Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 16. apríl, var haldinn aukafundur borgarráðs nr. 5583. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason, Ólöf Magnúsdóttir og Sindri Freyr Ásgeirsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 2. apríl 2020. R20010004
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 2. apríl 2020. R20010005
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:
Flokki fólksins finnst sérkennilegt að umsagnarbeiðni mannréttindaskrifstofu til aðgengis- og samráðsnefndar um fyrirspurn Flokks fólksins hafi verið afturkölluð. Fyrirspurnin var um hvort borgin ætli ekki að virða ákvæði nýrra umferðarlaga um að P-merktir bílar megi aka og leggja í stæði á göngugötum. Afturköllunin er sögð vera vegna þess verkefnið snúi að verksviði umhverfis- og skipulagssviðs. Það liggur í augum uppi að stundum eiga mál heima á fleiri en einum stað í borgarkerfinu. Í þessu máli ætti mannréttindaráð og aðgengisnefndin að vinna saman. Sjái mannréttindaráð að annað ráð/svið fer mögulega á svig við mannréttindi í verkum sínum á ráðið að grípa inn í en ekki verða meðvirkt í mistökunum. Flokkur fólksins hefur áður orðið var við að mannréttindaráð losar sig við mál yfir til annars ráðs án þess að skoða hvort mögulegt brot á reglum eigi sér stað. Skemmst er að minnast máls Flokks fólksins um mögulegt jafnréttisbrot vegna fyrirkomulags búningsklefa í Sundhöllinni. Það er skylda mannréttindaráðs að vera vakin og sofin yfir að reglur um mannréttindi og jafnrétti kynjanna séu virtar. Að öðrum kosti er ráðið varla að sinna því hlutverki sem því er ætlað.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Umsagnarbeiðnin til aðgengis- og samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks var afturkölluð þar sem verkefnið snýr að verksviði umhverfis- og skipulagssviðs. Umsagnarbeiðni var því réttilega vísað þangað á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, sbr. 17. lið fundargerðar frá 13. febrúar 2020.Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 25. mars 2020. R20010016
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þegar lagt fram tillögu um að fundin verði framtíðarlausn fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotreyn á Álfsnesi í sátt við íbúa Kjalarness og Kollafjarðar. Sú tillaga var felld. Tekið er undir áhyggjur sem fram koma í bókun íbúaráðs Kjalarness um mikla mengun á þessu svæði bæði hvað varðar hljóðmengun og ekki síður þungmálmsmengun af blýi. Hér er lagt til að framlengja þessu leyfi í eitt ár og þess freistað að finna þessari íþróttagrein framtíðarsvæði. Því er fagnað og bundnar eru vonir við að þær viðræður/vinna skili ásættanlegri lausn fyrir íbúa, náttúru og þá sem íþróttina stunda. Það er óhjákvæmilegt annað en að æfingasvæðunum verði fundinn nýr staður þar sem sátt ríkir um þessa starfsemi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:
Stækkun Hlemmtorgs og nýtt umferðarskipulag hefur verið auglýst. Talsvert hefur verið um athugasemdir bæði frá íbúum og hagsmunaaðilum. Meðal þeirra sem hafa gert athugasemdir er lögreglan. Athugasemdir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er á þá leið að deiliskipulagstillagan skapi vandkvæði fyrir þjónustu lögreglunnar og neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Aðkoma að stöðinni sé verulega torvelduð og mikil slysahætta geti skapast því að sérrein fyrir hjólandi á að liggja næst útaksturhliði lögreglustöðvarinnar. Flokkur fólksins hefur ekki getað séð að þær lausnir sem skipulagsyfirvöld bjóða í þessu efni dugi til en reyna á að rýma sjónása til og frá porthliðinu með flutningi þess sem og að koma fyrir blikkljósum sem virkja á við neyðarútköll. Flokkur fólksins vill að viðbrögð lögreglu við þessum lausnartillögum skipulagsyfirvalda liggi fyrir með formlegum hætti áður en lengra er haldið.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 1. apríl 2020. R20010009
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar:
Meirihlutinn vísar frá tillögu en samþykkir hana samt. Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð fyrir barn, en á sama tíma taka ákvörðun að gera einmitt það sem lagt er til í tillögunni eru undarleg vinnubrögð. 1. október 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að frístundakortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang og að þar með verði afnumið skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð í tengslum við barn. Tillögunni var vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og þaðan til velferðarráðs þar sem henni var vísað frá á fundi 1. apríl. Á þeim fundi voru breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð á dagskrá þar sem samþykkt var nákvæmlega það sem Flokkur fólksins leggur til í tillögu sinni, þ.e. að fella burt í 16. gr A. og B. ákvæði um að skilyrði fyrir aðstoð sé að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti. Tvískinningurinn er algjör, að vísa frá tillögu sem samþykkt er að nota engu að síður. Þegar færi gefst á samstöðu, eðlilegri og faglegri meðferð, taka pólitískir fimleikar sviðið yfir. Er tilgangurinn að ala á sundrungu?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki er þörf á að taka fyrir tillögur um það sem þegar hefur verið lagt til og margrætt. Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð hafa ekki verið samþykktar en hafa verið í vinnslu mánuðum saman og hefur marg oft komið fram að í þeirri vinnu væri meðal annars verið að skoða hvernig styðja megi betur við börn sem búa við fátækt og þ.m.t samspil við frístundakortið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er óskiljanlegt af hverju velferðarráð leggur þunga sinn í að sjá til þess að minnihlutafulltrúi fái að njóta sín eða geta mögulega sagt að hann hafi náð nokkuð af sínum málum í gegn. Hér var beinlínis rangt að vísa þessari tillögu frá sem er síðan samþykkt engu að síður að taka inn í reglur um fjárhagsaðstoð. Allt gerist þetta á sama fundi. Af tugum tillagna Flokks fólksins, má virkilega segja að þessi hafi verið samþykkt en samt er henni vísað frá. Hvernig á að skilja þetta? Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn 2019 og hefur reynt að halda henni á lofti æ síðan sem og fleirum sem varða frístundakortið. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði og spotti þegar tillaga var flutt í borgarstjórn, spurt var af meirihlutanum „hvað borgarfulltrúi ætti við með henni, og þarna væri nú einhver misskilningur“ og eins kom athugasemd um að tillaga væri óljós. Flokki fólksins finnst það beinlínis sársaukafullt að horfa upp á varnir velferðarráðsfulltrúa meirihlutans að geta virkilega ekki samþykkt tillöguna og þakkað fyrir hana, enda er hún komin inn í drög af reglum um fjárhagsaðstoð. Þetta er góð tillaga og tímabært að byrja á því að laga afbökun sem orðið hefur á frístundakortinu í gegnum árin.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R20030261
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið yfirlitsins:
Ákvörðun þess efnis að fjölga ekki reykvískum nemendum í Arnarskóla getur orðið íþyngjandi fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem skólinn veitir sérhæfða þjónustu. Það er mikilvægt að hefta ekki aðgengi reykvískra barna með sérþarfir að þeim góðu úrræðum sem standa þeim til boða, þó svo þessi úrræði séu í öðru sveitarfélagi. Faglegt eftirlit með Arnarskóla er það sama og með öðrum grunnskólum og því væri sómi af því að leyfa fleiri reykvískum börnum að fá að sækja um nám í Arnarskóla. Sjálfstæðismenn í borgarráði vonast til þess að ákvörðun um það að leyfa ekki fleiri reykvískum börnum að sækja um skólavist í Arnarskóla verði endurskoðuð.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki hefur verið framkvæmt ytra mat á starfsemi Arnarskóla og faglegar forsendur til fjölgunar reykvískra nemenda liggja ekki fyrir fyrr en það hefur verið gert. Skóla- og frístundaráð hvetur til þess að Menntamálastofnun vinni þetta mat á starfi Arnarskóla hið fyrsta, með þarfir reykvískra nemenda í huga.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ályktun Landssamband eldri borgara, LEB. Það er áberandi hvað eldri borgarar hafa orðið út undan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Hvar eru aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins? Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættri þjónustu við eldri borgara bæði á Alþingi og í Reykjavík en ekki haft árangur sem erfiði. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek og í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað. Flokkur fólksins tekur undir áskorun stjórnar Landsambands eldri borgara að sveitarfélögin taki upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín og lækki fasteignagjöld. Það er margt fleira sem velferðaryfirvöld borgarinnar geta gert til að létta undir með þessum hópi. Margir eldri borgarar hafa þurft að loka sig af og þar með einangra sig vegna hættu á smiti. Fjárhagsáhyggjum er ekki á slíkt bætandi.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20030262
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036
Öllum styrkumsóknum er hafnað.Fylgigögn
-
Lagður fram trúnaðarmerktur ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2019. Einnig er lögð fram umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 14. apríl 2020, um ársreikninginn, skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Gögn undir þessum lið eru trúnaðarmerkt fram að framlagningu ársreikningsins á fundi borgarráðs 30. apríl nk. R19120193
Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 hefur verið undirbúinn af fjármálaskrifstofu í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ársreikningur Reykjavíkurborgar telst fullgerður og tilbúinn til endurskoðunar.
Vísað til ytri endurskoðunar.Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók fram að endanlegri afgreiðslu.
Halldóra Káradóttir og Gísli H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
-
Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, ódags., um verkstöðu nýframkvæmda 2019. R20040058
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
-
Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. apríl 2020, um grænt bókhald Reykjavíkurborgar. R20040052
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Grænt bókhald Reykjavíkur hefur verið lagt fram frá árinu 2015. Upplýsingar úr bókhaldinu fylgja alþjóðlegum stöðlum, en útblástur hefur dregist saman milli 2015 og 2019 um 577 tonn. Jákvæð teikn eru á lofti varðandi úrgangsmálin með gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Þá sýnir ferðavenjukönnun minnkandi notkun bíla og aukna notkun svokallaðra virkra ferðamáta. Reykjavíkurborg ætlar sér að verða kolefnishlutlaus árið 2040.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sjá má í græna bókhaldi Reykjavíkur að notkun metans fer, ef eitthvað er, minnkandi, en framleiðsla mun stóraukast með nýju gas- og jarðgerðarstöðinni. Enn og aftur vekur það furðu að metan sé ekki nýtt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtæki borgarinnar, SORPA bs. og Strætó bs., virðast ekki ráða við að nýta það metan sem er safnað á urðunarstöð í Álfsnesi og seinna í komandi gas- og jarðgerðarstöð. Ef það metan yrði t.d. notað til að knýja strætisvagna minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er metaninu brennt á báli og á sama tíma keypt jarðefnaeldsneyti frá útlöndum. Hvað þetta atriði varðar er því voða lítið „grænt“.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, ódags., um samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2019. R19010200
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2020, þar sem erindisbréf matsnefndar vegna veitingu stofnframlaga er lagt fram til kynningar. R20040073
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2020, þar sem samningur félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurbogar varðandandi tímabundinn stuðning ráðuneytisins við neyðarhúsnæði og þjónustuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir tiltekna hópa vegna COVID-19 er lagður fram til kynningar. R20040072
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að félagsmálaráðuneytið mun fjármagna tímabundnar lausnir fyrir þá sem ekki hafa í nein hús að venda vegna COVID-19 faraldursins. Reykjavíkurborg mun sjá um framkvæmd verkefnisins en áætlaður heildarkostnaður þess nemur um 85 milljónum króna. Heimilislausir og jaðarsettir einstaklingar verða oft útundan á tímum sem þessum og því er samstarf ráðuneytisins og borgarinnar í þessum málaflokki afar mikilvægt. Það er skylda okkar sem samfélag að mæta þessum viðkvæmu hópum, sérstaklega á tímum þessa skæða heimsfaraldurs.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Umræddur samningur félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar varðar tímabundinn stuðning félagsmálaráðuneytisins við neyðarhúsnæði og þjónustuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir tiltekna hópa vegna COVID-19. Samkvæmt samningnum mun félagsmálaráðuneytið fjármagna tímabundnar lausnir fyrir þá sem ekki hafa í nein hús að venda vegna COVID-19 faraldursins í samstarfi við Reykjavíkurborg. Áætlaður heildarkostnaður vegna verkefnisins, sem er til fjögurra mánaða, er um 85 milljónir króna. Reykjavíkurborg mun með fjármögnun frá félagsmálaráðuneytinu koma á fót sérstakri móttöku sem er opin allan sólarhringinn og bjóða upp á skammtímahúsnæði fyrir þá sem eru í húsnæðisvanda vegna COVID-19. Það er gott að hér sé verið að bregðast við stöðunni en það er mikilvægt að tryggja þeim sem eru í húsnæðisvanda fasta búsetu á erfiðum tímum. Í samningnum stendur að „Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti dvalið helgar og helgidaga og allt að fjóra virka daga í úrræðinu“. Hér er mikilvægt að tryggja að úrræðið sé opið einstaklingum alla virka daga og helgar og helgidaga, því ef maður er í húsnæðisvanda, þá á slíkt við alla daga vikunnar og mikilvægt að tryggja að ekkert rof verði á þjónustunni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur undir þessum lið að hópur fólks hefur skyndilega þurft á húsnæði að halda. Eins og ekkert sé hefur borgin getað útvegað fólki þak yfir höfuðið. Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni. Ekki hefur verið hægt að leysa húsnæðismálin fyrir fjöldann allan af fólki í mörg ár eins og biðlistatölur hafa sýnt. Nú hefur Reykjavíkurborg tekið að sér það hlutverk að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Flokkur fólksins fagnar mjög þessu samstarfi við ríkið sem er því miður aðeins tímabundið og aðeins fyrir þröngt skilgreindan hóp. Flokki fólksins finnst hins vegar vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn næði saman við félagsmálaráðherra um að koma fólki sem þess þurfa undir þak. Á öllum tímum hefði þessi og síðasti meirihluti getað haft frumkvæði að því að gera sambærilegt samkomulag við ríkið um lausn eins og þessa fyrir þá sem þurfa.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. apríl 2020, þar sem húsaleigusamningur vegna Einholts 2 er lagður fram til kynningar. R20040067
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu vegna fyrstu aðgerða Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna COVID-19. R20030002
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram nokkrar viðspyrnutillögur og ekki er alveg ljóst hvernig afgreiðslu sumar þeirra muni fá. Ein af þessum tillögum var að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar hafa starfað sem framlínustarfsfólk og hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kæmi mögulega smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Fram kemur að ákveðin vinna sé í gang hvað varðar dagforeldra og muni sveitarfélög verða samferða í þessum aðgerðum. Ekki er vitað meira um hvað verður um málefni dagforeldra. Dagforeldrar geta ekki beðið mikið lengur eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið. Aðrar áhyggjur Flokks fólksins eru hversu út undan leigjendur hjá Félagsbústöðum hafa orðið í öllu þessu ástandi. Ekki hafa borist svör við tillögu Flokks fólksins um niðurfellingu leigu í 2-3 mánuði eins og Flokkur fólksins lagði til strax í upphafi COVID-faraldursins. Boð Félagsbústaða um greiðsludreifingu nær allt of skammt. Ganga þarf lengra og fyrir því er nú þegar fordæmi hjá öðru leigufélagi.
Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Arna Schram og Gíslína Petra Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Helga Björg Ragnarsdóttir, Svavar Jósefsson, Óli Páll Geirsson og Unnur Margrét Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2020, þar sem minnisblað um drög að fyrirkomulagi borgarvaktar í velferðar- og atvinnumálum og hugmyndir að bráða- og borgarvísum er lagt fram til kynningar. R20030002
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér eru lagðar fram áætlanir vegna aðgerða 3 og 4 b. Um er að ræða svokallaða borgarvakt þar sem skilgreindir eru þeir nauðsynlegu vísar sem borgin þarf að fylgjast með til að mæla þróun aðstæðna á heimilum, hjá einstaklingum og atvinnulífi. Sem dæmi um þá tölfræði sem fylgst verður með er atvinnuleysi, tilkynningar til barnaverndar, fjölgun eða fækkun í leikskólum, líðan barna, fjölda útkalla lögreglu, fjölda ferðamanna, umsókna um rekstrarleyfi, útgefin byggingarleyfi og annað slíkt. Þá er viðspyrnuáætlun um fjölgun innlendra og erlendra ferðamanna lögð fram sem felur í sér skammtímaáætlun og langtímaplan, allt með tilliti til innri og ytri aðstæðna vegna COVID-19 faraldursins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er óskiljanlegt að formaður borgarráðs skuli hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara inn á fund borgarráðs. Formaður borgarráðs bregst algjörlega stjórnunarskyldu sinni. Forherðingin er algjör hjá meirihlutanum. Þetta er ögrun í minn garð. Það er farið að bera í bakkafullan lækinn hvernig kjörnir fulltrúar meirihlutans nýta sér embættismenn í pólitískum tilgangi til að koma höggi á kjörna fulltrúa í minnihlutanum.
Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Arna Schram og Gíslína Petra Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Helga Björg Ragnarsdóttir, Svavar Jósefsson, Óli Páll Geirsson og Unnur Margrét Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2020, þar sem minnisblað um fyrstu markaðsaðgerðir Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna COVID-19 er lagt fram til kynningar. R20030002
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér eru lagðar fram áætlanir vegna aðgerða 3 og 4. b. Um er að ræða svokallaða borgarvakt þar sem skilgreindir eru þeir nauðsynlegu vísar sem borgin þarf að fylgjast með til að mæla þróun aðstæðna á heimilum, hjá einstaklingum og atvinnulífi. Sem dæmi um þá tölfræði sem fylgst verður með er atvinnuleysi, tilkynningar til barnaverndar, fjölgun eða fækkun í leikskólum, líðan barna, fjölda útkalla lögreglu, fjölda ferðamanna, umsókna um rekstrarleyfi, útgefin byggingarleyfi og annað slíkt. Þá er viðspyrnuáætlun um fjölgun innlendra og erlendra ferðamanna lögð fram sem felur í sér skammtímaáætlun og langtímaplan, allt með tilliti til innri og ytri aðstæðna vegna COVID-19 faraldursins.
Arna Schram og Gíslína Petra Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Helga Björg Ragnarsdóttir, Svavar Jósefsson, Óli Páll Geirsson og Unnur Margrét Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 16. apríl 2020, með tillögu hæfnisnefndar að næstu skrefum í ráðningu borgarritara. R20020016
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók fram að endanlegri afgreiðslu málsins.
Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. apríl 2020, vegna forsetakosninga sem fram fara 27. júní nk. með tillögu að kjörstöðum í Reykjavíkurkjördæmum, þóknunum til kjörstjórna, umboð til borgarráð og fleira. R20040070
Vísað til borgarstjórnar.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. apríl 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Tryggvagötu, ásamt fylgiskjölum. R20040076
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn á ný er ráðist að fjölskyldubílnum með því að fækka bílastæðum í miðbæ Reykjavíkur. Afleggja á í þessu verkefni um 50 bílastæði. Verið er að breyta Tryggvagötu frá Lækjargötu að Gróf í einstefnugötu. Tollstjóraembættið var sameinað ríkisskattstjóra fyrir skömmu og meirihlutanum er bent á að stofnunin er ríkisstofnun sem allir landsmenn verða að hafa greiðan aðgang að. Miðbær Reykjavíkur er ekki einkaeign borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík. Með þessum tillögum er verið að beina umferð enn frekar inn á þrönga Geirsgötu sem er tifandi tímasprengja vegna olíuflutninga um götuna. Samkvæmt kostnaðaráætlun 1 er áætlaður kostnaður við breytingarnar 400 milljónir og er sú upphæð komin inn í fjárfestingaáætlun 2020. Þrengingarstefna meirihlutans í miðbænum/gæluverkefni og breytingar sem af henni hlýst er farin að kosta útsvarsgreiðendur milljarða á meðan grunnstoðir svelta og eru að blæða út.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sú endurgerð sem hér um ræðir mun þýða það að út þurrkast fjölda bílastæða. Tryggvagata verður einstefna til vestur og engin almenn bílastæði verða eftir framkvæmdirnar en stæði. Með því að fjarlægja öll bílastæði er aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum við götuna, þá sérstaklega eldri borgara skert. Aðeins er gert ráð fyrir örfáum bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er talað um að bílastæðakjallarar leysi öll bílastæðamál. Bílastæðakjallarar eru vissulega nauðsynlegir en staðreyndin er sú að ekki allir vilja fara með bíl sinn í bílastæðakjallara. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur sem lúta að því að hvetja fólk til að nota bílastæðahús t.d. með því að hafa frítt í þau um helgar og jafnvel að nóttu enda er nýting þeirra slæm. Þeim tillögum hefur öllum verið vísað frá eða felldar. Flokki fólksins finnst að oft gleymist þegar kemur að skipulagsmálum í Reykjavík að hafa samráð við borgarbúa og gæta að því að aðgengi á svæðið sem um ræðir sé auðvelt öllum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela fjármála- og áhættustýringarsviði að stilla upp ársreikningi samstæðu Reykjavíkurborgar þannig að Félagsbústaðir hf. séu á kostnaðargrunni í samstæðureikning borgarinnar. Þetta verði gert til að sjá samanburð á reikningnum eftir hefðbundnum reikningsskilaaðferðum. R19120193
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarráð skoði starfstímabil Vinnuskóla Reykjavíkur með það í huga að lengja það tímabil sem umsækjendur geta unnið. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að kostnaðarmeta að lengja tímabilin í t.d. fjögur. Eins verði það kostnaðarmetið að umsækjendur fái úthlutað vinnu á tveimur tímabilum í stað eins sé eftir því óskað. Hvert tímabil er 15 dagar og nemendur úr 8. bekk munu vinna í 3,5 tíma á dag en nemendur úr 9. og 10. bekk í 7 tíma. Skráningartími getur haft áhrif á niðurröðun á starfstímabil þannig að þeir sem eru fyrr skráðir verða í forgangi um val á tímabilum. R20040103
Frestað.
- Kl. 14.20 víkja borgarstjóri og Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.
- Kl. 14.24 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er upplýsinga um hvenær vænta megi svars við neðangreindri fyrirspurn sem lögð var fram í borgarráði 27. febrúar síðastliðinn; Óskað er upplýsinga um hvort þeir lögaðilar sem hafa fengið lóðarvilyrði við Stekkjarbakka Þ73, Spor í sandinn, hafi skilað inn gögnum og uppfyllt þau skilyrði sem fram koma á vef Reykjavíkurborgar vegna lóðaúthlutunar. Nú þegar hefur borgin borið margvíslegan kostnað vegna skipulags við Stekkjarbakka. Þá er rétt að benda á að vilyrði fyrir lóð var veitt án auglýsingar eða útboðs. Þegar lögaðilar fá úthlutaðri lóð þurfa þeir að leggja fram ítarleg gögn. Yfirlýsingu frá banka eð annarri fjármálastofnun sem til að sýna fram á að tilboðsgjafi geti staðið undir kostnaði við áætlaðan byggingarkostnað, gatnagerðargjaldi og kaup á byggingarrétti. Þá skulu lögaðilar leggja fram ársreikning vegna síðasta árs og skila inn lánsloforði eða yfirlýsingu banka um fjármögnun. R19010136
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að grunnlaun borgarfulltrúa og 1. varaborgarfulltrúa taki ekki hækkunum í takt við þróun launavísitölu líkt og þau hafa gert. Grunnlaunin miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Á meðan að COVID-19 faraldurinn gengur yfir og samfélagið tekst á við efnahagslegar afleiðingar þess er mikilvægt að hinir betur launuðu í ráðandi stéttum sýni ábyrgð í verki. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja að laun borgarfulltrúa taki ekki hækkunum á komandi mánuðum. Þá er mikilvægt að ef þessi ákvörðunin verði endurskoðuð síðar, að hún leiði ekki til afturvirkra launahækkana. R20040104
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í ljósi þess að Strætó bs. hefur skert þjónustu sína vegna afleiðinga COVID-19 er lagt til að tímabilskort sem íbúar hafa keypt verði lengd um þann tíma sem skerðingin á þjónustu tekur til. Strætó bs. hefur tilkynnt að strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins muni nú aka samkvæmt laugardagsáætlun, með nokkrum undantekningum. Aukaferðum hefur verið bætt við á morgnana til að akstur hefjist á svipuðum tíma og á venjulegum virkum degi. Þetta felur í sér skerta þjónustu þar sem laugardagsáætlun byggir á tímaáætlun vagna sem fara á hálftíma fresti miðað við tíðari ferðir á virkum dögum. Slíkt hefur í för með sér að tíðni ferðanna á virkum dögum er minnkuð sem gerir notendum strætó erfiðara fyrir að virða fjarlægðartakmarkanir. Strætó hefur bætt við aukavögnum þar sem álagið er mikið en í ljósi þessara aðstæðna sem nú er uppi er rétt að bregðast við og bæta strætónotendum upp fyrir þann tíma þar sem óþægindi og skert þjónusta hafa átt sér stað. Þetta er leið til að koma til móts við þau sem hafa lagt út fyrir kortum en hafa ekki geta nýtt þau eins og þau gerðu ráð fyrir. R20040105
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins spyr hvað hyggst borgarmeirihlutinn gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið. Hvað af þeim aðgerðum sem borgin hyggst grípa til snerta hagsmuni eldri borgara Reykjavíkur nákvæmlega? Mun borgin koma á móts við eldri borgara er varðar þjónustu vegna mötuneyta, verslana, apóteka og leigubíla? Mun borgin taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín? Hvað annað ætlar borgin að gera til að hjálpa eldri borgurum í þessum aðstæðum. Miklar áhyggjur eru af mörgum eldri borgurum núna. Sumir hafa einangrast. Hafa skal í huga að 10 þúsund eldri borgarar búa einir. R20040100
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að oddvitar flokkanna og formenn fagráða ræði formlega saman um með hvaða hætti meiri- og minnihluti geti lagt drög að breyttu vinnulagi til að stuðla að samvinnu frekar en sundrung. Þessi tillaga er lögð fram í kjölfar reynslu borgarfulltrúa Flokks fólksins í velferðarráði, að hafa lagt fram tillögu sem ákveðið er að framfylgja á sama fundi og tillögunni sjálfri er vísað frá. Borgarfulltrúi kom í borgarstjórn til að láta gott af sér leiða og finna leiðir og lausnir til að bæta þjónustu við borgarbúa. Það eru því vonbrigði að horfa á fjölda mála, hugmynda í formi tillagna ýmist vísað frá eða felld án þess að fá nokkra skoðun. Steininn tók úr þegar tillaga Flokks fólksins um að „afnema skilyrðið að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð“ var vísað frá en á sama fundi ákvað meirihlutinn að gera breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð í samræmi við tillöguna. Hér hefði farið vel á því að samþykkja tillögu Flokks fólksins enda varð ákveðið að framfylgja henni. Að horfa á vinnubrögð sem þessi vekur upp spurningu um hvað liggi að baki, hvort hér sé verið að leika leiki eða skjóta pólitískar keilur. eða hvort það sé meginmarkmið þessa meirihluta að gæta þess umfram allt að enginn minnihlutafulltrúi fái nokkurn tímann að njóta sín í borgarstjórn eða geta sagt að hann hafi náð nokkur í gegn? R20040106
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Haft er eftir Einari S. Hálfdánarsyni í Fréttablaðinu 14. apríl að braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að „það sé ekki nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“ (haft eftir Einari í Fréttablaðinu). Flokkur fólksins óskar eftir að fá viðbrögð hinna tveggja nefndarmannanna við orðum Einars. Flokkur fólksins óskar jafnframt eftir að fá upplýsingar um hvað hefur verið rætt um í nefndinni er varðar braggaskýrsluna og að sum brotin sem þar er lýst hafi mögulega varðað við ákvæði hegningarlaga um umboðssvik. Hér er kallað eftir gegnsæi og hreinskilni og að allt sem endurskoðunarnefndin hefur rætt um í þessu sambandi komi fram í dagsljósið. Endurskoðendur bera mikla ábyrgð og á þá er treyst. Það má lesa úr orðum Einars að nefndin var ekki sammála um hvort rannsaka ætti braggamálið af þar til bærum yfirvöldum. Nefndin kom fyrir borgarráð þegar braggamálið var í algleymingi. Nefndin var spurð um þetta atriði ítrekað m.a. af fulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins og var svarið ávallt það sama að ekki væri talið að misferli ætti sér stað og þar að leiðandi ekki þörf á frekari rannsókn. R17080091
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Einar S. Hálfdánarson endurskoðandi hefur sagt sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar m.a. vegna þeirrar reikningsskilaaðferða sem notaðar er hjá Félagsbústöðum. Félagsbústaðir eru gerðir upp samkvæmt IFRS-staðli. En þar sem félagið er óhagnaðardrifið ætti ekki að nota þennan staðal samkvæmt Einari og vísar hann í minnisblað KPMG frá árinu 2012 þar sem hann segist efast um að fyrirkomulagið standist íslensk lög. Félagið á nú tæpar 2000 íbúðir. Þær eru gerðar upp á gangverði en ekki afskrifuðu kostnaðarverði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort endurskoðunarnefndin, það sem eftir er af henni, hyggist leggja til breytingar á reikningsskilaaferðum sem notaðar eru þannig að íbúðirnar verði afskrifaðar á kostnaðarverði en ekki gerðar upp á gangvirði? Borgarfulltrúi Flokks fólksins kom inn á þetta í tillögu sinni um að gerð yrði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum í borgarstjórn árið 2018 m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Í greinargerð með tillögunni var óskað eftir svörum um hvernig hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi félagsins. R20040101
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera aðra tilraun að leggja fram tillögu um að velferðaryfirvöld stofni stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista í svipaðri mynd og rekin hefur verið á vegum SÁÁ. Tillagan er lögð fram aftur vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ sem m.a. sinntu þjónustu við börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Tillagan var áður lögð fram 16. nóvember en vísað frá. Börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda hefur aðallega verið sinnt af sálfræðingum SÁÁ og hefur ávallt verið langur biðlisti eftir þjónustunni. Nú er engin sértæk þjónusta lengur í boði fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ. Úrræði af þessu tagi þarf að vera til og standa öllum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það, einnig án tillits til þess hvort þau eru sjálf metin í áhættuhópi eða ekki. Ekki ætti að vera þörf á tilvísun í úrræðið. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum. R19110180
Greinargerð fylgir tillögunni. Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni, gistandi hér og þar og fengið að halla höfði hjá vinum og ættingjum nótt og nótt. Af hverju hefur þessu fólki ekki verið útvegað þak yfir höfuðið í öll þessi ár? Nú ætlar Reykjavíkurborg að taka það hlutverk að sér að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að allir þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn ætti samtal við félagsmálaráðherra um að koma öllum undir þak. Á öllum tímum hefði borgarstjóri getað haft frumkvæði að því að gera samkomulag við ríkið um lausn sem þessa en gerði ekki. Flokkur fólksins óskar svars við spurningunni, af hverju var ekki gripið til þessa ráðs fyrir löngu á sama tíma og andvara- og sinnuleysi borgaryfirvalda gagnvart heimilislausum og fátæku fólki er gagnrýnt þegar kemur að húsnæðismálum. Ljóst er að vel hefði verið hægt að hjálpa öllum heimilislausum á landsvísu óháð lögheimili hefði áhugi verið fyrir hendi. R20040072
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga um þeir umsækjendur sem koma til greina í starf borgarritara komi inn á fund borgarráðs. Flokkur fólksins ítrekar beiðni um samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritari. Lagt er til að þeir sem komi til greina komi á fund borgarráðs og gefi fulltrúum tækifæri til að eiga samtal og spyrja umsækjendur spurningar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka einhvern þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri með beinum hætti til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. Athuga skal að borgarfulltrúar minnihlutans höfðu enga aðkomu að gerð reglna um ráðningarferil sem fylgt er í þessu sambandi. Þær reglur voru samdar og ákveðnar einhliða í það minnsta án aðkomu minnihlutafulltrúa. R20030119
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við byrjun árs 2019 voru nýjar reglur staðfestar um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði eru höfð að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum. Reglurnar gera ráð fyrir formlegu ráðningaferli sem skal samþykkt af borgarráði við upphaf þess, sem hér er verið að gera. Hæfnisnefnd skal halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Í tillögu áheyrnarfulltrúans er gert ráð fyrir því að borgarráð stígi inn í þetta nýsamþykkta ferli og taki umsækjendur í viðtal sem væri á skjön við áður nefndar reglur. Reglurnar tryggja að gagnsæi og jafnræði ríki um ráðningar æðstu stjórnenda borgarinnar enda gríðarmikilvægt mál að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð.
Fundi slitið klukkan 14:45
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1604.pdf