Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn 5592. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru auk borgarstjóra sem tekur sæti á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason, Ólöf Magnúsdóttir og Sindri Freyr Ásgeirsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir Elliðaárvog vegna smábatahafnar, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða minniháttar breytingu á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins er varðar hafnargarð við smábátahöfn Snarfara við Naustavog.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar endurnýjun leyfa til gististaða vegna eldri leyfa í flokki I, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna byggðar í Skerjafirði, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að deiliskipulagi nýja Skerjafjarðar fer nú í langt kynningarferli yfir sumarið sem gefur íbúum og öðrum hagsmunaaðilum færi að kynna sér tillöguna og koma með athugasemdir varðandi útfærslu hennar. Áður hafa tillögur vegna hugmyndaleitar, rammaskipulags og aðalskipulags verið kynntar fyrir almenningi. Tillagan er í samræmi við meginstefnu Aðalskipulags og fylgir eftir fjölda samninga milli ríkis og Reykjavíkurborgar sem varða aðbúnað Reykjavíkurflugvallar, endurnýjun flugbrauta, deiliskipulag fyrir Skerjafjörð, uppbygging nýrrar byggðar og lagningu nýrrar samgöngutengingar. Fyrir liggur kaupsamningur og afsal milli Reykjavíkurborgar og ríkissjóðs Íslands dags. 11. ágúst 2016. Tillagan skerðir ekki starfsemi Reykjavíkurflugvallar, enda stendur fyrirhuguð byggð utan við öryggissvæði flugvallarins og mun ekki fara upp fyrir hindrunarfleti. Unnin hefur verið ítarleg rannsókn á vindafari sem sýna að áhrif á flugvöllinn verða minniháttar. Nýr skóli, leikskóli, útivistarsvæði og matvöruverslun munu auka lífsgæði íbúa, bæta þjónustu og styðja við vistvæna samgöngumáta í þessu græna hverfinu. Tillagan gerir ráð fyrir gatnatengingu suður fyrir Reykjavíkurflugvöll sem mun tengjast nýrri brú yfir Fossvog og stytta ferðatíma fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Nýja samgöngutengingin mun einnig nýtast yfir framkvæmdartíma til að minnka álag á Einarsnes. Mengaður jarðvegur innan deiliskipulagssvæðis verður meðhöndlaður eftir ströngustu kröfum, líkt og gert hefur verið á öðrum uppbyggingarsvæðum í borginni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanlega ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari samgöngumat en því er enn ólokið. Ekki liggur fyrir heildstæð umferðargreining en um er ræða þreföldun á hverfinu. Þá er umhverfismati ólokið en Náttúrufræðistofnun er með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð. Í þriðja lagi hefur því enn ekki verið svarað hvar vegurinn, sem stóð til að leggja í gegnum flugskýli flugfélagsins Ernis verði lagður. Þá hefur Isavia gengið frá samningi við hollensku loft- og geimferðastofnunina um að gera úttekt á mögulegum áhrifum fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli en þeirri úttekt er ólokið.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um að starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri verði tryggð á þann hátt að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt meðan unnið væri að undirbúning og byggingu nýs flugvallar, ef hann hugsanlega kæmi. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllin í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því í kynningu að gerð og auglýsingu deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð er málið keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Síðast í gær, 1. júlí var samgönguráðherra á allt annari skoðun en hér birtist. Ráðherrann er ekki að fatta að verið er að þverbrjóta samkomulagið. Hér er verið að leggja til aukið byggingamagn úr 800 íbúðum í 1.300. Það er ljóst að þetta svæði ræður ekki við þann umferðarþunga sem af þessari uppbyggingu hlýst. Fyrst á að leggja „framkvæmdaveg“ meðfram flugvallargirðingunni sem breytast á í borgarlínu. Í mengunarkönnun er einungis 1 af 96 holum sem falla í flokkinn „mjög góður“ og 16 holur falla í flokkana „slæmt og mjög slæmt“. Þessar staðreyndir segja okkur að það eigi alls ekki að byggja á þessu svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af mengun í jörð og hávaðamengun af flugvelli fyrir komandi íbúa í Skerjafirði. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvorutveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Flytja þarf uppgrafinn mengandi jarðveg í burtu en engin getur svarað hvernig á að gera það. Ekki er vitað hvort flugvöllurinn verði í 15 eða 50 ár enda engin niðurstaða komin í Hvassahraunið sem verðandi flugvallarsvæði. Lýsing á hverfunum gefur einnig til kynna að þetta hverfi er ætlað afmörkuðum hópi, þeim sem eiga ekki heimilisbíl þar sem engin bílastæði eru við hús heldur er aðeins einn stór sameiginlegur bílakjallara. Talað er um blandaða byggð, „coliving“ sem er einhvers konar sambýli margra. Ekki hefur þó verið minnst á íbúðir fyrir fatlaða, smáhýsi fyrir heimilislausa, hjúkrunarrými eða heilsugæslu. Áhyggjur eru af einangrun en spáð er að bílum fari fjölgandi úr 2000 bíla í 7000 samkv. gögnum. Um er að ræða 1300 íbúðir. Það munu ekki allir starfa nærri heimili sínu enda á að draga úr byggingarheimildum iðnaðarhúsnæðis. Umferð um Hringbraut er löngu sprungin og ekki má aka Fossvogsbrúna. Flokkur fólksins er einnig alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna sértækra búsetuúrræða og landnotkun, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athygli vekur að Bláskógarbyggð og sveitarfélagið Ölfus skiluðu umsögn en ekki er að finna umsagnir frá íbúaráðum borgarinnar, sem þó voru sérstaklega beðin um umsögn skv. gögnum málsins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að notfæra sér lagaeyðuákvæði með því að gera breytingu á aðalskipulagi í þá veru að búsetuúrræði verði heimil þar sem ekki má vera með íbúðabyggð. Samkvæmt lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að ef vafi leikur á hvort skipulags- eða framkvæmdaáætlun sé háð ákvæðum laganna getur almenningur eða sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð óskað eftir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort áætlunin falli undir lög þessi. Skipulagsstofnun skal auglýsa í dagblaði sem gefið er út á landsvísu að ákvörðun liggi fyrir. Heimilt er að kæra slíkar ákvarðanir til ráðherra. Reykjavíkurborg er hér á mjög hálum ís í skipulagsvinnu sinni. Þessi heimild opnar á að leyfilegt er að drita niður smáhýsum, hjólhýsum, kúluhúsum, og fl. út um allt borgarlandið. Alþingi fer með lagasetningavaldið en ekki Reykjavíkurborg. Það er ljóst að ef gengið verið að kröfu Reykjavíkurborgar um breytingar í þessa veru verður það fordæmisgefandi fyrir öll sveitarfélög á landinu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Umhverfismat áætlana felst í að meta áhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið og nýta niðurstöður matsins til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra. Undir þau lög falla framkvæmdir fyrir grófan iðnað líkt og námuiðnað, orkuiðnað, efnaiðnað, skólphreinsivirki, og förgunarstöðvar. Allt sem hefur veruleg umhverfisáhrif. Ljóst er að fulltrúi Miðflokks er á villigötum með málflutning sinn. Aðalskipulagsbreyting þessi er í samræmi við gildandi lög. Markmið hennar er að auka sveigjanleika og hraða við undirbúning ýmissa húsnæðislausna fyrir sértæka hópa í samræmi við Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Að bera það saman við stórtækar iðnaðarframkvæmdir er einstaklega ósmekklegur málaflutningur. Við umhverfismetum ekki fólk.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Markmiðið er að auka möguleika á að setja niður t.d. smáhýsi fyrir heimilislausa og er í því samhengi jákvæð breyting. Breytingin snýst um að rýmka það svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæð. svo sem: verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, iðnaðarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða enda byggingar einkum staðsettar innan þegar skilgreinds byggingarreits eða lóðar samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi og í samráði við lóðarhafa eða landeiganda. Þessi breyting ætti að skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Nægur sveigjanleiki þarf að vera til að hægt sé að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur hverju sinni.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um ólíka reiti að ræða í einni tillögu. Um suma þeirra ríkir mikil sátt, svo sem mikilvæg uppbyggingartækifæri í Breiðholti, en aðra ekki. Hér er verulegt byggingarmagn á ákveðnum reitum en auk þess er verið að skipuleggja reiti sem ætlaðir voru til samgöngubóta svo sem gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar. Vegna þessa er ekki heppilegt að tekin sé ákvörðun um stefnu um jafn ólíka reiti í heild sinni. Heppilegra hefði verið að taka ákvörðun um hvern reit.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur framhjá skóla og er þröngur. Í núverandi standi ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum. Núverandi staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum. Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Örfiriseyjar – Vesturhafnar vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og nr. 39-93 við Grandagarð, ásamt fylgiskjölum. R20060269
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46, ásamt fylgiskjölum. R20060270
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld leggja fram nýja tillögu að skipulagslýsingu fyrir Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Einnig er lögð fram umsókn THG Arkitekta um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhagi 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni elst m.a. niðurrif og uppbygging á loð nr. 18-20 við Dunhaga. Andmæli við fyrirhugaðar breytingar hafa verið miklar og djúpstæðar og kemur fram að andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Auglýsing að skipulagslýsingu var ekki send hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum. Eftir því sem skipulagsyfirvöld segja nú hafa eigendur fengið frest og umbeðinn aukafrest til að skila athugasemdum. Komi frekari ábendingar og athugasemdir eftir auglýsingu er það von fulltrúa Flokks fólksins að tekið verði vel í þær og þeim mætt eins og framast er unnt.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð. R20060259
Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Loksins hefur borgari sigur yfir freklegum yfirgangi óleyfisframkvæmdar. Mikið hefur gengið á í sambandi við þennan battavöll frá upphafi og mikið áreiti við nágrannana hefur átt sér stað. Mikil barátta nágrannana hefur nú skilað sér, enda með unnið mál í höndunum allan tímann. Baráttan tók samt mörg ár og það var fyrst á seinni stigum málsins að viðurkennt var að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Það er mjög ánægjulegt að breytingu á deiliskipulagi sé hafnað. Enda væri það mjög slæmt fordæmi að hægt væri að framkvæma og fá svo breytingu á skipulagi þegar allt er um garð gengið. Reykjavíkurborg er hvött til þess að sjá til þess að þessi battavöllur verði fjarlægður strax til að íbúar losni undan þeirri áþján sem hann hefur haft í för með sér.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð, Ísaksskóla, vegna battavallar. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst er í þessu máli. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hlusta á á raddir fólks í þessu máli og ganga í það að lagfæra og minnka umfang battavallarins eða finna aðrar lausnir sem eru ásættanlegri fyrir alla aðila, fullorðna sem börnin. Framkvæmdin var gerð í óleyfi eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilst þar sem ekki lá fyrir heimild frá skipulagsyfirvöldum. Völlurinn er á vegum skólans en ábyrgðin engu að síður nokkuð óljós.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. R17110044
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, ásamt fylgiskjölum. R19120019
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða breytingu á staðsetningu á nýju hliði ásamt breyttri afmörkun girðingar og breyting á deiliskipulagsmörkun til samræmis við deiliskipulag.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýlega ákvað borgin að gera atlögu að flugskýli flugfélagsins Ernis og ætlaði að fara með veg í gegnum friðað flugskýlið. Með því að samþykkja þessa teikningu er verið að falla frá þeim fyrirætlunum enda er flugskýlið innan öryggisgirðingar flugvallarins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verið er að falla frá þeirri ákvörðun að minnka flugvallarsvæðið um tæpan hálfan hektara. Upplýst var í gær að fallið hefur verið frá að leggja veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis. Ekki hefur enn verið haft samband við forstöðumenn félagsins til að tilkynna þeim um þessa nýju ákvörðun. Það er afleit stjórnsýsla en alveg í takti við vinnubrögð Reykjavíkurborgar í málinu öllu. Borgarfulltrúi Miðflokksins hvetur ábyrgðarmenn Reykjavíkur í skipulagsmálum að hafa samband strax við forsvarsmenn flugfélagsins til að eyða þeirri óvissu sem flugfélagið var sett í með þeirri kröfu að leggja ætti veg í gegnum flugskýli félagsins bótalaust. Skipulagsyfirvöldum ber skilyrðislaust að tilkynna nýja ákvörðun til aðila máls. Óvissa og uppnám í rekstri er það versta sem gengur yfir fyrirtæki – svo ég tala nú ekki um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Meirihlutinn hefur sem betur fer mætt þeirri gagnrýni sem að af málinu hlaust í kjölfar upplýsinga borgarfulltrúa Miðflokksins til almennings um fyrirhugað vegstæði í gegnum flugskýlið og að færa ætti flugvallargirðinguna austan megin við flugskýlið og þar með út af flugvallarsvæðinu. Flugskýlið er því nú eftir nýja ákvörðun enn inn á flugvallarsvæðinu og flugskýlið komið fyrir vind og reksturinn tryggður þar til næsta áhlaup meirihlutans að flugvellinum ríður yfir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagsmörkum flugvallarins í Vatnsmýri. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Reisa á 1300 íbúðir á svæði sem er í raun frekar klesst upp að flugvellinum. Fylla á fjörur fyrir skólabyggingar. Sagt er að þetta sé óveruleg tilfærsla á flugvallargirðingu en tillagan ber með sér að nota þarf hvern blett/rými á svæðinu til að koma þessu öllu fyrir. Þrengt er að flugvellinum sem mögulega verður þarna í 15 ár eða 50 ár. Framtíð þessa svæðis er með öllu óljós en ljóst er að skipulagsyfirvöldum liggur mikið á að byggja þarna þrátt fyrir að ekki er fyrirséð hvernig mæta á umferðaraukningu
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða, ásamt fylgiskjölum. R20060262
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á breytingu á deiliskipulagi reits 1.182.1 með síðari breytingum vegna lóðanna nr. 20A og 20B við Grettisgötu, ásamt fylgiskjölum. R20060266
Synjun skipulags- og samgönguráðs staðfest.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar nr. 46 við Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum. R20060257
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggst alfarið gegn því að heimilað verði að breyta mögulegum íbúðum í gistirými.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði við Esjumela á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R20010257
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í samvinnusáttmála meirihlutans kemur fram að selja eigi Malbikunarstöðina Höfða og var það stefnumál Viðreisnar í kosningabaráttunni. Það er hreint með ólíkindum að Reykjavíkurborg og útsvarsgreiðendur skuli þurfa að standa straum að því að byggja upp nýja malbikunarstöð þar sem hún er úrelt og ónýt. Að auki framleiðir hún mjög gallað malbik sem ekki stenst gæðakröfur. Allir vita hvernig fór með uppbyggingu á gas- og jarðgerðastöðinni, GAJA, sem ráðist var í að byggja og fór það verk langt, langt fram úr öllum kostnaðaráætlunum. Þá sagði meirihlutinn – við erum að byggja svona stöð í fyrsta sinn og kunnum ekki til verka, út af því fór kostnaðurinn úr böndunum. Þvílík rök! Meirihlutinn hefur heldur ekki byggt malbikunarstöð áður – við vitum hvernig þetta fer. Mosfellsbær hefur sett sig mjög á móti þessum áformum, ekkert er hlustað á rök þeirra. Það er fáránlegt að á þessu litla iðnaðarsvæði skuli vera tvær malbikunarstöðvar sér í lagi þegar kynningar um breytingar á deiliskipulagi á þessu svæði gengu allar út á léttan iðnað. Malbikunarstöð er grófur mengandi iðnaður. Esjumelar eru undir Esjurótum, eins vinsælasta útivistarsvæðis stór höfuðborgarsvæðisins, og þessi áform eru aðför að útivistarfólki. Lýst er yfir miklum áhyggjum að þessu máli.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði. Hér er verið að búa til stóra lóð undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.
Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurhögn vegna Klettasvæðis, ásamt fylgiskjölum. R20060265
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athygli vekur að hér hefur verið óskað eftir umsögn Faxaflóahafna um tvær staðsetningar fyrir smáhýsin í eignarlandi Faxaflóahafna. Unnin er tillaga án vitneskju og aðkomu Faxaflóahafna sem hefur eignarland á landinu og er andstætt því verklagi sem er í gildi fyrir eignarland hafnarinnar m.a. til vísun 5. gr. Hafnarlaga, auk þess sem svæðið er skilgreint sem hafnarsvæði í aðalskipulagi. Þá hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga Faxaflóahafna sem benda á að í stað þess að skilgreina sérstakar lóðir í deiliskipulagi hefði verið heppilegra að Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hefðu gert með sér sérstakan samning um skammtímaleigu á landi.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Eins og fram kemur í umsögn Faxaflóahafna, leggst höfnin ekki gegn þessari staðsetningu fyrir smáhýsi.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Rétt er að því sé til haga haldið að breyting á deiliskipulagi á Klettasvæði- Reykjavíkurhöfn var unnin án aðkomu Faxaflóahafna sem er andstætt verklagi í samræmi við 5. gr. hafnarlaga
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits, reits 1.131, vegna lóðarinnar nr. 21-23 við Mýrargötu, ásamt fylgiskjölum. R20060258
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er jákvætt að komið hafi verið til móts við ábendingar íbúa um lágreistari byggingu og lægri turna.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar fyrir svæði 1 vegna lóðar nr. 1.6, ásamt fylgiskjölum. R20060263
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Haraldur Sigurðsson og björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sigtúnsreits vegna stofnunar nýrrar lóðar fyrir Veitur ohf. við Engjateig, ásamt fylgiskjölum. R20060264
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir nýja Skerjafjörð, ásamt fylgiskjölum. R20060271
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að deiliskipulagi nýja Skerjafjarðar fer nú í langt kynningarferli yfir sumarið sem gefur íbúum og öðrum hagsmunaaðilum færi á að kynna sér tillöguna og koma með athugasemdir varðandi útfærslu hennar. Áður hafa tillögur vegna hugmyndaleitar, rammaskipulags og aðalskipulags verið kynntar fyrir almenning. Tillagan er í samræmi við meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkurborgar og fylgir eftir fjölda samninga milli ríkis og Reykjavíkurborgar sem varða aðbúnað Reykjavíkurflugvallar, endurnýjun flugbrauta, deiliskipulag fyrir Skerjafjörð, uppbygging nýrrar byggðar og lagningu nýrrar samgöngutengingar. Fyrir liggur kaupsamningur og afsal milli Reykjavíkurborgar og ríkissjóðs Íslands dags. 11. ágúst 2016. Tillagan skerðir ekki starfsemi Reykjavíkurflugvallar, enda stendur fyrirhuguð byggð utan við öryggissvæði flugvallarins og mun ekki fara upp fyrir hindrunarfleti. Unnin hefur verið ítarleg rannsókn á vindafari sem sýna að áhrif á flugvöllinn verða minniháttar. Nýr skóli, leikskóli, útivistarsvæði og matvöruverslun munu auka lífsgæði íbúa, bæta þjónustu og styðja við vistvæna samgöngumáta í þessu græna hverfi. Tillagan gerir ráð fyrir gatnatengingu suður fyrir Reykjavíkurflugvöll sem mun tengjast nýrri brú yfir Fossvog og stytta ferðatíma fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Nýja samgöngutengingin mun einnig nýtast yfir framkvæmdartíma til að minnka álag á Einarsnes. Mengaður jarðvegur innan deiliskipulagssvæðis verður meðhöndlaður eftir ströngustu kröfum, líkt og gert hefur verið á öðrum uppbyggingarsvæðum í borginni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanlega ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari samgöngumat en því er enn ólokið. Ekki liggur fyrir heildstæð umferðargreining en um er ræða þreföldun á hverfinu. Þá er umhverfismati ólokið en Náttúrufræðistofnun er með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð. Í þriðja lagi hefur því enn ekki verið svarað hvar vegurinn, sem stóð til að leggja í gegnum flugskýli flugfélagsins Ernis verði lagður. Þá hefur Isavia gengið frá samningi við hollensku loft- og geimferðastofnunina um að gera úttekt á mögulegum áhrifum fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli en þeirri úttekt er ólokið.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um að starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri verði tryggð á þann hátt að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt meðan unnið er að undirbúning og byggingu nýs flugvallar, ef hann hugsanlega kemur. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllin í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því í kynningu að gerð og auglýsingu deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð er málið keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Síðast í gær, 1. júlí var samgönguráðherra á allt annari skoðun en hér birtist. Ráðherrann er ekki að fatta að verið er að þverbrjóta samkomulagið. Hér er verið að leggja til aukið byggingamagn úr 800 íbúðum í 1.300. Það er ljóst að þetta svæði ræður ekki við þann umferðarþunga sem af þessari uppbyggingu hlýst. Fyrst á að leggja „framkvæmdaveg“ meðfram flugvallargirðingunni sem breytast á í borgarlínu. Í mengunarkönnun er einungis 1 af 96 holum sem falla í flokkinn „mjög góður“ og 16 holur falla í flokkana „slæmt og mjög slæmt“. Þessar staðreyndir segja okkur að það eigi alls ekki að byggja á þessu svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Áhyggjuefnin eru mörg varðandi uppbyggingu Skerjafjarðar eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Aðeins ein af merktum jarðvegsholum er skráð „í lagi“, 16 falla undir „slæmt og mjög slæmt“ af 96 alls. Flokkur fólksins er alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar. Þrátt fyrir minnkun á landfyllingu verður engu að síður um að ræða óafturkræfanlegar skemmdir á náttúrulegri fjöru. Fram kemur að ströndin sé röskuð hvort eð er en óþarfi er kannski að raska henni enn meira? Náttúrulegar fjörur í Reykjavík eru takmörkuð auðlind og eru mikilvægar fyrir lífríki svæðisins. Engin þörf yrði á landfyllingum í Skerjafirði ef byrjað er að byggja eftir að flugvöllurinn fer. Fari hann þá er hægt að skipuleggja byggðakjarna án landfyllinga. Því miður kom það ekki til greina hjá skipulagsyfirvöldum að fresta uppbyggingu þarna. Bílafjöldi um vestasta hluta Einarsness fer úr 2 þúsund á sólarhring í 7 þúsund samkvæmt spá. Íbúar á bíl sem starfa langt frá heimili þurfa að komast í og úr hverfinu. Hvernig leysa á umferðarmál er óljóst. Horfa þarf til samfellu í borgarlandinu og að flæði verði í samgöngum þar sem liðkað er fyrir öllum tegundum af ferðamáta.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Björn Axelsson sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð stígs milli Sævarhöfða og Stórhöfða, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 50 m.kr. R20060277
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir vegna uppbyggingar í Vogabyggð. Kostnaðaráætlun 2 er 400 m.kr. R20060281
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er ef eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 1. áfanga stígagerðar í Öskjuhlíð ásamt því að ljúka hönnun og hefja framkvæmdir vegna síðari áfanga, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R20060282
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. júní 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestað verður að uppfylltum skilyrðum verður 15. júlí 2021 enda sýni leigutakar fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20030260
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér leggur borgarstjóri til að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu að sjálfsögðu. Fram kemur að nokkrir leigutaka hafa nýtt sér þetta ákvæði og er lagt til að heimilt verði að bæta við frestun greiðslna vegna júlí, ágúst og september 2020 til viðbótar.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 29. júní 2020, varðandi lánasamning um víkjandi lán til fyrirtækisins. Einnig lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. júní 2020. R20060267
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er í svo mikilli fjárþörf að pressað er á Orkuveitu Reykjavíkur að greiða upp lán við eigandann, Reykjavíkurborg. Það er jákvætt í sjálfu sér, en sýnir slæma fjárhagsstöðu borgarinnar. Svo virðist vera að Reykjavíkurborg hafi hvergi lánstraust lengur því snúningurinn í þessu máli er að Orkuveitan er látin taka nýtt lán til að borga lán sín við borgina sem fegrar stöðu efnahagsreiknings borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Um er að ræða víkjandi lán til Orkuveitu Reykjavíkur sem var hluti af Planinu árið 2011. Hér er verið að leggja fram tilkynningu frá OR um uppgreiðslu lánsins á árinu 2020.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 30. júní 2020, varðandi fjárhagsramma fyrir svið borgarinnar vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2021, ásamt fylgiskjölum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Rammaúthlutun vegna gerðar fjárhagsáætlunar 2021 er að mörgu leyti hefðbundinn. Að venju er hagræðingarkrafa upp á 1% þótt hagræðing á málaflokka leik- og grunnskóla og velferðar nemi hálfu prósenti. Það er mikilvægt að sýna ráðdeild í rekstri en um leið að Reykjavíkurborg sýni styrk sinn með því að auka fjárfestingar og verja störf nú þegar atvinnuleysi er mikið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður að sjá að skera á niður á velferðar- og skóla- og frístundasviði. Hér er verið að skera beina þjónustu til okkar viðkvæmustu hópa. Skorið er niður í velferðarmálum um 112 m.kr. og skóla og frístundarráði 86.371. Þess utan er þessum sviðum gert að hagræða um 0.5%. Á þessum sviðum ætti ekki að vera nein krafa um hagræðingu eins og nú árar. Nú er aldeilis ekki tíminn til að skera niður á þessum sviðum. Hér má sjá enn og aftur að fólkið er ekki í forgangi í þessari borg. Nær væri að auka í frekar en að draga úr því nú kemur kúfur af erfiðum málum. Það mun bæta verulega í biðlista barna eftir þjónustu bæði til fagaðila skólanna og einnig til Þroska- og hegðunarstöðar. Tilvísanir til skólasálfræðinga munu taka kipp í haust enda var snörp fækkun vegna röskunar á skólastarfi. Reiknað er með neikvæðum rekstri borgarinnar. Engu að síður er farið nú í ýmsar framkvæmdir sem vel geta beðið eins og endurgerð húsa og torga á meðan biðlistar barna eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga og fleiri lengjast enn frekar og voru þeir nú langir fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er af og frá að hér sé um niðurskurð að ræða. Hér er verið að verja reksurinn og halda uppi atvinnustigi, Hinsvegar er gerð eðlilegt hagræðingarkrafa eins og kynnt var í 5 ára áætlun, en þó breytt að því leiti að Velferðin og skóla, leikskóla og frístund er varin með minni hagræðingarkröfu auk þess sem hluti verkefna þeirra sviða verður styrktur.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisskrifstofu, dags. 26. júní 2020, varðandi lokaskýrslu starfshóps um aukið gagnsæi styrkjaúthlutunar Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19070030
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gríðarlega mikilvægt er að styrkveitingar hins opinbera séu gagnsæjar og aðgengilegar til þess að gæta jafnræðis. Hér er verið að samþykkja tillögur starfshóps mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar sem var falið það verkefni að að rýna og samræma verklag í kringum styrkúthlutanir og koma með tillögur að leiðum til að auka gagnsæi og eftirlit með samningum og úthlutunum styrkja Reykjavíkurborgar. Auk þess að tryggja sýnileika og einfalda aðgengi íbúa að styrkumsóknum og veittum styrkjum borgarinnar.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á trúnaðarmerktu mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-apríl 2020, dags. 2. júlí 2020. R20010095
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf SORPU bs., dags. 25. júní 2020, vegna tillagna stjórnar byggðasamlagsins um fjármál SORPU bs., ásamt fylgiskjölum. Einnig lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. júní 2020, um tillögu SORPU bs. um greiðslur stofnframlaga frá eigendum. R20060260
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögur stjórnar SORPU, framkvæmdastjórnar og fjármálateymisins um endurfjármögnun fjárfestinga SORPU bs. eru afar vel unnar og vandað er til allra verka í því stóra viðfangsefni sem stjórn SORPU stóð frammi fyrir. Er öllum þeim sem lögðu hönd á plóg þakkað fyrir þessa afbragðsgóðu vinnu. Nú er mikilvægt að halda vel á spöðunum í framhaldinu og halda áfram að færa SORPU bs. inn í framtíðina sem það umhverfislega þekkingarfyrirtæki sem henni ber að vera. Sorpa á að vera metnaðarfullt umhverfisfyrirtæki og á reksturinn að endurspegla þær áherslur í takt við hringrásahagkerfið sem og þeirra umhverfislegu áskorana og ákalls sem við stöndum öll frammi fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Komið hefur í ljós stórkostleg vanáætlun á gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem hefur leitt til lántöku hjá SORPU bs. Þar sem borgin hefur þurft að gangast í ábyrgð fyrir lánum. Nú er verið að samþykkja einn milljarð króna í viðbótarframlög frá eigendum SORPU vegna þessa. Ekki liggja fyrir áætlanir um sjálfbæran rekstur og stefnir rekstur SORPU í umtalsverðan taprekstur að óbreyttu. Til að mæta þessu er stefnt að því að hækka gjaldskrár verulega og mun því reikningurinn lenda á íbúum með tvennum hætti: Hærri sköttum og hærri sorphirðugjöldum. Endurskoðuð rekstraráætlun liggur ekki fyrir fundinum þrátt fyrir að því hafi verið lofað.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Tillögur stjórnar SORPU bs. sem kynntar voru fyrir borgarráði í dag snúast fyrst og síðast um að endurfjármagna fjárfestingar SORPU og varða ekki breytingar á gjaldskrám eða rekstraráætlanir að þessu sinni. Hins vegar eru uppi hugmyndir um breytingar á gjaldskrám sem taka gildi 2021 en ekki verða teknar ákvarðanir um þær fyrr en eftir samráð og samtal við fyrirtæki og rekstraraðila og aðra hagaðila til að tryggja aðlögun að breyttum forsendum. Samhliða því verður lögð fram endurskoðuð fjárhags- og rekstraráætlun. Er stefnt að því að sú vinna klárist og verði kynnt í október. Á meðan á kynningunni stóð báðu nokkrir borgarráðsfulltrúar um önnur gögn og ítargögn, m.a. núverandi rekstraráætlun GAJU, og verða þau tekin saman og send þeim. Það er af og frá að halda því fram að ekki liggi fyrir áætlanir um sjálfbæran rekstur eftir að borgarráðsfulltrúar fengu ítarlega kynningu um það á fundinum. Það er líka fráleitt að tala um skatta í þessu samhengi enda er Sorpu og sveitarfélögum gert skylt að rukka samkvæmt kostnaði og ekki umfram það. Þá eru það sveitarfélög sem ákveða sorphirðugjöld í samræmi við kostnað og fráleitt að draga það fram undir þessari kynningu um endurskipulagningu fjárfestingaáætlana SORPU.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú hefur fjárhagsleg endurskipulagning SORPU staðið yfir í marga mánuði. Í kynningu á fundi borgarráðs var sláandi hvað sú vinna er ómarkviss, fálm- og tilviljanakennd. Í dag er kostnaðurinn við nýja jarðgerðarstöð 6,5 milljarðar en samkvæmt áætlunum 2018 átti kostnaðurinn að vera 3,1 milljarður. Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi SORPU og það er algjörlega óásættanlegt að kjörnir fulltrúar fái það á tilfinninguna að þeim er ekki sagður allur sannleikurinn. Eftir því var ítrekað kallað og einungis var birt rekstraráætlun fyrir jarðgerðarstöðina en ekki fyrir SORPU í heild. Rekstraráætlunin sem var birt er mjög takmörkuð, einföld og ekkert rökstudd. T.d. er gert ráð fyrir sömu tekjum á ári allt til ársins 2025. Í raun má segja að rekstraráætlunin hafi verið einfalt óuppfært excelskjal. Eina sem kom út úr þessari kynningu var krafa um nýtt eigendaframlag upp á 1 milljarð. Fjármála- og áhættustýringarsvið álítur að stofnframlögin gera SORPU kleift að halda niðri frekari lántökum og gera upp skammtímaskuldir félagsins sem hafa orðið til vegna fjárfestinganna. Til að gera upp skammtímaskuldir félagsins er áætlað að taka 300 m.kr. að langtímaláni en fjármálaskrifstofan veltir því upp hvort það ætti frekar að vera viðbótar stofnframlag því rekstur SORPU er með öllu ósjálfbær.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Endurskoða á fjárfestingaráætlunina. Nú á að finna leiðir til að redda SORPU úr þeim ógöngum sem fyrirtækið hefur verið sett í. Í erindi SORPU til borgarráðs, er þess farið á leit að eigendur félagsins samþykki að greiða SORPU bs. stofnframlög að fjárhæð 1.000 m.kr. til að takast á við vanda vegna ófjármagnaðra fjárfestinga félagsins. Fjárfestingarnar sem um ræðir eru gas- og jarðgerðarstöðin (GAJA) og kostnaður vegna tækjabúnaðar í móttöku- og flokkunarstöð (MTFS) í Gufunesi. Heildarfjárfesting þessara verkefna er alls 6.145 m.kr. Kostnaður vegna verkefnanna hefur farið mikið fram úr áætlunum eins og segir í erindinu. Fjármálastaða SORPU er áfall fyrir alla borgarbúa enda mun framúrkeyrsla koma með einum eða örðum hætti við pyngju þeirra sem stærsta eiganda SORPU. Einhvers staðar koma peningarnir frá hvort sem það kallast stofnframlög eða lán. Gjaldskrárhækkanir eru handan við hornið. Með GAJU mun urðunarmál auðvitað breytast ef vel tekst til, þá mun henni að mestu hætt. En allt er enn óljóst með afurðir GAJA, metan og moltuna, nema metanið vill SOPRA áfram brenna og moltan verður gefin þ.e. ef einhver vill þiggja hana. Hvað verður um moltuna er háð gæðum hennar en SORPA hefur ekki sýnt heimaflokkun áhuga til að tryggja góð gæði hennar.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka Helgi Þór Ingason, Birgir Björn Sigurjónsson, Birkir Jón Jónsson, Páll Guðjónsson og Gyða Sigríður Björnsdóttir sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags .23. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að gengið verði frá samningi við Íslandsstofu um að hún taki að sér framkvæmd verkefnisins Meet in Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R20050265
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð veitir hér heimild til að gengið verði frá samning við Íslandsstofu um framkvæmd verkefnisins Meet in Reykjavík. Markmiðið með slíkum samning er styrkja Meet in Reykjavík til að fjölga ráðstefnugestum sem koma til borgarinnar enda segir í nýsamþykktri ferðaþjónustustefnu að stefnt skuli að því að 15% ferðamanna séu ráðstefnugestir. Með samstarfi við Íslandsstofu næst bæði hagræðing í rekstri og styrking og efling verkefnisins.
Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Pétur Óskarsson og Sigurjóna Sverrisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið í fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 23. júní 2020, þar sem uppfærð drög að nýrri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2020-2025 eru send borgarráði til staðfestingar. R20060201
Frestað.Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem drög að samningi við Heimili kvikmyndanna eru send borgarráði til staðfestingar. R20060202
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með þessum samstarfssamningi er verið að tryggja að Bíó Paradís geti áfram sinnt þeirri mikilvægu menningarstarfsemi í Reykjavík sem hún hefur gert undanfarinn áratug. Heimili kvikmyndanna verður því áfram á Hverfisgötunni og mun sjá kvikmyndaunnendum fyrir fjölbreyttu framboði kvikmynda frá öllum heimshornum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn leggur til að gengið verði frá samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Bíó Paradís. Spurt er hvort ekki sé rétt að hinkra með þennan samstarfssamning um sinn t.d. fram á haust þar sem sú staða er nú uppi að fólk getur ekki komið saman í stórum hópum vegna áhyggna að því að smitast af COVID-19. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó árétta að Bíó Paradís er gríðarmikilvægt í lista- og menningarflóru borgarinnar og landsins alls. Nú er staðan þannig að borgarmeirihlutinn er að skera niður til velferðarmála og skólamála á sama tíma og mikil fjölgun er t.d. af tilvísunum barna og unglinga til fagfólks borgarinnar en fyrir eru langir biðlistar. Þegar líða tekur á árið liggur betur fyrir hvernig mál munu þróast og þá ætti borgin að koma sterkt inn með stuðning við Bíó Paradís. Standa þarf vörð um Bíó Paradís og sjá til þess að það standi styrkum fótum til langrar framtíðar. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu einnig að veita styrk til starfseminnar, enda sækja Bíó Paradís ungir sem aldnir íbúar þeirra.
Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. júní 2020:
Samþykkt var í borgarráði þann 30. apríl 2020 að auka fjármagn í menningarpott Reykjavíkurborgar vegna ársins 2020 um 30 m.kr. Lögð er til enn frekari viðspyrna Reykjavíkurborgar í menningarmálum vegna COVID-19 með því að setja samtals 30 m.kr. til viðbótar í verkefnastyrki og skapandi störf sem auðga munu enn frekar menningarlífið í Reykjavík og styðja við sjálfstætt starfandi listamenn. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2020 í samræmi við tillöguna til framlagningar í borgarráði. Ofangreind fjárhæð skiptist þannig að 16 m.kr. til viðbótar verði settar í menningarpott borgarinnar vegna ársins 2020, 5 m.kr. verði settar í verkefni Listasafns Reykjavíkur sem ber heitið Haustlaukar II, 4 m.kr. verði settar í gjörningahátíð Listasafns Reykjavíkur í haust og 5 m.kr. verði settar til viðbótar í verkefnapott Listahátíðar í Reykjavík. Síðasttöldu þrjú verkefnin eiga það einnig sameiginlegt að glæða miðborgina enn meira lífi á næstu vikum og er það í takt við það átaksverkefni borgarinnar að efla menningu, mannlíf, söfn og aðra rekstraraðila miðborgarinnar í sumar og haust. R20030002
Samþykkt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að styðja við listamenn. Hins vegar verður að gera ráð fyrir skertu menningarlífi í ár vegna bakslags COVID smita. Horfast verður í augu við að það er margt breytt eftir veiruvágestinn og geta borgaryfirvöld ekki verið að hvetja til að fólk mæti á viðburði, heimsæki staði þar sem margir koma saman sér í lagi ef viðeigandi ráðstafanir, s.s. hólfun, hafa ekki verið gerðar. Horft er til miðborgarinnar í þessu aðgerðarplani en fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það eru fleiri hverfi í borginni en miðbærinn eða kjarni miðborgarinnar. Það blasir við að meirihlutinn er afar stressaður yfir miðbænum og hversu mjög hann hefur dalað af ástæðum sem ekki eru raktar hér. Ofuráhersla er nú lögð í að redda málum í miðbænum, redda því að ekki hefur verið haft viðunandi samráð sem leitt hefur til stórtæks flótta verslana og fyrirtækja af svæðinu. Það er sannarlega vonast til að þrátt fyrir allt sem gengið hefur á muni bærinn einn góðan veðurdag skarta fólki.
Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhúsalóð við Hraunbæ 143, ásamt fylgiskjölum. R20060081
Samþykkt.Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Urðarbrunni 46. R20050293
Samþykkt.Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. júní 2020 á tillögu um fjölgun nemenda í Suðurhlíðaskóla, ásamt fylgiskjölum. R20060279
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Arnarskóla, dags. 1. apríl 2020, varðandi beiðni um endurupptöku á ákvörðun borgarráðs frá 26. mars 2020 á tillögu um reykvíska nemendur í Arnarskóla, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020 ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 28. maí. Einnig lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. júní 2020, varðandi ákvörðun um fjölda nemenda sem greitt verður framlag vegna í Arnarskóla skólaárið 2020-2021, ásamt greinargerð. R20030201
Beiðni um endurupptöku er hafnað með vísan til umsagnar skóla- og frístundasviðs. Tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna í Arnarskóla skólaárið 2020-2021 verði sex nemendur er samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Heimilt er að gera samninga við Arnarskóla vegna þriggja barna sem ekki hafa sótt nám við skólann áður. Ítarleg skoðun hefur leitt í ljós að gera hefði mátt betur grein fyrir fyrri ákvörðun um að opna ekki fyrir umsóknir vegna fleiri nemenda. Því er rétt að taka nýja ákvörðun í málinu nú. Þá er sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs falið að leggja fram tillögu að skýrari viðmiðum um hámarksfjölda reykvískra nemenda í sjálfstætt reknum sérúrræðum í grunnskólum eigi síðar en 1. desember 2020. Þeim börnum sem um ræðir er óskað velfarnaðar í nýjum skóla, óski foreldrar þeirra enn eftir skólavist í Arnarskóla.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Gríðarlega jákvætt er að endurskoða eigi samninga við Arnarskóla líkt og Sjálfstæðismenn hafa lagt til. Því miður þá er verið að mismuna börnum með fötlun í Reykjavík með því að leyfa sumum að ganga í Arnarskóla og synja öðrum um skólavist líkt og gert hefur verið. Það er mikilvægt að mismuna ekki börnum með sérþarfir og sorglegt að verða vitni að því að foreldrar þurfi að berjast fyrir rétti barna sinna í fjölmiðlum og þurfa að kæra stærsta sveitarfélag landsins til að lög séu virt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðurkennt er af skóla- og frístundaráði að hnökrar voru á ferlinu og hefur synjun umsókna þriggja barna verið dregin til baka. Þessu ber að fagna. Nú skiptir hið svokallaða „ytra mat“ ekki eins miklu máli enda var það fyrirsláttur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Í Arnarskóla fer fram ljómandi gott starf en vissulega er nauðsynlegt að gera faglegt mat. Þótt seinkun sé á því er engin ástæða til að loka fyrir umsóknir í Arnarskóla séu laus pláss í skólanum á annað borð. Að loka á umsókn barna í Arnarskóla var mikil ósanngirni þar sem Reykjavíkurborg getur ekki boðið börnum upp á sambærilegt úrræði. Hugsa þarf um hagsmuni barnanna fyrst og fremst og hafa það ávallt að leiðarljósi. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt og býður upp á sambærilegt úrræði skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir fyrir þau börn sem notið gætu góðs af úrræðinu. Klettaskóli er vissulega til staðar en hann er eftir því sem best er vitað oftast yfirfullur. Auk þess er hann heldur ekki alveg sambærilegt úrræði og Arnarskóli en sá síðarnefndi býður upp á heildstæða, samfellda þjónustu.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 29. júní 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. júní 2020 á drögum að gjaldskrá velferðarsviðs um akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum. R20060283
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um að ræða breytingu til að koma á skýru verklagi sem kveðið er á um í þjónustulýsingu og reglum inn í gjaldskrá til að auka gagnsæi bæði fyrir notendur og þjónustuaðila en eðlilegt er í þjónustu sem þessari að væntingar séu skýrt fram settar og fyrirsjáanlegar.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í drögum að gjaldskrá á aksturþjónustu fyrir fatlað fólk kemur fram að: „Afpöntun ferða skal fara fram með a.m.k. 2 klst. fyrirvara, að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri bæði gagnvart sveitarfélagi og notanda.“ Það er mikilvægt að það komi skýrt fram í upplýsingagjöf að sveigjanleiki sé gefinn fyrir því að fella niður gjald þar sem skiljanlegar ástæður liggja að baki því að hætta þurfi skyndilega við ferð og slíkt var ekki innan 2 klst. fyrirvara. Þá er mikilvægt að hægt sé að endurskoða gjaldskrár ef ábendingar koma fram frá notendum varðandi ákveðna liði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í nýju gjaldskránni verður gerður greinarmunur á föstum ferðum og tilfallandi ferðum. Rukkað verður hálft strætógjald fyrir fastar ferðir, líkt og nú er gert fyrir allar ferðir, og síðan fullt gjald fyrir tilfallandi ferðir. Þetta er að mörgu leyti gjaldaukning fyrir notendur. Hér er verið að ýta á að fólk panti sér ferðir með fyrirvara enda sé það hagstæðara. Það væri ásættanlegra ef hægt væri að panta ferðir fyrirvaralaust, en það er ekki hægt enn. Áfram er miðað við a.m.k. 2 klst. fyrirvara. Þjónustan er því ekki sambærileg við strætó að þessu leyti, sem hún þó á að vera. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að áfram er hægt að taka með sér farþega, sem greiða sitt fargjald. En helsti vandinn er þó að fólk sem á rétt á akstursþjónustu en getur líka notað strætó, a.m.k. við og við, þarf þá að borga tvöfalt gjald. Þetta er ósanngjarnt með meiru og er málið á borði umboðsmanns borgarbúa. Akstursþjónustan er ígildi strætó og það á ekki að fæla fólk frá því að reyna að nota strætó í bland. Er ekki gott að fækka ferðum akstursþjónustunnar? Þetta er alger bremsa og væntanlega brot á jafnræðisreglu.
Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. júní 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að meðfylgjandi tillaga sem samþykkt var á fundi velferðarráðs þann 3. júní sl. um styrkingu á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur um sjö stöðugildi vegna fjölgunar tilkynninga í kjölfar COVID-19, verði samþykkt. Áætlaður kostnaður er 30 m.kr. á árinu 2020 og 116 m.kr. á árinu 2021. Fjárheimildin verði endurskoðuð á árinu 2021 samfara fjárhagsáætlun ársins 2022. Í því sambandi verði hugað að samstarfi Barnaverndar við þjónustumiðstöðvar í hverfum Reykjavíkurborgar, verkaskiptingu þar á milli og hvaða þjónustu er hægt að veita úti í hverfum. Í þeirri vinnu verði einnig höfð hliðsjón af niðurstöðum úttektarskýrslna sem liggja fyrir um Barnavernd Reykjavíkur. R20060284
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er sameiginlegt verkefni okkar að vernda börn og tryggja þeim öruggt umhverfi í hvívetna og því er hér samþykkt að styrkja Barnavernd Reykjavíkur til að mæta þeirri 10-15% aukningu á tilkynningum sem fyrirsjáanleg er vegna ástandsins í samfélaginu. Samtals er hér bætt við 10 stöðugildum og starfseminni breytt með þeim hætti að sett eru á fót ný teymi. Kostnaður við tillöguna er 110 milljónir á ársgrundvelli og kemur til viðbótar þeim rúmlega 700 milljónum sem settar hafa verið í að efla Barnavernd Reykjavíkur á síðustu tveimur árum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins samþykkti tillögur er lúta að styrkingu barnaverndar á fundi velferðarráðs dags. 24. júní sl. enda gerir hann sér grein fyrir að barnaverndin þarf að hafa tryggan fjárhagslegan grunn og samþykkir því tillögu um styrkingu til barnaverndar. Varðandi barnaverndarmál þá liggur það þokkalega ljóst fyrir hvað málaflokkurinn þarf af fjármagni sem tryggja ætti þá í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár svo ekki þurfi að kalla sífellt á aukingu eða viðauka. Málum fer ekki fækkandi, þeim fer fjölgandi og allar líkur eru á að þeim fjölgi áfram í framhaldi af COVID-19 og þeim áhrifum og afleiðingum sem veirufaraldurinn hefur og mun hafa til langs tíma. Tilkynningar munu jafnvel eiga eftir að taka enn meiri kipp í haust vegna áhrifa og afleiðinga COVID-19. Veirufaraldurinn hefur margs konar neikvæð andleg og fjárhagsleg áhrif á foreldra og foreldrar eru í afar misjafnri stöðu eins og gengur í fjölmenningarsamfélagi.
Dís Sigurgeirsdóttir, Katrín Helga Hallgrímsdóttir og Sigrún Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5634/2019. R19100306
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Dómurinn staðfestir lögmæti hins samningsbundna gjalds í öllum atriðum. Reykjavíkurborg hefur heimild til að ráðstafa lóðum sínum og réttindum þeim tengdum með samningi og að hafa af því tekjur. Sala eða ráðstöfun slíkra eignarréttinda er ekki meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga heldur gilda um samninga þess efnis reglur einkaréttar. Dómurinn staðfestir jafnframt að sveitarfélögum er heimilt að nota fé sem þau afla með einkaréttarlegum samningum um fasteignatengd réttindi til rækslu lögbundinna verkefna, óháð því hvort þeim sé markaður sérgreindur tekjustofn í lögum eða ekki. Þá er dómurinn afdráttarlaus um það að hið samningsbundna gjald sé hvorki skattur né þjónustugjald og að Reykjavíkurborg hafi gætt jafnræðis og meðalhófs við samningsgerð í málinu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þrátt fyrir það að innviðagjaldið sé innheimt samkvæmt „samningum“ er samningstaða viðsemjenda borgarinnar nákvæmlega engin. Misræmi er í gjaldtöku borgarinnar milli aðila og því gætir ekki jafnræðis. Þau auknu gjöld sem borgin leggur á húsbyggjendur leggjast á endanum á þá sem kaupa íbúð eða leigja sér íbúð. Húsnæðisverð og leiguverð hefur tvöfaldast undir stjórn meirihlutans á síðustu tveimur kjörtímabilum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enginn deilir við dómarann. Niðurstaða þessa dóms kemur samt mjög á óvart og í raun er þeirri réttarspurningu ekki svarað hvort innviðagjöld eru skattar eða gjöld. Langlíklegast er að málinu verði áfrýjað til æðra dómsstigs og í raun þyrfti sá dómur að vera fjölskipaður því málið er mjög fordæmisgefandi fyrir öll sveitarfélög í landinu. Standi þessi dómur óhaggaður þá gefur hann sveitarfélögunum leyfi til að ráðast í nýjar órökstuddar gjaldtökur án heimilda í lögum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Eins og segir í fyrri bókun meirihlutans þá staðfestir dómurinn að borgin hefur heimild til að ráðstafa lóðum með samningum og hafa af því tekjur, að reglur einkaréttar gildi um slíka samninga og að sveitarfélögum sé sannarlega heimilt að nota slíkt fé til rekstrar. Afdráttarleysi dómsins er algert og hann svarar einmitt þeirri spurningu sem áheyrnarfulltrúi Miðflokksins segir að hann svari ekki. Hin samningsbundna greiðsla er hvorki skattur né gjald.
Fylgigögn
-
Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 291/2020. R19050143
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem minnisblað um tímamót í rafrænni stjórnsýslu og rafrænni langtímavarðveislu gagna hjá Reykjavíkurborg er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R20060289
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um merk tímamót að ræða í skjalastjórn Reykjavíkurborgar. Borgarskjalasafn Reykjavíkur samþykkti í fyrsta sinn að taka á móti rafrænum gögnum til langtímavarðveislu. Með ákvörðuninni var veitt heimild til að hefja notkun á upplýsingastjórnunarkerfi sem jafnframt er rafrænt mála- og skjalavörslukerfi sem varðveitir og afhendir gögn á rafrænu formi til langtímavarðveislu hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Um er að ræða þáttaskil í rafrænni stjórnsýslu hjá Reykjavíkurborg, þar sem gögn verða varðveitt og afhent á rafrænu formi og hætt verður að prenta út hjá þeim aðilum sem hafa fengið samþykki safnsins fyrir rafrænni varðveislu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum endurbótum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar. Á þeim var sannarlega þörf og má í því sambandi vísa til mála eins og Nauthólsvegar 100 þar sem hnökrar skjalavörslumála og varðveislu gagna komu við sögu. Til upprifjunar þá samræmdust skjalavarsla og skjalastjórn vegna framkvæmda við braggann ekki í veigamiklum atriðum lögum um opinber skjalasöfn. Þetta kom fram í niðurstöðum frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Ýmist var komist upp með að vista skjöl löngu síðar og mikill fjöldi skjala var vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína. Skjöl voru ítrekað vistuð með þeim hætti að þau voru ekki aðgengileg í samræmi við kröfur laga um opinber skjalasöfn. Allt þetta sýnir í hversu miklum ólestri þessi mál voru. Nú heyrir þetta vonandi sögunni til. Þetta sem kallast Hlaðan og GoPro Foris mun nú varðveita og afhenda gögn á rafrænu formi til langtímavarðveislu hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Fram kemur að undirbúningur hefur staðið lengi eða allt frá 2015. Auðvitað má spyrja af hverju þessi mál, eins mikilvæg og þau eru hafi verið látin sitja á hakanum.
Óskar J. Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki eftirtalda kjarasamninga: kjarasamning Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags tölvunarfræðinga, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Verkfræðingafélags Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Fræðagarðs og Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra náttúrufræðinga, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafafélags Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Iðjuþjálfafélags Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Sálfræðingafélags Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Þroskaþjálfafélags Íslands, kjarasamning Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga og kjarasamning Reykjavíkurborgar og Félags sjúkraþjálfara. R18120011
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða kjarasamninga við Stéttarfélag tölvunarfræðinga, Verkfræðingafélags Íslands, Fræðagarð, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptifræðinga og hagfræðinga, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Stéttarfélag lögfræðinga og Félag sjúkraþjálfara. Samninganefnd borgarinnar er þakkað fyrir þá miklu vinnu sem að baki samningunum liggja.
Harpa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
- Bréf samninganefndar
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags tölvunarfræðinga
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Verkfræðingafélags Íslands
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Fræðagarðs og Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra náttúrufræðinga
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafafélags Íslands
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Kjarafélags viðskiptifræðinga og hagfræðinga
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Iðjuþjálfafélags Íslands
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Sálfræðingafélags Íslands
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Þroskaþjálfafélags Íslands
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga
- Kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Félags sjúkraþjálfara
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. júní 2020, varðandi skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fylgiskjölum. R20040182
- Kl. 13:37 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Örn Þórðarson tekur sæti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Strategíu hafa nú lokið yfirferð sinni í borgarráði og bæjarráðum á höfuðborgarsvæðinu. Næstu skref eru að taka ákvörðun um framtíðarskipulag byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu. Rétt er að taka fram að samstarfið milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei gengið eins vel og nú. Til marks um það er nýsamþykkt samgönguáætlun sem skilaði 120 milljörðum til höfuðborgarsvæðisins í formi borgarlínu, stofnvegaframkvæmda og hjólastíga. Þá eru málefni SORPU komin í traustan farveg ásamt því sem rekstur Strætó gengur vel. Með breyttu skipulagi byggðasamalagana er verið að treysta enn frekar samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þar sem meirihluti íbúa landsins býr.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Birtar eru tvær útgáfur af sviðsmyndum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að mestu skiptir í þessu sambandi að fá fleiri mál bs-félaga inn á fundi með eigendum og að minnihlutafulltrúar hafi fulla aðkomu að málum. Reynslan er sú að byggðasamlögin hafa orðið ríki í ríkinu. Skipulag og stjórnunarhættir hafa leitt til þess að bs-kerfin hafa vikið verulega frá uppruna sínum og hafa lokað á kjörna fulltrúa og eigendur sína. Reynslan hefur ekki alltaf verið góð. Saga SORPU er kunn og stjórn bar ekki gæfu til að grípa í taumana. Eigendur hafa oft ekki hugmynd um hvernig verið er að sýsla með fé þeirra. Byggðasamlög eru flókið kerfi og boðleiðir því langar. Kjörnir fulltrúar eru brúin frá eigendum yfir til stjórnar. Reykjavík er langstærsti eigandinn og stærsti greiðandi skulda og taka stærstu ábyrgðina á óförum sem kunna að verða hjá byggðasamlagi. Þegar talað er um að bjóða fleirum að borðinu er ekki nóg að bjóða þeim sem áheyrnarfulltrúum heldur verða þeir að hafa atkvæðarétt. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef ekki er hægt að laga byggðasamlögin til þannig að þau verði lýðræðisleg og fela í sér aðkomu allra pólitískra fulltrúa er tímabært að huga að sameiningarmálum.
Páll Björgvin Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt tekur Helga Hlín Hákonardóttir sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. júní 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag við Almannaheill um Fund fólksins sem haldinn verður í Reykjavík árlega næstu þrjú árin, næst í september 2020. Kostnaður vegna þátttöku í verkefninu eru 4,5 m.kr. fyrir árið 2020 og síðan 6 m.kr. hvert ár árin 2021 og 2022. Kostnaðurinn greiðist árið 2020 af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur en kostnaði vegna áranna 2021 og 2022 er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. Almannaheill mun í framhaldinu með samningi fela grasrótarsamtökunum Norræna félaginu, sem hefur frá upphafi verið einn af máttarstólpum Fundar fólksins og haft tengsl við svipaðar hátíðir á öðrum Norðurlöndum, að sjá um framkvæmd hátíðarinnar sem taki mið af reglum sóttvarnarlæknis um samkomutakmarkanir þegar hún er haldin.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20060255
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög ánægjulegt að lýðræðishátíðin snúi aftur til Reykjavíkur en hún hefur verið haldin undir nafninu LÝSA undanfarin ár á Akureyri. Síðast var hún haldin árið 2016 í Reykjavík sem Fundur fólksins og tókst vel til. Álíka hátíðir eru haldnar á öðrum Norðurlöndum og hafa gefist vel sem vettvangur lýðræðislegs samtals um stjórnmál og mikilvæg samfélagsleg málefni milli almennings, grasrótarsamtaka og stjórnmálafólks.
Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. júní 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hlutfall veikinda starfsmanna Reykjavíkurborgar eftir launatekjum, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020. R20010312
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér má sjá samspil tekna og veikinda síðustu þrjú árin. Svo virðist vera að þar sem meðalheildarlaun eru yfir 550 þúsund á mánuði sé minna um veikindi heldur en þar sem meðalheildarlaunin er lægri. Það er mikilvægt að laun séu alltaf mannsæmandi, þar sem lág laun geta leitt til álags, streitu og þar með veikinda. Þá er mikilvægt að standa vörð um mikilvæga þætti sem þarf einnig að taka með í reikninginn í þessu samhengi, líkt og styttingu vinnuvikunnar sem hefur jákvæð áhrif á starfsumhverfi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta séu mikil veikindi hjá Reykjavíkurborg sem sýndar eru í svari en í borginni starfa yfir 9000 starfmenn á hverjum tíma. Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar var 6,7% árið 2017, 6,8% árið 2018 og 6,9% árið 2019. Hér er um fjölgun að ræða, jafna og þétta sem hlýtur að valda áhyggjum. Sama mátti sjá í þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs janúar-mars 2020 þar sem fram kom að fjárheimildir voru 15 m.kr. umfram sem rekja má til langtímaveikinda. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni tengi þessa niðurstöður aldrei við vinnuaðstæður. Samkvæmt síðustu könnun um einelti hefur vanlíðan í starfi farið vaxandi. Lagðar voru fram niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna á fundi velferðarráðs dags. 25. maí 2020. Spurt var um hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutalan „Einelti frá samstarfsfólki“ hefur hækkað, var 2,8% árið 2019 en 3,4% í ár. Hvort tveggja er áhyggjuefni. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. júní 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda umsókna og ráðninga í sumarstörf borgarinnar, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020. R20050057
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. júní 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um nýja kjarasamninga Reykjavíkurborgar, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020. R20030110
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. júní 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti borgarinnar við forstjóra flugfélagsins Ernis, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020. R20060107
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Augljóst mál er að Reykjavíkurborg ætlaði sér ekki að standa við gerða samninga við ríkið, þar sem forstjóra flugfélagsins Ernis var tilkynnt á fundi 30. apríl sl. að til stæði að leggja veg þar sem flugskýli og viðhaldsstöð félagsins stendur. Í 5 gr. samnings ríkis og borgar segir m.a. orðrétt: „Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins um frestun dráttarvaxta og innheimtukostnaðar vegna greiðslufalls fasteignagjalda, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. apríl 2020. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. júní 2020. R20040012
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögu Miðflokksins og Flokks fólksins hefur verið vísað frá en hún varðar að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar auka innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda og sagt er í umsögn að slíkt sé ekki löglegt en að lengt hafi verið í gjalddögum fasteignagjalda ársins 2020. Þess er vænst að áframhald verði á frestun gjalddaga enda ekki séð að rekstrargrundvöllur fyrirtækja lagist mikið á þessu ári vegna COVID-19. Telja má hins vegar að það ætti að vera auðsótt að fá undanþágu frá lögunum til að ýmist fella niður eða fresta gjalddögum sem dæmi út þetta ár. Hin miklu efnahagslegu áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru er rétt að byrja og mikilvægt er að létta á rekstraraðilum ekki síst þeim sem þjónustuðu ferðamenn.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá því ekki verður séð að unnt sé að afnema dráttarvexti vegna vanskila á fasteignagjöldum nema að til komi sérstök lagasetning þar um. Eftir að þessi fyrirspurn var lögð fram samþykkti borgarráð tímabundnar breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar í ljósi efnahagsástandsins, þar sem meðal annars hefur verið lengt í gjalddögum fasteignagjalda ársins 2020 ásamt fleiri úrræðum sem sett hafa verið á laggirnar til að auka sveigjanleika og milda innheimtu gjalda.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, dags. 30. apríl 2020, um að borgarsjóður fjármagni niðurfellingu á leigu hjá leigendum Félagsbústaða. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. júlí 2020. R20040201
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Aukin tekjuútgjöld vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa leitt til tekjuskerðingar fyrir mörg sem eru í erfiðri fjárhagsstöðu. Þessi tekjuútgjöld hafa t.a.m. verið í formi matarinnkaupa vegna aukinnar viðveru heima fyrir og aukinnar viðveru barna inni á heimilum vegna samkomubanns. Þá lokuðu hjálparstofnanir sem sjá um matarúthlutanir einnig fyrir starfsemi sína í ákveðin tíma á tímum COVID-19 en margir öryrkjar með lítið á milli handanna hafa leitað þangað. Meirihlutinn telur ekki grundvöll til að samþykkja tillögu um að fella niður leigu hjá leigjendum Félagsbústaða vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19 í ljósi þess að hann telur stóran hluta leigjenda ekki hafa orðið fyrir beinni tekjuskerðingu en í umsögn með tillögunni kemur fram að 45% leigjenda hjá Félagsbústöðum séu öryrkjar. Hér er nauðsynlegt að viðurkenna þá staðreynd að aukin tekjuútgjöld eru tekjuskerðing þegar fólk hefur lítið á milli handanna til þess að byrja með.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir settu nýjar reglur vegna COVID-19. Þær heimila greiðsluaðlögun til þeirra sem orðið hafa fyrir atvinnumissi eða tekjufalli. Einnig hefur verið hægt á málum sem snúa að greiðsluáskorunum og kunna að leiða til riftunar leigusamninga. Unnið er að því af heilum hug að koma til móts við leigjendur eins og frekast er unnt innan þessa ramma. Líkt kemur fram í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs hafa um 93% þeirra sem búa í félagslegu leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum ekki orðið fyrir beinni tekjuskerðingu vegna þess ástands sem skapast hefur í þjóðfélaginu vegna COVID-19. Það styrkir velferðarráð og borgarráð í að halda áfram að vinna að því að koma í veg fyrir að koma þurfi til hækkunar leigu hjá Félagsbústöðum sem og að fjölga íbúðum. Þannig nýtist fjármagnið betur þeim sem mest þurfa á því að halda.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins barðist fyrir því að komið yrði á móts við leigjendur Félagsbústaða þegar veirufaraldurinn skall á með því að fella niður leigu þó ekki væri nema í einn mánuð. Allt kom fyrir ekki og má segja að meirihlutinn hafi hneykslast á tillögunni eins og sjá má í einstaka bókunum þeirra. Að fella niður leigu hefði einfaldlega hjálpað mörgum og kemur í raun ekkert úrræði beinlínis í staðinn fyrir það. Vissulega hefði kostnaður verið talsverður en annað eins er nú greitt til einstaklinga og fyrirtækja vegna áfallsins sem kórónuveirann olli með tilheyrandi skaða. Þær tímabundnu breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem Félagsbústaðir buðu upp á náðu bara ekki nógu langt, alla vega ekki fyrir alla.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 24. júní 2020. R20010027
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 25. júní 2020. R20010028
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. júní 2020. R20010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. júní 2020. R20010005
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn sé að taka við sér og merkja nú handhöfum stæðiskorta sérstök stæði við göngugötur og eru þar með að fylgja lögum, þ.e. 10. grein nýrra umferðarlaga sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í 10. greininni er kveðið á um að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í þar til merkt stæði. Handhafar stæðiskorta hafa haft áhyggjur af þessu og óttast jafnframt að nýta þessa heimild m.a. vegna andstöðu meirihlutans við lagaheimildina. Það minnisblað sem sent var til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem farið er fram á að fá þessu breytt liggur enn hjá Alþingi. Ekki eru miklar líkur á að þessu verði breytt enda hér um áralanga baráttu fatlaðs fólks að ræða sem loksins gekk í gegn.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. og 22. júní 2020. R20010006
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við lið 35 um umferðaröryggisaðgerðir í fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí sl.: Stór skref í umferðaröryggismálum eru stigin með því að taka í notkun „Snjallgangbrautir“ á nokkrum stöðum í borginni. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um öruggari gangbrautir var samþykkt í borgarstjórn 7. maí 2019 og er nú verið að innleiða þessar snjallgangbrautir á fjórum stöðum í borginni: https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/3_tillaga d_gangbrautir.pdf.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 23. og 25. júní 2020. R20010007
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 23. lið fundargerðarinnar frá 25. júní:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma það samráðsleysi sem hefur verið við foreldra þeirra barna sem eiga að hefja nám í nýsköpunarskóla næsta haust í norðanverðum Grafarvogi. Ekki hefur verið haldinn fundur með foreldrum eða foreldrafélagi þrátt fyrir óskir um slíkt og því eru foreldrar engu nær um það hvað nýsköpunarskóli er. Í skýrslu Intellecta sem gerð var eftir síðustu sameiningar í Grafarvogi er það skýrt tekið fram að ef í slíkar sameiningar á að ráðast aftur þá sé það gríðarlega mikilvægt að þær séu gerðar í miklu samráði og þeim gefinn nægur tími og feli í sér augljósan ávinning. Því miður þá hefur ekki verið farið eftir neinum af þessum varnaðarorðum við sameiningarnar núna. Það er ólíðandi að börn í norðanverðum Grafarvogi þurfi að vera tilraunadýr meirihlutans í Reykjavík í sparnaðaraðgerðum. Réttast væri að fara að spara í einhverju öðru en grunnþjónustu, af nægu er að taka í þeim efnum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. maí 2020. R20010015
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 22. júní 2020. R20010013
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 2. júní 2020. R20010010
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R20060272
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið:
Í áliti siðaráðs Dómarafélags Íslands kemur fram að dómari hafi lýst því að hann hafi þurft að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu hvort áminning sú sem veitt var hafi byggst á persónulegri óvild þess starfsmanns sem veitti hana í garð þess starfsmanns sem áminntur var. Í álitinu kemur fram að siðaráðið hafi einkum haft til skoðunar ákvæði siðareglna dómara sem fjallar um að dómarar skuli gæta óhlutdrægni í störfum sínum. Vegna umræðna um dómsmálið er rétt að vekja athygli á eftirfarandi ummælum sem koma fram í álitinu, sér í lagi niðurlagi þeirra: ,,Í úrlausnum sínum kunna dómarar að þurfa að taka afstöðu til staðhæfinga um misbresti í fari nafngreindra aðila. Úrvinnsla á slíkum atriðum byggist ætíð á gögnum máls og framburðum aðila og vitna fyrir dómi. Gæta ber hófsemi og sýna öllum sem koma við sögu fulla virðingu. Ekki er viðeigandi að í forsendum dóma sé hæðst að mönnum eða málefnum eða gert lítið úr þeim. Sömu hófsemi og virðingar ber að gæta í umfjöllun um sönnunargögn sem færð eru fram og málsástæður sem aðilar máls byggja á.“
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlitsins:
Í áliti siðanefndar Dómarafélags Íslands sem Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara, sendi nefndinni vegna héraðsdóms nr. 3132/2017, kemur fram að dómaranum sem kvað upp dóminn var gefinn andmælaréttur í málinu. Í bréfi dómarans til siðanefndarinnar kemur fram að hann hafi þurft að taka afstöðu til þeirra málsástæðu á hverju áminning stefnanda málsins hafi verið veitt og að áminningin hafi verið byggð á persónulegri óvild skrifstofustjórans í hans garð. Dómarinn vísar jafnframt til þess að dómar héraðsdóms verði einungis endurskoðaðir af æðra dómi. Skýrt kemur fram að siðaráð er ekki hluti af dómstólaskipan ríkisins og endurskoði ekki úrlausnir dómstóla. Skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara notar það sem vörn að hin almenna regla 3. mgr. 2. gr. siðareglna dómara að þeir skulu gæta óhlutdrægni í störfum sínum en í áliti nefndarinnar er tekið skýrt fram að í úrlausnum sínum kunna dómararar að taka afstöðu til staðhæfinga í fari nafngreindra aðila. Jafnframt er slík ákvörðun ætíð byggð á gögnum máls og framburði aðila og vitna fyrir dómi og telur nefndin jafnframt að ekki hafi verið ástæða til að takmarka nafnbirtingu aðila eða vitna í málinu. Niðurstaða siðanefndar Dómarafélags Íslands er afgerandi, svo ekki verði um villst, Helgu Björgu Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara, í óhag.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Hér snýr borgarfulltrúi Miðflokksins öllu málinu á haus eins og hennar er von og vísa og reynir að snúa niðurstöðu siðanefndar sér í vil. Ekkert er fjær sanni.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20060275
- Kl. 14:00 víkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundinum.
- Kl. 14:15 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.Fylgigögn
-
Fram fer umræða um brunann á Bræðraborgarstíg 1-3. R20060261
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúa Slökkviliðsins er þakkað fyrir að koma í borgarráð og ræða eldsvoðann á Bræðraborgarstíg þar sem sá hörmulegi atburður átti sér stað að þrír létust. Aðstandendum og öðrum sem um sárt eiga að binda vegna brunans eru sendar innilegar samúðarkveðjur. Slökkviliði, lögreglu og viðbragðsaðilum öllum er þakkað fyrir sinn hlut.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að rannsaka þarf málið ofan í kjölinn í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir hörmuleg slys af þessu tagi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Einnig var lagt til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum verður að vera virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið. Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.
Jón Viðar Matthíasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 14.40 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum.
-
Fram fer umræða um banaslys á Vesturlandsvegi. R20060278
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúum Vegagerðarinnar er þakkað fyrir að koma í borgarráð. Ljóst má vera að gera þarf allt til þess að koma í veg fyrir að svo hörmulegt slys eins og átti sér stað síðastliðinn sunnudag geti endurtekið sig. Aðstandendum og öðrum sem um sárt eiga að binda vegna slyssins eru sendar innilegar samúðarkveðjur.
Bergþóra Þorkelsdóttir og Birkir Hrafn Jóakimsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Það er áhyggjuefni að enn eitt árið virðist stefna í manneklu í leikskólum borgarinnar þar sem um miðjan júní átti eftir að ráða í fleiri stöður þar en á sama tíma og í fyrra eða í 115,2 stöðugildi. Betur hefur þó gengið að ráða í kennarastöður í grunnskólunum en í fyrra en þrátt fyrir það er enn óráðið í 67 stöðugildi þar. Við þessari stöðu þarf að bregðast strax til að tryggja að skólarnir verði fullmannaðir þegar skólar hefjast í ágúst. Óskað er því eftir að uppfærð staða ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum verði lögð fram á næsta fundi borgarráðs 23. júlí nk. R20070024
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver var kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðivinnu við nýja ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar? R20060201
Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að innri endurskoðun verði falið að fara yfir afskipti eftirlitsaðila Reykjavíkurborgar, þ.m.t. heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, byggingarfulltrúa í Reykjavík og SHS vegna Bræðraborgarstígs 1 og koma með ábendingar til úrbóta. R20060261
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Reykjavíkurborg styrki hagsmunasamtök leigjenda með því að leggja til húsnæði undir starfsemina og rekstrarkostnað miðað við tvo launaða starfsmenn svo leigjendum takist að byggja upp hagsmunabaráttu sína. Eins og staðan er nú er helsta aðstoðin sem leigjendum stendur til boða í formi símatíma frá 12:30-15:00 á þriðjudögum og fimmtudögum sem Neytendasamtökin bjóða upp á í gegnum leigjendaaðstoð. Sú aðstoð er fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið. Í ljósi þess að stór hluti leigjenda býr í Reykjavík er eðlilegt að borgin komi að því að styrkja starfsemi Leigjendasamtakanna, þar sem staða leigjenda er oft mjög erfið og það er mikilvægt að geta sótt í aðstoð og þekkingu. Þegar litið er yfir húsnæðismarkaðinn hefur hann í auknum mæli snúið að því að þjóna þörfum leigusala og stórra hagnaðardrifinna leigufyrirtækja en ekki leigjenda og markaðsvæðing húsnæðiskerfisins hefur stóraukist. Það er mikilvægt að borgin haldi utan um hagsmuni borgarbúa sem leigjenda í þessu samhengi. Velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með því að leita til samtaka leigjenda á Íslandi: Leigjendasamtakanna. R20070030
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi þess að stjórnvöld, bæði ríki og borg, hafa oft algjörlega hundsað raddir þeirra sem hafa bent á ömurlegan aðbúnað verkafólks af erlendum uppruna og þeirra sem búa við fátækt á vinnumarkaði (e. working poor), er lagt til að Reykjavíkurborg stofni innflytjendaráð. Ráðið verði skipað innflytjendum sjálfum og annarra viðeigandi hópa og samtaka eftir því sem ráðið telur þörf á. Í greinargerð er nánar fjallað um skipun í ráðið. Hlutverk ráðsins verði að koma með tillögur að bættu samfélagi og hugmyndir að úrbótum varðandi aðbúnað innflytjenda sem búa við slæm kjör í samfélaginu. Hópurinn verði skipaður sjö innflytjendum með nýlega reynslu af láglaunastörfum og af því að búa við slæmar aðstæður á húsnæðismarkaði. Innflytjendaráðið starfi með umboðsmanni innflytjenda sem ráðinn verði úr hópi innflytjenda til að gæta hagsmuna þeirra innan borgarkerfisins og tryggja að rödd þeirra heyrist hátt og skýrt í samfélaginu. Þar sem um viðkvæma stöðu fólks í ráðinu getur verið um að ræða, er nauðsynlegt að ráðið starfi eftir þörfum þeirra sem sitja í ráðinu, með tilliti til fundartíma og fleiri þátta.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20070029
Frestað.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Það er nauðsynlegt að félagslegu kerfin okkar grípi fólk í neyð og því er lagt til að Reykjavíkurborg komi á fót neyðarhúsnæði sem ætlað er að mæta þörfum þeirra sem hafa í engin hús að venda ef áföll ríða yfir. Almennt félagslegt húsnæðiskerfi borgarinnar er ætlað að mæta þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Ef einstaklingur eða fjölskylda lendir í erfiðum aðstæðum og er skyndilega án húsnæðis, þá er í raun ekkert innan Reykjavíkurborgar sem viðkomandi getur leitað í sem líkist heimili. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg leiti t.a.m. til þeirra sem eiga íbúðahótel í borginni með það að markmiði að þau verði opnuð til þess að hýsa þau sem nú eru húsnæðislaus, íbúum að kostnaðarlausu. Þá verði það húsnæði einnig í boði fyrir þau í Reykjavík sem búa við aðstæður sem talist geta hættulegar og hafa ekkert annað að leita t.a.m. vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Velferðarsviði verði falið að leiða viðræður við eigendur húsnæðis sem geta hentað. Þá verði velferðarsviði einnig falið að tryggja að þau sem eru nú í ótryggu húsnæði í Reykjavíkurborg geti komist í tryggt húsnæði undir þessu úrræði þangað til að langtímalausn er fyrir hendi. R20070031
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Tillaga Flokks fólksins að stýrihópar skili af sér fyrir sumarfrí. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að stýrihópar sem stefndu að því að skila af sér niðurstöðum fyrir sumarið en hafa ekki gert það, geri það hið fyrsta. Það er ótækt að vinna stýrihópa tefjist fram á haustið og mun slík töf geta haft áhrif á marga. Enn bólar sem dæmi ekkert á niðurstöðum starfshóps sem endurskoðar reglur um dýrahald en til stóð að hann lyki störfum á vordögum. Í gangi er einnig starfshópur „um frístundakort“ en ekki er vitað um framvindu þeirrar vinnu. Sá hópur átti m.a. að endurskoða reglur um frístundakort. Bundnar voru vonir við að börnum gæfist kostur á að nýta frístundakortið til þátttöku í sumarnámskeiðum sem nú eru í algleymingi. En reglan um að námskeið þurfi að vara í 20 vikur til að hægt sé að nota frístundakort hindrar það. R20070025
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Starfshópar þeir sem nefndir eru í tillögunni þ.e. vegna dýrahalds annars vegar og frístundakort hins vegar, starfa á ábyrgð viðkomandi fagráða. Það er ekki hlutverk borgarráðs að ákveða skil þeirra hópa enda liggja engar upplýsingar fyrir í borgarráði um stöðu þeirrar vinnu né áætluð skil.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Stýrihópar virðast hafa sjálfdæmi um hvenær þeir skila af sér vinnu og er það miður. Flokkur fólksins veit ekki hver í borginni hefur með það að gera að kalla eftir niðurstöðum stýrihópa. Það er t.d. miður að stýrihópur um endurskoðun frístundakorts skildi ekki hafa lokið störfum og verður það til þess mörg börn geta ekki notað frístundakortið í sumarnámskeið eins og vonast var til að þau gætu eftir endurskoðunina.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í framhaldi af tillögu borgarstjóra að framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19 óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margir nýttu sér þetta ákvæði. R20030260
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Fundi slitið klukkan 16:15
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0207.pdf