Borgarráð - fundur nr. 5577

Borgarráð

Ár 2020, mánudaginn 2. mars, var haldinn aukafundur borgarráðs nr. 5577. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:02. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Helgi Grímsson, Regína Ásvaldsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Jón Viðar Matthíasson, Halldóra Káradóttir, Lóa Birna Birgisdóttir, Óskar Jörgen Sandholt, Pétur Ólafsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á hættustigi  almannavarna vegna kórónaveiru COVID-19 og viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar. R20030002

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Neyðarstjórn Reykjavíkur virkjaði viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir hættustig almannavarna á föstudaginn í kjölfar fyrsta staðfesta smitsins vegna COVID-19. Neyðarstjórn hefur fundað daglega síðan. Unnið hefur verið að því að koma nauðsynlegum upplýsingum sem fyrst til starfsfólks borgarinnar í nánu samstarfi við almannavarnir. Borgarráð vill þakka neyðarstjórninni fyrir ötult undirbúningsstarf og hvetur starfsfólk borgarinnar að fylgjast með fyrirmælum landlæknis og heilbrigðisstarfsfólks m.a. um sóttvarnir, almenna umgengni og þrif. Þar sem búið er að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna faraldurs COVID-19 kórónaveiru, leggur borgarráð áherslu á nauðsyn þess að þjónusta borgarinnar sé órofin og örugg eins og nokkur kostur er og í samræmi við viðbragðsáætlanir borgarinnar. Meðal þess sem er brýnt við núverandi aðstæður er að þrif séu fullnægjandi á öllum þeim stöðum sem Reykjavíkurborg sem og einkaaðilar reka og þjónusta fyrir einstaklinga og hópa sem teljast heilsufarslega viðkvæmir. Mikilvægt er að fyrirmælum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og tilmælum almannavarna á hverjum tíma sé fylgt í því efni. Yfirstandandi verkfall í borginni gerir þessa stöðu sérstaklega alvarlega þar sem fyrir liggur að almennum þrifum er nú þegar ábótavant á vissum stöðum auk þess sem sorp er farið að safnast fyrir bæði á heimilum fólks sem og á almannafæri. Leggur Reykjavíkurborg allt kapp á að vinna það upp nú þegar undanþágur hafa fengist vegna sorphirðu og heimaþjónustu velferðarsviðs. Sorphirða í Breiðholti hófst í morgun. Borgarráð leggur áherslu á að áfram verði unnið markvisst að því að búa starfsemi borgarinnar og borgarbúa undir frekari þróun mála. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vil þakka öllum sem hafa komið að undirbúningi og vinnu varðandi þessi mál; neyðarstjórn Reykjavíkurborgar, ríkislögreglustjóra, sóttvarnalækni og embætti landlæknis og öllum þeim sem hafa unnið ötult starf og unnið að því að koma upplýsingum á framfæri.

    -    Kl. 10.09 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum. 

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðs:

    Borgarráð samþykkir að leggja til fjármagn vegna aukinna þrifa í stofnunum borgarinnar. Sérstök áhersla verði á stofnanir sem þjónusta og vista heilsufarslega viðkvæma einstaklinga, í samræmi við veittar undanþágur frá verkfallsaðgerðum. Fagsviðum og stofnunum þeirra er falið að gera aðgerðaráætlanir um hvernig staðið verði að auknum þrifum og leggi mat á áætlaðan viðbótarkostnaði vegna þessa. Fjármála- og áhættustýringarsviði er falið að halda með heildstæðum hætti utan um kostnaðarmatið og leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun þegar nánari upplýsingar liggja fyrir. R20030002

    Samþykkt.

Fundi slitið klukkan 10:20

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0203.pdf