Borgarráð - Fundur nr. 5580

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 19. mars, var haldinn 5580. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason, Ólöf Magnúsdóttir og Sindri Freyr Ásgeirsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. mars 2020, varðandi viðbrögð Reykjavíkurborgar við takmörkunum heilbrigðisráðherra á samkomum vegna COVID-19.  R20030002

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar , Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hjálagt minnisblað fjallar um aðgerðir borgarinnar og verkefni á undanförnum mánuðum vegna COVID-19 veirunnar. Viðbrögð borgarinnar miða fyrst og fremst að því fyrst og fremst að draga úr útbreiðslu veirunnar, vernda borgarbúa og þjónustuþega borgarinnar og starfsfólk borgarinnar með sérstakri áherslu á viðkvæma hópa og að tryggja eftir megni að ekki verði rof í starfsemi borgarinnar, bæði lögboðinni þjónustu sem og annarri miðað við ástand hverju sinni.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 12. mars 2020. R20010004

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. mars 2020. R20010029

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 9. mars 2020. R20010030

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R20030020

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miklar athugasemdir eru gerðar af hálfu Mosfellsbæjar við erindi Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Esjumela á Kjalarnesi. Kemur fram að í umhverfismati sem fylgdi deiliskipulaginu komi fram að búast megi við neikvæðum áhrifum á lýðheilsu, ásýnd, fráveitu og loft. Loft- og hávaðamengun fylgi óhjákvæmilega grófum og mengandi iðnaði og skerði lífsgæði íbúa ásamt því að 20 metra háir skorsteinar á Esjumelum breyta varanlega ásýnd Esjunnar til hins verra. Meirihlutinn ætlar sér að flytja/endurbyggja malbikunarstöðina Höfða á Esjumelum og leggja undir hana 10-12 lóðir. Samt var á stefnuskrá og eitt af kosningaloforðum Viðreisnar að selja þetta sama fyrirtæki. Er það hlutverk Reykjavíkur að byggja upp nýja malbikunarstöð sem er og verður í samkeppnisrekstri við fyrirtæki á almennum markaði? Nei svo sannarlega ekki, enda fellur slíkt verkefni ekki undir lögbundna- og eða grunnþjónustu. Sífellt er betur og betur að koma í ljós hvert markmið sameiningar Kjalarness og Reykjavíkur í eitt sveitarfélag var. Það var til þess að koma þungaiðnaði og sorpi út úr Reykjavík og drekkja Kjalarnesi í úrgangi sem enginn annar vill. Ekkert bólar á því loforði um að Sundabraut kæmi innan tveggja ára eftir að sameiningu varð og hún er ekki einu sinni á dagskrá nú rúmum 20 árum síðar. 

    Pawel Bartoszek víkur af fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20030005

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 16. mars 2020, varðandi frestun EuroGym fimleikahátíðarinnar sem halda á í Reykjavík. R18050085
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. mars 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 11. mars 2020 á tillögu að deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0. Hlemm, ásamt fylgiskjölum. R19120015
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hugmyndin um endurskipulag Hlemmtorgs á sér nokkuð langa sögu. Reykjavíkurborg bauð fyrir þremur árum arkitektastofum að taka þátt í hugmyndaleit með það markmiði að gera nýtt heildarskipulag sem gerði Hlemm að miðpunkti mannlífs, samgangna og samskipta í austurborginni. Nýtt deiliskipulag, byggt á tillögum hugmyndaleitarinnar, gerir Hlemmtorg að aðlaðandi og öruggara umhverfi fyrir gangandi vegfarendur og um leið að kjörstað fyrir iðandi mannlíf. Það stuðlar að bættum aðstæðum fyrir skilvirkar almenningssamgöngur og tryggir samhangandi kerfi hjólastíga. Tekið var tillit til athugasemda lögreglunnar við endanlega útfærslu tillögunnar. Við tökum undir jákvæða umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og leggjum áherslu á aðgengi fyrir alla og að það verði gaman fyrir krakka að koma á Hlemm.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að aðstaða fyrir leigubíla verði tryggð áfram og merkingar þeirra verði skýrar og sjáanlegar á torginu. Unnið verði að útfærslu fyrir leigubíla í góðu samráði við hagaðila. Þá er rétt að endurskoða framtíðarstaðsetningu lögreglustöðvarinnar í tengslum við þessar breytingar. Mögulega með öðrum öryggis- og viðbragðsaðilum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – að mati borgarfulltrúa Miðflokksins er þarna um mikla kaldhæðni að ræða – og því skapi tillagan í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Einnig bendir lögreglan á að slysahætta geti skapast við útakstur af athafnasvæði lögreglustöðvarinnar inn á Snorrabraut vegna sérreinar fyrir hjólandi þvert á neyðarakstur lögreglu. Bendir lögreglan á að þetta valdi vandkvæðum þar sem fangageymsla Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er á Hverfisgötu og aðgengi sjúkrabíla þangað þarf að vera mjög greitt. Leysa á það mál með því að koma fyrir blikkljósum við hjólreiðastíg sem yrðu virkjuð við neyðarútkall – það er brandari. Svarið er alltaf eitt: „Tekið verður tillit til útfærslu við fullnaðarhönnun verkefnisins.“ Upphaflega stóð til að fækka bílastæðum í kringum lögreglustöðina um rúm 30 stæði. Nú standa eftir 11 bílastæði. Samtals hverfa 85 bílastæði af Hlemmsvæðinu. Lögreglan er þjónustustofnun og er þetta bein aðför að aðgengi að henni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vel skipulögð almenningsrými þurfa að taka tillit til þarfa allra borgarbúa, ekki aðeins þeirra sem búa í næsta nágrenni við svæðið. Þær breytingar sem verða á Hlemmi eru m.a. annars að allri umferð verður beint frá svæðinu en hjólandi boðið að koma meðfram svæðinu þar sem hjólastígur tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni. Aðgengi að Hlemmi hefur svo sem aldrei verið gott en Flokkur fólksins óttast að með breytingunni verði það enn verra. Borgarlínan verður ekki komin fyrr en eftir 10 til 15 ár og verður að huga vel að aðgengismálum fram að því. Ellegar er hætta á því að Hlemmur og nýja torgið gagnist aðeins þeim sem búa og vinna í næsta nágrenni, gangandi og hjólandi. Samkvæmt talningu í október 2019 kom fram að 70%, eða 17 þúsund manns, af heildarfjölda vegfarenda á Hlemmsvæðinu voru gangandi. Nákvæm lýsing á svæðinu væri því ekki almenningsrými heldur frekar hverfisrými og kannski biðstöðvarrými. Ef við ætlum að kalla svæðið almenningsrými megum við ekki útiloka aðkomu bíla eða loka á aðgengi fyrir fatlaða. Því þarf að gera ráð fyrir einhverri umferð um Rauðarárstíg en sú gata er þröng.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. mars 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 11. mars 2020 á tillögu að deiliskipulagi fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi til norðurs, Bolholti til austurs, Skipholti til suðurs og Laugavegi 174 og Skipholti 31 til vesturs, ásamt fylgiskjölum. R19120018
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Fram fer kynning á stöðu efnahags- og fjármála vegna áhrifa COVID-19. Einnig er lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. mars 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um aðgerðir í efnahags- og fjármálum vegna áhrifa af COVID-19 eru send borgarráði til kynningar.  R20030147

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Faraldurinn og viðbrögð við honum munu hafa víðtækar efnahagslegar afleiðingar í för með sér sem sveitarfélög landið um kring munu þurfa að bregðast við. Áhrifa er þegar farið að gæta í ferðaþjónustu og tengdum greinum hennar. Þá hefur neyðarstjórn falið teymi undir forystu fjármálastjóra að hefja nauðsynlega greiningu til að undirbúa ákvarðanir í tengslum við viðbrögð við COVID-19 og fékk borgarráð kynningu á þeirri vinnu undir þessum lið. Þakkað er fyrir greinagóða kynningu á þeim sviðsmyndum sem við blasa í efnahagsmálum en næsta skref er að ljúka þeirri greiningu og taka ákvarðanir grundvallaðar á þeim gögnum sem liggja fyrir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að Reykjavíkurborg á mikilla hagsmuna að gæta í að niðursveiflan verði skammvinn. Borgin hefur nú skoðað sviðsmyndir mismunandi djúprar niðursveiflu án þess að taka ákvarðanir um aðgerðir. Mikilvægt er að borgin beiti sér með því að létta byrðar atvinnulífsins svo hægt sé að draga úr uppsögnum og verja störf fólksins í borginni. Kallað er á aðgerðir sem þurfa að taka gildi í marsmánuði. Skjót viðbrögð skipta hér miklu máli.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Krísuástand hefur víðtækar neikvæðar afleiðingar og kemur harðast niður á þeim í verstu stöðunni. Nauðsynlegt er að aðgerðir okkar verji fólk frá áföllum sem afleiðingar COVID-19 geta haft í för með sér. Hér er nauðsynlegt að vinna viðbragðsáætlanir með öllum þeim hagsmunahópum sem hafa reynslu af kerfum borgarinnar til að tryggja að enginn komi illa úr þeirri efnahagslegu lægð sem við sjáum nú fram á að muni að öllum líkindum blasa við okkur. Sem dæmi má nefna mikilvægi þess að enginn sé án matar en vegna kórónuveirunnar lokaði góðgerðarstofnun fyrir matarúthlutun. Sjálfboðaliðar hlupu í skarðið sem er frábært en þar hefðu stjórnvöld; ríki og sveitarfélög átt að bera ábyrgð. Til að tryggja að enginn verði skilinn eftir er mikilvægt að yfirfara allar stefnur borgarinnar með hagsmuni hinna verr settu að leiðarljósi og tryggja þar t.a.m. að ef leigjendur Félagsbústaða eiga í erfiðleikum með greiðslu leigu að komið verði til móts við þá án þess að ógreidd leiga fari til innheimtufyrirtækja t.d. með niðurfellingu leigu eða greiðslufresti. Þá er mikilvægt að upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu dugi til að lifa mannsæmandi lífi. Í þessu ástandi sem og alltaf, þarf að tryggja öllum aðgengi að öruggu húsnæði og að öllum grunnþörfum sé mætt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynntar voru þrjár sviðsmyndir og áhrif COVID-19 á borgarsjóð. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur kallað eftir því frá því veiran kom upp að taka þyrfti fjárhagsáætlun fyrir 2020 til endurskoðunar. Það er nú að raungerast. Ljóst er að borgin stendur höllum fæti og er á engan hátt að mæta áföllum sem þessum enda hefur borgarsjóður rétt hangið réttu megin við núllið á einskiptistekjum. Hef ég gagnrýnt það frá því ég tók sæti í borgarstjórn. Engin fyrirhyggja hefur verið til staðar í rekstri borgarinnar. Varað er við að það ástand sem nú er uppi verði notað sem hvalreki eða happafengur til að réttlæta slakan rekstur borgarinnar. Meira að segja er rætt um að breyta eigi sveitarstjórnarlögum hvað varðar skuldaviðmið sveitarfélaga. Ekki hefur verið gefið upp hvað nýir kjarasamningar kosta borgina á ársgrundvelli og er það gagnrýnt mjög því minnihlutinn verður að geta áttað sig á stóra samhenginu en ekki fá upplýsingar í litlum bitum. Reykjavíkurborg verður að forgangsraða fjármagni í bæði lögbundna þjónustu og grunnþjónustu og fara í miklar sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir. Tími gæluverkefna er liðinn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í útvarpsviðtali við Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu og Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing Samtaka atvinnulífsins, 19. mars þar sem þau ræddu aðgerðir yfirvalda, kom fram að það væri sérstakt að ekkert heyrðist í sveitarfélögum hvað varðar aðgerðir vegna COVID-19. Sögðu þau að það heyrðist í ríkisstjórninni og fleirum en ekki sveitarfélögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju Reykjavík hefur ekki rakið aðgerðir, brýnar aðgerðir og lengri tíma aðgerðir? Hvernig á að hjálpa fólkinu í borginni núna? Hvernig á að koma til móts við fólk sem getur ekki greitt skuldir sínar við borgina? Sumt fólk er í mikilli neyð, fólk sem var í neyð er í enn meiri neyð núna. Ástandið bitnar á öllum og þeir sem eru viðkvæmastir fyrir eiga erfiðast, fólk sem er veikt, öryrkjar og eldri borgarar. Huga þarf að öllu og öllum og tímabært að meirihlutinn leggi fram víðtækt aðgerðarplan í samráði við minnihlutann. Nákvæmlega núna er mikið af fólki sem er aflokað og einangrað vegna veirunnar, fólk sem er ekki endilega í sóttkví heldur hefur lokað sig inni vegna kvíða. Sumir eiga ekki mat og eiga ekki fyrir mat. Hjálparstofn¬anir hafa þurft að loka. Það kemur hart niður á þessum hópi og velferðarkerfið hefur ekki undan.

    Halldóra Káradóttir og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti undir þessum lið. Jafnframt taka Skúli Helgason og Örn Þórðarson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. mars 2020, varðandi ábyrgðargjald Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2020, ásamt fylgiskjölum. R20030026
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rétt er að benda á að ábyrgð borgarinnar af lánum Orkuveitu Reykjavíkur nema 87 milljörðum króna. Ábyrgðir Reykjavíkurborgar af dótturfélögum eru nú komnar yfir 100 milljarða.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að Orkuveitan greiði ábyrgðargjald í borgarsjóð af lánum sínum. Eins þarf að fara vel yfir hvort einhver fleiri B-hluta fyrirtæki borgarinnar eigi ekki að greiða ábyrgðargjald til borgarinnar s.s. Félagsbústaðir og SORPA bs. Að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins fer sú vinna af stað eftir þennan fund. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti  á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. mars 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning um viðskiptavakt á eftirmarkaði með skuldabréf Reykjavíkurborgar og samning um fyrirgreiðslu vegna samnings um viðskiptavakt. Reykjavíkurborg mun gera þessa samninga til eins árs við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka og Landsbankann. R20010082

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. mars 2020:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita fjármála- og áhættustýringarsviði tímabundna heimild til að taka á leigu húsnæði án samþykktar borgarráðs vegna óvissuástands sem ríkir nú vegna COVID-19 faraldurs. Fyrirsjáanlegt er að smit og/eða sóttkvísástand geti myndast í húsnæði Reykjavíkurborgar á komandi vikum og nauðsynlegt er að geta brugðist hratt við til þess að tryggja grunnþjónustu borgarinnar og á það sérstaklega við um húsnæði þar sem velferðarsvið veitir þjónustu. Allir samningar sem verða gerðir á tímabilinu samkvæmt þessari heimild munu vera lagðir fyrir borgarráð innan 15 daga. Gildistími þessarar samþykktar er til 30. september 2020. R20030155

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að leggja til mikið valdaframsal kjörinna fulltrúa til embættismanna borgarinnar á fjármála- og áhættustýringarsviði. Enn á ný er minnt á að COVID-19 verði ekki notuð sem hvalreki eða happafengur í rekstri borgarinnar. Hér er verið að fara á svig við lög og innkaupareglur borgarinnar. Er ástandið svo slæmt að kippa eigi öllu úr sambandi? Nei svo er ekki. Kemur fram að allir samningar sem verða gerðir á tímabilinu samkvæmt þessari heimild munu vera lagðir fyrir borgarráð innan 15 daga. Þetta er afleit stjórnsýsla. Borgarráð getur komið saman hvenær sem er og nú þegar hafa verið haldnir tveir aukafundir í borgarráði. Einnig er minnt á að búið er að breyta lögum á þann hátt að halda má fundi í gegnum fjarfundarbúnað með litlum fyrirvara. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er að hafa slíka heimild ef grípa þarf til skyndiákvörðunar á ögurstundum. Þessi heimildarbeiðni hefði þó mátt vera skýrari og skilgreindari. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgarráð eigi að fá upplýsingar um hvert skref sem tekið er innan heimildarinnar. Sjálfsagt er að boða borgarráð til fundar með örskömmum fyrirvara og mun ekki standa á borgarfulltrúa Flokks fólksins að mæta eins oft og þörf er talið.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
     

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 16. mars 2020, varðandi drög að samkomulagi við lóðarhafa Blesugrófar 12 vegna niðurfellingar byggingarleyfis, ásamt fylgiskjölum. R19050151
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er samkomulag um að Reykjavíkurborg greiði 22 milljónir króna. Þetta er ekki einsdæmi sbr. nýleg dæmi af Grensásvegi 12 og Hverfisgötu 41. Dýr myndi Hafliði allur.

    Ebba Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
     

    Fylgigögn

  15. Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 18. mars 2020, um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 311. mál, ásamt fylgiskjölum. R19030045
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar , Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og skýrt kemur fram í umsögn borgarlögmanns felur þingsályktunartillagan í sér að löggjafinn taki skipulagsvaldið af sveitarfélaginu. Skipulagsvaldið er hluti af stjórnarskrárvörðum sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga sem sveitarstjórn hlýtur að vilja standa vörð um. Að auki er erfitt að sjá hvernig umrædd tillaga samrýmist nýgerðum sáttmála um samgöngur á höfuðborgasvæðinu sem víðtæk pólitísk sátt hefur verið um.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á síðasta löggjafarþingi var sambærileg tillaga lögð til en hlaut hún ekki brautargengi. Þá bárust Alþingi 21 umsögn um málið og einungis Reykjavíkurborg lýsti sig mótfallna tillögunni. Nú telur Reykjavíkurborg með öllu óþarft að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar á grundvelli samkomulags ríkisins og borgarinnar þar til verður fullkannað hvort einhver grundvöllur verði fyrir nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Ekki vill nú betur til en svo að stjórn samgöngu- og umhverfisnefndar Alþingis sá sig knúna til að senda erindi til borgarstjóra til að hnykkja á skilningi samkomulagsins og lýsti yfir miklum áhyggjum um að samkomulagið haldi ekki því í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi í Skerjafirði sem hefur áhrif á athafnasvæði flugvallarins og vísað er í breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur. Í samkomulaginu lýsti Reykjavík yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Síðan var óskað eftir að borgarstjóri staðfesti sameiginlegan skilning hans og ráðherra um að flugvöllurinn verði tryggður í Vatnsmýrinni. Miklar áhyggjur nefndarinnar eru fullkomlega réttmætar og ljóst er að ekkert traust ríkir í garð borgarstjóra um að samkomulagið haldi. Reykjavíkurborg leggst eindregið gegn því að þjóðaratkvæðagreiðsla um flugvöllinn í Vatnsmýrinni verði haldin.

    Ebba Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram bréf innri endurskoðunar, dags. 12. og 16. mars 2020, varðandi innri endurskoðunaráætlun 2020 og verkefni innri endurskoðunar á tímum heimsfaraldurs kórónaveiru, ásamt fylgiskjölum. R20030077

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að röskun á starfssemi innri endurskoðunar verði ekki í langan tíma. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gegnir mjög mikilvægu eftirlitshlutverki sem ber að styrkja. Við tökum undir orð innri endurskoðanda að „til lengri tíma munu viðbrögð borgarinnar hafa áhrif á orðspor hennar og ásýnd og því mikilvægt að viðbrögð séu hröð og fagleg.“ Því er mikilvægt að borgin stígi strax fram með mótvægisaðgerðir til að minnka það gríðarlega högg sem ferðaþjónustan er að verða fyrir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að viðhafa stöðugleika á þessum erfiðu og einmitt óútreiknanlegum tímum. Deildir og skrifstofur sem eru kjölfesta þurfa að halda sínu striki og vera áfram sama kjölfestan. Næg er óreiðan samt sem myndast vegna skyndiárásar COVID-19. Vissulega gæti þurft að endurforgangsraða einhverjum verkefnum. Nú vill innri endurskoðun sem er sjálfstæð eining og óháð setja verkefni sem eru á endurskoðunaráætlun 2020 í biðstöðu, hægja á verkefnum í vinnslu og jafnvel stöðva verkefnavinnu. Allt er gert í samráði við formann borgarráðs. Fyrir sjálfstæða einingu eins og innri endurskoðun hljómar þetta sérstakt. Að sjálfsögðu má reikna með að innri endurskoðun taki á sig ný eftirlitsverkefni eftir því hvernig framvindur. Nú var verið að samþykkja nýja heimild um húsaleigu og fleiri samningar verða gerðir sem fylgjast þarf með eftir atvikum og veita ráðgjöf með. Á sama tíma er mikilvægt að skrifstofa innri endurskoðunar haldi sínu striki og sinni helstu verkefnum sem mest ótruflað. Það sem borgarbúar þurfa nú er að upplifa að innviðum sé ekki hleypt í uppnám með grundvallarbreytingum og á sama skapi þarf fólk að vera fullvisst um að skrifstofa eins og innri endurskoðun sinni nýjum hlutverkum eftir því sem nauðsyn krefur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar heyrir undir og starfar í umboði borgarráðs og er faglega sjálfstæð í störfum sínu. Engin ástæða er til að tortryggja þær breytingar á forgangsröðun innri endurskoðunar sem stafa af þeim aðstæðum og áskorunum sem nú eru upp í sveitarfélaginu.

    Hallur Símonarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12.15 víkur borgarstjóri af fundinum. 
     

    Fylgigögn

  17. Lagt fram erindi Litlu hafpulsunnar, ódags., varðandi samnefndan skúlptúr. R17060186
    Vísað til umsagnar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að reglum um fyrningartíma á ýmsum búnaði við útreikning á innri leigu verði endurreiknaður og lengdur, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. febrúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. mars 2020. R20010389
    Tillagan er felld.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins þakkar svarið. Tillagan hefur verið felld. Borgarfulltrúi vill engu að síður leggja áherslu á að búnaður eigi að endast eins lengi og hægt er. Þetta er spurning um að farið sé vel með hluti og þá verður færi á að breyta reglum um fyrningartíma, lengja hann. Nota má hluti lengur en 3 ár sem dæmi. Á okkar tímum skiptir máli viðhorf okkar til nýtingarhluta og að við nýtum allt eins lengi og hægt er, nóg er samt af sóun. Endurreiknað viðmið ætti að taka mið af að húsbúnaður og tæki „lifi” almennt lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæma umgengni. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er dýrt að fjárfesta ekki í innviðum og búnaði. Það kemur meðal annars niður á notkun tæknilegra og snjallra lausna og getu okkar til uppfærslu og nútímavæðingar þjónustu sem er að mörgu leyti spurning um aukna hagræðingu, skilvirkni og umhverfisvænni lausnir. Að sjálfsögðu þarf að fara vel með fjármuni en muna þarf eftir heildarsamhengi hlutanna og kostnaðar við skammtímasparnað til lengri tíma.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. mars 2020 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við ferðir á fundi erlendis síðastliðin 2 ár, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2020. R19090305

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í svari kemur fram að ferðir erlendis á vegum borgarinnar sl. 2 ár eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda. Kostnaður var á þessum árum 10,6 milljónir, eða 7.1 milljónir árið 2018 og 3.5 milljónir árið 2019. Spurt var um fjarfundi en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvers vegna ekki var notast við fjarfundarbúnað í stað ferðar eða mat á því hvort slíkt hefði verið mögulegt. Galli er á verklagi Reykjavíkur að ekki liggi fyrir hvort mögulega hefði verið hægt að sækja fundi með fjarfundabúnaði. Það ætti því að vera áhersluatriði í þeim samstarfsverkefnum sem Reykjavík tekur þátt í á alþjóðavettvangi að reynt sé að takmarka fjölda flugferða og óþarfa flugferðir vegna sparnaðar og umhverfissjónarmiða. Sagt er að Erasmus-ferðir séu ,,kostnaðarlausar" en það kemur ekki fram á yfirlitinu. Þar er getið um einn styrk. Verulegur kostnaður vegna ferða eru dagpeningar, þrátt fyrir ,,kostnaðarlausar" ferðir. Meginhluti ferðakostnaðar er yfirleitt dagpeningar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að notast verði við fyrirtækjagreiðslukort með skilgreindu hámarki, eins og nú er víða algengt. Þá er raunkostnaður greiddur og ekkert umfram það. Þeirri tillögu var hafnað.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. mars 2020:
     
    Borgarráð samþykkir að létta álögum af atvinnulífi í borginni, hið minnsta tímabundið. Yfirstjórn Reykjavíkurborgar verði falin nánari útfærsla neðanritaðra tillagna. Nánari útfærslur á öllum liðum verði lagðar fyrir borgarráð eigi síðar en við lok marsmánaðar. A. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður úr 1,65% af fasteignamati niður í 1,60% frá og með fyrsta apríl nk. B. Kannaðir verði möguleikar á gjaldskrárlækkunum á atvinnulíf. Þannig verði dótturfyrirtækjum og fagsviðum borgarinnar falið að lækka gjaldskrár og mæta þannig þeim tekjumissi sem er fyrirsjáanlegur hjá stórum hluta atvinnurekenda í borginni. C. Gjaldfrestir vegna fasteignaskatta verði rýmkaðir tímabundið fyrir fyrirtæki í tímabundnum vanda. Rýndar verði útfærslur á 30 daga, 60 daga og 90 daga gjaldfrestum. D. Ráðist verði í viðhaldsátak á húsnæði og innviðum borgarinnar. Skrifstofu framkvæmda og viðhalds verði falið að útfæra forgangsröðun verkefna. E. Reykjavíkurborg fari í markaðsátak á höfuðborginni sem fýsilegum áfangastað. Átakið fari fram í samstarfi við ferðaþjónustu og ríki þegar aðstæður skapast.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20030167
    Vísað til meðferðar starfshóps um aðgerðir í efnahags- og fjármálum vegna áhrifa af COVID-19.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkir að auðvelda íbúum útivist á grænum svæðum borgarinnar. Lögð verði áhersla á að göngu- og hjólastígar verði ruddir svo íbúar geti notið hreyfingar og útivistar. Borið hefur á því að græn svæði hafi verið torveld yfirferðar vegna fannfergis. Bent er á fordæmi Akureyrbæjar í þessum efnum. R20030185

    Frestað.

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað upplýsinga um hvers vegna veginum inn á Heiðmerkursvæðið hefur verið lokað núna þar sem vegurinn virðist í sæmilegu ástandi og akstursskilyrði nokkuð góð á þröngum vegum á svæðinu. Fjöldi fólks nýtur útivistar þar allan ársins hring og því mikilvægt að gott aðgengi sé að þessari útivistarparadís þannig að nauðsynlegt er að gerðar verði ráðstafanir til að akstursleið um svæðið verðu opnuð á nýjan leik. R20030183
     

  23. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Borgarráð samþykkir að opna á ný Laugaveg og Skólavörðustíg fyrir bílum og gera um leið Laugaveginn að einstefnugötu á ný. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19070069
    Frestað.

    Fylgigögn

  24. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. mars 2020:

    Borgarráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að stefna að því í framtíðinni að kaupa eingöngu vagna sem ganga fyrir metani.

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R20030168
    Frestað.

    Fylgigögn

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg. Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat. Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða internet og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti. Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun. R20030179

    Frestað.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagmóður. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þetta eru mörg börn. Fáist hvorki dagforeldri eða leikskólapláss liggur það fyrir að foreldri eða ættingi þarf að annast um barnið á daginn. Þá er sjálfsagt að það foreldri fái einhverjar greiðslur. Nýlega var tekin svipuð ákvörðun hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Reykjavík getur ekki verið eftirbátur smærri sveitarfélaga. Heimagreiðslur hafa oft komið til tals og þetta er ein leið til lausnar á vonandi tímabundnu ástandi. Mikill skortur er á dagforeldrum á vissum tíma árs. Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Reykjavíkurborg hefur ekki stutt við bakið á dagforeldrum og hafa margir hætt störfum, enda starfsöryggi þeirra ótryggt. Haustin eru sérlega slæm fyrir dagforeldrana og vorin fyrir foreldrana. Flokkur fólksins hefur lagt til að stutt verði fjárhagslega við bakið á dagforeldrum en þeim tillögum hefur verið hafnað. Reykjavíkurborg á að þjónusta foreldra sem best og tryggja að þau geti sótt vinnu að loknu fæðingarorlofi og þess vegna er sú tillaga lögð hér á borð að teknar verði upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem hvorki fá dagforeldri eða leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur. R20030180

    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna COVID-19. Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru „lokuð”, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur, ytri sem innri breytur, áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir. R20030181

    Frestað.

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir erlendis sl. tvö ár kemur fram að þær eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda. Ferðirnar voru farnar af alls 34 starfsmönnum, 8 embættismönnum og 10 borgarfulltrúum. Nokkrir fóru fleiri en eina ferð vegna funda. Borgarfulltrúa finnst hlutfall fundaferða ansi lágt og vill því leggja fram framhaldsfyrirspurn. Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á 463 ferðum sem voru farnar vegna annarra ástæðna en fundahalds. Hversu margar ferðir voru námsferðir og í þeim tilfellum, var ekki mögulegt að stunda fjarnám? R19090305

Fundi slitið klukkan 12:45

Líf Magneudóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1903.pdf