Borgarráð - Fundur nr. 5574

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 13. febrúar, var haldinn 5574. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Pétur Ólafsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 15. janúar 2020. R20010020

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 3. febrúar 2020. R20010025

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 30. janúar 2020. R20010017

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R20020003

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins sbr. 17. liður í fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga: 

    Svar stjórnar sambandsins til Miðflokksins ásamt þeim máttlitlu breytingartillögum á samþykktum sem starfshópurinn leggur til, gefa ríkt tilefni til að borgarráð veki athygli framkvæmdastjóra lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á málinu og fái álit hennar á vinnubrögðum sambandsins er kemur að valdreifingu og valddeilingu. Ekki er síður mikilvægt að fá frá ÖSE tillögu að lýðræðislegum umbótum og samþykktum fyrir sambandið. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna árið 2018 urðu á þann veg að fjórflokkarnir (D, B, S og VG) fengu 201 af 502 sveitarstjórnarfulltrúum kjörna eða um 40% fulltrúa á landsvísu. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er skipuð 11 sveitarstjórnarfulltrúum, þar af tilheyra 10 fjórflokknum. Starfshópur um endurskoðun samþykkta sambandsins var allur skipaður fulltrúum fjórflokksins en ekki úr mengi 60% kjörinna fulltrúa. Það er hneyksli. Augljóst er að val og kjör í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga endurspeglar ekki  á neinn hátt úrslit kosninganna og er þar farið allverulega á svig við vilja kjósenda og þekkta lýðræðisvitund almennings. Áhyggjuefni er að samþykktir sambandsins, verklag og vinnubrögð eru mjög í anda þeirra popúlistaflokka sem vaxandi stuðningur er við um þessar mundir í Evrópu þ.e.: „Þegar þú ert orðinn sigurvegari þá tekur þú valdið allt, í stað þess að dreifa valdinu og deila valdinu.“ Tilvitnun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sveitarfélög á íslandi geta óskað eftir að vera aðilar að Sambandi Íslenskra sveitarfélaga og kjósa þar með sína fulltrúa á landsþing sem er æðsta vald Sambandsins. Um fjölda aðalfulltrúa á landsþingi má lesa í samþykktum sambandsins https://www.samband.is/um-okkur/log-sambands-islenskra-sveitarfelaga/  Landsfundarfulltrúar kjósa sér forystu og aðeins landsfundur getur breytt samþykktum. Landsfundur í september 2018 samþykkti tillögu þess efnis að settur yrði á fót starfshópur með ákveðin verkefni og mun hann skila af sér á landsfundi 26. mars næstkomandi. Á þeim lýðræðislega vettvangi geta allir fulltrúar tekið þátt í umræðum og tekið þátt í mótun samþykkta sambandsins. Gífuryrðum Miðflokksins verður ekki svarað.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2019, ásamt fylgigögnum. R19110012

    Frestað.

  6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036

    Öllum styrkumsóknum er hafnað.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir Sjómannaskólareit og Veðurstofuhæð, ásamt fylgiskjölum. R11060102

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með staðfestingu á þessari aðalskipulagsbreytingu er tryggt að til frambúðar verði grænt svæði umhverfis stakkstæðin í Saltfiskmóanum. Það sama á við um Vatnshólinn og næsta nágrenni hans. Það var ekki í eldra aðalskipulagi, þá var svæðið allt skilgreint sem þróunarsvæði og engin vernd var á grænum svæðum innan reitsins. Til að undirstrika þessi afmörkuðu grænu svæði mun skilgreining hverfisverndar verða látin gilda um bæði þessi svæði í aðalskipulagi. Einnig eru skilgreind til viðbótar grænt svæði fyrir framan Sjómannaskólann og annað minna norðan hans. Aðalskipulagsbreyting þessi er því bæði að heimila aukna íbúðauppbyggingu fyrir fólk á sama tíma og hún verndar græn svæði á reitnum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það vekur furðu að hér sé samþykkt aðalskipulagsbreyting á tveimur óaðskildum reitum samtímis þ.e. annars vegar Sjómannaskólareitnum og hins vegar Veðurstofureitnum. Málið virðist afgreitt í óþarfa flýti enda liggja ekki enn fyrir drög að deiliskipulagi fyrir Veðurstofureitinn. Það verður aftur á móti að teljast jákvætt hvað Sjómannaskólareitinn varðar, að tekið hefur verið tillit að einhverju leyti til framkominna athugasemda um skipulagið. Þannig hefur íbúðum verið fækkað og lagt til að Saltfiskmóinn verði skilgreindur til frambúðar sem opið svæði með verndarskilgreiningu í deiliskipulagi vegna menningarlegs gildis. Sömuleiðis er jákvætt að Vatnshóllinn, vatnsgeymarnir og nærliggjandi svæði, sem hafa menningarsögulegt gildi og eru vitnisburður um sögu vatnsveitu í Reykjavík, verði skilgreindir sem hverfisverndarsvæði.

    Áheyrnarfulltrúi Sósialistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar að dregið hafi verið úr byggingamagni þannig að Saltfiskmóinn, Vatnshóllinn og Sjómannaskólinn fái að njóta sín betur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Upp hefur komist um blekkingarleik og ósannindi borgarstjóra og meirihlutans í þessu máli. Látið var líta út fyrir að tillit hafi verið tekið til fjölmargra athugasemda og óánægju frá umsagnaraðilum á Sjómannaskólareitnum. Hagsmunasamtökin Vinir Saltfiskmóans upplýstu um það í fréttatilkynningu í vikunni. Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að borgin hafi stækkað lóð Sjómannaskólans að kröfu framkvæmdasýslunnar fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Borgin hafi fallið frá uppbyggingu námsmannaíbúða framan við Sjómannaskólann að kröfu Minjastofnunar Íslands. Borgin tók ákvörðun um að Vatnshóllinn og stakkstæðið í Saltfiskmóanum njóti hverfisverndar samkvæmt tilmælum frá Borgarsögusafni Reykjavíkur, en eftir sem áður virði borgin enn ekki 15 metra helgunarsvæði stakkstæðisins í samræmi við lög um menningarminjar. Tekið eru undir með samtökunum að fagna því að Minjastofnun og Borgarsögusafn hafi staðið vörð um menningarminjar á reitnum í andstöðu við yfirgang meirihlutans í Reykjavík. Mikið áhyggjuefni er að ekki hafa komið fram tillögur hvernig bregðast eigi við fjölgun barna í hverfinu hvað varðar leikskóla og grunnskóla því þeir sinna ekki þörfum hverfisins með góðu móti í dag. Innviðirnir eru ekki tilbúnir til að taka á móti þessum áformum þrátt fyrir minnkun byggingamagns.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er eins með Sjómannaskólareitinn og Stekkjabakkareitinn. Deiliskipulagið hefur fengið óhemju viðbrögð og því miður mörg neikvæð. Einhverjir telja klárlega að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð. Flokkur fólksins fagnar að dregið hafi úr byggingarmagni og að Vatnshóllinn og Saltfiskmóinn fái nú að njóta sín betur. Það er hins vegar mat Flokks fólksins að almennt séð megi endurskoða það samráðsferli sem er við lýði þannig að það virki betur. Sú reiði og pirringur borgarbúa gagnvart deiliskipulagi og ekki einvörðungu á þessum reit heldur víða er ekki einleikið. Flokkur fólksins hefur ávallt sagt að bjóða þarf borgarbúum að borðinu á fyrstu stigum. Þétting byggðar er það sem þessi meirihluti setur á oddinn eins og ekkert annað skipti máli. Þétta skal byggð núna sama hvað hver segir og þótt það fari jafnvel gegn vilja fjölda manns, íbúa svæðisins. Þegar börn almennt séð tjá sig um hvernig þau vilja hafa umhverfi er einmitt mikilvægt að hlusta. Það var gert í þessu tilfelli sem hér um ræðir og fagnar borgarfulltrúi því. Börnin eiga að hafa mikið um þessi mál að segja ekki síður en fullorðnir enda er framtíðin þeirra. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Sjómannaskólareit 1.254.2., ásamt fylgiskjölum. R19050196

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Komið hefur verið til móts við margar af þeim athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma deiliskipulagsins og dregið verulega úr byggingarmagni og íbúðum fækkað. Við breytingar stækkuðu útvistarsvæðin á reitnum verulega. Dýpt byggingarreita við Stakkstæðin er minnkuð til að draga byggingarnar fjær Stakkstæðunum. Sérafnotafletir mega nú ekki vera innan 15 metra helgunarsvæðis við Stakkstæðin. Byggingarreitir við Saltfiskmóann hafa einnig verið minnkaðir og verður nú stærri hluti hans grænt svæði fyrir leiki og útivist. Innan sjónlína frá Sjómannaskólanum að Háteigsvegi er nú ekki heimilt að reisa byggingar og fellur við það út byggingarreitur H1 með 50 íbúðum. Svæðið við Vatnshólinn stækkar og er skilgreint sem grænt svæði fyrir almenning. Það verður útfært sem útivistar- og leiksvæði fyrir börn og fullorðna. Heildaryfirbragð reitsins alls verður grænna, mikilvægur gróður og menningarminjar fá að halda sér og skapast með því vonandi meiri sátt um mikilvæga húsnæðisuppbyggingu í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Sósialistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar að dregið hafi verið úr byggingamagni þannig að Saltfiskmóinn, Vatnshóllinn og Sjómannaskólinn fái að njóta sín betur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Upp hefur komist um blekkingarleik og ósannindi borgarstjóra og meirihlutans í þessu máli. Látið var líta út fyrir að tillit hafi verið tekið til fjölmargra athugasemda og óánægju frá umsagnaraðilum á Sjómannaskólareitnum. Hagsmunasamtökin Vinir Saltfiskmóans upplýstu um það í fréttatilkynningu í vikunni. Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að borgin hafi stækkað lóð Sjómannaskólans að kröfu framkvæmdasýslunnar fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Borgin hafi fallið frá uppbyggingu námsmannaíbúða framan við Sjómannaskólann að kröfu Minjastofnunar Íslands. Borgin tók ákvörðun um að Vatnshóllinn og stakkstæðið í Saltfiskmóanum njóti hverfisverndar samkvæmt tilmælum frá Borgarsögusafni Reykjavíkur, en eftir sem áður virði borgin enn ekki 15 metra helgunarsvæði stakkstæðisins í samræmi við lög um menningarminjar. Tekið eru undir með samtökunum að fagna því að Minjastofnun og Borgarsögusafn hafi staðið vörð um menningarminjar á reitnum í andstöðu við yfirgang meirihlutans í Reykjavík. Mikið áhyggjuefni er að ekki hafa komið fram tillögur hvernig bregðast eigi við fjölgun barna í hverfinu hvað varðar leikskóla og grunnskóla því þeir sinna ekki þörfum hverfisins með góðu móti í dag. Innviðirnir eru ekki tilbúnir til að taka á móti þessum áformum þrátt fyrir minnkun byggingamagns.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er eins með Sjómannaskólareitinn og Stekkjabakkareitinn. Deiliskipulagið hefur fengið óhemju viðbrögð og því miður mörg neikvæð. Einhverjir telja klárlega að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð. Flokkur fólksins fagnar að dregið hafi úr byggingarmagni og að Vatnshóllinn og Saltfiskmóinn fái nú að njóta sín betur. Það er hins vegar mat Flokks fólksins að almennt séð megi endurskoða það samráðsferli sem er við lýði þannig að það virki betur. Sú reiði og pirringur borgarbúa gagnvart deiliskipulagi og ekki einvörðungu á þessum reit heldur víða er ekki einleiki. Flokkur fólksins hefur ávallt sagt að bjóða þarf borgarbúum að borðinu á fyrstu stigum. Þétting byggðar er það sem þessi meirihluti setur á oddinn eins og ekkert annað skipti máli. Þétta skal byggð núna sama hvað hver segir og þótt það fari jafnvel gegn vilja fjölda manns, íbúa svæðisins. Þegar börn almennt séð tjá sig um hvernig þau vilja hafa umhverfi er einmitt mikilvægt að hlusta. Það var gert í þessu tilfelli sem hér um ræðir og fagnar borgarfulltrúi því. Börnin eiga að hafa mikið um þessi mál að segja ekki síður en fullorðnir enda er framtíðin þeirra. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.184.0 vegna lóðarinnar nr. 18 við Bergstaðastræti. R20020075

    Synjun skipulags- og samgönguráðs staðfest. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á auglýsingu að breytingu á deiliskipulagi Bústaðavegar 151-153, ásamt fylgiskjölum. R18100198

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á umsögn skipulagsfulltrúa vegna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, 1. áfanga, ásamt fylgiskjölum.  R19070069

    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna og Hildar Björnsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn tveimur atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í sáttmála flokkanna sem mynda meirihluta í Reykjavík segir: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“ Hér er verið að samþykkja 1. áfanga af varanlegri göngugötu á Laugaveginum, áfanga sem nær meðal annars frá Ingólfsstræti að Klapparstíg. Aukin áhersla á göngusvæði er hluti af þróun sem á sér stað víða um heim, í mörgum borgum á ólíkum lengdar og breiddargráðum. Þegar sífellt fleiri keppa um sama svæðið verður mikilvægara að við gefum gangandi og hjólandi aukið pláss. Með göngugötum erum við að styðja við umhverfisvænni ferðamáta og skapa líflegri borg til framtíðar fyrir fólk og umhverfi. Við fögnum þessum áfanga.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa frá upphafi lagt áherslu á að útfærsla göngugatna verði unnin í góðu samráði við notendur, rekstraraðila og hagsmunasamtök. Samráðsleysi vegna umfangsmikilla framkvæmda síðastliðna mánuði, síhækkandi fasteignaskattar, launahækkanir og aukin netverslun eru meðal þátta sem hafa valdið erfiðleikum í verslun í miðborg Reykjavíkur. Mikilvægt er að hlúa vel að miðborginni, ekki síst þegar þrengir að í efnahagslífinu.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi sósíalistaflokksins fagnar áformum um Laugaveg sem göngugötu og fagnar því að aðgengismál verði í forgrunni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Svik, lygar og prettir lýsa best vinnubrögðum meirihlutans í þessu máli. Að engu voru höfð fyrirheit borgaryfirvalda til rekstraraðila og eiganda atvinnuhúsnæðis á svæðinu að göturnar yrðu opnaðar á nýjan leik hinn 1. október sl. Farið var þess í stað í varanlega skyndilokun. Það mætti halda að fulltrúar meirihlutans séu bæði blindir og heyrnalausir. Í það minnsta hefur gegndarlaus gagnrýni á að loka hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs fyrir bílaumferð og gera þær götur að varanlegum göngugötum ekki farið framhjá almenningi. Boðað er að unnið verði að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið og gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu m.m. Útsvarsgreiðendur eru hér með upplýstir að samkvæmt fyrstu kostnaðaráætlun átti það verk að kosta 600 milljónir. Frá því hefur nú verið fallið og boðið upp á smáskammtalækningar með minni kostnaði. Kjarkurinn er að bresta. Með Tryggvagötu, Óðistorgi og Hverfisgötu eru lagfæringar í 101 komnar langt yfir 2 milljarða. 2.000 milljónir í vita gagnslaus gæluverkefni á meðan grunnstoðir svelta. Fjárheimild fyrir árið 2020 í Laugavegsverkefnið er 100 milljónir. 100 milljónir í að leika sér með blómaker, bekki, og blúndur. Þvílík sóun á fjármunum. Minnt er á að nýbúið er að taka Laugarveginn allan í gegn með tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur. Þetta er nokkurskonar hreinræktuð þráhyggja gagnvart þessu svæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast ekki bílar á göngugöturnar. Í sumar verður Laugaveginum umturnað. Þetta svæði sem kallast hefur miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi fólks, líka Íslendinga. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna lokana gatna og breytinga á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur. Þessi ákvörðun hefur haft skaðleg áhrif á fjölda ólíkra verslana. Þær hafa ekki þrifist eftir að lokað var alfarið fyrir bílaumferð. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar og sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum á Laugavegi. Bíður rekstraaðila Laugavegar það sama og rekstraaðila Hverfisgötunnar? Þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum. Í það minnsta er það nokkuð víst að þegar framkvæmdir hefjast verður aðgengi að Laugavegi sennilega mjög erfitt líka fyrir gangandi og hjólandi.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. febrúar 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020 á breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Tryggvagötu 13, ásamt fylgiskjölum. R19010281

    Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að auka sveigjanleika íbúana varðandi atvinnustarfsemi og notkun húsnæðis í borginni. Á samdráttartímum er enn mikilvægara að aðilar hafi möguleika til að nýta eignir sínar í stað þess að þær standi tómar. Með húsnæðisstefnu sinni hefur meirihlutanum tekist að skapa á sama tíma skort á hentugu húsnæði og offramboð af ákveðnum tegundum eigna. Með því að heimila fjölbreyttari not húsnæðis minnkar höggið sem orðið hefur vegna misheppnaðrar stefnu meirihlutans. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það að fjármagnseigendur byggi óþarfar, allt of dýrar, lúxus íbúðir sem ekki seljast er ekki vandamál borgarinnar. Það væri óviðeigandi og óþolandi að fjármagnseigendur þyrftu enn og aftur ekki að taka afleiðingum ákvarðana sinna.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þrengingarstefna meirihlutans er gjaldþrota. Neyðarástand ríkir í miðbænum. Uppbyggingaáform ódýrra íbúða á svæðinu hafa mistekist. Ekki er eftirspurn eftir þeim íbúðum sem búið er að byggja enda var vitað að fermetraverð yrði hátt. Langtum dýrara er að byggja á þrengingarreitum en í nýbyggingarhverfum. Bjartsýniskastið sem greip meirihlutann virðist vera á enda. Mikil harka ríkir hjá borginni að gefa ekki undanþágur frá skilmálum deiliskipulags um hlutfall skrifstofurýma, íbúða- eða verslunarhúsnæðis og hótel/gistirýma. Í erindi þessu eru færð fram mjög sterk rök fyrir því að nauðsynlegt sé fyrir eigendur að fá nýtingu á hið nýbyggða fjölbýlishús í formi leigutekna í stað þess að láta húsnæðið standa tómt. Einungis er hér um tímabundna ráðstöfun að ræða. Í annað sinn er þessari beiðni hafnað og er það í engum takti við áform um lifandi miðbæ. Ófrávíkjanlegar reglur og ósveigjanlegt kerfi er að kæfa alla starfsemi í borginni þegar einkaframtakið sýnir frumkvæði að einföldum lausnum til sjálfsbjargar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir ársins 2020 við endurgerð og ýmsar lagfæringar á alls 16 lóðum við leik- og grunnskóla. R20020076

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Hagaseli 23. R20020074

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samningur Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytis um rekstur öryggisvistunar fyrir tvo einstaklinga í Rangárseli fellur úr gildi 30. júní nk. og verður ekki framlengdur. Frá og með 1. júlí nk. verður því einungis einn íbúðakjarni fyrir fatlað fólk í húsnæðinu að Rangárseli.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn heldur ótrauður áfram og troða um 600 m2 fjölbýlishúsi á þessa litlu lóð sem er hjarta svæðisins. Ákall hefur verið um að þetta græna svæði fái að halda sér eins og það er vegna þess ríka aðdráttarafls sem það hefur fyrir bæði börn og fullorðna árið um kring. Það er nýtt sem útivistarsvæði fyrir börn og þarna eru haldnar litlar hverfahátíðir. Lóðin er á stærð við frímerki í skilningi skipulags og er nokkurs konar miðja hverfisins sem tengir ýmsa starfsemi saman. Hvers vegna á að úthluta Félagsbústöðum þetta frímerki til uppbyggingar? Borgin á nóg af lóðum til að byggja á. Áfram skal haldið þvert á vilja íbúanna að skapa óróa og usla í stað þess að leyfa einu og einu grænu svæði að vera í friði innan hverfa borgarinnar. Þéttingar- og þrengingarstefnan sem líkja má við þráhyggju hefur hafið innreið sína í Breiðholtið. Að engu er höfð kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem íbúar sendu inn til nefndarinnar. Nefndin tók málið til efnismeðferðar og beðið er úrskurðar hennar. Það er lágmark að borgin bíði þar til úrskurður hennar liggur fyrir áður en stórtækar vinnuvélar eru sendar á svæðið með tilheyrandi raski.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að auglýsa eftir samstarfsaðila um þróun Toppstöðvarinnar við Elliðaárdal, ásamt fylgiskjölum. R16090153

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar eru áætlað að leggja 200 milljónir í viðgerðir á húsinu á næstu tveimur árum. Sú upphæð mun að öllum líkindum einungis duga til þess að bæta ytra byrði en umtalsvert meiri fjárfestingu þarf til þess að koma húsinu í góð framtíðarnot. Engar menningarminjar er að finna í húsinu og enginn hluti þess friðaður. Ekki er annað hægt en að fá Bragga- og matarhallarhroll þegar litið er yfir verkefnið. Varað er við að farið verði í framkvæmdir út í loftið ef enginn sýnir áhuga á rekstri í húsinu. Eins væri hægt að henda þeim peningum út um gluggann því á endanum þyrfti að rífa húsið.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á Sólvallagötu 79, ásamt fylgiskjölum. R20020002

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. febrúar 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. febrúar 2020 á tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um þjónustu við börn og barnafjölskyldur, ásamt fylgiskjölum. R20020077

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er fagnaðarefni að nýjar reglur um þjónustu við börn og barnafjölskyldur séu nú samþykktar en þær hafa það að markmiði að styrkja stuðningsnet barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík. Reglurnar byggja á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og barnaverndarlögum. Áhersla er á að heildaraðstæður fjölskyldu séu metnar með fjölskyldumeðlimum og að leitað sé fjölbreyttra leiða til að veita þann stuðning sem óskað er eftir. Stuðningur verði fjölbreyttur og veittur bæði innan heimilis og utan eftir hvað hentar hverju sinni. Hér eru mörg tækifæri til samsköpunar og þróunar þjónustu þannig að hún henti mismunandi þörfum fólks og styðji það í leik og starfi og stuðli að því að fleiri borgarbúar geti látið drauma sína rætast.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru lagðar fram breytingar á reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Í minnisblaði með tillögunni kemur fram að grundvallarbreytingar snúi að því að leggja aukna áhersla á samvinnu við umsækjanda um það hvers konar stuðningur komi fjölskyldunni til góða og að horfið sé frá því að stuðningsþörf sé metin á grundvelli stiga sem ákvarði fjölda klukkustunda sem börn og fjölskyldur þeirra fái í stuðning. Þar kemur fram að ný nálgun sé talin geta dregið betur fram stuðningsþarfir barna og fjölskyldna þeirra og að áhersla sé lögð á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og samþykktir til hagsbóta fyrir notendur. Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar þeirri nálgun. Í reglunum þar sem fjallað er um forgangsröðun umsókna kemur fram að þær raðist í forgangsröð á grundvelli ákveðinna viðmiða. Þar kemur fram að ef fyrirséð sé að stuðningurinn geti ekki hafist innan þriggja mánaða skuli umsókn sett á biðlista. Umsækjandi er þá upplýstur um áætlaða lengd á biðtíma og hvaða stuðningur standi til boða á biðtímanum sbr. ákvæði reglugerðar um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu, nr. 1035/2018. Hér er um gríðarlega mikilvæga þjónustu að ræða og mikilvægt að leita allra leiða svo að töf verði ekki á veittum stuðningi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins telur að þessar reglur séu til bóta enda leggja þær grunn að frekari styrkingu og stoðum til handa barna og fjölskyldna þeirra. Góður vilji og falleg orð eru til alls fyrst. Í nútíma samfélagi þar sem virða á lýðræði eiga þeir sem þjónustuna þiggja ávallt að segja til um hvers lags þjónustu þeir þurfa og vilja. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér enga grein fyrir hvort þeir sem sitja að samningu reglugerðar séu komnir með þessa nálgun inn að beini. Reynslan á eftir að sýna það en í því sambandi skiptir máli að hlusta á þjónustuþegann. Taka þarf allar athugasemdir alvarlega og láta þær verða að hvata til að horfa gagnrýnum augum á reglur og regluverk. Í þessum reglum er strax gert ráð fyrir löngum biðlista. Það eitt og sér vekur ugg. Margra mánaða biðlista á ekki að samþykkja sem gefinn. Að það skuli yfir höfuð minnst á biðlista í glænýju regluverki eru vísbendingar um að sú þjónusta sem reyna á að veita er undirfjármögnuð.

    Regína Ásvaldsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Elsa G. Jóhannesdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. febrúar 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. febrúar 2020 á tillögu um brottfall ákvæða úr reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R16110120

    Samþykkt.

    Regína Ásvaldsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Elsa G. Jóhannesdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. desember 2019, varðandi endurnýjun á þjónustusamningi við Fjölsmiðjuna, ásamt fylgiskjölum. Einnig eru lagðar fram umsagnir fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. febrúar 2020, og umsögn velferðarsviðs, ódags. R19120025

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölsmiðjan á höfuðborgarsvæðinu er starfsþjálfunar- og endurhæfingarúrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára. Markmiðið er að auka hæfni nemanna til þátttöku á vinnumarkaði eða undirbúa þá undir frekara nám. Reykjavíkurborg hefur tekið þátt í rekstri Fjölsmiðjunnnar frá upphafi eða í 19 ár og hefur samstarfið verið farsælt. Með samningi þessum mun Reykjavík standa áfram að rekstri Fjölsmiðjunnar næstu þrjú árin enda er hér um mikilvæga starfsemi i þágu ungmenna að ræða.

    Regína Ásvaldsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Elsa G. Jóhannesdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. febrúar 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. febrúar 2020 á tillögu um breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum. R16100329

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að hækka fjárhæð tekjumarka vegna sérstaks húsnæðisstuðnings um 3,5%. Fulltrúi Sósíalistaflokksins minnir á tillögur sósíalista um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs og breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings. Þar var lagt til að að reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning yrði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Hátt leiguverð er að sliga marga hér í borginni og því er nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti borgin getur komið til móts við þarfir borgarbúa sem eru margir í gríðarlega erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins (hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi. 

    Regína Ásvaldsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Elsa G. Jóhannesdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 10. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup, innleiðingu, hýsingu og rekstur á nýrri hugbúnaðarlausn fyrir samskiptalausn framlínu, ásamt trúnaðarmerktu fylgiskjali. R20020073

    Samþykkt. 

    Óskar Jörgen Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir og Óli Páll Geirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 10. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ráðstafa fjármagni sem ætlað er til stuðnings við innleiðingu upplýsingastjórnarkerfisins Hlöðunnar, ásamt fylgiskjali. R20020070

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Innleiðing nýs upplýsingastjórnunarkerfis Reykjavíkurborgar, sem fengið hefur heitið Hlaðan, er hafin. Um er að ræða gríðarstórt og umfangsmikið verkefni, eina stærstu hugbúnaðarinnleiðingu sem borgin hefur farið í. Tryggt hefur verið fjármagn í markvissa innleiðingu. Hlaðan mun skipta sköpum þegar kemur að gagnsæi, gagnastjórnun og skjalavistun sem mun nútímavæða borgina og auka verulega aðgengi allra að upplýsingum um það sem gerist hjá borginni. Í þessu felast einnig fjölmörg tækifæri þegar kemur að hagnýtingu gagna og markvissari notkun gagna og upplýsinga við alla ákvarðanatöku og stefnumótun.

    Óskar Jörgen Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir og Óli Páll Geirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf Þjóðskrár Íslands, dags. 4. desember 2019, varðandi þjónustusamning vegna álagningakerfisins og viðauka við samninginn. Einnig lögð fram umsögn fjármala- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. febrúar 2020. R20010153

    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 10. febrúar 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020. Greinargerðir fylgja tillögunum. R20010161

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. febrúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða beiðni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum um þriggja milljóna króna styrk vegna afmælishátíðar Vigdísar Finnbogadóttur þann 15. apríl nk. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110162

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. febrúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að auglýsingu um starf borgarritara, hjálögð drög að erindisbréfi um skipan ráðgefandi hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf borgarritara auk hjálagðra draga að áætlun um ráðningarferil vegna starfs borgarritara.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20020016

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Við byrjun árs 2019 voru nýjar reglur staðfestar um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði eru höfð að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum. Reglurnar gera ráð fyrir formlegu ráðningaferli sem skal samþykkt af borgarráði við upphaf þess, sem hér er verið að gera. Hæfnisnefnd skal halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Hér er lagt til að tveir af þremur nefndarmönnum verð utanaðkomandi aðilar. Því hefur verið með margvíslegu móti tryggt að gagnsæi og jafnræði ríki um ráðningar æðstu stjórnenda borgarinnar enda gríðarmikilvægt mál að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ábyrgðarsvið borgarritara er skýrt samkvæmt auglýsingunni og er það tekið upp úr starfslýsingu Reykjavíkur um starf borgarritara. Þar kennir ýmissa grasa sem beinlínis uppljóstrar að borgarritari hafi farið mjög út fyrir starfssvið sitt frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Sá sem verður ráðinn borgarritari verður að vera yfir pólitík hafinn og slíta verður hið nána samband borgarritara og borgarstjóra. Borgarritari á að þjónusta í fyrsta lagi alla borgarbúa og ekki síður kjörna fulltrúa hvar sem í flokki þeir standa. Núverandi borgarritari lýsti því yfir í viðtali að hann óskaði ekki eftir samstarfi við minnihluta borgarstjórnar eftir að hann kallaði þá tudda á skólalóð. Í byrjun kjörtímabils sýndi hann mikið óhæði með því að hjóla í undirritaða í fjölmiðlum og hafði rangt við ásamt skrifstofustjóra skrifstofu síns sjálfs og borgarstjóra. Skuldar hann mér enn opinbera afsökunarbeiðni vegna þess máls. Inn í starfslýsinguna vantar hlutleysiskröfu þess sem er ráðin/ráðinn. Hins vegar er gott að ákvæði sé um að lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum séu skilyrði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fulltrúar borgarráðs fái að vera með í ráðningarferli á nýjum borgarritara frá allra fyrstu stigum. Minna skal á að borgarritari er borgarritari minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Gera verður kröfu um framúrskarandi færni í samskiptum og mikilvægt er að sá sem ráðinn verður hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum. Að hann sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um lóðaréttindi og byggingarétt á lóð RÚV í Efstaleiti og þjónustumiðstöð í útvarpshúsinu, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010380

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir það fyrsta er það dæmalaust að ofh., félag ríkissins skuli standa í lóðabraski við Reykjavíkurborg og er vísað í ýmsa snúninga því tengdu langt aftur í tímann. Augljóst er af svarinu að leigudíll borgarinnar hefur verið innsiglaður á sama tíma og ákveðið var að hefja uppbyggingu á RÚV reitnum eins og dagsetningar bera með sér. Borgin hefur frá upphafi leigusamningsins reitt af hendi tæpar 300 milljónir í hið glorsoltna RÚV sem tekur sífellt til sín stærri og stærri köku af opinberu fé. Mánaðarleiga fyrir janúar voru tæpar 6 milljónir. Athygli vekur að Reykjavíkurborg leigir mun stærra pláss en þörf er á fyrir þjónustumiðstöðina og hvers vegna er það gert? Spurningu 10 sem hljóðar svo er ekki svarað: „Er ekki óeðlilegt að RÚV sem rekur stærstu fréttastofu landsins sé fjárhagslega háð Reykjavíkurborg með leigugreiðslum?" Er það nákvæmlega athyglisvert miðað við þær vendingar sem hafa átt hafa sér stað í ráðningu nýs útvarpsstjóra.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Leigusamningur um þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar í útvarpshúsinu er vel staðsett, leiguverð hagstætt og hagsmunir beggja, einsog fram kemur í svarinu. Tal um lóðabrask er vísað til föðurhúsanna enda hefur það lengi verið stefna borgarinnar að byggja upp á vannýttum lóðum í borgarlandinu eins og reynst hefur vel í Efstaleitinu í góðu samstarfi RÚV og Reykjavíkurborgar. Farsæl uppbygging hundruða íbúða ber þess best vitni.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skilamat vegna Klettaskóla, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R19050018

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 10. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavíkurborg skal skila gögnum og skýrslum til embættisins, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum. R20010220

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn ein kolsvört skýrsla, enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnkerfi Reykjavíkur. Þann 20. desember var skýrslunni skilað til borgarstjóra. Nú er hún loks komin á dagskrá borgarráðs og þá sem svar við fyrirspurn minni. Ekki að frumkvæði borgarstjóra. Ekki stendur steinn yfir steini í vinnubrögðum borgarinnar og á einum stað í skýrslunni stendur: „Í svari starfsmanns skrifstofu eigna og atvinnuþróunar segir „PDF væri best helst þannig að ekki sé hægt að opna þau“. Þessi samskipti áttu sér stað í september 2018. Í næsta tölvupósti spyr starfsmaður Arkibúllunnar hvort fundargerðirnar séu opinberar og hvort fjölmiðlar eigi rétt á aðgangi að þeim. Starfsmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar svarar því ekki en segist aðeins ætla að vista þær í GoPro en ekki dreifa þeim. Tölvupóstarnir voru vistaðir í GoPro 31. janúar 2019, sex dögum eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun þessa.“ Þetta er hrein og klár hylming á opinberum gögnum. Í mörgum tilvikum voru skjöl vistuð löngu eftir að þau voru búin til og svo mikil var ósvífnin að farið var í að vista mikið magn gagna eftir að Bragginn sprakk í andlit meirihlutans og eftir að Borgarsskjalasafn hóf athugun sína. Niðurstaða skýrslunnar er alveg skýr. Lög voru brotin, lög voru þverbrotin. Borgarstjóri verður að axla ábyrgð sem framkvæmdastjóri borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það má segja að skýrsla borgarskjalavarðar sé samhljóma skýrslu innri endurskoðanda um Nauthólsveg 100. Þegar er búið að bregaðst við niðurstöðum og ábendingum skýrslunnar og vinnu við innleiðingu er annað hvort lokið, stendur yfir eða er í viðeigandi ferli. Hafin er innleiðing nýs og öflugs upplýsingastjórnunarkerfis sem leysir af hólmi eldra skjalakerfi sem var í notkun á þeim tíma er skýrslan nær til. Sett hefur verið sérstakt fjármagn á fjárfestingaráætlun til að minnsta kosti næstu fimm ára í átak í skjala- og upplýsingastjórnun. Á síðasta ári urðu umtalsverðar breytingar á skipulagi borgarinnar sem bæði skýra, skerpa og útvíkka umboð þjónustu- og nýsköpunarsviðs varðandi skjalastýringu hjá stofnunum borgarinnar. Skjalamál hafa verið færð inn í nýstofnaða gagnaþjónustu borgarinnar sem gefur þeim enn frekara vægi en áður og undirstrikar mikilvægi skjala sem gagna. Borgarskjalasafn tilheyrir nú þjónustu- og nýsköpunarsviði sem styttir boðleiðir og gerir safninu kleift að hafa bein áhrif á högun skjalastýringar þar sem borgarskjalavörður á nú sæti í framkvæmdastjórn sviðsins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Athygli vekur að skýrsla Borgarskjalasafns um frumkvæðisathugun á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar frá síðasta ári sé núna fyrst birt borgarráði. Skýrslan staðfestir það sem fram kom í skýrslu Innri endurskoðunar um skjalamál. Í skýrslunni er staðfest að lög voru brotin, eða eins og segir í skýrslunni: „Niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur er að skjalavarsla og skjalastjórn SEA í tengslum við Nauthólsveg 100 var ekki í samræmi við lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og reglur settar á grundvelli þeirra.“ Þá vekur athygli að skjöl voru vistuð eftir að frumkvæðisathugun Borgarskjalasafns hófst. Þessi skýrsla gefur fullt tilefni til að borgarráð fái nánari upplýsingar um ástand á skjalavistun hjá Reykjavíkurborg og Borgarskjalavörður fái að kynna skýrsluna fyrir borgarráði. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari við fyrirspurn um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavíkurborg skal skila gögnum og skýrslum til embættisins kennir margra grasa. Ef litið er til skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 kom alveg skýrt fram að tölvupóstum hafði verið eytt. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í rannsókn til þar til bærra yfirvalda. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er erfið öllum.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um uppbyggingu á Vesturbugt, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020. R17040005

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er rannsóknarefni hvað borgin sýnir þeim aðilum sem hafa fengið úthlutað þessu svæði mikla þolinmæði. Hvað hangir á spýtunni? Á sama tíma hikar borgin ekki við að svipta aðila lóðum standi þeir ekki í skilum eða geti ekki fjármagnað uppbyggingu. Samningur var undirritaður 18. apríl 2017 eða fyrir tæpum þremur árum. Á fundi borgarráðs 14. mars sl. var samþykktur viðauki við samning aðila þar sem kveðið var á um að framkvæmdir á svæðinu skyldu hefjast eigi síðar en 1. október 2019. Framkvæmdir eru ekki hafnar og lóðarhafi hefur ekki lokið fjármögnun. Hvað er í þessu máli sem hindrar riftun og að nýtt úboð eigi sér stað? Því verður borgarstjóri að svara. Borgin gætir ekki jafnræðis milli aðila þegar kemur að riftun úthlutaðra lóða. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í Vesturbugt er um að ræða umfangsmikið og flókið samningskaupaferli og hefur borgarráði reglulega verið gerð grein fyrir stöðu þess. Það er ekki sjálfgefið að veittir séu frekari frestir og er það ekki gert nema málefnaleg rök séu fyrir og borgarráð samþykki.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfshóp um endurskoðun innri leigu, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010389

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er eftir að fá stjórnarformann og fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn SORPU til að fara yfir stöðu fyrirtækisins og ákvörðun um brottrekstur framkvæmdastjóra félagsins. R20020125

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Ósk um gögn vegna skýrslu borgarskjalavarðar vegna Braggans en umrædd gögn voru vistuð þann 29. janúar 2019, eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína. 1. Óskað er eftir frumkostnaðaráætlun vegna Braggans frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar frá því í júní 2014. 2. Óskað er eftir frumkostnaðaráætlun vegna Braggans frá umhverfis- og skipulagssviðs frá í júní 2015. 3. Óskað er eftir kostnaðaráætlun vegna Braggans sem fór fyrir borgarráð í júlí 2015. 4. Óskað er eftir öllum endurskoðuðum áætlunum Eflu vegna Braggans. R20010220

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Eins og margsinnis hefur komið fram hefur frístundakortið tapað sínu upphaflega markmiði þ.e. að gefa börnum tækifæri til að stunda íþróttir. Nú er seilst í það til að láta efnaminni og fátækt fólk nota það upp í greiðslu frístundaheimilis, (frá 2009), greiða fyrir tungumálaskóla sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð og fyrir skuldadreifingu hjá borginmi. Nú hefur verið myndaður stýrihópur um frístundakortið og vill Flokkur fólksins vita um framvindu vinnu hans og gjarnan fá áfangaskýrslu. Í þessu máli þarf að hafa hraðar hendur því verið er að beita börn órétti með því að taka af þeim möguleikann á að nota frístundakortið til þess sem því var ætlað. Skýrasta dæmið er hverfi 111 en þar er minnsta notkun kortsins í samræmi við tilgang þess. Í þessu hverfi er hæsta hlutafall barna af erlendum uppruna og þar eru einnig flestir með fjárhagsaðstoð í samanburði við önnur hverfi sem skýrir m.a. að nýtingin skuli ekki vera meiri eða ámóta og í öðrum hverfum borgarinnar. Þessu þarf að breyta og horft er til stýrihóps um frístundarkortið að leiðrétta þetta hið fyrsta.  R20020124

    Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarleg óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla eins og tölur hafa sýnt. Engu að síður eru eigendur krafnir um gjald sem síðan er sagt að eigi að nota til að þjónusta alla. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda fyrirspurna en einnig tillögur um hunda og hundahald. Tillögurnar voru ýmist felldar eða vísað frá í umhverfis- og heilbrigðisráði en eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur þá á starfshópurinn um endurskoðun þjónustu við gæludýraeigendur að taka þær til umræðu/meðferðar. Þessar tillögur eru: Að aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað. Að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði rýmkaðar. Að heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum. Að hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður. Að innheimta hundagjalds fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um framvindu vinnu stýrihópsins og upplýsingar um meðferð tillagnanna. R20010132

    Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    -    Kl. 12.35 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Nú stendur til að afgreiða árlega styrkúthlutun borgarráðs. Flokkur fólksins hefur nokkrar spurningar í þessu sambandi. Í 9. gr. um reglur um styrkveitingar segir að hafi umsækjendur áður fengið styrki skulu liggja fyrir skilagreinar um nýtingu fyrri styrkja. Spurt er hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk t.d. síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum? Hvernig er brugðist við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein? Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn? R19110012

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  37. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Tillaga Flokks fólksins að fyrningartími á búnaði, áhöldum og tækjum við útreikning innri leigu verði endurreiknaður með það að markmiði að lengja hann. Í svari um starfshóp um endurskoðun innri leigu tekur borgarfullrúi Flokks fólksins eftir að fyrningartími á húsbúnaði og tækjabúnaði er óvenju stuttur. Segir jafnframt í svari að miðað sé við að afskriftir sem mynda stofn til innri leigu búnaðar, áhalda og tækja sé fastur hundraðshluti miðað við áætlaðan nýtingartíma rekstrarfjármuna. Í 3. grein reglna um eignaskráningu rekstrarfjármuna borgarinnar er fyrningartími einstakra flokka stofnbúnaðar ákveðinn. Flokki fólksins finnst þessi tími allt of stuttur. Tillaga Flokks fólksins er að þegar kemur að húsbúnaði, tölvubúnaði og öðrum tækjabúnaði verði reglum um viðmið afskrifta til útreiknings innri leigu breytt þannig að fyrningartíminn verði lengri. Endurreiknað viðmið taki mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæma umgengni. R20010389

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:40

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir