Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 12. mars, var haldinn 5579. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. mars 2020. R20010023
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 27. febrúar og 5. mars 2020. R20010004
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 2. mars 2020. R20010025
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 27. febrúar 2020. R20010028
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 25. febrúar 2020. R20010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 26. febrúar 2020. R20010016
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 4. og 11. mars 2020. R20010008
B-hlutar fundargerðanna eru samþykktir.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 11. mars.
Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – að mati borgarfulltrúa Miðflokksins er þarna um mikla kaldhæðni að ræða – og því skapi tillagan í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Einnig bendir lögreglan á að slysahætta geti skapast við útakstur af athafnasvæði lögreglustöðvarinnar inn á Snorrabraut vegna sérreinar fyrir hjólandi þvert á neyðarakstur lögreglu. Bendir lögreglan á að þetta valdi vandkvæðum þar sem fangageymsla Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er á Hverfisgötu og aðgengi sjúkrabíla þangað þarf að vera mjög greitt. Leysa á það mál með því að koma fyrir blikkljósum við hjólreiðastíg sem yrðu virkjuð við neyðarútkall – það er brandari. Svarið er alltaf eitt: „Tekið verður tillit til útfærslu við fullnaðarhönnun verkefnisins“. Upphaflega stóð til að fækka bílastæðum í kringum lögreglustöðina um rúm 30 stæði. Nú standa eftir 11 bílastæði. Samtals hverfa 85 bílastæði af Hlemmsvæðinu. Lögreglan er þjónustustofnun og er þetta bein aðför að aðgengi að henni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 11. mars.
Vegna nýs deiliskipulags fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi lýsir Flokkur fólksins yfir áhyggjum þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúar þekkja, því er ánægjulegt að það hafi verið skoðað í heild sinni. Það vekur athygli að gengið er út frá drauminum um borgarlínu, þannig að nýja skipulagið gerir aðeins ráð fyrir að borgalínan fari um svæði. Ekki er fullljóst með stoppistöðvar Strætó, en bent á Snorrabraut. Það er varhugavert því stöðvar við þá götu hefðu veruleg áhrif á umferð sem þegar verður illa teppt vegna lokunnar Rauðarárstígs. Aldar gamallri hefð fyrir leigubílastandi á Hlemmi verður fórnað og óljóst hvar verður, frekar á að flytja til baka Norðurpólinn. Sumt úr sögunni á að undirstrika, en annað sem enn lifir þarf að hverfa eins og leigubílastaurinn, sem þjónar þó fólkinu í nánasta umhverfi. Útiloka á öll ökutæki af svæðinu og þar með aðgengi fatlaðra og eldri borgara. Engin aðkoma bíla leyfð, ekki einu sinni P merkt stæði? Ljóst að borgarbúar munu hafa lítið um skipulagið að segja. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum skipulags. Forðumst vondar endurtekningar.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. janúar 2020. R20010015
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur eru ýmis mál til umræðu og ákvarðanatöku og eftir lestur fundargerða er almennt erfitt að átta sig á umfangi umræðnanna. Til að tryggja aukið gagnsæi og aðgengi að þeim vettvangi telur fulltrúi sósíalista nauðsynlegt að fleiri komi að borðinu, t.a.m. fulltrúar allra þeirra flokka sem eru í borgarstjórn. Þá er líka mikilvægt að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa að félögum í eigu Reykjavíkur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 28. febrúar 2020. R20010012
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 17. febrúar og 3. mars 2020. R20010013
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á vettvangi stjórnar SORPU bs. eru mörg mikilvæg mál til umræðu og ákvarðanatöku og eftir lestur fundargerða getur almennt verið erfitt að átta sig á umfangi umræðnanna. Til að tryggja aukið gagnsæi og aðgengi að þeim vettvangi telur fulltrúi sósíalista nauðsynlegt að fleiri komi að borðinu en einungis einn kjörinn fulltrúi frá hverju aðildarsveitarfélagi situr í stjórninni. Þá þarf einnig að tryggja að raddir íbúa og starfsfólks fái að eiga greiða leið að framtíðar stefnumótun félaga í eigu sveitarfélaga. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur byggðasamlög í þeirri mynd sem þau eru nú ekki vera til þess fallinn að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa að félögum í eigu sveitarfélaganna og telur því nauðsynlegt að endurskoða uppsetningu þeirra svo að raddir sem flestra móti framtíðarstefnu félagsins sem er í eigu svo margra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins hefur ítrekað kvartað yfir rýrum fundagerðum SORPU. Halda mætti að það sé markmið stjórnar að sem fæstir fái innsýn í verkefni og vinnubrögð fyrirtækisins. Í þessum fundargerðum kemur hreinlega ekkert fram sem hald er í. Um er að ræða allt að því stikkorðastíl. Til dæmis má nefna lið 7, um niðurstöður húsasorpsrannsóknar. Hverjar eru niðurstöðurnar og hvar er þær að finna? Í hvaða niðurstöður er verið að vísa? Fulltrúi Flokks fólksins fletti upp upplýsingum um hússorpsrannsóknirnar og fann aðeins 6 ára gamla rannsókn þar sem fram kemur að 192 milljónum er hent í ruslatunnur. Er verið að vísa í þessa athugun eða aðra? Hvað varðar SORPU að öðru leyti er löngu tímabært að SORPA nútímavæðist og taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Reykjavík er að verða eftirbátur í sorpmálum ef tekið er mið af öðrum sveitarfélögum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21. febrúar 2020. R20010017
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á vettvangi stjórnar Strætó bs. eru mörg mikilvæg mál til umræðu og ákvarðanatöku og eftir lestur fundargerða getur almennt verið erfitt að átta sig á umfangi umræðnanna. Til að tryggja aukið gagnsæi og aðgengi að þeim vettvangi telur fulltrúi sósíalista nauðsynlegt að fleiri komi að borðinu en einungis einn kjörinn fulltrúi frá hverju aðildarsveitarfélagi situr í stjórninni. Þá þarf einnig að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa að félögum í eigu Reykjavíkur og að raddir starfsfólksins móti einnig ákvarðanatöku innan félagsins en starfsfólkið hefur óneitanlega mikla þekkingu á því hvernig megi bæta hlutina.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í fundargerðinni að fyrir fundinum hafi legið drög að útboðsgögnum fyrir rafvagna og að gögnin væru í yfirlestri hjá lögfræðingum og stefnt að útboði eftir lestur þeirra. Hvers vegna fer ekki saman hljóð og mynd í B-hluta félögum borgarinnar. Fyrir liggur að mikil vandræði eru að koma því metani sem SORPA framleiðir í umferð og allar fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir 100% sölu þess. Ég sem kjörinn fulltrúi verð að fara fram á það að fallið verði frá útboði Strætó um að kaupa rafvagna og fara í stað þess í útboð á vögnum sem ganga fyrir metani. Það getur hvert barn séð að samlegðaráhrifin eru gríðarleg í báðum B-hluta fyrritækjunum til sparnaðar fyrir útsvarsgreiðendur. Nú verða stjórnir félaganna beggja að opna augum fyrir þessum staðreyndum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:Í þessum lið í fundargerð Strætó bs er verið að tala um orkugjafa og reynsluna af nýju metanvögnum. Flokki fólksins finnst sérkennilegt að tala um reynslu af nýjum vögnum, varla er komin mikil reynsla á eitthvað sem er nýtt. Hversu lengi skyldu vagnar teljast nýjir og hvað þarf að aka þeim lengi til að hægt geti verið að tala um að komin sé reynsla á „nýju“ vagnana? Svona upplýsingar vantar í fundargerð. Í lið 4 er rætt um útboð á rafmagnsvögnum. Flokkur fólksins veltir fyrir sér í þessu sambandi hvort til standi að fjölga metanvögnum enn meira og minnir á að offramboð er af metani og mun það aukast við nýju jarðgerðarstöðina. Hvernig væri nú að Strætó talaði við SORPU eða SORPA við Strætó og fengi metanið hjá þeim á kostnaðarverði. Það yrði hagur allra.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 25. febrúar 2020. R20030025
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál. R20030020
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20030005
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi leiðrétting á bókun vegna árlegra styrkumsókna úr borgarsjóði, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar 2020 R19110012:
Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 400.000 vegna útgáfu hverfisblaðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða.
Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 400.000 vegna útgáfu hverfisblaðs Miðborgar og Hlíða. -
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 9. mars 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 26. febrúar 2020 á tillögum styrkjanefndar um úthlutun styrkja og þjónustusamninga velferðarráð fyrir árið 2020, ásamt fylgiskjölum. R20030075
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista vill sjá styrkjapott velferðarráðs stækka þar sem greinilegt er að margir sækja um fyrir mikilvæg samfélagsleg verkefni og ýmsar mikilvægar styrkumsóknir fá ekki styrk eða fá einungis hluta upphæðarinnar sem þau sóttu um. Það er jákvætt að sjá styrkjaúthlutanir velferðarsviðs til málefna en sósíalistar minna á tillögu sína um að Reykjavíkurborg vinni að því að koma útsvari á fjármagnstekjur. Sú tillaga hefur verið tekin til nánari skoðunnar innan borgarinnar. Þar þyrfti Reykjavíkurborg að leita til hinna sveitarfélaganna með það markmið að mynda samstöðu um að beita sér fyrir því að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur með lögum frá Alþingi. Sósíalistar telja einnig mikilvægt að huga að öðrum tekjugrunnum sveitarfélaganna í stóra samhenginu þegar unnið er að útdeilingu fjármagns. Þar má nefna mikilvægi aðstöðugjalda sem voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna en voru lögð af. Þar væri hægt að leggja þrepaskipt aðstöðugjöld á fyrirtæki þannig að einyrkjar og lítil fyrirtæki væru innan skattleysismarka og gjaldið legðist fyrst og fremst á stærri fyrirtæki og einkum á stórfyrirtæki, sem eru háðust þjónustu borgarinnar og innviðum hennar. Sósíalistar nefna þetta hér í því samhengi þar sem stórfyrirtæki og fjármagnseigendur greiða ekki eins og almennt launafólk í sameiginlega sjóði borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 26. febrúar 2020, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. febrúar 2020 á samstarfssamningi við Óperudaga í Reykjavík 2020-2022. R19100101
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. mars 2020, sbr. samþykkt skipulags og samgönguráðs frá 4. mars 2020 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða-Eystri, ásamt fylgiskjölum. R20030066
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 42 við Funafold, ásamt fylgiskjölum. R19110014
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stækkun leikskólans Funaborgar er hluti af Brúum bilið verkefninu. Svæðið er fallegt og hentar vel fyrir leikskólastarfsemi. Fjölgun deilda á þessum stað er einnig hluti af uppskiptingu leikskólans Sunnufoldar sem samþykkt var nýlega.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði hefðu viljað sjá að tekið væri tillit til aukinnar umferðar í tengslum við stækkun leikskólans eða lausn fundin á henni. Gatnamót Funafoldar og Fjallkonuvegar eru nú þegar erfið á álagstímum, sérstaklega vegna nálægðar við Fjallkonuveg og Gullinbrú. Telja því fulltrúarnir að skoðað verði hvaða áhrif aukin umferð mun hafa í Funafold áður en ráðist er í jafn stóra framkvæmd. Eins telja fulltrúarnir að skoðað verði hvort að ekki ætti að byrja á því að stækka aðra leikskóla sem eru í Grafarvogi/Foldahverfinu þar sem stækkanir myndu ekki hafa jafn mikil áhrif á umferð.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9.45 víkur borgarstjóri af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir Skeifan-Fenin vegna lóðarinnar nr. 1 við Grensásveg, ásamt fylgiskjölum. R19090352
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í deiliskipulagsbreytingunni felst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Algjörum forsendubresti er lýst hvað varðar Orkureitinn því þegar samningar við borgina voru gerðir varðandi hann þá var loforð þess efnis að Skeifan myndi fara í hægagang í uppbyggingu. Bent er á að rammaskipulag er ekki lögformleg skipulagsákvörðun og hefur því ekkert gildi. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli nota það í skipulagsvinnu sinni. Samkvæmt fyrri ákvörðunum var ekki gert ráð fyrir íbúðum á Grensásvegi 1 en nú er allt í einu breytt um stefnu og verið að gefa leyfi fyrir 200 íbúðum fyrir þennan reit. Skipulagsmál verða að vera í fasta til að lóðarhafar viti að hverju þeir ganga. Í einni umsögninni er varað við að fordæmi verði sett með því að víkja megi frá ákvæði aðalskipulags um hæðir húsa, að gera ráð fyrir íbúðum á svæði þar sem ekki var gert ráð fyrir íbúðum í rammaskipulagi og að verið er að gefa heimild til að skipta skipulagsreitum í minni skipulagseiningar sem einungis taki til einnar lóðar. Tekið er undir þungar áhyggjur hvað varðar skólamál og bent er á að ekki er búið að útkljá hvaða grunnskólar tilheyri hverfinu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt breyttu deiliskipulagi við Grensásveg 1 stendur til að byggja umtalsvert upp af íbúðar og verslunarhúsnæði. Nokkrir aðilar eru eigendur lóða og þess húsnæðis sem þar standa nú. Þessir aðilar kvarta undan engu samráði sem kemur ekki á óvart miðað við fyrri áætlanir og framkvæmdir hjá borgarmeirhlutanum. Þó virðist að nú hafi verið hlustað á þá með einhverjum hætti. Ef af verður má vænta málaferla af hálfu lóðareigenda sem gæti kostað borgina umtalsvert fé. Vonandi verður ekki úr því þar sem gerðar hafa verið breytingar á fyrri áætlun. Það stingur í augu að ekki kemur fram að gert sé ráð fyrir skóla eða skólasókn þeirra barna sem væntanlega munu búa á þessu húsnæði. Hvernig eiga börnin að sækja sinn skóla yfir stórar umferðaræðar í borginni, Grensásveg og Suðurlandsbraut? Kannski með gönguljósum sem þá stöðva umferð enn frekar með tilheyrandi mengun á svæðinu. Eða að foreldrar aki börnum sínum í skólann. Varla dugar einn deilibíll fyrir allan þann fjölda eins og mælt er með í nýja skipulaginu. Flokkur fólksins leggur til að haft verði samráð við hagsmunaaðila til að koma í veg fyrir deilur og hugsanleg málaferli.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. mars 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. mars 2020 á breytingu á deiliskipulagi BYKÓ reitar vegna lóðanna nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. R19080112
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Breytingin felur í sér óverulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi. Uppbygging á reitnum fellur vel að stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar. Heimild til hóteluppbyggingar er tekin út og í staðinn gert ráð fyrir fleiri íbúðum. Varðandi umræðu um umferðarflæði á hringtorginu sem liggur að reitnum þá er stefnt á að hefja greiningavinnu á svæðinu og hvaða rými þarf undir þær samgöngur. Er stefnt að því að sú greiningarvinna verði í samvinnu við Vegagerðina og fari fram strax á fyrri hluta þessa árs.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lýst er yfir miklum áhyggjum að þessari uppbyggingu hvað varðar umferðarmál. Nú þegar er hættulegt ástand á Hringbraut hvað varðar þverun og nákvæmlega enginn vilji til að breyta því. Minnt er á að Hringbrautin er þjóðvegur fyrir íbúa Seltjarnarness út úr bæjarfélaginu. Á þessum reit var áætlað að byggja upp hótel en frá þeim áformum hefur nú verið fallið og þess í stað á að fjölga íbúðum á reitnum um 20% - úr 70 í 84. Það þýðir að bílum fjölgar mjög á þessu svæði og eykst þá umferðin á Hringbraut enn frekar. Andvaraleysi borgarinnar og Vegagerðarinnar vegna Hringbrautar er fordæmalaus en fram hefur komið viljaleysi borgarinnar til að bæta úr umferðarmálum á þessu svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á BYKÓ reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugt að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbraut mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. mars 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. mars 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir Safamýri/Álftamýri vegna lóðarinnar nr. 2 við Starmýri, ásamt fylgiskjölum. R19110254
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar vegna lóðarinnar nr. 54 við Hofsvallagötu, ásamt fylgiskjölum. R20030010
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikill vilji er til þess að gera borgarumhverfið gott fyrir dýraeigendur og dýr. Hér er verið að auglýsa deiliskipulag sem þýðir að málinu er hvergi lokið heldur er verið að hefja formlegt samráðsferli um deiliskipulagið og biðla til íbúa og hagsmunaaðila að senda inn athugasemdir sem svo verða skoðaðar gaumgæfilega. Ef það er mikill vilji til að gera breytingar þá kemur vel til greina að gera þær eftir auglýsingatímann. Staðsetning verður skoðuð með tilliti til athugasemda sem og stærð og hönnun.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er með eindæmum sorglegt af hverju skipulagsyfirvöld skulu sí og æ þverskallast við að hlusta á raddir hagsmunaaðila og sérfræðinga en þess í stað keyra málin áfram nánast eins og af þrjósku og stífni. Þetta má sjá í hnotskurn við hönnun og gerð hundagerðis við Vesturbæjarlaug. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað athugasemdir og hvað það er sem þarf að breyta til að gerðið verði fullnægjandi. Málið er framlagt í borgarráði og sjá má að allar athugasemdir hafa verið hunsaðar. Lögð er á borðið sama teikning og stendur 400m2 undir teikningunni. Ef gerðið rís í þeirri stærð, þá er það ónothæft og aðeins verið að sóa peningum. Þetta er leiðinlegt því hugmyndin var samþykkt í kosningu um Mitt hverfi en skipulagsyfirvöld vilja eyðileggja hana með því að gera gerðið ónothæft. Í upphaflegri hugmynd átti gerðið að vera ca. 2000 m2 samkvæmt mynd. Ekki aðeins er mikil seinkun á verkinu. Hundagerðið sem teiknað var inn í nóvember i fyrr var 700 fm. að stærð. 26. feb. var hins vegar samþykkt á fundi skipulagsráðs að minnka það í 400 fm. sem er allt of lítið. Fleiri annmarkar eru. Eins er girðing ekki fullnægjandi þar sem hún nær ekki niður á jörð og geta litlir hundar smeygt sér undir.
Hildur Björnsdóttir víkur sæti undir þessum lið.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. mars 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Koparsléttu 5. R19080215
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 9. mars 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ráðstafa fjármagni sem ætlað er til framkvæmdar á stafrænum umbreytingarverkefnum til ráðningar á sérfræðingum í hugbúnaðarteymi, ásamt fylgiskjölum. R20030071
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú er verið að innleiða þjónustustefnu Reykjavíkur svo þjónusta við borgarbúa batni enn frekar og verði meira á þeirra forsendum. Reykjavíkurborg er og á að vera framúrskarandi og nútímalegt þjónustufyrirtæki þar sem íbúar geta nýtt sér þjónustu með auðveldum hætti. Það er gert m.a. með því að greina og uppfæra þjónustuferla og svo rafvæða þá eins og hægt er. Til að hraða rafvæðingu ferla innan Reykjavíkurborgar er mikilvægt að skapa umhverfi þar sem borgin getur hreyft sig hratt. Með því að setja á fót öflugt hugbúnaðarteymi í kringum rafvæðinguna erum við að gera einmitt það.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur nokkrar athugasemdir við rökstuðning í þessu máli enda þótt hægt sé að vera sammála um að betra sé að ráða starfsmann i verkið frekar en að fá fyrirtæki til að vinna verkið. Hins vegar í forsögunni kemur fram að útboðið hafi verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki. Sagt er að vinna þess fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun og þá má spyrja hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun. Sagt er í greinargerðinni að val á aðila í gegnum opinber innkaup séu ekki heppileg. Er hér verið að tala um að betra sé að hafa samband við vin?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fullyrt er að útboðið hafi á sínum tíma verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki sem er alrangt. Útboðið var unnið með innkaupadeild og braut blað hvað varðar framkvæmd þar sem þar var reynd ný innkaupaleið. Í gögnum máls koma fram þáverandi kröfur til bjóðanda varðandi hæfni og þarfir og ekki fæst séð hvað af þeim kröfum ættu að hafa verið sniðnar að einu fyrirtæki enda augljóst að innkaupadeild mynd aldrei samþykkja slíkt. Gefnar eru í skyn efasemdir um að verkefnið hafi fengið verðlaun en þær eru óþarfar þar sem að í gögnum máls kemur hvergi fram að verkefnið um rafvæðingu fjárhagsaðstoðar hafi fengið verðlaun. Það kemur hinsvegar fram að það hafi fengið lof og verið tilnefnt til nokkurra verðlauna sem er staðreynd. Verkefnið er tilnefnt til tveggja verðlauna á Íslensku vefverðlaununum og hefur m.a. vakið áhuga aðila sem starfa við borgarþróun erlendis frá. Gefið er í skyn að með þessu sé verið að sniðganga lög um opinber innkaup og viðhafa spillingu. Þetta er alrangt. Okkar fólk lærði líka handtökin í fjárhagsaðstoðarferlinu og getur því gert meira sjálft, hér er einfaldlega verið að skapa rými til að gera það. Við teljum betri nýtingu á fjármunum borgarinnar að koma þessari starfsemi fyrir inni hjá okkur á meðan stærsti kúfurinn er tekinn.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 9. mars 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að semja við aðila á markaði um að gerast endursöluaðili hugbúnaðarlausnar í eigu Reykjavíkurborgar, ásamt trúnaðarmerktu fylgiskjali. R20020136
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Lagður fram dómur Landsréttar, dags. 28. febrúar 2020, í máli nr. 920/2018. R18010363
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2020:
Lagt er til að borgarráð samþykki að auglýsa stofnframlög vegna almennra íbúða til umsóknar fyrir árið 2020 í tengslum við auglýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlög. Umsóknarfrestur verði til og með 15. apríl 2020. Gert er ráð fyrir að matsnefnd um veitingu stofnframlaga rýni umsóknir og geri tillögu borgarstjóra um veitingu stofnframlaga með sama hætti og verið hefur. R20030073
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 10.30 tekur borgarstjóri sæti að nýju á fundi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Félagsbústaða, dags. 6. mars 2020, þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg veiti einfalda ábyrgð vegna útgáfu félagslegra skuldabréfa, ásamt fylgiskjölum. R19100128
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða fyrirhugaða lántöku Félagsbústaða sem er ætlað að mæta fjárfestingarþörf félagsins en verður líka nýtt til að endurfjármagna óhagstæð eldri lán Félagsbústaða sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði og þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Fjárhæðin sem óskað er eftir er viðbót við lántökuáætlun Félagsbústaða en hún var 3.500 m.kr. og hefur því verið hækkuð í 12.500 m.kr. fyrir árið 2020. Viðbótin er hugsuð fyrir endurfjármögnun á óhagstæðum lánum Félagsbústaða og mun verulegur vaxtasparnaður hljótist af þessari endurfjármögnun eða á bilinu 80-180 m.kr. á ári. Uppbygging íbúða og kaup Félagsbústaða á félagslegum íbúðum hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og kallað á auknar lántökur líkt og venja er við fasteignakaup. Á árunum 2014-2019 fjölgaði íbúðum í eignasafni Félagsbústaða um 510.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að fara fram á 9 milljarða ábyrgð borgarinnar á lántökum Félagsbústaða. Nú þegar nema ábyrgðir borgarinnar yfir hundrað milljörðum króna á dótturfélögum borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skuldir Félagsbústaða nema nú 45 milljörðum með óheyrilegum fjármagnskostnaði. Það er löngu tímabært að endurskoða ákvörðun að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn á ný óskar stjórn Félagsbústaða eftir að ný skuldabréf verða gefin út og er óskað eftir einfaldri ábyrg Reykjavíkurborgar vegna útgáfu bréfanna. Nú er upphæðin 9. 000 m.kr. sem um ræðir að þessu sinni. Þessu mælir fjármála- og áhættustýringasvið með að borgarráð samþykki. Félagsbústaðir skulda fyrir 45 ma.kr og faraskuldir vaxandi. Hér er verið að biðja um lán til að endurfjármagna óhagstæð eldri lán en einnig til að gera eitthvað meira, „mæta fjárfestingarþörf” segir í umsögn fjármála- og áhættustýringarsvið. Spurningar vakna um rekstrarform Félagsbústaða sem er hlutafélag í eigu borgarinnar. Er þetta sem bíður, að óskað sé eftir að borgin gangi í einfalda ábyrgð fyrir lán Félagsbústaða jafnvel árlega ef ekki tvisvar á ári, næstu árin? Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand íbúða fjölmargrar sem fólki er boðið að leiga er í slæmu ástandi og enn berast fréttir að erfitt er að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandann frá yfirstjórn Félagsbústaða.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Virði fjárfestingareigna Félagsbústaða í lok árs 2019 var 92.127 ma.kr. og eiginfjárhlutfall í lok ársins var 50,9%.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. mars 2020, varðandi tilnefningu tveggja fulltrúa í starfshóp vegna rannsókna á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, ásamt fylgiskjölum. R19110404
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Starfshópurinn byggir á samkomulagi ríkisins og borgarinnar um Hvassahraun. Í samkomulaginu kemur fram að á fyrstu tveimur árum verkefnisins verði unnar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að leggja mat á frekara framhald þess. Um leið og aðilar telja, að fengnum niðurstöðum rannsókna á fyrstu tveimur árunum, tilefni til að halda áfram undirbúningi flugvallar í Hvassahrauni verður hafist handa við þau frekari verkefni sem nauðsynleg eru svo hægt verði fyrir lok árs 2024 að taka ákvörðun um hvort af byggingu flugvallarins verði. Meðal þeirra eru: Unnin drög að hönnun flugvallar í Hvassahrauni, unnin drög að nauðsynlegum skipulagsáætlunum í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög, unnin drög að umhverfismati flugvallar, unnin ítarleg stofnkostnaðar-, framkvæmda- og rekstraráætlun fyrir nýjan flugvöll.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því hversu miklu fé á að verja í að rannsaka möguleika á flugvelli í Hvassahrauni. Hversu marga starfshópa á eftir að stofna? Vissulega er þetta ekki einungis málefni borgarinnar. Flokkur fólks vill nota tækifærið og nefna nokkur atriði hér í sambandi við Hvassahraunið. Verðurskilyrði þar voru mæld fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Í skýrslu frá 1970 eftir Leif Magnússon er strax komin vísbending um að þessi staðsetning verði líklega ekki vænleg fyrir flugvöll. Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir nýjan innanlandsflugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá er málið á núllreit. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir og þá sennilega milljónir ef ekki milljarðar farnir út um gluggann. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf formanns borgarráðs, dags. 10. mars 2020, varðandi samþykkt fyrir nýtt innkaupa- og framkvæmdaráð. R20020154
Samþykkt.
Vísað til forsætisnefndar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2019 samþykkti borgarráð tillögur um stjórnkerfisbreytingar sem höfðu það að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti innan borgarinnar. Tillögurnar voru síðan staðfestar í borgarstjórn þann 19. febrúar. Meðal þeirra breytinga sem samþykktar voru var aukið hlutverk innkauparáðs. Verkefnahópur um samræmingu á samþykktum ráða vann drög að samþykkt fyrir nýtt innkaupa- og framkvæmdaráð sem hefur nú verið rýnd af fulltrúum borgarlögmanns, innkaupaskrifstofu og umhverfis- og skipulagssviði. Tillaga að samþykkt ráðsins er lögð fyrir borgarráð sem fer með innleiðingu stjórnkerfisbreytinga. Þótt stefna og eftirlit með innkaupa- og framkvæmdamálum verði á hendi nýs innkaupa- og framkvæmdaráðs mun borgarráð áfram forgangsraða framkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar og veita heimild til útboðsskyldra verkefna fjárfestingaráætlunar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. mars 2020, þar sem erindisbréf starfshóps um sérstök húsnæðisúrræði er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R20030042
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur að verið sé að setja á laggirnar starfshóp vegna sérstaks húsnæðisúrræða. Hlutverk starfshópsins er að hafa yfirumsjón með uppbyggingaráætlun sérstakra húsnæðisúrræða í Reykjavík og gera tillögur að aðgerðum borgarinnar til að mæta markmiðum hennar um fjölgun sérstakra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk. Enda þótt þessi hópur sé ekki pólitískur væri ekki úr vegi að hafa einn kjörinn fulltrúa með í hópinum. Þessi mál eru i miklum ólestri. Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk kemur fram að á biðlista eru 142 fatlaðir einstaklingar og 45 þeirra hafa beðið í meira en 5 ár. 11 einstaklingar eru 50 ára og eldri og flestir búa hjá foreldrum sínum. Foreldrar fatlaðra einstaklinga kvarta yfir að fá engin svör, fá engin gögn og fá ekki upplýsingar. Hér verður að fara að taka til hendi. Í það minnsta sýna fólki tilhlýðilega virðingu og svara því. Spurning Flokks fólksins er hvernig ætlar þessi starfshópur að taka á þessum málum. Vandinn er rótgróinn og uppsafnaður.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Starfshópnum er falið að fylgja eftir stefnu og uppbyggingaráætlun sem samþykkt er af kjörnum fulltrúum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf formanns stýrihóps um framtíðar stefnumótun í íþróttamálum, dags. 28. febrúar 2020, varðandi tillögu að nýrri íþróttastefnu Reykjavíkur til ársins 2030, ásamt fylgiskjölum. R19010293
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Íþróttastefna til ársins 2030 er afrakstur meira en árslangrar samvinnu Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur. Framtíðarsýn hennar er að sem flestir Reykvíkingar stundi reglulega íþróttir, líkamsrækt eða aðra hreyfingu. Fimm megináherslur stefnunnar snúa að íþróttum á öllum æviskeiðum, barna- og unglingastarfi, afreksstarfi, aðstöðu og faglegri umgjörð íþróttastarfs. Sett eru mælanleg markmið um alla þætti og aðgerðir til að hrinda þeim í framkvæmd. Ráðist verður í endurskoðun samninga við íþróttafélög með stefnuna að leiðarljósi. Þá verður ráðist í nýja aðferð við forgangsröðun fjárfestinga í íþróttamannvirkjum til framtíðar. Við vonumst til að allar þessar aðgerðir leiði til þess að Reykjavík verði áfram sú borg sem litið er til þegar kemur að árangri í íþróttum og þætti þeirra í forvarnarmálum. Haldnir voru samráðsfundir, jafnt með kjörnum fulltrúum, aðilum úr stjórnkerfinu og fulltrúum íþróttafélaganna. Stefnan var sett í opið umsagnarferli og margar góðar athugasemdir bárust. Stýrihópnum er þakkað fyrir vel unnin störf og öllum þeim sem komu að gerð stefnunnar í gegnum samráðs- og umsagnarferli er jafnframt þakkað þeirra góða framlag.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Margt er gott í þessari íþróttastefnu og trúir Flokkur fólksins að hópurinn hafi lagt sig fram. Flokki fólksins finnst þó að nokkuð skorti á að jafnréttissjónarmið séu virt. Það er eins með íþróttir og annað í lífinu að þær eiga að standa öllum til boða. Einstaklingar velja svo hvað þeim hentar. Ekki allar íþróttir standa fötluðum börnum til boða og er það ekki vegna þess að þau geti ekki stundað þær. Íþróttir sem standa fötluðum börnum til boða eru auk þess ekki nógu sýnilegar í Reykjavík. Fram kemur að Reykjavíkurborg styrkir börn til þátttöku í íþróttum með frístundakortinu. Reglur kortsins mismuna börnum, þau fátæku fá ekki sömu tækifæri að nota það og börn efnaðri foreldra. Margir efnaminni foreldrar átta sig kannski ekki á hvernig þetta virkar og eru jafnvel þakklátir fyrir að geta nota kortið til að greiða með t.d. frístundaheimili. En á meðan er barnið ekki að nota það að eigin vali. Það er mikilvægt að ekki sé reynt að slá ryki í augu foreldra og ef kanna á viðhorf þeirra um kortið að ekki séu spurðar leiðandi spurningar. Styrkja á efnaminni foreldra sem þurfa aðstoð með frístundarheimili og tungumálaskóla með öðrum hætti en að nota frístundarkort barnsins til að greiða gjöldin.
Pawel Bartoszek, Steinþór Einarsson, Ingvar Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Diljá Ámundadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ástand Fossvogsskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar 2020. R20020201
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur fengið svar við fyrirspurn um ástand Fossvogsskóla og heilsu skólabarna en dæmi eru um að börn hafi veikst aftur vegna myglu í byggingu þrátt fyrir að mikið viðhald liggi að baki. Í svarinu kemur fram að ný mygla hafi orsakast af leka í þakglugga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig þetta má vera og hvort hér sé um handvömm að ræða eða mistök í útboði? Í það minnsta hlýtur það að þykja sérstakt að hús leki áfram eftir viðgerð.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 26. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um börn sem greinast með lesskilningsvanda, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020. R20010302
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingamiðlun frá heilsugæslu til skólanna vegna barna sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi þeirra sem glíma munu við erfiðleika í lestri og lesskilningi. Í svari segir að ekkert slíkt samstarf sé formgert að vitað sé og að þær upplýsingar sem berist skóla komi þá frá foreldrum. Flokki fólksins finnst þetta afar sérkennilegt þar sem skóla- og velferðaryfirvöld státa sig af „snemmtækri íhlutun” en getur hins vegar ekki haft frumkvæði að því að nálgast þessar upplýsingar, með samþykki foreldra að sjálfsögðu, til að geta einmitt gripið til snemmtækra íhlutunar? Þarna liggja miklar og gagnlegar upplýsingar sér í lagi ef barn mælist með vísbendingar um vanda. Íhlutun í máli þess barns gæti byrjað á 1. skóladegi Eina sem þarf að gera er að kalla þessar upplýsingar markvisst yfir til skólans. Hvernig á að túlka það þegar skólayfirvöld sýna slíkt andvara- og frumkvæðaleysi þegar börn eru annars vegar? Flokki fólksins finnst þetta skýrt dæmi um að helsti vandi þessa meirihluta er tengsla- og frumkvæðaleysi. Áður hafði Flokkur fólksins spurt um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Sama svar var gefið „ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert”.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 26. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020. R20010127
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar segir að Samband íslenskra sveitarfélaga fari með samningsumboð borgarinnar gagnvart stéttarfélögum innan Kennarasambands Íslands, þar með talið Félagi leikskólakennara. Segir jafnframt að ljóst sé að niðurstöður annarra samninga hafa áhrif á kjaraviðræður við Félag leikskólakennara. Stytting vinnuviku er eitt af þeim meginatriðum sem rætt hefur verið við þá viðsemjendur Reykjavíkurborgar sem hafa verið með lausa kjarasamninga frá 1. apríl 2019. Þá má reikna með að viðræður við Félag leikskólakennara munu m.a. fjalla um vinnutímaskipulag leikskólakennara og undirbúningstíma fyrir fagleg störf þeirra eins og segir í svari. Flokkur fólksins vonar að nú þegar verkföllum er lokið þá verði settur fullur kraftur í viðræðurnar. Félagsmenn Kennarasambands Íslands eru eðlilega farnir verulega að ókyrrast.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar velferðarsviðs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020. R20020060
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og veltir upp spurningunni hvort skipulags- og velferðaryfirvöld borgarinnar átti sig nægjanlega vel á að bak við hvern einstakling standa margir? Erfiðast af öllu er þetta fyrir einstaklinginn sjálfan að fá ekki tækifæri til að vera sjálfstæður þegar hann getur það og vill. Spyrja má hversu margir fjölskyldumeðlimir séu yfirkomnir af álagi og þreytu, sumir jafnvel komnir á bætur og búnir að tapa heilsunni. Foreldrar fatlaðra sem komnir eru á fullorðins ár fá ekki tækifæri til að búa einir ættu að vera á launum hjá borginni. Þær biðlistatölur sem koma fram í svarinu eru geigvænlegar og sýna svart á hvítu að þessi málaflokkur hefur lengi verið í ruslflokki. Það bíða 142 einstaklingar eftir sérstöku húsnæði og 43 hafa beðið lengur en 5 ár. Ekki kemur fram hvað þeir sem beðið hafa lengst hafa beðið í mörg ár. Flestir búa heima hjá foreldrum. Það tekur tíma fyrir fatlað fólk að aðlagast því að flytja að heiman. Dragist í mörg ár að fá húsnæði nær viðkomandi e.t.v. ekki að koma sér fyrir, búa sér til eigið heimili með góðu tengslaneti áður en foreldrar eldast. Foreldrar kvarta yfir að fá engin svör, gögn né upplýsingar um stöðu mála.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 25. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu stýrihóps vegna frístundakorts, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. febrúar 2020. R20020124
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um vinnu stýrihóps vegna frístundarkorts og hvort vænta megi áfangaskýrslu. Segir í svari að engin áfangaskýrsla verði gerð en vinnu muni ljúka fyrir sumarið. Flokkur fólksins gerir þá ráð fyrir að fá skýrslu þegar vinnu lýkur og að fá hana fyrir sumarið. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að stýrihópurinn haldi í heiðri og sjái til þess að aðeins börnin geti notað kortið að eigin vali til að velja sér íþrótt eða tómstund eins og upphaflegt markmið kortsins kvað á um og að kortunum verði ekki ætlað til annarra hluta eins og að greiða frístundaheimili sem barnið er á af nauðsyn eða tungumálaskóla. Með því að tengja frístundarkortið við fjárhagsstöðu foreldra er verið að brjóta á rétti barnsins til að nota það. Rjúfa þarf tengsl kortsins við 16. grein um sérstaka fjárhagsaðstoð þannig að án tillits til efnahags foreldra fái barnið alltaf tækifæri til að nota kortið til þess að velja sér íþrótt eða tómstund og foreldrar fái þann styrk/fjárhagsaðstoð sem þau þurfa hvort heldur fyrir frístundaheimili, tungumálaskóla eða annað.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um bílaflota Reykjavíkurborgar, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2019. R19090311
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það tók borgina 6 mánuði að svara þessum einföldu spurningum. Málið snýst m.a. um hvers vegna bílar sem Reykjavíkurborg á fundust í bílageymslu í Bryggjuhverfi. Allt það mál var mjög dularfullt og ekki er sannað að bílakjallarinn hafi verið í umsjá Reykjavíkurborgar og kannast eigendur húsnæðisins ekki við þá skýringu þar sem húsið allt er í einkaeigu. Í fréttum sagði íbúi í húsinu: „Það vakti undrun mína og ég hringdi tvisvar í Reykjavíkurborg en fékk engin svör. Það virðist enginn áhugi vera á þessum bílum þar.“ Þegar spurt er um hver það væri sem kom bílunum þarna fyrir er svarið: „starfsfólk Reykjavíkurborgar“. Það er ekkert svar – aðeins einn getur keyrt hvern bíl. Hvað er verið að fela? Þá er sagt að starfsmenn hjá eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar, hjá velferðarsviði, hjá umhverfis- og skipulagssviði ásamt starfsmönnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafi vitað af bílunum. Það eru ósannindi. Enginn kannaðist við að Reykjavíkurborg ætti bíla sem geymdir væru á þessum stað þegar þetta mál kom upp. Einnig er dregið í efa að á þessum tíma hafi allir bílar veriði skráðir í bókhaldskerfi borgarinnar því þessir bílar voru rykfallnir og í felum. Þetta eru allt eftirá skýringar enda svarið orðið 6 mánaða gamalt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svör íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 21. febrúar 2020, og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 28. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um styrki mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010384
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Styrkveitingar ráða og borgarráðs hjá Reykjavíkurborg eru mjög ógagnsæjar og mikil hætta er á að ekki sé gætt jafnræðis við úthlutun fjármagns. Rúmlega 12 milljónir eru að renna í gegnum mannréttindaráð á ári og tæpar 20 milljónir í gegnum íþrótta og tómstundaráð. Borgarfulltrúi Miðflokksins er mótfallinn þessu „pottafyrirkomulagi“ inn í ráðunum og á það einnig við velferðarráð þar sem sömu vinnubrögðum er beitt. Það fyrirkomulag að veita „skyndistyrki“ í mannréttindaráði til verkefna eða einstaklinga án ítarlegs rökstuðnings er gjörsamlega galið. Búið er að veita 6.254.000 í skyndistyrki á þremur árum. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við það. Þá vantar upplýsingar um hverjir eru á bak við þær styrkveitingar og því er óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um hverjir fengu skyndistyrk í mannréttindaráði á árunum 2017, 2018 og 2019 sambærilegt því sem íþrótta- og tómstundaráð lagði fram tæmandi talið á fundi borgarráðs 12. mars.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Félagsbústaða, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um vexti sem Félagsbústaðir greiddu af öllu lánasafni sínu á árunum 2014-2019, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020. R20010224
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir greiddu 6,5 milljarð í vexti á árunum 2014-2019. Á verðlagi ársins 2019 greiddi félagið tæpa 7 milljarða í vexti. Það eru gríðarlegar upphæðir á 6 árum. Rúmur milljarður á ári í vexti. Borgarfulltrúi Miðflokksins viðrar enn á ný þær hugmyndir að gerð verði úttekt á eignasafni Félagsbústaða í þá veru hvort betra sé að selja stóran hluta eignanna og leigja þess í stað íbúðir fyrir skjólstæðinga sína. Miðað við uppgefnar tölur fyrir árið 2019, þá er vaxtakostnaður á hverja íbúð 500.000 kr. á ári. Bent er á að eiginfjárhlutfall hækki milli ára og eru eftirfarandi skýringar á því. Það er löngu tímabært að endurskoða ákvörðun að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á sama tíma og lagt er fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um vaxtakostnað Félagsbústaða er búið að samþykkja ábyrgð á lántökum Félagsbústaða til þess að tryggja enn betri vexti. Mikilvægt er að hafa í huga hvers vegna Félagsbústaðir taka lán. Það er gert til þess að fjármagna íbúðakaup fyrir fólk sem er á lægri tekjum. Á árunum 2014-2019 fjölgaði í eignasafni Félagsbústaða leigueiningum um 510.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hver er heildarkostnaður við nýja kjarasamninga Reykjavíkurborgar? Var haft samráð við nágrannasveitarfélögin? Hvernig var samráði háttið við Samband íslenskra sveitarfélaga? Hversu miklar eru hækkanir umfram Lífskjarasamninginn? Eru forsendur samninganna ekki breyttar eða brostnar? R20030110
Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hinn 23. janúar 2017 var með erindisbréfi skipaður starfshópur sem annast átti viðræður Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélags Reykjavíkur (KR) um framtíðaruppbyggingu á umráðasvæði félagsins. Meðal helstu verkefna skyldi vera undirbúningur nauðsynlegra deiliskipulagsbreytinga sem byggðar væru á hugmyndum KR um uppbyggingu á annars vegar íþróttamannvirkjum og hins vegar blandaðri byggð umhverfis íþróttasvæðið. Eins var hópnum falið að vinna drög að nýjum samstarfs- og styrkjasamningi milli KR og Reykjavíkurborgar. Hinn 15. desember 2017 undirrituðu borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og formaður Knattspyrnufélagsins, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, viljayfirlýsingu um að sameiginlega yrði unnið nýtt deiliskipulag fyrir svæðið samkvæmt fyrirliggjandi tillögum, sem þegar höfðu verið kynntar umhverfis- og skipulagsráði. Í kjölfarið yrði gengið frá samningi milli aðila um framkvæmdina þar sem fram kæmi áætlaður stofnkostnaður mannvirkja KR, forgangsröðun þeirra og útfærsla, virðisauki vegna aukins byggingaréttar, tímaáætlun fyrir verkefnið og leigusamningur við Reykjavíkurborg á viðkomandi mannvirkjum vegna hverfistengdrar þjónustu. Með hliðsjón af framanrituðu er kallað eftir upplýsingum um a) stöðuna á deiliskipulagsvinnu fyrir svæðið, b) með hvaða hætti Reykjavíkurborg hyggst koma að stofnkostnaði mannvirkja á svæðinu og c) hvaða tímaáætlun borgin vinnur eftir í kjölfar viljayfirlýsingar. R20030113
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í ljósi þess að kórónaveiran/COVID-19 hefur víðtæk áhrif á ýmsa starfsemi er nauðsynlegt að bregðast við. Borgarráð samþykkir að vinna með viðeigandi aðilum að því að setja fram viðbragðsáætlun sem nær utan um þá sem munu hljóta skaða af lokun góðgerðarstarfsemi sem sér um matarúthlutanir til þeirra sem búa við bág efnahagsleg kjör. Nýlega greindi Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur frá því að hafa lokað tímabundið vegna COVID-19. Margir reiða sig algjörlega á mataraðstoð frá Mæðrastyrksnefnd og öðrum góðgerðarstofnunum þar sem sjálfboðaliðar halda uppi starfseminni. Stjórnvöld; sveitarfélögin og ríkið verða að setja fram viðbrögð sem tryggja að enginn verði án matar þó svo að góðgerðarstofnanir loki vegna COVID-19. Það er ekki hægt að ætlast til þess að sjálfboðaliðar sjái um að veita þá þjónustu sem margir treysta á til þess að geta borðað út mánuðinn. Ábyrgðin er stjórnvalda og það er þeirra að tryggja að fólk í viðkvæmri stöðu þurfi ekki að líða skort. Lagt er til þess að Reykjavíkurborg vinni með þeim sem kunna að eiga hlut í málinu og leiti t.a.m. til sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að aðgerðir sem þjóni þessum aðilum komi strax til framkvæmda. Í greinargerð er fjallað um mögulegar útfærslur tillögunnar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20030111
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
1. Hvers vegna er Orkuveita Reykjavíkur/Reykjavíkurborg að skipta út fullkomlega fínum ljósalömpum í ljósastaurum fyrir LED lampa? 2. Hvað liggur á að gera það í stað þess að láta núverandi ljóslampa renna sitt skeið? 3. Er þessi aðgerð ekki þvert á stefnu borgarinnar í umhverfismálum að farga nothæfum lömpum og perum sem geta enst áratugi til viðbótar? 4. Hvað kosta þessi skipti yfir í LED lýsingu frá uppsetningu fyrsta lampa til dagsins í dag? 5. Hver tók ákvörðun um að sóa fjármunum í þetta verkefni? R20030114
Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um hverjir fengu skyndistyrk í mannréttindaráði á árunum 2017, 2018 og 2019 sambærilegt því sem íþrótta- og tómstundaráð lagði fram tæmandi talið á fundi borgarráðs 12. mars og þær sendar borgarráði. Eins er óskað eftir sundurliðun á þeim styrkþegum sem ráðið veitti fjármagn til á tímabilinu 2010-2019. R20030115
Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
1. Hvers vegna er ekki búið að þrífa upp eftir áramótabrennur í Skerjafirði og á Ægissíðu? 2. Á eftir að þrífa upp eftir allar áramótabrennur í borginni? 3. Hvers vegna er ekki búið að fara í þetta verk í ljósi umhverfisstefnu borgarinnar og slysahættu sem af þessu stafar? R20030121
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverð vöknuðu nokkrar spurningar sem Flokkur fólksins vill fá svör við. Í bókun segir að tillaga Flokks fólksins hafi verið vanhugsuð og að með henni hafi borgarfulltrúi Flokks fólksins verið að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Segir í bókun „að það sé engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni“. Vegna ofangreindar bókunar vill Flokkur fólksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir. 1.Hver er kostnaður við að ,,framleiða metan og geyma“ og leiða það að brennslustað? 2. Hver er kostnaður við ,,viðeigandi yfirbyggingu“ við að safna metani á urðunarstað, geyma og brenna síðan á báli? 3. Hve mörgum kg af metani er brennt árlega á báli? (nota má aðrar einingar svo sem lítra undir ákveðnum þrýstingi, eða rúmmetra undir ákveðnum þrýstingi) 4. Hefur stjórn Sorpu kannað hvort það brjóti í bága við samkeppnislög að selja metan fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að koma því til neytenda? R20030116
Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fram kemur í svari við fyrirspurn um bílaflota Reykjavíkurborgar að borgin eigi alls 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hverjir nota þessa bíla og í hvaða tilgangi. Leigubílar eru einnig nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest á velferðarsviði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna velferðarsviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Svör hafa ekki borist enn við þessum fyrirspurnum. R20030117
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík fari að fyrirmynd Kópavogs og breyti reglum um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að allir þeir sem fái greiddar húsnæðisbætur á grundvelli laga um um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, fái einnig greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20030118
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga Flokks fólksins að kjörnir fulltrúar, þeir sem vilja, fái að eiga viðtal/samtal við alla þá sem koma til greina í starf borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka virkan þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti heldur fái jafnframt aðgang að viðkomandi umsækjendum til að ræða við þá einslega óski þeir þess. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. R20030119
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við byrjun árs 2019 voru nýjar reglur staðfestar um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði eru höfð að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum. Reglurnar gera ráð fyrir formlegu ráðningaferli sem skal samþykkt af borgarráði við upphaf þess, sem hér er verið að gera. Hæfnisnefnd skal halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Í tillögu áheyrnarfulltrúans er gert ráð fyrir því að borgarráð stígi inn í þetta nýsamþykkta ferli og taki umsækjendur í viðtal sem væri á skjön við áðurnefndar reglur. Reglurnar tryggja að gagnsæi og jafnræði ríki um ráðningar æðstu stjórnenda borgarinnar enda gríðarmikilvægt mál að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Tillögu Flokks fólksins að borgarfulltrúar, þeir sem vilja fái tækifæri til að eiga samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritara hefur verið vísað frá með vísan í nýjar reglur um ráðningar í æðstu stöður borgarinnar frá 2019. Ekki er séð að þessar reglur útiloki þennan möguleika og telur Flokkur fólksins það eigi ekki að vera í höndum meirihlutans að hindra aðgengi borgarfulltrúa að umsækjendum. Hér er um hagsmuni okkar allra að ræða og mikilvægt í ljósi reynslu að vel takist til við ráðninguna og að allir geti upplifað traust gagnvart verðandi borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21. mars er rætt um útboð á rafmagnsvögnunum. Flokkur fólksins spyr: Er ekki rétt að stefna að því að kaupa fleiri metanvagna og þá að undangengnu útboði að sjálfsögðu? R20030120
Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins er með fyrirspurnir vegna heimildar til að nota fjármagn til að ráða sérfræðinga í hugbúnaðarteymi. Talað er um að útboðið hafi verið sniðið að fyrirtækinu Kolibri ehf. og að fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun. Flokkur fólksins spyr hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun?
Lagt fram svohljóðandi svar borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Fullyrt er að útboðið hafi á sínum tíma verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki sem er alrangt. Útboðið var unnið með innkaupadeild og braut blað hvað varðar framkvæmd með nýrri innkaupaleið. Í gögnum máls koma fram þáverandi kröfur til bjóðanda og ekki fæst séð hvað af þeim kröfum ættu að hafa verið sniðnar að einu fyrirtæki enda augljóst að innkaupadeild myndi aldrei samþykkja slíkt. Spurt er um hver hafi lofað fyrirtækið og hvaða verðlaun það hafi fengið. Í gögnum máls kemur hvergi fram að fyrirtækið eða verkefnið um rafvæðingu fjárhagsaðstoðar hafi fengið verðlaun, né heldur neitt um lof fyrirtækisins þó svo að fyrirtækið sem vann að rafvæðingu fjárhagsaðstoðar sé vissulega mjög þekkt fyrirtæki bæði hér og erlendis. Það kemur hinsvegar fram í gögnum máls að verkefnið sjálft hafi fengið lof og verið tilnefnt til nokkurra verðlauna sem er rétt. Verkefnið er t.d. tilnefnt til tveggja verðlauna á Íslensku vefverðlaununum. Einnig má nefna að það hefur vakið athygli aðila á borð við Harvard háskóla í Bandaríkjunum sem í samstarfi við Bloomberg Philantropies hefur óskað hefur eftir að borgin kynni verkefnið á vettvangi 21 borga sem eru í fararbroddi í stafrænni umbreytingu. R20030071
Fundi slitið klukkan 12:28
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1203.pdf