No translated content text
Borgarráð
Ár 2020, fimmtudaginn 6. febrúar, var haldinn 5573. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 27. janúar 2020.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í 5. lið fundargerðar Sorpu má sjá að skýrsla innri endurskoðunar er nefnd og má ætla að endurskoðunarnefndin hafi eitthvað fjallað um innihald skýrslunnar. Flokki fólksins leikur forvitni á að vita hvaða mat endurskoðunarnefndin leggur á málefni Sorpu og skýrsluna í heild og hvort lagt hefur verið fram eitthvað skriflegt í þeim efnum af hálfu endurskoðunarnefndar. Sé svo, væri vel þegið að fá það framlagt til að borgarfulltrúar geti kynnt sér það. R20010018
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 23. janúar 2020. R20010028
- Kl. 9.04 taka borgarstjóri, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Pétur Ólafsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 28. janúar 2020. R20010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 22. janúar 2020. R20010016
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar 2020. R20010008
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stóra verkefni þessa árs er að vinna að jákvæðum og farsælum endurbótum á Laugavegi. Endurbótum sem styðja við og styrkja staðaranda götunnar. Ekki verður farið í allsherjarendurbætur með tilheyrandi raski og stórum vinnuvélum. Þess í stað verða framkvæmdir smærri í sniðum og unnar í mörgum litlum áföngum. Rask við framkvæmdir verður sem allra minnst og einblínt verður á eitt rými í einu. Götugögn og allskyns undirbúningur verður unnin annarsstaðar en á verksvæðinu sjálfu. Þannig eiga framkvæmdirnar að valda sem minnstu raski og vera í fullri samvinnu við rekstrar- og fasteignaeigendur með það að markmiði að skapa blómlegri verslun og viðskipti í líflegu og skemmtilegu umhverfi.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svik, lygar og prettir lýsa best vinnubrögðum meirihlutans í þessu máli. Að engu voru höfð fyrirheit borgaryfirvalda til rekstraraðila og eiganda atvinnuhúsnæðis á svæðinu að göturnar yrðu opnaðar á nýjan leik hinn 1. október sl. Farið var þess í stað í varanlega skyndilokun. Það mætti halda að fulltrúar meirihlutans séu bæði blindir og heyrnalausir. Í það minnsta hefur gegndarlaus gagnrýni á að loka hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs fyrir bílaumferð og gera þær götur að varanlegum göngugötum ekki farið framhjá almenningi. Boðað er að unnið verði að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið og gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu m.m. Útsvarsgreiðendur eru hér með upplýstir að samkvæmt fyrstu kostnaðaráætlun átti það verk að kosta 600 milljónir. Frá því hefur nú verið fallið og boðið upp á smáskammtalækningar með minni kostnaði. Kjarkurinn er að bresta. Með Tryggvagötu, Óðinstorgi og Hverfisgötu eru lagfæringar í 101 komnar langt yfir 2 milljarða. 2.000 milljónir í vita gagnslaus gæluverkefni á meðan grunnstoðir svelta. Minnt er á að nýbúið er að taka Laugaveginn allan í gegn með tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur. Þetta er nokkurskonar hreinræktuð þráhyggja gagnvart þessu svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann. Sú þróun sem á sér stað er varðar göngugötur hefur orðið til þess að færri koma í miðbæinn. Hér er ekki verið að vísa í búendur svæðisins eða ferðamenn sem eru á hótelum staðsettum í bænum. Um fækkun Íslendinga í bæinn verður varla deilt. Flokkur fólksins er stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara og er því fókusinn á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að miðbænum og þjónustu. Borgin er ekki enn farin að virða ný umferðarlög en í þeim kveður á um að heimilt er fyrir p-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi. Enginn hefur farið varhluta af flótta verslana úr bænum sem einmitt gerði hann fjölbreyttan og litríkan. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort það bíði Laugavegar þá það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi afleiðingum fyrir rekstraraðila.
- Kl. 9.07 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 16. desember 2019. R19010026
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 10. janúar 2020. R20010017
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R20020003
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athygli vekur hversu ítarlegar starfsreglur stjórnar Sorpu bs. eru, ekki síst hvað varðar ábyrgð og skyldur stjórnarformanns og stjórnar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Starfsreglur stjórnar SORPU bs. voru lagðar fram á fundinum. Í þeim kemur fram að á verksviði stjórnar sé m.a. að samþykkja fjárhagsáætlun og starfáætlun þar sem markmiðum í rekstri er lýst. Einnig skal stjórnin hafa eftirlit með rekstri fyrirtækisins og gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og fjármunameðferð. Ennfremur kemur fram að stjórnarmenn skuli óska eftir og kynna sér öll þau gögn og upplýsingar sem þurfa til að hafa fullan skilning á rekstrinum. Stjórnarmenn skulu tryggja að til staðar sé innra eftirlit og að ákvörðun stjórnar sé framfylgt. Varðandi árlegt árangursmat stjórnar kemur fram að stjórnin skuli árlega meta störf sín, verklag og starfshætti og einnig skal stjórnin meta hvort mikilvæg málefni samlagsins séu nægilega vel undirbúin og rædd í stjórninni. Þessar starfsreglur SORPU er samþykktar á fundi stjórnar þann 14. október 2016 og skrifar þáverandi stjórnarformaður Halldór Auðar Svansson undir fyrstur. Það er alveg ljóst að samkvæmt þessum starfsreglum hefur stjórn SORPU bs. ekki sinnt skyldum sínum í mörg ár.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Nú bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla og aðeins brot af þeim fá lausn sinna mála fyrir grunnskóla. Einnig er áhugavert þegar menntastefnan er nefnd í þessu sambandi en það er eins og hún ein og sér, þ.e. stefnan, eigi að leysa einhver mál, en orð eru vissulega til alls fyrst. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt eru 19 börn á biðlista eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Einnig í embættisafgreiðslum má sjá að tillaga um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir með tilheyrandi auknu fjármagni er felld án skýringa. Dæmi erum um að börn séu tilneydd að stunda nám í almennum skóla þrátt fyrir að líða þar illa vegna þess að öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli, eru sprunginn. Dæmi er einnig um að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20020004
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 24 við Borgartún, ásamt fylgiskjölum. R19090093
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgartúnið hentar vel til uppbyggingar nýrra íbúða. Reiturinn liggur að almenningssamgöngum og hjólaleiðum. Umrædd deiliskipulagsbreyting felst í því að bæta við og stækka fermetratölu fyrir bílastæðahús neðanjarðar en nýtingarhlutfall ofanjarðar helst óbreytt. Ekki er tekið undir að umræddar breytingar rýri lífsgæði annarra á svæðinu. Áformin styðja við þá verslun og þjónustu sem fyrir er á svæðinu og bæta þannig nærumhverfið.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðismenn hafa ítrekað bent á að deiliskipulagið sé á of litlum reit. Eðlilegast væri að deiliskipulagið tæki til reitsins í heild, ekki síst þar sem málið er mjög umdeilt. Bent er á að Skipulagsstofnun gerði verulega athugasemdir við þá deiliskipulagstillögu sem samþykkt var 27. júní 2018. Áhöld eru um hvort að breytingin samræmist Aðalskipulagi Reykjavíkur. Af þessum sökum getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki stutt þessa deiliskipulagsbreytingu.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Allar forsendur íbúa við kaup á því svæði eru í uppnámi. Borgartún 24 er hluti 3ja hæða stakstæðra húsa þess götuhluta sem nær milli Katrínartúns og Nóatúns. Því er ekki að furða að íbúar Mánatúns 7-17 reki í rogastans vegna þeirra breytinga sem hér um ræðir. Allar forsendur íbúa við kaup sinna eigna verða að engu. Ekki er gerð tilraun til að koma til móts við íbúana, heldur ekki rekstaraðila í nærumhverfinu sem einnig sendu inn athugasemdir. Sú aðferðarfræði sem meirihlutinn beitir er á þessa leið: Deiliskipulagsbreyting unnin án samráðs við nærumhverfi, deiliskipulag sett í auglýsingu undir formerkjum samráðs og allar athugasemdir sem berast virtar að vettugi. Þessi vinnubrögð eru til skammar og ekki til merkis um góða stjórnsýsluhætti. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem ber að fara að stjórnsýslulögum. Það er öllum ljóst að verið er að þjóna einum lóðahafa/fjármagnseiganda í deiliskipulagsgerð og er það í beinni andstöðu við grundvallarmarkið skipulagslaga um gerð skipulags í þágu í almannahagsmuna.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins beinir þeim tilmælum til skipulagsyfirvalda í borginni að fara að öllu með gát varðandi breytingar á deiliskipulagi á Borgartúni 24. Þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru virðast í ósátt við íbúa í nágrenninu og hvetur Flokkur fólksins að haft verði samráð við íbúa um lokaniðurstöður á deiliskipulagi svæðisins. Einar Páll Svavarsson sem er málsvari íbúa í Mánatúni gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi svæðisins fyrir þeirra hönd: ,,Við gerum ráð fyrir því að Reykjavíkurborg hætti við svokallaða breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Borgartún 24 í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Við teljum einsýnt að breytingin verði látin niður falla og Reykjavíkurborg haldi áfram með deiliskipulagsvinnuna, sem borgin setti sjálf af stað í nóvember 2014, og vinni þannig eðlilegt deiliskipulag fyrir reitinn í samræmi við skipulagslög.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags 30. janúar 2020, sbr. synjun skipulags og samgönguráðs frá 29. janúar 2020 á breytingu á deiliskipulagi Hampiðjureits vegna lóðanna nr. 6 og 8 við Mjölnisholt, ásamt fylgiskjölum. R19060022
Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest.Líf Magneudóttir víkur af fundi undir þessum lið.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags og samgönguráðs frá 29. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skarfabakka Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 4 við Skarfagarða, ásamt fylgiskjölum. R20020008
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9.20 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna nýrra undirganga undir Litluhlíð og nýrra göngu- og hjólastíga meðfram Skógarhlíð, ásamt fylgiskjölum. R20020007
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 58-60 við Snorrabraut. R20020006
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. febrúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út fullnaðarfrágang gatna, stíga o.fl. á Hlíðarendasvæði. R20020013
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf hússtjórnar fjölbýlishúss við Álftamýri 46-52, dags. 23. september 2019, þar sem óskað er eftir að framkvæmd við hleðslustæði fyrir rafbíla við fjölbýlishúsið verði metin styrkhæf hjá styrktarsjóði Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Einnig lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. janúar 2020. R19090295
Beiðni um endurskoðun hafnað með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er skýrt í samþykktum reglum að þær eiga ekki við verkefni sem voru hafin eða lokið þegar reglurnar tóku gildi. Því er ekki annað hægt en að synja beiðninni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mat Flokks fólksins að það sé ósanngjarnt að þeir sem þegar hafa farið í að framkvæma það að koma sér upp hleðslustöð fyrir bíla skuli ekki fá styrk eins og þeir sem byrja seinna. Við höfum lengi viljað orkuskipti og það sem fyrst. Þeim sem hafa sýnt fyrirhyggju á að umbuna. Hér er ljóst að aðlaga þarf reglur og láta breytingu ná afturvirkt. Sem dæmi væri hægt að setja mörkin 5 ár aftur í tímann. Flokki fólksins finnst því rétt og sanngjarnt að samþykkja styrkumsóknina. Hér er ekki um neinar stórfjárhæðir að ræða
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. janúar 2020, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020 þar sem óskað er eftir eftir að borgarráð heimili riftun kaupsamnings um Grandagarð 2, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er óskað eftir heimild til að ganga til viðræðna um kaup á fasteigninni. R18090026
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sölu byggingarréttar vegna lóðarinnar Hólmsheiðarvegur 100 með útboðsfyrirkomulagi. R20010314
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 30. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Krókhálsi 7A. R19080105
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2019, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 28. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar við Leiguafl hf. um riftun og uppgjör vegna kaupsamnings, dags. 11. október 2017, um Grensásveg 12, fastanúmer 225-7260 í samræmi við hjálagt minnisblað borgarlögmanns. R17090010
Eftirfarandi bókanir voru lagðar fram við afgreiðslu málsins og færðar í trúnaðarbók.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að innri endurskoðun hljóti að skoða bæði, forsögu málsins, samning milli borgarinnar og Leiguafls jf. og tilraun borgarinnar til riftunar. Hér hefur borgin orðið fyrir meira en 40 milljóna króna fjártjóni án þess að fá nokkuð í staðinn. Þá hafa skjólstæðingar borgarinnar þurft að bíða eftir lausn þar sem ekki tókst að ljúka byggingu þessara íbúða fyrir borgina. Óábyrg meðferð opinbera fjármuna, í þessum viðkvæma málaflokki, kallar á ítarlega skoðun þessa dapurlega máls. Forsaga málsins er sú að borgarstjóri skrifaði undir kaupsamning 11. okt. 2017 um 24 félagslegar íbúðir við Grensásveg 12, fyrir 785 m.kr. Samkvæmt samningnum átti að afhenda íbúðirnar þann 1. apríl 2018. Tveimur mánuðum síðar setti Vinnueftirlitið bann við vinnu á staðnum, en eftirlitsheimsókn leiddi í ljós að aðbúnaður var síður en svo í samræmi við vinnuverndarlögin. Greint var frá því í fjölmiðlum að asbest hafi verið fjarlægt úr húsinu, án þess að sótt jefði verið um tilskilin leyfi og viðeigandi hlífðarbúnaður væri til staðar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þetta bitur niðurstaða fyrir Reykjavíkurborg enda um tjón að ræða milli 40 og 50 milljónir. En sennilega er það rétt mat að fjárhagslegum hagsmunum Reykjavíkurborgar sé best borgið með gerð samkomulags þessa úr því sem komið er. Hér er um neyðarsamkomulag að ræða og sýnir vel hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi gagnbókun:
Samningar um þessar íbúðir voru hluti af fjölgun íbúða fyrir Félagsbústaði til að mæta brýnni neyð á húsnæðismarkaði. Breið samstaða var um átakið í borgarráði og velferðarráði. Vanefndir uppbyggingaraðila urðu hins vegar til þess að borgin ákvað að rifta samningnum. Breið samstaða var einnig um það. Það er gott að fengist hefur niðurstaða í málið og að tekist hafi að lágmarka skaða og kostnað borgarinnar. Eru borgarlögmanni færðar þakkir fyrir það.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi gagnbókun:
Athygli vekur að riftun samningsins, sem er undirritaður af borgarstjóra var ekki gerð á grundvelli aðstæðna á vinnustað, heldur vegna tafa á verkinu. En verulegur vafi leikur á lögmæti slíkrar riftunar enda var henni mótmælt. Með hliðsjón af framanrituðu vekur það furðu að ákvæði um keðjuábyrgð, sem samþykkt var í innkauparáði hinn 29. apríl 2016, hafi ekki verið inni í umræddum samningi. Ákvæðið, sem á við um útboðsgögn og verksamninga Reykjavíkurborgar, kveður á um að sýni verktaki ekki fram á að farið sé eftir löggjöf á sviði vinnuverndar geti Reykjavíkurborg rift verksamningi. Ljóst er á þessu að málið er mjög alvarlegt frá upphafi til enda og þarfnast því frekari skoðunar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. janúar 2020, vegna fyrirhugaðrar þátttöku borgarstjóra í CDP Europe Awards í París 25. febrúar nk., ásamt fylgiskjölum. R20010118
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 9. janúar 2020, sbr. samþykkt stjórnar lífeyrissjóðsins frá 6. janúar 2020 á tillögu að breytingu á endurgreiðsluhlutfalli. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. febrúar 2020. R20010166
Vísað til borgarstjórnar.Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2020:
Lagt er til að borgarráð samþykki niðurstöðu skuldabréfaútboðs Félagsbústaða, miðvikudaginn 5. febrúar 2020, í samræmi við samþykkt í borgarstjórn þann 21. janúar sl. varðandi einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum Félagsbústaða í samræmi við lánsfjáráætlun félagsins. Tilboð að fjárhæð 3.500 m.kr. að nafnvirði bárust, á ávöxtunarkröfunni 1,85%, í verðtryggðan félagslegan skuldabréfaflokk Félagsbústaða, FB100366 SB. Markaðsvirði skuldabréfanna er 3.480 m.kr. Framkvæmdastjóri Félagsbústaða hefur samþykkt tilboð og ávöxtunarkröfu í útboðinu fyrir hönd félagsins skv. umboði. Ofangreind tillaga var samþykkt á fundi framkvæmdarstjóra og fjármálastjóra Félagsbústaða, staðgengils sviðstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs og sérfræðings fjárstýringar Reykjavíkurborgar þann 5. febrúar 2020.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R19100128
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vel heppnað skuldabréfaútboð félagsbústaða endurspeglar öðru fremur sterka stöðu borgarinnar og áherslur borgarinnar í húsnæðismálum. Uppbygging félaglsegra íbúða í Reykjavík hefur aldrei verið meiri og því ber að fagna. Óskandi væri að nágrannasveitarfélög myndu hefja jafn kraftmikla uppbyggingu og félagslegra íbúða og nú á sér stað í Reykjavík.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Rétt er að benda á að hér er verið samþykkja skuldabréfaútgáfu upp á 3.480 milljónir króna þar sem skuldabréfin eru með bakábyrgð A-hluta borgarinnar. Heildarábyrgðir Reykjavíkurborgar af dótturfyrirtækjum og byggðasamlögum er nú komin yfir eitt hundrað miljarða króna.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á meðan málefni Félagsbústaða eru í slíkum ólestri eins og birst hefur undanfarin ár er ófært að gefa félaginu heimildir til frekari lántöku. Skuldir Félagsbústaða nema nú 45 milljörðum með óheyrilegum fjármagnskostnaði. Það er löngu tímabært að endurskoða ákvörðun að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild.
Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. febrúar 2020, þar sem drög að erindisbréfi neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar eru lögð fram til kynningar.
Dagný Ingadóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir og Jón Viðar Matthíasson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R20020015
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. febrúar 2020, þar sem viðbragðsáætlun neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar er lögð fram til kynningar.
Dagný Ingadóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir og Jón Viðar Matthíasson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R20020029
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 28. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margir grunnskólar í Reykjavík nýta sér stuðningskerfið Leið til læsis í lestrarkennslu, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020. R20010129
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er gott að heyra hjá sviðsstjóra að langflestir skólar borgarinnar nota kennsluefnið Leið til læsis. Hér er um gagnreynt efni að ræða. Mikilvægt er að nota allt efnið sem tengist Leið til læsis, s.s. skimunarprófin og handbókina. Að skima eftir framförum með reglubundnum hætti skiptir miklu máli. Spurning er hvort kennurum finnist þeir fái nægan stuðning og rými til að nota efnið í tímum, t.d. efni handbókarinnar og fylgja nemendum vel eftir. Hægt væri um vik fyrir skóla- og frístundaráð að kanna nánar hvernig þessum málum er háttað í skólum án mikils fyrirhafnar. Senda má spurningar út í skólanna til að safna upplýsingum. Enginn þörf er á ítarlegri eftirfylgni eins og lýst er í svari sviðsstjóra. Markmiðið er að auka lestrafærni og lesskilning barna og því er yfirsýn skólastjórnenda og skólaráðs borgarinnar mikilvæg. Ýmis konar annað kennsluefni stendur til boða í lestri en borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sú aðferð til lestrarkennslu og kennsluefni sem er þaulreynd yfir langan tíma eigi að nota skilyrðislaust. Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskri nemendur standa sig marktækt verr í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4, febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu lóðarleigusamninga í hesthúsahverfinu í Víðidal, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október 2019. R16020258
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020. R20010379
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs hefur verið felld. Það er miður því það fyrirkomulag sem nú ríkir virðist ekki vera nægjanlega skilvirkt kannski vegna þess að skóla- og frístundarráð hefur ekki yfirsýn. Samstarf tveggja sviða er einnig oftast vandkvæðum háð eins og oft hefur sést í borginni. Á fimmta hundrað börn eru á biðlista eftir fyrstu skólaþjónustu Reykjavíkurborgar og er stór hluti þeirra að bíða eftir sálfræðingi. Í ljósi stöðunnar þarf að grípa til margs konar aðgerða. Ein gæti verið sú að færa sálfræðinga nær börnunum og kennurum. Hvernig á skólaráð að geta haga málum sem best ef ráðið hefur ekkert um þessa stétt að segja? Skólastjórnendur kvarta sáran yfir að fagfólk sé fjarri skólanum sbr. skýrslu innri endurskoðunar frá því í júlí. Gjá hefur myndast á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Að færa skólasálfræðinga undir það ráð sem þeir eiga heima gæti verið eitt af fleiri skrefum. Næsta skref væri að fjölga sálfræðingum og setja alla orku borgarinnar í að taka á biðlistavanda sem nú er í hæstu hæðum. Flokkur fólksins kallar eftir aðgerðum strax. Þegar börn fá ekki þjónustu þá eykst vanlíðan þeirra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Árið 2019 bárust 2162 beiðnir til skólaþjónustu Reykjavíkurborgar vegna 1875 barna. Í árslok hefur þjónusta hafist eða verið lokið í málum 79% barnanna. Beiðnum um skólaþjónustu hefur fjölgað um 23 prósent á milli áranna 2017 og 2019 og fjöldi barna sem þær varða hefur aukist um 18 prósent. Að sama skapi hefur börnum sem fá þjónustu innan þess árs sem tilvísun barst fjölgað, úr 1.243 árið 2017 í 1.481 á árinu 2019, eða um 19 %. Þróun er því í rétta átt en áfram verður haldið á sömu braut í að efla þjónustuna og gera hana skilvirkari þannig að börn fái þá þjónustu og þann stuðning sem þau þurfa fljótt og vel.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er afar mikilvægt að íbúar og starfsfólk upplifi Reykjavíkurborg sem einn þjónustuveitanda með samhæfðri skóla- og velferðarþjónustu. Um 30 % þeirra barna sem fá þjónustu sálfræðinga á þjónustumiðstöðvum, eru einnig að fá aðra þjónustu frá velferðarsviði og því eru mörg rök fyrir staðsetningu þeirra þar. Reykjavíkurborg er í miklu þróunarstarfi er varðar þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, með framkvæmdaáætlun í barnavernd, Keðjunni sem er samstarfsnet um stuðningsþjónustu og verkefninu Betri borg fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. Skóla og frístundasvið og velferðarsvið eru samtaka í að efla skólaþjónustu og finna bestu leið til að börnin í borginni og fjölskyldur þeirra fái heildstæðan stuðning og þjónustu sem veitt er í nærumhverfi þ.m.t. inn í skólum á heimilum og í félagsstarfi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðisins, dags. 10. janúar 2020, sbr. samþykkt stjórnar samtakanna frá 7. maí 2018 á drögum að viðauka við samkomulag um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. janúar 2020. R20010147
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Uppbygging skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli er nú komin á beinu brautina. Samkomulagið sem hér er samþykkt þýðir að stór og mikilvæg skref í átt að framkvæmdum við snjóframleiðslu, endurnýjun á lyftum og stóreflingu aðstöðu til skíðaiðkunar verða stiginn. Snjóframleiðslunni er ætlað að lengja skíðatímabilið en í áformunum felast einnig miklar fjárfestingar í nýjum og endurnýjuðum lyftum ásamt betrumbótum á skíðasvæðunum. Ný framkvæmdaáætlun felur í sér að ráðist verður í snjóframleiðslu í Bláfjöllum á þessu ári og í Skálafelli árið 2022. Á þessi ári verður einnig fjárfest í nýrri Gosa lyftu í Bláfjöllum og 2022 nýrri Drottningu. Í báðum tilvikum verður um breytta legu þeirra að ræða. Þá bætist við stólalyfta í Eldborgargil við lok framkvæmdatímans ásamt nýrri toglyftu úr Kerlingardal. Stólalyfta í Skálafelli verður endurnýjuð 2021. Alls hljóðar fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunin upp á rúma fjóra milljarða sem dreifast á árin 2020-2025. Skíðaíþróttin er vinsæl almenningsíþrótt fyrir alla aldurshópa og fagnar meirihluti borgarráðs að áform um myndarlega uppbyggingu skíðasvæðanna verði nú að veruleika.
Ómar Einarsson, Diljá Ámundadóttir Zoëga og Magnús Árnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirspurn um stöðu barnanna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla. Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Engu að síður bíða 19 börn eftir plássi. Flokkur fólksins vill vita hvar þessi börn eru nú að stunda nám og hver er staða þeirra félags- og námslega? Hvaða aðstoð eru þau að fá núna? Hvenær komast þau inn í Brúarskóla? R19050072
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
1. Hvað er skóla- og frístundarráð að gera til að fækka nemendum í bekkjum? 2. Hvað eru mörg börn sem fá kennslu í heimahúsi? 3. Hvað er ca. vægi tækni- og listverkefna í grunnskólum borgarinnar? R20020057
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins er með fyrirspurnir um stöðu þeirra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk en þeir eru alls núna 144. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um þá sem bíða eftir sérstöku húsnæði í flokki I til IV. Hver er aldur þeirra sem bíða?
Hvað hafa aðilar beðið lengi eftir húsnæði? Hvað búa þessir einstaklingar núna? Hverjar eru aðstæður þeirra, fjárhagslega og félagslega? R20020060Vísað til umsagnar velferðarsviðs.
Fundi slitið klukkan 10:52
Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek
Heiða Björg Hilmisdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
Hildur Björnsdóttir