Borgarráð - Fundur nr. 5571

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 23. janúar, var haldinn 5571. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Skúli Helgason, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal. 

Þetta gerðist:

  1. -    Kl. 9:08 taka borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.

    Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 8. janúar 2020. R20010023

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 8. janúar 2020. R20010018

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun við 6. lið fundargerðarinnar: 

    Það er mikilvægt að endurskoðunarnefnd hafi tekið upp og rætt um reikningsskil Félagsbústaða og að formaður endurskoðunarnefndar taki málið upp við sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur margoft bent á óeðlilegt misgengi sé á uppgjörsreglum Reykjavíkurborgar í A-hlutanum annars vegar og Félagsbústaða hins vegar. Á meðan A-hlutinn er gerður upp samkvæmt kostnaðarverðsreglu og í samræmi við sveitarstjórnarlög og lög um ársreikninga eru reikningsskil Félagsbústaða gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Veigamestu frávik þeirra frá reikningsskilareglum sveitarfélaga eru að hluti varanlegra rekstrarfjármuna Félagsbústaða hefur verið endurmetinn til gangvirðis. Því hefur framsetning Félagsbústaða í samstæðuuppgjöri borgarinnar fegrað stöðuna því matbreyting fasteigna Félagsbústaða er færð gegnum rekstrarreikning. Það er löngu tímabært að endurskoða þá ákvörðun að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samkvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild. Skuldir Félagsbústaða nema nú 45 milljörðum með óheyrilegum fjármagnskostnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 16. janúar 2020. R20010004

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun við 6. lið fundargerðarinnar: 

    Enn vindur rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa upp á sig á neikvæðan hátt og ljóst að því máli er hvergi nærri lokið. Borgarstjóri sagði á borgarstjórnarfundi fyrir nokkrum misserum að útboðið snérist um „nokkra ljósahausa“ sem þyrfti að endurnýja en síðar kom í ljós að útboðið var rúmar 500 milljónir/hálfur milljarður. Í kjölfar kæru sem barst úrskurðarnefnd útboðsmála vegna útboðsins dró Reykjavíkurborg útboðið til baka. Í fundargerð innkauparáðs er lagt fram bréf lögmanns þar sem þess er krafist að innkauparáð endurskoði þá afstöðu sína. Þeirri kröfu var hafnað. Eins og fyrr segir var útboðið kært til kærunefndar útboðsmála og því forvitnilegt að vita hvort Reykjavíkurborg sé búin að svara kærunni. Ef svo er þá er óskað eftir að borgarráð fái öll gögn málsins fyrir næsta borgarráðsfund.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 14. janúar 2020. R20010024

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 16. janúar 2020. R20010029

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 17. janúar 2020. R20010012

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R19120129

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að ekki hefur verið staðið við ákvörðun borgarstjórnar um aukna tíðni strætó á helstu leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa því lagt fram tillögu þess efnis að staðið verði við þá ákvörðun að auka tíðnina þannig að strætó gangi á 7,5 mínútna fresti. Þessi tillaga okkar hefur nú verið send til umsagnar strætó eins og embættisafgreiðslur í borgarráði bera með sér.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Í sáttmála þeirra flokka sem mynda meirihluta í Reykjavík kemur fram að við ætlum að bæta strætó og að „Tíðni á helstu stofnleiðum verður aukin í 7,5 mín á háannatímum í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu“.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Engu að síður hefur þetta loforð ekki verið efnt og jafnvel ekki þó fyrir liggi samþykkt borgarstjórnar frá 2. október 2018 um aukna tíðni strætó á helstu leiðum.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20010093

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag við Main Course ehf. vegna viðburðarins Food and Fun sem haldin verður í 19. sinn í Reykjavík dagana 4.-8. mars 2020. Hátíðin er þekktur viðburður sem dregur að sér fjölda erlendra gesta. Hátíðin hefur þann megintilgang að kynna Reykjavíkurborg og þá veitingamenningu sem þar er að finna. Áætlað er að hátíðin dragi að sér 12-15 þúsund manns. R20010190

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Food and Fun matarhátíðin hefur farið fram í Reykjavík um árabil og er nú haldin í 19. skiptið. Gestir á hverju ári eru um 12.000-15.000 manns af öllum þjóðernum. Borgin hefur nær alltaf styrkt hátíðina enda er hún ein þeirra hátíða sem laða að gesti og íbúa inn á veitingastaði borgarinnar. Matarmenning í Reykjavík hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum og hefur þessi meirihluti reynt að lyfta því sem vel er gert í matarmenningu og stuðla að því að Reykjavík geti státað sig af því að vera matarborg. Hvort sem það er Matarhátíð alþýðunnar sem fram fer á Skólavörðustíg, Street Food götubitahátíðin á Miðbakkanum eða Food and Fun hátíðin, þá stuðla þær allar að bættri matarmenningu í Reykjavík og gerir þannig borgina að eftirsóttum stað til að búa á og heimsækja. Um er að ræða 2.500.000 kr. í ár og aftur á næsta ári. Reykjavík hefur bæði styrkt hátíðina um hærri upphæðir og lægri í gegnum árin.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavík vill styrkja Food and Fun til tveggja ára um fimm milljónir. Samkomulag þetta gildir fyrir árin 2020 og 2021 og greiðir Reykjavíkurborg Main Course ehf. 2.500.000 kr. í styrk á ári til að standa straum af kostnaði vegna kynningar hátíðarinnar. Flokkur fólksins heldur að það sé engin þörf á að borgin setji þetta fé í hátíðina þar sem hún mun án efa vera bæði metnaðarfull og glæsileg án þessa framlags borgarinnar. Hátíðina sækja auk þess kannski bara afmarkaðir hópar, efnameira fólk þ.e. þeir sem hafa efni á að fara á þessa veitingastaði. Vel má vera einnig að hátíðin sé að miklu leyti hugsuð til að laða að ferðamenn.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036
    Samþykkt að veita Reykjavík CrossFit Championship 2020 styrk að fjárhæð kr. 3.000.000.-

    Fylgigögn

  11. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Bastard brew and food, Vegamótastíg 4, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010202
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 06:00 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Keiluhöllina, Fossaleyni 1, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010212
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Lebowski bar, Laugavegi 20a, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010211
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 05:00 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Ræktina, Laugavegi 74, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010177
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna Korpulínu, ásamt fylgiskjölum. R20010255
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals hverfi 2 vegna Korpulínu, ásamt fylgiskjölum. R20010259
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals útivistarsvæði vegna Korpulínu, ásamt fylgiskjölum. R20010260
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturlandsvegar, Halla vegna Korpulínu, ásamt fylgiskjölum. R20010261
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reitsins Hlemmur + 1.241.0 og 1.241.1 Hampiðjureitir, ásamt fylgiskjölum. R19060022
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi athafnarsvæðins við Esjumela á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R20010257
    Samþykkt. 

    Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að Malbikunarstöðin Höfði verður fluttur frá ósum Elliðaánna og upp á iðnaðarsvæðið við Esjumela. Flutningurinn er í samræmi við Aðalskipulag en samkvæmt lóðarvilyrði verður greitt fyrir byggingarrétt samkvæmt mati fasteignasala að viðbættu gatnargerðargjaldi. Þá kemur fram í sáttmála þeirra flokka sem mynda meirihlutann í borgarstjórn að „Við ætlum að leggja malbikunarstöðinni Höfða til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið“.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá afstöðu að borgin eigi ekki að vera í samkeppnisrekstri á borð við Malbikunarstöð. Eðlilegast væri að setja þennan rekstur í söluferli áður en farið verður í kostnaðarsama flutninga í jaðar borgarsvæðisins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt kynningunni á að fella út 12 lóðir og gera að einni. Ekki er hægt að upplýsa hvert fermetraverðið er á lóðum á Esjumelum sem eru ótrúleg staðreynd. Samkvæmt kosningastefnuskrá Viðreisnar á að selja Malbikunarstöðina Höfða og í meirihlutasáttmála meirihlutans kemur fram að til standi að selja fyrirtækið. Hér er því enn á ný verið að úthluta gæðum í formi borgarlands. Malbikunarstöð er ekki „flutt“ – hún er byggð upp á nýtt. Útsvarsgreiðendur sitja uppi með kostnaðinn og algjörlega óvíst hvort markaður sé fyrir malbikunarstöð að því verki loknu og þá líka hvort raunverð fáist fyrir þar sem fyrirtækið er á samkeppnismarkaði. Að auki er starfsemin mjög mengandi og hefur áhrif á lýðheilsu, ásýnd hverfisins, fráveitu og loft. Nær hefði verið að nota tækifærið til að leggja starfsemina niður því í dag er malbikunarstöðin landlaus, gömul og úrelt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæði 1, ásamt fylgiskjölum. R20010262
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna svæðis sem nær eftir Tryggvagötu frá gatnamótum Grófarinnar í vestri að Pósthússtræti í austri og lóðar Tollhússins, ásamt fylgiskjölum. R20010258
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Deiliskipulagsbreyting Tryggvagötu frá Steinbryggju og að Grófinni er forsenda fyrir breytingum sem miða að því að gera götuna fallegri og mannvænni. Breytingin felur meðal annars í sér að fallegt og nokkuð stórt torg verður til við suðurhlið Tollhússins undir hinu magnaða mósaíkverki Gerðar Helgadóttur. Svæðið er bæði sólríkt og skjólsælt og gæti orðið segull fyrir mannlíf. Breytingin felur einnig í sér að trjám verður komið fyrir í götunni og aðkoma fyrir gangandi vegfarendur að Listasafni Reykjavíkur verður bætt. Þessar breytingar eru sannkallað fagnaðarefni og bendum við jafnframt á að stór bílakjallari er á svæðinu við hliðina.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með því að auglýsa tillöguna gefst hagsmunaaðilum tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn á ný er ráðist að fjölskyldubílnum með því að fækka bílastæðum í miðbæ Reykjavíkur. Afleggja á í þessu verkefni um 50 bílastæði. Verið er að breyta Tryggvagötu frá Lækjargötu að Gróf í einstefnugötu. Tollstjóraembættið var sameinað ríkisskattstjóra fyrir skömmu og meirihlutanum er bent á að stofnunin er ríkisstofnun sem allir landsmenn verða að hafa greiðan aðgang að. Miðbær Reykjavíkur er ekki einkaeign borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík. Með þessum tillögum er verið að beina umferð enn frekar inn á þrönga Geirsgötu sem er tifandi tímasprengja vegna olíuflutninga um götuna. Samkvæmt kostnaðaráætlun 1, er áætlaður kostnaður við breytingarnar 400 milljónir og er sú upphæð komin inn í fjárfestingaáætlun 2020. Þrengingarstefna meirihlutans í miðbænum/gæluverkefni og breytingar sem af henni hlýst er farin að kosta útsvarsgreiðendur milljarða á meðan grunnstoðir svelta og eru að blæða út. Síðast í gær var tilkynnt um styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins lýsir furðu sinni á að í nýju skipulagi við Tryggvagötu á að þurrka út 40 til 50 bílastæði og með því skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Aðeins er gert ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er bent á bílastæðakjallara sem Reginn rekur. Það hefur ekki verið mikið auglýst. Meirihlutinn neitar að horfast í augu við þá staðreynd að það treysta sér ekki allir í bílastæðakjallara jafnvel þótt þeir séu vel hannaðir. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa frá að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Það er verulega leiðinlegt hvað íslendingar sem koma lengra frá og fatlað fólk er gert erfitt fyrir með aðgengi.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssvið, dags. 17. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir ársins 2020 vegna endurnýjunar mötuneyta í grunnskólum. R20010253
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjármagn til viðhalds og endurbóta í grunnskólum hefur verið aukið til muna á undanförnum árum og er um meira en tvöföldun heildarfjármagns að ræða. Endurnýjun aðstöðu og tækja í mötuneytum grunnskólanna er þar sérstakt verkefni þar sem unnið er samkvæmt sérstakri áætlun um forgangsröðun. Matarþjónusta leikskóla og grunnskóla hefur aukist mjög á undanförum áratugum og í metnaðarfullri matarstefnu borgarinnar er að finna fjölmargar tillögur til enn frekari sóknar í málaflokknum, þ.m.t. um aðgerðir til að draga úr matarsóun, auka fjölbreytni fæðu og hollustu sem verið er að vinna að því að innleiða.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vekja athygli á því að almennu viðhaldi í grunnskólum borgarinnar er verulega ábótavant. Uppsöfnuð viðhaldsþörf, til margra ára, er veruleg og sá liður vanfjármagnaður til margra ára. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir liggur beiðni um útboð vegna endurnýjunar mötuneyta og taka á mið af aðstæðum í skólum. Þetta er hið besta mál enda eru aðstæður í sumum skólum slæmar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi ólík rekstrarform sem eru í gildi í mötuneytum skólanna. Sennilega eru einar 3-4 útfærslur á rekstrarformi/fyrirkomulagi mötuneyta og þar að leiðandi lítið um samræmi. Fram hefur komið í athugunum að matarsóun er víða mikil í skólum. Það er mat Flokks fólksins að skilgreina þurfi þjónustusamninga upp á nýtt og bjóða rekstur skólaeldhúss og mötuneytisreksturs þeirra út.  Það mun auka gæði mötuneytisfæðis og líkur eru á að það fyrirkomulag sem verður ofan á verði það sem er hagkvæmast.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili byggingarnefnd að bjóða út í alútboði framkvæmdir við íþróttamannvirki ÍR í Mjódd. R20010256
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða glæsilega uppbyggingu sem er kominn á fullt á íþróttasvæði ÍR í Mjódd. Útboðið sem nú er óskað heimildar að fara í er vegna íþrótta- og fjölnotahúss á tveimur hæðum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili riftun kaupsamnings um Grandagarð 2, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er óskað eftir heimild til að ganga til viðræðna um kaup á fasteigninni. R18090026
    Frestað.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa lóðina Krókháls 7A til sölu á föstu verði. R19080105
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að leggja til að lækka auglýst og fast söluverð um 50%.

    Fylgigögn

  27. Lagt er fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Urðarbrunni 3. R20010113
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 13. janúar 2020, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. janúar 2020 á samstarfssamningi við Tjarnarbíó 2020-2022, ásamt fylgiskjölum. R20010189
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags 21. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki viðauka II við viljayfirlýsingu um stofnun listasafns í nafni Nínu Tryggvadóttur þar sem frestur til þess að ljúka samningi um fyrirkomulag safnsins, safneignarinnar og öðrum formsatriðum er framlengdur til og með 31. desember 2020. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18050088
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. janúar 2020, um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem undanþegin eru verkfallsheimild.

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R20010263

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu sviðstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs um útvíkkun á starfsemi Afleysingarstofu, dags. 21. janúar 2020. Kostnaður vegna tillögunar verður 16,2 m.kr. og verður fjármagnaður af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. R19120135

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að leggja til útvíkkun á starfsemi Afleysingastofu sem mannauðs- og starfsumhverfissvið hefur starfrækt undanfarin misseri fyrir leikskóla borgarinnar. Afleysingastofa hefur það hlutverk að senda afleysingastarfsfólk á vettvang til að leysa af vegna veikinda, verkefni sem annað starfsfólk hefði ellegar þurft að sinna. Í fyrstu atrennu var þjónustan í boði fyrir leikskóla borgarinnar en nú er lagt til að þjónustan verði aukin og standi grunnskólum og frístundaheimilum til boða auk leikskólanna. Með þessu er verið að koma í veg fyrir aukið álag á starfsfólk skólasamfélagsins vegna veikinda og skapa með því stöðugleika í störfum starfsfólksins. Fyrirkomulagið er vel þekkt erlendis og hefur gefist afar vel og raunar framar vonum síðan Afleysingastofan hóf störf í borginni á haustmánuðum 2018. Hér er verið að forgangsraða í þágu velferðar starfsfólksins, minnka álag og stuðla að góðu og stöðugu skólastarfi.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það geta verið ýmsar ástæður fyrir veikindum starfsfólks Reykjavíkurborgar en lág laun geta þar vissulega verið stór álagspunktur. Í tillögu um útvíkkun á starfsemi á Afleysingastofu kemur fram að sú staða komi „mjög oft upp á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs að margir starfsmenn eru frá vegna veikinda á sama tíma sem veldur oft miklu álagi.“ Hér er rétt að taka fram að margir sem starfa á skóla- og frístundasviði eru á lágmarkslaunum og eru innan Eflingar sem Reykjavíkurborg á eftir að semja við. Það er nauðsynlegt að skoða rót vandans, en lág laun leiða til fjárhagslegra áhyggna sem geta ýtt undir veikindi og það verður að ávarpa það. Varðandi afleysingarstarfsfólk þá þarf að tryggja réttindi svo að þau þurfi ekki sífellt að velta fyrir sér hvort að þau fái næga vinnu þann tíma sem þau ráða sig við afleysingar. Í tillögunni kemur fram að „Starfsmenn Afleysingastofu geta skilgreint sinn vinnutíma og vinnustaður reynir að mæta óskum þeirra og koma til móts við starfsmenn með sveigjanleika.“ Fulltrúi Sósíalistaflokksins hefur áhyggjur af því að verið sé að skapa tvö kerfi utan um ráðningar í stað þess að skoða heildarsamhengið og laga það sem má betur fara í þessum málefnum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi hugmynd um Afleysingastofu góð. Einkennilegt er engu að síður hvað há upphæð er áætluð í veikindi og þjálfun afleysingafólks eða samtals 4.5 m.kr. Stærsti hluti upphæðarinnar eru víst þjálfunarkostnaður. Í þessu sambandi hefði maður haldið að eðlilegrar væri að gera verktakasamninga við afleysingafólkið. Vissulega á fólk sinn veikindarétt sé það ráðið sem launþegar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Fulltrúi Flokks fólksins taldi það víst þegar umræðan um Afleysingastofu hófst að afleysingafólk yrði ráðið sem verktakar. Slíkt fyrirkomulag á betur við í þessu tilliti. Hér um að ræða afleysingarfólk sem leysir öllu jafnan af í stuttan tíma og því alls ekkert óeðlilegt við að verktakafyrirkomulagið sé haft þar á. Í verktakasamningi má skilgreina og skýra allt sem skýra þarf í tengslum við starfið. Gera ætti verktakasamninga við afleysingafólkið án milligöngu einhvers fyrirtækis enda myndi slíkur milliliður aðeins flækja málið.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Auður Björgvinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar hefur verið falið að innleiða og koma í framkvæmd heildstæðri áhættustýringu hjá Reykjavíkurborg. Hér er um að ræða nýtt verkefni í samræmi við nýlegar skipulagsbreytingar sem samþykktar voru í júní 2019. Undirbúin hafa verið drög að umgjörð um stefnumörkun og innleiðingu fyrir verkefnið, ásamt kostnaðaráætlun sem tekur mið af fjárþörf sviðsins vegna innleiðingar á heildstæðri áhættustýringu í anda þess sem starfshópur um áhættustýringu hjá Reykjavíkurborg lagði fram á fundi borgarráðs í janúar 2019. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að viðbótarfjárþörf sviðsins nemi samtals 45,5 m.kr. á árinu 2020, þar af rekstrarkostnaður um 31,3 m.kr. og stofnkostnaður um 14,2 m.kr. Lagt er til að innleiðing heildstæðrar áhættustýringar verði sett af stað í samræmi við ofangreint og verkefnið verði fjármagnað annars vegar með því að færa 10 m.kr. úr ramma skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara til fjármála- og áhættustýringarsviðs og hins vegar að borgarráð veiti viðbótarfjárheimild að fjárhæð 35,5 m.kr. til verkefnisins. Viðauki við fjárhagsáætlun undirbúinn sem tekur mið af þessu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010248
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áhættustjórnun er í auknum mæli beitt sem stjórntæki til að samræma vinnubrögð innan fyrirtækja og stofnana. Í skýrslu Strategíu um endurskoðun skipurits og stjórnarhátta sem var kynnt í janúar 2019 kom fram að nauðsynlegt er að skilgreina áhættuvilja og áhættustefnu borgarinnar og skapa aukið skipulag og gegnsæi í áhættustýringu í samræmi við afmörkun á ábyrgð einstakra stjórnareininga á eftirliti. Byggt verði ofan á þá áhættustarfsemi, yfirsýn og þekkingu sem þegar er til staðar á fjármálasviði. Í kjölfar skýrslunnar hefur verið unnið að því að innleiða og koma í framkvæmd heildstæðri áhættustýringu hjá Reykjavíkurborg. Undirbúin hafa verið drög að umgjörð um stefnumörkun og innleiðingu fyrir verkefnið, ásamt kostnaðaráætlun vegna innleiðingar á heildstæðri áhættustýringu í anda þess sem starfshópur um áhættustýringu hjá Reykjavíkurborg lagði fram á fundi borgarráðs í janúar 2019. Almennt þá auka aðferðir áhættustjórnunar líkur á að stofnanir og fyrirtæki nái þeim árangri sem þau stefna að í starfseminni og eru því liður í góðum stjórnarháttum á öllum stigum í viðkomandi starfsemi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Löngu tímabært er að efla formlega áhættustýringu borgarinnar, en árið 2013 benti innri endurskoðun á að formleg áhættustýring væri að litlu leyti til staðar hjá Reykjavíkurborg. Áhættustefna fyrir borgina í heild hafi ekki verið sett fram og að vinna þyrfti tillögu að stjórnskipulegri umgjörð áhættustýringar sem lögð yrði fyrir borgarráð til samþykktar. Innri endurskoðun gerði könnun meðal stjórnenda og sérfræðinga borgarinnar árið 2013 og aftur árið 2018. Staðan var að mestu leyti óbreytt milli ára. Þrátt fyrir ábendingar Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar árið 2013 virtist sem ástandið hafi heldur versnað. Nýleg dæmi um stjórn verkefna sýna brýna þörf á bættri áhættustýringu og upplýsingagjöf.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum.

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.540 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,00%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1 og tilboð að nafnvirði 860 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,58%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1. Ávöxtunarkrafan er sú lægsta sem Reykjavíkurborg hefur fengið í útboðum á þessum flokkum. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 22. janúar 2020. 

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20010079
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Í samráði við stýrihóp skóla- og frístundaráðs um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík er lagt til að fram fari ítarlegt jafnréttismat á tillögu um breyttan opnunartíma á leikskólum. Mikilvægt er að fá skoðanir foreldra fram í þeirri vinnu og þá sérstaklega þeirra sem eru með dvalarsamninga eftir kl. 16.30 og greina aðstæður þeirra. Greina skal sérstaklega þann hóp foreldra sem muni eiga erfitt með að mæta þessari breytingu á opnunartíma. Einnig er mikilvægt að fá mat á því hvort grípa megi til mótvægisaðgerða vegna tillögunnar til þess að vinna að auknu jafnrétti. Að loknu jafnréttismati muni borgarráð taka tillöguna til endanlegrar meðferðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010252
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að samþykkja að borgarráð muni í samráði við stýrihópinn láta vinna ítarlegt jafnréttismat á tillögunni byggt á meðal annars breytum eins og kyni og efnahag sem felur m.a. í sér ítarlegt samráð við foreldra um þarfir einstakra hópa foreldra. Tilefni tillögunnar er að vöntun er á leikskólakennurum sem rekja má meðal annars til lengingar kennaranáms í fimm ár á sínum tíma. Markmið tillögunnar er að minnka álag á börn og starfsfólk leikskóla og standa þannig vörð um gæði leikskólastarfs sem er á heimsmælikvarða. Í kjölfar jafnréttismatsins og samráðsins verði málið skoðað með tilliti til þessara gagna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að meirihlutinn er ekki samstíga í þessu máli og tillaga borgarstjóra rímar ekki við ákvörðun meirihluta skóla- og frístundaráðs. Þegar tillagan er skoðuð kemur í ljós að ekki er um að ræða tillögu um að breyta opnunartímanum heldur aðeins tillögu borgarstjóra um að gert verði jafnréttismat. Ekki liggja fyrir fundargerðir stýrihóps um bætt starfsumhverfi og skipulag leikskóla. Fyrir liggur ákvörðun fagráðs að vandlega athugðu máli eins og fram kemur í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar frá 14. janúar, þar sem tilkynnt er um styttingu á opnunartíma leikskóla án fyrirvara. Breytingarnar munu taka gildi 1. apríl 2020, eins og segir orðrétt í fréttatilkynningu borgarinnar. Mikilvægt er að fá greiningu á sjónarmiðum foreldra sem eru með börn á leikskóla. Um er að ræða 2.000 foreldra sem eiga börn á þeim tíma sem þjónustuskerðingin tekur til. Þá vekur athygli að jafnréttismatið á ekki að fara fyrir sviðið né ráðið. Enn fremur vekur athygli að þessi þjónustuskerðing hafi ekki verið rædd innan stýrihóps um jafnréttismál á vegum borgarinnar. 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skóla- og frístundaráð lagði fram tillögu um styttri opnunartíma leikskóla, samþykkti hana en núna er lögð fram tillaga um að jafnréttismat fari fram á tillögunni til að greina aðstæður foreldra sem munu eiga erfitt með að mæta slíkri breytingu. Slíkt jafnréttismat hefði átt að fara fram áður en breytingar voru boðaðar sem gætu sett foreldra í slæma stöðu, sérstaklega foreldra sem eru í erfiðri stöðu fyrir og þurfa á umræddri þjónustu á að halda. Í stað þess að skerða þjónustu er mikilvægt að finna aðrar leiðir til að létta álagi af starfsfólki, líkt og með bættum kjörum og starfsaðstæðum og vinna að því að því efla leikskólanna með aukinni fjárveitingu til þeirra. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn getur ekki lokað málinu á lokuðum fundi borgarráðs eins og fullyrt var á fundi borgarstjórnar s.l. þriðjudag. Það er lúalegt af meirihlutanum að ala á samviskubiti foreldra segir Kvenréttindafélags Íslands í bréfi til borgarfulltrúa. Það er lúalegt að ætla að taka ákvörðun um styttingu opnunartíma án samráðs við foreldra. Það var lúalegt að ætla að gefa foreldrum svo stuttan aðlögunartíma að lokun. Nú er hlaupinn flótti í meirihlutann og fullyrt að ekki verði lokað 1. apríl en samt engin svör að fá hvar þetta mál endar. Foreldrar og starfsmenn leikskólanna eru jafnmikið í lausu lofti og fyrr. Nú er talað fyrir jafnréttismati til að vinna tíma hvað svo sem jafnréttismat er. Einnig er talað um að kynjuð fjármálastjórn bjargi einhverju, hvað svo sem kynjuð fjármálastjórn er. Hvort eiga foreldrar að hlæja eða gráta yfir þessum stjórnunarháttum. Gripið er til bitlausra úrræða sem eru einungs frasar á blaði en engar alvöru úrbætur eða lausnir. Þetta er lúalegur meirihluti sem vinnur ekki fyrir fólkið í borginni. Foreldrum og starfsfólki leikskóla er óskað velfarnaðar á meðan þessi heimatilbúna óvissa sem meirihlutinn stendur fyrir gengur yfir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ámælisvert að enginn fulltrúi foreldra sat í hópnum og enginn fulltrúi foreldra sat á þeim fundi sem ákvörðunin var tekin. Nú skyndilega á að gera jafnréttismat. Hefði ekki verið eðlilegt að byrja á því? Nú er talað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við þá foreldra sem þetta kemur illa við. Hvernig mótvægisaðgerðir eru það. Á að finna millivistun? Er það gott fyrir barn að fara af leikskóla sínum í aðra vistun áður en það kemst heim til sín? Grunnvandinn er mannekla/undirmönnun og þá er gripið til þess ráðs að stytta opnunartíma. Á sama kannski að gilda um dagvistun aldraðra, þar er líka mannekla og álag. Nú var verið að samþykkja að útvíkka Afleysingastofu. Samt er ekki gert ráð fyrir að það fólk geti komið inn nema í langtímaveikindum starfsfólks. Hér var ekki hugsað um afleiðingar fyrir þá foreldra sem eru fastir í vinnu samkvæmt ráðningarsamningi til kl. 16.30. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi. Foreldrar vinna kannski sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og margir sitja einmitt á þessum tíma fastir í umferðarteppum. Í öllu þessu máli finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins einnig vera gert lítið úr foreldrum. Foreldrar þekkja börn sín, líðan þeirra og þarfir og bregðast við þörfum þeirra t.d. ef í ljós kemur að níundi tíminn á leikskóla sé barninu erfiður. 

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Valborg Guðlaugsdóttir og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl.12.18 víkur borgarstjóri af fundinum.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 16. janúar 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 14. janúar 2020 á nýju rekstrarleyfi fyrir Waldorfleikskólann Sólstafi, ásamt fylgiskjölum. R20010244
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vel gert, svona á að gera þetta. Fækka og stækka. Það er alveg til fyrirmyndar að sameina þrjá skóla og flytja í einn nýjan skóla sem er hannaður fyrir starfsemina. Það besta við þessa aðgerð er augljós sparnaður og hagræðing.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  36. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2020, í máli E-1404/2019. R19030227

  37. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. janúar 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um viðbrögð við bótakröfum á hendur Reykjavíkurborg eru send borgarráði til kynningar. R20010269

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er galið að Reykjavíkurborg stofni starfshóp um meðferð og afgreiðslu bótakrafna á hendur borginni. Hlutverk starfshópsins á að taka afstöðu til bótakrafna með það að markmiði að tryggja samræmi, jafnræði og skilvirkni við úrlausn mála. Helstu verkefni starfshópsins er að fara yfir þær bótakröfur á hendur Reykjavíkurborgar sem vísað er til starfshópsins, að taka afstöðu til réttmæti krafna, þ.á.m. hvort og þá hversu háar bætur skuli greiða og að taka til skoðunar ágreiningsmál sem lögð eru fyrir starfshópinn, þar sem annmarkar kunna að hafa verið á meðferð máls af hálfu Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem ber að fara að stjórnsýslulögum, vinna verk sín í hljóði og vera þjónandi fyrir borgara og starfsfólk sitt en ekki í stríði. Reykjavíkurborg er nú aðili að tæpum 35 dómsmálum. Það er tæpum 35 dómsmálum of mikið. Stjórnsýslan í Reykjavík er í molum og virðing fyrir sumum starfsmönnum er engin. Greiddar hafa verið út bætur á kostnað útsvarsgreiðenda til aðila sem hafa þurft að berjast fyrir starfi sínu og tilveru en ekki haft árangur sem erindi. Slæmur mórall í ráðhúsinu veldur þessu. Því fleiri dómsmál sem Reykjavík stendur í, því verri stjórnsýsla. Með stofnun þessa hóps er viðurkennt að stjórnsýslan er í molum og uppgjafar gætir gagnvart því vandamáli sem er bleiki fíllinn í stofunni.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Um er að ræða endurnýjun á skipan og umboði starfshóps um meðferð og afgreiðslu bótakrafna sem hefur verið starfandi hjá Reykjavíkurborg um áratugaskeið. Starfshópinum er fyrst og fremst ætlað að fjalla um ágreiningsmál og bótakröfur sem vísað er til meðferðar hópsins. Hlutverk starfshópsins er ekki að taka bindandi ákvörðun um afgreiðslu slíkra mála heldur er það verkefni borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Starfshópur um meðferð bótakrafna á að taka til starfa. Borgin hefur undanfarin ár þurft að greiða fjárfúlgur í bótakröfur af alls kyns orsökum, sumar tilkomnar vegna brota starfsmanna í starfi eða gagnvart öðrum starfsmönnum. Dæmi hafa komið upp þar sem mætti halda að borgaryfirvöld vilji bara greiða bæturnar og gleyma svo málinu, láta sem ekkert sé og viðkomandi starfsmaður heldur áfram sinni vinnu eins og ekkert hafi í skorist. Þetta hefur í það minnsta stundum verið upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Í tilfellum sem þessum mætti spyrja hvort sá sem skapi bótakröfu á borgina ætti ekki að axla einhverja ábyrgð, hvort ekki ættu að vera einhverjar afleiðingar t.d. að viðkomandi starfsmaður greiðir sjálfur bæturnar, alla vega hluta þeirra. En þessi vinkill er svo sem ekki hluti af verkefnum þessa starfshóps sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar.

    Fylgigögn

  38. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. nóvember 2019, sem var samþykkt á fundi borgarráðs 14. nóvember 2019 og færð í trúnaðarbók:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg gefi öllu starfsfólki sínu gjafakort fyrir tvo á sýningar í Borgarleikhúsinu í jólagjöf árið 2019. Heildarkostnaður við jólagjöfina er 47,9 m.kr. og færist af liðnum ófyrirséð.

    Greinargerð fylgdi tillögunni. R19110081

    Fylgigögn

  39. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2020, þar sem tilkynnt er að Þór Elís Pálsson taki sæti sem áheyrnarfulltrúi til vara í borgarráði í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060082

    Fylgigögn

  40. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 14. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sérskólaúrræði fyrir börn í vanda, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019. R19070158

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins veit að í ýmsum skjölum borgarinnar, minnisblöðum og stefnum eru fögur fyrirheit um að laga stöðu barna í borginni sem glíma við vanda og vanlíðan. Enn einn stýrihópurinn er að taka til starfa til að skoða m.a. þessi mál. Vandinn er kannski sá að of mikið er talað og of lítið er framkvæmt. Hvorki skrif né tal um áætlanir og aðgerðir skilar barni bættri líðan og/eða aðstæðum. Staðreyndir tala sínu máli og þær hafa komið fram í viðtölum við foreldra sem segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við skólayfirvöld í borginni. Borgarfulltrúi hefur auk þess rætt við marga foreldra sem segja að börn sín séu í aðstæðum þar sem styrkleiki þeirra fá engan vegin notið sín og þar sem þeim líður illa. Kennarar í þessum tilfellum er settir í ólíðandi aðstæður enda brenna margir hreinlega út. Það mæðir mest á kennurum þegar ótal margir foreldrar spyrja um hvenær barn fái aðstoð sem e.t.v. er búið að bíða eftir sérfræðiþjónustu eða öðru skólaúrræði í á annað ár. Ráðgjafarteymi- og svið Brúarskóla eru sannarlega að bjarga miklu en ná kannski aðeins að sinna alvarlegustu tilfellunum.

    Fylgigögn

  41. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um endurgerð Haðarstígs, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019. R19110387

    Fylgigögn

  42. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur Reykjavíkurborgar til EFLA verkfræðistofu, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember 2019. R19110212

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tæpir 4 milljarðar á 12 árum til einnar verkfræðistofu. Ástæða fyrirspurnarinnar er að Efla verkfræðistofa stingur mjög oft upp kollinum þegar verklegar framkvæmdir eru. Því er lögð fram framhaldsfyrirspurn og óskað er eftir upplýsingum sundurgreint eftir þeim árum sem eru í fyrirspurninnium þau útboð sem EFLA verkfræðistofa hefur tekið þátt í og fengið verkefni og upphæðir sem að baki liggja. Að sama skapi er óskað eftir hversu háar upphæðir pr. ár voru greiddar til EFLU án útboðs. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt að borgin hafi greitt á 10 árum tæpa 3.7 milljarðar til eins fyrirtækis, EFLU. Þetta gerir að meðaltal 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga. Fulltrúi Flokks fólksins stóð í þeirri meiningu að í borginni starfi hópur af sérfræðingum sem gætu sinnt eitthvað af þessum verkum sem EFLU er falið að sinna. Er vandamálið það að það skorti sérfræðinga hjá borginni? Ef svarið við því er nei þá læðist að sú hugsun hvort þetta sé merki um slaka og jafnvel vanhæfa stjórnsýslu. Það væri klárlega mun ódýrar að einfaldlega ráða hæfa verkfræðinga til borgarinnar sem sinnt gætu þessum verkum sem keypt er af EFLU eða alla vega stórum hluta þeirra.

    Fylgigögn

  43. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggann, Hlemm mathöll, Sundhallarinnar og Írabakka 2-16, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. R19010254

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki er áformað að gera skilamat vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Varðandi framkvæmdir við Hlemm, Sundhöllina og Nauthólsveg 100 er vísað til úttekta innri endurskoðunar. Þá samþykkti borgarráð á fundi sínum 4. apríl 2019 tillögu borgarstjóra um samræmda framsetningu á upplýsingum um fjárfestingar og framkvæmdir í öllum gögnum borgarinnar með það að markmiði að auka gagnsæi og skýrleika og að auðvelda samanburð og eftirlit. Unnið er að því að aðlaga gögn, vinnuferla og viðeigandi kerfi til að koma tillögunni til framkvæmda.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skv. verklagsreglu VER-024-02 ber að skila skilamati. Óskiljanlegt er ef Reykjavíkurborg ætlar ekki að fara eftir sínum eigin verklagsreglum, sérstaklega í ljósi skýrslu innri endurskoðanda frá mars 2019. Þar segir m.a. „Að lokinni nýframkvæmd og úttekt á henni skal fara fram skilamat þar sem fram kemur hvernig til hefur tekist miðað við áætlun ásamt samanburði við hliðstæð verkefni sé þess kostur. Skilamat skal liggja fyrir eigi síðar en 6 mánuðum frá því að mannvirkið er tekið í notkun. Ekki liggja enn fyrir skilamöt vegna þeirra verkframkvæmda sem hér eru til skoðunar þó að nú séu liðnir meira en 6 mánuðir frá verklokum þriggja þeirra. Innri endurskoðun skoðaði þrjú nýleg skilamöt vegna annarra nýframkvæmda. Skilamöt, skilagreinar voru ýmist unnin af umhverfis- og skipulagssviði, verkefnisstjóra eða eftirlitsaðila (verkfræðistofu) og hafa að geyma samantekt á mikilvægum upplýsingum um tilteknar verkframkvæmdir.“ Þá liggur fyrir í skýrslunni að umhverfis- og skipulagssvið myndi ráða sérfræðing til að annast umsjón með gerð skilamata en í skýrslunni segir „USK mun óska heimildar að ráðinn verði sérfræðingur í gerð og yfirferð kostnaðaráætlana og umsjón með gerð skilamata og skilagreina.“ Ár er liðið frá því að skýrsla innri endurskoðanda lá fyrir og með ólíkindum að ekki eigi að fara eftir henni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins vill bóka við svar borgarinnar við fyrirspurn um skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggans, Hlemm, Mathallar og fleiri framúrtökuverkefni. Fram kemur að ekki á að gera skilamöt vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Hvað er verið að fela? Það nægir ekki að vísa einungis til úttekta innri endurskoðunar. Í þessum málum sem voru háalvarleg er mikilvægt að upplýsa um allt sem óskað er eftir að verði upplýst og þar með talið að gera skilamat. Sífellt er talað um að auka gegnsæi og skýrleika en þegar á reynir er því einmitt hafnað. Nú er liðinn talsverður tími síðan braggamálið kom upp og mikilvægt að leggja öll spil á borðið sem tengjast því vandræðamáli og hinum málunum einnig.

    Fylgigögn

  44. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgang borgarfulltrúa að gögnum borgarráðs, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2019. Einnig lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2020. R19090314
    Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    -    Kl. 12.50 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Skúli Helgason af fundinum og Pawel Bartoszek tekur sæti.

    Fylgigögn

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Yfirvinnubann er í gildi í leikskólum Reykjavíkur. Hver er ástæða þess að yfirvinnubannið var sett á? Hvenær tók það gildi og hversu lengi mun yfirvinnubannið standa? R20010311

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  46. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Það er vitað mál að lág laun geta leitt til mikils álags og fjárhagslegra áhyggna og slíkt hefur ekki jákvæð áhrif á heilsu og Reykjavíkurborg hefur lengi vel verið láglaunavinnustaður. Er hlutfall veikinda hærra hjá þeim sem eru á lægri launum innan Reykjavíkurborgar? Hvað með langtímaveikindi? Hvernig skiptast veikindi og langtímaveikindi eftir launabilum síðustu þriggja ára, eins og t.d. eftir: 0-400 þús í mánaðartekjur, 400-550 þúsund í mánaðartekjur og 550 þúsund í mánaðartekjur og uppúr? Hvernig skiptist slíkt eftir sviðum? R20010312

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Óskað er eftir að borgarráð fái öll gögn sem Reykjavíkurborg hefur látið kærunefnd útboðsmála í té vegna kæru um stýribúnað umferðarljósa og skal ekkert undanskilið. 2. Er Reykjavíkurborg búin að svara kæru sem er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála um rammasamning um stýribúnað umferðarljósa? 3. Er það virkilega svo að sama fyrirtæki hafi verið í viðskiptum við Reykjavíkurborg á þessu tiltekna sviði allt frá árinu 1979 eins og fram kemur í fundargögnum innkauparáðs? 4. Hvaða fyrirtæki hafa þjónustað Reykjavíkurborg í ljósastýringum frá árinu 1979? 5. Hvað hefur Reykjavík farið í mörg útboð á ljósastýringarbúnaði frá árinu 2000? R19100452

    Vísað til umsagnar innkaupaskrifstofu.

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Þann 18. apríl 2017 var skrifað undir samning um uppbyggingu á 176 íbúðum auk verslunar- og þjónustuhúsnæði á gamla Slippsvæðinu nú Vesturbugt. Reyndar er þetta verkefni orðið 18 ára gamalt. Áætlað var að Reykjavíkurborg myndi kaupa rúmlega 70 íbúðir og selja áfram til félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Framkvæmdir áttu að hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift og ljúka innan 5 ára. 1. Hvernig stendur þetta verkefni? 2. Hafa lóðarhafar/Vesturbugt ehf. greitt tilskilin gjöld s.s. gatnagerðargjald? 3. Greiddu lóðarhafar innviðagjald? 4. Hefur sérstök samráðsnefnd lóðarhafans og Reykjavíkurborgar sem falið var að vinna að þróun og nánari útfærslu tilboðsgagna, teikninga og framkvæmd samningsins á milli aðila í samræmi við útboðsskilmála samkeppnisviðræðnanna lokið störfum? 5. Lóðarhafi/Vesturbugt ehf. fékk frest til mánaðarmótanna janúar/febrúar 2019 til að hefja framkvæmdir og til að ljúka fjármögnun – hvernig stendur það mál? 6. Eru framkvæmdir hafnar, en samkvæmt samningnum áttu þær að hefjast 1.febrúar 2019? 7. Samkvæmt samningnum skuldbatt Reykjavíkurborg sig til að kaupa 74 íbúðir og selja áfram til félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Er það eðlilegt að borgin er sett sem millistykki í samningum sem þessum og taki á sig mikla áhættu með einkaaðila? 8. Hin almenna regla Reykjavíkur er að verði veruleg vanskil vegna lóðaúthlutana þá er samningi rift. Hvers vegna er ekki jafnræði milli aðila sem fá úthlutað lóðum hjá borginni? 9. Hvers vegna er ekki búið að rifta þessum samningi og úthluta lóðinni til annarra? R17040005

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  49. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Tæpir 4 milljarðar á 12 árum til einnar verkfræðistofu. Ástæða fyrirspurnarinnar er að Efla verkfræðistofa stingur mjög oft upp kollinum þegar verklegar framkvæmdir eru. Því er lögð fram framhaldsfyrirspurn og óskað er eftir upplýsingum sundurgreint eftir þeim árum sem eru í fyrirspurninnium þau útboð sem EFLA verkfræðistofa hefur tekið þátt í og fengið verkefni og upphæðir sem að baki liggja. Að sama skapi er óskað eftir hversu háar upphæðir pr. ár voru greiddar til EFLU án útboðs. R19110212

  50. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins var nýlega með tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg gefi grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf væri borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Einstaklingur með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr þegar það lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskinsmerki. Tillagan var felld. Flokkur fólksins leggur til í framhaldinu að skóla- og frístundarráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Öryggi barna í umferðinni er víða ábótavant í borginni og kemur m.a. til vegna þess að skipulagsyfirvöld vilja ekki lagfæra umferðaragnúa þar sem þeir eru verstir og skapa mögulega slysahættu. Sem dæmi mætti öryggi með bættari ljósastýringu og fjölgun göngubrúa þar sem þeim verður við komið. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engan vegin verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar umferðar ásamt fjölgun íbúa. Það þolir enga bið að hugað verði að velferð gangandi vegfarenda. Börnin eru í sérstakri hættu, þau sjást verr og skynjun þeirra á umhverfinu ekki fullmótuð. R19110131

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  51. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig skilum á upplýsingum um niðurstöður skoðunar heilsugæslu er háttað til skólanna í Reykjavík um börn sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi barna sem munu eiga í erfiðleikum með lestur- og lesskilning. Það er mikilvægt að skólar fái strax þessar upplýsingar, með leyfi foreldra að sjálfsögðu, til að hægt sé að veita börnunum snemmtæka þjónustu. Sé það ekki gert eiga þau á hættu að þróa með sér djúpstæðan vanda í lestri og lesskilningi með tilheyrandi vanlíðan. Eins og allir vita þá er ekki nóg að kunna tæknilega að lesa ef lesskilningur fylgir ekki með. Að þessu þarf sérstaklega að huga að ef í ljós kemur að barn á í vanda með lestur. Þau börn þarf að halda sérstaklega utan um. Spurt er einnig: 1. Fá kennarar tækifæri til að sinna þessum börnum sérstaklega? 2. Fá þessi börn forgang í sérkennslu? 3.Hvernig er árangur mældur? 4. Fá foreldrar verkfæri til þess að styðja við börnin sem metin hafa verið í áhættu af heilsugæslunni á að vera með lesvanda? R20010302

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  52. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins sér margar mótsagnir í málflutningi um opnunartíma leikskólanna. Grundvallarvandinn er mannekla og undirmönnum sem meirihlutinn hefur ekki viljað leysa málið. Til að leysa málið þarf að setja fjármagn í málaflokkinn svo hægt sé að ráða fólk. Talað er um álag og að það minnki mikið álag að stytta tímann en samt sagt að aðeins örfá börn séu fyrsta og síðasta hálftímann? Hér slær nokkuð úr og í og eru ekki allir leikskólakennarar á sama máli. Af hverju má ekki nota Afleysingastofu til að dekka þennan tíma? Verið var að samþykkja að víkka út Afleysingastofuna og er því vel hægt að fá afleysingu á dag basis eftir þörfum en ekki að afleysing sé aðeins notuð til að leysa af í veikindum. Sagt að þeir foreldrar sem þetta kemur illa við fái aðlögunartíma, en hvað gerist eftir að sá tími er liðinn? Sumir leikskólar eru með styttri opnunartíma, hvað gera foreldrar þar sem þurfa lengri tíma? Talað er um mótvægisaðgerðir, hvernig eiga þær að vera? Á að finna millivistun fyrir barnið, ætlar félagsþjónustan að reyna að semja við atvinnurekanda fyrir þessa foreldra sem lenda í vanda? R20010252

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  53. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Það er mat Flokks fólksins að stýrihópurinn hefur verið leiddur í gildru. Spurt er hvort þeim hafi ekki fundist vanta að heyra rödd foreldra, hafa þá með í ráðum? Gerði hópurinn ekki athugasemdir við það? Treystir meirihlutinn og skóla- og frístund ekki foreldrum til að mæta þörfum barna sinna t.d. ef barni líður illa síðasta klukkutímann? Margir foreldra biðja t.d. ömmur og afa að grípa inn í séu þau til staðar til að sækja barn sem er leitt og þreytt á leikskólanum síðasta klukkutímann? Ætlar meirihlutinn að leysa mannekluvandann og undirmönnun á leikskólum með því að ráðast að rót vandans en rót mannekluvanda eru lág laun í leikskólum? Þetta er allt spurning um launin og starfsmenn leikskóla eru á launum sem ekki er hægt að lifa af enda á leið í verkfall. R20010252

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Gera á jafnréttismat í tengslum við ákvörðun um styttingu opnunartíma leikskólanna. Það er afar mikilvægt í öllum málum þar sem það á við að gera jafnréttismat. Flokkur fólksins hefur áhuga á að fræðast meira um slíkt mat og spyr eftirfarandi: hver verður kostnaður við þetta jafnréttismat? Hefði það ekki átt að vera gert áður en þessi ákvörðun var tekin? Hvernig mun jafnréttismat fara fram? Eftir að jafnréttismati er lokið, hvað á að gera fyrir þá foreldra sem geta alls ekki sótt börn sín á leikskólann fyrr en kl. 17? R20010252

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  55. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í SORPU víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt. Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum SORPU. Í skýrslunni koma fram ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar SORPU hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði jafnframt úttekt á stjórnarháttum félagsins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn framkvæmdastjóra höfðu hvorki stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Í kjölfar áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn SORPU reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010309
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:14

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Pawel Bartoszek

Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir

Marta Guðjónsdóttir