No translated content text
Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, var haldinn 5576. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram Pétur Ólafsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 20. febrúar 2020. R20010023
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 17. febrúar 2020. R20010020
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 17. febrúar 2020. R20010026
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðin eru til að tengja íbúana í hverfunum betur við borgarstjórn og málefni hverfanna. Leitt er að sjá að kjörnir fulltrúar sem sitja í íbúaráðum nýti sér þann vettvang til að hnýta í mótherja sína og grafa þannig undan lýðræðislegu hlutverki íbúaráðanna. Þar að auki er vert að minnast á að gagnrýni á hluta af hugmyndafræði skipulags á ákveðnu svæði er aldrei gagnrýni á íbúana sem þar búa né þeirra lífshætti. Skipulag mótar líf okkar og störf og það er staðreynd. Ekki getur það talist neikvætt tal um íbúa að ræða þróun skipulags og vankanta sem sumsstaðar er að finna hvað það varðar og er leitt að sjá þann misskilning eiga sér stað í íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Flokki fólksins finnst leitt ef kjörnir fulltrúar meirihlutans sem hér er vísað til séu með hnýtingar í fulltrúa íbúaráða og vinnubrögð þeirra. Íbúaráðin eru sjálfstæð og geta bókað um menn og málefni eins og þau óska og telja að þurfi. Í þessari bókun íbúaráðsins er verið að vísa í opinber ummæli sem tveir kjörnir fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um íbúðahverfi sem þeim þótti ekki vel heppnuð og þar sem væri alger einangrun eins og sagt var orðrétt. Kjörnir fulltrúar sögðu jafnframt að í tveimur hverfum sem hinir kjörnu fulltrúar vísuðu til „keyrði helst einn á hverjum bíl og fólk byggi í risastórum einbýlishúsum – laus við félagsleg samskipti“. Þetta eru niðrandi ummæli og tóku íbúar þetta nærri sér og þóttu særandi. Hér lýsa kjörnir fulltrúar ótrúlega neikvæðu viðhorfi í garð hverfa og íbúa þess. Þetta er að sjálfsögðu ekki sæmandi kjörnum fulltrúum um að viðhafa slík ummæli opinberlega.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Grafarvogs frá 29. janúar og 20. febrúar 2020. R20010027
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 20. febrúar:
Gagnrýni á hluta af hugmyndafræði skipulagsins í Grafarvogi er aldrei gagnrýni á íbúana sem þar búa né þeirra lífshætti. Skipulag mótar líf okkar og störf og það er staðreynd. Ekki getur það talist neikvætt tal um íbúa að ræða þróun skipulags og vankanta sem sumsstaðar er að finna hvað það varðar og er leitt að sjá þann misskilning eiga sér stað í íbúaráði Grafarvogs.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 13. febrúar 2020. R20010029
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir það sem fram kemur í bókun íbúaráðs Kjalarness sem ítrekar ábendingar sínar vegna skotæfingasvæðisins við Kollafjörð. Nauðsynlegt er að fram fari reglulega hávaða- og jarðvegsmælingar á svæðinu. Mikilvægt er að sátt skapist um starfsemina á meðan verið er að finna nýtt skotæfingasvæði til framtíðar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins tekur undir þær áhyggjur sem fram koma í bókun íbúaráðs Kjalarness. Á borgarstjórnarfundi þann 4. febrúar sl. vísaði meirihlutinn svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins frá: „Lagt er til að fundin verði lausn á framtíðarlandsvæði fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotreyn á Álfsnesi í sátt við íbúa Kjalarness og Kollafjarðar.“ Borgarfulltrúi Miðflokksins bókaði af þessu tilefni: „Mikil mengun er á þessu svæði. Í fyrsta lagi hljóðmengun sem er í og yfir heilsuspillandi mörkum þó Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mæli annað. Í annan stað öllu alvarlegri mengun sem er blýmengun við sjávarsíðuna og þá aðallega í Kollafirði. Þar er mikilvæg sjófuglabyggð og varpstöðvar fuglategunda sem eru jafnvel á válista. Það er sláandi staðreynd að Ísland er eina landið af Norðurlöndunum sem bannar ekki blý á æfingaskotvöllum. Á tyllidögum er því hampað að í Reykjavík sé öflug umhverfisstefna og sitja Vinstri grænir bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn. Því er það kaldhæðnislegt að undir forystu þess flokks í umhverfis- og heilbrigðisráði sé verið að svæfa málið í nefndum. Því er óhjákvæmilegt annað en að æfingasvæðunum verði fundinn nýr staður þar sem sátt ríkir um þessa starfsemi. Frávísunartillöguna flutti fulltrúi meirihlutans í íbúaráði Kjalarness sem er mjög athyglisvert.“
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs 19. febrúar sl. fólu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata Heilbrigðiseftirlitinu að skoða með hvaða hætti best er að rannsaka skotsvæðið með tilliti til mögulegrar mengunar sem hlýst af starfseminni. Málið er því í þeim farvegi sem æskilegt er með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi. Athygli vekur hins vegar að fulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði sat hjá við ofangreinda málsmeðferð.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 19. febrúar 2020. R20010032
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarstjórnar þann 21. janúar felldi meirihlutinn eftirfarandi tillögu frá borgarfulltrúa Miðflokksins: „Borgarstjórn samþykkir að farið verði tafarlaust í að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir umferðarmiklar stofnbrautir þar sem slysatíðni er há. Lausnirnar skulu annað hvort vera göngubrýr, undirgöng eða annars konar þveranir. 1. Hringbraut við Bræðraborgarstíg. 2. Hringbraut við Gamla garð.“ Eftirfarandi bókun var lögð fram á borgarstjórnarfundinum: „Það er nauðsynlegt að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfaranda á stofnbrautum. Við verðum að gera allt til að fyrirbyggja slys og beita til þess öllum ráðum. Það er mjög sárt að horfa upp á andvara- og áhugaleysi meirihlutans að greiða leið þessara aðila yfir eða undir þungar umferðagötur eins og segir í tillögunni: Hringbraut við Bræðraborgarstíg og Hringbraut við Gamla garð. Meirihlutinn vill ekki gangandi og hjólandi vegfarendur af þessum ljósastýrðu gangbrautum vegna hræðslu við að fjölskyldubíllinn fá þá aukið rými á þessum stofnæðum. Fari gangandi og hjólandi vegfarendur af þessum götum eykst hinsvegar flæði umferðar með minni mengun. Því má segja að gangandi og hjólandi vegfarendur í Reykjavík séu mannlegur skjöldur meirihlutans á móti fjölskyldubílnum, því þessir hópar eru tilneyddir að þvera þessar hættulegu götur. Þessi staðreynd er sorglegri en orð fá lýst.“
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hver er Sigurður Einarsson sem óskar eftir breytingu á deiliskipulagi "Skeifan-Fenin" vegna lóðarinnar nr. 1 við Grensásveg.? Í deiliskipulagsbreytingunni felst aukning á byggingarmagni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Algjörum forsendubresti er lýst hvað varðar Orkureitinn því þegar samningar við borgina voru gerðir varðandi hann þá var loforð þess efnis að Skeifan myndi fara í hægagang í uppbyggingu. Bent er á að rammaskipulag er ekki lögformleg skipulagsákvörðun og hefur því ekkert gildi. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli nota það í skipulagsvinnu sinni. Samkvæmt fyrri ákvörðunum var ekki gert ráð fyrir íbúðum á Grensásvegi 1 en nú er allt í einu breytt um stefnu og verið að gefa leyfi fyrir 200 íbúðum. Skipulagsmál verða að vera í fasta til að lóðarhafar viti að hverju þeir ganga. Varað er við að fordæmi verði sett með því að víkja frá ákvæði aðalskipulags um hæðir húsa, að gera ráð fyrir íbúðum á svæði þar sem ekki var gert ráð fyrir íbúðum í rammaskipulagi og að gefa heimild til að skipta skipulagsreitum í minni skipulagseiningar sem einungis taki til einnar lóðar. Tekið er undir þungar áhyggjur hvað varðar skólamál og bent er á að ekki er búið að útkljá hvaða grunnskólar tilheyri hverfinu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 17. lið:
Ekki hefur verið haft samráð við hundaeigendur eða Félag ábyrgra hundaeigenda við hönnun þessa hundagerðis. Ekki er heldur neinn fulltrúi hundaeigenda í stýrihópi sem endurskoðar reglur um dýrahald. Hönnun þessa hundagerðis sem hér um ræðir hefur marga galla. Það er of lítið og fullnægir því ekki hreyfiþörf hunda, girðing er of lág og öryggisþættir ófullnægjandi eins og hlið er ekki tvöfalt og bil milli rimla er of breitt og girðing nær ekki vel niður ofan í jarðveginn. Þessi úrskurður er stefnumarkandi fyrir íbúa Reykjavíkur. Ef íbúar eiga ekki lögvarða hagsmuni og geta ekki fengið úrskurð um hvort deiliskipulagið við Stekkjarbakka sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag, eins og haldið er fram, þá sér Flokkur fólksins lítinn tilgang með þeim lögum og reglum sem um þetta gilda. Borgaryfirvöld geta að því er virðist farið sínu fram að geðþótta. Fram kemur að málinu er vísað frá án þess að Reykjavíkurborg geri kröfu um frávísun. Í stað þess að vísa málinu frá með þessum hætti, hefði úrskurðarnefndin átt að taka málið fyrir og kveða upp úrskurð þar sem efnislega væri tekið á kröfugerð íbúanna, sérstaklega að því er varðar hvort deiliskipulagið sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag. Flokkur fólksins harmar málsmeðferðina sem þarna er viðhöfð hjá úrskurðarnefndinni gagnvart íbúunum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 20. febrúar 2020. R20010022
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R20020003
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20020004
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2020, ásamt fylgigögnum. R19110012
Samþykkt að veita Sigrúnu Birnu Sigurðardóttur styrk að fjárhæð kr. 300.000 vegna viðhorfskönnunar meðal barna og unglinga sem ferðast daglega yfir Hringbraut.
Samþykkt að veita Hjólafærni á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna Bíllausa dagsins 2020.
Samþykkt að veita Hjólafærni á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna starfsemi félagsins.
Samþykkt að veita Neytendasamtökunum styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna starfsemi félagsins.
Samþykkt að veita Norræna félaginu styrk að fjárhæð kr. 250.000 vegna verkefnisins Norræn Reykjavík.
Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu styrksins.
Samþykkt að veita Kristínu Lárusdóttur styrk að fjárhæð kr. 200.000 vegna jólamarkaðar á Markúsartorgi.
Samþykkt að veita Skrautás ehf. styrk að fjárhæð kr. 800.000 vegna útgáfu hverfisblaða Árbæjar og Grafarvogs.
Samþykkt að veita Borgarkórnum styrk að fjárhæð kr. 700.000 vegna starfsemi kórsins.
Samþykkt að veita Birni Teitsyni styrk að fjárhæð kr. 200.000 vegna rannsóknar á mathöllum í norðvestur Evrópu.
Samþykkt að veita Snorrasjóði, sjálfseignarstofnun styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna Snorraverkefnisins.
Samþykkt að veita Grænni byggð - Building C styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna greiningar á samgöngum barna í tómstundir.
Samþykkt að veita Edwin Roald Rögnvaldssyni styrk að fjárhæð kr. 300.000 vegna verkefnisins Kolefnis-Par.
Samþykkt að veita Róbert Aroni Magnússyni styrk að fjárhæð kr. 3.000.000 vegna verkefnisins Götubitinn.
Samþykkt að veita Bjarna Þór Sigurðssyni styrk að fjárhæð kr. 350.000 vegna Jólahátíðar fatlaðra 2020.
Samþykkt að veita Dagmar Dögg Þorsteinsdóttur styrk að fjárhæð kr. 140.000 vegna endurnýjunar og viðbóta á tækjabúnaði í Félagsheimilinu Fólkvangi.
Samþykkt að veita Hjólafærni á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna samgönguráðgjafar fyrir vinnustaði.
Samþykkt að veita Gróður fyrir fólk, áhugasamtök styrk að fjárhæð kr. 4.000.000 vegna starfsemi félagsins.
Dagur B. Eggertsson víkur af fundi við afgreiðslu málsins.
Samþykkt að veita Rakel Garðarsdóttur styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna gerðar heimasíðu til að auka vitund um matarsóun.
Samþykkt að veita Baldri Magnússyni styrk að fjárhæð kr. 200.000 vegna hreinsunar gönguleiða og opinna svæða í Grafarvogi.
Samþykkt að veita Golfklúbbi borgarstarfsmanna styrk að fjárhæð kr. 250.000 vegna starfsemi félagsins.
Samþykkt að veita Hlédísi Sveinsdóttur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna matarmarkaðar í Hörpu.
Samþykkt að veita Simon Joscha Flendar styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins Do it together – Cohousing for better living.
Samþykkt að veita Garðyrkjufélagi Íslands styrk að fjárhæð kr. 300.000 vegna matarjurtagarða almenning í Gorvík og við Stekkjarbakka.
Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 800.000 vegna útgáfu hverfisblaða Laugardals og Háaleitis og Bústaða.
Samþykkt að veita Með oddi og eggi ehf. styrk að fjárhæð kr. 800.000 vegna útgáfu hverfisblaða Miðborgar og Hlíða.
Samþykkt að veita Flugleiðahóteli ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna jólamarkaðar í Hjartagarðinum 2020.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna að undanskildum styrkjum til Gróður fyrir fólk og Norræna félagsins sem borgarráðsfulltrúarnir samþykktu.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar árlegir styrkir vegna útgáfu hverfisblaða eru afgreiddir óskar borgarráð eftir samstarfi þeirra við íbúaráðin til að auka upplýsingar til íbúa um fundi og starf íbúaráðanna.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Styrkveitingar borgarráðs og annarra ráða hjá Reykjavíkurborg eru mjög ógagnsæjar og mikil hætta er á að ekki sé gætt jafnræðis við úthlutun fjármagns. Það fyrirkomulag að veita „skyndistyrki“ til verkefna eða einstaklinga án ítarlegs rökstuðnings er gjörsamlega galið. Var mjög athyglisverður styrkur veittur, svo ekki sé meira sagt, á 8. fundi í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs þann 29. nóvember 2019. Var þar um gríðarlega pólitíska ákvörðun að ræða á kostnað skattgreiðenda sem er ráðinu algjörlega til skammar. Þetta dæmi sannar að styrktarfé er notað í þeim tilgangi að ná höggi á pólitíska andstæðinga. Ekki gilda nægjanlega skýrar reglur um hvort sækja megi um styrk í fleiri en einu ráði þannig að einn og sami aðilinn/verkefni fái styrk á mörgum stöðum á meðan öðrum er hafnað. Leggja á niður þetta ógegnsæja kerfi til að fyrirbyggja misnotkun á almannafé.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Að störfum er starfshópur um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar sem var skipaður af mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Hlutverk starfshópsins er að rýna og samræma verklag í kringum styrkúthlutanir og koma með tillögur að leiðum til að auka gagnsæi og eftirlit með samningum og úthlutunum styrkja Reykjavíkurborgar. Auk þess að tryggja sýnileika og einfalda aðgengi íbúans að styrkumsóknum og veittum styrkjum borgarinnar. Skyndistyrkir hafa verið veittir á vegum mannréttindaráðs og nú mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs til þess að styðja við frumkvæði grasrótarsamtaka sem vinna að málaflokki fagráðsins, sér í lagi til að koma til móts við viljann til að skipuleggja viðburði sem koma upp vegna atburða og aðstæðna í samfélaginu sem erfitt er að sjá fyrir. Dæmi um slíka atburði eru myllumerkisbyltingarnar #MeToo, #FreeTheNipple og nú #Klausturgate. Það að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem fara með löggjafarvald vegi ómaklega að minnihlutahópum í samfélaginu með smekklausum athugasemdum hlýtur að teljast alvarlegur atburður sem hefur sig yfir almenna flokkspólitík sem almenningur og fulltrúar þvert á flokka geti sameinast um að standa gegn.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þetta mál er herfileg misnotkun á almannafé. Hér er upplýst að 226.000 kr. af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga fóru í hápólitískan styrk. Er það hlutverk Reykjavíkur að fara svona með opinbert fé á meðan ekki er hægt að sinna grunnþjónustu á ýmsum sviðum borgarinnar. Hér er auglýst eftir aðila sem vill sækja um styrk til að halda ráðstefnu um káfkarlana á vinstri væng stjórnmálanna og verður spennandi að sjá hvort verkefnið fái sama greiða aðganginn að útsvarstekjum borgarinnar í gegnum skyndistyrki mannréttindaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Styrkumsóknir, árleg úthlutun var samþykkt í borgarráði. Um er að ræða styrkjapott um 25 milljónir. Verið er að styrkja mörg þörf og góð málefni. Sum verkefni sem verið er að styrkja hafa þó einungis skemmtanagildi. Flokkur fólksins hefur þá skoðun að kannski síst ætti að nota styrkjapottinn til að styrkja verkefni sem hafa einungis skemmtanagildi.
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036
Samþykkt að veita Borgarblöðum ehf. styrk að fjárhæð kr. 800.000.- vegna útgáfu Breiðholtsblaðsins og Vesturbæjarblaðsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Styrkumsókn vegna útgáfu hverfisblaða sem barst utan umsóknartíma er samþykkt að þessu sinni en vakin er athygli á því að slíkum styrkumsóknum ber að beina inn í árlega auglýsta úthlutun borgarráðs samkvæmt ákvæðum styrkjahandbókar. Er þess farið á leit að þess verði gætt framvegis.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar og stækkunar lóðar við Vesturbæjarskóla, ásamt fylgiskjölum. R19040098
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 19. R19090055
Frestað.Helga Björg Ragnarsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar í færslu Korpulínu 1 í jörð, ásamt fylgiskjölum. R20020135
Samþykkt.Helga Björg Ragnarsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. febrúar 2020, þar sem drög að nýrri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2020-2025 eru send borgarráði til staðfestingar, ásamt fylgiskjölum. R18100018
Vísað til borgarstjórnar.Arna Schram, Steingrímur Sigurgeirsson, Huld Ingimarsdóttir og Gíslína Petra Þórarinsdóttir, Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 21. febrúar 2020, varðandi ábata Reykjavíkurborgar af ferðaþjónustu. R20020238
Vísað til Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jónsmessunefndar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Áhrif ferðaþjónustu geta verið bæði jákvæð og neikvæð á sveitarfélög og íbúa þeirra. Jákvæð áhrif geta birst í aukinni eftirspurn eftir starfsmönnum, auknum atvinnutekjum á svæðinu, auknum eignum og stöðugleika eigin gjaldmiðils vegna innflæðis erlendra gjaldmiðla. Vegna ferðaþjónustunnar er oft farið í enduruppbyggingu söguminja og menningarverðmæta og aðra uppbyggingu innviða sem bæði ferðamenn og íbúar njóta og getur þannig haft jákvæð á áhrif á umhverfi og lífsgæði. Fjölgun ferða¬manna getur skapað tækifæri fyrir margs konar atvinnustarfsemi sem aftur eykur eftirspurn eftir vinnuafli og svo koll af kolli. En ferðaþjónustan getur líka haft neikvæð áhrif. Hún er þekkt fyrir að bjóða upp á fremur illa launuð störf og sveiflukennda eftirspurn eftir vinnuafli. Fjölgun ferðamanna getur haft umtalsverð áhrif á verðlag á vöru, þjónustu og íbúðarhúsnæði sem getur komið illa niður á íbúum svæðisins. Hagfræðileg greining eins og hér er kynnt er mikilvæg til að draga fram áhrif ferðaþjónustu á sveitarfélög.
Arna Schram, Steingrímur Sigurgeirsson, Huld Ingimarsdóttir og Gíslína Petra Þórarinsdóttir, Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 13. febrúar 2020, þar sem drög að nýjum samstarfssamningi um markaðsstarf og upplýsingamiðlun í ferðaþjónustu 2020-2024 eru send borgarráði til kynningar.
Arna Schram, Steingrímur Sigurgeirsson, Huld Ingimarsdóttir og Gíslína Petra Þórarinsdóttir, Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R20020158
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu kjarasamningsviðræðna.
Harpa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R20010094
-
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 27. febrúar 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf SORPU bs., dags. 24. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tímabundna lántöku byggðasamlagsins. sem gildir til loka árs 2020, ásamt fylgiskjölum. R19090009
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú stendur yfir umfangsmikil vinna við að gera rekstur SORPU bs. sjálfbæran. Stjórn félagsins hefur þess vegna ákveðið að fara í gagngera endurskipulagningu á fjármálum félagsins og tryggja sjálfbærni þess til framtíðar. Hefur stjórnin falið framkvæmdastjóra að vinna að gerð aðgerðaráætlunar sem taki m.a. til gjaldskrárbreytinga, hagræðingar í rekstri, mögulegra stofnframlaga frá eigendum og lánsfjármögnunar. Aðgerðaráætlunin í heild sinni verður tilbúin og lögð fyrir eigendur fyrir lok maí 2020. Í millitíðinni verður hins vegar að tryggja gjaldfærni félagsins og er því farið á leit við borgarstjórn að samþykkja tímabundna lántöku í formi yfirdráttarheimildar sem gildir til loka árs 2020.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Forsendur reksturs SORPU hafa gjörsamlega brugðist og þarf félagið nú neyðarlán í annað sinn á stuttum tíma. Fjárfestingaráætlun gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GaJa hefur brugðist og er kostnaður farinn milljörðum fram úr upphaflegum áætlunum. Rekstraráætlun GaJa liggur ekki fyrir og hefur ekki fengist þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að fá hana til skoðunar. Vekur það upp spurningar um hvaða rekstraráætlun hafi legið fyrir þegar ákveðið var að fara í milljarða fjárfestingu í GaJa. Getur verið að borgin hafi ákveðið að fara í milljarða fjárfestingu án þess að samþykkt rekstraráætlun fyrir GaJa hafi legið fyrir?
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur nauðsynlegt að endurskoða uppsetningu félagsins Sorpu í heild sinni. Fyrirkomulag byggðasamlaga gerir það að verkum að ákvarðanataka er færð frá hinum lýðræðislega vettvangi, sem nýtur beins aðhalds frá almenningi, yfir á vettvang sem lýtur svipuðum lögmálum og einkarekin fyrirtæki. Aðkoma sveitarfélaganna er þá líkari eigenda hlutafjár og skyldur stjórnarfólks líkari þeim sem stjórnir einkafyrirtækja hafa gagnvart eigendum sínum. Þessi umbreyting stofnana, frá stofnunum með samfélagsleg markmið sem stýrt er beint frá hinum lýðræðislega vettvangi yfir í eftirlíkingar hlutafélaga í einkaeigu, hefur skaðað og grafið undan opinberri þjónustu. Við eigum að vinda ofan af þessu og endurreisa mikilvægar stofnanir samfélagsins með því að fella þær aftur inn í verksvið hins lýðræðislega vettvangs. Við eigum að einblína á að setja þeim samfélagsleg markmið en ekki kröfur um hagræðingu sem eru líklegar til að bitna illa á þeim sem eiga í hlut.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrst fór Orkuveitan á hausinn og núna SORPA. Í lok marsmánaðar er allt laust fé uppurið hjá SORPA. Því var ekkert ofsagt í bókun minni frá fundi borgarráðs 5. september 2019 að félagið væri ógjaldfært þó stjórn SORPU hafi ekki áttað sig á stöðunni. Á fundinum var tilkynnt að lengja ætti í eins milljarðs láni og veitt var ný lántaka hjá lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá var framlengt 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár. Í lok bókuninnar sagði að velta mætt fyrir sér að félagið væri að verða ógjaldfært. Enn er beðið um nýtt lán og nú upp á 600 milljónir. Það blasir við að það er ekki nægjanlegt fé því rekstraráætlanir standast á engan hátt. Í þeim er gert ráð fyrir að allt metan sem fellur til seljist. Ekki er markaður fyrir það og ekki er víst að moltan sé að þeim gæðum að hægt sé að selja hana. Þessum óráðsrekstri er velt yfir á herðar útsvarsgreiðenda með hækkunum gjaldskrár eins og gert var þegar Orkuveita Reykjavíkur var gjaldþrota. Skuldir SORPU eftir þessa nýju lántöku eru núna 4,1 milljarður. Þetta mál er algjör áfellisdómur yfir stjórninni, eftirlitsaðilum og Reykjavíkurborg sem er stærsti eigandinn.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þær ógöngur sem stjórn SORPU hefur komið fyrirtækinu í eru óásættanlegar. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi SORPU og mun bera hitann og þungann af greiðslu þess láns sem nú er sótt um samþykki fyrir sem og fyrri lánum. Það blasir við að til að fyrirtækið haldist á floti mun verða seilst í vasa borgarbúa og sorphirðugjald hækkað. Talað eru um að selja metan en metan ætti helst að gefa til að hvetja til orkuskipta. Stjórn situr og er allt um kring þrátt fyrir að hafa sýnt vítavert andvaraleysi. Stjórn og fjármálastjóra rann ekki í grun að Sorpa væri á leið á hvínandi kúpuna. Allt er framkvæmdarstjóranum að kenna en þó sagt að sé ekkert saknæmt. Hefði stjórn fylgst grannt með þá hefði ekkert af þessu komið þeim í opna skjöldu í það minnsta. Nú er beðið um 600 milljóna skammtíma lán til viðbótar við 500 millj. sem þegar er heimild fyrir. Hér sést óreiðan í hnotskurn sem er afleiðing af eindæma lélegri stjórnun. Sumir þeirra sem boðið er að koma að borðinu nú til að skoða hvað gerðist og hvað verður gert til að bjarga eru vanhæfir. Hér má t.d. nefna stjórnarformann Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóra.
Halldóra Káradóttir, Birgir Björn Sigurjónsson og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. febrúar 2020, þar sem erindisbréf viðburðarstjórnar Ráðhúss Reykjavíkur er sent borgarráði til kynningar. R20020240
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. febrúar 2020, þar sem erindisbréf yfirstjórnar Reykjavíkurborgar er sent borgarráði til kynningar. R20020233
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekki er sérstök þörf á erindisbréfi fyrir yfirstjórn Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri sem æðsti embættismaður getur boðað fundi með stjórnendum borgarinnar hvenær sem er.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. febrúar 2020:
Lagt er til að borgarráð skipi Ólöfu Marín Úlfarsdóttur, (kennitala falin), regluvörð Reykjavíkurborgar í stað Ívars Arnar Ívarssonar, (kennitala falin). Jafnframt er lagt til að borgarráð skipi Hrefnu Þórsdóttur, (kennitala falin), sem staðgengil regluvarðar í stað Theódóru Sigurðardóttur, (kennitala falin). Lagt er til að breytingin taki gildi þann 1. mars 2020. R20020231
Samþykkt.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. febrúar 2020:
Lagt er til að sameina á einum stað starfsemi innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, starfsemi umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa, með það að markmiði að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lagt til að starfsemin verði sameinuð undir stjórn og á ábyrgð innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar frá og með 1. júní 2020. Loks er lagt til að innri endurskoðandi leggi fyrir borgarráð eigi síðar en 1. maí 2020 áætlun um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar og þar á meðal hvernig móttöku og úrvinnslu ábendinga og athugasemda frá borgarbúum verði háttað.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20020232
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að sameina á einum stað starfsemi eftirlitseininga með það að markmiði að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Um leið er verið að standa vörð um mismunandi eiginleika og hlutverk þessara eftirlitseininga, bæði hvað varðar innra eftirlit og persónuvernd og að umboðsmaður borgarbúa sé áfram aðgengilegur vettvangur sem borgarbúar geti leitað til með sínar ábendingar þar sem þeim er komið í skýrt ferli. Með þessu móti er tryggt að á vegum Reykjavíkurborgar starfi ein öflug eftirlitsheild sem með virku eftirliti getur dregið úr áhættu sem getur hamlað að borgin nái tilætluðum árangri. Í sameinaðri einingu geti farið fram öflugra starf en hjá smáum og dreifðum einingum með betri yfirsýn yfir stöðu þeirra mála sem lúta að málefnum Reykjavíkurborgar. Með því skapist tækifæri til hagræðingar sem unnt verði að nýta til að efla starfsemi núverandi eininga og mæta þeim kröfum sem gerðar eru til gæða slíkar starfsemi. Nú er bæði möguleiki á að fleiri en ein eining beini kröftum sínum að sama viðfangsefni auk þess sem verkefni gætu lent milli stóla. Aukin samvinna mun því draga úr mögulegri óskilvirkni sem fylgir núverandi fyrirkomulagi.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Með þessari breytingu er verið að taka undir þau sjónarmið okkar að einfalda stjórnkerfið sem hefur orðið alltof flókið og stuðla að auknu sjálfstæði eftirlitsaðila.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til að starfsemi innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa, verði sameinuð á einn stað. Í tilögunni kemur fram að markmiðið verði að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lagt til að starfsemin verði sameinuð undir stjórn og á ábyrgð innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar frá og með 1. júní 2020. Loks er lagt til að innri endurskoðandi leggi fyrir borgarráð eigi síðar en 1. maí 2020 áætlun um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar og þar á meðal hvernig móttöku og úrvinnslu ábendinga og athugasemda frá borgarbúum verði háttað. Umboðsmaður borgarbúa hefur mikla sérstöðu vegna tengsla borgarbúa við borgarkerfið, þar sem borgarbúar geta leitað þangað ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð og ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar í málum er varða þau. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að tryggja að það sé auðvelt og aðgengilegt fyrir borgarbúa að leita til umboðsmanns borgarbúa með mál en hingað til hefur hann verið með sérrými á Tjarnargötu. Hér er um þrjá mikilvæga þætti að ræða; umboðsmann borgarbúa, innri endurskoðun og persónuverndarfulltrúa og mikilvægt er að útfæra framtíðartilhögun þannig að innleiðingin verði borgarbúum fyrir bestu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 24. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að kaupa sumarhús á lóðinni Látalæti í landi Varmadals á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R20020027
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 21. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort hundaeftirlitið borgi leigu fyrir aðstöðu fyrir hundageymslur, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010132
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hundaleyfisgjöldin fara í að standa undir rekstri hundaeftirlitsins eins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tekur fram. En af hverju er rekstrarkostnaður hundaeftirlitsins eins hár og raun ber vitni? Stærsti hluti rekstrarkostnaðar fer í launakostnað starfsmanna, sem sagt laun fyrir tvo hundaeftirlitsmenn í fullu starfi og ritara í fullu starfi og 30% af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað margfalt undanfarin ár, en starfsgildin breytast ekkert í samræmi við það. Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að eltast við einn lausan hund á viku? Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að sinna hundi í geymslu einn sólarhring í mánuði? Þarf ritara í fullu starfi til að taka á móti einni kvörtun á viku og einni nýskráningu á viku? Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur getur ekki sýnt fram á að þessir starfsmenn sinni hundaeftirliti í fullu starfi, þá er bókhald hundaeftirlitsins ekkert annað en leikur að tölum, og gera má ráð fyrir að þessir starfsmenn sinni öðrum verkefnum fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur meðfram verkefnum hundaeftirlits. Það stenst ekki lög. Ef starfsemi hundaeftirlits felst öðrum verkefnum en það sem talið er upp hér að ofan, hvaða verkefni eru það þá og hversu mikill tími fer í þau verkefni? Öll verkefni tengd dýravernd fóru yfir til MAST 1.janúar 2014, en starfshlutfall breyttist ekkert hjá hundaeftirlitinu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í dag er ekki hægt að reka hundaeftirlit og framfylgja samþykkt um hundahald í Reykjavík nema að þar séu að lágmarki tveir hundaeftirlitsmenn. Allur rekstur við hundaeftirlitið hefur verið opinber á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um árabil. Eins og sjá má þar er hagkvæmni gætt. Starfsfólk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er ráðið til að vinna í umboði heilbrigðisnefndar (umhverfis- og heilbrigðisráðs) og vinnur þau störf af alúð eins og lög og reglur sem um starfsemina gilda. Hundaeftirlitið er rekið skv. þeim kröfum og reglum sem gilda um slíkt eftirlit auk þess sem gjaldskrár þess eru settar reglum samkvæmt og leiðbeiningum þar um.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þessi rök sem fram koma í bókun meirihlutans um hundaeftirlitið hjá Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur standast engan veginn. Það er óumdeilt að verkefnum hefur stórlega fækkað hjá hundaeftirlitinu en engu að síður er sami starfsmannafjöldi og ekki hafa hundaeftirlitsgjöld verið lækkuð. Af hverju ættu ekki að vera tengsl þarna á milli? Fækkun verkefna hlýtur að þýða að minni kostnaður fer í yfirbyggingu og starfmenn. Sterkar vísbendingar eru því miður á því að fé sé notað í annað. Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur getur ekki sýnt fram á að þessir starfsmenn sinni hundaeftirliti í fullu starfi, þá er bókhald hundaeftirlitsins ekkert annað en leikur að tölum, og gera má ráð fyrir að þessir starfsmenn sinni öðrum verkefnum fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur meðfram verkefnum hundaeftirlits. Það er með ólíkindum að meirihlutinn klyfi sífellt á því að ekki sé hægt að reka hundaeftirlit og framfylgja samþykkt um hundahald í Reykjavík nema að það séu að lágmarki tveir hundaeftirlitsmenn. Reglum þarf að breyta og væri löngu búið að því stæði vilji þessa meirihluta til þess. Flokkur fólksins hvetur til að rækilega sé tekið til í reglum og samþykktum er varðar hunda og hundaeftirlit enda löngu úreltar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 20. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf Reykjavíkurborgar við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna, sbr. 72. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020. R20010131
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Í svari kemur fram að ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert en starfsmenn nokkurra heilsugæslustöðva hafa þá vinnureglu að hafa, með samþykki foreldra, samband við leikskóla eftir heimsókn barns í þroskamat. Sagt er að einhverjar heilsugæslustöðvar hafa samband ef grunur leikur á um að barn glími við þroskavanda en aðrar ekki. Það hljóta allir að sjá að svona hipsum haps vinnubrögð eru ekki af hinu góða. Skólaráð og velferðarráð eftir atvikum þurfa að eiga frumkvæði að sambandi við Heilsugæsluna og koma á formlegum samstarfssamning. Þegar um er að ræða óreiðukennd vinnubrögð er auðvelt að sjá fyrir sér að mikilvægar upplýsingar um barn sem nauðsynlegar eru fyrir skólann að fá til að geta stutt við bakið á barninu berist einfaldlega ekki skólanum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af samþykki foreldra fyrir samstarfi þessara tveggja stofnana enda vilja foreldrar allt það besta fyrir börn sín. Berist ekki niðurstöður úr skimun heilsugæslu þar sem fram kemur vísbendingar um vanda til skólans segir það sig sjálft að minni líkur eru á að barnið fái snemmtæka sérhæfða einstaklingsþjónustu. Flokkur fólksins hvetur skóla- og frístundarráð til að taka af skarið og kalla eftir formlegu samtali og samstarfi við heilsugæslu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Samhliða verkefninu Betri borg fyrir börn, samstarfsverkefni velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs var settur á fót sameiginlegur stýrihópur skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs sem mun skoða hvernig megi bæta og einfalda skipulag og gera markvissari þá stoðþjónustu sem borgin veitir börnum með sérstakar þarfir. Tilgangurinn er að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar með það að markmiði að hún skili viðkomandi börnum betri líðan, félagslegri stöðu og framförum í námi. Haft verður samráð við stjórnendur og annað starfsfólk og aðra hagsmunaaðila, þar með talið Heilsugæsluna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar borgarlögmanns, dags. 23. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns frá 20. maí 2015 um Hverfisgötu 41, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020. R16080019
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn og aftur staðfestist að Reykjavíkurborg hefur farið illa með opinbert fé. Í þessu tilfelli fara 63 milljónir sem í súginn fyrir ekkert. Það er með ólíkindum að Reykjavíkurborg skuli fara svona með fjármuni þegar að viðhaldi hefur ekki verið sinnt og er grunnþjónustu illa sinnt á ýmsum sviðum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Leyndarhyggjan er algjör hjá Reykjavíkurborg. Verið er að fela upplýsingar fyrir almenningi í fordæmisgefandi máli hvað varðar breytingar á skipulagi og uppbyggingu á lóð. Þetta eru afleit vinnubrögð og bent er á að stjórnvöld skýla sér oft á bakvið lagaákvæðið að ekki þurfi að birta „vinnugögn“.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um útisalerni í Reykjavík, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010387
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Minjaverndar, dags. 20. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Holtsgötu 41b, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar 2020. R20020171
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 13. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um verkefni sem eru til kjörs í Hverfið mitt, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. R19110008
- Kl. 13.25 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er upplýsinga um hvort þeir lögaðilar sem hafa fengið lóðarvilyrði við Stekkjarbakka Þ73, Spor í sandinn, hafi skilað inn gögnum og uppfyllt þau skilyrði sem fram koma á vef Reykjavíkurborgar vegna lóðaúthlutunar. Nú þegar hefur borgin borið margvíslegan kostnað vegna skipulags við Stekkjarbakka. Þá er rétt að benda á að vilyrði fyrir lóð var veitt án auglýsingar eða útboðs. Þegar lögaðilar fá úthlutaðri lóð þurfa þeir að leggja fram ítarleg gögn. Yfirlýsingu frá banka eð annarri fjármálastofnun sem til að sýna fram á að tilboðsgjafi geti staðið undir kostnaði við áætlaðan byggingarkostnað, gatnagerðargjaldi og kaup á byggingarrétti. Þá skulu lögaðilar leggja fram ársreikning vegna síðasta árs og skila inn lánsloforði eða yfirlýsingu banka um fjármögnun. R19010136
Vísað til umsagnar eignaskrifstofu.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að farið verði í vegabætur í Heiðmörk og að kaflann frá þjóðveginum að Elliðavatnsbænum hafi forgang enda hefur vegurinn lengi verið í mjög slæmu ásigkomulagi. Mikil umferð er um veginn að Elliðabænum og þar hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur aðsetur sitt sem fagnar 70 ára afmæli sínu nú í sumar. R20020279
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir skýrslu eða „drögum að skýrslu“ um málefni Sorpu og jafnvel fleiri byggðasamlaga sem gefin var út 2016 að beiðni Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH. Komið hefur fram að kjörnir fulltrúar hafa aldrei fengið hana til lestrar, einungis nokkrir einstakir fulltrúar sem sæti eiga í stjórn SSH. R20020283
Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.
Fundi slitið klukkan 13:49
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2702.pdf