Borgarráð - Fundur nr. 5581

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 26. mars, var haldinn 5581. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason og Sindri Freyr Ásgeirsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. mars 2020, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 23. mars 2020 á tillögu um nýtingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, ásamt fylgiskjölum. R18060129

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi sósíalista fagnar því að hægt sé að nota tæknina til að tryggja að fundir borgarinnar geti farið fram í gegnum fjarfundarbúnað. Á tímum sem þessum telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að borgarstjórn komi saman til funda um þau mikilvægu mál sem kunna að koma upp vegna kórónaveirunnar og afleiðinga hennar. Miðað við núverandi fundadagatal er næsti reglulegi fundur borgarstjórnar ekki á dagskrá fyrr enn 21. apríl 2020 og í ljósi aðstæðna lagði borgarfulltrúi sósíalista fram tillögu um að fjölga fjarfundum borgarstjórna á þeim tíma í stað þess að fela borgarráði sömu heimildir og borgarstjórn hefur. Í borgarráði situr einungis hluti borgarfulltrúa og ekki allir þar hafa atkvæðarétt, óháð borgarstjórn. Á tímum sem þessum er mikilvægt að tryggja að borgarstjórn komi öll saman og að hún geti öll tekið þátt í þeirri stefnumótandi ákvarðanatöku sem er framundan.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ef talin er ástæða til að halda aukafund borgarstjórnar áður en kemur að næsta reglulega fundi er full heimild til þess að fara fram á það. Borgarráðsfundi sitja fulltrúar allra flokka, svo þar er tryggt að allir flokkar geti komið að umræðu um mál svo allar raddir heyrist.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig í ræðu og riti um óskir þess að borgarstjórn, meiri- og minnihluti, vinni saman að tillögum, aðgerðarplani og ákvörðunum í þessum aðstæðum enda sterkari saman en sundruð. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að oddvitar flokkanna hittist á fjarfundum reglulega samhliða öðrum fundum sem haldnir eru til að ræða um tillögur, aðgerðir og framvindu aðstæðna. Hvað varðar borgarstjórn Reykjavíkur, nefndir og ráð telur borgarfulltrúi Flokks fólksins hins vegar að nú þegar sá möguleiki hefur skapast að geta haldið fjarfundi þá sé ekkert að vanbúnað að boða til aukafunda oftar en sjaldnar og skapist eitthvað vafamál um hvort rétt eða nauðsynlegt sé að kalla saman fund þá skuli það hiklaust gert bæði þann mánuð sem heimildin nær til og í framtíðinni.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundarferð innkauparáðs frá 19. mars 2020. R20010004

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R20030020

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið yfirlitsins:

    Ársreikningar Félagsbústaða eru samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Þær skoðanir sem fram koma í erindinu hafa verið til umfjöllunar í endurskoðunarnefnd borgarinnar og hefur fjármálasvið leitað álits óháðs aðila sem staðfest hefur framkvæmd borgarinnar. Sjálfsagt er að borgarráð fái yfirferð yfir gögn málsins en eðlilegt er að beina fyrrnefndu erindi til endurskoðunarnefndar til meðferðar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Já einmitt, ársreikningar Félagsbústaða eru samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem er ólöglegt samkvæmt minnisblaðinu sem fyrir fundinum liggur. Þessum ágreiningi verður að koma út úr ráðhúsinu. Ekki verður lengur hjá því komist að fá úrskurð reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga og Ríkisendurskoðunar á þessum uppgjörskúnstum, sem skipta svo miklu máli í rekstri borgarinnar á þann hátt að ef verði þeim breytt þá er borgin komin í veruleg vandræði fjárhagslega séð. Borgarfulltrúi Miðflokksins mun senda erindi þessa efnis til þessara aðila. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Vísað er til framlagðs minnisblaðs frá KPMG og úrskurðar ráðuneytis undir 22. lið fundargerðarinnar varðandi málið. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið yfirlitsins: 

    Óskað er eftir að fá kynningu á erindi Einars Hálfdánarsonar, fulltrúa í endurskoðendanefnd í tengslum við reikningsskil Félagsbústaða og samstæðu Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið yfirlitsins: 

    Enn á ný er tekið undir athugasemdir mínar við reikningsskilareglur Félagsbústaða og nú sér hæstaréttarlögmaður- og löggiltur endurskoðandi og nefndarmaður í endurskoðunarnefnd Reykjavíkur sig knúinn að senda erindi á borgarráð í varnaðarskyni. Áður hafði endurskoðunarnefndin tekið málið upp og falið formanni nefndarinnar að taka málið upp við sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur margoft bent á óeðlilegt misgengi sé á uppgjörsreglum Reykjavíkurborgar í A-hlutanum og Félagsbústaða. Á meðan A-hlutinn er gerður upp samkvæmt kostnaðarverðsreglu og í samræmi við sveitarstjórnarlög og lög um ársreikninga eru reikningsskil Félagsbústaða gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Framsetning Félagsbústaða í samstæðuuppgjöri borgarinnar fegrar því stöðuna. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur. Telur lögmaðurinn að langlíklegast sé að reikningsskil Félagsbústaða myndu ekki standast skoðun óháðs aðila ef til þess kæmi að á þau reyndi. Þarna á hann við að ef kröfuhafar létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Bendir hann jafnframt á að ólögmæt fyrirmæli undanskilji stjórnendur ekki neinni ábyrgð sé litið til dómafordæma. Hana bera þeir sjálfir lögum samkvæmt. Ekki verður lengur hjá því komist að fá úrskurð reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga og/eða Ríkisendurskoðunar á þessum uppgjörskúnstum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20030005

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 11. mars 2020, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. febrúar 2020, á tillögu um lýðræðisgáttir Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19010390
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Talsverð vinna hefur átt sér stað undanfarin ár við að kortleggja stöðu lýðræðisverkefna Reykjavíkurborgar til þess að samræma, einfalda og skýra viðmót íbúa á þeirra forsendum. Mikil reynsla hefur skapast við framkvæmd lýðræðisverkefnanna frá því að áhersla á þátttöku íbúa fór að aukast og Hverfið mitt fór af stað. Tillagan byggir á þessari vinnu, skýrslu starfshóps um endurskipulagningu lýðræðisverkefna Reykjavíkurborgar frá 2019 og skýrslu Kolibri um lýðræðisverkefni Reykjavíkurborgar frá 2018. Með tillögunni er verið að stíga markviss skref til þess að vinna að því að auka enn frekar aðgengi íbúa að lýðræðislegri þátttöku, einfalda þátttökuviðmótið og bæta gæði ferlanna. Með þessu er meðal annars verið að ákveða að búa til samræmt og aðgengilegt viðmót fyrir lýðræðisgáttir Reykjavíkurborgar. Þar að auki er verið að breyta Hverfinu mínu til þess að gera enn betur það sem vel er gert en koma að sama skapi til móts við gagnrýnisraddir. Undanfarin ár hefur samráð við hugmyndahöfunda aukist mikið en með því að breyta tímalínu verkefnisins verður hægt að eiga enn meira og betra samráð við hugmyndahöfunda og íbúa í hverfunum til þess að tryggja góða framkvæmd verkefnanna. Þar að auki verður auðveldara að huga enn betur að þeim hópum sem taka hlutfallslega minni þátt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins er sammála þeim tillögum sem lagðar voru fram á fundi mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs þann 27. febrúar sl. sem snúa að auknu lýðræði til borgaranna m.a. hvað varðar vægi hverfaráða. Tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þær tillögur hvað varðar breytingar á fyrirkomulagi verkefnisins Hverfið mitt. Það eru breytingar til batnaðar. Jafnframt vill Flokkur fólksins benda á að ávallt verði haft í huga lýðræðislegur réttur borgaranna í öllum hverfum borgarinnar. Nú er einnig verið að vinna að gerð lýðræðisstefnu. Í allri þessari vinnu vill Flokkur fólksins árétta að ávallt sé gætt að réttindum fatlaðs fólks í hverju því verkefni sem fer í framkvæmd og haft í huga samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur samþykkt. Leita þarf að þeim hópum sem sýnt er að taki minni þátt og hjálpa þeim að koma inn sem fullir þátttakendur.

    Anna Kristinsdóttir og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. mars 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. mars 2020 á tillögu um framtíðarskipan tónlistarnáms, ásamt fylgiskjölum. R19050208
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sköpun er einn af forgangsþáttum nýrrar menntastefnu og í því samhengi er unnið að því að efla tónlistarnám í borginni. Stýrihópur um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni leggur hér til að fjölgað verði tækifærum barna til tónlistarnáms einkum í þeim borgarhlutum þar sem þátttakan hefur verið hvað minnst. Tólfhundruð kennslustundum verður nú varið til fimm tónlistarskóla í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi með það að markmiði að auka aðgengi og jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Jafnframt verður sett í gang vinna við að bæta húsnæðisaðstöðu skólahljómsveita í borginni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hingað til hefur ekki verið jafnræði milli borgarhluta er varða tækifæri barna til tónlistarnáms. Niðurstöður starfshóps staðfesta það. Það er því jákvætt að tekin séu skref í rétta átt að jafnræðis milli borgarhluta hvað varðar stuðning við tónlistarnám barna. Mikilvægt er að leggja áherslu á að auka tækifæri barna til að stunda tónlistarnám í þeim hverfum þar sem þátttaka barna í tónlistarnámi er einna minnst. Öll börn í borginni eiga hafa sömu tækifæri til tónlistarnáms óháð því hvar þau búa innan borgarmarkanna.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. mars 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. mars 2020 á tillögu um reykvíska nemendur í Arnarskóla, ásamt fylgiskjölum. R20030201
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð leggur áherslu á að taka þurfi málefni reykvískra nemenda í Arnarskóla til heildstæðrar skoðunar í samhengi við þá tillögu sem hér hefur verið samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það sem skipti máli er að öll börn séu í skólaúrræðum þar sem þeim líður vel, finna sig meðal jafningja og fá náms-, félags- og tilfinningalegum þörfum sínum mætt. Samþykkja á inngöngu fjögurra barna núna í Arnarskóla en sagt að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir, en um það hefur borgin ekkert að segja. Margir myndu túlka þetta sem fyrirslátt. Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Það er tímabært að leysa sérskólamál öðruvísi en með skammtímalausnum. Langur biðlisti er í skólaúrræði eins og Klettaskóla og Brúarskóla. Báðir eru fullir og sá fyrri yfirsetinn. Bregðast þarf við með varanlegum lausnum og ef vel ætti að vera ætti borgin að reka sjálf skóla eins og Arnarskóla. Flokkur fólksins hefur lagt til að fjölga þátttökubekkjum Klettaskóla, rýmka inntökureglur og stækka Brúarskóla. Í svörum og umsögnum við tillögu um stækkun Brúarskóla var beinlínis sagt að ekki væri þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma. Samt eru 19 börn á biðlista þar. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir í Arnarskóla.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. mars 2020, varðandi tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla sumarið 2020, ásamt fylgiskjölum. R20030199

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna því að borgin sé að bjóða fjölskyldum upp á aukna þjónustu og sveiganleika þegar það kemur að því að skipuleggja sumarleyfin sín. Það er ánægjulegt að sjá að í ár hefur verið tekið mið af þeim tillögum að úrbætum sem fram komu í matskýrslu sem var tekin saman eftir sumaropnunina 2019, við undirbúning fyrir sumarið 2020. Hér verður þó að taka inn í myndina að í ljósi aðstæðna, bæði vegna nýafstaðinna verkfalla og COVID-19 faraldursins er mikilvægt að taka mið af ólíkum þörfum hjá fjölskyldum barna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins leggur áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka. Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Það að fyrirskipað sé að loka leikskólum samfellt í ákveðnar 4 vikur á sumrin samræmist e.t.v. ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag. Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí í vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar. Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna, COVID-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar á komandi sumri. Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2021. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. mars 2020, ásamt trúnaðarmerktri greinargerð:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um hlutafjáraukningu Félagsbústaða. Á fyrirhuguðum aðalfund Félagsbústaða sem halda á þann 28. mars 2020 verður lagt fram til samþykktar, til samræmis við samþykkt borgarráðs frá 10. október 2019, að hækka hlutafé félagsins um kr. 147.412.637 að nafnverði, með áskrift nýrra hluta sem skulu vera seldir á genginu 1. Engar hömlur eru á viðskiptum með hina nýju hluti og skulu þeir vera í sama flokki og með sömu réttindum og aðrir hlutir í félaginu. Þeir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunar. Reykjavíkurborg hefur þegar skráð sig fyrir öllum hlutum samkvæmt fyrrgreindri samþykkt og skal greiðslufrestur vera einn mánuður frá samþykkt fundarins. Framkvæmdastjóra er falið að tilkynna hækkun hlutafjár þegar áskriftarverð hefur verið greitt félaginu. R20030210

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Til að tryggja að Félagsbústaðir gætu fjölgað íbúðum í eignasafni sínu í takt við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar án þess að það leiði til hækkunar leiguverðs hefur borgarráð gripið til þess síðustu ár að samþykkja sérstök hlutafjárframlög. Um er að ræða 4% af stofnverði. Við þær aðstæður þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samþykkir umsókn um stofnframlög en lækkar reiknað stofnverð, t.a.m vegna stærðarmarka og verðs m.v. reglugerð, geti sérstaka hlutafjárframlagið náð allt að 8%. Félagsbústaðir festu kaup á 112 nýjum íbúðum á árinu 2019 og gerðir voru kaupréttarsamningar um 99 íbúðir sem verða tilbúnar til notkunar á árunum 2020 og 2021.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 23. mars 2020, að viðauka við fjárhagsáætlun 2020. Greinargerð fylgir tillögunni. R20010161
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. mars 2020, varðandi tilnefningu tveggja fulltrúa í samráðshóp vegna forsetakosninga 27. júní 2020, ásamt fylgiskjölum. R20030217

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um sameiningu garðyrkjudeilda á Klambratúni og Njarðargötu í eina stöð á Granda, sbr. 41. lið fundargerð borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010385

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um að innri endurskoðun framkvæmi úttekt vegna kaupa og riftunar samninga vegna Grensásvegar 12, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn innri endurskoðunar, dags. 17. mars 2020. R17090010
    Tillagan er felld með fjörum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það var ekki ósk áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í borgarráði að fá sögulega tímalínu um verkefnið Grensásvegur 12, byggða á gögnum frá borgarlögmanni sem heyrir undir borgarstjóra, frá Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar. Lögð var fram tillaga að embættið færi í sjálfstæða úttekt á verkefninu allt frá upphafi þess og sem síðar leiddi til riftunar. Þegar tillagan var lögð fram í borgarráði var hún sett undir embættisafgreiðslur og innri endurskoðanda falið að skila umsögn um hana til borgarráðs. Innri endurskoðun fer með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Reykjavíkurborg í umboði borgarráðs. Í því felst að leggja mat á og bæta virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta hjá stofnunum og félögum í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Innri endurskoðun er beint undir borgarráði í skipuriti Reykjavíkurborgar til þess að undirstrika stöðu hennar og óhæði innan stjórnkerfisins. Grensásvegur 12 var inni í dótakassanum (skrifstofu eigna og atvinnuþróunar) og allt frá upphafi voru einkennilegir snúningar teknir af hálfu borgarinnar í þessu verkefni. Innri endurskoðun á að vera algjörlega sjálfstæði í störfum sínum og rétt er að benda á að endurskoðunarnefnd Reykjavíkur hefur eftirlitshlutverk gagnvart innri endurskoðun. Borgarfulltrúar verða að geta vísað málum til sjálfstæðrar úttektar innri endurskoðanda án snertingar við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara sem fer með framkvæmdavald borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessu máli, Grensásvegur 12, tapaði borgin milli 40 og 50 milljónum í samningum þegar riftunin var gerð. Mál af þessu tagi minnir alla á hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir. Málið hefði í raun átt að vera fyrir löngu komið inn á borð hjá innri endurskoðanda.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25 mars 2020, að fyrstu aðgerðum Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna COVID-19.

    Borgarstjórn hefur verið samstíga í að bregðast við áfallinu sem COVID-faraldurinn hefur í för með sér með áherslu á velferð borgarbúa, afkomu þeirra og þeirra grunnstoða samfélagsins sem þurfa styrk til að standa af sér víðtækar og neikvæðar afleiðingar vírussins. Það er frumskylda Reykjavíkurborgar að veita og tryggja órofna grunnþjónustu. Reykjavíkurborg mun lækka og fella niður gjöld þar sem þjónustufall hefur orðið og veita atvinnulífinu svigrúm til að fresta gjalddögum fasteignaskatta. Lagt er til að borgarráð samþykki að ráðast í viðspyrnu í atvinnumálum að loknum faraldrinum með m.a. markaðsátaki í ferðaþjónustu, eflingu skapandi greina, þekkingargreina og áframhaldandi stuðning við menningu og listir. Reykjavíkurborg vill flýta fyrir og ýta undir fjárfestingar og framkvæmdir, nýsköpun og notkun nýrra tæknilausna og auka fjármagn til mannaflsfrekra viðhaldsverkefna í borginni. Til grundvallar ákvörðunum borgarinnar liggur greining á mismunandi sviðsmyndum varðandi þróun efnahags- og atvinnumála og áhrif þeirra á fjármál borgarinnar. Markmið aðgerðanna er að stytta niðursveifluna eins og kostur er, verja lífsafkomu og lífskjör allra borgarbúa, styðja við endurreisn fyrirtækja og atvinnulífs og skapa á ný fjölbreytta og blómlega framtíð í lífsgæðaborg. Reykjavíkurborg ætlar að fylgjast náið með þróun á aðstæðum hjá einstaklingum, fjölskyldum og atvinnulífi næstu mánuði og misseri og því verkefni til stuðnings verður komið á laggirnar sérstakri Borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum sem fylgist með lykilþáttum og áhrifum stöðunnar á atvinnulíf og samfélag, með sérstakri áherslu á börn, barnafjölskyldur, fatlað fólk, eldra fólks, atvinnulausa og viðkvæma og útsetta hópa.

    Tillögunni fylgja aðgerðir í 13 liðum. R20030221
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sveitarfélögin sinna gríðarlegri mikilvægri þjónustu í nærsamfélaginu líkt og skólaþjónustu, þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk, börn og einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Kórónavírusinn og afleiðingar hans leggur mikið álag á þá þjónustu sem fyrir er og kallar á aukna þjónustu vegna einangrunar fólks, tekjumissis, kvíða og annarra fylgifiska ástandsins. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að Reykjavíkurborg verði leiðandi meðal sveitarfélaga í að krefja ríkið um aukið fjármagn til að sinna þjónustu á vegum sveitarfélaganna. Viðbragð hins opinbera gagnvart faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans á ekki síst að vera innan nærsamfélagsins og þar með á vettvangi sveitarfélaganna. Hvað varðar lækkun fasteignaskatta á atvinnulífið, þá telur fulltrúi sósíalista að tillagan sé vanreifuð. Hvernig á að mæta töpuðum tekjum? Með auknum álögum á almenning, aukinni gjaldtöku eða með skertri þjónustu? Ef borgarfulltrúar telja fasteignagjöld óréttláta skattheimtu verða þeir að leggja fram tillögur um hvernig betur verður staðið að gjaldtöku af fyrirtækja- og fjármagnseigendum fyrir þá þjónustu sem þeir þiggja af borginni. Yfirstandandi hamfarir eru ekki tilefni til að þrýsta í gegn óskalista nýfrjálshyggjufólks um lækkun skatta á fyrirtækja- og fjármagnseigendur. Varðandi uppbyggingu húsnæðis þá minnir fulltrúi sósíalista á tillöguna um að Reykjavíkurborg stofni byggingafélag, slíkt skapar störf og húsnæði fyrir þau í mestri þörf.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lýst er yfir stuðningi við þessar fyrstu aðgerðir Reykjavíkur til viðspyrnu vegna COVID-19 og treyst er á að enn frekari tillögur eigi eftir að koma fram til að takast á við vandann. Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur ríka áherslu á að fjölgun hjúkrunarrýma verði sett í forgang í viðræðum við ríkið. Samt er það sorgleg staðreynd að Reykjavíkurborg er á engan hátt reiðubúin að mæta skammtímaáföllum eins og nú ganga yfir fjárhagslega séð. Áhrifin af varanlegri lækkun gjaldskráa borgarinnar og B-hluta fyrirtækja er lang skilvirkasta leiðin auk lækkun útsvarsprósentu til að ná þeim árangri sem stefnt er að fyrir fólk og fyrirtæki til að mæta þessum vanda. Það er einungis gálgafrestur að fresta gjalddögum. Inn í þessar fyrstu tillögur vantar alfarið áætlun um hagræðingu og sparnað sem verður að koma inn í fjárhagsáætlun 2021. Sú vinna er óhjákvæmileg og eins vantar þessar áherslur hjá ríkinu hvað varðar fjárlög 2021. Nú er komið að því að Reykjavíkurborg þurfi að framkvæma tillögu sem borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram í upphafi kjörtímabilsins um hagræðingu og sparnað. Borgin væri á allt öðrum stað fjárhagslega í dag hefði sú tillaga verið samþykkt og væri betur undirbúin til að mæta þessum áföllum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi vill nefna að ekki er vitað hvernig mál munu þróast og hversu lengi veiruástandið varir. Til dæmis er ekki vitað hversu margir missa tekjur að stórum hluta. Finna þarf fjármagn til að mæta alls kyns óvæntum útgjöldum sem þetta ástand útheimtir. Borgarfulltrúi telur að geyma ætti einhver þeirra fjárfreku verkefna t.d. endurgerð opinna svæða, torga og fleira þess háttar. Halda þarf þó úti nægum verkefnum til að allir haldi vinnu en á sama tíma að vernda borgarsjóð. Horfa þarf í hverja krónu til að geta komið inn með aukna beina aðstoð við fólkið á hinum ólíku sviðum. Sparnaðar- og hagræðingahugmyndir eiga eftir að koma inn sem sýna hvernig hægt er að mynda rými fyrir lækkanir, frestanir og niðurfellingar gjalda og annað það sem mun hjálpa fólki sem berst í bökkum. Það er vandasamt að finna þessa fínu línu sem er fjármagn vegna óvæntra útgjalda en á sama tíma að hafa næg atvinnutækifæri. Borgarfulltrúi vill ekki að nokkur verði án atvinnu. Flýta á lækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði sem kostar 470 milljónir. Fjármögnun liggur ekki fyrir þ.e. hvort eigi að taka lán til að mæta þeirri aðgerð.

    Halldóra Káradóttir og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. mars 2020, um að flýta verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar á árinu 2020. 

    Lagt er til að borgarráð samþykki flýtingu á verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar á árinu 2020. Markmiðið er að þau verkefni sem ráðist verður í séu atvinnuskapandi á íslenskum markaði og myndi þannig viðspyrnu við fyrirséðu atvinnuleysi af völdum COVID-19. Í fyrsta lagi er um að ræða flýtingu á verklegum framkvæmdum við uppbyggingu innviða. Má þar nefna gerð útivistarstíga, verkefni hjólreiðaáætlunar, umferðaöryggismál, endurgerð leik- og grunnskólalóða, opinna svæða o.fl. Áætluð aukning vegna þessara verkefna er 1.000 mkr. á árinu 2020. Í öðru lagi eru ýmis meiriháttar viðhalds- og endurnýjunarverkefni sem hægt er að flýta. Á það við um fasteignir borgarinnar, götur, gangstéttar, stíga, lóðir og opin svæði. Áætluð aukning vegna þessara verkefna er 1.000 mkr. á árinu 2020. Í þriðja lagi er stefnt að því að hraða nauðsynlegri undirbúnings- og hönnunarvinnu ýmissa verkefna s.s. með samkeppnum og hönnun verkefna í framhaldi. Áætluð aukning vegna þessara verkefna er 500 mkr. á árinu 2020. Gerð er nánari grein fyrir ofangreindum verkefnum í greinargerð.

    Greinargerð og yfirlit um áhrif á fjárfestingaráætlun 2020 til hækkunar um 2.500 m.kr. fylgja tillögunni. R20030221
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Líta þarf til fjölmargra hluta í því ástandi sem nú ríkir. Líf og heilsa koma þar fyrst. Leggjast þarf á eitt að öllum verði tryggð atvinna þegar lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Huga þarf sérstaklega að minnihlutahópum, hvernig létta megi á þeim. Allar tillögur um að vakta og afla upplýsinga til að greina þörfina eru afar mikilvægar. Tillögur að fresta greiðslum, lækka og fella niður gjöld og frysta lán munu hjálpa mörgum en þær á eftir að útfæra frekar. Aldrei má gleyma að halda samskiptaleiðum opnum á meðan á öllu þessu stendur. Meðal tillagna sem Flokkur fólksins hefur lagt fram eru: -Að komið verði á sérstakri símsvörun vegna þess að fólk nær ekki alltaf sambandi við þjónustumiðstöðvar. -Að skóla- og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til skólasamfélagsins að huga sérstaklega að líðan barna sem eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. -Að Félagsbústaðir felli niður leigu í 2 til 3 mánuð. Fordæmi eru nú þegar fyrir slíku. -Að Félagsbústaðir hætti að senda leiguskuldir til innheimtu hjá lögfræðingum og frysti þær sem nú eru í innheimtuferli. -Að skóla- og frístundaráð innheimti ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist, eða annað fyrir þá daga sem börn hafa ekki getað mætt

    Halldóra Káradóttir og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 24. mars 2020, um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. R20030147

    -    Kl. 13.30 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðiflokksins:

    Óskað er eftir samantekt fjármálasviðs um sölu ákveðinna eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfssemi Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir hverju sala eigna s.s. eignarhluta Orkuveitu Reykjavíkur í Landsneti, Gagnaveitunnar og Malbikunarstöðvarinnar Höfða myndi skila. Jafnframt hversu miklu þessi aðgerð myndi minnka lánsþörf samstæðu borgarinnar. R20030243

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Í ljósi aðstæðna sem nú eru uppi vegna COVID-19 samþykkir Reykjavíkurborg sem eigandi Félagsbústaða að fella niður leigu hjá leigjendum Félagsbústaða næstu tvo mánuðina. Að þeim tíma liðnum verður staðan endurmetin í ljósi aðstæðna leigjenda. Leigjendur Félagsbústaða eru margir í afar viðkvæmri stöðu fjárhagslega. Það er nauðsynlegt að borgin bregðist við til að vernda leigjendur frá neikvæðum áhrifum kórónafaraldursins á efnahagsstöðu þeirra. Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í samfélaginu hafa margir þurft að bregðast við tekjuskerðingum og/eða óvæntum útgjöldum sem tekjulágir einstaklingar eiga í erfiðleikum með að mæta. Nú nýlega greindi leigufélag hér á landi frá því að hafa fellt niður leigu í tvo mánuði hjá leigjendum sínum til að mæta þeirri stöðu sem er komin upp í samfélaginu. Það er eðlilegt að leigufélag borgarinnar mæti þörfum hinna tekjulægstu sem eru einnig í viðkvæmri félagslegri stöðu. R20030239

    Frestað.

  19. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Kynnt var á fundinum að innri leiga Klettaskóla hækki úr 126 milljónum 2019 í 450 milljónir 2020. 1. Hver er ástæðan fyrir þessari miklu hækkun? 2. Er þessi ákvörðun tengd eins milljarðs framúrkeyrslu við viðhald og lagfæringum á Klettaskóla? 3. Var búið að fá fjárheimildir fyrir öllum þeim kostnaði? 4. Ef já, þa er óskað eftir samantekt tæmandi talið með vísan í fjárhagsáætlanir sl. ára. 5. Með þessari gríðarlegu hækkun innri leigu nær Reykjavíkurborg kostnaði pr. nemenda í Klettaskóla upp í sama kostnað pr. nemenda og í Arnarskóla. Er þessi snúningur gerður til að Reykjavíkurborg fái meira fjármagn frá Jöfnunarsjóði íslenskra sveitarfélaga í tilraunum til að stoppa upp í framúrkeyrsluna sem framkvæmdir og viðhald Klettaskóla kostaði Reykjavíkurborg? 6. Liggur eitthvert fjárhagslegt mat fyrir sem útskýrir og rökstyður þessa miklu hækkun á innri leigu um 324 milljónir á milli ára og til framtíðar? Ef svo er, er óskað eftir því að borgarráð fái það sent. 7. Hvað fékk Reykjavíkurborg greidda háa fjárhæð frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna Klettaskóla á árunum 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, áætlun fyrir 2020 og áætlun fyrir 2021 þegar framkvæmd hækkunar innri leigu Klettaskóla er komin til fullrar framkvæmdar? R20030201

  20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvað hefur Strætó bs keypt marga vagna frá árinu 2010, eða þegar stjórn SORPU bs ákvað að hefja uppbyggingu gas- og jarðgerðarstöð til framleiðslu metans, til dagsins í dag? Óskað er eftir að fjölda vagna verði skipt upp eftir: a. metani, b. rafmagni, c. díselolíu, d. aðrir orkugjafar, ef einhverjir eru. 2. Hvaða ár var fyrsti rafmagnsvagninn keyptur? 3. Hvað eru margir rafmagnsvagnar í flotanum í allt? 4. Hvað kostuðu: a. síðasti rafmagnsvagn sem var keyptur, b. síðasti díselvagn sem var keyptur, c. síðasti metanvagn sem var keyptur, á verðlagi dagsins í dag? 5. Vitað er að Strætó hefur keypt rafmagnsvagna af kínverska framleiðandanum Yotong. Hver/hverjir eru umboðsmenn þessa framleiðanda á Íslandi og eða norðurlöndunum? 6. Kynnt var á stjórnarfundi Strætó fyrir skömmu að fara ætti í nýtt útboð á rafmagnsvögnum, hvers vegna er það gert? 7. Er í útboðsgögnum að sérstakan styrkleika þarf í vagnana vegna fjölda hraðahindrana í gatnakerfi Reykjavíkur, því síðast tafðist afhending um marga mánuði þegar sú staðreynd var ljós? 8. Hefur reynslan af þeim rafmagnsvögnum sem keyptir voru í síðasta útboði verið góð? 9. Hvað geta þeir vagnar verið lengi í keyrslu á einni hleðslu? 10. Hvað tekur lagan tíma að hlaða einn vagn? 11. Er Strætó á afsláttarkjörum frá rafmagnsgjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur sem stórnotandi? R20030240

  21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvað hefur kostnaður við endurbætur og uppbyggingu húss og sýningar við Aðalstræti 10 kostað borgina frá upphafi til dagsins í dag, tæmandi talið, núvirt? R20030241

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Óskað er eftir minnisblaði sem Reykjavíkurborg/Félagsbústaðir óskuðu eftir frá KPMG endurskoðun sem snýr að uppgjörsreglum Félagsbústaða sem byggjast á alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IFSR í stað kostnaðarverðsreglu sem er í samræmi við sveitarstjórnarlög og lög um ársreikninga. R20030242

    Lagt fram minnisblað KPMG, dags. 3 mars 2020, um reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða hf. ásamt fylgiskjölum; úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 11. júlí 2013, minnisblaði KPMG til Félagsbústaða hf., dags. 18. maí 2012 og samkomulag við ársreikningaskrá, dags. 13. nóvember 2013.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir felli niður leigu í 2 til 3 mánuði vegna kórónuveirunar og skoði jafnframt að veita aukna greiðslufresti í þeim erfiðu aðstæðna sem kórónuveiran hefur skapað. Fordæmi um aðgerðir af þessu tagi eru nú þegar til hjá öðru leigufélagi. Reikna má með að fjölmargir eigi eftir að verða fyrir barðinu af veiruvánni og þá ekki síst fjárhagslega. Fólk verður fyrir tekjumissi á næstu vikum og mánuðum vegna ástandsins. Hjá Félagsbústöðum leigir viðkvæmur hópur og margir berjast í bökkum fjárhagslega. Í þeim aðstæðum sem nú ríkja er mikilvægt að létt verði áhyggjum af fólki eins og hægt er. R20030235

    Frestað.

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir falli frá að senda leiguskuldir leigjenda, stórar sem smáar, til lögfræðinga í innheimtu og frysti um ókominn tíma þær sem nú þegar eru komnar í innheimtuferli. Sú aðgerð stjórnar Félagsbústaða að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond ákvörðun og sársaukafull fyrir marga. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í kjölfar þess að ákvörðunin var kynnt á fundi velferðarráðs að fallið yrði frá þessari ákvörðun hið snarasta og að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og semdi sjálft við þá sem komnir eru í skuld eins og áður var gert. Vitað er að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast innheimtugjöld ofan á skuldina. Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna COVID-19 og sýnt þykir að einhverjir munu missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Mikilvægt er að fyrirtæki eins og Félagsbústaðir sýni sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt að taka mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja. R20030236

    Frestað.

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ákveðið verði að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu COVID-19. Borgarfulltrúi telur að skóla- og frístundayfirvöld borgarinnar eigi að taka sjálfstæða ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist án tillits til hvaða álit eða skoðun Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa á því, eða önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ef því er að skipta. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og eiga yfirvöld að hafa kjark til að ríða á vaðið með ákvörðun eins og þessa og gefa þar með gott fordæmi. Börn eru ekki að fullnýta pláss sín vegna samkomubanns. Í leikskólum er tekið á móti helming barna á hverri deild daglega og barn kemur í leikskólann tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina. Borgarfulltrúa finnst Reykjavík oft vera ansi háð áliti og handleiðslu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að mikilvægum málum sem varða borgarbúa. Vel kann að vera að málið sé flókið í útfærslu en það á varla að hindra yfirvöld að gera það eina sem rétt er í þessum efnum. R20030237

    Frestað.

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest að verkefnum eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra. Fyrirsjáanlegt er að þær fáist ekki framlagðar. Ef litið er nánar á tölur frá Helbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar sést glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum hefur einnig fækkað. Frá 2010 var fjöldi hunda í hundageymslum 89 en árið 2016 11. Árið 2010 voru lausagöngumál 209 en árið 2016 vor lausagöngumál aðeins 62. R20010132

    Frestað.

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að þegar mældar eru fjarlægðir frá upphafspunkti að stoppistöð séu þær mældar út frá gönguleiðum en ekki loftlínu. Sú hugmynd kemur fram í nýju leiðarkerfi strætó sem er í mótun að mæla skuli fjarlægðir út frá loftlínu. Fjarlægðir frá heimili eftir stígum og götum að biðstöð eru alltaf talsvert lengri en loftlína. Bein loftlína á milli tveggja staða er ekki raunhæf mæling á fjarlægðum, t.d. þegar talað er um fjarlægðir á milli stoppistöðva strætó þar sem engar hindranir eru þá teknar með, eðli málsins samkvæmt. Meðal markmiða þessa nýja leiðarkerfis er að gera almenningssamgöngur aðgengilegar og mæta þörfum fólks með hreyfihömlun. Það er mikilvægt að viðmið um ásættanlega göngufjarlægð frá almenningssamgöngum sé ákveðið í samráði og sátt við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra. Almennt er viðmið á bilinu 300-500 metrar. Hér á viðmiðið að vera 400m og mæling á að miða við loftlínu. Raunveruleg göngufjarlægð er vissulega lengri þar sem hún fer eftir tengingum við göngustíga og götur hverju sinni. Fyrir hreyfihamlaða er mikilvægt að mælingar séu eins nálægt þeim raunveruleika sem við blasir á jörðu niðri. Loftlínumælingar geta varla talist heppilegar enda er þar ávallt um beina línu milli tveggja punkta að ræða. R20030238

    Frestað.

  28. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið. Dragist það af einhverjum orsökum sé nefndarmönnum og öðrum borgarfulltrúum send drög í pósti innan sólarhrings frá fundarslitum. Borið hefur á því að það dragist von úr viti að fundargerðir birtist á netinu. Þetta hefur skapað mikil óþægindi fyrir nefndarmenn og aðra borgarfulltrúa sem þurfa að yfirfara fundarefni af ýmsum ástæðum. Þessi seinkun eða töf á að fundargerðir birtist opinberlega er engum boðleg. Dæmi eru um að líði 2 vikur og jafnvel meira að fundargerð komi inn á vefinn. R20030245

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 13:40

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2603.pdf