Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 20. febrúar, var haldinn 5575. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Alexandra Briem, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. febrúar 2020. R20010023
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í fundargerð segir að fyrirspurn Flokks fólksins um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni sem vísað var til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar sé afturkallað. Hvað þýðir að vera afturkallað? Þessi fyrirspurn sem hér um ræðir var lögð fram 9. janúar 2020 og var á þá leið hvort borgin sé ekki örugglega að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar þau hafa tekið gildi. Spurt er hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa heimildarákvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum? Flokkur fólksins vill minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á þessi nýmæli sem er undantekning frá akstursbanni um göngugötur. Allir bílar sem eru merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Í raun eiga þeir sem aka P merktum bílum að hafa heimild til að aka og leggja í allar göngugötur borgarinnar núna.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar kemur fram að fyrirspurn frá Flokki fólksins, dags. 20. janúar 2020, um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni hafi verið vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar. Afturköllunin sem bókuð er í fundargerðinni vísar til umsagnarbeiðninnar en ekki fyrirspurnarinnar sjálfrar. Hún verður afgreidd á vettvangi mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 11. febrúar 2020. R20010024
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 10. febrúar 2020. R20010030
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 6. febrúar 2020. R20010004
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á að allri útvistun á störfum innan borgarinnar verði hætt með öllu og að allt starfsfólk verði ráðið beint inn til borgarinnar og verði hluti af starfsheildinni.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 3. febrúar 2020. R20010021
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungarráðs frá 10. febrúar 2020. R20010022
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi. Flokkur fólksins spyr af hverju má þá ekki bara samþykkja hana? Hér er verið að leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og samþykktum sem fjalla um eldri borgara og þjónustu við þá. Borgin er fyrirmynd og þarf að hafa hlutina á hreinu sín megin. Flokkur fólksins hefur séð gildishlaðinn bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra. Hann ætti að fjarlægja hið fyrsta að mati borgarfulltrúa en sagt er að hann verði ekki endurútgefinn. Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að vera boðið að gera. Tillögu um að gerð yrði könnun meðal eldri borgara um afstöðu þeirra til þessara hluta var líka hafnað. Af hverju má ekki spyrja eldri borgara sjálfa um hvað þeim finnst um þessa hluti? Það hlýtur að vera metnaður hjá öldungaráðinu og mannréttindaskrifstofu að hvergi sé að finna gildishlaðinn texta neins staðar í regluverki borgarinnar eða upplýsingabæklingum.
- Kl. 9.10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. febrúar 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með deiliskipulaginu sem nú er verið að auglýsa stendur til að styrkja og festa í sessi stöðu Elliðaárdalsins sem borgargarðs, vernda og varðveita náttúrufar í dalnum um leið og tækifæri til útivistar í dalnum batna enn frekar. Endurbætt stígakerfi fjölgar fjölbreyttum göngu og hjólaleiðum í dalnum og bæti þannig möguleika borgarbúa til að njóta dalsins á umhverfisvænan hátt. Ekki er gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu og þá aðallega í tengslum við mögulega sögu- og tæknisýningu. Tillagan fer nú í auglýsingu og til umsagnar hagaðila. Við hlökkum til framhaldsins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög sláandi að við deiliskipulag fyrir Elliðaárdal að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Biodome á að rísa. Fjármagnsöflin þurfa sitt. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Farið var yfir afar fjölbreytt lífríki dalsins og því ljóst að mengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á dalinn allan og þá sérstaklega ljósmengunin sem af henni hlýst. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Verið er að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga kinnroðalaust. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga. Ríkið ætti að friðlýsa svæðið strax og taka Elliðaárdalinn úr höndum Reykvíkinga til þess eins að koma dalnum úr klóm meirihlutans. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind. Elliðaárdalurinn er stærsta auðlind Reykvíkinga – henni er fórnað í þessu deiliskipulagi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins leggur áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu. Minnt er á gagnrýni Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar sem skipulagsyfirvöld verða að taka til greina. Fleiri félög eru uggandi. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Óttast er að hér sé upphafið að fleiri byggingum sem verða ef til vill ekki síður í óþökk borgarbúa. Sú bygging sem ákveðið er að rísi þarna er engin smásmíði. Hún er 9 metra há og 4.500 fm. að flatarmáli. Ekki er komin endanleg lausn á mögulegri ljósmengun sem varað hefur verið við að stafi af mannvirki sem þessu. Fyrirsjáanlegt er að umferðarþungi aukist verulega og er það ekki á bætandi þar sem umferðartafir á þessum stað eru miklar nú þegar. Nú er verið að safna undirskriftum til að fá íbúakosningu. Það er erfitt þar sem safna þarf 18 þúsund undirskriftum kosningabærra Reykvíkinga til að íbúakosning geti farið fram og þessu þarf að safna á afar stuttum tíma.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 30. janúar og 7. og 12. febrúar 2020. R20010013
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir miklum áhyggjum af þróun mála hjá SORPU bs. sem er dótturfélag og í meirihluta eigu Reykjavíkurborgar. Nú þegar hefur Reykjavíkurborg þurft að ábyrgjast neyðarlán sem tekið var hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Nýjar og uppfærðar áætlanir fyrir rekstur SORPU bs. og gas- og jarðgerðarstöðvarinnar „GAJA“ liggja ekki fyrir. Fátt er hægt að lesa út úr einstökum fundargerðum.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fundargerðir SORPU bs. eru oft gífurlega ógagnsæjar og undirstrika það að best væri að fleiri hefðu aðkomu að öllum fundum nefnda og stjórna sem borgin kemur að.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lítið er hægt að lesa úr fundargerðum SORPU hver raunveruleg staða félagsins er. Reykjavíkurborg er lang stærsti eigandinn og hefur þegar samþykkt að leggja félaginu til um 500 milljónir í formi nýrra ábyrgða. Boðað hefur verið til fundar allra kjörinna fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu nk. mánudag en ekki er útlistað í fundarboði hvert efni fundarins er. Mikla upplýsingagjöf skortir til kjörinna fulltrúa og minnt er á að málefni SORPU er ekki einungis málefni stjórnarinnar því útsvarsgreiðendur hafa nú þegar tekið á sig skell vegna skulda sem virtust svífa af himnum ofan – stjórninni til mikillar undrunar. Samkvæmt fundargerð frá 7. febrúar hefur stjórnin veitt fyrrverandi framkvæmdastjóra áminningu en það hefur ekki komið fram áður. Eru það alvarlegar sakir en um leið friðþæging stjórnar sem ber ábyrgð á rekstrinum. Einnig er í gangi málarekstur Íslenskra aðalverktaka gegn SORPU um háa fjárkröfu vegna útboðsmála. Ljóst er að óveðursský er yfir SORPU og lýst er miklum áhyggjum af rekstrinum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur áður kvartað yfir fundargerðum SORPU og hversu rýrar þær eru og segja lítið. Fyrir eigendur SORPU, borgarbúa, er erfitt að sjá hvað er í gangi á þessum fundum SORPU. Kjörnir fulltrúar ættu að eiga rétt á meiri aðkomu að þessu félagi. Ljóst er að hefði félagið ekki verið svo aflokað og einangrað hefði mátt forða því frá miklu tjóni. Þessu þarf að breyta og það er gert með því að breyta fyrirkomulagi byggðarsamlaga. Málefni SORPU er ekki einkamál fárra útvaldra.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R20020003
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt fram fyrirspurn til borgarstjóra um samkomulag ríkisins við Reykjavíkurborg um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Er vísað í samkomulag sem borgarstjóri og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu þann 28. nóvember sl. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið verði að undirbúning og byggingu nýs flugvallar þannig að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn. Í samkomulaginu lýsir Reykjavík yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Lýsir stjórnin yfir miklum áhyggjum um að samkomulagið haldi ekki því í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi í Skerjafirði sem hefur áhrif á athafnasvæði flugvallarins og vísað er í breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur. Óskað er eftir að borgarstjóri staðfesti sameiginlegan skilning hans og ráðherra um að flugvöllurinn verði tryggður í Vatnsmýrinni. Í loðnu svari borgarstjóra er vísað í „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkissins við Skerjafjörð“ sem gert var 1. mars 2013 þar sem borgin „skuldbatt“ sig til að hraða skipulagi og uppbyggingu umrædds svæðis. Miklar áhyggjur nefndarinnar eru fullkomlega réttmætar og ljóst að ekkert traust ríkir í garð borgarstjóra um að samkomulagið haldi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. og 15. lið yfirlitsins:
Tillaga Flokks fólksins um að kallað verði eftir upplýsingum frá foreldrum í tengslum við skóla án aðgreiningar hefur verið felld. Flokki fólksins finnst sem raddir foreldra heyrist ekki nægjanlega vel enda þótt sagt sé í svari að sífellt sé verið að spyrja foreldra um eitt og annað er varða börn sín og skólastarf. Það sést hins vegar hvergi samantekið hver séu viðhorf foreldra til skóla án aðgreininga og hvernig þeim finnst það fyrirkomulag sem er í gangi vera að mæta þörfum barna sinna. Það skiptir líka máli hvernig er spurt. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi minna á aðra tillögu sem einnig var felld en hún laut að því sama, að kalla fram skoðanir og viðhorf foreldra. Það var tillaga um skilaboða- og ábendingakassa í öllum skólum. Einhverjir skólar eru e.t.v. með slíkt fyrirkomulag. Þetta er ein leið til að auðvelda foreldrum að koma skoðunum sínum og ábendingum er varðar skólann og skólastarfið til skólayfirvalda á auðveldan og fljótlegan máta. Hugsun borgarfulltrúa er að leita allra leiða til að fá að heyra í foreldrum og í raun eiga engar stórar ákvarðanir að vera teknar án aðkomu foreldra. Spurning er t.d. hversu mikið foreldrar komu að tiltölulegri nýrri menntastefnu borgarinnar?
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20020004
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2020, ásamt fylgigögnum. R19110012
Frestað. -
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036
Öllum styrkumsóknum er hafnað.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf formanns borgarráðs, dags. 17. febrúar 2020, um fyrirkomulag funda borgarráðs. R20010188
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Formaður borgarráðs hefur ákveðið að taka ekki lengur tillögur og fyrirspurnir borgarráðsmanna inn í fundargerð borgarráðs sem varða málaflokka sem heyra til annarra fastanefnda að undanskildum málum þeirra flokka sem ekki eiga fulltrúa í viðkomandi fagráði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við þetta og finnst rökin, að þessi breyting leiði til minni álags á borgarráð, ekki trúverðug. Með þessari ákvörðun er dregið úr gagnsæi. Ef einhver skyldi vera að fylgjast með hvaða mál eru framlögð í borgarráð þá er ekki hægt að sjá þessi mál fari þau ekki í fundargerðina. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem sífellt sé verið að reyna að klípa af og þrengja réttindi minnihlutafulltrúa til að tjá sig og í þessu tilfelli er verið að reyna að fela tillögur og fyrirspurnir þeirra sem lagðar eru fram skriflega. Er þetta liður í að reyna að fela mál minnihlutans fyrir almenningi? Fyrir fulltrúa flokks sem situr einn á fundi skiptir máli að öll framlögð mál á fundinum komi inn í fundargerð. Borgarfulltrúa finnst sérkennilegt að ekki sé hægt að setja framlögð mál í fundargerð án þess að það þurfi að þýða mikið auka álag fyrir skrifstofu borgarstjórnar. Vissulega kallar það á að fundargerðin verði einni blaðsíðu lengri.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í bréfi formanns borgarráðs er verið að hnykkja á því verklagi sem á að vera í gildi í verkaskiptingu fagráða og borgarráðs samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar. Ekki er verið að draga úr gagnsæi né þrengja nokkur réttindi borgarfulltrúa sem hafa sem fyrr bæði tillögurétt og málfrelsi á fundum nefnda og ráða. Með því að beina framlagningu tillagna og fyrirspurna strax inn í þær fastanefndir sem borgarstjórn hefur ákveðið að fari með þann málaflokk er verið að stytta málsmeðferðartíma og auka gagnsæi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal, ásamt fylgiskjölum. R20020144
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Til stendur að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir dalinn sem festir í sessi stöðu hans sem borgargarðs. Vernda og varðveita á náttúrufar í dalnum um leið og tækifæri til útivistar batna enn frekar. Ekki er gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu og þá aðallega í tengslum við mögulega og sögu- og tæknisýningu. Endurbætt stígakerfi mun fjölga fjölbreyttum göngu- og hjólaleiðum og bæta þannig möguleika borgarbúa til að njóta dalsins á umhverfisvænan hátt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það svæði sem nú er skilgreint sem þróunarsvæði undir atvinnustarfsemi við Stekkjarbakka er undanskilið fyrirliggjandi deiliskipulagi Elliðaárdals. Það er miður. Eðlilegast hefði verið að skilgreina borgargarðinn víðar og ná þannig sátt um mörkun dalsins.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög sláandi að við deiliskipulag fyrir Elliðaárdal að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Biodome á að rísa. Fjármagnsöflin þurfa sitt. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Farið var yfir afar fjölbreytt lífríki dalsins og því ljóst að mengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á dalinn allan og þá sérstaklega ljósmengunin sem af henni hlýst. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Verið er að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga kinnroðalaust. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga. Ríkið ætti að friðlýsa svæðið strax og taka Elliðaárdalinn úr höndum Reykvíkinga til þess eins að koma dalnum úr klóm meirihlutans. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind. Elliðaárdalurinn er stærsta auðlind Reykvíkinga – henni er fórnað í þessu deiliskipulagi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn er einstakt svæði. Stekkjarbakki er þar ekki undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og að í framhaldinu hefði verið unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er. Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita af. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals, ásamt fylgiskjölum. R20020112
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við ýmsar endurbætur á sjö leikskólum vegna nýrra ungbarnadeilda. R20020164
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:Hér er um að ræða útboð vegna framkvæmda við sjö leikskóla í Reykjavík sem eru hluti af verkefninu Brúum bilið. Í þeim framkvæmdum er bætt við ungbarnadeildum við þessa skóla, en ásamt þeim deildum nýtast þessar framkvæmdir til úrbóta á aðstöðu innan húss, á lóð, á starfsmannaaðstöðu auk annarra breytinga sem eru til þess fallnar að bæta starf leikskólanna. Þessar framkvæmdir eru mikilvægur hluti af því markmiði borgarstjórnar að fjölga leikskólaplássum fyrir börn niður í 12 mánaða aldur, en einnig ber að fagna þeim mikilvægu húsnæðisúrbótum sem þessum framkvæmdum fylgja.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar að loksins eigi að fara í að byggja nýjar leikskóladeildir. Það er vissulega ekki við umhverfis- og skipulagssvið að sakast hversu illa hefur verið komið fram við dagforeldra á meðan verið er að „brúa bilið“. Verkefnið er ekki á áætlun. Farið var of geist í að skella hurðinni á dagforeldra. Á meðan bilið er ekki brúað þurfa önnur úrræði að vera áfram í fullri virkni. Síðastliðið haust gátu dagforeldrar ekki fyllt pláss sín fyrr en nær dró jólum. Frá júní og fram að jólum taka þeir því á sig heilmikla tekjuskerðingu. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgin styrki dagforeldra t.d. með því að greiða þeim sem samsvarar gæslu 5. barnsins nái þeir ekki að fylla öll pláss. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni á meðan verið er að „brúa bilið”. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 10. febrúar 2020, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. febrúar 2020 á samningum við Borgarhátíðir Reykjavíkur 2020-2022, ásamt fylgiskjölum. R19110013
Samþykkt.Arna Schram og Sif Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 17. febrúar 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 12. febrúar 2020 á tillögu að samþykkt sameiginlegra reglna um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu ásamt drögum að þjónustulýsingu, ásamt fylgiskjölum. R20020087
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð samþykkir sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Hér er um að ræða miklar breytingar til bóta fyrir notendur hennar, þar má nefna að takmarkanir á fjölda ferða eru afnumdar, notendur með bifreiðastyrk frá Tryggingastofnun ríkisins geti notað þjónustuna ef þeir kjósa og notkun á Strætó kemur ekki til skerðingar á rétti til akstursþjónustu. Eins er opnunartími á stórhátíðum lengdur og þróun á þjónustu með snjalltækjum mun gera þjónustuna aðgengilegri. Tekið er undir með umsagnaraðilum að uppsetning á myndavélum í þá bíla sem notaðir eru í þjónustunni eru mikilvægur þáttur í því að notendur upplifi sig örugga, enda séu þær einungis notaðar samkvæmt skýru ferli í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Kostnaðarskipting sveitarfélaganna vekur athygli, en samkvæmt 7. gr. samkomulags sveitarfélaganna ber Reykjavík 95% kostnaðar vegna þjónustuvers og umsýslu. Heildarkostnaðarhlutfall borgarinnar er 85% þegar allt er talið. Það er hátt hlutfall.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um gríðarlega mikilvæga þjónusta að ræða. Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi ábendinganna frá hagsmunaðilum um það sem má bæta í þjónustuveitingunni. Sósíalistaflokkurinn telur að það eigi ekki að vera í höndum einkaaðila að sjá um svo mikilvæga grunnþjónustu. Með útboði sjá einkaaðilar um að veita stóran hluta af þjónustunni. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir rask en fulltrúi sósíalista telur að það þurfi að hverfa af þeirri braut þar sem grunnþjónusta er boðin út. Gott er að sjá ýmis eldri ákvæði felld brott t.d. varðandi þjónustu til þeirra sem eiga rétt á bílastyrk hjá Tryggingastofnun ríkisins og að ferðafjöldi sé ekki takmarkaður. Það er þó mikilvægt að skerða ekki þjónustutímann en lagt er til að almennur aksturstími verði til 24:00 í stað 01:00. Umsögn aðgengis- og samráðsnefndar bendir á mikilvægi þess að tryggja rétt fatlaðs fólks til að fara ferða sinna til jafns við aðra og að breytingin gæti t.d. haft áhrif á þá sem hyggjast fara í kvikmyndahús eða á skemmtistaði seint um kvöld, en fáar leigubílastöðvar bjóða upp á aðgengilega bíla að nóttu til. Umsögn Öryrkjabandalags Íslands bendir á félagslegu áhrifin, að fólk gæti þá þurft að fara fyrr heim. Slíkt skiptir ungu fólki sérstaklegu máli.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillöguna og fagnar öllum góðum breytingum. Eftirfarandi atriði þyrftu þó að vera lagfærð: Þjónustutíminn verði ekki styttur frá kl. 01:00 til 24:00 á virkum dögum eins og áætlað er. Sú breyting mun þýða að fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fer í bíó, leikhús eða annað út á kvöldin á virkum dögum. Það þyrfti helst að vera einhver varnagli til, því leigubílastöðvarnar tryggja ekki að lyftubílar séu í akstri eftir miðnætti. Hafa mætti t.d. útkallsmöguleika. Akstursþjónustan býðst ekki utan við mörk sveitarfélaganna sem reka hana. Það er bagalegt því landsbyggðarstrætó er alveg óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, sem og flugrútan. Það væri æskilegt að akstursþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á akstur til og frá flugstöðinni í Keflavík sem fyrsta skref. Akstursþjónustan er enn of ósveigjanleg í nýjum reglum. Miðað er við að pantað sé með a.m.k. tveggja klukkustunda fyrirvara. Hægt ætti að vera að óska eftir bíl með styttri fyrirvara. Ef bíll er laus þá getur þjónustan boðist fljótt. Lipurð og sveigjanleiki skiptir öllum máli án tillits hvað reglur segja. Reyna skal ávallt að koma til móts við notendur. Koma mætti fram í skilmálum að ekki sé hægt að tryggja lausan bíl fyrr en eftir ákveðinn tíma frá pöntun.
Regína Ásvaldsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Erlendur Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. febrúar 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi að sameiginlegri akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og drög að samningi milli Strætó bs. og Reykjavíkurborgar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness vegna framkvæmda akstursþjónustu fyrir fatlað fólk, fötluð skólabörn og eldri borgara. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að heimila Strætó bs. að fara í útboð á þjónustunni sbr. hjálagt bréf frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 10. febrúar 2020. R20020087
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð fagnar því að náðst hafi samkomulag milli fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk, fötluð skólabörn og eldri borgara. Borgarráð heimilar að Strætó bs. fari í útboð á þjónustunni á grundvelli þessa samkomulags.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Kostnaðarskipting sveitarfélaganna vekur athygli, en samkvæmt 7. gr. samkomulags sveitarfélaganna ber Reykjavík 95% kostnaðar vegna þjónustuvers og umsýslu. Heildarkostnaðarhlutfall borgarinnar er 85% þegar allt er talið. Það er hátt hlutfall.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um gríðarlega mikilvæga þjónusta að ræða. Með útboði sjá einkaaðilar um að veita stóran hluta af þjónustunni. Sósíalistaflokkurinn telur að það eigi ekki að vera í höndum einkaaðila að sjá um svo mikilvæga grunnþjónustu. Það er mikilvægt að byggja upp góða þjónustu og koma í veg fyrir rask en fulltrúi sósíalista telur að það þurfi að hverfa af þeirri braut þar sem grunnþjónusta er boðin út. Strætó bs. mun sjá um utanumhald á þjónustuveri og slíkt verður ekki boðið út. Fulltrúi sósíalista ítrekar hér skoðun sína að það sé mikilvægt að bjóða ekki út neina af þessari mikilvægu þjónustu á ákveðnu ára tímabili, heldur að grunnþjónusta sé veitt af fastráðnu starfsfólki og að þjónustuveitingin sé ekki í höndum einkaaðila. Í því samhengi er mikilvægt að skoða alla þá þætti sem skipta máli til að byggja upp góða þjónustu líkt og hvort að fjárveitingar til almenningssamganga séu nægilegar og alla aðra þætti sem skipta þar máli.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillöguna og fagnar öllum góðum breytingum. Eftirfarandi atriði þyrftu þó að vera lagfærð: Þjónustutíminn verði ekki styttur frá kl. 01:00 til 24:00 á virkum dögum eins og áætlað er. Sú breyting mun þýða að fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fer í bíó, leikhús eða annað út á kvöldin á virkum dögum. Það þyrfti helst að vera einhver varnagli til, því leigubílastöðvarnar tryggja ekki að lyftubílar séu í akstri eftir miðnætti. Hafa mætti t.d. útkallsmöguleika. Akstursþjónustan býðst ekki utan við mörk sveitarfélaganna sem reka hana. Það er bagalegt því landsbyggðarstrætó er alveg óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, sem og flugrútan. Það væri æskilegt að akstursþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á akstur til og frá flugstöðinni í Keflavík sem fyrsta skref. Akstursþjónustan er enn of ósveigjanleg í nýjum reglum. Miðað er við að pantað sé með a.m.k. tveggja klukkustunda. fyrirvara. Hægt ætti vera að óska eftir bíl með styttri fyrirvara. Ef bíll er laus þá getur þjónustan boðist fljótt. Lipurð og sveigjanleiki skiptir öllum máli án tillits hvað reglur segja. Reyna skal ávallt að koma á móts við notendur. Koma mætti fram í skilmálum að ekki sé hægt að tryggja lausan bíl fyrr en eftir ákveðinn tíma frá pöntun.
Regína Ásvaldsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Erlendur Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 18. febrúar 2020, um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 35/1970 um Kristnisjóð o.fl., með síðari breytingum. R20010394
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 17. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um málefni Skerjafjarðar í kosningu um Hverfið mitt, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019. R19110128
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
„Göngustígur við Skerjaförð“ var ranglega settur í flokkinn Vesturbær. Lesa má út úr svarinu að borgin hafi sett þessa hugmynd í rangan flokk því greint er frá því í svarinu að verkefnisstjóri ákvarði eftir vandlega yfirlegu hvar tillögur lenda. Í raun er þetta svar ekki að svara fyrirspurninni en í því felst ákveðin viðurkenning um að mistök hafi orðið enda var ósamræmi í myndlýsingu og texta. Er það mjög miður. Talað er um önnur verkefni en ekki lýsingu í Skildingarnesi og því er ekki svarað hvers vegna trekk í trekk – ár eftir ár er spurt sömu spurningarinnar þrátt fyrir að henni hafi verið hafnað ítrekað. Talað er um kolefnisspor á hátíðarstundu hjá borginni en engin innistæða er fyrir því eins og þetta svar upplýsir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 17. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um yfirvinnubann í leikskólum, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020. R20010311
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirhugaðar framkvæmdir í samgöngum, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019. R19090128
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér var m.a. spurt um þrengingar vegna framkvæmda. Það er erfitt fyrir fólk að búa við þetta ástand víðs vegar um borgina og ekki síst vegna þess að engar áætlanir standast tímaáætlun. Reynslan sýnir að tímaáætlanir standast ekki, verktími fer sífellt langt fram úr áætlun. Tillaga Flokks fólksins um snjallstýringu ljósa var vísað frá. Það mál þarf kannski að taka aftur upp og fá skýran rökstuðning frá skipulagsyfirvöldum af hverju snjallstýring ljósa er ekki komið á.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. febrúar 2020, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áætlanir um að setja Miklubraut í stokk, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019. R19090131
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Vitað er að með því að setja umferðaræð í stokk má minnka helgunarsvæði vega og þar með að auka möguleika á byggingum og svæðum til ýmissa nota. Þar liggja jákvæðir möguleikar. En það kostar mikið í þessu tilfelli, eða um 22 milljarða. Vandséð er að með því að leggja veg í stokk muni umferðarhraði aukast. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða, annað hvort við austur- eða vesturenda. Bílvélar í hægagangi mynda mengað loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta fram hjá. Í svarinu frá umhverfis- og skipulagssviði er hugmynd sett fram; að hreinsunarbúnaður verði við útflæðisstrompa. Þetta hefur ekki heyrst áður. Er ætlunin að setja upp síur til að sía útstreymisloftið? Ef síur virka stíflast þær. Þá þarf að skipta þeim út, eða hreinsa. Einnig er mögulegt að koma menguðum lofttegundum í vatn og leiða brott. Hefur kostnaður við þetta verið kannaður? Er ekki líklegast að mengaða loftið verði látið flæða um einhver svæði og vonað að vindar munu dreifa því?
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt áætlunum kostar 22 milljarða að setja Miklubraut í stokk. Þetta er svo galið að óskiljanlegt er að sú hugmynd sé ennþá upp á borðinu. Nýbúið er að endurgera Miklubrautina með tilheyrandi kostnaði. Reykjavíkurborg verður að gera grein fyrir því hvað eigi að gera við bílana sem keyra um Miklubrautina ef til framkvæmda kemur. Hvað með aðgengi að Landsspítalanum við Hringbraut? Öryggisjónarmiðum er fórnað ef til rýmingar höfuðborgarsvæðisins kæmi. Hvar eru eftirlitsaðilar ríkissins?
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um orkuskipti og fjöldatakmarkanir leigubíla, frá 12. september 2019. R19090135
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari við fyrirspurn um orkuskipti og fjöldatakmörkun leigubíla segir að fjöldatakmarkanir eru ekki á forræði sveitarfélagsins. Borgin getur gert kröfu að leigubílar verði búnir hreinum orkugjöfum. Flokkur fólksins telur að borgin geti í öllum útboðum tekið fram að bílar aki ekki á jarðefnaeldsneyti heldur bara rafmagni eða metan. Þetta er allt í höndum borgarinnar, þ.e. í útboði ákveður borgin sín skilyrði um t.d. að einungis verði rafmagns eða metanbílar notaðir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ný LED auglýsingaskilti sem verið er að setja upp í borginni, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. R19110056
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja ítreka það að vönduð sé öll vinna þegar kemur að uppsetningu skilta í borgarlandinu. Því miður var það ekki gert þegar LED skilti var sett upp við Strandveg í Grafarvogi. Skiltið var sett upp við gönguþverun og því hættulegt þeim sem áttu leið yfir Strandveg. Skiltið var tekið niður eftir ábendingar Sjálfstæðisflokks enda var skiltið ekki sett upp í samræmi við samþykktir um skilti í Reykjavík. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að frágangur sé kláraður þar sem skiltið stóð enda er þar að finna raflagnir sem standa upp úr steypuklump sem hafa verið vafðar í plastpoka.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að ræða almenna lýsingu í borginni þótt svarið sé um LED auglýsingaskilti sem verið er að setja upp í borginni. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að LED lýsing er stórmál og sennilega mjög kostnaðarsöm breyting. En þetta er framtíðin, og óhjákvæmilegt að komi. Reykjavík er eftir á með alla svona hluti, er orðin gamaldags hvað varðar lýsingu í borginni. Skipulagsyfirvöld hafa verið lengi að taka við sér. Af hverju er ekki LED lýsing t.d. komin í Mjódd eða á Hlemmi?
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skilgreiningu á hringtorgi, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019. R19110127
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi fyrirspurn var sett fram til að skilgreina skilning Reykjavíkurborgar á hringtorgum. Spratt málið upp vegna Hagatorgs í vesturbæ Reykjavíkur vegna framkvæmda og breytinga á torginu. Komið var fyrir strætóstoppistöð í hringtorginu sem gerði það að verkum að vagnstjórar urðu brotlegir við lög. Upplýsingastjóri Reykjavíkur lét hafa eftir sér í fjölmiðlum: „Þetta er ekki hringtorg, heldur akbraut. Þetta er vissulega torg, en ekki endilega hringtorg þó að það liggi í hring.“ Vitleysan í Reykjavík á sér engin takmörk. En nú er komið í ljós að borgin hefur ekki sérstakar skilgreiningar á hringtorgum en telur sig þurfa að fara að lögum þegar kemur að hringtorgum. Þetta er nú meiri hringavitleysan. Broskall.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í svari að borgin telur sig þurfa að fara að lögum þegar kemur að hringtorgum. Svo virðist sem borgin vilji virða sum lög en ekki önnur. Gott að heyra það, en þarf ekki líka að fylgja nýjum umferðarlögum sem kveða á um að P merktir bílar hafi heimild til að aka og leggja í göngugötu? Þau lög tóku gildi 1. janúar 2020 og ekki er séð að farið sé að virða þetta ákvæði. Varðandi hringtorg þá hafa skipulagsyfirvöld sett strætóstoppistöð í mitt hringtorgið á Hagamel. Samræmist það lögum? Um daginn þegar veður var válynt þurfti að færa biðstöðina af torginu og inn á Birkimel og er það ekki í fyrsta sinn. Í nóvember þurfti Reykjavíkurborg að færa strætóbiðstöðvar bæði við Hagatorg og Hádegismóa út fyrir hringtorgin sem biðstöðvarnar voru við. Biðstöðvunum tveimur var lokað vegna óvissu um lögmæti þeirra, en samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að stöðva ökutæki í hringtorgum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á reglum um systkinaafslátt vegna systkina með sitthvort lögheimilið, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. nóvember 2019.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að borgarráð beini því til skóla- og frístundaráðs að láta fara fram skoðun og greiningu á áhrifum þess ef gjaldskrám fyrir leikskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar, verði breytt á þann hátt að reglur um systkinaafslátt taki einnig til fjölskyldna þar sem systkini hafa sitthvort lögheimilið. R19110062
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Meirihlutinn virðist ætla að standa við lokun Laugavegar og fleiri gatna í miðbænum sem skapar mörg vandamál. 1. Er ætlunin að hafa tvístefnu milli Snorrabrautar og Barónsstígs þegar búið er að loka Laugaveginum frá Hlemmi þegar fólk kýs að nota Stjörnuports bílastæðishúsið? 2. Er það í fyrsta sinn sem Laugavegurinn yrði tvístefnugata eða hefur hann verið það áður og þá hvaða ár var það? R19070069
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Foreldrar hafa ítrekað reynt að komast í samband við embættismenn borgarinnar en það gengur illa. Það hefur aldrei verið gerð alvöru úttekt eftir að sagt var að „verki“ væri lokið. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið þarna gengið í gegn en slík heimsókn hefur aldrei skilað sér segja foreldrar barna í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins vill að skóla- og frístundarráð taki málið alvarlega og bregðist við með öðru en þögn. Eftir að hafa rætt við foreldra er það upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að margir treysti heilbrigðiseftirlitinu ekki lengur og ekki heldur mælitækjum þeirra. Ef ekki er eitthvað sýnilegt er hreinlega metið að ekkert sé að. Slík vinnubrögð eru með eindæmum ófagleg ef rétt reynast. Nú eru börn að veikjast aftur. Málið þolir því enga bið. R20020201
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fram til þessa er aðeins verið að sjá toppinn á ísjakanum. Eftir að meirihlutinn í borginni hefur vanrækt að halda við skólahúsnæði árum saman er komið að skuldadögum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag. Í þessum málum ríkir óreiða. Í húsnæði eins og Fossvogsskóla þar sem áratuga vanræksla verður til þess að húsið nánast eyðileggst er enn vandi þótt farið hafi verið í endurbætur. Nú eru börn aftur farin að veikjast. Hefjast verður handa að nýju með því að gera almennilegar mælingar og í framhaldi fara í þær framkvæmdir sem mælingar sýna að þurfi að gera. En þar sem enginn verkferill er til þegar mál af þessu tagi koma upp gerist ekki mikið og mörgum finnst að sópa eigi vandanum undir teppi. Borgarfulltrúi skynjar að lítið er eftir af trausti í garð meirihlutans í borgarstjórn, skóla- og frístundaráðs og heilbrigðiseftirlitsins. Allir eru orðnir þreyttir á ástandinu og ekki síst hvað kerfið er seint að taka við sér og hvað langan tíma það tekur að bregðast við. R20020203
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins óskar eftir að spyrja um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Þar kom aftur upp leki í nóvember þar sem yngstu börnin eru og aftur eru komin upp alvarleg veikindi. Börn eru ítrekað að veikjast og ekki næst samband við heilbrigðiseftirlitið til að gera alvöru mælingar. Er þetta komið út í það að borgin axli ekki lengur ábyrgð og að foreldrar og foreldrafélag verði að taka málið í eigin hendur og kaupa mælingar sjálft. Foreldrar eru ekki tilbúnir að fórna heilsu barna sinna degi lengur á meðan borgarmeirihlutinn stingur hausnum í sandinn og lætur sem ekkert sé. Að minnsta kosti 7 börn sýna einkenni nú og einhverjir foreldrar og kennarar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundaráð og Heilbrigðiseftirlitið er lengi að taka við sér og lætur eins og vandinn sé jafnvel bara léttvægur. Þetta er í það minnsta upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. R20020201
Fundi slitið klukkan 11:11
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Alexandra Briem Líf Magneudóttir
Hildur Björnsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2002.pdf