Borgarráð - Fundur nr. 5593

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 23. júlí, var haldinn 5593. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:01. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Egill Þór Jónsson. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Pétur Kr. Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu um endurskoðaðar reglur um úthlutun sérmerktra bílastæða fyrir sendiráð, ásamt fylgiskjölum. R20070044
    Frestað.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á umferðarljósum árið 2020 í samstarfi við Vegagerðina, ásamt fylgiskjölum. R20070116
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða endurnýjun á 25 ára gömlum búnaði sem er úr sér genginn. Endurnýjun mun fara fram á 11 gatnamótum, þar af eru 5 alfarið í eigu Reykjavíkurborgar en 6 eru í sameiginlegri eigu Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Umferðarljósin sem um ræðir eru við gatnamótin: Nóatún – Skipholt, Hringbraut – Bræðraborgarstígur, Barónsstígur – Eiríksgata, Hringbraut – Framnesvegur, Stekkjarbakki – Álfabakki, Hringbraut – Hofsvallagata, Háaleitisbraut – Listabraut, Miklabraut – Skeiðarvogur, Réttarholtsvegur – Sogavegur, Geirsgata – Tryggvagata og Geirsgata – Naustin – Steinbryggja

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði benda á að endurnýjunin felur aðeins í sér lítinn hluta þeirra aðgerða sem þarf að ráðast í. Réttara hefði verið að ráðast í heildarútboð á snjalltækni í ljósastýringarkerfi alls höfuðborgarsvæðisins sem myndi skila aukinni skilvirkni og fjárhagslegri hagkvæmni. Enda yrði slíkt heildarútboð í anda samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga sem nú þegar hefur verið samþykktur á Alþingi. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði benti í upphafi á ágalla á útboðinu og hefur kærunefnd útboðsmála þegar komist að sömu niðurstöðu. Nú þegar eru umferðartafirnar farnar að kosta borgarbúa mikið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er enn eitt drullumallið í útboðsmálum Reykjavíkur á dagskrá sem er hreint lögbrot. Hvers vegna er ekki beðið eftir þarfagreiningu á ljósastýringarmálum höfuðborgarsvæðisins sem stendur yfir? Þann 11. október 2019 var útboð, rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa auglýst og 5. desember ákvað Reykjavíkurborg að fella niður útboðið og hafna öllum tilboðum. Tvær kærur bárust vegna útboðsins, annarri var lokið með úrskurði þann 8. apríl sl., en hin er enn til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu segir: „Meirihlutinn tekur undir það sem kemur fram í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar (434. og 435. mál) um mikilvægi þess að greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringum gangi hratt og félagið setji slíkar framkvæmdir í forgang því að slík umferðarstýring hefur veruleg áhrif á umferðarflæði með hlutfallslega litlum tilkostnaði. Bætt umferðarstýring með endurbættri umferðarljósastýringu er ein hagkvæmasta framkvæmdin sem ætlunin er að ráðast í og nauðsynlegt að forgangsraðað verði fyrir því verkefni strax og félagið tekur til starfa. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir í takt við markmið frumvarpsins.“ Þessi tillaga er klárt brot á samgöngusáttmálanum og lögum um útboðsmál.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að endurnýja úrelt umferðarljós og hefði mátt gera það fyrir löngu. Nútímavæðing stýribúnaðar umferðarljósa er eitt af því sem legið hefur í láginni hjá þessum og síðasta meirihluta. Um það bera umferðartafir og öngþveiti í borginni skýrt merki. Formgalli sem þessi kemur við pyngju borgarbúa. Hér var ekki gætt að ákvæðum laga um opinber innkaup við ákvörðun tilboðsfrests. Þetta er sérkennilegt þar sem útboð  er nánast daglegt brauð hjá stóru sveitarfélagi. Nú þarf Reykjavíkurborg og borgarbúar að greiða Smith & Norland bætur vegna þessara mistaka. Bæturnar eiga að nema kostnaði fyrirtækisins við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboðinu. Óumdeilt er að mati kærunefndarinnar  að borgin hafi ekki farið að lögum og hafi af þeim sökum þurft að ógilda útboðið.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við stígagerð á útivistarsvæðinu í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 100 m.kr. R20070119
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að samþykkja að farið verði í útboð við stígagerð á útivistarsvæðinu í Gufunesi. Kostnaðaráætlun 2 er 100 m.kr. Þar af eru 70 m.kr. hluti af áætlun um að flýta fjárfestingarverkefnum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að veita viðspyrnu við atvinnuleysi af völdum COVID-19.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við Kjarvalsstaði og á Klambratúni, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 140 m.kr. R20070120
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdirnar sem hér er verið að ráðast í snúast um að auka aðgengi að nýja útisvæðinu við Kjarvalsstaði og færa stíga á svæðinu með það að markmiði að auka aðgengi fyrir alla. Verkefnið er hluti af áætlun um flýtingu framkvæmda vegna COVID-19.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna ljósleiðaravæðingar dreifbýlis í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun vegna hluta Reykjavíkur er 50 m.kr. R17090130
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að samþykkja að bjóða út framkvæmdir vegna ljósleiðaravæðingar dreifbýlis í Reykjavík, m.a. á Kjalarnesi, Álfsnesi, Úlfarsfelli, Hólmsheiði og Elliðavatnslandi. Með vaxandi notkun internetsins hefur þörf almennings fyrir gögn og hraðan gagnaflutning margfaldast og er ljósleiðaravæðing lykillinn að því að anna þessari eftirspurn. Reykjavík er meðal fremstu borga heims þegar kemur að góðri internettengingu íbúa og er þessi aðgerð hluti af því að bjóða upp á frábæra innviði sem sóma sér vel á 21. öldinni og þá tækniþróun sem henni fylgir. Heildarkostnaður er áætlaður kr. 112.560.000. Áætlað er að útboð fari fram í júlí 2020 og að framkvæmdum ljúki eigi síðar en 1. apríl 2021. Verkefnið er hluti af áætlun um að flýta fjárfestingarverkefnum Reykjavíkurborgar til efnahagslegrar viðspyrnu vegna COVID-19.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að Fjarskiptasjóður ríkisins styrki ljósleiðaravæðingu í dreifbýli Reykjavíkur, sem er löngu tímabær framkvæmd og mikilvægt atvinnuskapandi verkefni í kjölfar COVID-19.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mjög gleðilegt að ljósleiðaravæðing dreifbýlis í Reykjavík sé nú loksins að verða að veruleika. Það er samt kaldhæðnislegt að COVID-19 þurfi til en verkefnið er keyrt á þeim grunni í gegnum kerfið. Algjört áhugaleysi hefur einkennt störf meirihlutans gagnvart þessu hverfi Reykjavíkur, sem er svo mikilvægt borginni í stóra samhenginu. Íbúar á þessu svæði hafa ekki staðið jafnfætis öðrum íbúum Reykjavíkur og er það borgarstjóra og meirihlutanum til skammar því enginn áhugi var að sækja um fjármagn í Fjarskiptasjóð. Frumkvæðið/umsókn þarf að koma frá sveitarfélögunum til að Fjarskiptasjóður skoði það að veita fjármagni í ljósleiðaravæðingu. Sú umsókn barst aldrei frá Reykjavík til sjóðsins fyrr en nú. Nú rofar til og rétt er að óska íbúum á þessu svæði til hamingju að vera loks komnir til nútímans með ljósleiðaravæðingu.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er beinlínis allt rangt í bókun Miðflokksins, að venju. Það er rangt að Reykjavíkurborg hafi ekki sótt um framlag úr Fjarskiptasjóði. Það var gert haustið 2018. Fjarskiptasjóður gerði borginni í kjölfarið tilboð með samþykkt sinni 18. febrúar 2019. Það var samþykkt í borgarráði sbr. erindi til borgarráðs dags. 21. febrúar 2019. Í tilboði Fjarskiptasjóðs fólst að styrkurinn kæmi ekki til fyrr en 2021. Því hefur nú verið flýtt í ljósi COVID í takt við vilja borgarinnar og er það fagnaðarefni. Það er furðulegt að borgarráðsfulltrúi Miðflokksins nenni að reyna að þyrla upp rugli og ryki í þessu jákvæða máli í stað þess að samfagna Kjalnesingum og öðrum sem njóta munu góðs af.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikið er málið viðkvæmt. Ljósleiðaraverkefni ríkisins í dreifbýli hefur verið við lýði síðan 2016 og Reykjavíkurborg hafði engan áhuga á verkefninu. Það er allt rétt í bókun Miðflokksins því borgin fór ekki að huga að þessum málum fyrr en eftir mikinn þrýsting frá íbúum þessa svæðis og það varð ekki fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018. Borgarfulltrúi Miðflokksins er ekki að þyrla upp ryki og hefur þegar fagnað og glaðst með Kjalnesingum í fyrri bókun.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við umferðaröryggismál árið 2020, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 190 m.kr. R20070117
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stór skref eru nú tekin í umferðaröryggismálum. Verkefnið var sett í flýtimerðferð vegna COVID-19 til að auka fjárfestingu og styðja við atvinnulífið. Um er að ræða snjallgangbrautir, betrumbætur á göngubrautum, betri gönguþveranir og lækkun hámarkshraða.  Það er stefna meirihlutans í Reykjavík að auka snjallvæðingu hvarvetna í kerfum borgarinnar og ánægjulegt að sjá slíka þróun einnig eiga sér stað í umferðaröryggismálum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna umferðaröryggisaðgerðum. Þá er því sérstaklega fagnað að tillaga Sjálfstæðisflokksins um snjallgangbrautir, sem samþykkt var í borgarstjórn,  komi nú til framkvæmda. Þá er jafnframt ánægjulegt að sjá áform um bætta gangbrautarlýsingu og gönguþveranir víða í borginni, sem eru í samræmi við fyrri tillögur Sjálfstæðisflokks.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna færslu á veðurmælireit á Veðurstofuhæð við Bústaðaveg, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 100 m.kr. R20070118
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða færslu á mælum Veðurstofunnar. Til þess að færa mælana þarf að gera aðkomuveg að nýjum mælireit, jarðvegsskipti innan reits, undirstöður fyrir mælitæki og möstur auk þess að reisa girðingar og almennan umhverfisfrágang.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er hreint með ólíkindum að útsvarsgreiðendur í Reykjavík þurfi að greiða 100 milljónir í að færa verðurmælisreit á Veðurstofuhæð við Bústaðaveg. Allt snýr þetta að þrengingarstefnu meirihlutans. Reiturinn á þeim stað sem hann er núna er fyrir þrengingarstefnunni og það virðist alveg vera sama hvað kostar að hrinda henni í framkvæmd – það skal gert. Er þessi eyðsla nú það sem borgararnir þurfa á að halda þegar allt er í uppnámi? Þessi vitleysa á sér engin takmörk og engin fjárhæðarmörk.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Ámundi V. Brynjólfsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti Garðheimum Gróðurvörum ehf. vilyrði fyrir lóð ásamt byggingarrétti í Suður-Mjódd. R19050035
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gleðilegt er að fundin hafi verið framtíðarstaðsetning fyrir Garðheima sem þurfa að flytja úr núverandi húsnæði og af núverandi lóð sem er í eigu einkaaðila. Sér í lagi er ánægjulegt að staðsetningin verði áfram innan Breiðholts enda mikill áhugi fyrir því meðal eigenda og íbúa.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að vikið hafi verið frá fyrri áformum, um að koma starfsemi Garðheima fyrir í Elliðaárdalnum. Uppbygging starfseminnar í dalnum hefði haft í för með sér mikið umhverfisrask, aukna bílaumferð og tilheyrandi fjölda bílastæða á mikilvægu grænu svæði í borgarlandinu. Má ætla að Suður-Mjódd verði mun heppilegri staður fyrir starfsemi Garðheima.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að sjá að Garðheimar hafa fallið frá því að hefja uppbyggingu innan Elliðarárdalsins á svæði Þ73 við Stekkjarbakka. Það gefur vonir um að hægst hafi á innrás og uppbyggingu í dalnum. Svo virðist að þessi flutningur Garðheima sé í fyrsta forgangi hjá Reykjavíkurborg því nýbúið er að rifta samningum við Heklu hf. sem átti að fá þessa lóð. En það er kannski ekki að undra því nú þegar hefur verið ákveðið að á milli 750-1.200 íbúðir rísi á lóð Garðheima. Samt er lýst yfir áhyggjum af aðgengismálum að fyrirtækinu á nýjum stað.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. júlí 2020, um bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. júní 2020, varðandi skipulag og uppbygging á landi við Skerjafjörð, ásamt fylgiskjölum. R12100372

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þann 22. júní sl. barst bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um skipulag og uppbyggingu á landi við Skerjafjörð. Líkt og fram kemur staðfestir ráðuneytið að samráð hefur verið haft um skipulag á svæðinu og einnig er staðfest að fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ekki athugasemdir við áform Reykjavíkurborgar um lóðaúthlutanir á svæðinu. Endanlegt uppgjör verður í samræmi við upphaflegt samkomulag um uppbyggingu lands í Skerjafirði frá 1. mars 2013. Enginn ágreiningur er þar af leiðandi um atriði umrædds samkomulags.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun ásamt borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins Mörtu Guðjónsdóttur og Egils Þórs Jónssonar:

    Í bréfi fjármálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið vekji athygli á að samkvæmt umræddu samkomulagi var gert ráð fyrir að allt byggingarland yrði selt með opnum og gegnsæjum hætti þar sem samið yrði við hæstbjóðanda á einstökum lóðum og lóðarhlutum. Ráðuneytið bendir jafnframt á að samkvæmt fyrirliggjandi úthlutunaráætlun standi til að ráðstafa án auglýsingar tilteknum byggingareitum í sérstökum tilgangi, þ.e. til Bjargs, Félagsstofnunar stúdenta og til byggingar hagkvæmra íbúða. Ákveði borgin að fara þá leið þá þurfi að taka mið af því í uppgjöri ríkis og borgar á söluandvirði byggingaréttarins og koma til með að leiða til þess að borgin fær lægri hlut í heildarsöluverði sem nemur þeim mismun sem verður á úthlutunarverði og markaðsverði viðkomandi lóða og byggingarreita. Kaupverð Reykjavíkur á landinu voru ákvarðaðar 440 milljónir sem skilgreindar voru sem lágmarksverð fyrir landið. Borgin á að fá fyrstu 440 milljónirnar af sölu byggingaréttar og ríkið 560 milljónir stighækkandi upp í 1,25 milljarð og 30% eftir og þegar þeirri upphæð væri náð.  Þessi samningur Dags B. Eggertssonar og Katrínar Júlíusdóttur, þáverandi fjármálaráðherra var einhliða borginni í hag en ekki ríkisins. Nú er fjármálaráðuneytið að úrskurða að Reykjavíkurborg beri tjón af því að auglýsa ekki byggingaréttinn á umræddu svæði og selja til hæstbjóðanda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að binda lokahnút á samkomulag á skipulagi og uppbyggingu á landi við Skerjafjörð. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Þetta er sérstakt í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvort flugvöllurinn muni fara úr Vatnsmýrinni eða vera þar til 20 ára eða langrar framtíðar. Lengst af talaði borgarstjóri og Samfylkingin fyrir því að flugvöllurinn færi  úr Vatnsmýrinni einmitt til að skipuleggja þar heildstæða byggð. Nú hefur þeim snúist hugur, hafa samþykkt að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til 15-20 ára eða þar til önnur staðsetning finnst, finnist hún þ.e.a.s. Svo láta á duga að byggja í kringum hann á alla mögulega auða bletti og með fjörulandfyllingu til að hægt sé að setja upp þjónustustofnanir.  Í þessu sambandi má minna á að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Annað atriði er hversu lítið  samtal skipulagsyfirvöld hafa átt við íbúa Skerjafjarðar um nákvæmlega þessa uppbyggingu þar. Síðast en ekki síst þá hafa margir áhyggjur af umferðarmálum. Ekki er séð að það skipulag sem liggur á borðinu í umferðarmálum dugi til að koma fólki í og úr hverfinu með skjótum og tafarlausum hætti.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:15 víkur Pétur Kr. Ólafsson af fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla, til leigu. R20060196
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að húsnæði Korpuskóla verði leigt út með því skilyrði þar verði skólahald til að mynda fyrir sjálfstætt rekna skóla sem hefðu áhuga á að leigja húsið fyrir starfsemi sína.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með þessari aðgerð, að heimila að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla til leigu er verið endanlega að loka fyrir þann möguleika að snúa ákvörðun um skólamálin í norðanverðum Grafarvogi til baka þe. að hafa starfsstöð Kelduskóla í Korpuskóla eins og var. Sameining starfsemi grunnskóla í Grafarvogi þar sem hætt var notkun á húsnæðinu olli  reiði og ólgu meðal margra foreldra og íbúa í Grafarvogi. Ekki er komin reynsla á hvernig hið nýja fyrirkomulag muni koma út ef horft er til hagsmuna barnanna. Enda þótt ekki sé góður kostur að hafa Bakkastaði 2 ónotað húsnæði er spurning hvort ekki ætti að hinkra ögn og sjá hvernig mál þróast í hinu nýja fyrirkomulagi. Til bóta er ef úr verður að húsið verði leigt að uppsagnafrestur leigu verði sem stystur.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamning vegna Holtavegar 29, ásamt fylgiskjölum. R20070009
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki eftirtalda kjarasamninga: kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra hljómlistarmanna, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félag leikskólakennara, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Skólastjórafélag Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félags stjórnanda í leikskólum, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafafélags Íslands. R18120011
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Því er fagnað að tekist hafi að ljúka kjarasamningum. Samninganefndum borgarinnar er þakkað vel unnin störf í krefjandi umhverfi. Þeir samningar sem afgreiddir eru nú eru við FÍH, Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag íslands, Félag stjórnanda í leikskólum og Félagsráðgjafafélag íslands.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að náðst hafi samningar í samræmi við lífskjarasamninga.

    Harpa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki endurskoðaða viðræðuáætlun við Félag grunnskólakennara og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. R18120011
    Samþykkt.

    Harpa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Fram fer kynning á trúnaðarmerktu mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-maí 2020, dags. 23. júlí 2020.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R20010095

  15. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025. Einnig lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlana 2021-2024. R20010203

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga að forsendur mannfjöldaspár kunni að vera úreltar.  Hagstofa Íslands hefur endurskoðað mannfjöldaspá sína og tekur hin nýja spá til áranna frá 2019 til 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands og mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli. Fram kemur í minnisblaðinu að frá 2023 verða veruleg vatnaskil í reikningum hagstofu og í stað þess að aðfluttir verði um 3.500 fleiri en brottfluttir reiknar hagstofa með að þetta snúist við og brottfluttir verði um 2.700 fleiri en aðfluttir. Fyrir vikið mun íbúum ekki fjölga frá 2023 til 2024 gangi þessi forsenda Hagstofu eftir.  Þar sem forsendur eru nú taldar úreltar hlýtur að þurfa að endurskoða  kostnaðarsöm  risaverkefni eins og borgarlínu sem meirihluti borgarstjórnar hefur ákveðið að ráðist verði í. Eitt af meginrökum skipulagsyfirvalda fyrir borgarlínu er að spáð hafði verið mikilli fólksfjölgun næstu árin. Vissulega er erfitt að spá nákvæmlega fyrir um mannfjölgun. Gera má ráð fyrir að borgarbúum fjölgi en klárlega ekki í þeim mæli sem talið var.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 21. júlí 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að hlutafé til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. verði hækkað um 235 m.kr. til að mæta kostnaði við framkvæmdir í fasteign félagsins eins og nánar er lýst í hjálagðri greinargerð. Hækkuninni verði skipt á 2 ár, þ.e. 166 m.kr. á árinu 2020 og 69 m.kr. á árinu 2021. Gerður er fyrirvari um að ríkið leggi fram sambærilegt fjármagn í samræmi við eignarhlut sinn í félaginu. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020 sem tekur mið af ofangreindu. Hlutafjárframlagið verði fjármagnað af handbæru fé Aðalsjóðs Reykjavíkurborgar. Framlagið hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu A-hluta Reykjavíkurborgar eða samstæðu en birtist í sjóðstreymi Aðalsjóðs A-hluta og samstæðu. Aukið framlag á næsta ári fari inn í fjárhagsáætlun ársins 2021.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20070089
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er til hækkun á hlutfé til Hörpu um 235 mkr. til að mæta kostnaði við framkvæmdir á fasteigninni. Hækkuninni er skipt á milli ríkisins og borgarinnar og deilist á tvö ár. Borgin er með 235 mkr í samræmi við eignarhlut sinn, 46%. Ríkið greiðir þá mismuninn af 510 mkr. eða 275 m.kr. Verkefnið er hluti af fjárfestingarátaki vegna COVID-19.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Dýr verður Harpa öll. Húsið og reksturinn er botnlaus hít og hefur verið frá upphafi. Nú er verið að leggja til að eigendurnir, ríki og borg leggi til aukið hlutafé í réttu hlutfalli við eignarhluta. Í tillögu þessari er lagt til að Reykjavíkurborg leggi Hörpu til í nýju hlutafé í fjárfestingaverkefni upp á 235 milljónir sem skiptist á þann hátt að 166 milljónir fara inn á árið 2020 og 69 milljónir á árið 2021. Ekkert er vitað um reksturinn sjálfan nema það að leigutekjur og salarleiga er sama og engin. Því er ljóst að þetta fjármagn nú er aðeins byrjunin á fjárútlátum Reykjavíkur til tónlistarhússins um næstu framtíð.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagðar fram tillögur staðgengils borgarstjóra, dags. 20. júlí 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161
    Samþykkt.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram tillögur staðgengils borgarstjóra, dags. 20. júlí 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna aðgerða vegna COVID-19. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161
    Samþykkt.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 20. júlí 2020, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna stofnframlags til SORPU bs. Greinargerð fylgir tillögunni. R20010161
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þann 2. júlí 2020 voru viðbótarstofnframlög til SORPU samþykkt í borgarráði. Um er að ræða hækkun um 500.000 þ.kr. en hlutur Reykjavíkurborgar í Sorpu er 56,34% sem gera 281.700 þ.kr. á árinu 2020.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og alkunna er hefur komið í ljós stórkostleg vanáætlun á gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem hefur leitt til lántöku hjá SORPU bs. Fyrir þeirri lántöku hefur borgin þurft að gangast í ábyrgð. Nú er verið að samþykkja einn milljarð króna í viðbótarframlag í stofnframlög frá eigendum SORPU vegna þessa. Ekki liggja fyrir áætlanir um sjálfbæran rekstur og stefnir rekstur SORPU í umtalsverðan taprekstur að óbreyttu. Til að mæta þessu er stefnt að því að hækka gjaldskrár verulega og mun því reikningurinn lenda á íbúum með tvennum hætti: Hærri sköttum og hærri sorphirðugjöldum. Til útgreiðslu núna árinu nemur hlutur Reykjavíkurborgar 56,34% eða 281.700 þ.kr. Þetta er köld sumarkveðja til skattgreiðenda í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sorpuskandallinn heldur áfram. Þessi tillaga gengur út á að Reykjavíkurborg leggi SORPU til rúmar 282 milljónir og byggir sú upphæð á 56,34% eignarhlut borgarinnar. Er stofnframlagið tekið af handbæru fé borgarsjóðs. Í byrjun árs ákvað eigendavettvangur að dæla inn í félagið 1 milljarði. Nú þegar hefur verið lengt í eins milljarðs láni og veitt var ný lántaka hjá lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá var framlengt 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár. Reksturinn er í molum og borgarfulltrúi Miðflokksins varaði við ógjaldfærni SORPU á fundi borgarráðs 5. september 2019, en þar var talað fyrir daufum eyrum meirihlutans og ekki dettur stjórninni í hug að segja af sér til að axla ábyrgð.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 18. júlí 2020, um málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. R20070121

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 21. júlí 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að laun verði greidd 1. ágúst nk. til félagsmanna eftirfarandi stéttarfélaga samkvæmt kjarasamningum sem samþykktir voru í borgarráð þann 2. júlí sl.: Stéttarfélag tölvunarfræðinga, Verkfræðifélag Íslands, Fræðagarður og Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Þroskaþjálfarafélag Íslands, Stéttarfélag lögfræðinga, Félag sjúkraþjálfara. Gert er ráð fyrir að viðauki verði tilbúinn til framlagningar í borgarráði í ágúst. R18120011
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 21. júlí 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Styrkurinn mun nýtast til að kaupa ný eldhústæki fyrir barnaheimilið í Tasiilaq á Grænlandi þar sem alast upp átján börn. Styrkurinn verður fjármagnaður af kostnaðarstaðnum 09205, ófyrirséð. R20070124
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að styrkja á Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Flokkur fólksins lagði til í október 2018 að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum. Tillagan var felld 11. desember 2018 með fjórum atkvæðum meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Fulltrúar  Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Skák er því miður ekki komin í námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera. Skák er einstök fyrir margar sakir. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Skákin hentar öllum börnum en einstaklega vel í samfélagi eins og á Grænlandi þar sem landfræðilegar aðstæður og mannfæð bjóða börnum almennt ekki upp á mörg tækifæri til tómstundaiðkunar. Með skáklandnámi Hróksins og Kalak á Grænlandi hefur fjöldi Grænlenskra barna fengið tækifæri til að þroska með sér þá færni sem skákíþróttin veitir, sem þau hefðu mögulega annars farið á mis við.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda sem nýtti sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum, sbr. 72. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020. R20030260

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu margir hefðu nýtt sér heimildina að fresta leigugreiðslum vegna COVID-19 í tengslum við tillögu borgarstjóra að  framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Í svari kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní”. Ljóst er að þetta úrræði er ekki að ná til margra ef aðeins 12 hafa nýtt sér frestinn. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma á móts við fleiri. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis  íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekki neitt. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar  að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Það gæti verið erfitt á þessu stutta tímabili að sýna fram á þriðjungs tekjutap. Hér kallar fulltrúi Flokks fólksins eftir auknum  sveigjanleika og manneskjulegheitum.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 2. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020. R20060063

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið sem greinilega er vandað til. Stafrænar lausnir og stafrænt kerfi er nýjung, eitthvað sem sennilega er að þróast frá degi til dags. Það sem vakir fyrir fulltrúa Flokks  fólksins er að fólk sem nota á kerfið hafi góðan aðgang að því, finni upplýsingar sem það vantar, fái svör við fyrirspurnum sínum og að mál þeirra séu leyst á skjótan og skýran hátt í gegnum upplýsingakerfi borgarinnar.  Ef marka má kvartanir sem berast reglulega að þetta sé ekki svona í reynd. Kvartað er t.d. yfir að ekki séu veittar upplýsingar, að skeytum sé ekki svarað, o.s.frv. Þetta kann að koma skrifstofu stafrænnar Reykjavíkur ekkert við en verið er samt að tala um aðgengi og gagnsæi í báðum tilvikum. Það er ekki nóg að skreyta með smart útliti ef fólk nær „ekki í gegn” ef skilvirkni er ekki til staðar. Þessi stafrænu fínheit kunna að vera gagnleg fyrir starfsfólk en kerfið þarf að virka fyrir borgarbúa. Heildarkostnaður er tæpar 9 milljónir og ekki var farið í útboð eftir því sem næst er komist. Og loks, hvað þýðir að ítra? Í  svari kemur fram eftirfarandi: Kerfið er tilbúið og þegar hægt að sækja efni þangað inn eða bæta við og ítra.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eins og kemur fram í svarinu snýr þessi rammi í kringum stafrænt útlit borgarinnar fyrst og fremst um ,,að bæta upplifun borgarbúa(...), gera hana jákvæðari og skýrari og að endingu auðvelda borgarbúum að nálgast upplýsingar og sækja sér viðeigandi þjónustu". Einnig kemur fram að þessi vinna byggi á þjónustustefnu borgarinnar sem verið er að innleiða sem snýst um að hanna þjónustu út frá þörfum notenda með einfaldleika, aðgengi og gagnsæi að leiðarljósi. Í því tilliti er verið að gera þjónustuþætti rafræna og endurhanna þjónustuferli frá a til ö og er rafvæðing fjárhagsaðstoðar dæmi um slíka vinnu. Snýst þetta því ekki bara um ,,smart útlit" og ,,stafræn fínheit" fyrir starfsfólk eins og gefið er í skyn heldur aðgengi og gangsæi og aukin þægindi fyrir borgarbúa.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. júní 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020. R20060110

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um innri leigu Klettaskóla, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. R20030201

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Klettaskóli fór 1 milljarð/1.000 milljónir fram úr kostnaðaráætlun og var gerð hvítþvottaskýrsla um framúrkeyrsluna. Sjá: https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/7_klettaskoli_skilamat_framkvaemda.pdf  Það er mikið áfall eitt og sér í fjármálastjórn Reykjavíkur. Afleiðing framúrkeyrslunnar er að innri leiga Klettaskóla hækkar úr 126 milljónum 2019 í 450 milljónir 2020 sem byggir á „leikreglum“ um að innri leiga væri 8,5% af framkvæmdakostnaði. Þetta er gjörsamlega galið. Búið var að eyða fleiri tugum milljóna í hönnun áður en farið var af stað í verkið. Í fjárhagsáætlunum 2013 -2019 voru 2.525 milljónir færðar á Klettaskóla. Fimm viðaukar voru lagðir fram á árunum 2015-2018 að upphæð 940 milljónir. Stærsti hluti viðaukaheimilda kom inn á árinu 2018 eða 770 milljónir sem er athyglisvert þar sem einungis 100 milljónir fóru inn á verkið í fjárhagsáætlun fyrir það ár. Samþykktar fjárheimildir eru 3.465 milljónir. Endalegur kostnaður varð hinsvegar 3.950 milljónir og vantar því samþykkt fyrir 485 milljónum í verkið. Þau rök borgarinnar að verkið hafi farið framúr kostnaðaráætlunum vegna þeirrar starfsemi sem er í húsunum eru ósannindi enda hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafnað kröfu borgarinnar sem haldið hefur verið fram. Það er fyrirsláttur og eftiráskýringar sem kemur fram í skilamatinu að viðbótarverk hafi orsakað þessa framúrkeyrslu. Raunveruleikinn er að málið lyktar af spillingu og arfalélegri fjármálastjórn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um rekstraraðila og leigugreiðslur vegna Grandagarðs 20, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 2020. R20050320

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um starfsemi borgarinnar að Vatnagörðum 28, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 2020. R20050320

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. júlí 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um eignarhald, sölu, leigu og úthlutanir eigna í Gufunesi, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. maí 2020. R20050317

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um styrkingu Leigjendasamtakanna, sbr. 68. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020. R20070030
    Samþykkt að vísa tillögunni frá.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnafulltrúi Sósíalistaflokksins harmar að ekki sé vilji til þess að bæta hagsmunabaráttu leigjenda en staða þeirra er oft mjög slæm og fáir sem geta veitt þeim aðstoð.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað frá í ljósi þess að betur færi á að Leigjendasamtökin myndu sjálf sækja um styrk til borgarinnar. Þá er hægt að taka afstöðu til erindisins.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. júní 2020. R20010018

    Fylgigögn

  32. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. júní og 16. og 17. júlí 2020. R20060037

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 25. júní:

    Klettaskóli fór 1 milljarð/1.000 milljónir fram úr kostnaðaráætlun og var gerð hvítþvottaskýrsla um framúrkeyrsluna. Sjá: https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/7_klettaskoli_skilamat_framkvaemda.pdf Það er mikið áfall eitt og sér í fjármálastjórn Reykjavíkur. Afleiðing framúrkeyrslunnar er að innri leiga Klettaskóla hækkar úr 126 milljónum 2019 í 450 milljónir 2020 sem byggir á „leikreglum“ um að innri leiga væri 8,5% af framkvæmdakostnaði. Þetta er gjörsamlega galið. Búið var að eyða fleiri tugum milljóna í hönnun áður en farið var af stað í verkið. Í fjárhagsáætlunum 2013 -2019 voru 2.525 milljónir færðar á Klettaskóla. Fimm viðaukar voru lagðir fram á árunum 2015-2018 að upphæð 940 milljónir. Stærsti hluti viðaukaheimilda kom inn á árinu 2018 eða 770 milljónir sem er athyglisvert þar sem einungis 100 milljónir fóru inn á verkið í fjárhagsáætlun fyrir það ár. Samþykktar fjárheimildir eru 3.465 milljónir. Endalegur kostnaður varð hinsvegar 3.950 milljónir og vantar því samþykkt fyrir 485 milljónum í verkið. Þau rök borgarinnar að verkið hafi farið framúr kostnaðaráætlunum vegna þeirrar starfsemi sem í húsunum eru ósannindi enda hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafnað kröfu borgarinnar sem haldið hefur verið fram. Það er fyrirsláttur og eftiráskýringar sem kemur fram í skilamatinu að viðbótarverk hafi orsakað þessa framúrkeyrslu. Raunveruleikinn er að málið lyktar af spillingu og arfalélegri fjármálastjórn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 25. júní:

    Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi, ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

    Fylgigögn

  33. Lagðar fram fundargerðir Samstarfsnefndar skíðasvæða Höfuðborgarsvæðisins frá 27. maí og 3. júní 2020. R20010016

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 24. júní 2020. R20010009

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins finnst nokkrir hlutir eftirtektarverðir þegar kemur að „helstu frávikum í  þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs. Þjónustumiðstöðvar voru 15 m.kr. umfram fjárheimildir sem rekja má til langtímaveikinda. Hér verða að koma betri skýringar. Líður fólki illa í vinnunni, eru þetta veikindi sem rekja má til þess? Þetta er sannarlega ekki léttvægt mál. Varðandi hjúkrunarheimili þá voru Droplaugastaðir 19. m.kr. umfram fjárheimildir eða  tæp 60%.  Seljahlíð fer 68% fram yfir áætlun og er skýrt með því að þetta sé óhagstæð rekstrareining. Það geta ekki verið nýjar fréttir? Af hverju hefur þá ekki verið bætt úr því? Hægt ætti að vera að finna leiðir til að búa til hagstæðustu rekstareininguna sem völ er á. Sama má segja um vistgjöld barnaverndar, hægt er að áætla nákvæmara en gert er nú.  Kerfi sem gengur áfram ár eftir ár ætti að vera auðvelt að spá fyrir um og áætla samkvæmt því. Enn eru frávik vegna heimaþjónustu að þessu sinni 98 m.kr. innan fjárheimilda því ekki hefur tekist að manna stöður. Þetta þýðir að  ekki var hægt að veita fullnægjandi grunnþjónustu sem fólk á rétt á og þarfnast. Sama er um heimahjúkrun sem var 23 m.kr innan fjárheimilda vegna ónógrar mönnunar. Það verður að fara að taka á mannekluvanda í Reykjavík með öllum ráðum og dáðum.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 22. júní 2020. R20010022

    Fylgigögn

  36. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. R20060272

    Fylgigögn

  37. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20060275

    -    Kl. 12:05 víkja borgarstjóri og Egill Þór Jónsson af fundinum.

    Fylgigögn

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Boðað var til kynningarfundar í sumar um húsnæði Korpuskóla þar sem til stóð að kynna að sjálfstætt rekinn grunnskóli hefði áhuga á að vera með starfsemi sína þar. Nú hefur verið ákveðið að auglýsa húsnæðið til útleigu en mikilvægt er að húsnæðið verði áfram nýtt í þágu skólastarfs. Verði það raunin að sjálfstætt rekinn grunnskóli verði með starfsemi sína í húsnæðinu er lagt til að börn í Staðahverfi eigi þess kost að ganga í skólann sér að kostnaðarlausu. í ljósi þess að enginn grunnskóli er rekinn af Reykjavíkurborg í hverfinu eftir lokun Korpuskóla er sanngirnismál að Reykjavíkurborg greiði kostnað vegna þessara nemenda kjósi þeir að ganga í sjálfstætt rekinn skóla í hverfinu. Búast má við að margir foreldrar hafi áhuga á að börn þeirra geti sótt skóla í sínu nærumhverfi  sem er í anda við eitt meginstef aðalskipulagsins að íbúar geti sótt þjónustu í nærumhverfi sínu sem ekki er til staðar eftir í hverfinu eftir að Korpuskóla var lokað. R20070148

    Vísað til meðferðar skóla og frístundaráðs.

  39. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Gera má ráð fyrir að borgarlínuverkefnið verði mun kostnaðarsamara en áætlað er enda hefur það komið á daginn og sýnt sig að sambærileg verkefni í erlendum borgum hafa farið langt yfir kostnaðaráætlun. Með þá staðreynd í huga er lagt til að kostnaður við borgarlínuverkefnið verði metinn með tilliti til sambærilegra verkefna erlendis s.s. í Edinborg þar sem verkefnið stóðst ekki kostnaðaráætlanir. Enginn rekstraráætlun liggur fyrir varðandi borgarlínu og því er lagt til að unnið verði að slíkri áætlun og hún lögð fram hið fyrsta. Það er lágmarskrafa að þessari heimavinnu sé lokið áður en frekari ákvarðanir eru teknar og framkvæmdir hefjast. Skattgreiðendur eiga heimtingu á að vera upplýstir um reikninginn sem þeim verður sendur vegna borgarlínunnar. R20070151

    Frestað.

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1.    Er búið að setja upp aðflugsljós/lendingarljós fyrir flugbraut 13 sem kveðið er á um í samningi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group, frá árinu 2013? 2. Isavia hefur farið þess á leit við NLR/Hollensku flug- og geimferðastofnunina, að framkvæma hermun á áhrifum fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á vindsveipi á og yfir Reykjavíkurflugvelli með tilliti til flugöryggis. Mun borgarstjórn tryggja öryggi flugumferðar ef það þýðir frestun eða breytingu byggðar í Skerjafirði? 3. Hefur verið staðið við að fella tré í Öskjuhlíð í þágu flugstarfseminnar sem kveðið er á í samningnum? 4. Í samningnum felst opin heimild til fellingu trjá – er endurmat gert á hverju ári um fellingu svo tré í Öskjuhlíð trufli ekki flugvallarstarfsemi? 5. Hefur það verið skoðað hvort fella þurfi aspir sem eru við enda flugbrautarinnar og eru á bílaplani HR þar sem flugmenn hafa kvartað yfir því að þær trufli flugstarfsemi flugvallarins? R20070145

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Í svari við fyrirspurn um greiðslur/viðskipti Reykjavíkurborgar til EFLU verkfræðistofu sem lagt var fram í borgarráði 20. janúar sl. koma fram upplýsingar um gríðarlegar greiðslur til stofunnar. Á þeim grunni er lögð fram ný fyrirspurn sama eðlis sem er svohljóðandi: 1. Óskað er eftir upplýsingum hvað verkfræðistofur hafa fengið greitt frá Reykjavíkurborg og öllum dótturfélögum borgarinnar á ári – á árunum 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019 tæmandi talið? 2. Hvaða verk fóru í útboð? 3. Hver var upphæð tilboða sem tekið var? 4. Hver var endanlegur kostnaður við hvert útboð? R19110212

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
     

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvað líður mengunarmælingum á skotsvæðinu í Álfsnesi sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur átti að fara í snemmsumars? 2. Eru komnar einhverjar niðurstöður? R20070146

    Vísað til umsagnar heilbrigðiseftirlitsins.
     

  43. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Óskað er eftir öllum skriflegum gögnum þegar Reykjavíkurborg keypti jörðina Varmadal, hvort sem um er að ræða glærusýningar sem notaðar voru í grendarkynningu, fundargerðir og önnur skrifleg gögn sem til eru í málinu. R20070147

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    1. Með hvaða hætti, ef nokkuð, beitti aðgengis- og samráðsnefndin sér varðandi 10. gr. nýrra umferðarlaga sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði? 2. Hvernig hefur aðgengis- og samráðsnefndin, ef eitthvað, beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Hér er átt við skilti sem sýna rétt  þeirra sem eru með P-merki. Þeir mega bæði keyra og leggja á göngugötum. 3. Hvernig beitti aðgengis- og samráðsnefndin sér í að haft yrði samráð við hagsmunasamtök fatlaða í útboðsmálum sameiginlegrar akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu? 4. Hversu oft hafa ofangreind mál verið sett á dagskrá aðgengis- og samráðsnefndarinnar og hvernig hafa þau verið afgreidd út úr nefndinni? R20070141

    Vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar.
     

  45. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir. Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndi gesti og gangandi.  Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18.  Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að  helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingamiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20070142
    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

    Fylgigögn

  46. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins um endurgerð bílastæða í Mjódd. Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur er fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Viðræður ganga hægt og endurgerð bílastæðanna á svæðinu er orðið afar brýnt mál.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að gengið verði sem fyrst í að semja aftur með hagsmuni Mjóddar að leiðarljósi bæði með tilliti til aðgengismála og öryggismála gesta og gangandi sem leggja leið sína í Mjódd. R20070142

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  47. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld horfi til endurnýjunar á svæðinu umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. R20070142

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  48. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ábendingahnappur Strætó bs. verði sýnilegri og aðgengilegri á heimasíðu Strætó bs. Nú er sá hnappur neðarlega undir hnappnum Notendaupplýsingar og er frekar seinfundinn fyrir notendur og þjónustuþega sem vilja senda inn ábendingar. Ábendingahnappurinn þarf að blasa við um leið og vefsíða þjónustufyrirtækis eins og Strætó bs. er opnuð. Öðruvísi gagnast hann aðeins með takmörkuðum hætti. R20070144

    Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.
     

    -    Kl. 12:32 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum.

Fundi slitið klukkan 12:49

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2307.pdf