Borgarráð - Fundur nr. 5584

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 30. apríl, var haldinn 5584. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason, Ólöf Magnúsdóttir og Sindri Freyr Ásgeirsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. apríl 2020, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 21. apríl 2020 á tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, ásamt fylgiskjölum. R18060129

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 26. febrúar, 5., 10., 19. og 25. mars og 8. og 14. apríl 2020. R20010018

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerðinni frá 8. apríl: 

    Athygli vekur að Ríkisskattstjóri hefur lagt fram fyrirspurn til endurskoðunarnefndar Reykjavíkur dags. 16. mars, þess efnis að gera verður grein fyrir hvernig tryggt verður að innihald og framsetning skýrslu stjórnar Félagsbústaða hf. sé viðeigandi og uppfylli ákvæði VI. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga og reglugerðar nr. 696/2019, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga á fundi nefndarinnar þann 9. apríl sl. Eins og alþjóð veit sagði einn nefndarmaður sig úr nefndinni vegna ágreinings um uppgjörsaðferð Félagsbústaða. Það er kristaltært að þessu máli er hvergi nærri lokið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 8. apríl: 

    Eitt af viðfangsefnum endurskoðunarnefndarinnar er vinnuferli við gerð reikningsskila eins og kemur fram í bréfi formanns endurskoðunarnefndarinnar. Um þetta hefur aldeilis verið deilt þegar kemur að reikningskilaaðferð Félagsbústaða. Svo mikil var óeiningin að einn nefndarmanna taldi sig knúinn til að stíga úr nefndinni. Endurskoðunarnefndin hlýtur að sjá að þegar slíkt gerist vakna spurningar og efasemdir. Í þeim gögnum sem liggja fyrir er það margsagt að þetta sé allt eðlilegt, að þau félög sem beita þessum staðli hafi val um að færa fjárfestingareignir á gangverði eða afskrifuðu kostnaðarverði. Það hlýtur að hafa verið áfall fyrir endurskoðunarnefndina og meirihlutann þegar virtur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður segir sig úr nefndinni vegna ágreinings um reikningsskilaaðferðina sem notuð er við uppgjör fasteigna Félagsbústaða sem hann segir að standist ekki skoðun. Matsbreytingar á fasteignum félagsins, ólíkt í öðrum óhagnaðardrifnum félögum í EES ríkjum eru teknar inn í hagnað félagsins. Fæstir hafa botnað í þessari reikningsskilaaðferð við uppgjör félags eins og Félagsbústaða, milljarða hagnaður en samt sífelld fjárþörf, viðhaldi ábótavant og leiga hækkuð reglulega.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 7. apríl 2020. R20010020

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 20. apríl 2020. R20010004

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 6. apríl 2020. R20010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því sem fram hefur komið á opinberum vettvangi að heimilisofbeldi kunni að hafa aukist á þessum óvissutímum og að það gæti orðið enn alvarlegra. Á tímum sem þessum og öllum tímum er brýnt að við höldum öll vöku okkar og tilkynnum mál verðum við vör við ofbeldi eða höfum grun um að ofbeldi sé beitt á heimili ekki síst þar sem börn eru. Þeirra staða er enn erfiðari þar sem takmörkun er á skólasókn vegna COVID-19 og einnig vegna verkfalla. Ofbeldi er ekki einkamál. Að baki hverju barni stendur samfélag. Það þurfa allir, ættingjar, vinir, kunningjar og nágrannar að vera á vaktinni. Barnið þitt er barnið mitt og mitt barn er einnig þitt barn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill benda á að umfjöllun og umræða um þessi mál er fyrir þolendur stundum hreint lífsspursmál. Vönduð og fagleg umræða sem er laus við hræðsluáróður og fordóma skilar árangri með margs konar hætti og til lengri tíma. Með því að tala tæpitungulaust um þessi mál vita þolendur að þeir eru ekki einir. Umfjöllun er einnig fyrirbyggjandi. Hún er skilaboð til gerenda og hvatning til þolenda að stíga fram og leyfa okkur sem samfélagi að hjálpa.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 29. apríl 2020. R20010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt fram fyrirspurn til borgarstjóra um samkomulag ríkisins við Reykjavíkurborg um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Er vísað í samkomulag sem borgarstjóri og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu þann 28. nóvember sl. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið verði að undirbúning og byggingu nýs flugvallar þannig að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn. Í samkomulaginu lýsir Reykjavík yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Lýsir stjórnin yfir miklum áhyggjum um að samkomulagið haldi ekki því í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi í Skerjafirði sem hefur áhrif á athafnasvæði flugvallarins og vísað er í breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur. Óskað er eftir að borgarstjóri staðfesti sameiginlegan skilning hans og ráðherra um að flugvöllurinn verði tryggður í Vatnsmýrinni. Í loðnu svari borgarstjóra er vísað í „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð“ sem gert var 1. mars 2013 þar sem borgin „skuldbatt“ sig til að hraða skipulagi og uppbyggingu umrædds svæðis. Miklar áhyggjur nefndarinnar eru fullkomlega réttmætar og ljóst að ekkert traust ríkir í garð borgarstjóra um að samkomulagið haldi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins harmar að þessi tillaga að göngugötum Laugaveg frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Vegamótastígur frá Laugavegi að Grettisgötu og Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi, hafi verið lögð fram núna án þess að náð sé samkomulagi við borgarbúa og ekki síst rekstraraðila á svæðinu. Vinnubrögð borgaryfirvalda hafa verið mjög gagnrýnd vegna þess að hér er farið gegn vilja fjölmargra og sennilega góðs meirihluta. Minnt er á ný umferðarlög sem kveða á um heimild P merktra bíla að aka göngugötur og leggja. Ekki er hægt að sjá á myndum sem birtar eru með í málinu hvar þau stæði eigi að vera. Til að hægt sé að aka göngugötu þarf að fjarlægja hindranir. Skynsamlegra hefði verið að bíða með þessi mál nú þegar komum fólks hefur snarfækkað í bæinn enda verslanir orðnar fáar nema þær sem þjónusta ferðamenn. Spurning er um framtíð þeirra þar sem ferðamenn eru ekki á Íslandi núna og verða ekki á næstunni eftir því sem spáð er vegna COVID-19. Þessi tilaga hefði því vel mátt bíða enda vanhugsuð. Meirihlutinn tók um þetta einhliða ákvörðun og birti í meirihlutasáttmálanum en þessi ákvörðun stríðir gegn hagsmunum borgarbúa og hana þarf því að endurskoða. Flokkur fólksins mótmælir því að hún sé lögð fram nú til samþykktar.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 30. mars 2020. R20010013

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Hér kemur fram að aðgerðaráætlun um fjárhagslega endurskipulagningu hafi verið lögð fram. Enn fremur að mat hafi verið lagt á aðgerðaráætlunina. Þessi aðgerðaráætlun fylgir ekki fundargerðinni. Það er mikilvægt að borgarráð sé upplýst um hvaða fyrirætlanir séu í bígerð og hvaða aðkomu Reykjavíkurborg á að hafa af þessari fjárhagslegu endurskipulagningu eða hvort gjaldskrár þurfi að hækka vegna framúrkeyrslu vegna GAJA, gas- og jarðgerðarstöðvarinnar. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru mikil gleðitíðindi að stjórn SORPU bs. og Strætó bs. séu að átta sig á marg framlögðum tillögum borgarfulltrúa Miðflokksins að hefja samstarf með notkun metans á strætisvagna. Húrra, húrra kominn tími til – betra er seint en aldrei. Það þurfti gjaldþrot SORPU til. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 30. mars:

    Fram kemur í liðnum að ráðinn hafi verið nýr starfsmaður sem mun sinna markaðsþróun viðskipta með efnisstrauma sem verða til í GAJA. Stjórnun SORPU hefur verið einkennileg undarfarin misseri. Gnótt hefur verið til af metani. Því hefur verið brennt á báli eftir söfnun og ekkert gert til að koma því í umferð. Flokkur fólksins hefur margoft bent á þessa óstjórn, aldrei við neinar jákvæðar undirtektir. Tillögur hafa verið felldar t.d. með þeim orðum að þær séu vanhugsaðar. En nú á að ráða nýja starfsmann til að reyna að koma afurðum GAJA í notkun því stjórn SORPU ræður ekki við verkefnið? Í kjölfar bókunar stjórnarmanns SORPU við tillögu Flokks fólksins að selja ætti metan á kostnaðarverði þar sem stjórnarmaðurinn segir að tillagan gæti brotið í bága við samkeppnislög leitaði borgarfulltrúi til Samkeppniseftirlitsins til að fá staðfest hvort þetta er rétt. Tillagan var ekki um að selja metan undir kostnaðarverði heldur á kostnaðarverði. Í svari Samkeppniseftirlits segir m.a.: „Samkeppnislögin banna ekki að markaðsráðandi fyrirtæki taki virkan þátt í samkeppni, heldur þvert á móti, en gæta verður að því að verðlagningin sé í samræmi við þær kröfur sem hvíla á markaðsráðandi fyrirtækjum, s.s. að vara sé ekki seld undir kostnaðarverði eða viðskiptaaðilum sé mismunað“.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Framleiðsla á metangasi og jarðvegsbæti mun aukast verulega með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar, GAJA. Í því tilliti er mikilvægt að setja aukinn kraft í markaðs- og þróunarstarf á afurðum stöðvarinnar. Það er því ekkert óeðlilegt að ráða verkefnastjóra til þess að vinna áætlanir um að nýta sem best afurðir GAJA. Með ráðningu starfsmanns í þessi verkefni er stjórn SORPU einmitt að taka málin föstum tökum og setja þau í betri farveg en þau hafa verið. Varðandi verðlagningu SORPU á metani þá er hún nú í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til markaðsráðandi fyrirtækja. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst gott að heyra að stjórnarmaður SORPU í Reykjavík viðurkennir að stjórn hefur ekki staðið sig í metanmálunum og lítið gert til að koma því á markað. Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn til að vinna verkið. Kostnaður fylgir nýjum starfsmanni og má spyrja hvort það kalli ekki á enn frekari lántöku hjá SORPU?

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 22. mars og 3. og 17. apríl 2020. R20010017

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru mikil gleðitíðindi að stjórn SORPU bs og Strætó bs. séu að átta sig á marg framlögðum tillögum borgarfulltrúa Miðflokksins að hefja samstarf með notkun metans á strætisvagna. Húrra, húrra kominn tími til – betra er seint en aldrei. Það þurfti gjaldþrot SORPU til.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 22. mars og 1. lið fundargerðarinnar frá 3. apríl:

    Tekjur hafa dregist mikið saman hjá Strætó bs. og farþegafjöldi hefur minnkað. Ákveðið var vegna COVID-19 að draga verulega úr ferðum eða allt niður í 35% minni akstur á virkum dögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir hvernig komið er fyrir almenningssamgöngum í borginni. Enda þótt einstaka vagnferðir séu vel nýttar í eðlilegu árferði eru farnar margar ferðir með fáa farþega. Strætókerfið er dýrt sem sjá má á verði fargjalds sem var nýlega hækkað. Stök ferð kostar tæp 500 krónur og hentar því illa þeim sem nota strætó endrum og sinnum. Í Covid aðstæðunum var ákveðið að þrátt fyrir fækkun ferða til muna á ekki að lækka gjöld eða framlengja gildistíma strætókorta. Erfitt er að virða 2. metra regluna í strætó. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að Strætó bs. verði að koma til móts við farþega sína, fasta viðskiptavini sem hafa ekki getað nýtt sér strætó ýmist vegna COVID-19 og/eða vegna stopulla ferða. Taka ætti ákvörðun um að framlengja gildistíma strætókorta sem nemur þeim tíma sem fækkun ferða náði yfir og lækka mætti einstaklingsmiða um helming. Strætó mun ekki þrífast ef enginn stígur inn í þá. Nú er lag að sýna jákvætt viðmót og gera allt til að laða fólk í vagnanna.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 28 mál. R20030261

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið yfirlitsins: 

    Stærsti núverandi urðunarstaður á landinu er hjá SORPU í Álfsnesi. Í lok árs 2020 verður urðun hætt þar. Vakin er athygli á því að ekki hefur verið fundinn nýr staður til urðunar og telja Sjálfstæðismenn í borgarráði að hraða þurfi þeirri vinnu í þeirri viðleitni að finna lausn til framtíðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið yfirlitsins: 

    Nú liggur fyrir að ekki á að fella niður leigu hjá Félagsbústöðum í einn einasta mánuð eins og tillaga fulltrúa Flokks fólksins fól í sér. Einnig var lagt til að Félagsbústaðir falli frá innheimtu á leiguskuldum leigjenda og frysti þær sem eru í innheimtuferli vegna COVID-19 - Því er einnig hafnað. Áður hefur Flokkur fólksins lagt til að fallið verði frá að senda skuldir í innheimtu Motus en þeirri tillögu var einnig hafnað. Í svari segir að niðurfelling leigu í einn mánuð nemi tæpum 310 mkr. og myndi leiða til þess að handbært fé yrði neikvætt um tæpar 200 mkr. á árinu 2020 og ef mánuðir væru tveir ykist hallinn um 310 mkr. að óbreyttu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki mikið fé ef skoðað er hversu vel þetta myndi koma þessum viðkvæma hópi. Greiðsluaðlögun dugar einfaldlega ekki til í tilfellum t.d. þeim sem fólk hefur orðið fyrir atvinnumissi eða tekjufalli. Að hægja á málum sem snúa að greiðsluáskorunum er skammgóður vermir. Í ofanálag svífur yfir fólki sem skulda, innheimtukröfur lögfræðinga með meðfylgjandi vöxtum. Formaður velferðarráðs situr í stjórn Félagsbústaða og ætti því að vera handhægt að leita eftir samþykki borgarstjórnar fyrir auknum greiðslum úr borgarsjóði til að mæta tekjutapinu sem fylgir niðurfellingu á leigu þótt ekki væri nema í einn mánuð.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20030262

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. apríl 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. apríl 2020 á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 37 við Grandaveg, ásamt fylgiskjölum. R20040035
    Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. apríl 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl 2020 á lýsingu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla, ásamt fylgiskjölum. R20040126
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í tengslum við skipulagningu Rauðhólasvæðisins tekur Flokkur fólksins undir það mat og álit skipulagsfulltrúa að Rauðhólar eigi að tilheyra Reykjavíkurborg en ekki Orkuveitunni. Þar sem borgin er nú að skipuleggja svæðið um Rauðhóla þá ætti svæðið að heyra undir borgina en ekki Orkuveituna. Þegar Hólarnir voru friðaðir sem fólkvangur árið 1974 átti Reykjavíkurborg jörðina Elliðavatn og þar með Rauðhóla, en þegar Orkuveitan var stofnuð þá rann jörðin Elliðavatn inn í eignasamsteypu þess og sá hluti Heiðmerkur sem tilheyrði Elliðavatni ásamt Rauðhólum var því ekki lengur eign borgarinnar. Auðvitað eiga Rauðhólar frekar að vera eign borgarinnar en Orkuveitunnar. Borgin ber allan kostnað af rekstri og umsjón og því ekki eðlilegt að svæðið sé eign Orkuveitunnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. apríl 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu, ásamt fylgiskjölum. R20040124
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar opinna leiksvæða á árinu 2020, ásamt fylgiskjölum. R20040077
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem yfirlit yfir áætlaðar viðhaldsframkvæmdir Reykjavíkurborgar á árinu 2020 er sent borgarráði til kynningar. R20040177

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg fer í viðhaldsframkvæmdir fyrir tæpa 5,7 milljarða króna í ár. Þar af er milljarður króna áætlaður í sérstök viðhaldsverkefni sem hluta af atvinnuátaki vegna COVID-19. Að öðru leyti er um að ræða hefðbundið árlegt viðhald á fasteignum, lóðum, götum, göngu- og hjólastígum, götulýsingu, leikvöllum og opnum svæðum. Alls er áætlað að 3,15 milljarðar króna fari í viðhald fasteigna Reykjavíkurborgar á þessu ári. Þar af fer stærsti hlutinn í grunn- og leikskóla, eða tæplega 2,1 milljarður króna. Enn fremur fara 360 milljónir króna í viðhald grunn- og leikskólalóða. Sem hluti af sérstaka atvinnuátakinu renna 620 milljónir til viðbótar til viðhalds leik- og grunnskóla. Samtals fara því rúmlega 3 milljarðar í þennan málaflokk. Einnig rennur hálfur milljarður í íþróttamál og 120 milljónir í velferðarmál. Lögð er áhersla á viðhald gatna- og gönguleiða á árinu en í það fara 823 milljónir króna. Einnig fara 328 milljónir í viðhald leikvalla og opinna svæða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Myglu- og rakavandi í skólum er enn stórt vandamál og verður sennilega næstu ár þar sem viðhald hefur verið vanrækt árum saman. Hlé var gert á viðhaldi í COVID aðstæðunum, jafnvel þótt enginn væri í skólunum. Í Fossvogsskóla kom upp veikindi aftur eftir stórtækar viðgerðir. Vonandi hefur tekist að lagfæra það með varanlegum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurnir til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um þessi mál og fékk bágt fyrir. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vill árétta að fyrirspurnir hans endurspegla líðan, hugsanir og tilfinningar borgarbúa í þeim málum sem um ræðir hverju sinni og eru byggðar á erindi fólks til áheyrnarfulltrúans. Skortur á viðhaldi skólahúsnæðis með tilheyrandi mygluskemmdum hefur haft djúpstæð áhrif á börn, foreldra og starfsfólk skóla, líkamlega og andlega. Margir hafa veikst og sumir ekki náð sér að fullu. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar götutrjáa á árinu 2020. R20040178
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að verkefni þetta er til afgreiðslu borgarráðs en engu að síður er verkefnið farið af stað. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla, þ.e. að sækja heimild eftir að verkefnið er hafið. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds þar sem óskað er eftir að heimila verði að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar götutrjáa 2020. Í bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, var óskað eftir heimild til að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjun götutrjáa 2019. Kostnaðaráætlun er 20 m.kr. Nú á að fjarlægja 21 ösp og setja lágvaxnari tegundir sem sagt er að auki „líffræðilega fjölbreytni“. Flokkur fólksins vill benda á að ef breyta á aðeins einu og einu beði eykur það varla „líffræðilega fjölbreytni“, slík hugtök eru notuð á stærri skala. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það bagalegt að á meðan tugir sambærilegra verkefna eins og þetta eru nú samþykkt eru ýmsum tillögum um beina aðstoð til fólks synjað þegar tekjumissir er yfirvofandi. Flokkur fólksins vill að hugað verði að fólkinu frekar en að eyða tugum milljóna í að fella aspir. Hægt er að laga gagnstéttir fyrir minna fé. Fólk þarf að vera í fyrsta sæti ekki síst núna. Þetta er útsvarsfé borgarbúa sem hér er verið að sýsla með og það er skylda þeirra sem ráða að sjá til þess að borgarbúar allir sem einn fái fullnægjandi aðstoð og þjónustu. Það er hugmyndafræði samneyslunnar. Þegar sú þjónusta er trygg er hægt að fara skoða verkefni eins og þetta.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 2. áfanga endurgerðar á útivistar- og torgsvæðum í Mjódd, ásamt fylgiskjölum. R20040164
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við 2. áfanga endurgerðar á útivistar- og torgsvæðum í Mjódd. Kostnaðaráætlun 2 er 50 m.kr. sem virðist vera skot í loftið. Rökstuðning vantar. Flokkur fólksins fagnar allri uppbyggingu í Mjódd enda komin tími á upplyftingu auk þess sem verkefnið er jákvætt í atvinnuleysinu. Búast má við góðum tilboðum. Óskað er engu að síður eftir að fá nánari upplýsingar, sundurliðun á hvernig nýta á þessar 50 milljónir og hvernig þær dreifast. Ein mynd fylgir með beiðninni sem segir lítið. Það á við um fleiri mál sem lögð eru hér fram, auðvelt er að fá það á tilfinninguna að giskað sé á kostnað og skellt með einni mynd. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki viðunandi. Hér er verið að tala um margar milljónir. Nákvæm og vönduð áætlun skiptir öllu máli til að afstýra framúrkeyrslum. Heldur er ekki gott að ofáætla, slíkt bíður líka upp á hættu á að farið verði kæruleysislega með fé borgarbúa. Í svona málum þarf að leggja nákvæma áætlun fram í borgarráði. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða ut framkvæmdir við breytingar á Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í tengslum við nýtt íbúðahverfi við Leirtjörn, ásamt fylgiskjölum. R20040075
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gatnagerð vegna nýrra atvinnulóða við Bústaðaveg 151-153 ásamt breytingum á Bústaðavegi og gerð nýrra göngu- og hjólastíga, ásamt fylgiskjölum. R20040078
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurgerð gatnamóta við Laugalæk og Hrísateig og uppsetningu grenndarstöðvar við Hrísateig, ásamt fylgiskjölum. R20040181
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Óskað er eftir í þessum lið að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð gatnamóta við Laugalæk og Hrísateig ásamt uppsetningu grenndarstöðvar við Hrísateig. Kostnaðaráætlun 2 er 50 m.kr. Rökstuðning vantar. Flokkur fólksins fagnar verkefninu enda jákvætt í atvinnuleysinu. Búast má við góðum tilboðum. Óskað er engu að síður eftir að fá nánari upplýsingar, sundurliðun á hvernig nýta á þessar 50 milljónir og hvernig þær dreifast. Ein mynd fylgir með beiðninni sem segir lítið. Upplýsingar eru rýrar.
    Það á við um fleiri mál sem lögð eru hér fram, auðvelt er að fá það á tilfinninguna að giskað sé á kostnað og skellt með einni mynd. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki viðunandi. Hér er verið að tala um margar milljónir. Nákvæm og vönduð áætlun skiptir öllu máli til að afstýra framúrkeyrslum. Heldur er ekki gott að ofáætla, slíkt bíður upp á hættu líka að farið verði kæruleysislega með fé borgarbúa. Nákvæmar upplýsingar um áætlun þarf að leggjast fyrir borgarráð. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Norðurstígs og Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu, ásamt fylgiskjölum. R20040180
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem yfirlit malbiksframkvæmda á vegum Reykjavíkurborgar sem unnar voru á árunum 2018 og 2019 eru send borgarráði til kynningar. R19010107

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. apríl 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita íbúaráðum borgarinnar alls 30 m.kr. til að úthluta til verkefna sem hafa það markmið að efla hverfisanda, mannlíf og menningu sumarið 2020. Gert er ráð fyrir að efnt verði til eða auglýst yrði eftir verkefnum og viðburðum sem ætlað væri að stuðla að auknu mannlífi, menningu, félagsauði og lífsgæðum í hverfunum í sumar. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa yrði íbúaráðunum til stuðnings í undirbúningi og útfærslu auk stofnana borgarinnar í hverju hverfi eftir því sem þurfa þykir. Þá mun mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa tryggja tengsl við viðburðateymi og kynningarteymi Sumarborgarinnar 2020 til að tryggja markvissa kynningu og góða nýtingu fjármuna. Miðað er við að hvert íbúaráð sem eru níu talsins fái milljón hvert en afgangurinn deilist út á íbúaráðin samkvæmt íbúafjölda hverfanna. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2020 í samræmi við tillöguna til framlagningar í borgarráði. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20040179
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. apríl 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að farið verði í átak til þess að efla miðborgina sem sjálfstæðan áfangastað í sumar. Þannig er stuðlað að eflingu atvinnulífs á svæðinu með aukinni verslun og viðskiptum við rekstraraðila á svæðinu en ekki síður auknu mannlífi og menningu fyrir alla. Samhliða verði miðborgin kynnt sem áfangastaður með sérstöku átaki í markaðssetningu. Gert er ráð fyrir að stór hluti fjármögnunar verði tekin úr römmum umhverfis- og skipulagssviðs og menningar- og ferðamálsviðs og vinnuframlag verði frá starfsfólki sviðanna. Auk þess er lagt til að borgarráð samþykki ofangreinda tillögu að auknum fjármunum í að efla miðborgina vegna ársins 2020, alls 50 m.kr. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2020 í samræmi við tillöguna til framlagningar í borgarráði. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20040179
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulagsyfirvöld hafa rakið aðgerðir og tala mikið um að vinna með rekstraraðilum. Flokkur fólksins leggur þá til að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við rekstraraðila miðbæjarins til að ræða björgunaraðgerðir s.s. hvernig markaðsátak hægt er að fara í fyrir miðborgina. Fara þarf í almennar aðgerðir sem nýtast öllum. Almennar aðgerðir þurfa m.a. að fela í sér samvinnu við bílastæðasjóð og Strætó bs. sem gefa þurfa eftir í gjöldum til að laða að fólk. Breyta verður aksturstefnum á Laugavegi þannig að ekið verði í vesturátt niður alla götuna. Opna þarf hliðin til þess að P merktir bílar geti ekið og lagt. Fyrir veirufaraldurinn var orðið fátt um annað fólk í bænum en ferðamenn. Götulokanir á svæðinu höfðu haft þau áhrif að verslun og viðskipti hrundi í miðbænum utan veitingahúsareksturs. COVID-19 áhrifin bættust síðan ofan á og mun sennilega líða talsverður tíma áður en sjá má stóra hópa ferðamanna í miðborginni. Orsök faraldursins er engum að kenna. En flótti verslana af svæðinu er á ábyrgð meirihlutans. Nú verða allir að leggjast á eitt og bjarga því sem bjargað verður. Ef það tekst er hægt að fara að byggja upp verslun og þjónustu á ný. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. apríl 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Þorstein Gunnarsson í starf borgarritara Reykjavíkurborgar en hann er metinn hæfastur til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði í febrúar 2020.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20020016
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Meirihluti borgarráðs og áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands þakkar hæfnisnefnd við ráðningu borgarritara kærlega fyrir vel unnin störf. Ljóst er að nefndin þurfti að velja á milli mjög hæfra einstaklinga. Þá er Þorsteinn Gunnarsson boðinn hjartanlega velkominn til starfa hjá Reykjavíkurborg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins treystir hæfnisnefndinni ágætlega enda allt úrvals og hæft fólk til verksins. Engu að síður treystir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins best eigin innsæi þegar kemur að því að skynja kosti, gæsku og færni umsækjenda og til þess þarf að hitta umsækjendur. Engin gögn og mælingar geta komið í staðinn fyrir persónulegt samtal. Hér er verið að ráða í mikilvægt starf og sérstaklega erfitt vegna þess að sá aðili sem um ræðir þarf að þjóna og vera vinveittur öllum borgarfulltrúum án tillits til minni- meirihluta, flokka eða persóna. Nýr borgarritari þarf að skilja að hlutverk minnihlutans er að veita aðhald, benda á það sem betur má fara í stjórnsýslunni o.s.frv. Umfram allt þarf viðkomandi að hafa þá gæfu að bera að vera laus við meðvirkni með borgarstjóra og meirihlutanum. Það hefði róað borgarfulltrúa Flokks fólksins mikið ef honum hefði verið gefinn kostur á að hitta þá sem valdir voru í úrslitahóp þótt ekki væri nema í fáeinar mínútur. Besta fyrirkomulagið hefði verið að þessum aðilum hefði verið boðið að koma inn á fund borgarráðs. Þetta skiptir ekki síst máli þar sem það liggur fyrir að mjótt er á mununum milli umsækjenda í úrslitahópnum.

    Regína Ásvaldsdóttir, Ásta Bjarnadóttir og Gylfi Magnússon taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  26. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. apríl 2020, varðandi beiðni KSÍ um þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði vegna umspilsleiks og endurskoðun samnings um rekstur Laugardalsvallar, ásamt fylgiskjölum. R20020157

    Lagt er til að borgarráð hafni þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði vegna umspilsleiks við Rúmeníu. 
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Lagt er til að borgarráð samþykki að að hefja viðræður við KSÍ um endurskoðun samnings um rekstur Laugardalsvallar og feli það Ómari Einarssyni, Ebbu Schram og Óla Jóni Hertervig. 
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 27. apríl 2020, um frumvörp til laga til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, 724., 725. og 726. þingmál, ásamt fylgiskjölum. R20030147

    Fylgigögn

  28. Lagt fram minnisblað Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. apríl 2020, varðandi áhrif COVID-19 á fjárhag og þjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. R20040165

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. apríl 2020, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að endurnýjuðum samstarfssamningi við björgunarsveitirnar í Reykjavík fyrir árin 2020-2022. Árlegt framlag borgarinnar verði 14 m.kr. sem greiðast af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur. Samtals nemur fjárhæðin 42 m.kr. á samningstímanum. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20040030
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  30. Lagður fram að nýju samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 (A- og B-hluti), ódags. ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl sl. 

    Nú er lögð fram yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2019, dags. 30. apríl og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019, dags. 28. apríl 2020. Einnig er lögð fram greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags. R19120193

    Ársreikningur borgarsjóða (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 hefur verið undirbúinn af fjármála- og áhættustýringarsviði í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Lagt er til að ársreikningi verði vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn.
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í 9. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 sem fjallar um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga er fjallað um fasteignir. Þar kemur fram að eignasjóður sveitarfélags getur haft eignarhald á og leigt fasteignir sem nýttar eru af B-hluta að undanskildum félagslegum íbúðum. Einnig kemur fram í reglugerðinni að útreikningar á viðmiðunarleigu byggja á stofnverði sem er skilgreint sem raunkostnaður fjárfestingar. Þetta getur ekki verið skýrara að stofnverð fasteigna, það verð sem notað er við útreikning á afskriftum, viðhaldsþörf og umsýslukostnaði, í reikningsskilum sveitarfélaga og þar með í eignarsjóði sveitarfélaga er raunkostnaður fjárfestingar. Raunkostnaður er annað hvort kaupverð eða byggingarkostnaður. Því er rangt að miða eignasafn Félagsbústaða við markaðsverð fasteigna sem tekur mið af framboði og eftirspurn á markaði. Það á ekki að breyta neinu þó ákveðinn fjöldi fasteigna sem er keyptur eða byggður með félagsleg markmið fyrir augum sé settur í hlutafélag sem er rekið óhagnaðardrifið því það er einn hluti af þjónustukerfi sveitarfélagsins. Þetta fyrirkomulag er einungis til að allt rekstrarlegt utanumhald félagslegs húsnæðis sé gleggra en á ekki að opna leiðir til að beita bókhaldslegum trixum hvað varðar verðmat eigna og þar af leiðandi afkomu sveitarfélagsins. Þessar staðreyndir eru sláandi þegar munurinn á uppgjöri samstæðu Reykjavíkurborgar, hvort um er að ræða kostnaðarverðsregluna eða gangvirðisregluna, eru 57 milljarðar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að við ytri endurskoðun komu fram vankantar bæði er varðar innra eftirlit og ferli við gerð reikningskila og fjárhagsupplýsinga. Í raun er þetta sömu ábendingar og í fyrra og hitteðfyrra. Þá er spurt, eru þessar ábendingar ekki að skila sér? En að reikningskilaaðferð Félagsbústaða. Í því máli er uppnám sökum brotthvarfs eins endurskoðanda sem telur að rétt reikningskilaaðferð sé ekki valin. Rökin með þeirri aðferð er að gangvirðisleiðin gefi gleggri mynd af fjárfestingareignum og það skipti máli hvernig myndin lítur út þegar félagið leitar leiða með fjármögnun, að framsetningin líti betur út gagnvart þeim aðilum sem félagið leitar til með fjármögnun. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort rétt sé að velja aðferð í þeim tilgangi að fjárfestingar líti betur út. Hér er um óhagnaðardrifið félag að ræða. Í gagnapakka fyrir borgarráð er minnisblaði frá borgarbókara vísað til varkárnisreglunnar: „standi semjandi reikningsskila frammi fyrir tveimur eða fleiri kostum vegna óvissu, þykir rétt að velja þann kost sem er líklegastur til að ofmeta ekki eignir og hreinar tekjur.“ Með gangvirðisreglunni má ætla að eignir séu ofmetnar, sérstaklega þær sem eru skemmdar af myglu og raka sem ekki alltaf blasa við kaupendum. Kvartanir vegna raka og myglu íbúða Félagsbústaða eru margar. 

    Halldóra Káradóttir, Gísli H. Guðmundsson, Theodór S. Sigurbergsson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sturla Jónsson, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 28. apríl 2020, varðandi reikningsskil Félagsbústaða hf., ásamt fylgiskjölum. R19120193

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ágreiningsmál hvort það eigi að taka inn ársreikning Félagsbústaða inn í samstæðuuppgjör Reykjavíkurborgar með matsbreytingum upp á tugi milljarða. Í minnisblaði fjármála- og áhættustýringarsviðs kemur fram að matsbreytingarnar hafa blásið upp verðmat félagslegra íbúða Reykjavíkurborgar um 57 milljarða króna. Þessi fjárhæð hefur áhrif á bæði efnahags- og samstæðureikning borgarinnar enda er um gríðarlega fjármuni að ræða. Einn nefndarmaður í endurskoðunarnefndar hefur sagt sig frá nefndinni vegna þessa máls og vekur það athygli. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er lögð fram skýrsla formanns endurskoðunarnefndar um reikningsskil Félagsbústaða. Fylgja á ákveðnum staðli og um það er ekki deilt. Frekar er deilt um valið á reikningsskilaaðferðinni en hægt er að velja tvær leiðir. Þar sem Félagsbústaðir er óhagnaðardrifið félag skyldi ætla að færa ætti fjárfestingareignir á kostnaðarverði fremur en gangvirði. Seinni leiðin er valin því hún er sögð gefa gleggri mynd af fjárhagsstöðu félagsins. Vitað er að Félagsbústaðir hafa átt við ímyndarvanda að stríða m.a. vegna skorts á viðhaldi eigna. Gangvirði segir ekki til um hvort íbúð sé skemmd vegna leka og raka, sýnir ekki dulda galla ef eru. Ætla má að margar íbúðir félagsins sé á mörkunum að teljast heilsusamlegar ef marka má kvartanir leigjenda. Nú í COVID aðstæðunum var dregið úr viðhaldi svo ástandið er sennilega enn verra. Því er varla hægt að búast við að uppgjör eigna á gangvirði gefi eins glögga mynd af fjárhagsstöðunni og látið er í veðri vaka. Birtingarmyndir þessara tveggja reikningsskilaaðferða eru afar ólíkar og munar milljörðum. Félagsbústaðir líta mun betur út með gangvirðisaðferðinni. Hvað sem þessu líður þá setti brotthvarf eins endurskoðanda úr nefndinni strik í reikninginn. Ástæða brotthvarfsins var varla léttvæg. Vangaveltur eru um hvort rétt sé að skrifa undir ársreikninginn þegar virtur endurskoðandi fullyrðir að aðferð reikningsskila sem notuð er standist ekki skoðun.

    Halldóra Káradóttir, Gísli H. Guðmundsson, Theodór S. Sigurbergsson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sturla Jónsson, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að ársreikningur samstæðu Reykjavíkurborgar sé stillt upp þannig að Félagsbústaðir séu á kostnaðargrunni, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl 2020. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. apríl 2020. R19120193
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur út á annarskonar framsetningu á uppgjöri Félagsbústaða og er skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Skoðun fulltrúans hefur hlotið ítarlega og faglega umfjöllun í nefndinni sem hefur farið yfir málið með ytri endurskoðendum á nokkrum fundum. Fundað hefur verið með fjármála- og áhættustýringarsviði sem ákvað í janúar að óska álits óháðra sérfræðinga í reikningsskilum. Niðurstaðan var enn og aftur sú að núverandi reikningsskilaaðferð væri heimil og í samræmi við reikningsskilastaðla. Fram kom að Félagsbústaðir hafi beitt gangvirðisaðferðinni frá árinu 2004. Þá kemur fram að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, úrskurðaði þann 11. júlí 2013 eftirfarandi varðandi reikningsskil Félagsbústaða hf.: „Ráðuneytið staðfestir ákvörðun ársreikningaskrár frá 29. maí 2012 um að félaginu […] sé skylt til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, IFRS, við gerð ársreiknings síns fyrir árið 2011“. Þessi úrskurður er afdráttarlaus um að Félagsbústöðum er skylt að beita IFRS og hafa ekki val um annað. Vandséð er hvernig hefði átt bregðast við með öðrum hætti en að hlíta afdráttarlausum úrskurði ráðuneytisins. Þá er þess að geta að þrjú hérlend endurskoðunarfyrirtæki, sem eru hluti alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja, hafa endurskoðað ársreikninga Félagsbústaða frá árinu 2004 og hafa ekki gert fyrirvara varðandi beitingu gangvirðis í reikningsskilum félagsins. Með vísan til ofangreinds er tillögunni vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði ekki fjárfestingafélag. Búið er að breyta heimasíðu Félagsbústaða eftir að hörð deila um uppgjörsaðferðir félagsins varð opinber sem endaði á að einn nefndarmanna í endurskoðunarnefnd Reykjavíkur sagði sig úr nefndinni. Það er blekkingarleikur og jafnvel ólöglegt að breyta heimasíðu opinbers félags. Var ekki nóg að eyða tölvupóstum í braggamálinu? Hvað segir borgarskjalasafn um þetta? Fyrir breytinguna var tekið fram á heimasíðu Félagsbústaða að félagið væri ekki rekið í hagnaðarskyni. Nú stendur: „Félagsbústaðir eru stærsta þjónustufyrirtæki á leigumarkaði hérlendis með yfir 2.800 íbúðir til útleigu í Reykjavík. Félagsbústaðir er fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar sem hefur það hlutverk að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði í borginni. Leiguhúsnæði Félagsbústaða er ætlað fjölskyldum og einstaklingum sem ekki hafa tök á að sjá sér fyrir húsnæði vegna lágra launa, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra aðstæðna“. Þetta er hrein og klár blekking. Mikið liggur undir því hér kemur fram að mismunurinn á uppgjörsreglum er 57 milljarðar frá árinu 2012 – 2019. Að auki stangast þetta á við samþykktir félagsins. Þar segir beinlínis: „Markmið félagsins er að starfa í þágu almenningsheilla“, en ekki að vera fjárfestingafélag. Ekki þarf heldur lengi að skoða fréttatilkynningar til að sjá að félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari kemur fram að áætlað bókfært virði fjárfestingaeigna Félagsbústaða þann 31 desember 2019 miðað við kostnaðarverðsaðferð er 35,1 milljarður en samkvæmt núverandi reikningsskilaaðferð félagsins er matið 92,1 milljarður. Hér munar 60 milljörðum tæpum. Það er kannski ekki skrýtið að deilt er um þessar tvær uppgjörsleiðir í ljósi þess hversu miklu munar á pappírum. Nægur var ágreiningurinn til þess að einn nefndarmanna vék úr nefndinni en hann gat ekki búið við hvernig framsetning ársreiknings Félagsbústaða var settur inn í samstæðureikning Reykjavíkurborgar með uppreiknuðum hagnaði af endurmati eigna. Brotthvarf endurskoðandans úr nefndinni hefur vakið upp spurningar og tortryggni. 

    Halldóra Káradóttir, Gísli H. Guðmundsson, Sturla Jónsson, Theodór S. Sigurbergsson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið. Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. apríl 2020, vegna fjórða ársfjórðungs ársins 2019. R19060015

    Halldóra Káradóttir og Gísli H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  34. Lögð fram ársskýrsla Reykjavíkurborgar, dags. apríl 2020, vegna útgáfu grænna skuldabréfa, ásamt fylgiskjölum. R20040044

    Halldóra Káradóttir og Gísli H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram ársskýrsla fjármála og áhættustýringarsviðs, dags. 27. apríl 2020, varðandi framkvæmd styrkjareglna 2019. R20030067

    Halldóra Káradóttir og Gísli H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  36. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 27. apríl 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2020. R20010161
    Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins styður 5. lið þar sem lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 64.509 þ.kr. vegna skólagöngu fjögurra reykvískra nemenda í Arnarskóla sem er skóli fyrir börn með þroskafrávik. Þetta er vissulega skammtímalausn fyrir fáa nemendur. Fleiri nemendur bíða eftir sambærilegu úrræði. Það sem skipti máli er að öll börn séu í skólaúrræðum þar sem þeim líður vel og finna sig meðal jafningja. Segir í gögnum að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir. Margir myndu túlka þetta sem fyrirslátt. Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem hentar betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Biðlisti er í Klettaskóla og Brúarskóla. Báðir eru fullir og sá fyrri yfirsetinn. Bregðast þarf við með varanlegum lausnum og ætti borgin að reka sjálf skóla eins og Arnarskóla. Flokkur fólksins hefur lagt til að rýmka inntökureglur og stækka Brúarskóla. Í svörum og umsögnum við tillögu um stækkun Brúarskóla var beinlínis sagt að ekki væri þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma. Samt eru 19 börn á biðlista þar. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir í Arnarskóla.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  37. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 17. apríl 2020, í máli E-4147/2018. R19090042

    Fylgigögn

  38. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 22. apríl 2020, í máli E-462/2019. R19020045

    Fylgigögn

  39. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 27. apríl 2020, um þau málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. R19100258

  40. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti vegna sölu á atvinnuhúsnæði að Aðalstræti 9, ásamt fylgiskjölum. R20040166
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  41. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag við Íslenska gámafélagið um lok leigu í Gufunesi og flutning fyrirtækisins á Esjumela, ásamt fylgiskjölum. R20040167
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  42. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir byggingarrétti á lóðunum Bronsslétta 7 og Járnslétta 8, ásamt fylgiskjölum. R20040172
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  43. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samningi um afnot af landsspildu norðan við Fossaleyni 17, ásamt fylgiskjölum. R20030246
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  44. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. apríl 2020, þar sem tímabundinn húsaleigusamningur eignaskrifstofu í Skipholti 27 er sendur borgarráði til kynningar. R20040120

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  45. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við kaupsamning um kaup á lóðarréttindum og byggingarrétti á landi Gufuness. R17120121
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skipulag kvikmyndaþorpsins í Gufunesi er niðurstaða umfangsmikils samstarfs íbúa Grafarvogs, Rvk Studios, borgarinnar, Faxaflóahafna og annarra aðila. Í kjölfar samráðsins var haldin arkitektasamkeppni þar sem fagleg og þverpólitísk dómnefnd skilaði niðurstöðu um þetta spennandi skipulag. Kvikmyndaþorpið í Gufunesi er nú þegar orðið eitt stærsta atvinnusvæðið í austurhluta borgarinnar, sannkallað þorp skapandi greina eða fríríki frumkvöðlanna eins og segir í tillögu hollensku arkitektastofunnar Jvantspikjer + Felixx sem sigraði skipulagssamkeppnina um kvikmyndaþorpið í Gufunesi. Gufunes hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga eftir að Rvk Studios hófu þar starfsemi en í kjölfarið tóku minni kvikmyndatengd fyrirtæki að koma sér þar fyrir. Hægt og bítandi er Gufunesið því að breytast úr svæði undir grófan iðnað líkt og starfsemi Íslenska gámafélagsins yfir í mest spennandi umbreytingarsvæðið í borginni. Fyrir liggur framsækið deiliskipulag og framundan er upphaf framkvæmda á fyrstu íbúðunum í Gufunesi undir heitinu Þorpið. Þá er vilji til þess að vera með bátastrætó frá Gufunesi að Hörpu og standsetja nýja ylströnd í Reykjavík. Meirihluti borgarráðs fagnar þessu samkomulagi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Uppbygging í Gufunesi er sannarlega spennandi. Sjálfstæðisflokkur ítrekar þó mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt milli aðila á byggingamarkaði. Áfangaskiptar greiðslur fyrir byggingarétt eru jákvæðar, en byggingaraðilar verða að eiga jafnan aðgang að slíkum úrræðum. Auka þarf sveigjanleika og einfalda ferla innan borgarkerfisins svo tryggja megi vænlegri skilyrði til uppbyggingar og verðmætasköpunar í borginni. Hér er verk að vinna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er í annað sinn lagður til greiðslufrestur af eftirstöðvum kaupverðs vegna byggingaréttar í Gufunesi. Upphaflegur umsaminn gjalddagi síðustu kaupsamningsgreiðslu átti að vera 15. desember 2020 en hefur nú verið framlengdur til 15. desember 2023. Þessi lóðarréttindi fóru ekki í gegnum hefðbundið útboðsferli. Ólíklegt má telja að aðilar á byggingamarkaði njóti almennt samskonar fríðinda og sveigjanleika innan borgarkerfisins. Í janúar 2020 voru samþykkt aðilaskipti að þessum byggingarétti í Gufunesi. Þannig færðist rétturinn frá GN Studios til Gufuness Fasteignaþróunar. Við aðilaskiptin kom fram að borgin myndi ekki njóta neins hluta af þeim mögulega ávinningi sem lóðarhafinn GN Studios ehf. kann að hafa fengið við framsalið. Úthlutun verðmæta borgarinnar, og ekki síst byggingarréttar á borgarlandi, verður að vera með þeim hætti að jafnræði milli aðila á markaði sé hafið yfir allan vafa.

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  46. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að gerð verði markaðskönnun vegna uppbyggingar á bílastæðahúsum á þróunarsvæðum í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R19090174
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á fundi borgarstjórnar 5. febrúar 2019 var samþykkt af meirihlutanum í borgarstjórn sameiginleg tillaga meirihlutans og sjálfstæðismanna um að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur bílastæðahúsa. Þar með talið rekstrarútboð, með það fyrir augum að bæta nýtingu, efla þjónustu og auka hagkvæmni. Í tillögunni sagði að rýna skuli fyrirkomulag rekstrarins út frá markmiðum borgarinnar varðandi stýringu bílastæða, bætta nýtingu borgarrýmis, bílastæðastefnu og stefnu aðalskipulags. Þá er gert ráð fyrir að sviðið skili tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst 2019. Það er miður hefur engin tillaga enn litið dagsins ljós í þessum efnum þrátt fyrir að meirihluti borgarstjórnar hafi samþykkt tillögu Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði telja mikilvægt að þessari tillögum verði skilað sem fyrst.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að innviðir Reykjavíkurborgar séu í eigu og rekstri borgarinnar en ekki á höndum einkaaðila. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er hrein ögrun við kjörna fulltrúa. Þessi tillaga var tekin út þegar samkomulag um að leggja fram aðgerðarpakka 1 vegna COVID-19. Svikin loforð út um allt. Eðlilegra hefði verið að fara í markaðskönnun almennt á bílastæðahúsum en ekki einskorða slíka könnun við þróunarsvæði eins og tillagan gerir ráð fyrir. Hér er verið að verja fjármunum Reykjavíkurborgar til að kanna áhuga aðila til rekstrar slíkra húsa á fyrirhuguðum uppbyggingarreitum þar sem enn liggur ekki einu sinni fyrir deiliskipulag eins og í Skerjafirði. Fjármunum borgarinnar hefði verið betur varið í að kanna vilja og áhuga á rekstri þeirra bílastæðahúsa sem Reykjavíkurborg rekur nú þegar. Eflaust hefðu margir áhuga á slíkum rekstri og  getað þróað hann til betri vegar með aukinni þjónustu við notendur eins og víða þekkist erlendis.

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  47. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir byggingarrétti vegna íbúða á lóð G1 á svokölluðum Sjómannaskólareit. R20040169
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  48. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna lóðar að Urðarbrunni 13. R20040029
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  49. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir byggingarrétti vegna íbúða á þróunarsvæði sem afmarkast af Brekknaási, Selásbraut, Vindási og Þverási, ásamt fylgiskjölum. R20040089
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  50. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði og viljayfirlýsingu um samstarf og uppbyggingu lóðarinnar Stefnisvogur 1, lóð 1.6, í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum. R20040157
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  51. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Borgarráð samþykkir að leitað verði til reikningsskilaráðs varðandi notkun á IAS 40 staðla hjá Félagsbústöðum varðandi uppgjör félagsins, til að fá úr því skorið hvort Félagsbústöðum sé heimilt að nota þá reikningsskilastaðla. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20040235
    Frestað.

    Fylgigögn

  52. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Nú eru 24 fyrirspurnir frá mér sem bíða svars og sú elsta frá 10. janúar 2019. Kjörnum fulltrúum ber að sinna eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum. Þetta eru afleit vinnubrögð. Margra þessara fyrirspurna snúa að vafasamri stjórnsýslu hjá borginni. Hvers vegna er fyrirspurnum ekki svarað? Hvað er verið að fela? Óskað er eftir að ósvöruðum fyrirspurnum verði svarað tafarlaust. Hver vegna er ekki búið að svara framhaldsfyrirspurn minni um kæru vegna útboðs Reykjavíkurborgar á stýribúnaði umferðarljósa og framkvæmd ljósastýringar frá 1979. Í því máli hefur úrskurðarnefnd útboðsmála úrskurðað um sekt Reykjavíkurborgar og er útboðið í heild sinni í uppnámi, en fyrirspurnin hljóðar svo: 1. Óskað er eftir að borgarráð fái öll gögn sem Reykjavíkurborg hefur látið kærunefnd útboðsmála í té vegna kæru um stýribúnað umferðarljósa og skal ekkert undanskilið. 2. Er Reykjavíkurborg búin að svara kæru sem er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála um rammasamning um stýribúnað umferðarljósa? 3. Er það virkilega svo að sama fyrirtæki hafi verið í viðskiptum við Reykjavíkurborg á þessu tiltekna sviði allt frá árinu 1979 eins og fram kemur í fundargögnum innkauparáðs? 4. Hvaða fyrirtæki hafa þjónustað Reykjavíkurborg í ljósastýringum frá árinu 1979?5, Hvað hefur Reykjavík farið í mörg útboð á ljósastýringarbúnaði frá árinu 2000? R20040236

  53. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að Strætó bs. framlengi gildistíma allra strætókorta um sama tíma og fækkun varð á ferðum vegna COVID-19. COVID-19 er ekki farþegum Strætó að kenna né öðrum ef því er að skipta. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að Strætó bs. verði að koma á móts við farþega sína sem hafa ekki getað nýtt sér strætó ýmist vegna COVID-19 og eða vegna stopulla ferða. Því er það lagt til að framlengja gildistíma strætókorta sem nemur þeim tíma sem fækkun ferða nær yfir og einnig mætti skoða að lækka einstaklingsmiða um helming til að laða þá í strætó sem hentar að nota almenningssamgöngur endrum og sinnum. Strætó mun ekki þrífast ef enginn stígur inn í þá. Nú er lag að sýna jákvætt viðmót og gera allt til að bjóða fólk velkomið í vagnanna. R20040242

    Frestað.

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn um niðurstöður á rekstrarkostnaði nýrra metanvagna. Í fundargerð Strætó 22. mars kemur fram að á dagskrá var „metanmál“ undir önnur mál þar sem kynntar voru niðurstöður á rekstrarkostnaði nýrra metanvagna sem teknir voru í notkun hjá Strætó bs seint á árinu 2019. Flokkur fólksins vill gjarnan sjá þessar niðurstöður og túlkun stórnar Strætó bs. á þeim. R20010017

  55. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn um aðstoð Félagsbústaða við einstakling í vanda. Hvernig ætla Félagsbústaðir að styðja við og hjálpa einstaklingi sem er í t.d. þeim aðstæðum sem hér er lýst: (Tekið er fram að dæmið er tilbúið). Einstaklingurinn er öryrki og fær 250.000 krónur á mánuði fyrir skatta. Hann greiðir um 100 þúsund á mánuði í leigu hjá Félagsbústöðum. Hann er langveikur og hefur oft þurft að fara á bráðadeild. Hann hefur nokkrum sinnum þurft að greiða sjúkrabílaflutning fyrir sjálfan sig. Kostnaður við lyf er mikill. Andlega líður honum illa en hefur ekki ráð á áfallahjálp og sálfræðiaðstoð enda slík þjónusta ekki niðurgreidd. Hann hefur verið í einangrun vegna COVID smithættu sem kallað hefur á meiri þjónustu og frekari útgjöld. Nú hafa Félagsbústaðir ákveðið að fella ekki niður leigu í einn einstasta mánuð vegna COVID-19. Boðið er upp á greiðsludreifingu. Fyrir einstakling eins og þann sem hér er lýst dugar dreifing leigu skammt þar sem skuldir hafa nú safnast upp. Það mun koma að skuldadögum. R20040237

  56. Fram fer vinnudagur borgarráðs þar sem fram fara umræður um næstu aðgerðir Reykjavíkurborgar vegna COVID-19.

    Lóa Birna Birgisdóttir, Arna Schram, Ómar Einarsson, Regína Ásvaldsdóttir, Helgi Grímsson, Óskar J. Sandholt, Helga Björg Ragnarsdóttir og Svavar Jósefsson taka sæti á fundinum undir þessum lið í gegnum fjarfundabúnað. Jafnframt taka sæti borgarfulltrúarnir Pawel Bartoszek, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson, Sabine Leskopf og Skúli Helgason í gegnum fjarfundabúnað. R20030002

  57. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. apríl 2020:

    Í fyrstu aðgerðum Reykjavíkurborgar, vegna COVID-19 faraldursins, sem samþykktar voru í borgarráði 26. mars sl. er kveðið á um að unnar verði tillögur um aðgerðir og viðspyrnu í menningar- og listalífi. Því er lagt til að fyrstu aðgerðir í málaflokknum verði viðbragð við þessu og að settir verði auknir fjármunir í menningarpott borgarinnar vegna ársins 2020. Umsóknarfrestur verði í byrjun maí og stefnt að úthlutun í sama mánuði. Úthlutunarreglur verði einfaldar og veittir styrkir til verkefna sem örva sköpunargleði, listræn verkefni, samræður og menningarlegt framboð í borginni til lengri og skemmri tíma. Sjóðurinn verði ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum. Faghópi með fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands verði falið að meta umsóknir og gera tillögur til menningar-, íþrótta– og tómstundaráðs um úthlutun. Umsóknarferlið verði jafnframt einfaldað til muna frá því sem nú er og menningar- og ferðamálasviði falið að útfæra það. Lagt er til að borgarráð samþykki ofangreinda tillögu að auknum fjármunum í menningarpott borgarinnar vegna ársins 2020. Heildarkostnaður við tillöguna eru 30 m.kr. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2020 í samræmi við tillöguna til framlagningar í borgarráði.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20030002
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  58. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2020, um sumarstörf og markvissar vinnumarkaðsaðgerðir vegna COVID-19, ásamt fylgiskjölum. R20030002
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ánægjulegt er að sjá að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í séu að hjálpa mikið til hjá Reykjavíkurborg. Hægt er að bjóða fjölda ungmenna sumarstörf. Þær 547 milljónir sem ríkið mun leggja í sumarstörf hjá Reykjavíkurborg eru kærkomin viðbót við þá upphæð sem Reykjavíkurborg leggur sjálf til og því verður hægt að ráða mun fleiri í sumarstörf hjá borginni. Sjálfstæðismenn í borgarráði vonast til þess að ný störf verði auglýst sem fyrst og að ekki verði mikið atvinnuleysi á meðal reykvískra ungmenna sumarið 2020. Eins þá vonast Sjálfstæðismenn til þess að tekið verði vel í tillögu Sjálfstæðismanna um það að lengja starfstímabil vinnuskóla Reykjavíkur.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:15

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_3004.pdf