltrúi Miðflokksins hefur margspurt út í þennan byggingareit og samspil Vesturbugtar og Reykjavíkurborgar. Í upphafi var áætlað að Reykjavíkurborg myndi kaupa rúmlega 70 íbúðir og selja áfram til félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og var þar með ákveðið millistykki milli fjármagnsaðila og Vesturbugtar. Hin almenna regla Reykjavíkur er að verði veruleg vanskil eða vanefndir vegna lóðaúthlutana þá er samningi rift. Hvers vegna er ekki jafnræði milli aðila sem fá úthlutað lóðum hjá borginni? Hvað er það raunverulega sem er í þessu máli?

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það sætir furðu að formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, skuli hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, Helgu Björgu Ragnarsdóttur inn á fund borgarráðs í dag, einkum og sér í lagi í ljósi þess, að eineltisteymi ráðhússins hefur látið mál sem Helga Björg hefur rekið gegn mér í tæp tvö ár niður falla. Enn furðulegra er það í ljósi þess að siðanefnd Dómarafélag Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Helga Björg Ragnarsdóttir hefur farið erindisleysu í öllum sínum málatilbúnaði þvert á það sem Helga Björg hélt fram í Facebook-færslu sinni um álit siðanefndar Dómarafélagsins. Formaður borgarráðs á að vinna fyrir alla kjörna fulltrúa og ber að sjá til þess að þeim líði vel í störfum sínum á fundum borgarráðs. Borgarráð ræður embættismenn og rekur samkvæmt skipuriti Reykjavíkur. Skrifstofustjóri Dags B. Eggertssonar hefur brotið á mér sem kjörnum fulltrúa með lygum, óheiðarleika og upplognum sökum. Það er krafa mín að hún haldi sig fjarri þeim fundum sem ég sit í ljósi niðurstöðu eineltisteymis ráðhússins. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs er ekki starfi sínu vaxin.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér snýr borgarfulltrúi Miðflokksins öllu málinu á haus eins og hennar er von og vísa. Hér skal fara rétt með: Þar sem Vigdís Hauksdóttir vildi ekki vinna að því að leiða málið til lykta og svara þeim erindum sem henni bárust var ekki hægt að aðhafast í málinu og því það látið niður falla. Það að mál sé látið niður falla vegna þess að Vigdís Hauksdóttir var ósamvinnuþýð er af og frá fullnaðarsigur hennar heldur merki um kjarkleysi hennar að horfast í augu við eineltistilburði sína og láta af slíkri niðurrifs- og ofbeldishegðun. Það er ekki sæmandi borgarfulltrúa sem er í valdastöðu að ráðast ítrekað að einni manneskju sem er eingöngu að sinna starfsskyldum sínum og sem hefur ekki sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn. Árásir borgarfulltrúans á starfsfólk borgarinnar og áður ríkisins þegar hún gegndi stöðu þingmanns eru henni nú, sem fyrr - til skammar. Virðist eina fyriráætlun borgarfulltrúans vera að grafa undan innviðum borgarinnar sem gengur með öllu gegn hagsmunum borgarbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Þegar kjörinn fulltrúi er sakaður um einelti eftir tvo fundi – svo mikið einelti að viðkomandi hafi hlotið heilsutjón af – þá sit ég ekki þegjandi yfir þeim ósannindum og lygum sem eru til þess fallin að rýra trúverðuleika minn sem stjórnmálamanns. Ef einhver fótur væri fyrir einelti af minni hálfu á hendur skrifstofustjóra Dags B. Eggertssonar, þá segja eineltisfræðin að viðkomandi ætti að forðast mig en ekki sækja í að sitja fundi þar sem ég er. Auðvitað lét ég ekki þvæla mér inn í heimatilbúinn, ólöglegan rannsóknarrétt ráðhússins sem stofnaður var mér til höfuðs. Nú gengur meirihlutinn fram með bókun sem inniheldur meiðyrði og miklar ásakanir í minn garð. Nokkrir fyrrverandi borgarfulltrúar hafa stigið fram og lýst svæsnu ráðhússeinelti sem þeir hafa orðið fyrir í störfum sínum. Það eitraða eineltis andrúmsloft er svo sannarlega til staðar í ráðhúsinu og gengur mann fram af manni í tvíendurreistum meirihluta Dags B. Eggertssonar. Ótrúlegt hvað nýjir borgarfulltrúar í meirihlutanum eru fljótir að læra eineltis vinnubrögðin. Bjarta hliðin á þessu máli er samt sú staðreynd að ég hef aldrei verið velkomin í ráðhúsið – það segir mér að ég er að gera rétta hluti sem kjörinn fulltrúi, enda hef ég komið upp um mörg spillingarmálin.

    Einar I. Halldórsson, Helga Björg Ragnarsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. ágúst 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gera tillögu að staðsetningu fimleika- og danshúss í Efra-Breiðholti, ásamt því að hefja undirbúning og þarfagreiningu slíks húss í samvinnu við ÍTR og í samráði við ÍR. R20080025

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samningi Reykjavíkurborgar og ÍR frá 30. janúar 2017 er gert ráð fyrir að reist verði fimleikahús. Lagt er til að því verði fundinn staður í Efra-Breiðholti. Þá er verkefnið til skoðunar í forgangsröðun íþróttamannvirkja til næstu ára. Við þarfagreiningu verði haft samráð við ÍR en einnig kunnáttufólk um dans og danshús og þarfir dansskóla. Fimleika- og danshús í efra Breiðholti mun án efa fjölga iðkendum í þeim greinum sem húsið hefði upp á að bjóða.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð, sbr. 62. lið fundargerð borgarráðs frá 25. júní 2020. R19010428

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og fram kemur í svari sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs er ekki um tafir á verkefninu að ræða. Hönnun Vörputorgs er í undirbúningi þar sem mat verður lagt á það hvernig best megi útfæra vinningstillögu Karen Sanders á verkinu Pálmatré sem bar sigur út býtum í hönnunarsamkeppni um listaverk í almenningsrými í Vogabyggð. Borgarráð samþykkti að fara skyldi í raunhæfismat á framkvæmdinni og unnið er að því.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Listasafni Reykjavíkur er í raun vorkunn að þurfa að svara þessari fyrirspurn enda ber safnið enga ábyrgð á ákvörðuninni. Pálmatrén í Vogabyggð eru algjört flopp og eru á pari við dönsku Braggastráin og grjóthrúgurnar úti á Granda. Hvers vegna valdi dómnefndin „listaverk“ sem þarf að fara í raunhæfismat? Komi í ljós að listaverkið Pálmatré er ekki raunhæft – sem það er ekki – er Reykjavíkurborg þá ekki skaðabótaskyld gagnvart listamanninum? Það er lenska hjá borginni að byrja sífellt á röngum enda – sérstaklega í gæluverkefnum sínum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á fundi borgarráðs 25. júní lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um hvar umhverfismatið sem pálmaverkið sem setja átti upp í Vogabyggð er statt. Ekki hefur borist svar við því en fyrirspurninni var vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svari við fyrirspurninni hið fyrsta og hefði það svar í raun átt að koma nú samhliða svari við fyrirspurn Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð enda báðar fyrirspurnirnar lagðar fram á sama fundi. Ennþá er því beðið eftir svari við „fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um framvindu raunhæfismats á útilistaverki í Vogabyggð“. Aðrar fyrirspurnir voru: Hverjir koma að matinu. Hvert er ferlið við framkvæmd raunhæfismats og hvar er borgin stödd í því ferli? Hver annast framkvæmd raunhæfismatsins? Hvað veldur þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd raunhæfismatsins nú þegar meira en ár er liðið frá því ákvörðun um það var tekin í málinu? Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmd raunhæfismatsins?

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að samninganefnd Reykjavíkurborgar komi reglulega fyrir borgarráð til að upplýsa um stöðu kjarasamningaviðræðna, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019. R19110385
    Tillögunni er vísað frá.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi tillaga var lögð fram í nóvember á síðasta ári og kemur til afgreiðslu borgarráðs nú í ágúst. Hún var lögð fram með það að markmiði að auka gagnsæi um stöðu kjaraviðræða og til þess að auka upplýsingagjöf til borgarráðsfulltrúa. Það eru vonbrigði að tillögunni hafi verið vísað frá. Borgarfulltrúar eiga að bera ábyrgð í kjaraviðræðum í stað þess að halda sig verulega utan við málin með því að vísa viðræðum til umboðs samninganefndar. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar hefur í þessari kjarasamningslotu reglulega tekið sæti á fundum borgarráðs til að greina frá stöðu viðræðna við samningsaðila Reykjavíkurborgar eins og hefð er fyrir. Í þessari samningalotu er búið að ganga frá kjarasamningum við Stéttarfélag tölvunarfræðinga, Verkfræðingafélags Íslands, Fræðagarð, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Stéttarfélag lögfræðinga og Félag sjúkraþjálfara, FÍH, Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag íslands, Félag stjórnanda í leikskólum, Félagsráðgjafafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands og Eflingu svo eitthvað sé nefnt. Í ljósi ofangreinds hefur samninganefndin ekki bara unnið þrekvirki við samningaborðið heldur hefur formaður nefndarinnar komið mörgum sinnum inn í borgarráð til að greina frá stöðu mála og kynna nýja kjarasamninga. Í ljósi þess er tillögunni vísað frá.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 30. júlí 2020. R20060037

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020. R20010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á fundi skipulags- og samgönguráðs var lagt fram erindi frá íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis. Íbúaráðið lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa máls. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti, s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjur íbúaráðsins eru þó þær að byggingarmagnið á reitnum er allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögun er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“ Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru forkastanleg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 2. lið fundargerðarinnar: 

    Af kynningu eigenda rafskútuleiga að dæma hefur orðið gríðarleg fjölgun á notkun rafskútna og rafhlaupahjóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af slysum sem hafa orðið á þessum hjólum og kunna að verða. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Velta má fyrir sér hvort borgar- og skipulagsyfirvöld ásamt rafskútuleigum hafi unnið nægjanlega vel og mikið með samgöngustofu og lögreglu í þessum málum og gert allt sem hægt er að gera til að tryggja öryggi þeirra sem hjóla og annarra vegfarenda? Rafhjólin eru komin til að vera, ekki er um það deilt. Samkvæmt umferðarlögum á hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Borgaryfirvöld geta og eiga að hvetja til hjálmanotkunar allra notenda rafhlaupahjóla og venjulegra hjóla án tillits til aldurs. Bannað er að hjóla undir áhrifum áfengis. Borgaryfirvöldum ber að leggja alla áherslu á að upplýsa um þessar reglur og ítreka að þær skuli virtar. Enn skortir mikið á að innviðir séu tilbúnir til að taka við þessari miklu fjölgun rafskútna/hjóla. Spýta þarf í lófana í þeim efnum.

    Fylgigögn

  14. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 9. og 31. júlí 2020. R20010013

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 19. júní 2020. R20010017

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að borgarfulltrúar fái gjaldskrána senda en það er látið líta út fyrir í fundargerð að samþykkt gjaldskrá Strætó bs. hafi verið send borgarfulltrúum til kynningar. Svo er ekki. Eingöngu hugmyndir af breytingu á gjaldskrá hafa verið reifaðar fyrir borgarráði. Ný gjaldskrá var samþykkt hinn 19. júní sl. af stjórn Strætó bs. Farið er fram á að liðnum sé frestað þar til samþykkt og endanleg gjaldskrá hefur verið send. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að í stefnumótun Strætó hefur ákveðið að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins til að borgaryfirvöld samþykktu að innleiða heimsmarkmiðin með formlegum hætti í sína stefnu. Tillagan var felld. Borgaryfirvöld hefðu auðvitað átt að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn eins og sum önnur sveitarfélög hafa gert. Að öðrum málum hjá fyrirtækinu er ekki hjá því komist að spyrja hvort hafa þurfi áhyggjur af fyrirtækinu og stjórnun þess? Strætó bs. hefur komist í fréttir tvisvar á afar stuttum tíma vegna sérkennilegra skilaboða um grímuskyldu eða ekki grímuskyldu og nú síðast vegna meints ölvunaraksturs strætóbílstjóra. Ef litið er til síðasta árs hafa fleiri erfið mál komið upp sem valdið hafa usla og sárindum hjá þjónustuþegum.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R20080026

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið yfirlitsins: 

    Það er með ólíkindum að taka eigi ákvörðun um fækkun bílastæða við sendiráð í borginni án þess að upplýsa eða vera í samráði við utanríkisþjónustuna um tillögu þess efnis. Mikilvægt er að borgin taki engar ákvarðanir í þessum efnum án samráðs við utanríkisþjónustuna.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20080027

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að stefnt verði að því að taka upp rafrænar undirskriftir í ráðum og nefndum borgarinnar. Borgin beini því til sveitarstjórnarráðuneytisins að viðeigandi heimildir séu til staðar svo rafrænar undirskriftir séu heimilar líkt og ritað sé með eigin hendi. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20080055
    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um endanlegan kostnað vegna Óðinstorgs en kostnaðaráætlun vegna Óðinstorgs og Týsgötu að hluta eins og tilgreint er í heimild borgarráðs sem veitt var fimmtudaginn 21. mars 2019 hljóðaði upp á 300 mkr. Þá var áætlað að framkvæmdir myndu hefjast í maí og að þeim mundi ljúka í september 2019 en framkvæmdirnar hafa dregist töluvert eða í u.þ.b. ár. Hlekkur á heimild borgarráðs: https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/12_thingholt_torg_tysgata_endurgerd.pdf R19030190

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um áætlaðan kostnað við Tryggvatorg og verktíma. R20080058

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir uppfærðu yfirliti yfir fjölda starfa hjá Reykjavíkurborg. R20080059

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkti 2. október 2018 að auka tíðni strætó í 7,5 mínútur á helstu leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að ekki hefur verið staðið við þessa ákvörðun borgarstjórnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því fram í janúar tillögu þess efnis um að staðið verði við þá ákvörðun að auka tíðnina þannig að strætó gangi á 7,5 mínútna fresti. Þessi tillaga okkar hefur enn ekki verið tekin fyrir. R18100265

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

  23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Nú þegar Menningarnótt hefur verið blásin af samkvæmt fréttatilkynningu borgarstjóra þá vakna margar spurningar m.a. hvort samþykktar umsóknir í Menningarnæturpott Landsbankans verði ekki greiddar til styrkþega. Styrkþegar hafa allir undirritað samninga þess efnis að þeir skuldbinda sig til að halda samþykktan viðburð. Reykjavíkurborg hefur nú tilkynnt styrkþegum einhliða að listamenn komi ekki fram vegna þess að hætt er við Menningarnótt. Mikil vinna hefur farið í verkefnin sem valin voru og má segja að styrkirnir séu borgun fyrir æfingatíma og útlagðan kostnað aðila sem standa að verkefnunum og er því um algjöra vanefnd á samningum að ræða af hálfu borgarinnar ef ekki verður greitt, því er spurt: 1. Verður ekki staðið við greiðslur til styrkþega eins og samningar kveða á um? 2. Ef ekki – á hvaða forsendum er ekki greitt til styrkþega þar sem Reykjavíkurborg tók þessa ákvörðun einhliða? 3. Er það ekki brot á samningarétti að greiða styrkina ekki út þar sem auðveldlega hefði verið hægt að halda marga af þessum viðburðum þrátt fyrir fjöldatakmarkanir við 100 manns? 4. Mikil vinna hefur farið í verkefnin sem valin voru og má segja að styrkirnir séu borgun fyrir æfingatíma aðila sem standa að verkefnunum og er því um algjöra vanefnd á samningum að ræða af hálfu borgarinnar. R20080056

    Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

  24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hver er heildarkostnaður við Óðinstorg og nágrenni frá upphafi og miðað við daginn sem fyrirspurninni er svarað sundurliðaður eftir öllum verkþáttum tæmandi talið, þ.m.t. hitalögn, torgið sjálft, allar nærliggjandi götur sem voru endurnýjaðar og s. frv.? 2. Hver er kostnaður Veitna ehf. í endurgerð Óðinstorgs og nágrennis? 3. Ber Reykjavíkurborg einhvern kostnað vegna Minjaverndar á svæðinu? 4. Hafa fallið til aukaverk sem ekki voru í samþykktu útboði? 5. Ef já - hver eru þau og hvað kosta þau tæmandi talið? R19030190

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna loforðs um bættar samgöngur. Nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan Korpuskóla var lokað. Lofað var bættum samgöngum fyrir börnin þegar þau gengju til skóla í nærliggjandi hverfi borgarinnar. Nú er skólahald að hefjast að nýju. Hver er staðan á framkvæmdum fyrir undirgöngum eða öðrum úrræðum til öruggari samgangna fyrir börnin í hverfinu á leið til skóla? R20080057

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Fundi slitið klukkan 11:54

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1308.pdf